Færslur aprílmánaðar 2014

30. apríl 2014

Sardínur og klósettin á Akureyri

Þessi pistill er hugleiðing um uppeldi. Hún er þannig séð til einskis því það eina sem ég el upp núna er mig sjálfa og tvo ketti og má raunar deila um hvort kettirnir séu með mig í atferlis-uppeldi eða ég þá.

 

Máni og V�fill eins ársEn ég fór svolítið að hugsa um uppeldi þegar datt upp úr fullorðnum yngri syni mínum um daginn að hann hefði trúað því í mörg ár að sardínur væru veiddar í klósettunum á Akureyri, af því ég hefði sagt honum það, og þess vegna ekki borðað sardínur í mörg ár. Ég man ekkert eftir að hafa logið þessu að syninum barnungum. Hins vegar man ég ágætlega eftir því að móðurbróðir minn laug því að mér þegar ég var lítil að sardínur væru veiddar í klósettunum á Akureyri og ég borðaði ekki sardínur í mörg ár …

 

Svona hefur maður klikkað á uppeldinu, hugsaði ég. Og rifjaði líka upp dæmið um föður sonanna, sem afhenti fóstrunum á leikskólanum eitt sinn heimilisruslið í plastpoka ásamt eldri syninum - hafði óvart hent fötunum barnsins í ruslatunnuna. Eða þegar staffið á leikskóla þess yngri hengdi upp óskilamuni á snúrur þvers og kruss um allan leikskólann: Við reyndumst eiga öll fötin því faðirinn afhenti ævinlega ný föt með drengnum á mánudögum (og passaði raunar vel að taka ekki ruslapokann í misgripum, hann má eiga það) en gleymdi alltaf að taka pokann með heim á föstudögum. Drengurinn var afar vel fataður og sá ekki högg á vatni þannig lagað í skúffunum svo við tókum ekkert eftir þessu … fyrr en vorið þegar óskilafötin voru hengd upp.

 

Myndin til vinstri er af sonunum. Þeim kom ólíkt betur saman en okkur systrum. 

 

Ég man ekki til þess að hafi þurft að skamma drengina að ráði nema man að sá eldri tók orðalagið „punktur og basta“ sem hroðalegar skammir eða blótsyrði - „Ekki segja punkturogbasta“ hálfkjökraði litla skinnið og ég hætti alveg að nota þetta skelfilega orðalag (með rödduðu enni og sagt í raufararhafnarítónun).

 

Sjálf man ég sosum ekki eftir skömmum að ráði úr eigin uppeldi og svona eftir á séð virðist flest hafa mátt svo lengi sem krakkar voru úti svo þeir yrðu ekki eins og hundaskítur í framan. (Allir sem séð hafa hvítan þurran hundaskít vita hve alvarlegt yrði að fá það litaraft … en mikið sem ég hataði að vera úti á veturna í þeim skítakulda sem var alltaf þarna fyrir norðan!).

 

Það var sennilega ekki búið að finna upp uppeldi þegar ég ólst upp, fyrir utan þetta með hundaskítslúkkið og að tómatsósa væri óholl nema í algeru hófi, fiskát í óhófi væri ferlega hollt, hvítur sykur óhollur en púðursykur eiginlega bara meinhollur o.s.fr. Og svo var mjög ströng regla um að bannað væri að lemja litlu systur sínar, þótt þær væru oft óþolandi og maður þyrfti alltaf að vera að passa þær. Ég braut þá reglu mjög oft enda full ástæða til.

 

Þegar ég datt með heimalinginn í fanginu í ána og fór á bólakaf stökk faðir minn út í ána og bjargaði heimalingnum. Ég hefði sennilega drukknað ef ég hefði ekki fattað að standa upp - þetta var afskaplega grunn á, raunar einnig hlý  enda hafði þar verið sundkennsla á gullaldarárum ungmennafélaganna. Familían breytti gömlu sundklefunum í hænsnahús og hafði þar 29 verpandi hænur + eina hænu sem var svo vitlaus að fljúga á prímusinn sem hafður til upphitunar að vetrarlagi og var alla sína ævi eftir það vanþroska og vangefin. Ég fékk að eiga hana sem gæludýr sem kom sér vel eftir heimalinginn, örlög hans voru sorgleg og hann endaði í kæfu. Örlög gæluhænunnar urðu líka mjög sorgleg en hún var of lítil og vanþroska til að hægt væri að éta hana.

 

Harpa, Ragna, FreyjaÞegar yngsta systir mín, sem aldrei lét beygja sig þrátt fyrir að vera margsinnis vippað bak við hurð og hótað barsmíðum, henti hausnum af einu strákadúkkunni okkar (sem hét Dengsi) í ána þurfti ég að bíða í heilt ár þangað til ég var orðin nógu stór til að geta vaðið eftir hausnum af Dengsa. Og þá var hann orðinn eins og hundaskítur af því að liggja á árbotninum allan þennan tíma. Þeim fullorðnu datt ekki í hug að redda þessu.

 

 

Myndin er af okkur systrum - ég er mátti búa við sífellt þukl ættingja sem lýstu því hástöfum yfir hve mikil hörmung væri að sjá hvað krakkinn væri horaður! Þær yngri þóttu hins vegar fögur börn, búttaðar eins og börn eiga að vera og með spékoppa og krullur … Ætti að vera auðvelt að sjá hvur er hvað.

 

Já, ég sé það að þótt ýmislegt hafi kannski klikkað í uppeldi sonanna er það smákökuflís hjá öllu því sem klikkaði í eigin uppeldi. Þökk sé leikskólunum sem búið var að finna upp þegar þeir voru litlir. Að vísu virkuðu ekki allar vísindalegu uppeldisaðferðir leikskólans, t.d. man ég eftir að hafa sótt þann eldri sem tilkynnti hróðugur, ásamt félaga sínum, að þeir væri einmitt nýbúnir að skjóta allar stelpurnar. Auðvitað voru öll leikfangavopn útlæg af leikskólanum en þeir notuðu sleifar til verksins …

 

Nú er spurningin: Mun því verða logið að mínum barnabörnum, sem enn eru í huga guðs, að sardínur séu veiddar í klósettunum á Akureyri?

 

 

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

27. apríl 2014

Sigríður Magnússon, braskið, betlið og meinta kvenréttindabaráttan

Ég er alveg að gefast upp á að reyna að skrifa um Sigríði blessunina. Eftir nokkrar atrennur sé ég að textinn er yfirleitt of langur, alltof mikið af heimildatilvísunum og útkoman þannig að sæmdi sér prýðilega í meistararitgerð en síður á bloggi. Svo hér er lokaatrennan þar sem farið er hratt yfir sögu og tilvísunum sleppt - í staðinn lista ég upp helstu heimildir í lok textans.

 

Hvernig æxlar maður sér fé af ríkum Englendingum?

Sigríður hafði ágæta fyrirmynd þar sem eiginmaður hennar var. Svo sem getið var í síðustu færslu hafði Eiríkur talað auðugan Breta (Wales-búa) inn á að borga stofnkostnað við háskóla á Íslandi, hafði raunar loforð fyrir gífurlegu fé til þess. Í fínna kvenna fansi sem Sigríður kom sér í eftir að Eiríkur fékk bókavarðarstöðuna í Cambridge var ekki alveg jafn feitan gölt að flá. Þó eignaðist hún vinkonu sem gaf henni 200 pund, sem var dágóður peningur (til samanburðar má geta þess að far til Íslands frá Bretlandi kostaði fram og til baka á bilinu 5-8 pund og að ferðabókum frá 1878 og 1889 ber saman um að heildarkostnaður við ferðalag um Ísland, uppihald, hestaleigu, fargjald o.s.fr. væri um 20 pund). Sigríður fékk loforð fyrir þessu fé í upphafi árs 1883 en þegar féð var afhent 1884 hét það að gjöfin væri minningargjöf um systurdóttur hennar sem lést í árslok 1883.

VinaminniFyrir þessi 200 pund lét Sigríður reisa stórhýsi í Reykjavík, á lóðinni þar sem Brekkubær hafði staðið, og kallaði Vinaminni. Húsið stendur enn og er nr. 3 við Mjóstræti, það var byggt 1885. Eftir það hafði hún öruggan samastað í Reykjavík á sínum sumarferðum og gat hætt að setjast upp hjá systrum eða móður Stephensen landshöfðingja, svo sem hún hafði eitthvað gert af enda varla hægt að ætlast til að svo fín frú, sem Sigríður varð af einbeitni, byggi í torfkofa hjá mömmu sinni þá hún vísiteraði Reykjavík á sumrin.

Myndin af Vinaminni nýbyggðu er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Litla myndin krækir í síðu með nánari upplýsingar um ljósmyndina og húsið, þar er og hægt að sjá stærri útgáfu af henni.

Eftir að hafa verið ritari í nefnd sem stóð fyrir mikilli fjársöfnun fyrir bágstadda Íslendinga haustið 1882 (raunar bar Íslendingum sjálfum ekki sama um hversu eða hvort þeir væru bágstaddir og söfnunarféð nýttist auk þess illa vegna skipulagsleysis, sem Eiríkur Magnússon bar líklega ábyrgð á) hlýtur Sigríði að hafa verið vel ljóst að fá mætti enskt hefðarfólk til að reiða fram ansi mikið fé ef málstaður væri góður; Nefndin var nefnilega skipuð afar háttsettu fólki og söfnunin gekk svakalega vel þar til aðrir Íslendingar en þau hjónin fóru að láta í sér heyra.

Svo Sigríði datt í hug góður málstaður: Bágar aðstæður íslenskra kvenna til menntunar.

 

Að koma málstaðnum á framfæri, ota sínum tota og afla fjár

Áður hefur verið sagt frá þátttöku Sigríðar í Iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 og hvernig hún hóf í kjölfarið á henni að sýna íslenskar hannyrðir og krítaði liðugt um vinsældir þeirra meðal bresku konungsfjölskyldunnar. Þessum hannyrðasýningum hélt hún áfram og bætti íslenskum silfurmunum við. Forsendan fyrir að eitthvað þætti í íslensku silfurmunina varið var auðvitað að þeir væru gamlir, verðmætar fornminjar, því víravirki og önnur íslensk silfursmíð skar sig ekkert úr því sem víða tíðkaðist.

Hún sýndi þessar vörur víða (líklega hvar sem hún gat) en frægastar eru sýningar hennar á Alþjóðlegu heilsusýningunni í London 1884, Iðnsýningunni í Edinborg 1886, Ensk-dönsku sýningunni í London 1888 og Heimssýningunni í Chicago 1893. Þetta voru meira og minna sömu hannyrðirnar sem hún sýndi árum saman og í viðbrögðum við gagnrýni landa sinna bar hún yfirleitt fyrir sig hversu velættaðar konur hefðu ofið eða prjónað þessa muni eða, til vara, systur og móðir hennar sjálfrar.

Jafnframt þessum sýningum stundaði Sigríður verslun og viðskipti í nokkrum stíl, líklega frá 1883. Hún reyndi að opna verslun með íslenska muni bæði í Cambridge og Manchester, fékk íslenskar konur til að vinna fyrir sig, t.d. baldýra (en greiðsla frá Sigríði fyrir svoleiðis fékkst bara með eftirgangsmunum), flutti ódýrt enskt dót til Íslands og seldi með góðri álagningu o.s.fr. Brambolti Sigríðar virðist þó lítill gaumur hafa verið gefinn fyrr en á Heimssýningunni í Chicago 1893 og verður fjallað um harðvítugar deilur um það hér á eftir.

Auk sýningahalds og viðskipta gerði Sigríður nokkuð að því að halda fyrirlestra um Ísland og bág kjör Íslendinga og alveg sérstaklega bág kjör íslenskra kvenna.

 

Kvennaskólinn í Vinaminni

Sigríður fékk þá stórkostlegu hugmynd að opna kvennaskóla í stórhýsi sínu í Reykjavík, Vinaminni. Hugmyndin rímaði líka ágætlega við sýningar og safnanir og fyrirlestra hennar en síður við þá staðreynd að nokkrum húsum fjær var starfandi Kvennaskólinn í Reykjavík (og nokkrir slíkir til utan Reykjavíkur). Kvennaskóli Sigríðar tók til starfa haustið 1891 en starfaði einungis einn vetur. Skólastúlkur voru 15, þar af 5 í heimavist í Vinaminni.

Í samanburði við það nám sem boðið var upp á í Kvennaskólanum í Reykjavík á sama tíma er ómögulegt að sjá neina sérstöðu í kvennaskóla Sigríðar. Í báðum skólunum var kennd sama handavinnan (kúnstbróderí, baldýring, fatasaumur o.þ.h.) og sömu bóklegu greinarnar (íslenska, reikningur, landafræði, enska, danska o.fl.). Ef eitthvað var þá var framboð á bóklegum greinum talsvert meira í Kvennaskólanum í Reykjavík en þeim í Vinaminni. Og verðið sem námsmeyjar greiddu var nákvæmlega hið sama: 1 kr. á dag fyrir þær sem voru í heimavist, minna fyrir Reykjavíkurstúlkur sem sóttu tíma í skólanum.

Það er erfitt að sjá nokkra rökræna ástæðu fyrir þessari kvennaskólastofnun Sigríðar E. Magnússon nema að hún þjónaði ágætlega þeim málstað sem hún hafði valið sér til að réttlæta sýningarþörf og aðra athygli sem hún vildi gjarna njóta. Auk þess var þessi kvennaskóli gullvæg ástæða til samskota ríkra Englendinga, sem Sigríður nýtti sér óspart. (Fyrir því eru nægar heimildir þótt hún hafi á gamals aldri haldið því fram að hún hafi aldrei þegið neitt fé í samskotum heldur hafi unnið fyrir öllu saman með fyrirlestrarhaldi.)

 

Heimssýningin í Chicago 1893 og deilurnar um framlag og framferði Sigríðar þar

Sigr�ður, g�tar, Fr�ðaSigríður fékk inni með hannyrðasýningu sína og sýningu á íslenskum silfurmunum á þessari sýningu auk þess að fá að flytja fyrirlestur á fjölsóttu þingi kvennasamtaka sem haldið var í tilefni sýningarinnar.  Að eigin sögn sat hún ævinlega hjá munum sínum, íklædd íslenskum búningi og sýndi hvernig skyldi spinna á rokk. Á myndinni hér til hliðar er hún uppáklædd með gítar (eins og á flestum myndum af henni) en rokkinn vantar  - í hans stað er hundurinn Fríða, mikið uppáhald þeirra Eiríks og Sigríðar enda myndin tekin löngu áður en hún fór til Chicago.  Myndin er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns.

Íslendingar sem sáu sýninguna Sigríðar í Chicago voru vægast sagt ekki upprifnir. Bæði hannyrðir og silfur þóttu drasl og auk þess í meira lagi vafasamt að merkja silfurkeðjur þannig að önnur átti að hafa verið í eigu Jóns Arasonar og hin í eigu Snorra Sturlusonar. Körlunum (einkum þeim sr. Hafsteini Pjeturssyni og Matthíasi Jochumssyni) var svarað með því að þeir hefðu nákvæmlega ekkert vit á hannyrðum og upplýsingarnar um uppruna silfurkeðjanna hefðu fylgt frá upphaflegum eigendum sem væru einstaklega ráðvant fólk. En sú sem hún opnaði breiðsíðuna á var Mrs. J.T. Sharpe [Hólmfríður Stephensson, búsett í Chicago], íslensk kona sem gagnrýndi sýningu og staðhæfingar Sigríðar opinberlega. Í löngu svari Sigríðar var allt tínt til: Forsjárdeila sem tengdist ætt frú Sharpe, ættrakningar og mistök í ættrakningum, yfirlýsingar um að sumt af slekti Mrs. J.T. Sharpe væri nú ekki fínna en svo að það hefði grátbeðið Sigríði að reyna að koma sínu silfri í verð, að rangt hefði verið eftir Sigríði haft í dagblöðum vestra um ýmislegt, að Mrs. Sharpe hefði ekkert vit á íslenskum búningum o.s.fr.

Fyrir utan fyrirlesturinn hjá kvennasamtökunum hafði Sigríður nefnilega verið mjög dugleg að koma sér í viðtöl þarna vestra. Málflutningur hennar var yfirleitt á sömu leið: Fyrst stutt rakning á landnámi og tignum uppruna Íslendinga, síðan um bág kjör í þessu landi elds og ísa, síðan um sérstaklega bág kjör kvenna, sem neyddust til að nema allt sem þær lærðu svo til einungis af móður sinni því engir skólar væru til fyrir þær, síðan um hetjulega baráttu Sigríðar sjálfrar til úrbóta á kjörum kvenna, bæði í að koma hannyrðum þeirra í verð og svo að koma á fót og reka kvennaskóla í þessu guðsvolaða landi. Silfursafn sitt hefði hún eignast með því að taka við allt að 700 ára gömlum ættargripum bláfátæks fólks sem neyddist til að biðja Sigríði að selja það á Englandi til að eiga fyrir salti í grautinn (öllu heldur brauði, að sögn Sigríðar) og af litlum efnum hafði hún sjálf reynt að kaupa og borga fyrir sem mest af því í þeim tilgangi að skila ættargripunum aftur eða gefa þá á Fornmenjasafn Íslendinga. Jafnframt kom fram í þessum viðtölum að nú neyddist Sigríður til að selja sitt silfursafn (ég veit að þessar staðhæfingar hennar standast illilega á en það gerir líka margt annað í málflutningi hennar) til að geta rekið sinn kvennaskóla í landi þar sem stúlkum gæfist enginn annar kostur á menntun.

Eitthvað var um að fólki hér uppi á Íslandi blöskraði þessar staðhæfingar og hefði á því orð í blaðagreinum. Amrísku blöðin voru hins vegar full aðdáunar á þessari duglegu konu, hennar fórnarlund og brautryðjandastarfi.

Sigríður reyndi svo að selja sitt silfursafn ýmsum söfnum vestra en tókst ekki enda verðlagði hún það ákaflega hátt. (Hún hafði áður reynt að selja sama safn í Noregi og Svíþjóð án árangurs). Á gamals aldri hélt Sigríður því fram að einhver dularfullur útsendari landa hennar sem vildu eyðileggja fyrir henni, af tómri illgirni að því er virðist, hafi komið í veg fyrir að hún gæti selt Metropolitan Museum í New York safnið sitt. Í Ameríku dvaldi Sigríður svo í sjö ár og virðist hafa verið á framfæri Eiríks eiginmanns síns allan þann tíma - sjálf hélt hún því fram að hún hefði unnið fyrir sér með fyrirlestrarhaldi.

Sigr�ður gömul

Þessi mynd er áreiðanlega tekin í Ameríkudvöl Sigríðar, sjálfsagt í tilefni fyrirlestrar. Hana má sjá stærri í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns - myndin krækir í upplýsingasíðuna þar. Sé gert ráð fyrir stafavillu í upplýsingum um myndina þá hefur Sigríður haldið þennan fyrirlestur í skóla í Pensylvaníu sem sérstaklega einbeitti sér að kennslu amerískra frumbyggja (indjána), með sérdeild fyrir stúlkur. Sem sjá má á myndinni er Sigríður klædd í íslenska búninginn, með gítarinn við hönd, rokkurinn illgreinanlegur á myndinni en allt er þetta huggulega skreytt með bandaríska fánanum.

Eftir lát Sigríðar fékk Þjóðminjasafnið að velja úr silfursafninu til kaups og keypti nokkuð af gripum úr kvenbúningum. Fylgir sögu að suma hafi hún keypt af gullsmiðum sem hefðu fengið þá sem brotasilfur í smíðaefni og hlutirnir séu því margir ekki mjög gamlir. Hvað varð af hannyrðasafninu veit ég ekki nema að fingravettlingar Guðrúnar, móður Sigríðar, eru á Þjóðminjasafninu.

 

Það skýtur dálítið skökku við að nú skuli e.t.v. í bígerð að dubba upp hana Sigríði Magnússon, konu sem virðist hafa prjónað duglega við sannleikann, sveigt hann og teygt á ýmsa vegu eftir því hvernig hann þjónaði best að koma henni sjálfri á framfæri, sem einhverja baráttukonu fyrir kvenréttindum á Íslandi og sérstakan brautryðjanda í kynningu á land og þjóð í útlöndum!

 

 

Heimildir

Bækur:

Aðalsteinn Eiríksson. 1994. Saga skólans. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 89-206. 

Guðrún Borgfjörð. 1947. Minningar. Hlaðbúð, Reykjavík.

Guðrún P. Helgadóttir. 1994. Þóra Melsteð. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 7- 88.

Matthías Jochumsson. 1893. Chicagó-för mín 1893. Prentsmiðja Björns Jónssonar. Akureyri.

Mrs. Alec-Tweedie. A Girl’s Ride in Iceland. 1894 (önnur útgáfa, fyrst gefin út 1889). Horace Cox, Windsor House, Bream’s Buildings, E.C. LONDON.

N. L. van Gruisen.1879.  A Holiday in Iceland. Elliot Stock. London.

Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.” 1894. The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

Sigrún Pálsdóttir. 2010. Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík

Stefán Einarsson. 1933. Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Reykjavík.

Þór Magnússon. 1994. Kvensilfur frá Sigríði Magnússon. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Reykjavík, s. 160.

 

Greinar og fréttir:

Alvi. Slíkt eru kvinnubrögd. Føringatíðindi 1. feb. 1892, s. 2.

Auður Styrkársdóttir. 2012. “Mér fannst ég finna sjálfa mig undireins og ég var laus við landann”. Kvennabaráttan á Íslandi og alþjóðlegt samstarf. Saga. Tímarit Sögufélags L:1, s. 35-77.

Eiríkur Magnússon. [Bréf til ritstjóra]. Heimskringla 9. júní 1894, s. 2

Frá löndum. Heimskringla 24. nóv. 1894, s. 4.

Hafsteinn Pjetursson. Chicago-brjef. III. Lögberg 25. október 1893, s. 1-2.

Jón Þórarinsson. „Frú Sigríður Magnússon, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni.“ [Og meðfylgjandi svar ritstjóra.] Ísafold 2. júní 1894, s. 127-128.

Kvennaskólinn í Vinaminni. Reykvíkingur. 21. janúar 1892, s. 51.

Kvennmenntunarvinur. Kvennaskólinn í Vinaminni. Ísafold 14. nóv. 1896, s. 314.

Páll Melsteð. Frú Sigríður Magnussen, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni. Ísafold 9. maí 1894, s. 97-98.

Sigríðr E. Magnússon. Kvennaskóli í Vina-Minni. Fjallkonan 1. sept. 1891, s. 140.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Ísafold 22. jan. 1910, s. 15.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Frh. Ísafold 2. feb. 1910, s. 24.

Sigríður E. Magnússon. Kvennaskólinn í Vina-Minni. Reykvíkingur. 14. sept. 1891, s. 36.

Sigríður Einarsdóttir [Magnússon]. Svar til sjera Hafsteins Pjeturssonar. Lögberg 20. des. 1893, s. 1.

Úr brjefi frá Chicago 12. ágúst. Ísafold 16. okt. 1893, s. 276.

Þ.P. [Þóra Pjetursdóttir]. Um frú Sigríði Magnússon og sýning íslenzkra hannyrða. Þjóðólfur 9. mars 1894, s. 46-47.

 

Greinar og fréttir í erlendum dagblöðum:

A True Philanthropist. The Davenport Daily Republican 11. nóv. 1890, s. 2.

Educational Echoes. The Reading Times 11. ágúst 1893, s. 2.

For Icelandic Girls. A School Soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

Her Aim for Iceland. Mrs. Magnussen is the object of some sharp criticism. Chicago Daily Tribune 6. des. 1893, s. 6.

Iceland Woman’s Enterprise. Pushed the Sale of Native Woolens to Support a School for Young Girls. The Brooklyn Daily Eagle 26. ágúst 1902, s. 8.

Icelandic Education. Mrs. Magnusson Tells of Her Efforts to Supply a Girls’ High School at Reykjavik. - Something of Icelandic Customs and Costumes. The Brooklyn Daily Eagle 15. nóv. 1896, s. 22.

Schools In Iceland. Mrs. Magnusson’s Reply to the Attack of Mrs. Sharp. The Inter Ocean 17. des. 1893, s. 29.

Women Tailors in Iceland. Wife of an English Professor Establishes a Novel School. Arkansas City Daily Traveler 14. des. 1896.

Wool of Iceland. It Is Finest and Strongest Possible and Is Carded and Spun by Women. The Brooklyn Daily Eagle 18. jan. 1902, s. 10.

 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns

20. apríl 2014

Hún Sigríður … og Eiríkur …

Nú er ég orðin dálítið leið á Sigríði Einarsdóttur Magnússon og hennar familíu, eftir mikinn lestur um það slekti. Og af því ég veit að Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur er að skrifa um þessa konu, áreiðanlega af sagnfræðilegri nákvæmni, ákvað ég að hætta að leika sagnfræðing með tilvísunum í lok hverrar málsgreinar. Þessi færsla er framhald af Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans.

Hvers lags kona var Sigríður?

Sigr�ður Einarsdóttir MagnússonSigríður Einarsdóttir fæddist árið 1831 og var af almúgafólki komin; faðir hennar var „assistent“ (líklega afgreiðslumaður í verslun) og hattamakari (hattagerðarmaður), ættaður úr Skaftafellssýslum. Móðir hennar var ein fjölmargra barna Ólafs Loftssonar, sem hann átti hvert með sinni konunni. Þau endurreistu torfbæinn Brekkubæ í Reykjavík og þar ólst Sigríður upp, ásamt tveimur systrum og einum bróður. Til að drýgja tekjur heimilisins hafði Guðrún, móðir Sigríðar, skólapilta í fæði og var einn þeirra Eiríkur Magnússon. Þannig kynntust þau Sigríður, tókust með þeim ástir og þau trúlofuðu sig 1856, þegar Eiríkur hafði lokið stúdentsprófi 23 ára gamall, og giftust árið eftir.

Sem ung kona var Sigríður vinsæl og hélt uppi stuðinu í henni Reykjavík, a.m.k. meðal skólapilta og menntamanna. Hún var „fjörug og gáfuð, lék á gítar og söng vel … Þá var Brekkubær lítið kot og dálítil stofa eða hús niðri; þar komum við oft saman og var þá glatt á hjalla“, segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl, s. 206 (tilv. í Stefán Einarsson. 1933, s. 13.).

Benedikt Gröndal lék einmitt á móti Sigríði í leikriti sem hét Pakk og var sett upp 1854. Hún var nefnilega fyrsta alvöru leikkonan í Reykjavík, var „hin fyrsta „primadonna“ þessa bæjar, og hafði enda alla tilburði þar til, gáfur, fegurð og glæsileik […]‟.  Í skrá yfir leikendur í Pakk(i?) er Sigríður kölluð Sigga Tipp, sem kannski hefur verið viðurnefni hennar. (L.G. 1939 (2)7, s. 17. og sami 1939 (2)8, s. 5.)

Myndin af Sigríði er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Hvernig breyttist sú fjöruga og skemmtilega Sigga Tipp í braskarann og skrumarann og snobbarann Sigríði Einarsdóttur Magnússon? Til þess að skilja það þarf að skoða hjónaband hennar og athafnasemi eiginmannsins.

Að meika það í útlöndum

Eir�kur Magnússon � CambridgeEiríkur dreif sig í Prestaskólann og lauk námi þaðan 1859, á meðan sá Sigríður að talsverðu leyti fyrir þeim með því að kenna á gítar. Þau eignuðust barn fljótlega eftir giftinguna en það fæddist andvana. (Einhvern tíma síðar eignuðust þau annað barn sem einnig fæddist andvana, eftir það var hjónaband þeirra barnlaust.) (Stefán Einarsson. 1933, s. 15.)

Þau Eiríkur og Sigríður bjuggu í Reykjavík fyrstu fjögur árin eftir að þau giftust. En vorið 1862 fluttu þau til London og við tók mesta basl næstu árin. Eiríkur hafði stopula vinnu og af því hann var ákveðinn í að „meika það“, þ.e.a.s. vera talinn í hópi menntamanna og fína fólksins í Englandi, gat hann ekki einu sinni þegið suma vinnu sem honum þó bauðst því vinnan var ekki nógu fín. (Stefán Einarsson. 1933, s. 80.) Alls konar brask hans næstu árin mistókst yfirleitt. Til að skilja athafnir Sigríðar seinna meir er nauðsynlegt að nefna nokkuð af braski og brambolti Eiríks því líklega fékk hún fyrirmynd að ýmsu þar.

Myndin af Eiríki er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Það varð þeim hjónum til happs að samskipa þeim til Englands vorið 1862 var enskur stúdent, George J. E. Powell, sem hafði ferðast um Ísland um sumarið og hafði óþrjótandi áhuga á öllu því sem íslenskt var (s.s. var í tísku meðal menntamanna á Englandi á Viktoríutímunum; Annars vegar tengdist þetta rómantískum áhuga á fornbókmenntum, hins vegar þótti Ísland exótískt land og þ.a.l. eftirstóknarvert til heimsókna). Hann George Powell reyndist sterkefnaður og fór svo að hann hélt þeim Eiríki og Sigríði uppi í Frakklandi og Þýskalandi á árunum 1864-66. Þar dunduðu þeir sér við orðabókargerð og þýðingar á Þjóðsögum Jóns Árnasonar o.fl. og Eiríkur lærði íslenska málfræði. Orðabókarsmíðinni var sjálfhætt þegar Eiríkur frétti að Guðbrandur Vigfússon væri langt kominn í vinnu við og útgáfu á orðabók Cleasby en þjóðsagnaþýðingin var gefin út.

Þegar rann upp fyrir Eiríki hve auðugur faðir Georges Powell var og að George mundi einn erfa hann hóf hann að tala þennan vin sinn (og framfæranda) inn á að fjármagna háskóla á Íslandi. Um þetta skrifar Eiríkur vini sínum, Jóni Sigurðssyni [forseta] í Kaupmannahöfn, þann 3. júní 1864 og segir m.a.:

Nú ber svo til að faðir vinar míns, … vellauðugur …, er að kveðja veröldina, en sonur hans, einberni tekur við öllum arfinum, 300 jörðum, sem gefa af sér 12-14000 punda á ári. Eg ætla því að treysta á gjaflyndi hans, þegar sá gamli er hrokkinn af klakknum [- - -] Eg býst alls ekki við, að hann gefi alt, er gefa þarf. En ef hann gæfi ört, þá yrði hægra að afla hins með subscribtionum á Englandi ….
(Stefán Einarsson. 1933, s. 40.)

Þessi ágætu plön voru auðvitað háð því að pabbi Georges ræki upp tærnar sem fyrst. En því miður (fyrir Eirík) tórði gamli maðurinn áfram og ekkert varð úr hinni stórfenglegu gjöf/hinum stórfenglegu sníkjum til að fjármagna háskólastofnun á Íslandi.

George PowellHins vegar átti George Powell talsvert eftir af móðurarfi sínum og Eiríki tókst að fá hann til að greiða fyrir Íslandssögu í sex bindum, sem Jón Sigurðsson átti að skrifa. Powell reiddi fram féð, 600 pund, en um þá sagnaritun fór átakanlega svipað og um sagnaritun Akraneskaupstaðar löngu seinna: Jón Sigurðsson þáði launin, Eiríkur fékk 100 pund af þeim, en svo bólaði ekkert á Íslandssögunni. Átta árum seinna reyndi Powell að rukka Jón Sigurðsson um söguna, þ.e. óskaði eftir greinargerð um sagnaritunina. Jón sendi langt afsökunarbréf og tíndi til ýmsar orsakir til tafarinnar, taldi sig t.d. ekki geta byrjað að skrifa af því margt væri enn órannsakað o.s.fr. Eiríkur Magnússon útskýrði málin fyrir Powell, sem gafst upp og gaf eftir féð og Jón Sigurðsson „lánaði“ Eiríki vini sínum 100 pund fyrir viðvikið. (Stefán Einarsson. 1933, s. 50-54.) Og segir ekki meir af vinskap þeirra Eiríks og Powell, raunar virðist hafa slitnað sundur með þeim um það leyti sem móðurarfur Powell tók mjög að eyðast og faðir hans virtist áfram ódrepandi þrátt fyrir ýmsan krankleik.

Myndin til vinstri er af George Powell.

Af öðru sem Eiríkur tók sér fyrir hendur má nefna að beita sér fyrir sölu íslensks fjár til Englands. Árið 1866 hafði hann gert samning annars vegar við kaupmenn á Englandi, hins vegar við bændur á Norður- og Austurlandi um kaup og sölu á íslensku fé; leigði skip, dreif sig til Íslands um haustið og sótti 2174 kindur á Eskifirði. Sjálfsagt hefur þeim verið þétt staflað í skipið. Á bakaleiðinni gerði snarvitlaust veður svo stór hluti fjárins hryggbrotnaði, rotaðist og margbeinbrotnaði; var ýldulyktin úr stíunum orðin hroðaleg þegar skipið nálgaðist Katanes þótt einhverjum skrokkum hafi tekist að kasta útbyrðis. Að auki höfðu menn gert smá mistök sem uppgötvuðust á bakaleiðinni: Það hafði nefnilega  gleymst að gera ráð fyrir nothæfri pumpu til að dæla vatni í skjólur handa skepnunum, svo sjálfsagt drapst eitthvað úr þorsta. Til Newcastle, þangað sem förinni var heitið, komust 1100 fjár lifandi og með lífsmarki, um 1000 fjár hjarnaði við þegar það komst á beit. Ofan á afföllin kom í ljós að féð seldist illa og þær fáu rollur sem seldust voru keyptar fyrir miklu lægra verð en áætlað hafði verið. Tap á sauðasölu Eiríks var því um 1200 pund, sem var gífurlegt fé, enda kallaði hann sjálfur þetta „óhappalega byrjun“ á sauðasölu til Englands. (Stefán Einarsson. 1933, s. 68-74)

Fleira sem Eiríki datt í hug um svipað leyti var að hefja innflutning á málmum frá Íslandi og að gerast námueigandi í Svíþjóð í félagi við sænskan mann; Þeir streðuðu í tvö ár við að fá Breta til fjármagna fyrirtækið en tókst ekki. Hann var meira að segja að hugsa um að flytja aftur til Íslands og sótti um stöðu dómkirkjuprests í Reykjavík sumarið 1871 en fékk ekki. (Stefán Einarsson. 1933, s. 70-71 og 82).

En - svo fékk Eiríkur fasta stöðu bókavarðar í Cambridge snemma vetrar 1871! Á móti honum sóttu 78 manns og Eiríkur hafði enga reynslu af bókasöfnum nema sem viðskiptavinur. Samt fékk hann starfið, líklega af því Oxford hafði þegar fengið Íslending til að vinna þar (Guðbrand Vigfússon) og þá þurfti Cambridge auðvitað líka að geta skartað Íslendingi. (Stefán Einarsson. 1933. s. 125-126).

Eftir það varð lífið tryggara: Fast starf, fastur samastaður og föst laun björguðu miklu þótt þau hjón hafi ævinlega verið skuldug því þau bárust á um efni fram. Það kostaði sitt að vera gestrisin og halda sambandi við fína fólkið sem þau kynntust í Cambridge og víðar. Safnanir og styrkjasnöpun, jafnvel lán, dugðu skammt til að brúa bilið milli tekna og útgjalda. En einhvern veginn skrölti þetta allt saman næstu áratugina.

Það er augljóst að meiki maður það í útlöndum á frægð á Íslandi að fylgja eftir. Þetta lukkaðist nokkuð vel hjá Eiríki Magnússyni bókaverði í Cambridge. Næsta færsla fjallar um hvernig Sigríði gekk í þessum efnum.

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík
L.S. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939.  Liðnir leikarar. Fimmta grein. Vikan 2(8) 23. feb. 1939, s. 5.
L.G. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939. Liðnir leikarar. Fjórða grein. Vikan (2)7, 16. feb. 1939, s. 17.

Ummæli (1) | Óflokkað

18. apríl 2014

Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans

Hér segir af ofurlitlu grúski undanfarið í því skyni að kanna meintan áhuga Viktoríu Bretadrottningar á íslenskum fingravettlingum, sem allt bendir til að sé haganlega tilbúin lygasaga sem hver etur upp eftir öðrum enn þann dag í dag.

Skýringar á áritaðri mynd af Viktoríu drottningu í eigu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon

Á dögunum var ég að lesa Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917, eftir Sigrúnu Pálsdóttur (útg. 2010); að mörgu leyti ágætisbók sem ég hef lesið áður, þótt aðalpersónan sé frekar leiðinleg dekurrófa. En það er ekki efni þessa pistils.

Í miðri Þóru biskups segir af heimsókn hennar til hjónanna Eiríks Magnússonar og Sigríðar Einarsdóttur sem bjuggu í Cambridge. Er húsakynnum þeirra lýst og þ.á.m. segir:

Á miðhæð gestaherbergi og stássstofa eða viðhafnarherbergi þar sem yfir arinhillunni hangir mynd sú af Viktoríu sem drottningin sendi áritaða til Guðrúnar í Brekkubæ sem þakklætisvott fyrir vettlinga sem hún hafði eitt sinn prjónað handa henni og gefið.1

Viktoria EnglandsdrottningÞetta vakti athygli mína því fræg dæmi eru um að breskum hannyrðum hafi verið komið rækilega á framfæri með velvild Viktoríu drottningar og hennar fjölskyldu svo mig langaði að vita meir um þessa íslensku vettlinga sem drottningin var svo þakklát fyrir. Þóra biskups er vönduð heimildaskáldsaga og að sjálfsögðu er vísað í heimild fyrir þessu, sem er Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge eftir Stefán Einarsson.

Í Sögu Eiríks Magnússonar er löng tilvitnun í lýsingu Guðmundar Magnússonar skálds (þ.e. Jóns Trausta) sem heimsótti þau Sigríði og Eirík árið 1904. Jón Trausti sagði m.a. um húsakynni þeirra: „Á arinhillunni þar stendur ljósmynd af Viktoríu drotningu með eiginhandar-áritun hennar, send frú Sigríði.“2 Neðanmáls í sinni bók gerir Stefán Einarsson þessa athugasemd: „Myndin var ekki send Sigríði, heldur Guðrúnu móður hennar, er prjónað hafði drotningunni vetlinga.“3

Enn önnur útgáfa er til um skýringuna á árituðu myndinni af Viktoríu drottningu sem ku hafa staðið á arinhillunni á heimili þeirra Sigríðar og Eiríks í Cambridge, einnig höfð eftir gesti þeirra hjóna. Guðmundur Árnason skrifaði grein um Eirík Magnússon sem birtist árið 1920. Guðmundur segist segist hafa dvalið í Cambridge í tvær vikur árið 1910 og verið daglegur gestur hjá þeim hjónum. Undir lok greinarinnar hrósar hann Sigríði mjög, segir m.a. að hún hafi verið „óþreytandi að útbreiða þekkingu á Íslandi og íslenzkum handiðnaði á Englandi og víðar“ og að hún hafi tekið „drjúgan þátt í kvennfrelsismálinu og ýmsum öðrum framfararmálum“, bætir svo við:

Ýmsir urðu til þess að veita tilraunum hennar eftirtekt og sýna henni viðurkenningu, þar á meðal Victoría drotning, sem sendi henni ljósmynd af sér með eiginhandar kveðju.4

Í VI. Viðauka í Sögu Eiríks Magnússonar segir Stefán Einarsson deili á ættum hans, eiginkonu o.fl. sem honum þótti ekki eiga erindi í meginmál. Þar segir um móður Sigríðar, Guðrúnu Ólafsdóttur í Brekkubæ [kotið stóð þar sem nú stendur Mjóstræti 3] og vettlingana og Viktoríu:

Til merkis um það, hve vel hún vann, má geta þess, að einu sinni kom með Sigríði hirðmær Viktoríu drotningar til Reykjavíkur og fékk fingravettlinga hjá Guðrúnu. En Viktoríu drotningu leist svo vel á vetlingana, að hún pantaði aðra, og er hún fékk þá, sendi hún Guðrúnu mynd af sér með eiginhandar áritun. Þessa mynd geymdi Sigríður eins og menjagrip, en þó hefur týnst. Til eru á Þjóðmenjasafni vetlingar eftir Guðrúnu sem hún fékk verðlaun fyrir.5

Verðlaunvettlingar Guðrúnar ÓlafsdótturGuðrún þessi Ólafsdóttir í Brekkubæ var fædd árið 1805 en ég finn engar heimildir um dánarár hennar. Sigríður dóttir hennar fluttist með sínum manni, Eiríki Magnússyni, til Englands árið 1862 og var dálítill þvælingur á þeim næstu árin en frá 1871 var heimili þeirra í Cambridge. Bæði heimsóttu þau Ísland mjög oft.

Í Þóru biskups segir að Sigríður hafi haustið 1883 tekið þátt í „Iðnssýningunni í Reykjavík“ ásamt Þóru o.fl. og að „Sigríður og Þóra vinna báðar til verðlauna í fyrsta flokki sem gaf pening úr silfri“. 6  Hér er rangt farið með. Í fyrsta lagi hét þessi sýning Iðnaðarsýningin í Reykjavík. Hún stóð dagana 2.-19. ágúst 1883. Vissulega sendu þær Þóra og Sigríður báðar inn málverk á sýninguna7 en einungis Þóra hlaut silfurpening í verðlaun. Sigríður fékk engin verðlaun8. Aftur á móti er það satt sem áður var nefnt að móðir Sigríðar, Guðrún Ólafsdóttir Ormarstöðum, fékk silfurpening fyrir fingravettlinga. (Soffía Einarsdóttir á Ási í Fellum, systir Sigríðar, fékk bronspening fyrir svuntu og Þorvarður Kjerúlf, kvæntur systurdóttur Sigríðar, fékk silfurpening fyrir hnakk sem hann sendi inn en óvíst er hver smíðaði - svo ættin lá svo sem ekki óbætt hjá garði í verðlaunaveitingu þótt Sigríður fengi sjálf engin verðlaun)9. Raunar þótti verðlaunadreifingin fyrir muni á þessari sýningu dálítið einkennileg sem kann að stafa af því að dómnefndin virtist óspör á að hygla sínum vinum og kunningjum umfram aðra.10

Myndin til vinstri er af verðlaunavettlingum Guðrúnar Ólafsdóttur og krækir í upplýsingasíðu um þá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Soff�a og Sigr�ður Einarsdætur og Guðrún Ólafsdóttir

Á myndinni hér að ofan sjást systurnar Soffía Einarsdóttir og Sigríður Einarsdóttir Magnússon og Guðrún Ólafsdóttir móðir þeirra. Fremst á myndinni eru dætur Soffíu, þær Sigríður María Gunnarsson (f. 1885) og Bergljót Sigurðardóttir (f. 1879). Af henni má marka að Guðrún hafi náð háum aldri. Þetta er stækkuð úrklippa úr mynd sem skoða má í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns, og krækir úrklippan í myndasíðuna þar.

Eftir Iðnaðarsýninguna auglýsir Sigríður eftir íslenskum hannyrðum í fyrsta sinn. Er ekki ósennilegt að augu hennar hafi opnast fyrir að hægt væri, með réttri markaðssetningu, að gera þær eftirsóknarverðar í Bretlandi og hafa eitthvað upp úr sér við það. Auglýsing sem hún birti í dagblöðum er dagsett 28. ágúst og hefst þannig:

Í því skyni, að gjöra mitt til þess, að efla íslenzkar hannyrðir einkanlega, og ef til vill fleiri iðnir, og sjer í lagi að gjöra íslenzkan verknað útgengilegan á Englandi, svo að vinnendum yrði sem mestur hagur að, þá hefi eg áformað og gjört talsverðan undirbúning til þess, að sýning geti orðið haldin á slíkum munum í Lundúnaborg að ári komanda, mánuðina maí, júní og júlí. Jeg hefi þegar fengið nokkurar enskar heldri konur, þar á meðal Mrs. Morris, til að ganga í nefnd með mjer til þess að koma upp sjóði, svo fyrirtækinu megi þannig framgengt verða og munirnir fluttir til Englands, sýnendunum að kostnaðarlausu.11

Seinna í auglýsingunni telur hún upp hvers lags hannyrðir sig vanti og eru þar á meðal sokkar, belgvettlingar og fingravettlingar.

Staðhæfingar Sigríðar um Viktoríu drottningu og íslenska fingravettlinga á sýningum hennar á íslenskri handavinnu erlendis

Sigríður Einarsdóttir Magnússon stóð við stóru orðin og kom hannyrðum íslenskra kvenna að á alþjóðlegri heilbrigðissýningu (International Health Exhibition) í London 1884.
Obbinn af tölublaði Þjóðólfs þann 29. nóv. 1884 fjallaði um sýningu Sigríðar og deilur sem af verðlaunaveitingu þar spruttu, undir yfirskriftinni „Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London“. Þessi langa grein er örugglega eftir Eirík Magnússon, eiginmann Sigríðar. Greinin hefst á þýðingu á lofræðu enska hannyrðablaðsins The Queen (sem neðanmáls er sagt „kvennablað og gengr meðal auðfólks og aðals og hefir mikla útbreiðslu“). Í þýðingunni á lofinu segir m.a.: „Okkur voru sýndir þar fingravetlingar af sömu gjörð og þeir voru, sem Drotningu vorri hafa verið sendir að gjöf.“12

Alexandra prinsessa af Wales

Árið 1886 komst Sigríður að með sama dót á Alþjóðlega iðnsýningu í Edinborg en sérstakir verndarar hennar voru Prinsinn og Prinsessan af Wales. Í frétt í The Times segir af því þegar þessir háttsettu verndarar skoðuðu sýninguna og þar á meðal:

The attendant at the Icelandic stand presented the Princess of Wales with a pair of gloves, and her Royal Highness gave an order for a piece of cloth sufficient to make a dress.13

Myndin til hægri er af Alexöndru, prinsessu af Wales, tekin 1881.

Víkur nú sögunni áratug fram í tímann, þegar Sigríði tókst að koma íslenskum hannyrðum (að hluta þeim sömu og hún hafði sýnt árið 1884 og oftar) og íslenskri silfursmíði á Heimssýninguna miklu í Chicago 1893. Í millitíðinni hafði hún komið sér í alls kyns útlendan kvenfélaga-/kvenna-félagsskap, stofnað kvennaskóla í Reykjavík sem aðeins starfaði eitt ár, kynnt Ísland og bág kjör kvenna hér og þar og íslenskt handverk. Í ræðu sem hún flutti á alþjóðlegu kvennaþingi sem haldið var í tengslum við Heimssýninguna sagði hún m.a.:

I think you will agree with me that the work must be good when I tell you that Her Majesty, Queen Victoria, has been wearing the Icelandic gloves for years, the only “woolen” gloves she wears, I am told; also that the work got the highest possible award at the International Health Exhibition in London, 1884, namely, “The Diploma of Honor,” … 14

Þessu sama hélt Sigríður víðar fram í tengslum við heimssýninguna í Chicago, t.d. í viðtali í New York Times: „In discussing the qualities of some woolen gloves shown in the exhibit of her nation “the only glove of the kind which Queen Victoria wears” this representative from Iceland …“15  Og auðvitað rataði sagan í íslensk dagblöð einnig, sjá t.d. þýðingu á frétt úr Chicago Sun í Fjallkonunni haustið 1893: „Í þessari íslenzku sýningu eru hannyrðir kvenna og meyja og þar á meðal fingravetlingar úr ull, samskonar og Victoria drotning og prinsessan af Wales brúkar [svo] sem unna mjög hinum íslenzku hannyrðum.“16

Aftur á móti voru Íslendingar sem sáu muni þá sem Sigríður sýndi í Chicago vægast sagt ekki uppveðraðir og spruttu upp harðar blaðadeilur milli þeirra og Sigríðar í kjölfarið. Þeim verða ekki gerð skil í þessum pistli heldur fingravettlingasagan skoðuð áfram.

Hver var hirðmærin sem kveikti ást Viktoríu drottningar á íslenskum fingravettlingum?

Emily Sarah CathcartBöndin berast að lafði Emily Sarah Cathcart, sem var vissulega hirðmær Viktoríu drottningar.17  (Andlitsmyndin af henni krækir í stærri mynd.) Emily Cathcart kom í fyrsta sinn til Íslands síðsumars árið 1878, í fylgd með Elizabeth Jane Oswald, skoskri konu sem skrifaði seinna bók byggða á þremur Íslandsferðum sínum.18 Það sumar var Sigríður á ferðalagi um Norðurlönd ásamt Eiríki eiginmanni sínum og kom ekki til Íslands.19

Þær Sigríður og lafði Emily voru hins vegar samskipa til Íslands í júlí 1879 og aftur til Englands í septemberbyrjun.20  Sigríður hefur svo eflaust kynnst Emily Cathcart betur gegnum Þóru Pjetursdóttur biskups sumarið 1880 í London21 og sat svo enn seinna með Cathcart í nefnd til að safna fé vegna hörmunga á Íslandi árið 1882.22  En næst kom Sigríður til Íslands árið 1883. Þá var Guðrún Ólafsdóttir, móðir Sigríðar, skráð til heimilis að Ormarstöðum í N-Múlasýslu svo sem fram hefur komið.

Svo eini sénsinn til að sagan ljúfa um Sigríði sem fer með hirðmey Viktoríu drottningar í heimsókn til mömmu sinnar gangi upp er að Sigríður hafi tekið lafði Emily Cathcart með sér að hitta mömmu sumarið 1879 og Guðrún hafi það sumarið sent fingravettlingapar með henni Emily til Viktoríu. Þar með komst Viktoría drottning á bragðið með íslenska fingravettlinga og varð nánast háð þeim ef marka má orð Sigríðar. Á hinn bóginn geta menn spurt sig hversu líklegt það sé að kona eins og Sigríður Einarsdóttir Magnússon hafi dregið með sér hirðmey á fund aldraðrar móður sinnar, hvort Brekkubær (sem var torfbær) hafi þá enn verið uppistandandi og þær hist þar o.s.fr.

Má bæta því við að þetta ekki eina hirðmærin sem Sigríður Einarsdóttir Magnússon og afkomendur í fjölskyldu hennar hafa tengt ættina við því í nýlegri ævisögu Haraldar Níelssonar segir um Soffíu Einarsdóttur, systur Sigríðar:

Soffía hafði dvalið langdvölum í Englandi á vegum systur sinnar og forframast þar í siðum fína fólksins, meðal annars verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.23

 

Niðurstaðan

Engar heimildir aðrar en þessi skemmtilega kúnstbróderaða saga Sigríðar Einarsdóttur Magnússon eru fyrir því að Viktoría drottning eða tengdadóttir hennar, Alexandra prinsessa af Wales, hafi nokkru sinni klæðst íslenskum fingravettlingum. Svo sem rakið er hér að ofan virðist þessi saga vera uppspuni til þess, annars vegar, að varpa ljóma á Sigríði sjálfa og ættingja hennar, hins vegar sem liður í markaðssetningu Sigríðar á íslensku handverki. Sú markaðssetning mistókst.

Það er svo margt í sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon sem er áhugavert og gefur þessari fingravettlingasögu lítið eftir að ég hyggst skrifa fleiri pistla um hana, t.d. um silfursöfnun, -sölu og -sýningar hennar, fyrirlestra á erlendri grundu, kvennaskólann sem hún reyndi að koma á fót í Reykjavík, ferðalög hennar o.fl. Kannski er þó mest spennandi að skoða hvernig Sigríður skapaði glæsilega ímynd af sér úr litlu og hvernig farið er að dusta rykið af þeirri glansmynd nú um stundir, jafnvel bæta enn í gljáann.

 

Heimildir sem vísað er til

1 Sigrún Pálsdóttir. (2010). Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík, s. 108.

2 Guðmundur Magnússon. (1908) Eiríkur Magnússon heim að sækja. Óðinn 3(11), s. 91.

3 Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, s. 317. Stefán skrifaði bókina á árunum 1924-25 og var hans fyrsta verk í heimildasöfnun að fara á fund erfingja þeirra hjóna, Sigríðar Gunnarsson, systurdóttur Sigríðar, og föður hennar. Leiðrétting Stefáns á hverjum Viktoría drottning sendi hina árituðu mynd af sér hlýtur að vera byggð á munnlegum heimildum frá þeim. Sigríður dvaldi hjá Eiríki og Sigríði frá 1906 til þess sem þau áttu ólifað; Eiríkur lést 1913 en Sigríður 1915. Við þetta mætti bæta að það er einkennilegt að einungis áratug eftir lát Sigríðar hafi þessi merkilega áritaða mynd Viktoríu verið glötuð og mikill skaði að - hafi myndin sú verið ekta og sagan sönn.

4 Guðmundur Árnason. (1920). Eiríkur Magnússon. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1). Winnipeg, Maniboba, s. 28-35. Bein tilvitnun er á s. 35 í þessari grein og krækir greinarheitið í þá síðu.

5 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

6 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 125.

7 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 37.

8 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96 eða Fróða 12.09.1883, s. 286-288 og Fróða 09.10.1883, s. 310-312.

9 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96. Guðrún Ólafsdóttir finnst ekki í manntölum eftir 1870. Hún var fædd 1805 og var því hátt á áttræðisaldri þegar hún fékk þessi verðlaun fyrir fingravettlingana. Líklega hefur Brekkubær í Reykjavík þá verið að hruni kominn, jafnvel hruninn (húsið finnst ekki í manntali 1880). Á Ormarstöðum í Fellum, N-Múlasýslu, bjuggu árið 1883 þau Þórvarður Kjerúlf héraðslæknir og kona hans Karólína Kristjana Einarsdóttir, sem lést í desember árið 1883. Karólína var dótturdóttir Guðrúnar svo það er ekki ólíklegt að gamla konan hafi fengið að dvelja hjá henni í ellinni. Skv. manntali 1880 dvaldi á fjölmennu heimili þeirra Þórvarðar og Karólínu Kristjönu María Einarsdóttir, móðir Karólínu og dóttir Guðrúnar, sem þá var orðin ekkja. Í sömu sókn bjó önnur dóttir Guðrúnar á þessum tíma, Soffía Emelía Einarsdóttir, en sú var gift Sigurði Gunnarssyni, prestinum í Ási í Fellum. Þau bjuggu í Ási og á Valþjófsstöðum frá 1879-1894.

10 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 38.

Í Ísafold 22. ágúst 1883, s. 77, segir að dómnefndin hafi verið skipuð „2 frúm úr Reykjavík og 5 alþingismönnum. Það var landshöfðingjafrú Elinborg Thorberg [systir Þóru], amtmannsfrú Kristjana Havstein; Jón Sigurðsson forseti [vinur Eiríks Magnússonar, eiginmanns Sigríðar] , síra Benidikt Kristjánsson, Einar Ásmundsson, Sighvatur Árnason og Tryggvi Gunnarsson [bróðir Kristjönu].“

11 Þjóðólfur 29.09.1883, s. 113.

12 Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London. Þjóðólfur 29. nóv. 1884, s. 181-183. Eftir langa umfjöllun um hannyrðirnar víkur að deilum Sigríðar og dómnefndar þessarar sýningar. Íslenska prjónlesið og hitt dótið fékk nefnilega bara bronsverðlaun og því undi Sigríður ekki! Í bréfaskiptum milli hennar og dómnefndar reyndi nefndin m.a. að verjast með því benda á að „vinnan frá Íslandi hefði dómnefndin eigi getað séð að heyrði undir „Heilsu“ enn það væri þó aðal-atriðið.“ Sigríður féllst nú aldeilis ekki á þau rök og eftir að hafa dengt fleiri bréfum yfir dómnefndina fór hún með sigur af hólmi því aftan við löngu umfjöllunina er bætt við: „skeytt við hraðfrétt dags. 12 nóv. frá hr. E.M.: Íslands hannyrðir hafa fengið beztu verðlaun (heiðrs-diplóma“ (s. 183).

13 The Prince and Princess of Wales in Edinburgh. The Times 15. okt. 1886, s. 6.

14 Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.”. (1894). The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

15 For Icelandic Girls. A School soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

16 Íslenzkir munir á Chigago sýningunni. Fjallkonan 5. sept. 1893, s. 142.

17 Upplýsingar um lafði Emily Sarah Cathcart má m.a. sjá í Strand Magazine nr. 56, ágúst 1895, s. 196-7 og í löngum lista sem afritaður er á umræðuborði, Re: Ladies in waiting to Queen Victoria, má sjá hvaða hlutverki hún gegndi á mismunandi tímum (hversu hátt sett hún var í hirðmeyjafansi drottningar).

18. Oswald, E.J. (1882). By Fell and Fjord; Or, Scenes and Studies in Iceland. W. Blackwood and sons, Edinburgh og London. Emily Sarah Cathcart er getið á s. 108, sem ferðafélaga Oswald um Ísland 1878, en í hinum tveimur Íslandsferðum höfundar, árin 1875 og 1879 var skosk kona, Miss Menzies ferðafélagi hennar.

19 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

20 Sjá Ísafold 4. sept. 1879, s. 88 og Þjóðólf 18. sept. 1879, s. 98.

21 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 110

22 Distress in Iceland. The Times 17. ágúst 1882, s. 5.

23 Pétur Pétursson. (2011). Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haraldar Níelssonar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, s. 104.

Pétur gefur ekki upp neina heimild fyrir þessu svo ætla má að byggt sé á einhverjum sögusögnum sem gengið hafa meðal afkomenda Soffíu (sem var tengdamóðir Haraldar Níelssonar).

Soffía fór til Lundúna til systur sinnar og mágs sama ár og þau komu úr tveggja ára þvælingi um Frakkland og Þýskaland og settust að í London vorið 1866. Hún „dvaldist með þeim eftir það öll árin til 1871“, skrapp með þeim til Íslands það sumarið og var á Íslandi veturinn eftir, fór til þeirra til Cambridge sumarið 1872 en snéri alfarin heim til Íslands vorið 1873, segir Stefán Einarsson. (1933), s. 279. Heimildir Stefáns eru væntanlega eiginmaður Soffíu og dóttir. Það er dálítið einkennilegt að þau hafi ekki upplýst hann um hin tignu tengsl, þ.e.a.s. að Soffía hafi verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga prjóns

14. apríl 2014

Status: Pollýanna, læknar, lygna konan o.fl.

Ég vanræki þetta blogg alveg hroðalega en bæði er það að ég hef aðallega skrifað um hannyrðir upp á síðkastið (fyrir Kvennablaðið) og birti þær færslur á afritsblogginu mínu, harpahreins.com/blogg og svo það að ég hef afskaplega takmarkaða orku.

Þegar maður hefur afskaplega takmarkaða orku, getur t.d. ekki gert/framkvæmt nema brot af því sem ég afkastaði áður en ég veiktist, verður dálítið að velja og hafna. Yfirleitt get ég gert eitt á dag og verð þá að velja hvað þetta eina ætti að vera: fara í labbitúr, spila á pjanófortið, prjóna, lesa eitthvað, skrifa eitthvað, mæta í FEBAN-félagsskapinn, þrífa húsið o.s.fr. Ef ég reyni að gera tvennt borga ég fyrir það með mjög slæmri líðan daginn eftir. Þetta gildir milli þunglyndiskasta. Í þunglyndiskasti get ég ekkert af þessu. Svo þannig séð er skárra að geta þó gert eitthvað eitt á dag heldur en að geta ekkert gert. Samt er ákaflega erfitt að sætta sig við að vera svona mikill aumingi þannig lagað og eina leiðin að hætta að bera saman líf mitt í dag við lífið sem var. Raunar held ég að ég sætti mig aldrei við það að fullu.

Og af því þetta er status hraðskrifaður, þ.e.  skrifaður beint af augum, óskipulagður og óundirbúinn, er fínt að minnast aðeins á Pollýönnu í þessu sambandi. Flestir lífstílshjálparhópar hampa Pollýönnu eins og hvurjum öðrum dýrlingi - ég veit ekki hvað oft ég hef heyrt eða séð frasann “ég ætla að taka Pollýönnu á’etta” eða álíka. Ég held að fólkið sem hampar Pollýönnu hafi alls ekki lesið helv. bókina/bækurnar (þær heita Pollýanna og Pollýanna giftist)!  Ég las bækurnar (ég las reyndar Lestrarfélagið - Lestrarfélag Keldhverfunga? -  eins og það lagði sig, eitt herbergi af bókum sem ég hafði lykil að þegar ég var krakki). Man sæmilega eftir upphafinu í Pollýönnu, þegar hún var krakki einhvers staðar í trúboðsstöð (sennilega í Afríku) og bað heitt til guðs um að í næsta gjafapakka (sem bárust væntanlega frá hjálparsamtökum einhverjum) yrði dúkka. Í næsta pakka voru hækjur. Venjulegur krakki hefði farið að hágrenja. En ekki Pollýanna: Hún ákvað að gleðjast yfir að þurfa ekki að nota hækjurnar og þakkaði guði.

Pollýanna var örugglega með einhverja geðræna veilu miðað við þessa sögu! Hörmuleg fyrirmynd að mínu mati því í restinni af bókunum tveimur er hún önnum kafin við að gleðjast yfir öllum fjandanum sem venjulegt fólk hefði nú bara bölvað yfir. Ég las bækurnar bara einu sinni af því mér blöskraði þessi persóna. Hins vegar las ég Bombí Bitt nokkrum sinnum, Percival Keen og (til að móðga ekki femínista sem gætu slæðst á þessa færslu) þær Beverly Gray og Nancy Drew komplett. Þetta lið var ekki síglöð guðsbörn eins og Pollýanna og söguþráðurinn mun skemmtilegri og uppeldisgildið talsvert meira (sé ég fullorðin). Í Jakobi ærlega kviknaði meira að segja í mömmu hans af vískídrykkju (? var til eitthvað sem hét grogg-drykkja? Man ekki alveg hvað kellíngin drakk en hún brann sumsé til kaldra kola - VIÐBÓT 14/4: Facebook-vinir o.fl. eru sannfærðir um að kerlíngin hafi legið í rommi og er það eflaust rétt hjá þeim). Þetta þótti mér alltaf dálítið merkilegt, mun merkilegra en vera happí-happí yfir að þurfa ekki að nota hækjur þegar mann langaði í dúkku.

Svo nei, ég hef ekki hugsað mér að vera nein helvítis Pollýanna. En af því ég get ekki breytt ástandinu á sjálfri mér þótt það sé grábölvað reyni ég bara að hugsa sem minnst um það. Og gera bara eitt á hverjum degi. Og reyna að slá á helv. samviskusemina sem ég ber eins og klafa, eins og allar konur á mínum aldri, kannski allar konur. Og segja sjálfri mér að kona þurfi ekki að þola allt, umbera allt og yfirhöfuð að slá á klisjunar sem hafðar voru/eru að leiðarljósi í okkar uppeldi.

Fyrir utan að ala sjálfa mig upp í meiri sjálfselsku og minni afköstum hef ég lokið umfangsmiklum læknarúnti sem staðið hefur hátt í tvö ár, þar sem hver vísaði á annan og hver hafði sína skoðun og skýringu og tillögu að læknisráðum en engin skýring reyndist trúleg eða vísindaleg við nánari skoðun og ekkert læknisráðanna virkaði og á endanum sá ég að í rauninni hafði enginn þessi þessara lækna hugmynd um hvað að mér gengi en einungis fyrsti heimilislæknirinn sem ég leitaði til var nógu heiðarlegur til að segja það beint út. Er þetta þó ekki sjaldgæfur kvilli. Svo ég las mér sjálf til. Og er nú að gera síðustu tilraunina með síðasta lyfið sem mögulega gæti virkað á helv. kjálkaverkinn sem plagar mig nótt og dag. Læknar kalla hann ýmsum nöfnum (fer eftir sérgrein hvers og eins) en mér líst best á ódæmigerður andlitsverkur (Atypical facial pain). Á gullöldinni var þetta auðvitað greint sem móðursýki (hystería).

Ég þurfti að fara aftur á lyf, sem mér þótti ömurlegt, t.d. svefnlyf og Rivotril (bensólyf). Mér er hjartanlega sama hvaða skoðanir bloggandi heimilislæknar hafa á notkun svefnlyfja: Ég horfði einfaldlega fram á þá staðreynd að ég yrði að hætta að vinna og verða aftur 100% öryrki ef ég gæti bara sofið 3-4 tíma á nóttunni fyrir sársauka (og krampa - ég veit ekki hvað oft ég hef bitið í tunguna á mér þegar skoltarnir skellast ósjálfrátt saman í krampa). Og eftir að hafa prófað gabapentín, sem reyndist hreint eitur fyrir mig, ákvað ég að hverfa aftur í Rivotril af því ég held sjálf (og þá tilgátu styðja tveir sérfræðilæknar - auðvitað hvorugur geðlæknir) að helv. kjálkaverkirnir séu af skemmd í miðtaugakerfi eftir langvarandi ávísun þessa lyfs (árum saman). Raunar fann ég líka rannsóknir sem styðja að Rivotril virki á svona verki - og fannst af hyggjuvitinu að ef heilinn væri í fokki eftir Rivotril myndi heilinn/miðtaugakerfið kannski aðeins róast við að fá skammt af þessu eitri, sem gekk eftir. Eftir að hafa borið mig saman við annan sjúkling með sama kvilla ákvað ég að gefa Tegretol (gömlu flogaveikilyfi) séns og er að prófa það núna. Það hefur leiðinlegar aukaverkanir sem eru þó hjóm eitt hjá gabapentíni. Vonandi virkar það svo ég geti farið að trappa niður (aftur) Rivotril og svefnlyfjalúsina sem ég tek, þau lyf hafa nefnilega líka slæmar aukaverkanir en gera þó sitt gagn í að slá á verkina og gefa mér kost á að sofa svo ég get stundað mína 25% vinnu, sem er mér ómetanlegt. Og vel að merkja hef ég stjórnað þessari lyfjagjöf sjálf og hyggst í framtíðinni gera slíkt enda hef ég skelfilega reynslu af því að “vera undir læknishendi” þegar kemur að lyfjagjöf og öðrum læknisaðgerðum við þunglyndi.

Inn á milli dunda ég mér við ýmislegt, hef t.d. áhuga á að lesa meira um samband læknis og sjúklings. Áhuginn kviknaði þegar ég las bókina um dr. Charcot og “hysteríudívurnar” hans og núna er ég mest að lesa um það sem David Healy kallar “Stokkhólmsheilkennið” í akkúrat þessu sambandi. Þetta er mjög áhugavert en læknar virðast skíthræddir við að skrifa um þetta nema Healy.

Annað sem ég hef áhuga á akkúrat núna er að rekja sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon (og Eiríks Magnússonar eiginmanns hennar - bókavarðar í Cambridge - í leiðinni). Sigríður var ansi kræf í viðskiptum og ég er mest að skoða hvernig ýmis lygi og hálfsannleikur sem hún hélt fram þróaðist í tímans rás. Þau hjón voru raunar bæði sérfræðingar í að lifa hátt á betli og bónbjörgum, þ.e.a.s. fé sem þau áttu ekki, og minna að mörgu leyti á útrásarvíkingana okkar blessaða. Þetta kostar talsvert grúsk, þ.e.a.s. að finna upplýsingar um Sigríði, en það má finna ótrúlegustu hluti á Vefnum ef maður kann að leita, t.d. komu amrísk og ensk dagblöð frá nítjándu öld sér prýðilega. Svo lendir maður í mjög tímafreku grúski eins og að reyna að finna út hvenær nákvæmlega lágt sett hirðmær Viktoríu drottningar kom til Íslands, þarf að fletta upp í ferðabókum enskum (sem eru sem betur fer aðgengilegar á Vefnum líka), lesa íslenskar heimildir og hafa í huga að flest sem um þessa konu hefur verið sagt er annað hvort haft eftir henni sjálfri eða systurdóttur hennar, reka sig á villur í ritrýndum greinum og fræðilegar skrifuðum bókum íslenskum, leita árangurslaust í gegnum manntöl o.s.fr. Ef vel ætti að vera þyrfti ég að plægja gegnum kirkjubækur og bréfasöfn á Þjóðskjalasafni en því nenni ég ekki enda er þetta hobbí og ég ekki “löggiltur sagnfræðingur” eins og bróðir minn hefur bent mér á. En það hlægir mig að nú sé verið að poppa upp hana Sigríði Einarsdóttur Magnússon sem frumkvöðul kvenréttindabaráttu íslenskra kvenna ;)   Hún hefði hins vegar gert það gott á Wall Street, það er ekki spurning. Því miður var hún uppi á röngum tíma til að geta notið sín til fulls.

Og allt byrjaði þetta út af einni málsgrein um að Viktoría drottning hefði ævinlega gengið í íslenskum fingravettlingum sem móðir Sigríðar þessarar átti að hafa gefið henni … svona getur prjónasaga leitt mann í ýmsar áttir.

En, sem sagt: Eitt í einu, við öryrkjarnir vinnum hægt og takmarkað. Meðan ég er að dúlla mér við hana Sigríði og sitthvað fleira verður dónalega lagið ekki æft á pjanófortið og bóklestur situr á hakanum og ermar bíða hálfprjónaðar o.s.fr. Svona er þetta bara. Og ég er ekkert sérstaklega glöð yfir að vera ekki með krabbamein eða handleggsbrotin á báðum eins og Pollýanna mundi líta á málin.

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf