Færslur undir „Óflokkað“

15. ágúst 2014

Bloggið flutt

Ég hef flutt bloggið mitt á harpahreins.com/blogg

Ummæli (0) | Óflokkað

14. ágúst 2014

Orð kvöldsins og Þröstur Helgason

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur ákveðið að fella niður nokkra örstutta dagskrárliði á rásinni, þ.e. Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldins. “Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar …” segir í beinni tilvitnun í yfirlýsingu Þrastar í Morgunblaðinu í dag (s. 2) en ég finn yfirlýsinguna hvergi, ekki einu sinni á vef RÚV. Enn fremur segir í beinni tilvitnun í yfirlýsinguna: “Hlustun á þá [dagskrárliði sem falla burt] hefur verið afar lítil.”

Ég hafði ekki hugmynd um að Þröstur hefði látið mæla hlustun á þessa dagskrárliði og þætti gaman að sjá tölurnar sem hann styðst við. Í leiðinni væri ágætt að sjá mælingu á fleiru, t.d. hlustun á tæpra tveggja klukkustunda Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva (í síðustu viku slökkti ég einmitt á svoleiðis eftir að kynnir upplýsti að þarna væru spiluð hljómsveitarverk eftir Béla Bartók og Dmitri Schostakowitsch … en kannski falla þessi tvö tónskáld eins og flís við rass við breyttan lífsstíl þjóðarinnar og hún hlustar af áfergju?). Og hve margir hlusta á kvöldsöguna? Nú er verið að lesa Leigjandann, merkilega ádeilusögu, allegóríu fyrir bókmenntafræðinga o.s.fr. …  en því miður hundleiðinlega og því miður er ádeilan dottin upp fyrir því herinn er löngu farinn og því miður finnst almenningi sennilega skemmtilegra að ráða krossgátur en túlka allegóríur. Hvar ætli maður geti séð áheyrendatölurnar yfir einstaka liði Rásar 1, sem Þröstur vísar í? Og hvernig var þetta mælt?

Ég veit ekki hvað þessi Morgunandagt er, hlusta ekki á Morgunbæn, sem skv. dagskránni í dag tók þrjár mínútur og var flutt fyrir klukkan 7 í morgun. En einstaka sinnum hlusta á ég Orð kvöldsins, fimm mínútna þátt. Það geri ég einkum í slæmum þunglyndisköstum og þykir þessi dagskrárliður hafa sefandi áhrif til bóta á þá hryllilegu líðan. Örlítil falleg tónlist og örlítið af fallegum orðum sem gefa von og veita huggun.  Þess vegna á ég eftir að sakna Orðs kvöldsins. Einhvern veginn hafði líka læðst inn hjá mér sú hugmynd (væntanlega firra af því ég geng ekki í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar) að sumt gamalt fólk, sumt fólk sem ætti bágt og jafnvel sumt trúað fólk hlustaði á þennan dagskrárlið: Samanlagt er þetta sennilega dágóður fjöldi en kannski dagskrárstjóranum finnist óþarfi að telja það til þjóðarinnar?

Satt best að segja læðist að konu eins og mér að með því að skera niður þessa átta mínútna+ (veit ekki hvað Morgunandaktin er löng) dagskrárliði sé Þröstur Helgason að reyna að skora stig hjá einhverjum í þeim háværa en fámenna sí-nettengda hópi sem telur að allt efni þar sem guð ber á góma sé í rauninni verkfæri andskotans. Sjálfsagt tekst honum það átölulaust því hópurinn sem hlustar á þessa dagskrárliði er ekki líklegur til hafa sig í frammi.

P.S. Þessa færslu er einnig að finna á nýju bloggumhverfi þangað sem ég hef flutt bloggið mitt, sjá http://www.harpahreins.com/blogg/2014/08/14/ord-kvoldsins-og-throstur-helgason/

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

7. ágúst 2014

Kostir, gallar og aðgengi að rafrettum

Þessi pistill er framhald af Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf.

Rafrettur komu fyrst á markað í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2006. Vinsældir þeirra hafa vaxið hröðum skrefum, ekki vegna markvissrar markaðssetningar heldur vegna Netsins: Notendur stofna hópa og umræðuborð og segja af reynslu sinni; umræðan berst hratt í gegnum samskiptamiðla; smáfyrirtæki/vefsíður sem selja rafrettur, íhluti og vökva spretta upp eins og gorkúlur. Vegna þessarar hröðu útbreiðslu hafa ekki verið gerðar margar almennilegar rannsóknir á rafrettum. En nú hafa tröllin tvö í viðskiptaheimi Vesturlanda áttað sig og bítast um bitann: Tóbaksframleiðendur og lyfjaframleiðendur. Því miður er útlit fyrir að þessi ágæta uppfinning falli í þeirra hendur með dyggri aðstoð stjórnvalda sem fóðra gjörninga sína með því að verið sé að gæta hagmuna notenda, þ.e. passa þá eins og óvita.

Geta rafrettur verið hættulegar?

Græjan sjálf er ekki hættuleg nema lithium-rafhlöðurnar geta sprungið eins og allar slíkar rafhlöður. Það hefur gerst einstaka sinnum ef marka má fréttir sem birst hafa í misáreiðanlegum fjölmiðlum en yfirleitt var þá einhver vitleysingur að hlaða rafhlöðuna rangt. (Sams konar sögur má finna um tölvur, farsíma og fleira dót með endurhlaðanlegri lithium-rafhlöðu.)

Vökvinn sem er í tönkum (eða geymum) rafretta getur innihaldið ýmis óholl aukaefni önnur en glycerol og nikótín og sömuleiðis geta orðið óæskileg efnahvörf við hitun hans. Þessi aukaefni eru í álíka litlum mæli og í nikótínúða þeim sem lyfjafyrirtæki framleiða og margfalt minni en mælast í sígarettureyk. Málmagnir sem mælast í gufunni (t.d. kadmín, nikkel og blý) eru í álíka magni og mælist í nikótínúða. Væri áhugavert að sjá samanburðartölur við gufu úr hraðsuðukatli, útblástur bíla o.fl. en þær liggja ekki á lausu. Mögulega gæti einhver haft ofnæmi fyrir þessum málmögnum eða efnum sem myndast við hitun glycerols.

Nikótín er ekki sérlega hættulegt efni. Vísindaþjóðsaga frá lokum nítjándu aldar hefur hermt að 30-60 mg af nikótíni væri banvænt inntöku en til eru nýleg staðfest dæmi um sjálfsvígstilraunir þar sem fólk drakk nikótínvökva með allt upp í 1500 mg af nikótíni án þess að takast ætlunarverk sitt.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að rafrettugufun sé ekki hættuleg  manni. En auðvitað má fara að dæmi fillifjonkunnar í sögu Tove Jansson og eyða orku sinni í að óttast allar mögulegar hörmungar sem gætu dunið yfir, í þessu tilviki komið í ljós löngu seinna.

Lítið nikótín

Kannski er stærsti gallinn við rafrettur, frá sjónarhóli notenda, að það er erfitt að gufa nikótíni í sæmilegu magni úr þeim. Í nýlegri tilraun Maciej L. o.fl., sem segir frá í vísindaritinu Addiction árið 2013  kom í ljós að uppgefið nikótínmagn í vökva í geymum stóðst ekki nærri alltaf. En öllu merkilegri var þó sú uppgötvun að samhengi milli nikótínmagns í vökvanum og nikótínmagns í gufunni var ótrúlega lítið. Í þessari tilraun var notuð reykvél og kom í ljós að gufað nikótín í 300 „smókum“ (sem hver stóð í 1,8 sekúndu) mældist á bilinu 2 mg - 15 mg. Í grein Hajek o.fl. sem birtist í sama tímariti nú í júlí og vísað er til neðst í þessum pistli var niðurstaða rannsókna á raunverulegum gufurum sú að reyndur gufari sem gufaði að vild í klukkustund gæti náð sama magni nikótíns í innöndun og er í einni sígarettu!

Kostir rafretta

Stærsti kosturinn er væntanlega sá að með því að nota rafrettu má draga úr reykingum eða jafnvel hætta þeim alveg. Og eins og rakið hefur verið eru rafrettur ólíklegar til að valda skaða á heilsu manns en allir ættu að vita að það er hreint ekki raunin með sígarettur, raunar allt tóbak.

Engin stór og rétt framkvæmd klínísk rannsókn hefur verið gerð á því hvort rafrettur nýtist betur eða verr en hefðbundin nikótínlyf til að hætta að reykja. Raunar sé ég ekki ástæðu til að efna til klínískrar rannsóknar á þessu því þá er um leið búið að gefa ádrátt lyfjaframleiðendum og áhangendum þeirrar skoðunar að rafretta sé einhvers konar lækningatæki.

Skv. grein Hajek o.fl. í Addiction í júlí sl. nota mjög margir rafrettur meðfram sígarettum og hefur tekist að draga umtalsvert úr reykingum með hjálp þeirra. Þetta eru „tví-notendur“ (dual users) og telja höfundar þessarar greinar að það sé ekki slæmt í sjálfu sér því það hljóti að vera til bóta að draga úr reykingum. Grana o.fl. sem skrifuðu grein í Circulation 2014 (sjá tilvísun neðst i pistlinum) halda því hins vegar fram að það þýði ekkert að minnka reykingar, þeim verði að hætta algerlega. Rökin eru þau að hætta á lungnakrabba og fleiri tegundum krabbameina ráðist af hve lengi hefur verið reykt og skipti engu máli hvort reykt sé lítið eða mikið þann tíma. (Ég ákvað umsvifalaust að hætta við að hætta nokkurn tíma að reykja þegar ég las þetta, það tekur því ekki úr þessu.)

Aðgengi að rafsígarettum og nikótíntönkum/geymum

Sem fram kom í síðast pistli flokkar Lyfjastofnun hérlendis nikótínvökva sem lyf og fylgir þar fordæmi Svía , Dana og Norðmanna, auk fleiri þjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í læknatímaritinu Lancet  var nokkur umræða í fyrra um hvernig skyldi flokka rafrettur og nikótínvökva og hafa eftirlit með þeim. Þar má t.d. lesa greinina Regulation of e-cigarettes: the users’ perspective eftir Ricardo Polosa og Pasquale Caponnetto, sem talsvert hafa tjáð sig um rafrettur. Í henni kemur fram að líklega félli nikótínvökvi ágætlega undir lög og reglugerðir í Evrópusambandsríkjum um fæðubótarefni en: „The rapidly expanding popularity of e-cigarettes is a threat to the interests of both the tobacco and pharmaceutical industry and to their associated stakeholders.” Ætli þetta sé ekki mergurinn málsins fremur en umhyggja fyrir heilsu gufara?

Evrópusambandið setti nýlega reglugerð  þar sem nikótínvökvi í rafrettur sem inniheldur 20 mg eða minna er flokkaður sem tóbaksvara, yfir 20 mg vökvi er flokkaður sem lyf (krækt er í fréttatilkynningu frá 24. febrúar 2014). Skoða má sérstakt áróðursplagg Evrópusambandins „til að slá á kjaftasögur” af þessu tilefni  (sem að mínu mati er ágætt dæmi um algert kjaftæði).

Evrópusambandið hefur sem sagt fellt sinn Salómónsdóm: Gefið tóbakströllinu helminginn af nikótínvökvagróða og lyfjaframleiðströllinu hinn helminginn. Auðvaldið ætti að vera hamingjusamt.

Delluverk dauðans

Sem betur fer hefur þessi ákvörðun Evrópusambandsins ekki orðið að veruleika ennþá. Hins vegar er innflutningur á nikótínvökvum núna gott dæmi um Catch-22 aðstæður því rétt í þessu fékk ég svar við fyrirspurn minni um hvort mætti flytja inn nikótínvökva til eigin nota frá þjónustufulltrúa Tollstjóraembættisins:

„Nei það er ekki leyfilegt. Nikótín skilgreinist sem lyf og er því í höndum Lyfjastofnunar að veita leyfi fyrir slíku. Þar sem varan er markaðssett sem almenn vara fær hún ekki markaðsleyfi þar sem almennar vörur mega ekki innihalda lyf.“

Lyfjastofnun hér (og sums staðar annars staðar) skilgreinir nikótínvökva sem lyf. Ekkert apótek í þessum löndum selur nikótínvökva sem lyf því enginn hefur sótt um markaðsleyfi á því. Fullt af netverslunum selja nikótinvökva sem venjulega vöru en „almennar vörur mega ekki innihalda lyf“ og því er ekki hægt að vísa í reglugerðina um að sjúklingur geti flutt inn lyf til eigin nota. Ef þetta er ekki della dauðans þá veit ég ekki hvað!

Svo líklega sný ég mér aftur að keðjureykingum á Winston long úr því Lyfjastofnun er svo umhugað um heilsu mína og Tollurinn svona löghlýðinn.

En … ef einhver vill prófa þá lýk ég þessum pistli á krækjum í nokkrar vefsíður þar sem kaupa má rafsígarettur og nikótínvökva.

Íslenskar síður þar sem kaupa má rafrettur og íhluti:

Gaxa  (Ég hef ágæta reynslu af viðskiptum við þennan aðila en ég er svo sem óttalegur græningi í gufun.)

Rafreykur 

eLife

Evrópskar síður sem hafa verið vinsælar til að panta nikótínvökva:

The Pink Mule á Spáni

eShop á Írlandi

Digbys á Bretlandi

Aðalheimildir fyrir utan þær sem krækt er í úr texta:

Grana, R., Benowitz, N., & Glantz, S. A. (2014). E-Cigarettes A Scientific ReviewCirculation, 129(19), 1972-1986.

Hajek, P., Etter, J. F., Benowitz, N., Eissenberg, T., & McRobbie, H. (2014). Electronic cigarettes: review of use, content, safety, effects on smokers and potential for harm and benefitAddiction.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

5. ágúst 2014

Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótín

Rafsígarettur (e-cig) eru tæki sem framleiða gufu til að anda að sér og líkjast oftast sígarettum að lögun. Gufan myndast úr vökva og sé nikótín í vökvanum anda menn því að sér eins og í tóbaksreyk en einnig eru fáanlegir alls konar vökvar sem einungis innihalda bragðefni. Nikótíninnöndun er það eina sem er sameiginlegt rafsígarettum og venjulegum sígarettum og notendur þeirra kalla þetta ekki að reykja heldur að gufa.

Gufarar

Rafsígarettur komu fyrst á markað í Kína vorið 2004 og Kínverjar eru enn leiðandi í framleiðslu þeirra og íhluta í þær. (Þeim sem hafa ímugust á kínverskum vörum og efast um gæði þeirra er bent á að líklega eru tölvurnar þeirra og mörg raftæki á heimilinu full af íhlutum framleiddum í Kína ;) ) Rafsígarettur eru af ýmsum toga en algengast er eitthvað sem lítur út á þessa leið:

 

RafrettaÍ tankinum (geyminum) sem skrúfaður er á rafhlöðuna er hitari. Úr honum liggja þræðir sem soga upp vökvann í tankinum, hita hann á örskotsstund svo hann verður að gufu sem notandi andar að sér. Notandi andar frá sér svo til hreinni gufu sem hefur lítil áhrif á nærstadda og er nánast lyktarlaus. Á vef Gaxa, íslensks fyrirtækis sem selur rafsígarettur, má sjá myndir af þessum íhlutum í rafretturnar. Rafhlöðurnar má hlaða í tölvu eða í venjulegri innstungu.

Gaxa hefur hins vegar ekki leyfi til að selja vökva sem innihalda nikótín. Það er vegna ákvörðunar Lyfjastofnunar um að nikótínvökvi skuli teljast lyf. Sama gildir um aðrar íslenskar vefsíður sem selja rafrettur, s.s. RafreykeLIFE og e.t.v. fleiri.

Nikótínlyf og lyf til að hætta að reykja

Á íslenskum markaði eru fyrir nokkrar gerðir svokallaðra nikótínlyfja. Má nefna nikótíntyggjó, nikótínúða og nikótínsogtöflur. Þetta dót er einkum framleitt af tveimur lyfjarisum: Nicotinell er framleitt af Novartis, sem eitt af fimm söluhæstu lyfjafyrirtækjum heims. Einkaleyfið á Nicorette á hins vegar GlaxoSmithKline, í Bandaríkjunum, og Johnson&Johnson í Evrópu (Nicorette berst til Íslands gegnum dótturfyrirtæki Johnson&Johnson, McNeil Denmark ApS). Bæði þessi fyrirtæki eru lyfjarisar sem hafa margoft verið lögsóttir fyrir ýmislegt svindl í markaðssetningu lyfja og svínarí í viðskiptaháttum. Ekkert af þessum nikótínlyfjum er ódýrt. En það er bullandi bissniss í að selja fólki þetta, t.d. er Nicorette “eitt stærsta lyfið á lausasölumarkaði hér á landi”, að sögn innflytjanda þess.

Ég þekki marga sem hafa hætt að reykja með hjálp svona nikótínlyfja. Hins vegar er stór hluti þeirra fólk sem hefur tuggið nikótíntyggjó árum saman og tyggur enn (getur ekki hætt), svo það er spurning um öskuna og eldinn, sé haft í huga hvaða aukaverkanir þessi lyf hafa.

Í leiðinni er rétt að geta eins lyfs sem ávísað hefur verið þeim sem vilja hætta að reykja. Það er ekki nikótínlyf heldur þunglyndislyf. Þegar lyfinu er ávísað til að hætta að reykja heitir það Zyban en þegar því er ávísað við þunglyndi heitir það Wellbutrin. Þetta er nákvæmlega sama lyfið og ráðlagir dagskammtar þeir sömu. Ég hef reynslu af þessu lyfi gefnu við þunglyndi árið 2009; Það virkaði ekkert gegn þunglyndi, ég fann ekki fyrir minnstu þörf á að draga úr reykingum en hins vegar varð að minnka lyfjaskammtinn niður í lágmark (150 mg) því aukaverkun af lyfinu var að skjálfa svo heiftarlega frá toppi til táar að ég gat hvorki drukkið úr glasi né bolla, einungis stútkönnu. Zyban/Wellbutrin er einmitt framleitt af GlaxoKlineSmith og má kannski í leiðinni geta þess að fyrirtækið reyndi að markaðssetja sama lyf einnig sem megrunarlyf og getuleysislyf en bandarískur alríkisdómstóll dæmdi fyrirtækið í þriggja milljarða sekt fyrir það tiltækið árið 2012.

Álit Lyfjastofnunar á nikótínvökva

Löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins er í sjálfsvald sett hvernig þau vilja flokka nikótínvökva í rafsígarettur. Lyfjastofnun sem virðist fara með alræðisvald hér á landi hefur ákveðið að flokka slíkan vökva sem lyf og ber fyrir sig 2. tölulið. 1. mgr. 5. gr. Lyfjalaga nr. 93/1994, sem er þýðing á skilgreiningu lyfs í lyfjalöggjöf Evrópu og  afskaplega illskiljanleg skilgreining:

2. [Lyf: Hvers konar efni eða efnasamsetningar sem sögð eru búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum eða hvers konar efni eða efnasamsetningar sem nota má fyrir menn eða dýr eða gefa þeim, annaðhvort í því skyni að endurheimta, lagfæra eða breyta lífeðlisfræðilegri starfsemi fyrir tilstilli líflyfjafræðilegrar eða ónæmisfræðilegrar verkunar eða verkunar á efnaskipti eða til þess að staðfesta sjúkdómsgreiningu.]

Það er ekki áhlaupsverk að túlka þessa lagagrein með háskólapróf í íslensku ein að vopni., hvað þá koma auga á hvernig hún getur rökstutt þá ákvörðun Lyfjastofnunar að telja nikótínvökva í rafsígarettutanka vera lyf. En það hefur Lyfjastofnun ítrekað 31. júlí 200920. nóvember 2009  og 3. janúar 2014 (og e.t.v. oftar).

Í þessum tilkynningum er hamrað á því að “innflutningur á rafsígarettum með nikótíni til endursölu er óheimill sé markaðsleyfi skv. lyfjalögum, nr. 93/1994, ekki fyrir hendi.” (tilv. í tilkynninguna frá 3. jan. í ár.) Markaðsleyfið fæst frá Lyfjastofnun.

Í símtali við fulltrúa Lyfjastofnunar í dag kom fram að markaðsleyfi lyfs sem bara er selt hér á landi, sem yrði túlkað sem frumlyf, kostar 4 milljónir. Taki mörg Evrópulönd sig saman og vinni umsókn um markaðsleyfi og íslenskur aðili gæti húkkað sig á það samstarf gæti markaðsleyfið kostað 300.000 kr.

Þetta markaðsleyfi er sem sagt ekki gefið. Og satt best að segja finnst mér ólíklegt að nokkur sæki um markaðsleyfi til að flytja inn lyfið “nikótínvökva til áfyllingar á tanka á rafsígarettur” nema alheimsframleiðslan komist í hendur lyfjarisa, t.d. sömu lyfjarisa og hafa orðið uppvísir að svindli, markaðsmisnotkun, fölsuðum rannsóknarniðurstöðum, leppuðum skrifum í læknatímaritum o.s.fr., þ.e. “Big Pharma” í öllu sínu veldi.

Ég fékk engin ótvíræð svör hjá Lyfjastofnun um hvers vegna það íslenska batterí hefði ákveðið að niktótínvökvi væri lyf nema gefið var í skyn að  jafnræðisreglu hefði verið beitt, þ.e.a.s. horft til nikótínlyfja sem fyrir eru á markaðnum. Sem eru framleidd af lyfjarisum.

Hvernig geta gufarar nálgast nikótínvökva í sínar rafrettur?

Eins og fyrr kom fram hafa íslenskt fyrirtæki selt rafrettur og íhluti í þær í nokkur ár. Á Netinu er síðan auðvelt að panta nikótínvökva og raunar algerlega löglegt fyrir einstaklinga sem ekki ætla að selja vökvann þann. Í gildi er nefnilega Reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, nr. 212 frá 1998.  Pöntun má fá í pósti frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er miðað við 100 dagskammta til eigin notkunar. Raunar segir í 2. gr. Reglugerðarinnar:

Einstaklingur skal geta framvísað vottorði læknis, lyfseðli eða annarri skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun, er færi fullnægjandi sönnur á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Nú reikna ég með að það væri auðsótt mál að skaffa vottorð, t.d. fyrir mig frá heimilislækni því ég get ekki notað tyggjó, líklega vegna skemmda í miðtaugakerfi af lyfðseðilsskyldum lyfjum sem Lyfjastofnun hefur leyft og mér hafa verið ávísuð árum saman í óhóflegu magni - og allir læknar vilja auðvitað venja sína sjúklinga af reykingum, svo bráðóhollar sem þær nú eru. En hvernig ætli búðirnir sem ég kaupi nikótínvökvann af taki íslenskri vottorðasendingu? Þetta eru nefnilega ekki apótek heldur venjulegar verslanir á Vefnum því það eru margar þjóðir í Evrópu, fyrir utan Ísland, sem telja nikótínvökva í rafrettur vera hvurja aðra vöru en ekki lyf. Á ég kannski að afhenda Tollstjóraembættinu lyfseðilinn, ef um er beðið? Eða Lyfjastofnun sjálfri?

Í framhaldsfærslu verður fjallað um hvort eða hvursu óholl gufun úr rafsígarettum er miðað við reykingar og bent á nokkra staði á Vefnum þar sem hægt er að kaupa græjur og nikótínvökva.

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

1. ágúst 2014

Hvert var mótífið/hvatinn?

Þessi færsla fjallar um lekamálið margumrædda.

Ég les mikið af allra handa morðbókmenntum, frá Íslendingasögum til nútímareyfara. Í Íslendingasögunum er yfirleitt klár ástæða þess að menn eru drepnir en morðsögur nútímans snúast um leitina að morðingjanum. Í þeim síðarnefndu er oft meginatriði í rannsókn og lausn málsins að komast að því hver var hvatinn að baki morðinu: Hver hagnaðist á að drepa viðkomandi?

Umfjöllun netmiðla og bloggara um lekamálið er sjálfsagt orðin álíka löng og Njála, væri hún prentuð út. En fáir hafa spurt þessara spurninga: „Af hverju var skjalinu lekið til fjölmiðla?“ og „Af hverju var skjalinu breytt áður en því var lekið til fjölmiðla?“.

Einhverjir hafa gert því skóna að fréttir fjölmiðla af þessari börnuðu samantekt úr Innanríkisráðuneytinu (sem óvart var lá á opnu drifi þar innanhúss - en samt var það kannski hinn dularfulli B sem lak henni) hafi átt að sverta mannorð Tonys Omos því samtökin No Borders hefðu ætlað að mótmæla brottvísun hans út landi sama dag og fréttirnar birtust. Finnst einhverjum í alvöru líklegt að Innanríkisráðuneytið hafi haft áhyggjur af einhverjum mótmælum, algeng sem þessi smá-mótmæli eru? Tony Omos var svo lítið peð í flóttamannafjöldanum sem vísað er úr landi að ekki einu sinni Eva Hauks vissi sérstök deili á honum daginn fyrir mótmælin og er hún þó mestur áhugamaður um flóttamenn á Íslandi.

Nei, skýringin á því af hverju skjalinu var lekið til fjölmiðla hlýtur að vera önnur. Í ljósi þess hvernig mál hafa æxlast síðan er ekki óvitlaust að láta sér detta í hug mótífið að koma höggi á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hamra svo járnið viðstöðulaust uns líkist engu öðru en ógeðslegu einelti. Viðbótarklausan, þessi sem bætt var við samantektina sem lögfræðingur Innanríkisráðuneytisins samdi, er einmitt vel til þess fallin til að skaffa óteljandi fyrirsagnir með stríðsletri í DV og miðlum af sama toga ásamt ómældri hneykslun hjarðarinnar sem getur bara lesið svoleiðis fyrirsagnir og tuttugu-orða-fréttir.

Síðan hafa netmiðlar og bloggarar gætt þess vandlega að málið leggist ekki í þagnargildi. Fundnir eru leka-sökudólgar en sumt dregið til baka þegar meintur sökudólgur hótar kæru; það er lagst yfir gamlan dægurlagatexta og hann túlkaður af slíkri dýpt að sjálf Julia Kristeva hefði ekki gert betur; þegar fólk neitar ekki fabúleringum slúðurmiðla jafngildir það játningu sektar (og skiptir engu þótt sama fólk geti ekki tjáð sig því málið er enn í rannsókn); ættir fólks sem mögulega gæti tengst þessu máli eru raktar lengst aftur við fólk sem mögulega gæti unnið að rannsókn þess (eða bara verið í sjálfstæðiflokknum) o.s.fr. Núna loksins eru einhverjir farnir að velta fyrir sér mótífinu/hvatanum og ævintýralegar samsæriskenningar líta dagsins ljós, hver annarri ótrúlegri; Hver hagnast á útreið Hönnu Birnu?

Tony Omos er öllum löngu gleymdur, hann er eins og hver annar snærisþjófur af Skaganum að því leytinu. Næsta skref hlýtur að vera að athuga hvort Hanna Birna flýtur á vatni eða hvort hún sekkur (til vara mætti vigta hana á vogarskál á móti önd). Ekkert annað en nornapróf getur úr þessu friðað þann almenning sem fylgist af áhuga, grimmd og gullfiskaminni með lekamálinu mikla.

Ummæli (5) | Óflokkað

30. júlí 2014

Hjarðhegðun og sauðsháttur

Þessi færsla fjallar um hvernig teyma má ótrúlegan fjölda lesenda netmiðla til að trúa ótrúlegum staðhæfingum og hve sú lesendahjörð virðist í rauninni algerlega gagnrýnilaus í þeim skilningi að fáir nenna að kynna sér mál áður en þeir skrifa stóryrtar yfirlýsingar og hve fáir virðast færir um að spyrja gagnrýninna spurninga.

Ég tek hér dæmi netstorminn kringum meinta illa sólarkísiliðju á Grundartanga. Kvennablaðið birti samsuðu undir fyrirsögninni Stórslys í uppsiglingu í Hvalfirðinum? þann 25. júlí sl. Þegar þetta er skrifað hafa 6.112 manns lækað grein Kvennablaðsins og við hana hafa verið skrifuð 81 ummæli, flest í sama dúr, sem er eitthvað um helvítis stóriðju sem er einungis komið á fót til að gjörspilla hinu fagra Íslandi eða jafnvel leggja hluta þess í eyði.

Kveikjan að grein Kvennablaðisins var bloggfærsla eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar SILICOR þýðir meiri mengun á Grundartanga frá 18. júlí. Þar heldur Haraldur því fram að Silicor vilji svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku, framleiðslan sé þvílíkt svínarí og eiturbras með sílikon tetraklóríð til að hreinsa sílíkonið að hún sé yfileitt höfð í Kína en ekki leyfð í Bandaríkjunum. Það virðist algerlega hafa farið framhjá Kvennablaðinu að tvær fyrstu athugasemdirnar sem skrifaðar eru samdægurs við blogg Haraldar leiðrétta aðalatriðið í málflutningi hans, þar af er önnur skrifuð af virtum verkfræðingi.

Haraldur á lögheimili í Bandaríkjunum þótt hann dvelji stundum hérlendis, einkum í Stykkishólmi. Fréttir héðan kunna því að fara fram hjá honum, t.d. les hann sennilega ekki Skessuhornið, blað Vestlendinga. Það ágæta blað birti ítarlega fréttaskýringu um þessa sólarkísilverksmiðju í maílok og má sjá bút úr henni á vefútgáfu blaðsins, Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga, 27. maí 2014. Í vefútgáfunni segir m.a. „Þá er framleiðsla kísilsins sérstök að því leyti að efnið er hreinsað með bræddu áli og það selt til framleiðenda sólarrafhlaða.“ Í frétt sama blaðs daginn eftir segir:„Hér er um afar vistvæna stóriðju að ræða en til marks um það þarf ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar.“

Allt fer þetta fram hjá Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi og einnig fremur ítarleg veffrétt Skessuhorns þann 16. júlí, Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga,  þar sem enn og aftur er ítrekað að efnið verði hreinsað með bræddu áli.

Ég læt sosum vera þótt einstaklingur búsettur í útlöndum fylgist ekki sérlega vel með og fari með fleipur um fyrirhugaðan iðnað á Íslandi á sínu einkabloggi. Öðru máli gegnir um vefmiðil sem nennir ekki að kynna sér mál heldur lepur upp vitleysuna af þessu einkabloggi með stríðsfyrirsögn sem boðar stórslys og kyndir síðan undir dómadagsspár og hneykslan hjarðarinnar í umræðuþræðinum fyrir neðan!

Það þarf svo varla að taka fram að DV hoppaði á vagninn og sauð sitt eigið sull úr bloggi Haraldar með hliðsjón af grein Kvennablaðsins og varð málið æ meir krassandi og fjúkandi reiður hópurinn virkra í athugasemdum enn stærri og enn verr að sér.

Kvennablaðið hefur síðan „fylgt málinu eftir” með pistlinum Hvað er sannleikur? sem birtist 28. júlí. Í þeirri grein er dregið nokkuð í land en þó ekki: „Almenningi til málsbóta má taka fram að upplýsingar um fyrirhugað fyrirtæki hafa ekki verið kynntar á áberandi hátt.“ Nú hefur þeim almenningi sem málið varðar, þ.e. íbúum á svæðinu þar sem sólarkísiliðjan rís (raunar öllum þeim landsmönnum sem nenna að fylgjast með) verið kynntar þessar upplýsingar á áberandi hátt eins og ég hef rakið hér að ofan. Er þessi meinti almenningur hjörðin sem lækar umhugsunarlaust eða gargar fávís í athugasemdum? Það hefði líklega kostað Kvennablaðið símtal, jafnvel tvö símtöl (t.d. við sveitarstjóra í Hvalfjarðarsveit, bæjarstjóra á Akranesi eða forstöðumann Faxaflóahafna) að fá þessar upplýsingar hratt og vel áður en dómadagsspáin vinsæla var skrifuð. Gúgull svarar nefnilega ekki öllum spurningum, sérstaklega ekki ef menn ætla að skrifa krassandi fréttskýringu og dettur ekki einu sinni í hug að leita í netmiðli landshlutans sem um er rætt.

Nú, restin af Hvað er sannleikur? eru nokkrar beinar tilvitnanir í plögg sem Gúgull hefur væntanlega fundið og spurningar inn á milli, sumar heldur einfeldningslegar að mínu mati, og loks beiðni um að einhver skrifi efnafræðilegar skýringar á mannamáli fyrir lesendur Kvennablaðsins.

Það hefur einmitt þegar verið gert, sjá í grein Þorsteins Inga Sigfússonar, prófessors og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún heitir Komu Silicor til landsins ber að fagna sem miklu skrefi í átt til framfara og er dagsett 29. júlí 2014.

En ég reikna ekki með að hjörðin hafi nokkurn áhuga á grein sem er til einungis skýringar og heldur jákvæð; Þar eru engar upphrópanir, ekkert krassandi, engar heimsósómapælingar!

Enda hafa bara 169 lækað grein Kvennablaðsins, Hvað er sannleikur?, og enginn nennt að skrifa athugasemd við hana. Líklega verða lækin langt undir hundrað þegar sannleikurinn loksins birtist.

Ummæli (5) | Óflokkað

28. júlí 2014
21. júní 2014

Fimm þúsund konan

Eina konan sem nýtur þess heiðurs að skreyta íslenskan peningaseðil er Ragnheiður Jónsdóttir, annáluð hannyrðakona á sautjándu öld. Þessi pistill fjallar um hana.

Ragnheiður fæddist árið 1646 og var dóttir hjónanna Jóns Arasonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Faðir hennar var prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var sonur Ara í Ögri, sýslumanns sem frægastur er fyrir fjöldamorð á spænskum skipreika sjómönnum hér á landi.  Móður Ragnheiðar, Hólmfríðar, er hins vegar einkum minnst fyrir sagnir af því hve tilhaldssöm hún var; hún lét meira að segja flytja inn gylltan lit til að setja í hár sitt!

Ragnheiður var í hópi níu systkina sem upp komust, af tólf fæddum börnum þeirra Jóns og Hólmfríðar. Mörg systkinanna voru annáluð fyrir offitu, t.d. Oddur digri, sem hestar gátu einungis borið 2-3 bæjarleiðir í senn, eða Anna digra, sem þurfti tröppu eða stiga til að komast í söðulinn því enginn treystist til að lyfta henni. Líklega hefur Ragnheiður verið léttari á fæti en þessi systkini hennar.

Fáum sögum fer af Ragnheiði Jónsdóttur fyrr en hún var komin fast að þrítugu. Þá giftist hún Gísla Þorlákssyni, biskupi á Hólum. Gísli hafði átt tvær eiginkonur áður sem létust hvor af annarri, var hann þó aðeins liðlega fertugur þegar þau Ragnheiður voru pússuð saman. Þau Gísli og Ragnheiður voru gift í áratug en þá lést hann. Þau voru barnlaus. Ragnheiður flutti svo að Gröf á Höfðaströnd, í Skagafirði, og bjó þar rausnarbúi í sínu ekkjustandi.

Skömmu eftir að Gsli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp  Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gsli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012  á sðu Þjóðminjasafns Íslands.
Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á síðu Þjóðminjasafns Íslands.

 

Hannyrðir og hannyrðakennsla Ragnheiðar

Talið er að Ragnheiður hafi kennt ungum stúlkum hannyrðir, bæði meðan hún bjó á Hólum og á Gröf. Svo virðist sem hún hafi ávallt haft nokkrar stúlkur í læri. Meðal nemenda hennar var Þorbjörg Magnúsdóttir, bróðurdóttir hennar, en glæsileg útsaumuð rúmábreiða Þorbjargar er varðveitt á Victoria and Albert Museum í Lundúnum.

Þau útsaumsverk sem haldið hafa nafni Ragnheiðar Jónsdóttur á lofti eru altarisklæði og altarisdúkur með brún sem gefin voru Laufáskirkju í Eyjafirði 1694. Neðst á altarisklæðinu er eftirfarandi áletrun: ÞETTA ALTARIS KLÆDE GIEFVR RAGNHEIDVR IONSDOTTER / KIRKIVNNE AD LAVFASE FIRER LEGSTAD SINNAR SÆLV HI / ARTANS MODVR HOLMFRIDAR SIGVURDAR DOTTVR 1694.

Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvtu hörlérefti og saumað  það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá  Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins.
Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Aðalmunstrið í altarisklæðinu er saumað með skakkagliti, algengri gamalli útsaumsgerð hérlendis og erlendis. (Hér má sjá úskýringu á skakkagliti og glitsaumi, en vilji menn leita uppplýsinga á Vefnum er enska heitið yfir þetta spor Pattern Darning.) Áttablaðarósir eru og velþekkt munstur víða, sama gildir um brugðninga og fugla á greinum.

Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari  Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá  Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins
Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Það þykir merkilegt að munstrin á mjóu munsturbekkjunum á altarisdúknum og munstrið á altarisbrúninni (brún dúksins sem fellur að altarisklæðinu) eru ekki þekkt í íslenskum sjónabókum og raunar ekki í evrópskum útsaumi nema á enskum stafadúkum frá 17. öld.

Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði lklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu  Lundúnum, sjá nánar hér.
Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.

 

Þetta rennir stoðum undir að munstrin hafi borist norður til Hóla með enskri kennslukonu sem Þorlákur biskup Skúlason (1597-1656) og kona hans hafi fengið til að kenna einkadóttur sinni, Elínu, kvenlegar listir. Þorlákur var faðir Gísla biskups Þorlákssonar og Elín því mágkona Ragnheiðar. Líklega hefur Ragnheiður fengið svipaðan enskan stafadúk hjá Elínu og talið út munstrið eftir honum.

En svo vikið sé aftur að altarisdúknum sjálfum þá þykir útsaumurinn á letrinu neðst á því afar merkilegur. Letrið er nefnilega saumað með pellsaumi sem sárafá önnur dæmi eru um í íslenskum munum eldri en frá 19. öld. Erlendis nefnist þessi saumgerð oftast flórenskur eða ungverskur saumur. Neðst á þessari síðu er sýnt hvernig sauma skal pellsaum . (Þeir sem hafa áhuga á saumgerðinni gætu notað leitarorðin: Florentine stitch, Hungarian point eða Bargello stitch til að leita fanga á Vefnum.)

Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi  altarisdúkinn.
Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi í altarisdúkinn.

 

Stafrófið hennar Ragnheiðar, teiknað eftir áletrun á altarisdúknum og bætt inn stöfum sem í vantar, má sjá hér ef einhvern langar t.d. að sauma út sinn eigin seðil.

Á Þjóðminjasafninu eru til fjórir búshlutir úr einkaeigu Ragnheiðar og eru allir með fangamarki hennar. Þetta eru trafaöskjurstóll  og tvær fatakistur. Einnig er varðveitt sjónabók (munsturbók) sem talin er hafa verið í hennar eigu. Í sjónabókinni er m.a. teiknað fangamark Ragnheiðar, samandregið R I D (Ragnheiður IonsDottir).

Fangamark Ragnheiðar  gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.
Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.

 

 

Síðustu æviár Ragnheiðar Jónsdóttur

Ragnheiður bjó, sem fyrr sagði, á Gröf á Höfðaströnd eftir lát Gísla Þorlákssonar biskups, eiginmanns hennar. En haustið 1698 giftist hún Einari Þorsteinssyni Hólabiskupi. Ragnheiður stóð þá á fimmtugu en Einar var 63 ára og hafði misst fyrri eiginkonu sína rúmu ári áður. Þrátt fyrir að brúðhjónunum hafi verið flutt langt kvæði á latínu með góðum óskum um langa og gæfuríka framtíð  lifði brúðguminn einungis mánuð eftir brúðkaupið.

Ragnheiður sat ekkjuárið á Hólum en flutti síðan aftur að Gröf og bjó þar til æviloka. Hún lést árið 1715 og skorti þá einn vetur í sjötugt.

 

Seðillinn

fimmthusund_sedill

Fimm þúsund króna seðillinn var gefinn út árið 1986. Grafísku hönnuðirnir Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fair teiknuðu upphaflega seðilinn og þegar honum var lítillega breytt árið 2003 sá Kristín um það.

Á framhlið seðilsins sést Ragnhildur Jónsdóttir sjálf en einnig fyrri eiginmaður hennar, Gísli biskup, og tvær látnar eiginkonur hans, sem sagt sama fólkið sem sést á málverkinu sem Ragnheiður lét mála í minningu Gísla. Í baksýn er hluti altararisdúksins í Laufáskirkju. Upphæðin, fimm þúsund krónur, er rituð með stafagerðinni á þeim dúk.

Á bakhliðinni sést Ragnhildur sitja í stólnum sínum, haldandi á sjónabókinni sem eignuð er henni. Tvær námsmeyjar hennar eru að skoða fullunnið altarisklæðið sem einnig sést í baksýn. Neðst á myndinni er borðamunstur sem er á ystu brúnum altarisdúksins. Neðst til hægri á seðlinum er nánast lokið við að sauma fangamark Ragnheiðar með pellsaumi/flórentískum saumi.

Það er vel við hæfi að Ragnheiður Jónsdóttir, sem lagði svo mikið af mörkum til að efla listiðnað kvenna á sautjándu öld, skuli skreyta peningaseðil, enn sem komið er ein íslenskra kvenna.

 

Heimildir auk þeirra sem krækt er í úr texta

Elsa E. Guðjónsson. SkakkaglitHúsfreyjan 13(4) 1962, s. 27-29.

Elsa E. Guðjónsson. Útsaumsletur Ragnheiðar biskupsfrúarHúsfreyjan 14(1) 1963, s. 21-24.

Elsa E. Guðjónsson. Altarisdúkur Ara á SökkuHúsfreyjan 18(4) 1967, s. 21-23.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenzk útsaumsheiti og útsaumsgerðir á miðöldum.  Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 69 1972, s. 131-150.

Elsa E. Guðjónsson. Íslensk hannyrðakona á 17. öld. Úr óprentaðri ritgerð. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1990, s. 29-34.

Elsa E. Guðjónsson. Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstjóri Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan 1996, s 119-162.

Elsa. E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Önnur úgáfa, Elsa E Guðjónsson 2003.

Koll, Juby Aleyas. Pattern darning reversibleSarah’s Hand Embroidery Tutorials. 18. nóv. 2009.

Sigurður Pétursson. Nuptiæ HolanæHumanistica Lovaniensia: Journal of Neo-Latin Studies XL 1991. Leuven University Press, s. 336-356.

Sigríður Thorlacius. „Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin“. Nokkrir drættir úr sögu Hólmfríðar Sigurðardóttur frá VatnsfirðiTíminn 46(17) 21. jan. 1962, s. 9 og 15.

Þorkell Grímsson. Þrjú fangamörk Ragnheiðar biskupsfrúarÁrbók Hins íslenzka fornleifafélags 82 1985, s. 185-188.

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna

17. júní 2014

Á sjúklingur að vera hamingjusamur gísl?

Allt frá því ég las Medical Muses eftir Asti Hustvedt, bók sem fjallar um dr. Charcot og hysteríurannsóknir hans á nítjándu öld, hef ég velt dálítið fyrir mér sambandi læknis og sjúklings. Í þeirri bók er hinu fullkomna sambandi slíkra lýst: Með fullkominni samvinnu við sjúklinga sína tókst Charcot að búa til heilt kerfi sjúkdómsgreiningar sem er almennt talið algert kjaftæði og vitleysa nútildags en þótti afar merkileg uppgötvun á sínum tíma. Sjúklingarnir, hysteríudívurnar, léku sjúkdómseinkennin í kerfi Charcot af list og uppskáru athygli, aðdáun og betra atlæti fyrir. Þær voru hamingjusamir gíslar taugalæknis sem var ansi mikið út úr kortinu svo ekki sé kveðið fastar að orði.

Það hafa ekki margir skrifað um þessa hlutverkaskipan læknis og sjúklings. Má þó nefna David Healy (geðlækni, höfund Pharmageddon o.fl. bóka) sem telur lækna vera hamingjusama gísla lyfjafyrirtækja og sjúklinga vera hamingjusama gísla læknanna. Healy kallar þetta Stockholm-heilkennið  í þessu sambandi en ég tek mér það bessaleyfi að kalla þetta einfaldlega hamingjusaman gísl.

 

Læknirinn sem algóður faðir - sjúklingurinn sem hlýðið barn

Í stuttum pistli er ekki tóm til að gera grein fyrir því sem snýr að læknum í gíslingu lyfjafyrirtækja en þegar kemur að sjúklingnum er átt við að sjúklingur vill gjarna gera sínum góða lækni allt til þægðar, er ekki með neitt vesen og minnist ekki á alls konar aukaverkanir af lyfjum eða öðrum læknisráðum sem góði læknirinn ávísaði til að valda honum ekki vonbrigðum. Þessi hlutverkaskipan fellur einkar vel að hugmyndafræði þeirra lækna sem aðhyllast föðurlega læknisfræði: Læknirinn er í hlutverki hins algóða, alvitra föður sem vill sínum sjúklingi hið besta, sjúklingurinn er í hlutverki barnsins sem á að fara möglunarlaust að leiðbeiningum og vera þakklátt fyrir.

Svo tekið sé gamalt en einstaklega lýsandi dæmi af sjúklingi sem gekkst algerlega inn á að vera hamingjusamur gísl læknisins síns má nefna minningargrein um Ólaf Geirsson lækni frá 1965  sem fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum skrifaði. Læknirinn talaði sjúklinginn inn á að fara í þá hræðilegu aðgerð lóbótómíu, sem virkaði auðvitað til engra bóta en sjúklingurinn bar þó engan kala til síns góða læknis:

Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- - -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með því að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.

 

Er þekking lækna rétthærri þekkingu sjúklings?

Samkvæmt minni eigin reynslu taka sumir læknar það óstinnt upp þegar sjúklingur neitar að vera hamingjusamur gísl þeirra áfram og vill verða sjálfráða manneskja. Bætir ekki úr skák ef sjúklingur fer sjálfur að lesa sér til um eigin krankleik og læknisaðferðir og hafa skoðanir á þessu. Af gömlu embættismannastéttunum eru læknar (sumir) þeir einu sem ríghalda í þá blekkingu að þeir einir hafi aðstöðu til að afla sér þekkingar á sínu sviði og sú þekking gefi þeim vald, jafnvel óskorað vald yfir sjúklingum sínum.

Því verður ekki á móti mælt að sjúklingar eru, enn sem komið er, gíslar svoleiðis lækna. Tökum sem dæmi konu sem veit talsvert meira um vanvirkan skjaldkirtil en venjulegur heimilislæknir og óskar eftir að tilteknir þættir verði mældir í blóðprufu. Konan veit líka auðvitað miklu betur en læknirinn hvernig henni líður. Sú kona gæti lent á föðurlegum lækni sem segir líðan konunnar vera ímyndun eina og neitar að senda beiðni um blóðprufuna af því hann sjálfur álítur, eftir 15 mínútna viðtal, að það sé ekkert að henni og byggir þá skoðun á eldgömlum fræðum og fullvissu um eigið ágæti fram yfir sjúkling. Þessi ímyndaða kona er auðvitað gísl læknisins því hún getur ekki sjálf pantað blóðprufuna, einungis læknar geta það.

Ímyndaða konan getur hins vegar alveg valið hvort hún kærir sig um að vera hamingjusamur gísl, hugsandi með kinnroða til þess hve þreytandi sjúklingur hún hljóti að vera, farandi heim jafnveik og fyrr …

Og vonandi getur ímyndaða konan fengið annan lækni sem er ekki gíslatökumaður.

 

(Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 12. júní 2014.)

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

9. júní 2014

Lífstílssjúkdómavæðingin

Á dögunum las ég á visir.is greinina Berum við ábyrgð á eigin heilsu?, 6. júní 2014, eftir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðing á Heilsustofnun NLFÍ og ritstjóra vefjar stofnunarinnar. Nú hef ég af og til heyrt svipaðan málflutning upp á síðkastið en þessi grein vakti sérstaka athygli mína fyrir það hversu mikill þvættingur er í henni samankominn.

Höfundur greinarinnar segir m.a.:

Það er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur hvers vegna við erum að leita læknis og nýta okkur heilbrigðiskerfið okkar. Mikið af þeim „sjúkdómum“ sem eru að hrjá okkur í dag eru þessir svokölluðu lífsstílssjúkdómar s.s. sykursýki, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis krabbamein, þunglyndi [leturbreyting mín] og stoðkerfisvandamál.

Geir Gunnar bætir svo seinna við: „Hættum að nota heilbrigðiskerfið til að meðhöndla alla þessa lífsstílssjúkdóma og notum það frekar til að lækna okkur af „alvöru“ sjúkdómum sem við ráðum ekki við sjálf með líferni okkar. “1

Ég sakna þess mjög að sjá ekki dæmi um það sem Geir Gunnar telur „alvöru sjúkdóma“ - hverjir gætu það mögulega verið?

 

Er þunglyndi lífsstílssjúkdómur?

Síðan ég las þessa grein hef ég velt þessu mjög fyrir mér enda hef ég ýmist verið 75% eða 100% öryrki af völdum þunglyndis undanfarin ár. Þunglyndi er algerlega lamandi sjúkdómur eins og þeir sem reynt hafa þekkja vel. Þegar hver dagur snýst aðallega um að komast á fætur og einbeita sér að því að lifa daginn af en kála sér ekki í þunglyndisköstunum því kvölin og myrkrið er svo alltumlykjandi, þegar maður er ólæs, ófær um að horfa á sjónvarp, ófær um að tala, minnið, jafnvægisskynið og tímaskynið og svefninn fokkast gersamlega upp … tja, er furða þótt kona eins og ég velti fyrir mér hvar ég klikkaði í lífsstílnum ef marka má grein Geirs Gunnars?

Er mögulegt að ég éti ekki nógu „hreinan mat“? Solla í Grænum kosti er nýbúin að vara fólk við að margur maturinn sé óhreinn, sá ég í fyrirsögn, en ég nennti ekki að lesa greinina enda hvorki grænmetisæta né holl undir kosher-fæði neins konar. Er þunglyndið refsing guðs fyrir að reykja? Er ég þunglynd af því ég hleyp ekki, lyfti ekki lóðum og fer aldrei í leirbað, ekki einu sinni í skiptiböð? Eða er það skortur á núvitundaræfingum sem veldur helv. sjúkdómnum?

Ég þyrfti að panta tíma hjá Geir Gunnari til að fá leiðbeiningar um hvernig ég gæti étið úr mér þunglyndið eða baðað það úr mér eða íhugað sitjandi á kodda eða eitthvað lífsstíls-, það er ekki spurning!

Og ég er ekki með neitt af hinum sortunum sem hann taldi upp svo rangi lífstíllinn minn hefur einvörðungu valdið helvítis þunglyndinu.

Raunar veit ég ekki til þess að orsakir þunglyndis séu þekktar, eftir umtalsverðan lestur um efnið, hef jafnvel legið yfir fræðilegum greinum og bókum, svo Geir Gunnar lumar á merkilegri uppgötvun þarna.

 

Úrkynjunarkenningin

Í lok greinar sinnar segir Geir Gunnar:

Við Íslendingar erum afkomendur víkinga og hreystimanna sem settust hér að á þessari köldu eyju í Norður-Atlantshafinu. Tölur WHO benda til þess að við séum á góðri leið með að verða andstæða forfeðra okkar, því þessir lífsstílssjúkdómar sem eru að tröllríða íslensku samfélagi eru ekki að gera okkur að hreystimönnum.

 

Ég kannast ágætlega við úrkynjunarkenninguna sem skýringu á geðsjúkdómum: Hún var voða mikið í tísku á nítjándu öld og vel fram á þá tuttugustu. Mannakynbætur voru sjálfsögð afleiðing hennar, sem komu fram í geldingum geðsjúkra, þroskaheftra, samkynhneigðra o.fl., þær áttu svo sína gullöld í útrýmingarbúðum nasista. Það kemur svo sem ekki á óvart að einhverjir í Hveragerði aðhyllist einmitt úrkynjunarkenninguna.

Og ég kannast svo sem nokkuð vel við landnámsmenn, verandi íslenskufræðingur með áherslu á miðaldabókmenntir, þ.e.a.s. Íslendingasögur og svoleiðis. Vissulega voru þeir margir víkingar en það má alveg deila um hversu göfugt starf það var: Að brytja niður mann og annan, einkum varnarlaust fólk í útlöndum, konur og börn ekki undanskilin, er ekki sérlega hreystimannlegt, finnst mér. Og sumir þeirra voru gersamlega kolklikk, ég nefni sem dæmi forföður okkar Geirs Gunnars, Egil Skallagrímsson á Borg. Eftir að hafa sett mig dálítið inn í „víkingana og hreystimennin“ sem hér námu land hugga ég mig venjulega við að mínir hvatberar eru ekki frá þeim heldur góðum og gegnum keltneskum og enskum konum (sem kannski voru ekki hreystimenni en þó skömminni skárri en norrænu karlarnir).

 

Hvað er lífsstílssjúkdómur?

Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta hvaða krankleiki sem er sem rekja má til einhverrar hegðunar í lífinu. Ónýt hné fótboltastráka/fótboltamanna eru tvímælalaust lífsstílssjúkdómur og hann ekki sjaldgæfur. Háfjallaveiki og kafaraveiki líka, beinbrot í vélsleðaslysum, slitin liðbönd af íþróttaiðkun, áverkar í bílslysum o.s.fr.

Á nokkuð að vera að púkka upp á svona sjúklinga því þeir geta jú sjálfum sér um kennt og eru þá ekki með „alvöru sjúkdóma“. Þarf  ekki frekar að auka forvarnir gegn fótboltaiðkun og annarri íþróttaiðkun, fjallaklifri, köfun, vélsleðanotkun og að fólk aki bíl um allar trissur?

 

Af hverju eru lífsstílssjúkdómar í tísku núna?

Ég held að grein Geirs Gunnars næringarfræðings svari þessu prýðilega: Þetta er spurning um í hvað peningarnir eru settir. Sama kemur fram í máli Guðmundar Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, sem getið er í neðanmálsgrein: Setja meiri peninga í forvarnir og þá þarf minni pening í heilsugæslu. Og þá fá alls konar lýðheilsufræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar, einkaþjálfarar, markþjálfar, jógakennarar, eigendur líkamsræktarstöðva og ekki hvað síst Náttúran í Hveragerði meiri pening og geta unað glaðir við sitt.

 

 

1 Ég reikna með að Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ sé að bergmála málflutning Guðmundar Löve framkvæmdarstjóra SÍBS, í leiðara nýjasta tölublaðs SÍBS, júní 2014, (sem skartar einmitt ljómandi lekkerri heilsíðuauglýsingu frá Náttúrunni í Hveragerði á fyrstu síðu). Guðmundur Löve segir: 

Um níu af tíu dauðsföllum á Íslandi stafa af sjúkdómum sem eru að einhverju leyti á áhrifasviði lífsstíls.
[—]

Samkvæmt tölum WHO úr skýrslunni „Global burden of disease [svo]“ frá 2012, eru stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga [skv. samhenginu er verið að tala um „glötuð góð æviár”] eftirfarandi: stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar - í þessari röð. Ef það kemur einhverjum á óvart að heilsufarsskaðinn sé meiri af völdum stoðkerfisraskana og geðraskana en krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma er mögulega einnig ástæða til að vera hissa á hvaða áhættuþættir vega þyngst: Þar er nefnilega mataræði í efsta sæti, og þar á eftir ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.

Sá hluti Global Burden of Diseases sem varðar Ísland er hér: GBD PROFILE: ICELAND, útg. 2012.

Þar koma áhættuþættirnir fram á s. 3 og eru þeir sömu og Guðmundur telur, en þeir þrír þættir sem vega þyngst í „glötuðum góðum æviárum“ (DALYs) árið 2010 eru verkir í mjóbaki, hjartasjúkdómar og þunglyndi, í þessari röð. (s. 2) Vekur furðu að framkvæmdarstjóri SÍBS hefur ekki rétt eftir skýrslunni en kannski var hann að skoða einhverja allt aðra skýrslu.

Nýir krankleikar á topp-tíu listanum íslenska í „glötuðum góðum æviárum“ árið 2010, samanborið við 1990, eru Alzheimers-sjúkdómur og önnur elliglöp ásamt þunglyndi og langvinnri lungnateppu. (Sjá s. 2. )

Þeim sem finnst gaman að leika sér í tölfræði er bent á þessa gagnvirku útgáfu af skýrslunni sem má stilla á ýmsan máta.

 

 

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf