Færslur marsmánaðar 2014
Litla stúlkan og sjálfsvígslagið og hannyrðapistlar
Ég set orðið afrit af eigin pistlum sem birtast í Kvennablaðinu inn á nýtt blogg/afritsbloggið mitt á harpahreins.com/blogg því bloggumhverfið þar er miklu þægilegra en þetta gamla á þessu bloggi. Það kemur sá tími í lífi hverrar konu að hún nennir ekki að eyða ómældum tíma í að sansa myndir og uppsetningu með HTML-skipunum í óþægum HTML-ritli
Á hinn bóginn vil ég halda í mitt gamla blogg lengur en það fer dálítið eftir eðli pistla hvort ég birti þá þar eða hér.
Nýjasta færslan mína er Litla stúlkan og sjálfsvígslagið. Ýmsa hannyrðapistla sem ekki hafa birst á þessu bloggi er einnig að finna á harpahreins.com/blogg Uppsetning á því bloggi er ekki fullkláruð og ég biðst afsökunar á því (ekki er búið að flokka eldri færslur nema takmarkað og ekki búið að íslenska nema hluta umgjörðar og enn birtast efnisflokkar og leitarmöguleiki neðst í skjáþulunni … en þetta verður lagað með tíð og tíma).
Stilltu þig gæðingur
Þegar ég var krakki voru nokkrir málshættir notaðir óspart í uppeldi mínu, þ.á.m. þessi í fyrirsögninni og „Sá vægir sem vitið hefur meira‟. Líklega var þula þessara málshátta og annarra í sama dúr aukaverkun af því að eiga þrjú yngri systkini sem þurfti alltof oft að passa og mátti víst alls ekki lemja af því þau voru minni. Og svo var það eilífa áminningin um að vera ekki alltaf að þenja sig þetta, krakki!
Á unglingsárum gerði ég auðvitað uppreisn gegn uppeldinu, þ.á.m. málsháttauppeldinu, og þandi mig t.d. um jafnréttismál við hvern þann sem nennti að hlusta, vægði aldrei þótt ég teldi mig miklu klárari en sá sem ég var að rífast við í það og það sinnið; gekk í Samtök herstöðvarandstæðinga og Alþýðubandalagið og úr þjóðkirkjunni fyrir átján ára aldur, kunni alla textana og lögin á Áfram stelpur plötunni og reyndi almennt að haga mér eins og unglingi sæmdi.
Ég óx svo smám saman upp úr þessu; sagði mig úr allaböllunum, hætti að nenna að syngja Ísland-úr-nató-og-herinn-burt nema í fylleríispartíum (og því var svo algerlega sjálfhætt þegar ég hætti að drekka fyrir þrítugt), gerði misheppnaða tilraun til að segja mig úr Samtökum herstöðvarandstæðinga (en fékk samt Dagfara sendan næstu 20 árin), hætti að kenna mig við föður og móður þegar ég flutti upp á Skaga og gerðist hefðbundið eingetin á ný, gekk að vísu í Kvennalistann en missti svo trúna á honum þegar hreintrúarfemínisma óx þar fiskur um hrygg. Eins og flestir fullorðnaðist ég sem sagt og gerði mér talsvert fyrir þrítugt grein fyrir að heimurinn er ekki eins svarthvítur og manni sýnist fyrir tvítugt.
Mér hefur samt alltaf þótt dálítið sætt þegar ungt fólk er ungt reitt fólk og hefur sterkar skoðanir, það tilheyrir þessum aldri finnst mér. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða helbláa unga sjálfstæðismenn eða heittrúaða baráttuglaða femínista á framhaldsskólaaldri eða eitthvað annað. Mér finnst meira að segja ungliðadeild Vantrúar mesti myndardrengur og hef trú á honum.
Öðru máli gegnir um fólk sem vex ekki upp úr svarthvíta hugsunarhættinum. Það er fátt hallærislegra en reiðir ungir menn á sextugsaldri, stjórnleysingjar á fimmtugsaldri sem hata lögguna og öll yfirvöld, harðfullorðnar konur sem þenja sig um femínisma en hafa mestanpart verið eða eru á framfæri eiginmanna sinna; Sem sagt reitt miðaldra fólk sem þenur sig endalaust um sömu örfáu málefnin (öllu heldur um einstakar persónur sem það telur standa fyrir málefni), er aldrei til í að vægja þótt það telji sig miklu klárara en allir aðrir og sýnir enga biðlund í þeim skilningi að það athugi málin, bíði með ályktanir, taki tillit til annarra sjónarmiða eða neitt þvíumlíkt. Líklega fékk þetta fólk ekki málsháttaruppeldi og hafði ekki tækifæri til eða sinnu á að einhenda sér í uppreisnina, hústökuna, anarkíið, baráttusöngvana og byltinguna miklu á réttum aldri.
Svona fólk þvælist ekkert fyrir mér í kjötheimum, í umhverfi mínu er það a.m.k. gersamlega ósýnilegt. Vettvangur þess er Netið. Á Netinu getur það fengið útrás fyrir alla reiðina og biturðina án þess að þurfa að hreyfa mikið meir en fingur yfir lyklaborð. „Barátta“ á Netinu útheimtir ekki kröfugöngur, söngvakyrjun, að standa fyrir máli sínu í samræðum, fundum eða ráðstefnum; að leggja sitt af mörkum til að bæta eitthvað með einhverjum gjörðum, t.d. taka þátt í stjórnmálaflokksstarfi, bjóða málfarsráðgjöf ef ambögur annarra valda þeim hugarangri og reiði svo nær út yfir allan þjófabálk, leggja Rauða krossinum, Mæðrastyrksnefnd eða einhverjum sjálfboðaliðasamtökum lið til að bæta stöðu flóttafólks, kvenna, barna eða annarra sem viðkomandi er hoppandi brjálaður yfir hvernig er fyrirkomið hérlendis o.s.fr.
Einhvern tíma kemur að því að aktívistarnir á Netinu átta sig á að það að vera bitur alla daga er eins og að drekka fullt glas af eitri daglega og vonast til að einhver annar drepist. Einhvern tíma vaxa þeir upp úr þessu og átta sig á að veröldin er ekki svarthvít, að maður þarf ekki alltaf að þenja sig til að tekið sé mark á manni, að stundum vægir sá sem vitið hefur meira og að það getur einstaka sinnum verið gott fyrir gæðinga að stilla sig. Þangað til það gerist er eina ráðið sem ég á handa þeim sem taka þessa bloggfærslu til sín að skrá sig í Fésbókargrúppuna For et mer aggressivt krosstingsbroderi! og taka þar virkan þátt, svo reiðin megi verða til sköpunar.