14. apríl 2014

Status: Pollýanna, læknar, lygna konan o.fl.

Ég vanræki þetta blogg alveg hroðalega en bæði er það að ég hef aðallega skrifað um hannyrðir upp á síðkastið (fyrir Kvennablaðið) og birti þær færslur á afritsblogginu mínu, harpahreins.com/blogg og svo það að ég hef afskaplega takmarkaða orku.

Þegar maður hefur afskaplega takmarkaða orku, getur t.d. ekki gert/framkvæmt nema brot af því sem ég afkastaði áður en ég veiktist, verður dálítið að velja og hafna. Yfirleitt get ég gert eitt á dag og verð þá að velja hvað þetta eina ætti að vera: fara í labbitúr, spila á pjanófortið, prjóna, lesa eitthvað, skrifa eitthvað, mæta í FEBAN-félagsskapinn, þrífa húsið o.s.fr. Ef ég reyni að gera tvennt borga ég fyrir það með mjög slæmri líðan daginn eftir. Þetta gildir milli þunglyndiskasta. Í þunglyndiskasti get ég ekkert af þessu. Svo þannig séð er skárra að geta þó gert eitthvað eitt á dag heldur en að geta ekkert gert. Samt er ákaflega erfitt að sætta sig við að vera svona mikill aumingi þannig lagað og eina leiðin að hætta að bera saman líf mitt í dag við lífið sem var. Raunar held ég að ég sætti mig aldrei við það að fullu.

Og af því þetta er status hraðskrifaður, þ.e.  skrifaður beint af augum, óskipulagður og óundirbúinn, er fínt að minnast aðeins á Pollýönnu í þessu sambandi. Flestir lífstílshjálparhópar hampa Pollýönnu eins og hvurjum öðrum dýrlingi - ég veit ekki hvað oft ég hef heyrt eða séð frasann “ég ætla að taka Pollýönnu á’etta” eða álíka. Ég held að fólkið sem hampar Pollýönnu hafi alls ekki lesið helv. bókina/bækurnar (þær heita Pollýanna og Pollýanna giftist)!  Ég las bækurnar (ég las reyndar Lestrarfélagið - Lestrarfélag Keldhverfunga? -  eins og það lagði sig, eitt herbergi af bókum sem ég hafði lykil að þegar ég var krakki). Man sæmilega eftir upphafinu í Pollýönnu, þegar hún var krakki einhvers staðar í trúboðsstöð (sennilega í Afríku) og bað heitt til guðs um að í næsta gjafapakka (sem bárust væntanlega frá hjálparsamtökum einhverjum) yrði dúkka. Í næsta pakka voru hækjur. Venjulegur krakki hefði farið að hágrenja. En ekki Pollýanna: Hún ákvað að gleðjast yfir að þurfa ekki að nota hækjurnar og þakkaði guði.

Pollýanna var örugglega með einhverja geðræna veilu miðað við þessa sögu! Hörmuleg fyrirmynd að mínu mati því í restinni af bókunum tveimur er hún önnum kafin við að gleðjast yfir öllum fjandanum sem venjulegt fólk hefði nú bara bölvað yfir. Ég las bækurnar bara einu sinni af því mér blöskraði þessi persóna. Hins vegar las ég Bombí Bitt nokkrum sinnum, Percival Keen og (til að móðga ekki femínista sem gætu slæðst á þessa færslu) þær Beverly Gray og Nancy Drew komplett. Þetta lið var ekki síglöð guðsbörn eins og Pollýanna og söguþráðurinn mun skemmtilegri og uppeldisgildið talsvert meira (sé ég fullorðin). Í Jakobi ærlega kviknaði meira að segja í mömmu hans af vískídrykkju (? var til eitthvað sem hét grogg-drykkja? Man ekki alveg hvað kellíngin drakk en hún brann sumsé til kaldra kola - VIÐBÓT 14/4: Facebook-vinir o.fl. eru sannfærðir um að kerlíngin hafi legið í rommi og er það eflaust rétt hjá þeim). Þetta þótti mér alltaf dálítið merkilegt, mun merkilegra en vera happí-happí yfir að þurfa ekki að nota hækjur þegar mann langaði í dúkku.

Svo nei, ég hef ekki hugsað mér að vera nein helvítis Pollýanna. En af því ég get ekki breytt ástandinu á sjálfri mér þótt það sé grábölvað reyni ég bara að hugsa sem minnst um það. Og gera bara eitt á hverjum degi. Og reyna að slá á helv. samviskusemina sem ég ber eins og klafa, eins og allar konur á mínum aldri, kannski allar konur. Og segja sjálfri mér að kona þurfi ekki að þola allt, umbera allt og yfirhöfuð að slá á klisjunar sem hafðar voru/eru að leiðarljósi í okkar uppeldi.

Fyrir utan að ala sjálfa mig upp í meiri sjálfselsku og minni afköstum hef ég lokið umfangsmiklum læknarúnti sem staðið hefur hátt í tvö ár, þar sem hver vísaði á annan og hver hafði sína skoðun og skýringu og tillögu að læknisráðum en engin skýring reyndist trúleg eða vísindaleg við nánari skoðun og ekkert læknisráðanna virkaði og á endanum sá ég að í rauninni hafði enginn þessi þessara lækna hugmynd um hvað að mér gengi en einungis fyrsti heimilislæknirinn sem ég leitaði til var nógu heiðarlegur til að segja það beint út. Er þetta þó ekki sjaldgæfur kvilli. Svo ég las mér sjálf til. Og er nú að gera síðustu tilraunina með síðasta lyfið sem mögulega gæti virkað á helv. kjálkaverkinn sem plagar mig nótt og dag. Læknar kalla hann ýmsum nöfnum (fer eftir sérgrein hvers og eins) en mér líst best á ódæmigerður andlitsverkur (Atypical facial pain). Á gullöldinni var þetta auðvitað greint sem móðursýki (hystería).

Ég þurfti að fara aftur á lyf, sem mér þótti ömurlegt, t.d. svefnlyf og Rivotril (bensólyf). Mér er hjartanlega sama hvaða skoðanir bloggandi heimilislæknar hafa á notkun svefnlyfja: Ég horfði einfaldlega fram á þá staðreynd að ég yrði að hætta að vinna og verða aftur 100% öryrki ef ég gæti bara sofið 3-4 tíma á nóttunni fyrir sársauka (og krampa - ég veit ekki hvað oft ég hef bitið í tunguna á mér þegar skoltarnir skellast ósjálfrátt saman í krampa). Og eftir að hafa prófað gabapentín, sem reyndist hreint eitur fyrir mig, ákvað ég að hverfa aftur í Rivotril af því ég held sjálf (og þá tilgátu styðja tveir sérfræðilæknar - auðvitað hvorugur geðlæknir) að helv. kjálkaverkirnir séu af skemmd í miðtaugakerfi eftir langvarandi ávísun þessa lyfs (árum saman). Raunar fann ég líka rannsóknir sem styðja að Rivotril virki á svona verki - og fannst af hyggjuvitinu að ef heilinn væri í fokki eftir Rivotril myndi heilinn/miðtaugakerfið kannski aðeins róast við að fá skammt af þessu eitri, sem gekk eftir. Eftir að hafa borið mig saman við annan sjúkling með sama kvilla ákvað ég að gefa Tegretol (gömlu flogaveikilyfi) séns og er að prófa það núna. Það hefur leiðinlegar aukaverkanir sem eru þó hjóm eitt hjá gabapentíni. Vonandi virkar það svo ég geti farið að trappa niður (aftur) Rivotril og svefnlyfjalúsina sem ég tek, þau lyf hafa nefnilega líka slæmar aukaverkanir en gera þó sitt gagn í að slá á verkina og gefa mér kost á að sofa svo ég get stundað mína 25% vinnu, sem er mér ómetanlegt. Og vel að merkja hef ég stjórnað þessari lyfjagjöf sjálf og hyggst í framtíðinni gera slíkt enda hef ég skelfilega reynslu af því að “vera undir læknishendi” þegar kemur að lyfjagjöf og öðrum læknisaðgerðum við þunglyndi.

Inn á milli dunda ég mér við ýmislegt, hef t.d. áhuga á að lesa meira um samband læknis og sjúklings. Áhuginn kviknaði þegar ég las bókina um dr. Charcot og “hysteríudívurnar” hans og núna er ég mest að lesa um það sem David Healy kallar “Stokkhólmsheilkennið” í akkúrat þessu sambandi. Þetta er mjög áhugavert en læknar virðast skíthræddir við að skrifa um þetta nema Healy.

Annað sem ég hef áhuga á akkúrat núna er að rekja sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon (og Eiríks Magnússonar eiginmanns hennar - bókavarðar í Cambridge - í leiðinni). Sigríður var ansi kræf í viðskiptum og ég er mest að skoða hvernig ýmis lygi og hálfsannleikur sem hún hélt fram þróaðist í tímans rás. Þau hjón voru raunar bæði sérfræðingar í að lifa hátt á betli og bónbjörgum, þ.e.a.s. fé sem þau áttu ekki, og minna að mörgu leyti á útrásarvíkingana okkar blessaða. Þetta kostar talsvert grúsk, þ.e.a.s. að finna upplýsingar um Sigríði, en það má finna ótrúlegustu hluti á Vefnum ef maður kann að leita, t.d. komu amrísk og ensk dagblöð frá nítjándu öld sér prýðilega. Svo lendir maður í mjög tímafreku grúski eins og að reyna að finna út hvenær nákvæmlega lágt sett hirðmær Viktoríu drottningar kom til Íslands, þarf að fletta upp í ferðabókum enskum (sem eru sem betur fer aðgengilegar á Vefnum líka), lesa íslenskar heimildir og hafa í huga að flest sem um þessa konu hefur verið sagt er annað hvort haft eftir henni sjálfri eða systurdóttur hennar, reka sig á villur í ritrýndum greinum og fræðilegar skrifuðum bókum íslenskum, leita árangurslaust í gegnum manntöl o.s.fr. Ef vel ætti að vera þyrfti ég að plægja gegnum kirkjubækur og bréfasöfn á Þjóðskjalasafni en því nenni ég ekki enda er þetta hobbí og ég ekki “löggiltur sagnfræðingur” eins og bróðir minn hefur bent mér á. En það hlægir mig að nú sé verið að poppa upp hana Sigríði Einarsdóttur Magnússon sem frumkvöðul kvenréttindabaráttu íslenskra kvenna ;)   Hún hefði hins vegar gert það gott á Wall Street, það er ekki spurning. Því miður var hún uppi á röngum tíma til að geta notið sín til fulls.

Og allt byrjaði þetta út af einni málsgrein um að Viktoría drottning hefði ævinlega gengið í íslenskum fingravettlingum sem móðir Sigríðar þessarar átti að hafa gefið henni … svona getur prjónasaga leitt mann í ýmsar áttir.

En, sem sagt: Eitt í einu, við öryrkjarnir vinnum hægt og takmarkað. Meðan ég er að dúlla mér við hana Sigríði og sitthvað fleira verður dónalega lagið ekki æft á pjanófortið og bóklestur situr á hakanum og ermar bíða hálfprjónaðar o.s.fr. Svona er þetta bara. Og ég er ekkert sérstaklega glöð yfir að vera ekki með krabbamein eða handleggsbrotin á báðum eins og Pollýanna mundi líta á málin.

4 ummæli við “Status: Pollýanna, læknar, lygna konan o.fl.”

 1. Guðrún Ægisdóttir ritar:

  Harpa, þú bjargar alltaf deginum! Ég ætla að taka mér það til fyrirmyndar að gera alltaf bara eitthvað eitt á degi hvejum, æða ekki úr einu í annað, með svert og svíðandi samviskubitið bítandi í skottið, eins og hefur verið undanfarna mánuði. Ég er laus við þunglyndið, en hef hvorki eirð í að lesa né prjóna, og það finnst mér skítt.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þá gerirðu eitthvað annað. “Ef þú getur ekki klappað reyndu þá að stappa” o.s.fr. (Ryksugulagið virkar miklu betur en Pollýanna - ef menn vilja endilega hafa barnabókmenntir sem lífsstílsleiðarvísi.)

  Aðalmálið er að venja sig af þeirri uppeldisfirru að maður þurfi alltaf að vera að afkasta einhverju - ljúka einhverju sem hægt er að benda á (húsverkum, prjónlesi, lesnum bókum o.s.fr.) og að maður eigi alltaf að standa sig og bera sig vel og taka tillit til allra hinna og vera ævarandi kurteis við fólk í heilbrigðiskerfinu sem lætur út úr sér tóma þvælu. Sem sagt æfa sig svolítið í siðblindu og sjálfselsku, a.m.k. ef maður “sé” kona komin á ákv. aldur ;)

 3. gua ritar:

  Ég heyrði sögu í gær um konu sem leyfði siðblindingi (konu) að reyta af sér eigurnar af því hún var orðin svo leið á að hlusta á alla þessa neikvæðni og rógburð í samfélaginu og einmitt um þessa sömu konu (Pollyanna í verki þar) :) . Annars gat ég æst mig yfir viðtali við Vilhjálm nokkurn læknir og ungan sálfræðing (konu) sem ofbauð svo svefnlyfja-geðlyfjanotkun landans að hálfa væri nóg og eina ráðið væri HAM meðferð sem er góðra gjalda verð (hef farið sjálf) en dugar ekki á svefnleysi mitt þunglyndi kvíða og þráhyggju. Lyf eru nauðsynleg fyrir mig basta. kærar kveðjur gua

 4. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Sumt sem Vilhjálmur skrifar og segir er gott, sumt er dálítið litað af heittrú. Það er ágætt fyrir hann að hafa sína heitu trú á sýklalyfjanotkun, svefnlyfjanotkun o.þ.h. en ástæðulaust fyrir sjúklinga sem þurfa á þessum lyfjum að halda að taka mark á honum. Meðan þessar tölur um lyfjanotkun eru byggðar á lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis tek ég ekki mark á þeim, nóg hefur komið fram um villurnar í þeim gagnagrunni (og viðbrögð Embættisins við gagnrýni á hann) til þess.

  Og HAM er frábært en læknar bara sumt, hjálpar til við sumt, virkar ekki baun á sumt. Væri ágætt ef sumir heilbrigðisstarfsmenn (læknar og sálfræðingar) hættu að markaðssetja sig sem kraftaverkamenn og gerðust eilítið raunsærri.