18. apríl 2014

Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans

Hér segir af ofurlitlu grúski undanfarið í því skyni að kanna meintan áhuga Viktoríu Bretadrottningar á íslenskum fingravettlingum, sem allt bendir til að sé haganlega tilbúin lygasaga sem hver etur upp eftir öðrum enn þann dag í dag.

Skýringar á áritaðri mynd af Viktoríu drottningu í eigu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon

Á dögunum var ég að lesa Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917, eftir Sigrúnu Pálsdóttur (útg. 2010); að mörgu leyti ágætisbók sem ég hef lesið áður, þótt aðalpersónan sé frekar leiðinleg dekurrófa. En það er ekki efni þessa pistils.

Í miðri Þóru biskups segir af heimsókn hennar til hjónanna Eiríks Magnússonar og Sigríðar Einarsdóttur sem bjuggu í Cambridge. Er húsakynnum þeirra lýst og þ.á.m. segir:

Á miðhæð gestaherbergi og stássstofa eða viðhafnarherbergi þar sem yfir arinhillunni hangir mynd sú af Viktoríu sem drottningin sendi áritaða til Guðrúnar í Brekkubæ sem þakklætisvott fyrir vettlinga sem hún hafði eitt sinn prjónað handa henni og gefið.1

Viktoria EnglandsdrottningÞetta vakti athygli mína því fræg dæmi eru um að breskum hannyrðum hafi verið komið rækilega á framfæri með velvild Viktoríu drottningar og hennar fjölskyldu svo mig langaði að vita meir um þessa íslensku vettlinga sem drottningin var svo þakklát fyrir. Þóra biskups er vönduð heimildaskáldsaga og að sjálfsögðu er vísað í heimild fyrir þessu, sem er Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge eftir Stefán Einarsson.

Í Sögu Eiríks Magnússonar er löng tilvitnun í lýsingu Guðmundar Magnússonar skálds (þ.e. Jóns Trausta) sem heimsótti þau Sigríði og Eirík árið 1904. Jón Trausti sagði m.a. um húsakynni þeirra: „Á arinhillunni þar stendur ljósmynd af Viktoríu drotningu með eiginhandar-áritun hennar, send frú Sigríði.“2 Neðanmáls í sinni bók gerir Stefán Einarsson þessa athugasemd: „Myndin var ekki send Sigríði, heldur Guðrúnu móður hennar, er prjónað hafði drotningunni vetlinga.“3

Enn önnur útgáfa er til um skýringuna á árituðu myndinni af Viktoríu drottningu sem ku hafa staðið á arinhillunni á heimili þeirra Sigríðar og Eiríks í Cambridge, einnig höfð eftir gesti þeirra hjóna. Guðmundur Árnason skrifaði grein um Eirík Magnússon sem birtist árið 1920. Guðmundur segist segist hafa dvalið í Cambridge í tvær vikur árið 1910 og verið daglegur gestur hjá þeim hjónum. Undir lok greinarinnar hrósar hann Sigríði mjög, segir m.a. að hún hafi verið „óþreytandi að útbreiða þekkingu á Íslandi og íslenzkum handiðnaði á Englandi og víðar“ og að hún hafi tekið „drjúgan þátt í kvennfrelsismálinu og ýmsum öðrum framfararmálum“, bætir svo við:

Ýmsir urðu til þess að veita tilraunum hennar eftirtekt og sýna henni viðurkenningu, þar á meðal Victoría drotning, sem sendi henni ljósmynd af sér með eiginhandar kveðju.4

Í VI. Viðauka í Sögu Eiríks Magnússonar segir Stefán Einarsson deili á ættum hans, eiginkonu o.fl. sem honum þótti ekki eiga erindi í meginmál. Þar segir um móður Sigríðar, Guðrúnu Ólafsdóttur í Brekkubæ [kotið stóð þar sem nú stendur Mjóstræti 3] og vettlingana og Viktoríu:

Til merkis um það, hve vel hún vann, má geta þess, að einu sinni kom með Sigríði hirðmær Viktoríu drotningar til Reykjavíkur og fékk fingravettlinga hjá Guðrúnu. En Viktoríu drotningu leist svo vel á vetlingana, að hún pantaði aðra, og er hún fékk þá, sendi hún Guðrúnu mynd af sér með eiginhandar áritun. Þessa mynd geymdi Sigríður eins og menjagrip, en þó hefur týnst. Til eru á Þjóðmenjasafni vetlingar eftir Guðrúnu sem hún fékk verðlaun fyrir.5

Verðlaunvettlingar Guðrúnar ÓlafsdótturGuðrún þessi Ólafsdóttir í Brekkubæ var fædd árið 1805 en ég finn engar heimildir um dánarár hennar. Sigríður dóttir hennar fluttist með sínum manni, Eiríki Magnússyni, til Englands árið 1862 og var dálítill þvælingur á þeim næstu árin en frá 1871 var heimili þeirra í Cambridge. Bæði heimsóttu þau Ísland mjög oft.

Í Þóru biskups segir að Sigríður hafi haustið 1883 tekið þátt í „Iðnssýningunni í Reykjavík“ ásamt Þóru o.fl. og að „Sigríður og Þóra vinna báðar til verðlauna í fyrsta flokki sem gaf pening úr silfri“. 6  Hér er rangt farið með. Í fyrsta lagi hét þessi sýning Iðnaðarsýningin í Reykjavík. Hún stóð dagana 2.-19. ágúst 1883. Vissulega sendu þær Þóra og Sigríður báðar inn málverk á sýninguna7 en einungis Þóra hlaut silfurpening í verðlaun. Sigríður fékk engin verðlaun8. Aftur á móti er það satt sem áður var nefnt að móðir Sigríðar, Guðrún Ólafsdóttir Ormarstöðum, fékk silfurpening fyrir fingravettlinga. (Soffía Einarsdóttir á Ási í Fellum, systir Sigríðar, fékk bronspening fyrir svuntu og Þorvarður Kjerúlf, kvæntur systurdóttur Sigríðar, fékk silfurpening fyrir hnakk sem hann sendi inn en óvíst er hver smíðaði - svo ættin lá svo sem ekki óbætt hjá garði í verðlaunaveitingu þótt Sigríður fengi sjálf engin verðlaun)9. Raunar þótti verðlaunadreifingin fyrir muni á þessari sýningu dálítið einkennileg sem kann að stafa af því að dómnefndin virtist óspör á að hygla sínum vinum og kunningjum umfram aðra.10

Myndin til vinstri er af verðlaunavettlingum Guðrúnar Ólafsdóttur og krækir í upplýsingasíðu um þá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Soff�a og Sigr�ður Einarsdætur og Guðrún Ólafsdóttir

Á myndinni hér að ofan sjást systurnar Soffía Einarsdóttir og Sigríður Einarsdóttir Magnússon og Guðrún Ólafsdóttir móðir þeirra. Fremst á myndinni eru dætur Soffíu, þær Sigríður María Gunnarsson (f. 1885) og Bergljót Sigurðardóttir (f. 1879). Af henni má marka að Guðrún hafi náð háum aldri. Þetta er stækkuð úrklippa úr mynd sem skoða má í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns, og krækir úrklippan í myndasíðuna þar.

Eftir Iðnaðarsýninguna auglýsir Sigríður eftir íslenskum hannyrðum í fyrsta sinn. Er ekki ósennilegt að augu hennar hafi opnast fyrir að hægt væri, með réttri markaðssetningu, að gera þær eftirsóknarverðar í Bretlandi og hafa eitthvað upp úr sér við það. Auglýsing sem hún birti í dagblöðum er dagsett 28. ágúst og hefst þannig:

Í því skyni, að gjöra mitt til þess, að efla íslenzkar hannyrðir einkanlega, og ef til vill fleiri iðnir, og sjer í lagi að gjöra íslenzkan verknað útgengilegan á Englandi, svo að vinnendum yrði sem mestur hagur að, þá hefi eg áformað og gjört talsverðan undirbúning til þess, að sýning geti orðið haldin á slíkum munum í Lundúnaborg að ári komanda, mánuðina maí, júní og júlí. Jeg hefi þegar fengið nokkurar enskar heldri konur, þar á meðal Mrs. Morris, til að ganga í nefnd með mjer til þess að koma upp sjóði, svo fyrirtækinu megi þannig framgengt verða og munirnir fluttir til Englands, sýnendunum að kostnaðarlausu.11

Seinna í auglýsingunni telur hún upp hvers lags hannyrðir sig vanti og eru þar á meðal sokkar, belgvettlingar og fingravettlingar.

Staðhæfingar Sigríðar um Viktoríu drottningu og íslenska fingravettlinga á sýningum hennar á íslenskri handavinnu erlendis

Sigríður Einarsdóttir Magnússon stóð við stóru orðin og kom hannyrðum íslenskra kvenna að á alþjóðlegri heilbrigðissýningu (International Health Exhibition) í London 1884.
Obbinn af tölublaði Þjóðólfs þann 29. nóv. 1884 fjallaði um sýningu Sigríðar og deilur sem af verðlaunaveitingu þar spruttu, undir yfirskriftinni „Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London“. Þessi langa grein er örugglega eftir Eirík Magnússon, eiginmann Sigríðar. Greinin hefst á þýðingu á lofræðu enska hannyrðablaðsins The Queen (sem neðanmáls er sagt „kvennablað og gengr meðal auðfólks og aðals og hefir mikla útbreiðslu“). Í þýðingunni á lofinu segir m.a.: „Okkur voru sýndir þar fingravetlingar af sömu gjörð og þeir voru, sem Drotningu vorri hafa verið sendir að gjöf.“12

Alexandra prinsessa af Wales

Árið 1886 komst Sigríður að með sama dót á Alþjóðlega iðnsýningu í Edinborg en sérstakir verndarar hennar voru Prinsinn og Prinsessan af Wales. Í frétt í The Times segir af því þegar þessir háttsettu verndarar skoðuðu sýninguna og þar á meðal:

The attendant at the Icelandic stand presented the Princess of Wales with a pair of gloves, and her Royal Highness gave an order for a piece of cloth sufficient to make a dress.13

Myndin til hægri er af Alexöndru, prinsessu af Wales, tekin 1881.

Víkur nú sögunni áratug fram í tímann, þegar Sigríði tókst að koma íslenskum hannyrðum (að hluta þeim sömu og hún hafði sýnt árið 1884 og oftar) og íslenskri silfursmíði á Heimssýninguna miklu í Chicago 1893. Í millitíðinni hafði hún komið sér í alls kyns útlendan kvenfélaga-/kvenna-félagsskap, stofnað kvennaskóla í Reykjavík sem aðeins starfaði eitt ár, kynnt Ísland og bág kjör kvenna hér og þar og íslenskt handverk. Í ræðu sem hún flutti á alþjóðlegu kvennaþingi sem haldið var í tengslum við Heimssýninguna sagði hún m.a.:

I think you will agree with me that the work must be good when I tell you that Her Majesty, Queen Victoria, has been wearing the Icelandic gloves for years, the only “woolen” gloves she wears, I am told; also that the work got the highest possible award at the International Health Exhibition in London, 1884, namely, “The Diploma of Honor,” … 14

Þessu sama hélt Sigríður víðar fram í tengslum við heimssýninguna í Chicago, t.d. í viðtali í New York Times: „In discussing the qualities of some woolen gloves shown in the exhibit of her nation “the only glove of the kind which Queen Victoria wears” this representative from Iceland …“15  Og auðvitað rataði sagan í íslensk dagblöð einnig, sjá t.d. þýðingu á frétt úr Chicago Sun í Fjallkonunni haustið 1893: „Í þessari íslenzku sýningu eru hannyrðir kvenna og meyja og þar á meðal fingravetlingar úr ull, samskonar og Victoria drotning og prinsessan af Wales brúkar [svo] sem unna mjög hinum íslenzku hannyrðum.“16

Aftur á móti voru Íslendingar sem sáu muni þá sem Sigríður sýndi í Chicago vægast sagt ekki uppveðraðir og spruttu upp harðar blaðadeilur milli þeirra og Sigríðar í kjölfarið. Þeim verða ekki gerð skil í þessum pistli heldur fingravettlingasagan skoðuð áfram.

Hver var hirðmærin sem kveikti ást Viktoríu drottningar á íslenskum fingravettlingum?

Emily Sarah CathcartBöndin berast að lafði Emily Sarah Cathcart, sem var vissulega hirðmær Viktoríu drottningar.17  (Andlitsmyndin af henni krækir í stærri mynd.) Emily Cathcart kom í fyrsta sinn til Íslands síðsumars árið 1878, í fylgd með Elizabeth Jane Oswald, skoskri konu sem skrifaði seinna bók byggða á þremur Íslandsferðum sínum.18 Það sumar var Sigríður á ferðalagi um Norðurlönd ásamt Eiríki eiginmanni sínum og kom ekki til Íslands.19

Þær Sigríður og lafði Emily voru hins vegar samskipa til Íslands í júlí 1879 og aftur til Englands í septemberbyrjun.20  Sigríður hefur svo eflaust kynnst Emily Cathcart betur gegnum Þóru Pjetursdóttur biskups sumarið 1880 í London21 og sat svo enn seinna með Cathcart í nefnd til að safna fé vegna hörmunga á Íslandi árið 1882.22  En næst kom Sigríður til Íslands árið 1883. Þá var Guðrún Ólafsdóttir, móðir Sigríðar, skráð til heimilis að Ormarstöðum í N-Múlasýslu svo sem fram hefur komið.

Svo eini sénsinn til að sagan ljúfa um Sigríði sem fer með hirðmey Viktoríu drottningar í heimsókn til mömmu sinnar gangi upp er að Sigríður hafi tekið lafði Emily Cathcart með sér að hitta mömmu sumarið 1879 og Guðrún hafi það sumarið sent fingravettlingapar með henni Emily til Viktoríu. Þar með komst Viktoría drottning á bragðið með íslenska fingravettlinga og varð nánast háð þeim ef marka má orð Sigríðar. Á hinn bóginn geta menn spurt sig hversu líklegt það sé að kona eins og Sigríður Einarsdóttir Magnússon hafi dregið með sér hirðmey á fund aldraðrar móður sinnar, hvort Brekkubær (sem var torfbær) hafi þá enn verið uppistandandi og þær hist þar o.s.fr.

Má bæta því við að þetta ekki eina hirðmærin sem Sigríður Einarsdóttir Magnússon og afkomendur í fjölskyldu hennar hafa tengt ættina við því í nýlegri ævisögu Haraldar Níelssonar segir um Soffíu Einarsdóttur, systur Sigríðar:

Soffía hafði dvalið langdvölum í Englandi á vegum systur sinnar og forframast þar í siðum fína fólksins, meðal annars verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.23

 

Niðurstaðan

Engar heimildir aðrar en þessi skemmtilega kúnstbróderaða saga Sigríðar Einarsdóttur Magnússon eru fyrir því að Viktoría drottning eða tengdadóttir hennar, Alexandra prinsessa af Wales, hafi nokkru sinni klæðst íslenskum fingravettlingum. Svo sem rakið er hér að ofan virðist þessi saga vera uppspuni til þess, annars vegar, að varpa ljóma á Sigríði sjálfa og ættingja hennar, hins vegar sem liður í markaðssetningu Sigríðar á íslensku handverki. Sú markaðssetning mistókst.

Það er svo margt í sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon sem er áhugavert og gefur þessari fingravettlingasögu lítið eftir að ég hyggst skrifa fleiri pistla um hana, t.d. um silfursöfnun, -sölu og -sýningar hennar, fyrirlestra á erlendri grundu, kvennaskólann sem hún reyndi að koma á fót í Reykjavík, ferðalög hennar o.fl. Kannski er þó mest spennandi að skoða hvernig Sigríður skapaði glæsilega ímynd af sér úr litlu og hvernig farið er að dusta rykið af þeirri glansmynd nú um stundir, jafnvel bæta enn í gljáann.

 

Heimildir sem vísað er til

1 Sigrún Pálsdóttir. (2010). Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík, s. 108.

2 Guðmundur Magnússon. (1908) Eiríkur Magnússon heim að sækja. Óðinn 3(11), s. 91.

3 Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, s. 317. Stefán skrifaði bókina á árunum 1924-25 og var hans fyrsta verk í heimildasöfnun að fara á fund erfingja þeirra hjóna, Sigríðar Gunnarsson, systurdóttur Sigríðar, og föður hennar. Leiðrétting Stefáns á hverjum Viktoría drottning sendi hina árituðu mynd af sér hlýtur að vera byggð á munnlegum heimildum frá þeim. Sigríður dvaldi hjá Eiríki og Sigríði frá 1906 til þess sem þau áttu ólifað; Eiríkur lést 1913 en Sigríður 1915. Við þetta mætti bæta að það er einkennilegt að einungis áratug eftir lát Sigríðar hafi þessi merkilega áritaða mynd Viktoríu verið glötuð og mikill skaði að - hafi myndin sú verið ekta og sagan sönn.

4 Guðmundur Árnason. (1920). Eiríkur Magnússon. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1). Winnipeg, Maniboba, s. 28-35. Bein tilvitnun er á s. 35 í þessari grein og krækir greinarheitið í þá síðu.

5 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

6 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 125.

7 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 37.

8 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96 eða Fróða 12.09.1883, s. 286-288 og Fróða 09.10.1883, s. 310-312.

9 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96. Guðrún Ólafsdóttir finnst ekki í manntölum eftir 1870. Hún var fædd 1805 og var því hátt á áttræðisaldri þegar hún fékk þessi verðlaun fyrir fingravettlingana. Líklega hefur Brekkubær í Reykjavík þá verið að hruni kominn, jafnvel hruninn (húsið finnst ekki í manntali 1880). Á Ormarstöðum í Fellum, N-Múlasýslu, bjuggu árið 1883 þau Þórvarður Kjerúlf héraðslæknir og kona hans Karólína Kristjana Einarsdóttir, sem lést í desember árið 1883. Karólína var dótturdóttir Guðrúnar svo það er ekki ólíklegt að gamla konan hafi fengið að dvelja hjá henni í ellinni. Skv. manntali 1880 dvaldi á fjölmennu heimili þeirra Þórvarðar og Karólínu Kristjönu María Einarsdóttir, móðir Karólínu og dóttir Guðrúnar, sem þá var orðin ekkja. Í sömu sókn bjó önnur dóttir Guðrúnar á þessum tíma, Soffía Emelía Einarsdóttir, en sú var gift Sigurði Gunnarssyni, prestinum í Ási í Fellum. Þau bjuggu í Ási og á Valþjófsstöðum frá 1879-1894.

10 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 38.

Í Ísafold 22. ágúst 1883, s. 77, segir að dómnefndin hafi verið skipuð „2 frúm úr Reykjavík og 5 alþingismönnum. Það var landshöfðingjafrú Elinborg Thorberg [systir Þóru], amtmannsfrú Kristjana Havstein; Jón Sigurðsson forseti [vinur Eiríks Magnússonar, eiginmanns Sigríðar] , síra Benidikt Kristjánsson, Einar Ásmundsson, Sighvatur Árnason og Tryggvi Gunnarsson [bróðir Kristjönu].“

11 Þjóðólfur 29.09.1883, s. 113.

12 Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London. Þjóðólfur 29. nóv. 1884, s. 181-183. Eftir langa umfjöllun um hannyrðirnar víkur að deilum Sigríðar og dómnefndar þessarar sýningar. Íslenska prjónlesið og hitt dótið fékk nefnilega bara bronsverðlaun og því undi Sigríður ekki! Í bréfaskiptum milli hennar og dómnefndar reyndi nefndin m.a. að verjast með því benda á að „vinnan frá Íslandi hefði dómnefndin eigi getað séð að heyrði undir „Heilsu“ enn það væri þó aðal-atriðið.“ Sigríður féllst nú aldeilis ekki á þau rök og eftir að hafa dengt fleiri bréfum yfir dómnefndina fór hún með sigur af hólmi því aftan við löngu umfjöllunina er bætt við: „skeytt við hraðfrétt dags. 12 nóv. frá hr. E.M.: Íslands hannyrðir hafa fengið beztu verðlaun (heiðrs-diplóma“ (s. 183).

13 The Prince and Princess of Wales in Edinburgh. The Times 15. okt. 1886, s. 6.

14 Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.”. (1894). The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

15 For Icelandic Girls. A School soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

16 Íslenzkir munir á Chigago sýningunni. Fjallkonan 5. sept. 1893, s. 142.

17 Upplýsingar um lafði Emily Sarah Cathcart má m.a. sjá í Strand Magazine nr. 56, ágúst 1895, s. 196-7 og í löngum lista sem afritaður er á umræðuborði, Re: Ladies in waiting to Queen Victoria, má sjá hvaða hlutverki hún gegndi á mismunandi tímum (hversu hátt sett hún var í hirðmeyjafansi drottningar).

18. Oswald, E.J. (1882). By Fell and Fjord; Or, Scenes and Studies in Iceland. W. Blackwood and sons, Edinburgh og London. Emily Sarah Cathcart er getið á s. 108, sem ferðafélaga Oswald um Ísland 1878, en í hinum tveimur Íslandsferðum höfundar, árin 1875 og 1879 var skosk kona, Miss Menzies ferðafélagi hennar.

19 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

20 Sjá Ísafold 4. sept. 1879, s. 88 og Þjóðólf 18. sept. 1879, s. 98.

21 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 110

22 Distress in Iceland. The Times 17. ágúst 1882, s. 5.

23 Pétur Pétursson. (2011). Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haraldar Níelssonar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, s. 104.

Pétur gefur ekki upp neina heimild fyrir þessu svo ætla má að byggt sé á einhverjum sögusögnum sem gengið hafa meðal afkomenda Soffíu (sem var tengdamóðir Haraldar Níelssonar).

Soffía fór til Lundúna til systur sinnar og mágs sama ár og þau komu úr tveggja ára þvælingi um Frakkland og Þýskaland og settust að í London vorið 1866. Hún „dvaldist með þeim eftir það öll árin til 1871“, skrapp með þeim til Íslands það sumarið og var á Íslandi veturinn eftir, fór til þeirra til Cambridge sumarið 1872 en snéri alfarin heim til Íslands vorið 1873, segir Stefán Einarsson. (1933), s. 279. Heimildir Stefáns eru væntanlega eiginmaður Soffíu og dóttir. Það er dálítið einkennilegt að þau hafi ekki upplýst hann um hin tignu tengsl, þ.e.a.s. að Soffía hafi verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.

5 ummæli við “Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans”

 1. Harpa ritar:

  Þessir frábæru sögupistlar verða einhverntíma bók, er það ekki?

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Það er spurning, nafna, eiginlega gasalega opin spurning ;)

 3. Þ Lyftustjóri ritar:

  Mér finnst að, nú sem endranær, megi ekki láta góðar sögur gjalda sannleikans. Hvað hefði t.d. orðið úr Njálu ef allir hefðu haft það sem sannara reyndist?

 4. Hún Sigríður … og hann Eiríkur … | Blogg Hörpu Hreinsdóttur ritar:

  […] Nú er ég orðin dálítið leið á Sigríði Einarsdóttur Magnússon og hennar familíu, eftir mikinn lestur um það slekti. Og af því ég veit að Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur er að skrifa um þessa konu, áreiðanlega af sagnfræðilegri nákvæmni, ákvað ég að hætta að leika sagnfræðing með tilvísunum í lok hverrar málsgreinar. Þessi færsla er framhald af Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans. […]

 5. Sigríður Magnússon, braskið, betlið og meinta kvenréttindabaráttan | Blogg Hörpu Hreinsdóttur ritar:

  […] Áður hefur verið sagt frá þátttöku Sigríðar í Iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 og hvernig hún hóf í kjölfarið á henni að sýna íslenskar hannyrðir og krítaði liðugt um vinsældir þeirra meðal bresku konungsfjölskyldunnar. Þessum hannyrðasýningum hélt hún áfram og bætti íslenskum silfurmunum við. Forsendan fyrir að eitthvað þætti í íslensku silfurmunina varið var auðvitað að þeir væru gamlir, verðmætar fornminjar, því víravirki og önnur íslensk silfursmíð skar sig ekkert úr því sem víða tíðkaðist. […]