Færslur undir „Saga prjóns“

17. október 2013

Prjónaði silkijakkinn hans Ottheinrich

Upplýsingar um silkijakka þýska greifans/hertogans og kjörfurstans Ottheinrich liggja hreint ekki á lausu, hvorki á vefnum né í prjónasögubókum. Samt er þetta ótrúlega merkilegur jakki/treyja því um er að ræða elstu prjónuðu flík sem varðveist hefur í Evrópu, að frátöldum sokkum og hönskum. Og auðvitað elsta prjónaða silkijakkann sem varðveist hefur. Þessi silkijakki er ólíkt hversdagslegri en síðar tíðkaðist, sjá færsluna Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld.

Hver var Ottheinrich?

OttheinrichOttheinrich, sem hét fyrst bara Otto Heinrich, fæddist árið 1502 og dó 1559. Afi hans var hertogi af Bæheimi og Ottheinrich fékk, í félagi við bróður sinn, yfirráð yfir nýju hertogadæmi, Herzogtum Pfalz-Neuburg, þegar hann hafði aldur til. Höfuðborg þess var Neuburg an der Donau.

Ottheinrich var hálfgerður útrásarvíkingur síns tíma. Hann barst mjög á, byggði t.d. kastala og safnaði listmunum, tók þátt í ýmsu valdabrölti og hélt sér á floti með nýjum og nýjum lántökum þótt hann væri löngu orðinn gjaldþrota. Að lokum hrökklaðist hann frá völdum en endurheimti þau seinna, var hækkaður í tign og gerður að kjörfursta yfir Pfalz Neuburg. Í síðari valdatíð sinni hlúði Ottheinrich mjög að listum og vísindum, átti frábært bókasafn, lét útbúa eitt glæsilegasta biblíuhandrit allra tíma, sem við hann er kennt, og margt fleira vann hann sér til ágætis.

Kannski er líka rétt að taka fram að þótt Ottheinrich hafi verið ljómandi myndarlegur maður á yngri árum, ef marka má málverk af honum, þá fitnaði hann mjög eftir því sem árin færðust yfir hann. Talið er að hann hafi verið hátt í 200 kg þungur síðustu árin sem hann lifði.

Silkijakkinn

Silkijakki OttheinrichJakkinn ber offitu Ottheinrich vitni því yfirvíddin er 2,20 metrar! Hann er prjónaður úr ólituðu silki og munstrið er ákaflega einfalt, s.s. sjá má sé smellt á litlu myndina af jakkanum sjálfum. Nánar tiltekið er munstrið úr lóðréttum röðum af samtengdum þríhyrningum sem eru prjónaðir brugðið á sléttum grunni. Hver munsturröð er 2,5-3 cm breið og hæðin á þríhyrningunum er 1 cm. Talning á umferðum og lykkjum á myndum bendir til þess að hann sé prjónaður úr grófara garni en síðari tíma útprjónuðu silkijakkarni, þ.e.a.s. prjónafestan virðist um 5 lykkjur á sentimetra. Sé smellt á myndina af jakkanum kemur upp stærri mynd af munstrinu.

Ottheinrich hefur líklega eignast þennan jakka í kringum 1540 því hans er getið í gögnum sem varðveist hafa. Af þeirri lýsingu að dæma hefur prjónaefnið verið keypt frá Ítalíu og jakkinn síðan sérsaumaður á karlinn.
Núna er þessi merkilegi jakki varðveittur á Heimatmuseum í Neuburg an der Donau í Bæjarlandi. Hér að neðan er mynd af nútímaeftirgerð jakkans, sem, eins og sjá má, rúmar léttilega fimm krakka.

Eftirl�king af silkijakka Ottheinrich

Aðalheimild:
Feyerlein, Heinrich. 1976. Eine Strickweste des Pfalzgrafen Ottheinrich. Neuburger Kollektaneenblatt. Jahrbuch 129/1976. Heimatverein - Historischer verein. Neuburg a.d. Donau. (Myndir af jakkanum og munstrinu eru skannaðar af ljósriti þessarar greinar.)

Lokað fyrir ummæli | Óflokkað, Saga prjóns

15. apríl 2013

Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld

Silkijakki frá 17. öldTalsvert hefur varðveist af skrautlegum útprjónuðum jökkum/treyjum frá 17. öld og má sjá þá á söfnum í Evrópu og Ameríku. Þeir eru munsturprjónaðir úr silki í tveimur litum eða silki og gull- eða silfurþræði. Stundum eru brugðnar lykkjur notaðar til að stykkið líkist damask-vefnaði (brókaði-vefnaði) en einnig til að draga enn frekar fram útprjónaða munstrið. (Til eru margar silkiprjónaðir treyjur með eingöngu einlitu útprjóni, svokölluðu damaskprjóni, en þær eru ekki til umræðu í þessari færslu. Stundum var saumað út í damaskprjónuðu treyjurnar.)

Mynstrin eru yfirleitt blómamynstur einhvers konar. Þau eru eftirlíkingar af munstrum ofinna silkidúka/silkiklæðis frá sama tíma, þ.e. á sautjándu öld. Silkiþráðurinn sem prjónað var úr var afar fíngerður og prjónarnir hljóta að hafa líkst nútímatítuprjónum að gildleika.

Silkitreyjurnar skrautlegu eru ekki prjónaðar í hring heldur saumaðir saman úr ferhyrndum stykkjum, sem hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að efniviðurinn (stykkin) hafi verið prjónaður í prjónavél. En engar traustar heimildir eru fyrir því að prjónavélar (knitting frames) sem gátu prjónað brugðnar lykkjur hafi verið uppfundnar þegar þessir jakkar voru prjónaðir. (Krækja í stóra mynd af rauðu silkitreyjunni er neðar í færslunni.)

Sænskar heimildir nefna að árið 1685 hafi verið fluttir inn 436 prjónaðir silkijakkar, ýmist útsaumaðir eða ekki, þá væntanlega ýmist damaskprjónaðir eingöngu eða útprjónaðar með mislitu garni. Í dönskum vörulistum frá 17. öld eru taldar upp „nátttreyjur“ (orðið var notað um svona jakka, auk þess sem það merkti einlita damaskprjónaða jakka úr silki eða ull) úr silki, sumar „baldyrede“, þ.e.a. útsaumaðar með gull- eða silfurþræði. Má sem dæmi nefna skrá yfir lager kaupmannsins Eriks Jørgensen í Odense árið 1644:
 

6 stykker silche Nattrøyer med sølff och guld bardyret a 14 rdl.
6 stykker dito med flos a 19 rdl.
3 stykker store Mands Nattrøyer a 23 rdl.
1 Grøn silche Nattrøye med sølff och guld uflosset … 33 rdl.
( Østergaard, Else. 1984)

Þegar Leonora Christina var handtekin í London og færð í Bláturn (fangelsi) í Kaupmannahöfn, árið 1663, var hún klædd í silkiprjónaða „nátttreyju”. Eigur hennar voru teknar en seinna fékk hún til baka „tvende Nattrøjer, en silkebunden og den anden af hvidnuppet Tøj …“ Sagt var að Leonora Christina klæddist samkvæmt franskri tísku og má af þessari heimild ráða að silkiprjónaðar treyjur hafi enn verið hátíska seint á 17. öld, raunar voru svona treyjur/jakkar áfram notaðar talsvert fram á 18. öld. Yfirleitt er talið að Danir hafi flutt inn silkitreyjur/silkijakka, jafn damaskprjónaða sem útprjónaða í lit, frá Englandi, jafnvel Skotlandi. Enskumælandi höfundar kalla svona treyjur oft ítalska eða flórentínska jakka. Sjálfsagt eru þessar skrautlegu treyjur ekki upprunnar af einni rót heldur prjónaðir hér og þar í Evrópu þar sem listprjón hafði náð hæstu hæðum. Um þetta er raunar ekkert vitað með vissu.

Talið er að útprjónuðu silkitreyjurnar hafi tilheyrt óformlegum klæðnaði aðalsmanna (af báðum kynjum) og þess vegna sjáist þeirra engin merki á 17. og 18. aldar málverkum; fólk stillti sér nefnilega upp í sparifötunum. Margt bendir og til þess að treyjurnar hafi verið bornar innan undir jökkum eða upphlut.
 
 

Munstur á silkijakka frá 17. öldPrjónaður silkijakki frá 17. öldÍ safni Viktoríu og Alberts í London eru nokkrir svona jakkar (treyjur), allir fremur litlir (brjóstvídd er yfirleitt um 73 cm, síddin er um 55 cm). Jakkinn sem sést hér er 57 cm langur, prjónaður úr grænum silkiþræði og gullþræði (gullhúðuðum silkiþræði). Prjónafesta er 6 lykkjur á sentimetra. Neðst á bol og ermar er prjónaður borði með einföldu einlitu munstri með brugðnum lykkjum. Líklega var meiningin að líkja eftir damaskvefnaði. Jakkinn er saumaður saman og skotið inn geirum á hliðum neðst til að auka víddina. Talið er að geirarnir, sem eru ekki prjónaðir, séu síðari tíma viðbót til að tolla í tískunni. Jakkann má skoða vel á síðu The Victoria and Albert Museum.  Til hægri er teikning af munstrinu ef einhvern skyldi langa til að prjóna sér svona jakka :)   Sé smellt á munstrið opnast pdf-skjal.
 
 

Fleiri dæmi um prjónaða silkijakka/silkitreyjur (litlu myndirnar krækja í stórar myndir og upplýsingar um jakkana á Vefnum):
 
 

Silkitreyja frá 17. öld Silkijakki í Listasafninu í Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum.
Náttreyja frá 17. öld Útsaumaður silkiprjónaður jakki á Þjóðminjasafninu í Osló.
Silkitreyja frá 17. öld Útprjónuð silkitreyja á Nordiska museet í Stokkhólmi.
 
 
Prjón á 17. öld Silkitreyja á V&A safninu í London.
17. aldar prjón Þessi rauða silkitreyja er geymd á Konunglega Ontario safninu í Kanada. 
Og hér er nærmynd af munstrinu
siklkijakkar á 17. öld Silkiprjónaður kvenjakki í Museo Stibbert, Flórens, Ítalíu.
Kvenjakki í Glasgow Museum, Skotlandi.
Enn einn prjónaði silkijakkinn á V&A safninu í London.

 Eldri en jakkarnir/treyjurnar sem fjallað hefur verið um er jakki sem eignaður hefur verið þýska greifanum Ottheinrich og talinn er með elstu prjónaflíkum sem varðveist hafa í Evrópu. Jakkinn er talinn ítalskur, frá miðri 16. öld, prjónaður úr silkigarni, og af lýsingu að dæma má ætla að brugðnar lykkjur myndi láréttar rendur. Þessi jakki er ákaflega víður sem rennir stoðum undir eigendasöguna því Ottheinrich var ákaflega digur ef marka má samtímamyndir. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á mynd af jakkanum en hann er varðveittur í Heimatmuseum í Neuberg an der Donau í Bæjarlandi.

Ég reikna með að skrifa einhvern tíma framhaldsfærslur um damask-prjónuðu silkijakkana, sem einnig eru taldir frá sautjándu öld, damaskprjónaðar „nátttreyjur“ úr ullargarni, sem vinsælar urðu í Skandinavíu, og vonandi einnig færslu um silkijakkana sem tvö systkini Leonoru Christinu, þ.e. tvö börn Kirsten Munk og Christians IV Danakonungs, voru klædd þegar þau voru jarðsett laust fyrir 1630. 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting. 1987. Colorado, Bandaríkjunum.

Harlow, Eva. The Art of Knitting. Garments for today from patterns of the past. 1977. William Collins Sons and Company Limited. Englandi.

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the sevententh century. Opera Textilia Variorum Temporum. To honour Agnes Geijer on her ninetieth birthday 26th October 1988, s. 131-144. 1988. Statens Historiska Museum. Stockholm, Svíþjóð.

Østergaard, Else. Silkestrikkede trøjer og strømper fra begyndelsen af 1600-årene. Stickat och virkat i nordisk tradition, s. 42-45. 1984. Österbottens museum, Svíþjóð. 

Deborah Pulliam Knitted Silk and Silver: those mysterious jackets. Silk Roads, Other Roads: Textile Society of America 8th Biennial Symposium, Sept. 26–28, 2002, Smith College, Northampton, Massachusetts, Bandaríkjunum. Aðgengilegt á vef, sjá http://digitalcommons.unl.edu/tsaconf/541/
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns

6. apríl 2013

Útsaumaðir og útprjónaðir vettlingar

Hvorki útsaumaðir né útprjónaðir vettlingar eru sérlega gömul hefð hér á Íslandi. Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem um þetta er vitað. 

Ísaumaðir rósavettlingar

Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum: „Kvenvettlingar voru einþumlaðir, og þeir fínustu svartir með allavega litaðri rós, prjónaðri inn í handarbakið (rósavettlingar)“ og „Almennt var að konur prjónuðu rósir út í vettlinga og íleppa. Voru það ýmis blómamyndir með ýmsum litum eða þá sex- eða áttablaða rósir með ýmsum útbrotum.“ Hann er að lýsa vettlingum á 19. öld en þarna skjöplast þeim góða Jónasi: Rósirnar á vettlingunum voru ekki útprjónaðar heldur ísaumaðar enda ekki heiglum hent að prjóna út marglitt munstur á handarbakið eitt en hafa allt hitt einlitt.

RósavettlingarRósavettlingar eru varðveittir á Þjóðminjasafninu, byggðasöfnum og í norrænum söfnum, nokkrir frá 19. öld en flestir frá því um og eftir aldamótin 1900. Með þeim elstu er par með ísaumuðu K  ThD A á annan vettlinginn, á hinn vettlinginn ártalið 1827. Þá átti Katrín Þórðardóttir í Fljótshlíð (merkingin þýðir Katrín Þórðardóttir á) en dóttir hennar bjó lengi í Vestmannaeyjum og vettlingarnir eru varðveittir á byggðasafninu þar. Munstrið er áttblaðarós á uppábrot um úlnlið, einhvers konar rósaútfærsla af áttblaðarós saumað í þumla og áttblaðarós á handarbökum. (Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)

Myndin að ofan er af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu í Stokkhólmi (hún krækir í vefsíðu með stærri mynd). Þetta eru nokkuð dæmigerðir rósavettlingar íslenskir, með áttblaðarós inni í skreyttum tígli og uppábrotið skreyta stílfærð hreindýr. Samskonar munstur má sjá á skagfirsku rósavettlingunum sem gerð hafa verið góð skil í sérstakri bók. (Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. 2003). Fleiri myndir af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu sænska eru hér og hér.  Auk áttblaðarósar í ýmsum myndum eru blómamyndir/blómapottsmyndir mjög vinsælar á rósavettlingum, sjá mynd af rósavettlingum á textílsafninu á Blönduósi (af síðu Hélène Magnússon, Prjónakerling). Seinna meir er farið að blanda saman útsaumi og útprjóni í sömu vettlingana, a.m.k. bendir lýsing á vettlingum sem Þjóðminjasafninu áskotnuðust 1910 til þess:

Rósavetlingar, belgvetlingar, að mestu hvítir, en í laska, totu og þumal eru prjónaðir bekkir og blóm með svörtum, grænum, rauðum og fjólubláum lit, ennfremur eru saumuð með fléttusaum blóm með ýmsum lit á handabökin.
(Matthías Þórðarson. 1911.)

Elsa E. Guðjónsson lýsir rósavettlingum í eigu Þjóðminjasafnsins svona:

Talsvert er til af íslenzkum vettlingum frá 19. öld í Þjóðminjasafni Íslands. Flestir eru þeir belgvettlingar, margir svartir með marglitaðri, fléttusaumaðri rós á handarbaki, þ.e. rósavettlingar. Nokkrir rósaðir fingravettlingar hafa einnig varðveitzt, m.a. þeir sem hér birtist mynd af (Þjms. 5029). Eru þeir hvítir með aðallega rauðum, en einnig svolitlum fjólubláum ísaumi.

(Elsa E. Guðjónson. 1962.)

Konur með útsaumaða vettlinga á 19. öldSaumað var út í vettlingana með „gamla krosssaumnum“, þ.e. fléttusaumi. Sem fyrr segir er ekki vitað hve gömul rósavettlingahefðin er en auk þess að vita af elstu vettlingunum (að talið er) sem ársettir eru 1827 má benda á heimildir eins og bút úr þessu málverki eftir Auguste Mayer (sem var í föruneyti Paul Gaimard 1836) af heimilisfólki utan við bæinn á Hnappavöllum. Litla myndin krækir í stærri mynd og er engum blöðum um það að fletta að konurnar á myndinni eru íklæddar rósavettlingum. Sömuleiðis má benda á klausu í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en sagan er talin skrifuð 1835-36. Þar segir um systurina góðu: „Það leið ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum [- - - ].“

Norðmenn virðast líka hafa saumað rósavettlinga sem eru keimlíkir hinum íslensku, ef marka má myndir á Digitalmuseum.no. Því miður eru engar upplýsingar um hversu gamlir þessir vettlingar eru en má giska á að þeir séu allir af Mæri eða úr Romsdal. Sjá dæmi hér, hér og hér.

Ef einhvern langar til að prjóna og sauma út rósavettlinga bendi ég á skemmtilegt viðtal með myndum, í Morgunblaðinu 6. desember 2005, við Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá í Skagafirði, sem prjónar og hannar svona vettlinga, og uppskrift eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur á síðunni Prjónakerling. Loks má nefna uppteiknað mynstur Elsu E. Guðjónsson af rósavettlingi í eigu Þjóðminjasafnsins í Húsfreyjunni 2. tbl. 1962 og annað mynstur í bókinni Íslenskur útsaumur eftir Elsu (sjónablað XIX, s. 91). Og ef menn treysta sér ekki til að sauma munstur með fléttusaumi má benda á að annars konar spor ætti að vera í góðu lagi, a.m.k. saumuðu skagfirskar konur í vettlinga með lykkjuspori árið 1918. (Margrjet Símonardóttir. 1918.)
 

Útprjónaðir vettlingar/tvíbandaprjónaðir vettlingar

Afar lítið hefur varðveist af íslensku útprjóni fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Það sem hefur fundist eldra er ofurlítil pjatla sem talin er frá 18. öld, mögulega frá 17. öld, og ekki er vitað úr hvers konar flík hún er. Pjatlan fannst í fornleifauppgreftri í Reykholti í Borgarfirði. Að sögn Elsu E. Guðjónsson sést á þessari prjónlespjötlu „tvíbanda bekkur í tveimur, litum […] en ofan og neðan við bekkinn leifar af einlitum, gráleitum grunni með sléttu prjóni.“ Af svarthvítri mynd sem fylgir grein Elsu má ráða að munstrið sé einfaldir samtengdir tíglar, Elsa segir síðan að „reitamunstur sömu gerðar og er á bekknum má sjá í sjónabókarhandriti frá 17. öld í eigu Þjóðminjasafnsins.“ (Elsa. E. Guðjónsson. 1992.) En raunar þarf ekki uppteiknað mynstur til að prjóna svo einfalt munstur svo tengingin við sjónabókarhandritið er líklega tilviljun sem engu skiptir.

�slenskir útprjónaðir vettlingarÍ Íslenzkum þjóðháttum, sem ætla má að lýsi því sem tíðkaðist á 19. öld, segir: „Tvíbandssparivettlingar tilhaldsstúlkna [voru] oft svart- eða rauðtíglóttir, 3 lykkjur í tígli og 3 umferðir, svo breytt um.“ (Jónas Jónasson. 1961, nmgr. s. 17.) Í sama riti segir og: „Annars konar útprjón [en ísaumaðir rósavettlingar sem Jónas telur ranglega að hafi verið prjónaðir] mun ekki hafa tíðkazt, nema stundum voru prjónaðir tvíbandaðir vettlingar með tveimur litum og voru þeir þá annaðhvort röndóttir eða tíglóttir.“ Í Norræna safninu í Stokkhólmi eru varðveittir íslenskir tíglóttir vettlingar frá 19. öld, sjá mynd hér til hliðar (sem krækir í síðu með stærri mynd). Þeir eru tvíþumla og óvíst hvort átti þá karl eða kona (konur notuðu líka tvíþumla vettlinga). Mér sýnist tíglamunstrið á þessum vettlingum vera alveg nákvæmlega eins og á litlu pjötlunni sem fannst í Reykholti og er elsta dæmi um íslenskt útprjón (sjá hér að ofan).

LaufaviðarvettlingurFljótlega eftir aldamótin 1900 var orðið algengt á Vestfjörðum að prjóna vettlinga með litskrúðugum tvíbanda bekkjum. Svona vettlingar ganga núna undir nafninu vestfirskir laufaviðarvettlingar. Ekki er vitað hvenær þetta útprjón hófst og óvíst hvort rekja megi það lengra en til seinni hluta 19. aldar. Útprjónuðu bekkirnir eru með laufaviðarmunstri, eins og nafnið bendir til, fuglamunstri (dúfnastreng) o.fl. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.) Vestfirskir laufaviðarvettlingar voru prjónaðir á fína prjóna, líklega nr. 1 ½, úr fínu tvinnuðu bandi úr góðu þeli. (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.)

Á myndinni sést minn eigin laufaviðarvettlingur (litla myndin krækir í stærri mynd). Fitjaðar eru upp 80 lykkjur og aukið út í 84 lykkjur eftir að úlnlið sleppir. Vettlingarnir voru keyptir á handverksmarkaði í Hólmavík fyrir mörgum árum og satt best að segja held ég að þeir séu prjónaðir í vél (af því úlnliðsstykkið er prjónað fram og til baka og síðan saumað saman). Hafi einhver áhuga á að prjóna sér laufaviðarvettlinga bendi ég á grein, uppskrift og mynstur sem birtust í Vikunni 17. apríl 1980, Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Á vef Þjóðminjasafnsins má sjá stóra mynd af tvennum vettlingum, aðrir eru laufaviðarvettlingar, en hvorir tveggja eru nýir að sjá.
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Elsa E. Guðjóndsson. Rósavettlingar. Húsfreyjan. 1. apríl 1962, síða 25-27.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Veröld. 1985.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir.Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. Skagfirskir rósavettlingar. Gefin út af höfundi 2003.

HANDVERK | Skagfirskir vettlingar á handverkssýningu. Blómum prýddir rósavettlingar. Morgunblaðið 6. desember 2005. Hér er krækt í greinina á mbl.is.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. 1973, s. 14-15.

Jónas Hallgrímsson. Grasaferð. Jónas Hallgrímsson. Ritsafn. Helgafell. Fjórða útgáfa 1971.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja. Þriðja útgáfa 1961. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Margrjet Símonardóttir. Heimilisiðnaður. Iðnfjelag Viðvíkurhrepps í Skagafirði. Hlín. Ársrit Sambandsfjelags norðlenskra kvenna II, 1. tölublað 01.01.1918 [Ath. að tölublað og dagsetning hlýtur að vera rangt  því greinin er dagsett 10. ágúst 1918], bls. 26-28.

Matthías Þórðarson. Skýrsla um viðbót við Þjóðmenjasafnið árið 1910. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1911, bls. 70-98.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands1984, s. 10-13

Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Vikan 17.04. 1980, bls. 28-29. (Þetta er endurbirtur stór hluti greinar eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í Hugi og hönd 1973.)
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

2. apríl 2013

Íslenskir prjónaðir vettlingar

 Svo skemmtilega vill til að elsta prjónles sem fundist hefur á Íslandi er einmitt vettlingur: 
 

Vettlingur frá Stóru BorgÁrið 1981 fannst sléttprjónaður einþumla belgvettlingur í uppgreftri að Stóru-Borg undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er líklega frá fyrri hluta 16. aldar, og því elsta varðveitta íslenskt prjónles sem vitað er um. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.)

Sem sjá má á myndinni er vettlingurinn allur sléttprjónaður og ekkert stroff enda lærðu menn líklega ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sautjándu öld, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi 18. aldar. Hann er prjónaður gróft úr mórauðu tvíþættu ullarbandi, 3 lykkjur á sentimetra á hæðina en 4-5 lykkjur á sentimetra á breiddina. Annar einþumla belgvettlingur hafði fundist í uppgreftri á Bergþórshvoli 1927. Sá er einnig úr mórauðu spunnu ullarbandi og enn grófprjónaðri en sá sem fannst á Stóru-Borg, 3,5 lykkjur á cm á hæðina en 2,5 lykkjur á cm á breiddina. Vettlingurinn frá Bergþórshvoli er talinn heldur yngri eða frá því um 1600. Við fornleifaupparannsóknir í Kaupmannahöfn hefur fundist tugur tvíþumla vettlinga sem taldir eru íslenskt innflutt prjónles frá 17. öld. Þeir eru allir sléttprjónaði en með mismunandi lögun og úrtökum og ekkert sérlega líkir vettlingunum frá Stóru-Borg og Bergþórshvoli. (Elsa E. Guðjónsson. 1992.)

Þótt minjar séu fátæklegar er vitað að Íslendingar byrjuðu snemma að prjóna vettlinga, sjálfsagt nánast um leið og þeir lærðu að prjóna (einhvern tíma seint á 16. öld). Sokkar og vettlingar urðu mikilvæg útflutningsvara. Árið 1624 voru flutt út rúmlega 72 þúsund pör af sokkum og rúmlega 12 þúsund pör af vettlingum, nokkrar sveiflur voru í þessum útflutningi milli ára en nefna má að á dögum Almenna verzlunarfélagsins (1764-1773) voru árlega flutt út rúmlega 185 þúsund pör af sokkum og tæplega 71 þúsund pör af vettlingum. (Jón Aðils. 1971.) Óskráðir eru allir þeir vettlingar og önnur plögg sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn fengu send og seldu sjálfir, plögg sem Íslendingar seldu ýmissa þjóða sjómönnum við landið, sem og í vöruskiptaverslun innanlands.

Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu: Peysur, sokka, vettlinga, húfur o.fl. Jón Aðils nefnir að menn hafi lagt stund á þessa iðju af því ekkert annað var að gera á veturna og halda þurfti fólki hvort sem var, jafnt gamalmenni sem börn „sem eigi voru til annars hæf.“ (Jón Aðils. 1971.) Síðari tíma heimildir nefna að börn urðu eins og aðrir að skila ákveðnu prjónlesmagni eftir vikuna, venjulega tveimur sjóvettlingspörum þegar þau voru átta ára og síðan meiru eftir því sem þau eltust. Gamall húsgangur er til vitnis um þetta:
 

Fyrst þú ert komin á fjórða ár
fara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna.
 

(Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
 

Prjónlesið (prjónasaumurinn) greindist í tvo flokka: Eingirnisles (Enkelbaandsgods) og tvígirnisles (Dobbelbaandgods). Eingirnislesið var lika kallað púlsles eða duggarales, það var unnið úr grófu ótvinnuðu bandi. Duggaralesið var miklu algengara og hlaut nafn sitt af því að það seldist mest til hollenskra duggara á vorin en var allur gangur á hvernig gekk að selja það í kaupstað til útflutnings. Tvígirnislesið, einnig nefnt smáles eða tvíbandales, þótti fínna og var unnið úr fínu tvinnuðu bandi. Í smálessendingum frá fyrri hluta 18. aldar er minnst á belgvettlinga, venjulega einþumla en stundum tvíþumla, fingravettlinga og fleira prjónles. Duggaralesið/eingirnislesið var þó miklu algengara. (Jón Aðils. 1971.)

VettlingatréSokkar og vettlingar voru þæfðir og notuð sérstök sokka- og vettlingatré til að móta plöggin í rétta stærð. Eitthvað af af sokkatrjám hefur varðveist hér á landi en engin vettlingatré. Myndin af vettlingatré hér til hliðar er af slíku verkfæri sem var til sölu á eBay fyrir skemmstu og sagt gamalt. Líklega hafa íslensku vettlingatrén litið einhvern veginn svoleiðis út. Vettlinga og sokka þæfðu menn yfirleitt í höndunum og skv. Niels Horrebow, sem rannsakaði lifnaðarháttu hér á landi á árunum 1749-51, var allt þæft í keytu (stæku hlandi) með miklu erfiði og á frumstæðan hátt. (Áslaug Sverrisdóttir. 2004.) Horrebow segir reyndar að Íslendingar hafi nýtt heitar lindir (hveravatn) til að þæfa enda bæði þófni hraðar og plöggin verði hvítari með því móti. Svo bætir hann við að menn þæfi stundum sokka og vettlinga með því að sitja á þeim og aka sér fram og aftur og til hliðar; þetta komist upp í vana og menn sitji því og aki sér í sætinu þótt ekkert sé prjónaplaggið undir þeim. (Horrebow, Niels. 1752.) Líklega hefur Horrebow eitthvað misskilið athæfið því vandséð er hvernig hægt er að þæfa plagg með rasskinnunum! Haft er eftir konu fæddri 1841 að tíðkast hafi að ganga þannig frá vestfirskum laufaviðarvettlingum: „Þegar vettlingarnir voru búnir, voru þeir lóaðir, þæfðir og sléttaðir með því að sitja á þeim, meðan þeir þornuðu úr þófinu.“ (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.) Kann að vera að þessi siður sé gamall og Niels Horrebow hafi séð eitthvað svipað rúmri öld áður en misskilið.

Ljóst er að prjónlesið íslenska var afar misjafnt að gæðum og var frá upphafi útflutnings talsvert kvartað undan slælegum vinnubrögðum í íslensku prjóni og reynt að setja reglur þar um. Einþumlaðir vettlingar áttu að vera hæfilega stórir, tvíþumla vettlingar (sjóvettlingar) fullstórir og vel rónir, skv. dómi um duggarasokka frá 1606. (Jón Aðils. 1972.) Sé prjónað laust á grófa prjóna má dylja það ágætlega þegar búið er að svellþæfa flíkina, eins ef prjónið er misfast. Á hinn bóginn slitnar svoleiðis prjónles miklu hraðar en fastprjónað. Líklega hafa Íslendingar ekki gætt þess að prjóna fast og jafnt og enn er verið að kvarta undan svoleiðis vinnubrögðum seint á nítjándu öld:
 
 

Það er annars eptirtektavert með tvær þessa síðast töldu vöru tegundir [þ.e. „smáband og fingravetlinga“] hvað þær hafa selst illa erlendis nú hin næstliðnu ár, og hefir kaupstjóri Gránufjelagsins fært oss heim sanninn um það, að þetta væri mest því að kenna hvað varan hefði verið illa og óvandlega unnin. Fyrir fleiri árum síðan seldust fingravetlingar og jafnvel smáband fyrir það verð að töluverð atvinna var við að vinna þessa tóvöru enda var það þá stundað af allmiklu kappi hjer á Norðurlandi, en það var meinið að ekki var jafnframt hugsað um að láta vöruna vaxa að gæðum sem vexti, heldur þvert á móti einungis hugsað um parafjöldann og hvortveggi þessar vörur voru þá ver unnar sem fleiri stunduðu það, og meira var hugsað um að spara efnið. Á þenna lítt-nýta tóskap komst svo óorð og fyrirlitning svo hann hætti að seljast, og hafa menn þannig haft það fyrir óvandvirknina, að missa, að minnst kosti í bráð þess atvinnu, sem að vísu engan veginn gat heitið arðmikil, en þó var skaði fyrir þá að missa, er ekkert annað gátu gjört sjer að atvinnu í hins stað.
(Þingeyingur. 1880.)

Prjónaðir sokkar seldust fyrir miklu hærra verð en vettlingar frá upphafi útflutnings. Sem dæmi má nefna að árið 1616 jafngiltu: 24 duggarasokkar = 72 pör vettlingar = 48 pör valdari vettlingar = 1 hundrað fiskar.  Árið 1684 jafngiltu þrjú vettlingapör einu sokkapari. (Þorkell Jóhannesson. 1943.) Samt kepptust menn við að prjóna vettlinga uns kaupmenn sögðu stopp:

Í byrjun 18 aldar fóru Íslendingar að vinna miklu meira af vetlingum en sokkum, hvernig sem á því hefur staðið, en kaupmenn voru harðóánægðir með það og fengu því ráðið, að Íslendingum var bannað að vinna meira af vetlingum en til fimtunga við sokkana, og hélzt það upp frá því.
(Jón Aðils. 1971.)

Í verðlagsskrá frá 1861 kemur vel fram að enn borgaði sig engan veginn að prjóna vettlinga til sölu, sokkar voru mun vænlegri: Fyrir sjóvettlinga fengust aðeins 8 skildingar en fyrir eingirnissokka (duggarasokka) fengust 29 1/2 skildingur, 45 skildingar fyrir tvíbandssokka. (Verðlagsskrár. 1861.)
 

Hvernig voru vettlingarnir?

Fyrir utan fátæklegar minjar sem fundist hafa, eins og vettlingana á Stóru-Borg og Bergþórshvoli sem minnst var á í upphafi, er næsta lítið vitað hvernig vettlingar hér á landi voru gegnum tíðina eða hvernig vettlinga Íslendingar seldu út. Vettlingar eru þannig flíkur að þeim var slitið upp til agna og leifar þeirra fátíðar. Þó má e.t.v sjá vísbendingar um vettlingatísku séu skoðuð gömul málverk.

Hjón � Tálknafirði um 1700Vettlingar á 17. og 18. öldÁ myndinni hér til hliðar sjást líklega heiðurshjónin Þórður Jónsson og Guðný Einarsdóttir, sem bjuggu í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um og fyrir aldamótin 1700. Myndirnar skreyta tvo kirkjubekki sem nú eru á Þjóðminjasafni Íslands. Bæði eru þau spariklædd og Guðný húsfreyja heldur á mórauðum vettlingum „með háum svartbekkjóttum (flosuðum?) löskum í vinstri hendi.“ (Elsa E. Guðjónsson. 1994.) Smelltu á myndina til að sjá stóra mynd af vettlingum Guðnýjar.

Það er ómögulegt að sjá af máluðu myndinni hvort Guðný heldur á prjónuðum eða saumuðum vettlingum en í ljósi þess að í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru varðveittir prjónaðir fingravettlingar frá sautjándu og/eða átjándu öld sem eru mjög svipaðir þessum (sjá myndina til hægri sem krækir í myndasýningu með stórum myndum af dönsku vettlingunum) og að Gunnister-vettlingarnir skosku, frá því seint á 17. öld, eru einnig svipaðir í laginu má allt eins gera því skóna að Guðný húsfreyja í Tálknafirði hafi átt prjónaða vettlinga skv. tísku þeirra tíma. Hún hefur e.t.v. ekki haft lag á að prjóna sér fingravettlinga en hefur haldið háu uppslögunum/löskunum og kannski flosað (afbrigði af því að rýja) rendurnar efst til að gera vettlingana enn fínni.

Kona � reiðfötum 1772Tæpri öld síðar eru svona vettlingar eða hanskar með háum uppslögum enn í tísku á Íslandi ef marka má málverk John Cleveley yngri frá 1772 af íslenskri konu í reiðfötum. (Sé smellt á myndina til hægri kemur upp stærri mynd af hönskunum hennar.) Cleveley var í föruneyti Joseph Banks sem heimsótti Ísland þetta ár. Reiðkonan prúðbúna á myndinni er líklega klædd saumuðum vettlingum, með útsaumuðum eða baldýruðum uppslögum og myndarlegu kögri. Ég veit ekki hversu sennilegur þessi búningur er en hún er a.m.k. í hefðbundnum sauðskinnsskóm á myndinni.

Þótt Guðný Einarsdóttir í Stóra-Laugardal hafi þurft að láta sér prjónaða vettlinga nægja var ekki svo um háttsettar konur. Í skrá yfir þá muni sem Margrét Halldórsdóttir, dáin 21. júlí 1670, kona Brynjólfs biskups Sveinssonar, lét eftir sig eru m.a. taldir upp „fernir hanzkar, einir hvítir, einir baldýraðir, einir svart-baldýraðir og einir með gullvírsborðum.“ (Jón Aðils 1971, nmgr. s. 457.) Jón Aðils segir: „[- - -] hefur hún þó víst eigi verið neitt sérlega tildursöm eða skrautgjörn“ og víst er að Brynjólfur biskup gekk sjálfur ætíð í heimaunnum vaðmálsfötum til að setja alþýðunni gott fordæmi. (Æsa Sigurjónsdóttir. 2004.) Kannski hafa hanskar Margrétar biskupsfrúar líkst eitthvað hönskum prúðbúnu reiðkonunnar sem John Cleveley málaði öld eftir lát Margrétar.

 

Íslenskir tvíþumla vettlingar

�slenskur sjóvettlingurÁ byggðasöfnum hringinn í kringum landið má sjá tvíþumla sjóvettlinga frá því seint á nítjándu öld til byrjun tuttugustu aldar. Svoleiðis vettlinga má og sjá á söfnum erlendis og oftar en ekki eru þeir sagðir íslenskir en raunar bendir margt til að aðrar þjóðir sem seldu ríkulega af prjónlesi á svipuðum markaði og Íslendingar hafi prjónað eins vettlingar, t.a.m. eru tvíþumla vettlingar meðal þess sem Jótar prjónuðu til sölu. (McGregor, Sheila. 1984.) Á Jótlandi ríkti álíka barnaþrælkun í prjóni og hérlendis og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, þæfðu og seldu. Hér má sjá sænska tvíþumla vettlinga, líklega innan við aldar gamla, og hér norska tvíþumla sjóvettlinga en myndin til hægri er af íslenskum tvíþumla vettlingi á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.

Tvíþumla sjóvettlingar voru, eins og annað íslenskt prjónles, þæfðir vandlega og þurrkaðir og mótaðir á vettlingatrjám „og voru smátré sett í þumlana“. (Jónas Jónasson. 1961.) Þeir höfðu þann kost að þegar annar þumallinn slitnaði, af róðri og volki, mátti snúa vettlingnum og brúka hinn þumalinn óslitinn. Leitt hefur verið getum að því að sjóvettlingar hafi einmitt átt að vera óþarflega langir, „fullstórir“, því þá mátti brjóta endann inn í lófann til hlýinda. (Tilvitnun í Fred Hocker, starfsmann Vasa safnsins í Stokkhólmi, á vefsíðunni Ready to wear (1640s style). Þegar fiskimenn í nyrstu héruðum Noregs (Nordland og Troms) gerðu sig klára á fiskveiðar í Lofoten prjónuðu konurnar á þá sjóvettlinga út bestu ullinni, laust spunninni og lítt tvinnaðri, á grófa prjóna. Sjóvettlingarnar voru hafðir þrefalt stærri en venjulegir vettlingar því þeir áttu að fá endanlega lögun við þæfingu, annað hvort í sóda- eða sápuvatni - í fiskisúpu á stöku stað. (Nielsen, Ann Møller. 1988.) Eins og fyrr var sagt áttu íslenskir sjóvettlingar að vera vel rónir. Niels Horrebow lýsti aðferðinni þannig: „Þeir sem róa út á sjó klæðast vettlingunum, dýfa þeim öðru hvoru í hafið og þæfa þá þannig um leið og þeir róa, milli handanna og áranna - og þurfa ekkert að hafa fyrir þessu annað en að róa.“ (Horrebow, Niels. 1752.)

 

Tv�þumla vettlingur 1772Tv�þumla vettlingur 1772Ef marka má fyrri tíðar myndverk voru hvunndagsvettlingar karla almennt tvíþumla, þurfti ekki sjómenn til. Til vinstri er bútur úr málverki John Cleveley yngri af húsi og umhverfi þess við jaðar Garðahrauns 1772. Á annarri teikningu gerðri í för Banks hingað til lands 1772 sést lítil stelpa í tvíþumla vettlingi. (Báðar myndirnar krækja í stærri útgáfur.)

Tvíþumla vettlingar hafa stundum komið erlendum ferðamönnum spánskt fyrir sjónir, t.d. þessari ensku frú sem ferðaðist um Ísland laust fyrir 1890:

Þessir vettlingar […] eru gerðir eins barnsvettlingar, með þumal beggja vegna; og ef lófi vettlingsins slitnar þegar karlmaðurinn rær eða stundar aðra erfiða vinnu, snýr hann honum einfaldlega og notar hinn þumalinn. Þessir vettlingar eru venjulega prjónaðir úr grárri ull, þumlarnir hafði hvítir, og úr fjarlægð líkjast þeir kanínuhaus með löngum eyrum. (Tweedie, Alec. 1894.) 
 

P.S. Þríþumla vettlingar tíðkuðust á miðöldum í Evrópu og eitthvað lengur. Saga þeirra er rakin hér og finna má fleiri myndir á þessari síðu með leiðbeiningum fyrir miðaldahlutverkaleiki eða á teikningu Breu frá 1535-30 á British Museum. Mér vitanlega eru engar heimildir um að svoleiðis vettlingar hafi verið notaðir á Íslandi.
 
 

Um útsaumaða og útprjónaða vettlinga verður fjallað í næstu færslu.
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Áslaug Sverrisdóttir. Tóskapur. Ullarvinna í bændasamfélaginu. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands. 2004, s.197-203.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elsa E. Guðjónsson. Kirkjubekkir frá Stóra-Laugardal. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. 1994, s. 144-145.

Horrebow, Niels. Tilforladelige Efterretninger om Island med et nyt Landkort og 2 Aars Meteorologiske Observationer. 1752, s. 333-4. Aðgengileg á Google books og krækt í hana þar.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd 1973, s. 14-15.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón.  Hugur og hönd 1984, s. 10-13.

McGregor, Sheila. The Complete Book of Traditional Scandinavian Knitting. B.T. Batsford Ltd., London. 1984.

Nielsen, Ann Møller. Alverdens strikning - historie og teknik. Forlaged Ariadne, Fredericia. 1988

Tweedie, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. London. 1894, önnur útgáfa. Bókin er aðgengileg á Gutenberg.org og er krækt í hana þar.

Verðlagsskrár. Íslendingur, 8. mars 1861, s. 182.

Þorkell Jóhannesson. Ullariðnaður. Iðnsaga Íslands, síðara bindi, s. 135-153. Ritstjóri Guðmundur Finnbogason. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. 1943.

Þingeyingur. Nokkur orð um vöruvöndun og vörumat. Norðanfari 16. júní 1880, s. 80
 
Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðnaður og tíska. Breytingar á fatnaði í ellefu aldir. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands, 2004, s. 236-245. Greinina má einnig finna á vef Þjóðminjasafns og er krækt í hana hér.
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

24. mars 2013

Hver er dýrlingur prjóns?

Þótt prjónaskapur sé með göfugustu iðju er vafamál hvort nokkur dýrlingur hefur alfarið á sinni könnu að veita himneska hjálp við lykkjufalli eða redda prjónlesi með kraftaverki, það er ekki einu sinni á hreinu hvern best er að ákalla í þessum efnum. Þetta kemur óneitanlega á óvart því flest handverk/handverksmenn eiga sér sinn eigin dýrling - af hverju ekki prjónakonur (af báðum kynjum)?

Nokkrir eru þeir þó heilögu mennirnir (af báðum kynjum) sem sérstaklega eru tengdir prjóni en því miður hafa þeir ýmislegt annað á sinni könnu sem þeir eru þekktari fyrir, sumt ansi langt frá prjóni.

Í ritinu Dictionnaire Universel de Commerce, útg. 1723, eftir Savary des Bruslons, segir af gildi (iðnaðarmannasamtökum) prjónara í París, Gildi heilags Fiacra, sem stofnað var 1527. Dýrlingur prjónaranna var heilagur Fiacra, líklega valinn vegna þess að hann var talinn skoskur konungssonur og Frakkarnir höfðu það fyrir satt að prjónakunnátta hefði borist frá Skotlandi. Önnur yngri heimild segir að heilagur Fiacra hafi verið orðinn dýrlingur franskra húfugerðarmanna meir en 150 árum áður en prjónagildið valdi hann sem sinn dýrling.

Heilagur Fiacra var írskur munkur á sjöundu öld, sem þvældist um og endaði í Frakklandi. Hann undi sér við dæmigerða helgimannaiðju í lifanda lífi: Baðst fyrir, fastaði, sinnti sjúkum, ræktaði garðinn sinn o.s.fr. Honum var meinilla við konur og kvenfólki var alfarið bannaður aðgangur að klaustrinu sem hann stofnaði.

Fiacra dýrlingur prjónsSem dýrlingur er heilagur Fiacra þekktastur fyrir að vera verndari garðyrkju og lækningarjurta. En jafnframt er hann dýrlingur þeirra sem þjást af kynsjúkdómum (þetta hlutverk er tengt andúð hans á konum); dýrlingur þeirra sem þjást af gyllinæð (sem var kölluð veiki heilags Fiacra á miðöldum) og svo er hann dýrlingur leigubílstjóra! Miðað við þessi hlutverk heilags Fiacra finnst mér ekki sérlega gæfulegt að fela honum einnegin guðlega umsjá með prjónaskap þótt franskir prjónarar í iðnaðarsamtökum hafi kosið svo endur fyrir löngu.

Á myndinni sést stytta af heilögum Fiacra sem aðaldýrlingi írskra garðyrkjumanna. Fiacra starir á akarn sem hann heldur á.
 

Austurkirkjan býður upp á meira aðlaðandi dýrling fyrir trúaðar prjónakonur en sú rómversk-kaþólska, heilaga Paraskevu. Paraskeva er líka kölluð Petka, hugsanlega vegna þess að slavneskar goðsagnir af heiðinni gyðju með því nafni (nafnið þýðir föstudagur og paraskevi er gríska orðið yfir föstudag) hafi blandast við helgisögur af Paraskevu. Heilög Paraskeva er svo kennd við ýmis slavnesk lönd eftir smekk enda vinsæll dýrlingur þar eystra.

Petka dýrlingur prjónakvennaParaskeva fæddist í nágrenni Konstantínópel í Tyrklandi einhvern tíma á 11. öld og var dóttir velstæðra landeigenda. En þegar hún var tíu ára gömul boðaði raust guðs henni að fylgja sér og afneita öðru. Svo Petka litla gaf fátækum öll sín föt og allt sitt dót og hélt til Konstantínópel, foreldrum hennar til mikillar armæðu. Petka flæktist um (enda leituðu foreldrarnir hennar ákaft), gekk í klaustur, heimsótti Jerúsalem og lifði fábrotnu trúarlífi. Engill birtist henni í draumi þegar hún var 25 ára gömul og sagði henni að snúa heim, sem hún og gerði en tveimur árum síðar lést hún. Helgum dómum hennar (gripum og líkamsleifum) var dreift á kirkjur í nágrenninu, seinna meir voru þær fluttar til Belgrad, svo til Konstantínópel en á endanum var þeim safnað saman í kirkju í Rúmeníu.

Kannski er það vegna þess að Paraskeva gaf fátækum klæði sín að hún er höfuðdýrlingur spunakvenna, saumakvenna, vefara og prjónakvenna.
 

Í grísk-orþódoxu kirkjunni er 14. október helgidagur Petku/Parachevu.  Á síðunni sem krækt er í kemur fram að þennan dag, í Búlgaríu, megi konur helst ekki lyfta litla fingri og stranglega er bannað að spinna eða prjóna. (Í sumum búlgörskum þorpum ríkir algert bann við að snerta á ull næstu tólf dagana á eftir.) Samkvæmt þjóðtrúnni birtist heilög Petka í snákslíki þeim konum sem vinna með ull á helgidegi hennar. 

Litlum sögum fer af áhuga grísk-kaþólskra á að dubba upp nýjan prjónadýrling, enda Petka svo sem ágæt til starfans, en rómversk-kaþólskar prjónakonur eru sumar ekki hrifnar af honum Fiacra og vilja fá almennilegan einkadýrling prjóns. Eru þar helst nefndar sem kandídatar heilög Gemma Galgani (d. 1903 og tekin í heilagra manna tölu árið 1940) og heilög Rafqa (d. 1914 og tekin í heilagra manna tölu árið 2001). Báðar voru iðnar prjónakonur í lifanda lífi.

Vér lúterstrúar eða jafnvel vantrúar prjónakonur getum látið okkur fátt um finnast og haldið áfram að passa okkar lykkjur sjálfar. En það væri samt óneitanlega gaman að ótvíræður dýrlingur prjóns væri til …
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

29. september 2012

Prjónið og fagorðin

Elstu ritheimildir um prjón hér á landi er að finna í skjölum Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Þar segir:

af landskylldum giort j Suarf(ad)ardals vmbodum med Vrda jordum og Socku. anno 1582 j fardogum. burt golldit j kaupgiolld og skullder. [- - -] prioonasaumur 22 paur.

og

[- - -] a Vrdum Domnicia 2a post epi(phaniam) anno 1583 [- - -] a eg nü þar von ae af tijundarvadmalum xx alnum. jitem j vor ad kom v voder og vij alner. jitem prionasaumur lxxx og xvj pör.

(Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar, s. 227-228)

Árið 1581 bókar Guðbrandur biskup að upp í landskuld af Gardzhorni hafi verið goldið m.a. með „vj paur socka“ (Bréfabók G. s. 195) og minnist á „íííj paur so(k)ka“ í öðru skjali (Bréfabók G. s. 218). Það má því ætla að prjónasaumurinn sem hann nefnir 1582 hafi verið prjónaðir sokkar.

Orðið prjónasaumur var svo notað áfram yfir prjónaðar flíkur, allt fram á 20. öld, skv. dæmum Ritmálssafns (Orðabókar Háskóla Íslands) en frá miðri 17. öld hefur þekkst orðið prjónles og hefur það á síðari öldum orðið ofan á.

Orðið prjónaður kemur líka fyrst fyrir í efni tengt Guðbrandi biskupi, þ.e. í Guðbrandsbiblíu, Jóhannesarguðspjalli 19:24,  þar sem segir um kyrtil Jesú: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“ Í ofurlítið yngri heimild segir um sama kyrtil: „hann [kyrtillinn] var ecke saumadur helldur prionadur.“ (Passio, þýdd bók eftir Lúther, gefin út á Hólum árið 1600, s. 208.)

Orðið prjónn var þekkt í íslensku frá fornu fari og líklega merkti það síll/sýll eða alur, a.m.k. oddmjótt hvasst verkfæri. Í Sturlungu er nefndur Ögmundur nokkur sem hafði viðurnefnið prjónn. „[…] lat brenna allann [fjárhlut] sva ath konungr hafi hvorki af prionn ne pening“ segir Valgautur jarl í Ólafs sögu hins helga; “alin [er] kambur og prionn og nal” segir í lista yfir verðgildi í handriti af Búalögum, líklega frá 1550. Í Íslenskri orðsifjabók segir að uppruni orðsins sé umdeildur; sumir telji það fornt tökuorð úr fornslavnesku, prionu, sem sé sama orðið og prion[i] í grísku og merki sög eða bor. Aðrir haldi að orðið sé af germönskum toga, upphaflega rótin hafi verið *preu-, sem þýði stinga eða ota. Í sömu heimild segir að ólíklegt sé að íslenska orðið prjónn sé tökuorð úr fornensku, fornenska (og miðenska) orðið var preon, en það er ekki rökstutt nánar. Cleasby og Vigfússon halda því hins vegar fram að íslenska orðið prjónn samsvari gelíska orðinu prine og skoska orðinu prin. Í miðensku var til orðið preon, sem þýddi prjónn, og mögulega sögnin preonen (dæmin sem tekin eru í A Middle English Dictionary eftir Stratman um þessa sögn sýna ekki afdráttarlaust að hún hafi þýtt að prjóna þótt höfundur orðabókarinnar staðhæfi það). Í Hjaltlandseyja-Norn var til nafnorðið prin, sem þýddi alur eða stór títuprjónn. Jakob Jakobsen telur að þetta sé sama orðið og íslenska orðið prjónn. Í færeysku er til orðið prónur (eldra preunur) sem þýðir stór títuprjónn eða prjónn og rekja má þetta orð víðar.

Í Guðbrandsbiblíu sést mætavel að orðið prjónn hefur á dögum Guðbrands ennþá verið samheiti við al eða sýl þótt Íslendingar hafi þá tileinkað sér tæknina að prjóna og líklegt er að sögnin sé mynduð með hliðsjón af verkfærunum, prjónum: „… tak einn Prion / og stijng i giegnum hans Eyra“ (5. Mósebók 15:17) - í nútímaþýðingu er klausan: „…  þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans.“ Annars staðar í Guðbrandsbiblíu stendur: „… og stinga i giegnum hanns Eyra med Al“ (2. Mósebók 21:6) - nútímaþýðingin er: „[Síðan skal húsbóndi hans] stinga al í gegnum eyra hans.“

PjonaDanski málfræðingurinn Inge Lise Pedersen telur að norska sögnin pjåna eða pjaodna sé upphaflega sama sögn og sú íslenska, prjóna.  Hún vitnar í Ross [sem hlýtur að vera Hans Ross orðabókarhöfundur, f. 1833, en heimildar er að öðru leyti ekki getið] sem skýri sögnina „hekle ell. strikke paa en egen maade“. Orðið var algengast á Hörðalandi. Nú á dögum er norska nafnorðið pjoning notað um ákveðið hekl, stundum kallað bosnískt hekl (shepherd’s knitting á ensku), sem er eiginlega bara heklaðar fastalykkjur. Hekl er hins vegar miklu yngri tækni á Norðurlöndunum en prjón. Inge Lise Pedersen rökstyður að pjåna hljóti að hafa upphaflega átt við nálbragð. (Rökstuðning fyrir hinu sama má sjá í grein Margarete Morset, Hårnål eller heklenål? í tímaritinu Spor 1987.) Af því að orð geti færst af einni tækni yfir á aðra geri það mönnum erfiðara fyrir að að meta hvort upplýsingar [Ross] um að pjåna hafi þýtt prjóna sé misskilningur eða að sú merking hafi verið til en sé nú týnd, segir Pedersen. Hún getur sér síðan til að pjåna hafi áður verið notað um ákv. tvíbandaprjón, kallað tvåäandstickning nú, og enn eldri notkun sé nálbragð. Loks stingur hún upp á að Norðmenn hafi haft orðið í farteskinu þegar þeir námu land á Íslandi og jafnvel mætti halda því fram að orðið pjåna (nú pjona) sé nú eitt af örfáum íslenskum tökuorðum í norsku. Satt best að segja skil ég ekki alveg hvernig hún hugsar síðastnefndu fullyrðinguna en vel að merkja segir Pedersen sjálf að hún sé „kættersk tanke“ (villutrúarhugmynd)!  Fyrir um ári síðan bar ég þessi líkindi með pjone og prjóna undir málfræðinginn Guðrúnu Kvaran en hún taldi ekki vera tengsl milli þessara tveggja orða. Myndin er af pjoning-nál og pjonuðu stykki.
 

Til að draga þetta saman má segja að nokkuð öruggt sé að íslenska orðið prjónn hafi verið til, í annarri merkingu þó, þegar Íslendingar lærðu að prjóna. Það að dregin sé sögn af þessum verkfærum (prjónum) hafa sumir viljað tengja við Englendinga, því líkt orð þekktist um verkfærið prjón á ensku, og notað sem rök fyrir að Íslendingar hafi lært að prjóna af enskum sjómönnum. En af því orðið má rekja víðar eru þetta ekki sérlega góð rök fyrir þeirri tilgátu, allt eins líklegt er að Íslendingar hafi lært þessa tækni af hollenskum eða þýskum. Mögulegt er að eitthvert orð hafi verið til í íslensku yfir nálbragð sem líktist sögninni prjóna en um það er ekkert vitað. (Kristján Eldjárn stakk á sínum tíma upp á orðinu nálbragð og mér vitanlega er ekki varðveitt neitt gamalt íslenskt orð yfir þá tækni.)
 

Gömul prjónaorð á hinum Norðurlöndunum
 

 • Binde var algengasta sögnin fyrir prjóna í Danmörku. Það er reyndar líka þekkt í eistlandssænsku, sums staðar í Noregi og í Færeyjum. Enn þann dag í dag binda Færeyingar og nota til þess stokka (orðið yfir prjóna).
 • Knytte var notað í Danmörku og Skáni og Hallandi í Svíþjóð. Í Slésvík var orðið notað yfir h-prjón, þ.e.a.s. þegar menn prjónuðu líkt og Englendingar gera ennþá, kasta þræðinum yfir með vísifingri á hægri hönd, en á Mið-Sjálandi var knytte aðallega notað um v-prjón, þ.e.a.s. prjónaðferð þá sem  Norðurlandabúar nota flestir í dag þar sem garnið hvílir á vísifingri vinstri handar.
 • Lænke var einungis notað í Danmörku, á Lollandi, Falstri, Vestmøn og Suður-Jótlandi.
 • Pregle er lágþýskt tökuorð og var notað syðst á Jótlandi.
 • Pinde var notað á afmörkuðu svæði á Vestur-Jótlandi.
 • Spete þekktist í Borgundarhólmi og á Suður-Skáni.
 • Sy var notað sums staðar í Smálöndum og Austgotalandi.
 • Sömma þekktist víða annars staðar í Svíþjóð yfir prjóna.
 • Sticka er gamalt orð  í mjög mörgum sænskum mállýskum. Sticka getur líka þýtt sauma. Svíar sticka nú á dögum þegar þeir prjóna.
 • Strikke / stricke var notað í Danmörku og Svíþjóð. Orðið kemur fyrir í ýmsum myndum, t.d. þekkjast strick-, strix, strigstrømper í  dönskum textum frá 17. öld. Strikke er nútíma danska og norska sögnin yfir prjóna.
 • Spita (og spyte) var algengt víða í Noregi. Sums staðar var notað orðmyndin spøte.

Að mati Inge Lise Pedersen má skipta norrænum orðunum sem þýða prjóna nokkurn veginn í þrjá flokka:

Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er við garnið; binde, knytte, lænke, strikke þýða í raun öll að hnýta saman þráð í hnúta eða lykkjur;
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er með prjónunum; pinde, pregle, prjóna, spøte (og sticka?) lýsa því að prjónum er stungið í lykkjur til búa til nýjar lykkjur;
Flokkur orða sem eru fengin að láni úr annarri hannyrðahefð; sy, sömma (og sticka?).
 
 
 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar birt af Hinu Íslenzka Bókmenntafélagi 1919-1940. Páll Eggert Ólason sá um þessa útgáfu.
Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
Føroysk orðabók. Føroya Fróðskaparfélag 1998.
Guðbrandsbiblía (Biblía. Þad Er Øll Heilóg Ritning vtlógd a Norrænu.) útg. 1584.
Jakobsen, Jakob. Etymologisk ordbog over det norrøne sprog på Shetland. Útg. 1921.
Jón  Hilmar Magnússon. Íslensk færeysk orðabók. Útg.  2005
Luther, Martin. Passio. Þad er Historian Pijnunnar og Daudans vors Frelsara Iesu Christi. Útg. 1600.
Morset, Margarete. Hårnål eller heklenål?  Spor - fortidsnyt fra midt-norge. 1987, 2. árg. 4. hefti s. 8-9.
Orðabók Árnanefndar: Ordbog over det norrøne prosasprog. Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóli.
Pedersen, Inger [svo] Lise. Binde, pregle, spita, sticka, sy. Udkast til en kortlægning af nordisk strikketerminologi. Nordiska Studiar. Innlegg på den tredje nordiske dialektologkonferansen, s. 303- 325. Útg. 1988 (en ráðstefnan var haldin 1986).
Svabo, J. C. Dictionarium Færeoense. Færøsk - dansk - latinsk ordbog. Útg. 1966
Stratmann, Francis Henry og Henry Bradley. A Middle-English Dictionary. Útg. 1891.

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

23. september 2012

María mey prjónar

Til eru nokkur gömul málverk sem sýna Maríu mey prjóna. Þessi málverk eru fyrst og fremst heimild um að prjón hafi þekkst á dögum málaranna og á þeirra heimaslóðum.  En auðvitað eru þessar myndir líka heimild um kyrtilinn saumlausa hans Jesú og að mamma hans hafi prjónað hann :)
 

Mar�a mey prjónar  

  Ambrogio Lorenzetti bjó í Siena á Ítalíu. Talið er að hann hafi látist 1348 þegar svartidauði geisaði í borginni. Þetta málverk tilheyrir myndastíl sem kallaður hefur verið Madonna auðmýktarinnar, Madonna dell’Umilitá. Á slíkum myndum situr María mey ekki í hásæti heldur á gólfinu. Talið er að Lorenzetti hafi málað þessa mynd um 1345. María prjónar úr rauðu garni með fjórum prjónum í hring en ómögulegt er að sjá hvað hún er að prjóna. Garninu bregður hún yfir hægri vísifingur. Á gólfinu sést hringlaga tréstykki með garnspólum í ýmsum litum. Jósef situr þarna hjá mæðginunum.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af Maríu og Jesú.

Mar�a mey prjónar 
  

  Þetta málverk er eftir ítalska málarann Tommaso da Modena (1325-1375). Það er hluti af þremur panelmyndum þar sem María situr alls staðar í hásæti: Á einni myndinni situr hún með bók í kjöltu sér, á annarri hefur hún Jesúbarnið á brjósti og á þessari þriðju er hún að prjóna, með Jesú sér við hlið. Hún prjónar í hring, að því er virðist með fimm prjónum, Garnið er á spólum á hringlaga stykki, alveg eins og á mynd Lorenzetti, en á þessu málverki situr María með spólustykkið kjöltunni. Talið er að myndin sé máluð á árabilinu 1345-1355.Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu.

Mar�a prjónar saumlausan kyrtil Jesú  

  Þetta er líklega frægasta myndin af Maríu mey að prjóna, málverkið er hluti af Buxtehude-altaristöflunni svokölluðu (af því hún var máluð fyrir benediksnunnur í Buxtehude, Þýskalandi). Meistari Bertram (af Minden), þýskur málari sem uppi var 1345-1415, málaði Buxtehude-altaristöfluna líklega skömmu fyrir árið 1400. Þessi hluti altaristöflunnar er oft nefnd “Heimsókn englanna” enda sjást þeir Mikael og Gabríel erkienglar heimsækja þau mæðgin Maríu og Jesú, berandi tákn sem boða krossfestinguna. 

María er að ljúka við kyrtilinn saumlausa, sem Jesú bar síðan til dauðadags. Hún hefur prjónað hann í hring, á fjóra eða fimm prjóna, og virðist hringúrtaka á berustykkinu.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. 

Mar�a mey prjónar
  

  Þetta málverk sýnir Madonnu auðmýktarinnar, Madonna dell’Umiltà, og var málað af  ítalska málaranum Vitale degli Equi. Málverkið er talið frá því um 1350. Á því sjást Maríu mey, heilög Katrín og einhver annar dýrlingur. Jesús litli situr við hlið móður sinnar og grípur í garnspólu á hringlaga borði. Að sögn Richards Rutt (í A History of Hand Knitting) er María með prjónles í hendi en er einmitt að kitla Jesú litla undir kinn með vísifingri sömu handar. Prjónlesið er með blómamunstri í tveimur litum. Ekki er hægt að sjá hvað þetta á að vera, það virðist of vítt til að vera sokkur, of þröngt til að vera barnskyrtill. Rutt stingur upp á að þetta sé skjóða, svipuð og fornar svissneskar skjóður sem hafa varðveist og geymdu helga dómaSmelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. Sjálf get ég ekki með nokkru móti séð að þetta sé prjónað stykki, hvað þá að ég komi auga á prjónana. Og ég sé ekki betur en María hafi sex fingur … En ég hef náttúrlega ekki séð málverkið sjálft, sem ég reikna með að Richard Rutt hafi skoðað vel. 
 

Mar�a mey nálbregður kyrtil 

  Þessi mynd sýnir hluta koparstungunnar Heilaga fjölskyldan eftir Veit Stoß/Stoss (kallaður Wit Stwosz á pólsku) sem uppi var 1447-1533. Hann var þýskur en starfaði um tíma í Póllandi. Koparstungan er talin frá um 1480 og sýni Maríu nálbregða kyrtilinn saumlausa. Henni var fleira til lista lagt en prjónaskapur. 
 

Mar�a mey prjónar sokk 

  Á þessari tréristu frá 1619, eftir hinn flæmska Hieronymus Wierix, sjást þeir feðgarnir Jósef og Jesús smíða bát og englar aðstoða Jesú við verkið. María situr hjá og prjónar sokk, að því er virðist úr tveimur hnyklum í senn svo kannski hefur þetta verið útprjónaður sokkur.

Mar�a mey prjónar kyrtil 

  Þessi mynd af Maríu að prjóna, líklega kyrtilinn saumlausa, er mun nýrri en myndirnar að ofan. Þetta er grafíkmynd eftir breska listamanninn Eric Gill (1882-1940).

Mar�a og helgar meyjar 

  Á þessu málverki frá 1465, sem bræðurnir spænsku Nicolás og Martín Zahortiga máluðu, sést María í hásæti og heldur á Jesú. Í kringum hana eru margar helgar meyjar og sumar þeirra sinna hannyrðum; ein saumar, tvær vefa og ein er að prjóna marglitan sokk. Smelltu á myndina til að sjá stækkaða útgáfu af hannyrðakonunum. 

Hér að neðan eru tvær aðrar myndir sem sýna helgu prjónakonuna, smelltu á þær til að sjá stærri útgáfur:
Helg mær prjónar Helgar meyjar og hannyrðir

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

20. september 2012

Sture-vettlingurinn og dramatík í konungsfjölskyldu

Sture vettlingurinnÞennan fingravettling átti Svíinn Sten Svantesson Sture. Hann var af stórmennum kominn því faðir hans var Svante Stensson Sture, ríkismarskálkur, greifi, fríherra og á tímabili landstjóri yfir Eistlandi. Svante var og vinur konungs, Eiríks XIV, en því miður var sá kóngur geðveikur, talinn hafa þjáðst af geðklofa, og vó Nils Svanteson, bróður Stens í brjálæðiskasti. Menn konungs drápu föðurinn, Svante, og annan bróður, Erik Svantesson, við sama tækifæri. (Eiríkur XIV Svíakonungur kemur reyndar líka við prjónasögu Svíþjóðar því hann er talinn fyrstur Svía hafa eignast prjónaða sokka, árið 1562. Sokkarnir voru enskir, prjónaðir úr silki og rándýrir.) Eiríkur konungur má eiga það að hann iðraðist þessa óhæfuverks ákaflega þegar af honum bráði.

Móðir Stens Svantessonar Sture var Märta Erikdotter Leijonhufvud.  Hún var systir drottningar Svíþjóðar á tímabili, þ.e. Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud, sem hafði raunar upphaflega verið trúlofuð Svante Stensson Sture en Gústaf konungur Vasa sleit trúlofuninni og kvæntist Margaretu sjálfur. Svante fékk eiginlega Mörtu í staðinn. Marta þessi var kunn að stórmennsku, eignaðist 15 börn með Svante sínum, sá iðulega ein um börn og bú því Svante var mikið að heiman og hlaut viðurnefnið Marta konungur af sínum skörungsskap. Í anda sumra kvenhetja Íslendingasagna  varðveitti hún blóðug klæði feðganna og lét koma þeim fyrir í skreyttri járnkistu í grafhvelfingu Sture fjölskyldunnar í dómkirkjunni í Uppsölum. Því miður hefur dálítið verið rutlað með klæðin síðan og hluta þeirra stolið í aldanna rás en það sem eftir er þykir mikilvægur skerfur í klæðasögu Svía

Sture drápin voru framin 24. maí 1567. En þá hafði eigandi fingravettlingsins verið látinn í tvö ár. Sten Svantesson Sture var nefnilega skipherra á herskipi konungs og féll í sjóorustu við Rügen 1565, 21 árs að aldri. Einhverjum fötum hans var einnig komið fyrir í járnkistunni, þ.á.m. þessum fingravettlingi. Hann var upphaflega nældur við skipherrahattinn hans Stens en hattinum hefur fyrir löngu verið stolið.

Fingravettlingurinn er prjónaður úr silkigarni og gullþræði. Prjónafestan er um 9 lykkjur á sentimetra. Upphaflega voru litirnir í munstrinu gulur, grænn og appelsínugulur og grunnurinn skarlatsrauður (að sögn Agnesar Gejer) en sumir litirnir hafa upplitast mjög (mér finnst reyndar þessi staðhæfing Gejer um „karmosinröd botten“ tæplega geta staðist). Á vísifingri, baugfingri og litlafingri eru prjónaðir hringir úr gullþræði. Orðin „FREVCHEN SOFIA“ eru prjónuð í hring um miðjan vettlinginn (segir Agnes Gejer, Richard Rutt og Nancy Bush segja þessi orð prjónuð yfir lófann). Handarbreidd er 7 cm og vettlingurinn er 17 cm langur. Það er mjög lítill vettlingur og þess vegna giska menn á að Sofia þessi hafi átt hann því hann geti ekki hafa passað á Sten. Sjá má stærri mynd af vettlingnum með því að smella á myndina sem fylgir færslunni.

En hver var Sofia? Til þessa hafa menn talið að þetta hafi verið einhver þýsk stúlka (fröken Soffía sem sagt) sem hafi verið trúlofuð Sten Svantesson Sture og fingravettlinginn hafi hún sjálf prjónað og gefið Sten í tryggðapant. Nýverið hefur svo verið sett fram sú kenning að „frevuchen“ hafi á sextándu aldar sænsku þýtt prinsessa. Þessi kenning er eignuð Lise Warburg, mjög frægri danskri veflistarkonu sem jafnframt hefur skrifað talsvert um textílsögu - í hana vitnar Nancy Bush í grein um hanska í tímaritinu Knitting Traditions 2010. Ég hef því miður ekki komist yfir frumheimildina.

Sofia Gústafsdóttir VasaAf frásögn Nancy Bush af því sem Lise Warburg heldur fram má ráða að Sofia sé engin önnur en Sofia Gustavsdotter Vasa, dóttir Gústafs Vasa Svíakonungs og Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud. Sofia Vasa var þremur árum yngri en Sten Svantesson Sture og skv. þessu voru þau trúlofuð þegar Sten féll. Þremur árum síðar giftist hún dusilmenninu Magnúsi II hertoga af Sachsen-Lauenburg, fyllibyttu sem lagði margoft hendur á hana og var ömurlegur eiginmaður. Magnús þessi var bróðursonur fyrri konu Gústafs Vasa, sem sagt ekki skyldur Sofiu en nátengdur fjölskyldu hennar. Jóhann III Svíkonungur, sem tók við þegar Eiríkur XIV var settur af vegna geðveiki (og seinna myrtur með arseniki), var albróðir Sofiu og rak Magnús hertoga úr landi þegar þau Sofia höfðu verið gift í tíu ár. Eina son sinn missti hún ungan af voðaskoti. Eftir það bjó hún ein til dauðadags en hún lést 64 ára að aldri. Hún varð sinnisveik á sínum hjónabandsárum og jafnaði sig aldrei. Sofia hefur verið sögð „óhamingjusamasta barn Gústafs Vasa“ - líklega hefur hún mornað og þornað og aldrei táð tanna frá því fullorðinsaldri var náð. Sjá má yfirlit yfir æviferil Sofiu hér.

Kenningin er skemmtileg en í fyrsta lagi finnst mér allt eins líklegt að „freuvchen“ hafi verið þýska orðið yfir fröken og í öðru lagi má benda á að þau Sten Svantesson Sture og Sofia Gustavsdotter Vasa voru systrabörn og spurning hvort hjónaband þeirra hefði verið löglegt í Svíþjóð á sextándu öld?

En hvort sem einhver þýsk frauka að nafni Sofia eða Sofia Svíaprinsessa prjónaði og átti þennan fingravettling er þetta fallegur vettlingur. Hann er með elsta prjónlesi sem varðveist hefur í Svíþjóð.
 

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Bush, Nancy. 2010. „Romantic Gloves“ í Knitting Traditions 2010;
Gejer, Agnes. 1964. Textila skatter i Uppsala domkyrka från åtta åhundraden;
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

18. september 2012

Baltneskir vettlingar

Í þessari færslu er einkum fjallað um prjónaðan eistneskan vettling frá 13. öld en einnig gerð lítilsháttar grein fyrir eistneskum og lettneskum vettlingum.
 
 

Vodíski vettlingurinn í Eistlandi

Lítil prjónapjatla fannst í uppgreftri í vodískum greftrunarstað í eistneska bænum Jõuga árið 1949. (Vodar voru þjóð sem talaði finnsk-úgrískt tungumál, nú nánast útdautt, og bjuggu við Eystrasalt og í Rússlandi. Leitt hefur verið getum að því að Kylfingar þeir sem koma fyrir í Egils sögu hafi verið Vodar en sú ágiskun er reist á afar ótraustum grunni.) Í gröfinni í Jõuga hvíldi kona og af því þessi litla pjatla lá við handarbeinin er talið að hún sé leifar af belgvettlingi. Sú ágiskun byggir á því að prjónaðir hanskar/ fingravettlingar urðu ekki vinsælir meðal eistneskrar alþýðu fyrr en á átjándu. öld. Gröfin er talin vera frá því einhvern tíma á árabilinu 1238-1299.

Þessi vettlingur hefur verið prjónaður á nokkra prjóna, þ.e. sléttprjónaður í hring. Raunar er allt elsta prjónles sem hefur fundist prjónað þannig því menn lærðu ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sextándu öld, að talið er. Hann var tvíbandaprjónaður úr ullargarni og eru litirnir í munstrinu rauður og blár, grunnurinn úr ólitaðri hvítri ull. Bláa garnið var litað með indígó og rauða garnið með möðrurót (Rubia tinctorum). Rauður litur var talinn hafa varnarmátt segir í greininni sem ég styðst aðallega við um þennan vettling.
 
 

Vod�ski vettlingurinn 
Myndin er af vodísku prjónapjötlunni
Vod�ski vettlingurinn

Pjatlan er líklega af stykki sem leit svona út

Vod�ski vettlingurinn munstur

Munstrið er svona

Menn hafa eitthvað deilt um hvort þessi vettlingur og nálbrugðnir vettlingar sem fundist hafa í vodískum grafreitum í norðaustur Eistlandi hafi verið hluti af líkklæðum, hafi verið hluti af brúðarklæðum hinnar látnu eða tilheyrt hvunndagsklæðnaði. Helst er talið að vettlingarnir hafi verið prjónaðir sérstaklega fyrir jarðsetningu.

Vettlingspjatlan úr vodíska grafreitnum í Jõuga er elsta þekkta dæmið um prjón í austur og norður Evrópu og er þ.a.l. stórmerkilegur fundur. Sjá má endurgerð af þessum vettlingi hér.

Þeim sem vilja kynna sér þennan merka vettling rækilega er bent á grein Anneke Lyffland: A study of a 13th-century votic knit fragment.  Í grein Juri Peets, Totenhandshuhe im Bestattungsbrauchtum der Esten und anderer Ostseefinnen (birtist fyrst í Fennoscandia archaeologica IV árið 1987), er gerð grein fyrir vettlingaleifum fornum sem fundist hafa í Eistlandi en allir nema þessi sem um var fjallað að ofan eru nálbrugðnir.
 
 

Aðrir eistneskir vettlingar

Til skamms tíma var bók eistneska þjóðfræðingsins Ilmari Manninen, Eesti Kindad (Eistneskir vettlingar), útg. 1927 helsta heimildin um efnið. Hægt er að hlaða henni niður á pdf-formi héðan og þótt maður skilji ekki orð í eistnesku er gaman að skoða myndir af gripunum sem hann fjallar um, athugið að aftast í bókinni eru litmyndir.
 

Til gamans má geta þess að Eistur nálbrugðu vettlinga langt fram á átjándu öld þótt prjónakunnátta hafi fyrir löngu verið almenn og er í Eistlandi þekkt orðatiltækið „Prjónaðir vettlingar - löt eiginkona“ (sjá s. 16 í Crafts and Arts in Estonia). Það tekur vitaskuld miklu lengri tíma að nálbregða vettling en prjóna hann og nálbrugðinn vettlingur raknar ekki svo glatt upp. Í Karelíu í Finnlandi var haft á orði alveg fram undir seinni heimstyrjöldina að eiginkona væri illa að sér kynni hún ekki að nálbregða og var þar um slóðir lagt þeirri konu til lasts að geta ekki nálbrugðið vettlinga handa sínum eiginmanni (sjá tilvitnun í Toini-Inkeri Kaukonen, „Kinnasompelun levinneisyys ja työtavat Suomessa“, Suomen Museo 1960, s. 44-71, á  Neulakinnas Nalbinding). Þessi orðatiltæki sýna áhugaverð tengsl milli prjónamenningar finnsk-úgrískra þjóða.
 

Eistnesk prjónabókÁ síðunni Silmuskudumise ajaloost (prjónasaga) á Etnograafilised koed - kirjamine ja roosimine sést mynd af eistneskum fornleifum (vettlingum). Krækjur á krækjulista til vinstri á síðunni vísa á síður með myndum af gömlu eistnesku prjónlesi, þó ekki fornminjum. Það er mjög gaman að skoða þessa síðu. Myndin til hægri er af eistneskri prjónabók um vettlinga, sem er nýkomin út á ensku (myndin krækir í sölusíðu Amazon). Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá þarna íslenskan galdrastaf, draumstaf eða Ginni, útsaumaðan á handarbök því uppskriftir í bókinni eru sagðar byggja á gömlum hefðbundnum eistneskum mynstrum.

Lettneskir vettlingar

Eistneskur vettlingur frá 15.öldIrena Turnau heldur því fram að í Lettlandi hafi fundist prjónles frá fjórtándu og fimmtándu öld: Prjónuð húfa og fernir vettlingar, þar af tvennir fingravettlingar. (Turnau, Irena, 1991. History of Knitting before Mass Production.)  Því miður hef ég ekki fundið neinar myndir af þessum gripum og heldur ekki getað haft upp á umfjöllun um þá, hef einungis fundið munstrið sem sést hér til hliðar og ku vera af öðrum af þessum fingravettlingum, frá fimmtándu öld. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.) Satt best að segja hafa margir lýst vantrausti á fullyrðingar Irenu Turnau um hversu gamlar leifar af prjónlesi við Eystrasalt og í Austur-Evrópu eru. Heimildir þær sem hún vísar í liggja hins vegar ekki á lausu.

Hafi fólk áhuga á lettneskum vettlingamunstrum mæli ég með síðunum:

 

 • LATVIEŠU CIMDU RAKSTOS (Lettnesk vettlingamunstur) á RITMS un SIMETRIJA. Krækjur til vinstri á síðunni vísa í myndir af fjölda lettneskra vettlingamunstra;
 • Picasa-síða Iaima Stendze geymir mörg lettnesk munstur, líklega skönnuð úr bók, sjá Latviešu rakstainie cimdi.
   

Litháískir vettlingar

Einhverra hluta vegna virðist áhugi á litháískri prjónamenningu og þ.m.t. vettlingum vera miklu minni en á þeim eistnesku og lettnesku. Áhugasamir ættu þó að geta fundið einhvern fróðleik á vef Donnu Drochunas, Sheep to Shawl, sem er að skrifa bók um litháískt prjón. Sjá t.d.:

Tengsl milli baltneskrar og tyrkneskrar prjónahefðar?

Bent hefur verið á líkindi milli baltneskra (eistneskra og lettneskra) vettlinga og tyrkneskra sokka, bæði hvað varðar munstur og snið (sbr. baltneskir totuvettlingar og tyrkneskir totusokkar með totuhæl). Anne Zilboorg segir í bókinni Traditional Knitting Patterns of Turkey. Fancy Feet, útg. 1994, s. 9-10: „Sumir lettneskir vettlingar og tyrkneskir sokkar eru svo líkir og svo ólíkir prjónahefð annars staðar að það er erfitt að horfa fram hjá mögulegum tengslum. [- - -] Ein skýringin á tengslum milli þessara prjónahefða kann að vera norður-suður verslunarleiðin frá Byzans [Miklagarði] gegnum Rússland [Garðaríki], sem blómstraði uns Mongólar náðu yfirráðum í Rússlandi á þrettándu öld.“ Sjálfri finnst mér þetta afskaplega ólíkleg skýring og held að líkindin séu tilviljun.
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns

12. september 2012

Saga prjónaðra vettlinga og hanska I

Saga hannyrða er eitt af áhugamálum mínum. Miðað við heimsóknir á bloggið og vefsíður um efnið (oftast gegnum Google-leit) er nokkur hópur sem hefur einnig áhuga á þessu. Færslan verður fléttuð í vefinn Saga prjóns síðarmeir. Mér finnst ágætt að blogga fyrst um efnið, fá athugasemdir og ganga svo endanlega frá skrifunum á vef.
 

Áður en prjónakunnátta varð algeng í Evrópu voru vettlingar og hanskar saumaðir eða nálbrugðnir. Hér á landi hafa fundist minjar um hvort tveggja: Sjá t.d. mynd af íslenskum saumuðum vaðmálsvettlingum, greinina Three Icelandic Mittens á Medieval Baltic, grein Elsu E. Guðjónsson, Forn röggvavefnaður, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1962 og grein Margarethe Hald, Vötturinn frá Arnheiðarstöðum, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949. Á síðunni Hansker og votter á Kongshirden 1308 Akershus má sjá nokkrar myndir af gömlum norskum og sænskum nálbrugðnum vöttum. Finnar héldu áfram að nálbregða vettlinga fram á 19. öld, þótt þeir hefðu þá fyrir löngu lært að prjóna. Á síðu Satu Hovi er grein um þetta, Viking and Medieval Nålebinding Mitten Replicas. Based on archaeological finds from Finland, með fjölda mynda.

 

 

Biskupshanskar

Rauður prjónaður biskupshanskiHin nýja tækni, prjón, var mjög snemma tekin í þjónustu kirkjunnar. Í safni elsta prjónless sem varðveist hefur í Evrópu er fjöldi biskupshanska, hverjir öðrum skrautlegri.  Líklega höfðu biskupar tekið upp skrúðhanska (litúrgíska glófa) talsverðu fyrir daga prjóns, þá saumaða eða nálbrugðna. Virðist notkun skrúðhanska orðin almenn á 12. öld, á 14. öld báru þá allir biskupar og sumir ábótar og aðrir kirkjunnar þjónar. Yfirleitt voru þessir hanskar nefndir grísku heiti, stafsett chirothecae á enskan máta (sem þýðir eiginlega „handa-hulstur“). Myndin er af fremur dæmigerðum spænskum prjónuðum biskupshanska úr silki, frá sextándu öld. Sé smellt á myndina opnast síða um hanskann á vef Viktoríu og Albertssafnsins í London.

nálbrugðinn hanski biskupsins � ToledoNálbrugðinn hanski frá 13. öldTil vinstri má sjá mynd af nálbrugðnum hanska Rodrigo Ximanénez de Rada, erkibiskups í Toledo, sem dó árið 1247.  Glófarnir hans voru fallega „útnálbrugðnir“ úr fínum silkiþræði eins og önnur nálbrugðin spænsk stykki frá sama tímabili. Mun yfirlætislausari eru nálbrugnir hanskar Pierre de Courpalay ábóta, sem lést 1334, sjá mynd til hægri. Þeir eru úr ólituðu silki en fallega munstraðir. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Biskupshanskar/biskupsglófar voru hluti af biskupsskrúða kaþólsku kirkjunnar og fyrst voru þeir oftast úr ólituðu eða hvítu silki enda skyldu þeir tákna hreinleika. En í Ordo Romanus XI  (hvað heitir þetta á íslensku?) árið 1271 var leyft að hanskarnir væru í sama lit og biskupskápan. Rauðir hanskar urðu algengastir en fundist hafa bláir, fjólubláir, bleikir og grænir biskupshanskar. Aldrei voru notaðir svartir hanskar. Fyrst voru hanskarnir skreyttir með skrautskildi á handarbaki, síðan var farið að sauma eða prjóna út handarlíningar og enn seinna prjóna eða sauma út hring á hvurn fingur.

Prjónaður hanski frá þrettándu öldSkv. þeim heimildum sem ég hef aðgang að eru elstu leifar prjónaðra biskupshanska tvær pjötlur úr grafhýsi Siegfrieds von Westerburg biskups, sem var jarðsettur í Bonn árið 1297. Af leifunum má ráða að handlíningar voru prjónaðar með tvíbandaprjóni, munstrið eru bláir og gullnir ernir, rósir með átta krónublöðum og Andrésarkrossar; sumsé sömu mynstur og eru á prjónuðu spænsku þrettándu aldar svæflunum. Munstrin ku minna talsvert á hefðbundin munstur á norskum Selbu-vettlingum. Því miður hef ég hvergi fundið mynd af þessum pjötlum. Hins vegar fann ég mynd af svokölluðum St Rémy hönskum sem geymdir eru í St. Sernin dómkirkjunni í Toulouse. Þeir eru prjónaðir úr fíngerðum hvítum silkiþræði og næsta skrautlausir; á handarbökum eru skrautskildir úr silfri og gulli, myndefnið er annars vegar kross, hins vegar lamb. Nær öruggt er talið að þessir hanskar séu frá þrettándu öld. Sé smellt á litlu myndina til vinstri kemur upp stærri mynd. Á einni af vefsíðum Franska menningarmálaráðuneytisins er svarthvít mynd af þessum hönskum og upplýsingar um þá.

prjónaður hanski heilags AðalbertsSvo má nefna tvenna prjónaða hanska sem tengdir eru heilögum Aðalbert og eru með elsta varðveitta prjónlesi í Evrópu. Annað parið er varðveitt í Prag og  talið frá fyrri hluta fjórtándu aldar, prjónað úr gráu, hugsanlega ólituðu, silki með þremur grænum röndum á ermalíningum. (Svarthvíta myndin til hægri er af öðrum þessara hanska, hann er illa farinn sem sjá má.) Hitt parið er frá síðari hluta fjórtándu aldar og varðveitt í kirkju heilags Vinceslas í Stará Boleslav, í nágrenni Prag. Þeir hanskar eru prjónaðir úr ólituðu silki, í handlíningum er einfaldur útsaumur með lituðu silkigarni og gullþræði.

Þegar á leið urðu skrúðhanskar kaþólsku kirkjunnar æ íburðarmeiri og var skrautið ýmist prjónað út eða saumað í einlitt prjón. Hafi fólk sérstakan áhuga á að skoða biskupshanska, sem eru  fyrirferðamikill hluti elstu prjónastykkja sem varðveist hafa í Evrópu og með skrautlegasta prjónlesinu, má benda á þessar síður:

Þorlákur helgiEftir því sem ég best veit hafa ekki fundist neinar leifar biskupshanska hér á landi. Það er þó engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að biskupar í kaþólskum sið hafi brúkað skrúðhanska eigi síður en kollegar þeirra erlendis. Glófar eru fyrst nefndir í Páls sögu biskups en síðar einungis getið í Hóladómkirkjuregstrum frá árunum 1374, 1396. 1525 og 1550. Á teikningum í handritum má sjá biskupa og dýrlinga bera hanska, einnig á örfáum útskurðarmyndum úr kaþólskum sið. Til hægri sést hluti myndar af Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti, heilögum Þorláki, sem prýðir frægt altarisklæði Hóladómkirkju. Klæðið er líklega frá öðrum fjórðungi sextándu aldar, refilsaumað og mögulega saumað af  Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Á klæðinu sjást hanskar Þorláks biskups prýðilega sem og roðasteinar eða skrautskildir sem prýða þá - Kristján Eldjárn telur að þetta séu tigullaga silfurplötur eða útsaumaðar eftirmyndir af svoleiðis.
 
 
 

Næsta færsla fjallar um prjónaða vettlinga.
 

Helstu heimildir:

Bækur:

Kristján Eldjárn. 1992. Skálholt: skrúði og áhöld. Reykjavík.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting. Colorado, Bandaríkjunum.
Schoeser, 2003. Mary. World Textiles. A Concise History. London.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskatter fra fillehaugen. Kristjansand, Noregi.
Turnau, Irena. 1991. History of Knitting before Mass Production. Varsjá, Póllandi.
 

Vefsíður aðrar en þær sem krækt er í úr textanum

Episcopal Gloves í Catholic Encyclopedia á The New Advent
Histoire du tricot (1) - les origines og Histoire du tricot (2) - Du XIV e au début du XVIIe siècle á Les Petites Mains. Historie de mode enfantine.
Kleidung - Nadelgebundene Seidenhandschuhe á Diu Minnezit
Um vettlinga á Pearl’s Journal
Slik var klærne i middelalderen í Aftenposten 3. apríl 2007
Medieval Gloves á MyGen
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns