1. ágúst 2014

Hvert var mótífið/hvatinn?

Þessi færsla fjallar um lekamálið margumrædda.

Ég les mikið af allra handa morðbókmenntum, frá Íslendingasögum til nútímareyfara. Í Íslendingasögunum er yfirleitt klár ástæða þess að menn eru drepnir en morðsögur nútímans snúast um leitina að morðingjanum. Í þeim síðarnefndu er oft meginatriði í rannsókn og lausn málsins að komast að því hver var hvatinn að baki morðinu: Hver hagnaðist á að drepa viðkomandi?

Umfjöllun netmiðla og bloggara um lekamálið er sjálfsagt orðin álíka löng og Njála, væri hún prentuð út. En fáir hafa spurt þessara spurninga: „Af hverju var skjalinu lekið til fjölmiðla?“ og „Af hverju var skjalinu breytt áður en því var lekið til fjölmiðla?“.

Einhverjir hafa gert því skóna að fréttir fjölmiðla af þessari börnuðu samantekt úr Innanríkisráðuneytinu (sem óvart var lá á opnu drifi þar innanhúss - en samt var það kannski hinn dularfulli B sem lak henni) hafi átt að sverta mannorð Tonys Omos því samtökin No Borders hefðu ætlað að mótmæla brottvísun hans út landi sama dag og fréttirnar birtust. Finnst einhverjum í alvöru líklegt að Innanríkisráðuneytið hafi haft áhyggjur af einhverjum mótmælum, algeng sem þessi smá-mótmæli eru? Tony Omos var svo lítið peð í flóttamannafjöldanum sem vísað er úr landi að ekki einu sinni Eva Hauks vissi sérstök deili á honum daginn fyrir mótmælin og er hún þó mestur áhugamaður um flóttamenn á Íslandi.

Nei, skýringin á því af hverju skjalinu var lekið til fjölmiðla hlýtur að vera önnur. Í ljósi þess hvernig mál hafa æxlast síðan er ekki óvitlaust að láta sér detta í hug mótífið að koma höggi á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hamra svo járnið viðstöðulaust uns líkist engu öðru en ógeðslegu einelti. Viðbótarklausan, þessi sem bætt var við samantektina sem lögfræðingur Innanríkisráðuneytisins samdi, er einmitt vel til þess fallin til að skaffa óteljandi fyrirsagnir með stríðsletri í DV og miðlum af sama toga ásamt ómældri hneykslun hjarðarinnar sem getur bara lesið svoleiðis fyrirsagnir og tuttugu-orða-fréttir.

Síðan hafa netmiðlar og bloggarar gætt þess vandlega að málið leggist ekki í þagnargildi. Fundnir eru leka-sökudólgar en sumt dregið til baka þegar meintur sökudólgur hótar kæru; það er lagst yfir gamlan dægurlagatexta og hann túlkaður af slíkri dýpt að sjálf Julia Kristeva hefði ekki gert betur; þegar fólk neitar ekki fabúleringum slúðurmiðla jafngildir það játningu sektar (og skiptir engu þótt sama fólk geti ekki tjáð sig því málið er enn í rannsókn); ættir fólks sem mögulega gæti tengst þessu máli eru raktar lengst aftur við fólk sem mögulega gæti unnið að rannsókn þess (eða bara verið í sjálfstæðiflokknum) o.s.fr. Núna loksins eru einhverjir farnir að velta fyrir sér mótífinu/hvatanum og ævintýralegar samsæriskenningar líta dagsins ljós, hver annarri ótrúlegri; Hver hagnast á útreið Hönnu Birnu?

Tony Omos er öllum löngu gleymdur, hann er eins og hver annar snærisþjófur af Skaganum að því leytinu. Næsta skref hlýtur að vera að athuga hvort Hanna Birna flýtur á vatni eða hvort hún sekkur (til vara mætti vigta hana á vogarskál á móti önd). Ekkert annað en nornapróf getur úr þessu friðað þann almenning sem fylgist af áhuga, grimmd og gullfiskaminni með lekamálinu mikla.

5 ummæli við “Hvert var mótífið/hvatinn?”

 1. Haukur Kristinsson ritar:

  Harpa, sá sem hefur óbeit (aversion) á útlendingi, ekki síst ef hann er ekki albínói eins og við hin og þar að auki bláfátækur og varnarlaus, gerir oft hluti sem eru “irrational”, óskiljanlegir. Ekki síst ef viðkomandi hefur takmarkaða greind og skort á siðferði.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Hm … Haukur minn Kristinsson: Við getum ekki haldið áfram þessu tveggja manna tali á blogginu mínu ;) En ég er viss um að mótífið er ekki rasismi (án þess að halda því fram að ekki sé bullandi rasismi hérlendis).

 3. Baldur Ragnarsson ritar:

  “…sem óvart var lá á opnu drifi þar innanhúss…” ?

  Óvart? Fyrst þarf að svara því hvernig skjöl geta lent á slíkum slóðum. Alveg óvart.

  Síðan má spyrja því skjalinu var lekið og því breytt.

  Minni á lögmál Jónasar: “Hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo?”

 4. Eva Hauksdóttir ritar:

  Nokkrar athugasemdir.

  Ef trúnaðargögn liggja “óvart” á glámbekk þá heitir það vanræksla.

  Starfsmaður B er ekki einhver dularfull vera, heldur Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður ráðherra.

  Það er fremur ótrúverðug skýring að skjalinu hafi verið lekið í þeim tilgangi að koma höggi á Hönnu Birnu þar sem þeir einu sem höfðu aðgang að skjalinu voru nánir samstarfsmenn hennar og allt bendir til þess að það hafi verið “starfsmaður B” sem breytti því og lak því í fjölmiðla.

  Mótífið er ekkert dularfullt. Innanríkisráðuneytið hefur, ásamt útlendingastofnun, legið undir ámæli fyrir ömurlega afgreiðslu á málum flóttamanna og þarna var um að ræða mál sem minnti á mál Pauls Ramses (sem ég vissi heldur ekki hver var fyrr en daginn áður en hann var sendur úr landi.) Það mátti því búast við miklum viðbrögðum og líklega hefur Hanna Birna munað eftir því að mál Pauls Ramses fór á þann veg að hann fékk pólitískt hæli á Íslandi. Bæði lekanum og viðbótinni var ætlað að sannfæra almenning um að hælisleitandinn væri skúrkur og þessvegna væri rétt að vísa honum úr landi. Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar hafa líklega haldið að þar sem Tony Omos er bara peð og No Borders lítil hreyfing sem stendur á brauðfótum, þá hafi þetta verið heppileg aðferð til að þagga málið niður.

  Það er hinsvegar rétt að þetta er löngu hætt að snúast um hælisleitendur. Þetta snýst um það hvort almenningur getur treyst því að æðstu stofnanir samfélagsins varðveiti trúnaðarupplýsingar eins og þeim ber og að ráðherrar og annað valdafólk segi alþingi og fjölmiðlum satt. Það eru ekki ósanngjarnar kröfur.

 5. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Af kynnum mínum af Ramses Paul og upplýsingum um Tony Omos í margumræddri samantekt finnst mér út í hött að líkja málum þeirra saman.