Færslur frá 30. júlí 2014

30. júlí 2014

Hjarðhegðun og sauðsháttur

Þessi færsla fjallar um hvernig teyma má ótrúlegan fjölda lesenda netmiðla til að trúa ótrúlegum staðhæfingum og hve sú lesendahjörð virðist í rauninni algerlega gagnrýnilaus í þeim skilningi að fáir nenna að kynna sér mál áður en þeir skrifa stóryrtar yfirlýsingar og hve fáir virðast færir um að spyrja gagnrýninna spurninga.

Ég tek hér dæmi netstorminn kringum meinta illa sólarkísiliðju á Grundartanga. Kvennablaðið birti samsuðu undir fyrirsögninni Stórslys í uppsiglingu í Hvalfirðinum? þann 25. júlí sl. Þegar þetta er skrifað hafa 6.112 manns lækað grein Kvennablaðsins og við hana hafa verið skrifuð 81 ummæli, flest í sama dúr, sem er eitthvað um helvítis stóriðju sem er einungis komið á fót til að gjörspilla hinu fagra Íslandi eða jafnvel leggja hluta þess í eyði.

Kveikjan að grein Kvennablaðisins var bloggfærsla eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar SILICOR þýðir meiri mengun á Grundartanga frá 18. júlí. Þar heldur Haraldur því fram að Silicor vilji svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku, framleiðslan sé þvílíkt svínarí og eiturbras með sílikon tetraklóríð til að hreinsa sílíkonið að hún sé yfileitt höfð í Kína en ekki leyfð í Bandaríkjunum. Það virðist algerlega hafa farið framhjá Kvennablaðinu að tvær fyrstu athugasemdirnar sem skrifaðar eru samdægurs við blogg Haraldar leiðrétta aðalatriðið í málflutningi hans, þar af er önnur skrifuð af virtum verkfræðingi.

Haraldur á lögheimili í Bandaríkjunum þótt hann dvelji stundum hérlendis, einkum í Stykkishólmi. Fréttir héðan kunna því að fara fram hjá honum, t.d. les hann sennilega ekki Skessuhornið, blað Vestlendinga. Það ágæta blað birti ítarlega fréttaskýringu um þessa sólarkísilverksmiðju í maílok og má sjá bút úr henni á vefútgáfu blaðsins, Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga, 27. maí 2014. Í vefútgáfunni segir m.a. „Þá er framleiðsla kísilsins sérstök að því leyti að efnið er hreinsað með bræddu áli og það selt til framleiðenda sólarrafhlaða.“ Í frétt sama blaðs daginn eftir segir:„Hér er um afar vistvæna stóriðju að ræða en til marks um það þarf ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar.“

Allt fer þetta fram hjá Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi og einnig fremur ítarleg veffrétt Skessuhorns þann 16. júlí, Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga,  þar sem enn og aftur er ítrekað að efnið verði hreinsað með bræddu áli.

Ég læt sosum vera þótt einstaklingur búsettur í útlöndum fylgist ekki sérlega vel með og fari með fleipur um fyrirhugaðan iðnað á Íslandi á sínu einkabloggi. Öðru máli gegnir um vefmiðil sem nennir ekki að kynna sér mál heldur lepur upp vitleysuna af þessu einkabloggi með stríðsfyrirsögn sem boðar stórslys og kyndir síðan undir dómadagsspár og hneykslan hjarðarinnar í umræðuþræðinum fyrir neðan!

Það þarf svo varla að taka fram að DV hoppaði á vagninn og sauð sitt eigið sull úr bloggi Haraldar með hliðsjón af grein Kvennablaðsins og varð málið æ meir krassandi og fjúkandi reiður hópurinn virkra í athugasemdum enn stærri og enn verr að sér.

Kvennablaðið hefur síðan „fylgt málinu eftir” með pistlinum Hvað er sannleikur? sem birtist 28. júlí. Í þeirri grein er dregið nokkuð í land en þó ekki: „Almenningi til málsbóta má taka fram að upplýsingar um fyrirhugað fyrirtæki hafa ekki verið kynntar á áberandi hátt.“ Nú hefur þeim almenningi sem málið varðar, þ.e. íbúum á svæðinu þar sem sólarkísiliðjan rís (raunar öllum þeim landsmönnum sem nenna að fylgjast með) verið kynntar þessar upplýsingar á áberandi hátt eins og ég hef rakið hér að ofan. Er þessi meinti almenningur hjörðin sem lækar umhugsunarlaust eða gargar fávís í athugasemdum? Það hefði líklega kostað Kvennablaðið símtal, jafnvel tvö símtöl (t.d. við sveitarstjóra í Hvalfjarðarsveit, bæjarstjóra á Akranesi eða forstöðumann Faxaflóahafna) að fá þessar upplýsingar hratt og vel áður en dómadagsspáin vinsæla var skrifuð. Gúgull svarar nefnilega ekki öllum spurningum, sérstaklega ekki ef menn ætla að skrifa krassandi fréttskýringu og dettur ekki einu sinni í hug að leita í netmiðli landshlutans sem um er rætt.

Nú, restin af Hvað er sannleikur? eru nokkrar beinar tilvitnanir í plögg sem Gúgull hefur væntanlega fundið og spurningar inn á milli, sumar heldur einfeldningslegar að mínu mati, og loks beiðni um að einhver skrifi efnafræðilegar skýringar á mannamáli fyrir lesendur Kvennablaðsins.

Það hefur einmitt þegar verið gert, sjá í grein Þorsteins Inga Sigfússonar, prófessors og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún heitir Komu Silicor til landsins ber að fagna sem miklu skrefi í átt til framfara og er dagsett 29. júlí 2014.

En ég reikna ekki með að hjörðin hafi nokkurn áhuga á grein sem er til einungis skýringar og heldur jákvæð; Þar eru engar upphrópanir, ekkert krassandi, engar heimsósómapælingar!

Enda hafa bara 169 lækað grein Kvennablaðsins, Hvað er sannleikur?, og enginn nennt að skrifa athugasemd við hana. Líklega verða lækin langt undir hundrað þegar sannleikurinn loksins birtist.

Ummæli (5) | Óflokkað