Færslur undir „Ættin“

19. febrúar 2010
22. september 2009

Dýrseldar einokunarkerlingar í þjóðbúningabransa!

Tæpast hefur farið fram hjá dyggum lesendum mínum að ég erfði þjóðbúninga á afmælinu mínu og hef verið afskaplega upptekin af því að skoða, lesa mér til o.s.fr. og yfir mig glöð og hreykin yfir að hafa eignast þessar gersemar!

Í ljós hefur komið að mig vantar blússu, öllu heldur skyrtu, við upphlutinn. Ég hélt að það væri nú ekki mikið mál, þetta er óskaplega einföld flík (skv. sniðum og myndum í bók Fríðar Ólafsdóttur, Íslenskur búningur. Upphlutur á 20. öld, sem kom út 1994). Svo ég hringdi í Heimilisiðnaðarfélag Íslands sem gaf mér samband við Þjóðbúningastofu. Þar sagðist ung kona geta selt mér gamla upphlutsskyrtu úr bómull, eilítið farna að gulna, á 10.000 kr. Ég spurði hvað ný skyrta myndi þá kosta. Hana þarf að sérsauma, sagði stúlkan, og kostar það 28.000 kr. fyrir utan efni. Ég fór að flissa og spurði hvort þær væru virkilega að handsauma þessar einföldu skyrtur - já, sagði stúlkan, hluti er handsaumaður. Ég sagðist ekki sjá að það væri mikið verk að rigga upp einni svona skyrtu. Jú, það er heilmikið verk, sagði Þjóðbúningastofustúlkan; sjálf sauma ég nokkrar á dag. (!!) Breytti svo “á viku” þegar ég hló illkvittnislega.

Svo hringdi ég í annað “Þjóðbúninga”eitthvað í símaskránni og komst að því að Þjóðbúningastofan Nálaraugað selur skyrtusaum á 30.000, fyrir utan efni og Þjóðbúningafatagerð Sólveigar selur sama á 21.000 + skattur + efni.

Þetta er náttúrlega hreinasta brjálæði og helvítis okur!  Þetta félag, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, “… fær styrki til rekstrar skólans frá ríki og Reykjavíkurborg en að öðru leyti er starfsemi félagsins fjármögnuð með framlögum og sjálfboðaliðsvinnu félagsmanna.” 

Félagið rekur verslun og þjónustudeild: ”Þjónustudeildin er eini aðilinn sem selur allt til þjóðbúningagerðar og veitir ítarlegar upplýsingar um búninga.” ”Félagið rekur Heimilisiðnaðarskólann sem skipuleggur markvisst nám í mörgum greinum heimilisiðnaðar, handmennta og lista.” 

Sem sagt: Nokkrar kerlingar hafa ákveðið hvernig íslenskur þjóðbúningur á að vera (sbr. Þjóðbúningaráð, sem er einhvern veginn tengt Heimilisiðnaðarfélaginu). Þær einoka efnissölu, ef einhver vildi nú gera eitthvað á eigin spýtur, þær gæta þess að ekki sé hægt að labba út í búð og kaupa sér peysuföt heldur verður að sauma sjálf á þeirra námskeiðum eða láta sauma á sig á svipuðu verði og skaðabætur þær sem Hafliði nokkur Másson hlaut um árið!

Sem dæmi um námskeið má taka þetta:

Þjóðbúningur kvenna – upphlutur eða peysuföt
Saumaður er upphlutur eða peysuföt.
Kennari: Jófríður Benediktsdóttir
Fjöldi kennslustunda: 50 (11 skipti)
Tími: Miðvikud. kl. 19-22, 16. sep.- 2. des. Fyrsti tími verður máltaka og mátun.  Annar tími 30. sep. og síðan vikulega.
Námskeiðsgjald kr. 79.500. Efni ekki innifalið. Nemendur mæta með saumavél og áhöld.”

Til samanburðar má taka námskeið sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands auglýsir í nýjasta bæklingi sínum, s. 7:

Þjóðbúningagerð

Á námskeiðinu munu þátttakendur sauma þjóðbúning.

Grundaskóli Akranesi Mán. 28. sept - 7. des. kl. 18:30 - 21.30 Leiðbeinandi Una Løvdal klæðskeri.Verð: 39.900.

Einokunarfélagið / Heimilisiðnaðarfélag Íslands, kennir 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á samskonar námskeið, 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Munurinn er sá að lærði klæðskerinn á Skaganum tekur um helmingi minna fyrir kennsluna en Jófríður sú sem kennir fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands (og vill auk þess svo skemmtilega til að sama Jófríður á einmitt Saumastofuna Nálaraugað, sem metur skyrtusaum á sama prís og Heimilisiðnaðarfélagið …) Gæti munurinn legið í útlendu eftirnafni? Eða í því að Una Løvdal virðist ekkert tengd einokunarkerlingunum í Heimilisiðnaðarfélaginu og ekki einokunarsaumastofunum sem virðast einhvern veginn vera á hægra brjósti sama Heimilisiðnaðarfélags?

Markmið einokunarkvennanna er þetta: “Félagið vinnur að því að viðhalda þjóðlegum íslenskum heimilisiðnaði, auka hann og efla og stuðla að vöndun hans og fegurð. Einnig að vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfa kröfum nýs tíma en hafa rót sína í hinum gamla og þjóðlega menningararfi.”

Þetta með “stuðla að vöndun og fegurð” er út í hött meðan félagið hefur einungis nokkra samþykkta, staðlaða búninga á sinni stefnuskrá (miðað við lestur bloggynju á Hugi og hönd, tímariti þeirra, frá upphafi) meðan hreinasta anarkí ríkti í íslenskum þjóðbúningum áður fyrr. Það er ekki fyrr en með Sigurði málara, homma sem dó úr vesöld, sem einhver samræming kemst á, a.m.k. í skatteruðum hrútaberjamunstrum og skautbúningi, fyrir um einni og hálfri öld.  Ég reikna fastlega með að vönduð og fögur upphlutsskyrta eigi að vera hvít eða ljós og í stíl við svuntu, þótt svoleiðis skyrtur hafi verið alla vega á litinn úr alla vega efni uns stílistinn Sigurður og seinna Heimilisiðnarafélagið fann upp sitt samræmda göngulag fornt í þeim efnum! (Um þetta dugir að skoða Til gagns og fegurðar eftir Æsu Sigurjónsdóttur og fyrrnefnda bók Fríðar Ólafsdóttur um íslenska upphlutinn.)

Einokunin og stjórnsemin beinist einungis að konum því engum heilvita manni dettur í hug að klæðast samþykktum íslenskum þjóðbúningi, sem sést á þessu frímerki hér til hliðar. En einhverja karl-kúnna fá þær Heimilisiðnaðarkonur e.t.v. inn á milli.  

Hvað er svo til ráða? Ég myndi fagna því ef þeir góðu Bónusfeðgar létu sauma peysuföt, upphluti og gamla faldbúninginn í útlöndum, baldýra og skattera í tölvustýrðum saumavélum og sauma úr efnum sem þvola þvott í vél! Silfurvíravirki fékkst í Búlgaríu fyrir áratugum fyrir algert slikk og er væntanlega hobbí eða ferðamannaiðnaður þeirra þar austur frá.  Svoleiðis að milludótið og víravirkið ætti ekki að vera vandamál. Og mundi stokkabelti úr gylltu áli ekki gera sig vel? Það væri a.m.k. heldur léttara að bera og félli tæpast á það! Ef einhver tæki sig til og léti framleiða litskrúðugri og miklu ódýrari dress væri kannski séns á að þau yrðu þjóðbúningur en ekki rándýrir safngripir eins og núna.

Fljótlega ætla ég í HM og kaupa mér ljómandi fallega mussu, sem virðist vera orkeruð að ofan, hafa hana hvíta eða ljósa og vonast til að hægt sé að punta hana með ermahnöppum (ekki að það sé sáluhjálparatriði). Gangi hún ekki tékka ég á Hagkaup. Í ítrustu neyð væri hægt að kaupa eitthvert lekkert gardínuefni eða sængurverasett í Rúmfatalagernum, með huggulegri brókaði eða damaskáferð og sauma helv. skyrtuna sjálf; því þótt ég kunni á þessari stundu ekki að þræða saumavél get ég ekki séð annað en verkið sé álíka erfitt og að sauma öskupoka, miðað við upplýsingar frá öðrum en Heimilisiðnaðarfélaginu!

E.S. Voru það ekki kerlingarnar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands sem supu hveljur og vígbjuggust þegar Stuðmenn létu prenta hvíta boli með upphlutsmynd framan á?  Gott ef sú framleiðsla var ekki bara stöðvuð! - annars man ég þetta ekki svo naujið.

Og voru það ekki einmitt þær líka sem urðu hysterískar þegar Reykjavik Grapevine birti mynd af blökkukonu í skautbúningi Kvenfélags Laugdæla, árið 2004? (Litla myndin krækir í stærri og fegurri útgáfu.)

Ummæli (12) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

13. september 2009

Ammæli!

Fyrirsögnin er sérstaklega stafsett fyrir kverúlanta sem pirrast yfir því sem annað fólk skrifar og einnegin hvernig annað fólk skrifar ;)

Í gær var sumsé haldið upp á afmælið mitt í faðmi fjölskyldanna (minnar og tengda-).  Þetta er nú þó nokkur fjöldi sé allt talið! Sem afmælis”barn” þurfti ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, hvað þá dýfa hendi í kalt vatn eða sjá um veitingar, einna helst að vera almennileg við gestina. Drengbarnið, sem ég verð að fara að kalla eitthvað annað því nú er þetta drengbarn orðið hæst heimilisfólks, blés upp nokkrar blöðrur en gerði lítið annað en frumburðurinn og maðurinn stóðu í ströngu. (Frumburðurinn er með rosasterk lungu eftir öll sín miklu hlaup svo hann var blöðrumeistarinn enda voru þessar blöðrur með afbrigðum stífar!)

Þeir feðgar grilluðu og grilluðu glás af souvlaki-pinnum, með kjúklingi eða fiski eftir því hvað fólk lysti að láta í sig … inni á borðum var svo risabaunasalat, kartöflusalat, tzatziki o.fl. Pulsur voru og hafðar, fyrir yngstu kynslóðina.

Mesta furða hvað tókst að þjappa mannskapnum í sæti, miðað við gólfpláss og stólaeign, og ég held að fólki hafi bara þótt þetta ágætis brönsj og sammenkomst.

Ég fékk margar afar glæsilegar gjafir, sem ég er ekkert að telja hér upp. Þó má nefna að ég varð gjörsamlega paff yfir einum pakkanum! Mamma færði mér nefnilega peysuföt og upphlut ömmu og sagði að þetta skyldi ég erfa (enda er ég sú systranna sem kemst helst í þetta - sorrí Ragna og Freyja!). Þetta kom mér fullkomlega á óvart og ég er feikilega glöð og ánægð að eignast þennan fjársjóð (og mun lána í ættinni ef þarf).   Við vorum lengi í gærkvöldi að skoða gersemarnar, stokkabeltið, millurnar, pilsið … jú neim itt.  Meira að segja hárnet og hanskar fylgja. Manninum tókst að klæða mig í upphlutinn og ég sá að ekki mundi veita af stúlku í að klæða mig í svona flókin föt. Maðurinn vill líka endilega að ég mæti í dressinu í vinnuna á morgun, t.d. í peysufötunum, með stífað brjóst og orkeraðar ermar … en ég held að krakkaskinnin yrðu kannski hrædd að sjá mig svo svartklædda, auk þess sem ég er ekki enn búin að fatta hvernig mér tekst að láta skotthúfuna tolla ef hreyfir vind eða ef ég hreyfi mig. En í dag hef ég stúderað nøje vefsíðuna buningurinn.is og hyggst leita mér fyllri upplýsinga um leið og ég kemst á almennilegt bókasafn!

Ætli ég verði ekki að fara að stunda messur til að hafa tækifæri til að klæðast þessu dýrindi? Vinnustaður minn er óþjóðbúningavænn með öllu þessum stigum upp og niður, sem helst þarf að hlaupa til að ná á réttum tíma í kennslustund. Ég hafði hugsað mér að reyna kannski aftur við línudans í vetur (ef heilsan leyfir) og það er alveg öruggt að peysuföt gera sig ekki í þeirri dansmennt. Ætti ég að reyna að starta vikivakaklúbbi og æfa ágiskaða endurgerða þjóðdansa?  Best að nefna þetta við íslenskudeildina.

Frumburðurinn lagði sig í líma í morgun við að læra á rosaflottu kaffivélina sem mér var gefin og mun framleiða expresso, latte, macchiato, cappuchino og så videre næstu árin skulum við vona. Mér fannst þetta reyndar doldið flókin vél og eiginlega veitti mér ekki af annarri stúlku í að hella upp á, á morgnana. Drengbarnið var að læra á gripinn áðan og ég get þá a.m.k. þóst ekki kunna á vélina þegar hann er heima svo einhver helli upp á handa mér.

Ég er uppi á röngum tíma og hefði þurft að fæðast meir en öld fyrr og vera af því standi sem gat haldið hjú í öll leiðinleg verk (beisiklí allt nema útsaum)  Eitt stykki hjú í kennslu (sem færi yfir verkefni o.þ.h.) væri líka vel þegið.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

30. ágúst 2009

Errata og vandinn að vera mannleg

Komið hefur í ljós að ég er lítið skárri en Einar frá Hermundarfelli þegar kemur að eigin minningum, svo ekki sé minnst á sorglega feila í frádrætti (ártölum og aldri) sem ég hef nú orðið uppvís að í Ættarsögunni Miklu!  Af veikum mætti hef ég reynt að benda ættingjum á þá staðreynd að villurnar kunni að verða metnar til fjár eftir því sem tímar líða, a.m.k. ef maður hefur sjaldgæf frímerki með t.d. röngum lit eða bullustimpli í huga. Ættingjar hafa nú ekki sýnt þessu mikinn skilning eða fagnað frímerkjadæmum. Svo ég sé ekki fram á annað en ég verði að gefa þessum fjórum eigendum svokölluð “errata” í jólagjöf, þ.e.a.s. límmiða með klausum í Georgia-letri í 8, 10, 12 og 14 punktum, svo þeir geti límt snyrtilega leiðréttingar inn í bókina sína fínu. Hvernig líst ykkur bókaeigendum á það?

Til hægri sést rígmontinn höfundurinn, ekki búin að gera sér ljóst hvursu mannleg hún er …

 Sem betur fer veit ég ekki enn um neina villu í Ættarsögunni smærri, sem er einhvers staðar á leið til landsins / mín. Meira að segja upplýsingar um upphaf verslunar á Raufarhöfn eru tékkaðar í bak og fyrir og kórréttar! (Í stað þess að trúa heitnum blaðamanni Þjóðviljans, sem fór hugsanlega eitthvað frjálslega með staðreyndir … ég verð samt að játa að ég hugsa með mér: “Og hverjum er ekki sama?” en svoleiðis hugsanir bera vott um grimmt og guðlaust viðhorf til hagsögu og alveg sérstaklega síldarsögu landsins!)

Þetta er samt ekkert í líkingu við fyrri lífsreynslu: Þá ég var ung, ógeðveik (altént ekki greind) og ofvirk í skólastarfi tók ég m.a. að mér að ritstýra blaði Fjölbrautaskólans á Akranesi (?), Innsýn,  sem senda skyldi á hvert heimili í Vesturlandsfjórðungi. Í þá daga lágu umbrotsforrit ekki á lausu og ég klippti og límdi og mældi með reglustiku hvernig allt efnið skyldi verða, auk þess náttúrlega að skrifa drjúgan hluta þess og snúa upp á handleggi á öðru fólki til að fá eitthvað frá því! Skólameistari fékk svo síðustu “próförk” og gerði örfáar tillögur til breytinga … man ekki hvort hann fékk allar myndir með … nema þegar blaðið kemur í mörg þúsund eintökum úr prentun er mynd á forsíðu, fyrir neðan segir að þetta séu nemendur í vélavarðanámi í Ólafsvík … og helvítis myndin var tekin á Hellissandi!  Stjórnendur og heimamenn supu hveljur og fullvissuðu mig um að þetta væru ófyrirgefanleg mistök! (Svona álíka og að kalla Hveragerði Þorlákshöfn eða eitthvað svoleiðis!) Í einum grænum prentaði prentsmiðjan út fleiri þúsund límmiða í örmjóum ræmum sem þöktu akkúrat myndatextann og sögðu nemendur standa í einhverjum garði á Hellissandi og svo eyddi ég 12 tímum í striklotu  í að líma og líma og líma … vöðvagigtin hvarf ekki fyrr en haustið eftir. Mér er einnig í fersku minni hvað húsvarðarfjölskyldan (þáverandi) var almennileg að taka ein þúsund eintök með sér heim því Júróvissjón var um kvöldið og þau sögðu að krakkarnir hefðu nú bara gaman af því að sitja með foreldrum sínum fyrir framan sjónvarpið og líma; Einstaklega jákvætt fólk þá og nú!

(Myndin að ofan lýsir bloggynju meðan hún var enn perfeksjónisti og ekki búin að átta sig á öllum gildrum stafsetningar og heimsins og svoleiðis.)

Það sem ég lærði af þessu var að treysta mér aldrei til fulls og að nágrannakrytur á Snæfellsnesi væru ekki til að hafa í flimtingum! Sem betur fer er Nesið löngu gengið úr samstarfi við okkur og rekur sinn eigin framhaldsskóla.  

Bilíf mí: Ég hef kynnst errata áður!  Þess vegna var verulega sniðugt af mér að gefa ÆM einungis út í 5 eintökum, ef skyldi þurfa að líma.

Ég reikna með að kúgaðir áskrifendur að verkinu séu svo fjúkandi yfir röngum nöfnum aukapersóna að það skýra hina algeru þögn frá þeim. Gerið ykkur engar vonir: Þið fáið ekki endurgreitt!

— 

Við unglingurinn fórum í berjamó í gær, örsnöggan, í hávaðaroki, og tíndum það lítið að það kláraðist í kvöldmatnum. (Venjulega hefur helmingi berjanna verið hent, fyrir rest.) Svo ég sé nú  alveg heiðarleg þá tókst þetta með því að leggja ríkulega með mér í bensínpeningum en ekki af því unglingurinn héldi að það væri svo gaman að fara með mömmu gömlu í berjamó … 

Loks er að geta þess að ég hef hugsað um gildi sumarskólavinnu í mínu fagi og sé nú að auðvitað á að setja Sturlungu fyrir í maí og byrja á að prófa úr henni, í ÍSL 103 t.d., fyrstu vikuna í september. Þessir unglingar lesa hvort sem alltof lítið og svona kennsluaðferð yrði þá einnig til að kennarinn læsi Sturlungu, því þótt miðaldra kennslukonan hafi tvö meistarapróf í íslensku  - og reyndar fimm háskólagráður ef allt er talið ;) þá hefur hún ekki lesið þessa þekktu  morðsögu ennþá! 

En sé Sturlunga mæld til fjár er hún léttvæg: Námskeiðið Facebook fyrir byrjendur, hjá Endurmenntun HÍ, kostar 15.500 kr. (6 klst. langt) en Leiðarvísir að Sturlungu kostar ekki nema 9.800 og er þó jafnlangt. (Sjá bæklinginn Menning, sjálfsrækt og tungumál, útg. Endurmenntun Háskóla Íslands, haustið 2009.) Af þessu má sjá hve Facebook er miklu mikilvægari og merkilegri bók en Sturlunga enda geymir hún oft miklu fleiri persónur og verður þá að sama skapi flóknari! Samt stefni ég leynt og ljóst að því að verða vinafæsti einstaklingurinn á Facebook því mér leiðist þetta kjaftæði svo hroðalega - ætli ég sé ekki gömul hoggin sál!

Vefurinn er með eindæmum svifaseinn í augnablikinu: Ég held að nú hafi WWW þófnað!

P.s. Takk Vilborg! ;)

Ummæli (11) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf, Ættin

25. ágúst 2009

Jess!!! Ættarsagan mikla er komin í hús!

Ein mynd segir meira en þúsund orð og tvær myndir ættu því að vera á við tvö þúsund orða færslu …  Litlu myndirnar krækja í aðrar flennistórar af rígmontnum höfundi!

Þetta prjódjekt er meir en 10+, mælt í lopapeysum!  Að sjálfsögðu er gripurinn ekki ókeypis en skipaðir áskrifendur fá kostnaðaryfirlit og rukkun í tölvupósti. Svo reikna ég með því að þá áskrifandi er orðinn áttræður safni hann öllum sínum afkomendum saman og tilkynni hvaða uppáhaldserfingi fái Ættarsöguna miklu …

Ættarsagan smærri verður helmingi ódýrari en hún verður ekki í eins flottu broti og bandi og þessi stóra. (Markhópurinn hennar er sennilega með lægri tekjur en markhópur Ættarsögunnar miklu.)

Eiginlega ætti ég að halda námskeið í hvernig maður snuðrar á vef og hvernig hægt er setja saman flott ættarrit, í ýmsu formi.

Rögnu bók fer í póst á morgun - reynt verður að koma hinum til skila í vikulok - um ákv. ráðuneyti þar sem fólk hefur tíma til að taka á móti pökkum til dreifingar.

Ummæli (6) | Óflokkað, Ættin

24. ágúst 2009

Ánægjuleg starfsskilyrði

Við í framhaldsskólunum brúkum blessunarlega ekki stimpilklukku. Hins vegar erum við kennararnir nokkurs konar gangandi lifandi stimpilklukkur því við stimplum viðveru (eða fjarveru) nemenda í rafrænan kladda sem heitir Inna. Nú blasti við okkur kennurum ný Inna í gær, áreiðanlega eigum við einhverjum góðum ködlum í Mrn. að þakka þessa uppfærslu, og það sem mest hefur glatt mig, persónulega, er að svo virðist sem nú þurfi ég bara að vinna þriggja daga vinnuviku! Viðverulistinn, sem stimpilklukkan ég stimpla inn í, er nefnilega aðeins fyrir seinni hluta vikunnar, sjá mynd. Ég er ákaflega hlynnt þriggja daga vinnuviku og held ég geti jafnvel giskað á hvur var svona hupplegur að breyta þessu svona fyrir okkur kennarana … þúsund kossar til … X (góði maðurinn í ráðuneytinu á konu og gæti misskilist ef ég færi að nafngreina hann svona á opinberu bloggi)!

Svo ætlaði ég að blogga helling í viðbót en mér er svo illt í maganum að ég held ég leggist aftur útaf. Þessi magaveiki hefur versnað hægt og bítandi í nokkur ár og ég hafði mig loks í fyrsta skrefið, að panta tíma hjá heimilislækni, í dag. Vonandi finnst einföld ástæða sem er ekkert mál að lækna.

Næ þó að nefna frumburðurinn hefur linkað í myndir af sér hlaupandi, ljómandi huggulegar myndir og strákurinn ansi stæltur í svona spandex-brókum … sjá þessa og þessa (bloggið mitt á fleiri lesendur en fésbókin hans svo hann verður sjálfsagt þakklátur móður sinni fyrir auglýsinguna ;)

Enn eitt: Hef ástæðu til að ætla að ÆM (stóra útgáfan) sé komin til landsins! En ég á eftir að svara klassíska bréfinu frá tollinum um hvort megi opna pakkann til að leita að reikningi o.s.fr. … má kallast gott ef ég næ sendingunni út klónum tollsins fyrir helgi. Áskrifendur (sem ég ákvað reyndar sjálf hverjir væru) geta nú bráðum farið að kafa djúpt í buddur sínar!

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf, Ættin

4. júní 2009

Dottin í fortíðina

Ég ákvað að slá inn bréfin sem ég fékk á Laugarvatni um síðustu helgi, þ.e. bréfin sem afi skrifaði sumar og haust 1946 til ömmu á spítalanum. Nú sé ég hvaðan blogggenin mín koma því honum tekst ótrúlega vel að skrifa skemmtileg bréf á fárra daga fresti þótt ekki gerist ýkja margt á Raufarhöfn, a.m.k. eftir að síldin lét sig hverfa (ég er komin fram í september í bréfasafninu). Sumt er óskýrt, t.d. get ég ekki lesið almennilega úr öllum gælunöfnum og þarf e.t.v aðstoð við það. Svo þurfti ég að fletta upp orðinu “flæsa” en skil hins vegar ágætlega “dulbeidd”, notað um kvíguna sem talin er kálflaus en af því ég skannaði bréfahrúguna veit ég að hún er með kálfi, hvað kemur í ljós svona í október.

Dyggir fjölskyldulesendur munu kunna að meta þessa klausu, frá 3/9 1946:

Krakkar voru í Lundi á skemtun á sunnudaginn og komu í Valþjófsstaði og heilsuðu Balda og Gunnu. Þau seigja Gunnu hafa stækkað mikið í sumar, hún sé orðin nærri eins há og Baldi, og vel feit. Baldi kvað vera ákaflega duglegur að tína ber, en Gunna heldur löt við það. Baldi sendi Frænda ber í bauk og hafði verið fljótur að tína það, enda kvað vera mikið af berjum í Núpasveit, en minna í Axarfirði.

Menn hafa greinilega haft soldið aðrar skoðanir á vexti barna á þessum tíma og nú. Ekki skrítið að mamma skammaðist sín seinna fyrir horgrindina sína elstu og hafði hana aldrei í stutterma bolum svo ekki sæjust beinin :) Lukkulega hef ég lagast síðan, ekki hvað síst fyrir aukaverkanir lyfja … Mér hefur líka alltaf þótt leiðinlegt að tína ber í óhófi, man þegar ég var send með Árna og Lillu í einhvern tveggja daga maraþon-berjamó, sem krakki. Eiginlega finnst mér best að kaupa bara bláber frá Kanada, í Einarsbúð!

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

2. júní 2009

Um dapurleg örlög Silla og æskilegan fjölda systra

Deyr fé

deyja frændr

deyr Silli ið sama!

Nú hefur verið gefið út dánarvottorð fyrir besta vin Vífils, sem Silli var kallaður en hét fullu nafni Volkswagen Passat. Silli “hné niður” á götu í borg óttans fyrir nokkru, var dreginn í skjól hjá mágkonunni og hennar hænum og skoðaður í dag: Því miður greindist gírkassinn brotinn og bramlaður og of dýrt að blása nýju lífi í Silla, skinnið. Eigandinn hefur verið í talsverðri lægð undanfarið en er nú að jafna sig á sorginni og farinn að huga að öðrum farskjótum því enginn er unglingur án bíls! Líffæri Silla verða gefin frændum hans = hann verður dreginn á partasölu fljótlega.

Af öðrum er allt fínt að frétta nema ég virðist vera að eitra fyrir sjálfri mér með sjálflækningum / oflækningum. Fer þó fjarri að ég taki læknanemaglósur í sátt (sjá síðustu færslu), meira að segja þótt óljósar heimildir séu fyrir því að læknakennarinn sé stúdent úr ML og jafnvel Skagamaður að upplagi. Það gleður mig náttúrlega að hann sé ekki úr MR-klíkunni en þrátt fyrir það er ég sama sinnis um fáránlegar leiðbeiningar til læknanema um meðhöndlun miðaldra kvenna. Ég kenni brotthvarfi Litíums (og Seroquels, þótt engin Einblind, Tvíblind og Þríblind styðji það) um að skjaldkirtilshormón er í sögulegu lágmarki og ég því e.t.v. komin með ofvirkan kirtilsfjanda í stað vanvirks. Ráðið við því er að trappa niður þau lyfin í samráði við útlenda heimilislækninn sem ég hef tekið ástfóstri við, eftir aðeins eina heimsókn ;)

Það var auðvitað mjög gaman um helgina, á míní-ættarmótinu uppi á Laugarvatni! Mesta furða hvað hægt er að troða mörgum manneskjum í eitt íbúðarhús en munaði náttúrlega helling um að hafa krakkana í tjaldi inni í sólstofu ;) Maðurinn var í slíkum önnum að júbba að hann komst ekki yfir mikla myndatöku - og í rauninni mætti segja að þessar fáu sem teknar voru ættu að vera læstar með lykilorði. En manninum finnst þær aðallega sanna að enginn skyldi eiga meir en eina systur! Ég birti því tvær myndir sem sönnunargagn á þessari heimspekilegu teóríu en hef vaðið fyrir neðan mig (eða nefið) og passa að enginn þekki þolandann á myndunum.  Fyrri myndin sýnir systur í samsærislegri hópvinnu (Ragna virðist vera potturinn og pannan), sú síðari árangurinn.  Ógislega fyndið! (fyrir okkur systur).

Ummæli (8) | Geðheilsa, Daglegt líf, Ættin

13. maí 2009

Að sögn elstu manna … um Einar frá Hermundarfelli

Þar sem Sesselja þríspyr mig í kommenti við síðustu færslu get ég ekki annað en hnoðað í nýja færslu um þennan Hermundarfellsmann þótt ég þrísegi ekki tíðindin (þess þurfti bara við Njál eða af Njáli).*

Einar þessi var aðallega húsvörður við Barnaskóla Akureyrar í sinni tíð (held ég, athugið að ég nenni ekki að lesa fleiri bindi). Hann er mér og mínum manni í fersku óþægilegu minni frá því einungis var til rás 1 og karlinn hélt úti þættinum “Mér eru fornu minnin kær”, sem okkur minnir að hafi einkum fjallað um frostaveturinn mikla 1918 (þegar kollurnar frusu á hreiðrunum á Sléttu og Skagamenn fóru fótgangandi yfir Flóann til Borgar óttans og það allt …) Maðurinn þurfti að hlusta á þennan harmagrát árum saman, vinnandi í gróðurhúsi frá blautu barnsbeini, þar sem útvarpið átti að stytta mönnum stundir. Ég var svo heppin að vinna bara eitt sumar í gróðurhúsi og á þeim vinnustöðum sem tóku þá við var ekki mikið um rás 1.

Þetta er inngangur til að skýra fyrirframgefna andúð á aumingja Einari Kristjánssyni. Í gær æxlaði ég mér hin bindin af ævisögunni og hellti mér í Ungs manns gaman, sem er 2. bindið, meðan ég horfði á júróvissjónið. Í því bindi segir hann frá sumardvöl á Raufarhöfn, 1929.  Þetta leit nokkuð vel út til að byrja með: “Á Raufarhöfn voru snotrar og glaðlegar yngismeyjar, eins og annars staðar á byggðu bóli …” (s. 22) og svo talar hann fallega um Lúllu Lund (í 1. bindinu var heilsíðumynd af henni … ætli hann hafi verið skotinn í henni?).  Svo snýr hann sér að Búðinni og fólkinu þar.

Til að byrja með er ósmekkleg kjaftasaga um að Jón (langafi minn) hafi ofurverðlagt allt í útibúinu á Kópaskeri og platað bændur. Miðað við framhaldið (s. 24 og áfram) er þessi saga örugglega lygi.

Hann telur að heimilisfólk í Búðinni hafi verið “kaupmaðurinn Sveinn, og kona hans, Guðrún Pétursdóttir. … Þau hjónin áttu að einkabarni son, Pétur að nafni.”  Svo segir hann frá tannkýlinu Péturs, “á miðju sumri 1930″ sem varð að blóðeitrun og leiddi hann til bana 1930, “með þessum sviplega hætti og var þá rétt um tvítugsaldur.” Skv. Íslendingabók var Pétur Guðjohnsen Sveinsson fæddur 1904 og dó 1929 (11. september, skv. dánartilkynningu í dagblaði). Í Ættarsögunni miklu, sem enn er í smíðum og óvíst er að verði lokið á næstunni, skiptir talsverðu máli að hann og amma voru jafnaldra og góðir vinir, t.d. græddi hún örugglega á því að fá að læra sumt af því sem Pétri var kennt.  Ég fæ út að Pétur hafi verið 25 ára þegar hann dó en ekki “rétt um tvítugsaldur”. (Myndin er sjálfsagt tekin skömmu áður en hann dó.)

“Guðrún yfirgaf Raufarhöfn ekki löngu síðar og flutti til frændfólks síns í Reykjavík. Hún hafði ekki búið þar lengi er hún hlaut skjótan dauðdaga í ökuslysi.” Þetta er náttúrlega ósköp trist en á hinn bóginn haugalygi! Guðrún Pétursdóttir Guðjohnsen var fædd 1878, giftist Sveini Einarssyni kaupmanni 16. júní 1903 og var gift honum í rúmlega hálfa öld. Sveinn dó rúmlega áttræður, árið 1954, en frú Guðrún varð fyrir bíl í Reykjavík 17. nóvember 1955, eftir að hafa dvalið í Reykjavík í 5 ár til að leita sér lækninga. Ég fæ út að hún hafi verið 77 ára þegar hún lést af slysförum og fullyrðingar Einars á Hermundarfelli um þessa konu og hennar fjölskyldumál eru náttúrlega alveg út úr kú!

Víkur sögunni nú að ömmu minni og afa: “Einar Baldvin, sonur Jóns, bjó einnig í “Búðinni” og var föðurbróður sínum til aðstoðar við verslunina. Einar var hæglátur alvörumaður, vandaður og traustvekjandi. Kona hans var Hólmfríður Árnadóttir frá Bakka við Kópasker. Þau áttu börn á ýmsum aldri. Hómfríður hafði alist upp hjá Guðrúnu og Sveini frá því að hún var á barnsaldri. Hún var bráðmyndarleg í sjón, glaðlynd og þokkarík. Aldrei var hún nefnd annað en Fríða í Búðinni.  … Þar sem ég taldi til náinnar frændsemi við Fríðu, fannst mér sjálfsagt að koma mér í kunningsskap við hana og var það engum vandkvæðum bundið, því hún var félagslynd og gestrisin. Ég hafði því ekki lítið gaman af að heimsækja hana í eldhúsið þegar ég átti frívakt …” (s. 24)

Ég tek að sjálfsögðu undir karakterlýsingar á ömmu og afa. Hitt er náttúrlega nánast pjúra lygi. Til að mynd ólst Fríða amma alls ekki upp hjá Sveini og Guðrúnu heldur var tekin í fóstur af Jóni og Pálínu, foreldrum Einars afa. Ég vona að höfundur ævisögunnar ljúgi líka til um “nána frændsemi” því maður sem ekki tekur betur eftir væri betur kominn í annarri ætt! Mér er ókunnugt um hversu miklum tíma amma mín eyddi í eldhúsinu en tel ólíklegt að hann hafi verið langur; til hvers voru þá vinnukonurnar? Sjálfsagt hefur amma Fríða vorkennt þessum sveitalega slöttólfi austan Fjallgarðs og gefið honum kaffi og spilað soldið fyrir hann, af meðfæddri greiðasemi við lítilmagnann.

Einar á Hermundarfelli tekur svo til að lýsa Sveini Einarssyni sem einhverju ofurnísku fríki (s. 24 - 26). Ég hef það ekki eftir.

Einhver góð sál hafði bent mér á þessar æviminningar og þar gæti ég fundið frásagnir frá Raufarhöfn fyrri tíma, sem e.t.v. gætu nýst mér. Vissulega fann ég svoleiðis frásagnir en árangurinn er sá að ég trúi ekki orði af neinu sem finna má í þeim fjórum bindum sem Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli gaf út, þar af þrjú bindi ævisaga hans sjálfs en hið fjórða frásagnir af öðrum. Best gæti ég trúað að skyldur Einari þessum sé ákveðinn tollvörður með sama nafni, sem laug blákalt að mér í síma, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þangað til hann var gersamlega kominn út í horn með sitt lygimál og neyddist til að afhenda mér hluti sem hann var að reyna að lúra á áratugum saman, án þess að eiga hætis hót í þeim! Einhvern veginn finnst mér að meðferð þessara tveggja Einara á sannleikanum sé svipuð.

Ég er verulega farin að efast um að kollurnar hafi frosið á hreiðrunum 1918, þær gerðu það hins vegar 18hundruðogeitthvað (sjá Jón Trausta einhvers staðar) og eftir þetta tek ég sjálfsævisögum óbloggandi fólks með mörgum varnöglum. (Minnið er valt en blogg er traust. Feisbúkk er húmbúkk!)

* Ég verð að fara að snúa mér að einhverjum nútímabókmenntum - liggur orðið við að ég tali 13. aldar íslensku svona dags daglega. Elsku maðurinn benti mér á að búa til valáfanga um ljóðagerð Nýhílista, með sérstakri áherslu á Eirík Örn Nordahl og Ingólf nokkurn stærðfræðing og netpennavin um skeið (man ekki föðurnafnið).  Best að skoða það í sumar ;)  

**  Almáttugur minn, ég var að fatta að sonur Einars frá Hermundarfelli er vinur foreldra minna og að barnabarn hans situr fundi með manninum mínum. Varnagli: Kannski er allt hitt satt í öllum hinum bindunum en vill bara svo óheppilega til að minningar frá akkúrat sumrinu 1929 hafi skolast til í minni hans.

Ummæli (12) | Óflokkað, Ættin

5. maí 2009

Upp og niður

Það er eitthvert f* bakslag í mér núna - mér finnst heimurinn almennt frekar fánýtur og leiðinlegur. Takist mér að rífa mig út úr húsi mun líðanin batna (en ég er bara svo innilega búin að fá nóg af því að rífa mig upp, út, frá o.s.fr. að ég orka því ekki lengur). Ég hugsa að styrkleiki dýfunnar sé lítill og hún standi stutt yfir. Augljóslega er ég ekki á hraðferð í Helvítisgjána, af því hef ég næga reynslu til að meta dæmið og sjálfsagt er þetta rugg á sálarlífinu bara fráhvarfsónot eða af stöðu himintungla. Kannski batnar mér ef ég er duglegri að lesa reyfarann “Ren ondskab”, sem er faktískt soldið ógislegur.

Í kringum mig gerist þó margt skemmtilegt og skondið. Má nefna að nú höfum við loksins fengið nágranna á efri hæðina. Þeir nágrannar fluttu reyndar úr næsta húsi og eru þannig séð ekki spánnýir fyrir okkur. En það er gaman að fá börn í húsið.

Unglingurinn minn er að tærast upp af ást, nokkur kíló á mánuði, svei mér þá. Ég fékk náðarsamlegast leyfi til að tilkynna að hann er að deita stúlku - þó sagði unglingurinn áhyggjufullur að nú þyrfti hann að svara hundrað spurningum frá ömmunum. Ömmurnar verða bara að skrá sig á feisbúkk ;)

Þetta er myndarleg stúlka og greindarleg í þeim örsamtölum sem ég hef átt við hana. Hún býr í Mosó svo notkun strætós 57 hefur nokkuð aukist, auk þess sem hratt gengur á veglykil unglingsins (sem við gáfum honum í jólagjöf og vakti gífurlegan fögnuð!).

Maðurinn sekkur æ dýpra í sín grísku fræði. Nú er ég búin að hundskamma hann fyrir að sofna út frá eða ofan á penna! (Hlítur að vera einsdæmi.) Penninn var rauður tússpenni og lokið ekki á. Þetta er annað sængurverið sem maðurinn spillir með rauðu bleki og löngu ljóst að rautt blek er algerlega þvottekta.

Frumburðurinn er svo til búinn að öllum sínum verkum og getur útskrifast með BA (og vonandi láði) í vor. Ritgerðin er á seinustu stigum. Hann rétt leit hér inn um helgina og virðist vera að tærast upp af sporti; Nú er æft og æft fyrir Laugaveginn í sumar. Mér er óskiljanlegt hvaðan frumburðurinn hefur fengið þessi sportgen (í miklum mæli). Hlítur að vera stökkbreyting!

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf, Ættin