Færslur undir „Daglegt líf“

1. ágúst 2013

Santorini og Krít

Við erum komin heim eftir þriggja vikna velheppnað ferð til Santorini og Krítar. Ég hef sett upp myndasíðu úr ferðinni, þótt minnið hafi snarbatnað við að hætta að eta pillur er ágætt að hafa myndasíðu í bakhöndinni, svoleiðis síður hafa reynst mér ómetanlegar á stundum.

Einhvern daginn blogga ég um bækurnar sem ég las í fríinu … inn á milli morðbókmennta las ég sögulega skáldsögu sem gerist á Spinalonga, tvær bækur um sækópata (önnur er skáldsaga, sem ég las reyndar í annað sinn enda er hún helv. góð), eina bók um geðlyfjuð amrísk ungmenni og svo fyrstu íslensku rafbókina sem ég hef keypt, Hælið. Og svo má auðvitað blogga um yfirvofandi útdauða netkaffihúsa … tek spjaldið með mér næsta sumar.

Ég gerði mitt besta til að fylgjast með helstu hitamálum á netinu hér á klakanum og sá að þau snérust annars vegar um Brynjar Níelsson (sosum ekkert nýtt) og hins vegar um gullfiskinn Sigurwin. Svoleiðis að maður hafði einhver umræðuefni yfir kvöldverðinum ;)

En … þetta var frábær ferð (eins og allar hinar ferðirnar til grísku eyjanna) en það er líka gott að vera komin heim, mikil ósköp.

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf

30. júní 2013

Sól og sumar og bloggfrí

Sólin skín og sumarið er komið og ég nenni æ sjaldnar að kveikja á tölvunni. Svoleiðis að þetta blogg er eiginlega bara tilkynning um að komið sé bloggsumarfrí. Það er skemmtilegra að yrkja garðinn sinn akkúrat núna, tsjilla á pallinum prjónandi, lesandi, sólbaðandi sig … lífið er einkar ljúft þessa dagana. Og nýdoktorinn að kalla á mig í kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum …

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

23. júní 2013

Drömun á Netinu

Það hefur fátt markvert borið til tíðinda upp á síðkastið. Kannski er það þess vegna sem netheimar loga dag eftir dag yfir smotteríi. Og orðbragðið í “umræðum netverja” (kommentum Facebook-notenda) er þess lags að alþýðukonu upp á Skaga setur hljóða.

Fyrst kom sú hryllingsfrétt að halda ætti Fegurðarsamkeppni Íslands í haust. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og aðrir vaskir femínistar skráðu sig eins og skot í keppnina, gættu þess að láta netmiðla vita af þessu og sumir femínistar fóru að safna handarkrikahári fyrir haustið. Facebook-kommenterar fóru offari yfir væntanlegri kúgun kvenna. Svona keppni er nefnilega kúgun kvenna og valdstjórnartæki illa innrættra karla því allir vita að ekki er hægt að keppa í fegurð. Það er hins vegar hægt að keppa í stauraburði og fótamennt og ýmsu öðru sem karlar keppa aðallega í. Femínistarnir hafa a.m.k. ekkert við svoleiðis að athuga. Þarf varla að taka fram að Fegurðarsamkeppni Íslands hefur aldrei verið eins rækilega auglýst og núna. Enda sett met í skráningu í hana.

DV gerði þá stórkostlegu uppgötvun að forsetafrúin hefði flutt lögheimili sitt til Englands fyrir hálfu ári. Kommenterar eru flestir á sveif Dorritar enda kemur hún alþýðlega fyrir, segir skemmtilegar vitleysur á íslensku, klæðist stundum lopapeysu og á hund sem hún elskar úr af lífinu. (Til skýringar: Það er sætt þegar útlendingar misþyrma íslenskri tungu. Það er ekki sætt þegar ambaga veltur upp úr Íslendingi, allra síst framsóknarmanni og allra allra síst framsóknarkonu.) Þess vegna fjalla kommentin við fréttina dévaffs og afleiddar fréttir netmiðla aðallega um að lögheimilislög séu hvort sem er svo vitlaus að það verði að breyta þeim svo forsetafrúin geti löglega átt lögheimili á Bretlandi og þurfi ekki að fremja lögbrot eða jafnvel að skilja við forsetann okkar allra. Ráðamenn sem DV hefur náð í hafa þau ein svörin að enginn hafi kært. Næsta holl hliðhollra kommentera bendir á að skattalögin séu hvort sem er svo vitlaus að það sé skiljanlegt að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimilið til Englands. Raunar hefur komið fram að hún hefur aldrei greitt auðlegðarskatt hér á landi þótt lögheimilið hafi verið úti á Álftanesi en það skiptir ekki máli, skattalögin eru samt vitlaus. Engum hefur dottið í hug líkleg raunveruleg ástæða sem er að Dorrit vilji komast á svig við lög um gjaldeyrismál, sem sé komast hjá því að skipta pundunum sínum í krónur ef hún skyldi græða að ráði. Skiptir sosum ekki máli því allir vita hvað gjaldeyrislögin eru vitlaus. Niðurstaðan er hin sama: Aumingja forsetafrúin að þurfa að flytja til útlanda af því íslensk lög eru svo vitlaus og hún svo óheppin að vera svo auðug í útlandinu ….

Eftir tveggja daga netstorm um bágt hlutskipti forsetafjölskyldunnar, a.m.k. frúarinnar og Sáms, dró nýja bliku á loft og fljótlega var skollið á ofsaveður í netvatnsglasinu: Í ljós kom að aðstoðarmaður ráðherra hafði sent fundarboð á rangt netfang! Við tók drama sem í gærmorgun var farið að líkjast Dreyfusmálinu franska.

Kjarninn í málinu var að ráðherra vildi ræða við tvo forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar. Mér finnst líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi einfaldlega farið línuvillt í netfangalista tölvuþjónustu háskólans og sent boðið á netfangið aj, sem er netfang deildarstjórans yfir öðrum manninum (sem rekur velþekkt blogg undir skammstöfuninni AK).

Þessi mistök reyndust afdrifarík. Lögmaður mannanna taldi að í þeim fælust hótun um atvinnumissi og fór mikinn. Lögmaður þessi ratar reglulega í fréttir DV, síðast vegna þess að hún var yfir sig hneyksluð á að vera rukkuð fyrir styrktarsímtöl sonar síns.  Í netheimum er Helga Vala góður lögfræðingur, samfylkingarkona m.m., enda eldar hún reglulega grátt silfur við Brynjar Níelsson, sem alþýða netheima veit að er vondur lögfræðingur því hann er sjálfstæðismaður m.m. Maðurinn sem ekki fékk allan tölvupóstinn skrifaði tvær bloggfærslur um dramatíkina í lífi sínu, í hinni seinni kom fram að dagurinn hafi verið lýjandi og nóttin erfið og hann þarfnaðist sárt að fá hvíld og ró. Skiljanlegt í ljósi þeirra skelfilega örlaga sem biðu hans ef marka mátti Fb.kommentera og uppslætti dévaffsins.

Þegar ekki lá fyrir annað en að sparka þessum aðstoðarmanni ráðherra fyrir að hafa sent fundarboð á rangt netfang og helst ráðherranum með brast á blæjalogn. Maðurinn sem átti yfir höfði sér atvinnumissi (og kannski ríkisborgaramissi og guð-má-vita-hvar-etta-hefði-endað) birti bloggfærslu um að allt hefði þetta verið eðlilegt! Aðstoðarmaðurinn hafði víst líka hringt í hann og sent honum SMS, auk þess að senda tölvupóst á netföng sem hún taldi að tilheyrðu manninum: Fundarboðið hafði verið sent honum á einkanetfang en afrit á netfang yfirmannsins á vinnustaðnum. Aðstoðarmaðurinn hafði margbeðist afsökunar og gefið skýringar sem “fórnarlambinu” fundust fullkomlega trúverðugar.  Ef marka má þessa bloggfærslu var Dreyfusarmálið nýja aldrei neitt mál nema í vatnsglasi Facebook-sítengdra. (Ég tek fram að mér þykir ólíklegt að obbinn af þeim drekki latte.)

Nú er spurningin: Hvað næst? Mun einhver framsóknarráðherrann sjást með lausan hund? Mun Vigdís missa út úr sér málvillu? Mun Brynjar Níelsson tjá sig um Fegurðarsamkeppni Íslands eða handarkrikahár? Hverfur Lúkas á ný? Hvaða flog fá Facebook-kommentarar næst?

Ummæli (8) | Óflokkað, Daglegt líf

8. apríl 2013

Er íslenski skautbúningurinn frá Normandí?

Prjónasaga getur leitt mann út um ótrúlegustu trissur. Í dag hef ég annars vegar lesið heilmikið um aftöku Karls I. Englandsskonungs og svo hins vegar reynt að glöggva mig á því af hverju íslenski skautbúningurinn virðist sniðinn eftir skautbúningum í Normandí. Ég vissi fyrir að fæst í íslenskum þjóðbúningum er sér-íslenskt; Ekki upphluturinn, ekki víravirkið, ekki baldýringin, ekki blómstursaumurinn/mislöngu sporin, ekki pilsið, ekki stakkurinn sem tilheyrir 19. aldar faldbúningi og líklega ekki peysan í peysufötunum heldur … kannski helst að skotthúfan sé séríslenskt fyrirbæri, þróuð úr norður-evrópskum karlmannshúfum fyrri tíma og endaði í skelfilega ópraktísku höfuðfati. Og ég vissi auðvitað að vinsæl útsaumsmunstur á 20. aldar faldbúningi og skautbúningi eru ekki íslensk, eitt það vinsælasta skreytir t.d. flest grísk hótelhandlæði. En ég hélt í alvörunni að Siggi séní hefði hannað faldinn upp úr sér og mætti þá kalla hann íslenskan.

Ástæðan fyrir því að ég fór að athuga þetta var að í ferðabók sem ég var að glugga í lýsir ensk ferðakona búningi íslenskrar stúlku um 1890 svona:
 
 

The dress consisted of a thickly-pleated black silk skirt, very full and somewhat short, embroidered round the bottom with a deep band of gold thread; a black bodice, also similarly embroidered with gold down the front and round the collar; a handsome necklet and girdle of silver gilt, and a high head-dress of white muslin, in appearance resembling a Normandy cap. This, she told us, she always wore on Sundays and great occasions, dressing like an Englishwoman on week days.
(Tweedy, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. Önnur útgáfa 1894, aðgengileg á Gutenberg.org.)

Bóndakona � Normand�Svo ég fór að skoða þetta mál, þ.e.a.s. pæla í því af hverju þessi hái höfuðbúnaður minnti ensku konuna á húfur í Normandí. Komst svo að því að faldur og skaut minna ekki bara á höfuðbúnað í Normandí heldur er þetta hreint og beint kóperað frá Normandí. (Ljósmyndin er af bóndakonu í Normandí, sú ber fald og blæju. Ég veit ekki hvenær hún er tekin.)

Snúum okkur nú að upphafsmanninum: Sigurði málara.
 

Sigurður Guðmundsson (f. 1833, d. 1874) hannaði sem fyrr sagði íslenska skautbúninginn sem fegurðardrottningar landsins skarta ávallt á 17. júní, okkur alþýðunni til yndis og ánægjuauka.

Sigurður gerði grein fyrir hugmyndum sínum um nýjan íslenskan kvenbúning í greininni Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju, sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1857. Þetta er kostuleg og skemmtileg grein sem ég hvet alla til að lesa. Sigurði gekk ætlunarverk sitt feikilega vel, þ.e. að fá að ráða því hverju íslenskar konur klæddust. Elsa E. Guðjónsson segir í bæklingnum Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum, árs. 1999 og aðgengilegur á vef:

Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Var fyrsti skautbúningurinn kominn í notkun í Reykjavík þegar síðla árs 1859, og hefur haldist síðan svo til óbreyttur.

Hafi menn áhuga á konunum sem gerðu drauma og fantasíur Sigurðar málara að veruleika bendi ég á síðuna Hagleiksfólk og hugsuðir, á vef Byggðasafns Skagfirðinga, en þar segir frá Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Ási, mikilli hannyrðakonu, sem var ein af þeim konum.   

Í greininni í Nýjum félagsritum fer Sigurður um víðan völl yfir íslenskar fornsögur og fornkvæði og er ekki feiminn að draga víðtækar ályktanir um klæðaburð til forna af lýsingum í þeim. Svo kemur kafli þar sem hann hneykslast mjög á klæðnaði íslenskra kvenna einmitt nú (þ.e. árið 1856-57), segir m.a. um höfuðbúnað þeirra sem klæða sig upp á:
 

Fyrir hinn þjóðlega fald, sem Freyja sjálf bar, eptir því sem hin gömlu kvæði vor kenna oss, höfum vér fengið hatta, sem í sniði varla líkjast neinu, sem konur hafa borið fyr eða síðar; þeir líkjast mest hellisskúta, svo að konur, sem bera þá, líkjast mest steinuglum, eða kattuglum, sem hnipra sig inn í skúta til að forðast dagsljósið. (s. 37)

Svo víkur Sigurður að öðrum þjóðum og segir: „… hvergi veit eg að bændafólk sé að sækjast eptir útlendum búníngum, jafnmikið og víðast á Íslandi … Í flestum löndum lætr bændafólk sér nægja að bera sinn eigin þjóðbúníng.“ (s. 39)

Þegar hann snýr sér að því að ræða æskilegan fald við æskilegan nýjan búning kemur þetta:
 

Í Norðmandí, sem að mörgu er álitið kjarninn úr Frakklandi, sér maðr faldinn enn í dag, og hefir hann haldizt við síðan á dögum Göngu-Hrólfs; þessvegna mun það vera, að Frökkum, sem koma til Íslands, verður svo starsýnt á faldinn, því hann er einn hluti þeirra gamla þjóðbúníngs. (s. 41)

Faldur frá Normand�Eftir að hafa stungið upp á að núverandi faldi (gamla spaðafaldinum) verði breytt, því „þessi þunni leggr lítr ekki vel út frá hlið að sjá, og er líkastr öngli“, sagt að ekki ættu konur að hylja hárið með faldinum (enda hefðu þær Guðrún Ósvífursdóttir og Helga hin fagra ekki gert það) og lagt til að „gamli“ höfuðdúkurinn væri settur yfir faldinn, ítrekar hann tenginguna við Normandí: „Ég hef áðr sýnt yðr, að konur í Norðmandí láta sér þykja sóma að bera fald enn í dag, en þær þykja fríðastar og dugmestar af frakkneskum konum.“ (s. 52) Myndin er af normönnskum faldi, án blæju, á Listasafninu í Boston. Hún krækir í síðu safnsins með stærri mynd og upplýsingum um faldinn.

Íslenskar konur hlýddu því strax að klæðast sams konar faldi og þær fríðustu og dugmestu meðal franskra kvenna, konurnar í Normandí á Frakklandi. Hefur sjálfsagt ekki spillt ef þær íslensku hafa trúað því að þessi faldur væri frá dögum þess hrausta danska víkings Göngu-Hrólfs. Og þær hafa örugglega viljað allt til vinna svo þær líktust ekki lengur steinuglum og kattuglum …

Íslenski faldurinn og skautið er svona:

Íslenskur faldur undir skautiFaldurinn sjálfur, sem einnig er nefndur faldhúfa, er króklaga og fremur lágur. Hann er saumaður úr hvítu lérefti, en tilsniðin lengja úr pappa eða eirþynnu (faldpappi, faldeir) höfð innan í honum ofanverðum. Þá er hann troðinn út með ull eða öðru viðeigandi tróði og fóðraður utan með hvítu smálérefti eða atlasksilki (satíni). Yfir faldinum er blæja, faldblæja, úr hvítu netefni, stundum með hvítum ídregnum saumi og/eða brydd samlitri blúndu, en utan um faldinn neðanverðan er gyllt koffur úr silfri, hlekkjað saman úr stokkum með mismunandi skrautverki, eða gyllt spöng, oftast nær slétt, úr silfri eða látuni. Faldhnútur, breitt hvítt hnýti (slaufa) úr silkiborða er undir blæjunni að aftan til þess að hylja samskeytin á blæjunni og koffrinu eða spönginni.
(Elsa E. Guðjónsson. 1999. Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum. Myndin sýnir þegar verið er að festa faldinn á höfuð stúlku.)

Í svari Æsu Sigurjónsdóttur við spurningunni Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum? á Vísindavefnum 19. des. 2012 telur hún ekki ólíklegt að Sigurður málari hafi haft frelsishúfuna frönsku (bonnet de la Liberté) að fyrirmynd faldsins í skautbúningnum. Þessi húfa var upphaflega hvít en síðar rauð, í frönsku stjórnarbyltingunni. Hún var raunar vinsæl í ýmsum stjórnarbyltingum, t.d. hömpuðu Ameríkanar svona húfum í sínu frelsisstríði og kölluðu Liberty Caps. Frelsishúfurnar eru líklega þekktast nútildags á Strumpunum. Rök Æsu eru að amerísk kvenréttindakona sem sá íslenska skautbúninginn á kvennaþingi í Búdapest árið 1913 sagði í blaðagrein: „The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“

Sjálfri sýnist mér einsýnt að Sigurður málari Guðmundsson hafi einfaldlega gert höfuðbúnað kvenna í Normandí á 19. öld að sínum og þar með að aðalstássinu í flottasta íslenska búningnum, hátíðabúningnum: Skautbúningnum! Það er því hlálegt að hugsa til alls þess regluverks sem íslenskar konur hafa sett í kringum þennan búning síðan Sigurði datt þetta í hug.
 

Hvað ætli konum í þjóðbúningaráðinu í Normandí finnist um íslenska skautbúninginn?

Íslenskur skautbúningur og skautbúningur � Normand�
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

20. febrúar 2013

Viðhorf Landlæknis og HVE til eftirá-hagræddrar sjúkraskrá og vanrækslu

Í dag sendu bæði Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Geir Gunnlaugsson landlæknir frá sér yfirlýsingar vegna umfjöllunar Kastljóss um fæðingu Sveindísar Helgu, dóttur Hlédísar Sveinsdóttur. Hluti umfjöllunar Kastljóss snérist um hrópandi misræmi milli þeirra gagna sem HVE sendi Landlækni og sömu gagna sem HVE afhenti Hlédísi.

Eitt af hlutverkum Landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki. Það vekur því furðu að landlæknir skuli ekki sjá ástæðu til þess að kanna eða hafa eftirlit með vægast sagt einkennilega færðri sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE. Fjöldi rangfærslna lýtur allur í sömu átt, nefnilega að gera hlut spítalans skárri en hann var. Raunar kemur skýrt fram hjá lögfræðingi Hlédísar í viðtali i Kastljósi að hefði Landlæknir ekki haft myndband af fæðingunni undir höndum hefði hann (eða sérfræðingur sá sem Landlæknir kallaði til) ekki getað komist að þeirri niðurstöðu að vanræksla starfsfólks HVE hefði valdið þeim hræðilega skaða sem barnið beið í fæðingunni. Ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu sé byggt á gögnum þeim sem HVE sendi Landlækni.

Í 5. grein Laga um sjúkraskrár 55/2009 segir:

  • Við sérhverja færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá skal koma fram nafn þess sem skráir, starfsheiti hans og tímasetning færslu. Viðbót, leiðrétting, breyting eða eyðing sem gerð er á færslu sjúkraskrárupplýsinga skal ætíð vera rekjanleg.
  • Sjúkraskrárupplýsingar skulu færðar jafnóðum eða að jafnaði innan tuttugu og fjögurra stunda frá þeim tíma er þeirra var aflað.

Eytt úr sjúkraskráÞað er því ótrúlegt að sjá í sjónvarpi að mikilvægum hluta er eytt úr sjúkraskrá áður en hún er send til Landlæknis og það löngu eftir að skráin var færð.  Þetta sást mætavel í fyrrnefndum Kastljósþætti og birt var skjámynd sem sýndi muninn við síðustu færslu mína. Hlutinn sem þurrkaður var út segir frá ástandi barnsins rétt eftir fæðingu og krampaköstum sem komu síðar. Til hægri sést lítil mynd af stykkinu sem einhver hjá HVE þurrkaði út úr sjúkraskránni, sé smellt á myndina birtist hún stærri (hvort tveggja er skjámynd úr Kastljósi). Hver voru rök HVE fyrir að eyða þessum upplýsingum áður en skjalið var sent til Landlæknis? Og finnast Landlækni þessi vinnubrögð í góðu lagi?

Edward Kiernan yfirlæknir, Birna Gunnarsdóttir ljósmóðirÍ einnar síðu bréfi yfirlæknis fæðingardeildar (kvennadeildar) HVE úir og grúir af villum. Hluta þeirra er hægt að sanna með myndbandsupptökunni af fæðingunni. Svoleiðis villa er lituð á myndinni af bréfi yfirlæknisins (sé smellt á myndina kemur upp stærri útgáfa, þetta er skjámynd úr Kastljósþætti um málið.) Þar er ekki minnst á mónítor-ritið sem sýnir svo ekki verður um villst að barnið leið mikinn súrefnisskort í talsverðan tíma en það fæddist.

Ýmsar fleiri rangfærslur eru í gögnum frá HVE til Landlæknis. Má nefna að alls staðar er því haldið fram í gögnunum að legvatn hafi verið tært sem það var ekki, ýmist er aðstoðarlæknirinn (nýútskrifaður læknakandídat) viðstaddur fæðinguna eða ekki, yfirlæknirinn segist ekki hafa komið að fæðingunni en gerði það o.fl. Einna alvarlegustu “breytingarnar” sem starfsfólk HVE gerir eftir á og sendir Landlækni eru nýjar útgáfur af svokölluð APGAR-skori litlu stúlkunnar sem fæddist mjög sködduð af súrefnisskorti. Steinbergur Finnbogason lögfræðingur segir um þetta atriði, í Kastljósi 19. febrúar:

Skv. gögnunum þá erum við með þrjú mismunandi APGAR skor eftir eina mínútu. Það er í einni skýrslu ekkert merkt inn og gæti þá verið hvað sem er, í annarri skýrslu sem virðist koma seinna fram að þá er búið að færa inn töluna þrír í APGAR og í enn öðru bréfi sem er sent til Landlæknis er því haldið fram að APGAR skor hafi verið fimm. Og í sjálfu sér ef APGAR skor er fimm þá er ekkert að, ef það er þrír þá er eitthvað að en kannski ekkert eitthvað svakalegt en samkvæmt vídeóinu og seinna framkomnu áliti þá hefði barnið í mesta lagi átt að fá einn í APGAR skor.

Og niðurstaða hans um rangfærslur í gögnum HVE sem send voru Landlækni er:
 

Þær breytingar sem við sjáum þar þær miða að því … hugsanlega miða þær að því að fegra myndina.

Í yfirlýsingu Landlæknis í dag segir að málið hafi verið rannsakað ítarlega sem hafi leitt til faglegrar niðurstöðu. Landlæknir hafi beint þeim tilmælum til HVE að halda fund með Hlédísi Sveinsdóttur og biðja hana formlega afsökunar á þeim mistökum og þeirri vanrækslu sem hún og nýfætt barn hennar urðu fyrir. - Þess ber að geta að framkvæmdastjóri lækninga á HVE hélt þennan fund með Hlédísi einu og hálfu ári eftir hina afdrifaríku fæðingu og var það í fyrsta sinn sem henni var gefið tækifæri til að funda með aðilum málsins.- Um hinar einkennilegu breytingar sem HVE gerði á sjúkraskrá eftir á og um rangfærslur í gögnum frá stofnuninni segir Landlæknir í þessari yfirlýsingu:

[…] skal tekið fram að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ábyrgðar- og umsjónaraðili þeirrar sjúkraskrár sem um ræðir og getur gert á henni leiðréttingar skv. lögum um sjúkraskrár, sé sýnt fram á að upplýsingar í henni séu bersýnilega rangar eða villandi.

Nú væri áhugavert að Landlæknir upplýsti hvort eyða fyrir APGAR-skor sé svo “bersýnilega röng og villandi” að hún gefi umsjónarmanni sjúkraskrár, HVE, sjálfkrafa tilefni til að skálda þar inn ótrúlegar tölu talsvert löngu eftir fæðinguna. Sömuleiðis er áhugavert að vita skoðun Landlæknis á öðrum röngum upplýsingum sem HVE lét embætti hans í té, voru þær að hans mati upplýsandi fyrir málið?

Landlæknir lýkur yfirlýsingu sinni á skýrri niðurstöðu málsins, að mati embættisins, og viðurlögum:

Heilbrigðisstarfsmönnum urðu á mistök og vanræksla við fæðingu barns Hlédísar. Þessari niðurstöðu hefur verið fylgt eftir af festu gagnvart stjórnendum sjúkrahússins og einstökum starfsmönnum.

Starfsmennirnir sem í hlut eiga starfa allir áfram við HVE nema aðstoðarlæknirinn (að ég held). Ljósmóðirin sinnir enn fæðandi konum, yfirlæknirinn er kjur á sínum sessi sem og framkvæmdastjóri lækninga. Bæði Landlæknir og HVE neita að upplýsa hvernig niðurstöðunni um mistök og vanrækslu starfsmanna HVE hafi verið fylgt eftir “af festu”. Hlédísi Sveinsdóttur hefur ekki verið formlega tilkynnt um þau viðbrögð. Það má svo sem giska á að einhverjir sem í hlut áttu hafi fengið formlega áminningu, sem skiptir engu einasta máli fyrir ríkisstarfsmann (nema standi til að reka hann hvort sem er og þarf þá að safna tveimur formlegum áminningum fyrst).
 

HVE harmar vitaskuld eigin mistök í sinni yfirlýsingu í dag en minnist í henni ekki á vanrækslu starfsmanna sinna. Stofnunin segist hafa endurskoðað “allar verklagsreglur tengdar þjónustu við fæðandi konur […] og [að] eftirlit með að þeim sé framfylgt skerpt. Þá voru settar reglur sem takmarka mjög  fjölda aðstandenda við fæðingar.”

Síðari málsgreinin stingur í augu því erfitt er að sjá hvernig fjöldi aðstandenda við fæðingu hefur haft áhrif í þeim mistökum og vanrækslu sem hér var um að ræða. Skýringin er væntanlega sú að í sinni greinargerð til Landlæknis kvartaði ljósmóðirin undan skvaldri í móður og vinkonum Hlédísar sem voru viðstaddar fæðinguna og tengir síðan vinkonuna sem hélt á myndbandsupptökutækinu við vinnustað hennar en hún vinnur hjá fjölmiðlafyrirtæki. Nú veit ég ekki hversu viðkvæmar ljósmæður eru fyrir skvaldri en ef þetta á að vera afsökun fyrir því að hún fylgdist ekki með síritanum sem sýndi súrefnisskort ófædds barnsins eða að ástand barnsins þegar það fæddist fór framhjá henni held ég að önnur störf myndu líklega henta þessari konu betur. HVE hefur sem sagt komið auga á það ráð að takmarka fjölda leikmanna við fæðingu sem úrræði til að koma í veg fyrir mistök og vanrækslu starfsmanna sinna á fæðingardeild, skv. yfirlýsingu HVE í dag.

HVE telur staðhæfingar um að sjúkraskrá hefði verið hagrætt, atriðum eytt og með því brotin lög vera órökstudda og villandi framsetningu og færir sem rök fyrir því að Landlæknir hafi ekki skipt sér neitt af þeirri hagræðingu staðreynda.  Í yfirlýsingu HVE er ekki vikið orði að því stofnunin hyggist bæta skráningu upplýsinga í sjúkraskrá eða skerpa eftirlit með því að þeim sé ekki breytt löngu seinna. Forstjóri HVE sem skrifaður er fyrir yfirlýsingu stofnunarinnar í dag segist, í lokin, fagna opinberri rannsókn sem skeri úr um hvort rangfærslur í sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE til landlæknis varði við lög.

Sem viðskiptavinur HVE er ég Guðjóni Brjánssyni hjartanlega sammála og finnst mikilvægt að lögregla skeri úr um hversu mikið megi edítera sjúkraskrá og hversu mikið halla réttu máli í öðrum gögnum frá heilbrigðisstofnun sem send eru Landlækni þegar kvartað er til hans; Hvað teljast eðlilegar leiðréttingar eftir á og hvað fellur undir skjalafals?

Og satt best að segja myndi ég ráðleggja hverri þeirri konu sem ætlar að fæða barn á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness að sjá til þess að fæðingin sé tekin upp myndband, af þöglum myndatökumanni auðvitað …  

Viðbót 28. febrúar: Í dag birtist önnur yfirlýsing frá HVE þar sem mismunur í sjúkraskrá er skýrður og fjallað um fleira þessu máli tengt.
  
  
  
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

16. febrúar 2013

Skjalafals á Sjúkrahúsi Akraness?

Sjúkraskrá á HVEÉg er varla búin að ná mér eftir Kastljós gærdagsins. Þar lýsti ung kona reynslu sinni af þjónustu fæðingardeildar Sjúkrahúss Akraness (sem er hluti Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, HVE) og stjórnendum sjúkrahússins af miklu æðruleysi, eiginlega var hún ótrúlega málefnaleg og róleg miðað við hvernig brotið hefur verið á henni og dóttur hennar. Mistök sem gerð voru þegar hún fæddi dóttur sína eru ótrúleg, það er varla hægt að nota orðið mistök yfir atburðarásina eins og henni var lýst í Kastljósi og gögn sýndu, heldur kannski frekar afdrifaríkt slugs starfsmanna á fæðingardeildinni (sem kallast kvennadeild á skipuriti HVE).

Hitt var þó enn ótrúlegra: Vafasömu hagræðing gagna! Yfirlæknirinn skáldar upp atvikalýsingu sem er alls ekki í samræmi við myndband af fæðingunni … konan hefur svo eftir honum að hann muni ekki eftir henni. Ég trúi því ekki að grafalvarlegur súrefnisskortur sé það algengur meðal nýfæddra barna á þessari fæðingardeild að yfirlæknirinn geti hreinlega ekki munað eftir hverju tilviki fyrir sig og neyðist til að uppdikta eigin frásögn af fæðingunni.

Einhver hefur vísvitandi eytt mikilvægum upplýsingum úr sjúkraskrá og bætt inn upplýsingum sem láta háttalag ljósmóður og aðstoðarlæknis líta eilítið skár út, sem sagt hagrætt sjúkraskrá verulega! Þessi ritskoðaða og breytta sjúkraskrá var send Landlæknisembættinu sem gögn sjúkrahússins í málinu. Það ætti að vera auðvelt að sjá hver gerði þetta því skv. reglum HVE ber að skrá hver afritar sjúkraskrá hverju sinni.

Landlæknir kom sér undan að svara spurningu Kastljóss um hvort hann teldi að um rangfærslur eða skjalafals væri að ræða í gögnum Sjúkrahúss Akraness og taldi ekki ástæðu til að vísa málinu til lögreglu. Framkvæmdastjóri lækninga á HVE vildi ekki tjá sig og vísaði til trúnaðar- og þagnarskyldu. Ég veit ekki til þess að hann sé bundinn sérstökum trúnaði um mögulegt skjalafals starfsfólksins sem hann á að hafa eftirlit með en af því erindisbréf hans liggur hvergi frammi get ég sosum ekki fullyrt um að svo sé ekki. Hann ber hins vegar ábyrgð á meðhöndlun sjúkraskráa enda skrifaður fyrir reglum um notkun þeirra sem krækt er í hér að ofan.

Í ljósi þess sem Kastljós hefur eftir Landlækni og framkvæmdastjóra lækninga á HVE þarf varla að koma á óvart að á mánudaginn síðasta, 11. janúar, skrifuðu Landlæknir og forstöðumaður HVE undir samning um að HVE tæki að sér að prófa og þróa rafræna sjúkraskrá. „Markmið samningsins er að stuðla að vönduðum og faglegum vinnubrögðum við innleiðingu og þróun rafrænnar sjúkraskrár.“ Má af þessu ráða að Landlæknir telji Sjúkrahúsið á Akranesi (sem er hluti af HVE) hafa staðið sig vel í vönduðum og faglegum vinnubrögðum við færslu og meðhöndlun sjúkraskráa til þessa?
 

Myndin við þessa færslu er skjámynd úr þætti Kastljóss og sýnir sjúkraskýrsluna sem móðirin fékk afhenta og eintak sömu skýrslu sem Landlæknir fékk afhenta, hvort tveggja frá HVE.
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

5. febrúar 2013

Dauðinn og lífið

Það eru fá feimnismál eftir í okkar nútíma. Mætti segja að dauðinn einn væri feimnismál, um hann er ekki talað, um hann er forðast að hugsa. Samt er það svo að lífið væri einskis virði, hvunndagslegt og ómerkilegt, ef því lyki ekki með dauða. Það sem gefur lífinu gildi, gerir lífsleiðina eftirsóknarverða, er dauðinn sem bíður handan hornsins.

Undanfarið hef ég, eins og fjöldi fólks, fylgst með bloggi Vilborgar Davíðsdóttur og viðtölum við hana. Hún leyfir okkur hinum að fylgjast með síðustu dögum eiginmanns síns. Blogg Vilborgar er einstakt. Þótt umfjöllunarefnið sé hræðilega sorglegt skrifar hún af æðruleysi og kærleik. Ég get ekki sett mig í hennar spor og ég beygi af í hvert sinn sem ég les færslu. Fegurðin ríkir í þessum færslum, einlægni og virðing fyrir óumflýjanlegum dauða og lífinu sjálfu. Það þarf einstaka mannkosti til að skrifa slíkan texta. Þótt við hin séum einungis lesendur er sérhver færsla okkur umhugsunarefni og auðgar líf okkar, ekki hvað síst af því að Vilborg sýnir okkur að dauðinn, mesti harmurinn, eykur gleðina af lífinu. Hún minnir okkur á að lifa lífinu í árvekni.

Í gamla daga, áður en ævintýri voru aðlöguð rétthugsun, enduðu þau stundum illa. Í ævintýri Vilborgar sigrar drekinn illi. En orðstír hetjunnar lifir áfram þótt hetjan bindi sér nú helskóna.

Megi Drottinn gefa hetjunni ró og hinum líkn sem lifa.
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

3. febrúar 2013

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlareru það sem á ensku kallast Social Media. Menn hafa reynt að afmarka hugtakið við ýmislegt en í rauninni má segja að Vefurinn eins og hann leggur sig sé samfélagsmiðill því núorðið er allra handa efni deilt og það rætt eða a.m.k. „líkað“. Útstöðvar þessarar tækni eru líka að renna saman í snjallsímum og spjaldtölvum (það verður örugglega fljótlega hægt að hringja úr spjöldum - sé það ekki hægt nú þegar - og samruninn verður fullkominn).

Ég byrjaði að nota internetið í janúar 1991. Það var fyrir daga Vefjarins og tengingin við alheimsnetið var í gegnum tölvuna Imbu (sálugu) á Kópaskeri. Það sem maður notaði einkum var tölvupóstur (Elm forritið í óvingjarnlegu Unix-umhverfi), leit í gagnabönkum, skrif á spjallborð sem kölluðust ráðstefnur og einstaka sinnum möguleikann „Talk“, sem var undanfari IRC-sins og í rauninni alveg nákvæmlega eins og Facebook-spjall nútímans. Frá því Vefurinn leit dagsins ljós hér á landi, svona 1994-1995, hef ég notað hann bæði til að leita mér upplýsinga og til að setja inn upplýsingar. Ég byrjaði að blogga í upphafi árs 2005 og hef gert það allar götur síðar. (Fyrsta tölvan á okkar heimili var keypt 1985 en ég geri hana ekki að umtalsefni hér.)

En ég kæri mig ekki um að vera sítengd. Þess vegna á ég ekki snjallsíma, ég nota raunar farsíma afar sjaldan. Og ég er enn nógu háð ritmáli (er svakalega fljót að pikka) til að kæra mig ekki um spjaldtölvu … er hins vegar dálítið veik fyrir krílum því núna loksins eru fartölvur orðnar raunverulega far- eitthvað, þ.e.a.s. nógu léttar til að drösla þeim með sér með léttum leik.

Í mínum augum er Vefurinn sambærilegur við sjónvarp, það borgar sig að velja og hafna og sýna hóf í notkun svoleiðis tækja. Vinsælt kvörtunarefni kennara nútildags er hve nemendur eru háðir farsímunum sínum. Ég er svo sem sammála því að það getur verið ótrúlega erfitt að fá unglinga til að missa sjónar af sínum snjallsímadýrgrip í klukkustund en held að þetta gildi alveg eins um marga þá sem teljast fullorðnir, a.m.k. er mér minnisstætt þegar sessunautur minn dró upp símann sinn og opnaði Facebook á HAM námskeiði síðsumars á liðnu ári … vitandi það að enginn sótti þetta námskeið nema af brýnni þörf og veigamiklum ástæðum. Ef menn geta gert tvo hluti vel í einu er ekkert því til fyrirstöðu að vera sítengdur, reynsla mín er hins vegar sú að fáir höndla slíkt, einna helst eru það flinkar prjónakonur.

Mér finnst notkun persónulegs tölvupósts vera heldur að minnka, a.m.k. breytast. Kunningjar og fjölskylda senda allt eins Facebook skilaboð og tölvupóst, Facebook-hópar koma að mörgu leyti í stað póstlista. Á hinn bóginn er líklega orðið algengara að menn sendi ýmis erindi sín í tölvupósti en hringi, svo ekki sé talað um yfirvofandi dauða sniglapósts. Eiginmaður minn er skólameistari og hann kveðst fá að meðaltali kringum 100 tölvupósta á dag, yfirleitt fljótsvöruð erindi og símtölum hefur fækkað að mun á móti. Hann telur að tölvupóstur sé skilvirkari og fljótlegri leið en símtöl eða viðtöl. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum og tek reyndar eftir því að núorðið er það hending að kennari sé kallaður fram til að tala við nemanda í frímínútum … mestallan minn kennaraferil hefur glumið oft í kallkerfinu í hverjum frímínútum … og líklega er það vegna þess að nemendur eru óragir við að senda fyrirspurnir eða skilaboð inn á lokað kennsluumhverfi.

Blogg

Blogg eru orðin sjaldséðari eftir að Facebook varð til og eftir að netmiðlar tóku upp athugasemdakerfi (núorðið nýta þeir flestir Facebook sem athugasemdamöguleika). Stóra bloggsprengingin varð þegar mbl.is bauð upp á notendavænt bloggumhverfi. En bloggararnir þar, á blog.is, voru sjaldnast raunverulegir bloggarar heldur nýttu bloggumhverfið sem athugasemdakerfi. Ágætt dæmi um það er frétt á mbl.is frá 2007 sem gekk í endurnýjun lífdaga á Facebook fyrir skömmu: Við fréttina Elsta systkinið gáfaðast eru 32 blogg!  Það eimir enn eftir af þessari „moggabloggs-hefð“, þ.e. bloggum sem eru bara nokkrar línur og oftast er viðkomandi að tjá sig um einhverja frétt. Og það er áreiðanlega grundvöllur fyrir moggabloggshefðinni ennþá því meðal vinsælustu bloggara landins, skv. Blogggáttinni sem vel að merkja er ótraustur mælikvarði, eru Jónas Kristjánsson og Eiríkur Jónsson, fyrrum blaðamenn (blogg hins síðarnefnda er raunar flokkað sem vefrit á Blogggáttinni) en báðir blogga þeir örstutt og stundum oft á dag, Jónas er yfirleitt með eigin yfirlýsingar um eitthvað sem hefur ratað í fréttirnar þann daginn, Eiríkur birtir fremur myndir eða slúðursögur af ýmsu tagi. Enn einn mjög vinsæll bloggari sem bloggar jafnvel oft á dag er Egill Helgason sem alla jafna bloggar í styttri kantinum en umfjöllun hans er oftast mun bitastæðari en þessara tveggja sem ég nefndi. Og ég tek fram að þeir sem blogga á blog.is fylgja hreint ekki allir gömlu moggabloggs-hefðinni. Bloggsetrið skiptir ekki máli þótt veran á blog.is sé vissulega vísbending um gæði bloggs.

Sjálf reyni ég að blogga langar færslur. Annars vegar gefur það kost á að reifa efnið að einhverju leyti en ekki bara upphrópunum í æsifréttastíl. Hins vegar kemur svoleiðis háttalag ágætlega í veg fyrir að ákveðinn hópur lesenda þvælist mikið á mínu bloggi, þ.e.a.s. lesendur sem höndla ekki að lesa nema nokkrar línur af texta á skjá og byrja síðan að garga hástöfum byggt á þessari agnarögn sem þeir lásu. Ég vil gjarna vera laus við svoleiðis lesendur og þykir ágætt að þeir haldi sig við kommentakerfi óvandaðra netmiðla, sem þjóna slíkum lesendahópi ágætlega með örfréttum undir stríðsfyrirsögnum og reyna ævinlega að draga eitthvað krassandi fram í örfréttunum.

Það er erfitt að meta hvort blogg séu vinsæl eða ekki. Ein leiðin er að skoða Blogggáttina en það er mjög takmörkuð vitneskja sem fæst úr þeim lista. Á honum er líka fjöldi gamaldags moggabloggara. Heimsóknartölur á mitt blogg eru kringum hundrað þá daga sem ég blogga ekki (og því fer fjarri að ég bloggi daglega), undir eðlilegum kringumstæðum. Stór hluti þeirra heimsókna er gegnum Google. Tölurnar eru fljótar að hækka ef einhver vekur athygli á einhverri (oft eldri) bloggfærslunni, sem oft gerist, ég sé það gerast gegnum önnur blogg, gegnum Facebook, einstaka sinnum gegnum netmiðla, gegnum spjallvefi o.s.fr. Sólarhringinn eftir að ég sendi inn bloggfærslu eru yfirleitt í kringum 200-250 heimsóknir á bloggið mitt. Fjalli færslan um einhver „heit“ málefni og sé deilt mikið á Facebook fara heimsóknir fljótt yfir þúsundið.

Dags daglega sé ég miklu hærri tölur á teljurum sumra gamaldags moggabloggara en í ljósi þess að nánast aldrei eru skrifaðar athugasemdir við svoleiðis blogg held ég að smellirnir á þau séu „óvart-smellir“ þeirra sem lesa viðkomandi frétt á mbl.is (sem tengir í bloggin um fréttina). Veit ég þó að athugasemdir segja æ minni sögu því talsvert af athugasemdum við mínar eigin færslur fæ ég gegnum Facebook, einstaka sinnum í tölvupósti.

Af mínu eigin bloggi að dæma virðist vera að því ómerkilegri sem færsla er því vinsælli mælt í hreinum teljaratölum, t.d. er Úrklippur Hildar Lilliendahl langvinsælasta færslan, með talsvert yfir 15.000 lesendur. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta í rauninni ekki færsla heldur skjámyndasafn. Satt best að segja er mér ekki kappsmál að margir lesi bloggið mitt. Mér finnst miklu meira virði að hafa fáa góða (t.d. í merkingunni fluglæsa og þokkalega klára) lesendur heldur en að búa við það að fá holskeflu af misvitrum athugasemdum inn á bloggið mitt - það er t.d. umtalsverð vinna að halda orðbragði svoleiðis hópa í skefjum.

Það er allur gangur á því hvort blogg sem ég les sjálf að staðaldri séu skráð á Blogggáttina. Skv. minni reynslu er þetta kynskipt: Ég les talsvert af bloggfærslum eftir konur sem einhverra hluta vegna kjósa að skrá ekki bloggin sín í RSS-veitu. Af þeim sem ég les eru þetta ýmist blogg um þunglyndi eða blogg um hannyrðir en ég hef svo sem enga yfirsýn yfir óskráð blogg almennt og man ekki eftir óskráðu bloggi eftir karlmann. Ég veit því miður ekki um neinn góðan mælikvarða til að meta vinsældir bloggs eftir að blogg og Facebook og Google og líklega Twitter runnu saman, líklega er sá mælikvarði ekki til.

Hannyrða-heimurinn

Það er kannski ekki úr vegi að nefna stóran og vinsælan en svo til ósýnilegan kima á Vefnum öðrum en þeim sem áhuga hafa sem er efni tengt hannyrðum. Sem dæmi má nefna Prjónabloggið, eitt margra prjónablogga á íslensku sem eru ekki skráð í Blogggáttina, en eigandi þess tilkynnti nýverið:

Ég hef verið með blogigð [svo] mitt í tæp 3 ár og þar sem heimsóknir á síðuna eru komnar yfir 200.000 á þaim [svo] tíma og fara yfir nokkur hundruð og jafnvel nokkur þúsund á dag, þá hef ég ákveðið að gera facebook síðu líka. Inn á þessa síðu kem ég til með að setja inn myndir af því sem ég er að gera ásamt því að láta ykkur, kæru lesendur vita þegar ég set inn nýjar færslur á bloggið mitt :)
 

Það er til talsvert af sambærilegum síðum á Facebook, áhugasömum er bent á að leita með leitarorðinu prjón eða knitting :) Eðli Facebook sem samfélagsmiðils eru gerð skemmtileg skil í færslu Gísla Ásgeirssonar frá sl. nóvember, Kvittað, lækað og deilt.Gary Grant prjónar

Fyrir utan prjónablogg og uppskriftavefi (t.d. garnstudio.no) og prjónakennsluvefi (t.d. Wool and the Gang) og prjónavefi tengda garni eða tímaritum (t.d. Knitting Daily) og prjónafacebook og Google til að leita að svoleiðis er YouTube ótæmandi uppspretta hannyrðafræða. Kennslumyndbönd í ýmsum hannyrðum létta fólki eins og mér (sem á erfitt með að skilja uppskriftir, vegna meðfædds skorts á rýmisgreind) lífið ótrúlega mikið! Raunar er YouTube náma hvers kyns efnis: Tónlistar; hljóðs; myndbanda; kvikmynda; glærusýninga; fyrirlestra o.s.fr. og löngu orðið órjúfanlegur hluti annarra samskiptamiðla, fyrir utan að það að vera samskiptamiðill sjálft því á YouTube tjá notendur sig óspart um efnið og krækja í aðra umfjöllun.

Loks verður að nefna Pintrest, stafræna korktöflu þar sem festa má myndir sem tengjast áhugasviði hvers og eins. Pintrest er auðvitað draumur hverrar hannyrðakonu því maður gleymir ótrúlega fljótt fyrir hvað hvert bókamerki í vafranum stóð en sjái maður mynd af því sem var á síðunni sem alls ekki átti að lenda í glatkistunni er miklu auðveldara að passa upp á það sem átti að muna eftir. Ég skoða Pinterest síður þeirra sem hafa svipuð áhugamál og ég, endurfesti myndir af þeirra töflum, sé hvaðan þeir fengu myndirna, kíki á þær síður og Pinterest-töflur o.s.fr. … það er ótrúlega auðvelt að festast í Pinterest-skoðun og eyða í hana mörgum klukkustundum! Pinterest má nota um hvaða áhugamál sem er þótt ég hafi fellt þessa umfjöllun undir hannyrðir á netinu, ég er t.d. með Pinterest-töflu yfir myndir sem tengjast Snorra-Eddu sem ég get notað í kennslu (eða ekki notað). Pinterest-töflurnar mínar eru á http://pinterest.com/harpahreins/ ef einhver lesandi hefur ekki séð svona korktöflur. (Af því ég er nýbyrjuð að nota þetta á ég ekki margar korktöflur.) Ég sé fyrir mér að Pinterest muni skipta álíka máli og Google í framtíðinni í að veita heimsóknum inn á vefsíður og blogg.

Akkúrat núna: Ég á líf og I’m a Cow

Íslenska Eurovission lagiðÁgætt dæmi um hvernig samskiptamiðlar virka má sjá akkúrat núna: Komið hefur í ljós að íslenska Eurovission-lagið sem var kosið í gærkvöldi er nauðalíkt öðru lagi eftir kanadíska hljómsveit. Í athugasemdir við frétt netmiðla af þessari kosningu er alls staðar vakin athygli á þessu og krækt í myndbönd á YouTube. Á YouTube eru skrifaðar athugasemdir við tónlistarmyndbönd af I’m a Cow og vakin athygli á líkindum þess og íslenska Eurovision-lagsins Ég á líf. Strax í gærkvöldi bloggaði Gísli Ásgeirsson um þessi óheppilegu líkindi, “Ég á líf ” eða I Am Cow -Kom út í Kanada 2006 og aftur í dag, Búkolla og systur hennar í Kanada. (Gísli er einn af mínum uppáhaldsbloggurum sem skýrir af hverju ég vitna svona oft í hann í þessari færslu.) Á Facebook ganga nú grín-rím-statusar um texta og líkindi laganna, með krækjum í blogg Gísla og YouTube myndbönd og Láru Hönnu sem hefur sett saman lögin tvö á SoundCloud. Sjálf nota ég ekki Twitter en efast ekki um að mikið hefur verið tíst um akkúrat þetta. Laust eftir hádegi í dag fóru að berast fréttir af þessu á netmiðlum, t.d. Líkt en ekki stolið á ruv.is og  Er framlag Íslands í Eurovision stolið? á visir.is, og eflaust er þegar farið að deila þeim fréttum á Facebook og ræða þær, sem gæti orðið uppspretta einhverra blogga, sem gætu ratað í netmiðla, sem gætu síðarmeir orðið fóður í fræðilega grein um meint stolin Eurovision-lög, sem gæti orðið uppspretta frétta, sem gæti verið deilt á Facebook o.s.fr. Og yfir öllu þessu vakir sjálfur Google og gætir að það týnist ekki.

Í þessari færslu ætlaði ég að nefna algeng umfjöllunarefni blogga, fjalla um afstöðu eða afstöðuleysi ákveðinna stétta til samskiptamiðla, um gífurlegt gagn landsaðgangs að fræðigreinum o.fl. en þótt ég hafi þá stefnu að skrifa langar bloggfærslur sé ég að þessi má ekki lengri vera svo þetta verður að bíða betri tíma.
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

30. janúar 2013

Ósjálfrátt

hefur sagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur verið mér ofarlega í hug frá því ég kláraði hana um síðustu helgi. Ég heillaðist gersamlega af þessari bók og horfði með angist á ólesnum síðunum fækka og fækka … þetta er ein þeirra bóka sem maður óskar sér að klárist aldrei.

   

Nú fylgist ég ekki mikið með umfjöllun um bækur, vil frekar lesa þær sjálf og mynda mér skoðun á þeim. En ég hef það á tilfinningunni að því hafi einkum verið hampað að Ósjálfrátt fjallaði um hvernig skáld verður til, hvernig bók eða rithöfundur fæðist. Vissulega fjallar hún um það en kannski mætti frekar segja að bókin fjallaði um gildi þess að skrifa, hvað það er sem gerir skrif eftirsóknarverð og frelsandi. Fólk sem venur sig á skriftir kannast mætavel við þetta, maður þarf ekki að vera skáld til þess, maður þarf ekki einu sinni lesanda því skrifin ein og sér gera öllum gott. Fáar konur hafa þó reynsluna af því að skrifa í sig barn eins og Eyja :)

Í Ósjálfrátt býr svo ótal margt. Það sem höfðaði fyrst og fremst til mín, fyrir utan aðalersónuna, var lýsingin á fjölskyldu Eyju og lýsingin á alkóhólisma; alkóhólistum og áhrifum  sjúkdómsins á alla þá sem lifa og hrærast kringum alkann. Oft á tíðum er lýst kaldranalegum aðstæðum og nöprum uppákomum en frásögnin litast ævinlega af hlýju og húmorinn er ekki langt undan. Það er undirstrikað rækilega að lífið er ekki svarthvítt, að ekki er hægt að skipta fólki í sökudólga og fórnarlömb, að hver er sinna gæfu smiður en er jafnframt háður því umhverfi sem hann hrærist í og erfðum.

Í mínum huga er Ósjálfrátt saga um konur. Hún er sagan af Eyju, systur hennar, móður hennar og ömmu, meira að segja langmæðgur koma við sögu, og sagan af konunum í kringum þær. Þessar konur hafa sína galla enda af holdi og blóði en kostirnir yfirskyggja gallana. Örlög og líf þessara kvenna fléttast í rúmi og tíma. Sífellt tímaflakk í bókinni kemur ekki að sök heldur virkaði fullkomlega eðlilegt, hvort sem um var að ræða endurlit eða kafla sem gerðist í framtíð aðalsögutímans.

Það hvarflaði reyndar að mér við lesturinn að einhverjir myndu hvorki skilja haus né sporð í þessari frásögn. Ég held að til þess að skilja Ósjálfrátt þurfi að hafa einhverja svipaða upplifun og þær sem bókin lýsir en það kann auðvitað að vera minn misskilningur.  Aðalatriðið er að ég get glaðst yfir að hafa fengið tækifæri til að lesa svona frábæra bók sem situr eftir í huga mér og fyllir mig hlýju. 
 
 

Ummæli (10) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf

28. janúar 2013

Smart markmið og leiðarstjörnur

Ég var að koma af löngum kennarafundi í öðrum landsfjórðungi. Fyrir hádegi hlýddum við á erindi þar sem m.a. var minnst á svokölluð SMART-markmið og eftir hádegi bárust ýmiss konar markmið og leiðir að þeim í tal á fagkennarafundi. Í vetur hef ég talsvert velt fyrir mér markmiðum, ekki sérstaklega markmiðum í kennslu heldur kannski frekar almennt. Þessi færsla fjallar um svoleiðis.

Í áramótaheitstrengingaumræðunni nýliðinni bárust SMART markmið oft í tal og þóttu æskilegust markmiða. SMART stendur fyrir: Skýr - Mælanleg - Alvöru - Raunhæf - Tímasett. Þetta er náttúrlega amrískt fyrirbæri, skv. Wikkunni sem allt veit var klisjan notuð fyrst 1981, og raunar stingur íslenska orðið Alvöru í stúf en sjálfsagt hefur mönnum ekki hugkvæmst skárra íslenskt orð sem byrjar á A (enska orðið er Attainable, þ.e. það sem er kleift að ná/uppfylla). Skv. SMART-fræðum er ekki vænlegt til árangurs að setja sér markmiðið „Ég ætla að léttast á árinu“ (svo ég vitni nú í þá tegund áramótaheita sem vinsælust er) heldur er æskilegra að markmiðið hljómi einhvern veginn svona:  „Ég ætla að léttast um 500 gr í janúar 2013 og 1 kíló í febrúar“ og svo eru settar fram leiðir til að ná þeim markmiðum, t.d. „Ég hætti að eta sælgæti nema á laugardögum og fer í salinn þrisvar í viku“ eða eitthvað svoleiðis.

Í HAM (hugrænni atferlismeðferð) er fólki einmitt kennt að setja sér SMART-markmið. Ég er hrifin af HAM-aðferðinni og fellst því fúslega á að SMART-markmið megi stundum nota. Þau eiga hins vegar alls ekki alltaf við og eru stundum til mikils trafala. Skýrasta dæmið um villigötur sem menn rata í reyni þeir að gera leiðarstjörnumarkmið (sjá neðar í færslunni) að SMART-markmiðum er svokölluð  „sporavinna“ AA félaga: Ég þekki engan sem hefur batnað hætis hót við að fylla út pappír og tala við sporasponsor daglega, raunar þekki ég ansi marga sem hafa kolfallið eftir svona „sporavinnu“, kannski af því þeir gættu ekki að því að sporin tólf eru aldrei fullstigin og verða ekki mæld í útfyllingum og símtölum.

Ég gæti alls ekki sett mér markmiðið „Ég ætla að verða 25% minna þunglynd í febrúarlok“, það sér hver maður! Ég gæti mér sett markmið eins og  „Ég ætla að fara út að labba í a.m.k. 30 mínútur að minnsta kosti fjórum sinnum í viku“ og mögulega myndi svoleiðis hreyfing gera mig minna þunglynda, mögulega skiptir hún engu máli (af reynslunni veit ég að hún skiptir engu máli til að koma í veg fyrir eða bæta svæsið þunglyndiskast en hún gerir dagana sem ég er minna veik heldur betri).

Nú hef ég ríslað mér við það í meir en ár að lesa yfir greinar og doktorsritgerð eftir eiginmanninn þar sem markmið og markmiðssetningu ber talsvert á góma. Í þeim er m.a. fjallað um markmið af því taginu sem minn ágæti eiginmaður kýs að kalla  „leiðarstjörnur“, þ.e.a.s. markmið sem stefnt er að en nást aldrei að fullu. 

Í dag barst í tal hverju við móðurmálarar viljum gjarna ná með lestri bókmennta. Það er kannski lýsandi fyrir fagið mitt að engum datt í hug að setja SMART-markmið um lesnar blaðsíður á mældum tíma! Nei, við vorum sammála um að tækist að gera nemendur mennskari, í merkingunni skilningsríkari og umburðarlyndari í garð annars fólks og sinn eigin, með lestri góðrar bókar væri þeim tíma afskaplega vel varið. Ég held að þetta sé bjartasta leiðarstjarnan sem við viljum að vísi okkur veginn í íslenskukennslu. En vitaskuld getum við aldrei höndlað hana og vegurinn til stjarnanna getur verið púl. Og það er svo sem ekki eins og við séum að finna upp kennslufræðihjólið, góðum kennara var í gömlu reyfurunum lýst þannig:  „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Ég strengdi engin áramótaheit fremur en venjulega. Þetta árið ætla ég að halda mig við sömu gömlu leiðarstjörnurnar og árin mörgu á undan, þ.e.a.s. að leitast við að ná betri stjórn á lífi mínu, að ná betri heilsu, að verða betri manneskja. Mér finnast svona spor á vegi sem leiðarstjörnur lýsa, lítil sem þau eru, mun gæfulegri en nýmóðins markaðsfræði-markmið þótt þau kunni að vera ósmartari.
 
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf