Færslur maímánaðar 2014

5. maí 2014

Morðynjan, Afneitun og Skiathos

Best að taka fram að þetta er eitt af fáum bloggum dagsins sem fjallar ekki um leka, lekamál eða annað lekatengt.

Í tilefni þess að við systur ætlum að heimsækja Skiathos mjög bráðlega, litla eyju sem er frægust fyrir að Mamma mia er þar kvikmynduð (einnig á næstu eyju, Skopelos), erum við á fullu að undirbúa okkur. Systir hefur gúgglað þær upplýsingar að flugvöllurinn sé ekki fyrir flughrædda og raunar ansi hættulegt að lenda þarna (gott ef er ekki hægt að horfa á YouTube myndband til að magna upp í sér flughræðsluna - ef maður væri flughræddur). Ég gúgglaði síðuna um flugvöllinn líka, til þess eins að komast að því að holdsveikraeyjunni þeirra var fórnað undir flugvöllinn. En það er kannski nóg að hafa skoðað eina svoleiðis, altso Spinalonga.

Og Skiathos fylgja þeir ótvíræðu kostir að þar eru engar rústir, engar mínóskar menningarleifar og yfirleitt fátt sem er eldra en svona fimmtíu-sextíu ára, sem er mikill léttir fyrir konu sem hefur fengið nóg af grískum fornminjum. Þjóðverjar sprengdu nefnilega borgina (Skiathos) í tætlur í síðari heimstyrjöldinni og hún hefur verið endurbyggð frá grunni - ég held að það sé ekki einu sinni feneyskur kastali þarna, sem er vel því ég hef skoðað fleiri svoleiðis en mér er hollt.

Hins vegar bjó frægur rithöfundur á Skiathos alla sína ævi og bar þar beinin. Hann virðist, af upplýsingum Wikipediu og fleiri öruggra heimilda, hafa verið nokkurs konar sambland af Guðrúnu frá Lundi og Jóni Trausta; Skrifaði sem sagt afar vinsælar sögur en var ekki endilega í bókmenntaklíkunni. Þetta var Alexandros Papadiamantis. Fyrstu sögurnar hans birtust neðanmáls í dagblöðum og menn rifu þær í sig, svo fór hann að skrifa smásögur og “langar smásögur” (nóvellur). Virtist ekki koma að sök að Papadiamantis skrifaði á “samræmdri grísku fornri”, lesendur settu það ekki fyrir sig.

Í gærkvöldi las ég eina svona nóvellu eftir hann, í enskri þýðingu (les ekki grísku, kann raunar ekki einu sinni stafrófið ennþá þrátt fyrir að hafa heimsótt grískar eyjar undanfarin níu ár). Hún heitir The Murderess. Ég varð alveg heilluð og las fram á nótt! Sagan gerist á Skiathos og segir af hlutskipti kvenna, sem var ákaflega erfitt. Konurnar sáu um allt, karlarnir voru óttalegar rolur. Í þokkabót var karlaskortur og þurfti að taka alls konar dela fyrir tengdasyni því annað var ekki í boði. Og heimanmundurinn var stöðugt áhyggjuefni; það þurfti að borga ríflega með hverri stúlku sem tókst að gifta. Þetta er afar femínísk saga, sem er doldið merkilegt því hún kom út árið 1902 og hann Papadiamantis var prestsonur, hafði og á yngri árum prófað sig sem munkur á Athos í tæpt ár og hafði þannig séð ekki forsendur dekurfemínista nútímans.

Gömul kona (hún er nú reyndar bara á aldur við mig en slíkt taldist ævagamalt á Skiathos í denn) er búin að fá nóg af þessu volæði og þeim illu örlögum sem stúlkna biðu; sífellt strit, barneignir, umsjá og ábyrgð á búi og börnum o.s.fr. Hún tekur því upp á því að myrða stúlkubörn því hún telur að litlu stúlkurnar séu betur settar sem englar. Sagan er þannig skrifuð að lesandinn hefur fulla samúð með þessari gömlu konu, morðynjunni, og skilur vel gjörðir hennar þótt auðvitað séu barnamorð frekar andstyggileg. Svo endar sagan á vofeiflegan hátt, sem ég upplýsi vitaskuld ekki því mér finnst að sem flestir ættu að lesa þessa bók (sem er bara 120 síðna löng).

Ég treysti á að systir gúggli allt sem gúggla má um þessa pínupons eyju. Sjálf einbeiti ég mér að því að hlaða niður heppilegri grískri tónlist, það er svo ljómandi notalegt að liggja í sólbaði á grískri eyju og hlusta á gríska tónlist í sínum eyrnafíkjum; auk þess getur maður ekki treyst því nema að á akkúrat þessari eyju séu bara spiluð Abba’s Greatest Hits.

Eitt laganna sem ég hef æxlað mér er lag Þeódórakis við texta Giorgos Seferis, Afneitun (Arnisi, stundum kallað Sto perigiali eftir upphafsorðunum). Þetta er eiginlega annar þjóðsöngur Grikkja, a.m.k. þeirra sem vilja ógjarna fasistastjórn á ný. Seferis var andsnúinn grísku herforingjastjórninni og lög Þeórodórakis algerlega bönnuð meðan hún var við völd. Þegar Seferis lést árið 1971 safnaðist mikill mannfjöldi við jarðarförina í Aþenu og brast í söng: Söng bannaða lagið og textann hans Seferis. Manngrúinn var of mikill til að yfirvöld gætu gert nokkurn skapaðan hlut við þessu.

Á Youtube má finna fjölda flytjenda þessa lags en ég bendi sérstaklega á flutning Mariu Farantouri enda hefur hún sérhæft sig í lögum Þeódórakis. Til eru a.m.k. þrjár þýðingar á þessu ljóði, sem er hreint ekki byltingarsinnaður texti en ljómandi fallegt ljóð. Ég enda þessa færslu á að birta þýðingu Atla Harðarsonar á ljóðinu - kannski við systur getum æft flutning lagsins með íslenskum texta áður en við fljúgum á vit sólar og raki og gríska matarins?

Afneitun

Við flæðarmál á feluströndu
fagurhvítri eins og dúfu
þorstinn mjög á miðjum degi
mæddi en vatnið salti blandað.

Þar á ljósan ljóma sandsins
letrað höfðum nafnið hennar,
en frá sænum golan gladdi
og gustur eyddi skrifum þessum.

Ó hve hjartað ákaft barðist,
öndin þreyði full af löngun,
er líf vort tókum tökum – röngum!
og tilverunni út því skiptum.

Ummæli (5) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf