Færslur undir „Óflokkað“

16. febrúar 2014

Leit í læknisfræðilegu efni á ensku á Netinu

Þetta dæmi er af sjúklingi sem ekki hefur fengið bót meina sinna í heilbrigðiskerfinu; hefur gengið milli lækna af ýmsu tagi og prófað ýmis læknisráð án árangurs. Sjúklingurinn er með verki sem ekki finnst skýring á, í þessu tilviki í kjálka. Í stað þess að læknar upplýsi hann um að í fjölmörgum tilvikum kunni læknisfræðin enga skýringu á verkjum eða ýmsum öðrum krankleik er sífellt lagt til að sjúklingurinn leiti til nýs og nýs sérfræðings í nýjum og nýjum greinum. Sjúklingurinn nennir loks ekki að taka þátt í frekari læknisleik og ákveður að kynna sér málið sjálfur.

Forsagan felur í sér að sjúklingurinn hefur lesið sér talsvert til á „ófræðilegum“ vefsíðum, t.d. Wikipedia-síðum eða upplýsingasíðum fyrir almenning. Það er almennt langbest að byrja á að lesa svoleiðis yfirlit, þótt ekki sé nema til að læra helsta orðaforða um sinn sjúkdóm.

Hvar á að leita upplýsinga?

Efni sem læknar taka mark á (þ.e. ritrýnt efni eftir aðra lækna eða þá sem hafa háskólagráðu í heilbrigðisvísindum) er skráð í ýmsa gagnabanka. Það er ekki sérlega árangursríkt að leita beint í þeim, aðallega af því það er svo seinlegt. Gagnabankarnir henta kannski betur læknum sem vilja velja bestu bitana fyrir sig, stunda það sem kallað hefur verið á lélegri íslensku „kirsuberjatínsla“,  þ.e.a.s. leita staðfestingar fræðinga á því sem fellur að þeirra eigin fyrirfram skoðun.

Hvernig á að leita upplýsinga?

Langöflugasta leitarverkfærið er enn og aftur Google, í þetta sinn sá angi þess sem kallaðist „Fræðasetur Google“, þ.e.a.s. scholar.google.com.  Þetta tól Google leitar í fræðigreinum í tímaritum, sem mörg eru aðgengileg í landsaðgangi, fræðibókum,en hluti þeirra er oft aðgengilegur á Google books, og fleiru efni. Það er auðvelt að stilla leitartólið og því tiltölulega fljótlegt að finna þær upplýsingar sem notandi er á höttunum eftir. Síðan má nota efni úr þeim, t.d. heimildir sem þær vísa í, til enn markvissari leitar (ef sjúklingurinn hefur hug á að gerast sérfræðingur í eigin sjúkdómi).

Hér að neðan sést skýringarmynd af Google scholar, stillingum og hvert krækjur vísa. Útskýringar eru fyrir neðan myndina. (Vegna þess að snið bloggsins míns leyfir ekki breiðar myndir í efstu færslu kann að vera að lesandi þurfi að skruna neðar til að sjá myndina og afganginn af færslunni.)

Stillingar � Scholar Google

Lengst til vinstri eru stillingar sem voru valdar áður en leit hófst. Hér var valið að leita að efni frá 2010 til dagsins í dag. Stillt var á „Sort by relevance“ sem þýðir að upplýsingum er raðað eftir því hve vel þær tengjast leitarorðinu/leitarorðunum. Hakað var við „include citations“ til að sjá hvar hefur verið vitnað í efnið (sem gæti gefið vísbendingar um gæði þess).

Leitarorð geta verið mörg, í þessu tilviki er leitað að „atypical facial pain“ (ódæmigerðum andlitsverk). Önnur leitarorð sem hefðu komið til greina væru „myofascial face pain“ (andlitsverkir sem tengjast bandvefsvandamálum), „facial neuralgia“ (taugaverkir í andliti), „persistent idiopathic orofacial pain“ (stöðugur óútskýrður verkur í neðri hluta andlits eða munnholi) o.s.fr. Sjúklingurinn veit nú þegar að hann er ekki með TMD (Temporomandibular disorder, þ.e.a.s. einhverja skemmd sem tengist kjálkalið) og ekki með Trigeminal neuralgia (vangahvot, verki sem tengjast þríburatauginni) svo hann er ekkert að ómaka sig við að leita eftir þeim leitarorðum.

Fyrsta greinin sem kemur upp er aðgengileg sem vefsíða en einnig fylgir krækjan Landsaðgangur. Sé smellt á Landsaðgangur opnast nýr gluggi sem er hluti af landaðgangsleitarvélinni (bein slóð á landsaðgengi að greinum er hvar.is). Í þeim glugga kemur fram í hvaða gagnabanka greinina er að finna, í hvaða tímariti hún birtist, hvenær, á hvaða blaðsíðum o.s.fr. Vilji maður lesa grein í landsaðgangi er smellt á Go. Þá opnast greinin í viðkomandi tímariti, í þessu tilviki Scandinavian Journal of Pain. Þess ber að geta að oft er nýjasti árgangur fræðitímarits ekki aðgengilegur í landsaðgangi.

Hvernig á að meta leitarniðurstöðurnar?

Sjúklingurinn sem er að leita sér upplýsinga tekur eftir því að þótt Google Scholar raði greininni úr Scandinavian Journal of Pain efst í leitarniðurstöðum (vegna þess að leitarorðin koma fyrir í röð snemma í greininni) virðist þetta ekki talin mjög merkileg grein (eða háttskrifað tímarit). Það sést á því að einungis 4 hafa vitnað í hana síðan hún birtist: Cited by 4 gefur sumsé ákveðnar vísbendingar.

Neðar á fyrsta skjá birtast mun álitlegri krækjur:

Vægi greina � Scholar Google

Krækja í efni sem hefur verið vitnað í af 104, stærstur hluti þeirra eru væntanlega fræðimenn sem vitna til þessa efnis í sínum fræðiskrifum, virðist álitleg. Og skv. krækjunni lengst til hægri er efnið aðgengilegt sem pdf-skjal á rússnesku vefsetri (sem kann að vera vegna þess að Rússar eru ekki píetistar í höfundarétti og birtingin því kannski ekki fullkomlega lögleg … en það varðar sjúklinginn svo sem ekkert um. Raunar er heil bók aðgengileg á þessari slóð þótt Google kræki hér einungis í tólfta kafla hennar.). Það styður einnig meint vægi þessarar greinar að hún hefur birst í 8 útgáfum.

Sjúklingurinn kemst svo að því að þessi grein er í rauninni kafli í bók, Evidence-Based Chronic Pain Management, útg. 2010, og er afar gagnlegt yfirlit yfir andlitsverki af ýmsum toga og jafnt „sannreynd“ sem möguleg læknisráð við þeim. Meginniðurstaða umfjöllunarinnar er, eins og sjúkling grunaði, að læknavísindin vita sáralítið um svona kvilla og flest læknisráðin eru byggð á kerlingabókum lækna og ágiskunum en ekki öruggum rannsóknum.

Önnur grein af fyrsta skjá sem virðist fýsilegt að skoða er þessi sem 42 hafa vitnað í og er aðgengileg á 11 stöðum, birtist í tímaritinu Pain 2010. Þessi grein er aðgengileg sem pdf-skjal, auk þess að vera í landsaðgangi.  Miðað við titilinn fjallar hún um mögulegar orsakir andlitsverkja. Þetta er dæmigerð vísindagrein, skrifuð inn í ákveðið snið (template) eins og þær eru flestar.

Í næstu færslu verður fjallað um snið dæmigerðra læknisfræðigreina og hvernig sjúklingur getur nánast strax metið hvort borgar sig að lesa gegnum svoleiðis grein. Einnig verður fjallað um orðaforða í svona greinum; hvernig finnur maður hvað orðin þýða á íslensku og hvað er hægt að gera þegar íslensku heitin (íðorðin) eru gersamlega óskiljanleg?

Þessi færsla er framhald af færslunum:

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

10. febrúar 2014

Leit að upplýsingum um sjúkdóm á Netinu

Netið er eins og bóksafn heimsins alls: Þar ægir saman vönduðum fræðum, þekkingarmolum og algeru drasli. Vandinn er að skilja sauðina frá höfrunum, að þekkja í sundur öruggar upplýsingar og bull.

Einnig þarf að greina sundur upplýsingar sem kunna að nýtast sjúklingi prýðilega og upplýsingar sem læknir sjúklingsins er líklegur til að samþykkja að séu traustar: Þetta tvennt fer alls ekki alltaf saman. Ein leiðin til að auðvelda manni þetta er markviss leit.

Leit að efni á íslensku

Setjum sem svo að sjúklingur sé með ofvirkan eða vanvirkan skjaldkirtil, annað hvort greindan af lækni eða sjúklinginn gruni að hann þjái annar hvor kvillinn. Ég gef mér, í eftirfarandi texta, að sjúklingurinn sá hafi enga þekkingu á skjaldkirtli og mjög litla reynslu af leit á Netinu.

Líklega myndu flestir byrja á að leita í Google og slá einfaldlega inn leitarorðið skjaldkirtill. (Sé sjúklingurinn alger byrjandi borgar sig að stilla Google líka á Myndir til að sjá hvar þetta líffæri er og hvernig það lítur út.)

Í þessu tilviki reynist venjuleg leit á Google prýðilega: Á fyrsta skjá birtast upplýsingar sem ætla má að séu áreiðanlegar, t.d. krækjur í tvö svör á Vísindavef og krækja í viðtal við innkirtlasérfræðing. En þarna er líka íslensk Wikipediasíða sem er hvorki fugl né fiskur, óvirk krækja í glósur úr einhverju kennsluefni í framhaldsskóla (FSS), bloggsíða sem vísar aðallega í efni annars staðar, síða hómópata (sem kann að vera ágæt en að nefna hómópata við suma lækna virkar svipað og að veifa rauðri dulu framan í naut) og síðan http://skjaldkirtill.info/, sem þrátt fyrir nafnið geymir fáar upplýsingar, skýringar eða fræðslu en er ágætis auglýsing fyrir lækni sem býður þá þjónustu að túlka blóðpróf gegn greiðslu.

Á næsta skjá er líka bland í poka, t.d. síðan http://www.skjaldkirtill.com/. Hún er að vísu merkt lógói Félags um skjaldkirtilssjúkdóma (sem engar upplýsingar eru um) en er langt í frá hálfkláruð auk þess sem enginn ábyrgðaraðili/höfundur er skráður fyrir henni. Almennt borgar sig ekki að taka mark á nafnlausum textum. Þessi síða gæti vel orðið góð einhvern tíma i framtíðinni en stenst ekki mál núna. Aftur á móti má ætla að lestur á síðunni Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema, sem birtist á öðrum skjá í almennri Google leit minni, skili einhverjum áreiðanlegum upplýsingum, auk þess sem hún segir örugglega eitthvað til um hvað læknanemum er innrætt í námi um skjaldkirtilsvandamál.

Markviss leit

Í þessu tilviki er sjúklingurinn ákveðinn í að afla sér fræðslu sem læknir gæti ekki sett út á. Það sem læknar setja ekki út á er aðallega efni eftir aðra lækna, þetta er með afbrigðum samheldin stétt.

Ef sjúklingurinn ákveður nú að leita í Læknablaðinu kemst hann strax að því að leitarvélin þar er handónýt: Leitarorðið skjaldkirtill skilar 7 niðurstöðum. Engar upplýsingar fylgja niðurstöðunum og raunar er augljóst að tvær þeirra, sem báðar heita Eldgos og heilsa, eru ólíklegar til að fræða sjúkling neitt um skjaldkirtilsvandamál.

Sem oft reynist Google besta leitarvélin. En í þetta sinn notar sjúklingur möguleikann á að leita að ákveðnu orði á ákveðnu vefsvæði. Það er gert með því að skrifa í leitargluggann:
site:slóð_vefsvæðis leitarorð

Google Læknablaðið

Þessi leitaraðferð skilar 8 skjáfyllum af því efni þar sem skjaldkirtill er nefndur og er aðgengilegt á laeknabladid.is. Fyrir utan titil hverrar krækju birtast tvær línur af texta þar sem orðið kemur fyrir og oft dugir það samhengi til að sjá í hendingskasti hvort borgi sig að lesa greinina/skoða efnið.

Efni Læknablaðsins sem er aðgengilegt á vef nær ekki nema aftur til ársins 2000. Þess vegna borgar sig stundum að leita í öðru safni læknisfræðilegra íslenskra greina sem heitir Hirsla og er gagnasafn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar má finna greinar sem hafa birst í eldri tölublöðum Læknablaðsins en frá 2000 og einnig fræðigreinar sem hafa birst annars staðar. Slóðin er hirsla.lsh.is

Á Hirslu er miklu skárri leitarvél en á Læknablaðinu. Leitarorðið skjaldkirtill skilar þar 17 niðurstöðum, raunar er samt augljóst af titlum að sumar greinarnar fjalla um allt annað. En Google hefur enn vinninginn í að þefa uppi efni: Leit með site:hirsla.lsh.is skjaldkirtill skilar um 30 niðurstöðum og sem fyrr er leitarorðið í samhengi í tveggja línu texta sem auðveldar að sigta út nýtilegt efni.

Ég ráðlegg uppdiktaða sjúklingnum einnig að leita með site:landlaeknir.is skjaldkirtill og site:doktor.is skjaldkirtill. Síðarnefnda vefsetrið hefur því miður fokkað upp sínum innviðum og því er ekki víst að krækjurnar sem Google finnur virki allar en sumar þeirra gera það.

Væri ég að leita að einhverju öðru en fróðleik um skjaldkirtil, segjum fróðleik um hjartsláttartruflanir, mundi ég einnig Google site-leita á skemman.is (safni lokaritgerða í háskólum) en skjaldkirtilsleit skilar þar fáu bitastæðu. (Ritgerðir háskólanema eru afar misjafnar að gæðum, sem annars vegar fer eftir deildum og hins vegar er góð almenn regla að taka ekki alltof mikið mark á BA/BS ritgerðum.) Leitarvélin á Skemmu sjálfri er sama marki brennd og leitarvél Læknablaðsins svo ég mæli enn og aftur með Google site leit.

Loks myndi ég athuga hvort eitthvert efni annað en það sem ég hef þegar fundið er að finna á bókasöfnum og leita í skráningarkerfi bókasafna á gegnir.is. Það kerfi tengir einnig í stafrænt efni (þ.e. efni sem er aðgengilegt á Vefnum).

Niðurstaða

Íslenskt málsvæði er pínulítið og íslenskir læknar ekkert alltof duglegir að skrifa/birta efni. Því tekur skamma stund að finna allt það fræðilega efni sem er í boði um skjaldkirtilssjúkdóma á íslensku, á Netinu. Söm væri raunin með flesta aðra sjúkdóma svo þeir sjúklingar sem geta lesið texta á öðrum málum (oftast ensku) byrja mjög fljótlega að leita sér upplýsinga á þeim. Næsta færsla fjallar um hvernig maður leitar í erlendum fræðigreinum. Þá verður tekið dæmi af öðrum krankleika.

P.s. Þótt þessi færsla fjalli einkum um markvissa leit að sæmilega fræðilegu efni á íslensku um skjaldkirtil/skjaldkirtilsvandamál er ekki þar með sagt að ég telji að annað efni komi sjúklingum ekki að gagni. Umfjöllun um aðra kosti má t.d. sjá í nýlegri bloggfærslu minni, Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar.

Lokað fyrir ummæli | Óflokkað, Geðheilsa

9. febrúar 2014

Ef sjúklingur vill setja sig inn í eigin sjúkdóm

eru til þess nokkrar leiðir, sem ég ætla að gera grein fyrir í þessari og næstu færslum. Ég geri fyrirfram ráð fyrir að um sé að ræða sjúkling með þrálátan (krónískan) sjúkdóm eða sjúkling sem ekki telur sig fá fullnægjandi þjónustu frá þeim lækni/læknum sem hann hefur leitað til.

Sjúkraskrá og niðurstöður rannsókna

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að setja sig inn í þau gögn um krankleikann sem liggja fyrir. Að frátöldum undantekningartilvikum á sjúklingur rétt á afriti af sjúkraskrá sinni, skv. lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009, enda á sjúklingurinn sjúkraskrána þótt hún sé vistuð á heilbrigðisstofnun. Allar rannsóknarniðurstöður (t.d. úr blóðprufum, myndatökum o.fl.), læknabréf frá sérfræðingum til heimilislæknis o.s.fr.  tilheyra sjúkraskrá.

Sjúklingur þarf ekki að gefa upp neina ástæðu fyrir ósk um afrit af sjúkraskrá og á að hafa samband við „umsjónarmann sjúkraskrár“ sem er yfirleitt ekki læknir sjúklingsins heldur annar aðili, gæti t.d. verið yfirmaður heilsugæslustöðvar. Líklega er best að hringja í ritara heilsugæslustöðvar/sjúkrahúss/læknis til að kanna hvaða aðili þetta er. Sjá nánar um þetta síðuna Sjúkraskrá á vefsetri Embættis landlæknis og svör Persónuverndar við spurningum um aðgang að sjúkraskrá (og gögnum tengdum örorkumati, sem verður að hluta að sækja á grundvelli persónuverndarlaga og að hluta á grundvelli upplýsingalaga).

Oftast þarf læknir sjúklingsins að lesa yfir sjúkraskrána áður en hún er afhent til að afmá allt sem haft er eftir þriðja aðila, þ.e.a.s. upplýsingar sem ekki eru frá sjúklingi eða heilbrigðisstarfsmanni komnar. Þetta er í verkahring læknisins og óþarft fyrir sjúkling að vorkenna honum fyrir þessa vinnu, þetta er ekki ólaunuð aukavinna eða greiði við sjúklinginn.

Sjúklingur kann að þurfa að borga fyrir afritið, það er misjafnt eftir stofnunum innan heilsugæslunnar.

Í samræmi við fyrrnefnd lög er ágæt regla að fá jafnóðum afrit af rannsóknarniðurstöðum og halda þeim saman í möppu. Setjum sem svo að sjúklingur fari í blóðprufu; þá er best að mæta fljótlega í viðtal við heimilislækninn til að fá helstu niðurstöður en fá í leiðinni útprent af niðurstöðunum, sem læknirinn getur prentað úr eigin tölvu á staðnum.

Sjúkraskrár eru yfirleitt auðskiljanlegar. Þó getur komið fyrir að einhver hluti textans sé skrifaður á hrognamáli, yfirleitt latínuskotnu (og þá yfirleitt þannig að það fer hrollur um latínulærða sjúklinga). En flestir læknar eru þokkalega skrifandi á íslensku, skv. minni reynslu.

Mín reynsla er sú að það gengur tiltölulega hratt og vel að fá afrit af eigin sjúkraskrá og útprentanir af rannsóknarniðurstöðum eru afhentar orðalaust. Eina undantekningin frá þessu var fyrrverandi sérfræðilæknir minn sem sá ástæðu til að hringja í mig og þýfga mig um af hverju ég vildi fá þetta afrit, hvort ég ætlaði kannski að skrifa bók?, spurði hann. Almennt kemur læknum það ekkert við af hverju sjúklingur vill afrit af sjúkraskrá og ég hygg að það sé afar fátítt að fá upphringingar eftir slíka beiðni.

Næst verður fjallað um hvernig sjúklingur getur leitað upplýsinga og umfjöllunar um sinn sjúkdóm á Netinu.

Ummæli (7) | Óflokkað, Geðheilsa

29. janúar 2014

Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar

Tveir læknar, þeir Davíð B. Þórisson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, og Teitur Guðmundsson  hafa nýverið vakið athygli á hvernig umhverfi læknisfræði/lækninga hefur breyst með sívaxandi hlut samfélagsmiðla í daglegu lífi fólks. Málflutningur beggja er skynsamlegur, áhugaverður og jákvæður og kveður þar við nokkuð annan tón en þegar síðast birtust fréttir af umfjöllun lækna um samfélagsmiðla, sjá greinina Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum - af málþingi LÍ, í Læknablaðinu í nóvember 2012.

Mig langar að fjalla svolítið um þetta sama efni, af sjónarhóli sjúklings.

Einkaréttur á þekkingu færði völd - en ekki lengur

Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein hefur hlutverk læknis breyst töluvert, frá því sem hann kennir við „föðurlega læknisfræði“ til þess að haft sé samráð við upplýstan sjúkling um næstu skref eða ákvarðanir enda geti sjúklingar aflað sér fræðslu um eigin sjúkdóm mjög víða annars staðar en hjá lækni. Ég hef þó ástæðu til að ætla að margir læknar hafi alls ekki áttað sig á þessari breytingu.

Enn heyrir maður af læknum sem segja sjúklingum að rannsóknarniðurstöður „komi þeim ekki við” eða lýsa því yfir við kvalinn sjúkling að „það sé ekkert að þér“ eða haga sér á annan slíkan hátt sem ég myndi nú ekki kenna við föður heldur harðstjóra. Svoleiðis læknar halda ennþá að þeirra sé þekkingin og þar af leiðandi valdið. Þeir minna mig alltaf svolítið á skinnið hann Friðrik konung VI sem er helst minnst fyrir yfirlýsinguna: „Ingen uden Vi alene kan være i Stand til at bedømme, hvad der er til Statens og Folkets sande Gavn og Bedste“ (oft stytt í „Vi alene vide “)  ;)

En læknisfræði er ekki lengur einkagóss læknastéttarinnar. Hún er seinust af gömlu háskólamenntuðu embættisstéttunum til að átta sig á þeirri staðreynd að nú hefur hver sem er aðgang að stærra gagnasafni um fræðin; um heilsu, sjúkdóma og læknisfræði; en nokkur læknir kæmist yfir að lesa á sinni ævi. Þarna á ég ekki bara við venjulegar vefsíður sem gúgglast upp með lítilli fyrirhöfn heldur einnig gagnasöfn, t.d. eldri læknisfræðirita/bóka og landsaðgang að flestum sömu fagtímaritunum og læknar glugga af og til í (vitna a.m.k. af og til í), nýjum læknisfræðibókum sem berast á nokkrum sekúndum í lesbrettið manns eða tölvuna, upptökum af fyrirlestrum sérfræðinga, jafnvel ókeypis kúrsum í læknisfræði við virta háskóla o.s.fr.

Vægi sameiginlegrar reynslu sjúklinga

Það er löngu þekkt staðreynd að sjúklingar bera sig saman, um krankleik sinn (og einstaka sinnum um læknana sína). Í sumum kreðsum hefur það verið viðurkennt áratugum saman að það að deila sameiginlega reynslu sinni geti skipt sköpum í meðhöndlun sjúkdóma, nærtækasta dæmið er AA.

Á síðustu árum hafa samráðsvettvangur sjúklinga af ýmsu tagi blómstrað á Vefnum. Fyrst voru þetta aðallega umræðuborð (forums) en núna er slíkur umræðuvettvangur oftast hópur á Facebook. Mér vitanlega er langoftast um lokaðan vettvang að ræða, þ.e.a.s. fólk þarf að skrá sig sérstaklega (á umræðuborð) eða óska eftir inngöngu (í Facebook hóp), svona vettvangur hefur ákveðinn stjórnanda (venjulega stofnandann), og minnst er á þagmælsku um þá umræðu sem þarna fer fram. Þá sjaldan ég fellst á að prófa ný lyf núorðið hef ég það fyrir reglu að finna opið umræðuborð og renna yfir svona tvær-þrjár skjáfyllir af lýsingum af reynslu annarra af þessu lyfi. Má svo leggja þær upplýsingar saman við það sem læknirinn sagði og það sem maður les um viðkomandi lyf á Lyfjastofnun.is (ég er komin á þann aldur að meðfylgjandi fylgiseðlar sem liggja samanbrotnir í lyfjapakkanum eru mér gersamlega ólæsilegir).

Ég hef ekki tekið þátt í mörgum hópum af þessu tagi en sú reynsla sem ég hef af þeim er yfirleitt góð. Það gildir nokkurn veginn það sama í svona hópum og í AA: Maður tekur það sem maður getur notað og lætur hitt eiga sig. Og alveg eins og í AA er misjafnt eftir hverjum og einum hvað gagnast og hvað ætti að láta eiga sig.

Davíð B. Þórisson, sem ég gat í upphafi, stingur m.a. upp á því að læknar haldi sjálfir úti lokuðum umræðuhópum um ákv. sjúkdóma á samfélagsmiðlum: „Þá geti sjúklingar skipst á upplýsingum sín á milli, en læknirinn verið til reiðu til að grípa inn í þyki honum þörf á því.“

Mér finnst þessi hugmynd ekki góð og held að hún myndi ekki virka. Í mínum augum er þetta sambærilegt við að læknir yrði ávallt að leiða AA-fundi (enda alkóhólismi viðurkenndur sjúkdómur) og slíkt er ekki einu sinni praktíserað á Vogi sjálfum. Það að ætlast til að sjúklingar tjái sig sín í millum eigandi von á „leiðréttingum‟ læknisins hvenær sem er tel ég vonlausa hugmynd. Í lokuðum hópum, t.d. á Facebook er oft að finna ýmsar skrítnar ráðleggingar sem mér finnst út í hött eða lýsingar sem mér finnast ekki ríma við mína upplifun en gætu vel passað við upplifun einhvers annars og gætu verið ráð sem öðrum fyndist skynsamleg og gögnuðust þeim.

Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að sjúklingar deili reynslu sinni og ráðum sem hafa gefist vel. Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein er hefðbundin læknisfræði byggð á bestu þekkingu hvers tíma um sig. Í ljósi sögunnar hefur þessi „besta þekking‟ hvarflað alla vega á hverjum tíma, þess vegna milli andstæðra póla. Og í ljósi þess að því fer fjarri að læknisfræði geti útskýrt, fundið orsök fyrir eða læknað nema hluta sjúkdóma, að „evidence based medicine‟ er stundum alls ekki „evidence based“ heldur byggð á hagræddum rannsóknarniðurstöðum og greinum í læknatímaritum eftir leigupenna lyfjafyrirtækja (hér er ég að vísa til þess sem löngu hefur komið á daginn um algeng þunglyndislyf) þá er full ástæða til að leita einnig fanga í sameiginlegan þekkingarsjóð sjúklinga. Til eru nýleg dæmi um hvernig svoleiðis samræða og prófanir sjúklinga hafi skilað læknisráðum sem sumir læknar hafa endað með að samþykkja (eftir þrýsting sjúklinga), t.d. notkun LDN við vefjagigt og ýmsum ill-læknanlegum taugasjúkdómum.

Gætu læknar notað samfélagsmiðla?

Já, þeir geta það eflaust. Þeir gætu t.d. lært að nota tölvupóst á skilvirkan hátt, sem myndi sparað bæði þeim og sjúklingum þeirra dýrmætan tíma (viðtalstíma og símtöl, svo ekki sé minnst á alla biðina eftir viðtali eða símtali).

Ég tek undir hugmynd Davíðs um að læknar mættu „blogga sjálfir, og skrifa alvöru greinar um sjúkdómana sem þeir eru sérfróðir um,“ þótt mér finnist „föðurleg“ ábending hans í framhaldinu: „Þannig má draga úr líkum á því að sjúklingurinn gleypi við einhverri vitleysu á netinu.“ segja sitthvað um viðhorf hans (og líklega fleiri lækna) til vitsmuna sjúklinga, sem ég er fjarri því að samsinna.

Sem stendur blogga fáir íslenskir læknar og enn færri um læknisfræðileg efni. Í svipinn man ég eftir Vilhjálmi Ara Arasyni, sem nú bloggar undir merkjum DV  en rak áður blogg á Eyjunni; Teiti Guðmundssyni sem hefur verið fastur penni á Vísi í hálft ár  og Svani Sigurbjörnssyni, sem bloggar á Eyjunni, en hefur einnig birt færslur víðar, t.d. á Skoðun - vefsíður um þjóðfélagsmál og skoðanir, á gamla Húmbúkk vefnum á Eyjunni, á gamla moggablogginu sínu, á Raun-gegn gervivísindum, kukli og söluskrumi  (sá vefur virðist dáinn drottni sínum og er hér krækt í afrit á Vefsafninu) og á vef Vantrúar.

Þeir tveir fyrrnefndu blogga um fjölbreytt læknisfræðileg efni en Svanur Sigurbjörnsson bloggar nær eingöngu gegn hjálækningum (kukli), sem er hans mikið hjartans mál og litast málflutningur hans aukinheldur mjög af strangtrúarskoðunum hans. Má því ætla að hans blogg höfði til afmarkaðri hóps sjúklinga (og lesenda) en umfjöllun hinna tveggja.

 

Geta samfélagsmiðlar verið læknum hættulegir?


Ef marka má fréttaflutning Læknablaðsins 2012, sem ég minnist á hér að ofan gætir nokkurs ótta meðal lækna þegar samfélagsmiðlar eru annars vegar. Óttinn virðist fyrst og fremst snúast að því sem sjúklingar kunni að segja um þá, t.d. á bloggi. Túlkun lögfræðings Læknafélagsins á hvernig blogg sjúklings geti firrt lækni þagnarskyldu er afar áhugaverð frá lögfræðilegu sjónarhorni. Fyrir utan þessi atriði er fátt bitastætt í fréttinni nema almenn varnaðarorð um að halda þagnarskyldu og stofna ekki til kynna við sjúklinga á Facebook. Og læknum er bent á að stafræn fótspor eru óafmáanleg og því þarf að passa hvað maður segir á netinu. Þetta eru gömul tíðindi en voru kannski ný fyrir læknum á læknaþingi haustið 2012.

Það er samt kannski raunveruleg hætta fólgin í því fyrir lækni að tjá sig á samfélagsmiðlum, a.m.k. ef marka má frásögn læknis sem lenti í að vera sjúklingur. Á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið, sem haldið var 23. janúar sl. sagði Björn Hjálmarsson barnalæknir frá eigin reynslu af sjálfræðissviptingu og þvingunarinnlögn á geðdeild. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann tjáði sig um þetta, það hafði hann gert áður í riti og sjónvarpi. Í máli hans kom fram að Embætti landlæknis hefði margsinnis áminnt hann um að „halda Hippókratesareiðinn“ sem þýddi að hann mætti ekki segja frá því ofbeldi sem læknar á geðlækningasviði beittu hann. Þótt Björn myndi skila inn lækningaleyfi sínu væri hann bundinn eiðstafnum til æviloka að mati Embættis landlæknis. (Sjá Lögin eru misnotað árásartæki, Mbl.is 23.1. 2014 og myndband af fyrirlestri Björns á málþinginu.) Það sárgrætilega við þetta er auðvitað að í útvatnaða útdrættinum úr upphaflegum eiðstaf Hippokratesar sem íslenskir læknar undirrita, sjá Læknaeiðurinn á síðu Læknafélags Íslands, er ekki stafkrókur um að læknir sem verður sjúklingur megi ekki tjá sig um læknismeðferð. En kannski veldur Stórabróður-ægivald Landlæknisembættisins ótta einhverra lækna við að tjá sig á samfélagsmiðlum? Eða eru þær hræddir við viðbrögð kolleganna við einhverju sem þeir segja?

Framtíðin?


Í lokin er vert að geta þess að í ‘enni Amríku eru læknar búnir að læra á tölvupóst, að umgangast Facebook, að blogga og að veita læknisþjónustu gegnum Skype. (Sjá American Telemedicine Association  - einnig bendi ég á bráðskemmtilegt blogg geðlæknis sem lýsir fyrstu dögunum í vinnu sinni sem stafrænn geðlæknir.)

Íslenskir læknar eiga ansi langt í land með að ná kollegum sínum vestra í brúkun samfélagsmiðla, er ég hrædd um.

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf

28. janúar 2014

Sokkar Eleonoru af Toledo

Eleonora af Toledo

Eleonora di Toledo fæddist 1522 og var af konunglegum spænskum ættum. Hún giftist Cosimo I, af Medici ættinni, sem tók við af þeim fræga Alessandro Medici og stjórnaði Toskaníuhéraði á Ítalíu, með aðsetur í Flórens. Þeim hjónum varð ellefu barna auðið og af þeim urðu tveir synir að þjóðhöfðingjum. Það fór á ýmsa vegu með hin börnin, má nefna að dóttirin Ísabella var myrt af eiginmanni sínum vegna framhjáhalds og einn sonurinn, Pietro, myrti eiginkonu sína vegna framhjáhalds (en Medici fjölskyldan kallaði svo sem ekki allt ömmu sína þegar kom að skrautlegu kynlífi og morðum innan fjölskyldunnar).

Það þótti nokkur ljóður á ráði Eleonoru hve hún barst mikið á, t.d. í klæðaburði, og auk þess var hún forfallinn fjárhættuspilari. Ekki hvað síst fór svo í taugarnar á Flórensbúum hve höll hún var alla sína ævi undir allt það sem spænskt var. En valdamikil var hún, stóð jafnfætis manni sínum og stjórnaði ríkinu þegar hann brá sér af bæ.

Eleonora lést í Pisa einungis fertug að aldri, árið 1562. Öldum saman gengu þær sögur að Garcia, sextán ára sonur hennar hefði myrt nítján ára bróður sinn, Giovanni, og faðir þeirra hefði kálað Giovanni í kjölfarið með eigin sverði; Eleonora hefði sprungið af harmi viku síðar. En lík þessa fólks hafa verið rannsökuð með nútímaaðferðum sem leiddu í ljós að Eleonora og synirnir dóu úr malaríu.

Grafhýsi fjölskyldunnar var opnað árið 1857. Klæðin sem Eleonora var jörðuð í eru varðveitt og til sýnis í Galleria del Costume í Palazzo Pitti í Flórens, sem Eleonora keypti einmitt sem sumarhöll á sínum tíma.

Upphaflegir sokkar EleonoruUpphaflegu sokkarnir Eleonoru.Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Endurgerð á sokkum EleonoruEndurgerð af sokkunum.Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Endurgerðir sokkar EleonoruEndurgerð af sokkunum.Myndin krækir í stærri útgáfu.
UppábrotUppábrot á upprunalegum sokk.(Ath. að rangan snýr út því brotið er upp á.)

Myndin krækir í stærri útgáfu.

Endurgert uppábrotUppábrot á endurgerðum sokk.Rangan snýr einnig út hér.

Myndin krækir í stærri útgáfu.

Glæsilegur fatnaður Eleonoru af Toledo hefur vakið mikla athygli, ekki hvað síst sokkarnir. Þótt í prjónasögu sé oft talað um þessa sokka sem ítalska er allt eins líklegt að þeir séu spænskir. Prjón var lögvernduð iðngrein víða í Evrópu á tímum Eleonoru í þeim skilningi að til voru gildi (nokkurs konar fag- og stéttarfélög) prjónara. Prjónagildið í Toledo á Spáni sérhæfði sig einmitt í silkisokkaprjóni og sokkar þaðan voru fluttir út til margra Evrópulanda þar sem konungbornir og háttsettir í hirðum konunga klæddust þeim og voru þessir handprjónuðu silkisokkar rándýrir.

Það sem er sérstakt við silkisokka Eleonoru af Toledo er að þeir eru með elstu varðveittu flíkum þar sem munstur er myndað með brugðnum lykkjum. Líklega var skammt um liðið frá því menn lærðu að prjóna brugðnar lykkjur þegar þessir sokkar voru prjónaðir. (Stroff efst á sokkum var ekki fundið upp fyrr en mörgum öldum síðar.) Rúmri öld eftir lát Eleonoru komst svo í tísku að prjóna munstur úr brugðnum lykkjum á jakka/treyjur, svokallað damask-prjón, sem átti eftir lifa lengi.

Munstur á sokkum EleonoruSilkisokkarnir Eleonoru voru líklega upphaflega hárauðir. Þeir voru hnéháir og kanturinn efst hefur verið brettur yfir sokkaböndin. (Smelltu á myndina af munstrinu til að sjá stærri útgáfu. Munstrið er birt með leyfi teiknara þess, Colleen Davis.)

Sokkunum er þannig lýst í bók Richards Rutt, History of Handknitting:
Á uppábrotinu (þ.e. yfirbrotinu) er munstrið lárétt. Efst eru sléttar umferðir, munstraðar með tveimur einföldum sikk-sakk línum úr brugðnum lykkjum. Þessi efsti munsturborði er svo afmarkaður með tveimur brugðnum umferðum áður en aðalmunstuborðinn á uppábrotinu hefst.

Aðalmunstrið er nokkurs konar tíglótt grind, mynduð úr tveimur brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Í hverjum tígli eru fjögur göt til skrauts. Efsti munsturborðinn er svo endurtekinn að loknu aðalmunstrinu í uppábrotinu.

Sokkabolur og sokkur eru með tvenns konar breiðum lóðréttum munsturborðum. Annars vegar er 8 lykkju borði prjónaður með tvöföldu perluprjóni (þ.e. hver perla er prjónuð í tveimur umferðum). Hins vegar er 9 lykkju borði prjónaður með tvöföldu garðaprjóni (þ.e. tvær brugðnar og tvær sléttar umferðir til skiptis). Milli þessara munsturborða eru mjórri borðar, afmarkaðir með venjulegri sléttri lykkju hvorum megin en annars prjónaðir með snúnum sléttum lykkjum. Í miðjulykkjunni í þeim borðum skiptast á ein slétt og ein brugðin lykkja (lóðrétt perluprjónsrönd).

Það er ekki að undra að prjónakonur hafa viljað endurgera hnésokka Elenoru af Toledo enda eru þeir gullfallegir og bera vott um glæsileg hönnun.

Þeim sem hafa áhuga á þessum sokkum er bent á:

  • Archivio-digitale/Documentazion-fotografica: Restauro degli abiti funebri dei Medici, sem eins og nafnið gefur til kynna eru ljósmyndir af viðgerð og forvörslu klæða sem fundust í grafhýsi fjölskyldu Eleonoru. Á s. 15 og s. 16 eru myndir af sokkunum hennar Eleonoru.
  • Uppskrift á síðunni Georg’s research. Þar er mælt með því að nota mjög fínt garn og mjög fína prjóna, miðað er við prjónafestuna 47 lykkjur í 10 sentimetrum. Sjá má nokkrar myndir af þessari endurgerð, bleikum sokkum, á Flickr.
  • Ítarlegar munsturleiðbeiningar og uppskrift eru á síðu Brandy Dickson, The Costume Dabbler, sjá síðu 1, síðu 2 og síðu 3. Prjónafesta er: 31 lykkja og 39 umferðir gera 10 cm.

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 19. desember 2013.

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

27. janúar 2014

Móðursjúkir Íslendingar, einkum Reykvíkingar, nútímans

Það kann að koma einhverjum á óvart en staðreyndin er sú að rusl-sjúkdóms-greiningarhugtakið gamla, hystería (móðursýki), ásamt karlkynsútgáfu þess, hýpókondríu („miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, […] eru nærstumsømu veikleikar“, skrifaði Sveinn Pálsson landlæknir árið 1794) er næstalgengasta geðröskun Reykvíkinga og nærsveitamanna nú á dögum! Sjúkdómurinn hefur hins vegar fengið nýtt nafn og fjölda undirflokkaheita.

Ég hef undanfarið skrifað nokkra pistla um vísindalegar rannsóknir dr. Jean-Martin Charcot á hysteríu (móðursýki) fyrir um 130-140 árum. Í stað þess að halda áfram skrifum í tímaröð, fjalla um nafnbreytingar sjúkdómsins í tímans rás, hvernig Freud tók hysteríuna upp á arma sína o.s.fr. verður stokkið til nútímans og hysteríuástandið á okkar góða Íslandi metið.

Kona með verk

Hvað varð um hysteríuna (móðurýkina) sem hrjáði konur svo mjög á nítjándu öld að frægt varð um allan hinn vestræna heim?

Sum einkennin, s.s. mikil þreyta og eymsli sem ekki finnst líffræðileg skýring á var felld undir það sem nú kallast vefjagigt. Stutt er síðan sá sjúkdómur var yfirleitt viðurkenndur af læknum. Orsök hans er ekki þekkt og engin sérstök lækning, þ.e.a.s. sjúklingar verða að prófa sig áfram með ýmis lyf og læknisráð sem eru í mismunandi mæli samþykkt af læknum. Sum móðursýkin gamla er nú hluti af skjaldkirtilssjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum, taugasjúkdómum og ýmsu fleiru.

Mörg skapgerðareinkenni gömlu móðursýkinnar, t.d. duttlungar, miklar skapsveiflur, óeðlilegur uggur/ótti/ kvíði og fleira hafa nú fengið inni í þunglyndis- og kvíðagreiningum ýmiss konar, jarðarpersónuleikaröskun eða öðrum algengum greiningum geðlækna nútímans.

„Líkamleg‟ einkenni móðursýkinnar sem enn voru afgangs voru sett í geðröskunarflokkinn Líkömnunarraskanir. Það flækir málin dálítið að líkömnunarröskunum er ekki eins raðað í DSM-IV, greiningarlykli Amerísku geðlæknasamtakanna, og ICD-10, greiningarlyklinum sem evrópskir læknar nota. Íslenskir geðlæknar styðjast oft við DSM-IV (nú væntanlega DSM 5 sem fjölga mun tilfellum verulega ef marka má umræðu um Somatic symptom and related disorders eins og geðröskunarflokkurinn heitir þar) þótt í vottorðum og öðrum opinberum plöggum sé þeim skylt að nota ICD-10. Hér verður reynt að taka tillit til þessa ósamræmis þegar umfjöllun íslenskra geðlækna, taugalækna og sálfræðinga er rakin.

1992: Hvað á að kalla móðursýki íslenskra kvenna?

Orðræða lækna getur stundum brugðið ljósi yfir viðhorf þeirra til sjúkdóma og sjúklinga. Árið 1992 voru einhverjir íslenskir læknar að velta fyrir sér hvað væri hægt að kalla móðursýki annað en móðursýki, í ljósi nýjustu fræðilegrar umræðu erlendis. Þetta er rakið í Íðorðapistli nr. 028 Hysteria, sem birtist í Læknablaðinu 1992 (hér er krækt í endurútgáfu hans í fylgiriti með Læknablaðinu 2001). Segir þar m.a.:

Móðursjúk konaNýlega var haldinn fræðslufundur á Landspítala þar sem sagt var frá því sjúkdómsfyrirbæri sem áður var kallað hysteria en hefur nú fengið fræðiheitið somatization disorder. Í útsendu fundarboði var þetta nefnt sjúkdómasótt (óskýrðar líkamlegar kvartanir).
[- - -]

Fyrrgreindur fyrirlesari var svo vinsamlegur að lána undirrituðum sumt af fundarefni sínu. Fram kemur að fyrirbærinu er þannig lýst að sjúklingarnir séu eingöngu konur og að sjúkdómsferillinn hefjist fyrir þrítugt með margvíslegum líkamlegum einkennum. Einkennin eru það mikil eða alvarleg, að áhrifanna gætir í daglegu lífi þeirra og hegðun, og fyrr eða síðar leita þær sér meðferðar. Líkamleg skýring finnst ekki þrátt fyrir nákvæma skoðun og rannsóknir. Einkennin halda áfram og ný bætast við þrátt fyrir ýmis konar meðferð. Í flestum tilfellum leiða kvartanir sjúklinganna fyrr eða síðar til ýmis konar inngripsrannsókna og aðgerða, sem ekki gera þeim neitt gagn hvað varðar linun einkenna og þjáninga. Hins vegar spilla þær iðulega líkama kvennanna og gefa tilefni til fylgikvilla og nýrra einkenna. Rannsóknir virðast hafa leitt í ljós að einkenni þeirra séu ekki fleiri eða alvarlegri en annarra, en að mat á eigin líkamsástandi og heilsufari sé brenglað þannig að öll líkamleg einkenni séu oftúlkuð.

[- - -]
Fyrirlesari lagði meðal annars til að þær konur, sem fengið hafa ofangreinda sjúkdómsgreiningu svo óyggjandi sé, fái að vita hvað á seyði er. Í því felst vafalítið að þeim skuli gefin fullnægjandi lýsing á fyrirbærinu og tjáð heiti þess. Heitið verður því bæði að vera lýsandi og lipurt. Það þarf að vera sæmilega nákvæmt sem fræðiheiti og má ekki vera særandi eða meiðandi fyrir þá sjúklinga sem þjást af kvillanum.
[- - -]
[…] til bráðabirgða er kastað fram tveimur tillögum: einkennasýki eða kvillaveiki.

Sem vísindalegri þekkingu í geðlæknisfræðum vatt hratt fram næsta áratuginn varð greiningin nákvæmari og heitin á flokkunum fleiri. En kjarninn er samt sem áður að ýmsir þeir kvillar sem læknar geta ekki greint líffræðilega orsök fyrir og ekki svo auðveldlega hent inn í ýmsar þær geðgreiningar sem taldar voru hér að ofan eða í vefjagigtarkistuna eru nú kallaðir einu nafni líkömnunarraskanir eða líkamsgervingarheilkenni (þessi sérstaklega kauðslegu og óagnsæju nýyrði eru hvort tveggja notuð nú sem þýðing á somatization disorder).
Skilgreiningin í ICD-10, þeim greiningarstaðli sem íslenskir læknar eiga að styðjast við, er nokkurn veginn svona:

F 45
Líkömnunarraskanir

Aðaleinkennin eru endurteknar kvartanir um líkamleg einkenni ásamt endurteknum beiðnum um læknisfræðilegar rannsóknir, þrátt fyrir að þær leiði ekkert í ljós og þrátt fyrir að læknar fullvissi sjúklinginn um að einkennin stafi ekki af líkamlegum orsökum. Hrjái einhver líkamlegur krankleiki sjúklinginn er engan veginn hægt að tengja hann eðli og fjölda einkennanna sem kvartað er yfir eða þær kvalir sem eiga hug sjúklingsins allan.

(Landlæknisembættinu hefur ekki auðnast að þýða nema brot af ICD-10 svo ég snaraði þessum textanum úr ensku af skafl.is.)

Karl með magaverkF45.0, Fjöllíkömnunarröskun, einnig nefnd Margföld geðvefræn röskun eða Briquet-röskun (sem er einmitt hystería, því þegar læknisfræðin fór að reyna að þagga niður hysteríuvísindi Charcot var gripið til þess ráðs að kenna sjúkdóminn fremur við fyrirrennara hans, hinn lítt þekkta franska lækni Briquet, sem hafði þó nokkurn veginn sömu skoðun á hysteríu og Charcot). Þessi röskun virðist geta lýst sér á allan mögulegan máta miðað við lýsingu í ICD-10, kannski er skásta greiningarmerkið að sjúklingurinn ráfar stanslaust milli lækna árum saman án þess að fá bót meina sinna.Svo taka við F45.1 Ósundurgreind líkömnunarröskun, F45.2 Ímyndunarröskun, F45.3 Líkamleg rangstarfsemi sjálfvirkakerfis (sem þrátt fyrir nafnið tengist alls ekki líkamlegum orsökum heldur eru hugmyndir sjúklings um að það sé eitthvað að honum í hjartanu, maganum, ristlinum án þess að fyrir því finnist nokkur líffræðileg skýring) o.s.fr.

Þetta verður ekki rakið lengra en áhugasömum um þann búning sem móðursýki er nú klædd í af evrópskum læknum (eða áhugamönnum um misheppnuð íðorð) er bent á að lesa gegnum listann í ICD-10 á skafl.is, vefsetrið heyrir undir Embætti landlæknis.

Lesendum er látið eftir að greina hvort karlinn á myndinni sé með líkamlega rangstarfsemi sjálfvirkakerfis eða ristilkrabbamein.

Móðursýki Reykvíkinga og nærsveitunga þeirra nú til dags

Í fræðigrein Jóns G. Stefánssonar geðlæknis og Eiríks Líndal sálfræðings, Algengi geðraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sem birtist í 3.tbl. Læknablaðsins árið 2009, segir af merkri rannsókn sem þeir félagarnir gerðu á árunum 2005-2007. Greindar voru vísindalega geðraskanir 416 íbúa á Stór-Reykjavíkursvæðinu (um 50% þess tilviljanakennda úrtaks sem boðin var þátttaka í rannsókninni) og reiknað lífalgengi geðröskunargreininga hjá þessum hópi. Lífalgengi þýðir að viðkomandi hafi einhvern tíma á ævinni þjáðst af þessum krankleik þótt hann kunni að vera frískur þegar könnunin var gerð. Fólkið var á aldrinum 34-76 ára, skipt í þrjá aldurshópa. Aðalniðurstaðan var sú að rétt tæp 50% hópsins alls hafði einhvern tíma á ævinni glímt við geðröskun.

Í ljós kom að næstalgengasta geðröskunin sem hrjáði þetta fólk var einmitt líkömnunarröskun; lífalgengi hennar var 19% í hópnum. Konur voru í meirihluta líkömnunarraskanahópsins, sem og í hópi þeirra sem greindust með lyndisröskun og kvíðaröskun.

(Það kemur efni þessa pistils ekki við en rétt er að upplýsa að algengasta geðveikin sem hrjáir og hefur hrjáð íbúa Reykjavíkur og nágrennis á seinni tímum er, skv. þessari könnun, tóbaksgeðveikin illræmda, á fræðimáli F17 Geð- og atferlisraskanir af völdum tóbaksnotkunar.)

Móðursýkin (líkömnunarröskunin) er auðvitað bagaleg fyrir sjúklingana sjálfa en kannski skiptir enn meira máli að hún er rándýr fyrir heilbrigðiskerfið og eykur álag á heilsugæsluna svo um munar (og eins og öllum vitandi vits ætti að vera kunnugt eru heimilislæknar, eins og aðrir íslenskir læknar, að kikna undan álagi).

Í annarri fræðigrein sem birtist sama ár í Læknablaðinu, 9. tbl. 2009, Hugbrigðaröskun - yfirlitsgrein, eftir þá Ólaf Árna Sveinsson, lækni, Sigurjón B. Stefánsson, sérfræðing í geðlækningum og klínískri taugalífeðlisfræði, og Hauk Hjaltason, sérfræðing í taugasjúkdómum, kemur fram:

Líkamleg einkenni sem engin vefræn skýring finnst á eru oft sögð vera starfræn (functional). Í geðlæknisfræði er slíkt ástand kallað röskun (disorder). Hér verða notuð hugtökin starfræn einkenni og starfræn truflun í þessari merkingu.
[- - -]
Rannsóknir hafa sýnt að allt að helmingur sjúklinga sem leitar til heimilislækna kemur vegna starfrænna einkenna. Um þriðjungur allra sjúklinga sem sækja til taugalækna á göngudeildir hafa starfræn einkenni. [Feitletrun mín]

(Það er ekki ljóst af samhenginu hversu stór hluti hinna starfrænu einkenna sem þarna eru nefnd eru líkömnunarraskanir, þ.e.a.s. geðrænar raskanir sem áður fyrr voru hluti móðursýkigreiningar.)

Síðan bæta höfundarnir við að svona sjúklingar upplifi sig oft mun veikari en sjúklingar með sambærileg einkenni af vefrænum toga [þ.e. sem hægt er að greina líffræðilega orsök fyrir], gangi oft milli lækna og „undirgangist endurtekið óþarfa rannsóknir, jafnvel aðgerðir, og reyna margvísleg lyf.“

Aðalefni þessarar greinar er svo hugbrigðaröskun (conversion disorder, eins og hún er skilgreind í DSM-IV, í ICD-10 hefur sami sjúkdómur verið færður úr flokki líkömnunarraskana og í þrjá undirflokka F44 Hugrofs[hugbrigða]röskun.) Hugbrigðaröskun er hin gamla grand hysterie dr. Charcot, bráðlifandi enn þann dag í dag og dugir ekki minna en sérstakur pistill um hana, sem birtist síðar.

Heimildir

Er munur á ME, CFS og FM? ME félag Íslands.

ICD-10 Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðistvandamál [svo]. SKAFL [Stöðluð kóðun í alþjóðlegum flokkunarkerfum Landlæknisembættisins].

Jóhann Heiðar Jóhannsson. 1992. 028 Hysteria. Fylgirit Læknablaðsins 10(3):4. Hér stuðst við endurbirtingu pistilsins í Íðorðapistlar 1-130 í Fylgiriti Læknablaðsins nr. 14 árið 2001.

Jón G. Stefánsson og Eiríkur Líndal. Algengi geðraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Læknablaðið 95. árg. 3. tbl. 2009, s. 559-564.

Ólafur Árni Sveinsson, Sigurjón B. Stefánsson og Haukur Hjaltason. Hugbrigðaröskun - yfirlitsgrein. Læknablaðið 95. árg. 9. tbl. 2009, s. 269-276.

Skimun fyrir vefjagigt [Skimunarskilmerki bandarísku gigtlæknasamtakanna frá 2010]. Þraut ehf

Sveinn Pálsson. Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi. Rit þess (konunglega) íslenzka Lærdómslistafélags 15. árg 1794. S. 85.

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 25. janúar 2014.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

Drottning hysteríunnar

Þessi pistill er framhald af Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki og Charcot og hysterían.

Blanche Wittmann

Þegar Blanche Wittmann var lögð inn á Salpêtrière spítalann í París, átján ára gömul, hét hún Marie Wittmann skv. fæðingarvottorði. Hún virðist hafa fengið nafnið Blanche (sem þýðir „hvít“ á frönsku, e.t.v. vegna þess að hún var óvenju ljós yfirlitum) við innritunina á spítalann og gekk undir því nafni síðar. Eftirnafn hennar er nokkuð á reiki í mismunandi heimildum, ýmist haft Witman, Wittman, Wittmann eða Weidmann.

Blanche átti erfiða æsku; faðir hennar var ofbeldishneigður og endaði ævina á geðveikahæli, móðir hennar var sögð hafa þjáðst af taugaveiklunarköstum og tvö (af níu) systkinum hennar þjáðust af krömpum og flogaveiki. Fimm af þessum níu systkinum dóu á barnsaldri. Skráð er eftir Blanche að hún hafi fengið stöku krampa sem barn en ástandið versnaði að mun á unglingsaldri uns hún var lögð inn vegna flogakasta. Í gögnum spítalans er einnig skráð hún hafi átt kynferðislegt samneyti við vinnuveitanda sinn og hefði fengið „köst“  í miðjum samförum, eitt slíkt eftir samfarir.

Blanche Wittmann

Þessa mynd af Blanche Wittmann tók Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, á s. 276, sem dæmi um hysteríusjúkling í „eðlilegu ástandi“.

Blanche er í gögnum Salpêtrière lýst sem stórri konu og tekið sérstaklega fram að hún hafi verið óvenju brjóstastór. Mælikvarði á stærð fátækra kvenna í París á þessum tíma var dálítið annar en nú því hún var 164 cm há og 70 kg að þyngd. Hún var talin meðalgreind og minnisgóð þótt sjálf segði hún minni sitt hafa skaðast mjög af ether, sem henni var óspart gefinn til að slá á hysteríuköst, allt þar til dr. Charcot hafði fundið upp eggjastokkapressuna góðu og Blanche æfst í réttum sjúklingsviðbrögðum.

Fyrst eftir innlögn voru köst Blanche óútreiknanleg og lýstu sér alla vega, frá duttlungum, frekju og óhemjugangi til krampafloga. Meintir hysteríupunktar á líkama hennar voru tilviljunakennir hér og þar og útum allt. En fljótlega lagaði krankleiki Blanche sig vísindalegri skilgreiningu dr. Charcot á hysteríu og smám saman varð Blanche Wittmann hinn fullkomni hysteríusjúklingur. Hún sýndi nánast öll einkenni sjúkdómsins eins og Charcot og samstarfsmenn hans skildu hann. Meðal þeirra voru vöðvaslappleiki/máttleysi, tilfinningaleysi í húð á ýmsum líkamshlutum, einkum kringum augu og kynfæri, staðbundin lömun sem kom og hvarf, litblinda og slæm sjón á öðru auga, hún upplifði kökk í hálsi („globus hystericus“), þreytu, höfuðverk, krampaköst og stjarfa. Við þessum kvillum voru prófaðar ýmsar lækningaraðferðir, s.s. að að láta hana eta gullduft, anda að sér ýmsum efnum, prófa ýmiss konar rafmagnsmeðferð á henni o.fl. En auðvitað virkaði eggjastokkapressan best.

Prjóni stungið � hyster�usjúkling
Koparstunga gerð eftir ljósmynd, sem birtist í Les maladies épidémiques de l’esprit; sorcellerie, magnétisme, morphinisme, délire des grandeurs
eftir Paul Regnand, útg. 1887, s. 75. Myndin ber titilinn hysterískur doði og sýnir hvernig prjónn er rekinn gegnum framhandlegg Blanche, sem brosir á meðan.

Það sem skipti sköpum fyrir frægð Blanche var hve auðvelt var að dáleiða hana og hve auðvelt var að stjórna sjúkdómseinkennum hennar í dáleiðslunni: Hún gat sýnt hvað sem var!  Og hún bar óblandna virðingu fyrir og traust til dr. Charcot. Frá því snemma á níunda áratug nítjándu aldar og allt til þess að Charcot lést, árið 1893, var Blanche Wittmann því ekki venjulegur sjúklingur heldur stórstjarna í París.

Til að að breyta ástandi hennar þegar hún hafði verið dáleidd dugði að nudda hvirfilinn ofurlaust til að hún rankaði við sér úr doðaástandi í léttari dásvefn, til að vekja hana úr dásvefni dugði að blása á augu henni, til að falla í dá dugði að láta hana stara á bjartan hlut . Til að kalla fram mismunandi sjúkdómseinkenni í samræmi við „hysteríuramma“ Charcot nýttist eggjastokkapressan prýðilega. Með rafmagnsstautum mátti kalla fram hvaða svipbrigði sem var, síðar meir þurfti ekki einu sinni rafmagn heldur bara einhvern staut, og í dáleiðslunni hélst svipurinn óbreyttur svo lengi sem læknunum þóknaðist. Hægt var að láta hana eta kol ef sagt var að það væri súkkulaði, anda að sér ammoníaki af nautn ef henni var sagt að þetta væri rósailmvatn, láta hana gleðjast yfir ímynduðum fuglum, hræðast ímyndaða snáka o.s.fr. Líkama hennar og svipbrigði og viðbrögð mátti móta á hvaða vegu sem var, sem og kalla fram flog, tilfinningaleysi og hvað það annað sem Charcot hugnaðist að sýna sem dæmi um merkar vísindarannsóknir sínar á hysteríu: Blanche var hin fullkomna mennska brúða, sú langfullkomnasta sem Charcot hafði yfir að ráða.

Stautur framkallar vöðvasamdrátt
Myndin á að sýna hvernig með léttri snertingu má kalla fram vöðvasamdrátt á kinnbeini Blanche.  Hún birtist í 3. bindi
Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, og má sjá stóra útgáfu hennar í myndasafni á vef Yale háskóla.

Það var ekki að furða að menn flykktust á sýningar („fyrirlestra“) Charcot tvisvar í viku, og þóttu þær taka mörgum leiksýningum fram. Í frönskum dagblöðum var frammistaða Blanche iðulega borin saman við leikkonuna frægu Sarah Bernhardt og jafnvel talið að sú síðarnefnda gæti ekki leikið eftir það sem Blanche gat. Þetta varð auðvitað til þess að leikkonur sóttu líka „fyrirlestra“ Charcot og Sarah Bernhardt lagði meira að segja á sig að dvelja nokkra daga á Salpêtrière til að undirbúa sig almennilega undir dramatískt hlutverk.

Frægð Blanche einskorðaðist raunar ekki bara við sýningar á Salpêtrière, hún var líka lánuð á aðra spítala þar sem læknar voru að fást við tilraunir á hysteríu því hún var svo fullkominn hysteríusjúklingur, hún var í rauninni holdgervingur kenninga Charcot um hysteríu.Henni var leikur einn að sýna öll afbrigði hysteríunnar.

Fyrirlestur Charcot

Málverk André Brouillet, Une leçon clinique à la Salpêtrière [Klínískur fyrirlestur á Salpêtrière], frá 1887 er risastórt, á því er Blanche nánast í líkamsstærð. Karlarnir sem sjást á málverkinu voru frægir á sínum tíma og eru sumir enn. Sjá má þá flesta merkta inn á málverkið á undirsíðu baillement.com. Stór ljósmynd af málverkinu sjálfu er á Wikipedia.

Eftir lát dr. Jean-Martin Charcot fékk Blanche Wittmann ekki eitt einasta krampaflog, lömunarkast, æði eða nein þau hysteríueinkenni sem samrýmdust vísindalegri greiningu dr. Charcot á þessum sjúkdómi . Hlutverki hennar sem drottning hysteríunnar lauk með dauða kóngsins, Charcot, enda dó áhugi læknanna á Salpêtrière á hysteríu um leið, líklega einnig trú þeirra á vísindi Charcot varðandi þennan sjúkdóm.

Blanche dvaldi áfram á Salpêtrière, ekki sem sjúklingur heldur sem starfmaður. Hún vann á ljósmyndastofunni, rannsóknarstofum og loks á röngtenstofu þegar sú tækni kom til skjalanna. Fyrstu röngtentækin komu á Salpêtrière laust eftir aldamótin 1900. Menn höfðu lítinn skilning á hættunni sem fylgdi röngtengeislum og Blanche Wittmann varð eitt af fyrstu fórnarlömbum þeirra: Hún fékk óviðráðanlegt krabbamein. Það þurfti að taka af henni fingur, svo alla höndina, svo framhandlegginn, svo allan handlegginn, svo byrjaði sama sagan á hinum arminum.

Alla jafna var erfitt að fá hana til að rifja upp eða tala um stjörnuhlutverk sitt á gullöld hysteríunnar en á dánarbeði tókst þó að fá hana til að segja ofurlítið af þessu. Þá harðneitaði hún að nokkur leikaraskapur hefði verið í spilinu, hysterían eins og hún var skilin á dögum dr. Charcot hefði svo sannarlega verið raunverulegur sjúkdómur. Loks hreytti hún út úr sér að dr. Charcot hefði strax séð út sjúklinga sem hefðu reynt að gera sér upp hysteríueinkenni, það var ekki hægt að plata þann góða vísindamann.

Blanche Wittmann lést árið 1912.

Heimildir aðrar en krækt er úr í textanum

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche Wittmann. Australian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Marie dite “Blanche Wittman”.  Historix. Histoire de la radiologie aux hôpitaux de paris

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 20. janúar 2014.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

20. janúar 2014

Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki

Þessi pistill er framhald af Charcot og hysterían

Dr. Jean-Martin Charcot fékk fljótt ómældan áhuga á hysteríu (móðursýki), sem sést m.a. á því að hann skrifaði tvöfalt fleiri greinar um hana en um nokkurt annað efni sem honum var hugleikið í taugalækningum. Eftir því sem áhugi hans jókst margfölduðust jafnframt hysteríugreiningar í sjúklingasafninu á Salpêtrière.

Hystería hafði til skamms tíma verið hálfgerð ruslakistugreining á ýmsum krankleika kvenna (sjá bloggfærsluna Hystería eða móðursýki) enda virtist sjúkdómurinn geta komið fram á ólíklegustu vegu. Einn helstu aðstoðarmanna Charcot, Bourneville, lýsti því prýðilega hvernig hystería einkenndist oft af miklum öfgum, t.d. gæti hysteríusjúklingur þjáðst samtímis af tilfinningaleysi og ofurnæmi; ofboðslegum þvaglátum og þvagteppu; svefnleysi og svefnsýki; þunglyndi og örlyndi o.s.fr. Margir hysteríusjúklingar sýndu ýmiss konar óhemjugang og fengu krampaflog í mismiklum mæli. Charcot sneri sér að því að flokka hin ólíku einkenni og koma einhverju skipulagi á óreiðuna.

Niðurstaða hans var að til væri sjúkdómurinn grand hystérie, meiriháttar móðursýki, sem væri taugasjúkdómur og ætti upptök sín í einhvers konar skemmd í heila (eða hugsanlega mænu). Charcot tóks hins vegar aldrei að finna skemmdina þá með krufningum. Hann skipti sjúkdómseinkennum grand hystérie í fjögur stig, tók þó fram að þau kæmu ekki endilega öll fram í hverju kasti, birtust ekki endilega í réttri röð og raunar gæti birtingarmynd hvers stigs verið mjög ólík eftir einstaklingum. Samt sem áður gæti nú hvaða læknir sem er greint sjúkdóminn grand hystérie eftir þessu skema sem hann hefði uppfundið:

  1. Krampar eða flog sem einkennast af vöðvakippum og vöðvaspennu. Flogboði (ára) eða einhvers konar undanfari kemur fyrst.
  2. „Grand movements‟: Hreyfingar sem líkjast fettum og brettum fimleikafólks í sirkús.
  3. „Attitudes passionnelles‟ (ástríðuþrungnar stellingar) þar sem hysteríusjúklingurinn sýndi sterkar tilfinningar á borð við ótta eða algleymi. Oftar en ekki voru þetta erótískar tilfinningar.
  4. Delirium, þ.e. óráð, æði eða rugl.

Einkennin sjást hér í sömu röð:

Einkenni hyster�u
Teikningarnar eru úr bók Paul Marie Louis Pierre Richer, samstarfsmann dr. Charcot, Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie, sem kom út 1881. Hún er aðgengileg á Vefnum og titillinn krækir  í fyrri yfirlitsmyndasíðu þar sem sjá má ýmsar birtingarmyndir þessara fjögurra stiga í hysteríu-ramma Charcot - ef einhver skyldi nú vilja sjúkdómsgreina eftir þeim.

Það merkilega skeði að þegar Charcot var búinn að finna upp þennan ágæta ramma fóru hysterísku konurnar á Salpêtrière að sýna einmitt þessi einkenni og óreiðan í sjúkdómseinkennum minnkaði að mun.

Meðhöndlun hysteríusjúklinga

Þótt stundum sé gert mikið úr því að Charcot hafi greint hysteríu í einstaka karlmanni miðuðust öll hans fræði við kvenlíkamann og verður að álykta sem svo að hann hafi talið hysteríu aðallega kvennasjúkdóm. Þar sem fyrri tíðar læknar höfðu verið uppteknir af áhrifum legsins í hysteríu sneri Charcot sér að brjóstum og eggjastokkasvæði, sem var vissulega nýlunda. Hann uppgötvaði ákveðna bletti, hysteríupunkta, á líkamanum og að þrýstingur á þá gat ýmist stöðvað hysteríukast eða komið því af stað, jafnvel var hægt að stjórna hinum fjórum grunnstigum í sjúkdómsgreiningarramma Charcot með þéttum þrýstingi á þessa punkta.
Teikningarnar sem sýna hysteríupunktana eru úr Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie.

Hyster�upunktar Charcot

EggjastokkapressaTil að byrja með notuðu Charcot og aðstoðarmenn hans einfaldlega hnúa og hnefa til að þrýsta á þessa punkta en svo fann hann upp eggjastokkapressuna. Eggjastokkasvæðið var næmast, að mati Charcot, og með þessari græju mátti skrúfa duglegan þrýsting á þá hysteríupunkta. Móðursjúk kona íklæddist svoleiðis málmbrók og ef á þurfti að halda var skrúfan hert. (Teikningin er merkt þeim Désiré-Magloire Bourneville og Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière 1878.)

.

Charcot uppgötvaði að það væri auðvelt að dáleiða hysteríusjúklinga og í dáleiðslunni yrði sjúkdómsmyndin miklu skýrari og þ.a.l. auðrannsakanlegri. Hann taldi að einungis væri hægt að dáleiða þá sem væru haldnir hysteríu, ekki aðra, og lenti í talsverðum deilum við kollega sína á öðrum spítala í París sem héldu því fram að hægt væri að dáleiða hvern sem er.

Hægt var að gera ýmsar áhugaverðar tilraunir á hysterískum dáleiddum konum. Charcot og félagar prófuðu sig áfram með að koma inn fölskum minningum, láta þær sjá ofsjónir o.þ.h. en höfðu sérstakan áhuga á að skoða hvernig hægt væri að koma þeim fyrir í ýmsum stellingum sem fólk er alla jafna ekki í; eitt einkenni hysteríu var nefnilega stjarfi og því einkar skemmtilegt og vísindalegt að skoða hvernig stjarfur líkami hélst í undarlegri stellingu tímunum saman. Þetta var líka sérlega þægilegt upp á ljósmyndun að gera því þeirra tíma ljósmyndatækni krafðist þess að viðfangið væri kjurt í talsverða stund.

Augustine lögð yfir stólbök

Stjarfi

Augustine Gleizes lögð yfir stólbök. Myndina tók Paul Regnard og hún birtist í ársriti Charcot og félaga, Iconographie photographique de la Salpêtrière, 3. bindi 1879-1880. Myndin af Augustine Gleizes í ótrúlegri fettu birtist í sama hefti ársritsins.

Með þrotlausum tilraunum áttuðu læknarnir sig svo á því að ef líkaminn var settur í einhverja þá stellingu sem táknaði eindregna tilfinningu þá breyttist andlitssvipurinn og lýsti sömu tilfinningu. Þeir rannsökuðu þetta merkilega taugafræðilega fyrirbæri af kappi.

Svipur fylgir stellingu
Á myndinni til vinstri er Augustine Gleizes í stellingu sem á að tákna gleði og eftirvæntingu. Óttaslegna fyrirsætan til hægri er óþekkt.

Duchenne að v�sindastörfumCharcot var svo heppinn að kynnast taugalækni, Guillaume-Benjamin-Amand Duchenne (de Boulogne) hét sá og hélt hann bæði upp á ljósmyndun og rafmagnstilraunir. Svo heillaðist Charcot af hinni nýju ljósmyndatækni að hann lét útbúa sérstakt stúdíó á Salpêtrière. Í samvinnu við Duchenne voru svo gerðar tilraunir með að breyta andlitssvip með rafstraumi og gá hvort stelling líkamans fylgdi á eftir. Svo varð og þótti mjög merkilegt.

Til að ganga úr skugga um að sjúklingur væri ekki að leika og ljúga upp á sig hysteríu (en leikaraskapur var einmitt eitt af einkennum hysteríu og því erfitt að þekkja þetta í sundur) voru ýmis próf. Má nefna að til að athuga hvort sjúklingurinn væri raunverulega með tilfinningalausa bletti á húð var stungið í hann nálum eða logandi eldur borinn að svæðinu. Til að athuga hvort lamaðir útlimir væru raunverulega dofnir voru reknir prjónar í gegnum þá. Rannsóknarmenn tóku og eftir því að í raunverulegum hysteríutilfellum blæddi miklu minna úr sárunum en alla jafna var raunin í sjúklingum sem ekki voru hysterískir og var veittur sams konar áverki.

Margar tilraunir voru gerðar með segulmagn og skiluðu þær merkilegum niðurstöðum. Ef segli var haldið að lamaðri hlið hysterískrar konu færðist lömunin yfir á hina hliðina; ef segull var borinn upp að blindu auga hysterískar konu fékk hún sjón á því auga en hitt augað varð blint; þannig mátti og spegla litblindu, heyrnarleysi, tilfinningaleysi í húð og margt fleira.

Eitt sterkt hysteríueinkenni var óvenju næmt húðskyn og stundum sérstök ofnæmisviðbrögð. Því gerðu menn tilraunir með dermagrafíu, þ.e. húðritun. Hægt var að skrifa á hysteríska konu með einhverju sæmilega oddhvössu verkfæri og nokkru síðar birtust skrifin upphleypt á húðinni, voru jafnvel margar vikur að hverfa. Þetta kallaði á áhugaverðar tilraunir, s.s. að kanna hvort skrift á lærum, brjóstum eða maga héldist jafn lengi, hvort skipti máli hvað var skrifað o.s.fr.

Húðritun
Myndin til hægri er úr grein Ernst Mesnet, “Autographisme et stigmates” í Revue de l’hypnotisme experimental et thérapeutique, 1889– 1890.
Titill myndarinnar til vinstri er Démence Précoce Catatonique Dermographisme og hún er merkt L Trepsat (sem gæti verið ljósmyndarinn), 1893. Myndin birtist í Nouvelle Iconographie de la Salpêtrière, 1904. Hún sýnir hvernig sjúkdómsheitið sárasóttargeðveiki hefur verið ritað á húð hysterískrar konu.

Hysteríusýningar

Það er ekkert sem bendir til þess að Charcot hafi verið umhugað um að finna lækningu við hysteríu. Meðhöndlun hans á hysterískum konum var fyrst og fremst í rannsóknarskyni, hann vildi glöggva sig á þessum merkilega taugasjúkdómi og helst að finna vefræna orsök hans.

Tvisvar í viku hélt hann opinbera „fyrirlestra‟, þar sem hann sýndi sjúkdómstilvik, þ.e.a.s. sjúklinga, og útskýrði einkennin. Hysteríusýningar hans urðu víðfrægar og gengu sögur um að umferðaröngþveiti yrði í París þegar allir vildu komast á hysteríusýningu dr. Charcot! Læknar, skáld, listamenn, heimspekingar og aðrir andans menn flykktust til Parísar til að verða vitni að þessum merkilegu læknisfræðiuppgötvunum dr. Charcot; hróður hans og fræði bárust og víða.

Nokkrar hysteríustjörnur komu fram á sjónarsviðið, þ.e.a.s. sjúklingar sem létu prýðilega að stjórn og sýndu rétt hysteríueinkenni á réttum tíma á svona sýningum. Þetta voru allt ungar konur, sumar þeirra þóttu og fagrar og föngulegar. Frægust þeirra, díva hysteríunnar, var Blanche Wittmann, sem gerð verða skil í næsta pistli.

Heimildir aðrar en getið er í textanum

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche WittmannAustralian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Dysert, Anne. 2013. Iconographie photographique de la Salpêtrière. De re medica. News from the Osler Library of the History of Medicine.

Hustvedt, Asti. 2011, Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, London og New York.

Shorvon, Simon. 2007. Fashion and cult in neuroscience - the case of hysteria. Brain 130. árg. 12. tbl., s. 3342-3348.

Safn mynda úr Iconographie photographique de la Salpêtrière (tímariti sem Charcot og félagar gáfu út) í læknisfræðisafni Harvey Cuching/John Hay Whitney á vef Yale háskólans.

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 16. janúar 2014.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

18. janúar 2014

Ef skóli væri heilbrigðisstofnun

Ímyndum okkur framhaldsskóla sem er rekinn eins og heilbrigðiskerfið.

Í prjónaáfanga leitar nemandi til kennarans. Nemandinn er að prjóna klassískt skyldustykki, þvottapoka með garðaprjóni, og eitthvað er skrítið í görðunum á miðju stykkinu, auk þess hefur lykkjunum fækkað á dularfullan hátt eftir því sem prjóni vatt fram.

Kennarinn hefur að eigin mati alltof marga nemendur og er á lúsarlaunum. Hann sér ekki villuna í fljótu bragði og bendir nemandanum á að leita til áfangastjórans til að fá greiningu á stykkinu. Af því kennarinn veit að nemandinn hefur ýmsar greiningar, t.d. ADHD og lesblindugreiningu, segir hann nemandanum að panta tíma hjá námsráðgjafa einnig, því vel geti verið að erfiðleikar í prjóni tengist þessum sérgreiningum.

Nemandinn pantar tíma hjá áfangastjóra og þarf að bíða eftir lausum tíma í þrjár vikur. Í millitíðinni kemst hann að hjá námsráðgjafa, sýnir honum misheppnaða þvottapokann og ber skilaboð kennarans. Námsráðgjafinn telur að mistök í prjóni gætu verið út af stressi, sem gæti hangið saman við ADHD greininguna, jafnvel lesblinduna líka því nemandi gæti hafa mislesið fyrirmælin um hve margar lykkjur ætti að fitja upp. Svo námsráðgjafinn ráðleggur nemandanum að stunda jóga, fara út að ganga á hverjum degi og taka lýsi, því lýsi hafi einmitt góð áhrif á hvers lags krankleika. Af því þetta er góður námsráðgjafi ráðleggur hann nemandanum jafnframt að reyna að hugsa jákvætt, þá gangi allt léttara.

Þegar nemandinn kemst loksins að hjá áfangastjóranum má áfangastjórinn ekki vera að því að kíkja á prjónlesið, heldur vísar nemandanum beint í rannsókn hjá skrifstofumanni. Skrifstofumaðurinn á að fara vandlega yfir prjónlesið og skrá allar villur og athugasemdir inn í þar til gert Excel-skjal. Nemandanum er úthlutað nýjum tíma hjá áfangastjóranum eftir tvær vikur, þá ættu niðurstöður að liggja fyrir.

Eftir tvær vikur mætir nemandinn aftur til áfangastjórans. (Í millitíðinni hefur nemandinn tekið lýsi á hverjum degi, arkað fimm kílómetra dag hvern, stautað sig fram úr sjálfshjálparbók til jákvæðrar hugsunar, farið með æðruleysisbænina sex sinnum á dag en er auðvitað jafn stopp í prjóninu og fyrr því kennarinn neitar að sinna honum á þeim forsendum að nemandinn sé nú í höndum sérfræðinga.)

Áfangastjórinn skoðar Excelskjalið lauslega á tölvuskjá en les það ekki í gegn enda vita allir að ef áfangastjórinn læsi öll gögn gerði hann ekkert annað og gæti þá ekki veitt viðtöl. Hann rekur augun í að skrifstofumaður hefur greint prjónlesið of fast prjónað og ráðleggur því nemandanum að reyna að liðka fingurna, best væri að leita til íþróttakennarans sem gæti kennt honum liðkandi fingraæfingar. Af því áfangastjórinn er vænsta skinn ráðleggur hann jafnframt nemandanum að taka lýsi, hætta að reykja og hugsa jákvætt, nefnir að D-vítamín geti gert kraftaverk.

Nú er tvennt sem gæti gerst næst:

A. Nemandinn fer til ömmu sinnar, þaulvanrar prjónakonu. Hún sér strax að nemandinn prjónaði óvart brugðna lykkju á sex stöðum og prjónaði saman lykkjur á þremur stöðum; rekur upp viðeigandi lykkjur niður stykkið, lagfærir villurnar, lætur nemandann lagfæra hluta þeirra og útskýrir hvað hafi gerst. Nemandinn mætir glaður með sinn hálfprjónaða þvottapoka í prjónakennslustund og segir kennaranum frá. Kennarinn trompast því amman er ekki með háskólapróf í kennslufræðum heldur eins og hver annar kuklari í þeim efnum. Kennarinn skrifar því harðorðan leiðara í Skólavörðuna um “kennslukuklið” sem er að verða stigvaxandi vandamál í samfélaginu í dag og vekur leiðarinn mikla athygli.

B. Kennarinn lætur afskipti ömmunnar afskiptalaus enda æðrulaus með afbrigðum. Hins vegar fjölgar stöðugt í áfanganum því þrátt fyrir að senda nemendur út og suður til fá greiningar sérfræðinga og hærra settra á vandanum (ýmsum villum) batnar ekkert og einungis örfáir nemendur útskrifast. Hinir hanga áfram inni og sífellt er nýjum nemendum bætt við.

Kennarinn sér að starfsumhverfið er að verða óþolandi og ekki batna launin þótt álagið aukist! Hann ákveður að hætta að starfa í þessu ömurlega íslenska kerfi, sækir um vinnu í hannyrðaskóla í Skals á Jótlandi og lýsir því í nokkrum blaðaviðtölum hvernig hann neyðist til að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja til útlanda svo sérfræðiþekking hans verði metin til mannsæmandi launa og vinnuaðstæður verði þolanlegar.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf

8. janúar 2014

Jean-Martin Charcot

Charcot Napoleon taugaveiklunarJean-Martin Charcot (1825-1893) var afar mikils metinn franskur taugalæknir um sína daga og er í sumu enn. Hann skilgreindi fyrstur hreyfitaugungahrörnun (MND, stundum kölluð Charcot veikin í Frakklandi), heila- og mænusigg (MS-sjúkdóminn eða multiple sclerosis), jók mjög við þekkingu manna á Parkinson-sjúkdómnum, greindi fyrstur tabes dorsalis (mænutæringu, sem er taugasjúkdómur af völdum sárasóttar) og blandaða hreyfitaugahrörnun (ALS eða Lou-Gehrigs-sjúkdóm). Seinni hluta ævinnar snéri hann sér að því að rannsaka hysteriu.

Jean-Martin Charcot var næstelsti sonur vagnasmiðs í París. Þótt fjölskyldan tilheyrði verkamannastétt var hún alls ekki fátæk en svo sem heldur ekki auðug. Til var nægt fé til að mennta einn sonanna og faðir hans ákvað að það skyldi vera Jean-Martin. Elsti sonurinn átti að taka við vagnasmiðjunni og hinir tveir að ganga í herinn. Þótt Charcot væri sérlega listfengur, unnandi bókmennta og ágætur teiknari frá unga aldri, sá hann að listnám væri heldur ótryggt veganesti og veðjaði í staðinn á læknisfræði til frægðar og frama. (Þótt það komi efni þessa færsluflokks ekkert við læt ég þess getið að Jean-Martin Charcot var faðir Jean-Baptiste Charcot, læknisins og pólfarans knáa sem fórst með skipi sínu Pourquoi-Pas? þann 16. september 1936 við Álftanes á Mýrum).

Salpêtrière-spítalinn

Það kom e.t.v. einhverjum á óvart þegar hinn metnaðargjarni læknir Jean-Martin Charcot sóttist eftir yfirlæknisstöðu á Salpêtrière-spítalanum í París síðla árs 1861 og fékk starfið. Þessi stofnun átti sér langa sögu, var upphaflega byggð sem saltpétursgeymsla fyrir púðurgerð (þaðan er nafn spítalans dregið), síðar varð þetta geymsla fyrir vandræðakonur af ýmsu tagi, loks einhvers konar sjúkraheimili fyrir konur. Salpêtrière á sinn sess í sögu geðlækninga því það var þarna sem Philippe Pinel leysti geðsjúkar konur úr hlekkjum árið 1795, svo sem frægt er (krækt er í málverk sem sýnir atburðinn).  Enn þann dag í dag er Salpêtrière í fullum rekstri, nú sem almennt sjúkrahús, meira að segja virtur kennsluspítali, og heitir Pitié-Salpêtrière. Salpêtrière kemur því einnig við sögu nútímans, með allt öðrum hætti þó, má nefna að Díana prinsessa var flutt með hraði á þennan spítala eftir hörmulegt bílslys þann 31. ágúst 1997. Menn vita hvernig það fór.

Þegar Charcot hóf störf Salpêtrière voru um 5000 konur á spítalanum, um helmingurinn taldur geðsjúkur en hinar voru fátæklingar sem voru illa farnir af ýmsum líkamlegum sjúkdómum, þar á meðal flogaveiki og hysteríu. Þessir ólíku sjúklingar voru meira og minna í einni kös í þessu „stórfenglega hæli mannlegrar eymdar“ sem Charcot kallaði svo. Þetta virtist ekki vera lokkandi pláss fyrir framagjarnan lækni. En Charcot sá tækifæri þar sem aðrir sáu tóm vandræði.

Salpêtrière var stærsti spítali í Evrópu og eiginlega „borg í borginni“ París. Þarna voru meir en hundrað byggingar af ýmsu tagi og frá ýmsum tímum, þröngar götur og stígar á milli þeirra, garðar og port og skúmaskot. Þarna var ræktað grænmeti, rekið pósthús, þvottahús sem þvoði allan þvott fyrir ríkisrekna spítala í París, saumastofur o.m.fl. Sjúklingar unnu eftir mætti á þessum stöðum, ásamt því að vera „gangastúlkur“, þ.e.a.s. aðstoða hjúkrunarkonurnar, og þágu lúsarlaun fyrir. Í Salpêtrière var einnig slökkvilið, tvær kirkjur (mótmælenda- og kaþólsk), verslun, kaffhús og starfandi vínkaupmaður. Þar voru meira að segja haldin böll; Geðveiku böllin á Salpêtrière voru mjög vinsælt þáttur í árlegu karnivali Parísarbúa og vel sótt af sjúklingum, læknum og öðru starfsfólki spítalans og borgarbúum. (Sjá nánar Bal des folles à la Salpêtrière á Wikipedia.)

Geðveikt ball

Charcot varð óumdeildur leiðtogi þessarar „borgar í borginni“ og eftir því sem hróður hans óx gáfu dagblöðin honum titla á borð við „Caesar Salpêtrière“ eða „Napoleon taugasjúkdómanna“ („Napoleon de la nevrose“).

Og sem orðstír Charcot óx og hann komst til æ meiri virðinga í læknasamfélagi Parísar (og Frakklands og raunar allrar Evrópu) lét hann gera ýmsar umbætur á sinni aðstöðu: Sett var upp fyrsta flokks rannsóknarstofa til að rannsaka vefsýni með fullkomnustu smásjám þeirra tíma, stór fyrirlestrarsalur var byggður enda vildi fjöldi manns hlýða á dr. Charcot og njóta sýninga hans, ekki síst eftir að hann snéri sér að hysteríurannsóknum og meðfylgjandi hysteríusýningum (sem oftast eru kallaðar fyrirlestrar í umfjöllun lækna). Charcot breytti sem sagt Salpêtrière úr stórfenglegu hæli mannlegrar eymdar í frábært kennslusjúkrahús. Hann laðaði að ýmsa afburðalækna og aðra fræðimenn sem dáðust óspart að honum (a.m.k. meðan hann var lífs), s.s. Joseph Babinski (sem uppgötvaði Babinski-viðbragðsprófið), Georges Gilles de la Tourette (sem fyrstur lýsti Tourette sjúkdómnum, raunar var það Charcot sjálfur sem kom því til leiðar að sjúkdómurinn væri kenndur við hann); Alfred Binet (annar höfundur greindarprófs sem enn notað) og Sigmund Freud, svo einhverjir séu nefndir.

Af hverju vildi Charcot ná yfirráðum yfir Salpêtrière?

Fyrir taugalækni sem vildi uppgötva eitthvað nýtt var Salpêtrière kjörið pláss. Þarna ægði saman alls konum með alls konar krankleika, enda kallaði Charcot standið á Salpêtrière „ringulreið heilsubrestanna“ og vatt sér svo í að sortéra og greina á vísindalegan hátt. Hann hélt mjög nákvæmar sjúklingaskrár og brúkaði ýmsar nýstárlegar aðferðir til að mæla sjúkdómseinkenni, t.d. að festa fjaðrir á höfuð sjúklinga til að greina milli mismunandi skjálfta eða titrings og að nýta nýuppfundið spygmograph (frumstæðan púlsmæli) sömuleiðis til að mæla titring og skjálfta. Í sjúkraskránum eru ekki bara textar heldur heilmikið af teikningum og kom sér vel að Charcot var drátthagur, sem og margir hans aðstoðarmenn.

Charcot var einlægur dýravinur og gerði því aldrei kvikskurð á dýrum í rannsóknarskyni. Stór hluti sjúklinganna á Salpêtrière voru gamlar konur eða konur komnar að fótum fram. Þess þurfti því yfirleitt ekki lengi að bíða að sjúklingur sem hafði verið kyrfilega mældur og veginn og sjúkdómseinkenni hans vandlega skráð í riti og teikningum ræki upp tærnar svo hægt væri að kryfja hann. Með því að bera saman vefsýni við ítarlega skráð einkenni ýmiss krankleika („klínísk-pathológíska aðferð“ kallar höfundur greinar á íslensku þetta, sjá Sigurjón B. Stefánsson. 2010) komst Charcot ótrúlega langt áleiðis í að skilja og greina uppruna eða einkenni ýmissa taugasjúkdóma, s.s. nefnt var í upphafi þessarar færslu. Og komst hjá því að gera dýratilraunir - síst af öllu vildi hann meiða dýr.

Af hverju snéri Charcot sér að hysteríu?

Tja, ástæðan er nánast tilviljun. Salpêtrière var löngum yfirfullt og um 1870 tók stjórn spítalans þá ákvörðun að hann skyldi aðallega sinna „einfaldri flogaveiki“, þ.e.a.s. flogaveiki- og hysteríusjúklingum. Flestir geðveiku sjúklingarnir voru fluttir á annan spítala og öðrum tvístrað.

Charcot áleit að hystería væri taugasjúkdómur, ekki geðsjúkdómur. (Raunar hafði hann engan áhuga á geðsjúkdómum, sem m.a. sést í því að í öllu því greina-og ritaflóði sem frá honum kom um ævina er einungis ein grein um geðsjúkdóm (nánar tiltekið um samkynhneigð/hómósexúalisma) sem hann er skráður höfundur fyrir ásamt geðlækni (alienistar voru þeir kallaðir á þessum tíma) - og flestir telja að Charcot hafi einungis ljáð nafn sitt en ekki komið nálægt skrifum greinarinnar.)

Hann tók því til óspilltra mála að greina hysteríu og leita uppi þá vefrænu skemmd sem ylli sjúkdómnum, alveg eins og hann hafði greint og fundið orsakir annarra taugasjúkdóma. Um þá iðju Charcot fjallar næsta færsla.

Heimildir:

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Régnier, Christian. 2010. Gunpowder, madness, and hysteria: the birth of neurology in France Vignettes of five great neurologists who made history at the Salpêtrière Hospital in Paris: Jean-Martin Charcot (1825-1893), Pierre Marie (1853- 1940), Joseph Babinski (1857-1932), Jean Lhermitte (1877-1959), Paul Castaigne (1916-1988). Medicographia. 2010;32, s.310-318

Sigurjón B. Stefánsson. Taugalæknisfræði sérgrein verður til. Læknablaðið 2010/96. Fylgirit 64, s. 59-102.

Myndin af Charcot sem fylgir þessari færslu var gjöf hans til Sigmund Freud 1886.

Neðri myndin er af geðveiku balli á Salpêtrière og birtist í Le Monde Illustré þann 22. mars 1890.

Þessi færsla tilheyrir færsluröð um hysteríu, er önnur í röðinni. Sú fyrsta er Hystería eða móðursýki.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa