Færslur undir „Daglegt líf“

27. febrúar 2014

Helgimyndin Hildur Lilliendahl

Hildur Lilliendahl er fræg … en af hverju er hún fræg? Hefur hún unnið eitthvert afrek, skapað eitthvað merkilegt, unnið sér eitthvað til frægðar? Nei, hún er fyrst og fremst fræg af frægð sinni.  Hildur er sköpuð úr froðu Netsins og er dýrkuð og dáð af fjölda manns fyrir meinta mannréttindabaráttu í þágu kvenna. Árið 2012 hlaut hún Hugrekkisviðurkenningu Stígamóta fyrir þrautseigju og hugrekki í að búa til úrklippusafnið “Karlar sem hata konur”:

sem er samantekt um kvenfyrirlitningu í netheimum [og] er einstaklega frumlegt og afhjúpandi. Það snýst um það eitt að draga fram í dagsljósið þá sem virðast vilja konum illt og orðrétt ummæli þeirra.

(Ársskýrsla Stígamóta 2012 s. 16.)

Sama ár fékk Hildur að vera ljósberi í göngu UN Women gegn kynbundnu ofbeldi og var kostin “hetja ársins” af DV og lesendum þess.

Dýrlingurinn Hildur Lilliendahl

Hildur umbreytir sér hægt og bítandi í helga konu, Netdýrling femínista, og er langt komin með að endurskapa góða lífssögu (vita) og semja sína píslarvættissögu (passio), sem birtist í bútum í netmiðlum og viðtölum. Hún vinnur sem sagt eftir aldagamalli uppskrift að helgrakonusögu.

  • Hún hefur liðið pínslir sem saklaust barn; Sjá pistilinn Kvalarar á knúz.is 31. jan. 2014, þar sem fram kemur að barnagirndar-sjoppueigandi bauð henni hundrað kall fyrir að klæða sig úr naríunum en Hildur slapp sem betur fer frá vonda kallinum. Síðan skilur hún fórnarlömb barnaníðinga næmum skilningi og berst fyrir þau.
  • Henni hefur verið nauðgað og síðan skilur hún fórnarlömb nauðgana næmum skilningi.
  • Hún hefur saklaus verið ofsótt vegna málstaðar síns (úrklippusafns skjámynda), þ.e.a.s. hið illa fyrirtæki Facebook hefur lokað aðgangi hennar nokkrum sinnum og sumir karlar hafa verið einkar orðljótir í umræðu um hana (sem að vísu styður heilagan málstað hennar því þeir auka í leiðinni efnið í hennar úrklippusafn).
  • Fjölskyldu hennar hefur verið ógnað;  Einu sinni hringdi illur maður í heimasímann og hótaði eiginmanni hennar að eyðileggja fjölskyldubílinn.
  • Henni hefur meira að segja blætt en eins og allir vita fylgir blóð ævinlega í alminlegum dýrlingasögum.

Persónan Hildur Lilliendahl

Sumt í helgimyndinni Hildi Lilliendahl stangast illilega á við sögu persónunnar Hildar Lilliendahl eða hegðun Hildar Lilliendahl. Tökum dæmi:

Í pistlinum Kvalarar segir af Hildur um Hildi 11 ára:

Ég snarhætti að hanga í sjoppunni eftir þetta. Ég var hrædd við þennan mann og ég var alltaf hrædd ef ég neyddist til að ganga framhjá sjoppunni.

Í færslunni Hvað varstu að gera þegar þú varst 12 ára, á bloggi Hildar Lilliendahl 18. 11. 2008  segir Hildur um  Hildi 12 ára:

Þegar ég var 12 ára hékk ég útí sjoppu í leðurjakka, byrjaði að reykja camel filters, fór á ímyndunarfyllirí af heimabrugguðum bjór úr tveggja lítra brúsa, var offisjallí byrjuð með strák ef ég fór í sleik við hann þrjú kvöld í röð, fékk stundum að vinna í sjoppunni […]

Hildur getur áreiðanlega skýrt þetta ósamræmi ekki síður en ummæli þau sem höfð voru eftir henni í Kastljósi kvöldsins. T.d. gætu hafa verið tvær sjoppur í Bökkunum í Breiðholti á þessum tíma eða kannski hætti dónakarlinn að vinna í sjoppunni áður en Hildur átti 12 ára afmæli o.s.fr.

Í viðtölum af meintum ofsóknum Facebook gegn sér hefur Hildi Lilliendahl alveg láðst að segja af öðrum eldri samfélagsmiðli sem einnig lokaði aðgangi hennar hvað eftir annað, nefnilega Barnalandi, þar sem Hildur var til skamms tíma virkur þátttakandi undir nafninu Nöttz. Í bréfaskiptum hennar og vefstjóra Barnalands vorið 2009 (sem Hildur birti sjálf á Barnalandi undir nýju notendanafni/nikki því Nöttz var í banni og eiginmaður hennar Skundi einnig og áreiðanlega skrifuðum af nýrri IP-tölu, t.d. í tölvu í Ráðhúsi Reykjavíkur) segir vefstjórinn m.a.:

6. Ég þarf ekki að réttlæta neitt fyrir þér, en það segir nú kanski margt um notanda sem hefur farið 4 sinnum í bann á vefnum hjá okkur, allt frá því að pósta inn linkum, verið með ýmisskonar múgæsing, kallað notendur hórur og fleira í þeim dúr. Margar þessar umræður hafa verið tilkynntar af notendum sjálfum.

Umræddur linkur sem Hildur/NöttZ hafði póstað inn var á efni sem öðrum en henni sjálfri þótti klám. Linkinn er að finna í bréfaskiptum Hildar og vefstjórans og virðist sýna sömu mynd og spila sömu tónlist og Hildi þótti einkar fyndin  þarna um árið, menn geta því sjálfir metið hvort þetta er húmor eða klám með því að lesa bréfarolluna. Hafi aðgangi Hildar/NöttZ að Barnalandi verið lokað fjórum sinnum þegar komið var fram á árið 2009 segir það sína sögu því þar á bæ kölluðu menn ekki allt ömmu sína þegar kom að netsiðferði.

Í Kastljósi kvöldsins rakti söngkonan Hafdís Huld ýmis ummæli sem Nöttz (notandanafn Hildar Lilliendahl) hafði látið falla um hana, t.d. að Hafdís væri þroskaheft, , ummæli sem mátti flokka undir morðhótun og tillögu um að nauðga Hafdísi með tjaldhæl.

Kastljós hefur það síðan eftir Hildi að maðurinn hennar (!) hafi skrifað sum ummælin og önnur megi skýra með einkaskilaboðum sem Hildur sé að svara (og vaknar þá sú spurning af hverju hún svarar einkaskilaboðum á opnum umræðuþræði án skýringar) o.s.fr. Sem sagt: Allt var þetta í rauninni ósköp saklaust og eiginlega tómur misskilningur í kross og það var ekki ég sem gerði það-skýringar. Það má samt spyrja af hverju Hildur eyddi ekki ummælum sem maðurinn hennar skrifaði í hennar nafni, þetta var nú einu sinni hennar eigið notendanafn og henni því í lófa lagið að eyða þeim, auk þess sem hún ber ábyrgð á ummælum skrifuð undir hennar notendanafni. En kannski eykur þetta enn á píslarvætti Hildar: Býr hún kannski með manni sem hatar konur?

Upplýsingar Hafdísar Huldar komu Stígamótum í opna skjöldu. Sjálfsagt kemur það líka Stígamótum í opna skjöldu að Barnaland hafi marglokað á Hildi Lilliendahl (Nöttz) fyrir að kalla aðra notendur hórur, dreifa klámi og standa fyrir múgæsingu af ýmsum toga.

Ennfremur er Stígamótum eflaust ókunnugt um að þessi hugrakki verðlaunahafi hafi útbúið afmæliskort handa vinkonu sinni með textanum “Til hamingju með daginn, skítahóran mín. Lov jú” (textinn krækir í myndina á bloggi Hildar þann 23. okt. 2008) og birt á netinu.

Stígamót hafa sjálfsagt heldur ekki tekið eftir beiðni Hildar um að einhver berji Hlín Einars, ritstjóra Bleikt.is, fyrir sig (sjá færslu á bloggi Hildar 12. okt. 2010) því hún er ósammála grein eftir Hlín Einars. Hildur hefur margtekið fram í athugasemdum við mitt eigið blogg að þessi ósk hennar sé sprottin af kaldhæðni og eigi ekki að skiljast bókstaflega … en það er ansi erfitt fyrir venjulega konu að skilja hvenær Hildur er að djóka og hvenær ekki. Er fyndið að kalla vinkonu sína “skítahóru” í afmæliskveðju? Er fyndið að skrifa færsluna: “Vegna lítillar gagnvirkni - hvern þarf ég að sjúga …?” (blogg Hildar Lilliendahl 25. sept. 2008). Er fyndið að margar færslur í þessum dúr og vafasöm skilaboð á Barnalandi (t.d. rexþulan með bréfaskiptum hennar og vefstjóra Barnalands) eru skrifaðar á vinnutíma og þá væntanlega á vinnustað? (Hildur vinnur hjá Reykjavíkurborg.)

Íkon eða djókari dauðans?

Er þá Hildur Lilliendahl, þegar allt kemur til alls, ekki helgimynd heldur grínisti sem leggur sérstaka áherslu á ósmekklegt spaug? Væri ekki rétt að Stígamót veittu henni grínverðlaun ársins 2014?

Ummæli (25) | Óflokkað, Daglegt líf

16. febrúar 2014

Leit í læknisfræðilegu efni á ensku á Netinu

Þetta dæmi er af sjúklingi sem ekki hefur fengið bót meina sinna í heilbrigðiskerfinu; hefur gengið milli lækna af ýmsu tagi og prófað ýmis læknisráð án árangurs. Sjúklingurinn er með verki sem ekki finnst skýring á, í þessu tilviki í kjálka. Í stað þess að læknar upplýsi hann um að í fjölmörgum tilvikum kunni læknisfræðin enga skýringu á verkjum eða ýmsum öðrum krankleik er sífellt lagt til að sjúklingurinn leiti til nýs og nýs sérfræðings í nýjum og nýjum greinum. Sjúklingurinn nennir loks ekki að taka þátt í frekari læknisleik og ákveður að kynna sér málið sjálfur.

Forsagan felur í sér að sjúklingurinn hefur lesið sér talsvert til á „ófræðilegum“ vefsíðum, t.d. Wikipedia-síðum eða upplýsingasíðum fyrir almenning. Það er almennt langbest að byrja á að lesa svoleiðis yfirlit, þótt ekki sé nema til að læra helsta orðaforða um sinn sjúkdóm.

Hvar á að leita upplýsinga?

Efni sem læknar taka mark á (þ.e. ritrýnt efni eftir aðra lækna eða þá sem hafa háskólagráðu í heilbrigðisvísindum) er skráð í ýmsa gagnabanka. Það er ekki sérlega árangursríkt að leita beint í þeim, aðallega af því það er svo seinlegt. Gagnabankarnir henta kannski betur læknum sem vilja velja bestu bitana fyrir sig, stunda það sem kallað hefur verið á lélegri íslensku „kirsuberjatínsla“,  þ.e.a.s. leita staðfestingar fræðinga á því sem fellur að þeirra eigin fyrirfram skoðun.

Hvernig á að leita upplýsinga?

Langöflugasta leitarverkfærið er enn og aftur Google, í þetta sinn sá angi þess sem kallaðist „Fræðasetur Google“, þ.e.a.s. scholar.google.com.  Þetta tól Google leitar í fræðigreinum í tímaritum, sem mörg eru aðgengileg í landsaðgangi, fræðibókum,en hluti þeirra er oft aðgengilegur á Google books, og fleiru efni. Það er auðvelt að stilla leitartólið og því tiltölulega fljótlegt að finna þær upplýsingar sem notandi er á höttunum eftir. Síðan má nota efni úr þeim, t.d. heimildir sem þær vísa í, til enn markvissari leitar (ef sjúklingurinn hefur hug á að gerast sérfræðingur í eigin sjúkdómi).

Hér að neðan sést skýringarmynd af Google scholar, stillingum og hvert krækjur vísa. Útskýringar eru fyrir neðan myndina. (Vegna þess að snið bloggsins míns leyfir ekki breiðar myndir í efstu færslu kann að vera að lesandi þurfi að skruna neðar til að sjá myndina og afganginn af færslunni.)

Stillingar � Scholar Google

Lengst til vinstri eru stillingar sem voru valdar áður en leit hófst. Hér var valið að leita að efni frá 2010 til dagsins í dag. Stillt var á „Sort by relevance“ sem þýðir að upplýsingum er raðað eftir því hve vel þær tengjast leitarorðinu/leitarorðunum. Hakað var við „include citations“ til að sjá hvar hefur verið vitnað í efnið (sem gæti gefið vísbendingar um gæði þess).

Leitarorð geta verið mörg, í þessu tilviki er leitað að „atypical facial pain“ (ódæmigerðum andlitsverk). Önnur leitarorð sem hefðu komið til greina væru „myofascial face pain“ (andlitsverkir sem tengjast bandvefsvandamálum), „facial neuralgia“ (taugaverkir í andliti), „persistent idiopathic orofacial pain“ (stöðugur óútskýrður verkur í neðri hluta andlits eða munnholi) o.s.fr. Sjúklingurinn veit nú þegar að hann er ekki með TMD (Temporomandibular disorder, þ.e.a.s. einhverja skemmd sem tengist kjálkalið) og ekki með Trigeminal neuralgia (vangahvot, verki sem tengjast þríburatauginni) svo hann er ekkert að ómaka sig við að leita eftir þeim leitarorðum.

Fyrsta greinin sem kemur upp er aðgengileg sem vefsíða en einnig fylgir krækjan Landsaðgangur. Sé smellt á Landsaðgangur opnast nýr gluggi sem er hluti af landaðgangsleitarvélinni (bein slóð á landsaðgengi að greinum er hvar.is). Í þeim glugga kemur fram í hvaða gagnabanka greinina er að finna, í hvaða tímariti hún birtist, hvenær, á hvaða blaðsíðum o.s.fr. Vilji maður lesa grein í landsaðgangi er smellt á Go. Þá opnast greinin í viðkomandi tímariti, í þessu tilviki Scandinavian Journal of Pain. Þess ber að geta að oft er nýjasti árgangur fræðitímarits ekki aðgengilegur í landsaðgangi.

Hvernig á að meta leitarniðurstöðurnar?

Sjúklingurinn sem er að leita sér upplýsinga tekur eftir því að þótt Google Scholar raði greininni úr Scandinavian Journal of Pain efst í leitarniðurstöðum (vegna þess að leitarorðin koma fyrir í röð snemma í greininni) virðist þetta ekki talin mjög merkileg grein (eða háttskrifað tímarit). Það sést á því að einungis 4 hafa vitnað í hana síðan hún birtist: Cited by 4 gefur sumsé ákveðnar vísbendingar.

Neðar á fyrsta skjá birtast mun álitlegri krækjur:

Vægi greina � Scholar Google

Krækja í efni sem hefur verið vitnað í af 104, stærstur hluti þeirra eru væntanlega fræðimenn sem vitna til þessa efnis í sínum fræðiskrifum, virðist álitleg. Og skv. krækjunni lengst til hægri er efnið aðgengilegt sem pdf-skjal á rússnesku vefsetri (sem kann að vera vegna þess að Rússar eru ekki píetistar í höfundarétti og birtingin því kannski ekki fullkomlega lögleg … en það varðar sjúklinginn svo sem ekkert um. Raunar er heil bók aðgengileg á þessari slóð þótt Google kræki hér einungis í tólfta kafla hennar.). Það styður einnig meint vægi þessarar greinar að hún hefur birst í 8 útgáfum.

Sjúklingurinn kemst svo að því að þessi grein er í rauninni kafli í bók, Evidence-Based Chronic Pain Management, útg. 2010, og er afar gagnlegt yfirlit yfir andlitsverki af ýmsum toga og jafnt „sannreynd“ sem möguleg læknisráð við þeim. Meginniðurstaða umfjöllunarinnar er, eins og sjúkling grunaði, að læknavísindin vita sáralítið um svona kvilla og flest læknisráðin eru byggð á kerlingabókum lækna og ágiskunum en ekki öruggum rannsóknum.

Önnur grein af fyrsta skjá sem virðist fýsilegt að skoða er þessi sem 42 hafa vitnað í og er aðgengileg á 11 stöðum, birtist í tímaritinu Pain 2010. Þessi grein er aðgengileg sem pdf-skjal, auk þess að vera í landsaðgangi.  Miðað við titilinn fjallar hún um mögulegar orsakir andlitsverkja. Þetta er dæmigerð vísindagrein, skrifuð inn í ákveðið snið (template) eins og þær eru flestar.

Í næstu færslu verður fjallað um snið dæmigerðra læknisfræðigreina og hvernig sjúklingur getur nánast strax metið hvort borgar sig að lesa gegnum svoleiðis grein. Einnig verður fjallað um orðaforða í svona greinum; hvernig finnur maður hvað orðin þýða á íslensku og hvað er hægt að gera þegar íslensku heitin (íðorðin) eru gersamlega óskiljanleg?

Þessi færsla er framhald af færslunum:

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

29. janúar 2014

Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar

Tveir læknar, þeir Davíð B. Þórisson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, og Teitur Guðmundsson  hafa nýverið vakið athygli á hvernig umhverfi læknisfræði/lækninga hefur breyst með sívaxandi hlut samfélagsmiðla í daglegu lífi fólks. Málflutningur beggja er skynsamlegur, áhugaverður og jákvæður og kveður þar við nokkuð annan tón en þegar síðast birtust fréttir af umfjöllun lækna um samfélagsmiðla, sjá greinina Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum - af málþingi LÍ, í Læknablaðinu í nóvember 2012.

Mig langar að fjalla svolítið um þetta sama efni, af sjónarhóli sjúklings.

Einkaréttur á þekkingu færði völd - en ekki lengur

Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein hefur hlutverk læknis breyst töluvert, frá því sem hann kennir við „föðurlega læknisfræði“ til þess að haft sé samráð við upplýstan sjúkling um næstu skref eða ákvarðanir enda geti sjúklingar aflað sér fræðslu um eigin sjúkdóm mjög víða annars staðar en hjá lækni. Ég hef þó ástæðu til að ætla að margir læknar hafi alls ekki áttað sig á þessari breytingu.

Enn heyrir maður af læknum sem segja sjúklingum að rannsóknarniðurstöður „komi þeim ekki við” eða lýsa því yfir við kvalinn sjúkling að „það sé ekkert að þér“ eða haga sér á annan slíkan hátt sem ég myndi nú ekki kenna við föður heldur harðstjóra. Svoleiðis læknar halda ennþá að þeirra sé þekkingin og þar af leiðandi valdið. Þeir minna mig alltaf svolítið á skinnið hann Friðrik konung VI sem er helst minnst fyrir yfirlýsinguna: „Ingen uden Vi alene kan være i Stand til at bedømme, hvad der er til Statens og Folkets sande Gavn og Bedste“ (oft stytt í „Vi alene vide “)  ;)

En læknisfræði er ekki lengur einkagóss læknastéttarinnar. Hún er seinust af gömlu háskólamenntuðu embættisstéttunum til að átta sig á þeirri staðreynd að nú hefur hver sem er aðgang að stærra gagnasafni um fræðin; um heilsu, sjúkdóma og læknisfræði; en nokkur læknir kæmist yfir að lesa á sinni ævi. Þarna á ég ekki bara við venjulegar vefsíður sem gúgglast upp með lítilli fyrirhöfn heldur einnig gagnasöfn, t.d. eldri læknisfræðirita/bóka og landsaðgang að flestum sömu fagtímaritunum og læknar glugga af og til í (vitna a.m.k. af og til í), nýjum læknisfræðibókum sem berast á nokkrum sekúndum í lesbrettið manns eða tölvuna, upptökum af fyrirlestrum sérfræðinga, jafnvel ókeypis kúrsum í læknisfræði við virta háskóla o.s.fr.

Vægi sameiginlegrar reynslu sjúklinga

Það er löngu þekkt staðreynd að sjúklingar bera sig saman, um krankleik sinn (og einstaka sinnum um læknana sína). Í sumum kreðsum hefur það verið viðurkennt áratugum saman að það að deila sameiginlega reynslu sinni geti skipt sköpum í meðhöndlun sjúkdóma, nærtækasta dæmið er AA.

Á síðustu árum hafa samráðsvettvangur sjúklinga af ýmsu tagi blómstrað á Vefnum. Fyrst voru þetta aðallega umræðuborð (forums) en núna er slíkur umræðuvettvangur oftast hópur á Facebook. Mér vitanlega er langoftast um lokaðan vettvang að ræða, þ.e.a.s. fólk þarf að skrá sig sérstaklega (á umræðuborð) eða óska eftir inngöngu (í Facebook hóp), svona vettvangur hefur ákveðinn stjórnanda (venjulega stofnandann), og minnst er á þagmælsku um þá umræðu sem þarna fer fram. Þá sjaldan ég fellst á að prófa ný lyf núorðið hef ég það fyrir reglu að finna opið umræðuborð og renna yfir svona tvær-þrjár skjáfyllir af lýsingum af reynslu annarra af þessu lyfi. Má svo leggja þær upplýsingar saman við það sem læknirinn sagði og það sem maður les um viðkomandi lyf á Lyfjastofnun.is (ég er komin á þann aldur að meðfylgjandi fylgiseðlar sem liggja samanbrotnir í lyfjapakkanum eru mér gersamlega ólæsilegir).

Ég hef ekki tekið þátt í mörgum hópum af þessu tagi en sú reynsla sem ég hef af þeim er yfirleitt góð. Það gildir nokkurn veginn það sama í svona hópum og í AA: Maður tekur það sem maður getur notað og lætur hitt eiga sig. Og alveg eins og í AA er misjafnt eftir hverjum og einum hvað gagnast og hvað ætti að láta eiga sig.

Davíð B. Þórisson, sem ég gat í upphafi, stingur m.a. upp á því að læknar haldi sjálfir úti lokuðum umræðuhópum um ákv. sjúkdóma á samfélagsmiðlum: „Þá geti sjúklingar skipst á upplýsingum sín á milli, en læknirinn verið til reiðu til að grípa inn í þyki honum þörf á því.“

Mér finnst þessi hugmynd ekki góð og held að hún myndi ekki virka. Í mínum augum er þetta sambærilegt við að læknir yrði ávallt að leiða AA-fundi (enda alkóhólismi viðurkenndur sjúkdómur) og slíkt er ekki einu sinni praktíserað á Vogi sjálfum. Það að ætlast til að sjúklingar tjái sig sín í millum eigandi von á „leiðréttingum‟ læknisins hvenær sem er tel ég vonlausa hugmynd. Í lokuðum hópum, t.d. á Facebook er oft að finna ýmsar skrítnar ráðleggingar sem mér finnst út í hött eða lýsingar sem mér finnast ekki ríma við mína upplifun en gætu vel passað við upplifun einhvers annars og gætu verið ráð sem öðrum fyndist skynsamleg og gögnuðust þeim.

Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að sjúklingar deili reynslu sinni og ráðum sem hafa gefist vel. Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein er hefðbundin læknisfræði byggð á bestu þekkingu hvers tíma um sig. Í ljósi sögunnar hefur þessi „besta þekking‟ hvarflað alla vega á hverjum tíma, þess vegna milli andstæðra póla. Og í ljósi þess að því fer fjarri að læknisfræði geti útskýrt, fundið orsök fyrir eða læknað nema hluta sjúkdóma, að „evidence based medicine‟ er stundum alls ekki „evidence based“ heldur byggð á hagræddum rannsóknarniðurstöðum og greinum í læknatímaritum eftir leigupenna lyfjafyrirtækja (hér er ég að vísa til þess sem löngu hefur komið á daginn um algeng þunglyndislyf) þá er full ástæða til að leita einnig fanga í sameiginlegan þekkingarsjóð sjúklinga. Til eru nýleg dæmi um hvernig svoleiðis samræða og prófanir sjúklinga hafi skilað læknisráðum sem sumir læknar hafa endað með að samþykkja (eftir þrýsting sjúklinga), t.d. notkun LDN við vefjagigt og ýmsum ill-læknanlegum taugasjúkdómum.

Gætu læknar notað samfélagsmiðla?

Já, þeir geta það eflaust. Þeir gætu t.d. lært að nota tölvupóst á skilvirkan hátt, sem myndi sparað bæði þeim og sjúklingum þeirra dýrmætan tíma (viðtalstíma og símtöl, svo ekki sé minnst á alla biðina eftir viðtali eða símtali).

Ég tek undir hugmynd Davíðs um að læknar mættu „blogga sjálfir, og skrifa alvöru greinar um sjúkdómana sem þeir eru sérfróðir um,“ þótt mér finnist „föðurleg“ ábending hans í framhaldinu: „Þannig má draga úr líkum á því að sjúklingurinn gleypi við einhverri vitleysu á netinu.“ segja sitthvað um viðhorf hans (og líklega fleiri lækna) til vitsmuna sjúklinga, sem ég er fjarri því að samsinna.

Sem stendur blogga fáir íslenskir læknar og enn færri um læknisfræðileg efni. Í svipinn man ég eftir Vilhjálmi Ara Arasyni, sem nú bloggar undir merkjum DV  en rak áður blogg á Eyjunni; Teiti Guðmundssyni sem hefur verið fastur penni á Vísi í hálft ár  og Svani Sigurbjörnssyni, sem bloggar á Eyjunni, en hefur einnig birt færslur víðar, t.d. á Skoðun - vefsíður um þjóðfélagsmál og skoðanir, á gamla Húmbúkk vefnum á Eyjunni, á gamla moggablogginu sínu, á Raun-gegn gervivísindum, kukli og söluskrumi  (sá vefur virðist dáinn drottni sínum og er hér krækt í afrit á Vefsafninu) og á vef Vantrúar.

Þeir tveir fyrrnefndu blogga um fjölbreytt læknisfræðileg efni en Svanur Sigurbjörnsson bloggar nær eingöngu gegn hjálækningum (kukli), sem er hans mikið hjartans mál og litast málflutningur hans aukinheldur mjög af strangtrúarskoðunum hans. Má því ætla að hans blogg höfði til afmarkaðri hóps sjúklinga (og lesenda) en umfjöllun hinna tveggja.

 

Geta samfélagsmiðlar verið læknum hættulegir?


Ef marka má fréttaflutning Læknablaðsins 2012, sem ég minnist á hér að ofan gætir nokkurs ótta meðal lækna þegar samfélagsmiðlar eru annars vegar. Óttinn virðist fyrst og fremst snúast að því sem sjúklingar kunni að segja um þá, t.d. á bloggi. Túlkun lögfræðings Læknafélagsins á hvernig blogg sjúklings geti firrt lækni þagnarskyldu er afar áhugaverð frá lögfræðilegu sjónarhorni. Fyrir utan þessi atriði er fátt bitastætt í fréttinni nema almenn varnaðarorð um að halda þagnarskyldu og stofna ekki til kynna við sjúklinga á Facebook. Og læknum er bent á að stafræn fótspor eru óafmáanleg og því þarf að passa hvað maður segir á netinu. Þetta eru gömul tíðindi en voru kannski ný fyrir læknum á læknaþingi haustið 2012.

Það er samt kannski raunveruleg hætta fólgin í því fyrir lækni að tjá sig á samfélagsmiðlum, a.m.k. ef marka má frásögn læknis sem lenti í að vera sjúklingur. Á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið, sem haldið var 23. janúar sl. sagði Björn Hjálmarsson barnalæknir frá eigin reynslu af sjálfræðissviptingu og þvingunarinnlögn á geðdeild. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann tjáði sig um þetta, það hafði hann gert áður í riti og sjónvarpi. Í máli hans kom fram að Embætti landlæknis hefði margsinnis áminnt hann um að „halda Hippókratesareiðinn“ sem þýddi að hann mætti ekki segja frá því ofbeldi sem læknar á geðlækningasviði beittu hann. Þótt Björn myndi skila inn lækningaleyfi sínu væri hann bundinn eiðstafnum til æviloka að mati Embættis landlæknis. (Sjá Lögin eru misnotað árásartæki, Mbl.is 23.1. 2014 og myndband af fyrirlestri Björns á málþinginu.) Það sárgrætilega við þetta er auðvitað að í útvatnaða útdrættinum úr upphaflegum eiðstaf Hippokratesar sem íslenskir læknar undirrita, sjá Læknaeiðurinn á síðu Læknafélags Íslands, er ekki stafkrókur um að læknir sem verður sjúklingur megi ekki tjá sig um læknismeðferð. En kannski veldur Stórabróður-ægivald Landlæknisembættisins ótta einhverra lækna við að tjá sig á samfélagsmiðlum? Eða eru þær hræddir við viðbrögð kolleganna við einhverju sem þeir segja?

Framtíðin?


Í lokin er vert að geta þess að í ‘enni Amríku eru læknar búnir að læra á tölvupóst, að umgangast Facebook, að blogga og að veita læknisþjónustu gegnum Skype. (Sjá American Telemedicine Association  - einnig bendi ég á bráðskemmtilegt blogg geðlæknis sem lýsir fyrstu dögunum í vinnu sinni sem stafrænn geðlæknir.)

Íslenskir læknar eiga ansi langt í land með að ná kollegum sínum vestra í brúkun samfélagsmiðla, er ég hrædd um.

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

18. janúar 2014

Ef skóli væri heilbrigðisstofnun

Ímyndum okkur framhaldsskóla sem er rekinn eins og heilbrigðiskerfið.

Í prjónaáfanga leitar nemandi til kennarans. Nemandinn er að prjóna klassískt skyldustykki, þvottapoka með garðaprjóni, og eitthvað er skrítið í görðunum á miðju stykkinu, auk þess hefur lykkjunum fækkað á dularfullan hátt eftir því sem prjóni vatt fram.

Kennarinn hefur að eigin mati alltof marga nemendur og er á lúsarlaunum. Hann sér ekki villuna í fljótu bragði og bendir nemandanum á að leita til áfangastjórans til að fá greiningu á stykkinu. Af því kennarinn veit að nemandinn hefur ýmsar greiningar, t.d. ADHD og lesblindugreiningu, segir hann nemandanum að panta tíma hjá námsráðgjafa einnig, því vel geti verið að erfiðleikar í prjóni tengist þessum sérgreiningum.

Nemandinn pantar tíma hjá áfangastjóra og þarf að bíða eftir lausum tíma í þrjár vikur. Í millitíðinni kemst hann að hjá námsráðgjafa, sýnir honum misheppnaða þvottapokann og ber skilaboð kennarans. Námsráðgjafinn telur að mistök í prjóni gætu verið út af stressi, sem gæti hangið saman við ADHD greininguna, jafnvel lesblinduna líka því nemandi gæti hafa mislesið fyrirmælin um hve margar lykkjur ætti að fitja upp. Svo námsráðgjafinn ráðleggur nemandanum að stunda jóga, fara út að ganga á hverjum degi og taka lýsi, því lýsi hafi einmitt góð áhrif á hvers lags krankleika. Af því þetta er góður námsráðgjafi ráðleggur hann nemandanum jafnframt að reyna að hugsa jákvætt, þá gangi allt léttara.

Þegar nemandinn kemst loksins að hjá áfangastjóranum má áfangastjórinn ekki vera að því að kíkja á prjónlesið, heldur vísar nemandanum beint í rannsókn hjá skrifstofumanni. Skrifstofumaðurinn á að fara vandlega yfir prjónlesið og skrá allar villur og athugasemdir inn í þar til gert Excel-skjal. Nemandanum er úthlutað nýjum tíma hjá áfangastjóranum eftir tvær vikur, þá ættu niðurstöður að liggja fyrir.

Eftir tvær vikur mætir nemandinn aftur til áfangastjórans. (Í millitíðinni hefur nemandinn tekið lýsi á hverjum degi, arkað fimm kílómetra dag hvern, stautað sig fram úr sjálfshjálparbók til jákvæðrar hugsunar, farið með æðruleysisbænina sex sinnum á dag en er auðvitað jafn stopp í prjóninu og fyrr því kennarinn neitar að sinna honum á þeim forsendum að nemandinn sé nú í höndum sérfræðinga.)

Áfangastjórinn skoðar Excelskjalið lauslega á tölvuskjá en les það ekki í gegn enda vita allir að ef áfangastjórinn læsi öll gögn gerði hann ekkert annað og gæti þá ekki veitt viðtöl. Hann rekur augun í að skrifstofumaður hefur greint prjónlesið of fast prjónað og ráðleggur því nemandanum að reyna að liðka fingurna, best væri að leita til íþróttakennarans sem gæti kennt honum liðkandi fingraæfingar. Af því áfangastjórinn er vænsta skinn ráðleggur hann jafnframt nemandanum að taka lýsi, hætta að reykja og hugsa jákvætt, nefnir að D-vítamín geti gert kraftaverk.

Nú er tvennt sem gæti gerst næst:

A. Nemandinn fer til ömmu sinnar, þaulvanrar prjónakonu. Hún sér strax að nemandinn prjónaði óvart brugðna lykkju á sex stöðum og prjónaði saman lykkjur á þremur stöðum; rekur upp viðeigandi lykkjur niður stykkið, lagfærir villurnar, lætur nemandann lagfæra hluta þeirra og útskýrir hvað hafi gerst. Nemandinn mætir glaður með sinn hálfprjónaða þvottapoka í prjónakennslustund og segir kennaranum frá. Kennarinn trompast því amman er ekki með háskólapróf í kennslufræðum heldur eins og hver annar kuklari í þeim efnum. Kennarinn skrifar því harðorðan leiðara í Skólavörðuna um “kennslukuklið” sem er að verða stigvaxandi vandamál í samfélaginu í dag og vekur leiðarinn mikla athygli.

B. Kennarinn lætur afskipti ömmunnar afskiptalaus enda æðrulaus með afbrigðum. Hins vegar fjölgar stöðugt í áfanganum því þrátt fyrir að senda nemendur út og suður til fá greiningar sérfræðinga og hærra settra á vandanum (ýmsum villum) batnar ekkert og einungis örfáir nemendur útskrifast. Hinir hanga áfram inni og sífellt er nýjum nemendum bætt við.

Kennarinn sér að starfsumhverfið er að verða óþolandi og ekki batna launin þótt álagið aukist! Hann ákveður að hætta að starfa í þessu ömurlega íslenska kerfi, sækir um vinnu í hannyrðaskóla í Skals á Jótlandi og lýsir því í nokkrum blaðaviðtölum hvernig hann neyðist til að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja til útlanda svo sérfræðiþekking hans verði metin til mannsæmandi launa og vinnuaðstæður verði þolanlegar.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf

26. nóvember 2013

Ritdeilur fyrr og nú

Ég hef aðeins tekið eftir því að nú hefur skorist í odda með Evu Hauksdóttur og Hannes Hólmsteini Gissurarsyni um ýmislegt. Það eina sem hefur vakið áhuga minn í þeirri deilu og umfjöllun annarra um hana eru kýtingar um læk eða ekki læk, t.d. á að telja læk eða á ekki að telja læk, má skrá niður lækara eða má það ekki, hvað felst í læki og hvað felst ekki í læki ekki o.s.fr. Mér finnst líka áhugavert hve margir tjá sig um þetta og hve ógnarhratt blogg, Fb. statusar og kommentahalar staflast upp um þetta mikilvæga atriði (svo ekki sé minnst á öll lækin við statusana og svarhalana).

 

En í kvöld hef ég unað mér við að lesa gegnum aðra ritdeilu, sem fór fram fyrir meir en 120 árum síðan. Þá fóru ritdeilur ólíkt hægar fram. Þeir tveir karlmenn sem deildu voru ósammála um ýmislegt, alveg eins og þau Eva og Hannes Hólmsteinn. Eftirtektarverðast fannst mér hvernig þeir gátu kýtt um hraða í prjónaskap. Hér að neðan er helsta rökfærslan í því hitamáli rakin og lesendur geta velt því fyrir sér hvort sé nú merkilegra að rífast um hraða prjóns eða talningu læka.

 

Þorkell Bjarnason. Fyrir 40 árum. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 13. árg. 1892, s. 170-258:

Undir eins og börn komu nokkuð til vits, var þeim kennt að prjóna, og það eigi síður piltbörnum en stúlkubörnum. Sátu þá flestir yngri og eldri við að vinna prjónles fram að jólum. Var börnum sett fyrir, úr því þau voru orðin 8 vetra, að skila vissu prjónlesi eptir vikuna, venjulega tvennum sjóvettlingapörum, og meira eptir því sem þau eltust, en fullorðið fólk vann eingirnis- og tvíbandssokka eða þá duggarapeysur, og var hið mesta kapp lagt á vinnu þessa, enda voru þá bæði karlar og konur mjög fljót að prjóna.  Prjónuðu tveir og tveir saman peysubolina og yfir höfuð stór föt, og þótti vel gert, ef tveir luku við peysubolinn á dag, og varð það því að eins, að lengi væri vakað. (s. 207-208 )

  

Ólafur Sigurðsson. “Fyrir 40 árum” Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 15. árg. 1894, s. 198-246:

Hann [Þorkell] segir, að það hafi þótt vel gjört af tveimur, að prjóna peysubolinn á dag. En vissi jeg af stúlku, sem kom honum af einsömul. Jeg vissi líka bæði af karlmönnum og konum, sem prjónuðu parið af hæðarsokkum á dag, en heldur prjónaði þetta fólk í lausara lagi; dagsverkið var mikið fyrir því. (s. 226 )

  

 Þorkell Bjarnason. “Fyrir 40 árum”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 16. árg. 1895, s. 204-229.  

Eitthvert misminni hlýtur það að vera hjá höf. [Ólafi], að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag eins og hann segir á bls. 228, nema svo sje, að það hafi verið barnspeisubolur. Hinir allra fljótustu karlar og konur - þá prjónuðu margir karlmenn eins og kvennmenn - prjónuðu duggarapeisubolinn saman tveir á dag, og var orð á þeim gjört fyrir flytir, er það það gátu. Fljótastan prjónakvennmann heyrði jeg nefndan í ungdæmi mínu Guðrúnu Þorvaldsdóttur. Ætla jeg að hún hafi verið - þó jeg muni það ekki fyrir víst - systir Þorvaldar “stutta” og bræðra hans, er allir voru kunnir í Skagafirði í ungdæmi mínu. Vissi jeg til, að Guðrún þessi prjónaði á móti karlmanni peisubol á dag, og það jafnvel dag eptir dag, og þóktust þau fullhert, enda var það talið atkvæða verk. (s. 216 )

 

Ólafur Sigurðsson. “Svar til sjera Þorkels Bjarnasonar frá Ólafi Sigurðssyni”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 17. árg. 1896, s. 159-165:

Höf. [Þorkell] heldur það sje misminni hjá mjer, að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag.  En jeg þekkti þó eina, sem gjörði það; hún hjet Halldóra og kom hingað vestan úr Húnavatnssýslu; en hún hafði líka gott lag á að tefja sig ekki að óþörfu, því, þegar hún var búin að fitja upp, dró hún fitina saman með tygli, til þess ekki færi fram að prjónunum, en þeir voru býsna fullir, því hún prjónaði bolinn að eins á 4 prjóna, svo hún þurfti ekki að tefja sig á, að hafa opt prjónaskipti. Jeg tók það fram í ritgjörð minni, að þetta fólk hefði prjónað heldur laust, en um það var ekki fengizt, þegar prjónlesið gekk viðstöðulaust í kaupstaðinn. (s. 163 )

 

 

Ég efast um að nokkurn tíma fáist skorið úr deilumálunum hversu hratt konur í Skagafirði gátu prjónað um miðja nítjándu öld eða hversu mikilvæg lækin eru seint á árinu 2013. Maður verður bara að njóta deilanna án niðurstöðu.

 

 

 

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf, Saga prjóns

14. nóvember 2013

Læknir um kukl

Sagan endurtekur sig og málflutningurinn gengur líka aftur sem sjá má af eftirfarandi dæmi. Feitletranir í texta eru mínar en skáletranir eru höfundarins, Jóns Hjaltalín landlæknis.

Þegar nú tala skal um það, hvernig menn eigi að fyrirbyggja eða verja sig fyrir þessum kvefsóttum, sem á þessari öld gjörast alltíðar, þá er svarið þetta: Flýtið ykkur, landar, að fjölga læknum, allt hvað kostur er á, því það megið þið vita, að allir hinir nýjari stjórnendur álíta það hið stærsta ríkidæmi, að hafa sem flesta og duglegasta lækna. Jeg meina þó engan veginn þar með, að það sje gagnlegast að fjölga sem mest homöopathiskum skottulæknum, eins og gjört hefir verið til þessa, og sem eru vorra tíma hneyxli, eins og þeir nú tíðkast hjer á Íslandi, og eigi annað fyrir að sjá, en þeir, ef þessu fer fram, eyðileggi alveg alla reglulega læknahjálp hjer á landi, og jeg hljóti þar af, og þeir sem mjer hafa fylgt, að hafa þá sorg, að sjá allt það, sem jeg hef barizt fyrir betri læknaskipun hjer á landi, líða undir lok. Það er annað en gaman, þegar jafnvel doctores philosophiae, fyrir utan alla smælingjana, fara að leggjast á eitt, til þess að koma því á, sem haldin er hin versta mótspyrna móti allri reglulegri læknahjálp. Það er von, þótt almenningur, sem fer eptir nafninu “læknir” villist á slíku, einkum þegar þeir heyra það framborið af lærðum mönnum. Eg hefi aldrei láð löndum mínum það, þótt þeir vildu fjölga læknum hjá sjer, því þess þurfa þeir sannarlega með; en hitt hefi jeg jafnan láð þeim, og lái jafnan, að þeir bæði í orði og verki halda með þessum “smáskammtafúskurum” sem aldrei geta kallast læknar, og leggja mjer þann þröskuld í veginn, sem bæði þeim og almenningi hefði átt að þykja mál komið að ryðja sem fyrst út vegi manns.

Þó jeg sje nú kominn alvarlega á hin efri árin, þá er kraptarnir eru vanir að hnigna, er mjer, Guði sje lof, enn nú eigi svo apturfarið, að eigi geti jeg borið hönd fyrir höfuð mjer eða embættisbræðra minna, þegar embættiskylda mín býður það, og læknisfræðinni, sem jeg alltaf hef elskað af hreinum hug, er misboðið af óvitrum og alls eigi mjer velviljuðum mönnum. Landar mínir verða því að kenna sjálfum sjer það, ef jeg sje mjer skylt, að færa þetta homöopathiska stríð út yfir pollinn, hvert sem helzt mjer sjálfum sýnist.

Jón Hjaltalín. Fáein orð um kvefsóttinaHeilbrigðistíðindi 11. tbl. 4. árg. 1879, s. 86-88

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

11. nóvember 2013

Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

Ég horfði á Svan Sigurbjörnsson lækni í sjónvarpsfréttum um daginn, mér til ánægju því þetta er mesti myndarmaður, og skoðaði svo glærurnar hans (krækt er í þær neðst í þessum stutta pistli hér, á skodun.is) sem fylgdu fyrirlestrinum hans á Fræðadögum heilsugæslunnar. Vennmyndirnar á glærunum eru flottar. Þótt ég sé afar ósammála málflutningi Svans nennti ég ekki að mótmæla honum … ekki fyrr en núna þegar ég sá að félagar hans í Vantrú hnykkja á málflutningnum (sjá pistilinn Kuklfrelsi á vef Vantrúar). Það er langt síðan ég hef bloggast á við vantrúarfélaga og mér finnst soldið ljótt að afrækja þá því það er eiginlega enginn sem nennir að svara þeim núorðið. Ég bæti úr þessu núna.

Í málflutningi Svans gegn kukli eru nokkrar auðsjáanlegar gloppur. Helstar eru þessar:

* Hann virðist gera ráð fyrir að fólk sé almennt fífl/óvitar sem verði að hafa vit fyrir svo það fari sér ekki að voða. Mín reynsla af fólki er að flest er það skynsamt. Ég held að það sé hið besta mál að gera fólki betur kleift að nálgast upplýsingar um óhefðbundnar lækningar (kukl og hjálækningar, sem Svanur kýs að kalla þær), þá eru meiri líkur á að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mögulega gagnsemi slíkra lækninga við sínum kvillum. Forsendan fyrir frjálsum vilja er þekking og ég er viss um að við Svanur erum hjartanlega sammála um að frjáls vilji er eftirsóknarverður. (Við erum hins vegar líklega ekki sammála um hvenær hann eigi við, t.d. er ég ekki sammála því að leik- og grunnskólahald á aðventunni eigi algerlega að lúta vilja þeirra örfáu sem er í nöp við jólaundirbúning kristinna manna og Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir.)

* Svanur (og hinir vantrúarfélagarnir) ganga út frá því að skörp skil séu milli vísinda og ekki-vísinda, þar sem læknisfræði séu vísindi. Ritstjórn Vantrúarvefjarins segist gera þá einu kröfu að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar komi að heilsu fólks. Nú er margt í lækningum sem ómögulega er hægt að kalla vísindi í þeim skilningi að þar hafi vísindalegar aðferðir getað greint orsakir og eðli krankleika eða að læknismeðferð byggi á einhverju sem er vísindalega sannað.

Svo ég taki dæmi af þeirri læknisfræði sem ég hef helst einhverja innsýn í, þunglyndislækningum (sem eru hluti geðlækninga) þá hefur ekki verið sýnt fram á orsakir þunglyndis (þótt settar hafi verið fram ýmsar ólíkar tilgátur út í bláinn öldum saman - tuttugasta- og tuttugastaogfyrstaöldin þar ekki undanskildar), vísindaleg rök fyrir samsetningu þunglyndislyfja eru engin (þótt settar hafi verið fram tilgátur en síðan bakkað með þær) og virkni þunglyndislyfja umfram virkni lyfleysu mælist ekki svo marktækt sé nema í örfámennum hópi allra veikustu sjúklinganna.  Rökin fyrir lyfjagjöf (oft mismunandi blönduðum lyfjakokteilum) handa þunglyndissjúklingum eru klínísk reynsla viðkomandi læknis (mögulega stéttarinnar í heild ef menn eru duglegir að bakka hver annan upp). Aðalrök þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eru einmitt að reynslan sýni að þær virki. Þá vaknar auðvitað spurningin, í ljósi málflutnings Svans og félaga, hvort reynsla geðlækna hafi miklu meira vægi en reynsla annarra þeirra sem brúka aðferðir sem ekki geta kallast vísindalegar.

Næsti kostur sem geðlæknar bjóða þunglyndum upp á þegar ljóst er að lyfin virka ekki hætis hót eru endurtekin raflost. Það er nákvæmlega ekkert vitað hvað endurtekin raflost gera við heilann; aðferðin var fundin upp við allt öðrum geðsjúkdómi (geðklofa) en þykir virka illa á hann; af reynslu veit ég að sjúklingum er ekki gefinn kostur á upplýstu samþykki fyrir þessari aðferð heldur einungis samþykki á grundvelli afar takmarkaðra og fegraðra upplýsinga. Skelfilegum afleiðingum sem þessi hrossalækning (til að gæta sannmælis tek ég fram að hún var samt upphaflega prófuð á svínum en ekki hrossum) getur haft er ekki haldið á lofti í heilbrigðiskerfinu.

* Svanur virðist gera ráð fyrir að sú þekking sem er viðurkennd í læknisfræði í dag sé hin eina rétta vísindalega þekking á lækningum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að hluti vísindalegra þekkingar í læknisfræði nútímans gæti þess vegna verið álitin bölvaðar bábiljur í framtíðinni. Annað eins hefur nú gerst í sögu læknisfræðinngar. Ég minni t.d. á þá tvo sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir merkilegar uppgötvanir í geðlæknisfræðum:

Walter-Jauregg fékk sín verðlaun 1927 fyrir þá merkilegu uppgötvun að það að smita sýfilisgeðveika með malaríu og láta þá fá duglega hitatoppa í nokkurn tíma gæti lagað geðveikina tímabundið (að því tilskildu auðvitað að sjúklingurinn dræpist ekki úr malaríunni). Á Íslandi brúkuðu menn varíant af þessu, brennisteinsolíu sem var sprautað í vöðva í sama skyni, þ.e. til að láta sjúklinginn frá háan hita, og á sjötta áratugnum (þegar sýfilisgeðveiki hafði verið útrýmt með pensillíni) voru leiðinlega geðveikir sjúklingar á Kleppi enn sprautaðir með eigin blóði í vöðva til að framkalla sótthita … í lækningarskyni. Heimildir um lækningamátt aðferðanna eru hins vegar sjaldgæfar.

Hinn sem fékk Nóbelsverðlaun, árið 1949, fyrir ómetanlegt framlag sitt til geðlækninga var Egan Moniz, sem fann upp á því að hræra tilviljanakennt í hvelatengslum í heilum geðveikra og staðhæfði að þeim batnaði við það. Sú aðferð, lóbótómían, fór sigurför um heiminn og hér á Íslandi urðu harðvítugar blaðadeilur um miðja síðustu öld milli vísindalega þenkjandi lækna og yfirlæknisins á Kleppi sem ekki vildi hræra í heilum sinna sjúklinga og var þ.a.l. ásakaður (af kollegunum) um að fylgjast ekki með og vilja ekki nota vísindalegar aðferðir. Í ljósi sögunnar finnast mér því yfirlýsingar Svans um vísindi nútíma læknisfræði vera helsti hrokafullar.

* Svanur tekur öfgafullt dæmi til að sanna að kukl geti verið lífshættulegt, nefnilega ákvörðun Steve Jobs um að leita sér óhefðbundinna lækninga við sínu krabbameini. Að taka sérvitringinn Steve Jobs sem dæmi um hættu kuklisins er svona álíka og að taka Thalidomide sem dæmi um þær skelfilegur hættur sem kunna að stafa af lyflækningum almennt … Og ég vona að Svani sé kunnugt um þá staðreynd að fólk deyr stundum þrátt fyrir að það skipti við lækna, jafnvel inniliggjandi á spítölum.

Nú er ég ekki sérlega höll undir kukl, til þess er ég of vantrúuð á að margt af því virki. En ég er heldur ekki höll undir allar (meintar) vísindalegar lækningar af því ég veit að sumar eru ekki endilega til bóta og geta verið til mikils skaða. Samt veit ég um mörg dæmi þess að óhefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum og einnig um mörg dæmi þess að hefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum. Ég fagna samtökum á borð við Heilsufrelsi, ekki af því ég sé sammála öllu í þeirra málflutningi heldur vegna þess að ég geri þá kröfu að fólk geti nálgast upplýsingar, aflað sér þekkingar og haft frelsi til að taka ákvarðanir sem snerta þess heilsu. Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.

Ummæli (19) | Óflokkað, Daglegt líf

8. október 2013

Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir ;)

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

18. september 2013

Dulinn menningarkimi

Færslan hefði auðvitað eins getað heitið Prjón því hún er um þá göfugu list.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað ræður því hvaða menning (í víðu samhengi) er opinber (í þröngu samhengi) og hver ekki. Íþróttir er t.d. afar opinber menning, það verður ekki þverfótað fyrir íþróttafréttum og umræðu um þær og annað sem tengist íþróttum, í öllum fjölmiðlum. Þetta er sjálfsagt gott og gaman fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum (en ég velti því stundum fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það raunverulega er). Fyrir okkur hin er ósköp auðvelt að sleppa því að lesa, horfa og hlusta og því hef ég akkúrat ekkert við mikla íþróttaumfjöllun að athuga.

En umfjöllun um prjón er óneitanlega dálítið ósýnileg. Það er ekki gefinn út sérstakur prjónakálfur með mogganum oft í viku, ekki sagðar prjónafréttir í lok hvers fréttatíma og engir netstormar með prjónatengdum upphrópunum geisa reglulega. Samt er ótrúlega mikill fjöldi prjónenda hérlendis. (Þori ekki annað en nota orðskrípið prjónandi til að þóknast femínistum með rörið á orðanna hljóðan, þótt miklu eðlilegra sé auðvitað að tala um prjónakonur.) Eini netmiðillinn sem ég man eftir að birti reglulega prjónafróðleik er innihald.is.

Prjónamenning lifir góðu lífi á netinu þótt hún sjáist ekki á yfirborðinu. Fjöldi prjónablogga er til vitnis um það en þau eru ekki skráð á blogggáttina og af því lítið er um upphrópanir og garg þegar prjón ber á góma er þeim heldur ekki deilt á Facebook í stórum stíl. (Sé samt alveg fyrir mér fyrirsögnina: “Segir engu máli skipta hvernig slétt lykkja snýr!” og meðfylgjandi gargið í “virkum í athugasemdum” … en er dálítið fegin að prjón skuli ekki teljast til hitamála.) Á Facebook eru stórir og virkir umræðuhópar prjónenda sem ræða málin án þess að skerist nokkru sinn í odda með þeim; þar fer allt fram í fullkomnu systrerni.

Svo eru það uppskriftirnar og kennslan … maður lifandi! Hver prjónakona með snefil af sjálfsvirðingu er áskrifandi að Knitting Daily og Interweave og meðlimur í Ravelry. Drops/Garnstudio.no byrjaði að birta uppskriftir á íslensku einnig, á þessu ári. Viti maður ekki hvernig skal prjóna þetta eða hitt er hægur vandi að finna YouTube myndband og læra listina. Kennslumáttur netsins er hvergi meiri og auðsærri en í prjóni. Sú staðreynd virðist hafa farið fram hjá Æpad-trúboðum skólakerfisins og vendikennsluboðendum, einhverra hluta vegna.

Svo er það geðræktarhlutverk prjóns, þáttur sem er sorglega lítið fjallað um. Að prjóna er sérdeilis róandi og huggandi og alveg upplagt þegar maður getur ekki gert neitt annað, til að drepa helv. tímann sem verður stundum helsti óvinur þunglyndra … tíminn sem aldrei ætlar að líða. Mín reynsla af geðdeildarvistunum er að prjón bjargar manni algerlega frá því að koðna ofan í ekki neitt þar inni. Þar er nefnilega nánast ekkert að gera nema auðvitað bíða eftir næsta pilluskammti. Þeir sem sinna geðdeildarsjúklingum mest eru sjúkraliðar (og vaktstrákarnir en af því þeir hafa lítið með prjón að gera eru þeir ekki til umræðu í þessari færslu, tek þó fram að þetta eru miklir ágætismenn sem sinna sjúklingunum einkar vel). Mín reynsla er sú að sjúkraliðar eru dásamlega þolinmóðar konur, góðar konur, mannþekkjarar …  og margar þeirra mjög flinkar prjónakonur, prjónakennslukonur einnig. Það bjargar ótrúlega miklu að fá hjálp og kennslu og aðstoð við að prjóna í Húsi þjáningarinnar, þ.e. geðdeildum Lans. Án prjóns er nær ekkert að gera nema mæla gangana, nú eða spekúlera í gardínunum og litnum á hurðunum, ef menn eru þannig innstilltir …

Þarf sosum ekki þunglyndi til, til að meta gildi prjónaskapar. Að setjast niður og iðja með höndunum smástund á degi hverjum fær alla til að slaka á og bætir geð og léttir lund.

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja til neinna breytinga. Það ber að þakka fyrir að hafa fjölmennan menningarkimann prjón í friði fyrir æsingarliði ;)

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

2. september 2013

Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands - griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

Ummæli (9) | Óflokkað, Daglegt líf