Færslur undir „Bækur“

25. ágúst 2012

Fáránleg verðlagning íslenskra rafbóka og einokunarstefna bókaútgefenda

Svk. upplýsingum sem ég fékk frá bókaútgefanda er kostnaður nokkurn veginn svona samansettur í verði íslensks skáldverks á pappír í bókabúð:

  • Prentkostnaður: 15-20% af verðinu (miðað við að bókin sé prentuð í íslenskri prentsmiðju);
  • Dreifingarkostnaður: 5-7% af verðinu;
  • Greiðslur til endursöluaðila (bókabúða): 35% af verðinu;
  • Greiðsla til höfundar: 23% af verðinu
  • Auglýsingakostnaður: 10-20% af verðinu.

Restin kemur í hlut bókaútgefandans og á m.a. að dekka kostnað við vinnuna við að búa verkið til prentunar. (Líklega er virðisaukaskatturinn innifalinn í hlut endursöluaðila.)

Það er algerlega augljóst að bara með því að losna við prentkostnað og greiðslur til endursöluaðila ætti verð á bók að lækka töluvert. Af hverju kosta þá íslenskar rafbækur hið sama og sömu bækur á pappír í bókabúð?

Sá bókaútgefandi sem ég ræddi við taldi mikið mál að útbúa rafbók og dreifa. Líklega getur það verið snúið ef bókin er komin á eitthvert það stafrænt form sem prentsmiðjur taka við. En sé um að ræða einfalda textaskrá eða Word-skjal, sem hægt er að breyta í HTML-skrá og hreinsa út óþarfa kóða, ætti þetta ekki að vera mikið mál. Óli Gneisti Sóleyjarson, sem minnst var á í síðustu færslu og er smiður Rafbókavefjarins, skrifaði meistararitgerð um þetta verkefni sitt þar sem hann lýsir því m.a. hvernig megi breyta skjölum í rafbók með Sigil, ókeypis forriti, o.fl. forritum (s. 47-50). Ég hvet alla áhugamenn um rafbækur til að lesa ritgerðina hans, Rafbókavefurinn Íslenskar rafbækur í opnum aðgangi. Þar fjallar hann m.a. um sögu rafbóka, ýmislegt sem snertir höfundarétt, rekur sögu Netútgáfunnar ítarlega og lýsir smíði og rekstri Rafbókavefjarins. Þetta er mjög áhugaverð, vel skrifuð og upplýsandi ritgerð. Á Rafbókavefnum sjálfum eru svo góðar leiðbeiningar um hvernig nota megi Sigil og Calibre til rafbókagerðar.

Ég ætla ekki að skrifa langt mál um kostnað af vistun og dreifingu gagna á tölvutæku formi heldur einungis benda á að til eru ódýrir vistunarkostir (t.d. Bluehost sem afritar öll gögn einu sinni á sólarhring), ódýr lén, ef menn nota aðra kosti er ISNIC, ódýr vefgerðarforrit, t.d. Weebly, þar sem hægt er að setja upp verslunarsíðu og tengja við PayPal o.s.fr.  Það er engin ástæða til að reka eigin skráaþjón þegar hægt er að kaupa rými fyrir gögnin og sjálfkrafa tíða afritun á netskýi. Kostnaður við auglýsingar á Facebook og á netmiðlum ætti að vera minni en við auglýsingar á pappír, fyrir svo utan það að gott lén og vandlega unnin lýsigögn fyrir leitarvélar ættu að skila sér vel á jafnlitlu markaðssvæði og Ísland er. Ég sé ekki betur en hver bókaútgefandi ætti að geta stofnað sína eigin rafbókasölusíðu með litlum tilkostnaði og lágmarkstæknikunnáttu.

GrægðiEf við reiknum með að upplýsingarnar sem ég fékk frá bókaútgefandanum séu réttar þá má ætla að af íslensku skáldverki sem kostar 3.000 krónur í Eymundsson fái höfundurinn svona 610 krónur og útgefandinn kannski 300-350 kr. Af hverju er ekki hægt að selja íslenskar rafbækur á verðinu 1.300-1.500 krónur og bæði höfundur og útgefandi héldu samt sínum hlut miðað við prentuð eintök? Í hverju felst hinn gífurlegi kostnaður sem verður til þess að rafbækur kosta á bilinu um 2.000-4.000 krónur og hærra verðið er miklu algengara?

Á vef Félags íslenskra bókaútgefenda má finna samningseyðublað sem bókaútgefendur og höfundar fylla út. Þar segir um rafbækur:

d. Rafræn útgáfa.
Sé ekki um annað samið hefur útgefandi verksins rétt til útgáfu þess á rafrænu formi. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar fellur rétturinn til höfundarins að nýju. Að liðnu þessu tímabili á útgefandi rétt á að höfundur tilkynni honum skriflega um fyrirhugaða rafræna útgáfu og skal hann eiga forgang til útgáfunnar enda takist samkomulag með útgefanda og höfundi um skilmála útgáfunnar innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningarinnar. Að öðrum kosti er höfundi frjálst að ráðstafa réttindum þessum án frekara samráðs við útgefanda.
Aðilar skulu semja um skiptingu tekna af rafrænni útgáfu og skal í upphafi miðað við að tekjur af rafrænni útgáfu skiptist jafnt milli útgefanda og höfundar. Tekjur samkvæmt grein þessari skulu að öðru leyti reiknaðar með hliðsjón af ákvæðum 12., 13., 15. og 16. gr. samnings þessa, þ.e. sem söluverð að frádregnum virðisaukaskatti, sölulaunum og afslætti. Við ákvörðun hlutfalls höfundar til hækkunar eða lækkunar skal meðal annars líta til tilkostnaðar útgefanda við útgáfuna og markaðssetningu verksins auk þess sem tillit verði tekið til sanngirnissjónarmiða.
Útgefandinn skal leitast við að haga útgáfu verksins þannig tæknilega að sem minnst hætta sé á misnotkun þriðja aðila á höfundarrétti að verkinu og í því skyni skal útgefandi nota viðurkennda tækni hvers tíma.
Höfundi er óheimilt, á meðan útgefandi á skilyrtan rétt samkvæmt grein þessari, að veita þriðja aðila aðgang að verkinu á rafrænan hátt í heild sinni hvort sem er gegn gjaldi eða ekki.

Miðað við ráðslag stærstu íslensku bókaúgefenda til þessa finnst mér verulega óskynsamlegt af höfundum að skrifa undir þessa samningsgrein. Útgefandi bókar getur átt réttinn til rafbókaútgáfu og dregið lappirnar í að gefa út rafbók í 21 mánuð, þ.e. tæp 2 ár, frá því pappírseintakið kemur út. Ekkert skyldar útgefandann til að bjóða verkið sem rafbók. Útgefandi pappírseintaksins ræður algerlega verði rafbókarinnar og verðlag íslenskra rafbóka til þessa gefur ekki tilefni til bjartsýni í sölu svoleiðis bóka.

Hitt er einnig til mikils vansa að íslenskir bókaútgefendur hafa tekið sig saman, flestir þeir stærstu a.m.k., um að gefa ekki út rafbækur fyrir Kindil, sem þó má ætla að sé algengast lesbretta (sjá t.d. tölulegar upplýsingar um niðurhal mismunandi skráategunda af Rafbókavefnum í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar). Ég velti því líka fyrir mér af hverju Forlagið birtir mynd af rafbók í Ipad á upplýsingasíðunni sinni um hvernig megi kaupa af því rafbækur - er það tilviljun að þeir völdu myndina iPad-E-book.jpg til að punta upp á þá síðu? Og er svona samráð, sem sést í vefverslun Forlagsins, löglegt?

Kindle lesbrettiÍ síðustu færslu var minnst á  skýringu vefverslunar Forlagsins á að selja ekki rafbækur til að lesa í Kindle. Sú skýring var áréttuð í frétt RÚV í vikunni, Stóraukning í útgáfu rafbóka (20. ágúst 2012). Ég skil ekki af hverju íslenskir bókaútgefendur krefjast þess að Amazon Kindle Store gefi út rafbækur á íslensku og séu í fýlu af því það er ekki gert. Amazon er risastór amrísk bókaútgáfa og af hverju ætti hún að gefa út bækur á tungumáli sem rúmlega 300.000 hræður á hjara netheima geta lesið? Ekki kröfðust íslenskir bókaútgefendur þess að bækur á íslensku væru til sölu í stærstu vefbókasölum heims til þessa, t.d. Amazon eða Waterstones. Í Amazon Kindle Store er auk þess fullt af íslenskum rafbókum til sölu á ensku, þýsku eða spænsku. Svoleiðis að það er ekki eins og íslenskir höfundar séu bannfærðir af Amazon ;) Ég bendi þeim sem hafa áhuga á þessum málum eindregið á að lesa athugasemd Þorsteins Mars, forsvarsmanns útgáfunnar Rúnatýs, við þessa frétt RÚV, sjá Vegna fréttar um rafbækur. Áhugamenn um rafbækur hefðu líka gagn og gaman af því að lesa fleiri færslur á bloggi Þorsteins Mars.

Þótt Amazon selji Kindle-lesbretti og gefi út rafbækur á formi sem Kindlar lesa býður fyrirtækið upp á ódýrar viðbætur (app) fyrir önnur lesbretti, spjaldtölvur og síma.  Svo er auðvitað hægt að nota Calibre til að breyta skrám ætluðum Kindle í epub skrár … samt þarf fyrst að hlaða niður forriti til að brjóta upp mobi-skrá því Amazon læsir sínum skrám með afritunarvörn (DRM) ekkert síður en aðrir útgefendur. (Áhugamönnum um gildi og gagnsemi afritunarvarna er bent á kafla um þær í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar og á blogg Þorsteins Mars.) Þeir sem ekki geta hugsað sér að panta tæki frá vondu amrísku auðvaldsfyrirtæki geta keypt sér Kindil í Elko. Svoleiðis að ég kem alls ekki auga á hina illu einokun Amazon sem forsvarsmenn Félags íslenskra bókaútgefenda kveina undan og brúka sem afsökun fyrir lélegri þjónustu við viðskiptavini sína.

Viðbót: Þann 24. september bárust fregnir af því að Forlagið hefði séð að sér og hygðist nú bjóða upp á möguleika fyrir Kindileigendur: “Leysa á þetta mál með því að streyma bókunum á Kindle og geta notendur svo geymt bækurnar á Hillan.is.” Ég skil raunar ekki hvað átt er við: Er þá bara hægt að lesa bók frá Forlaginu í Kindli sem er tengdur netinu en ekki hægt að hlaða henni niður á Kindilinn? Ef það er “lausn” Forlagsins geta ráðamenn þar alveg eins gleymt þessu … þetta er þvílík hallærisredding að enginn Kindilnotandi mun hafa geð í sér til að brúka hana. Það hlýtur að vera að blaðamaður Viðskiptablaðsins hafi rangt eftir Agli Erni Jóhannssyni, framkvæmdarstjóra Forlagsins.
 

Hvaða áhrif hefur stefna Félags íslenskra bókaútgefenda og verðlagning á íslenskum rafbókum?

   

Það hlægir mig hve íslenskumafían (fræðimenn og almenningur sem er mjög umhugað um að bjarga íslenskri tungu frá meintri yfirvofandi glötun) fjasar mikið um nauðsyn þess að íslenska stýrikerfi og hugbúnað í tölvum og símum en virðist ekki hafa tekið eftir ástandinu þegar kemur að lesefni í þessum sömu græjum. Mér finnst miklu meira máli skipta að menn geti keypt nýjar bækur á íslensku í æpödduna sína eða símann sinn á sambærilegu verði og bækur kosta á ensku en hvort umgjörðin í þessum græjum birtist mönnum á íslensku eða ensku. Í Kindli er umgjörðin svo léttvæg að hún skiptir engu máli en texti bókanna sem maður les skiptir öllu máli (alveg eins og í prentútgáfu). Af hverju hafa málsvarar íslenskrar tungu ekki gagnrýnt óhóflegt verð  á rafrænum íslenskum bókum?

Ef íslenskir bókaútgefendur hysja ekki upp um sig brækurnar og horfast í augu við hvernig markaðurinn raunverulega er (í stað þess að einblína á hvernig hann ÆTTI AÐ VERA að þeirra áliti) missa þeir einfaldlega af lestinni mjög fljótlega og stórlesendur verða komnir upp á ágætt lag með að lesa á ensku eða austurnorrænum málum.  Ég hef engar áhyggjur af tæknivæddum íslenskum ungdómnum því mér vitanlega lesa unglingar sáralítið af bókum, hvort sem er á pappír eða í sínum spjaldtölvum og símum. (Það er vissulega áhyggjuefni út af fyrir sig en kemur ekki við efni þessarar færslu.) Rafbókalesendur eru nefnilega ekki fólkið sem les að eigin frumkvæði eina bók á ári eða svo. Rafbókalesendur eru fólkið sem les mikið af bókum og getur lesið einhver tungumál önnur en íslensku. Það fólk hugsar sig eflaust tvisvar um áður en það kaupir sér rafbók á íslensku.

Að lokum vil ég nefna að ég tel að séu stafræn gögn verðlögð skynsamlega og auðvelt að nota þau er miklu minni hætta á að fólk leggi sig niður við að stela þeim. Sem dæmi má nefna prjónauppskriftir. Á síðustu tveimur árum hefur mjög færst í vöxt að hönnuðir bjóði uppskriftir sínar til sölu á netinu. Ef vel-frágengin uppskrift kostar 500-600 kr., hægt er að greiða fyrir hana með kreditkortinu sínu á netinu og fá hana strax senda í tölvupósti þá kaupir maður auðvitað uppskriftina og leggur ekki vinnu í að telja hana út eftir myndum af gripnum. Ef svoleiðis uppskrift kostaði fleiri þúsund krónur lægju hrúgurnar af uppskriftum frammi á torrent bönkum … alveg eins og var raunin þegar íslensk tónlist á stafrænu formi kostaði formúu.
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Bækur

23. ágúst 2012

Rafbækur: Hætta lesbrettaeigendur að lesa á íslensku?

Leiti menn að íslenskum rafbókum í sitt lesbretti, síma eða spjaldtölvu má skoða eftirfarandi: 

Emma.is íslenskar rafbækur. Þar má finna ókeypis rafbækur, en flestar bækurnar kosta eitthvað, misjafnlega mikið þó. Stærsti kosturinn við emma.is er, að mínu mati, að bækurnar eru bæði á EPUB og MOBI formi og að forlagið tekur að sér að gefa út rafbækur eftir fólk, að uppfylltum vissum skilyrðum. Emma.is segist gera rafbók úr handriti á tölvutæku formi á svona 5-14 dögum að jafnaði og bjóða til sölu á vef sínum, yfirleitt kostar þetta 15 þúsund á bók. (Sjá síðurnar Spurt og svarað og Um Emmu. Emma.is leyfir ekki sölu á bókum sem eru komnar úr höfundarétti.

Forlagið selur talsvert af rafbókum í sinni vefverslun. Það selur bæði eigin bækur og bækur sem önnur forlög hafa gefið út. En: “Rafbækur frá Forlaginu eru ekki fáanlegar fyrir Kindle”! Skýringin sem Forlagið gefur á þessari ákvörðun er: 

  
Skýringin er í raun afar einföld. Amazon er bóksali sem jafnframt selur Kindle lestrartölvur. Þeir vilja ekki að aðrir bóksalar selji bækur inn á þeirra tæki. Kindle lestrartölvur taka því aðeins skráarsniðum sem Amazon notast við en ekki við öðrum almennum skráarsniðum sem notast er við í rafbókargerð (.ePub). Forlagið vill gjarnan selja bækur inn á Kindle, en til þess þarf Amazon-bóksalinn að hefja sölu íslenskra rafbóka. Það hafa þeir ekki viljað til þessa en vonandi breytist það áður en langt um líður. Það er hagur Forlagsins að selja sem flestar rafbækur, og þ.a.l. inn á Kindle lestrartölvur. Um leið og Amazon opnar sínar flóðgáttir fyrir íslenskum bókaútgefendum þá verðum við með!

Þessi skýring Forlagsins heldur ekki vatni en um hana verður fjallað í næstu færslu. Allar rafbækur á vef Forlagsins eru á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Himnar�ki og helv�ti eftir Jón Kalman StefánssonSem dæmi um verðlagningu íslenskra rafbóka í vefbúð Forlagsins má taka Hungurleikana, rafbókin (fyrsta bókin) kostar 1990 kr.; Einvígið eftir Arnald Indriðason, sem Vaka-Helgafell gaf út, er á 2.990 kr., sama verði og bókin innbundin kostar, eða Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson á 3.990 kr. Bjartur gaf út Himnaríki og helvíti og hún fæst á Panama.is í kilju á 2.480 krónur, harðspjaldaútgáfan er uppseld. Bókin er til í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store, Heaven and Hell, og kostar þar 9,39 dollara (1.120 kr.). Margar bækur Arnalds Indriðasonar má kaupa í Amazon Kindle Store á ensku eða þýsku en Einvígið er ekki komin þar í sölu ennþá.

Rafbókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu, sem er nákvæmlega sama verð og kiljan kostar. Ef lesandi vill lesa þessa rafbók í Kindlinum sínum á ensku þá kostar hún 13.60 dollara (1.630 kr.), á þýsku kostar hún 10,79 dollara (1.290 kr.) í Amazon Kindle Store. Vilji menn lesa bókina á frummálinu þá er hægt að fá rafbókina Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann lánaða í gegnum Norræna húsið, að vísu á EPUB formi með DRM læsingu eða kaupa hana á bokus.com á 55 sænskar krónur (990 kr.), einnig sem EPUB-skrá.

Eymundsson  býður upp á töluvert úrval rafbóka, einkum á ensku. Tekið er fram að ekki séu seldar bækur fyrir Kindle-lesbretti en ekki færð sérstök rök fyrir því. 
  
  
Sumar af sömu rafbókunum og Forlagið selur má líka finna á Skinnu. Íslensku rafbókabúðinni. Verðlagning er svipuð, stundum eru þó bækurnar eilítið ódýrari. Skinna miðlar líka ókeypis bókum, t.d. bókum sem eru komnar úr höfundarétti og mörgum þeim sömu og á Rafbókavefnum. Þeim bókum má hlaða niður jafnt á EPUB sem MOBI formi en sölubækurnar eru margar einungis EPUB skrár.

Á Rafbókavefunum eru “íslenskar rafbækur í opnum aðgangi”, þ.e. þar er allt efni ókeypis og án afritunarlæsingar. Allar bæði EPUB og MOBI skrár til að  Má þar nefna efni Netútgáfunnar (íslensk fornrit og þjóðsögur) og efni sem ekki er lengur varið höfundarréttarlögum. Menn eru hvattir til að leggja meira efni til og eru ítarlegar og góðar leiðbeiningar um hvernig búa megi til rafbók, undir flipanum Leiðbeiningar. Rafbókavefurinn er verk Óla Gneista Sóleyjarsonar og hefur hann unnið mikið þrekvirki með þessum vef.

Lestu.is var opnuð með pompi og prakt í janúar 2011 og sögð fyrsta rafbókasíða landsins. Þetta er áskriftarvefur og kostar áskriftin 1.290 kr. á mánuði, ársáskrift kostar 12.900 kr. í 12 mánuði. Rafbækurnar þar eru af ýmsum toga en eiga það sammerkt að höfundarréttur er ekki á þeim. Satt best að segja er stór hluti nákvæmlega sömu bækur og sækja má ókeypis af Rafbókavefnum, t.d. Íslendingasögur. Áætlanir virðast ekki hafa gengið eftir sé túlkun mín á ódagsettum fréttum rétt; Þar segir að fyrir áramót sé stefnt að því að 100 bækur væru komnar inn og ég held að það eigi við áramótin 2011-2012. Líklega eru hátt í hundrað bækur inni á Lestu.is núna. Þær eru á EPUB, MOBI og flettibókaformi.
 

Dæmi um verðlag á rafbókum
 
 

Skáldverk Forlagið
Eymundsson
Kilja 
á íslensku
MuBook / mibook (Danmörk) Bokus.com / Livrel24  (Svíþjóð) Amazon Kindle Store (Bandaríkin) Hægt að fá 
lánaða úr 
sænsku rafbókasafni gegnum bókasafn

 Norræna hússins

Gamlinginn sem 
skreið út um gluggann 
og hvarf
2.990 kr.  2.990 kr.  167,50 DKK (= 3.340 kr.) 55 SEK (983 kr.) 13.60 USD (1.624 kr.)
 - á ensku- 
10,79 USD (1.288 kr.)
- á þýsku - 
Himnaríki og helvíti 3.990 / 3.799 kr 2.480 kr. 147,92 DKK (2.960 kr.) 75 SEK  (1.350 kr.)
-á ensku- 
9,39 USD (1.121 kr.) Nei
Hungurleikarnir I 1.990 kr. 2.290 kr.  147,50 DKK( 2.940 kr.) 84 SEK(1.500 kr.) 4,27 USD (510 kr.)
Utangarðsbörn ekki til 1.690 kr. 30,19 DKK  (600 kr.) 55 SEK (983 kr.) 14,97 USD (1.788 kr.)
Ég er Zlatan Ibrahimovic ekki til 3.599 kr. 172,50 DKK (3.450 kr.) 124 SEK (2.215 kr.) 9,99 USD (1.193 kr.)

Heaven and hell eftir Jón Kalman StefánssonVerðlagning íslenskra og danskra rafbóka er alveg fáránleg! Bækurnar kosta yfirleitt hið sama og pappírsútgáfurnar, eru jafnvel dýrari. Fyrir íslenska lestrarhesta sem eiga lesbretti eða spjaldtölvur er auðvitað miklu ódýrari  kostur að lesa þessar bækur á sænsku (ókeypis úr rafbókasafni) eða ensku. Bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur fást í Amazon Kindle Store og kosta á bilinu 7,40 - 13, 50 dollara (895 - 1.612 kr.), bækur Arnalds Indriðasonar kosta þar um 13 dollara á ensku (1.550 kr.) og tæpa 11 dollara á þýsku (1.275 kr.). Rafbókin Brakið eftir Yrsu kostar 3.990 kr. og Einvígið eftir Arnald kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu - hvorug bókin er komin út í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store en þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða.

Í næstu færslu fjalla ég um hvernig kostnaður við að gefa út bók á Íslandi skiptist, velti fyrir mér hvað kosti að gefa út rafbók og fjalla um undarlegan málflutning forsvarsmanna íslenskra bókaútgefenda þegar kemur að bókum fyrir Kindil. En ég vil ítreka að við óbreyttar aðstæður munu stórlesendur sem eiga lesbretti eða lesa í símum og spjaldtölvum lesa æ meir á erlendum málum og æ minna á íslensku. Og þessi þróun er mjög hröð. 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Bækur

22. ágúst 2012

Rafbækur og Kindillinn minn ástkæri

Við Fr. Dietrich lesum á KindilÍ sumar eignaðist ég Kindil og festi ást á honum umsvifalaust. Ég hef engan áhuga á æpöddum eða öðrum tölvugræjum með snertiskjám. Ekki heldur neinum lesapparötum sem eru með baklýstum skjá. Það er vonlaust að brúka svoleiðis græjur eins og bækur, ýmist vegna þess að tækið er miklu  þunglamalegra en bók eða vegna þess að það er illmögulegt að lesa á skjáinn í mikilli sól. Og ég les mjög gjarna í sólbaði. Þarf varla að taka fram hversu mikið þægilegra er að taka með sér 100+ bækur í sólarstrandarfrí til útlanda þegar þær vega einungis 300 gr eða bókastaflana sem ég hef troðið í töskurnar til þessa ;)

Kindillinn minn er með oggolitlu lyklaborði svo ég get skrifað glósur um leið og ég les, þótt ég hafi ekki nennt því til þessa. Hann tengist þráðlausu neti og húkkar sig inn á 3G net ef háhraðanet er ekki í boði.  Þ.a.l. get ég keypt mér bók hvenær sem er og nánast hvar sem er (svo framarlega sem farsímasamband er í hvarsemerinu). Ég get líka skoðað tölvupóst og vefinn í honum en það er seinlegt og óhöndugt. Kindillinn er fyrst og fremst lesbretti.

Ég reikna með að lestrarhestar kaupi sér gjarna Kindil. Spjaldtölvur og snjallsímar höfða til annars markhóps. Og ég held að bókalestur í Kindli sé hrein viðbót við annan bókalestur, að Kindla noti fyrst og fremst fólk sem les mikið og mun áfram lesa prentaðar bækur. Kannski er helst að Kindill höggvi skarð í kiljulestur, a.m.k. í mínu tilviki því ég er löngu búin að lesa erlendu kiljurnar áður en þær koma út þýddar á íslensku.

Mér finnst tvennt dálítið skrítið þegar kemur að bókum fyrir Kindil:

  • Á Norðurlöndunum (Íslandi meðtöldu) virðast menn sniðganga skráarform sem Kindill les og bjóða einungis upp á skráarform fyrir spjaldtölvur, snjallsíma og sum önnur lesbretti.
  • Íslensk útgáfufyrirtæki eru ótrúlega sein í svifum hvað varðar rafbókaútgáfu og verðlagning á þessum fáu nýlegu bókum sem bjóðast algerlega út úr kortinu.

 

 

Norrænar rafbækur

Nú er hægt að kaupa danskar, norskar og sænskar rafbækur á netinu. Vilji menn lesa á dönsku má benda á þessar tvær búðir:

MuBook segist bjóða upp á ódýrar danskar bækur. Þar má finna ókeypis bækur og upp í rándýrar bækur; Sé listinn yfir mest seldu bækurnar skoðaðar  er t.d. Askepot eftir Kristina Ohlsson á rúmar 30 krónur danskar (600 kr. íslenskar) - sú bók heitir Utangarðsbörn á íslensku og kostar 1.690 kr. í kiljuútgáfu; Kvinden i buret e. Jussi Adler-Olsen kostar 88,50 DKR (1.770 kr.) - kiljan á íslensku, Konan í búrinu, kostar 2.290 kr.; Englemagersken e. Camillu Läckberg kostar hins vegar 212,50 DKR (4.250 kr.) - íslenska kiljan, Englasmiðurinn, kostar 2.170  kr.  Allar þessar bækur eru á EPUB-formi , sem Kindill les ekki. Þær eru hins vegar ekki með afritunarvörn heldur einungis vatnsmerki og því hægt að breyta þeim í mobi-skrá fyrir Kindil í forritinu Calibre.
Mibook auglýsir að hún sé stærsta danska rafbókabúðin með um 245.000 titla (en væntalega eru þar taldar með bækur á ensku). Þar eru rafbækurnar aðeins ódýrari, t.d. kostar Englemagersken hennar Camillu Läckberg 207 DKR (4.140 kr.) í þessari búð. Lausleg skoðun bendir til að bækurnar séu yfirleitt á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Bokus.com er sænsk rafbókabúð “där alla böcker bor” virðist geyma gott úrval af rafbókum um ýmist efni, á sænsku, ensku, finnsku, rússnesku og dönsku. Rafbókin Askungar eftir Kristina Ohlsson kostar þar 55 sænskar krónur (983 kr. íslenskar) en pappírskiljan af sömu bók kostar bara 39 sænskar krónur (en svo þarf auðvitað að borga póstsendingargjald). Rafbókin Änglamakerskan eftir Camilla Läckberg kostar 126 sænskar krónur (2.265 kr.). Einnig má leita fanga í Livrel24 sem selur bækur á sænsku. Bækurnar virðast flestar vera á EPUB-formi, án afritunarvarnar en með vatnsmerki.

Ég ber það ekki við að skoða norskar rafbókabúðir - nógu dýrar eru norskar bækur á pappír!

Vilji menn lesa norrænar bækur á ensku í sínum Kindli þá kostar bókin hennar Kristina Ohlsson, Unwanted  heitir þýðingin, 14,97 dollara (tæpar 1.800 kr.) en Englasmiðurinn virðist ekki enn hafa verið þýdd á ensku - af öðrum bókum Läckberg má t.d. kaupa rafbókina Hafmeyjuna, The Drowning, í Amazon Kindle Store fyrir 10,79 dollara (1.295 kr).

(Ég kíkti á vinsældarlistann á Amazone Kindle Store og þar voru rafbækurnar á bilinu um 5-16 dollara; Fyrsta bókin í Hungurleikunum kostar t.d. 4,27 dollara sem eru 512 kr. Yfirgnæfandi meirihluti bóka þar er á ensku.)

Þeir sem hafa útlánaskírteini í bókasafni Norræna hússins geta fengið lánaðar sænskar rafbækur á netinu, sjá upplýsingar á síðunni Hvað er rafbók. Bækurnar eru yfirleitt á EPUB eða PDF formi, með DRM-læsingu. Bækurnar í sænska rafbókasafninu eru af ýmsum toga en vinsælastar eru auðvitað glæpasögurnar og sögurnar sem ég hef nefnt hér á undan standa þar til boða. Hægt er að fá lánaðar tvær bækur á viku og hafa þær í láni í fjórar vikur. Mörg dönsk bókasöfn bjóða upp á rafbókalán og vonandi tekst bókasafni Norræna hússins að ná samningum við eitthvert af þeim.

  

Hvað gera Kindil-eigendur þegar einungis EPUB-skrár eru í boði?

KindillDRM stendur fyrir Digital rights management og er notað til að læsa stafrænum skrám, t.d. rafbókaskrám, svo ekki sé hægt að deila þeim frítt um víðan völl. Þetta er stundum kallað afritunarlæsing.  Það kemur þó fyrir lítið því á torrent-bönkum úir og grúir af ólæstum rafbókaskrám. Enginn skortur er á smáforritum sem brjóta upp slíka læsingu. Þegar læsingin er farin er ekkert mál að nota Calibre til að breyta t.d. EPUB skrá í MOBI skrá, sem Kindill les. Calibre er reyndar hið mesta þarfaþing lesi menn rafbækur því þar má flokka sitt bókasafn og raða skipulega upp. Forritið er ókeypis.

Í næstu færslu fjalla ég um rafbækur á íslensku.

Ummæli (14) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf

2. maí 2012

Morð og drykkjuskapur

Í síðustu viku hamstraði ég bókafjöld á bókasafni Norræna hússins. Auðvitað var megnið morðsögur en eins og venjulega kippti ég einni annars konar bók með. Og svo hef ég legið í bókum eins og húsfreyjan forðum, án þess að Gilitrutt ræki inn nefið. Góðar morðsögur eru eins og góð krossgáta eða algebra: Í upphafi er allt í óreiðu og sagan snýst um að raða saman brotum og leysa málið, þætta og stytta. Morðsögur henta fólki sem er hallt undir skipulag og hreingerningu afskaplega vel!

PanserhjerteFyrsti maí fór ekki í kröfugöngu eða Nallasöng … nei, fyrsti maí fór að mestu í Panserhjerte hans Jons Nesbø.  Þetta er feikilega skemmtileg saga með alls kyns útúrsnúningum og “ekki er allt sem sýnist” kúvendingum. Morðin voru samt það óhugguleg að ég lagði ekki í að lýsa þeim fyrir mínu heimilisfólki. En aumingja Harry Hole er enn við sama heygarðshornið, hangir þurr á hnefanum og fellur inn á milli, ber ekki við að fara á AA fundi. Að sjálfsögðu er hann dökk hetja og óhamingjusamur með afbrigðum … kemst samt lifandi úr ótrúlegustu mannraunum og kröggum. Ég veit að svona bækur eru ekki raunsæisbókmenntir en stend mig öðru hvoru að því að hugsa: Æi, karlanginn, af hverju poppar hann ekki inn á fund?  Best að skrá sig á biðlista eftir Gjenferd … kannski lagast fundarsóknin í þeirri bók.

Ekki tekur betra við frá alkafræðum séð þegar maður vindur sér yfir í sænskar morðbókmenntir. Hún Malin Fors okkar í Linköbing fór í meðferð, í síðustu bók sem ég las, enda konan gegnsósa af Tequila. Nú er liðið meir en ár síðan, í Vårlik (eftir Mons Kallentoft), og Malin slæst við áfengislöngunina af ekki minna krafti en Harry Hole en hefur sigur, ólíkt honum. Kannski af því hún er svo dugleg að lyfta lóðum? Í Linköbing virðast engir AA-fundir og Malin leiðir ekki einu sinni hugann að svoleiðis, líklega eru AA fundir óþekktir í Suður-Svíþjóð. Sem betur fer er hún klár og verður skyggnari með hverri bók … svoleiðis að mál eru snyrtilega leyst að lokum. Malin nær sér meira að segja í ágætis hjásvæfu þrátt fyrir síðhvörfin. Hefði samt að ósekju mátt stytta bókina um svona 100 síður.

Í Danaveldi er drykkjuskapur líklega ekki álitinn sérstakt vandamál en hvunndags-sálfræðiflækjur eru þess fyrirferðarmeiri. Louise Rick leysir auðvitað gátuna í Dødsenglen (e. Söru Blædel) en þótt hún sé rosaflink í að þætta og stytta morðflækjur er hún á eilífum bömmer yfir að standa sig ekki sem fósturmamma og vinkona hennar á eilífðar bömmer yfir fortíðardraugum. Ef maður skrunar hratt yfir tilvistarflækjur aðalpersónanna má þó hafa gaman af bókinni.

Nú er ég byrjuð á Skrig under vand (e. Øbro og Tornbjerg). Þar er aðalpersónan einhvers konar réttarsálfræðingur (profilingsekspert) og auðvitað með óuppgerð persónuleg mál í massavís. Eftir þessar velskrifuðu sögur sem ég taldi upp að ofan virkar Skrig under vand stirð og barnalega skrifuð. Eiginlega hef ég takmarkaðan áhuga á hver drap fæðingarlækninn og hvernig morðið tengist einhverjum fortíðarslitrum um barnamorð. Í skandinavískum morðlitteratúr eru þessar fortíðarslitrur farnar að vera skyldubundið frásagnartrix, líklega sprottið af vinsældum Läckberg og Theorin?  Svo á ég bók um Dicte Svendsen ólesna enn en sé að á baksíðu er sérstaklega tekið fram að “På hjemmfronten må Dicte udkæmpe sin helt egen kamp …” svoleiðis að ég vænti þess að dágóður blaðsíðufjöldi verði tekinn undir trámað að búa með sér yngri manni og eiga dóttur á táningsaldri. Stundum hef ég á tilfinningunni að frændur okkar Danir hafi sökkt sér um of ofaní Sjöwall og Wahlöö í gamla daga en Svíar séu aðeins að skríða upp úr sósíal-realisma-hefðinni.

Bókin sem er ekki morðsaga ber samt morðtititil: Hundemordet i Vimmelskaft - og andre fortællinger fra 1700-tallets København. Ég er búin með um þriðjung og ekki komin að hundamorðinu. Hef hins vegar lesið dramatískar lýsingar á óþefnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, hlutskipti betlara og vændiskvenna af öllum stigum og götulífið almennt. Í kaflanum “De fattiges horehus” var áhugaverð koparstunguröð sem sýndi leiðina til glötunar. Upphaflega voru þetta fjórar koparstungur en fjórða myndin hefur glatast. Á þeim þremur sem eftir eru má sjá lífsferil ungrar konu frá því hún er svo vitlaus að láta fallerast og til þess að mamma hennar er byrjuð að gera hana út (úr því meydómurinn er farinn virðist fátt annað í stöðunni) … í fátæklegu herbergi situr stúlkan örvingluð (milli kúnna reikna ég með) en mamman er komin í brennivínið og drekkur af stút. Maður getur bara ímyndað sér hvað fjórða og týnda koparstungan sýndi.  Næsti kafli heitir “Friere og falskspillere. Noget om drink og dobbel” og verður örugglega krassandi lesning … með tíð og tíma kemst ég svo í kaflann um hundamorðið fræga.

Í tilefni þess að ég er stödd á 18. öld horfði ég á þátt Péturs Gunnarssonar um 18. öld á Íslandi, á RÚV. Því miður vissi ég allt sem fram kom í þættinum en reikna með að næsti þáttur verði meira um eitthvað sem ég veit ekki fyrir. Og vissulega löptu Íslendingar dauðann úr skel á þessari öld en það var svo sem enginn draumur í dós að búa í Kaupmannahöfn heldur, fyrir alþýðu manna.

Á meðan ég sökkvi mér ofan í morð og ódó á blaðsíðum með bókalykt les maðurinn í sínum Kindli og dásamar Kindilinn. Hann er að lesa Nýja testamentið á grísku og sækist í að ræða efni þess og málsögu við sína konu. Sem betur fer tók ég kúrs í gotnesku á sínum tíma (valdi hann einungis út á kennarann, í skyldubundnum þremur málfræðikúrsum sem um var að velja virtist kennarinn í þessum einna normalastur). Það er fátt til á gotnesku annað en Nýja testamentisþýðing Úlfs litla og þótt ég sé búin að gleyma álnarlöngum beygingardæmum gotneskum situr textinn eftir. Vangaveltur um málsögulegar breytingar í gegnum tíðina eru hins vegar meiri höfuðverkur fyrir mig … hvenær hætti lýsingarháttur nútíðar að beygjast og af hverju urðu samsvarandi sérhljóðabreytingar í ólíkum indóevrópskum málum á sama tíma? Myndi láta manninn horfa á þætti Stephens Fry ef ekki vildi svo til að á sama tíma er Foyle í danska sjónvarpinu og ég er heilluð af þeim góðu þáttum …

Ummæli (8) | Óflokkað, Bækur

4. desember 2011

Glæsir

Undir miðnætti einhvern tímann í vikunni settist ég niður með Glæsi eftir Ármann Jakobsson og hugðist gluggað aðeins í hana undir svefninn. Raunin varð sú að ég gat ekki slitið mig frá bókinni og las hana í beit, hugfangin!

Eins og komið hefur fram í mörgum ritdómum byggir söguþráðurinn á Eyrbyggju og talsvert hefur verið hampað hinni merkilegu stöðu sögumanns, sem er ýmist naut, lifandi maður eða draugur. Nautið heitir Glæsir en maðurinn í lifanda lífi hét Þórólfur og hlaut viðurnefnið bægifótur (vanskapaður fótur) - raunar er Þórólfur haltur á fæti eftir hólmgöngu. Ég var dálítið hugsi yfir því hvort lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju myndi botna vel í þessari sögu en skv. ritdómi á Druslubækur og doðrantar er slíkt ekki nauðsynlegt.

Glæsir er enda margslungin saga og ætti hver að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og sinn skilning. Þeir sem hafa lesið einhverjar Íslendingasögur kannast væntanlega við fleira en Eyrbyggju í þessari bók, t.d. er ein glæsiklæðnaðarlýsingin á Arnkeli goða (óskilgetnum syni Þórólfs bægifótar) fengin að láni af Bolla Bollasyni í Laxdælu o.fl. tilvísanir má finna til þeirrar sögu. Fyrir þá trúhneigðu eru tilvísanir í ýmis trúarbrögð, kannski einkum vangaveltur um vald Hvítakrists og hinna gömlu guða, sem og vald örlaganornanna. En þótt Þórólfur margvitni í ýmislegt þess lags virðist hann innst inni algerlega trúlaus (á hvaðeina). Lýsingar á valdabrölti höfðingja við Breiðafjörð minna kannski svolítið á okkar gömlu bissnissmenn, pólitíkusa og útrásarvíkinga. Ekki hvað síst vekja lýsingar á íburði goðanna ungu slík hugrenningatengsl. Og í bakgrunninum er sífelld barátta um völd, eignir og mannaforráð, í samræmi við Eyrbyggju og í samræmi við nýliðna tíma útrásar. Þegar á söguna líður fá unnendur hryllingsbókmennta svo heilmikið fyrir sinn snúð.

Ég las þessa sögu fyrst og fremst sem sögu um illsku. Þótt Ármann gefi því undir fótinn að hrikalegt uppeldi eða fötlun Þórólfs síðar á lífsleiðinni kunni að hafa ýtt undir skapbresti hans upplifði ég Þórólf sem illskuna holdi klædda frá fyrstu stundu. (Menn eru endalaust ósammála um vægi uppeldis og erfða, „nurture versus nature“ og gefur sagan fylgismönnum hvors nægan efnivið til sinnar túlkunar, sem sýnir auðvitað hvað þetta er vel skrifuð saga.) Sögumaður segir sjálfur: „Líf mitt hefur verið einn langur sundurlyndisvetur …“ (s. 28) og má til sanns vegar færa; en sundurlyndinu hefur hann sjálfur valdið.

Frá upphafi er Þórólfur samviskulaust kvikindi, erkisiðblindingi. Hann gerist víkingur á unga aldri, vegur menn og pyntar, karla, konur og börn. En það snertir hann ekkert sérstaklega, hann tekur fram að þetta hafi einfaldlega tilheyrt starfinu og verið unnið eftir skýrri áætlun  Starf víkingsins átti vel við hann enda snérist það fyrst og fremst um að komast yfir fé og dýrgripi. Eiginlega minna lýsingar Þórólfs á víking dálítið á lýsingar nasista af skelfilegum ódæðum sínum; Þetta var nauðsynlegt og dráp og pyndingar tilheyrðu starfinu; þeir voru einungis að framfylgja skipunum (eins og  Þórólfur er einungis að framfylgja góðri starfsáætlun). Og Þórólfur er jafnlangt frá því að vera hetja með hugsjónir og t.d. Adolf Eichmann; Lesandinn kemst á svipaða skoðun og Hanna Arendt eftir að hún var viðstödd réttarhöldin yfir Eichmann til að reyna að skilja eðli illskunnar en uppgötvaði einungis lágkúru illskunnar („Banality of Evil“). Þetta eru smámenni, vesælir karlar með ómerkilegan þankagang en því miður öðluðust þeir vopnavald. Ég er raunar ósammála Arendt sem útilokaði félagsblindingja - sósíópata - í sinni bók en bókin kom úr 1963 og það er ekki fyrr en eftir 1990 sem almennilegur skriður kemst á umfjöllun og flokkun sækópata - siðblindingja.  Ég held að fyrst og fremst séu framantaldir siðblind kvikindi sem telja sér trú um að þeir hafi einhvern málstað en eru einungis að fá útrás fyrir illskuna sem í þeim býr. A.m.k. á það mæta vel við Þórólf bægifót.

Það er m.a. þetta sem veldur því hve erfitt er að lesa Glæsi. Sögumaðurinn er Þórólfur (í ýmsu líki) og sem sækópati er hann auðvitað hraðlyginn og reynir að snúa öllu sér í vil, réttlæta sig og réttlæta eigin ódæði, gera fórnarlömb að sökudólgi og sjálfan sig að fórnarlambi o.s.fr. Það er ekki oft sem maður les bækur þar sem þarf að passa sig á að taka öllum upplýsingum sögumanns með fyrirvara.
 

Kominn til Íslands, um tvítugt, skrúfar Þórólfur upp sjarmann dagstund á Þingvöllum sem dugir honum til að ná sér í konu. En hann reynist henni auðvitað illa eins og öðrum konum í lífi hans, þær eru ekki einu sinni nafngreindar nema dóttir hans Geirríður, fordæðan, sem mögulega líkist föður sínum eitthvað, t.d. í illgirni. Fyrir utan þennan látbragðsleik á Þingvöllum sýnir hann lítil svipbrigði, hann er maðurinn sem aldrei brosir, enda hefur hann fengið þá flugu í höfuðið að raunverulegir höfðingjar tái helst ekki tanna og allt sitt  líf er hann að reyna að herma eftir þessum gömlu höfðingjum (t.d. Þorsteini þorskabít og föður hans, Þórólfi Mostraskegg). Hann langar svo til að vera talinn til höfðingja eða mikilmenna. Aukalega má svo geta þess að eðlileg svipbrigði eru siðblindum erfið af því þeir búa yfir svo fátæklegum tilfinningum. Í ellinni skilur hann ekki nýju höfðingjana, sem brosa gleitt og vingast við mann og annan. Sjálfur vingast hann ekki við neinn en reynir að hanga utan í þeim sem hann telur valdamestan í það og það skiptið, einkum fyrrnefndan Þorstein.

Það sem hann skilur ekki (t.d. skáldskap eða vináttu eða tilfinningatengsl) gefur hann skít í. Það hve illa honum tekst að leika sig mannlegan sem verður til að menn líta hann hornauga skrifar hann á reikning fötlunar sinnar, hann telur sig smækkaðan í fatlaðan fótinn og gerir sér almennt ekki grein fyrir að aðrir forðast hann af því hve geðstirður og illgjarn hann er. Þó skynjar hann að einstaka maður sér í gegn um hann og forðast þá, fremstur þar í flokki er Snorri goði en síðar á ferli Þórólfs er það afgömul karlæg kerling sem veit upp á hár hvernig nautið Glæsir er innrætt, veit að það er í rauninni sækópatinn Þórólfur. Mætti kannski segja að barn (Snorri er tveggja ára þegar þeir hittast fyrst), fárveikt gamalmenni og lífreynd kona, Guðrún Ósvífursdóttir, sjái í gegnum gervi Þórólfs, annars vegar hið mennska gervi yfir illskuna og hins vegar nautshaminn sem hylur illskuna. Sjálfur skynjar Þórólfur líklega mann af sama tagi og hann er sjálfur, Víga-Styrr, sem hann hefur vit á að abbast ekki upp á því það stafaði af honum kulda.

Þórólfur gumar af því að fara betur með þræla sína en aðrir. Það er ekki af mannkærleika, það er vegna þess að þrælarnir eru eign og Þórólfi er, eins og öðrum siðblindingjum, annt um eigur sínar, vill eignast sem mest. Þegar hann telur sig verða að refsa þeim beitir hann útspekúleruðum pyndingum, í anda þess sem hann nam í víking: „Ef refsingin er nógu hrikaleg þarf ekki að  útdeila henni nema örsjaldan. Ég lærði af meisturum.“ (s. 103)

Fyrstu ár sín á Íslandi náði hann landareign með því að skora gamlingja á hólm, Úlfar kappa. Þórólfi var ekkert sérstaklega illa við Úlfar, gamlan kappa úr liði frænda Þórólfs, en: „Ég þurfti land.“ (s. 67) Hólmgangan er skrumskæld háðsútgáfa af hólmgöngu Egils Skallagrímssonar við Úlf inn óarga, meira að segja finnst sveitungum Þórólfs þetta athæfi hans svo ómerkilegt og ómaklegt að enginn mætir til að horfa á. Þórólfur finnur auðvitað skýringu sem honum hentar og er eins og snýtt úr siðblindufræðum: „Yfirleitt var fjölmenni mætt að fylgjast með hólmgöngum en þó að enginn styddi Úlfar hafði honum tekist að æsa fólk upp gegn mér þannig að allir bændur í héraðinu sniðgengu þetta eina einvígi.“ (s. 68.) Það er aldrei neitt Þórólfi sjálfum að kenna. En í þessum ójafna leik brennimerkti Úlfar gamli Þórólf fyrir lífstíð, hann náði að stinga hann í ökklann um leið og Þórólfur hjó hann banahögg. Þórólfur átti nú „eigið land,  fallegan stað. … En í hvert sinn sem ég gekk af stað og þurfti að draga á eftir mér fótinn, fylltist ég vonsku sem dreifðist ört um allan líkamann. Það var sú illska sem að lokum heltók mig. … Síðan var ég Bægifótur. … Um mig var ekkert sagt nema þetta. Ég var fótur minn.“ (s. 69-70). Þótt þessi klausa gefi möguleika á skýringunni að fötlun Þórólfs hafi valdið illskunni er jafnframt gott að hafa í huga að Þórólfur er sjálfur sögumaður eigin sögu og valt að treysta honum um of, hann snýr flestu sér í hag. T.a.m. hafði Þórólfur sjálfur gefið leysingja nokkrum, Úlfari, jörðina Úlfarsfell, en fylltist svo öfund í garð þrælsins því honum búnaðist betur en Þórólfi sjálfum. Þórólfur ákvað að hirða hey Úlfars og magnast af þessu illdeilur. Sjálfur sér Þórólfur ekkert athugavert við að taka nánast gjöfina til baka, fóðrar það fyrir sjálfum sér með að Úlfar sýni sér ekki næga virðingu. Samt hefur hann frásögnina af þessum erjum á: „Ég man ekki lengur hvað mér gekk til. Gekk mér eitthvað til? Er ekki fásinna að halda að allir hafi ævinlega tilgang með gjörðum sínum? Ég var gamall maður. Mér gekk ekkert til. Hins vegar man ég hvernig mér leið.“ (s. 106) Og þrátt yfir miklar yfirlýsingar um hversu góður bóndi hann hafi verið kemur á daginn að Þórólfur hafði aldrei í fjós stigið fyrr en hann lenti sjálfur bundinn á bás, sem naut.
 

Þegar deilurnar við Úlfar á Úlfarsfelli hefjast er Þórólfur orðinn gamall maður og „lifði lífinu aleinn og jafnvel mínir nánustu fyrirlitu mig og smáðu. Oft lá ég andvaka um nætur og hugleiddi einsemd mína. … Hvorug þessara kvenna sem ég gekk að eiga í fljótræði sýnd mér neina rækt í hjónabandinu eftir fyrsta veturinn. Ekki varð ég var við virðingu barna minna“ (s. 102). Hann veltir þessu fyrir sér um nætur og dettur helst í hug að þetta stafi af óvild eða bölvun guðanna (sem hann þó trúir ekki á). „Þannig var ég sanngjarn og mildur húsbóndi. Sannarlega verðskuldaði ég ekki fyrirlitningu minna nánustu“ er niðurstaða hans á næstu síðu (s. 104). Skrifuð hefur verið fræg grein um einsemd sækópata á efri árum og satt best að segja smellpassar Þórólfur í þá lýsingu, sem og greiningarlykla og greinar um sækópata. Hann er illskan holdi klædd, reynir að leika mennskan mann en tekst illa upp, grípur þá til þess ráðs að kenna öllum öðrum um óhamingju sína og gera sjálfan sig að óverðskulduðu fórnarlambi. Eins og ég hef áður nefnt þá þarf lesandinn að vera á sífelldu varðbergi og fylgjast með hártogunum Þórólfs á sannleikanum og hvernig hann snýr honum og skrumskælir sér í hag því hann er sjálfur sögumaður. Og af því bókin er svo vel skrifuð liggur þetta ekki í augum uppi.
 

Eftir dauðann hverfur hið mennska yfirbragð Þórólfs og innrætið, illskan ein, blasir við. Meira að segja Þórólfi sjálfum bregður í brún er hann lítur sjálfan sig í spegli örlítils polls: „… upp úr pollinum reis kolblár vígamaður, heldur ósællegur, andlitið afmyndað af heift, öll mennska úr því horfin. Holdið rotnandi jafnt á höndum sem hálsi. … Nú hrökk ég ekki til baka heldur horfðist í augu við sjálfan mig.“ (s. 147).  Þessi lýsing er Narcissus-sagan með öfugum formerkjum!

Illskan tekur nú öll völd og  Þórólfur þarf ekki lengur að þykjast neitt, hrekur fólk úr dalnum sínum og drepur og safnar í sitt lið hópi afturgenginna fórnarlamba sinna. Eftir dauðann kennir hann samt áfram  öðrum um, í þetta sinn um afturgöngu sína, og finnst heimilisfólkið eiga draugaganginn ógurlega skilinn: „Sjálf voru þau óþokkar. Hvers vegna gátu þau ekki syrgt? Þá hefði ég kannski ekki gengið aftur.“ (s. 151)  Draugagangurinn er einkar magnaður og ætti að falla aðdáendum sígildra hryllingssagna (t.d. aðdáendum Stephens King) mætavel í geð. Þótt lýsingarnar séu  auðvitað að mestu fengnar úr Eyrbyggju.
 

Nú vil ég ekki spilla meiru fyrir lesendum með frekari endursögn. Þó langar mig að benda á hversu hlálegt það er að Þórólfur, sem þráði viðurkenningu og völd (eins og allir sækópatar) en var lengstum aldrei annað en lágvaxinn geðstirður Bægifótur í hugum manna meðan hann var lífs, illmenni og óþokki sem hans nánustu forðuðust, öðlast loks þá tilveru að vera glæsilegur, svo glæsilegur að hann fær heitið Glæsir! En það er ekki fyrr en hið illa innræti (mér er til efs að kalla megi þetta sál, í tilviki Þórólfs) hefur tekið sér bólfestu í nautkálfi og hann dvelur daga langa innan um fretandi kýr! Enn írónískara er þegar rennur upp fyrir Þórólfi /Glæsi, bundnum á sinn bás og ófærum um að tjá sig, að eftirmálinn af þeim verkum sem hann taldi sér trú um að snertu sæmd sína, þegar hann reyndi að ná sér niðri á leysingjanum Úlfari, var í rauninni saminn af öðrum: Þórólfur gamli var flón eða verkfæri í flókinni ráðagerð valdamanns sem var fyrir löngu búinn að reikna Þórólf út, löngu búinn að sjá að karlinn var ekkert nema illskan og illmenni eru oft hvorki skynug né merkileg heldur fyrst og fremst lágkúruleg.

Ég mæli eindregið með bókinni Glæsir enda finnst mér þetta afskaplega glæsilega skrifuð bók. Eins og ég hef rakið geta menn lesið söguna frá mismunandi sjónarhorni og valið sér túlkanir og vísanir. Það er aðall góðra bóka að vera margbrotnar og höfða til mismunandi lesendahópa. Sjálfri fannst mér þetta óhugnalega góð lýsing á holdi klæddri illsku, á sækópata, og það óhugnalegasta er að hún er skrifuð frá sjónarhóli hans. Allir atburðir og persónur eru því séð siðblindum augum. Ég giska á að það hafi tekið mjög á höfundinn að setja sig í þessar stellingar, að þurfa að stíga inn í illskuna sjálfa til að geta sagt söguna á sannfærandi máta. En það hefur honum tekist mætavel.
 
 

P.s. Í lokin bendi ég á útdrátt úr Eyrbyggju sem ég gerði fyrir meir en áratug handa nemendum mínum ef einhver lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju skyldi vilja hafa söguþráð og ættrakningar til hliðsjónar í lestri Glæsis. En auðvitað kemur þessi einfaldi útdráttur engan veginn í stað Eyrbyggju sjálfrar sem ég hvet lesendur Glæsis eindregið til að lesa!
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Bækur

23. nóvember 2011

Ómunatíð. Saga um geðveiki

Svo nefnist ný bók eftir Styrmi Gunnarsson. Ómunatíð getur vísað til margs. Venjulega er orðið haft um það sem nær svo langt aftur að enginn man hvernig það var áður, eitthvað hefur viðgengist eða verið um ómunatíð. Í þessu tilviki gæti titillinn líka vísað til þess hvernig minni skerðist, til hins langa tíma sem erfitt eða ómögulegt er að muna almennilega. Eða, eins og segir í aðfararorðum Sigrúnar Finnbogadóttur, s. 9:

 Ómunatíð? Er hún til? Er hægt að muna ómunatíð? Er hún upphaf tíma, tími einhvers í lífinu, endir eða bara allur tími, heilt líf, raunveruleiki eða hugarburður? Ég held hún sé allt þetta; það er hún í mínum huga, upphaf og endir alls. Eins og fljót sem streymir fram af mismiklum krafti. Stundum þornar það næstum því upp eða að því er virðist alveg en svo fer að hellirigna. Lækir myndast, fljótið verður dökkt, stækkar og ryðst fram - þar til það eftir óratíma - ómunatíð, eygir ósinn og fellur í hann. Stoppar það þar? - Kemst það til hafs í frelsið?

Ég velti þessu stundum fyrir mér sjálf: Stoppar geðveikin einhvern tíma? Kemst ég einhvern tíma „til hafs í frelsið“? Verður fjölskylda mín einhvern tíma frjáls undan því oki að eiginkonan og mamman er geðveik? En langoftast reyni ég að bægja þessum hugsunum frá mér því þær eru of sárar.

Bók Styrmis er nefnilega saga um geðveiki eins og undirtitill segir, nánar tiltekið saga Sigrúnar Finnbogadóttur, eiginkonu Styrmis, og fjölskyldu þeirra; saga sem spannar meir en fjóra áratugi. Þessi flókna saga er brotin upp af sjúkraskýrslum, umfjöllun, vangaveltum …  og römmuð inn af aðfararorðum Sigrúnar og eftirmála dóttur þeirra. Einnig er sagt frá og vísað í ýmsan fróðleik um geðveiki og læknisráð, einkum geðhvarfasýki og þunglyndi, svo kalla má hluta sögunnar „heimildasögu“. Loks er vitnað í ýmsar ævisögur eða frásagnir af ævi geðsjúklinga og upplifun aðstandenda þeirra, stundum er reynt að bera þetta saman við upplifun þessarar tilteknu fjölskyldu.

Það hefur ekki verið áhlaupsverk að flétta þennan ólíka efnivið saman í heildstætt verk. En það hefur tekist ótrúlega vel. Þegar ég las þessa bók upplifði ég svipaða tilfinningu og þegar ég las Sýnilegt myrkur eftir Styron: Ég gat annars vegar tengt ótrúlega margt við eigin reynslu en jafnfram opnuðust mér nýir heimar og ný sýn, öllu heldur fann ég þarna orðaðar ýmsar fálmkenndar hugrenningar mínar. Ég hef lesið fjölda bóka og greina um geðveiki, aðallega þunglyndi, en þetta er í fyrsta sinn sem ég les um langa reynslu af geðveiki frá sjónarhóli aðstandenda. Það er mikill fengur í þeirri nálgun!  Ég mæli eindregið með því að sem flestir aðstandendur geðsjúkra lesi þessa bók því geðveiki setur mark sitt á alla fjölskylduna, ekki síður en alkóhólismi. Öfugt við greiðan aðgang aðstandenda alkóhólista að sjálfshjálparhópum og viðtalsmeðferð er aðstandendum geðsjúkra afskaplega lítið sinnt, kannski eiginmönnum einna síst. Kannski er ekkert óskaplega algengt að geðsjúklingar eigi eiginmenn - líklega talsvert sjaldgæfara en að geðsjúklingar eigi eiginkonur. En mjög margir geðsjúklingar eiga börn og hvar er aðstoð að finna fyrir þau?

Þótt Styrmir nefni í bókinni að líklega sé aðstandendum sinnt betur nú en fyrir fjörtíu árum held ég að sú bót sé ekki sérlega veigamikil þótt einhver sé. Það sem hefur kannski helst breyst er að brennimarkið, fordómarnir í garð geðsjúkra, hafi minnkað, a.m.k. meðal þeirra sem vilja telja sig sæmilega upplýsta. Ég veit þó ekki hve djúpt slíkt ristir, það dugir að lesa athugasemdadræsur við fréttir netmiðla til að efast um að upplýsingin sé í rauninni svo mikil sem menn vilja vera láta þegar þeir vilja koma vel fyrir. Og hluti þeirra sem hæst gjamma í netheimum les líklega ekki bækur svo þeim verður lítil upplýsing í þessari bók. Þó má vona að bókin slái á fordóma einhverra.

Mér hefur líka þótt umhugsunarvert að skv. rannsóknum verður brennimerkingin meiri, þ.e. fordómarnir aukast, þegar fólki verður ljóst að í flestum tilvikum má rekja geðsjúkdóma til erfða. Einhvern veginn er það þannig að meðan fólk hugsar „þetta kemur ekki fyrir mig“ getur það sýnt skilning og samúð þeim sem „lentu í geðveiki“, líklegast af því að hafa orðið fyrir áfalli eða hagað sér rangt. En þegar rennur upp fyrir mönnum að geðveiki er bundin í genunum og kannski hafa menn lítið um það segja hvort þeir veikjast á geði, alveg eins og menn hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, lítið um það að segja hvort þeir fá ýmist krabbamein, þá brýst vörnin fram í fordómum. Og af því stundum er ekki hægt að lækna geðveiki, stundum er ekki einu sinni hægt að halda henni niðri með öllum tiltækum ráðum, eru fordómar í garð geðsjúkra meiri en fordómar í garð alkóhólista sem farið hafa í meðferð og ná að halda sínum sjúkdómi niðri með AA-göngu. Ótrúlegasta fólk, meira að segja fólk í heilbrigðisgeiranum, reynir hvað það getur að gera geðsjúklinginn einan ábyrgan fyrir sjúkdómi sínum vegna þess að það er miklu huggulegri tilhugsun fyrir hina að sjúklingurinn geti sjálfum sér um kennt og að hinir muni „lifa rétt“ og þ.a.l. ekki fá krabbamein eða geðsjúkdóma. (Þetta var útúrdúr - í bloggum leyfast útúrdúrar.)

Efnisins vegna fjallar Ómunatíð. Saga um geðveiki annars vegar um óumræðilegan sársauka og kvöl sjúklingsins og hins vegar hvernig sjúkdómurinn yfirskyggir allt eðlilegt fjölskyldulíf. Af því líðan í þunglyndi er oft talin ólýsanleg, og ég reikna með að sama gildi um oflæti, eru sjúkraskýrslurnar látnar tala. En því fer fjarri að í bókinni sé einhver harmagrátur og blessunarlega er gálgahúmor einnig sleppt. Þetta er lágstemmd umfjöllun, á hógværan hátt reynir höfundur að átta sig á áhrifum sjúkdómsins á fjölskylduna og leitar í önnur verk (fræði, ævisögur) til að finna svör eða samsvaranir. Og mörgum spurningum er velt upp, t.d. hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt á sínum tíma, hvort hefði átt að bregðast öðru vísi við, hvort einhverjum hafi verið brugðist. Við þessum spurningum finnast ekki svör en þær eru mikils virði í sjálfum sér.
 

Það þarf mikinn kjark til að skrifa svona bók. Þann kjark hafa Styrmir, Sigrún og dóttir þeirra. Og það þarf mikið traust á heilbrigða skynsemi og mannúð lesenda til að birta skrifin. Bókin ber þessa trausts merki. Fyrst og fremst er hún þó skrifuð af mikilli einlægni þar sem ekkert er dregið undan, án þess að dramatísera söguna; Reynt er að segja sögu um geðveiki í fjölskyldu eins látlaust og unnt er, án þess að hlífa nokkrum, án þess að ásaka neinn. Þess vegna hefur bókin ótrúlega sterk áhrif á lesandann. Þess vegna er þetta ómetanleg bók!
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Bækur

7. nóvember 2011

Bækur; morð, óhamingja, drykkja og góðir reyfarar

Ég er loksins að krafla mig upp úr helvítisdvölinni … nú hef ég fengið þrjá góða daga í röð (sem helgast að hluta af þremur góðum nóttum í röð, þökk sé ágæti svefnlyfsins sem ég tek með góðri samvisku og blæs á besserwissera á borð við Vilhjálm Ara og talibanana á Vogi). Eins og venjulega er tilfinningin svipuð og að koma úr löngu kafi og ná loksins andanum. Vonandi helst þessi bati eitthvað en ég hugsa náttúrlega bara um hálfan sólarhring í einu og hvorki kvíði né vona, s.s. kemur fram í einkunnarorðum þessa bloggs (og menn geta bara gúgull-þýtt ef þeir eru jafn slakir í grísku og ég).

Sem betur fer gat ég flesta daga lesið í þessari þunglyndisdýfu þótt ýmislegt annað færi til andskotans, eins og venjulega. Líklega get ég þó endurlesið slatta af þeim bókum sem ég las í október sem nýjar, sem er aldrei nema gott, hafi þær verið góðar.

Þegar ég er svona veik er best fyrir mig að lesa fyrirsjáanlegar bækur (formúlubækur, uppskriftarbækur), þ.e.a.s. bækur sem eru byggðar á ákveðinni forskrift og ganga upp eftir henni. Aðallega les ég morðbókmenntir, sem eru álíka einfaldar og fyrirsjáanlegar og Íslendingasögur: Sumsé skrifaðar eftir nokkuð skýrri uppskrift en gefa þó kost á smá varíöntum innan uppskriftarinnar. Ég verð alltaf dálítið skúffuð þegar formúlan er brotin og uppskriftinni fokkað, t.d. var önnur bókin eftir Anne Holt svoleiðis (sú sem kom út á íslensku fyrir skömmu, ég vil ekki upplýsa hvaða regla var brotin fyrir þá sem eiga eftir að lesa hana). Hin bókin eftir Anne Holt sem ég las, Pengemanden, gekk hins vegar ágætlega upp.

Eftir að hafa lesið norræna reyfara í hrönnum undanfarið er ég orðin dálítið leið á þeirri hefðinni, þ.e.a.s. á þeirri hefð að aðalpersónan (löggan eða blaðamaðurinn eða lögfræðingurinn) sé með allt niðrum sig í einkalífinu. Þetta eru ansi trist persónur og reyna lítið að leita sér hjálpar, eiginlega er óskiljanlegt hvernig þeim tekst að leysa flókin morðmál en geta alls ekki leyst sín eigin mál. Má nefna að ég er orðin hundleið á kvíðaköstum Anniku Bengtzon (af hverju fær hún ekki kvíðastillandi lyf hjá lækni?) og er því að hugsa um að dömpa Lizu Marklund alfarið. Það eru takmörk fyrir hvað maður nennir að lesa margar lýsingar á ofsakvíðakasti í bók eftir bók … Eða Wallander greyið: Ég rétt hafði mig á hörkunni í gegnum Den orolige mannen (sem er nýkomin út á íslensku) af því sálarflækjur Kurts taka orðið allt upp í þriðjung af bókinni. Það er alltaf allt svo helvíti “jobbigt” hjá þessum Svíum … nema kannski þeim að norðan, Paganinikontraktet eftir Kepler var fín (ég held upp á aðalpersónuna Joona Limna) en ég sá einhvers staðar ritdóm um íslensku þýðinguna þar sem hún fékk frekar slaka dóma.

Drykkjuskapur Harrys Hole hefur hins vegar minnkað að mun og bæði Lausnarinn og Snjókarlinn (las hana á ensku, The Snowman, kemur í beinu framhaldi af Lausnaranum og ætti að koma fljótlega út á íslensku) eru flottar, sú síðarnefnda enn meir spennandi. Las svo aftur Djöflastjörnuna því mér fannst undarlegt að hafa skyndilega kúvent skoðun á Nesbø en komst að því að Harry Hole í Djöflastjörnunni pirraði mig jafnmikið og þegar ég las hana fyrst enda draugfullur megnið af bókinni. Svoleiðis að það er breyttur karakter Nesbø og miklu betur samdir reyfarar sem valda nýtilkominni aðdáun minni á þeim höfundi. Aumingja Louise Rick, sem datt örsjaldan í það í fyrstu, er farin að verða kengfull hvað eftir annað í bókum Söru Blædel (sú síðasta sem ég las heitir Kun Ét Liv) og timburmannalýsingar eru farnar að minna á fyrstu bækur Nesbø. Það er dálítið síðan ég las Åse Larson bók (hún hefur ekki gefið út neina nýlega held ég) og þar er að vísu aðallöggan ansi fín en lögfræðingsgreyið, stúlkutetur sem er búið að lenda í ýmsu, er að verða geðdeildarmatur og ansi pirrandi - vonandi verður hún bara höfð í innlögn í næstu bók og fjarri vettvangi.

Mér finnst lögguparið (löggan og eiginkona hans) í bókum Läckberg vera allt í lagi, þau eru a.m.k. frekar venjulegt og hamingjusamt fólk. Vitavörðurinn var fín, kannski sérstaklega fín af því þá hafði ég ekki lesið Náttbál Johans Theorin (en eftir á finnst manni Vitavörðurinn dálítil stæling á þeirri bók). En ameríkanísering Läckberg er ekki til bóta, þ.e. Póstkortamorðin, og tilraun hennar til að skrifa ráðgátu í Agötu Christie stíl, Morð og möndlulykt, lukkast ömurlega.

Þá er það íslenska gengið. Ég er löngu hætt að hafa gaman af Arnaldi, sálarflækjur Erlends eru ömurlegar (og fyrirsjáanlegar sé maður freudískt innstilltur), bækurnar þar sem Sigurður Óli eða Elínborg eru í aðalhlutverki gera sig engan veginn og síðustu þrjár bækur Arnalds eru hundleiðinlegar, sérstaklega sú sem kom út fyrir jólin í fyrra, þar sem Arnaldur virðist vera að reyna að skrifa sig inn í einhvern fagurbókmenntastíl. Nú er miklu lofsorði lokið á nýju bókina hans svo væntanlega er hann farinn að skerpa sig eitthvað aftur, ég vona það. Raunar hefur mér lengi fundist að bækur Ævars Jósepssonar séu miklu betri en bækur Arnalds, þrátt fyrir ansi staðlaðar týpur í lögguliðinu, einnig bækur Árna Þórarinssonar. (Byttan þar reynir a.m.k. að halda sér þurri og hefur auk þess húmor, sem aumingja Harry Hole hans Nesbøs skortir átakanlega.) Yrsa hefur haft glaðsinna lögfræðing sem aðalpersónu í flestum bókunum og þótt morðgátan sé stundum ekkert til að hrópa húrra fyrir bjargar þessi persóna miklu, a.m.k. finnst mér hún oft fyndin og skemmtileg. Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól, er skrifuð í klassískum Stephen King stíl, meira að segja “kvikmyndahandritsstíllinn” er fenginn að láni (í Íslendingasögunum er sama fiff oft kennt við praesens historicum en það er af því menn vilja tala svo menntamannslega um þær, í stað þess að horfa á vestraelementið eða formúlurnar í þeim). Mér fannst Ég man þig ljómandi góð íslensk King bók og minnti á sumar af hans góðu gömlu … hann hefur tapað dampinum grey karlinn og ég er löngu hætt að komast í gegnum bækurnar hans.

Af jólareyfurunum í fyrra, sem ég las náttúrlega ekki fyrr en um vorið enda ólæs megnið af vetrinum, fannst mér Snjóblinda Ragnars Jónasson langbest, líklega af því hún var annars vegar dálítið klassísk A. Christie bók, sem gekk fullkomlega upp, og hins vegar af því sækópatinn í bókinni var svo vel hannaður sækópat. Hlakka til að lesa nýju bókina hans. Næstbest fannst mér Áttblaðarósin hans Óttars Norðfjörð en er vitaskuld ósátt við nafnið af því ég er ósátt við ruglinginn á áttblaðastjörnu og áttblaðarós. Og fattaði plottið of snemma. En það verður spennandi að sjá hvernig honum tekst upp í nýju bókinni sem var að koma út.

—–

Því miður er ég búin að lesa þær þrjár bækur Johans Theorin sem hafa komið út, í fyrirhuguðum fjórleik sem gerist á Álandseyjum. (Las eina á íslensku, næstu í norskri þýðingu og þá þriðju á ensku.) Náttbál er langbest af þessum þremur. Svo krossar maður fingur og vonast eftir að sú fjórða verði á vegi mínum fljótlega. Ég mæli eindregið með Theorin. Gamli karlinn, Gerlof, sem er held ég eina persónan sem kemur fyrir í öllum bókunum og er svolítið til hliðar við mismunandi aðalpersónur, minnir mig svolítið á Gamlingjann sem skreið út um gluggann og ég er akkúrat að lesa núna.

Og Gamlinginn sem skreið út um gluggann stendur algerlega undir væntingum! Þar eru meira að segja morð, þótt þau séu nú dálítið aukaatriði en auðvelda mér náttúrlega að færa mig aðeins úr morðgeiranum um sinn. Raunar sé ég litla tengingu við Birtíng (sem einhverjir gagnrýnendur hafa hampað) en þess meiri við Forest Gump … aftur á móti má, með góðum vilja, sosum tengja Forest Gump við Birtíng og sjálfsagt mætti finna fleiri svona ferðasögur um mannkynssöguna ef menn endilega vilja. Þetta er afar fyndin bók og aðalpersónan, gamlinginn Allan Karlsson, er yndisleg! Einna helst pirrar mig að bókin er ekki nógu vel þýdd (setningar eins og “hann fraus á hendinni” - þegar ein persónan hafði glatað mótorhjólahanskanum sínum og var að aka heim, eða þegar sagt er að forseti Bandaríkjanna dvelji á heilsuhæli “til að lina lömunarveikina” eru klúður). Þetta kom mér reyndar á óvart því ég veit að þýðandinn er sérlega vandvirkur. Kannski les ég bókina bara aftur, á sænsku.

Svo er ég nýbúin að lesa Nú kveð ég þig Slétta, sem vel að merkja inniheldur ekki eitt einasta morð ;)  Bjóst fyrirfram við að ég læsi aðallega formálann og viðtalið en svo fór að ég las allar vísurnar líka og fannst gaman að. Mér finnst útgáfan á Nú kveð ég þig Slétta líka alveg sérlega vönduð og skrifaði hjá mér slatta af ritum sem vísað er í til að skoða betur við tækifæri. En sú bók höfðar líklega ekki til almennings, hún er væntanlega miðuð við fólk sem þekkir til á þessum slóðum.

Af því ég er alæta á bækur eru hér í hillu einnig Jóri. Hestar í íslenskri myndlist, sem ég hafði gaman af að skoða og Táknin í málinu eftir Sölva Sveinsson, sem ég er talsvert búin að fletta (þetta er flettibók, ekki bók til að lesa í gegn) og finnst afar áhugaverð og vel gerð. Sölvi skrifar alltaf lipurt og það er gaman að sjá hvað hann hefur verið duglegur að tína saman upplýsingar úr ýmsum áttum.

—-

Þetta var pistill um bækurnar í lífi mínu undanfarið og vangaveltur um ótrúlegar sálarkreppur og alkóhólisma í norrænum morðbókmenntum, sem mættu gjarna missa sín. Ég ætla rétt að vona að einhver smákarlaklíka fái nú ekki flog yfir þessari færslu eins og síðast þegar ég skrifaði um bók ;)

  

Ummæli (10) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf

19. október 2011

Fallið - skrípóbók um alkóhólisma

Fékk Fallið eftir Þráin Bertelsson á því góða bókasafni í gær og las í gegn, sem tekur enga stund. (Af tilviljun sá ég að í hillu nýrra bóka var Fallið við hlið Morðs og möndlyktar Camillu Läckberg, afspyrnu lélegs reyfara og Läckberg til vansa. Sá að bækurnar eru nákvæmlega jafnstórar - öllu heldur jafnlitlar- í álíka broti, þ.e. stíf kápa um stuttan texti. Merkileg tilviljun en ekkert annað en tilviljun.)

Raunar finnst mér dálítið skrítin forsíða á bók Þráins miðað við efni. Sé ekki betur en kápumyndin sé útklippt svarthvít teikning af fræknum sundmanni að stinga sér, í rauðu hafi í átt til fagurguls titilsins, Fallsins. Líklega er þetta tilviljun.

En þá að Fallinu: Söguþráðinn þekkja flestir svo vandlega sem hann hefur verið auglýstur en hann er sá að Þráinn Bertelsson datt í það í Færeyjum, fékk flýtiinnlögn á Vog, dvaldi þar í áfengismeðferð og fór í hálfa eftirmeðferð. Þetta er ekki merkilegur söguþráður (nema kannski flýti-innlögnin veki athygli þeirra sem eru á biðlista). Þetta fall er ekki merkilegt nema frá sjónarhóli fallistans og fjölskyldu hans. Miðað við legíó fallsagna sem ég hef hlustað á gegnum tíðina er ekkert sérstakt um þetta tiltekna fall að segja og álitamál hvort það sé efni í bók eða tilefni bókar … kannski nokkrar bloggfærslur hefðu verið betur við hæfi - eða bara einföld tjáning á AA-fundum eins og við hin stundum. Ég get ekki að því gert að mér finnst felast viss athyglisýki í því að detta í það í júní og gefa út um það bók í október. (Ég er líklega svona illa innrætt af náttúrunnar hendi að láta mér detta svonalagað í hug.)

Bókin er heldur losaraleg, þ.e.a.s. hún er í mörgum stuttum köflum. Ýmist er Þráinn að velta fyrir sér ýmsum heimspekilegum viðfangsefnum meðan á meðferðinni stendur, upplýsa lesanda um eðli alkóhólisma, skotið er inn köflum með sögum af öðrum ölkum og stuttum brotum frá sjónarhóli aðstandenda. Síðastnefndu hlutarnir eru bestir, finnst mér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að svona bók sé brotakennd: Alkóhólískar minningar eru alltaf brotakenndar og áfengismeðferð er það erfið að það er enginn vegur að muna hana í röklegu samhengi.

Ég hef fyrir löngu fengið mig fullsadda af sniðugum sögum af karlkyns ölkum sem röknuðu úr rotinu við ótrúlegustu aðstæður, oft í útlöndum. Svona sögur eru þjóðsögur meðal alkóhólista, hugsanlega byggðar á sannleikskornum, en aðallega er fídusinn í þessum sögum sá sami og í Íslenzkri fyndni, vantar kannski helst að viðkomandi kasti fram stöku af tilefninu. Sniðugu innskotssögurnar eru bara af körlum. Af því ég veit að það er nákvæmlega ekkert sniðugt eða skondið eða fyndið við alkóhólisma fundust mér þessar sögur heldur ómerkilegt innlegg í svona bók. Ein saga er af konu en það er ekki hreinræktuð íslenzk-fyndni-saga heldur á hún að fjalla um samsjúkling Þráins á Vogi því sú persóna er nauðsynleg málpípa sjúklingahópsins sem dvelur með Þráni. (Ég ætla rétt að vona að fulltrúar alkhóhólista  í bókinni séu uppdiktaðar persónu, aðrar en Þráinn sjálfur og þessi eina sem veitti leyfi fyrir grínsögu um sig.) 

Bókin er fyndin á köflum enda augljóst að höfundur hefur lagt sig í líma við að koma að bröndurum og sniðugheitum. Líklega gætu virkir alkóhólistar haft gaman af bröndurunum og þeir örfáu Íslendingar sem ekki hafa haft kynni af alkóhólisma í fjölskyldu sinni eða nánum vinakreðsum. Brandarnir þjóna líka stundum þeim tilgangi að sýna hve höfundurinn er vel að sér, víðlesinn og velmenntaður, t.d. að myndhverfa Vog í dáraskip eða lauma inn fyndnum þýskum heitum í eina af sniðugu sögunum. Þannig geta víðlesnir virkir alkar og þeir örfáu … o.s.fr. haft gaman af henni líka.

Þráni er þó mjög í mun að sannfæra lesandann um að hann sé einn af hinum óbreyttu enda er það meginhugsun í áfengismeðferð að allir séu þar jafningjar, hver sem staða þeirra er utan Vogs og eftirmeðferðarstöðva. (Þetta er einnig meginhugsunin í AA samtökunum.) En honum lukkast engan veginn að sýna þá auðmýkt að telja sig til hinna óbreyttu, þ.e. jafningjanna sem eru að reyna að ná tökum á sama sjúkdómi. Þráinn er afar upptekinn af því að vera þjóðþekkt persóna, telur að slúðurblöð muni jafnvel birta frétt um að hann sé í áfengismeðferð fari hann í eftirmeðferð. GRÓA Á LEITI og aðrar kjaftatífur landsins af báðum kynjum með snípinn í hálsinum munu fá raðfullnægingu við að kjamsa á því að alþingismaður sé staddur á Vogi. Ég sé ekki ofsjónum yfir þeirri gleði. (s. 116.) Mögulega væri það ekki fyrir neðan virðingu DV að birta smáfrétt um þetta en líklega þætti fáum fréttnæmt nema ríkti alger ördeyða og gúrkutíð í fjölmiðlun. Tilvitnunin í bókina sýnir í hvaða stíl hún er skrifuð. 

Hann er líka ákaflega upptekinn af því að miðla lífspeki til lesandans, molum af borðum Johns Stuart Mill, Dalai Lama, Carls Jung, Dale Carnegie, Jesú Krists o.fl. Þetta er lífspeki sem hefur nýst Þráni um ævina en allar þessar skáletruðu tilvitnanir með tilvísun í heimildir eru kannski líka til að lýsa því hvað maðurinn er víðlesinn og fróður? Þær minntu mig nú helst á algenga statusa sem fólk setur á Facebook, sér og öðrum til huggunar þann daginn. Sumar tilvitnanirnar eru velþekktar klisjur í allskonar sjálfshjálparkreðsum, s.s. verði þinn vilji (raunar bætir Al-anon fólk oft við en ekki minn) og This too shall pass, sem er íslenskuð og heimildin endursögð í löngu máli  í Fallinu.

Annað sem virkar hálfgerður tvískinnungur er þegar gert er grín að manni í einni sniðugheitasögunni fyrir að reikna út alkóhólmagn í bjór versus léttöli á fáránlegan hátt (s. 182-184.) Mórallinn í þessari sögu er vitanlega sá, að alkóhólistar eins og aðrir geta reiknað yfir sig mikil vandræði með vísindalegum aðferðum. (s. 184). En sjálfur er Þráinn upptekinn af því að reikna út hve mörg ár hann hafi verið edrú og duglegur að draga föllin frá, líklega til að peppa upp sjálfsmyndina sem er vitaskuld ekki upp á marga fiska eftir fall. Hann virðist þó sjálfur sjá að þótt edrúárin séu mörg hafi fallbrautin kannski hafist á því að telja sig ekki lengur þurfa að stunda fundi reglulega. Samt er ekki ljóst hvort hann tengir saman útreikninga sína og fræðin um fallbrautina, kannski reiknar hann sjálfur yfir sig vandræði með vísindalegum aðferðum, í umfjöllun um sín mál í bókinni?

Nú hef ég lesið töluvert af alkabókum og alkóhólískum fræðum um ævina, hef því miður gleymt því flestu vegna annars sjúkdóms. Þó minnir mig að mér hafi fundist Og svo kom sólin upp (viðtalsbók Jónasar Jónassonar við ýmsa) og Þar sem vegurinn endar (eftir Hrafn Jökulsson) standa upp úr í þessum bókmenntageira. Aðall þeirra bóka er hreinskilni og einlægni sem gerir lesandanum ljósa hina sáru kviku alkóhólismans. Af bókum sem fjalla um aðra geðsjúkdóma bera Englar alheimsins og Sýnilegt myrkur höfuð og herðar yfir bækur af þeim toganum. Fyndni og kaldhæðni koma ekki í veg fyrir að slík einlægni skili sér, s.s. sjá má í Englum alheimsins, og tilvitnanir í ýmsa heimspekinga og menningarvita ekki heldur, eins og Sýnilegt myrkur sannar. Meira að segja bækur um alkóhólisma sem ég er algerlega ósammála, t.d. Alkasamfélagið eftir Orra Harðarson, grípa lesandann af því höfundurinn hefur sannfæringu og lýsir raunum sínum eða sigrum af einlægni fyrst og fremst.

Ég hef líka lesið talsvert af bókum Þráins Bertelssonar, hugsanlega allar, og þótt óminnishegrinn hafi plokkað þær úr heilabúinu (með aðstoð raflosta og annars sjúkdóms) man ég vel að mér hugnuðust vel nokkrar af þeim bókum. Svo ekki er þessi slæmi dómur sprottinn af sérstakri andúð á rithöfundinum. Mig grunar, einhverra hluta vegna, að Þráinn taki leiðbeiningum eða ráðleggingum ekkert sérstaklega vel (þrátt fyrir yfirlýsingar um að fá fúslega lánaða dómgreind hjá öðrum, öðru gæti alki raunar ekki haldið fram sé honum í mun að vera talinn í bata). Að mínu viti hefði Fallið hugsanlega getað orðið nokkuð góð bók ef lengri tími og meiri alúð hefði verið lögð í skriftirnar og ef höfundurinn hefði haft auðmýkt og hreinskilni að leiðarljósi fremur en sjálfsupphafningu.

En Fallið … hver er tilgangurinn með þessari bók? Meðan ég var að lesa hana fannst mér alltaf að sagan væri hálfsögð, að í bókina vantaði eitthvað mikilvægt og um miðja bók varð mér ljóst hvað það var: Það vantar algerlega einlægni!  Þótt hún eigi að fjalla um þessa lífsreynslu Þráins, sem hlýtur að hafa verið sár og tekið á, snerta þær frásagnir lesandann lítið því hann er ýmist svo upptekinn af því að vera sniðugur eða vellesinn (öllu heldur vel-ítvitnandi). Á einstaka stað má þó finna einlægni og auðmýkt, s.s. þegar hann segir frá örlögum briddsfélaga sinna frá í gamla daga eða þegar hann víkur að konunni sinni. Það er allt og sumt. Fallið er heldur ekki fræðslubók um alkóhólisma því hún inniheldur enga fræðslu sem ekki er löngu aðgengileg áður, raunar mun aðgengilegri fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor, ýmist sem sjúklingar eða aðstandendur.

Fallið er fyrst og fremst skrípóbók um alkóhólisma.

P.s. Ég er sammála Þráni um að það sé illt að kapellunni á Vogi skuli hafa verið lokað. En ég held að trúarlegar skoðanir hafi skipt litlu máli, skv. orðinu á götunni fóru fram talsverð viðskipti með vímuefni í þessari kapellu - enda eini staðurinn þar sem hægt var að vera í friði - og þess vegna hafi þurft að loka henni. Veit ekki hvað er satt í þessu.

   

Ummæli (19) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf

23. september 2011

Saga Akraness og Saga Sögu Akraness

Það liggur nokkur straumur af Eyjunni inn á bloggið mitt núna, í tilefni fréttar af viðbrögðum Páls Baldvins Baldvinssonar við hótunum og ummælum míns góða bæjarstjóra o.fl. sem tengjast Sögu Akraness.

Ég bloggaði á sínum tíma færsluröð um Sögu Sögu Akraness, sem sést í færsluflokkun til hægri á þessu bloggi. En lesendum sem hingað rata af Eyjunni akkúrat núna til hægðarauka bendi ég á:

Hér má hlaða niður flestöllum færslum um Sögu Sögu Akraness í einu pdf-skjali (sem er mun þægilegra að lesa en færslurnar í bloggumhverfinu).

Hér er Fjórðungsdómur um 18 marka bók (hann er að sjálfsögðu einnig að finna í pdf-skjalinu). Ég vek athygli á því að Páll Baldvin skrifaði sinn ritdóm óháðan þessari færslu (þótt mínum ágæta bæjarstjóra hafi dottið annað í hug) og að þessi fjórðungsdómur er ekki alvöru ritdómur því ég komst aldrei yfir nema hluta Sögu Akraness I, þá gafst ég hreinlega upp á að lesa textann og horfa á stolnu myndirnar. Fjórðungsdómnum var líka aldrei annað ætlað en vera smá innskot í sögu sagnaritunarinnar og ótrúlegan peningaaustur í sagnaritara sem aldrei stóð skil skv. samningum, vangaveltur um hverjir í bæjarapparatinu bæru mesta ábyrgð á sukkinu og hvers vegna o.s.fr.

Hér er Körlunum svarað, þ.e.a.s. færsla þar sem ég svara harmatölum Ritnefndar um sögu Akraness, bæjarstjórans Árna Múla og langloku Gunnlaugs Haraldssonar, sem tóku drjúgan skerf af Skessuhorni vikuna eftir að Fjórðungsdómurinn birtist. Ég kræki í það af þeirra efni sem er aðgengilegt á vef.

Efst í færsluflokknum Saga Sögu Akraness eru svo örfáar færslur sem skrifaðar voru eftir að ég tók saman færslurnar í pdf-skjalið, þ.á.m. svar við aðsendri grein Jóns Torfasonar í Skessuhorn, þar sem hann ber blak af sagnaritara. Í þeirri færslu, Sögunni umfjölluðu, kræki ég í grein Jóns Torfasonar.

Þeir sem ekki hafa fengið sig fullsadda fyrir löngu af sápuóperunni um sögu Sögu Akraness hafa kannski einhver tímasparandi not af þessum tenglum. 

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Saga Sögu Akraness

24. ágúst 2011

Tvær ólíkar bækur

Fyrir hálfum mánuði þurfti ég að fara til borgar óttans og til að gera ferðina álitlegri og skaffa góða dúsu fyrir svo leiðinlega ferð setti ég Bókasafn Norræna hússins á planið: Kom heim með tvo poka af bókum, álíka þunga og 2 eintök af fyrra bindinu í Sögu Akraness … Og síðan hef ég verið að lesa gegnum staflann. Þetta eru að sjálfsögðu mikið til morðbókmenntir (nema kannski eru algerlega laus við morð bækurnar Fra fiber til tøy og Norsk folkekunst … raunar tók ég einnig Folkekunst i Norge en fattaði þegar heim var komið að þetta var sama bókin, endurútgefin). Ég er einstaklega heilluð af tveimur bókanna sem ég hef lesið / er langt komin með að lesa og ákvað að blogga um þær. Í leiðinni ætti ég kannski að vara við Fra fiber til tøy því hún er æðislega leiðinleg ;)   Þótt maður hafi vissan fyrirframáhuga á ullar-, hör-, lín- og netluvinnslu og hafi alltaf langað að vita hvað er strý.

Önnur bókanna sem ég er svo hrifin af er Kongemordet eftir Hanne-Vibeke Holst. Ég man eftir að hafa oft séð bækur eftir þennan höfund, hún raðast nefnilega í nágrenni við Anne Holt og Kirsten Holst á bókasöfnum, en hafði, einhverra hluta vegna, ákveðið að Hanne-Vibeke Holst væri leiðinlegur höfundur. Man ekki hvers vegna. En fyrir tilviljun horfði ég á Drottningarfórnina á RÚV nú í sumar og skömmu síðar Kronprinsessen á DR 1. Röðin í þessum þríleik er: Krónprinsessan (hefur verið þýdd á íslensku) - Kongemordet - Dronningeofret svo ég komst inn í hann í kolvitlausri röð en það kemur svo sem ekki að sök. Og sjónvarpsþættirnir eru sænskir og snúast þ.a.l. um sænska pólitík þótt bækurnar séu danskar … pínulítið ruglandi en kemur svo sem heldur ekki að sök.

KongemordetMér fannst Kongemordet bera af hinum en það er kannski af því ég las ekki þær bækur heldur horfði á sjónvarpsseríur gerðar eftir þeim. Hún fjallar um sömu persónurnar en í bókinni kemur skýrt fram hve siðblindur Gert Jacobsen, sem rær að því öllum árum að verða forsætisráðherra Danmerkur, er. Þeir sem hafa áhuga á því hvernig siðblindir akta í pólitík, taka þátt í pólitískri refskák og standa sig vel í valdataflinu, með gersamlega innantómu orðagjálfri því þeim er vitaskuld sama um alla aðra en sjálfa sig, ættu að lesa þessa bók. Og auðvitað lítur lengst af út fyrir að kvikindinu Gert takist það sem hann ætlar sér. Hann er háttsettur í det socialdemokratiske parti en en eins og gefur að skilja er allur hans sósíalismi utanaðbókarlærðir frasar og hugsjónir hefur hann engar, nema ná sem mestum völdum. En hann leikur vin alþýðunnar alveg glettilega vel og slær ryki í augu stuðningsmanna og flokksmanna.

Kvennamál Gerts koma nokkuð við sögu og ofbeldið sem hann beitir þegar enginn sér til. Aðalfórnarlambið er eiginkona hans, Linda. Eftir því sem lesandanum verður ljósar hve innantóm skel þessi Gert er og hvers lags bölvað kvikindi hann geymir skilur maður Lindu æ betur. Öfugt við Gert er heilmikið í hana spunnið. En Kongemordet er breið saga með fjölda persóna, þ.á.m. fær Charlotte Damgaard heilmikið rými (hún er krónprinsessa flokksins, heitir Charlotte Ekeblad í sænsku sjónvarpsgerðinni af hinum tveimur bókunum). Þó mætti segja að Linda og Gert séu aðalpersónur. Á myndinni er Gert fremstur og Linda í rauðum kjól.

Ég fer auðvitað ekki að skemma fyrir þeim sem ekki hafa lesið þessa bók með því að rekja söguþráðinn - lofa þó að endirinn kemur á óvart og gleður lesandann mjög! Og get þess að fremst í Kongemordet er tilvitnunin: Politics gives guys so much power that they tend to behave badly around women. And I hope I never get into that.” - Bill Clinton, amerikansk præsident.

Það er ljóst að í næstu heimsókn á Bókasafn Norræna hússins tek ég góðan stafla af bókum Hanne-Vibeke Holst! Og krossa fingur fyrir því að RÚV eða DR 1 sýni seríuna Kongemordet fljótlega (hún var gerð árið 2008). Hafa þessir þættir kannski verið sýndir hér á landi? (Óminnishegrinn tekur æ stærri toll af minningum eftir því sem veikindi mín ná yfir stærri hluta ársins.)

Hin bókin er af allt öðrum meiði. Hún er eftir Arnfinn Kolerud (sem ég veit hvorki haus né sporð á en virðist vera margverðlaunaður norskur barnabókahöfundur sem einnig skrifar fullorðinsbækur - eða er ég kannski að lesa barnabók eftir hann?) og heitir Når ein først skal skyte nokon. Ég er varla hálfnuð með hana, hef hana meðfram Kurt Wallander sögu sem er svo langdregin að ég er við það að gefast upp …

Når ein først skal skyte nokonNår ein først skal skyte nokon er ekki morðsaga þótt nafnið gæti bent til þess heldur er þetta skáldsaga um málvernd og málvöndun. Ég gæti trúað að Eiður Svanberg hefði gaman af henni ;)   Sagan gerist í Vassbygda, eða Vassbygdi (íbúarnir eru ekki sammála um nafnið), litlu þorpi þar sem sumir vilja halda dauðahaldi í nýnorsku og útrýma helvítis bókmálinu. Alharðasti málverndunarsinninn heitir Bendik Uføre. Hann stundar það að leggja upplýsingablað um nýnorsku í póstkassann hjá öllum nýjum íbúum og notar hvert tækifæri til að fá menn til að brúka fornar beygingar og endingar. Eins og segir í bókinni:

Ein måtte passe på heila tida. Det var det Uføre gjorde. Passa på nynorsken, og særleg i-målet. Han kvilte ikkje ofte. Han sette seg i bilen og køyrte til Volda og Ulsteinvik, Byrkjelo og Sykkylven og Stryn, Fjærland og Florø og Førde. Det var arbeid å gjere overalt. Hann stoppa der to ungar sat i ei busslomme og selde jordbær for “25 kr pr korg”. Da han reiste derifrå, stod det i staden “25 kr korgi”.

Bendik Uføre hefur tekist að koma því í kring að í skólanum í Vassbygdi (eða Vassbygda) eru ekki a- og b- bekkir eins og annars staðar heldur a- og i-bekkur. Og hann lagði það á sig að líma yfir merkið á bílnum sínum svo hann ekur ekki um á Toyota heldur Toyoti! Raunar held ég að málfarsleiðréttingar Bendiks séu sumar kannski á misskilningi byggðar (eins og stundum verður einnig í leiðréttingum mjög ákafra málfarsfasista íslenskra) en kann ekki nóg í nýnorsku til að fatta alla svoleiðis brandara. Þó má nefna að í munni Bendiks heitir landið hans Norike, sem mér finnst afskaplega hæpið að nokkru sinni hafi verið notað yfir Norge. (Ég var samt soldið skúffuð yfir að það skyldi ekki heita Noriki …)

Söguþráðurinn er vægast sagt absúrd; ótrúlega undarleg atvik henda en gjörðir manna eru ævinlega sprottnar af ást á tungunni, þ.e. nýnorsku, hvort sem um er að ræða að stela póstbílnum og aka honum í höfnina eða vera tekinn í búningsklefa í kvennærfatabúð lesandi hástöfum kvæði á nýnorsku … Og sagan er brjálæðislega fyndin!

Skv. því sem stendur fremst í bókinni er þetta fyrsta bók í þríleik og ég sé að ég verð að lesa þær allar og mun þá skilja öfga-málverndunarsinna miklu betur, auk þess að læra alveg helling í nýnorsku (sem mér hefur nú alltaf þótt gaman að lesa). Vonandi læri ég ekki of mikið í i-málinu í leiðinni :)

Ummæli (3) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf