Færslur desembermánaðar 2013

11. desember 2013

Klukkuprjón, seinni hluti

Í færslunni segir af mörgum heitum og margháttuðu eðli klukkuprjóns.

Klukkuprjón hefur víðast hvar verið nefnt patent - prjón, heitið giska ég á að sé komið úr hollensku eða þýsku.  Á Englandi þekktust heitin Shawl StitchReverse Lace StitchOriental Rib Stitch, að sögn Mary Thomas (Mary  Thomas’s Book of Knitting Patterns, 1972 s. 193, fyrst útg. 1943) en algengast segir hún þó heitin Brioche Stitch eða English Brioche. Hún bendir jafnframt á að þótt enskir vilja nota franskt orð yfir prjónaðferðina þá sé hún kölluð enskt prjón í Frakklandi, þ.e. Point d’Angleterre.

Hér á landi virðist klukkuprjón einnig hafa verið kallað enskt prjón, ef marka má þýðingu Sigurjóns Jónssonar á endurminningum Gythu Thorlacius eða auglýsingar á borð við Þ. Stefánsdóttur og Sigtr. Jónssonar í Stefni 3. jan. 1893 s. 4: “Frá nýári tökum við að okkur að prjóna: Karlmannspeisur með ensku prjóni […] - með ensku prjóni samsettar - […] Pilz með ensku prjóni” og er ljóst að þau hafa yfir prjónavél að ráða. Sömuleiðis kemur fram í Maren. Þjóðlífsþáttum eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur, sem segja frá Maren, móðursystur höfundar, að laust eftir 1915 prjónaði eiginmaður Marenar trefla með ensku prjóni í prjónavél þeirra hjóna. (Sjá Tíminn Sunnudagsblað, jan. 1972, s. 27. )

Til að flækja málin getur heitið enskt prjón  merkt annað á íslensku, sbr. uppskrift að útifötum á börn í Fálkanum 5. maí 1939 s. 10. Þar er talað um “enska brugðningu” eða “enskt prjón”. Skv. lýsingu í uppskriftinni er þarna um að ræða “Mistake rib“, sem komist hefur í tísku undanfarið ef marka má Netið, en ekki klukkuprjón.

Í My Knitting Book eftir Miss Lambert, sem kom út árið 1842 og varð gífurlega vinsæl (eins og aðrar hannyrðakennslubækur þeirrar ágætu konu) er klukkuprjón nefnt brioche og segir að heitið sé dregið af velþekktu frönsku bakkelsi, nokkurs konar bollu, sem heitir Brioche. Orðskýringu fröken Lambert er að finna í uppskrift að fótskemli, púða, sem er vissulega glettilega líkur svona franskri bollu, s. 22. (Krækt er í stafræna sjöundu útgáfu bókarinnar.) Svoleiðis klukkuprjónaðir fótskemlar virðast hafa notið mikilla vinsælda á Viktoríutímunum og voru stundum kallaðir tyrkneskir púðar (Turkish Cushion), sem gæti einmitt skýrt nafngiftina sem Mary Thomas minnist á, Oriental Rib Stitch. Í sömu bók Miss Lambert er uppskrift að rússnesku sjali með klukkuprjóni (A Russian Shawl, in Brioche Stitch) sem gæti þá skýrt af hverju heitið Shawl Stitch þekktist yfir klukkuprjón meðal enskra.

Raunar er sömu uppskrift að Brioche fótskemlinum hennar Miss Lambert  að finna í Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, útg. 1886 (Sjá uppdrætti 250 og 269). Í íslensku bókinni segir um púðann: “Fótskör þessi á að vera kringlótt í laginu, bungumynduð, með hvilft í miðjunni, hún er troðin út með ull, vel þuru heyi eða marhálmi. Innra borðið er úr striga að öðru sterku efni, en yfirborðið er prjónað eptir 250. uppdr. og skýrir fyrirsögn á 250. uppdrætti frá, hvernig prjóna skal.” En 250. uppdráttur var einmitt leiðbeiningarnar í klukkuprjóni sem vísað var til í fyrri færslu.

Hér að neðan sjást myndir af þessari Brioche-fótskör. Önnur myndin er úr bók Miss Lambert, The Hand-book of Needlework by Miss Lambert (F.), útg. 1842. s. 200, og krækir í stafræna útgáfu bókarinnar.  Hin myndin er úr Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir.

Klukkuprjónaður fótskemill Klukkuprjónaður fótskemill

Klukkurnar hafa runnið sitt skeið enda konur löngu farnar að ganga í brókum yst sem innst. Yngsta dæmi um íslenskar prjónaklukkur sem ég fann er frá 1944, þ.e. frétt um að stofnuð hafi verið samtök prjónakvenna á Ísafirði og kauptaxta félagskvenna. Í honum eru  ”Prjónaklukkur” taldar upp undir “Kvenfatnaður:” Skutull 29. jan. 1944, s. 14.  Hafi einhver áhuga á íslenskum prjónaklukkum má benda á fróðlega bloggfærslu Steinunnar Birnu Guðjónsdóttur frá því í ágúst sl., þar sem hún birtir hluta af verkefni sínu í þjóðfræðinámi í HÍ, þ.á.m. orðrétt svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins um prjónaklukkur.

En klukkuprjón í ýmsum útgáfum gengur nú í endurnýjun lífdaga, ef marka má áhuga á erlendum prjónasíðum. Einkanlega á þetta við um tvílitt klukkuprjón, langoftast kallað brioche, sem er sáraeinfalt að prjóna í hring , eilítið meira vesen er að prjóna það fram og til baka.

Í töflunni hér að neðan eru myndir af ýmsum afbrigðum klukkuprjóns og heitum þeirra á íslensku, ensku og skandinavísku. Litlu myndirnar krækja í myndbönd á Garnstudio.no sem sýna prjónið. Ath. að nú má stilla Garnstudio.no á íslensku og lesa textann við myndböndin á íslensku.

Aðferð Íslenskt heiti Skandinavískt heiti Enskt heiti
Klukkuprjón Helpatent Fisherman’s Rib;
English Rib;
Brioche stitch
Klukkuprjón � hring Klukkuprjón prjónað
í hring á hringprjóna
Patent rundt på
rundpinde
Fisherman’s Rib
in the round
Hálfklukkuprjón Hálfklukkuprjón;
Klukkuprjón - hálft
Halvpatent Shaker Rib;
Half Fisherman;
Half Fisherman’s Rib;
Embossed Rib
Hálfklukkuprjón bara sléttprjónað Hálfklukkuprjón
eingöngu sléttprjónað;Klukkuprjón einungis
með sléttum lykkjum
Patent kun med
retmasker
Fisherman’s Rib with
Knit stitches only
Falskt klukkuprjón Falskt klukkuprjón;
Klukkuprjón - afbrigði
Falsk patent False Fishermans Rib;
Fake Fisherman
Tv�litt klukkuprjón Tvílitt klukkuprjón;
Klukkuprjón - tveir litir
Patent i tvo farver English Rib in two colours;
Brioche

P.S. Loks má geta þess að klukkuprjón gat hentað til annarra mikilvægra nota en að prjóna klukkur, trefla, nærföt o.þ.h., sem sjá má hér.

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

9. desember 2013

Klukkuprjón, fyrri hluti

KlukkuprjónSvo sem rakið var í færslunni Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn  kenndi frú Gytha Thorlacius, dönsk sýslumannsfrú, Íslendingum klukkuprjón laust eftir 1800. Þær fátæklegu heimildir sem til eru um prjón á Íslandi fyrr á öldum (nokkrar flíkur og pjötlur sem fundist hafa í fornleifauppgreftri, auk ritheimilda) benda til þess að hérlendis hafi prjónakunnátta lengstum falist í einföldu sléttu prjóni í hring, einstaka sinnum brugðnu prjóni, svo klukkuprjónið hefur verið mikil tækninýjung á sínum tíma.

Í elstu íslensku hannyrðakennslubókinni, Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, eftir þær Þóru Pjetursdóttur, Jarðþrúði Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur, útg. 1886, eru nokkrar prjónauppskriftir. Þar á meðal er uppskrift að “Prjóni á fótskör” (250. uppdráttur, s. 16.) Fótskör er skemill, þ.e.a.s. pulla/púði undir fæturna. Í þessari uppskrift segir að prjóna skuli með klukkuprjóni og því lýst. (Það er raunar líka eftirtektarvert að í uppskriftinni er gert ráð fyrir styttum umferðum, svo sem nú eru mjög í prjónatísku.)

Næst ber klukkuprjón í íslenskri hannyrðakennslu óbeint á góma í Kvennafræðaranum eftir Elínu Eggertsdóttur Briem, útg. 1891. Þar er uppskrift að trefli sem prjónaður er með klukkuprjóni, án þess að heiti prjónsins sé nefnt. (Sjá s. 336, titillinn krækir í þá síðu.)

Í auglýsingum um og fyrir aldamótin 1900 má sjá minnst á klukkuprjón, t.d.:

  • Ragnhildur Ólafsdóttir í Engey vill leiðrétta sögusagnir um verðskrá síns prjónless í Þjóðólfi 2. mars 1888  og tiltekur m.a.: “[…] skyrtur handa fullorðnum, klukkuprjónaðar 1 kr.”
  • Sigmar Bro’s &Co í Manitoba: “Klukkuprjónaður karlmanna nærfatnaður - það, sem þér þarfnist mest í kuldanum - […]” Lögberg 18. nóv. 1909, s. 8.

En af  hverju heitir aðferðin þessu sérstaka nafni klukkuprjón á íslensku? Einfaldasta skýringin er sú að klukkur hafi gjarna verið prjónaðar með þessu prjóni.

Klukkur

Klukka var undirpils/millipils. Slík pils voru oft prjónuð og síðan þæfð vel eins og flest annað prjónles. Mér er ekki kunnugt um hvenær íslenskar konur hófu að ganga í klukkum - eða öllu kalla undirpilsin sín /millipilsin því nafni.

Elsta dæmið sem ég fann um orðið klukka í þessari merkingu er brot úr frægu kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Illur lækur (eða Heimasetan), sem er nokkuð örugglega ort árið 1844.  Kvæðið lagt í munn smástelpu sem segir móður sinni frá læknum sem lék hana grátt. Hún segi m.a.:

Klukkan mín, svo hvít og hrein,
hún er nú öll vot að neðan;

Þótt klukkur hafi verið undirpils kvenna þá virðist sem börn hafi einnig verið látin ganga í svoleiðis flíkum, jafnt stúlkubörn sem drengbörn. Má t.d. nefna gagnrýni Jóns Thorsteinssonar landlæknis á að smábörn séu höfð brókarlaus í klukkum: “[- - -] að þegar børn eru komin á annað og þriðja ár, og þau eru farin að vappa úti, láta sumir þau gánga í klukku, sem svo er kølluð, en hún er eins og pils að neðanverðu, svo børnin eru ber um lærin og neðantil um lífið innanundir, og gýs vindur og gola því uppundir þau, svo þeim verður opt kaldt á lærum og á maganum […].” (Sjá Hugvekju um Medferd á úngbørnum samantekin handa mædrum og barnfóstrum á Islandi af Jóni Thorstensen, útg. 1846, hér er krækt í hugvekjuna í Búnaðarriti Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélags, 1. tölublað 1846, bls. 87).

Þessi lýsing kemur heim og saman við kvæði Benedikts Gröndal (1826-1907), Æskuna, þar sem hann lýsir áhyggjuleysi bernskunnar:

Hljóp ég kátur
í klukku minni.

PrjónaklukkaHeitið klukka er komið úr dönsku og er saga klukkanna þarlendis rakin á þessa leið:

Ullarklukkan var undirpils, úr vaðmáli en á nítjándu öld var algengast að hún væri prjónuð. Heitið er dregið af því hve pilsið líkist klukku en vera má að enska heitið cloak, yfir slá eða frakka, hafi eitthvað spilað inn í nafngiftina.

Klukkum klæddust konur á veturna, milli nærserks og ytra pils, og stundum voru þær á klukkunum einum saman innanhúss. Stundum var saumaður nokkurs konar upphlutur við klukkuna svo hún líktist nærkjól. Ullarklukkur voru notaðar í Danmörku fram yfir aldamótin 1900 þótt drægi mjög úr vinsældum þeirra með breyttri tísku á síðasta hluta nítjándu aldar.  (Lita Rosing-Schow. Kradse klokker. Strikkede uldklokker fra Nordsjælland. Dragtjournalen 3. árg. 5. hefti 2009, s. 34-39.)

Myndin hér að ofan er tekin traustataki úr greininni og er af 70 cm síðri klukku, prjónaðri með klukkuprjóni. Af því það tíðkaðist að prjóna klukkuprjón fram og til baka er klukkan gerð úr þremur renningum sem svo eru saumaðir saman. Byrjað er á renningunum þar sem nú er pilsfaldurinn og tekið úr eftir því sem ofar dró, heldur er úrtakan tilviljanakennd segir í greininni en af umfjöllun má marka að reynt var að taka úr á jöðrum hvers rennings/stykkis til að minna bæri á úrtökunni. Efst á renningunum var svo prjónað 12 cm stroff og loks saumaður mittisstrengur eftir að búið var að sauma renningana saman í klukku. Þessi klukka er talin frá miðri nítjándu öld og er varðveitt á Byggðsafninu í Hillerød, Danmörku.

Kannski voru íslenskar prjónaðar klukkur fluttar út ekkert síður en sokkar, vettlingar og peysur? A.m.k. bendir þessi klausa úr sögu Hermans Bang, Ved vejen (útg. 1886) til þess (sagan gerist í ónefndum dönskum bæ og þar sem sögu er komið skellur á úrhelli og hver flýr sem fætur toga í skjól undan því):

Det var en Renden til alle Porte. Koner og Piger slog Skørterne over Hovedet og løb af med Lommetørklæderne i Firkant over det nye Hatte.
- Hej, hej, sagde Bai, nu kommer s’gu Klokkerne frem.
Pigerne stod rundt i Portene, blaastrømpede og med de islandske Uldklokker om Stolperne.

(s. 125,  krækt er í netútgáfu sögunnar).

Um svipað leyti og Herman Bang lýsti hinni erótísku sjón þegar stúlkurnar stóðu á íslensku ullarklukkunum og bláu sokkunum einum saman var Eiríkur Magnússon, herra kand. theol. í Lundúnum og fréttaritari tímaritsins Íslendings meðfram því, að reyna að fræða Íslendinga um ýmsar deilur og annað fréttnæmt utanlands;  í einni greininni stakk hann upp á orðinu klukku-þön fyrir krínólínu. (Íslendingur, 8. jan. 1863, s. 125.) Því miður hlaut sú uppástunga engan hljómgrunn þótt orðið sé óneitanlega miklu gagnsærra og skemmtilegra en útlenda slettan.

Hér er látið staðar numið í bili í umfjöllun um þá merkilegu prjónaaðferð klukkuprjón og þær skemmtilegu flíkur klukkur. Í framhaldsfærslu verður m.a. fjallað um mismunandi heiti prjónaðferðarinnar á öðrum tungum og hvernig klukkuprjón hefur verið hafið til vegs og virðingar á allra síðustu árum.

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga prjóns