Færslur júnímánaðar 2014
Fimm þúsund konan
Eina konan sem nýtur þess heiðurs að skreyta íslenskan peningaseðil er Ragnheiður Jónsdóttir, annáluð hannyrðakona á sautjándu öld. Þessi pistill fjallar um hana.
Ragnheiður fæddist árið 1646 og var dóttir hjónanna Jóns Arasonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Faðir hennar var prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var sonur Ara í Ögri, sýslumanns sem frægastur er fyrir fjöldamorð á spænskum skipreika sjómönnum hér á landi. Móður Ragnheiðar, Hólmfríðar, er hins vegar einkum minnst fyrir sagnir af því hve tilhaldssöm hún var; hún lét meira að segja flytja inn gylltan lit til að setja í hár sitt!
Ragnheiður var í hópi níu systkina sem upp komust, af tólf fæddum börnum þeirra Jóns og Hólmfríðar. Mörg systkinanna voru annáluð fyrir offitu, t.d. Oddur digri, sem hestar gátu einungis borið 2-3 bæjarleiðir í senn, eða Anna digra, sem þurfti tröppu eða stiga til að komast í söðulinn því enginn treystist til að lyfta henni. Líklega hefur Ragnheiður verið léttari á fæti en þessi systkini hennar.
Fáum sögum fer af Ragnheiði Jónsdóttur fyrr en hún var komin fast að þrítugu. Þá giftist hún Gísla Þorlákssyni, biskupi á Hólum. Gísli hafði átt tvær eiginkonur áður sem létust hvor af annarri, var hann þó aðeins liðlega fertugur þegar þau Ragnheiður voru pússuð saman. Þau Gísli og Ragnheiður voru gift í áratug en þá lést hann. Þau voru barnlaus. Ragnheiður flutti svo að Gröf á Höfðaströnd, í Skagafirði, og bjó þar rausnarbúi í sínu ekkjustandi.
- Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á síðu Þjóðminjasafns Íslands.
Hannyrðir og hannyrðakennsla Ragnheiðar
Talið er að Ragnheiður hafi kennt ungum stúlkum hannyrðir, bæði meðan hún bjó á Hólum og á Gröf. Svo virðist sem hún hafi ávallt haft nokkrar stúlkur í læri. Meðal nemenda hennar var Þorbjörg Magnúsdóttir, bróðurdóttir hennar, en glæsileg útsaumuð rúmábreiða Þorbjargar er varðveitt á Victoria and Albert Museum í Lundúnum.
Þau útsaumsverk sem haldið hafa nafni Ragnheiðar Jónsdóttur á lofti eru altarisklæði og altarisdúkur með brún sem gefin voru Laufáskirkju í Eyjafirði 1694. Neðst á altarisklæðinu er eftirfarandi áletrun: ÞETTA ALTARIS KLÆDE GIEFVR RAGNHEIDVR IONSDOTTER / KIRKIVNNE AD LAVFASE FIRER LEGSTAD SINNAR SÆLV HI / ARTANS MODVR HOLMFRIDAR SIGVURDAR DOTTVR 1694.
- Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.
Aðalmunstrið í altarisklæðinu er saumað með skakkagliti, algengri gamalli útsaumsgerð hérlendis og erlendis. (Hér má sjá úskýringu á skakkagliti og glitsaumi, en vilji menn leita uppplýsinga á Vefnum er enska heitið yfir þetta spor Pattern Darning.) Áttablaðarósir eru og velþekkt munstur víða, sama gildir um brugðninga og fugla á greinum.
- Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.
Það þykir merkilegt að munstrin á mjóu munsturbekkjunum á altarisdúknum og munstrið á altarisbrúninni (brún dúksins sem fellur að altarisklæðinu) eru ekki þekkt í íslenskum sjónabókum og raunar ekki í evrópskum útsaumi nema á enskum stafadúkum frá 17. öld.
- Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.
Þetta rennir stoðum undir að munstrin hafi borist norður til Hóla með enskri kennslukonu sem Þorlákur biskup Skúlason (1597-1656) og kona hans hafi fengið til að kenna einkadóttur sinni, Elínu, kvenlegar listir. Þorlákur var faðir Gísla biskups Þorlákssonar og Elín því mágkona Ragnheiðar. Líklega hefur Ragnheiður fengið svipaðan enskan stafadúk hjá Elínu og talið út munstrið eftir honum.
En svo vikið sé aftur að altarisdúknum sjálfum þá þykir útsaumurinn á letrinu neðst á því afar merkilegur. Letrið er nefnilega saumað með pellsaumi sem sárafá önnur dæmi eru um í íslenskum munum eldri en frá 19. öld. Erlendis nefnist þessi saumgerð oftast flórenskur eða ungverskur saumur. Neðst á þessari síðu er sýnt hvernig sauma skal pellsaum . (Þeir sem hafa áhuga á saumgerðinni gætu notað leitarorðin: Florentine stitch, Hungarian point eða Bargello stitch til að leita fanga á Vefnum.)
Stafrófið hennar Ragnheiðar, teiknað eftir áletrun á altarisdúknum og bætt inn stöfum sem í vantar, má sjá hér ef einhvern langar t.d. að sauma út sinn eigin seðil.
Á Þjóðminjasafninu eru til fjórir búshlutir úr einkaeigu Ragnheiðar og eru allir með fangamarki hennar. Þetta eru trafaöskjur, stóll og tvær fatakistur. Einnig er varðveitt sjónabók (munsturbók) sem talin er hafa verið í hennar eigu. Í sjónabókinni er m.a. teiknað fangamark Ragnheiðar, samandregið R I D (Ragnheiður IonsDottir).
- Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.
Síðustu æviár Ragnheiðar Jónsdóttur
Ragnheiður bjó, sem fyrr sagði, á Gröf á Höfðaströnd eftir lát Gísla Þorlákssonar biskups, eiginmanns hennar. En haustið 1698 giftist hún Einari Þorsteinssyni Hólabiskupi. Ragnheiður stóð þá á fimmtugu en Einar var 63 ára og hafði misst fyrri eiginkonu sína rúmu ári áður. Þrátt fyrir að brúðhjónunum hafi verið flutt langt kvæði á latínu með góðum óskum um langa og gæfuríka framtíð lifði brúðguminn einungis mánuð eftir brúðkaupið.
Ragnheiður sat ekkjuárið á Hólum en flutti síðan aftur að Gröf og bjó þar til æviloka. Hún lést árið 1715 og skorti þá einn vetur í sjötugt.
Seðillinn
Fimm þúsund króna seðillinn var gefinn út árið 1986. Grafísku hönnuðirnir Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fair teiknuðu upphaflega seðilinn og þegar honum var lítillega breytt árið 2003 sá Kristín um það.
Á framhlið seðilsins sést Ragnhildur Jónsdóttir sjálf en einnig fyrri eiginmaður hennar, Gísli biskup, og tvær látnar eiginkonur hans, sem sagt sama fólkið sem sést á málverkinu sem Ragnheiður lét mála í minningu Gísla. Í baksýn er hluti altararisdúksins í Laufáskirkju. Upphæðin, fimm þúsund krónur, er rituð með stafagerðinni á þeim dúk.
Á bakhliðinni sést Ragnhildur sitja í stólnum sínum, haldandi á sjónabókinni sem eignuð er henni. Tvær námsmeyjar hennar eru að skoða fullunnið altarisklæðið sem einnig sést í baksýn. Neðst á myndinni er borðamunstur sem er á ystu brúnum altarisdúksins. Neðst til hægri á seðlinum er nánast lokið við að sauma fangamark Ragnheiðar með pellsaumi/flórentískum saumi.
Það er vel við hæfi að Ragnheiður Jónsdóttir, sem lagði svo mikið af mörkum til að efla listiðnað kvenna á sautjándu öld, skuli skreyta peningaseðil, enn sem komið er ein íslenskra kvenna.
Heimildir auk þeirra sem krækt er í úr texta
Elsa E. Guðjónsson. Skakkaglit. Húsfreyjan 13(4) 1962, s. 27-29.
Elsa E. Guðjónsson. Útsaumsletur Ragnheiðar biskupsfrúar. Húsfreyjan 14(1) 1963, s. 21-24.
Elsa E. Guðjónsson. Altarisdúkur Ara á Sökku. Húsfreyjan 18(4) 1967, s. 21-23.
Elsa E. Guðjónsson. Íslenzk útsaumsheiti og útsaumsgerðir á miðöldum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 69 1972, s. 131-150.
Elsa E. Guðjónsson. Íslensk hannyrðakona á 17. öld. Úr óprentaðri ritgerð. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1990, s. 29-34.
Elsa E. Guðjónsson. Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstjóri Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan 1996, s 119-162.
Elsa. E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Önnur úgáfa, Elsa E Guðjónsson 2003.
Koll, Juby Aleyas. Pattern darning reversible. Sarah’s Hand Embroidery Tutorials. 18. nóv. 2009.
Sigurður Pétursson. Nuptiæ Holanæ. Humanistica Lovaniensia: Journal of Neo-Latin Studies XL 1991. Leuven University Press, s. 336-356.
Sigríður Thorlacius. „Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin“. Nokkrir drættir úr sögu Hólmfríðar Sigurðardóttur frá Vatnsfirði. Tíminn 46(17) 21. jan. 1962, s. 9 og 15.
Þorkell Grímsson. Þrjú fangamörk Ragnheiðar biskupsfrúar. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 82 1985, s. 185-188.
Á sjúklingur að vera hamingjusamur gísl?
Allt frá því ég las Medical Muses eftir Asti Hustvedt, bók sem fjallar um dr. Charcot og hysteríurannsóknir hans á nítjándu öld, hef ég velt dálítið fyrir mér sambandi læknis og sjúklings. Í þeirri bók er hinu fullkomna sambandi slíkra lýst: Með fullkominni samvinnu við sjúklinga sína tókst Charcot að búa til heilt kerfi sjúkdómsgreiningar sem er almennt talið algert kjaftæði og vitleysa nútildags en þótti afar merkileg uppgötvun á sínum tíma. Sjúklingarnir, hysteríudívurnar, léku sjúkdómseinkennin í kerfi Charcot af list og uppskáru athygli, aðdáun og betra atlæti fyrir. Þær voru hamingjusamir gíslar taugalæknis sem var ansi mikið út úr kortinu svo ekki sé kveðið fastar að orði.
Það hafa ekki margir skrifað um þessa hlutverkaskipan læknis og sjúklings. Má þó nefna David Healy (geðlækni, höfund Pharmageddon o.fl. bóka) sem telur lækna vera hamingjusama gísla lyfjafyrirtækja og sjúklinga vera hamingjusama gísla læknanna. Healy kallar þetta Stockholm-heilkennið í þessu sambandi en ég tek mér það bessaleyfi að kalla þetta einfaldlega hamingjusaman gísl.
Læknirinn sem algóður faðir - sjúklingurinn sem hlýðið barn
Í stuttum pistli er ekki tóm til að gera grein fyrir því sem snýr að læknum í gíslingu lyfjafyrirtækja en þegar kemur að sjúklingnum er átt við að sjúklingur vill gjarna gera sínum góða lækni allt til þægðar, er ekki með neitt vesen og minnist ekki á alls konar aukaverkanir af lyfjum eða öðrum læknisráðum sem góði læknirinn ávísaði til að valda honum ekki vonbrigðum. Þessi hlutverkaskipan fellur einkar vel að hugmyndafræði þeirra lækna sem aðhyllast föðurlega læknisfræði: Læknirinn er í hlutverki hins algóða, alvitra föður sem vill sínum sjúklingi hið besta, sjúklingurinn er í hlutverki barnsins sem á að fara möglunarlaust að leiðbeiningum og vera þakklátt fyrir.
Svo tekið sé gamalt en einstaklega lýsandi dæmi af sjúklingi sem gekkst algerlega inn á að vera hamingjusamur gísl læknisins síns má nefna minningargrein um Ólaf Geirsson lækni frá 1965 sem fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum skrifaði. Læknirinn talaði sjúklinginn inn á að fara í þá hræðilegu aðgerð lóbótómíu, sem virkaði auðvitað til engra bóta en sjúklingurinn bar þó engan kala til síns góða læknis:
Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- - -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með því að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.
Er þekking lækna rétthærri þekkingu sjúklings?
Samkvæmt minni eigin reynslu taka sumir læknar það óstinnt upp þegar sjúklingur neitar að vera hamingjusamur gísl þeirra áfram og vill verða sjálfráða manneskja. Bætir ekki úr skák ef sjúklingur fer sjálfur að lesa sér til um eigin krankleik og læknisaðferðir og hafa skoðanir á þessu. Af gömlu embættismannastéttunum eru læknar (sumir) þeir einu sem ríghalda í þá blekkingu að þeir einir hafi aðstöðu til að afla sér þekkingar á sínu sviði og sú þekking gefi þeim vald, jafnvel óskorað vald yfir sjúklingum sínum.
Því verður ekki á móti mælt að sjúklingar eru, enn sem komið er, gíslar svoleiðis lækna. Tökum sem dæmi konu sem veit talsvert meira um vanvirkan skjaldkirtil en venjulegur heimilislæknir og óskar eftir að tilteknir þættir verði mældir í blóðprufu. Konan veit líka auðvitað miklu betur en læknirinn hvernig henni líður. Sú kona gæti lent á föðurlegum lækni sem segir líðan konunnar vera ímyndun eina og neitar að senda beiðni um blóðprufuna af því hann sjálfur álítur, eftir 15 mínútna viðtal, að það sé ekkert að henni og byggir þá skoðun á eldgömlum fræðum og fullvissu um eigið ágæti fram yfir sjúkling. Þessi ímyndaða kona er auðvitað gísl læknisins því hún getur ekki sjálf pantað blóðprufuna, einungis læknar geta það.
Ímyndaða konan getur hins vegar alveg valið hvort hún kærir sig um að vera hamingjusamur gísl, hugsandi með kinnroða til þess hve þreytandi sjúklingur hún hljóti að vera, farandi heim jafnveik og fyrr …
Og vonandi getur ímyndaða konan fengið annan lækni sem er ekki gíslatökumaður.
- Um kenningar David Healy um Stokkhólms-heilkennið meðal lækna og sjúklinga má m.a. lesa í BarMittzva Romba: Dance of the Sugar Plum Fairies, 12. sept. 2012, Mad in America.
- Um lóbótómíu á Íslandi má lesa í samnefndri bloggfærslu minni frá 13. maí 2013.
(Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 12. júní 2014.)
Lífstílssjúkdómavæðingin
Á dögunum las ég á visir.is greinina Berum við ábyrgð á eigin heilsu?, 6. júní 2014, eftir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðing á Heilsustofnun NLFÍ og ritstjóra vefjar stofnunarinnar. Nú hef ég af og til heyrt svipaðan málflutning upp á síðkastið en þessi grein vakti sérstaka athygli mína fyrir það hversu mikill þvættingur er í henni samankominn.
Höfundur greinarinnar segir m.a.:
Það er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur hvers vegna við erum að leita læknis og nýta okkur heilbrigðiskerfið okkar. Mikið af þeim „sjúkdómum“ sem eru að hrjá okkur í dag eru þessir svokölluðu lífsstílssjúkdómar s.s. sykursýki, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis krabbamein, þunglyndi [leturbreyting mín] og stoðkerfisvandamál.
Geir Gunnar bætir svo seinna við: „Hættum að nota heilbrigðiskerfið til að meðhöndla alla þessa lífsstílssjúkdóma og notum það frekar til að lækna okkur af „alvöru“ sjúkdómum sem við ráðum ekki við sjálf með líferni okkar. “1
Ég sakna þess mjög að sjá ekki dæmi um það sem Geir Gunnar telur „alvöru sjúkdóma“ - hverjir gætu það mögulega verið?
Er þunglyndi lífsstílssjúkdómur?
Síðan ég las þessa grein hef ég velt þessu mjög fyrir mér enda hef ég ýmist verið 75% eða 100% öryrki af völdum þunglyndis undanfarin ár. Þunglyndi er algerlega lamandi sjúkdómur eins og þeir sem reynt hafa þekkja vel. Þegar hver dagur snýst aðallega um að komast á fætur og einbeita sér að því að lifa daginn af en kála sér ekki í þunglyndisköstunum því kvölin og myrkrið er svo alltumlykjandi, þegar maður er ólæs, ófær um að horfa á sjónvarp, ófær um að tala, minnið, jafnvægisskynið og tímaskynið og svefninn fokkast gersamlega upp … tja, er furða þótt kona eins og ég velti fyrir mér hvar ég klikkaði í lífsstílnum ef marka má grein Geirs Gunnars?
Er mögulegt að ég éti ekki nógu „hreinan mat“? Solla í Grænum kosti er nýbúin að vara fólk við að margur maturinn sé óhreinn, sá ég í fyrirsögn, en ég nennti ekki að lesa greinina enda hvorki grænmetisæta né holl undir kosher-fæði neins konar. Er þunglyndið refsing guðs fyrir að reykja? Er ég þunglynd af því ég hleyp ekki, lyfti ekki lóðum og fer aldrei í leirbað, ekki einu sinni í skiptiböð? Eða er það skortur á núvitundaræfingum sem veldur helv. sjúkdómnum?
Ég þyrfti að panta tíma hjá Geir Gunnari til að fá leiðbeiningar um hvernig ég gæti étið úr mér þunglyndið eða baðað það úr mér eða íhugað sitjandi á kodda eða eitthvað lífsstíls-, það er ekki spurning!
Og ég er ekki með neitt af hinum sortunum sem hann taldi upp svo rangi lífstíllinn minn hefur einvörðungu valdið helvítis þunglyndinu.
Raunar veit ég ekki til þess að orsakir þunglyndis séu þekktar, eftir umtalsverðan lestur um efnið, hef jafnvel legið yfir fræðilegum greinum og bókum, svo Geir Gunnar lumar á merkilegri uppgötvun þarna.
Úrkynjunarkenningin
Í lok greinar sinnar segir Geir Gunnar:
Við Íslendingar erum afkomendur víkinga og hreystimanna sem settust hér að á þessari köldu eyju í Norður-Atlantshafinu. Tölur WHO benda til þess að við séum á góðri leið með að verða andstæða forfeðra okkar, því þessir lífsstílssjúkdómar sem eru að tröllríða íslensku samfélagi eru ekki að gera okkur að hreystimönnum.
Ég kannast ágætlega við úrkynjunarkenninguna sem skýringu á geðsjúkdómum: Hún var voða mikið í tísku á nítjándu öld og vel fram á þá tuttugustu. Mannakynbætur voru sjálfsögð afleiðing hennar, sem komu fram í geldingum geðsjúkra, þroskaheftra, samkynhneigðra o.fl., þær áttu svo sína gullöld í útrýmingarbúðum nasista. Það kemur svo sem ekki á óvart að einhverjir í Hveragerði aðhyllist einmitt úrkynjunarkenninguna.
Og ég kannast svo sem nokkuð vel við landnámsmenn, verandi íslenskufræðingur með áherslu á miðaldabókmenntir, þ.e.a.s. Íslendingasögur og svoleiðis. Vissulega voru þeir margir víkingar en það má alveg deila um hversu göfugt starf það var: Að brytja niður mann og annan, einkum varnarlaust fólk í útlöndum, konur og börn ekki undanskilin, er ekki sérlega hreystimannlegt, finnst mér. Og sumir þeirra voru gersamlega kolklikk, ég nefni sem dæmi forföður okkar Geirs Gunnars, Egil Skallagrímsson á Borg. Eftir að hafa sett mig dálítið inn í „víkingana og hreystimennin“ sem hér námu land hugga ég mig venjulega við að mínir hvatberar eru ekki frá þeim heldur góðum og gegnum keltneskum og enskum konum (sem kannski voru ekki hreystimenni en þó skömminni skárri en norrænu karlarnir).
Hvað er lífsstílssjúkdómur?
Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta hvaða krankleiki sem er sem rekja má til einhverrar hegðunar í lífinu. Ónýt hné fótboltastráka/fótboltamanna eru tvímælalaust lífsstílssjúkdómur og hann ekki sjaldgæfur. Háfjallaveiki og kafaraveiki líka, beinbrot í vélsleðaslysum, slitin liðbönd af íþróttaiðkun, áverkar í bílslysum o.s.fr.
Á nokkuð að vera að púkka upp á svona sjúklinga því þeir geta jú sjálfum sér um kennt og eru þá ekki með „alvöru sjúkdóma“. Þarf ekki frekar að auka forvarnir gegn fótboltaiðkun og annarri íþróttaiðkun, fjallaklifri, köfun, vélsleðanotkun og að fólk aki bíl um allar trissur?
Af hverju eru lífsstílssjúkdómar í tísku núna?
Ég held að grein Geirs Gunnars næringarfræðings svari þessu prýðilega: Þetta er spurning um í hvað peningarnir eru settir. Sama kemur fram í máli Guðmundar Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, sem getið er í neðanmálsgrein: Setja meiri peninga í forvarnir og þá þarf minni pening í heilsugæslu. Og þá fá alls konar lýðheilsufræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar, einkaþjálfarar, markþjálfar, jógakennarar, eigendur líkamsræktarstöðva og ekki hvað síst Náttúran í Hveragerði meiri pening og geta unað glaðir við sitt.
1 Ég reikna með að Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ sé að bergmála málflutning Guðmundar Löve framkvæmdarstjóra SÍBS, í leiðara nýjasta tölublaðs SÍBS, júní 2014, (sem skartar einmitt ljómandi lekkerri heilsíðuauglýsingu frá Náttúrunni í Hveragerði á fyrstu síðu). Guðmundur Löve segir:
Um níu af tíu dauðsföllum á Íslandi stafa af sjúkdómum sem eru að einhverju leyti á áhrifasviði lífsstíls.
[—]
Samkvæmt tölum WHO úr skýrslunni „Global burden of disease [svo]“ frá 2012, eru stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga [skv. samhenginu er verið að tala um „glötuð góð æviár”] eftirfarandi: stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar - í þessari röð. Ef það kemur einhverjum á óvart að heilsufarsskaðinn sé meiri af völdum stoðkerfisraskana og geðraskana en krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma er mögulega einnig ástæða til að vera hissa á hvaða áhættuþættir vega þyngst: Þar er nefnilega mataræði í efsta sæti, og þar á eftir ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.
Sá hluti Global Burden of Diseases sem varðar Ísland er hér: GBD PROFILE: ICELAND, útg. 2012.
Þar koma áhættuþættirnir fram á s. 3 og eru þeir sömu og Guðmundur telur, en þeir þrír þættir sem vega þyngst í „glötuðum góðum æviárum“ (DALYs) árið 2010 eru verkir í mjóbaki, hjartasjúkdómar og þunglyndi, í þessari röð. (s. 2) Vekur furðu að framkvæmdarstjóri SÍBS hefur ekki rétt eftir skýrslunni en kannski var hann að skoða einhverja allt aðra skýrslu.
Nýir krankleikar á topp-tíu listanum íslenska í „glötuðum góðum æviárum“ árið 2010, samanborið við 1990, eru Alzheimers-sjúkdómur og önnur elliglöp ásamt þunglyndi og langvinnri lungnateppu. (Sjá s. 2. )
Þeim sem finnst gaman að leika sér í tölfræði er bent á þessa gagnvirku útgáfu af skýrslunni sem má stilla á ýmsan máta.
Kettir
Forsíðumyndin er af grískum kettlingum. Allir sem ferðast hafa um grísku eyjarnar kannast við kattafjöld alls staðar: Á veitingastöðum þiggja þeir bita sem falla af diskum gestanna, í bókabúðum og bókasöfnum búa gjarna einn til tveir kettir og á götum og húsasundum er fjöldi gullfallegra grískra katta.
Í þessum pistli verður stiklað á stóru um ýmislegt sem snertir ketti í fortíð og nútíð.
Kettir og guðir
Einna frægust eru tengsl katta við goðmögn í Egyptalandi hinu forna. Hér fyrir neðan er mynd af kattagyðjunni Bastet sem dýrkuð var allt frá þriðju öld fyrir Krists burð. Hún gegndi ýmsum hlutverkum eftir því tímar liðu og sumir telja eitt þeirra hafa verið frjósemi. Bastet var geysivinsæl gyðja. Kettir voru sérstaklega helgaðir henni og smurðir eftir dauðann. Við hlið styttunnar af Bastet er ein fjölmargra kattamúmía sem hafa fundist.
Í norrænni goðatrú eru kettir tengdir frjósemisgyðjunni Freyju því tveir slíkir draga vagninn hennar. Freyja er á sífelldum faraldsfæti því hún leitar stanslaust eiginmanns síns, Óðs, sem skilaði sér ekki heim úr ferðalagi. Og séu menn ekki vel versaðir í goðafræði er þetta skýringin á því að vörumerki sælgætisverksmiðjunnar Freyju er köttur.
- Hægt er að sjá betri mynd af þessum skrautborða á Flickr.com.
Kettir tengjast ekki beinlínis kristinni trú. En óbeinar tengingar má finna, s.s. hluta af skrautborða í hinum frægu Lindisfarne guðspjöllum, sem sést hér til hægri. Handritið er rómað fyrir fegurð og er talið vera frá því um 700. Skrautborðinn með kettinum er í upphafi Lúkasarguðspjalls.
Um öld eftir að munkar á Eynni helgu (Lindisfarne) bjuggu til sitt glæsilega handrit hripaði einsetumunkur á Írlandi hjá sér kvæði um köttinn sinn. Kötturinn hans hét Pangúr Ban, sem gæti þýtt hvítur þófari eða bara hvíti Pangúr. Jón Helgason prófessor þýddi kvæðið um Pangúr Ban og hefst það þannig:
Gömul skipti mín ég man
mörg við fressið Pangúr Ban,
meðan krás í klær hann tók
klausur henti ég af bók.
Allt kvæðið í þýðingu Jóns má lesa í Nýja stúdentablaðinu 26(1) 1962, s. 23.
Kettir í skáldskap
Til er fjöldi þjóðvísna, barnagæla og kvæða um ketti og engin leið að gera slíku skil í svo stuttum pistli. En úr því minnst var á Jón Helgason hér að ofan nefni ég eitt af mínum uppáhaldskvæðum sem hann orti, líklega til síns eigin kattar, sem heitir Á afmæli kattarins. Kvæðið má lesa í heild í Dýraverndaranum 37(8) 1951, s. 60. Þar er m.a. þessi vísa, sem ég veit að margir eru sammála:
Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.
Kettir eru dularfull dýr og láta ekki allt uppi. Þetta vissi skáldið T.S. Eliot og orti kvæði um nöfn katta (sem birtist í Old Possum’s Book of Practical Cats, útg. 1939) . Hver köttur á þrjú nöfn: Eitt hvunndagslegt, sem fólkið hans notar, eitt tignarheiti, sem er einstakt fyrir hvern kött, og loks eitt nafn sem einungis kötturinn sjálfur veit hvert er! Sjáirðu kött í þungum þönkum er hann að hugsa um það nafnið sitt, eða eins og Gísli Ásgeirsson segir í þýðingu sinni á ljóði Eliot:
Þegar þú sérð köttinn sitja í þönkum þungum
þá er hugur hans að dvelja við
sitt heimullega nafn, er hann að hugsa um
hið dularfulla,
ónefnanlega,
óaðfinnanlega, einstaka nafn.
(Alla þýðingu Gísla og frumtexta T.S. Eliot má sjá í færslunni Í tilefni dagsins 30.9.2013 á malbeinid.wordpress.com )
Frægir íslenskir kettir
Hér er líklega rétt að telja auðugasta kött Íslands, köttinn í Hraunsnefi í Norðurárdal. Sá köttur var uppi á seinni hluta nítjándu aldar og þótti svo góður til áheita að á endanum þurfti að fá fjárhaldsmann sem gætti fjárins og ávaxtaði dyggilega það sem kettinum barst.
Peningar og skuldabréf kattarins voru geymd í ágætum kistli (sem ég hef fyrir satt að sé enn til) en einnig voru keyptar jarðir fyrir féð, peningar lánaðir og ær leigðar.
Ekki voru allir ánægðir með vaxandi ríkidæmi kattarins, t.d. áminnti prófasturinn í Stafholti sinn söfnuð fyrir að eyða fé í vesælan kött en vanrækja kirkjur og kristindóm. Ráðsettir bændur nöldruðu á hinn bóginn yfir að Hraunsnefsfólkið væri að skjóta eigum sínum undan skatti í kattarsjóðinn því ekki þótti við hæfi að leggja útsvar eða skatt á köttinn. En þar sem fjárhaldsmenn kattarins voru fyrst hreppstjórinn í sveitinni og svo oddvitinn var ekkert gert í málunum og kötturinn hélt áfram að græða.
Þegar eigandi kattarins, Oddný Þorgilsdóttir, lést árið 1887 fylgdi kötturinn henni til grafar ásamt hennar heimafólki en skilaði sér ekki aftur heim heldur lagðist út. Enginn veit hvað af honum varð.
Ítarlegri söguna af ríkasta ketti á Íslandi má lesa í Nýja tímanum 17(3) 1957, s. 3.
Hér að ofan var tæpt á nokkrum dæmum um menn sem ortu um ketti. Hitt vita færri að uppi á Skaga býr einkar hagmælt læða sem gefur út ljóðabók á hverju ári (hér er krækt í fjórðu útgáfu hennar). Er við hæfi að ljúka þessum pistli með tveimur vísum eftir Jósefínu Dietrich sem sóma sér vel í kvennablaði:
Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.
Þó að fress í fúlu skapi fussi og svei-i
rófu mína loðna og langa
legg ég undir gulan vanga.
Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 7. júní 2014.
Spámennirnir í Botnleysufirði
Ég var að klára Profeterne i Evighedsfjorden eftir Kim Leine. Þessi sögulega skáldsaga hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013 og skv. fregnum stefndi bókaútgáfan Draumsýn að því að gefa út íslenska þýðingu Jóns Halls Stefánssonar í mars á þessu ári en ekkert bólar á henni.
Það hefur tekið mig hátt í mánuð að komast í gegnum bókina, ekki af því hún væri svo leiðinleg heldur af því að þetta er ljót saga og gott að grípa í annað jákvæðara efni samhliða.
Bókin fjallar um norskan mann, Morten Pedersen Falck, sem lærir til prests í Kaupmannahöfn á síðari hluta átjándu aldar, gerist prestur á Grænlandi í nokkur ár, hrökklast til Noregs og þaðan til Kaupmannahafnar og hverfur loks aftur til Grænlands. Talverðu rúmi er eytt í að lýsa lífinu í Kaupmannahöfn, bæði á námsárum Mortens og svo brunanum miklar 1798 sem hann verður vitni að í seinni dvöl sinni í borginni. En hryggjarstykkið í sögunni er frásögnin af Grænlandsárum hans.
Þetta er því nokkurs konar Íslandsklukka sem gerist á Grænlandi. Nú hefur mér alltaf fundist Íslandsklukkan vera heldur kuldaleg bók, flestar persónurnar eru þannig að það er ekki nokkur leið að hafa samúð með þeim: Aumur þjófur af Akranesi, sem lemur sitt heimilisfólk; hofróðan Snæfríður og karríerklifrarinn Arnas eru ekki fólk sem mann langar til að kynnast neitt nánar en af blaðsíðum. Einna helst að gömul móðir Jóns Hreggviðssonar vekji samlíðan margra lesenda … og svo hef ég einlæga samúð með Magnúsi í Bræðratungu en efast um að það hafi verið ætlun höfundar. En þrátt fyrir að aðalpersónur Íslandsklukkunnar séu leiðindalið þá er ákveðin reisn yfir þeim, því verður ekki neitað. Og sagan er fantagóð.
Persónugalleríið í Spámönnunum í Botnleysufirði er þó að mun andstyggilegra en persónur HKL. Aðalpersónan, Morten Falck, er ekki beinlínis illmenni heldur duglaus ræfill sem lætur reka á reiðanum um nánast allt. Enda er niðurstaða hans í bókarlok að það sé best að vera ekkert að reyna að breyta neinu heldur veltast áfram um sem ósjálfbjarga leiksoppur kringumstæðna. Líf hans er að sumu leyti eins og sigling inn Evighedsfjorden en fjörðurinn dregur nafn sitt af því hversu krókóttur og langur hann er: Menn halda æ ofan í æ að nú sjái þeir inn í fjarðarbotninn og að takmarkinu sé náð en það reynist einatt tálsýn því snöggbeygja er á firðinum.
Af og til í allri sögunni veltir Morten Falck fyrir sér tilvitnun í Rousseau: „Mennesket er født frit, og overalt ligger det i lænker!“ [„Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“] en kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu sjálfur í þessum eilífu pælingum. E.t.v. á þessi klifun að segja lesandanum eitthvað og vissulega eru margir í hlekkjum hugarfarsins í þessari sögu, jafnvel raunverulega hlekkjaðir, en kannski síst af öllu Morten sjálfur: Hans óhamingja stafar miklu frekar af skorti á drift og dug (og of mikilli brennivínsdrykkju) en hlekkjum samfélagsins, a.m.k. ef ævi hans er skoðuð í heild.
Nær allir Danir í sögunni eru illmenni: rasistar, gróðapungar, jafnvel sadistar. Má ekki á milli sjá hvor er verri: Danski kaupmaðurinn í Sukkertoppen [Maniitsoq] eða danski kynferðisafbrotapresturinn í Holsteinsborg [Sisimut]! Sóðaskapnum í Kaupmannahöfn þessa tíma er lýst í smáatriðum, sama gildir um lýsingarnar frá Grænlandi. Væri gaman að telja hversu oft lús og óþef ber á góma í þessari bók.
Þeir sem hafa einhverjar hugsjónir og mætti telja ærlegt fólk eru Grænlendingarnir, ekki hvað síst trúsöfnuður Maríu Magdalenu og Habakuks, sem hefur aðsetur lengst inni í Evighedsfjorden [Kangerlussuatsiaq], allt þar til þeir dönsku ráðast á byggð þeirra, eyðileggja hús og kirkju og stugga íbúunum á brott. Raunar eru þeir hálfdönsku, bastarðar dönsku karlanna og grænlenskra kvenna, einnig almennilegt fólk upp til hópa en eiga erfitt uppdráttar því hvorki Danir né Grænlendingarnir samþykkja þá svo þeir eru eins konar paríar í samfélaginu.
Höfundurinn, Kim Leine, á nokkuð skrautlega fortíð, m.a. uppeldi hjá Vottum Jehóva og verandi læknadópisti um tíma. Hann hefur sjálfsagt víða leitað fanga um efniviðinn en nefnir í eftirmála að á Vefnum sé grein eftir Mads Lidegaard um Mariu Magdalenu og Habakuk sem hafi nýst sér vel. Ég las greinina eftir að hafa lesið bókina, hún heitir einmitt Profeterne i Evighedsfjorden og birtist í Tidsskriftet Grønland 1986. Satt best að segja virðist Kim Leine hafa gjörnýtt grein Lidegaard og hefði ekki verið úr vegi að tiltaka titil og vefslóð í tilefni þess, í eftirmálanum.
Sem sagt: Þetta er verulega ljót og andstyggileg saga. En hún er einkennilega heillandi eigi að síður svo ég mæli eindregið með henni. Hvað sem má um efnið segja er kristaltært að Kim Leine kann að segja góða sögu!
Myndin við færsluna er af kápu norsku þýðingarinnar. Lýsnar eru upphleyptar Hér er færsla um pælingarnar í hvernig bókarkápa yrði best. Að mínu mati hefur Norðmönnum tekist að gera miklu meir lýsandi umbúðir um þessa sögu en Dönum. Verður spennandi að sjá hvernig gripurinn lítur út á íslensku … ef tekst að koma þýðingunni út.
Áunninn athyglisbrestur
Þegar yngri sonurinn hóf háskólanám lýsti hann því blákalt yfir hann væri haldinn áunnum athyglisbresti. Ég efast um að til sé kóðanúmer fyrir þessa röskun í ICD-10 eða DSM 5 en drengurinn útskýrði röskunina á þá leið að hann væri orðinn svo háður því að brúka snjallsíma og fartölvur að hann gæti ekki lesið langa texta. Sem þarf þá maður stundar háskólanám. (Raunar kom mér á óvart að hann skyldi hafa sloppið gegnum framhaldsskóla án þess að lesa bók en það er annar handleggur - ég kenndi honum ekki sjálf.)
Mér hefur oft orðið hugsað til þessa krankleika síðan og verð æ vissari um að mjög margt ungt fólk sé haldið áunnum athyglisbresti, er raunar ekki frá því að sjálf hafi ég snert af kvillanum öðru hvoru og er þó öfugu megin við miðaldra.
Þegar fólk venur sig á að vera sífellt að tékka á Facebook, fylgjast með sleitulausu tísti á Twitter, hlusta á meðan á tónlist í sínum eyrnafíkjum, senda eina og eina mynd á Instagram, kíkja á fyndin myndbönd á YouTube, skanna fyrirsagnir með tröllaletri á helstu slúður-vefmiðlum til að missa nú ekki af neinu og vera í leiðinni að læra með hjálp Google og skima vefsíður í stað þess að lesa þær … tja slíkt ýtir ekki beinlínis undir hæfileikann til að sökkva sér ofan í eitthvert sæmilega bitastætt efni, jafnvel torskilinn texta eða torskilda stærðfræði.
Allir kennarar kannast við hve erfitt er að fá nemendur til að leggja frá sér ástkæru snjallsímana sína í kennslustundum: Það er eins og verið sé að slíta úr þeim hjartað að heimta að síminn sé settur ofan í tösku! Og þetta er svo sem skiljanlegt: Í heilli kennslustund gæti nemandinn misst af alls konar SMS-um, spennandi Fb. skilaboðum, ógeðslega fyndnum Snapchat myndum o.s.fr. Á meðan er kannski kennarinn með hundleiðinlega glærusýningu, kannski fimmta PowerPoint sjóið sem nemandi sér þann daginn, og glærusýningin verður hvort sem er sett inn á innrakerfið og kennarinn mun hvort sem leggja glósur úr öllu námsefninu inn á sama kerfi og þetta mun hvort sem duga til að hraðlæra nógu vel nóttina fyrir prófið til að ná því: Svo til hvers að lesa bókina? Og af hverju má maður ekki hafa símann sinn við höndina?
Lausn frelsaðra frumkvöðla í skólakerfinu nú til dags er að „koma til móts við nemendur nútímans‟, þ.e.a.s. útbúa kennsluefnið á YouTube, niðursjóða námsefnið í æ styttri glósur á tölvutæku formi eða hraðendursagnir á einhverju menningarlegu, s.s. leikritum Shakespeare eða Njálu, afhenda grunnskólakrökkum I-pad og hvetja til að leikskólabörn brúki þess háttar græju líka, þykir gott ef þau byrja tveggja ára eða yngri.
Flottar skýrslur um að þetta auki sjálfstæði í námi birtast; þegar frændur vorir Danir eru uggandi yfir hve I-pad tilraunakrakkarnir þeirra mælast með allt niðrum sig í Pisa benda Íslendingar kokhraustir á að Pisa-prófin mæli einfaldlega ekki réttu hlutina og halda ótrauðir áfram á sinni snjallbraut, með snjallsíma og snjalltölvur. Og því er flaggað að kennarar sem ætlast til að nemendur lesi eða reikni eða læri í kennslustundum séu gamaldags einstefnumiðlarar sem séu löngu dottnir úr móð án þess að fatta það sjálfir. Þeir kennarar sem ætlast til heimanáms eru nátttröll.
Árangurinn af öllu þessu snjalla og netvædda er að krakkar læra snifsi hér og snifsi þar en hafa engan grunn til að standa á, ekkert bitastætt til að tengja við, þekkingarmolarnir svífa í lausu lofti.
Og þegar þeir loksins komast ekki hjá því að lesa heila bók uppgötva þeir sér til skelfingar að þeir eru komnir með áunninn athyglisbrest: Texti sem er lengri en ein skjáfylli verður þeim ofviða.
Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu þann 31. maí 2014.