Færslur frá 27. apríl 2014

27. apríl 2014

Sigríður Magnússon, braskið, betlið og meinta kvenréttindabaráttan

Ég er alveg að gefast upp á að reyna að skrifa um Sigríði blessunina. Eftir nokkrar atrennur sé ég að textinn er yfirleitt of langur, alltof mikið af heimildatilvísunum og útkoman þannig að sæmdi sér prýðilega í meistararitgerð en síður á bloggi. Svo hér er lokaatrennan þar sem farið er hratt yfir sögu og tilvísunum sleppt - í staðinn lista ég upp helstu heimildir í lok textans.

 

Hvernig æxlar maður sér fé af ríkum Englendingum?

Sigríður hafði ágæta fyrirmynd þar sem eiginmaður hennar var. Svo sem getið var í síðustu færslu hafði Eiríkur talað auðugan Breta (Wales-búa) inn á að borga stofnkostnað við háskóla á Íslandi, hafði raunar loforð fyrir gífurlegu fé til þess. Í fínna kvenna fansi sem Sigríður kom sér í eftir að Eiríkur fékk bókavarðarstöðuna í Cambridge var ekki alveg jafn feitan gölt að flá. Þó eignaðist hún vinkonu sem gaf henni 200 pund, sem var dágóður peningur (til samanburðar má geta þess að far til Íslands frá Bretlandi kostaði fram og til baka á bilinu 5-8 pund og að ferðabókum frá 1878 og 1889 ber saman um að heildarkostnaður við ferðalag um Ísland, uppihald, hestaleigu, fargjald o.s.fr. væri um 20 pund). Sigríður fékk loforð fyrir þessu fé í upphafi árs 1883 en þegar féð var afhent 1884 hét það að gjöfin væri minningargjöf um systurdóttur hennar sem lést í árslok 1883.

VinaminniFyrir þessi 200 pund lét Sigríður reisa stórhýsi í Reykjavík, á lóðinni þar sem Brekkubær hafði staðið, og kallaði Vinaminni. Húsið stendur enn og er nr. 3 við Mjóstræti, það var byggt 1885. Eftir það hafði hún öruggan samastað í Reykjavík á sínum sumarferðum og gat hætt að setjast upp hjá systrum eða móður Stephensen landshöfðingja, svo sem hún hafði eitthvað gert af enda varla hægt að ætlast til að svo fín frú, sem Sigríður varð af einbeitni, byggi í torfkofa hjá mömmu sinni þá hún vísiteraði Reykjavík á sumrin.

Myndin af Vinaminni nýbyggðu er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Litla myndin krækir í síðu með nánari upplýsingar um ljósmyndina og húsið, þar er og hægt að sjá stærri útgáfu af henni.

Eftir að hafa verið ritari í nefnd sem stóð fyrir mikilli fjársöfnun fyrir bágstadda Íslendinga haustið 1882 (raunar bar Íslendingum sjálfum ekki sama um hversu eða hvort þeir væru bágstaddir og söfnunarféð nýttist auk þess illa vegna skipulagsleysis, sem Eiríkur Magnússon bar líklega ábyrgð á) hlýtur Sigríði að hafa verið vel ljóst að fá mætti enskt hefðarfólk til að reiða fram ansi mikið fé ef málstaður væri góður; Nefndin var nefnilega skipuð afar háttsettu fólki og söfnunin gekk svakalega vel þar til aðrir Íslendingar en þau hjónin fóru að láta í sér heyra.

Svo Sigríði datt í hug góður málstaður: Bágar aðstæður íslenskra kvenna til menntunar.

 

Að koma málstaðnum á framfæri, ota sínum tota og afla fjár

Áður hefur verið sagt frá þátttöku Sigríðar í Iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 og hvernig hún hóf í kjölfarið á henni að sýna íslenskar hannyrðir og krítaði liðugt um vinsældir þeirra meðal bresku konungsfjölskyldunnar. Þessum hannyrðasýningum hélt hún áfram og bætti íslenskum silfurmunum við. Forsendan fyrir að eitthvað þætti í íslensku silfurmunina varið var auðvitað að þeir væru gamlir, verðmætar fornminjar, því víravirki og önnur íslensk silfursmíð skar sig ekkert úr því sem víða tíðkaðist.

Hún sýndi þessar vörur víða (líklega hvar sem hún gat) en frægastar eru sýningar hennar á Alþjóðlegu heilsusýningunni í London 1884, Iðnsýningunni í Edinborg 1886, Ensk-dönsku sýningunni í London 1888 og Heimssýningunni í Chicago 1893. Þetta voru meira og minna sömu hannyrðirnar sem hún sýndi árum saman og í viðbrögðum við gagnrýni landa sinna bar hún yfirleitt fyrir sig hversu velættaðar konur hefðu ofið eða prjónað þessa muni eða, til vara, systur og móðir hennar sjálfrar.

Jafnframt þessum sýningum stundaði Sigríður verslun og viðskipti í nokkrum stíl, líklega frá 1883. Hún reyndi að opna verslun með íslenska muni bæði í Cambridge og Manchester, fékk íslenskar konur til að vinna fyrir sig, t.d. baldýra (en greiðsla frá Sigríði fyrir svoleiðis fékkst bara með eftirgangsmunum), flutti ódýrt enskt dót til Íslands og seldi með góðri álagningu o.s.fr. Brambolti Sigríðar virðist þó lítill gaumur hafa verið gefinn fyrr en á Heimssýningunni í Chicago 1893 og verður fjallað um harðvítugar deilur um það hér á eftir.

Auk sýningahalds og viðskipta gerði Sigríður nokkuð að því að halda fyrirlestra um Ísland og bág kjör Íslendinga og alveg sérstaklega bág kjör íslenskra kvenna.

 

Kvennaskólinn í Vinaminni

Sigríður fékk þá stórkostlegu hugmynd að opna kvennaskóla í stórhýsi sínu í Reykjavík, Vinaminni. Hugmyndin rímaði líka ágætlega við sýningar og safnanir og fyrirlestra hennar en síður við þá staðreynd að nokkrum húsum fjær var starfandi Kvennaskólinn í Reykjavík (og nokkrir slíkir til utan Reykjavíkur). Kvennaskóli Sigríðar tók til starfa haustið 1891 en starfaði einungis einn vetur. Skólastúlkur voru 15, þar af 5 í heimavist í Vinaminni.

Í samanburði við það nám sem boðið var upp á í Kvennaskólanum í Reykjavík á sama tíma er ómögulegt að sjá neina sérstöðu í kvennaskóla Sigríðar. Í báðum skólunum var kennd sama handavinnan (kúnstbróderí, baldýring, fatasaumur o.þ.h.) og sömu bóklegu greinarnar (íslenska, reikningur, landafræði, enska, danska o.fl.). Ef eitthvað var þá var framboð á bóklegum greinum talsvert meira í Kvennaskólanum í Reykjavík en þeim í Vinaminni. Og verðið sem námsmeyjar greiddu var nákvæmlega hið sama: 1 kr. á dag fyrir þær sem voru í heimavist, minna fyrir Reykjavíkurstúlkur sem sóttu tíma í skólanum.

Það er erfitt að sjá nokkra rökræna ástæðu fyrir þessari kvennaskólastofnun Sigríðar E. Magnússon nema að hún þjónaði ágætlega þeim málstað sem hún hafði valið sér til að réttlæta sýningarþörf og aðra athygli sem hún vildi gjarna njóta. Auk þess var þessi kvennaskóli gullvæg ástæða til samskota ríkra Englendinga, sem Sigríður nýtti sér óspart. (Fyrir því eru nægar heimildir þótt hún hafi á gamals aldri haldið því fram að hún hafi aldrei þegið neitt fé í samskotum heldur hafi unnið fyrir öllu saman með fyrirlestrarhaldi.)

 

Heimssýningin í Chicago 1893 og deilurnar um framlag og framferði Sigríðar þar

Sigr�ður, g�tar, Fr�ðaSigríður fékk inni með hannyrðasýningu sína og sýningu á íslenskum silfurmunum á þessari sýningu auk þess að fá að flytja fyrirlestur á fjölsóttu þingi kvennasamtaka sem haldið var í tilefni sýningarinnar.  Að eigin sögn sat hún ævinlega hjá munum sínum, íklædd íslenskum búningi og sýndi hvernig skyldi spinna á rokk. Á myndinni hér til hliðar er hún uppáklædd með gítar (eins og á flestum myndum af henni) en rokkinn vantar  - í hans stað er hundurinn Fríða, mikið uppáhald þeirra Eiríks og Sigríðar enda myndin tekin löngu áður en hún fór til Chicago.  Myndin er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns.

Íslendingar sem sáu sýninguna Sigríðar í Chicago voru vægast sagt ekki upprifnir. Bæði hannyrðir og silfur þóttu drasl og auk þess í meira lagi vafasamt að merkja silfurkeðjur þannig að önnur átti að hafa verið í eigu Jóns Arasonar og hin í eigu Snorra Sturlusonar. Körlunum (einkum þeim sr. Hafsteini Pjeturssyni og Matthíasi Jochumssyni) var svarað með því að þeir hefðu nákvæmlega ekkert vit á hannyrðum og upplýsingarnar um uppruna silfurkeðjanna hefðu fylgt frá upphaflegum eigendum sem væru einstaklega ráðvant fólk. En sú sem hún opnaði breiðsíðuna á var Mrs. J.T. Sharpe [Hólmfríður Stephensson, búsett í Chicago], íslensk kona sem gagnrýndi sýningu og staðhæfingar Sigríðar opinberlega. Í löngu svari Sigríðar var allt tínt til: Forsjárdeila sem tengdist ætt frú Sharpe, ættrakningar og mistök í ættrakningum, yfirlýsingar um að sumt af slekti Mrs. J.T. Sharpe væri nú ekki fínna en svo að það hefði grátbeðið Sigríði að reyna að koma sínu silfri í verð, að rangt hefði verið eftir Sigríði haft í dagblöðum vestra um ýmislegt, að Mrs. Sharpe hefði ekkert vit á íslenskum búningum o.s.fr.

Fyrir utan fyrirlesturinn hjá kvennasamtökunum hafði Sigríður nefnilega verið mjög dugleg að koma sér í viðtöl þarna vestra. Málflutningur hennar var yfirleitt á sömu leið: Fyrst stutt rakning á landnámi og tignum uppruna Íslendinga, síðan um bág kjör í þessu landi elds og ísa, síðan um sérstaklega bág kjör kvenna, sem neyddust til að nema allt sem þær lærðu svo til einungis af móður sinni því engir skólar væru til fyrir þær, síðan um hetjulega baráttu Sigríðar sjálfrar til úrbóta á kjörum kvenna, bæði í að koma hannyrðum þeirra í verð og svo að koma á fót og reka kvennaskóla í þessu guðsvolaða landi. Silfursafn sitt hefði hún eignast með því að taka við allt að 700 ára gömlum ættargripum bláfátæks fólks sem neyddist til að biðja Sigríði að selja það á Englandi til að eiga fyrir salti í grautinn (öllu heldur brauði, að sögn Sigríðar) og af litlum efnum hafði hún sjálf reynt að kaupa og borga fyrir sem mest af því í þeim tilgangi að skila ættargripunum aftur eða gefa þá á Fornmenjasafn Íslendinga. Jafnframt kom fram í þessum viðtölum að nú neyddist Sigríður til að selja sitt silfursafn (ég veit að þessar staðhæfingar hennar standast illilega á en það gerir líka margt annað í málflutningi hennar) til að geta rekið sinn kvennaskóla í landi þar sem stúlkum gæfist enginn annar kostur á menntun.

Eitthvað var um að fólki hér uppi á Íslandi blöskraði þessar staðhæfingar og hefði á því orð í blaðagreinum. Amrísku blöðin voru hins vegar full aðdáunar á þessari duglegu konu, hennar fórnarlund og brautryðjandastarfi.

Sigríður reyndi svo að selja sitt silfursafn ýmsum söfnum vestra en tókst ekki enda verðlagði hún það ákaflega hátt. (Hún hafði áður reynt að selja sama safn í Noregi og Svíþjóð án árangurs). Á gamals aldri hélt Sigríður því fram að einhver dularfullur útsendari landa hennar sem vildu eyðileggja fyrir henni, af tómri illgirni að því er virðist, hafi komið í veg fyrir að hún gæti selt Metropolitan Museum í New York safnið sitt. Í Ameríku dvaldi Sigríður svo í sjö ár og virðist hafa verið á framfæri Eiríks eiginmanns síns allan þann tíma - sjálf hélt hún því fram að hún hefði unnið fyrir sér með fyrirlestrarhaldi.

Sigr�ður gömul

Þessi mynd er áreiðanlega tekin í Ameríkudvöl Sigríðar, sjálfsagt í tilefni fyrirlestrar. Hana má sjá stærri í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns - myndin krækir í upplýsingasíðuna þar. Sé gert ráð fyrir stafavillu í upplýsingum um myndina þá hefur Sigríður haldið þennan fyrirlestur í skóla í Pensylvaníu sem sérstaklega einbeitti sér að kennslu amerískra frumbyggja (indjána), með sérdeild fyrir stúlkur. Sem sjá má á myndinni er Sigríður klædd í íslenska búninginn, með gítarinn við hönd, rokkurinn illgreinanlegur á myndinni en allt er þetta huggulega skreytt með bandaríska fánanum.

Eftir lát Sigríðar fékk Þjóðminjasafnið að velja úr silfursafninu til kaups og keypti nokkuð af gripum úr kvenbúningum. Fylgir sögu að suma hafi hún keypt af gullsmiðum sem hefðu fengið þá sem brotasilfur í smíðaefni og hlutirnir séu því margir ekki mjög gamlir. Hvað varð af hannyrðasafninu veit ég ekki nema að fingravettlingar Guðrúnar, móður Sigríðar, eru á Þjóðminjasafninu.

 

Það skýtur dálítið skökku við að nú skuli e.t.v. í bígerð að dubba upp hana Sigríði Magnússon, konu sem virðist hafa prjónað duglega við sannleikann, sveigt hann og teygt á ýmsa vegu eftir því hvernig hann þjónaði best að koma henni sjálfri á framfæri, sem einhverja baráttukonu fyrir kvenréttindum á Íslandi og sérstakan brautryðjanda í kynningu á land og þjóð í útlöndum!

 

 

Heimildir

Bækur:

Aðalsteinn Eiríksson. 1994. Saga skólans. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 89-206. 

Guðrún Borgfjörð. 1947. Minningar. Hlaðbúð, Reykjavík.

Guðrún P. Helgadóttir. 1994. Þóra Melsteð. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 7- 88.

Matthías Jochumsson. 1893. Chicagó-för mín 1893. Prentsmiðja Björns Jónssonar. Akureyri.

Mrs. Alec-Tweedie. A Girl’s Ride in Iceland. 1894 (önnur útgáfa, fyrst gefin út 1889). Horace Cox, Windsor House, Bream’s Buildings, E.C. LONDON.

N. L. van Gruisen.1879.  A Holiday in Iceland. Elliot Stock. London.

Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.” 1894. The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

Sigrún Pálsdóttir. 2010. Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík

Stefán Einarsson. 1933. Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Reykjavík.

Þór Magnússon. 1994. Kvensilfur frá Sigríði Magnússon. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Reykjavík, s. 160.

 

Greinar og fréttir:

Alvi. Slíkt eru kvinnubrögd. Føringatíðindi 1. feb. 1892, s. 2.

Auður Styrkársdóttir. 2012. “Mér fannst ég finna sjálfa mig undireins og ég var laus við landann”. Kvennabaráttan á Íslandi og alþjóðlegt samstarf. Saga. Tímarit Sögufélags L:1, s. 35-77.

Eiríkur Magnússon. [Bréf til ritstjóra]. Heimskringla 9. júní 1894, s. 2

Frá löndum. Heimskringla 24. nóv. 1894, s. 4.

Hafsteinn Pjetursson. Chicago-brjef. III. Lögberg 25. október 1893, s. 1-2.

Jón Þórarinsson. „Frú Sigríður Magnússon, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni.“ [Og meðfylgjandi svar ritstjóra.] Ísafold 2. júní 1894, s. 127-128.

Kvennaskólinn í Vinaminni. Reykvíkingur. 21. janúar 1892, s. 51.

Kvennmenntunarvinur. Kvennaskólinn í Vinaminni. Ísafold 14. nóv. 1896, s. 314.

Páll Melsteð. Frú Sigríður Magnussen, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni. Ísafold 9. maí 1894, s. 97-98.

Sigríðr E. Magnússon. Kvennaskóli í Vina-Minni. Fjallkonan 1. sept. 1891, s. 140.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Ísafold 22. jan. 1910, s. 15.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Frh. Ísafold 2. feb. 1910, s. 24.

Sigríður E. Magnússon. Kvennaskólinn í Vina-Minni. Reykvíkingur. 14. sept. 1891, s. 36.

Sigríður Einarsdóttir [Magnússon]. Svar til sjera Hafsteins Pjeturssonar. Lögberg 20. des. 1893, s. 1.

Úr brjefi frá Chicago 12. ágúst. Ísafold 16. okt. 1893, s. 276.

Þ.P. [Þóra Pjetursdóttir]. Um frú Sigríði Magnússon og sýning íslenzkra hannyrða. Þjóðólfur 9. mars 1894, s. 46-47.

 

Greinar og fréttir í erlendum dagblöðum:

A True Philanthropist. The Davenport Daily Republican 11. nóv. 1890, s. 2.

Educational Echoes. The Reading Times 11. ágúst 1893, s. 2.

For Icelandic Girls. A School Soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

Her Aim for Iceland. Mrs. Magnussen is the object of some sharp criticism. Chicago Daily Tribune 6. des. 1893, s. 6.

Iceland Woman’s Enterprise. Pushed the Sale of Native Woolens to Support a School for Young Girls. The Brooklyn Daily Eagle 26. ágúst 1902, s. 8.

Icelandic Education. Mrs. Magnusson Tells of Her Efforts to Supply a Girls’ High School at Reykjavik. - Something of Icelandic Customs and Costumes. The Brooklyn Daily Eagle 15. nóv. 1896, s. 22.

Schools In Iceland. Mrs. Magnusson’s Reply to the Attack of Mrs. Sharp. The Inter Ocean 17. des. 1893, s. 29.

Women Tailors in Iceland. Wife of an English Professor Establishes a Novel School. Arkansas City Daily Traveler 14. des. 1896.

Wool of Iceland. It Is Finest and Strongest Possible and Is Carded and Spun by Women. The Brooklyn Daily Eagle 18. jan. 1902, s. 10.

 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns