Færslur undir „handavinna“

21. júní 2014

Fimm þúsund konan

Eina konan sem nýtur þess heiðurs að skreyta íslenskan peningaseðil er Ragnheiður Jónsdóttir, annáluð hannyrðakona á sautjándu öld. Þessi pistill fjallar um hana.

Ragnheiður fæddist árið 1646 og var dóttir hjónanna Jóns Arasonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Faðir hennar var prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var sonur Ara í Ögri, sýslumanns sem frægastur er fyrir fjöldamorð á spænskum skipreika sjómönnum hér á landi.  Móður Ragnheiðar, Hólmfríðar, er hins vegar einkum minnst fyrir sagnir af því hve tilhaldssöm hún var; hún lét meira að segja flytja inn gylltan lit til að setja í hár sitt!

Ragnheiður var í hópi níu systkina sem upp komust, af tólf fæddum börnum þeirra Jóns og Hólmfríðar. Mörg systkinanna voru annáluð fyrir offitu, t.d. Oddur digri, sem hestar gátu einungis borið 2-3 bæjarleiðir í senn, eða Anna digra, sem þurfti tröppu eða stiga til að komast í söðulinn því enginn treystist til að lyfta henni. Líklega hefur Ragnheiður verið léttari á fæti en þessi systkini hennar.

Fáum sögum fer af Ragnheiði Jónsdóttur fyrr en hún var komin fast að þrítugu. Þá giftist hún Gísla Þorlákssyni, biskupi á Hólum. Gísli hafði átt tvær eiginkonur áður sem létust hvor af annarri, var hann þó aðeins liðlega fertugur þegar þau Ragnheiður voru pússuð saman. Þau Gísli og Ragnheiður voru gift í áratug en þá lést hann. Þau voru barnlaus. Ragnheiður flutti svo að Gröf á Höfðaströnd, í Skagafirði, og bjó þar rausnarbúi í sínu ekkjustandi.

Skömmu eftir að Gsli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gsli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á sðu Þjóðminjasafns Íslands.
Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á síðu Þjóðminjasafns Íslands.

 

Hannyrðir og hannyrðakennsla Ragnheiðar

Talið er að Ragnheiður hafi kennt ungum stúlkum hannyrðir, bæði meðan hún bjó á Hólum og á Gröf. Svo virðist sem hún hafi ávallt haft nokkrar stúlkur í læri. Meðal nemenda hennar var Þorbjörg Magnúsdóttir, bróðurdóttir hennar, en glæsileg útsaumuð rúmábreiða Þorbjargar er varðveitt á Victoria and Albert Museum í Lundúnum.

Þau útsaumsverk sem haldið hafa nafni Ragnheiðar Jónsdóttur á lofti eru altarisklæði og altarisdúkur með brún sem gefin voru Laufáskirkju í Eyjafirði 1694. Neðst á altarisklæðinu er eftirfarandi áletrun: ÞETTA ALTARIS KLÆDE GIEFVR RAGNHEIDVR IONSDOTTER / KIRKIVNNE AD LAVFASE FIRER LEGSTAD SINNAR SÆLV HI / ARTANS MODVR HOLMFRIDAR SIGVURDAR DOTTVR 1694.

Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvtu hörlérefti og saumað það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins.
Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Aðalmunstrið í altarisklæðinu er saumað með skakkagliti, algengri gamalli útsaumsgerð hérlendis og erlendis. (Hér má sjá úskýringu á skakkagliti og glitsaumi, en vilji menn leita uppplýsinga á Vefnum er enska heitið yfir þetta spor Pattern Darning.) Áttablaðarósir eru og velþekkt munstur víða, sama gildir um brugðninga og fugla á greinum.

Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins
Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Það þykir merkilegt að munstrin á mjóu munsturbekkjunum á altarisdúknum og munstrið á altarisbrúninni (brún dúksins sem fellur að altarisklæðinu) eru ekki þekkt í íslenskum sjónabókum og raunar ekki í evrópskum útsaumi nema á enskum stafadúkum frá 17. öld.

Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði lklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu Lundúnum, sjá nánar hér.
Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.

 

Þetta rennir stoðum undir að munstrin hafi borist norður til Hóla með enskri kennslukonu sem Þorlákur biskup Skúlason (1597-1656) og kona hans hafi fengið til að kenna einkadóttur sinni, Elínu, kvenlegar listir. Þorlákur var faðir Gísla biskups Þorlákssonar og Elín því mágkona Ragnheiðar. Líklega hefur Ragnheiður fengið svipaðan enskan stafadúk hjá Elínu og talið út munstrið eftir honum.

En svo vikið sé aftur að altarisdúknum sjálfum þá þykir útsaumurinn á letrinu neðst á því afar merkilegur. Letrið er nefnilega saumað með pellsaumi sem sárafá önnur dæmi eru um í íslenskum munum eldri en frá 19. öld. Erlendis nefnist þessi saumgerð oftast flórenskur eða ungverskur saumur. Neðst á þessari síðu er sýnt hvernig sauma skal pellsaum . (Þeir sem hafa áhuga á saumgerðinni gætu notað leitarorðin: Florentine stitch, Hungarian point eða Bargello stitch til að leita fanga á Vefnum.)

Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi altarisdúkinn.
Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi í altarisdúkinn.

 

Stafrófið hennar Ragnheiðar, teiknað eftir áletrun á altarisdúknum og bætt inn stöfum sem í vantar, má sjá hér ef einhvern langar t.d. að sauma út sinn eigin seðil.

Á Þjóðminjasafninu eru til fjórir búshlutir úr einkaeigu Ragnheiðar og eru allir með fangamarki hennar. Þetta eru trafaöskjurstóll  og tvær fatakistur. Einnig er varðveitt sjónabók (munsturbók) sem talin er hafa verið í hennar eigu. Í sjónabókinni er m.a. teiknað fangamark Ragnheiðar, samandregið R I D (Ragnheiður IonsDottir).

Fangamark Ragnheiðar gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.
Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.

 

 

Síðustu æviár Ragnheiðar Jónsdóttur

Ragnheiður bjó, sem fyrr sagði, á Gröf á Höfðaströnd eftir lát Gísla Þorlákssonar biskups, eiginmanns hennar. En haustið 1698 giftist hún Einari Þorsteinssyni Hólabiskupi. Ragnheiður stóð þá á fimmtugu en Einar var 63 ára og hafði misst fyrri eiginkonu sína rúmu ári áður. Þrátt fyrir að brúðhjónunum hafi verið flutt langt kvæði á latínu með góðum óskum um langa og gæfuríka framtíð  lifði brúðguminn einungis mánuð eftir brúðkaupið.

Ragnheiður sat ekkjuárið á Hólum en flutti síðan aftur að Gröf og bjó þar til æviloka. Hún lést árið 1715 og skorti þá einn vetur í sjötugt.

 

Seðillinn

fimmthusund_sedill

Fimm þúsund króna seðillinn var gefinn út árið 1986. Grafísku hönnuðirnir Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fair teiknuðu upphaflega seðilinn og þegar honum var lítillega breytt árið 2003 sá Kristín um það.

Á framhlið seðilsins sést Ragnhildur Jónsdóttir sjálf en einnig fyrri eiginmaður hennar, Gísli biskup, og tvær látnar eiginkonur hans, sem sagt sama fólkið sem sést á málverkinu sem Ragnheiður lét mála í minningu Gísla. Í baksýn er hluti altararisdúksins í Laufáskirkju. Upphæðin, fimm þúsund krónur, er rituð með stafagerðinni á þeim dúk.

Á bakhliðinni sést Ragnhildur sitja í stólnum sínum, haldandi á sjónabókinni sem eignuð er henni. Tvær námsmeyjar hennar eru að skoða fullunnið altarisklæðið sem einnig sést í baksýn. Neðst á myndinni er borðamunstur sem er á ystu brúnum altarisdúksins. Neðst til hægri á seðlinum er nánast lokið við að sauma fangamark Ragnheiðar með pellsaumi/flórentískum saumi.

Það er vel við hæfi að Ragnheiður Jónsdóttir, sem lagði svo mikið af mörkum til að efla listiðnað kvenna á sautjándu öld, skuli skreyta peningaseðil, enn sem komið er ein íslenskra kvenna.

 

Heimildir auk þeirra sem krækt er í úr texta

Elsa E. Guðjónsson. SkakkaglitHúsfreyjan 13(4) 1962, s. 27-29.

Elsa E. Guðjónsson. Útsaumsletur Ragnheiðar biskupsfrúarHúsfreyjan 14(1) 1963, s. 21-24.

Elsa E. Guðjónsson. Altarisdúkur Ara á SökkuHúsfreyjan 18(4) 1967, s. 21-23.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenzk útsaumsheiti og útsaumsgerðir á miðöldum.  Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 69 1972, s. 131-150.

Elsa E. Guðjónsson. Íslensk hannyrðakona á 17. öld. Úr óprentaðri ritgerð. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1990, s. 29-34.

Elsa E. Guðjónsson. Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstjóri Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan 1996, s 119-162.

Elsa. E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Önnur úgáfa, Elsa E Guðjónsson 2003.

Koll, Juby Aleyas. Pattern darning reversibleSarah’s Hand Embroidery Tutorials. 18. nóv. 2009.

Sigurður Pétursson. Nuptiæ HolanæHumanistica Lovaniensia: Journal of Neo-Latin Studies XL 1991. Leuven University Press, s. 336-356.

Sigríður Thorlacius. „Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin“. Nokkrir drættir úr sögu Hólmfríðar Sigurðardóttur frá VatnsfirðiTíminn 46(17) 21. jan. 1962, s. 9 og 15.

Þorkell Grímsson. Þrjú fangamörk Ragnheiðar biskupsfrúarÁrbók Hins íslenzka fornleifafélags 82 1985, s. 185-188.

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna

3. nóvember 2013

Rétttrúnaður í prjóni

Ef marka má prjónauppskriftir og prjónaumfjöllun síðustu ára skal nota þá eina rétta aðferð við handprjón: Slétt lykkja skal vera slétt og brugðin lykkja skal og vera slétt. Samt eru til margar aðrar aðferðir og er því jafnvel fleygt að hægt sé að prjóna brugðna lykkju á sextán mismunandi vegu! Þetta eru áhrif frá amrískum og enskum prjónauppskriftum og stundum hefur verið bent á að fyrirmyndin að þessum rétttrúnaði sé prjónles úr prjónavélum. Sjálfri finnst mér út í hött að handprjón eigi helst af öllu að líkjast vélprjóni! Þessi færsla er yfirlit yfir helstu prjónapólitísk hitamál:  Slétt eða snúið?; Vestrænt eða austrænt?; Gamlar prjónahefðir eða nýmóðins ameríkanísering?

slétt eða snúin slétt lykkja
Slétta lykkjan á myndinni hægra megin er í samræmi við rétttrúnað nútímans, sumsé slétt slétt lykkja. Fremri lykkjuboginn er framar á prjóninum og í hann skal prjóna.

Slétta lykkjan á vinstri myndinni er svokölluð snúin slétt lykkja. Aftari lykkjuboginn er framar á prjóninum og liggur beint við að stinga prjóninum gegnum hann.

Snúin slétt lykkja á Garnstudio Slétt slétt lykkja á Garnstudi
Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig snúin slétt lykkja er prjónuð. Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig slétt slétt lykkja er prjónuð.
Brugðin lykkja eins og prjónuð er á Íslandi  

Slétt brugðin lykkja 

 

Til vinstri er sýnd sú aðferð sem kennd er í íslenskum skólum og langflestir Íslendingar nota nú, að ég held.

Bandið er fyrir aftan prjónlesið, alveg eins og þegar slétt lykkja er prjónuð. Það er vitaskuld hagræði að þurfa ekki að flækjast með garnið framfyrir til að prjóna brugðna lykkju, t.d. þegar prjónað er stroff (sléttar og brugðnar lykkjur til skiptis).

Prjóninum er stungið í fremri lykkjuboga og þetta er því slétt brugðin lykkja (vestræn ósnúin brugðin lykkja).

Myndin er stilla úr myndbandi á Garnstudio og krækir í myndbandið. Þar er þetta sögð “almenn aðferð sem notuð er í Noregi og Danmörku”. Enskumælandi virðast kalla aðferðina “Norwegian purl”.

Brugðið fyrir odd slétta brugðna lykkju
Þessi aðferð hefur verið kölluð að bregða fyrir odd.Augljós ókostur við þessa aðferð er að það þarf að færa garnið framfyrir prjónlesið og þ.a.l. að flækjast með garnið framfyrir og afturfyrir þegar prjónaðar eru brugðnar og sléttar lykkjur til skiptis á sama prjóni, t.d. í stroffi eða tvöföldu prjóni.Prjónað er í fremri lykkjuboga og lykkjan verður slétt brugðin.  Í myndbandinu sem stillan er úr er þetta sögð evrópsk aðferð (continental purl). Aðferðin er vestrænt ósnúið prjón.

Smelltu á myndina til að sjá skýringarmyndbandið á Garnstudio.

Austræn ósnúin brugðin lykkja

Elsa E. Guðjónsson hefur haldið því fram að Íslendingar hafi prjónað brugðnar lykkjur eins og sést á þessari mynd allt til þess að handavinnukennsla hófst í skólumHún segir þetta vera austrænt ósnúið prjón og styðst við þessa skýringarmynd í Mary Thomas’s Knitting Book. Þetta er að því leytinu rangnefni að svona brugðin lykkja er snúin á prjóninum, þ.e. þegar garnið er veitt í gegnum lykkjuna með prjónoddinum gegnum aftari lykkjubogann.

Elsa hlýtur að hafa gert ráð fyrir að Íslendingar hafi prjónað austræna ósnúna slétta lykkju (sem nútildags er yfirleitt kölluð snúin slétt lykkja, sjá efst í þessari færslu) á móti. Sé prjónuð snúin slétt lykkja í sléttri umferð og svona snúin brugðin lykkja i brugðnum umferðum verður áferðin nauðalík venjulegu sléttprjóni (með ósnúnum sléttum og brugðnum lykkjum) og þess vegna er prjónið kallað ósnúið austrænt.  Að sögn Mary Thomas verður prjón þó þéttara með þessu móti heldur en með vestrænu ósnúnu prjóni.

Bandið er lagt fram fyrir prjónlesið en í stað þess að snúa upp á það eins og í dæminu hér næst að ofan er það einfaldlega krækt eða veitt í gegnum lykkjuna. Þetta er einfaldari aðferð en sú að ofan en sömu annmarkar fylgja henni, nefnilega að þurfa að færa bandið framfyrir.

Sjá einnig Blandaða aðferð neðar í færslunni.

Vestrænt snúið prjón eða snúið sléttprjón
Snúið vestrænt prjón (western crossed) er þannig að slétta lykkjan er prjónuð í aftari lykkjuboga (s.s. snúin slétt lykkja, sjá efst í færslunni); brugðna lykkjan er brugðin fyrir odd, sjá sérstakt dæmi um svoleiðis ofar í færslunni, en í stað þess að fara með prjóninn inn í fremri lykkjuboga eins og í því dæmi er farið gegnum aftari lykkjubogann.

Þetta kallast snúið sléttprjón í nýútkominn Prjónabiblíunni og er staðhæft að vindingur komi í flöt stykki prjónuð með þessari aðferð. Ég hef vissar efasemdir um að þessi fullyrðing standist þótt vissulega fylgi henni mynd af undinni prjónaprufu.

Mary Thomas’s Knitting Book er komin til ára sinna (fyrst gefin út 1938) sem skýrir dæmin sem hún tekur:  Hún segir að snúið vestrænt prjón sé teygjanlegra en venjulegt sléttprjón (ósnúið vestrænt prjón) og henti því betur í ýmslegt svo sem belti, sokkabönd og sárabindi ;)

Snúið austrænt prjónSnúið austrænt prjón (eastern crossed) er einfaldara/þægilegra og fallegra (finnst mér) en snúna vestræna prjónið.

Slétta lykkjan er prjónuð slétt (þ.e.a.s. prjónuð er sú slétta lykkja sem flestir kunna og nota, þar sem prjóninum er stungið í fremri lykkjubogann).

Brugðna lykkjan er prjónuð snúin: Hér er sýnd einföld aðferð til þess sem er að leggja bandið framan við prjónlesið og veiða það gegnum lykkjuna til að prjóna nýja lykkju, gegnum fremri lykkjubogann.

Áferðin á snúnu austrænu prjóni minnir svolítið  á nálbrugðin stykki, þ.e.a.s. stykkið er eins og það sé fléttað.

Slétt og snúið prjón: Blönduð aðferðBlönduð aðferð (combination knitting)

Þekktur amerískur prjónahönnuður, Ann Modesitt, hefur lagt sig fram við að koma þessari prjónaaðferðir á framfæri. (Myndirnar eru teknar af vefsíðu hennar.) Hún heldur því fram að prjónles verði óvenju fallegt og þétt prjónað með blönduðu aðferðinni.

“Austræn slétt brugðin lykkja” er raunar snúin brugðin lykkja en sé prjónuð snúin slétt lykkja á móti verður áferðin á prjónlesinu nokkurn veginn slétt.

Það er dálítið skondið til þess að hugsa að líklega er þetta sama prjónaðferð og Íslendingar notuðu áður en farið var að kenna prjón í skólum, a.m.k. ef marka má hugmyndir Elsu E. Guðjónsson, sem minnst var á hér að ofan. Skyldu Kanar hafa uppgötvað hefðbundið íslenskt prjón núna alveg nýlega? ;)

Brugðnar lykkjur Cat BordhiÍ lokin er kannski rétt að geta þess hvernig ég prjóna sjálf: Ég prjóna snúna brugðna lykkju, með bandið fyrir aftan prjónlesið og sting í fremri lykkjubogann en sný upp á lykkjuna í stað þess að snúa bandinu um prjóninn líkt og gert er í skandínavísku sléttu brugðnu lykkjunni sem flestir landar mínir nota. Þetta eykur auðvitað hraða því hreyfingum fækkar. Þegar ég prjóna flatt stykki (fram og til baka) prjóna ég sléttu lykkjurnar snúnar svo áferðin á prjónlesinu verður slétt. Það gildir nefnilega um þetta eins og í dæminu hér að ofan um blönduðu aðferðina að tveir snúnigar gera slétt (eins og tveir mínusar í stærðfræði gera plús).

Þetta er sú prjónaaðferð sem ég lærði í bernsku af ömmu minni. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir rétttrúnaðarskoðanir nútímans ættaðar vestan úr Amríkuhreppi og er hæstánægð með minn prjónaskap …

Mér til mikillar ánægju hefur svo einn af þekktustu prjónatæknifræðingum heims, Cat Bordhi, tekið þessa aðferð upp á arma sína og heldur hún því fram að akkúrat svona brugðnar lykkjur séu fastari og betri en allar aðrar. Sjá má myndband þar sem hún sýnir aðferðina - smelltu á myndina til hliðar til að opna myndbandið.

P.S. Ef einhvern langar að prjóna með virkilega flottri snúinni/fléttaðri áferð þá mæli ég með:

Sléttum sléttum lykkjum á réttu;
Snúnum brugðnum lykkjum prjónuðum í aftari lykkjuboga (þ.e. gömlu íslensku aðferðinni við að prjóna brugðnar lykkjur) á röngu.

Ummæli (3) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

19. júní 2013

Fitjunarfræði, tækniorðaforði og tossar

Svo ég tengi fyrirsögnina: Ég er tossi þegar kemur að því að skilja skýringarmyndir! Hef fyrir löngu sjálfgreint mig með átakanlegan skort á rýmisgreind (sem fyrir daga greiningarfræðanna miklu hét rúmskynjun). Ekki skrítið í því ljósi að mér veittist nám í evklíðskri rúmfræði erfitt og fannst það hundleiðinlegt, álíka leiðinlegt og hin rúmfræðin sem átti að læra fyrr, dæmi á borð við: Ef keila dettur ofan í píramída fullan af vatni … o.s.fr. Því miður var ekki búið að starta frelsisbaráttu tossanna á þeim tíma svo ég neyddist til að leggja ómælda vinnu í að læra þetta helvíti til að ná prófum. Passaði að gleyma því strax eftir próf.

Nú er ég að setja mig inn í fitjunarfræði, merk vísindi sem ekki voru kennd í skólum í gamla daga nema mjög takmarkað. Þökk sé nýrri tækni, einkum YouTube og öðru vídjódóti á vefnum: Mér hefur loksins tekist að skilja silfurfit, ekki hvað síst eftir að ég fattaði að það myndi vera hið sama og heitir “twisted German cast-on” í flestum kennslumyndböndum (nema á Garnstudio þar sem aðferðin heitir “Gammel Norsk rett“, “Gömul norsk aðferð” í íslensku útgáfu síðunnar). Til að flækja málin er húsgangsfitin á Garnstudio kölluð silfurfit í íslenskri útgáfu síðunnar. Hin raunverulega og rétta silfurfit er víst stundum kölluð tvöföld fit.

Mér þótti fyrirfram augljóst að sú fit sem er kennd í skólum væri skólafit. En málið er ekki svo einfalt, það er nefnilega húsgangsfit sem er kennd í skólum, skólafit er aftur á móti prjónuð fit. Á hinn bóginn er til flóknara afbrigði af skólafit á Garnstudio sem er kallað keðjuaðferð en sagt vera “einnig kölluð prjónað uppfit.” (Mér þætti gaman að vita hver þýðir eiginlega textann á Garnstudio á íslensku, sá virðist halda að uppfit sé hvorukynsorð …). “Prjónaða uppfitið”, þ.e. “keðjuaðferðin” er hið sama og heitir kaðaluppfit í þeim prjónafræðum íslenskum sem ég er að lesa þessa stundina.

Eftir miklar spekúlasjónir um hvað væri eiginlega gullfit (engar nýtilegar upplýsingar að finna á Vefnum um hana nema að orðið er gamalt) datt mér í hug að skoða Íslenska orðabók, munandi að Elsa E. Guðjónsson skrifaði hannyrðaorðskýringarnar í þeirri bók. Elsa klikkaði ekki: Gullfit mun vera sama og hundafit. Og skólafit heitir líka breiðafit. Þegar ég sá að Elsa telur húsgangsfit og silfurfit það sama runnu á mig tvær grímur og ég hætti að treysta henni …

Eftir stendur: Hver fjandinn er Halldórufit? Ég veit að hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur, eins og Halldóruhællinn frægi (sem ég hef hugsað mér að vara fólk við því nýuppfundinn Tómatahæll virðist mun árennilegri) og ég veit að hún þótti léleg fit en mér hefur ekki tekist að komast að því hvernig Halldórufit er.   

Affellingafræði verða að bíða um sinn en þau eru sko ekki einfaldari en uppfitjunarfræðin! Næst liggur fyrir að kenna sjálfri mér að prjóna rétta brugðna lykkju. Ég prjóna nefnilega snúna brugðna lykkju, sem kemur yfirleitt ekki að sök því ef ég prjóna fram og til baka prjóna ég snúnar sléttar lykkjur á réttunni og tvöfaldur snúningur gerir ósnúið, alveg eins og tveir mínusar breyttust í plús í stærðfræðinni. Skv. Elsu E. Guðjónsson var svona snúið prjón (stundum kallað austrænt snúið prjón) algengasta prjónaaðferð á Íslandi frá því Íslendingar lærðu að prjóna. Á vorum rétttrúnaðartímum þykir þetta hins vegar ekki fínt, nú eiga allir að prjóna vestrænt og ósnúið. Svo ég verð að læra að prjóna ósnúna brugðna lykkju (kann ósnúna slétta lykkju). Til að flækja málin var brugðin lykkja kölluð snúin lykkja þar sem ég ólst upp svo raunar prjóna ég snúna snúna lykkju, skv. orðfæri bernsku minnar …

Svo er það tækniorðaforðinn sem ég á alveg eftir að tileinka mér. Fór í tvöfalda afmælisveislu áðan og notaði tækifærið til að stökkva á handavinnukennara í grunnskóla sem þar var gestkomandi og þýfga um prjónakennslu. Varð margs vísari nema fékk ekkert gott íslenskt orð yfir Entrelac. Kaðlaprjón, hélt handavinnukennarinn að þetta væri kallað. Það getur eiginlega ekki verið því kaðlaprjón hlýtur að vera að prjóna hefðbundna kaðla og fléttur … entrelac á lítið skylt við það. Einhver sem veit þetta?

—-

Svona smá innlegg í tossafræðin: Ég sakna þess að leikfimi, nútildags stundum kölluð íþróttir, sé ekki dregin inn í tossa-brottfalls-útaf-stöðnuðu-skólakerfi-s-umræðuna. Leikfimi er það aleiðinlegasta sem ég man eftir úr minni skólagöngu. Öll heimsins stærðfræði kemst ekki í hálfkvisti við leikfimi! Nú er ég stúdent í leikfimi en ég held að þetta sé eina fagið sem aldrei hefur komið að nokkrum einustu notum í mínu lífi. Ég tek fram að sum stærðfræði nýtist prýðilega í prjóni, t.d. margföldun tomma með sentimetrum eða sú ómissandi undirstöðuregla þríliða (sem mér skilst raunar að sé ekki lengur kennd í skólum). En ég hef aldrei þurft að fara í kollhnís, hvorki áfram né aftur á bak, aldrei þurft að (reyna að) standa á höfði né höndum og aldrei þurft að brúka megrandi og styrkjandi gólfæfingar fyrir kviðvöðva og læri, hvað þá að ganga í takt. Leikfimi var gersamlega handónýtt nám, sem eytt var óratíma í árum saman. Leikfimi og sund voru einu fögin sem ég var raunverulegur tossi í … svo það er kannski ágætt að þau reyndust gagnslaus þegar upp er staðið ;)  

Að lokum eru tvær vísur úr ágætu kvæði, Gripið í prjóna, sem birtist í Speglinum í janúar 1966. Í kvæðinu er fjallað um nýja tækni, hvernig skólakerfið klikkar nútildags og hvernig mætti bæta vinnulag á Alþingi: Allt eru þetta málefni sem eru mjög til umræðu akkúrat núna.

Þessi iðn nú þekkist valla
þrátt fyrir tækni-væðing alla,
langskólun og lærdómsstrit.
Fráleitt mundi finnast drengur
sem fær er um að þekkja lengur
húsgangs- eða hunda-fit.

Þetta er heilnæm handavinna
sem hollt þeim einkum væri að sinna,
er semja lög og sitja þing.
Vinnutímann vel skal nota,
þá væri ráð að sitja og pota
í duggarasokk og sjóvettling.

Ummæli (3) | Óflokkað, handavinna

12. apríl 2013

Tvöfalt prjón, frh.

Þessi færsla er framhald af hinni fyrri um tvöfalt prjón.
 
 

Að prjóna út letur með tvöföldu prjóni

Einfalda meginaðferðin, þ.e. að einbeita sér að sléttu lykkjunum í munstri og bakgrunnslit og passa alltaf að prjóna „brugðna tvíburann“ í andstæða litnum virkar ekki þegar prjóna á letur því þá birtist letrið speglað á „bakhliðinni“ og speglað letur er ólæsilegt. Það verður því að prjóna sitt hvort munstrið í einu.

Ég bý ævinlega til prjónamunstur í íslenska forritinu KnitBird. Þetta er ódýrt forrit, mjög einfalt að læra á það og nota það. Mæli sem sagt eindregið með þessu forriti! Í KnitBird er m.a. hægt að vista munstur sem pdf-skjal. Litla myndin hér að neðan sýnir uppskriftina að seinna nafninu á teppinu sem ég prjónaði (sjá mynd í fyrri færslu), þetta er nafnið Vala. Séð frá vinstri til hægri er Vala munstrað með bláu, séð frá hægri til vinstri er Vala munstrað með rauðu. (Litla myndin krækir í pdf-skjalið með þessu munstri.)

Letur � tvöföldu prjóni
 

Í munstrinu er önnur hliðin táknuð með hvítum (ólituðum) reitum og munsturlitur táknaður með bláum lit. Hin hliðin er táknuð með gulum reitum og munsturliturinn hafður rauður. Lesið er úr fyrstu línu munstursins einhvern veginn svona (miðað við að prjóna hliðina sem er táknuð með hvítum reitum, munstrið byrjar þá á fyrsta bláa reitnum, frá hægri til vinstri):

Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er reyndar sami litur og munsturliturinn á þessari hlið);
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sami litur og munsturlitur á þessari hlið);
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er munsturliturinn hinum megin á stykkinu);
o.s.fr.

Það þarf sem sagt að hugsa stíft um bæði litinn á hverri einustu sléttu lykkju og litinn á brugðnu lykkjunni við hlið hennar, lesa svo munstrið frá vinstri til hægri þegar prjónað til baka á hinni hliðinni. Ég þurfti að einbeita mér algerlega að þessu og gat ekki horft á sjónvarpið meðfram eins og ég geri venjulega þegar ég prjóna :)  Ef menn vilja prjóna mismunandi munstur á hvorri hlið þarf væntanlega að búa til uppskrift á svipaðan hátt og hér er sýnt, þ.e.a.s. að raða munstrunum saman í eitt.
 

Að prjóna tvöfalt prjón í hring

Það er í rauninni einfaldara en að prjóna flatt stykki því þá snýr sami aðallitur alltaf að manni. Aðalatriðið er að muna að hver slétt lykkja á sér brugðna tvíburalykkju í andstæðum lit. Ég gerði tilraun til að prjóna húfu með tvöföldu prjóni, misreiknaði að vísu stærðina svo þessi húfa passar á kött en að öðru leyti tókst tilraunin vel. Hún sést hér að neðan (ath. að ég prjóna brugðnu lykkjuna með austrænu snúnu prjóni svo áferðin á ljósbláu hliðinni er dálítið öðru vísi, ég snéri dökkbláu hliðinni að mér meðan ég var að prjóna húfuna).

Húfa með tvöföldu prjóni

Aðalatriðið í þessu húfuprjóni var að læra úrtöku í tvöföldu prjóni. (Úrtakan á prufuhúfunni er of laust prjónuð, ég laga það í næstu tilraun.) Til að taka úr þarf að raða saman tveimur sléttum lykkjum og tveimur brugðnum og pjóna saman. Handhægast er að hafa aukaprjón við verkið. Hér má sjá góða útskýringu á þessu í myndum.

Sjálf er ég ekki komin lengra en þetta í listinni að prjóna tvöfalt prjón og lýk færslunni á að krækja í efni á Vefnum sem mér finnst þess virði að skoða. Ég kræki ekki í YouTube myndbönd en bendi fólki á að fara á YouTube og leita með leitarorðinu Double knitting.
 

 • Nancy Kremer: Free Knitting Patterns - Heart Double Knit Hot Pad. Þetta er síða með einföldu munstri að tvöfalt prjónuðum pottaleppum. Á síðunni er vísað í myndband þar sem er sýnt hvernig þeir eru prjónaðir, mjög gott myndband að mínu mati þótt prjónaaðferðin sér ensk.
 • Stitch Diva Studios er með heilmikið kennsluefni með ljósmyndum um tvöfalt prjón (t.d. hvernig á að auka út, hvernig á að taka úr, hvernig á að prjóna „styttar umferðir“, þ.e. short rows, hvernig á að leiðrétta villu í munstri o.fl.). Ef litið er framhjá hvernig haldið er á garnendum (efnið er miðað við enska prjónaðaferð) er þetta mjög góð síða.
 • Vigdis Flowers er ljómandi fallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

 • Apfelbluete er annar gullfallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

 • Hér eru skemmtilegir tvöfaldir kisuvettlingar, Kittens Mittens, sem seld er uppskrift að á Ravelry.
 • En þessa ótrúlega fallegu vettlinga, Yuma Double Knitting Mittens, einnig til sölu á Ravelry, er líklega mun vandasamara að prjóna með tvöföldu prjóni.

 Svo er bara að vera dugleg(ur) að myndagúggla Double Knitting, jafnvel Extreme Double Knitting :)
 
 
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, handavinna

11. apríl 2013

Tvöfalt prjón

Bernateppi með tvöföldu prjóniÞað er fullt af kennsluefni um tvöfalt prjón á Vefnum en mér þótti sjálfri óþægilegt að í því er prjónað með „ensku prjóni“ sem er talsvert ólíkt þeirri aðferð sem flestir Íslendingar nota í prjóni. Svo ég ákvað að setja inn leiðbeiningar um tvöfalt prjón sem e.t.v. gætu hjálpað einhverjum til að læra þessa einföldu aðferð.

Frumraun mín í tvöföldu prjóni er þetta teppi sem sést hér til hliðar og ég gaf í skírnargjöf. (Sé smellt á myndina kemur upp stærri mynd.) Dæmin sem ég sýni hér að neðan eru prjónuð úr sama garni í sömu litum. Sé stykki prjónað með tvöföldu prjóni verður bæði framhlið og bakhlið sléttprjónuð og litir víxlast þannig að munstrið kemur speglað á annarri hliðinni. Það er einungis hægt að nota tvo liti. Munstrið má vera dreift (ólíkt hefðbundnu tvíbandaprjóni) því maður er alltaf með báða litina/báða garnþræðina á prjónunum. Þess vegna hentar tvöfalt prjón vel til að prjóna stóra, staka litaflekki.
 

Að fitja upp í tvöföldu prjóni

Á Vefnum eru ýmist gefnar leiðbeiningar um að fitja upp með báðum litunum eða bara öðrum. Mér fannst fallegra að hafa uppfitina í einum lit og fitjaði upp með bleikum. Af því maður fitjar upp lykkjurnar bæði á framhlið og bakhlið í einu þarf að fitja upp tvöfaldan fjölda lykkja (miðað við hvernig uppfit er venjulega hugsuð) og gera ráð fyrir tveimur kantlykkjum. Hér að neðan sést uppfit á stykki sem á að vera 20 lykkjur á framhlið (og 20 lykkjur á bakhlið): Fitjaðar eru upp 20 + 20 + 2 (kantlykkjur) = 42 lykkjur.

Fitja upp � tvöföldu prjóni
 

Byrjað að prjóna
 

Sjálfsagt er misjafnt hvernig menn vilja fara að í köntunum en mér þótt fallegast að taka fyrstu lykkju (fyrri kantlykkju) óprjónaða og prjóna síðustu lykkjuna (seinni kantlykkju) með báðum litum, þ.e. tvöfalda. Þá myndast nokkurs konar fléttukantur á jöðrunum.

Þess utan er bara prjónað hefðbundið tvöfalt prjón þannig:
Önnur hver lykkja slétt í öðrum hvorum litnum.
Hin hver lykkja brugðin í hinum litnum.

Ég byrjaði á bleiku hliðinni og:
- tók fyrstu lykkjuna óprjónaða;
- sléttprjónaði næstu lykkju bleika;
- prjónaði næstu lykkju hvíta brugðna;
- prjónaði næstu lykkju slétta bleika;
o.s.fr.
- prjónaði síðustu lykkjuna með hvorutveggja garninu (tvöföldu garni).

Hér sést bleika hliðin (að vísu eftir 2 umferðir):
 

Tvöfalt prjón

Svo er prjónað til baka á hvítu hliðinni þannig:

- fyrsta lykkjan (sú tvöfalda) tekin óprjónuð;
- hvít lykkja prjónuð slétt;
- bleik lykkja prjónuð brugðin;
- hvít lykkja prjónuð slétt;
o.sfr.
- endalykkjan prjónuð með báðum litum (tvöföld).

Þá lítur þetta svona út:

Tvöfalt prjón
 
 

Hvernig á að halda á garninu

Það vafðist fyrir mér að finna út hvernig ætti að bera sig við með litina tvo en mér fannst svo best að hafa garnið eins og þegar prjónað er tvíbanda. En aðalatriðið er að passa að aðalliturinn sé ofar á fingrinum, þ.e.a.s. sá litur sem er á sléttu lykkjum. Brugðnu lykkjurnar eru prjónaðar með neðra bandinu, þær sléttu með efra bandinu. Hér er skýringarmynd sem ég fann á Vefnum og aðlagaði að evrópskri prjónaaðferð (sem við Íslendingar notum):

Halda á garninu � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að prjóna munstur

Það er í rauninni ákaflega einfalt þegar maður hefur náð því að sléttu lykkjurnar eru þær sem birtast á viðkomandi hlið, þær brugðnu eru sléttu aðallykkjurnar á bakhliðinni/hinni hliðinni. Setjum svo að munstrið sé hjarta, sem hefst á einni lykkju í munsturlit, í næstu umferð eru þrjár lykkjur í munsturlit o.s.fr. Ef ég ætla að prjóna hvítt hjarta á bleiku framhliðina prjóna ég allar bleiku lykkjurnar sléttar og allar hvítu lykkjurnar brugðnar nema þar sem munstrið hefst: Þar víxla ég böndunum, hef hvíta litinn ofar á fingrinum og þann bleika neðar, prjóna eina slétta hvíta lykkju og eina brugðna bleika lykkju, víxla böndunum aftur í venjulegt horf og prjóna bleikar sléttar lykkjur og brugðnar hvítar lykkjur til enda.  Þegar ég sný stykkinu til að prjóna til baka eru hvítu lykkjurnar sléttar og þær bleiku brugðnar, nema ég sé auðvitað eina slétta bleika lykkju, sem er upphafið að munstrinu. Svo í þessari „hvítu [næstu] umferð“ prjóna ég þrisvar sinnum bleika slétta lykkju og hvíta brugðna þar sem munstrið er.

Mér fannst þægilegast að hugsa um lykkjurnar í pörum: Hvert par er slétt lykkja í „aðallit“ og tvíburi hennar brugðin í „aukalit“. Til að átta sig á munstrinu telur maður bara sléttu lykkjurnar en gleymir vitaskuld ekki að hver svoleiðis lykkja á sér brugðinn tvíbura í hinum litnum.

Hér er bleika hliðin eftir fimm umferðir:

Munstur � tvöföldu prjóni

Og hér sú hvíta:

Munstur � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að ganga frá endum?

Teppið sem ég prjónaði var 2×137 lykkjur + 2 kantlykkjur og varð u.þ.b. 150 cm langt. Svo dokkurnar kláruðust öðru hvoru og þurfti því að ganga frá endum. Á Vefnum er sumstaðar gefin sú ráðlegging að láta endana bara dingla lausa innan í stykkinu en ég gat ekki hugsað mér það; alin upp við að ganga alltaf frá endum!

Í rauninni er svona tvöfalt prjónað stykki eins og poki, a.m.k. þar sem litaflekkirnir eru stórir. Ég raðaði því saman svona 10-12 sléttum lykkjum á einn prjón, brugðnu tvíburalykkjunum á aukaprjón. Þá „opnaðist pokinn“ og mátti auðveldlega ganga frá endum á röngunni „ofan í pokanum“. Svo raðaði ég lykkjunum aftur rétt á prjóninn og hélt áfram að prjóna.

Á YouTube má finna myndband þar sem sýnt er hvernig má ganga frá endum „á réttunni“ án þess að það sjáist. Það er gott að kunna þá aðferð líka, t.d. til að ganga frá síðustu endunum ef prjónuð er húfa með tvöföldu prjóni.

Hér er framhaldsfærsla um hvernig maður getur prjónað sitt hvort munstrið, þ.e.a.s. ekki sama munstur á hvorri hlið, í tvöföldu prjóni, t.d. letur,  og hvernig úrtaka er þegar prjónað er svona tvöfalt. Í þeirri færslu kræki ég líka í það efni á Vefnum sem mér þykir skiljanlegast. (Ef menn vilja leita sjálfir þá heitir tvöfalt prjón Double Knitting á ensku.)
 
 
 
 

Ummæli (12) | Óflokkað, handavinna

6. apríl 2013

Útsaumaðir og útprjónaðir vettlingar

Hvorki útsaumaðir né útprjónaðir vettlingar eru sérlega gömul hefð hér á Íslandi. Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem um þetta er vitað. 

Ísaumaðir rósavettlingar

Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum: „Kvenvettlingar voru einþumlaðir, og þeir fínustu svartir með allavega litaðri rós, prjónaðri inn í handarbakið (rósavettlingar)“ og „Almennt var að konur prjónuðu rósir út í vettlinga og íleppa. Voru það ýmis blómamyndir með ýmsum litum eða þá sex- eða áttablaða rósir með ýmsum útbrotum.“ Hann er að lýsa vettlingum á 19. öld en þarna skjöplast þeim góða Jónasi: Rósirnar á vettlingunum voru ekki útprjónaðar heldur ísaumaðar enda ekki heiglum hent að prjóna út marglitt munstur á handarbakið eitt en hafa allt hitt einlitt.

RósavettlingarRósavettlingar eru varðveittir á Þjóðminjasafninu, byggðasöfnum og í norrænum söfnum, nokkrir frá 19. öld en flestir frá því um og eftir aldamótin 1900. Með þeim elstu er par með ísaumuðu K  ThD A á annan vettlinginn, á hinn vettlinginn ártalið 1827. Þá átti Katrín Þórðardóttir í Fljótshlíð (merkingin þýðir Katrín Þórðardóttir á) en dóttir hennar bjó lengi í Vestmannaeyjum og vettlingarnir eru varðveittir á byggðasafninu þar. Munstrið er áttblaðarós á uppábrot um úlnlið, einhvers konar rósaútfærsla af áttblaðarós saumað í þumla og áttblaðarós á handarbökum. (Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)

Myndin að ofan er af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu í Stokkhólmi (hún krækir í vefsíðu með stærri mynd). Þetta eru nokkuð dæmigerðir rósavettlingar íslenskir, með áttblaðarós inni í skreyttum tígli og uppábrotið skreyta stílfærð hreindýr. Samskonar munstur má sjá á skagfirsku rósavettlingunum sem gerð hafa verið góð skil í sérstakri bók. (Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. 2003). Fleiri myndir af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu sænska eru hér og hér.  Auk áttblaðarósar í ýmsum myndum eru blómamyndir/blómapottsmyndir mjög vinsælar á rósavettlingum, sjá mynd af rósavettlingum á textílsafninu á Blönduósi (af síðu Hélène Magnússon, Prjónakerling). Seinna meir er farið að blanda saman útsaumi og útprjóni í sömu vettlingana, a.m.k. bendir lýsing á vettlingum sem Þjóðminjasafninu áskotnuðust 1910 til þess:

Rósavetlingar, belgvetlingar, að mestu hvítir, en í laska, totu og þumal eru prjónaðir bekkir og blóm með svörtum, grænum, rauðum og fjólubláum lit, ennfremur eru saumuð með fléttusaum blóm með ýmsum lit á handabökin.
(Matthías Þórðarson. 1911.)

Elsa E. Guðjónsson lýsir rósavettlingum í eigu Þjóðminjasafnsins svona:

Talsvert er til af íslenzkum vettlingum frá 19. öld í Þjóðminjasafni Íslands. Flestir eru þeir belgvettlingar, margir svartir með marglitaðri, fléttusaumaðri rós á handarbaki, þ.e. rósavettlingar. Nokkrir rósaðir fingravettlingar hafa einnig varðveitzt, m.a. þeir sem hér birtist mynd af (Þjms. 5029). Eru þeir hvítir með aðallega rauðum, en einnig svolitlum fjólubláum ísaumi.

(Elsa E. Guðjónson. 1962.)

Konur með útsaumaða vettlinga á 19. öldSaumað var út í vettlingana með „gamla krosssaumnum“, þ.e. fléttusaumi. Sem fyrr segir er ekki vitað hve gömul rósavettlingahefðin er en auk þess að vita af elstu vettlingunum (að talið er) sem ársettir eru 1827 má benda á heimildir eins og bút úr þessu málverki eftir Auguste Mayer (sem var í föruneyti Paul Gaimard 1836) af heimilisfólki utan við bæinn á Hnappavöllum. Litla myndin krækir í stærri mynd og er engum blöðum um það að fletta að konurnar á myndinni eru íklæddar rósavettlingum. Sömuleiðis má benda á klausu í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en sagan er talin skrifuð 1835-36. Þar segir um systurina góðu: „Það leið ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum [- - - ].“

Norðmenn virðast líka hafa saumað rósavettlinga sem eru keimlíkir hinum íslensku, ef marka má myndir á Digitalmuseum.no. Því miður eru engar upplýsingar um hversu gamlir þessir vettlingar eru en má giska á að þeir séu allir af Mæri eða úr Romsdal. Sjá dæmi hér, hér og hér.

Ef einhvern langar til að prjóna og sauma út rósavettlinga bendi ég á skemmtilegt viðtal með myndum, í Morgunblaðinu 6. desember 2005, við Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá í Skagafirði, sem prjónar og hannar svona vettlinga, og uppskrift eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur á síðunni Prjónakerling. Loks má nefna uppteiknað mynstur Elsu E. Guðjónsson af rósavettlingi í eigu Þjóðminjasafnsins í Húsfreyjunni 2. tbl. 1962 og annað mynstur í bókinni Íslenskur útsaumur eftir Elsu (sjónablað XIX, s. 91). Og ef menn treysta sér ekki til að sauma munstur með fléttusaumi má benda á að annars konar spor ætti að vera í góðu lagi, a.m.k. saumuðu skagfirskar konur í vettlinga með lykkjuspori árið 1918. (Margrjet Símonardóttir. 1918.)
 

Útprjónaðir vettlingar/tvíbandaprjónaðir vettlingar

Afar lítið hefur varðveist af íslensku útprjóni fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Það sem hefur fundist eldra er ofurlítil pjatla sem talin er frá 18. öld, mögulega frá 17. öld, og ekki er vitað úr hvers konar flík hún er. Pjatlan fannst í fornleifauppgreftri í Reykholti í Borgarfirði. Að sögn Elsu E. Guðjónsson sést á þessari prjónlespjötlu „tvíbanda bekkur í tveimur, litum […] en ofan og neðan við bekkinn leifar af einlitum, gráleitum grunni með sléttu prjóni.“ Af svarthvítri mynd sem fylgir grein Elsu má ráða að munstrið sé einfaldir samtengdir tíglar, Elsa segir síðan að „reitamunstur sömu gerðar og er á bekknum má sjá í sjónabókarhandriti frá 17. öld í eigu Þjóðminjasafnsins.“ (Elsa. E. Guðjónsson. 1992.) En raunar þarf ekki uppteiknað mynstur til að prjóna svo einfalt munstur svo tengingin við sjónabókarhandritið er líklega tilviljun sem engu skiptir.

�slenskir útprjónaðir vettlingarÍ Íslenzkum þjóðháttum, sem ætla má að lýsi því sem tíðkaðist á 19. öld, segir: „Tvíbandssparivettlingar tilhaldsstúlkna [voru] oft svart- eða rauðtíglóttir, 3 lykkjur í tígli og 3 umferðir, svo breytt um.“ (Jónas Jónasson. 1961, nmgr. s. 17.) Í sama riti segir og: „Annars konar útprjón [en ísaumaðir rósavettlingar sem Jónas telur ranglega að hafi verið prjónaðir] mun ekki hafa tíðkazt, nema stundum voru prjónaðir tvíbandaðir vettlingar með tveimur litum og voru þeir þá annaðhvort röndóttir eða tíglóttir.“ Í Norræna safninu í Stokkhólmi eru varðveittir íslenskir tíglóttir vettlingar frá 19. öld, sjá mynd hér til hliðar (sem krækir í síðu með stærri mynd). Þeir eru tvíþumla og óvíst hvort átti þá karl eða kona (konur notuðu líka tvíþumla vettlinga). Mér sýnist tíglamunstrið á þessum vettlingum vera alveg nákvæmlega eins og á litlu pjötlunni sem fannst í Reykholti og er elsta dæmi um íslenskt útprjón (sjá hér að ofan).

LaufaviðarvettlingurFljótlega eftir aldamótin 1900 var orðið algengt á Vestfjörðum að prjóna vettlinga með litskrúðugum tvíbanda bekkjum. Svona vettlingar ganga núna undir nafninu vestfirskir laufaviðarvettlingar. Ekki er vitað hvenær þetta útprjón hófst og óvíst hvort rekja megi það lengra en til seinni hluta 19. aldar. Útprjónuðu bekkirnir eru með laufaviðarmunstri, eins og nafnið bendir til, fuglamunstri (dúfnastreng) o.fl. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.) Vestfirskir laufaviðarvettlingar voru prjónaðir á fína prjóna, líklega nr. 1 ½, úr fínu tvinnuðu bandi úr góðu þeli. (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.)

Á myndinni sést minn eigin laufaviðarvettlingur (litla myndin krækir í stærri mynd). Fitjaðar eru upp 80 lykkjur og aukið út í 84 lykkjur eftir að úlnlið sleppir. Vettlingarnir voru keyptir á handverksmarkaði í Hólmavík fyrir mörgum árum og satt best að segja held ég að þeir séu prjónaðir í vél (af því úlnliðsstykkið er prjónað fram og til baka og síðan saumað saman). Hafi einhver áhuga á að prjóna sér laufaviðarvettlinga bendi ég á grein, uppskrift og mynstur sem birtust í Vikunni 17. apríl 1980, Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Á vef Þjóðminjasafnsins má sjá stóra mynd af tvennum vettlingum, aðrir eru laufaviðarvettlingar, en hvorir tveggja eru nýir að sjá.
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Elsa E. Guðjóndsson. Rósavettlingar. Húsfreyjan. 1. apríl 1962, síða 25-27.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Veröld. 1985.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir.Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. Skagfirskir rósavettlingar. Gefin út af höfundi 2003.

HANDVERK | Skagfirskir vettlingar á handverkssýningu. Blómum prýddir rósavettlingar. Morgunblaðið 6. desember 2005. Hér er krækt í greinina á mbl.is.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. 1973, s. 14-15.

Jónas Hallgrímsson. Grasaferð. Jónas Hallgrímsson. Ritsafn. Helgafell. Fjórða útgáfa 1971.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja. Þriðja útgáfa 1961. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Margrjet Símonardóttir. Heimilisiðnaður. Iðnfjelag Viðvíkurhrepps í Skagafirði. Hlín. Ársrit Sambandsfjelags norðlenskra kvenna II, 1. tölublað 01.01.1918 [Ath. að tölublað og dagsetning hlýtur að vera rangt  því greinin er dagsett 10. ágúst 1918], bls. 26-28.

Matthías Þórðarson. Skýrsla um viðbót við Þjóðmenjasafnið árið 1910. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1911, bls. 70-98.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands1984, s. 10-13

Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Vikan 17.04. 1980, bls. 28-29. (Þetta er endurbirtur stór hluti greinar eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í Hugi og hönd 1973.)
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

2. apríl 2013

Íslenskir prjónaðir vettlingar

 Svo skemmtilega vill til að elsta prjónles sem fundist hefur á Íslandi er einmitt vettlingur: 
 

Vettlingur frá Stóru BorgÁrið 1981 fannst sléttprjónaður einþumla belgvettlingur í uppgreftri að Stóru-Borg undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er líklega frá fyrri hluta 16. aldar, og því elsta varðveitta íslenskt prjónles sem vitað er um. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.)

Sem sjá má á myndinni er vettlingurinn allur sléttprjónaður og ekkert stroff enda lærðu menn líklega ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sautjándu öld, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi 18. aldar. Hann er prjónaður gróft úr mórauðu tvíþættu ullarbandi, 3 lykkjur á sentimetra á hæðina en 4-5 lykkjur á sentimetra á breiddina. Annar einþumla belgvettlingur hafði fundist í uppgreftri á Bergþórshvoli 1927. Sá er einnig úr mórauðu spunnu ullarbandi og enn grófprjónaðri en sá sem fannst á Stóru-Borg, 3,5 lykkjur á cm á hæðina en 2,5 lykkjur á cm á breiddina. Vettlingurinn frá Bergþórshvoli er talinn heldur yngri eða frá því um 1600. Við fornleifaupparannsóknir í Kaupmannahöfn hefur fundist tugur tvíþumla vettlinga sem taldir eru íslenskt innflutt prjónles frá 17. öld. Þeir eru allir sléttprjónaði en með mismunandi lögun og úrtökum og ekkert sérlega líkir vettlingunum frá Stóru-Borg og Bergþórshvoli. (Elsa E. Guðjónsson. 1992.)

Þótt minjar séu fátæklegar er vitað að Íslendingar byrjuðu snemma að prjóna vettlinga, sjálfsagt nánast um leið og þeir lærðu að prjóna (einhvern tíma seint á 16. öld). Sokkar og vettlingar urðu mikilvæg útflutningsvara. Árið 1624 voru flutt út rúmlega 72 þúsund pör af sokkum og rúmlega 12 þúsund pör af vettlingum, nokkrar sveiflur voru í þessum útflutningi milli ára en nefna má að á dögum Almenna verzlunarfélagsins (1764-1773) voru árlega flutt út rúmlega 185 þúsund pör af sokkum og tæplega 71 þúsund pör af vettlingum. (Jón Aðils. 1971.) Óskráðir eru allir þeir vettlingar og önnur plögg sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn fengu send og seldu sjálfir, plögg sem Íslendingar seldu ýmissa þjóða sjómönnum við landið, sem og í vöruskiptaverslun innanlands.

Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu: Peysur, sokka, vettlinga, húfur o.fl. Jón Aðils nefnir að menn hafi lagt stund á þessa iðju af því ekkert annað var að gera á veturna og halda þurfti fólki hvort sem var, jafnt gamalmenni sem börn „sem eigi voru til annars hæf.“ (Jón Aðils. 1971.) Síðari tíma heimildir nefna að börn urðu eins og aðrir að skila ákveðnu prjónlesmagni eftir vikuna, venjulega tveimur sjóvettlingspörum þegar þau voru átta ára og síðan meiru eftir því sem þau eltust. Gamall húsgangur er til vitnis um þetta:
 

Fyrst þú ert komin á fjórða ár
fara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna.
 

(Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
 

Prjónlesið (prjónasaumurinn) greindist í tvo flokka: Eingirnisles (Enkelbaandsgods) og tvígirnisles (Dobbelbaandgods). Eingirnislesið var lika kallað púlsles eða duggarales, það var unnið úr grófu ótvinnuðu bandi. Duggaralesið var miklu algengara og hlaut nafn sitt af því að það seldist mest til hollenskra duggara á vorin en var allur gangur á hvernig gekk að selja það í kaupstað til útflutnings. Tvígirnislesið, einnig nefnt smáles eða tvíbandales, þótti fínna og var unnið úr fínu tvinnuðu bandi. Í smálessendingum frá fyrri hluta 18. aldar er minnst á belgvettlinga, venjulega einþumla en stundum tvíþumla, fingravettlinga og fleira prjónles. Duggaralesið/eingirnislesið var þó miklu algengara. (Jón Aðils. 1971.)

VettlingatréSokkar og vettlingar voru þæfðir og notuð sérstök sokka- og vettlingatré til að móta plöggin í rétta stærð. Eitthvað af af sokkatrjám hefur varðveist hér á landi en engin vettlingatré. Myndin af vettlingatré hér til hliðar er af slíku verkfæri sem var til sölu á eBay fyrir skemmstu og sagt gamalt. Líklega hafa íslensku vettlingatrén litið einhvern veginn svoleiðis út. Vettlinga og sokka þæfðu menn yfirleitt í höndunum og skv. Niels Horrebow, sem rannsakaði lifnaðarháttu hér á landi á árunum 1749-51, var allt þæft í keytu (stæku hlandi) með miklu erfiði og á frumstæðan hátt. (Áslaug Sverrisdóttir. 2004.) Horrebow segir reyndar að Íslendingar hafi nýtt heitar lindir (hveravatn) til að þæfa enda bæði þófni hraðar og plöggin verði hvítari með því móti. Svo bætir hann við að menn þæfi stundum sokka og vettlinga með því að sitja á þeim og aka sér fram og aftur og til hliðar; þetta komist upp í vana og menn sitji því og aki sér í sætinu þótt ekkert sé prjónaplaggið undir þeim. (Horrebow, Niels. 1752.) Líklega hefur Horrebow eitthvað misskilið athæfið því vandséð er hvernig hægt er að þæfa plagg með rasskinnunum! Haft er eftir konu fæddri 1841 að tíðkast hafi að ganga þannig frá vestfirskum laufaviðarvettlingum: „Þegar vettlingarnir voru búnir, voru þeir lóaðir, þæfðir og sléttaðir með því að sitja á þeim, meðan þeir þornuðu úr þófinu.“ (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.) Kann að vera að þessi siður sé gamall og Niels Horrebow hafi séð eitthvað svipað rúmri öld áður en misskilið.

Ljóst er að prjónlesið íslenska var afar misjafnt að gæðum og var frá upphafi útflutnings talsvert kvartað undan slælegum vinnubrögðum í íslensku prjóni og reynt að setja reglur þar um. Einþumlaðir vettlingar áttu að vera hæfilega stórir, tvíþumla vettlingar (sjóvettlingar) fullstórir og vel rónir, skv. dómi um duggarasokka frá 1606. (Jón Aðils. 1972.) Sé prjónað laust á grófa prjóna má dylja það ágætlega þegar búið er að svellþæfa flíkina, eins ef prjónið er misfast. Á hinn bóginn slitnar svoleiðis prjónles miklu hraðar en fastprjónað. Líklega hafa Íslendingar ekki gætt þess að prjóna fast og jafnt og enn er verið að kvarta undan svoleiðis vinnubrögðum seint á nítjándu öld:
 
 

Það er annars eptirtektavert með tvær þessa síðast töldu vöru tegundir [þ.e. „smáband og fingravetlinga“] hvað þær hafa selst illa erlendis nú hin næstliðnu ár, og hefir kaupstjóri Gránufjelagsins fært oss heim sanninn um það, að þetta væri mest því að kenna hvað varan hefði verið illa og óvandlega unnin. Fyrir fleiri árum síðan seldust fingravetlingar og jafnvel smáband fyrir það verð að töluverð atvinna var við að vinna þessa tóvöru enda var það þá stundað af allmiklu kappi hjer á Norðurlandi, en það var meinið að ekki var jafnframt hugsað um að láta vöruna vaxa að gæðum sem vexti, heldur þvert á móti einungis hugsað um parafjöldann og hvortveggi þessar vörur voru þá ver unnar sem fleiri stunduðu það, og meira var hugsað um að spara efnið. Á þenna lítt-nýta tóskap komst svo óorð og fyrirlitning svo hann hætti að seljast, og hafa menn þannig haft það fyrir óvandvirknina, að missa, að minnst kosti í bráð þess atvinnu, sem að vísu engan veginn gat heitið arðmikil, en þó var skaði fyrir þá að missa, er ekkert annað gátu gjört sjer að atvinnu í hins stað.
(Þingeyingur. 1880.)

Prjónaðir sokkar seldust fyrir miklu hærra verð en vettlingar frá upphafi útflutnings. Sem dæmi má nefna að árið 1616 jafngiltu: 24 duggarasokkar = 72 pör vettlingar = 48 pör valdari vettlingar = 1 hundrað fiskar.  Árið 1684 jafngiltu þrjú vettlingapör einu sokkapari. (Þorkell Jóhannesson. 1943.) Samt kepptust menn við að prjóna vettlinga uns kaupmenn sögðu stopp:

Í byrjun 18 aldar fóru Íslendingar að vinna miklu meira af vetlingum en sokkum, hvernig sem á því hefur staðið, en kaupmenn voru harðóánægðir með það og fengu því ráðið, að Íslendingum var bannað að vinna meira af vetlingum en til fimtunga við sokkana, og hélzt það upp frá því.
(Jón Aðils. 1971.)

Í verðlagsskrá frá 1861 kemur vel fram að enn borgaði sig engan veginn að prjóna vettlinga til sölu, sokkar voru mun vænlegri: Fyrir sjóvettlinga fengust aðeins 8 skildingar en fyrir eingirnissokka (duggarasokka) fengust 29 1/2 skildingur, 45 skildingar fyrir tvíbandssokka. (Verðlagsskrár. 1861.)
 

Hvernig voru vettlingarnir?

Fyrir utan fátæklegar minjar sem fundist hafa, eins og vettlingana á Stóru-Borg og Bergþórshvoli sem minnst var á í upphafi, er næsta lítið vitað hvernig vettlingar hér á landi voru gegnum tíðina eða hvernig vettlinga Íslendingar seldu út. Vettlingar eru þannig flíkur að þeim var slitið upp til agna og leifar þeirra fátíðar. Þó má e.t.v sjá vísbendingar um vettlingatísku séu skoðuð gömul málverk.

Hjón � Tálknafirði um 1700Vettlingar á 17. og 18. öldÁ myndinni hér til hliðar sjást líklega heiðurshjónin Þórður Jónsson og Guðný Einarsdóttir, sem bjuggu í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um og fyrir aldamótin 1700. Myndirnar skreyta tvo kirkjubekki sem nú eru á Þjóðminjasafni Íslands. Bæði eru þau spariklædd og Guðný húsfreyja heldur á mórauðum vettlingum „með háum svartbekkjóttum (flosuðum?) löskum í vinstri hendi.“ (Elsa E. Guðjónsson. 1994.) Smelltu á myndina til að sjá stóra mynd af vettlingum Guðnýjar.

Það er ómögulegt að sjá af máluðu myndinni hvort Guðný heldur á prjónuðum eða saumuðum vettlingum en í ljósi þess að í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru varðveittir prjónaðir fingravettlingar frá sautjándu og/eða átjándu öld sem eru mjög svipaðir þessum (sjá myndina til hægri sem krækir í myndasýningu með stórum myndum af dönsku vettlingunum) og að Gunnister-vettlingarnir skosku, frá því seint á 17. öld, eru einnig svipaðir í laginu má allt eins gera því skóna að Guðný húsfreyja í Tálknafirði hafi átt prjónaða vettlinga skv. tísku þeirra tíma. Hún hefur e.t.v. ekki haft lag á að prjóna sér fingravettlinga en hefur haldið háu uppslögunum/löskunum og kannski flosað (afbrigði af því að rýja) rendurnar efst til að gera vettlingana enn fínni.

Kona � reiðfötum 1772Tæpri öld síðar eru svona vettlingar eða hanskar með háum uppslögum enn í tísku á Íslandi ef marka má málverk John Cleveley yngri frá 1772 af íslenskri konu í reiðfötum. (Sé smellt á myndina til hægri kemur upp stærri mynd af hönskunum hennar.) Cleveley var í föruneyti Joseph Banks sem heimsótti Ísland þetta ár. Reiðkonan prúðbúna á myndinni er líklega klædd saumuðum vettlingum, með útsaumuðum eða baldýruðum uppslögum og myndarlegu kögri. Ég veit ekki hversu sennilegur þessi búningur er en hún er a.m.k. í hefðbundnum sauðskinnsskóm á myndinni.

Þótt Guðný Einarsdóttir í Stóra-Laugardal hafi þurft að láta sér prjónaða vettlinga nægja var ekki svo um háttsettar konur. Í skrá yfir þá muni sem Margrét Halldórsdóttir, dáin 21. júlí 1670, kona Brynjólfs biskups Sveinssonar, lét eftir sig eru m.a. taldir upp „fernir hanzkar, einir hvítir, einir baldýraðir, einir svart-baldýraðir og einir með gullvírsborðum.“ (Jón Aðils 1971, nmgr. s. 457.) Jón Aðils segir: „[- - -] hefur hún þó víst eigi verið neitt sérlega tildursöm eða skrautgjörn“ og víst er að Brynjólfur biskup gekk sjálfur ætíð í heimaunnum vaðmálsfötum til að setja alþýðunni gott fordæmi. (Æsa Sigurjónsdóttir. 2004.) Kannski hafa hanskar Margrétar biskupsfrúar líkst eitthvað hönskum prúðbúnu reiðkonunnar sem John Cleveley málaði öld eftir lát Margrétar.

 

Íslenskir tvíþumla vettlingar

�slenskur sjóvettlingurÁ byggðasöfnum hringinn í kringum landið má sjá tvíþumla sjóvettlinga frá því seint á nítjándu öld til byrjun tuttugustu aldar. Svoleiðis vettlinga má og sjá á söfnum erlendis og oftar en ekki eru þeir sagðir íslenskir en raunar bendir margt til að aðrar þjóðir sem seldu ríkulega af prjónlesi á svipuðum markaði og Íslendingar hafi prjónað eins vettlingar, t.a.m. eru tvíþumla vettlingar meðal þess sem Jótar prjónuðu til sölu. (McGregor, Sheila. 1984.) Á Jótlandi ríkti álíka barnaþrælkun í prjóni og hérlendis og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, þæfðu og seldu. Hér má sjá sænska tvíþumla vettlinga, líklega innan við aldar gamla, og hér norska tvíþumla sjóvettlinga en myndin til hægri er af íslenskum tvíþumla vettlingi á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.

Tvíþumla sjóvettlingar voru, eins og annað íslenskt prjónles, þæfðir vandlega og þurrkaðir og mótaðir á vettlingatrjám „og voru smátré sett í þumlana“. (Jónas Jónasson. 1961.) Þeir höfðu þann kost að þegar annar þumallinn slitnaði, af róðri og volki, mátti snúa vettlingnum og brúka hinn þumalinn óslitinn. Leitt hefur verið getum að því að sjóvettlingar hafi einmitt átt að vera óþarflega langir, „fullstórir“, því þá mátti brjóta endann inn í lófann til hlýinda. (Tilvitnun í Fred Hocker, starfsmann Vasa safnsins í Stokkhólmi, á vefsíðunni Ready to wear (1640s style). Þegar fiskimenn í nyrstu héruðum Noregs (Nordland og Troms) gerðu sig klára á fiskveiðar í Lofoten prjónuðu konurnar á þá sjóvettlinga út bestu ullinni, laust spunninni og lítt tvinnaðri, á grófa prjóna. Sjóvettlingarnar voru hafðir þrefalt stærri en venjulegir vettlingar því þeir áttu að fá endanlega lögun við þæfingu, annað hvort í sóda- eða sápuvatni - í fiskisúpu á stöku stað. (Nielsen, Ann Møller. 1988.) Eins og fyrr var sagt áttu íslenskir sjóvettlingar að vera vel rónir. Niels Horrebow lýsti aðferðinni þannig: „Þeir sem róa út á sjó klæðast vettlingunum, dýfa þeim öðru hvoru í hafið og þæfa þá þannig um leið og þeir róa, milli handanna og áranna - og þurfa ekkert að hafa fyrir þessu annað en að róa.“ (Horrebow, Niels. 1752.)

 

Tv�þumla vettlingur 1772Tv�þumla vettlingur 1772Ef marka má fyrri tíðar myndverk voru hvunndagsvettlingar karla almennt tvíþumla, þurfti ekki sjómenn til. Til vinstri er bútur úr málverki John Cleveley yngri af húsi og umhverfi þess við jaðar Garðahrauns 1772. Á annarri teikningu gerðri í för Banks hingað til lands 1772 sést lítil stelpa í tvíþumla vettlingi. (Báðar myndirnar krækja í stærri útgáfur.)

Tvíþumla vettlingar hafa stundum komið erlendum ferðamönnum spánskt fyrir sjónir, t.d. þessari ensku frú sem ferðaðist um Ísland laust fyrir 1890:

Þessir vettlingar […] eru gerðir eins barnsvettlingar, með þumal beggja vegna; og ef lófi vettlingsins slitnar þegar karlmaðurinn rær eða stundar aðra erfiða vinnu, snýr hann honum einfaldlega og notar hinn þumalinn. Þessir vettlingar eru venjulega prjónaðir úr grárri ull, þumlarnir hafði hvítir, og úr fjarlægð líkjast þeir kanínuhaus með löngum eyrum. (Tweedie, Alec. 1894.) 
 

P.S. Þríþumla vettlingar tíðkuðust á miðöldum í Evrópu og eitthvað lengur. Saga þeirra er rakin hér og finna má fleiri myndir á þessari síðu með leiðbeiningum fyrir miðaldahlutverkaleiki eða á teikningu Breu frá 1535-30 á British Museum. Mér vitanlega eru engar heimildir um að svoleiðis vettlingar hafi verið notaðir á Íslandi.
 
 

Um útsaumaða og útprjónaða vettlinga verður fjallað í næstu færslu.
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Áslaug Sverrisdóttir. Tóskapur. Ullarvinna í bændasamfélaginu. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands. 2004, s.197-203.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elsa E. Guðjónsson. Kirkjubekkir frá Stóra-Laugardal. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. 1994, s. 144-145.

Horrebow, Niels. Tilforladelige Efterretninger om Island med et nyt Landkort og 2 Aars Meteorologiske Observationer. 1752, s. 333-4. Aðgengileg á Google books og krækt í hana þar.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd 1973, s. 14-15.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón.  Hugur og hönd 1984, s. 10-13.

McGregor, Sheila. The Complete Book of Traditional Scandinavian Knitting. B.T. Batsford Ltd., London. 1984.

Nielsen, Ann Møller. Alverdens strikning - historie og teknik. Forlaged Ariadne, Fredericia. 1988

Tweedie, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. London. 1894, önnur útgáfa. Bókin er aðgengileg á Gutenberg.org og er krækt í hana þar.

Verðlagsskrár. Íslendingur, 8. mars 1861, s. 182.

Þorkell Jóhannesson. Ullariðnaður. Iðnsaga Íslands, síðara bindi, s. 135-153. Ritstjóri Guðmundur Finnbogason. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. 1943.

Þingeyingur. Nokkur orð um vöruvöndun og vörumat. Norðanfari 16. júní 1880, s. 80
 
Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðnaður og tíska. Breytingar á fatnaði í ellefu aldir. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands, 2004, s. 236-245. Greinina má einnig finna á vef Þjóðminjasafns og er krækt í hana hér.
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

21. nóvember 2012

FabLab og myndafíkn

Snjókorn skorið út með leisiStundum heyrir maður talað um tölvuleikjafíkla og netklámfíkla. En nethannyrðafíkn er ekki eins viðurkennd. Samt þekki ég margar konur sem eiga erfitt með að slíta sig úr hannyrðaskoðun á netinu. Sjálf missi ég mig gang på gang í að myndagúggla handavinnu: Get alveg setið daglangt við að skoða prjónaflíkur, prjónaaðferðir, prjónauppskriftir, prjónamyndbönd o.s.fr. Hef meira að segja dottið aðeins í hekl!

Nýja dellan er skefjalaus myndagúgglun þess sem hægt væri að brúka til að skera út í leisi-skera. Ég hafði mig loksins yfir götuna til að skoða FabLab í fyrradag. FabLabbið er ábyggilega búið að vera opið í tvö ár og ég hafði svona óljósa hugmynd um að þetta fyrirbæri væri til. Í síðustu viku fór svo kollegi minn á teikninámskeiðinu (ég sæki byrjendanámskeið í teikningu til Reykjavíkur, fæ væntanlega tvær framhaldsskólaeiningar fyrir en ykkur að segja er ég ekki efnileg á þessu sviði) að spyrja mig eitthvað út í FabLab (sem ég vissi ekkert um) og það dugði til hleypa í mig döngun: Ég fór og skoðaði FabLab í fyrradag og sá um leið hversu ótrúlega sniðug þessi smiðja er.

Nú er ég búin að hlaða niður teikniforritinu sem FabLab brúkar, í morgun vaknaði ég með a.m.k. tíu hugmyndir í hausnum og miðað við aðra hannyrðareynslu má ætla að ein eða tvær af tíu hugmyndum sé vel brúkleg. Og í dag hef ég hangið í tölvunni (fyrir utan geðræktarlabbitúrinn) og bölvað sjálfri mér fyrir að hafa aldrei nennt að læra vektorateikningu í myndvinnsluforritinu sem ég brúka dagsdaglega … og myndagúgglað alveg út í eitt! Það prjónast náttúrlega ekki á meðan og krókódílaheklið sem ég kenndi sjálfri mér um helgina verður að bíða aðeins. Ég hef ákveðið að nota sömu aðferð og gefst yfirleitt best, þ.e.a.s. “learning by doing”, sem þýðir að ég kenni sjálfri mér það í vektorateikningu og í nýja teikniforritinu   svona nokkurn veginn jafnóðum og ég þarf á hverri aðferð að halda. Þetta er seinleg aðferð til náms en á hinn bóginn situr betur í manni það sem maður lærir með henni.

Akkúrat núna sagði ég við sjálfa mig: Nú skaltu blogga um FabLab og leggjast svo á sófa með hitapoka og reyfara, það er ekkert vit að hanga lengur í tölvuskömminni! Og ég er að hugsa um að hlýða þessu … eru einhvers staðar til GHA samtök fyrir fólk með myndagúgglunarhannyrðafíkn?

Eins og í öðru gengur FabLabbið mér í haginn: Ég fékk tíma í leisi-skeranum laust fyrir miðjan desember og þá verð ég örugglega búin að hanna dótið sem mig langar að gera, sjá hvaða hugmyndir virka og hverjar virka ekki og kenna mér nóg á myndvinnsluforritin til að mæta með fullbúnar teikningar.

Myndin við færsluna sýnir leisi-skorið snjókorn. Ég ætla reyndar ekki að búa til neitt þessu líkt en það er gaman að skoða á vefnum hvað menn hafa verið að gera í svona græju, þannig fær maður hugmyndir.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna

29. september 2012

Prjónið og fagorðin

Elstu ritheimildir um prjón hér á landi er að finna í skjölum Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Þar segir:

af landskylldum giort j Suarf(ad)ardals vmbodum med Vrda jordum og Socku. anno 1582 j fardogum. burt golldit j kaupgiolld og skullder. [- - -] prioonasaumur 22 paur.

og

[- - -] a Vrdum Domnicia 2a post epi(phaniam) anno 1583 [- - -] a eg nü þar von ae af tijundarvadmalum xx alnum. jitem j vor ad kom v voder og vij alner. jitem prionasaumur lxxx og xvj pör.

(Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar, s. 227-228)

Árið 1581 bókar Guðbrandur biskup að upp í landskuld af Gardzhorni hafi verið goldið m.a. með „vj paur socka“ (Bréfabók G. s. 195) og minnist á „íííj paur so(k)ka“ í öðru skjali (Bréfabók G. s. 218). Það má því ætla að prjónasaumurinn sem hann nefnir 1582 hafi verið prjónaðir sokkar.

Orðið prjónasaumur var svo notað áfram yfir prjónaðar flíkur, allt fram á 20. öld, skv. dæmum Ritmálssafns (Orðabókar Háskóla Íslands) en frá miðri 17. öld hefur þekkst orðið prjónles og hefur það á síðari öldum orðið ofan á.

Orðið prjónaður kemur líka fyrst fyrir í efni tengt Guðbrandi biskupi, þ.e. í Guðbrandsbiblíu, Jóhannesarguðspjalli 19:24,  þar sem segir um kyrtil Jesú: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“ Í ofurlítið yngri heimild segir um sama kyrtil: „hann [kyrtillinn] var ecke saumadur helldur prionadur.“ (Passio, þýdd bók eftir Lúther, gefin út á Hólum árið 1600, s. 208.)

Orðið prjónn var þekkt í íslensku frá fornu fari og líklega merkti það síll/sýll eða alur, a.m.k. oddmjótt hvasst verkfæri. Í Sturlungu er nefndur Ögmundur nokkur sem hafði viðurnefnið prjónn. „[…] lat brenna allann [fjárhlut] sva ath konungr hafi hvorki af prionn ne pening“ segir Valgautur jarl í Ólafs sögu hins helga; “alin [er] kambur og prionn og nal” segir í lista yfir verðgildi í handriti af Búalögum, líklega frá 1550. Í Íslenskri orðsifjabók segir að uppruni orðsins sé umdeildur; sumir telji það fornt tökuorð úr fornslavnesku, prionu, sem sé sama orðið og prion[i] í grísku og merki sög eða bor. Aðrir haldi að orðið sé af germönskum toga, upphaflega rótin hafi verið *preu-, sem þýði stinga eða ota. Í sömu heimild segir að ólíklegt sé að íslenska orðið prjónn sé tökuorð úr fornensku, fornenska (og miðenska) orðið var preon, en það er ekki rökstutt nánar. Cleasby og Vigfússon halda því hins vegar fram að íslenska orðið prjónn samsvari gelíska orðinu prine og skoska orðinu prin. Í miðensku var til orðið preon, sem þýddi prjónn, og mögulega sögnin preonen (dæmin sem tekin eru í A Middle English Dictionary eftir Stratman um þessa sögn sýna ekki afdráttarlaust að hún hafi þýtt að prjóna þótt höfundur orðabókarinnar staðhæfi það). Í Hjaltlandseyja-Norn var til nafnorðið prin, sem þýddi alur eða stór títuprjónn. Jakob Jakobsen telur að þetta sé sama orðið og íslenska orðið prjónn. Í færeysku er til orðið prónur (eldra preunur) sem þýðir stór títuprjónn eða prjónn og rekja má þetta orð víðar.

Í Guðbrandsbiblíu sést mætavel að orðið prjónn hefur á dögum Guðbrands ennþá verið samheiti við al eða sýl þótt Íslendingar hafi þá tileinkað sér tæknina að prjóna og líklegt er að sögnin sé mynduð með hliðsjón af verkfærunum, prjónum: „… tak einn Prion / og stijng i giegnum hans Eyra“ (5. Mósebók 15:17) - í nútímaþýðingu er klausan: „…  þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans.“ Annars staðar í Guðbrandsbiblíu stendur: „… og stinga i giegnum hanns Eyra med Al“ (2. Mósebók 21:6) - nútímaþýðingin er: „[Síðan skal húsbóndi hans] stinga al í gegnum eyra hans.“

PjonaDanski málfræðingurinn Inge Lise Pedersen telur að norska sögnin pjåna eða pjaodna sé upphaflega sama sögn og sú íslenska, prjóna.  Hún vitnar í Ross [sem hlýtur að vera Hans Ross orðabókarhöfundur, f. 1833, en heimildar er að öðru leyti ekki getið] sem skýri sögnina „hekle ell. strikke paa en egen maade“. Orðið var algengast á Hörðalandi. Nú á dögum er norska nafnorðið pjoning notað um ákveðið hekl, stundum kallað bosnískt hekl (shepherd’s knitting á ensku), sem er eiginlega bara heklaðar fastalykkjur. Hekl er hins vegar miklu yngri tækni á Norðurlöndunum en prjón. Inge Lise Pedersen rökstyður að pjåna hljóti að hafa upphaflega átt við nálbragð. (Rökstuðning fyrir hinu sama má sjá í grein Margarete Morset, Hårnål eller heklenål? í tímaritinu Spor 1987.) Af því að orð geti færst af einni tækni yfir á aðra geri það mönnum erfiðara fyrir að að meta hvort upplýsingar [Ross] um að pjåna hafi þýtt prjóna sé misskilningur eða að sú merking hafi verið til en sé nú týnd, segir Pedersen. Hún getur sér síðan til að pjåna hafi áður verið notað um ákv. tvíbandaprjón, kallað tvåäandstickning nú, og enn eldri notkun sé nálbragð. Loks stingur hún upp á að Norðmenn hafi haft orðið í farteskinu þegar þeir námu land á Íslandi og jafnvel mætti halda því fram að orðið pjåna (nú pjona) sé nú eitt af örfáum íslenskum tökuorðum í norsku. Satt best að segja skil ég ekki alveg hvernig hún hugsar síðastnefndu fullyrðinguna en vel að merkja segir Pedersen sjálf að hún sé „kættersk tanke“ (villutrúarhugmynd)!  Fyrir um ári síðan bar ég þessi líkindi með pjone og prjóna undir málfræðinginn Guðrúnu Kvaran en hún taldi ekki vera tengsl milli þessara tveggja orða. Myndin er af pjoning-nál og pjonuðu stykki.
 

Til að draga þetta saman má segja að nokkuð öruggt sé að íslenska orðið prjónn hafi verið til, í annarri merkingu þó, þegar Íslendingar lærðu að prjóna. Það að dregin sé sögn af þessum verkfærum (prjónum) hafa sumir viljað tengja við Englendinga, því líkt orð þekktist um verkfærið prjón á ensku, og notað sem rök fyrir að Íslendingar hafi lært að prjóna af enskum sjómönnum. En af því orðið má rekja víðar eru þetta ekki sérlega góð rök fyrir þeirri tilgátu, allt eins líklegt er að Íslendingar hafi lært þessa tækni af hollenskum eða þýskum. Mögulegt er að eitthvert orð hafi verið til í íslensku yfir nálbragð sem líktist sögninni prjóna en um það er ekkert vitað. (Kristján Eldjárn stakk á sínum tíma upp á orðinu nálbragð og mér vitanlega er ekki varðveitt neitt gamalt íslenskt orð yfir þá tækni.)
 

Gömul prjónaorð á hinum Norðurlöndunum
 

 • Binde var algengasta sögnin fyrir prjóna í Danmörku. Það er reyndar líka þekkt í eistlandssænsku, sums staðar í Noregi og í Færeyjum. Enn þann dag í dag binda Færeyingar og nota til þess stokka (orðið yfir prjóna).
 • Knytte var notað í Danmörku og Skáni og Hallandi í Svíþjóð. Í Slésvík var orðið notað yfir h-prjón, þ.e.a.s. þegar menn prjónuðu líkt og Englendingar gera ennþá, kasta þræðinum yfir með vísifingri á hægri hönd, en á Mið-Sjálandi var knytte aðallega notað um v-prjón, þ.e.a.s. prjónaðferð þá sem  Norðurlandabúar nota flestir í dag þar sem garnið hvílir á vísifingri vinstri handar.
 • Lænke var einungis notað í Danmörku, á Lollandi, Falstri, Vestmøn og Suður-Jótlandi.
 • Pregle er lágþýskt tökuorð og var notað syðst á Jótlandi.
 • Pinde var notað á afmörkuðu svæði á Vestur-Jótlandi.
 • Spete þekktist í Borgundarhólmi og á Suður-Skáni.
 • Sy var notað sums staðar í Smálöndum og Austgotalandi.
 • Sömma þekktist víða annars staðar í Svíþjóð yfir prjóna.
 • Sticka er gamalt orð  í mjög mörgum sænskum mállýskum. Sticka getur líka þýtt sauma. Svíar sticka nú á dögum þegar þeir prjóna.
 • Strikke / stricke var notað í Danmörku og Svíþjóð. Orðið kemur fyrir í ýmsum myndum, t.d. þekkjast strick-, strix, strigstrømper í  dönskum textum frá 17. öld. Strikke er nútíma danska og norska sögnin yfir prjóna.
 • Spita (og spyte) var algengt víða í Noregi. Sums staðar var notað orðmyndin spøte.

Að mati Inge Lise Pedersen má skipta norrænum orðunum sem þýða prjóna nokkurn veginn í þrjá flokka:

Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er við garnið; binde, knytte, lænke, strikke þýða í raun öll að hnýta saman þráð í hnúta eða lykkjur;
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er með prjónunum; pinde, pregle, prjóna, spøte (og sticka?) lýsa því að prjónum er stungið í lykkjur til búa til nýjar lykkjur;
Flokkur orða sem eru fengin að láni úr annarri hannyrðahefð; sy, sömma (og sticka?).
 
 
 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar birt af Hinu Íslenzka Bókmenntafélagi 1919-1940. Páll Eggert Ólason sá um þessa útgáfu.
Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
Føroysk orðabók. Føroya Fróðskaparfélag 1998.
Guðbrandsbiblía (Biblía. Þad Er Øll Heilóg Ritning vtlógd a Norrænu.) útg. 1584.
Jakobsen, Jakob. Etymologisk ordbog over det norrøne sprog på Shetland. Útg. 1921.
Jón  Hilmar Magnússon. Íslensk færeysk orðabók. Útg.  2005
Luther, Martin. Passio. Þad er Historian Pijnunnar og Daudans vors Frelsara Iesu Christi. Útg. 1600.
Morset, Margarete. Hårnål eller heklenål?  Spor - fortidsnyt fra midt-norge. 1987, 2. árg. 4. hefti s. 8-9.
Orðabók Árnanefndar: Ordbog over det norrøne prosasprog. Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóli.
Pedersen, Inger [svo] Lise. Binde, pregle, spita, sticka, sy. Udkast til en kortlægning af nordisk strikketerminologi. Nordiska Studiar. Innlegg på den tredje nordiske dialektologkonferansen, s. 303- 325. Útg. 1988 (en ráðstefnan var haldin 1986).
Svabo, J. C. Dictionarium Færeoense. Færøsk - dansk - latinsk ordbog. Útg. 1966
Stratmann, Francis Henry og Henry Bradley. A Middle-English Dictionary. Útg. 1891.

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

23. september 2012

María mey prjónar

Til eru nokkur gömul málverk sem sýna Maríu mey prjóna. Þessi málverk eru fyrst og fremst heimild um að prjón hafi þekkst á dögum málaranna og á þeirra heimaslóðum.  En auðvitað eru þessar myndir líka heimild um kyrtilinn saumlausa hans Jesú og að mamma hans hafi prjónað hann :)
 

Mar�a mey prjónar  

  Ambrogio Lorenzetti bjó í Siena á Ítalíu. Talið er að hann hafi látist 1348 þegar svartidauði geisaði í borginni. Þetta málverk tilheyrir myndastíl sem kallaður hefur verið Madonna auðmýktarinnar, Madonna dell’Umilitá. Á slíkum myndum situr María mey ekki í hásæti heldur á gólfinu. Talið er að Lorenzetti hafi málað þessa mynd um 1345. María prjónar úr rauðu garni með fjórum prjónum í hring en ómögulegt er að sjá hvað hún er að prjóna. Garninu bregður hún yfir hægri vísifingur. Á gólfinu sést hringlaga tréstykki með garnspólum í ýmsum litum. Jósef situr þarna hjá mæðginunum.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af Maríu og Jesú.

Mar�a mey prjónar 
  

  Þetta málverk er eftir ítalska málarann Tommaso da Modena (1325-1375). Það er hluti af þremur panelmyndum þar sem María situr alls staðar í hásæti: Á einni myndinni situr hún með bók í kjöltu sér, á annarri hefur hún Jesúbarnið á brjósti og á þessari þriðju er hún að prjóna, með Jesú sér við hlið. Hún prjónar í hring, að því er virðist með fimm prjónum, Garnið er á spólum á hringlaga stykki, alveg eins og á mynd Lorenzetti, en á þessu málverki situr María með spólustykkið kjöltunni. Talið er að myndin sé máluð á árabilinu 1345-1355.Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu.

Mar�a prjónar saumlausan kyrtil Jesú  

  Þetta er líklega frægasta myndin af Maríu mey að prjóna, málverkið er hluti af Buxtehude-altaristöflunni svokölluðu (af því hún var máluð fyrir benediksnunnur í Buxtehude, Þýskalandi). Meistari Bertram (af Minden), þýskur málari sem uppi var 1345-1415, málaði Buxtehude-altaristöfluna líklega skömmu fyrir árið 1400. Þessi hluti altaristöflunnar er oft nefnd “Heimsókn englanna” enda sjást þeir Mikael og Gabríel erkienglar heimsækja þau mæðgin Maríu og Jesú, berandi tákn sem boða krossfestinguna. 

María er að ljúka við kyrtilinn saumlausa, sem Jesú bar síðan til dauðadags. Hún hefur prjónað hann í hring, á fjóra eða fimm prjóna, og virðist hringúrtaka á berustykkinu.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. 

Mar�a mey prjónar
  

  Þetta málverk sýnir Madonnu auðmýktarinnar, Madonna dell’Umiltà, og var málað af  ítalska málaranum Vitale degli Equi. Málverkið er talið frá því um 1350. Á því sjást Maríu mey, heilög Katrín og einhver annar dýrlingur. Jesús litli situr við hlið móður sinnar og grípur í garnspólu á hringlaga borði. Að sögn Richards Rutt (í A History of Hand Knitting) er María með prjónles í hendi en er einmitt að kitla Jesú litla undir kinn með vísifingri sömu handar. Prjónlesið er með blómamunstri í tveimur litum. Ekki er hægt að sjá hvað þetta á að vera, það virðist of vítt til að vera sokkur, of þröngt til að vera barnskyrtill. Rutt stingur upp á að þetta sé skjóða, svipuð og fornar svissneskar skjóður sem hafa varðveist og geymdu helga dómaSmelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. Sjálf get ég ekki með nokkru móti séð að þetta sé prjónað stykki, hvað þá að ég komi auga á prjónana. Og ég sé ekki betur en María hafi sex fingur … En ég hef náttúrlega ekki séð málverkið sjálft, sem ég reikna með að Richard Rutt hafi skoðað vel. 
 

Mar�a mey nálbregður kyrtil 

  Þessi mynd sýnir hluta koparstungunnar Heilaga fjölskyldan eftir Veit Stoß/Stoss (kallaður Wit Stwosz á pólsku) sem uppi var 1447-1533. Hann var þýskur en starfaði um tíma í Póllandi. Koparstungan er talin frá um 1480 og sýni Maríu nálbregða kyrtilinn saumlausa. Henni var fleira til lista lagt en prjónaskapur. 
 

Mar�a mey prjónar sokk 

  Á þessari tréristu frá 1619, eftir hinn flæmska Hieronymus Wierix, sjást þeir feðgarnir Jósef og Jesús smíða bát og englar aðstoða Jesú við verkið. María situr hjá og prjónar sokk, að því er virðist úr tveimur hnyklum í senn svo kannski hefur þetta verið útprjónaður sokkur.

Mar�a mey prjónar kyrtil 

  Þessi mynd af Maríu að prjóna, líklega kyrtilinn saumlausa, er mun nýrri en myndirnar að ofan. Þetta er grafíkmynd eftir breska listamanninn Eric Gill (1882-1940).

Mar�a og helgar meyjar 

  Á þessu málverki frá 1465, sem bræðurnir spænsku Nicolás og Martín Zahortiga máluðu, sést María í hásæti og heldur á Jesú. Í kringum hana eru margar helgar meyjar og sumar þeirra sinna hannyrðum; ein saumar, tvær vefa og ein er að prjóna marglitan sokk. Smelltu á myndina til að sjá stækkaða útgáfu af hannyrðakonunum. 

Hér að neðan eru tvær aðrar myndir sem sýna helgu prjónakonuna, smelltu á þær til að sjá stærri útgáfur:
Helg mær prjónar Helgar meyjar og hannyrðir

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns