14. ágúst 2014

Orð kvöldsins og Þröstur Helgason

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur ákveðið að fella niður nokkra örstutta dagskrárliði á rásinni, þ.e. Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldins. “Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar …” segir í beinni tilvitnun í yfirlýsingu Þrastar í Morgunblaðinu í dag (s. 2) en ég finn yfirlýsinguna hvergi, ekki einu sinni á vef RÚV. Enn fremur segir í beinni tilvitnun í yfirlýsinguna: “Hlustun á þá [dagskrárliði sem falla burt] hefur verið afar lítil.”

Ég hafði ekki hugmynd um að Þröstur hefði látið mæla hlustun á þessa dagskrárliði og þætti gaman að sjá tölurnar sem hann styðst við. Í leiðinni væri ágætt að sjá mælingu á fleiru, t.d. hlustun á tæpra tveggja klukkustunda Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva (í síðustu viku slökkti ég einmitt á svoleiðis eftir að kynnir upplýsti að þarna væru spiluð hljómsveitarverk eftir Béla Bartók og Dmitri Schostakowitsch … en kannski falla þessi tvö tónskáld eins og flís við rass við breyttan lífsstíl þjóðarinnar og hún hlustar af áfergju?). Og hve margir hlusta á kvöldsöguna? Nú er verið að lesa Leigjandann, merkilega ádeilusögu, allegóríu fyrir bókmenntafræðinga o.s.fr. …  en því miður hundleiðinlega og því miður er ádeilan dottin upp fyrir því herinn er löngu farinn og því miður finnst almenningi sennilega skemmtilegra að ráða krossgátur en túlka allegóríur. Hvar ætli maður geti séð áheyrendatölurnar yfir einstaka liði Rásar 1, sem Þröstur vísar í? Og hvernig var þetta mælt?

Ég veit ekki hvað þessi Morgunandagt er, hlusta ekki á Morgunbæn, sem skv. dagskránni í dag tók þrjár mínútur og var flutt fyrir klukkan 7 í morgun. En einstaka sinnum hlusta á ég Orð kvöldsins, fimm mínútna þátt. Það geri ég einkum í slæmum þunglyndisköstum og þykir þessi dagskrárliður hafa sefandi áhrif til bóta á þá hryllilegu líðan. Örlítil falleg tónlist og örlítið af fallegum orðum sem gefa von og veita huggun.  Þess vegna á ég eftir að sakna Orðs kvöldsins. Einhvern veginn hafði líka læðst inn hjá mér sú hugmynd (væntanlega firra af því ég geng ekki í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar) að sumt gamalt fólk, sumt fólk sem ætti bágt og jafnvel sumt trúað fólk hlustaði á þennan dagskrárlið: Samanlagt er þetta sennilega dágóður fjöldi en kannski dagskrárstjóranum finnist óþarfi að telja það til þjóðarinnar?

Satt best að segja læðist að konu eins og mér að með því að skera niður þessa átta mínútna+ (veit ekki hvað Morgunandaktin er löng) dagskrárliði sé Þröstur Helgason að reyna að skora stig hjá einhverjum í þeim háværa en fámenna sí-nettengda hópi sem telur að allt efni þar sem guð ber á góma sé í rauninni verkfæri andskotans. Sjálfsagt tekst honum það átölulaust því hópurinn sem hlustar á þessa dagskrárliði er ekki líklegur til hafa sig í frammi.

P.S. Þessa færslu er einnig að finna á nýju bloggumhverfi þangað sem ég hef flutt bloggið mitt, sjá http://www.harpahreins.com/blogg/2014/08/14/ord-kvoldsins-og-throstur-helgason/

6 ummæli við “Orð kvöldsins og Þröstur Helgason”

 1. Trausti Jónsson ritar:

  Ég er sammála þér með Orð kvöldsins - ég heyri þau endrum og sinnum. Maður er meira að segja stundum spenntur yfir því hvað valið verði til lesturs í það og það skipti - allt frá vondum kveðskap yfir í gullmola úr Biblíunni. En ekki er ég sammála þér með Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva. Efnið liggur að vísu misvel fyrir manni en á góðum degi er þetta það besta sem útvarpið hefur upp á að bjóða - og getur þá eitt og sér réttlætt útsendingar rásar eitt. Þar á meðal voru tónleikarnir sem þú nefndir sérstaklega - svona er nú smekkurinn misjafn.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Gott að heyra að við erum ósammála um tónleikana … ég velti því nefnilega fyrir mér hvort þeir sem hugnaðist þessi tónskáld sem ég nefndi myndu ekki frekar hlusta á tónlistina í betri græjum en útvarpinu sínu og fyrir hverja þetta þá væri. Sjálf var ég bólusett fyrir Bartók í píanónámi, því miður, og hef ægilega alþýðlegan smekk í sígildri tónlist (hin Béin eru t.d. í uppáhaldi, Bach, Beethoven o.s.fr.)

 3. Þórður Lárusson ritar:

  Þú gleymir að nefna að Þröstur þessi Helgason var um tíma umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins. Honum var sagt upp og síðan þá hefur honum verið í nöp við Björn Bjarnason, Davíð Oddsson og aðra eldri borgara sem barist hafa fyrir fleiri mínútum í bænahald á Rás 1.

 4. Trausti Jónsson ritar:

  Það þarf engar sérstakar græjur til að hlusta á sinfóníska tónlist - vasaútvarp mitt árgerð 1985 með 5 cm hátalara dugar vel - séu rafhlöðurnar í lagi. Fyrir okkur heyrnardaufa er aðalatriðið að bassinn yfirgnæfi ekki allt sem ofar er í tónhæðinni - einmitt það sem margar svokallaðar græjur gera. Það er mikilvægt atriði að útvarpið leiki sem mest og tilviljanakenndast úrval af sígildu efni - ef maður velur allt sjálfur situr maður á strandstað alla æfi.

 5. Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson ritar:

  Í anda vinstri-antísemítismans verður árlega haldið áfram að tönnlast á 17. aldar gyðingahatri Hallgríms, mannsins hennar Tyrkja-Guddu, og það kölluð stórmenning, meðan að saklausar og uppbyggilegar bænir verða öllum bannaðar. Passíusálmarnir er nú einu sinni það sem fær hörðustu rauðliðana á Íslandi til að fara í kirkjur. Nú þurfa þeir sem vilja bænir að flytja nærri Sogamýrinni til að heyra morgunandagt yfir hafragrautnum og Orð kvöldsins yfir vellingnum. Svo verður farið í heilagt stríð við RÚV. Fjöldi þátta um ágæti íslamskar menningar og náungakærleika verða fleiri. Svö höfum við vitaskuld Fréttastofuna í beinni útsendingu frá aðgerðum ISlandsins í Írak, svo við vitum hvað koma skal.

  Afsakaðu að ég segi það, en menn eins og Þröstur Helgason eru svo “hámenningarlegir”, að þeir þurfa ekki tölur eða kannanir. Þeim nægir hákúltúraður vindurinn úr afturendanum á sér og önnur búktónlist naflaskoðarans. Og ég biðst aftur afsökunar á þessu orðbragði, þótt flest af því sem t.d. er flutt á Rás 2 sé meira prump en það sem ég skrifa hér.

  Hvert skipti sem ég hlusta á Rás 1 í tölvunni, er spiluð braggatónlist. Þar á ég við amerískan kvennakvartett, eins og tíðkuðust þar í saumaklúbbum, meðan mennirnir voru að slást við Hitler, sem lét líka banna ýmislegt í útvarpi eins og rauðbrystingurinn á RÚV. Þessir kerlingakvartettar virðast mjög vinsælir á RÚV. Má ég þá heldur biðja um Schostakovitsch og Rachmaninoff. Sumir geta mettað það, meðan að góðar minningar úr bröggunum höfðar til annarra. Öll erum við mismunandi, en það vilja hálfstálpaðir menningarvitar RÚV ekki.

 6. Orð kvöldsins og Þröstur Helgason | Blogg Hörpu Hreinsdóttur ritar:

  […] P.S. Þessi færsla var jafnframt sú síðasta sem ég skrifaði á harpa.blogg.is því hér með er bloggið mitt flutt á slóðina harpahreins.com/blogg. Posted in: Daglegt líf, Geðheilsa […]