21. júní 2014

Fimm þúsund konan

Eina konan sem nýtur þess heiðurs að skreyta íslenskan peningaseðil er Ragnheiður Jónsdóttir, annáluð hannyrðakona á sautjándu öld. Þessi pistill fjallar um hana.

Ragnheiður fæddist árið 1646 og var dóttir hjónanna Jóns Arasonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Faðir hennar var prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var sonur Ara í Ögri, sýslumanns sem frægastur er fyrir fjöldamorð á spænskum skipreika sjómönnum hér á landi.  Móður Ragnheiðar, Hólmfríðar, er hins vegar einkum minnst fyrir sagnir af því hve tilhaldssöm hún var; hún lét meira að segja flytja inn gylltan lit til að setja í hár sitt!

Ragnheiður var í hópi níu systkina sem upp komust, af tólf fæddum börnum þeirra Jóns og Hólmfríðar. Mörg systkinanna voru annáluð fyrir offitu, t.d. Oddur digri, sem hestar gátu einungis borið 2-3 bæjarleiðir í senn, eða Anna digra, sem þurfti tröppu eða stiga til að komast í söðulinn því enginn treystist til að lyfta henni. Líklega hefur Ragnheiður verið léttari á fæti en þessi systkini hennar.

Fáum sögum fer af Ragnheiði Jónsdóttur fyrr en hún var komin fast að þrítugu. Þá giftist hún Gísla Þorlákssyni, biskupi á Hólum. Gísli hafði átt tvær eiginkonur áður sem létust hvor af annarri, var hann þó aðeins liðlega fertugur þegar þau Ragnheiður voru pússuð saman. Þau Gísli og Ragnheiður voru gift í áratug en þá lést hann. Þau voru barnlaus. Ragnheiður flutti svo að Gröf á Höfðaströnd, í Skagafirði, og bjó þar rausnarbúi í sínu ekkjustandi.

Skömmu eftir að Gsli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp  Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gsli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012  á sðu Þjóðminjasafns Íslands.
Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á síðu Þjóðminjasafns Íslands.

 

Hannyrðir og hannyrðakennsla Ragnheiðar

Talið er að Ragnheiður hafi kennt ungum stúlkum hannyrðir, bæði meðan hún bjó á Hólum og á Gröf. Svo virðist sem hún hafi ávallt haft nokkrar stúlkur í læri. Meðal nemenda hennar var Þorbjörg Magnúsdóttir, bróðurdóttir hennar, en glæsileg útsaumuð rúmábreiða Þorbjargar er varðveitt á Victoria and Albert Museum í Lundúnum.

Þau útsaumsverk sem haldið hafa nafni Ragnheiðar Jónsdóttur á lofti eru altarisklæði og altarisdúkur með brún sem gefin voru Laufáskirkju í Eyjafirði 1694. Neðst á altarisklæðinu er eftirfarandi áletrun: ÞETTA ALTARIS KLÆDE GIEFVR RAGNHEIDVR IONSDOTTER / KIRKIVNNE AD LAVFASE FIRER LEGSTAD SINNAR SÆLV HI / ARTANS MODVR HOLMFRIDAR SIGVURDAR DOTTVR 1694.

Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvtu hörlérefti og saumað  það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá  Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins.
Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Aðalmunstrið í altarisklæðinu er saumað með skakkagliti, algengri gamalli útsaumsgerð hérlendis og erlendis. (Hér má sjá úskýringu á skakkagliti og glitsaumi, en vilji menn leita uppplýsinga á Vefnum er enska heitið yfir þetta spor Pattern Darning.) Áttablaðarósir eru og velþekkt munstur víða, sama gildir um brugðninga og fugla á greinum.

Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari  Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá  Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins
Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Það þykir merkilegt að munstrin á mjóu munsturbekkjunum á altarisdúknum og munstrið á altarisbrúninni (brún dúksins sem fellur að altarisklæðinu) eru ekki þekkt í íslenskum sjónabókum og raunar ekki í evrópskum útsaumi nema á enskum stafadúkum frá 17. öld.

Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði lklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu  Lundúnum, sjá nánar hér.
Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.

 

Þetta rennir stoðum undir að munstrin hafi borist norður til Hóla með enskri kennslukonu sem Þorlákur biskup Skúlason (1597-1656) og kona hans hafi fengið til að kenna einkadóttur sinni, Elínu, kvenlegar listir. Þorlákur var faðir Gísla biskups Þorlákssonar og Elín því mágkona Ragnheiðar. Líklega hefur Ragnheiður fengið svipaðan enskan stafadúk hjá Elínu og talið út munstrið eftir honum.

En svo vikið sé aftur að altarisdúknum sjálfum þá þykir útsaumurinn á letrinu neðst á því afar merkilegur. Letrið er nefnilega saumað með pellsaumi sem sárafá önnur dæmi eru um í íslenskum munum eldri en frá 19. öld. Erlendis nefnist þessi saumgerð oftast flórenskur eða ungverskur saumur. Neðst á þessari síðu er sýnt hvernig sauma skal pellsaum . (Þeir sem hafa áhuga á saumgerðinni gætu notað leitarorðin: Florentine stitch, Hungarian point eða Bargello stitch til að leita fanga á Vefnum.)

Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi  altarisdúkinn.
Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi í altarisdúkinn.

 

Stafrófið hennar Ragnheiðar, teiknað eftir áletrun á altarisdúknum og bætt inn stöfum sem í vantar, má sjá hér ef einhvern langar t.d. að sauma út sinn eigin seðil.

Á Þjóðminjasafninu eru til fjórir búshlutir úr einkaeigu Ragnheiðar og eru allir með fangamarki hennar. Þetta eru trafaöskjurstóll  og tvær fatakistur. Einnig er varðveitt sjónabók (munsturbók) sem talin er hafa verið í hennar eigu. Í sjónabókinni er m.a. teiknað fangamark Ragnheiðar, samandregið R I D (Ragnheiður IonsDottir).

Fangamark Ragnheiðar  gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.
Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.

 

 

Síðustu æviár Ragnheiðar Jónsdóttur

Ragnheiður bjó, sem fyrr sagði, á Gröf á Höfðaströnd eftir lát Gísla Þorlákssonar biskups, eiginmanns hennar. En haustið 1698 giftist hún Einari Þorsteinssyni Hólabiskupi. Ragnheiður stóð þá á fimmtugu en Einar var 63 ára og hafði misst fyrri eiginkonu sína rúmu ári áður. Þrátt fyrir að brúðhjónunum hafi verið flutt langt kvæði á latínu með góðum óskum um langa og gæfuríka framtíð  lifði brúðguminn einungis mánuð eftir brúðkaupið.

Ragnheiður sat ekkjuárið á Hólum en flutti síðan aftur að Gröf og bjó þar til æviloka. Hún lést árið 1715 og skorti þá einn vetur í sjötugt.

 

Seðillinn

fimmthusund_sedill

Fimm þúsund króna seðillinn var gefinn út árið 1986. Grafísku hönnuðirnir Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fair teiknuðu upphaflega seðilinn og þegar honum var lítillega breytt árið 2003 sá Kristín um það.

Á framhlið seðilsins sést Ragnhildur Jónsdóttir sjálf en einnig fyrri eiginmaður hennar, Gísli biskup, og tvær látnar eiginkonur hans, sem sagt sama fólkið sem sést á málverkinu sem Ragnheiður lét mála í minningu Gísla. Í baksýn er hluti altararisdúksins í Laufáskirkju. Upphæðin, fimm þúsund krónur, er rituð með stafagerðinni á þeim dúk.

Á bakhliðinni sést Ragnhildur sitja í stólnum sínum, haldandi á sjónabókinni sem eignuð er henni. Tvær námsmeyjar hennar eru að skoða fullunnið altarisklæðið sem einnig sést í baksýn. Neðst á myndinni er borðamunstur sem er á ystu brúnum altarisdúksins. Neðst til hægri á seðlinum er nánast lokið við að sauma fangamark Ragnheiðar með pellsaumi/flórentískum saumi.

Það er vel við hæfi að Ragnheiður Jónsdóttir, sem lagði svo mikið af mörkum til að efla listiðnað kvenna á sautjándu öld, skuli skreyta peningaseðil, enn sem komið er ein íslenskra kvenna.

 

Heimildir auk þeirra sem krækt er í úr texta

Elsa E. Guðjónsson. SkakkaglitHúsfreyjan 13(4) 1962, s. 27-29.

Elsa E. Guðjónsson. Útsaumsletur Ragnheiðar biskupsfrúarHúsfreyjan 14(1) 1963, s. 21-24.

Elsa E. Guðjónsson. Altarisdúkur Ara á SökkuHúsfreyjan 18(4) 1967, s. 21-23.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenzk útsaumsheiti og útsaumsgerðir á miðöldum.  Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 69 1972, s. 131-150.

Elsa E. Guðjónsson. Íslensk hannyrðakona á 17. öld. Úr óprentaðri ritgerð. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1990, s. 29-34.

Elsa E. Guðjónsson. Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstjóri Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan 1996, s 119-162.

Elsa. E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Önnur úgáfa, Elsa E Guðjónsson 2003.

Koll, Juby Aleyas. Pattern darning reversibleSarah’s Hand Embroidery Tutorials. 18. nóv. 2009.

Sigurður Pétursson. Nuptiæ HolanæHumanistica Lovaniensia: Journal of Neo-Latin Studies XL 1991. Leuven University Press, s. 336-356.

Sigríður Thorlacius. „Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin“. Nokkrir drættir úr sögu Hólmfríðar Sigurðardóttur frá VatnsfirðiTíminn 46(17) 21. jan. 1962, s. 9 og 15.

Þorkell Grímsson. Þrjú fangamörk Ragnheiðar biskupsfrúarÁrbók Hins íslenzka fornleifafélags 82 1985, s. 185-188.

Lokað er fyrir ummæli.