Færslur undir „Saga prjóns“

27. apríl 2014

Sigríður Magnússon, braskið, betlið og meinta kvenréttindabaráttan

Ég er alveg að gefast upp á að reyna að skrifa um Sigríði blessunina. Eftir nokkrar atrennur sé ég að textinn er yfirleitt of langur, alltof mikið af heimildatilvísunum og útkoman þannig að sæmdi sér prýðilega í meistararitgerð en síður á bloggi. Svo hér er lokaatrennan þar sem farið er hratt yfir sögu og tilvísunum sleppt - í staðinn lista ég upp helstu heimildir í lok textans.

 

Hvernig æxlar maður sér fé af ríkum Englendingum?

Sigríður hafði ágæta fyrirmynd þar sem eiginmaður hennar var. Svo sem getið var í síðustu færslu hafði Eiríkur talað auðugan Breta (Wales-búa) inn á að borga stofnkostnað við háskóla á Íslandi, hafði raunar loforð fyrir gífurlegu fé til þess. Í fínna kvenna fansi sem Sigríður kom sér í eftir að Eiríkur fékk bókavarðarstöðuna í Cambridge var ekki alveg jafn feitan gölt að flá. Þó eignaðist hún vinkonu sem gaf henni 200 pund, sem var dágóður peningur (til samanburðar má geta þess að far til Íslands frá Bretlandi kostaði fram og til baka á bilinu 5-8 pund og að ferðabókum frá 1878 og 1889 ber saman um að heildarkostnaður við ferðalag um Ísland, uppihald, hestaleigu, fargjald o.s.fr. væri um 20 pund). Sigríður fékk loforð fyrir þessu fé í upphafi árs 1883 en þegar féð var afhent 1884 hét það að gjöfin væri minningargjöf um systurdóttur hennar sem lést í árslok 1883.

VinaminniFyrir þessi 200 pund lét Sigríður reisa stórhýsi í Reykjavík, á lóðinni þar sem Brekkubær hafði staðið, og kallaði Vinaminni. Húsið stendur enn og er nr. 3 við Mjóstræti, það var byggt 1885. Eftir það hafði hún öruggan samastað í Reykjavík á sínum sumarferðum og gat hætt að setjast upp hjá systrum eða móður Stephensen landshöfðingja, svo sem hún hafði eitthvað gert af enda varla hægt að ætlast til að svo fín frú, sem Sigríður varð af einbeitni, byggi í torfkofa hjá mömmu sinni þá hún vísiteraði Reykjavík á sumrin.

Myndin af Vinaminni nýbyggðu er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Litla myndin krækir í síðu með nánari upplýsingar um ljósmyndina og húsið, þar er og hægt að sjá stærri útgáfu af henni.

Eftir að hafa verið ritari í nefnd sem stóð fyrir mikilli fjársöfnun fyrir bágstadda Íslendinga haustið 1882 (raunar bar Íslendingum sjálfum ekki sama um hversu eða hvort þeir væru bágstaddir og söfnunarféð nýttist auk þess illa vegna skipulagsleysis, sem Eiríkur Magnússon bar líklega ábyrgð á) hlýtur Sigríði að hafa verið vel ljóst að fá mætti enskt hefðarfólk til að reiða fram ansi mikið fé ef málstaður væri góður; Nefndin var nefnilega skipuð afar háttsettu fólki og söfnunin gekk svakalega vel þar til aðrir Íslendingar en þau hjónin fóru að láta í sér heyra.

Svo Sigríði datt í hug góður málstaður: Bágar aðstæður íslenskra kvenna til menntunar.

 

Að koma málstaðnum á framfæri, ota sínum tota og afla fjár

Áður hefur verið sagt frá þátttöku Sigríðar í Iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 og hvernig hún hóf í kjölfarið á henni að sýna íslenskar hannyrðir og krítaði liðugt um vinsældir þeirra meðal bresku konungsfjölskyldunnar. Þessum hannyrðasýningum hélt hún áfram og bætti íslenskum silfurmunum við. Forsendan fyrir að eitthvað þætti í íslensku silfurmunina varið var auðvitað að þeir væru gamlir, verðmætar fornminjar, því víravirki og önnur íslensk silfursmíð skar sig ekkert úr því sem víða tíðkaðist.

Hún sýndi þessar vörur víða (líklega hvar sem hún gat) en frægastar eru sýningar hennar á Alþjóðlegu heilsusýningunni í London 1884, Iðnsýningunni í Edinborg 1886, Ensk-dönsku sýningunni í London 1888 og Heimssýningunni í Chicago 1893. Þetta voru meira og minna sömu hannyrðirnar sem hún sýndi árum saman og í viðbrögðum við gagnrýni landa sinna bar hún yfirleitt fyrir sig hversu velættaðar konur hefðu ofið eða prjónað þessa muni eða, til vara, systur og móðir hennar sjálfrar.

Jafnframt þessum sýningum stundaði Sigríður verslun og viðskipti í nokkrum stíl, líklega frá 1883. Hún reyndi að opna verslun með íslenska muni bæði í Cambridge og Manchester, fékk íslenskar konur til að vinna fyrir sig, t.d. baldýra (en greiðsla frá Sigríði fyrir svoleiðis fékkst bara með eftirgangsmunum), flutti ódýrt enskt dót til Íslands og seldi með góðri álagningu o.s.fr. Brambolti Sigríðar virðist þó lítill gaumur hafa verið gefinn fyrr en á Heimssýningunni í Chicago 1893 og verður fjallað um harðvítugar deilur um það hér á eftir.

Auk sýningahalds og viðskipta gerði Sigríður nokkuð að því að halda fyrirlestra um Ísland og bág kjör Íslendinga og alveg sérstaklega bág kjör íslenskra kvenna.

 

Kvennaskólinn í Vinaminni

Sigríður fékk þá stórkostlegu hugmynd að opna kvennaskóla í stórhýsi sínu í Reykjavík, Vinaminni. Hugmyndin rímaði líka ágætlega við sýningar og safnanir og fyrirlestra hennar en síður við þá staðreynd að nokkrum húsum fjær var starfandi Kvennaskólinn í Reykjavík (og nokkrir slíkir til utan Reykjavíkur). Kvennaskóli Sigríðar tók til starfa haustið 1891 en starfaði einungis einn vetur. Skólastúlkur voru 15, þar af 5 í heimavist í Vinaminni.

Í samanburði við það nám sem boðið var upp á í Kvennaskólanum í Reykjavík á sama tíma er ómögulegt að sjá neina sérstöðu í kvennaskóla Sigríðar. Í báðum skólunum var kennd sama handavinnan (kúnstbróderí, baldýring, fatasaumur o.þ.h.) og sömu bóklegu greinarnar (íslenska, reikningur, landafræði, enska, danska o.fl.). Ef eitthvað var þá var framboð á bóklegum greinum talsvert meira í Kvennaskólanum í Reykjavík en þeim í Vinaminni. Og verðið sem námsmeyjar greiddu var nákvæmlega hið sama: 1 kr. á dag fyrir þær sem voru í heimavist, minna fyrir Reykjavíkurstúlkur sem sóttu tíma í skólanum.

Það er erfitt að sjá nokkra rökræna ástæðu fyrir þessari kvennaskólastofnun Sigríðar E. Magnússon nema að hún þjónaði ágætlega þeim málstað sem hún hafði valið sér til að réttlæta sýningarþörf og aðra athygli sem hún vildi gjarna njóta. Auk þess var þessi kvennaskóli gullvæg ástæða til samskota ríkra Englendinga, sem Sigríður nýtti sér óspart. (Fyrir því eru nægar heimildir þótt hún hafi á gamals aldri haldið því fram að hún hafi aldrei þegið neitt fé í samskotum heldur hafi unnið fyrir öllu saman með fyrirlestrarhaldi.)

 

Heimssýningin í Chicago 1893 og deilurnar um framlag og framferði Sigríðar þar

Sigr�ður, g�tar, Fr�ðaSigríður fékk inni með hannyrðasýningu sína og sýningu á íslenskum silfurmunum á þessari sýningu auk þess að fá að flytja fyrirlestur á fjölsóttu þingi kvennasamtaka sem haldið var í tilefni sýningarinnar.  Að eigin sögn sat hún ævinlega hjá munum sínum, íklædd íslenskum búningi og sýndi hvernig skyldi spinna á rokk. Á myndinni hér til hliðar er hún uppáklædd með gítar (eins og á flestum myndum af henni) en rokkinn vantar  - í hans stað er hundurinn Fríða, mikið uppáhald þeirra Eiríks og Sigríðar enda myndin tekin löngu áður en hún fór til Chicago.  Myndin er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns.

Íslendingar sem sáu sýninguna Sigríðar í Chicago voru vægast sagt ekki upprifnir. Bæði hannyrðir og silfur þóttu drasl og auk þess í meira lagi vafasamt að merkja silfurkeðjur þannig að önnur átti að hafa verið í eigu Jóns Arasonar og hin í eigu Snorra Sturlusonar. Körlunum (einkum þeim sr. Hafsteini Pjeturssyni og Matthíasi Jochumssyni) var svarað með því að þeir hefðu nákvæmlega ekkert vit á hannyrðum og upplýsingarnar um uppruna silfurkeðjanna hefðu fylgt frá upphaflegum eigendum sem væru einstaklega ráðvant fólk. En sú sem hún opnaði breiðsíðuna á var Mrs. J.T. Sharpe [Hólmfríður Stephensson, búsett í Chicago], íslensk kona sem gagnrýndi sýningu og staðhæfingar Sigríðar opinberlega. Í löngu svari Sigríðar var allt tínt til: Forsjárdeila sem tengdist ætt frú Sharpe, ættrakningar og mistök í ættrakningum, yfirlýsingar um að sumt af slekti Mrs. J.T. Sharpe væri nú ekki fínna en svo að það hefði grátbeðið Sigríði að reyna að koma sínu silfri í verð, að rangt hefði verið eftir Sigríði haft í dagblöðum vestra um ýmislegt, að Mrs. Sharpe hefði ekkert vit á íslenskum búningum o.s.fr.

Fyrir utan fyrirlesturinn hjá kvennasamtökunum hafði Sigríður nefnilega verið mjög dugleg að koma sér í viðtöl þarna vestra. Málflutningur hennar var yfirleitt á sömu leið: Fyrst stutt rakning á landnámi og tignum uppruna Íslendinga, síðan um bág kjör í þessu landi elds og ísa, síðan um sérstaklega bág kjör kvenna, sem neyddust til að nema allt sem þær lærðu svo til einungis af móður sinni því engir skólar væru til fyrir þær, síðan um hetjulega baráttu Sigríðar sjálfrar til úrbóta á kjörum kvenna, bæði í að koma hannyrðum þeirra í verð og svo að koma á fót og reka kvennaskóla í þessu guðsvolaða landi. Silfursafn sitt hefði hún eignast með því að taka við allt að 700 ára gömlum ættargripum bláfátæks fólks sem neyddist til að biðja Sigríði að selja það á Englandi til að eiga fyrir salti í grautinn (öllu heldur brauði, að sögn Sigríðar) og af litlum efnum hafði hún sjálf reynt að kaupa og borga fyrir sem mest af því í þeim tilgangi að skila ættargripunum aftur eða gefa þá á Fornmenjasafn Íslendinga. Jafnframt kom fram í þessum viðtölum að nú neyddist Sigríður til að selja sitt silfursafn (ég veit að þessar staðhæfingar hennar standast illilega á en það gerir líka margt annað í málflutningi hennar) til að geta rekið sinn kvennaskóla í landi þar sem stúlkum gæfist enginn annar kostur á menntun.

Eitthvað var um að fólki hér uppi á Íslandi blöskraði þessar staðhæfingar og hefði á því orð í blaðagreinum. Amrísku blöðin voru hins vegar full aðdáunar á þessari duglegu konu, hennar fórnarlund og brautryðjandastarfi.

Sigríður reyndi svo að selja sitt silfursafn ýmsum söfnum vestra en tókst ekki enda verðlagði hún það ákaflega hátt. (Hún hafði áður reynt að selja sama safn í Noregi og Svíþjóð án árangurs). Á gamals aldri hélt Sigríður því fram að einhver dularfullur útsendari landa hennar sem vildu eyðileggja fyrir henni, af tómri illgirni að því er virðist, hafi komið í veg fyrir að hún gæti selt Metropolitan Museum í New York safnið sitt. Í Ameríku dvaldi Sigríður svo í sjö ár og virðist hafa verið á framfæri Eiríks eiginmanns síns allan þann tíma - sjálf hélt hún því fram að hún hefði unnið fyrir sér með fyrirlestrarhaldi.

Sigr�ður gömul

Þessi mynd er áreiðanlega tekin í Ameríkudvöl Sigríðar, sjálfsagt í tilefni fyrirlestrar. Hana má sjá stærri í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns - myndin krækir í upplýsingasíðuna þar. Sé gert ráð fyrir stafavillu í upplýsingum um myndina þá hefur Sigríður haldið þennan fyrirlestur í skóla í Pensylvaníu sem sérstaklega einbeitti sér að kennslu amerískra frumbyggja (indjána), með sérdeild fyrir stúlkur. Sem sjá má á myndinni er Sigríður klædd í íslenska búninginn, með gítarinn við hönd, rokkurinn illgreinanlegur á myndinni en allt er þetta huggulega skreytt með bandaríska fánanum.

Eftir lát Sigríðar fékk Þjóðminjasafnið að velja úr silfursafninu til kaups og keypti nokkuð af gripum úr kvenbúningum. Fylgir sögu að suma hafi hún keypt af gullsmiðum sem hefðu fengið þá sem brotasilfur í smíðaefni og hlutirnir séu því margir ekki mjög gamlir. Hvað varð af hannyrðasafninu veit ég ekki nema að fingravettlingar Guðrúnar, móður Sigríðar, eru á Þjóðminjasafninu.

 

Það skýtur dálítið skökku við að nú skuli e.t.v. í bígerð að dubba upp hana Sigríði Magnússon, konu sem virðist hafa prjónað duglega við sannleikann, sveigt hann og teygt á ýmsa vegu eftir því hvernig hann þjónaði best að koma henni sjálfri á framfæri, sem einhverja baráttukonu fyrir kvenréttindum á Íslandi og sérstakan brautryðjanda í kynningu á land og þjóð í útlöndum!

 

 

Heimildir

Bækur:

Aðalsteinn Eiríksson. 1994. Saga skólans. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 89-206. 

Guðrún Borgfjörð. 1947. Minningar. Hlaðbúð, Reykjavík.

Guðrún P. Helgadóttir. 1994. Þóra Melsteð. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 7- 88.

Matthías Jochumsson. 1893. Chicagó-för mín 1893. Prentsmiðja Björns Jónssonar. Akureyri.

Mrs. Alec-Tweedie. A Girl’s Ride in Iceland. 1894 (önnur útgáfa, fyrst gefin út 1889). Horace Cox, Windsor House, Bream’s Buildings, E.C. LONDON.

N. L. van Gruisen.1879.  A Holiday in Iceland. Elliot Stock. London.

Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.” 1894. The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

Sigrún Pálsdóttir. 2010. Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík

Stefán Einarsson. 1933. Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Reykjavík.

Þór Magnússon. 1994. Kvensilfur frá Sigríði Magnússon. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Reykjavík, s. 160.

 

Greinar og fréttir:

Alvi. Slíkt eru kvinnubrögd. Føringatíðindi 1. feb. 1892, s. 2.

Auður Styrkársdóttir. 2012. “Mér fannst ég finna sjálfa mig undireins og ég var laus við landann”. Kvennabaráttan á Íslandi og alþjóðlegt samstarf. Saga. Tímarit Sögufélags L:1, s. 35-77.

Eiríkur Magnússon. [Bréf til ritstjóra]. Heimskringla 9. júní 1894, s. 2

Frá löndum. Heimskringla 24. nóv. 1894, s. 4.

Hafsteinn Pjetursson. Chicago-brjef. III. Lögberg 25. október 1893, s. 1-2.

Jón Þórarinsson. „Frú Sigríður Magnússon, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni.“ [Og meðfylgjandi svar ritstjóra.] Ísafold 2. júní 1894, s. 127-128.

Kvennaskólinn í Vinaminni. Reykvíkingur. 21. janúar 1892, s. 51.

Kvennmenntunarvinur. Kvennaskólinn í Vinaminni. Ísafold 14. nóv. 1896, s. 314.

Páll Melsteð. Frú Sigríður Magnussen, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni. Ísafold 9. maí 1894, s. 97-98.

Sigríðr E. Magnússon. Kvennaskóli í Vina-Minni. Fjallkonan 1. sept. 1891, s. 140.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Ísafold 22. jan. 1910, s. 15.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Frh. Ísafold 2. feb. 1910, s. 24.

Sigríður E. Magnússon. Kvennaskólinn í Vina-Minni. Reykvíkingur. 14. sept. 1891, s. 36.

Sigríður Einarsdóttir [Magnússon]. Svar til sjera Hafsteins Pjeturssonar. Lögberg 20. des. 1893, s. 1.

Úr brjefi frá Chicago 12. ágúst. Ísafold 16. okt. 1893, s. 276.

Þ.P. [Þóra Pjetursdóttir]. Um frú Sigríði Magnússon og sýning íslenzkra hannyrða. Þjóðólfur 9. mars 1894, s. 46-47.

 

Greinar og fréttir í erlendum dagblöðum:

A True Philanthropist. The Davenport Daily Republican 11. nóv. 1890, s. 2.

Educational Echoes. The Reading Times 11. ágúst 1893, s. 2.

For Icelandic Girls. A School Soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

Her Aim for Iceland. Mrs. Magnussen is the object of some sharp criticism. Chicago Daily Tribune 6. des. 1893, s. 6.

Iceland Woman’s Enterprise. Pushed the Sale of Native Woolens to Support a School for Young Girls. The Brooklyn Daily Eagle 26. ágúst 1902, s. 8.

Icelandic Education. Mrs. Magnusson Tells of Her Efforts to Supply a Girls’ High School at Reykjavik. - Something of Icelandic Customs and Costumes. The Brooklyn Daily Eagle 15. nóv. 1896, s. 22.

Schools In Iceland. Mrs. Magnusson’s Reply to the Attack of Mrs. Sharp. The Inter Ocean 17. des. 1893, s. 29.

Women Tailors in Iceland. Wife of an English Professor Establishes a Novel School. Arkansas City Daily Traveler 14. des. 1896.

Wool of Iceland. It Is Finest and Strongest Possible and Is Carded and Spun by Women. The Brooklyn Daily Eagle 18. jan. 1902, s. 10.

 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns

18. apríl 2014

Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans

Hér segir af ofurlitlu grúski undanfarið í því skyni að kanna meintan áhuga Viktoríu Bretadrottningar á íslenskum fingravettlingum, sem allt bendir til að sé haganlega tilbúin lygasaga sem hver etur upp eftir öðrum enn þann dag í dag.

Skýringar á áritaðri mynd af Viktoríu drottningu í eigu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon

Á dögunum var ég að lesa Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917, eftir Sigrúnu Pálsdóttur (útg. 2010); að mörgu leyti ágætisbók sem ég hef lesið áður, þótt aðalpersónan sé frekar leiðinleg dekurrófa. En það er ekki efni þessa pistils.

Í miðri Þóru biskups segir af heimsókn hennar til hjónanna Eiríks Magnússonar og Sigríðar Einarsdóttur sem bjuggu í Cambridge. Er húsakynnum þeirra lýst og þ.á.m. segir:

Á miðhæð gestaherbergi og stássstofa eða viðhafnarherbergi þar sem yfir arinhillunni hangir mynd sú af Viktoríu sem drottningin sendi áritaða til Guðrúnar í Brekkubæ sem þakklætisvott fyrir vettlinga sem hún hafði eitt sinn prjónað handa henni og gefið.1

Viktoria EnglandsdrottningÞetta vakti athygli mína því fræg dæmi eru um að breskum hannyrðum hafi verið komið rækilega á framfæri með velvild Viktoríu drottningar og hennar fjölskyldu svo mig langaði að vita meir um þessa íslensku vettlinga sem drottningin var svo þakklát fyrir. Þóra biskups er vönduð heimildaskáldsaga og að sjálfsögðu er vísað í heimild fyrir þessu, sem er Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge eftir Stefán Einarsson.

Í Sögu Eiríks Magnússonar er löng tilvitnun í lýsingu Guðmundar Magnússonar skálds (þ.e. Jóns Trausta) sem heimsótti þau Sigríði og Eirík árið 1904. Jón Trausti sagði m.a. um húsakynni þeirra: „Á arinhillunni þar stendur ljósmynd af Viktoríu drotningu með eiginhandar-áritun hennar, send frú Sigríði.“2 Neðanmáls í sinni bók gerir Stefán Einarsson þessa athugasemd: „Myndin var ekki send Sigríði, heldur Guðrúnu móður hennar, er prjónað hafði drotningunni vetlinga.“3

Enn önnur útgáfa er til um skýringuna á árituðu myndinni af Viktoríu drottningu sem ku hafa staðið á arinhillunni á heimili þeirra Sigríðar og Eiríks í Cambridge, einnig höfð eftir gesti þeirra hjóna. Guðmundur Árnason skrifaði grein um Eirík Magnússon sem birtist árið 1920. Guðmundur segist segist hafa dvalið í Cambridge í tvær vikur árið 1910 og verið daglegur gestur hjá þeim hjónum. Undir lok greinarinnar hrósar hann Sigríði mjög, segir m.a. að hún hafi verið „óþreytandi að útbreiða þekkingu á Íslandi og íslenzkum handiðnaði á Englandi og víðar“ og að hún hafi tekið „drjúgan þátt í kvennfrelsismálinu og ýmsum öðrum framfararmálum“, bætir svo við:

Ýmsir urðu til þess að veita tilraunum hennar eftirtekt og sýna henni viðurkenningu, þar á meðal Victoría drotning, sem sendi henni ljósmynd af sér með eiginhandar kveðju.4

Í VI. Viðauka í Sögu Eiríks Magnússonar segir Stefán Einarsson deili á ættum hans, eiginkonu o.fl. sem honum þótti ekki eiga erindi í meginmál. Þar segir um móður Sigríðar, Guðrúnu Ólafsdóttur í Brekkubæ [kotið stóð þar sem nú stendur Mjóstræti 3] og vettlingana og Viktoríu:

Til merkis um það, hve vel hún vann, má geta þess, að einu sinni kom með Sigríði hirðmær Viktoríu drotningar til Reykjavíkur og fékk fingravettlinga hjá Guðrúnu. En Viktoríu drotningu leist svo vel á vetlingana, að hún pantaði aðra, og er hún fékk þá, sendi hún Guðrúnu mynd af sér með eiginhandar áritun. Þessa mynd geymdi Sigríður eins og menjagrip, en þó hefur týnst. Til eru á Þjóðmenjasafni vetlingar eftir Guðrúnu sem hún fékk verðlaun fyrir.5

Verðlaunvettlingar Guðrúnar ÓlafsdótturGuðrún þessi Ólafsdóttir í Brekkubæ var fædd árið 1805 en ég finn engar heimildir um dánarár hennar. Sigríður dóttir hennar fluttist með sínum manni, Eiríki Magnússyni, til Englands árið 1862 og var dálítill þvælingur á þeim næstu árin en frá 1871 var heimili þeirra í Cambridge. Bæði heimsóttu þau Ísland mjög oft.

Í Þóru biskups segir að Sigríður hafi haustið 1883 tekið þátt í „Iðnssýningunni í Reykjavík“ ásamt Þóru o.fl. og að „Sigríður og Þóra vinna báðar til verðlauna í fyrsta flokki sem gaf pening úr silfri“. 6  Hér er rangt farið með. Í fyrsta lagi hét þessi sýning Iðnaðarsýningin í Reykjavík. Hún stóð dagana 2.-19. ágúst 1883. Vissulega sendu þær Þóra og Sigríður báðar inn málverk á sýninguna7 en einungis Þóra hlaut silfurpening í verðlaun. Sigríður fékk engin verðlaun8. Aftur á móti er það satt sem áður var nefnt að móðir Sigríðar, Guðrún Ólafsdóttir Ormarstöðum, fékk silfurpening fyrir fingravettlinga. (Soffía Einarsdóttir á Ási í Fellum, systir Sigríðar, fékk bronspening fyrir svuntu og Þorvarður Kjerúlf, kvæntur systurdóttur Sigríðar, fékk silfurpening fyrir hnakk sem hann sendi inn en óvíst er hver smíðaði - svo ættin lá svo sem ekki óbætt hjá garði í verðlaunaveitingu þótt Sigríður fengi sjálf engin verðlaun)9. Raunar þótti verðlaunadreifingin fyrir muni á þessari sýningu dálítið einkennileg sem kann að stafa af því að dómnefndin virtist óspör á að hygla sínum vinum og kunningjum umfram aðra.10

Myndin til vinstri er af verðlaunavettlingum Guðrúnar Ólafsdóttur og krækir í upplýsingasíðu um þá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Soff�a og Sigr�ður Einarsdætur og Guðrún Ólafsdóttir

Á myndinni hér að ofan sjást systurnar Soffía Einarsdóttir og Sigríður Einarsdóttir Magnússon og Guðrún Ólafsdóttir móðir þeirra. Fremst á myndinni eru dætur Soffíu, þær Sigríður María Gunnarsson (f. 1885) og Bergljót Sigurðardóttir (f. 1879). Af henni má marka að Guðrún hafi náð háum aldri. Þetta er stækkuð úrklippa úr mynd sem skoða má í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns, og krækir úrklippan í myndasíðuna þar.

Eftir Iðnaðarsýninguna auglýsir Sigríður eftir íslenskum hannyrðum í fyrsta sinn. Er ekki ósennilegt að augu hennar hafi opnast fyrir að hægt væri, með réttri markaðssetningu, að gera þær eftirsóknarverðar í Bretlandi og hafa eitthvað upp úr sér við það. Auglýsing sem hún birti í dagblöðum er dagsett 28. ágúst og hefst þannig:

Í því skyni, að gjöra mitt til þess, að efla íslenzkar hannyrðir einkanlega, og ef til vill fleiri iðnir, og sjer í lagi að gjöra íslenzkan verknað útgengilegan á Englandi, svo að vinnendum yrði sem mestur hagur að, þá hefi eg áformað og gjört talsverðan undirbúning til þess, að sýning geti orðið haldin á slíkum munum í Lundúnaborg að ári komanda, mánuðina maí, júní og júlí. Jeg hefi þegar fengið nokkurar enskar heldri konur, þar á meðal Mrs. Morris, til að ganga í nefnd með mjer til þess að koma upp sjóði, svo fyrirtækinu megi þannig framgengt verða og munirnir fluttir til Englands, sýnendunum að kostnaðarlausu.11

Seinna í auglýsingunni telur hún upp hvers lags hannyrðir sig vanti og eru þar á meðal sokkar, belgvettlingar og fingravettlingar.

Staðhæfingar Sigríðar um Viktoríu drottningu og íslenska fingravettlinga á sýningum hennar á íslenskri handavinnu erlendis

Sigríður Einarsdóttir Magnússon stóð við stóru orðin og kom hannyrðum íslenskra kvenna að á alþjóðlegri heilbrigðissýningu (International Health Exhibition) í London 1884.
Obbinn af tölublaði Þjóðólfs þann 29. nóv. 1884 fjallaði um sýningu Sigríðar og deilur sem af verðlaunaveitingu þar spruttu, undir yfirskriftinni „Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London“. Þessi langa grein er örugglega eftir Eirík Magnússon, eiginmann Sigríðar. Greinin hefst á þýðingu á lofræðu enska hannyrðablaðsins The Queen (sem neðanmáls er sagt „kvennablað og gengr meðal auðfólks og aðals og hefir mikla útbreiðslu“). Í þýðingunni á lofinu segir m.a.: „Okkur voru sýndir þar fingravetlingar af sömu gjörð og þeir voru, sem Drotningu vorri hafa verið sendir að gjöf.“12

Alexandra prinsessa af Wales

Árið 1886 komst Sigríður að með sama dót á Alþjóðlega iðnsýningu í Edinborg en sérstakir verndarar hennar voru Prinsinn og Prinsessan af Wales. Í frétt í The Times segir af því þegar þessir háttsettu verndarar skoðuðu sýninguna og þar á meðal:

The attendant at the Icelandic stand presented the Princess of Wales with a pair of gloves, and her Royal Highness gave an order for a piece of cloth sufficient to make a dress.13

Myndin til hægri er af Alexöndru, prinsessu af Wales, tekin 1881.

Víkur nú sögunni áratug fram í tímann, þegar Sigríði tókst að koma íslenskum hannyrðum (að hluta þeim sömu og hún hafði sýnt árið 1884 og oftar) og íslenskri silfursmíði á Heimssýninguna miklu í Chicago 1893. Í millitíðinni hafði hún komið sér í alls kyns útlendan kvenfélaga-/kvenna-félagsskap, stofnað kvennaskóla í Reykjavík sem aðeins starfaði eitt ár, kynnt Ísland og bág kjör kvenna hér og þar og íslenskt handverk. Í ræðu sem hún flutti á alþjóðlegu kvennaþingi sem haldið var í tengslum við Heimssýninguna sagði hún m.a.:

I think you will agree with me that the work must be good when I tell you that Her Majesty, Queen Victoria, has been wearing the Icelandic gloves for years, the only “woolen” gloves she wears, I am told; also that the work got the highest possible award at the International Health Exhibition in London, 1884, namely, “The Diploma of Honor,” … 14

Þessu sama hélt Sigríður víðar fram í tengslum við heimssýninguna í Chicago, t.d. í viðtali í New York Times: „In discussing the qualities of some woolen gloves shown in the exhibit of her nation “the only glove of the kind which Queen Victoria wears” this representative from Iceland …“15  Og auðvitað rataði sagan í íslensk dagblöð einnig, sjá t.d. þýðingu á frétt úr Chicago Sun í Fjallkonunni haustið 1893: „Í þessari íslenzku sýningu eru hannyrðir kvenna og meyja og þar á meðal fingravetlingar úr ull, samskonar og Victoria drotning og prinsessan af Wales brúkar [svo] sem unna mjög hinum íslenzku hannyrðum.“16

Aftur á móti voru Íslendingar sem sáu muni þá sem Sigríður sýndi í Chicago vægast sagt ekki uppveðraðir og spruttu upp harðar blaðadeilur milli þeirra og Sigríðar í kjölfarið. Þeim verða ekki gerð skil í þessum pistli heldur fingravettlingasagan skoðuð áfram.

Hver var hirðmærin sem kveikti ást Viktoríu drottningar á íslenskum fingravettlingum?

Emily Sarah CathcartBöndin berast að lafði Emily Sarah Cathcart, sem var vissulega hirðmær Viktoríu drottningar.17  (Andlitsmyndin af henni krækir í stærri mynd.) Emily Cathcart kom í fyrsta sinn til Íslands síðsumars árið 1878, í fylgd með Elizabeth Jane Oswald, skoskri konu sem skrifaði seinna bók byggða á þremur Íslandsferðum sínum.18 Það sumar var Sigríður á ferðalagi um Norðurlönd ásamt Eiríki eiginmanni sínum og kom ekki til Íslands.19

Þær Sigríður og lafði Emily voru hins vegar samskipa til Íslands í júlí 1879 og aftur til Englands í septemberbyrjun.20  Sigríður hefur svo eflaust kynnst Emily Cathcart betur gegnum Þóru Pjetursdóttur biskups sumarið 1880 í London21 og sat svo enn seinna með Cathcart í nefnd til að safna fé vegna hörmunga á Íslandi árið 1882.22  En næst kom Sigríður til Íslands árið 1883. Þá var Guðrún Ólafsdóttir, móðir Sigríðar, skráð til heimilis að Ormarstöðum í N-Múlasýslu svo sem fram hefur komið.

Svo eini sénsinn til að sagan ljúfa um Sigríði sem fer með hirðmey Viktoríu drottningar í heimsókn til mömmu sinnar gangi upp er að Sigríður hafi tekið lafði Emily Cathcart með sér að hitta mömmu sumarið 1879 og Guðrún hafi það sumarið sent fingravettlingapar með henni Emily til Viktoríu. Þar með komst Viktoría drottning á bragðið með íslenska fingravettlinga og varð nánast háð þeim ef marka má orð Sigríðar. Á hinn bóginn geta menn spurt sig hversu líklegt það sé að kona eins og Sigríður Einarsdóttir Magnússon hafi dregið með sér hirðmey á fund aldraðrar móður sinnar, hvort Brekkubær (sem var torfbær) hafi þá enn verið uppistandandi og þær hist þar o.s.fr.

Má bæta því við að þetta ekki eina hirðmærin sem Sigríður Einarsdóttir Magnússon og afkomendur í fjölskyldu hennar hafa tengt ættina við því í nýlegri ævisögu Haraldar Níelssonar segir um Soffíu Einarsdóttur, systur Sigríðar:

Soffía hafði dvalið langdvölum í Englandi á vegum systur sinnar og forframast þar í siðum fína fólksins, meðal annars verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.23

 

Niðurstaðan

Engar heimildir aðrar en þessi skemmtilega kúnstbróderaða saga Sigríðar Einarsdóttur Magnússon eru fyrir því að Viktoría drottning eða tengdadóttir hennar, Alexandra prinsessa af Wales, hafi nokkru sinni klæðst íslenskum fingravettlingum. Svo sem rakið er hér að ofan virðist þessi saga vera uppspuni til þess, annars vegar, að varpa ljóma á Sigríði sjálfa og ættingja hennar, hins vegar sem liður í markaðssetningu Sigríðar á íslensku handverki. Sú markaðssetning mistókst.

Það er svo margt í sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon sem er áhugavert og gefur þessari fingravettlingasögu lítið eftir að ég hyggst skrifa fleiri pistla um hana, t.d. um silfursöfnun, -sölu og -sýningar hennar, fyrirlestra á erlendri grundu, kvennaskólann sem hún reyndi að koma á fót í Reykjavík, ferðalög hennar o.fl. Kannski er þó mest spennandi að skoða hvernig Sigríður skapaði glæsilega ímynd af sér úr litlu og hvernig farið er að dusta rykið af þeirri glansmynd nú um stundir, jafnvel bæta enn í gljáann.

 

Heimildir sem vísað er til

1 Sigrún Pálsdóttir. (2010). Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík, s. 108.

2 Guðmundur Magnússon. (1908) Eiríkur Magnússon heim að sækja. Óðinn 3(11), s. 91.

3 Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, s. 317. Stefán skrifaði bókina á árunum 1924-25 og var hans fyrsta verk í heimildasöfnun að fara á fund erfingja þeirra hjóna, Sigríðar Gunnarsson, systurdóttur Sigríðar, og föður hennar. Leiðrétting Stefáns á hverjum Viktoría drottning sendi hina árituðu mynd af sér hlýtur að vera byggð á munnlegum heimildum frá þeim. Sigríður dvaldi hjá Eiríki og Sigríði frá 1906 til þess sem þau áttu ólifað; Eiríkur lést 1913 en Sigríður 1915. Við þetta mætti bæta að það er einkennilegt að einungis áratug eftir lát Sigríðar hafi þessi merkilega áritaða mynd Viktoríu verið glötuð og mikill skaði að - hafi myndin sú verið ekta og sagan sönn.

4 Guðmundur Árnason. (1920). Eiríkur Magnússon. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1). Winnipeg, Maniboba, s. 28-35. Bein tilvitnun er á s. 35 í þessari grein og krækir greinarheitið í þá síðu.

5 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

6 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 125.

7 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 37.

8 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96 eða Fróða 12.09.1883, s. 286-288 og Fróða 09.10.1883, s. 310-312.

9 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96. Guðrún Ólafsdóttir finnst ekki í manntölum eftir 1870. Hún var fædd 1805 og var því hátt á áttræðisaldri þegar hún fékk þessi verðlaun fyrir fingravettlingana. Líklega hefur Brekkubær í Reykjavík þá verið að hruni kominn, jafnvel hruninn (húsið finnst ekki í manntali 1880). Á Ormarstöðum í Fellum, N-Múlasýslu, bjuggu árið 1883 þau Þórvarður Kjerúlf héraðslæknir og kona hans Karólína Kristjana Einarsdóttir, sem lést í desember árið 1883. Karólína var dótturdóttir Guðrúnar svo það er ekki ólíklegt að gamla konan hafi fengið að dvelja hjá henni í ellinni. Skv. manntali 1880 dvaldi á fjölmennu heimili þeirra Þórvarðar og Karólínu Kristjönu María Einarsdóttir, móðir Karólínu og dóttir Guðrúnar, sem þá var orðin ekkja. Í sömu sókn bjó önnur dóttir Guðrúnar á þessum tíma, Soffía Emelía Einarsdóttir, en sú var gift Sigurði Gunnarssyni, prestinum í Ási í Fellum. Þau bjuggu í Ási og á Valþjófsstöðum frá 1879-1894.

10 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 38.

Í Ísafold 22. ágúst 1883, s. 77, segir að dómnefndin hafi verið skipuð „2 frúm úr Reykjavík og 5 alþingismönnum. Það var landshöfðingjafrú Elinborg Thorberg [systir Þóru], amtmannsfrú Kristjana Havstein; Jón Sigurðsson forseti [vinur Eiríks Magnússonar, eiginmanns Sigríðar] , síra Benidikt Kristjánsson, Einar Ásmundsson, Sighvatur Árnason og Tryggvi Gunnarsson [bróðir Kristjönu].“

11 Þjóðólfur 29.09.1883, s. 113.

12 Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London. Þjóðólfur 29. nóv. 1884, s. 181-183. Eftir langa umfjöllun um hannyrðirnar víkur að deilum Sigríðar og dómnefndar þessarar sýningar. Íslenska prjónlesið og hitt dótið fékk nefnilega bara bronsverðlaun og því undi Sigríður ekki! Í bréfaskiptum milli hennar og dómnefndar reyndi nefndin m.a. að verjast með því benda á að „vinnan frá Íslandi hefði dómnefndin eigi getað séð að heyrði undir „Heilsu“ enn það væri þó aðal-atriðið.“ Sigríður féllst nú aldeilis ekki á þau rök og eftir að hafa dengt fleiri bréfum yfir dómnefndina fór hún með sigur af hólmi því aftan við löngu umfjöllunina er bætt við: „skeytt við hraðfrétt dags. 12 nóv. frá hr. E.M.: Íslands hannyrðir hafa fengið beztu verðlaun (heiðrs-diplóma“ (s. 183).

13 The Prince and Princess of Wales in Edinburgh. The Times 15. okt. 1886, s. 6.

14 Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.”. (1894). The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

15 For Icelandic Girls. A School soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

16 Íslenzkir munir á Chigago sýningunni. Fjallkonan 5. sept. 1893, s. 142.

17 Upplýsingar um lafði Emily Sarah Cathcart má m.a. sjá í Strand Magazine nr. 56, ágúst 1895, s. 196-7 og í löngum lista sem afritaður er á umræðuborði, Re: Ladies in waiting to Queen Victoria, má sjá hvaða hlutverki hún gegndi á mismunandi tímum (hversu hátt sett hún var í hirðmeyjafansi drottningar).

18. Oswald, E.J. (1882). By Fell and Fjord; Or, Scenes and Studies in Iceland. W. Blackwood and sons, Edinburgh og London. Emily Sarah Cathcart er getið á s. 108, sem ferðafélaga Oswald um Ísland 1878, en í hinum tveimur Íslandsferðum höfundar, árin 1875 og 1879 var skosk kona, Miss Menzies ferðafélagi hennar.

19 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

20 Sjá Ísafold 4. sept. 1879, s. 88 og Þjóðólf 18. sept. 1879, s. 98.

21 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 110

22 Distress in Iceland. The Times 17. ágúst 1882, s. 5.

23 Pétur Pétursson. (2011). Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haraldar Níelssonar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, s. 104.

Pétur gefur ekki upp neina heimild fyrir þessu svo ætla má að byggt sé á einhverjum sögusögnum sem gengið hafa meðal afkomenda Soffíu (sem var tengdamóðir Haraldar Níelssonar).

Soffía fór til Lundúna til systur sinnar og mágs sama ár og þau komu úr tveggja ára þvælingi um Frakkland og Þýskaland og settust að í London vorið 1866. Hún „dvaldist með þeim eftir það öll árin til 1871“, skrapp með þeim til Íslands það sumarið og var á Íslandi veturinn eftir, fór til þeirra til Cambridge sumarið 1872 en snéri alfarin heim til Íslands vorið 1873, segir Stefán Einarsson. (1933), s. 279. Heimildir Stefáns eru væntanlega eiginmaður Soffíu og dóttir. Það er dálítið einkennilegt að þau hafi ekki upplýst hann um hin tignu tengsl, þ.e.a.s. að Soffía hafi verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga prjóns

28. janúar 2014

Sokkar Eleonoru af Toledo

Eleonora af Toledo

Eleonora di Toledo fæddist 1522 og var af konunglegum spænskum ættum. Hún giftist Cosimo I, af Medici ættinni, sem tók við af þeim fræga Alessandro Medici og stjórnaði Toskaníuhéraði á Ítalíu, með aðsetur í Flórens. Þeim hjónum varð ellefu barna auðið og af þeim urðu tveir synir að þjóðhöfðingjum. Það fór á ýmsa vegu með hin börnin, má nefna að dóttirin Ísabella var myrt af eiginmanni sínum vegna framhjáhalds og einn sonurinn, Pietro, myrti eiginkonu sína vegna framhjáhalds (en Medici fjölskyldan kallaði svo sem ekki allt ömmu sína þegar kom að skrautlegu kynlífi og morðum innan fjölskyldunnar).

Það þótti nokkur ljóður á ráði Eleonoru hve hún barst mikið á, t.d. í klæðaburði, og auk þess var hún forfallinn fjárhættuspilari. Ekki hvað síst fór svo í taugarnar á Flórensbúum hve höll hún var alla sína ævi undir allt það sem spænskt var. En valdamikil var hún, stóð jafnfætis manni sínum og stjórnaði ríkinu þegar hann brá sér af bæ.

Eleonora lést í Pisa einungis fertug að aldri, árið 1562. Öldum saman gengu þær sögur að Garcia, sextán ára sonur hennar hefði myrt nítján ára bróður sinn, Giovanni, og faðir þeirra hefði kálað Giovanni í kjölfarið með eigin sverði; Eleonora hefði sprungið af harmi viku síðar. En lík þessa fólks hafa verið rannsökuð með nútímaaðferðum sem leiddu í ljós að Eleonora og synirnir dóu úr malaríu.

Grafhýsi fjölskyldunnar var opnað árið 1857. Klæðin sem Eleonora var jörðuð í eru varðveitt og til sýnis í Galleria del Costume í Palazzo Pitti í Flórens, sem Eleonora keypti einmitt sem sumarhöll á sínum tíma.

Upphaflegir sokkar EleonoruUpphaflegu sokkarnir Eleonoru.Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Endurgerð á sokkum EleonoruEndurgerð af sokkunum.Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Endurgerðir sokkar EleonoruEndurgerð af sokkunum.Myndin krækir í stærri útgáfu.
UppábrotUppábrot á upprunalegum sokk.(Ath. að rangan snýr út því brotið er upp á.)

Myndin krækir í stærri útgáfu.

Endurgert uppábrotUppábrot á endurgerðum sokk.Rangan snýr einnig út hér.

Myndin krækir í stærri útgáfu.

Glæsilegur fatnaður Eleonoru af Toledo hefur vakið mikla athygli, ekki hvað síst sokkarnir. Þótt í prjónasögu sé oft talað um þessa sokka sem ítalska er allt eins líklegt að þeir séu spænskir. Prjón var lögvernduð iðngrein víða í Evrópu á tímum Eleonoru í þeim skilningi að til voru gildi (nokkurs konar fag- og stéttarfélög) prjónara. Prjónagildið í Toledo á Spáni sérhæfði sig einmitt í silkisokkaprjóni og sokkar þaðan voru fluttir út til margra Evrópulanda þar sem konungbornir og háttsettir í hirðum konunga klæddust þeim og voru þessir handprjónuðu silkisokkar rándýrir.

Það sem er sérstakt við silkisokka Eleonoru af Toledo er að þeir eru með elstu varðveittu flíkum þar sem munstur er myndað með brugðnum lykkjum. Líklega var skammt um liðið frá því menn lærðu að prjóna brugðnar lykkjur þegar þessir sokkar voru prjónaðir. (Stroff efst á sokkum var ekki fundið upp fyrr en mörgum öldum síðar.) Rúmri öld eftir lát Eleonoru komst svo í tísku að prjóna munstur úr brugðnum lykkjum á jakka/treyjur, svokallað damask-prjón, sem átti eftir lifa lengi.

Munstur á sokkum EleonoruSilkisokkarnir Eleonoru voru líklega upphaflega hárauðir. Þeir voru hnéháir og kanturinn efst hefur verið brettur yfir sokkaböndin. (Smelltu á myndina af munstrinu til að sjá stærri útgáfu. Munstrið er birt með leyfi teiknara þess, Colleen Davis.)

Sokkunum er þannig lýst í bók Richards Rutt, History of Handknitting:
Á uppábrotinu (þ.e. yfirbrotinu) er munstrið lárétt. Efst eru sléttar umferðir, munstraðar með tveimur einföldum sikk-sakk línum úr brugðnum lykkjum. Þessi efsti munsturborði er svo afmarkaður með tveimur brugðnum umferðum áður en aðalmunstuborðinn á uppábrotinu hefst.

Aðalmunstrið er nokkurs konar tíglótt grind, mynduð úr tveimur brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Í hverjum tígli eru fjögur göt til skrauts. Efsti munsturborðinn er svo endurtekinn að loknu aðalmunstrinu í uppábrotinu.

Sokkabolur og sokkur eru með tvenns konar breiðum lóðréttum munsturborðum. Annars vegar er 8 lykkju borði prjónaður með tvöföldu perluprjóni (þ.e. hver perla er prjónuð í tveimur umferðum). Hins vegar er 9 lykkju borði prjónaður með tvöföldu garðaprjóni (þ.e. tvær brugðnar og tvær sléttar umferðir til skiptis). Milli þessara munsturborða eru mjórri borðar, afmarkaðir með venjulegri sléttri lykkju hvorum megin en annars prjónaðir með snúnum sléttum lykkjum. Í miðjulykkjunni í þeim borðum skiptast á ein slétt og ein brugðin lykkja (lóðrétt perluprjónsrönd).

Það er ekki að undra að prjónakonur hafa viljað endurgera hnésokka Elenoru af Toledo enda eru þeir gullfallegir og bera vott um glæsileg hönnun.

Þeim sem hafa áhuga á þessum sokkum er bent á:

  • Archivio-digitale/Documentazion-fotografica: Restauro degli abiti funebri dei Medici, sem eins og nafnið gefur til kynna eru ljósmyndir af viðgerð og forvörslu klæða sem fundust í grafhýsi fjölskyldu Eleonoru. Á s. 15 og s. 16 eru myndir af sokkunum hennar Eleonoru.
  • Uppskrift á síðunni Georg’s research. Þar er mælt með því að nota mjög fínt garn og mjög fína prjóna, miðað er við prjónafestuna 47 lykkjur í 10 sentimetrum. Sjá má nokkrar myndir af þessari endurgerð, bleikum sokkum, á Flickr.
  • Ítarlegar munsturleiðbeiningar og uppskrift eru á síðu Brandy Dickson, The Costume Dabbler, sjá síðu 1, síðu 2 og síðu 3. Prjónafesta er: 31 lykkja og 39 umferðir gera 10 cm.

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 19. desember 2013.

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

11. desember 2013

Klukkuprjón, seinni hluti

Í færslunni segir af mörgum heitum og margháttuðu eðli klukkuprjóns.

Klukkuprjón hefur víðast hvar verið nefnt patent - prjón, heitið giska ég á að sé komið úr hollensku eða þýsku.  Á Englandi þekktust heitin Shawl StitchReverse Lace StitchOriental Rib Stitch, að sögn Mary Thomas (Mary  Thomas’s Book of Knitting Patterns, 1972 s. 193, fyrst útg. 1943) en algengast segir hún þó heitin Brioche Stitch eða English Brioche. Hún bendir jafnframt á að þótt enskir vilja nota franskt orð yfir prjónaðferðina þá sé hún kölluð enskt prjón í Frakklandi, þ.e. Point d’Angleterre.

Hér á landi virðist klukkuprjón einnig hafa verið kallað enskt prjón, ef marka má þýðingu Sigurjóns Jónssonar á endurminningum Gythu Thorlacius eða auglýsingar á borð við Þ. Stefánsdóttur og Sigtr. Jónssonar í Stefni 3. jan. 1893 s. 4: “Frá nýári tökum við að okkur að prjóna: Karlmannspeisur með ensku prjóni […] - með ensku prjóni samsettar - […] Pilz með ensku prjóni” og er ljóst að þau hafa yfir prjónavél að ráða. Sömuleiðis kemur fram í Maren. Þjóðlífsþáttum eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur, sem segja frá Maren, móðursystur höfundar, að laust eftir 1915 prjónaði eiginmaður Marenar trefla með ensku prjóni í prjónavél þeirra hjóna. (Sjá Tíminn Sunnudagsblað, jan. 1972, s. 27. )

Til að flækja málin getur heitið enskt prjón  merkt annað á íslensku, sbr. uppskrift að útifötum á börn í Fálkanum 5. maí 1939 s. 10. Þar er talað um “enska brugðningu” eða “enskt prjón”. Skv. lýsingu í uppskriftinni er þarna um að ræða “Mistake rib“, sem komist hefur í tísku undanfarið ef marka má Netið, en ekki klukkuprjón.

Í My Knitting Book eftir Miss Lambert, sem kom út árið 1842 og varð gífurlega vinsæl (eins og aðrar hannyrðakennslubækur þeirrar ágætu konu) er klukkuprjón nefnt brioche og segir að heitið sé dregið af velþekktu frönsku bakkelsi, nokkurs konar bollu, sem heitir Brioche. Orðskýringu fröken Lambert er að finna í uppskrift að fótskemli, púða, sem er vissulega glettilega líkur svona franskri bollu, s. 22. (Krækt er í stafræna sjöundu útgáfu bókarinnar.) Svoleiðis klukkuprjónaðir fótskemlar virðast hafa notið mikilla vinsælda á Viktoríutímunum og voru stundum kallaðir tyrkneskir púðar (Turkish Cushion), sem gæti einmitt skýrt nafngiftina sem Mary Thomas minnist á, Oriental Rib Stitch. Í sömu bók Miss Lambert er uppskrift að rússnesku sjali með klukkuprjóni (A Russian Shawl, in Brioche Stitch) sem gæti þá skýrt af hverju heitið Shawl Stitch þekktist yfir klukkuprjón meðal enskra.

Raunar er sömu uppskrift að Brioche fótskemlinum hennar Miss Lambert  að finna í Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, útg. 1886 (Sjá uppdrætti 250 og 269). Í íslensku bókinni segir um púðann: “Fótskör þessi á að vera kringlótt í laginu, bungumynduð, með hvilft í miðjunni, hún er troðin út með ull, vel þuru heyi eða marhálmi. Innra borðið er úr striga að öðru sterku efni, en yfirborðið er prjónað eptir 250. uppdr. og skýrir fyrirsögn á 250. uppdrætti frá, hvernig prjóna skal.” En 250. uppdráttur var einmitt leiðbeiningarnar í klukkuprjóni sem vísað var til í fyrri færslu.

Hér að neðan sjást myndir af þessari Brioche-fótskör. Önnur myndin er úr bók Miss Lambert, The Hand-book of Needlework by Miss Lambert (F.), útg. 1842. s. 200, og krækir í stafræna útgáfu bókarinnar.  Hin myndin er úr Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir.

Klukkuprjónaður fótskemill Klukkuprjónaður fótskemill

Klukkurnar hafa runnið sitt skeið enda konur löngu farnar að ganga í brókum yst sem innst. Yngsta dæmi um íslenskar prjónaklukkur sem ég fann er frá 1944, þ.e. frétt um að stofnuð hafi verið samtök prjónakvenna á Ísafirði og kauptaxta félagskvenna. Í honum eru  ”Prjónaklukkur” taldar upp undir “Kvenfatnaður:” Skutull 29. jan. 1944, s. 14.  Hafi einhver áhuga á íslenskum prjónaklukkum má benda á fróðlega bloggfærslu Steinunnar Birnu Guðjónsdóttur frá því í ágúst sl., þar sem hún birtir hluta af verkefni sínu í þjóðfræðinámi í HÍ, þ.á.m. orðrétt svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins um prjónaklukkur.

En klukkuprjón í ýmsum útgáfum gengur nú í endurnýjun lífdaga, ef marka má áhuga á erlendum prjónasíðum. Einkanlega á þetta við um tvílitt klukkuprjón, langoftast kallað brioche, sem er sáraeinfalt að prjóna í hring , eilítið meira vesen er að prjóna það fram og til baka.

Í töflunni hér að neðan eru myndir af ýmsum afbrigðum klukkuprjóns og heitum þeirra á íslensku, ensku og skandinavísku. Litlu myndirnar krækja í myndbönd á Garnstudio.no sem sýna prjónið. Ath. að nú má stilla Garnstudio.no á íslensku og lesa textann við myndböndin á íslensku.

Aðferð Íslenskt heiti Skandinavískt heiti Enskt heiti
Klukkuprjón Helpatent Fisherman’s Rib;
English Rib;
Brioche stitch
Klukkuprjón � hring Klukkuprjón prjónað
í hring á hringprjóna
Patent rundt på
rundpinde
Fisherman’s Rib
in the round
Hálfklukkuprjón Hálfklukkuprjón;
Klukkuprjón - hálft
Halvpatent Shaker Rib;
Half Fisherman;
Half Fisherman’s Rib;
Embossed Rib
Hálfklukkuprjón bara sléttprjónað Hálfklukkuprjón
eingöngu sléttprjónað;Klukkuprjón einungis
með sléttum lykkjum
Patent kun med
retmasker
Fisherman’s Rib with
Knit stitches only
Falskt klukkuprjón Falskt klukkuprjón;
Klukkuprjón - afbrigði
Falsk patent False Fishermans Rib;
Fake Fisherman
Tv�litt klukkuprjón Tvílitt klukkuprjón;
Klukkuprjón - tveir litir
Patent i tvo farver English Rib in two colours;
Brioche

P.S. Loks má geta þess að klukkuprjón gat hentað til annarra mikilvægra nota en að prjóna klukkur, trefla, nærföt o.þ.h., sem sjá má hér.

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

9. desember 2013

Klukkuprjón, fyrri hluti

KlukkuprjónSvo sem rakið var í færslunni Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn  kenndi frú Gytha Thorlacius, dönsk sýslumannsfrú, Íslendingum klukkuprjón laust eftir 1800. Þær fátæklegu heimildir sem til eru um prjón á Íslandi fyrr á öldum (nokkrar flíkur og pjötlur sem fundist hafa í fornleifauppgreftri, auk ritheimilda) benda til þess að hérlendis hafi prjónakunnátta lengstum falist í einföldu sléttu prjóni í hring, einstaka sinnum brugðnu prjóni, svo klukkuprjónið hefur verið mikil tækninýjung á sínum tíma.

Í elstu íslensku hannyrðakennslubókinni, Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, eftir þær Þóru Pjetursdóttur, Jarðþrúði Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur, útg. 1886, eru nokkrar prjónauppskriftir. Þar á meðal er uppskrift að “Prjóni á fótskör” (250. uppdráttur, s. 16.) Fótskör er skemill, þ.e.a.s. pulla/púði undir fæturna. Í þessari uppskrift segir að prjóna skuli með klukkuprjóni og því lýst. (Það er raunar líka eftirtektarvert að í uppskriftinni er gert ráð fyrir styttum umferðum, svo sem nú eru mjög í prjónatísku.)

Næst ber klukkuprjón í íslenskri hannyrðakennslu óbeint á góma í Kvennafræðaranum eftir Elínu Eggertsdóttur Briem, útg. 1891. Þar er uppskrift að trefli sem prjónaður er með klukkuprjóni, án þess að heiti prjónsins sé nefnt. (Sjá s. 336, titillinn krækir í þá síðu.)

Í auglýsingum um og fyrir aldamótin 1900 má sjá minnst á klukkuprjón, t.d.:

  • Ragnhildur Ólafsdóttir í Engey vill leiðrétta sögusagnir um verðskrá síns prjónless í Þjóðólfi 2. mars 1888  og tiltekur m.a.: “[…] skyrtur handa fullorðnum, klukkuprjónaðar 1 kr.”
  • Sigmar Bro’s &Co í Manitoba: “Klukkuprjónaður karlmanna nærfatnaður - það, sem þér þarfnist mest í kuldanum - […]” Lögberg 18. nóv. 1909, s. 8.

En af  hverju heitir aðferðin þessu sérstaka nafni klukkuprjón á íslensku? Einfaldasta skýringin er sú að klukkur hafi gjarna verið prjónaðar með þessu prjóni.

Klukkur

Klukka var undirpils/millipils. Slík pils voru oft prjónuð og síðan þæfð vel eins og flest annað prjónles. Mér er ekki kunnugt um hvenær íslenskar konur hófu að ganga í klukkum - eða öllu kalla undirpilsin sín /millipilsin því nafni.

Elsta dæmið sem ég fann um orðið klukka í þessari merkingu er brot úr frægu kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Illur lækur (eða Heimasetan), sem er nokkuð örugglega ort árið 1844.  Kvæðið lagt í munn smástelpu sem segir móður sinni frá læknum sem lék hana grátt. Hún segi m.a.:

Klukkan mín, svo hvít og hrein,
hún er nú öll vot að neðan;

Þótt klukkur hafi verið undirpils kvenna þá virðist sem börn hafi einnig verið látin ganga í svoleiðis flíkum, jafnt stúlkubörn sem drengbörn. Má t.d. nefna gagnrýni Jóns Thorsteinssonar landlæknis á að smábörn séu höfð brókarlaus í klukkum: “[- - -] að þegar børn eru komin á annað og þriðja ár, og þau eru farin að vappa úti, láta sumir þau gánga í klukku, sem svo er kølluð, en hún er eins og pils að neðanverðu, svo børnin eru ber um lærin og neðantil um lífið innanundir, og gýs vindur og gola því uppundir þau, svo þeim verður opt kaldt á lærum og á maganum […].” (Sjá Hugvekju um Medferd á úngbørnum samantekin handa mædrum og barnfóstrum á Islandi af Jóni Thorstensen, útg. 1846, hér er krækt í hugvekjuna í Búnaðarriti Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélags, 1. tölublað 1846, bls. 87).

Þessi lýsing kemur heim og saman við kvæði Benedikts Gröndal (1826-1907), Æskuna, þar sem hann lýsir áhyggjuleysi bernskunnar:

Hljóp ég kátur
í klukku minni.

PrjónaklukkaHeitið klukka er komið úr dönsku og er saga klukkanna þarlendis rakin á þessa leið:

Ullarklukkan var undirpils, úr vaðmáli en á nítjándu öld var algengast að hún væri prjónuð. Heitið er dregið af því hve pilsið líkist klukku en vera má að enska heitið cloak, yfir slá eða frakka, hafi eitthvað spilað inn í nafngiftina.

Klukkum klæddust konur á veturna, milli nærserks og ytra pils, og stundum voru þær á klukkunum einum saman innanhúss. Stundum var saumaður nokkurs konar upphlutur við klukkuna svo hún líktist nærkjól. Ullarklukkur voru notaðar í Danmörku fram yfir aldamótin 1900 þótt drægi mjög úr vinsældum þeirra með breyttri tísku á síðasta hluta nítjándu aldar.  (Lita Rosing-Schow. Kradse klokker. Strikkede uldklokker fra Nordsjælland. Dragtjournalen 3. árg. 5. hefti 2009, s. 34-39.)

Myndin hér að ofan er tekin traustataki úr greininni og er af 70 cm síðri klukku, prjónaðri með klukkuprjóni. Af því það tíðkaðist að prjóna klukkuprjón fram og til baka er klukkan gerð úr þremur renningum sem svo eru saumaðir saman. Byrjað er á renningunum þar sem nú er pilsfaldurinn og tekið úr eftir því sem ofar dró, heldur er úrtakan tilviljanakennd segir í greininni en af umfjöllun má marka að reynt var að taka úr á jöðrum hvers rennings/stykkis til að minna bæri á úrtökunni. Efst á renningunum var svo prjónað 12 cm stroff og loks saumaður mittisstrengur eftir að búið var að sauma renningana saman í klukku. Þessi klukka er talin frá miðri nítjándu öld og er varðveitt á Byggðsafninu í Hillerød, Danmörku.

Kannski voru íslenskar prjónaðar klukkur fluttar út ekkert síður en sokkar, vettlingar og peysur? A.m.k. bendir þessi klausa úr sögu Hermans Bang, Ved vejen (útg. 1886) til þess (sagan gerist í ónefndum dönskum bæ og þar sem sögu er komið skellur á úrhelli og hver flýr sem fætur toga í skjól undan því):

Det var en Renden til alle Porte. Koner og Piger slog Skørterne over Hovedet og løb af med Lommetørklæderne i Firkant over det nye Hatte.
- Hej, hej, sagde Bai, nu kommer s’gu Klokkerne frem.
Pigerne stod rundt i Portene, blaastrømpede og med de islandske Uldklokker om Stolperne.

(s. 125,  krækt er í netútgáfu sögunnar).

Um svipað leyti og Herman Bang lýsti hinni erótísku sjón þegar stúlkurnar stóðu á íslensku ullarklukkunum og bláu sokkunum einum saman var Eiríkur Magnússon, herra kand. theol. í Lundúnum og fréttaritari tímaritsins Íslendings meðfram því, að reyna að fræða Íslendinga um ýmsar deilur og annað fréttnæmt utanlands;  í einni greininni stakk hann upp á orðinu klukku-þön fyrir krínólínu. (Íslendingur, 8. jan. 1863, s. 125.) Því miður hlaut sú uppástunga engan hljómgrunn þótt orðið sé óneitanlega miklu gagnsærra og skemmtilegra en útlenda slettan.

Hér er látið staðar numið í bili í umfjöllun um þá merkilegu prjónaaðferð klukkuprjón og þær skemmtilegu flíkur klukkur. Í framhaldsfærslu verður m.a. fjallað um mismunandi heiti prjónaðferðarinnar á öðrum tungum og hvernig klukkuprjón hefur verið hafið til vegs og virðingar á allra síðustu árum.

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga prjóns

26. nóvember 2013

Ritdeilur fyrr og nú

Ég hef aðeins tekið eftir því að nú hefur skorist í odda með Evu Hauksdóttur og Hannes Hólmsteini Gissurarsyni um ýmislegt. Það eina sem hefur vakið áhuga minn í þeirri deilu og umfjöllun annarra um hana eru kýtingar um læk eða ekki læk, t.d. á að telja læk eða á ekki að telja læk, má skrá niður lækara eða má það ekki, hvað felst í læki og hvað felst ekki í læki ekki o.s.fr. Mér finnst líka áhugavert hve margir tjá sig um þetta og hve ógnarhratt blogg, Fb. statusar og kommentahalar staflast upp um þetta mikilvæga atriði (svo ekki sé minnst á öll lækin við statusana og svarhalana).

 

En í kvöld hef ég unað mér við að lesa gegnum aðra ritdeilu, sem fór fram fyrir meir en 120 árum síðan. Þá fóru ritdeilur ólíkt hægar fram. Þeir tveir karlmenn sem deildu voru ósammála um ýmislegt, alveg eins og þau Eva og Hannes Hólmsteinn. Eftirtektarverðast fannst mér hvernig þeir gátu kýtt um hraða í prjónaskap. Hér að neðan er helsta rökfærslan í því hitamáli rakin og lesendur geta velt því fyrir sér hvort sé nú merkilegra að rífast um hraða prjóns eða talningu læka.

 

Þorkell Bjarnason. Fyrir 40 árum. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 13. árg. 1892, s. 170-258:

Undir eins og börn komu nokkuð til vits, var þeim kennt að prjóna, og það eigi síður piltbörnum en stúlkubörnum. Sátu þá flestir yngri og eldri við að vinna prjónles fram að jólum. Var börnum sett fyrir, úr því þau voru orðin 8 vetra, að skila vissu prjónlesi eptir vikuna, venjulega tvennum sjóvettlingapörum, og meira eptir því sem þau eltust, en fullorðið fólk vann eingirnis- og tvíbandssokka eða þá duggarapeysur, og var hið mesta kapp lagt á vinnu þessa, enda voru þá bæði karlar og konur mjög fljót að prjóna.  Prjónuðu tveir og tveir saman peysubolina og yfir höfuð stór föt, og þótti vel gert, ef tveir luku við peysubolinn á dag, og varð það því að eins, að lengi væri vakað. (s. 207-208 )

  

Ólafur Sigurðsson. “Fyrir 40 árum” Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 15. árg. 1894, s. 198-246:

Hann [Þorkell] segir, að það hafi þótt vel gjört af tveimur, að prjóna peysubolinn á dag. En vissi jeg af stúlku, sem kom honum af einsömul. Jeg vissi líka bæði af karlmönnum og konum, sem prjónuðu parið af hæðarsokkum á dag, en heldur prjónaði þetta fólk í lausara lagi; dagsverkið var mikið fyrir því. (s. 226 )

  

 Þorkell Bjarnason. “Fyrir 40 árum”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 16. árg. 1895, s. 204-229.  

Eitthvert misminni hlýtur það að vera hjá höf. [Ólafi], að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag eins og hann segir á bls. 228, nema svo sje, að það hafi verið barnspeisubolur. Hinir allra fljótustu karlar og konur - þá prjónuðu margir karlmenn eins og kvennmenn - prjónuðu duggarapeisubolinn saman tveir á dag, og var orð á þeim gjört fyrir flytir, er það það gátu. Fljótastan prjónakvennmann heyrði jeg nefndan í ungdæmi mínu Guðrúnu Þorvaldsdóttur. Ætla jeg að hún hafi verið - þó jeg muni það ekki fyrir víst - systir Þorvaldar “stutta” og bræðra hans, er allir voru kunnir í Skagafirði í ungdæmi mínu. Vissi jeg til, að Guðrún þessi prjónaði á móti karlmanni peisubol á dag, og það jafnvel dag eptir dag, og þóktust þau fullhert, enda var það talið atkvæða verk. (s. 216 )

 

Ólafur Sigurðsson. “Svar til sjera Þorkels Bjarnasonar frá Ólafi Sigurðssyni”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 17. árg. 1896, s. 159-165:

Höf. [Þorkell] heldur það sje misminni hjá mjer, að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag.  En jeg þekkti þó eina, sem gjörði það; hún hjet Halldóra og kom hingað vestan úr Húnavatnssýslu; en hún hafði líka gott lag á að tefja sig ekki að óþörfu, því, þegar hún var búin að fitja upp, dró hún fitina saman með tygli, til þess ekki færi fram að prjónunum, en þeir voru býsna fullir, því hún prjónaði bolinn að eins á 4 prjóna, svo hún þurfti ekki að tefja sig á, að hafa opt prjónaskipti. Jeg tók það fram í ritgjörð minni, að þetta fólk hefði prjónað heldur laust, en um það var ekki fengizt, þegar prjónlesið gekk viðstöðulaust í kaupstaðinn. (s. 163 )

 

 

Ég efast um að nokkurn tíma fáist skorið úr deilumálunum hversu hratt konur í Skagafirði gátu prjónað um miðja nítjándu öld eða hversu mikilvæg lækin eru seint á árinu 2013. Maður verður bara að njóta deilanna án niðurstöðu.

 

 

 

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf, Saga prjóns

25. nóvember 2013

Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn

Hér segir af fyrsta nafngreinda prjónakennaranum á Íslandi, af upphafi klukkuprjóns hérlendis og af fyrsta fyrirhugaða prjónahönnunarstuldinum hérlendis.

Gytha ThorlaciusGytha Steffensen Howitz fæddist árið 1782 í Lundbyvester á Amager og var dóttir gestgjafa/kráareiganda. Hún giftist Íslendingnum Theodorus Thorlacius, syni Skúla Thorlaciusar rektors við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, árið 1801. Á Íslandi var Theodorus ævinlega kallaður Þórður enda heitinn eftir afa sínum íslenskum. Þórður hafði sama ár fengið veitingu fyrir sýslumannsembætti í Suður-Múlasýslu og héldu þau hjónin til Íslands og settust að í Eskifirði. Þau bjuggu á Íslandi til 1815 en fluttust þá aftur til Danmerkur. (Litla myndin af Gythu krækir í stærri útgáfu af sömu mynd.)

Gytha Thorlacius skrifaði endurminningar sínar frá Íslandi löngu síðar. Því miður er frumritið glatað en tengdasonur hennar sá um að hluti endurminninganna væri gefinn út árið 1845, stytti sjálfur frásögn Gythu eftir sínu höfði og umorðaði víða. Bókin heitir Fru Th.s erindringer fra Iisland  og er aðgengileg á Vefnum (hér er krækt í þá útgáfu). Árið 1930 var bókin endurútgefin undir nafninu Fru Gytha Thorlacius’ erindringer fra Island i aarene 1801-1815 og sú útgáfa var þýdd á íslensku af Sigurjóni Jónssyni lækni; kom út árið 1947 undir heitinu Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815. Í fljótu bragði virðist, sé textinn skoðaður í heild, sem „lagfæringar‟ og skýringar þessara þriggja karla sem um textann hafa vélað, tengdasonarins, barnabarnabarnsins sem sá um endurútgáfuna og íslenska læknisins séu síst til bóta en það er ekki efni þessarar færslu.

Hér verður einungis staldrað við þann hluta endurminninganna þar sem segir frá því hvernig Gytha kenndi Íslendingum að prjóna fallegt prjónles í litum, ganga þannig frá því að það líktist ofnu klæði, og að prjóna klukkuprjón. Sjálfsagt má rekja klukkuprjónskunnáttu landans til hennar og mögulega náði annar lærdómur hennar í prjóni einhverri útbreiðslu. Á móti kenndu íslenskir henni sitthvað í litun garns.

VormeldúkurSem sést af textanum hér að neðan var Gytha að reyna að finna aðferðir til að prjónles líktist vaðmáli/ofnu klæði, sem er skiljanlegt í ljósi þess að það er miklu seinlegra að vefa en að prjóna. Ég giska á að hún hafi verið að reyna að ná áferð vormeldúks/ormeldúks sem var mikið notaður í fatagerð á nítjándu öld. Miðað við ýmsar heimildir hafa Austfirðingar einmitt staðið framarlega í vormeldúksvefnaði allt frá miðri nítjándu öld og e.t.v. hafa þeir vel kunnað þá list á dögum Gythu. (Sjá mynd af vormeldúk í sauðalitunum hér til hliðar, litla myndin krækir í stærri útgáfu.)

En vindum okkur í frásögn Gythu sjálfrar. Líklega gerist þessi hluti einhvern tíma á árunum 1807-1813. Hér er fyrst birtur textinn í þýðingu Sigurjóns Jónssonar (s. 108-109 í útgáfunni frá 1947), þar fyrir neðan er stafréttur textinn úr fyrstu útgáfu endurminninga Gyðu (s. 97-99). Athugasemdir innan hornklofa í íslensku þýðingunni eru mínar. Ég hef einnig sett inn millifyrirsagnir og skipt textanum í efnisgreinar.

Heimilisiðja Gythu Thorlacius

Frú Th. segir líka þarna nokkuð frá vinnubrögðum sínum, bæði um þetta leyti og á fyrri árum. Hún kenndi Íslendingum „patentprjón‟ [í neðanmálsgrein segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. aftan við útg. frá 1930 segir, að prjónles prjónað með þessum hætti sé þykkra og líkara dúk en venjulegt prjónles. Ef til vill er þetta sama sem klukkuprjón eða enskt prjón.‟ Patenstrikning er danska heitið á klukkuprjóni, sem kann einnig að hafa verið kallað enskt prjón hér á landi. Klukkuprjón líkist dúk/ofnu klæði ekki hið minnsta.] og fleiri prjónaðferðir.

Litunaraðferðir

Þeir kenndu henni í staðinn að lita úr jurtum, sem hinir sparsömu [hér væri nægjusömu kannski betri þýðing] eyjarskeggjar kunnu að færa sér í nyt á hugvitsamlegan hátt. „Það er víst um það‟, ritar hún, “að þeir eru miklu betur að sér en vér í þessu efni. Þegar þeir ætla að safna vætu úr mönnum eða dýrum [í neðanmálsgrein bendir Sigurjón réttilega á að frúin eigi vitanlega við þvag] til að búa til litunarlöginn, þá vita þeir upp á hár, hvaða fæðu og drykkjar hver um sig á neyta og hvaða skepnutegund á nota til að fá þennan litinn eða hinn. Þessi fróðleikur var mér bæði nýstárlegur og nytsamur.

Ég gat fengið þrenns konar eða ferns konar lit á ullarband, er ég litaði úr brúnspónslegi [Gytha talar um rauðspón, þ.e. Brasilíutré  sem stundum var kallaður brúnspónn á íslensku en stundum á orðið brúnspónn við aðra trjátegund], með  því að skola það úr misjafnlega sterku grænsápuvatni. Notaði ég það til að gera tilbreyting í prjónlesið [öllu heldur segir Gytha að hún hafi með þessu náð fram litbrigðum - sjatteringum - í prjónlesinu].

Hárautt vantaði mig illilega. En ég dó ekki ráðalaus. Maðurinn keypti töluvert af hárauðum böndum [hárauðum borðum] á uppboði í kauptúninu. Ég rakti þau upp og prjónaði úr bandinu.

Hvernig láta má prjónles líkjast ofnu klæði

Mig vanhagaði um vestisefni. [Gyða talar um betri klæði, líklega spariföt, en minnist ekki á vesti.] En þegar mjúkt þelband var prjónað með röndum og prjónlesið þæft og fergt, sýndist mér það vera útlits eins og klæði. Ég gerði þetta, prjónaði rendur með litum, er vel áttu við á svörtum eða gráum grunni, þæfði, kembdi [ýfði] og fergði. Öllum þótti þetta efni nytsamlegt og dáindis fallegt. Ég gaf nokkuð af því, til þess að koma skriði á þessi vinnubrögð.‟

Kennsla í klukkuprjónuðum teppum

Nóg var til af ull [sem kemur heim og saman við það sem allar prjónakonur vita, nefnilega að klukkuprjón er miklu garnfrekara en venjulegt slétt og brugðið prjón] á heimilinu og lét því frúin vinnufólk sitt líka prjóna „patenprjón‟ með fábreyttum litum. Þetta prjónles var líka þæft og fergt og búnar til gólfábreiður úr því grófara, en rúmábreiður úr því, sem fíngerðara var. „Við þurfum ekki að nota neitt til fatnaðar á heimilinu‟, ritar frúin, „annað en heimaunnið efni, nema í frakka handa manninum mínum‟.

Áformaður hönnunarstuldur

- Þegar sýslumaður var í þann veginn að leggja af stað til hins nýja embættis síns [sýslumannsembættis í Árnessýslu, um áramótin 1813/14], stakk hann upp á því við konu sína, að hún skyldi láta sig útvega yfirlýsingu embættismanna og verzlunarmanna á Eskifirði og þar í nágrenninu um það, að hún hefði orðið fyrst til þess að taka þar upp prjónaðferðir þær, sem áður er getið. en hún bað hann að gera það ekki, því hún vildi ógjarna vekja öfund annarra né gefa neinum tilefni til að ætla, að sig langaði til að fá meðmæli til að öðlast verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu í þriðja sinn.

Samt atvikaðist það svo, að hún féllst seinna á tillögu manns síns. Hún hafði nefnilega gefið hjónum nokkrum sína flíkina með hverri gerð af því, er hún hafði unnið. En hún varð þess aldrei vör, að þessar gjafaflíkur væru notaðar, en aftur á móti sá hún notaðar flíkur, sem voru stæling á þeim. Einkanlega furðaði hún sig á því að sjá aldrei yfirhöfn úr fínu, brúnu ullarbandi, sem var prjónauð handa 7 ára gamalli telpu og svo vel frá gengið að allir héldu, að yfirhöfnin væri úr klæði. Hún lét í ljós undrun sína við kaupmannskonu eina, en hún svaraði brosandi: „Þér eruð á förum héðan, og það eru hjónin líka - til Kaupmannahafnar. Ég er viss um að hjónin ætla að senda flíkurnar frá yður til Landbúnaðarfélagsins, því þau eru samvalin í því, að langar til að skreyta sig með annarra verðleikum.‟ Þetta olli því, að frúin bað mann sinn seinna að æskja yfirlýsingar þeirrar, sem ofar getur. Undir hana skrifuðu presturinn, hreppstjórinn og kaupmenn og verzlunarstjórar á Eskifirði. Meðal þeirra var maðurinn, sem hafði flíkurnar frá frúnni í vörzlum sínum, og gerði hann það mjög fúslega. Yfirlýsingu þessa geymdi frúin, en notaði hana aldrei.

Frumtextinn úr Fru Th.s erindringer fra Iisland  (s. 97-99)

Fru Th. fortæller ved denne Leilighed Noget om sine huslige Syssler baade i denne Tid og i tidligere Aar. Hun lærte Iislænderne Patent-Strikning og andre Strikningsarter.  Til Gjengjæld lærte de hende „at farve i deres Urter, Græs og Lyng‟, som de tarvelige Øeboere paa en sindrig Maade vidste at benytte. „Ja det er vist‟, skriver hun, „at de i denne henseende ere meget klogere end vi. Naar de ville samle Vædelse til at farve i af Mennesker og Dyr, veed de, hvað Enhver skal nyde af Spise og Drikke, og hvilket Dyr der giver denne Couleur, og hvilket en anden. Disse Erfaringer vare interessante og nyttige for mig. Uldgarn, som jeg farvede i Rødspaan kunde jeg give 3 à 4 forskjellige Couleurer ved at skylle det i stærkere eller svagere Grønsæbe-Vand, og dette brugte jeg til at schattere mine Strikninger med. Høirødt savnede jeg meget; men jeg fandt paa Raad. Ved en Auction paa Handelsstedet kjøbte min Mand en Deel høirøde Baand; dem trævlede jeg op, og strikkede med. Jeg var i Forlegenhed for Bestetøi; men det forekom mig, at naar den bløde, fine Uld blev strikket i Striber, valket og presset, var det som Klæde. Jeg iværksatte det ogsaa, i det jeg paa en sort eller graae Bund strikkede Striber med passende Couleurer, valkede, kradsede og pressede det. Alle fandt dette Tøi nyttigt og ret smukt, og for at faae det i Gang forærede jeg nogle Stykker bort‟. Da de havde Uld nok, lod Fruen ogsaa sine Tjenestefolk strikke Patent-Strikning med simple Couleurer. Disse strikkede Arbeider bleve da ligeledes valkede og pressede, og de groveste brugte til Gulvtæpper, de finere til Sengetæpper. „Paa Frakker nær til min Mand‟, bemærker Fruen, „behøvede vi Intet i Huset uden Hjemmegiort‟.  - Da Sysslemand Th. vilde reise til sit nye Embede  foreslog han sin Kone at tage en Erklæring af Embedsmænd og Handlende i Eskefjords-Egnen om, at hun var den Første, som havde begyndt der med de ovenfor omtalte Strikningsmaader; men hun bad han lade det være, da hun nødig vilde vække Andres Misundelse, eller give Nogen Anledning til den Tanke, at hun ønskede sig anbefalet til 3die Gang at erholde en Premie af Landhussholdningsselskabet. En Omstændighed bragte hende imidlertid til senere at gaae in paa sin Mands Forslag. Hun havde nemlig foræret en Familie et Stykke af hvert Slags af de Arbeider, hun havde forfærdiget; men hun saae aldrig, at disse Foræringer bleve brugte, men derimod kun eftergjorte Ting. Især undrede det hende aldrig at see en Kavai af bruunt, fiint Uldgarn, strikket til en lille 7 Aars Pige, og saa smukt forarbeidet, at Alle antoge den for at være af Klæde. Hun yttrede sin Forundring herover for en Kjøbmands Kone der svarede hende smilende: „De rejser herfra, de Andre ogsaa, men - til Kjøbenhavn. Jeg veed vist, at Deres Tøi skal sendes til  Landhuusholdningsselskabet, da Konen, saavelsom Manden, ville gjøre deres Navne bekjendte ved at pryde sig med Andres Fortjenester‟. Dette bevægede hende til senere at bede sin Mand at afæske Vedkommende den ovenfor omtalte Erklæring. Den blev underskreven af Præsten, Sognefogden og de Handlende ved Eskefjord. Ogsaa den Mand, som gjemte Fruens Arbeider, fandtes meget villig til at underskrive. Erklæringen har hun opbevaret, men ingensinde benyttet.

P.S. Sem sjá má er engin mynd af klukkuprjóni við þessa færslu. Það er vegna þess að ég hyggst skrifa sérstaka færslu um þessa merkilegu (og fallegu) prjónaaðferð.

Ummæli (1) | Óflokkað, Saga prjóns

3. nóvember 2013

Rétttrúnaður í prjóni

Ef marka má prjónauppskriftir og prjónaumfjöllun síðustu ára skal nota þá eina rétta aðferð við handprjón: Slétt lykkja skal vera slétt og brugðin lykkja skal og vera slétt. Samt eru til margar aðrar aðferðir og er því jafnvel fleygt að hægt sé að prjóna brugðna lykkju á sextán mismunandi vegu! Þetta eru áhrif frá amrískum og enskum prjónauppskriftum og stundum hefur verið bent á að fyrirmyndin að þessum rétttrúnaði sé prjónles úr prjónavélum. Sjálfri finnst mér út í hött að handprjón eigi helst af öllu að líkjast vélprjóni! Þessi færsla er yfirlit yfir helstu prjónapólitísk hitamál:  Slétt eða snúið?; Vestrænt eða austrænt?; Gamlar prjónahefðir eða nýmóðins ameríkanísering?

slétt eða snúin slétt lykkja
Slétta lykkjan á myndinni hægra megin er í samræmi við rétttrúnað nútímans, sumsé slétt slétt lykkja. Fremri lykkjuboginn er framar á prjóninum og í hann skal prjóna.

Slétta lykkjan á vinstri myndinni er svokölluð snúin slétt lykkja. Aftari lykkjuboginn er framar á prjóninum og liggur beint við að stinga prjóninum gegnum hann.

Snúin slétt lykkja á Garnstudio Slétt slétt lykkja á Garnstudi
Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig snúin slétt lykkja er prjónuð. Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig slétt slétt lykkja er prjónuð.
Brugðin lykkja eins og prjónuð er á Íslandi  

Slétt brugðin lykkja 

 

Til vinstri er sýnd sú aðferð sem kennd er í íslenskum skólum og langflestir Íslendingar nota nú, að ég held.

Bandið er fyrir aftan prjónlesið, alveg eins og þegar slétt lykkja er prjónuð. Það er vitaskuld hagræði að þurfa ekki að flækjast með garnið framfyrir til að prjóna brugðna lykkju, t.d. þegar prjónað er stroff (sléttar og brugðnar lykkjur til skiptis).

Prjóninum er stungið í fremri lykkjuboga og þetta er því slétt brugðin lykkja (vestræn ósnúin brugðin lykkja).

Myndin er stilla úr myndbandi á Garnstudio og krækir í myndbandið. Þar er þetta sögð “almenn aðferð sem notuð er í Noregi og Danmörku”. Enskumælandi virðast kalla aðferðina “Norwegian purl”.

Brugðið fyrir odd slétta brugðna lykkju
Þessi aðferð hefur verið kölluð að bregða fyrir odd.Augljós ókostur við þessa aðferð er að það þarf að færa garnið framfyrir prjónlesið og þ.a.l. að flækjast með garnið framfyrir og afturfyrir þegar prjónaðar eru brugðnar og sléttar lykkjur til skiptis á sama prjóni, t.d. í stroffi eða tvöföldu prjóni.Prjónað er í fremri lykkjuboga og lykkjan verður slétt brugðin.  Í myndbandinu sem stillan er úr er þetta sögð evrópsk aðferð (continental purl). Aðferðin er vestrænt ósnúið prjón.

Smelltu á myndina til að sjá skýringarmyndbandið á Garnstudio.

Austræn ósnúin brugðin lykkja

Elsa E. Guðjónsson hefur haldið því fram að Íslendingar hafi prjónað brugðnar lykkjur eins og sést á þessari mynd allt til þess að handavinnukennsla hófst í skólumHún segir þetta vera austrænt ósnúið prjón og styðst við þessa skýringarmynd í Mary Thomas’s Knitting Book. Þetta er að því leytinu rangnefni að svona brugðin lykkja er snúin á prjóninum, þ.e. þegar garnið er veitt í gegnum lykkjuna með prjónoddinum gegnum aftari lykkjubogann.

Elsa hlýtur að hafa gert ráð fyrir að Íslendingar hafi prjónað austræna ósnúna slétta lykkju (sem nútildags er yfirleitt kölluð snúin slétt lykkja, sjá efst í þessari færslu) á móti. Sé prjónuð snúin slétt lykkja í sléttri umferð og svona snúin brugðin lykkja i brugðnum umferðum verður áferðin nauðalík venjulegu sléttprjóni (með ósnúnum sléttum og brugðnum lykkjum) og þess vegna er prjónið kallað ósnúið austrænt.  Að sögn Mary Thomas verður prjón þó þéttara með þessu móti heldur en með vestrænu ósnúnu prjóni.

Bandið er lagt fram fyrir prjónlesið en í stað þess að snúa upp á það eins og í dæminu hér næst að ofan er það einfaldlega krækt eða veitt í gegnum lykkjuna. Þetta er einfaldari aðferð en sú að ofan en sömu annmarkar fylgja henni, nefnilega að þurfa að færa bandið framfyrir.

Sjá einnig Blandaða aðferð neðar í færslunni.

Vestrænt snúið prjón eða snúið sléttprjón
Snúið vestrænt prjón (western crossed) er þannig að slétta lykkjan er prjónuð í aftari lykkjuboga (s.s. snúin slétt lykkja, sjá efst í færslunni); brugðna lykkjan er brugðin fyrir odd, sjá sérstakt dæmi um svoleiðis ofar í færslunni, en í stað þess að fara með prjóninn inn í fremri lykkjuboga eins og í því dæmi er farið gegnum aftari lykkjubogann.

Þetta kallast snúið sléttprjón í nýútkominn Prjónabiblíunni og er staðhæft að vindingur komi í flöt stykki prjónuð með þessari aðferð. Ég hef vissar efasemdir um að þessi fullyrðing standist þótt vissulega fylgi henni mynd af undinni prjónaprufu.

Mary Thomas’s Knitting Book er komin til ára sinna (fyrst gefin út 1938) sem skýrir dæmin sem hún tekur:  Hún segir að snúið vestrænt prjón sé teygjanlegra en venjulegt sléttprjón (ósnúið vestrænt prjón) og henti því betur í ýmslegt svo sem belti, sokkabönd og sárabindi ;)

Snúið austrænt prjónSnúið austrænt prjón (eastern crossed) er einfaldara/þægilegra og fallegra (finnst mér) en snúna vestræna prjónið.

Slétta lykkjan er prjónuð slétt (þ.e.a.s. prjónuð er sú slétta lykkja sem flestir kunna og nota, þar sem prjóninum er stungið í fremri lykkjubogann).

Brugðna lykkjan er prjónuð snúin: Hér er sýnd einföld aðferð til þess sem er að leggja bandið framan við prjónlesið og veiða það gegnum lykkjuna til að prjóna nýja lykkju, gegnum fremri lykkjubogann.

Áferðin á snúnu austrænu prjóni minnir svolítið  á nálbrugðin stykki, þ.e.a.s. stykkið er eins og það sé fléttað.

Slétt og snúið prjón: Blönduð aðferðBlönduð aðferð (combination knitting)

Þekktur amerískur prjónahönnuður, Ann Modesitt, hefur lagt sig fram við að koma þessari prjónaaðferðir á framfæri. (Myndirnar eru teknar af vefsíðu hennar.) Hún heldur því fram að prjónles verði óvenju fallegt og þétt prjónað með blönduðu aðferðinni.

“Austræn slétt brugðin lykkja” er raunar snúin brugðin lykkja en sé prjónuð snúin slétt lykkja á móti verður áferðin á prjónlesinu nokkurn veginn slétt.

Það er dálítið skondið til þess að hugsa að líklega er þetta sama prjónaðferð og Íslendingar notuðu áður en farið var að kenna prjón í skólum, a.m.k. ef marka má hugmyndir Elsu E. Guðjónsson, sem minnst var á hér að ofan. Skyldu Kanar hafa uppgötvað hefðbundið íslenskt prjón núna alveg nýlega? ;)

Brugðnar lykkjur Cat BordhiÍ lokin er kannski rétt að geta þess hvernig ég prjóna sjálf: Ég prjóna snúna brugðna lykkju, með bandið fyrir aftan prjónlesið og sting í fremri lykkjubogann en sný upp á lykkjuna í stað þess að snúa bandinu um prjóninn líkt og gert er í skandínavísku sléttu brugðnu lykkjunni sem flestir landar mínir nota. Þetta eykur auðvitað hraða því hreyfingum fækkar. Þegar ég prjóna flatt stykki (fram og til baka) prjóna ég sléttu lykkjurnar snúnar svo áferðin á prjónlesinu verður slétt. Það gildir nefnilega um þetta eins og í dæminu hér að ofan um blönduðu aðferðina að tveir snúnigar gera slétt (eins og tveir mínusar í stærðfræði gera plús).

Þetta er sú prjónaaðferð sem ég lærði í bernsku af ömmu minni. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir rétttrúnaðarskoðanir nútímans ættaðar vestan úr Amríkuhreppi og er hæstánægð með minn prjónaskap …

Mér til mikillar ánægju hefur svo einn af þekktustu prjónatæknifræðingum heims, Cat Bordhi, tekið þessa aðferð upp á arma sína og heldur hún því fram að akkúrat svona brugðnar lykkjur séu fastari og betri en allar aðrar. Sjá má myndband þar sem hún sýnir aðferðina - smelltu á myndina til hliðar til að opna myndbandið.

P.S. Ef einhvern langar að prjóna með virkilega flottri snúinni/fléttaðri áferð þá mæli ég með:

Sléttum sléttum lykkjum á réttu;
Snúnum brugðnum lykkjum prjónuðum í aftari lykkjuboga (þ.e. gömlu íslensku aðferðinni við að prjóna brugðnar lykkjur) á röngu.

Ummæli (3) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

27. október 2013

Prjónakonur hvetja til voðaverka

Þótt prjón sé einkar friðsamleg iðja má tengja það við stríð og átök. Hér á eftir er stiklað á stóru yfir þátt prjónakvenna í blóðugum átökum frönsku byltingarinnar. Í næstu færslum verður fjallað áfram um hlutdeild prjónakvenna í ófriði.

Les tricotuesesLes Tricoteuses (Prjónakonurnar) létu eftirminnilega til sín taka í frönsku byltingunni. Sagt er að fjöldi kvenna, e.t.v. þeirra sömu hungruðu og þjáðu markaðskvenna og stóðu fyrir Brauðgöngunni/Kvenngöngunni til Versala árið 1789, hafi vanið komur sínar að fallöxinni og stutt frönsku ógnarstjórnina dyggilega. Frá þeim glumdu ýmist hvetjandi reiðiöskur og fagnaðaróp yfir hverjum hausnum sem féll eða þær sátu þöglar og prjónuðu meðan þær fylgdust með böðlinum undirbúa næsta fórnarlamb.

Les Tricoteuses urðu tákngerving þeirrar óskaplegu reiði og haturs sem knúði frönsku byltinguna. Enski rithöfundurinn Charles Dickens gerir einni Prjónakonunni, heldur óyndislegri persónu, góð skil í skáldsögunni A Tale of Two Cities. Madame Defarge, kona vínkaupmannsins, liggur á hleri í vínbúðinni og prjónar nöfn óvina og njósnara með einhvers konar dulmáli í munstrið á sínu prjónlesi. Svo styðst hún við það þegar hún upplýsir um óvini byltingarinnar. Tifandi prjónarnir Madame Defarge koma mönnum á fallöxina. Hún vekur hvarvetna ugg, meira að segja meðal samherja sinna:

He always remembered with fear and trembling, that that terrible woman had knitted when he talked with her, and had looked ominously at him as her fingers moved. He had since seen her, in the Section of Saint Antoine, over and over again produce her knitted registers, and denounce people whose lives the guillotine then surely swallowed up. He knew, as every one employed as he was did, that he was never safe; that flight was impossible; that he was tied fast under the shadow of the axe …

Segja má að Madame Defarge skapi mönnum aldurtila með prjóni. Hún og vinkonur hennar eru svo dyggir áhorfendur að aftökunum með fallöxinni.

Les tricoteuses
Þessi mynd er líklega eftir franska listamanninn Jean-Baptiste Lesueur (gæti þó verið eftir bróður hans) og heitir Tricoteuses. Hún er talin gerð 1789 og vatnslitamynd sem sýnir sama mótíf er talin vera frá 1799. Á myndinni sjást Prjónakonurnar og þær eru væntanlega að horfa á aftökur í fallöxinni frægu. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Les Tricoteuses � kvikmynd
Les Tricoteuses � kvikmynd
Ég veit ekki úr hvaða kvikmynd þessar tvær myndir eru en líklega er það ein myndanna sem gerðar hafa verið eftir A Tale of Two Cities. Þær sýna Prjónakonurnar tvö augnablik og er auðvelt að giska á hvað muni vera á seyði á þessum augnablikum. Smelltu á hvora mynd ef þú vilt sjá stærri útgáfur.
A Tale of Two Cities eftir Dickens
Þessi myndskreyting eftir John McLenan birtist í Harper’s Weekly 3. des. 1859. Saga Dickens var framhaldssaga í tímaritinu. Þarna líkjast Prjónakonurnar þremur refsinornum (fúríum).  E.t.v. er það Madame Defarge sem stendur þarna í miðjunni.
Úr A Tale of Two Cities:

Darkness closed around, and then came the ringing of church bells and the distant beating of the military drums in the Palace Courtyard, as the women sat knitting, knitting. Darkness encompassed them. Another darkness was closing in as surely, when the church bells, then ringing pleasantly in many an airy steeple over France, should be melted into thundering cannon; when the military drums should be beating to drown a wretched voice, that night all potent as the voice of Power and Plenty, Freedom and Life. So much was closing in about the women who sat knitting, knitting, that they their very selves were closing in around a structure yet unbuilt, where they were to sit knitting, knitting, counting dropping heads. (XVI. kafli, Still Knitting, í öðru bindi, The Golden Thread.)

The ministers of Sainte Guillotine are robed and ready. Crash!—A head is held up, and the knitting-women who scarcely lifted their eyes to look at it a moment ago when it could think and speak, count One.

The second tumbril empties and moves on; the third comes up. Crash!—And the knitting-women, never faltering or pausing in their Work, count Two. (XV. kafli, The Footsteps Die Out For Ever, í þriðja bindi, The Track of a Storm.).

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

22. október 2013

Treyjan Karls I

Karl I BretakonungurÞann 30. janúar árið 1649 var Karl I Englandskonungur gerður höfðinu styttri. Hann hafði átt í útistöðum við ýmsa sína landsmenn, t.d. út af sinni meintu pápísku trú sem ekki féll í kramið, og lent í átökum við breska þingið sem taldi hann stefna að einveldi. Á málverkinu hér til hliðar sést Karl eftir aftökuna. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.)

Sagnir herma að Karl hafi ekki viljað sjá á sér nein hræðslumerki og til að koma örugglega í veg fyrir skjálfta á þessum kalda janúardegi klæddist hann tveimur skyrtum eða treyjum innanundir fínu fötunum. Önnur treyjan er til umfjöllunar hér.

William Sanderson sem skrifaði æviminningu Karls I (útg. 1658) segir að biskupinn af London, William Juxon, hafi liðsinnt Karli við síðustu handtökin: “Biskupinn setti á hann nátthúfuna og afklæddi hann að himinbláu satín-vestinu.” Himinbláa (öllu heldur ljósbláa) treyjan komst svo í eigu dr. Hobbs, læknisins hans Karls, þegar líkið var afklætt og flíkunum skipt milli fólks sem viðstatt var aftökuna. Hún er nú geymd í Museum of London.

Það sem gerir treyjuna sérlega spennandi eru blettirnir í henni sem mögulega eru blóðblettir. Þessir blettir voru rannsakaðir árið 1959 og aftur árið 1989 en niðurstöðurnar voru ekki ótvíræðar; ekki komst á hreint hvað blettaði treyjuna. Eins og blóðblettir gera ljóma þessir fagurlega í útfjólubláu ljósi en það gera því miður einnig svitablettir og ælublettir. Fyrir þremur árum rataði sú frétt í breska fjölmiðla að gera ætti DNA-rannsókn á þessum blettum til að ganga úr skugga um hvort þetta væri í alvörunni blóð Karls. Fallið var frá DNA-rannsókninni því svo oft er búið að handleika þessa treyju í tímans rás að ómögulegt þótti að nokkuð greindist sem mark væri á takandi.

Það þykir dálítið grunsamlegt að enga blóðbletti er að finna kringum hálsmálið, eins og ætla mætti að væri raunin hefði einhver verið hálshöggvinn í þessari treyju. Vegna ónógrar þekkingar á hálshöggi get ég því miður ekki dæmt um hversu mikið blóð spýtist úr strjúpa og hvert það leitar. Hefur og heyrst sú skoðun að einhver ótíndur áhorfandi hafi klæðst skyrtunni og staðið fullnálægt þegar konungurinn var hálshöggvinn. Líklega er samt best að hafa það fyrir satt að þetta sé treyjan sem Karl I klæddist síðustu mínúturnar í sinni jarðvist og að innri skyrtan (sem var úr líni) hafi drukkið í sig blóðdropana sem láku með hálsinum …

Skyrtan (sem er oft kölluð jakki, jacket, eða vesti, waistcoat, á enskum síðum) er prjónuð úr fíngerðu ljósbláu silkigarni. Prjónafestan er 8 1/2 lykkja á sentimetra. Skyrtan er prjónuð í hring, að neðan og upp. Hún er saumuð saman á öxlum og sömuleiðis eru ermarnar saumaðar í. Þær eru einnig prjónaðar í hring.

Karl I var enginn beljaki. Treyjan er 80 cm löng og yfirvíddin er 44 cm, neðst er treyjan 70 cm víð. Ermasídd er 52,5 cm.

Munstrið er svokallað “damaskmunstur” (brocade pattern kalla enskumælendur þetta), þ.e.a.s. upphleypt einlitt munstur, myndað af brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Svipuð ljósblá treyja frá sama tíma er varðveitt í Drummond kastala í Skotlandi og önnur svipuð en rauð að lit í danska Þjóðminjasafninu. Ekkert er vitað um uppruna þessara treyja, þær gætu verið prjónaðar hvar sem er í Evrópu.

Svona damaskmunstur urðu seinna mjög vinsæl á dönskum “náttreyjum” úr ull, sem eru enn hluti af mörgum svæðisbundnum þjóðbúningum í Danmörku.

Hér eru myndir af silkiskyrtunni hans Karls og henni tengdar. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Skyrta Karls I � Museum of London
Treyja Karls I í Museum of London.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Skyrta Karls I � útfjólubláu ljósi
Treyjan í útfjólubláu ljósi, sem sýnir (blóð)blettina vel.
Hálsmál á skyrtu Karls I
Hálsmálið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Nærmynd af ermi á skyrtu Karls I
Nærmynd af ermi á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Aðalmunstur á treyju Karls I
Aðalmunstrið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)
Munstur á berustykki á treyju Karls I
Munstrið á berustykkinu á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)

 

Heimildir:

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the seventeenth century. Opera Textilium Variorum Temporum To honour Agnes Gejer on her nintieth birthday 26th October 1988. Statens Historiska Museum, Svíþjóð.

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Bandaríkjunum. Upphaflega gefin út 1987.

Thomas, Mary. 1972. Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns. Dover Publications, Bandaríkjunum. Önnur útgáfa, upphaflega gefin út 1943 á Englandi.<<<<<<<<<

Was this the waistcoat that Charles I was wearing when he was beheaded? 19. feb. 2010. Daily Mail.

Lengri útgáfa af sömu grein á Canadian Content, 18. feb. 2010.

Undershirt. Museum of London.

Damask Knitting – A Danish tradition. NORDIC UNVENTIONS.

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns