Færslur undir „Bækur“
Spámennirnir í Botnleysufirði
Ég var að klára Profeterne i Evighedsfjorden eftir Kim Leine. Þessi sögulega skáldsaga hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013 og skv. fregnum stefndi bókaútgáfan Draumsýn að því að gefa út íslenska þýðingu Jóns Halls Stefánssonar í mars á þessu ári en ekkert bólar á henni.
Það hefur tekið mig hátt í mánuð að komast í gegnum bókina, ekki af því hún væri svo leiðinleg heldur af því að þetta er ljót saga og gott að grípa í annað jákvæðara efni samhliða.
Bókin fjallar um norskan mann, Morten Pedersen Falck, sem lærir til prests í Kaupmannahöfn á síðari hluta átjándu aldar, gerist prestur á Grænlandi í nokkur ár, hrökklast til Noregs og þaðan til Kaupmannahafnar og hverfur loks aftur til Grænlands. Talverðu rúmi er eytt í að lýsa lífinu í Kaupmannahöfn, bæði á námsárum Mortens og svo brunanum miklar 1798 sem hann verður vitni að í seinni dvöl sinni í borginni. En hryggjarstykkið í sögunni er frásögnin af Grænlandsárum hans.
Þetta er því nokkurs konar Íslandsklukka sem gerist á Grænlandi. Nú hefur mér alltaf fundist Íslandsklukkan vera heldur kuldaleg bók, flestar persónurnar eru þannig að það er ekki nokkur leið að hafa samúð með þeim: Aumur þjófur af Akranesi, sem lemur sitt heimilisfólk; hofróðan Snæfríður og karríerklifrarinn Arnas eru ekki fólk sem mann langar til að kynnast neitt nánar en af blaðsíðum. Einna helst að gömul móðir Jóns Hreggviðssonar vekji samlíðan margra lesenda … og svo hef ég einlæga samúð með Magnúsi í Bræðratungu en efast um að það hafi verið ætlun höfundar. En þrátt fyrir að aðalpersónur Íslandsklukkunnar séu leiðindalið þá er ákveðin reisn yfir þeim, því verður ekki neitað. Og sagan er fantagóð.
Persónugalleríið í Spámönnunum í Botnleysufirði er þó að mun andstyggilegra en persónur HKL. Aðalpersónan, Morten Falck, er ekki beinlínis illmenni heldur duglaus ræfill sem lætur reka á reiðanum um nánast allt. Enda er niðurstaða hans í bókarlok að það sé best að vera ekkert að reyna að breyta neinu heldur veltast áfram um sem ósjálfbjarga leiksoppur kringumstæðna. Líf hans er að sumu leyti eins og sigling inn Evighedsfjorden en fjörðurinn dregur nafn sitt af því hversu krókóttur og langur hann er: Menn halda æ ofan í æ að nú sjái þeir inn í fjarðarbotninn og að takmarkinu sé náð en það reynist einatt tálsýn því snöggbeygja er á firðinum.
Af og til í allri sögunni veltir Morten Falck fyrir sér tilvitnun í Rousseau: „Mennesket er født frit, og overalt ligger det i lænker!“ [„Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“] en kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu sjálfur í þessum eilífu pælingum. E.t.v. á þessi klifun að segja lesandanum eitthvað og vissulega eru margir í hlekkjum hugarfarsins í þessari sögu, jafnvel raunverulega hlekkjaðir, en kannski síst af öllu Morten sjálfur: Hans óhamingja stafar miklu frekar af skorti á drift og dug (og of mikilli brennivínsdrykkju) en hlekkjum samfélagsins, a.m.k. ef ævi hans er skoðuð í heild.
Nær allir Danir í sögunni eru illmenni: rasistar, gróðapungar, jafnvel sadistar. Má ekki á milli sjá hvor er verri: Danski kaupmaðurinn í Sukkertoppen [Maniitsoq] eða danski kynferðisafbrotapresturinn í Holsteinsborg [Sisimut]! Sóðaskapnum í Kaupmannahöfn þessa tíma er lýst í smáatriðum, sama gildir um lýsingarnar frá Grænlandi. Væri gaman að telja hversu oft lús og óþef ber á góma í þessari bók.
Þeir sem hafa einhverjar hugsjónir og mætti telja ærlegt fólk eru Grænlendingarnir, ekki hvað síst trúsöfnuður Maríu Magdalenu og Habakuks, sem hefur aðsetur lengst inni í Evighedsfjorden [Kangerlussuatsiaq], allt þar til þeir dönsku ráðast á byggð þeirra, eyðileggja hús og kirkju og stugga íbúunum á brott. Raunar eru þeir hálfdönsku, bastarðar dönsku karlanna og grænlenskra kvenna, einnig almennilegt fólk upp til hópa en eiga erfitt uppdráttar því hvorki Danir né Grænlendingarnir samþykkja þá svo þeir eru eins konar paríar í samfélaginu.
Höfundurinn, Kim Leine, á nokkuð skrautlega fortíð, m.a. uppeldi hjá Vottum Jehóva og verandi læknadópisti um tíma. Hann hefur sjálfsagt víða leitað fanga um efniviðinn en nefnir í eftirmála að á Vefnum sé grein eftir Mads Lidegaard um Mariu Magdalenu og Habakuk sem hafi nýst sér vel. Ég las greinina eftir að hafa lesið bókina, hún heitir einmitt Profeterne i Evighedsfjorden og birtist í Tidsskriftet Grønland 1986. Satt best að segja virðist Kim Leine hafa gjörnýtt grein Lidegaard og hefði ekki verið úr vegi að tiltaka titil og vefslóð í tilefni þess, í eftirmálanum.
Sem sagt: Þetta er verulega ljót og andstyggileg saga. En hún er einkennilega heillandi eigi að síður svo ég mæli eindregið með henni. Hvað sem má um efnið segja er kristaltært að Kim Leine kann að segja góða sögu!
Myndin við færsluna er af kápu norsku þýðingarinnar. Lýsnar eru upphleyptar Hér er færsla um pælingarnar í hvernig bókarkápa yrði best. Að mínu mati hefur Norðmönnum tekist að gera miklu meir lýsandi umbúðir um þessa sögu en Dönum. Verður spennandi að sjá hvernig gripurinn lítur út á íslensku … ef tekst að koma þýðingunni út.
Morðynjan, Afneitun og Skiathos
Best að taka fram að þetta er eitt af fáum bloggum dagsins sem fjallar ekki um leka, lekamál eða annað lekatengt.
Í tilefni þess að við systur ætlum að heimsækja Skiathos mjög bráðlega, litla eyju sem er frægust fyrir að Mamma mia er þar kvikmynduð (einnig á næstu eyju, Skopelos), erum við á fullu að undirbúa okkur. Systir hefur gúgglað þær upplýsingar að flugvöllurinn sé ekki fyrir flughrædda og raunar ansi hættulegt að lenda þarna (gott ef er ekki hægt að horfa á YouTube myndband til að magna upp í sér flughræðsluna - ef maður væri flughræddur). Ég gúgglaði síðuna um flugvöllinn líka, til þess eins að komast að því að holdsveikraeyjunni þeirra var fórnað undir flugvöllinn. En það er kannski nóg að hafa skoðað eina svoleiðis, altso Spinalonga.
Og Skiathos fylgja þeir ótvíræðu kostir að þar eru engar rústir, engar mínóskar menningarleifar og yfirleitt fátt sem er eldra en svona fimmtíu-sextíu ára, sem er mikill léttir fyrir konu sem hefur fengið nóg af grískum fornminjum. Þjóðverjar sprengdu nefnilega borgina (Skiathos) í tætlur í síðari heimstyrjöldinni og hún hefur verið endurbyggð frá grunni - ég held að það sé ekki einu sinni feneyskur kastali þarna, sem er vel því ég hef skoðað fleiri svoleiðis en mér er hollt.
Hins vegar bjó frægur rithöfundur á Skiathos alla sína ævi og bar þar beinin. Hann virðist, af upplýsingum Wikipediu og fleiri öruggra heimilda, hafa verið nokkurs konar sambland af Guðrúnu frá Lundi og Jóni Trausta; Skrifaði sem sagt afar vinsælar sögur en var ekki endilega í bókmenntaklíkunni. Þetta var Alexandros Papadiamantis. Fyrstu sögurnar hans birtust neðanmáls í dagblöðum og menn rifu þær í sig, svo fór hann að skrifa smásögur og “langar smásögur” (nóvellur). Virtist ekki koma að sök að Papadiamantis skrifaði á “samræmdri grísku fornri”, lesendur settu það ekki fyrir sig.
Í gærkvöldi las ég eina svona nóvellu eftir hann, í enskri þýðingu (les ekki grísku, kann raunar ekki einu sinni stafrófið ennþá þrátt fyrir að hafa heimsótt grískar eyjar undanfarin níu ár). Hún heitir The Murderess. Ég varð alveg heilluð og las fram á nótt! Sagan gerist á Skiathos og segir af hlutskipti kvenna, sem var ákaflega erfitt. Konurnar sáu um allt, karlarnir voru óttalegar rolur. Í þokkabót var karlaskortur og þurfti að taka alls konar dela fyrir tengdasyni því annað var ekki í boði. Og heimanmundurinn var stöðugt áhyggjuefni; það þurfti að borga ríflega með hverri stúlku sem tókst að gifta. Þetta er afar femínísk saga, sem er doldið merkilegt því hún kom út árið 1902 og hann Papadiamantis var prestsonur, hafði og á yngri árum prófað sig sem munkur á Athos í tæpt ár og hafði þannig séð ekki forsendur dekurfemínista nútímans.
Gömul kona (hún er nú reyndar bara á aldur við mig en slíkt taldist ævagamalt á Skiathos í denn) er búin að fá nóg af þessu volæði og þeim illu örlögum sem stúlkna biðu; sífellt strit, barneignir, umsjá og ábyrgð á búi og börnum o.s.fr. Hún tekur því upp á því að myrða stúlkubörn því hún telur að litlu stúlkurnar séu betur settar sem englar. Sagan er þannig skrifuð að lesandinn hefur fulla samúð með þessari gömlu konu, morðynjunni, og skilur vel gjörðir hennar þótt auðvitað séu barnamorð frekar andstyggileg. Svo endar sagan á vofeiflegan hátt, sem ég upplýsi vitaskuld ekki því mér finnst að sem flestir ættu að lesa þessa bók (sem er bara 120 síðna löng).
Ég treysti á að systir gúggli allt sem gúggla má um þessa pínupons eyju. Sjálf einbeiti ég mér að því að hlaða niður heppilegri grískri tónlist, það er svo ljómandi notalegt að liggja í sólbaði á grískri eyju og hlusta á gríska tónlist í sínum eyrnafíkjum; auk þess getur maður ekki treyst því nema að á akkúrat þessari eyju séu bara spiluð Abba’s Greatest Hits.
Eitt laganna sem ég hef æxlað mér er lag Þeódórakis við texta Giorgos Seferis, Afneitun (Arnisi, stundum kallað Sto perigiali eftir upphafsorðunum). Þetta er eiginlega annar þjóðsöngur Grikkja, a.m.k. þeirra sem vilja ógjarna fasistastjórn á ný. Seferis var andsnúinn grísku herforingjastjórninni og lög Þeórodórakis algerlega bönnuð meðan hún var við völd. Þegar Seferis lést árið 1971 safnaðist mikill mannfjöldi við jarðarförina í Aþenu og brast í söng: Söng bannaða lagið og textann hans Seferis. Manngrúinn var of mikill til að yfirvöld gætu gert nokkurn skapaðan hlut við þessu.
Á Youtube má finna fjölda flytjenda þessa lags en ég bendi sérstaklega á flutning Mariu Farantouri enda hefur hún sérhæft sig í lögum Þeódórakis. Til eru a.m.k. þrjár þýðingar á þessu ljóði, sem er hreint ekki byltingarsinnaður texti en ljómandi fallegt ljóð. Ég enda þessa færslu á að birta þýðingu Atla Harðarsonar á ljóðinu - kannski við systur getum æft flutning lagsins með íslenskum texta áður en við fljúgum á vit sólar og raki og gríska matarins?
Afneitun
Við flæðarmál á feluströndu
fagurhvítri eins og dúfu
þorstinn mjög á miðjum degi
mæddi en vatnið salti blandað.
Þar á ljósan ljóma sandsins
letrað höfðum nafnið hennar,
en frá sænum golan gladdi
og gustur eyddi skrifum þessum.
Ó hve hjartað ákaft barðist,
öndin þreyði full af löngun,
er líf vort tókum tökum – röngum!
og tilverunni út því skiptum.
Rugl um rafbækur
Titillinn “Rugl bókaútgefanda og framkvæmdarstjóra Rithöfundasambandsins” er of langur en það er umfjöllunarefni færslunnar.
Í gær var haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, útgefanda hjá Crymogeu: “Það er alltof dýrt að gefa út rafbækur fyrir markað sem hefur í raun engan áhuga á þeim enn sem komið er.” (Fáar nýjar rafbækur um jólin. Morgunblaðið 8. nóv. 2013, s. 9.) Hvernig Kristján þessi veit að “markaðurinn” hafi engan áhuga á rafbókum er ofar mínum skilningi: Hefur hann kannað þetta? Vissulega er lítil sala í íslenskum rafbókum en augljósustu skýringarnar á því eru tvær:
1. Það eru afskaplega fáar íslenskar bækur gefnar út á rafbókaformi;
2. Í mörgum tilvikum er rafbókaútgáfu á Íslandi svo háttað að það er verulegt vesen að lesa þær, jafnvel ómögulegt.
Íslenskir bókaútgefendur eru svo þjófhræddir að jaðrar við þráhyggju þegar kemur að rafbókum. Þeir virðast ímynda sér að sé bók aðgengileg á tölvutæku formi muni henni dreift ólöglega skefjalaust og enginn maður kaupa hana. Þess vegna er allt kapp lagt á að gera rafbækur svo þjófheldar að þær eru jafnvel ólesanlegar með öllu - og svo dregin sú ályktun að “markaðurinn” hafi ekki áhuga á þeim. Líklega er það rétt ályktun, t.d. hefði ég (er ég markaður?) ekki áhuga á að kaupa mér reiðhjól sem væri það vel læst að ég gæti alls ekki hjólað á því eða vellæsta þvottavél sem ekki væri hægt að þvo í o.s.fr. Verulega þjófhræddir reiðhjólasalar og þvottavélasalar myndu svo draga þá ályktun að markaðurinn hefði ekki áhuga á þessum tækjum.
Í mínum kunningjahópi heyrði ég um daginn af viðskiptum við íslenska bókabúð: Viðkomandi keypti enska rafbók hjá þessari búð en gat alls ekki opnað skrána. Eftir að hafa fengið “lagaða skrá” senda nokkrum sinnum, án þess að geta opnað hana í sínu spjaldi gafst viðkomandi upp, keypti sömu bókina hjá Amazon og las þá útgáfu án vandkvæða. Ég reikna ekki með að þessi kúnni verði áhugasamur markaður í skilningi íslenskra bókaútgefenda á rafbókaútgáfu á Íslandi.
Í Morgunblaðinu í dag (Tvær rafbókaveitur væntanlegar, 9. nóv. 2013, s. 19) er enn meira rugl þjófhræddra hagsmunaaðila bókaútgáfu að finna. Steininn tekur úr í ummælum Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, sem segir:
“Við þurfum að vanda okkur. Passa að efnið flæði ekki óheft, þá erum við búin að tapa baráttunni,” segir Ragnheiður. Í þessu samhengi vísar hún til Svíþjóðar þar sem rafbækur voru lánaðar út á bókasöfnum sem ekki voru afritunarvarðar. Eftir það seldist ekki rafbók.
Ég hef skipt við sænskt rafbókasafn í 2-3 ár, í gegnum bóksafn Norræna hússins. Á sama árabili hef ég keypt svolítið af sænskum rafbókum gegnum dito.se og sé ekki betur en úrvalið þar sé ágætt. Á ég að álykta, af orðum Ragnheiðar, að einu kúnnarnir séu utan Svíþjóðar og að dito.se riggi upp tíu nýjum titlum á viku bara fyrir mig og örfáa aðra útlendinga sem kaupi sænskar rafbækur? Af því rafbækur seljast ekki í Svíþjóð af því bókasöfn þarlendis lána út rafbækur?
Æ fleiri dönsk bókasöfn lána rafbækur (því miður hafa Íslendingar ekki aðgang að þeim). Dönskum rafbókaverslunum fjölgar stöðugt á sama tíma, þetta veit ég því ég skipti reglulega við a.m.k. fjórar þeirra. Nýverið jók bog.nu við þjónustuna með því að birta verðsamanburð á rafbókum einnig svo það er handhægt og fljótlegt að finna út hvar hver rafbók er ódýrust.
Ég les í Kindli og þarf oftast að umbreyta skrám sem ég kaupi eða fæ lánaðar í Skandinavíu (frændur vorir eru enn á epub-stiginu, alveg eins og íslenskir bókaútgefendur). En það er æ fátíðara að skrárnar séu læstar (með DRM-vörn), núorðið láta flestir skandinavískir bókaútgefendur duga að vatnsmerkja eintökin svo þau séu rekjanleg til kaupanda ef þau skyldu dúkka upp á torrent-síðum. (Og í þessu samband má einnig geta þess að það er sárasjaldgæft að rekast á rafbók á skandinavísku máli á svoleiðis síðum svo vilji brotamanna á þessu sviði er ekki í samræmi við þjófhræðslu íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins.)
Mér finnst, sem íslenskufræðingi, frekar leiðinlegt að ég skuli lesa æ minna á íslensku. Á þessu heimili eru líklega til hátt í 1000 bækur á pappír og við hjónin eru sammála um að eignast frekar bækur í okkar Kindla, bæði til að grynna á bókaflóðinu og vegna þess að það er miklu þægilegra að lesa í Kindli en á pappír (þótt ekki væri nema til að stækka letrið … á kvöldin þegar ellifjarsýnin gerir vart við sig). Viðhorf íslenskra bókaútgefenda og forsvarsmanns Rithöfundasambandins benda til þess að innan fárra ára lesi ég ekkert á íslensku nema kannski mogga mannsins sem dettur inn um bréfalúgu heimilisins oft í viku.
Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna
Ég hef undanfarið verið að lesa bók eftir Karin Johannisson, Melankoliska rum. Om ångest, leda och sårbarhet i förfluten tid och nutid, sem kom út árið 2009. Er ekki nema rétt hálfnuð með bókina en finnst margt í henni athyglisvert. Karin þessi er sagnfræðingur með hugmyndasögu sem sérsvið (idéhistoriker). Hún hefur skrifað margar bækur um sjúkdóma og hugmyndasögu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir.
Í upphafi bókarinnar er gerð góð grein fyrir hvernig lýsingar á tilfinningum breytast í tímans rás og hve erfitt, eða jafnvel ómögulegt, getur verið að túlka lýsingar fyrri tíma með hugtökum og orðum nútímans. Eftir að sá varnagli hefur verið sleginn fer Karin að velta fyrir sér melankólíu og hvernig henni hefur verið lýst um aldir, í læknisfræði, bókmenntum, sjúkraskrám o.fl.
Hún telur að hugtakið melankólía hafi a.m.k. þrjár víddir sem snerta tilfinningar, geðslag og sjúkdóm. Gömul orð yfir melankólíu sem tilfinningu er fjölmörg og í þeim felst mismunandi mikill þungi. Karin telur upp sænsk orð yfir þetta en á íslensku eru eftirfarandi orð sögð samheiti við melankólíu: Geðveiki, samviskuveiki, þunglyndi, sturlun, fálæti, fáleiki, hjartveiki, hrelling, hugtregi og hugarvíl (Sveinn Pálsson. 1788.)
En þessi orð tengjast ekki sjúkdómi, segir Karin, heldur felst í þeim ákveðið þema: Einhvers konar missir, stol eða -leysi. Melankólía getur verið missir tilgangs (tilgangsleysi) en einnig bókstaflega missir tungmáls (væntanlega hæfileikans til að tjá sig), missir atorku eða missir orku til að koma sér fram úr rúminu.
Þótt melankólíu fylgi erfiðar tilfinningar hefur henni, sögulega séð, verið eignuð uppbót sem er glöggskyggni og sköpunarkraftur. Á koparstungu Dürer, Melencolia I, frá 1514, sést þetta vel: Þungbúinn engill situr (svo sannarlega) í þungum þönkum; Andlitið er dökkt og augun dauf en í kringum hann liggja tákn vísindanna. Á sextándu öld var þessi tegund af melankólíu kölluð melancholia generosa, hin gjafmilda melankólía.
[Hér mætti og skjóta inn dæmi um rómantíska sýn á melankólíu, þ.e. eftirfarandi tilvitnun í Drauminn eftir Byron (1788-1824), í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:
Því þunglyndisins skarpa og skyggna sjón
Er geigvæn gáfa þeim, sem hana hlaut.
Hvað er hún nema sannleiks sjónarauki,
Sem fjarlægð sviptir töfrum tálarmynda,
Sem nálgast lætur líf í tómri nekt
Og harðan sannleik helzt til sannan gjörir.]
Hugtakið depression er miklu þrengra. Það er búið til með hliðsjón af deprimere= að sökkva eða þrýsta niður. Myndhverfingin í því orði vísar til þess að einstaklingurinn
er niðurdreginn/þrúgaður niður. (Í íslenskun geðgreiningarlykla nútímans hefur verið búið til orðskrípið geðlægð til að þýða depression. Almenningur kallar depression þunglyndi, sem er eitt gömlu orðanna yfir melankólíu.)
Í melankólíu geta falist sterkar tilfinningar og sköpunarkraftur en í depression-hugtakinu felst aðallega hindrun. Karin vísar til Jennifer Radden, sem hefur farið kerfisbundið gegnum greiningarkerfi nútímageðlækninga og sýnt fram á að það sem seint á 19. öld var skilgreint sem tilfinningar hafi síðan þá þróast yfir í skilgreiningar á hátterni (s.s. svefn-, matar- og einbeitingartruflanir, hreyfhömlun og þreyta).
Melankólía karla breytist í geðlægð kvenna
Það sem mér þótti þó athyglisverðast við þessa melankólíuumfjöllun Karin Johannisson var umfjöllun um hvernig melankólía karla varð að depression kvenna. Þar víkur nefnilega sögunni að mínu uppáhaldi þessa dagana: Staðalmyndum (stereotýpum).
Karin staðhæfir að söguleg staðaltýpa melankólíunnar sé hinn útvaldi karlmaður. En staðaltýpa nútímans af þunglyndi sé nafnlausa konan.
Melankólía var tengd við gáfur og sköpunarkraft … en bara þessa eiginleika karla. Væri minnst á melankólíu í sambandi við konur var hún gjarna tengd kynferðismálum, eins og í sjúkdómsgreiningunni erotomani. “Hoon vaar … så spaak, som ett litet deggie-lam, och gick i kärlig melancholij”, skrifar sænski 17. aldar læknirinn Urban Hjärne. Sú þögn sem ríkir um melankólískar konur, í sögunni, er tæplega vegna þess að þær hafi ekki verið til heldur sýnir þögnin frekar hve lágan status melankólía kvenna hefur haft í karllægri hefðinni: Þegar melankólíu er hampað eru konur ekki taldar með. Karin vitnar í Juliana Schiesari sem heldur því fram að melankólía kvenna hafi verið umrituð, annað hvort í eitthvað þýðingarminna og hversdagslegra eða í eitthvað hættulegra, t.d. hýsteríu og brjálæði. Og Karin tekur dæmið: Af hverju má bara kalla svartsýni yðar en ekki mína svartsýni melankólíu? spurði óánægð skáldkona í bréfi til sænska ljóðskáldsins P.D.A. Attenbom (1790-1885). Hann svaraði: Af því að til þess er ætlast að konan sé glaðleg og saklaus.
Kyn melankólíunnar er sem sagt skilgreint karllægt. Þótti hinn melankólíski karl sé viðkvæmur og brothættur tapar hann ekki karlmennsku sinni. Melankólíuhugtakið leyfir þvert á móti karlkyns gáfumönnum að innlima hið kvenlega inn í hið karlmannlega. Á sama hátt hefur hystería karlmanna verið tengd við sérstaklega skapandi viðkvæmni, í menningarsögunni, ólíkt hysteríu kvenna.
Nútildags eru konur greindar í geðlægð (depressívar) í tvöfalt meiri mæli en karlar. Staðalmynd geðlægðar/nútíma þunglyndis rennur saman við staðalmynd hins kvenlega: óvirkni, lágan róm, lélega sjálfsmynd, segir Karin Johannisson. Hún tekur síðan ýmis dæmi úr ævisögulegum skrifum frægra þunglyndra kvenna til að sýna hvernig þær upplifa þunglyndið sem “ekki-tilveru”, óvirkni, lamandi ástand o.þ.h.
Sú kona sem ekki er meðfærileg, ekki glöð og saklaus o.s.fr., heldur niðurdregin, óánægð og jafnvel galin, á í hættu að vera dæmd, ekki bara af karlmönnum og vísindaheiminum heldur einnig af sér sjálfri. Þannig kona er jú skilgreind, og skilgreinir sjálfa sig, sem sjúka. Vandinn felst í þessu ómeðvitaða vali kvenna, segir Karin, að dempa sitt sjálf (ego) en ekki að upphefja það, að leita innávið en ekki útávið, að bregðast við í vörn en ekki í sókn. Svo víkur hún talinu að kenningum Juliu Kristevu og fleiri sálkönnuða en þá hætti ég að lesa …
Skiptir þetta einhverju máli?
Þótt ég sé ekki sammála öllu í umfjöllun Karin Johannisson og hafi rekið mig á slælega umgengni hennar við heimildir í þessari bók finnst mér margt áhugavert í því sem hún segir. Mér finnst t.a.m. spennandi að velta því fyrir mér hvaða máli það skiptir að melankólía var karlanna, í menningarsögunni, en geðlægð er kvennanna, í nútímageðlæknisfræði. Hvaða máli skiptir svoleiðis fyrir status og staðalmyndir, þ.e.a.s. þá þætti sem einkum skipta máli í fordómum og brennimerkingu/stimplun?
Og passar þetta við Ísland?
Á hinn bóginn er ég ekki viss um að hve miklu leyti megi heimfæra umfjöllun hennar upp á íslenska menningu í tímans rás. Sveinn Pálsson segir í lýsingu á melankólíu árið 1788 : “Þat sýnisz og at fleiri séu konur enn karlar veikindum þessum undirorpnir.” Í annarri lýsingu sem birtist árið 1794 segir Sveinn að byrjunareinkenni melankólíu geti verið ofurlítið misjöfn eftir kynjum en virðist svo gera ráð fyrir að sjúkdómurinn lýsi sér eins hjá konum og körlum þegar hann elnar:
Géð- eðr Sinniveiki (Melancholia, Tungsindighed), er svo almennur sjúkleikr hér at ekke veitti af heille bók um hann, kynni þar með einhverium at verða hiálpar, byrjar hann optar með miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, sem eru nærstumsømu veikleikar, og hvarum høndlat skal í [grein] 58, ríðr þá miøg svo á strax í fyrstu at bera sig að koma í veg fyrer hið verra; géðveikt fólk misser fyrst matarlyst, regluligan svefn og náttúrligar hægðir; elskar einsetur og veit þó ei giorla hvar fyrir; þeinkia jafnann um hið sama, fá jafnvel hatr á øllum mønnum og sér siálfum með; eru ofr sorgfullir eðr og þeigiandi og hræðast stundum alla hluti, með mørgu fleiru sem bagt er upp að reikna, um síðer vex þúnglyndit æ meir og meir, þar til siúklingr annað hvert fyrirfer sér siálfr þegar minst varer, elleger missir vitit og nefniz þá vitfirring […]
Spinalonga og morð
Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …) Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli …
En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar.
Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.
Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.
Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.
Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp
Hringur Aðalsteins konungs, skalli Skalla-Gríms o.fl.
Við í íslenskumafíunni í FVA höfum dálítið rætt um þáttinn Ferðalok - Silfur Egils Skallagrímssonar sem sýndur var á sunnudagskvöld á RÚV. Þetta var skemmtilegur og fróðlegur þáttur og ég hlakka til að sjá næstu þætti. En eins og fleiri kollegar mínir hér á Skaga kann ég Egils sögu næstum utanbókar. Og mér kom sumt í þessum þætti spánskt fyrir sjónir.
Það sem kom kannski mest á óvart var senan þegar Aðalsteinn Englakonungur réttir Agli hring á sverðsoddi sem í Egils sögu er lýst þannig:
Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af.
Yfirleitt hefur þessi lýsing verið skilin sem svo að Aðalsteinn konungur hafi rétt digran armhring yfir eldinn. Skömmu áður hafði Egill greftrað bróður sinn og spennt gullhring á hvora hönd honum. Vilji menn leggja lýsingu á karakter Egils út á versta veg má skilja háttalag hans í veislu Aðalsteins sem merki um eftirsjá Egils eftir að hafa splæst þessum gullhringjum á lík Þórólfs, í augnabliks geðshræringu, því Agli var einkar sárt um fé og dýrgripi. Orðalagið „að spenna hring á hönd“ eða „draga hring á hönd“ bendir óneitanlega til armbands fremur en fingurgulls, hefði Egill ekki öðrum kosti „dregið hring á fingur sér”? Og verðmæti gjafar Aðalsteins minnkar auðvitað gífurlega ef hann splæsti bara baug á borð nútíma giftingarhring. (Í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni „Hvers vegna breyttist orðið hringur í armband, og fingurgull í hring?“, á Vísindavefnum, má fræðast um rugling milli orðanna hringur og baugur í tímans rás, sem er raunar ekki sérlega upplýsandi varðandi þetta atriði nema til að staðfesta að orðið hringur þýddi mjög oft armband.)
Annað sem einnig kom okkur stórneytendum Egils sögu á óvart var hve Skalla-Grímur var vel hærður fram á sinn síðasta dag. Þegar hann krefur Egil um silfur Aðalsteins konungs blasa við hrokknir lokkar. Fer lítið fyrir „skalla þeim hinum mikla“ sem var „fullur upp úlfúðar“ mörgum áratugum áður. Raunar er gersamlega óskiljanlegt af hverju Grímur fékk þetta viðurnefni sé miðað við það sem sást í þættinum.
Þeir feðgar eru báðir miklir myndarmenn í þættinum, eiginlega talsvert sjarmerandi, sem er ekki í samræmi við lýsingar Egils sögu. Egill lítur meira að segja út eins og velhært og sprækt unglamb þegar hann fer að husla silfrið sitt, þá áttræður, skv. Egils sögu búinn að missa sjón, heyrn að hluta og sídettandi, karlanginn …
Nú kann einhverjum að finnast að ég sé að agnúast út í smáatriði í annars góðum þætti. En mér finnst að vilji menn fjalla um Íslendingasögur á annað borð sé lágmarkskrafa að þeir hafi lesið þessar sögur og viti skil á frægustu lýsingum í þeim. Ef menn nenna því ekki er best að sleppa því að sýna atburði úr þeim og gera annars konar heimildaþætti, t.d. um fornleifar.
Myndir eru skjámynd úr þættinum sem um er rætt í færslunni og mynd af þremur armbaugum úr silfri frá víkingaöld sem fundust á Englandi. Ljómandi fallegan víkingaaldar-armhring úr gulli má sjá hér.
Ósjálfrátt
hefur sagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur verið mér ofarlega í hug frá því ég kláraði hana um síðustu helgi. Ég heillaðist gersamlega af þessari bók og horfði með angist á ólesnum síðunum fækka og fækka … þetta er ein þeirra bóka sem maður óskar sér að klárist aldrei.
Nú fylgist ég ekki mikið með umfjöllun um bækur, vil frekar lesa þær sjálf og mynda mér skoðun á þeim. En ég hef það á tilfinningunni að því hafi einkum verið hampað að Ósjálfrátt fjallaði um hvernig skáld verður til, hvernig bók eða rithöfundur fæðist. Vissulega fjallar hún um það en kannski mætti frekar segja að bókin fjallaði um gildi þess að skrifa, hvað það er sem gerir skrif eftirsóknarverð og frelsandi. Fólk sem venur sig á skriftir kannast mætavel við þetta, maður þarf ekki að vera skáld til þess, maður þarf ekki einu sinni lesanda því skrifin ein og sér gera öllum gott. Fáar konur hafa þó reynsluna af því að skrifa í sig barn eins og Eyja
Í Ósjálfrátt býr svo ótal margt. Það sem höfðaði fyrst og fremst til mín, fyrir utan aðalersónuna, var lýsingin á fjölskyldu Eyju og lýsingin á alkóhólisma; alkóhólistum og áhrifum sjúkdómsins á alla þá sem lifa og hrærast kringum alkann. Oft á tíðum er lýst kaldranalegum aðstæðum og nöprum uppákomum en frásögnin litast ævinlega af hlýju og húmorinn er ekki langt undan. Það er undirstrikað rækilega að lífið er ekki svarthvítt, að ekki er hægt að skipta fólki í sökudólga og fórnarlömb, að hver er sinna gæfu smiður en er jafnframt háður því umhverfi sem hann hrærist í og erfðum.
Í mínum huga er Ósjálfrátt saga um konur. Hún er sagan af Eyju, systur hennar, móður hennar og ömmu, meira að segja langmæðgur koma við sögu, og sagan af konunum í kringum þær. Þessar konur hafa sína galla enda af holdi og blóði en kostirnir yfirskyggja gallana. Örlög og líf þessara kvenna fléttast í rúmi og tíma. Sífellt tímaflakk í bókinni kemur ekki að sök heldur virkaði fullkomlega eðlilegt, hvort sem um var að ræða endurlit eða kafla sem gerðist í framtíð aðalsögutímans.
Það hvarflaði reyndar að mér við lesturinn að einhverjir myndu hvorki skilja haus né sporð í þessari frásögn. Ég held að til þess að skilja Ósjálfrátt þurfi að hafa einhverja svipaða upplifun og þær sem bókin lýsir en það kann auðvitað að vera minn misskilningur. Aðalatriðið er að ég get glaðst yfir að hafa fengið tækifæri til að lesa svona frábæra bók sem situr eftir í huga mér og fyllir mig hlýju.
Dagurinn, femínistinn og bækurnar
Ég vaknaði við að femínisti heimilsins stóð á öskrunum við rúmstokkinn. Sennilega hefur hún staðið lengi á öskrunum því hún er femínín femínisti og heyrist lágt í henni … samt sætir hún þöggun og jafnvel út-skúfun (fer ekki nánar út í það á opinberu bloggi). Þegar ég loksins hafði mig framúr og bjóst til að bursta tennur blasti ástæðan fyrir felmtri femínistans við: Hinn einbeitti innbrotsköttur Kuskur hreiðraði um sig í baðherbergisvaskinum, sæll og glaður og síbrotalegur á svip. Ég henti honum út og róaði femínistann.
Eftir að hafa stungið út úr nokkrum kaffibollum og lesið moggann (mannsins) var kominn tími á bloggrúntinn. Blessunarlega höfðu mínir uppáhaldsbloggarar skrifað sitt lítið af hvurju, þær Vilborg og Gurrí og Eva. Ég hafði raunar lesið færslu Evu kvöldið áður og skemmt mér ágætlega við að horfa á prinsessuvídjóið, skemmti mér við að horfa á það aftur í morgun; og ég las líka færslu Gurríar í gærkvöld en það mátti alveg lesa hana aftur enda er ég eins og venjulega sammála Gurrí (deili reynsluheimi með henni) og bæti hér með við að það að hluti Flatus-lifir-veggjarins hafi fokið hefur einnegin verið þaggað niður.
Svo var að kynna sér hvernig pólitískt réttir vindar blésu í dag. Aðalhitamálið virtist vera barnabækur, bleikar og bláar, alveg eins og í gær, og virðist stutt þar til blásið verður til bókabrenna (eins og systursamtök femínísta iðkuðu í henni Amríku á níunda áratugnum).
Ég valdi “sumur [er sæll] af verkum vel” úr sæluboðorðum Hávamála fyrir daginn í dag (þetta eru ágæt geðorð, ekki verri en hver önnur) og bjó manni mínum fagurt heimili = sinnti helgarþrifum. Á meðan reikaði hugurinn þægilega til barnæsku minnar og þeirra bóka sem ég las. Valið var einfalt: Ég las lestrarfélagsbækurnar. Bækurnar komust fyrir í einu herbergi og ég hafði aðgang að lyklinum. Á norðurhjara landsins var ekki búið að finna upp uppeldi skv. kenningum þegar ég var krakki - bæði er langt síðan og sveitin afskekkt. Þess vegna las ég Nonnabækurnar og Percy hinn ósigrandi, Kapítólu og Karlsen stýrimann, rauðu telpnabækurnar og bláu drengjabækurnar, Tópelíuz og Tamin til kosta, Fornaldarsögur Norðurlanda og Freuchen o.s.fr. Ég man að mér var bannað að lesa Gleðisögur Balzacs og þess vegna las ég þá bók einkar vandlega … þótti hún mjög leiðinleg. Sömuleiðis var mömmu eitthvað illa við að ég læsi Tígulgosann … þess vegna las ég Tígulgosann innan í Æskunni en því miður komst það upp. Það komst líka upp að ég faldi bækur undir rúmi þegar gerð var tilraun til að skammta mér bækur á viku vegna þess að í gildi var sú norðlenska uppeldisaðferð að börn ættu að vera úti og ekki liggja alltaf í bókum því þá yrðu þau eins og hundaskítur í framan. (Ég hef mömmu grunaða um að hafa viljað losna við krakkana smástund á hverjum degi og upplagt að láta mig passa því ég var elst fremur en hún hafi raunverulega trúað þessari hundaskítshúðlitarkenningu … árangurinn var sá að ég fékk algera andúð á útivist og krökkum og var sérlega vond við yngri systkini mín. Og faldi bækur.)
Velti því svo fyrir mér hvort synir mínir hefðu beðið skaða af því að fyrir þá var lesinn allskonar pólitískt rangur barnalitteratúr, s.s. Litli svarti Sambó og Tíu litlir negrastrákar og Tinni og Enid Blyton komplett … ég man ekki einu sinni eftir öllum óhroðanum til að telja upp. Held þeir hafi sloppið fyrir horn sálarlega séð. Og það eina pólitískt rétta í þeirra uppeldi sem ég man eftir var þegar leikskóli eldri stráksins skar upp herör gegn vopnakyns leikföngum. Einn daginn sagði krakkinn hróðugur þegar pabbi hans sótti hann á leikskólann: “Við erum búnir að skjóta allar stelpurnar í dag!” Þá höfðu þeir notað sleifar til verksins, blessaðir drengirnir í bófahasarnum … Það rættist eigi að síður úr syninum og hann heldur sig örugglega réttu megin við lögin í dag, fullorðinn.
Við erum hugmyndafræðileg gauð hér á þessu heimili, fyrir utan femínista heimilisins en mynd af henni skreytir þessa færslu. Auk femínisma leggur hún stund á mannfræði og kveðskap, s.s. sést á þessari gömlu vísu:
Ég er fagur femínisti og fer á kostum;
malandi læt rímið renna;
og raula fyrir málstað kvenna.
Haldið framhjá Kindlinum
Nú hefur Kindillinn minn legið meira og minna á hillu undanfarnar margar vikur. Sem er auðvitað sorglegt miðað við hve mikla ást ég hef fest á gripnum.
Ég datt sumsé í pappírsbækur. Fallið byrjaði með tveimur hnausþykkum bókum eftir Jussi Adler-Olsen, uppáhaldið mitt. Ég tók að mér að vera “pössunarpía” fyrir vinkonu mína, þ.e. leysa hana af í kennslu nokkra daga, einhvern tíma snemma í september. (Þetta var nú ekki kennsla þannig lagað, ég fékk allt upp í hendurnar og þurfti ekki fara yfir neitt, bara mæta í tímana, merkja við og passa að nemendur ynnu.) Kennari þar varð áskynja aðdáunar minnar á Adler-Olsen og lánaði mér Flaskepost fra P og Journal 64, sem ég gleypti í mig.
Skömmu síðar bárust pappírseintökin sem ég neyddist til að panta frá Amazyni af því önnur bókanna var bara til á pappír, rafbókaútgáfan af hinni bara til sölu í Amríku. Þetta voru bækur sem snertu geðlækningar, The Myth of the Chemical Cure og Unhinged; Las þá síðarnefnu spjaldanna á milli en hina svona í pörtum.
Stuttu síðar var mér bent á enn eina ágætis bókina um svipað efni sem til væri á bókasafni Norræna hússins. Það er bókin Pillret. En berättelse om depressioner och doktorer, forskare och Freud, människor och marknader eftir blaðamanninn Ingrid Carlsberg (útg. 2008). Innan á bókakápu er ýmislegt hrós, þ.á.m. staðhæfir lyfjafræðiprófessor að bókin sé “En formidabel thriller!” Nú er ég hálfnuð með bókina (hún er ansi löng) og verð að taka undir þessi orð: Þessi bók um þunglyndi, lyf og geðlækningar er nefnilega æsispennandi, gefur góðri morðsögu lítið eftir. Sá sem benti mér á hana skrifaði sjálfur bloggfærslu um hana á sínum tíma og ég vísa bara í bloggfærsluna hans vilji menn kynna sér bókina (sem ég verð vel að merkja með í láni í tvær vikur í viðbót). Sjá Bókarýni: Frábær bók um geðlyf! eftir Einar Karl Friðriksson. Það tefur svo lesturinn nokkuð að ég er alltaf að kíkja í tilvísana- og heimildaskrárnar …
Ég uppgötvaði að mig bráðvantaði bókina Alverdens strikning eftir Ann Möller-Nielsen (útg. 1988). Hafði upp á eintaki til sölu með hjálp Gúguls frænda og hugmyndaauðgi bóksalans (sem ekki var með kreditkortaþjónustu) varð til þess að við ákváðum að skiptast á gjöfum, ég og hann. Svo fékk ég bókina að gjöf og þurfti að lesa hana upp til agna samstundis … vitaskuld á pappír. Þessi bók á eftir að nýtast mér afar vel í prjónasögublogg, sem ég tek aftur til við þegar ég hef bloggað eina færslu enn til að klára yfirferð yfir þunglyndislyfjapakkann.
Nú, í ofanálag hef ég dottið inn á ýmis bókasöfn undanfarið, er með heilan haug af hannyrðafræðum af bókasafninu í Kennó og nokkrar af bókasafninu hér á Skaga, hef stillt mig um að fá lánað á Þjóðarbókhlöðu þótt ég hafi rekið þar inn nefið vikulega og gramsað í ýmsu. M.a. er hér í hillu hálflesin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur, sem er mjög skemmtileg og vel skrifuð og ég ætla örugglega að klára. Ég fékk líka lánaða bókina hans Óttar Guðmundssonar, sem ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt eftir, Hetjur og hugarvíl. Las kaflann um Njálu en þótti ekki mikið til koma og ákvað að skila bókinni með restinni ólesinni. Nú er ég nefnilega hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. (Af sömu ástæðu lagði ég Fifty Shades of Gray á Kindilhilluna eftir 40 lesin prósent, sú bók sameinaði það að vera einstaklega illa skrifuð og margauglýst erótíkin svo ómerkileg að ég roðnaði næstum yfir að lesa þessa hörmung.)
Í Kindlinum er hálflesin Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Nordahl. Ég mun örugglega klára hana því þetta er helvíti góð bók! Hins vegar held ég að ég hendi hinni hálflesnu bókinni, sögunni um hvernig Liza Marklund og Mia Eriksson hagræddu sannleikanum ansi mikið í bókunum sem þær skrifuðu og slógu í gegn. Vissulega er áhugavert hvernig hægt er að teygja og toga hlutina og ljúga duglega í þokkabót og selja svo metsölu … en bókin er alltof langdregin og ég nenni ekki einu sinni að gá hvað hún heitir. Líklega eru hundraðogeitthvað bækur í Kindlinum svo það er ekki eins og ég sé að ljúka lestri í bili … en hann liggur sem sagt í hillunni. Og enn á ég eftir að calibra bók sem mér áskotnaðist fyrir stuttu, um geðveiki og vestrænar læknisaðferðir við henni …
Það tefur mig líka frá lestri að vera þokkalega hress. Það er ótal margt sem mig langar til að gera á hverjum degi og um að gera að láta það eftir sér meðan heilsan er með skásta móti. Svo reyni ég líka að vinna í því að halda heilsunni áfram með skásta móti, t.d. er nauðsynlegt að arka 6-8 kílómetra á hverjum degi (veit ekki hvort það virkar eitthvað gegn þunglyndi en það skaðar a.m.k. ekki); segi já við öllum samkomum og uppákomum (á HAM-námskeiðinu greip ég ráðlegginguna að það væri slæmt fyrir þunglynda að vera í félagsskítafélaginu … fín ráðlegging og við skulum vona að hún virki): Satt best að segja held ég að ég sé búin að gera meira undanfarna tvo mánuði en samanlagt tvö árin á undan.
Þetta er bloggað beint af augum … og ég nenni ekki að blogga um dægurmál frekar en venjulega enda er offramboð á svoleiðis bloggum, mjög misjöfnum að gæðum.
Vörn Jakobs og Frjálsar hendur
Það mundi æra óstöðugan ef ég færi að skrifa um allan þann morðlitteratúr sem ég hef lesið í Kindlinum mínum í sumar! Og um einu bókina sem er ekki af þeim toga en ég las samt af miklum áhuga í sólbaði sumarsins og fannst jafnspennandi og morðbókmenntirnar, Anatomy of an Epidemic, ætla ég að blogga sérfærslu um síðar.
Hér ætla ég aðeins að nefna Defending Jacob eftir William Landay, sem vissulega má fella undir morðbókmenntir en er mjög sérstök. Ég byrjaði að lesa hana haldandi að þetta væri eins og hvert annað lögfræðidrama, svipað og Grisham skrifar (mistækur er hann vissulega en sumar bækurnar hans eru glettilega góðar). Defending Jacob fjallar um piltinn Jacob sem er 14 ára gamall en faðir hans, saksóknari, er sögumaður. Skólabróðir Jacobs finnst myrtur og böndin berast að Jacob; hann er handtekinn fyrir morðið og réttað yfir honum. Ákveðið atvik verður til þess að réttarhöldum er hætt og málið fellt niður. En svo tekur sagan óvænta stefnu …
Defending Jacob fjallar samt kannski að minnstu leyti um morðið og réttarhöldin, það er bara yfirborðið. Fyrst og fremst fjallar sagan um stöðu og afstöðu foreldra þegar barnið þeirra er ákært fyrir morð. Hversu vel þekkja foreldrar börnin sín? Er til sérstakt drápsgen (killer-gene /warrior-gene) og er réttlætanlegt að brúka erfðafræði í vörn í morðmáli? (Þetta eru ekkert svo vitlausar vangaveltur því þegar hefur einn amrískur morðingi sloppið við aftöku út á þetta warrior-gene.) Eru til börn og unglingar sem eru illmenni af náttúrunnar hendi? Hvað hugsar foreldri sem ber drápsgenið og veit að ákærði unglingurinn þess ber það líka? Hvernig bregðast nágrannar eða fólkið í bænum við þegar unglingur hefur verið ákærður fyrir að myrða skólafélaga sinn? Hversu langt ertu tilbúin(n) til að ganga til að verja barnið þitt og hverjar eru afleiðingarnar?
Þetta eru aðalatriðin í Defending Jacob. Mér finnst að það hefði vel mátt stytta bókina um svona 20-30% og viðurkenni alveg að ég rétt skannaði síðurnar um miðbik bókarinnar og nennti ekki að lesa þær frá orði til orðs. En fyrsti og síðasti hlutinn eru mjög góðir. Endirinn er óvæntur og fær lesanda til að endurmeta allt sem áður hafði verið lýst.
Þessi bók hefur fengið góða dóma, sýndist mér, og til stendur að gera kvikmynd eftir henni. Ég mæli eindregið með bókinni og ætla sko örugglega að sjá myndina!
Svo hef ég nýverið gluggað í tvær bækur á pappír sem báðar eru eftir kennara í MR; Annars vegar Óð, ljósmyndabók Davíðs Þorsteinssonar, og hins vegar Frjálsar hendur. Kennarahandbók, eftir Helga Ingólfsson. Sú síðarnefnda er kilja og mögulega hafa starfsmenn bókabúða raðað henni með skólabókunum
Ég hugsa að kennurum, einkum framhaldsskólakennurum, einkum íslenskukennurum í framhaldsskóla, og ekki hvað síst íslenskukennurum í fjölbrautaskóla, finnist Frjálsar hendur. Kennarahandbók óborganlega fyndin! Aðalpersónur eru flestar kennarar í Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri. Inn í bókina fléttast svo gamlir kunningjar úr fyrri bókum Helga, t.d. þingmaðurinn Hreggviður og skáldið Gissur Þorvaldsson. Ég veit ekki alveg hvort aðrir en þeir sem hafa reynslu af kennslu fatta húmorinn almennilega en megnið ætti nú að skila sér til hvers sem er. Skilyrðið er að finnast farsar skemmtilegir, þar sem persónurnar lenda í ótrúlegustu ógöngum og uppákomum, oft algerlega óvart. Það eina sem mér fannst leiðigjarnt í sögunni voru birtir kaflarnir úr nútímafornaldasögunni sem íslenskukennarinn var að semja … en ég hoppaði þá bara yfir þá. (Jújú, ég fattaði flestar vísanirnar en hef bara ekki húmor fyrir hugmyndinni - mér duttu samt í hug nokkrir sem fyndust þetta bestu kaflar bókarinnar svo þetta er fyrst og fremst spurning um persónulegt skopskyn.)
Ég mæli eindregið með Frjálsum höndum. Kennarahandbók, ekki hvað síst fyrir framhaldsskólakennara. Auk þess held ég að starfsmenn Menntamálaráðuneytisins hefðu voðalega gott af því að lesa bókina. Hennar stærsti ókostur er að hún er ekki fáanleg sem rafbók!