Færslur undir „handavinna“

20. september 2012

Sture-vettlingurinn og dramatík í konungsfjölskyldu

Sture vettlingurinnÞennan fingravettling átti Svíinn Sten Svantesson Sture. Hann var af stórmennum kominn því faðir hans var Svante Stensson Sture, ríkismarskálkur, greifi, fríherra og á tímabili landstjóri yfir Eistlandi. Svante var og vinur konungs, Eiríks XIV, en því miður var sá kóngur geðveikur, talinn hafa þjáðst af geðklofa, og vó Nils Svanteson, bróður Stens í brjálæðiskasti. Menn konungs drápu föðurinn, Svante, og annan bróður, Erik Svantesson, við sama tækifæri. (Eiríkur XIV Svíakonungur kemur reyndar líka við prjónasögu Svíþjóðar því hann er talinn fyrstur Svía hafa eignast prjónaða sokka, árið 1562. Sokkarnir voru enskir, prjónaðir úr silki og rándýrir.) Eiríkur konungur má eiga það að hann iðraðist þessa óhæfuverks ákaflega þegar af honum bráði.

Móðir Stens Svantessonar Sture var Märta Erikdotter Leijonhufvud.  Hún var systir drottningar Svíþjóðar á tímabili, þ.e. Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud, sem hafði raunar upphaflega verið trúlofuð Svante Stensson Sture en Gústaf konungur Vasa sleit trúlofuninni og kvæntist Margaretu sjálfur. Svante fékk eiginlega Mörtu í staðinn. Marta þessi var kunn að stórmennsku, eignaðist 15 börn með Svante sínum, sá iðulega ein um börn og bú því Svante var mikið að heiman og hlaut viðurnefnið Marta konungur af sínum skörungsskap. Í anda sumra kvenhetja Íslendingasagna  varðveitti hún blóðug klæði feðganna og lét koma þeim fyrir í skreyttri járnkistu í grafhvelfingu Sture fjölskyldunnar í dómkirkjunni í Uppsölum. Því miður hefur dálítið verið rutlað með klæðin síðan og hluta þeirra stolið í aldanna rás en það sem eftir er þykir mikilvægur skerfur í klæðasögu Svía

Sture drápin voru framin 24. maí 1567. En þá hafði eigandi fingravettlingsins verið látinn í tvö ár. Sten Svantesson Sture var nefnilega skipherra á herskipi konungs og féll í sjóorustu við Rügen 1565, 21 árs að aldri. Einhverjum fötum hans var einnig komið fyrir í járnkistunni, þ.á.m. þessum fingravettlingi. Hann var upphaflega nældur við skipherrahattinn hans Stens en hattinum hefur fyrir löngu verið stolið.

Fingravettlingurinn er prjónaður úr silkigarni og gullþræði. Prjónafestan er um 9 lykkjur á sentimetra. Upphaflega voru litirnir í munstrinu gulur, grænn og appelsínugulur og grunnurinn skarlatsrauður (að sögn Agnesar Gejer) en sumir litirnir hafa upplitast mjög (mér finnst reyndar þessi staðhæfing Gejer um „karmosinröd botten“ tæplega geta staðist). Á vísifingri, baugfingri og litlafingri eru prjónaðir hringir úr gullþræði. Orðin „FREVCHEN SOFIA“ eru prjónuð í hring um miðjan vettlinginn (segir Agnes Gejer, Richard Rutt og Nancy Bush segja þessi orð prjónuð yfir lófann). Handarbreidd er 7 cm og vettlingurinn er 17 cm langur. Það er mjög lítill vettlingur og þess vegna giska menn á að Sofia þessi hafi átt hann því hann geti ekki hafa passað á Sten. Sjá má stærri mynd af vettlingnum með því að smella á myndina sem fylgir færslunni.

En hver var Sofia? Til þessa hafa menn talið að þetta hafi verið einhver þýsk stúlka (fröken Soffía sem sagt) sem hafi verið trúlofuð Sten Svantesson Sture og fingravettlinginn hafi hún sjálf prjónað og gefið Sten í tryggðapant. Nýverið hefur svo verið sett fram sú kenning að „frevuchen“ hafi á sextándu aldar sænsku þýtt prinsessa. Þessi kenning er eignuð Lise Warburg, mjög frægri danskri veflistarkonu sem jafnframt hefur skrifað talsvert um textílsögu - í hana vitnar Nancy Bush í grein um hanska í tímaritinu Knitting Traditions 2010. Ég hef því miður ekki komist yfir frumheimildina.

Sofia Gústafsdóttir VasaAf frásögn Nancy Bush af því sem Lise Warburg heldur fram má ráða að Sofia sé engin önnur en Sofia Gustavsdotter Vasa, dóttir Gústafs Vasa Svíakonungs og Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud. Sofia Vasa var þremur árum yngri en Sten Svantesson Sture og skv. þessu voru þau trúlofuð þegar Sten féll. Þremur árum síðar giftist hún dusilmenninu Magnúsi II hertoga af Sachsen-Lauenburg, fyllibyttu sem lagði margoft hendur á hana og var ömurlegur eiginmaður. Magnús þessi var bróðursonur fyrri konu Gústafs Vasa, sem sagt ekki skyldur Sofiu en nátengdur fjölskyldu hennar. Jóhann III Svíkonungur, sem tók við þegar Eiríkur XIV var settur af vegna geðveiki (og seinna myrtur með arseniki), var albróðir Sofiu og rak Magnús hertoga úr landi þegar þau Sofia höfðu verið gift í tíu ár. Eina son sinn missti hún ungan af voðaskoti. Eftir það bjó hún ein til dauðadags en hún lést 64 ára að aldri. Hún varð sinnisveik á sínum hjónabandsárum og jafnaði sig aldrei. Sofia hefur verið sögð „óhamingjusamasta barn Gústafs Vasa“ - líklega hefur hún mornað og þornað og aldrei táð tanna frá því fullorðinsaldri var náð. Sjá má yfirlit yfir æviferil Sofiu hér.

Kenningin er skemmtileg en í fyrsta lagi finnst mér allt eins líklegt að „freuvchen“ hafi verið þýska orðið yfir fröken og í öðru lagi má benda á að þau Sten Svantesson Sture og Sofia Gustavsdotter Vasa voru systrabörn og spurning hvort hjónaband þeirra hefði verið löglegt í Svíþjóð á sextándu öld?

En hvort sem einhver þýsk frauka að nafni Sofia eða Sofia Svíaprinsessa prjónaði og átti þennan fingravettling er þetta fallegur vettlingur. Hann er með elsta prjónlesi sem varðveist hefur í Svíþjóð.
 

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Bush, Nancy. 2010. „Romantic Gloves“ í Knitting Traditions 2010;
Gejer, Agnes. 1964. Textila skatter i Uppsala domkyrka från åtta åhundraden;
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

18. september 2012

Baltneskir vettlingar

Í þessari færslu er einkum fjallað um prjónaðan eistneskan vettling frá 13. öld en einnig gerð lítilsháttar grein fyrir eistneskum og lettneskum vettlingum.
 
 

Vodíski vettlingurinn í Eistlandi

Lítil prjónapjatla fannst í uppgreftri í vodískum greftrunarstað í eistneska bænum Jõuga árið 1949. (Vodar voru þjóð sem talaði finnsk-úgrískt tungumál, nú nánast útdautt, og bjuggu við Eystrasalt og í Rússlandi. Leitt hefur verið getum að því að Kylfingar þeir sem koma fyrir í Egils sögu hafi verið Vodar en sú ágiskun er reist á afar ótraustum grunni.) Í gröfinni í Jõuga hvíldi kona og af því þessi litla pjatla lá við handarbeinin er talið að hún sé leifar af belgvettlingi. Sú ágiskun byggir á því að prjónaðir hanskar/ fingravettlingar urðu ekki vinsælir meðal eistneskrar alþýðu fyrr en á átjándu. öld. Gröfin er talin vera frá því einhvern tíma á árabilinu 1238-1299.

Þessi vettlingur hefur verið prjónaður á nokkra prjóna, þ.e. sléttprjónaður í hring. Raunar er allt elsta prjónles sem hefur fundist prjónað þannig því menn lærðu ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sextándu öld, að talið er. Hann var tvíbandaprjónaður úr ullargarni og eru litirnir í munstrinu rauður og blár, grunnurinn úr ólitaðri hvítri ull. Bláa garnið var litað með indígó og rauða garnið með möðrurót (Rubia tinctorum). Rauður litur var talinn hafa varnarmátt segir í greininni sem ég styðst aðallega við um þennan vettling.
 
 

Vod�ski vettlingurinn 
Myndin er af vodísku prjónapjötlunni
Vod�ski vettlingurinn

Pjatlan er líklega af stykki sem leit svona út

Vod�ski vettlingurinn munstur

Munstrið er svona

Menn hafa eitthvað deilt um hvort þessi vettlingur og nálbrugðnir vettlingar sem fundist hafa í vodískum grafreitum í norðaustur Eistlandi hafi verið hluti af líkklæðum, hafi verið hluti af brúðarklæðum hinnar látnu eða tilheyrt hvunndagsklæðnaði. Helst er talið að vettlingarnir hafi verið prjónaðir sérstaklega fyrir jarðsetningu.

Vettlingspjatlan úr vodíska grafreitnum í Jõuga er elsta þekkta dæmið um prjón í austur og norður Evrópu og er þ.a.l. stórmerkilegur fundur. Sjá má endurgerð af þessum vettlingi hér.

Þeim sem vilja kynna sér þennan merka vettling rækilega er bent á grein Anneke Lyffland: A study of a 13th-century votic knit fragment.  Í grein Juri Peets, Totenhandshuhe im Bestattungsbrauchtum der Esten und anderer Ostseefinnen (birtist fyrst í Fennoscandia archaeologica IV árið 1987), er gerð grein fyrir vettlingaleifum fornum sem fundist hafa í Eistlandi en allir nema þessi sem um var fjallað að ofan eru nálbrugðnir.
 
 

Aðrir eistneskir vettlingar

Til skamms tíma var bók eistneska þjóðfræðingsins Ilmari Manninen, Eesti Kindad (Eistneskir vettlingar), útg. 1927 helsta heimildin um efnið. Hægt er að hlaða henni niður á pdf-formi héðan og þótt maður skilji ekki orð í eistnesku er gaman að skoða myndir af gripunum sem hann fjallar um, athugið að aftast í bókinni eru litmyndir.
 

Til gamans má geta þess að Eistur nálbrugðu vettlinga langt fram á átjándu öld þótt prjónakunnátta hafi fyrir löngu verið almenn og er í Eistlandi þekkt orðatiltækið „Prjónaðir vettlingar - löt eiginkona“ (sjá s. 16 í Crafts and Arts in Estonia). Það tekur vitaskuld miklu lengri tíma að nálbregða vettling en prjóna hann og nálbrugðinn vettlingur raknar ekki svo glatt upp. Í Karelíu í Finnlandi var haft á orði alveg fram undir seinni heimstyrjöldina að eiginkona væri illa að sér kynni hún ekki að nálbregða og var þar um slóðir lagt þeirri konu til lasts að geta ekki nálbrugðið vettlinga handa sínum eiginmanni (sjá tilvitnun í Toini-Inkeri Kaukonen, „Kinnasompelun levinneisyys ja työtavat Suomessa“, Suomen Museo 1960, s. 44-71, á  Neulakinnas Nalbinding). Þessi orðatiltæki sýna áhugaverð tengsl milli prjónamenningar finnsk-úgrískra þjóða.
 

Eistnesk prjónabókÁ síðunni Silmuskudumise ajaloost (prjónasaga) á Etnograafilised koed - kirjamine ja roosimine sést mynd af eistneskum fornleifum (vettlingum). Krækjur á krækjulista til vinstri á síðunni vísa á síður með myndum af gömlu eistnesku prjónlesi, þó ekki fornminjum. Það er mjög gaman að skoða þessa síðu. Myndin til hægri er af eistneskri prjónabók um vettlinga, sem er nýkomin út á ensku (myndin krækir í sölusíðu Amazon). Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá þarna íslenskan galdrastaf, draumstaf eða Ginni, útsaumaðan á handarbök því uppskriftir í bókinni eru sagðar byggja á gömlum hefðbundnum eistneskum mynstrum.

Lettneskir vettlingar

Eistneskur vettlingur frá 15.öldIrena Turnau heldur því fram að í Lettlandi hafi fundist prjónles frá fjórtándu og fimmtándu öld: Prjónuð húfa og fernir vettlingar, þar af tvennir fingravettlingar. (Turnau, Irena, 1991. History of Knitting before Mass Production.)  Því miður hef ég ekki fundið neinar myndir af þessum gripum og heldur ekki getað haft upp á umfjöllun um þá, hef einungis fundið munstrið sem sést hér til hliðar og ku vera af öðrum af þessum fingravettlingum, frá fimmtándu öld. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.) Satt best að segja hafa margir lýst vantrausti á fullyrðingar Irenu Turnau um hversu gamlar leifar af prjónlesi við Eystrasalt og í Austur-Evrópu eru. Heimildir þær sem hún vísar í liggja hins vegar ekki á lausu.

Hafi fólk áhuga á lettneskum vettlingamunstrum mæli ég með síðunum:

 

  • LATVIEŠU CIMDU RAKSTOS (Lettnesk vettlingamunstur) á RITMS un SIMETRIJA. Krækjur til vinstri á síðunni vísa í myndir af fjölda lettneskra vettlingamunstra;
  • Picasa-síða Iaima Stendze geymir mörg lettnesk munstur, líklega skönnuð úr bók, sjá Latviešu rakstainie cimdi.
     

Litháískir vettlingar

Einhverra hluta vegna virðist áhugi á litháískri prjónamenningu og þ.m.t. vettlingum vera miklu minni en á þeim eistnesku og lettnesku. Áhugasamir ættu þó að geta fundið einhvern fróðleik á vef Donnu Drochunas, Sheep to Shawl, sem er að skrifa bók um litháískt prjón. Sjá t.d.:

Tengsl milli baltneskrar og tyrkneskrar prjónahefðar?

Bent hefur verið á líkindi milli baltneskra (eistneskra og lettneskra) vettlinga og tyrkneskra sokka, bæði hvað varðar munstur og snið (sbr. baltneskir totuvettlingar og tyrkneskir totusokkar með totuhæl). Anne Zilboorg segir í bókinni Traditional Knitting Patterns of Turkey. Fancy Feet, útg. 1994, s. 9-10: „Sumir lettneskir vettlingar og tyrkneskir sokkar eru svo líkir og svo ólíkir prjónahefð annars staðar að það er erfitt að horfa fram hjá mögulegum tengslum. [- - -] Ein skýringin á tengslum milli þessara prjónahefða kann að vera norður-suður verslunarleiðin frá Byzans [Miklagarði] gegnum Rússland [Garðaríki], sem blómstraði uns Mongólar náðu yfirráðum í Rússlandi á þrettándu öld.“ Sjálfri finnst mér þetta afskaplega ólíkleg skýring og held að líkindin séu tilviljun.
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

12. september 2012

Saga prjónaðra vettlinga og hanska I

Saga hannyrða er eitt af áhugamálum mínum. Miðað við heimsóknir á bloggið og vefsíður um efnið (oftast gegnum Google-leit) er nokkur hópur sem hefur einnig áhuga á þessu. Færslan verður fléttuð í vefinn Saga prjóns síðarmeir. Mér finnst ágætt að blogga fyrst um efnið, fá athugasemdir og ganga svo endanlega frá skrifunum á vef.
 

Áður en prjónakunnátta varð algeng í Evrópu voru vettlingar og hanskar saumaðir eða nálbrugðnir. Hér á landi hafa fundist minjar um hvort tveggja: Sjá t.d. mynd af íslenskum saumuðum vaðmálsvettlingum, greinina Three Icelandic Mittens á Medieval Baltic, grein Elsu E. Guðjónsson, Forn röggvavefnaður, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1962 og grein Margarethe Hald, Vötturinn frá Arnheiðarstöðum, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949. Á síðunni Hansker og votter á Kongshirden 1308 Akershus má sjá nokkrar myndir af gömlum norskum og sænskum nálbrugðnum vöttum. Finnar héldu áfram að nálbregða vettlinga fram á 19. öld, þótt þeir hefðu þá fyrir löngu lært að prjóna. Á síðu Satu Hovi er grein um þetta, Viking and Medieval Nålebinding Mitten Replicas. Based on archaeological finds from Finland, með fjölda mynda.

 

 

Biskupshanskar

Rauður prjónaður biskupshanskiHin nýja tækni, prjón, var mjög snemma tekin í þjónustu kirkjunnar. Í safni elsta prjónless sem varðveist hefur í Evrópu er fjöldi biskupshanska, hverjir öðrum skrautlegri.  Líklega höfðu biskupar tekið upp skrúðhanska (litúrgíska glófa) talsverðu fyrir daga prjóns, þá saumaða eða nálbrugðna. Virðist notkun skrúðhanska orðin almenn á 12. öld, á 14. öld báru þá allir biskupar og sumir ábótar og aðrir kirkjunnar þjónar. Yfirleitt voru þessir hanskar nefndir grísku heiti, stafsett chirothecae á enskan máta (sem þýðir eiginlega „handa-hulstur“). Myndin er af fremur dæmigerðum spænskum prjónuðum biskupshanska úr silki, frá sextándu öld. Sé smellt á myndina opnast síða um hanskann á vef Viktoríu og Albertssafnsins í London.

nálbrugðinn hanski biskupsins � ToledoNálbrugðinn hanski frá 13. öldTil vinstri má sjá mynd af nálbrugðnum hanska Rodrigo Ximanénez de Rada, erkibiskups í Toledo, sem dó árið 1247.  Glófarnir hans voru fallega „útnálbrugðnir“ úr fínum silkiþræði eins og önnur nálbrugðin spænsk stykki frá sama tímabili. Mun yfirlætislausari eru nálbrugnir hanskar Pierre de Courpalay ábóta, sem lést 1334, sjá mynd til hægri. Þeir eru úr ólituðu silki en fallega munstraðir. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Biskupshanskar/biskupsglófar voru hluti af biskupsskrúða kaþólsku kirkjunnar og fyrst voru þeir oftast úr ólituðu eða hvítu silki enda skyldu þeir tákna hreinleika. En í Ordo Romanus XI  (hvað heitir þetta á íslensku?) árið 1271 var leyft að hanskarnir væru í sama lit og biskupskápan. Rauðir hanskar urðu algengastir en fundist hafa bláir, fjólubláir, bleikir og grænir biskupshanskar. Aldrei voru notaðir svartir hanskar. Fyrst voru hanskarnir skreyttir með skrautskildi á handarbaki, síðan var farið að sauma eða prjóna út handarlíningar og enn seinna prjóna eða sauma út hring á hvurn fingur.

Prjónaður hanski frá þrettándu öldSkv. þeim heimildum sem ég hef aðgang að eru elstu leifar prjónaðra biskupshanska tvær pjötlur úr grafhýsi Siegfrieds von Westerburg biskups, sem var jarðsettur í Bonn árið 1297. Af leifunum má ráða að handlíningar voru prjónaðar með tvíbandaprjóni, munstrið eru bláir og gullnir ernir, rósir með átta krónublöðum og Andrésarkrossar; sumsé sömu mynstur og eru á prjónuðu spænsku þrettándu aldar svæflunum. Munstrin ku minna talsvert á hefðbundin munstur á norskum Selbu-vettlingum. Því miður hef ég hvergi fundið mynd af þessum pjötlum. Hins vegar fann ég mynd af svokölluðum St Rémy hönskum sem geymdir eru í St. Sernin dómkirkjunni í Toulouse. Þeir eru prjónaðir úr fíngerðum hvítum silkiþræði og næsta skrautlausir; á handarbökum eru skrautskildir úr silfri og gulli, myndefnið er annars vegar kross, hins vegar lamb. Nær öruggt er talið að þessir hanskar séu frá þrettándu öld. Sé smellt á litlu myndina til vinstri kemur upp stærri mynd. Á einni af vefsíðum Franska menningarmálaráðuneytisins er svarthvít mynd af þessum hönskum og upplýsingar um þá.

prjónaður hanski heilags AðalbertsSvo má nefna tvenna prjónaða hanska sem tengdir eru heilögum Aðalbert og eru með elsta varðveitta prjónlesi í Evrópu. Annað parið er varðveitt í Prag og  talið frá fyrri hluta fjórtándu aldar, prjónað úr gráu, hugsanlega ólituðu, silki með þremur grænum röndum á ermalíningum. (Svarthvíta myndin til hægri er af öðrum þessara hanska, hann er illa farinn sem sjá má.) Hitt parið er frá síðari hluta fjórtándu aldar og varðveitt í kirkju heilags Vinceslas í Stará Boleslav, í nágrenni Prag. Þeir hanskar eru prjónaðir úr ólituðu silki, í handlíningum er einfaldur útsaumur með lituðu silkigarni og gullþræði.

Þegar á leið urðu skrúðhanskar kaþólsku kirkjunnar æ íburðarmeiri og var skrautið ýmist prjónað út eða saumað í einlitt prjón. Hafi fólk sérstakan áhuga á að skoða biskupshanska, sem eru  fyrirferðamikill hluti elstu prjónastykkja sem varðveist hafa í Evrópu og með skrautlegasta prjónlesinu, má benda á þessar síður:

Þorlákur helgiEftir því sem ég best veit hafa ekki fundist neinar leifar biskupshanska hér á landi. Það er þó engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að biskupar í kaþólskum sið hafi brúkað skrúðhanska eigi síður en kollegar þeirra erlendis. Glófar eru fyrst nefndir í Páls sögu biskups en síðar einungis getið í Hóladómkirkjuregstrum frá árunum 1374, 1396. 1525 og 1550. Á teikningum í handritum má sjá biskupa og dýrlinga bera hanska, einnig á örfáum útskurðarmyndum úr kaþólskum sið. Til hægri sést hluti myndar af Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti, heilögum Þorláki, sem prýðir frægt altarisklæði Hóladómkirkju. Klæðið er líklega frá öðrum fjórðungi sextándu aldar, refilsaumað og mögulega saumað af  Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Á klæðinu sjást hanskar Þorláks biskups prýðilega sem og roðasteinar eða skrautskildir sem prýða þá - Kristján Eldjárn telur að þetta séu tigullaga silfurplötur eða útsaumaðar eftirmyndir af svoleiðis.
 
 
 

Næsta færsla fjallar um prjónaða vettlinga.
 

Helstu heimildir:

Bækur:

Kristján Eldjárn. 1992. Skálholt: skrúði og áhöld. Reykjavík.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting. Colorado, Bandaríkjunum.
Schoeser, 2003. Mary. World Textiles. A Concise History. London.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskatter fra fillehaugen. Kristjansand, Noregi.
Turnau, Irena. 1991. History of Knitting before Mass Production. Varsjá, Póllandi.
 

Vefsíður aðrar en þær sem krækt er í úr textanum

Episcopal Gloves í Catholic Encyclopedia á The New Advent
Histoire du tricot (1) - les origines og Histoire du tricot (2) - Du XIV e au début du XVIIe siècle á Les Petites Mains. Historie de mode enfantine.
Kleidung - Nadelgebundene Seidenhandschuhe á Diu Minnezit
Um vettlinga á Pearl’s Journal
Slik var klærne i middelalderen í Aftenposten 3. apríl 2007
Medieval Gloves á MyGen
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

7. september 2012

Hversu íslensk er áttblaðarós?

Ég hef lengi ætlað að blogga um munstur, sérstaklega áttblaðarós, sem margir virðast halda að sé séríslenskt munstur, til vara norrænt munstur, en er í rauninni alþjóðlegt munstur.

ÁttblaðarósHeitið á þessu munstri er dálítið misvísandi því til er annað mjög algengt munstur sem er stílfærð rós með átta krónublöðum. Það segir kannski ákveðna sögu að orðið er hvorki að finna í Íslenskri orðabók (útg. Edda) né í Ritmálssafni Háskóla Íslands. Hins vegar eru dæmi um  áttablaðarós í Ritmálssafninu; hið elsta er frá því seint á nítjándu öld og ekki hægt að sjá af því hvort um nákvæmlega sama munstrið er rætt en næstelsta dæmið á örugglega við þetta munstur. Það er úr Kvennablaðinu, 1. tbl. 1900, s. 7: „Uppdrátturinn er bezt að sé einhver „geometrisk“ mynd, t. d. stjarna, eða sem kallað er áttablaðarós, með sterkum litum, og sé svo fylt upp í kring með dökkleitara garni.“

Í nútímaprjónauppskriftum á ensku er þetta munstur oft tengt Noregi og kallað „Norwegian Star“ eða „Selbu Star“. Á norsku er það oftast kallað „åttebladsstjerna“ en stundum sérstaklega tengt Selbu-munstrum og kallað Selbusrosa. Selbu-stíllinn er samt alls ekki gamall eins og sumir halda heldur má rekja þessa ágætu hönnun til Marit Guldsetbrua Emstad sem skilaði inn vettlingum með „selburosa“ til Husfliden í Þrándheimi árið 1897. Það sem einkennir Selbu-stíl öðru fremur er að munstrin eru yfirleitt svört og grunnurinn hvítur.

Í Noregi eru til innfluttir silkiprjónjaðir jakkar frá því um 1600 með áttblaðarósamunstri, ýmist útprjónaðir í lit eða einlitu útprjóni (damaskprjóni). Svo prjónaði alþýðufólk eftirlíkingar af þessum jökkum. Jakkarnir og eftirlíkingarnar voru kallaðar „nattrøyer“. Í Danmörku prjónuðu menn líka „natttrøjer“. Þær voru prjónaðar með damask-prjóni, þ.e. voru einlitar en brugðnar (snúnar) lykkjur mynduðu munstur og reiti á sléttum grunninum. Áttblaðarósin var mjög algengt munstur á svona treyjum / jökkum, bæði í Noregi og Danmörku. Íslendingar virðast hins vegar ekki hafa hermt þetta eftir og eru minjar um íslenskt einlitt útprjón einungis tvær fremur ómerkilegar tutlur.

Áttblaðarós þekkist víða um heim, táknar ýmislegt og er örugglega ævagamalt mynstur. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

ÁttblaðarósMafaldapúðinn er eitt af elsta varðveittu prjóni í Evrópu, talinn prjónaður á 13. öld, er skreyttur áttblaðarósum. Á honum má raunar sjá bæði átta-arma-stjörnuna sem hérlendis er kölluð áttblaðarós, og raunverulega áttablaðarós, þ.e. rós með átta krónublöð.

 

 

ÁttblaðarósÁttblaðarósin (átta-arma-stjarna) er eitt af þjóðartáknum Lettlands.  Hún tengist gyðjunni Auseklis sem í lettneskri goðafræði samsvarar Venus í rómverskri goðafræði. Áttblaðarósin táknaði einmitt reikistjörnuna Venus meðal Babýloníumanna um 1600-1150 f.Kr. og var einnig tákn gyðjunnar Ishtar (frjósemisgyðju sem tengd var plánetunni). 
 

 
 

ÁttblaðarósSkv. kristinni táknfræði stendur áttblaðarósin fyrir Jesú Krist; „Ég er rótarkvistur Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan“ sagði Jesú (Opinberunarbókin 22:16). En María mey er einnig tengd áttblaðarósinni því munstrið ku einnig nefnt maríustjarna. Áttblaðarós má og nota til að tákna Betlehemsstjörnuna.

 

 

ÁttblaðarósMunstrið er velþekkt fyrir botni Miðjarðarhafs og er stundum talið sérstakt palestínskt munstur. Það vakti nokkra athygli í mínum heimabæ, Akranesi, þegar palestínskar konur sem hingað komu úr flóttamannabúðum en bjuggu áður í Íran settu upp hannyrðasýningu og líta mátti „íslensku“ áttblaðarósina á sumum verkanna (hér er dæmi um það).

 

ÁttblaðarósTyrkir kalla áttblaðastjörnuna stundum frelsisstjörnu. Og mætti lengi telja misjöfn heiti og misjafna merkingu sem tengd er þessu alþjóðlega munstri. Þeim sem hafa svo áhuga á dulfræðilegum eiginleikum sem eignaðir eru áttblaðarósinni er bent á að lesa skáldsögu Óttars Norðfjörð, Áttablaðarósina, sem kom út 2010.

 

 

Í gömlum sjónabókum íslenskum, þ.e. handritum með munstrum, er áttblaðarósina auðvitað að finna. En þessi munstur voru fyrst og fremst hugsuð fyrir útsaum og langflest eru alveg eins eða náskyld munstrum í útlendum prentuðum bókum. Eftir því sem ég best veit er einungis eitt afbrigði af áttblaðarósinni sem gæti verið séríslenskt, það er oft kallað Skaftafellsrósin.

Elstu íslenskar minjar um útprjón í lit er smápjatla með bekk í tveimur litum á einlitum grunni, líklega frá 18. öld. Næstelstu minjar um svona prjón eru frá seinni hluta 19. aldar. Frá þeim tíma og fram yfir aldamótin 1900 er slíkt varðveitt prjónles nær einvörðungu vestfirskir laufavettlingar og mér þykir ólíklegt að finna megi áttblaðarós á þeim. Til eru prjónaðir vettlingar frá því seint á 19. öld með ísaumaðri áttblaðarós, með fléttusaumi. Um eða uppúr 1900 hefst uppgangur myndprjóns þar sem áttblaðarós í ýmsum útgáfum var með vinsælustu munstrum, nefnilega í garðaprjónuðum íleppum, og um svipað leyti náði tvíbandaprjón vinsældum. 
 

Nú kann að vera að stefni í dómsmál þar sem áttblaðarósin kemur við sögu. Fyrir skömmu hótaði ullarverksmiðjan Drífa, sem framleiðir undir vörumerkjunum Icewear og Norwear, að kæra fyrirtækin The Viking og Álafoss fyrir að framleiða og selja vöru sem sé óeðlilega lík vöru Drífu og í þokkabót selja hana mun ódýrar en Drífa gerir. Sjá Ullarverslanir sakaðar um hönnunarstuld, á vef  RÚV., Vísar ásökunum um hönnunarstuld á bug á RÚV, Segir atlögu gerða að íslenskri hönnun á vef Mbl. og  „Aldagamalt og sígilt mynstur“ á vef Mbl.; allar fréttirnar eru frá 30. ágúst sl. Ég er ekki að bera blak af hönnunarþjófnaði en velti fyrir mér hversu mikinn einkarétt ullarverksmiðjan Drífa getur haft á þessu prjónlesi sem forsvarsmenn hennar telja stolna hönnun. Augljóslega getur Drífa ekki átt einkarétt á fingravettlingum, GSM-grifflum/vettlingum og húfum. Litasamsetning er með algengasta móti. Má því ætla að meginumkvörtunarefnið sé það sem Drífa álítur sitt munstur, sjá hitt skjalið sem sent var RÚV.

Grunnmynstrin eru svona:
 
 

Munstur Drífu Munstur The Viking / Álafoss
Áttablaðarós Dr�fu Icewear Norwear Áttablaðarós The Viking Álafoss
T�gull Dr�fu Norwear Icewear Úr áttblaðarós The Viking /Álafoss ganga skálínur milli armanna og enda á ferningum (eins og tíðkast í hamarsrós). Milli áttblaðarósanna er mjög lítill tígull - oft er það munstur kallað einhvers konar fuglsauga.

Af því sem ég hef rakið hér að ofan er eiginlega augljóst að ekkert íslenskt fyrirtæki getur eignað sér áttblaðarósina sem sína hönnun. Og heldur ekki tígulinn sem er sömuleiðis þekkt munstur víða um veröld og gefin ýmis merking, finnst og í innlendum og erlendum sjónabókum. Borðarnir á flíkunum eru líklega ekki ásteytingarsteinn því þeir eru það ólíkir (auk þess að vera þekkt mynstur fyrir). Það verður spennandi að fylgjast með því hverjar verða lyktir málsins.
 

Helstu heimildir

Bækur:

Hélene Magnússon. 2006. Rósaleppaprjón í nýju ljósi.
Elsa E. Guðjónsson. 1984. „Traditionel islandsk strikning“ í Stickat och virkat i nordisk tradition.
Elsa E. Guðjónsson. 1982. Íslenskur útsaumur.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskattar frå fillehaugen.
Møller Nielsen, Ann. 1983. Pregle, binde og lænke - gammel dansk strikketradition.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.

Vefir

Arfur palestínskra kvenna á Fjölmenningarvef  barna.
Spænsku svæflarnir í Saga prjóns
The Latvian Mythology í Latvian History
Auseklis í Wikipedia
Astronomy of Babylon í Classical Astrologer
 
 

Ummæli (6) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

27. mars 2012

Svissneskar skjóður undir helga dóma

Svissnesk skjóða undir helga dómaElstu varðveittu prjónastykki í Evrópu tengjast flest kaþólsku kirkjunni enda rík stofnun og voldug. Meðal þess sem elst er talið af varðveittu prjónlesi eru sex skjóður sem taldar eru hafa geymt helga dóma, þ.e.a.s. einhverjar líkamsleifar dýrlinga.

 

(Myndin til vinstri er af Chur-skjóðunni og krækir í stærri mynd. Hér má sjá myndir af endurgerðri skjóðunni og einnig hér. Litum hefur verið breytt í seinna dæminu um endugerð og skjóðan er ranglega kennd við Sion.)

 

 

Svissnesku skjóðurnar eru taldar frá fjórtándu öld og svo líkar eru þær að þær eru taldar af sama uppruna. Fimm þeirra fundust í dómkirkjunni í Sion (Sitten) en ein í dómkirkjunni í Chur. Sion er í vesturhluta Sviss en Chur er í austurhluta landsins.

 

Hver skjóða er prjónuð í hring úr fínspunnu silkigarni. Prjónið er slétt tvíbandaprjón. Prjónafesta er um 7 lykkjur á sentimetra.Skjóða undir helga dóma

 

Skjóðurnar eru ferhyrndar og á bilinu 20,5-34 cm langar, 16-26 cm á breiddina. Þær eru saumaðar saman í botninn sem skreyttur er 9-15 löngum skúfum. Opið er dregið saman með löngum streng með dúskum/skúfum á hvorum enda. (Svarthvíta myndin til hægri er af einni skjóðanna sem fundust í Sion. Litla myndin krækir í stærri mynd.)

  

 

Sjá má skannaðar myndir af öllum skjóðunum úr bók Richards Rutt, A History of Hand Knitting, á síðunni Medieval Knitting Notes. (Þar eru þær sagðar frá 13. öld en Rutt telur þær ekki alveg svo gamlar.) Endurgerðir þessara skjóða má m.a. sjá hér, hér og hér

  

 

Hér er grein um fléttuðu strengina á þessum skjóðum.

 

Einnig hefur fundist prjónuð skjóða í dómkirkjunni í Sens í Frakklandi, líklega frá þrettándu eða fjórtándu öld. Hún er talsvert ólík svissnesku skjóðunum, er t.d. miklu minni og virðist mega greina letur efst á henni. Skjóðunni er skipt í fjóra fleti með strautböndum. (Krækt er í mynd af skjóðunni frá Sens.)

  

 

Þessa bloggfærslu má einnig finna á vefnum Saga prjóns sem ég vinn alltaf öðru hvoru í þótt hægt gangi.

prjónamunstur af svissneskri skjóðu undir helga dómaSmelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af Chur-skjóðunni.
Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt.
 
 Prjónamunstur af skjóðu undir helga dóma
Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af einni af Sion-skjóðunum.
Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt.
 
 
 

Heimild fyrir utan efni á vef sem er krækt í:

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 50-52
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (6) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

4. apríl 2011

Fegursta tvíbanda silkiprjónið og vangaveltur um brugðið prjón

Saga prjóns I

Ath. að umfjöllun um þetta efni hefur verið færð á vef, sjá Sögu prjóns.

Ég ætlaði reyndar að halda beint áfram í fyrstu prjónuðu sokkana en snérist hugur og ákvað að gera grein fyrir tveimur merkilegum prjónabútum fyrst.

Richard Rutt telur í bók sinni The History of Hand Knitting langlíklegast að prjón sé upprunnið í hinu islamska Egyptalandi. Árið 641 náði Amr ibn al-As völdum í Egyptalandi og ríkti þar í umboði kalífans í Medína (sem hét Umar og var persónulegur vinur og ráðgjafi Múhameðs spámanns, þótt það komi prjónasögu kannski ekki mikið við). Amr ibn al-As gerði Fustat að höfuðborg ríkisins en þar er nú Kaíró.1

Silkiprjón Fritz IkléMunstur silkiprjón Fritz IkléÍ Fustat fannst prjónabútur sem komst í eigu Dr. Fritz Iklé (1877-1946) sem bjó í Basel í Sviss. Iklé átti stórt einkasafn austurlenskra muna, sérstaklega gott úrval af glervörum og austurlenskum ofnum mottum og teppum en einnig annan textíl. Þessi merkilegi prjónabútur er nú glataður en varðveist hefur góð lýsing á honum í Mary Thomas’s Knitting Book, útg. 1938, og svarthvít ljósmynd.

Búturinn var aðeins 6,5 cm breiður, prjónaður úr silki og prjónið afar fíngert, u.þ.b. 15 lykkjur á cm. Munstrið var dökk-vínrautt á gullnum bakgrunni og prjónið austrænt snúið prjón. Aðferðin er hefðbundið tvíbandaprjón sem sást vel á röngunni. Mary Thomas segir að munstrið hafi verið prjónað á hvolfi, þannig hafi lykkjurnar snúið, en litla ljósmyndin sem hún birtir í sinni bók snýr rétt. „Ekkert glæsilegra sýnishorn af tvíbanda silkiprjóni hefur fundist: Þetta ber af öllu enn þann dag í dag“, skrifar hún.2

Iklé aldursgreindi prjónlesið frá 7.-9. öld. Rutt bendir á að engar leifar af islömsku prjónlesi hafi verið taldar yngri en frá því um 1100 en auðvitað er ekki hægt að ganga úr skugga um hvort greining Iklé var rétt því stykkið er nú týnt og tröllum gefið.

Til hægri sést litla svarthvíta ljósmyndin sem bók Mary Thomas varðveitir. Til vinstri er lítil mynd af munstrinu, sé smellt á hana opnast miklu stærri mynd. Ég teiknaði munstrið upp eftir svarthvítri smágerðri munsturteikningu Richard Rutt á s. 33 í bók hans en reyndi að sýna litina rétta, miðað við lýsingu Mary Thomas.

Þótt menn hafi komist upp á lagið með að prjóna tvíbanda munstur fyrir um 900 árum, jafnvel fyrr, þá virðist nánast allt prjónles hafa verið prjónað í hring, þ.e.a.s. menn kunnu einungis að prjóna slétt prjón. Elstu dæmi um brugðnar lykkjur eru á sokkum Elenoru af Toledo, frá 1562 eða fáum árum fyrr. Á sokkunum hennar eru brugðnu lykkjurnar til skrauts. E.t.v. hafa menn komist upp á lag með að prjóna slétt og brugðið fram og til baka til prjóna hæl á sokk en engin sönnun þess hefur fundist. Frá því prjón varð til var því allt prjónles lengi vel rörlaga og ætti stykkið að vera flatt þurfti að klippa prjónlesið í sundur (líkt og menn gera við opnar lopapeysur nú á tímum). Yfirleitt sjást skil milli umferða vel á þeim stykkjum sem hafa varðveist en þau elstu eru reyndar flest sokkar. Ekki er vitað hve margir prjónar voru notaðir til að byrja með og ekki heldur hvers konar prjónar. Ýmislegt bendir til þess að þeir hafi haft króka á öðrum eða báðum endum, svipað því áhaldi sem nú er notað við tyrkneskt hekl og margir kannast við, en um það er þó ekkert vitað með vissu.

mynsturprjón � egypskum bútRutt nefnir samt dæmi af þremur bútum sem virðast hafa verið prjónaðir fram og til baka, sem þýðir þá auðvitað að kenningunni um að brugðið prjón sé miklu yngra en slétt er þar með kollvarpað eða hann geri ráð fyrir að menn hafi prjónað slétt fram og til baka. (Líkt og Kaffe Fassett hefur kynnt svo rækilega nú á tímum, í myndprjóni. Mig minnir að Fassett hafi sagst hafa lært aðferðina af júgóslavískum sveitakonum.) 

Dæmin sem Rutt nefnir eru tveir bútar í safni Carl Johann Lamm í Kulturhistoriska Museet í Lundi í Svíþjóð og einn bútur í Victoria & Albert safninu í London. Í The History of Hand Knitting er svarthvít mynd af öðrum bútnum í sænska safninu, á réttunni og röngunni. Sænsk-varðveittu prjónabútarnir eru í mörgum litum og prjónaðir úr ullargarni, með tvíbandaprjóni. En einnig eru íprjónuð munstur úr ólituðu bómullargarni. Á röngunni virðist að hvíta bómullargarnið sé notað í myndprjón (intarsia) en ekki tvíbandaprjón. Alveg eins er búturinn í safni Victoriu og Alberts, segir Rutt, hann er prjónaður með tvíbandaprjóni úr marglitu ullargarni en ólituð bómull einnig notuð og þeir hluta mynstursins prjónaðir með myndprjóni fram og til baka.3

Myndin er skönnuð úr bók Rutt og litla myndin krækir í miklu stærri mynd. Með því að rýna í stóru myndina af röngunni má skilja hvað Rutt á við.
 

Næst vind ég mér örugglega í islömsku sokkana :) Og enn og aftur auglýsi ég eftir leiðréttingum á tækniorðaforða, t.d. íslenskun á „Cross Eastern Stitch“ og „intarsia“ þýði ég þetta rangt. Er til eitthvert íslenskt prjónaorðasafn? 1 Rutt, Richard. 1989. The History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado,  s. 32-33. (Bókin kom fyrst út 1987.)

Sjá einnig „History of Muslim Egypt“ á Wikipedia hafi lesendur almennan sögulegan áhuga.
 

2 Thomas, Mary. Mary Thomas’s Knitting Book. Dover Publications, New York 1972, s. 19. (Bókin var fyrst gefin út af Hodder and Stoughton, Ltd., London 1938.)
 

3 Rutt, Richard. 1989, s. 36-39. Mér finnst þetta dálítið ótrúlegt því þetta þýðir að hefðbundið tvíbandaprjón er prjónað fram og til baka og mynsturprjón á stöku stað; Af hverju er ekki allt stykkið prjónað með mynsturprjóni? En ég þarf að verða mér út um litmynd sem til er af sambærilegu plaggi á V&A safninu til að sjá hvort þetta hafi verið praktísk aðferð því það ræðst auðvitað af því hversu símynstrað stykkið er.
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

1. apríl 2011

Upphaf prjóns - Dura stykkin og koptísku sokkarnir

Saga prjóns I

Athugið að umfjöllun um þetta efni hefur nú verið flutt á vef, sjá Sögu prjóns

Ég stefni á að gera vef um sögu prjóns. Það gafst ágætlega að birta síðasta greinaflokk sem mun enda á vef (þennan um siðblindu) á bloggi, til að fá athugasemdir og ábendingar svo ég ætla að fara sömu leið með þetta umfjöllunarefni.

Undanfarna mánuði hef ég verið að viða að mér heimildum, sem er svo sem ekki áhlaupsverk hér uppi á Íslandi. En ég hef þó náð í þær tvær bækur sem teljast merkastar heimilda um prjónasögu, þ.e. bók Richard Rutt, A History of Handknitting (útg. 1987) og bók Irene Turnau, History of Knitting before Mass Production (útg. 1991). Þær eru aðalheimildir mínar en auk þess leita ég í aðrar bækur, greinar og vefsíður. Svo er bara að sjá hverju fram vindur.

Það er nokkuð á reiki hvað er talið upphaf prjóns. Þar veldur m.a. að sumir, einkum í eldri heimildum, vilja telja nálbragð/vattarsaum til prjónaskapar, þótt aðferðir við slíkt séu talsvert ólíkar prjóni. Almennt telja menn að prjón eins og við þekkjum það í dag hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndum, þ.e. löndum araba, jafnvel hugsanlega Austurlöndum. Elstu prjónastykkin eru oftast taldir egypskir sokkar en þeir eru augljóslega ekki byrjendaverk. Egyptaland var löngum suðupottur ýmissa þjóðarbrota og því ómögulegt að segja hvaðan tæknin gæti verið upprunnin.

Líklegt er að prjónakunnátta hafi borist til landanna við Miðjarðarhaf frá Mið-Austurlöndum enda mikil verslunarsamskipti þar á milli. Bein tengsl virðast milli egypsku sokkanna og spænskra svæfla enda er talið að Márar á Spáni hafi prjónað þá. Þessir spænsku svæflar voru löngum taldir elstu dæmi um prjón í Evrópu en Irene Turnau og fleiri hafa seinna borið það til baka og nefnt önnur dæmi. Fyrir þessu verður gerð grein síðar.
 
 

Bútarnir frá Dura Europos

Austrænt snúið prjónEðlilega varðveitist textíll fremur illa og þau fáu elstu stykki sem hafa fundist í fornleifauppgreftri víða um heim hafa varðveist vegna einstaklega heppilegra jarðvegsskilyrða eða  loftlags og flest hafa fundist í lokuðum gröfum. Oft hafa 3 tutlur sem fundust  í uppgreftri í Sýrlandi, í hinni fornu borg Dura Europos, verið taldar elsta varðveitta prjónlesið, frá 250 fyrir Krist, en bæði Richard Rutt og Irene Turnau eru sannfærð um að þessir bútar séu nálbrugðnir. Á öndverðum meiði er Nancy Bush sem, eins og fornleifafræðingar sem rannsakað hafa bútana, telur þá prjónaða með „Cross Eastern Stitch“ (Væri gott ef einhver gæti upplýst mig um íslenskt heiti þessarar aðferðar. Gæti hún kallast „austrænt snúið prjón“? Þess ber að geta að Elsa E. Guðjónsson telur að lengst af hafi tíðkast á Íslandi að prjóna brugðnar lykkjur á svipaðan hátt, reyndar „austrænt ósnúið prjón“, en ég veit ekki hvað hún kallar aðferðina á íslensku.)

Þessir bútar frá Dura eru nú varðveittir í safni Yale háskólans í Connecticut og má skoða myndir af þeim á síðu safnsins

Einnig héldu menn um tíma að tveir smábútar (um 2 cm á kant) sem fundust í gröf í Esch, í suðurhluta Hollands, væru prjónaðir enda fundust einnig tveir bronsprjónar (20 cm langir) í sérstöku boxi í gröfinni. Þessir bútar voru nær alveg eyðilagðir í rannsókn árið 1973 og verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hvernig þeir voru unnir. En bæði Rutt og Turnau telja þá líklegast nálbrugðna og Rutt bendir á að bronsprjónarnir hefðu allt eins getað verið skartgripir, auk þess sem þeir voru alltof grófir til að hafa verið notaðir í hið hugsanlega hollenska prjónles.
 

Vattarsaumur eða nálbragð
 

Vötturinn frá ArnheiðarstöðumNálbragð hefur verið þekkt frá því a.m.k. 1000 f. Kr. og notað víða um heim. Hér á landi hefur fundist 10. aldar vettlingur gerður með nálbragði, á Arnheiðarstöðum í Fljótsdalshéraði. Myndin til hægri sýnir þennan fræga vött. Vilji menn fræðast meira um hann er bent á stutta grein eftir Margrethe Hald sem fjallar bæði um íslenska vöttinn og notkun nálbragðs víða um heim, „Vötturinn frá Arnheiðastöðum“ í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949.

Til gamans má nefna að sumir telja sig sjá röndótta nálbrugðna sokka á nautabana einum á mínóskri fresku í Knossos, Krít. Sú freska er talin máluð um 1500 f. Kr. Nærmynd af nautabananum má sjá hér, á síðunni Caldendar House, 2. Into the Labyrinth.

Nálbragð hefur þann ótvíræða kost að það er mjög sterkt og raknar ekki upp. Ókosturinn er hins vegar sá að erfitt er að gera sæmilega teygjanlegar flíkur með nálbragði (kannski þess vegna sem menn hafa ekki brugðið nema rúmlega ökklaháa sokka) og einnig er þetta fremur seinleg aðferð, a.m.k. miðað við prjón.

Til að halda sig við hefð í prjónasögu byrja ég á umfjöllun um koptísku sokkana sem þó eru alls ekki prjónaðir heldur nálbrugðnir, skv. rannsókn Dorothy Burnham 1972 sem víða er vísað í, t.d. í bókum Rutt, Turnau og Nancy Bush. Til þess tíma héldu menn að sokkarnir væru prjónaðir með „austrænu snúnu prjóni“ eins og bútarnir frá Dura Europos.
 
 

Koptísku sokkarnir
 

kopt�skir vattarsaumaðir barnasokkarNokkur pör af svona sokkum fundust í gröfum í Egyptalandi og eru taldir frá 3.- 5. öld. Egyptaland þeirra tíma var suðupottur ýmissa þjóðarbrota. Frá því um 30. f. Kr. varð Egyptland rómverskt skattland. Samt sem áður var gríska stjórnsýslumál skattlandsins og latína náði aldrei góðri fótfestu. Markús guðspjallamaður boðaði kristni í Egyptalandi og stofnaði patríarkadæmi árið 33. e. Kr. í Alexandríu, sem nú er næst stærsta borg Egyptalands og var frá fyrstu tíð ein mikilvægasta hafnarborg landsins. Koptíska kirkjan er einmitt talin með elstu kirkjudeildum í heimi. Eftir að Rómaveldi klofnaði (árið 395) varð Egyptaland hluti af Austrómverska ríkinu (Býsanska ríkinu), allt til þess að arabar hertóku landið á 7. öld.

Með kristnum áhrifum komst á sú tíska að grafa lík fullklædd og vafin í sjöl og ábreiður, jafnvel hengi og veggteppi, í stað þess að gera úr þeim múmíur. Nýir greftrunarsiðir og hið þurra loftslag Egyptalands varð til þess að óvenju mikið af textíl hefur fundist frá 1.-6. öld.

Tungumálið koptíska, sem var runnið af forn-egypsku, var ríkjandi tungumál á 3.-5. öld og þaðan er nafn sokkanna dregið. Koptíska varð líka mál kirkjunnar og gríska stafrófið var notað til að skrifa koptíska texta. Þetta sýnir kannski vel hve áhrif Grikkja voru mikil en auk þeirra bjuggu Sýrlendingar, Assýringar, gyðingar, Rómverjar og alls kyns þjóðarbrot í Egyptalandi á tímum koptísku sokkanna. Svo það er næsta ómögulegt að giska á hvaðan aðferðin við sokkagerðina er upprunnin en grísk og persnesk áhrif eru oft nefnd.

Myndin að ofan til vinstri sýnir koptískan vattarsaumaðan / nálbrugðinn barnssokk. Hann er bersýnilega úr frekar grófu ullargarni. Sokkurinn fannst í Oxyrhyncus í Egyptalandi og er talinn frá því á 2. öld e. Kr. (Mér finnst líklegra að hann sé frá 3.-5. öld eins og aðrir svipaðir sokkar þótt heimildin, World Textiles. A Concise History segi annað.) Hann er nú varðveittur á safni háskólans í Manchester. Litla myndin krækir í stærri mynd af sokknum. Á undirsíðu bloggsins Sock It! er hægt að horfa á myndband sem sýnir aðferðina við nálbragðið og önnur undirsíða krækir í fjölda síðna með mismunandi útlistunum á hvernig skuli vinna slíka sokka (sjá krækjulista til hægri á þeirri síðu).    

Kopt�skir sokkarKoptísku sokkarnir hér til hægri eru fullorðinssokkar, nálbrugðnir úr ullarþræði og eru taldir frá 3.-5. öld. Sokkarnir eru tásokkar að því leyti að hlutinn fyrir stórutá er brugðinn sér og hlutinn fyrir hinar tærnar sér. Þetta skýrist af því að Egyptar gengu í sandölum. Flestir telja að þeir séu nálbrugðnir frá tám og upp. Þannig voru líka elstu sokkar prjónaðir.

Myndin er af sokkapari sem er varðveitt á safni Viktoríu og Alberts, í London. Litla myndin krækir í risastóra mynd þar sem sjá má hverja lykkju mætavel. Myndirnar eru birtar með leyfi safnsins.
 

Í færslunni „Life of a Coptic sock“ er gerð grein fyrir fundarstöðum nokkurra koptískra sokka, og gerð þeirra. Og uppskrift að koptískum sokki með smávegis útskýringum á nálbragði má finna hér.
 

Japanskir tabi sokkarÍ rauninni er sniðið á koptísku sokkunum nauðalíkt japönskum tabi sokkum (sem tíðkast víst enn í Japan og eiga sér langa sögu þótt ekki hafi þeir verið prjónaðir) - sjá mynd af svoleiðis sokkum hér til hægri eða smelltu á krækjuna.
 

Ég flokka þessar færslur undir nýjum bloggfærsluflokki, saga prjóns.Heimildir:Bush, Nancy. 1994. Folk Socks. The History & Techniques of Handknitted Footwear. Interweave Press, Colorado 1994, s. 11-13.Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 28-32

Schoeser, Mary. 2003. World Textiles. A Concise History. Thames & Hudson, London, s. 62.

Turnau, Irene. 1991. History of Knitting before Mass Production. (Agnieszka Szonert þýddi). Polska Akademia Nauk. Institut Historii Kultury Mareialnej. Varsjá 1991, s. 13-19.
 
 
 

Aegyptus (rómverskt skattland), http://is.wikipedia.org/wiki/Aegyptus_(r%C3%B3mverskt_skattland)

Dempsey, Jack. 2010.  „Caldendar House, 2. Into the Labyrinth“. Clues to Minoan Time from Knossos Labyrinth

„Egypt, 1–500 a.d.“ á HEILBRUNN TIMELINE OF ART HISTORYhttp://www.metmuseum.org/toah/ht/?period=05®ion=afe

 „Historical socks“, Sock Museum, http://www.sockmuseum.com/historical-socks

Kang, Jun-suk. 2009. A History of Textiles in Egypt. Nemendaritgerð í AP European History Class, í Korean Minjok Leadership Academy. http://www.zum.de/whkmla/sp/1011/ignoramus/igno2.html#III

Sock It! http://ancientegyptiansock.blogspot.com/
 

Í aðrar heimildir er krækt beint úr texta.

Ummæli (2) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

1. febrúar 2011

Um blogg, vef, heimildaleit og Norn

Leit á bloggs�ðumEinhverjir hafa kannski velt því fyrir sér af hverju ég skrifa þessar ógnarlöngu greinar um siðblindu og birti á blogginu. Þetta er vissulega dálítið óvenjulegt áhugamál. Kannski er aðalástæðan sú að ég fann næstum ekkert á íslensku um efnið, þegar ég ætlaði að kynna mér það seint á síðasta ári og álít að það væri ekki vitlaust að umfjöllun lægi einhvers staðar frammi. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki forsendur til að meta siðblindu á klínískan máta eða fjalla um hana á mjög fræðilegan hátt, til þess skortir mig einfaldlega menntun og yfirsýn yfir geðsjúkdómafræði. Á móti kemur að ég hef sennilega víðara sjónarhorn en fagmaður af því ég er ekki eins bundin af einsleitum heimildum. Hin aðalástæðan, sú sem blasti við mér í upphafi, er ógurlegur athyglisbrestur og gleymska, sem hrjáir mig og fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. Það er erfitt fyrir pottþéttar meyjur (altso í meyjarmerkinu) að vera álfar út úr hól mánuðum saman ;) Út af því gloppótta minni er fínt að skrifa niður fyrir sig sjálfa upp á seinni tíma notkun og hvað er þægilegra en eiga efni á Vef? Maður er svona hundrað sinnum fljótari að fletta upp og leita á Vefnum en í bók eða útprentuðu efni. Ég hef svo hugsað mér að láta efnið “gerjast” svolítið á blogginu og vefa það síðan og koma fyrir á mínu heimasvæði.

Auk þess má bæta og breyta vefrænu efni jafnóðum, t.a.m. ætla ég núna á eftir að splæsa upplýsingum um siðblindar konur inn í þær færslur um siðblindu þar sem þær eiga við. Var að rekast á þennan bút (en þar heldur sjálfur Hare því fram að siðblinda kvenna sé vangreind og oft greind sem önnur persónuleikaröskun - vegna ríkjandi hugmynda um kven-og karlhlutverk í samfélaginu). Ennfremur bæti ég inn í síðasta blogg tilvitnunum íslenskra leiðtoga kirkjunnar um siðblindu, sem ég var að rekast á.

Bloggið mitt er öðrum þræði gagnasafn, mismunandi vandað auðvitað. Ég sé að fólk rekst þar inn af ýmsum ástæðum; menn eru að leita að hinu og þessu og bloggfærslurnar gúgglast prýðilega. Sjá dæmi af teljaranum, sem ég tók mynd af áðan. Það gefur til kynna fjölbreytta leitarstrengi sem tengjast þessu bloggi.

Talandi um leit á vef þá er ég sannfærð um að Google.com er talsvert betri en leitin í gagnasöfnum á Hvar.is. Ég er miklu fljótari að finna greinar á scholar.google.com heldur en á hvar.is, auk þess sem scholar.google.com gefur upplýsingar á borð við hve margir tengja í viðkomandi grein (þ.e. vitna í hana) og nefnir þá staði þar sem hún er vistuð. Fyrir meir en áratug hlustaði ég á Heimi Pálsson tala um eitthvað á einhverri ráðstefnu eða fundi og mér er minnisstætt að hann hélt því fram að ekki væri lengur eftirsóknarvert að vera getið í heimildaskrá eða tilvísanaskrá rita, málið væri að “láta linka í sig”. Eins og venjulega hafði Heimir rétt fyrir sér.

Efni á vef (hvort sem um er að ræða vefsíður eða pdf-skjöl) er líka miklu þægilegra en á prenti í þeim fræðum sem menn vilja nota APA heimilda-og tilvísanakerfi. (Þá er bara vitnað í höfund, bók, útg.stað o.þ.h. en ekki í blaðsíðutal. Stundum hefur mér dottið í hug, þegar ég skoða ritgerðir á Skemmunni.is, að hægt sé að ljúga hverju sem er upp á hvern sem er því hvaða leiðbeinandi nennir að fletta gegnum bókahaug til að staðfesta eitthvað sem vitnað er í, í ritgerð? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að venjulegur háskólakennari hafi slíkan haug á takteinum í sínu heilabúi, einkum vegna þess að í sálfræði- og félagsvísindum virðist aðalatriðið að sviga sem mest og oftast.) Maður er skotfljótur að finna réttu staðina með leitarorði ef efnið er á tölvutæku formi.

Þegar fundist hefur álitleg grein á scholar.google.com en útgáfan er ekki opin (og útdrátturinn lofar góðu) má finna rétta tímaritið og tölublaðið á hvar.is. Í slíku bardúsi hef ég reyndar áttað mig á hve gagnagrunnar hvar.is eru takmarkaðir, þ.e. hve vantar mörg tímarit í þá. Þetta er stundum áberandi með siðblinduna en mjög áberandi þegar maður leitar að greinum um prjónafræði ýmiss konar. Oft er hægt að bjarga sér í siðblindunni með leit á http://www.free-pdf-ebooks.com/ en í prjónafræðum er þar ekki um eins auðugan garð að gresja.

Heimildir um prjónasögu er einnig erfitt að finna á bókasöfnum. Eins og er skipti ég við Þjóðarbókhlöðu, Norræna húsið og bókasafnið í Kennaraháskólanum til að viða að mér efni. En grundvallarritin tvö eru hvergi til; Ég er búin að kaupa annað en hitt er gersamlega uppselt. Næst er að kemba vefinn og leita að fornbókasölum sem hugsanlega gætu átt þá bók. Grundvallartímaritið Textile History er á vefnum en er ekki í gagnasöfnum hvar.is og því hvorki háskólaaðgangur né landsaðgangur að því. (Hver grein kostar tæplega 40 dollara og það er af og frá að ég borgi slíkt verð fyrir grein á vefnum!). Pappírsútgáfa af tímaritinu frá 1991 (eða bara tölublöðum þess árs, það er ekki hlaupið að því að sjá það) er einungis til á Þjóðminjasafninu. (Jú, ég mun auðvitað hafa samband við fólkið þar og fá að skoða og ljósrita ef mörg tölublöð eru til, það er ekkert mál að finna yfirlit yfir efni alls forðans á vefnum og vera búin að sigta út álitlegar greinar). Ein af frægari heimildum um prjónasögu er Mary Thomas’s Knitting Book. Skv. Gegni er til eitt eintak af henni á landinu - í Seyðisfjarðarskóla! Þar er hún auk þess ekki lánuð út heldur einungis til afnota á safninu. Ætli sé ekki vænlegra að leita að notuðu eintaki á Amazon.com en gera sér ferð á Seyðisfjörð að vetrarlagi (þótt ég hafi reyndar aldrei komið þangað)?

Ég ætlaði að fara að vinna aðeins í málsöguefni í morgun en festist í Norn, sem mér finnst alltaf jafnspennandi. (Og sá að ég þarf að fara á Þjóðarbókhlöðu til að fletta upp í orðabók Jakobsens, fann orðið og bls. tal í orðabókinni á vefnum en svo kom einhver helv. höfundaréttur í veg fyrir að gagnasafnið birti síður fyrir lesendur utan Bandaríkjanna …). Best að slútta þessari færslu með tilvitnun í faðirvorið, á Orkneyja- og Hjaltlandseyjanorn. Það er viss yfirbót eftir að hafa bloggað um siðblindu innan kirkjunnar ;)

  Faðirvorið á Norn

  

  

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna

11. janúar 2011

Dásemdir læsis

Prjónaður heiliUndanfarna mánuði hef ég verið ólæs í þeim skilningi að ég hef ekki getað haldið þræði í bók og gleymt jafnharðan því sem ég las. Fyrir svona mánuði síðan komst ég upp á lag með að skanna vefsíður og vefmiðla … svo tókst að skanna bækur og taka úr þeim punkta og skoða í þeim myndirnar, ekki mikið meira.

Af þessu hefur leitt að ég hef einkum lesið (og skrifað) um tvö áhugamál mín, sem hafa undanfarið verið saga prjónatækninnar og siðblinda. Þarf varla að taka fram hve hamingjusöm ég varð þegar ég fann frétt um konu sem samþættir einmitt þetta tvennt: Áhuga á geðveilum og áhuga á prjónaskap! Sú er geðlæknir og hefur lagt á sig að prjóna heilan heila … ég sé reyndar strax í hendi mér að heilaprjón er bráðsniðug aðferð til að nýta afganga. Til vinstri sést prjónaði heilinn, smella má á myndina til að glöggva sig betur á stykkinu (eða heilanum) og fréttina um geðlækninn sem prjónaði hann má lesa hér.

En í gærkvöldi las ég heila bók, var reyndar enga stund að því enda bókin stutt og ég gjörkunnug efninu. Þetta var stór áfangi! Bókin sú arna heitir Sýnilegt myrkur. Frásögn um vitfirringu og er eftir William Stryker (kom út núna fyrir jólin í ritröðinni Lærdómsrit bókmenntafélagsins). Höfundurinn er heimsþekktur rithöfundur, sennilega kannast flestir við bók hans (eða myndina sem gerð var eftir bókinni) Sophie’s Choice. Hana hef ég ekki lesið og ekki séð myndina af því ég veit söguþráðinn og er of viðkvæm sál fyrir svoleiðis.

Satt best að segja bjóst ég ekki við sérlega miklu fyrirfram, fordómafull sem ég er, auk þess sem undirfyrirsögnin, “Frásögn um vitfirringu” truflaði mig. En bókin kom gleðilega á óvart: Þetta er fantagóð bók um þunglyndi, sem ég mæli mjög með. Reyndar tekur höfundurinn það skýrt fram að ekki sé hægt að lýsa þunglyndi fyrir þeim sem aldrei hafa veikst af sjúkdómnum. Samt er þetta ein besta lýsing sem ég hef lesið en ég get náttúrlega ekki gert mér í hugarlund hvernig einhver sem ekkert þekkir til þessa hryllilega sjúkdóms upplifir eða skilur bókina. Það eina sem mér fannst að henni var að hún er ekki nógu vel þýdd og enskan skín ansi mikið í gegn. (Þetta kom mér líka á óvart, ég hélt að kröfurnar sem gerðar eru til Lærdómsrita bókmenntafélagsins væru mjög miklar.)

Tvíefld eftir að hafa komist gegnum Sýnilegt myrkur á engri stund skellti ég mér í Af heimaslóðum. Brot af sögu Helgu og Árna Péturs í Miðtúni og samfélagsins við Leirhöfn á Melrakkasléttu, eftir Níels Árna Lund. Mér fannst fyrsti fjórðungurinn frekar skemmtilegur en það sem eftir er bókarinnar er tæplega áhugavert fyrir aðra en þá sem þekkja þetta fólk. Ég veit bara hvaða fólk þetta er, sumt, get ekki sagt að ég þekki það neitt. Svo ég lagði frá mér bókina og fór að skoða dúkkulísufræði (Pigedrømme - om danske påklædninsdukkers historie … frábær myndabók) og prjónafræði (Kvardagsstrik. Kulturskattar fra fillehaugen … einnig frábær bók með hellingi af myndum). Í kvöld verður gerð atlaga að reyfara.

Eiginlega varð ég svolítið móðguð yfir hvað Níels Árni Lund skautar framhjá forfeðrum mínum. Ég meina: Það voru bara tvö hús á Raufarhöfn snemma í sögunni, í öðru bjuggu langafi hans og amma - seinna afi hans og amma  og í hinu langafi minn og langamma - auk afa og ömmu seinna. Og langafi Níelsar var bróðir langömmu minnar - þannig að hann hefði nú mátt minnast meir á mitt fólk en bara í setningunni: “Þetta þykir nokkuð fínt fólk, bráðmyndarlegt og yfir því mikil reisn.” (s. 36) Ekki svo að skilja að ég sé ekki sammála þessari lýsingu á langafa og langömmu og er ekki frá því að yfirbragðið hafi erfst allar götur síðan ;)

Gr�mur LaxdalEn ég las samviskusamlega um Grím Laxdal, bróður langömmu sem fluttist til Vesturheims. Hafði einstaklega kvikindislegt gaman af því hvernig Níels Árni reynir að draga úr vísbendingum um að karlinn hafi verið alki og fannst athyglisvert að sjá hvað hægt er að kóa mörgum kynslóðum seinna. T.d. lá það orð á Grími Laxdal meðan hann bjó á Íslandi að hann hefði verið nokkuð drykkfelldur (sem kæmi mér ekkert á óvart að liggi kannski í þessum Laxdals-genum þvers og kruss). Um Grím segir í bókinni: “Grímur var orðlagt glæsimenni og mikill persónuleiki … Það fylgir sumum frásögnum um Grím að honum hafi þótt sopinn góður hér heima á Íslandi og verið talinn nokkur bóhem. Varlegt getur verið að treysta slíkum sögum; í þeim efnum getur fjöðrin orðið að hænsnahópi fyrr en varir. Vel má hins vegar vera að hann hafi á sínum yngri árum neytt víns umfram aðra, en víst er að hann hefði ekki notið þeirrar virðingar í Vesturheimi, eftir að fjölskyldan flutti þangað sem fjöldi staðreynda ber vitni um, ef hann hefði látið Bakkus stjórna lífi sínu.” Svo er vitnað í konu hans, Sveinbjörgu, sem sagði víst þegar hún var spurð út í hegðun eiginmannsins “að horfa skyldi einnig á björtu hliðarnar - og “líttu til annarra”. Átti þar við að aðrir hefðu það ekki betra en hún. “(s. 38)

Af áratuga reynslu af ölkum og aðstandendum af öllu tagi sá ég strax að Sveinbjörg var meðvirkari en allt sem meðvirkt er, af þessum orðum að dæma. Svolítið seinna í bókinni er vitnað í barnabarn þeirra vestra sem segir: “Já það er rétt að lengst af bjuggu þau lítið saman Grímur og Sveinbjörg en ástæða þess gæri hafa verið fjármálalegum ástæðum og einnig hitt að þau eignuðust í raun aldrei neitt heimili … Amma og afi bjuggu alltaf hjá börnum sínum en ekki alltaf á sama tíma.” (s. 53) Sama barnabarn segir líka: “Með aldrinum varð hann bráðari í skapi. Honum líkaði ekki líkamleg vinna og gafst upp á heimilinu og hélt til hjá börnum sínum.” (s. 42) Aftur á móti er snyrtilega breitt yfir þetta ástand í minningargrein um Sveinbjörgu: “Frú Sveinbjörg var um flest mikil gæfukona; hún naut um langa ævi samvistar ágæts eiginmanns, börn þeirra mönnuðust vel …” (s. 55).

Af þessum tilvitnunum er nokkuð augljóst hvernig var ástatt fyrir þeim Grími og Sveinbjörgu. En lýsingin í bókinni minnti mig dálítið á þá sem ekki mega heyra á það minnst að Jónas Hallgrímsson hafi verið langt genginn alkóhólisti þegar hann lést (þótt krufningarskýrslan sé til … minnir að megi lesa hana í Tímanum og tárinu hans Óttars Guðmundssonar) eða eru uppfullir af þeirri hugmynd að Kristján Fjallaskáld hafi óvart drukkið sig í hel út af ástarsorg (og þ.a.l. beri einhver stúlkukind á Hólsfjöllum alla sök á dauða skáldins) eða einhverjum álíka bábiljum. Ég get ekki séð að það kasti neinni rýrð á Jónas að hann hafi verið veikur alki; snilldarverk hans á sviði skáldskapar og náttúrufræði verða enn rismeiri ef maður veit að maðurinn hafði ekki fulla starfsorku. Og Grímur langömmubróðir minn var jafn merkilegur maður þótt hann hafi sennilega verið alki, sem meðvirka eiginkonan gafst að lokum upp á.

(Myndin er af Grími og Þórði syni hans. Sjá má stærri mynd með því að smella á þá litlu. Þetta var vissulega glæsimenni og Níels Árni getur verið stoltur af langafa sínum!)

  

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf, handavinna

2. janúar 2011

Lífið á gamla árinu og nýja árinu

Ég er orðin svolítið leið á að blogga heimildablogg - en á móti kemur að þær færslur gúgglast auðveldlega og koma því til góða í þeirri framtíð sem maður enn sér internetið. Auk þess er bloggið fín gagnageymsla fyrir uppkast að einhverju sem á að enda á vefsíðum (eins og hannyrðafróðleikurinn). Þessi færsla verður spjallfærsla.

Það er rólegt í kotinu núna því synirnir eru báðir í útlöndum; Annar í heimsókn í Gautaborg og hinn í sollinum á Tenerife. Þeir fóru milli jóla og nýjárs og fara að skila sér heim. Áramótin voru því einstaklega hugguleg hjá okkur “gömlu” hjónunum og kettinum Jósefínu - við skutum ekki upp einni rakettu enda óþarfi því hér logaði allt í kring og kötturinn slapp út og hvarf um stund, okkur til angurs, en hún skilaði sér aftur heim þegar fírverkinu var lokið. Yfir hverfinu lá dimmt ský og mér finnst þetta algert óhóf í sprengingum enda skíthrædd við þær sjálf.

Á gamlársdag skruppum við á Laugarvatn í sjötugsafmæli föður míns, gullbrúðkaup foreldra minna og aukalega var tilkynnt að þetta væri skírnarafmæli föður míns og fimm systkina hans (sem ég vissi nú ekki að hefðu verið skírð á einu bretti þarna fyrir fimmtíu árum). Atli tók nokkrar myndir sem sjá má hér. Þetta er fyrsta samkoman sem ég sæki síðan guð-má-vita-hvenær og lukkaðist bara vel þótt ég yrði örmagna á eftir. Ég missti af öllum júlefrókostum og fjölskyldusamkomum fyrir jól enda uppvakningur.

Mér er ljóst að ég man ekkert eftir síðustu jólum og áramótum og reyndar er stór hluti síðasta árs í óminni. Ef ég tel saman þá var ég veik allan veturinn en náði, fyrir kraftaverk, fjórum og hálfum mánuði alfrísk yfir sumarið. Satt best að segja hef ég ekki orðið svona frísk í mörg ár. Þökk sé hinu ágæta lyfi sem ég fékk en því miður hætti það að virka einn daginn seint í september og ég fékk fría ferð til heljar, einu sinni enn. Núna er ég hægt og bítandi að skríða upp á við aftur, rosalega hægt eins og venjulega en “með hægðinni hefst það” eins og tuggið er í ónefndum samtökum og er holl og góð lífspeki. Eitraða lyfið virðist vera að virka eitthvað, ekki bara að skaffa mér óþægilegar aukaverkanir, og ég reyni að hugsa ekki þá hugsun til enda hvað hægt verður til bragðs að taka þegar það hættir að virka, eins og öll hin lyfin. Ætli ég gerist ekki bara fastagestur á 32 A? Den tid den sorg … Og ég náði að sofa út nóttina í nótt, í þriðja sinn frá því einhvern tíma í nóvember, sem er væntanlega batamerki. Ég held að það hjálpi til að slökkva á tölvunni klukkan átta á kvöldin og snúa sér að öðru.

Núna get ég aðeins orðið hugsað, er nýbyrjuð að horfa á sjónvarp og hef borið við að lesa, einkum hannyrðafræði og um sögu fatnaðar en einnig um annað áhugamál sem ég er upptekin af þessa dagana og endar sjálfsagt í uppkasts-bloggfærslum. Á gamlársdag tók ég fram hrúguna af garnafgöngum sem ég á, horfði á hana og hugsaði: “Hvað myndi Kaffe Fassett gera?” Svarið var augljóst: Kaffe Fassett myndi prjóna formlausa peysu með æðislega flottri mynd af sólarlagi við ”dýpstu sjónarrönd”, miðað við litina. En mig langar bara ekkert í formlausa flott-myndprjónaða peysu með rauðbleik-appelsínugula sólina að síga í hafið. Svo ég ákvað að impróvísera kjól, í öllum regnbogans litum. Er byrjuð að prjóna og nota bara málband og þríliðu til að reikna út enda gengur mér yfirleitt miklu betur að prjóna upp úr mér heldur en eftir uppskriftum. Svo er spurning hvort verður eitthvað úr þessu eða hvort ég rek endalaust upp … en ég get þá alltaf búið til litríkt munstur af sólarlagi og skellt mér á myndprjónið og einhvers konar kaftan-peysu.

Úr því prjónaskap ber á góma: Í gær varð mér ljóst að ég verð að eignast biblíu prjónasögunnar þótt prjónakonur Vefjarins séu nokkuð sammála um að hún sé ótrúlega leiðinleg. Svo ég pantaði History of handknitting eftir enska sérann og biskupinn Richard Rutt í gegnum Amazon í gær - tímdi auðvitað ekki að kaupa ónotað eintak enda ótrúlega dýr bók (miðað við væntanleg leiðindi). Og það er ótrúlega hallærislegt að bókin sú skuli ekki vera til á einu einasta bókasafni landsins! Ég ætti að fá bókina einhvern tíma í byrjun febrúar.

Hafandi lesið nokkra texta eftir Bellmann í gærkvöldi, bæði orginala og glæsilegar þýðingar og staðið sjálfa mig að því að syngja “Ef þér virðist gröfin gína köld / þá er gott að fá sér staup í kvöld” o.s.fr. ákvað ég að tími væri kominn til að sækja fund hjá algerlega nafnleyndu samtökunum nú á eftir. Ég hef ekki farið á svoleiðis fund síðan í september, fyrir utan einn sem við héldum nokkrir sjúklingar á 32 A inni á setustofu einn morguninn eldsnemma (og var einn af bestu fundum sem ég hef setið). Já, þetta er tvímælalaust dagur til að ala sig svolítið upp og faðma karla! Kominn tími til!

Hvernig verður svo nýja árið? Satt best að segja borgar sig engan veginn að spá nokkuð í það. Taka einn dag í einu er aðferð sem ég er orðin verulega flink í (mætti gjarna útskrifast úr þeirri aðferð en svo verður ekki svo ég hef hugsað mér að brúka hana áfram). Svoleiðis að þótt ég hafi einhver plön um hvað ég vil iðja hér heima er alltaf ljóst að það koma tímar þar sem þeim plönum er sjálffrestað og ég verð að setja allt líf mitt “á hóld”, tímabundið um lengri eða skemmri tíma (aðallega lengri, núorðið). Það eina sem ég er ákveðin að gera er að fara með manninum til einhverrar grískrar eyju í sumar, aftur á móti erum við ekki búin að ákveða eyjuna. Þótt ég megi ekki borða feta-ost …

  

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf, handavinna