7. júní 2014

Kettir

Forsíðumyndin er af grískum kettlingum. Allir sem ferðast hafa um grísku eyjarnar kannast við kattafjöld alls staðar: Á veitingastöðum þiggja þeir bita sem falla af diskum gestanna, í bókabúðum og bókasöfnum búa gjarna einn til tveir kettir og á götum og húsasundum er fjöldi gullfallegra grískra katta.

Í þessum pistli verður stiklað á stóru um ýmislegt sem snertir ketti í fortíð og nútíð.

Kettir og guðir

Einna frægust eru tengsl katta við goðmögn í Egyptalandi hinu forna. Hér fyrir neðan er mynd af kattagyðjunni Bastet  sem dýrkuð var allt frá þriðju öld fyrir Krists burð. Hún gegndi ýmsum hlutverkum eftir því tímar liðu og sumir telja eitt þeirra hafa verið frjósemi. Bastet var geysivinsæl gyðja. Kettir voru sérstaklega helgaðir henni og smurðir eftir dauðann.  Við hlið styttunnar af Bastet er ein fjölmargra kattamúmía sem hafa fundist.

Hvoru tveggja gripirnir eru á British Museum
Hvorir tveggju gripirnir eru á British Museum

 

Í norrænni goðatrú eru kettir tengdir frjósemisgyðjunni Freyju því tveir slíkir draga vagninn hennar. Freyja er á sífelldum faraldsfæti  því hún leitar stanslaust eiginmanns síns, Óðs, sem skilaði sér ekki heim úr ferðalagi. Og séu menn ekki vel versaðir í goðafræði er þetta skýringin á því að vörumerki sælgætisverksmiðjunnar Freyju er köttur.

Freyja og kettirnir. Úr útg. Norðmannsins P.A. Munch á norrænum goðsögum 1880.
Freyja og kettirnir. Úr útg. Norðmannsins P.A. Munch á norrænum goðsögum 1880.

 

Hægt er að sjá betri mynd af þessum skrautborða á Flickr.com. https://www.flickr.com/photos/28493949@N02/4384217199/
Hægt er að sjá betri mynd af þessum skrautborða á Flickr.com.

Kettir tengjast ekki beinlínis kristinni trú. En óbeinar tengingar má finna, s.s. hluta af skrautborða í hinum frægu Lindisfarne guðspjöllum, sem sést hér til hægri. Handritið er rómað fyrir fegurð og er talið vera frá því um 700. Skrautborðinn með kettinum er í upphafi Lúkasarguðspjalls.

Um öld eftir að munkar á Eynni helgu (Lindisfarne) bjuggu til sitt glæsilega handrit hripaði einsetumunkur á Írlandi hjá sér kvæði um köttinn sinn. Kötturinn hans hét Pangúr Ban, sem gæti þýtt hvítur þófari eða bara hvíti Pangúr. Jón Helgason prófessor þýddi kvæðið um Pangúr Ban og hefst það þannig:

Gömul skipti mín ég man
mörg við fressið Pangúr Ban,
meðan krás í klær hann tók
klausur henti ég af bók.

Allt kvæðið í þýðingu Jóns má lesa í Nýja stúdentablaðinu 26(1) 1962, s. 23.

Kettir í skáldskap

Til er fjöldi þjóðvísna, barnagæla og kvæða um ketti og engin leið að gera slíku skil í svo stuttum pistli. En úr því minnst var á Jón Helgason hér að ofan nefni ég eitt af mínum uppáhaldskvæðum sem hann orti, líklega til síns eigin kattar, sem heitir Á afmæli kattarins. Kvæðið má lesa í heild í Dýraverndaranum 37(8) 1951, s. 60.  Þar er m.a. þessi vísa, sem ég veit að margir eru sammála:

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.

Kettir eru dularfull dýr og láta ekki allt uppi. Þetta vissi skáldið T.S. Eliot og orti kvæði um nöfn katta (sem birtist í Old Possum’s Book of Practical Cats, útg. 1939) . Hver köttur á þrjú nöfn: Eitt hvunndagslegt, sem fólkið hans notar, eitt tignarheiti, sem er einstakt fyrir hvern kött, og loks eitt nafn sem einungis kötturinn sjálfur veit hvert er! Sjáirðu kött í þungum þönkum er hann að hugsa um það nafnið sitt, eða eins og Gísli Ásgeirsson segir í þýðingu sinni á ljóði Eliot:

Þegar þú sérð köttinn sitja í þönkum þungum
þá er hugur hans að dvelja við
sitt heimullega nafn, er hann að hugsa um
hið dularfulla,
ónefnanlega,
óaðfinnanlega, einstaka nafn.

(Alla þýðingu Gísla og frumtexta T.S. Eliot má sjá í færslunni Í tilefni dagsins 30.9.2013 á malbeinid.wordpress.com )

Myndskreyting Nicholas Bentley við ljóðið The Naming of Cats  bók Eliot.
Myndskreyting Nicholas Bentley við ljóðið The Naming of Cats í bók Eliot.

 

Frægir íslenskir kettir

Hér er líklega rétt að telja auðugasta kött Íslands, köttinn í Hraunsnefi í Norðurárdal. Sá köttur var uppi á seinni hluta nítjándu aldar og þótti svo góður til áheita að á endanum þurfti að fá fjárhaldsmann sem gætti fjárins og ávaxtaði dyggilega það sem kettinum barst.

Peningar og skuldabréf kattarins voru geymd í ágætum kistli (sem ég hef fyrir satt að sé enn til) en einnig voru keyptar jarðir fyrir féð, peningar lánaðir og ær leigðar.

Ekki voru allir ánægðir með vaxandi ríkidæmi kattarins, t.d. áminnti prófasturinn í Stafholti sinn söfnuð fyrir að eyða fé í vesælan kött en vanrækja kirkjur og kristindóm. Ráðsettir bændur nöldruðu á hinn bóginn yfir að Hraunsnefsfólkið væri að skjóta eigum sínum undan skatti í kattarsjóðinn því ekki þótti við hæfi að leggja útsvar eða skatt á köttinn. En þar sem fjárhaldsmenn kattarins voru fyrst hreppstjórinn í sveitinni og svo oddvitinn var ekkert gert í málunum og kötturinn hélt áfram að græða.

Þegar eigandi kattarins, Oddný Þorgilsdóttir, lést árið 1887 fylgdi kötturinn henni til grafar ásamt hennar heimafólki en skilaði sér ekki aftur heim heldur lagðist út. Enginn veit hvað af honum varð.

Ítarlegri söguna af ríkasta ketti á Íslandi má lesa í Nýja tímanum 17(3) 1957, s. 3.

Skáldið Jósefna Meulengracht Dietrich von Steuffenberg.
Skáldið Jósefína Meulengracht Dietrich von Steuffenberg.

 

Hér að ofan var tæpt á nokkrum dæmum um menn sem ortu um ketti. Hitt vita færri að uppi á Skaga býr einkar hagmælt læða sem gefur út ljóðabók á hverju ári (hér er krækt í fjórðu útgáfu hennar). Er við hæfi að ljúka þessum pistli með tveimur vísum eftir Jósefínu Dietrich sem sóma sér vel í kvennablaði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Þó að fress í fúlu skapi fussi og svei-i
rófu mína loðna og langa
legg ég undir gulan vanga.

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 7. júní 2014.

 

 

Lokað er fyrir ummæli.