Færslur undir „Ættin“

5. apríl 2009

Líkræða

Nú fékk ég bók með ýmsum pappírum í, frá Ástu frænku, í gær. Þetta reyndust hins vegar alls ekki vera þeir pappírar sem kallaðir eru “bréfin” og eru týndir. Nei, a.m.k. einn langur texti, skrifaður með pennastöng og kolsvörtu bleki, ársettur 1907, er líkræða yfir Guðrúnu Grímsdóttur Laxdal. Líkræðan er ofboðslega löng og ofboðslega margt sem hefur prýtt þessa ekkjufrú.

Svo er mökkur af ljóðum, í ungmennafélagsstíl eða þjóðernisrómantík. Ég er að reyna að þekkja skriftina - þau gætu verið eftir Pálínu. (Maður er soldið sjóaður eftir póstkortalesturinn!)  Fram kemur að yrkjandi hefur mikið álit á Guðmundi frá Sandi og eins gott að fara þá að rifja þá upp eitthvað annað en “Ekkjuna við ána”, en á árum áður lærði frumburðurinn þetta kvæði utan að og æfði flutning í kaupstaðarferðum á Selfoss. Ég held að ég hafi líka verið látin læra “Ekkjuna við ána” utan að.  En nú er ég komin eilítið út fyrir efnið …

Svo er þarna einhvers konar hringhendulykill, ansi sniðugur.  (Kannski pikka ég hann upp handa Finnboga ;) Loks er töluvert um rímfræði og skrifara (sem ég held að sé Pálína) mjög í mun að taka upp gömlu íslensku heitin og þar í er mánuðurinn “farfugl” (kemur eftir hörpu). 

En “bréfin” eru ekki þarna og augljóslega einhver annar ættingi með þau.

Mér gengur annars nokkuð vel að semja ættarsöguna miklu en þetta er heldur tafsamt og seinlegt verk. Sem er ágætt því ég get ekki hugsað mér að fara að prjóna lopapeysur þegar allir hinir eru að prjóna lopapeysur, eftir uppskrift. Á mínum aldri má kona vera þversum í tilverunni.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

23. mars 2009

Sljákkar í bloggynju

Ég get ekki bæði lesið Njálu, hoppað í tveimur mismunandi líkamsræktum og skrifað ÆM 848 4to (Ættarsöguna miklu). Soleiðis að ætla má að færslum fækki. Enn fremur taka ættarbréfin (póstlisti) sinn tíma og ég veit ekki hvernig ég væri hefði ég ekki haft vit á að komast af Feisbúkk - kalin á hjarta …

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

15. mars 2009

Íþróttir og stjórnmál: I love it!

Ég er byrjuð á Ættarsögunni miklu!  Satt best að segja fannst mér að upphafsetningin ætti að vera: “Á ofanverðum dögum Haralds konungs í Noregi …” til þess að ná sem flestum merkilegum skyldmennum inn í Æ.m. Svo sá ég að til þess entist mér ekki æfin og lét duga að hefja Ættarsöguna miklu um 1850 og þá lauslega fram undir 1900. Þótt byrjunin væri nýmóðins er Æ.m. skrifuð eins og Íslendingasaga, þ.e.a.s. alls konar angar og flækjur myndast við hlið aðalþráðar.  Í Íslendingasögunum leiðir svoleiðis lagað oftast til þess að einhver er drepinn. Læf, eins og Æ.m. fer þetta yfirleitt í að útskýra flókin fjölskyldutengsl manna, á tímum þegar fína fólkið tók ekki niður fyrir sig í pöpullinn!

Nema hvað; ég er rétt að skríða yfir aldamótin 1900 í þessu ættarverki.

En að öðru og vítaverðara efni! Sem ég sat snemma á sunnudagsmorgni og þaullas Íþróttasíðu Morgunblaðsins út í hörgul, eins og ævinlega (NOT! þetta er brandari) sá ég að einhver breskur íþróttaálfur, nefndur Owen, er að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, undir nafninu Örvar! Til að koma nú sönnunargögnum fyrir tróð ég mynd af Örvari við hliðina á umfjöllun um gang Ættarsögunnar miklu en myndin af Óweni er hér til hliðar.  Það leikur ekki nokkur vafi á því að þetta er sami maðurinn, leikandi tveimur skjöldum!

Báðir með tvo hvirfla?  Ætluðu þeir að verða tvíburar?

Þetta finnst mér mjög spúkí!

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

9. mars 2009

Fundin Rannveig og skemmtileg nektarmynd að auki

Í dótinu sem ég fékk uppi á Laugarvatni um daginn leyndist mynd af hinni dularfullu Rannveigu Dýrleif Stefánsdóttur.  Þetta er myndarstúlka og nú þarf bara að finna út hvort hún var lagsmær eða fóstudóttir Pálínu. Ég setti Freyju fyrir að leita í Ísl.bók … svo mætti skoða Haganes fólkið og á endanum verð ég sokkin ofan í Skagfirðingabækur fyrri tíma.

Skrítin tilviljun er að skv. æskumyndum af afa hefur hann verið blámaður til höfuðsins.  Skyldi Hans Jónatan vera forfaðir okkar?  Og af hverju erfði ég ekki þetta hár? Eiginlega er þetta þó ekki skrítnara en að Einar yngri sem rekur Einarsbúð og afgreiðir okkur í hverri viku skuli vera svona sláandi líkur Einari afa, kaupmanni á Raufarhöfn.  Kannski er þetta eitthvað sammannlegt verslunarmannaútlit?

P.S. á miðvikudegi: Þögn systkinanna veit ekki á gott og sennilega eru þau að baktala mig inni á Feisbúkkinu. Svo ég tók hina fögru nektarmynd út (upp á karríer viðkomandi) og lofa að nota bara andlitsmynd af viðkomandi í framtíðinni :)

P.P.S. Það að myndirnar á blogginu mínu eru óralengi að hlaðast inn er væntanlega bilun á myndageymslunni minni, á this.is/harpa

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

6. febrúar 2009

Heilsa og smettiskruddan

Ég er jafn sljó í dag og í gær og á jafnerfitt með allt!  Hins vegar kastaði hinn góði læknir til mín bjarghring sem viskum vona að dragi mig að landi yfir helgina.

Ég hef sem sagt verið kramaraumingi frá þriðjudegi til dagsins í dag en eygi nú von til að komast úr því hlutverki. Þetta var verulega djúp dýfa!  Þegar ég þarf að beita öllum viljastyrks-tætlunum og allri orku dagsins í að koma sjálfri mér í sturtu og fresta því ekki þá er ástandið slæmt.  Frísk fer ég í sturtu dag hvern, líka til að eyða hinni stórhættulegu reykingalykt úr hárinu á mér áður en ég hitti saklaust ungviðið. Og náttla fer ég í fersk föt daglega sama ungviðis vegna.

Raunsætt mat er að nemendur hafi ekki saknað mín neitt heldur leikið lausum hala og alls ekki lesið Bárðar sögu! Við getum vonandi porrað námsefni, nemendur og kennara upp eftir helgina svo okkur leiðist ekki. Njáluhópnum treysti ég til að vera búinn með megnið af Njálu og vita út í hörgul hvernig landslag á þessum slóðum hefur breyst frá því “dalur” var ” í hvolnum”.

Mitt nám í fyrsta bekk í menntó innihélt m.a. Njálu og síðan afar sérsinna setningafræði kennarans sem hvergi hefur verið notuð svo vitað sé og gagnið af henni sennilega ekkert. Kennarinn var doktor í tilvísunarfornöfnunum “sem” og “er”. Sjá allir sem hafa fylgst með síðustu tuttugu árin að þessi doktorsgráða fer fyrir lítið þegar öll íslenskumafían í HÍ snýr sér að Chomsky og fer upp úr því að greina “sem” og “er” sem hvurjar aðrar samtengingar.  Orðflokknum “tilvísunarfornöfn” hent fyrir róða og ekki lengur til og þ.a.l. ekki hægt að drilla nemendur í að finna í hvaða falli þessi orð standa; Samtengingar beygjast ekki í föllum.

Njálukennslan í denn gekk voða mikið út í það hvernig landslagið hefði þurft að vera hefði sagan átt að ganga upp. Alls konar jökulár höfðu breytt um stað og vatnsmagn, jöklar gengið sundur og saman, sjórinn dekkað Vík í Mýrdal og marg-margoft stóð kennarinn við stóra landakortið og dró með fingri Fjallabaksleið nyrðri og Fjallabaksleið syðri. Þar sem ég hafði hvorki smalað á hálendinu né vissi hvar Vík var, svo ekki sé minnst á Dímon (sem ég leyfi mínum nemendum að hafa í karlkyni skv. máltilfinningu) og var álíka áhugalaus um Trausta Einarsson jarðfræðing, sem doktor Harald kennara, þá skilaði þessi fyrstubekkjarkennsla þeim effektíva árangri að bólusetja mig fyrir Njálu í meir en tuttugu ár!  Þegar ég las söguna aftur, eftir tuttugu ár plús, rann upp fyrir mér að þetta er fín spennusaga, með smávegis pornógrafíu í upphafi og blóðir flæðir eins og í hvaða almennilegum vestra. Síðan hef ég velt fyrir mér hvursu drepleiðinlegur kennari þarf að vera til að bólusetja nemendur fyrir lífstíð. Vona að ég verði ekki til þess.

Svo er það Facebook eða Smettiskrudda (nýyrði litla bróður sem ég kann sérlega vel við). Ég sé því miður ekki kostina við Smettiskruddu nema þá helst að geta njósnað um einkalíf yngri sonarins eftir að hann var svo vitlaus að “adda” mér á vinalistann sinn. Þessa dagana hef ég aðeins kíkt þarna inn og finnst allt í kaos og ef kona skráir sig eingöngu til að vera með í ættarmótsgrúppu þá er eins og andskotinn komi með alla sína púka;  gylliboð og vinafjöld. “Það eru allir á Facebook!”  Þessu skal ég trúa því því á smettiskrudduvettvangi ægir öllu saman og allt komið í steik. Auk þess sem ég hef fyrir satt að nemandi norður í S-Þing. hafi “addað” Skagamanni á átjánda ári inn í grúppuna “Bakkaættin” til að stríða yngri syninum. Við sitjum þar með uppi með Skagamanninn á næstu fimm ættarmótum! Fyrir svo utan það að hann heitir nafni og föðurnafni sem einn ekta Bakkaættarmaður ber. (Munar að vísu sennilega 40 - 50 árum en umsjónarmaður grúppunnar hefur sjálfsagt haldið að þetta væri gömul mynd.) Nýi Bakkaættinginn mundi svo sem punta ágætlega upp á samkvæmið í sumar, ég er ekkert að afþakka það.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Ættin

2. janúar 2009

Ísakshús … og staðreyndir sem stangast á

Mér datt í hug að fara að hræra saman kennsluáætlunum og uppfæra áfangavefsíður … en sá að þetta er svo  óumræðilega leiðinleg iðja að ég snéri mér að öðru.

Rannveig Dýrleif Stefánsdóttir er hreint ekki eins dularfull og látið er!  Eiginlega er stórfurðulegt að Íslendingabók skyldi hafa komið ættinni í svo opna skjöldu sem varð. (Sorrí, ég er enn undir málfarsáhrifum frá Norðra og Lögbergi-Heimskringlu :)

Staðreyndir:  Pálína Jónsdóttir Laxdal var fædd 1869, gift Jóni Einarssyni og flutt á Raufarhöfn laust fyrir aldamótin 1900. Þáu eignuðust bara einn son. Svo þau hjón taka Rannveigu Dýrleif í fóstur.  Hún er fædd 1884 og því ekki nema 15 árum yngri en Pálína. Stelpuskottið hlýtur að hafa verið stálpað þegar það kom til Pálínu.

Ekki verður annað sagt að hún launi vel  fóstrið: Þegar Rannveig Dýrleif var gift kona (Ísaki)  lét hún frumburð sinn heita Jón Einarsson Ísaksson (f. 1904), elstu dóttur heita Pálínu Brynhildi en hún dó í bernsku og þá reynir Rannveig enn einn ganginn að koma nafni fóstru sinnar upp og lætur næstu dóttur heita Pálínu Hildi Ísaksdóttur. Sú Pálína Hildur dó í hárri elli í desember 2003.

Hégilja? Okkur var alltaf sagt að Pálína Hildur hafi harðbannað að láta heita í höfuðið á sér og því hafi móðursystir mín verið skírð Ásthildur, í höfuðið á báðum ömmunum (hin hét Ástfríður) og smyglað inn hálfu nafninu. Undarlegt.

Nafnið Rannveig Dýrleif er vægast sagt sjaldgæft. Okkar Rannveig Dýrleif var fædd 3. 10.1884 í Kræklingahlíð við Eyjafjörð. Til var önnur Rannveig Dýrleif Hallgrímsdóttir, fædd 13. sept. 1854, á Grund í Eyjafirði. Um þessa er sagt: “Frú Rannveig var þannig af góðum eyfirzkum ættum, fékk hún gott uppeldi og meiri mentun en alment gerðist á hennar uppvaxtarárum.” Hún krækti í enn einn Laxdals kauphéðininn, sá var Eggert Laxdal. Þau áttu þrjú börn sem öll dóu. Í minningarorðum um Rannveigu Dýrleif Laxdal, í Norðra 1906, segir að hennar sé nú sárt saknað, m.a. af uppeldisbörnum, en þau eru ekki nafngreind. Það hljóta að vera tengsl milli þessara tveggja nafna.

Í minningarorðum um Pálínu Hildi Ísaksdóttur (Mbl. 8. des 2003) segir: “Móðir Pálu, Rannveig, var tekin í fóstur og alin upp hjá Jóni Einarssyni, kaupmanni á Raufarhöfn og Pálínu Jónsdóttur Laxdal.”  Einnig segir:

“… Pála fæddist á Raufarhöfn og ólst þar upp fyrstu æviárin eða til 14 ára aldurs. Þar bjó fjölskyldan í húsi sem kallað var Ísakshús. Eftir því sem hún bezt vissi var búið í því fram á síðustu ár og hefur trúlega verið góður viður í því. … Foreldrar hennar, sem byggðu áður nefnt hús, byggðu einnig samkomuhús við íbúðarhúsið og þar var dansað og seldu þau kaffi og límonaði, vindla og sígarettur.”

Kommon! Hin dularfulla fósturdóttir er fimmtán árum yngri en frú Pálína og hefur varla verið lengi í fóstri sem barn. Kannski hefur hún átt að vera frú Pálínu selskapsdama eða þjónustustúlka? Rannveig lætur svo heita í höfuðið á þeim kaupmannshjónum og er elsti sonurinn jafngamall Fríðu ömmu (f. 1904) sem frú Pálína tók svo í fóstur.  Fjölskylda Rannveigar Dýrleifar flyst ekki frá Raufarhöfn fyrr en 1923, sem vill svo skemmtilega til að er sama árið og afi (Einar Baldvin Jónsson) og amma (Hólmfríður Árnadóttir) gifta sig.

Það er ótrúlega dularfullt hvernig Rannveig og fjölskylda hefur verið þögguð niður. Nema afkomendur Fríðu og Einars séu upp til hópa með selektífan athyglisbrest.

Hvar er Ísakshús?

Ummæli (10) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

11. ágúst 2008

Dularfulla systirin

Geðkvarðinn hækkaði um leið og ég fékk gömlu albúmin (það vantar samt ennþá eitt albúm, þetta með myndum frá forsetaheimsókninni í Ásbyrgi … en ég hef ekki brjóst í mér til að bögga gamalmennið meir!) og póstkortin. Myndirnar í albúmunum eru afar illa farnar og verður spennandi að sjá hverjum má bjarga og hversu langt borgar sig að ganga í fiffun.

Svo fólk haldi ekki að ég sé sjálfbjarga einhverf þá tók ég hlé í myndavinnunni til að þrífa húsið almennilega og einnig til að fara með elsku manninum í berjamó í gær. Jafnframt leituðum við að Maríuhöfn og fundum af hyggjuvitinu einu saman - heimkomin fletti ég korti Danska herforingjaráðsins og sá svart á grænu hve við hjón höfðum haft rétt fyrir okkur!

Aðallega er ég samt að skanna kort.  Það er óhugnalega seinlegt því á hverju korti þarf að skanna framhlið og bakhlið og reyna einhvern veginn að sortéra í leiðinni. Ég hugsa að þetta séu hátt í hundrað kort.

Íslendingabók er grunnurinn til að reisa svona ættarsögu. Í Íslendingabók stendur klausan til vinstri, um hana Pálínu langömmu, sem ýmist var titluð öllum sínum nöfnum eins og hér, Hildarnafninu oft sleppt, Pálína Einarsson eftir að hún giftist Jóni Einarssyni langafa … og í Legstaðaskrá á gardur.is heitir hún Pálína Einarsdóttir og er algerlega óþekkt, þ.e. fæðingardagur, dánardagur, jarðsetningardagur o.þ.h. er ekki vitað.

Mér finnst Legstaðaskrá soldið líta á hana Pálínu eins og niðursetning og ég er handviss um að hún hefði aldrei verið sátt við það!

Jæja … hafandi þessar upplýsingar reiknaði ég með að Hlaðgerður litla María, sem fæddist árið 1867, hafi dáið í bernsku. Það gæti skýrt það að dánarárs er ekki getið, í Íslendingabók.

  

Ég tékkaði samt á Legstaðaskrá og með því að gefa alla kirkjugarða landsins sem leitarstað fann ég þessar þrjár Hlaðgerðar. Hlaðgerður Laxdal var heillandi möguleiki uns ég sá að fæðingarárið passaði ekki. Svo hefði verið soldið skrítið að hafa aldrei heyrt minnst á þessa Hlaðgerði Laxdal, hefði hún verið langömmusystir mín og lifað til 1970. (?)

Textinn:

Elsku systir mín!

Jeg sendi þjer þetta kort að gamni mínu og vona að guð gefi að það hitti þig fríska eftir hætti [?]. Jeg kem oft til H [?] / K [?]*  frænku því jeg æfi mig á flygelið.

Mamma segir þjer frjettir.

Vertu blessuð og sæl elsku systir

þín Lúlla (?)

*K=Katrín Viðar?

  • Er þessi Lúlla systir Pálínu?
  • Er Lúlla stytting fyrir Hlaðgerður? (Eina Hlaðgerðurin sem ég man eftir á Raufarhöfn var kölluð Della …)
  • Ef Pálína hefur átt systur sem lifði langt fram á síðustu öld; Hvernig stendur á því að maður hefur aldrei heyrt á hana minnst? Nú skora ég á móður mína að útskýra Lúllu, Hlaðgerði eða aðrar konur sem kalla Pálínu Hildi systur sína :)

(Kannski er rétt að taka fram að Íslendingabók nefnir allskyns klúður í manntölum og kirkjubókum á tímabilinu 1880-1900. Sem betur fer á ég góðkunningja í Þjóðskjalasafni og ætti kannski næst að róa á þau mið?)

P.s. Ég á í bölvuðum vandræðum með að fá formatið á texta og mynd til að virka.  Nú nenni ég þessu ekki lengur og verður að hafa það þótt síðari hluti færslunni líti ekki eins lekker út og óskandi væri.

Ummæli (4) | Óflokkað, Ættin