Færslur undir „Saga Sögu Akraness“

13. júní 2012

Gulli og Múlinn og Sagan

Súper MúliJæja! Enn og aftur ætlar Akraneskaupstaður að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun 3. bindis Sögu Akraness, í þetta sinn upp á krít. Sagnir herma að þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og sagnaritarinn mikli ætli að skrifa undir samning á morgun.

Í færslu sem ég skrifaði fyrir ári síðan, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku, rakti ég sögu handritsins sem nú kallast 3. bindi Sögu Akraness og spannar nítjándu öld. (Þeir sem hafa áhuga á Sögu Sögu Akraness, vefrits sem stefnir í að verða álíka langloka og Saga Akraness ef svo heldur fram sem horfir, geta hlaðið niður því sem tilbúið er í þeirri sögu á pdf-formi.)

  • Skil á þessu bindi voru fyrst staðfest árið 2001, þ.e.a.s. fyrsta bindi (af þáverandi áætluðum þremur bindum) um byggðasögu 1700-1900. Eftir að Ritnefnd um sögu Akraness undir forsæti Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra (sem nú stjórnar Faxaflóahöfnum) staðfesti þessi skil kom í ljós að talsvert vantaði inn í stykkið og gerður var nýr samningur við Gunnlaug Haraldsson um að skrifa það sem á vantaði.
  • Snemma árs 2003 sagði Gunnlaugur ritnefndinni að hann væri nánast búinn að ljúka sögu Akraness til ársins 1941.
  • Í mars 2005 segir Gunnlaugur Ritnefndinni að nú vanti einungis herslumuninn á að klára Sögu Akraness frá landnámi til 1941 og er bókað á 55. fundi Ritnefndarinnar: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.“ Því sama hélt Gunnlaugur fram á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
  • Í ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs Haraldssonar í apríl 2008 kemur fram að „Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) - bíður prentvinnslu.“
  • Í janúarbyrjun 2010 sagði Gunnlaugur í viðtali við Vísi.is „að hann sé búinn að rita sögu Akraness til 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“
  • Í nóvember 2010 staðfesti Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, bókaforlagsins sem gaf út 1. og 2. bindi Sögu Akraness, að 3. bindið sé nú þegar skrifað.
  • Í júní 2011 hafði Skessuhorn eftir Gunnlaugi Haraldssyni að „fyrir liggur að „færa til nútíðarmáls“ handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“

Á árabilinu 2001, þegar fyrst voru staðfest skil á ritun Sögu Akraness á 19. öld, til ársins 2011 hefur Akraneskaupstaður gert fjölda samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness. Alls hefur Akraneskaupstaður pungað út 110 milljónum fyrir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar og útgáfu á fyrstu tveimur bindunum í Sögu Akraness.

Ritnefnd um Sögu Akraness hélt fund þann 23. mars 2012. Það stingur óneitanlega í augu að einungis tveir af fimm nefndarmönnum mættu á fundinn, formaður Ritnefndar og tveir nefndarmenn voru fjarverandi. Fundargerðin er á hálfgerðu dulmáli:

1. Saga Akraness, 3. bindi. Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Á fundi bæjarráðs Akraness 25. maí sl. var bókað:

9.  0906053 - Saga Akraness - ritun.
Drög að samningi um ritun Sögu Akraness III bindis ásamt tölvupósti Gunnlaugs Haraldssonar dags. 23. mai 2012.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.  Bæjarstjóra falin undirritun hans.  Einar [Brandsson] óskar bókað að hann sé ósammála ákvörðun bæjarráðs.   

Á bæjarstjórnarfundi í gær, 12. júní 2012, var fundargerð bæjarráðs lögð fram. Til máls tók Einar Brandsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en aðrir þögðu þunnu hljóði eins og venjulega (efst í fundargerðinni sem ég kræki í er krækja í hljóðskrá af fundinum). Í máli Einars kom fram að samningurinn sem bæjarráð samþykkti er þriggja ára samningur Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um að bærinn greiði honum 14,5 milljónir á þremur árum fyrir að ganga frá textanum í 3. bindi Sögu Akraness. Ég veit að Kristján Kristjánsson hefur sett það skilyrði að hann verði sjálfur ritstjóri þessa bindis (væntanlega til að gloríur í myndbirtingu endurtaki sig ekki) svo varla er ætlast til að bæjarstjóri undirriti samning við Gunnlaug um allsherjarritstjórn eins og síðast. En mögulega er uppsetning (layout) verksins innifalin í samningnum þótt verði svo að semja við Kristján um eftirlit með þeirri uppsetningu síðar og bærinn verði auðvitað að borga lungann af prentkostnaði því bækurnar seljast vægast sagt takmarkað.

Á fjárhagsáætlun þessa árs, 2012, er gert ráð fyrir 4,2 milljónum í Sögu Akraness. Má af ummælum á bæjarstjórnarfundi í gær ætla að Gunnlaugur fái 4 milljónir í ár - kannski fara tvöhundruðþúsundin upp í þennan tæpa fjögurhundruðþúsundkall sem móðgelsi bæjarstjórans yfir ritdómi kostaði bæinn?  Á langtímaáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að eyða 4 milljónum næsta ár, 2013, í Sögu Akraness. Þær 4 milljónir renna beint í vasa Gunnlaugs ef samningurinn hans og Árna Múla verður undirritaður á morgun. Loks hljóðar samningurinn við Gunnlaug Haraldsson upp á rúmar 6 milljónir fyrir vinnu árið 2014. Í samningnum er sá varnagli sleginn að bæjarstjórn eigi eftir að samþykkja þessar fjárveitingar fyrir árin 2013 og 2014. Nú á sem sagt að semja við sagnaritarann upp á krít. Og augljóst að ef bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir ekki fjárveitingarnar sem bæjarstjórinn lofar upp í ermina á kaupstaðnum er þessum 4 milljónum sem Gunnlaugi verða réttar í ár kastað á glæ. Fyrir svo utan það að enginn í bæjarstjórn, bæjarráði eða ritnefnd um Sögu Akraness virðist hafa kveikt á því að Akraneskaupstaður er margbúinn að greiða Gunnlaugi áður fyrir ritunina um þetta tímabil. Af hverju sækir okkar góði bæjarstjóri ekki bara handritið og skellir því í prentsmiðju?

Í dag, 13. júní 2012,  hélt bæjarráð fund. Þar er bókað:

9.  0906053 - Saga Akraness - ritun.
 Samningur við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness, III bindi. Samningurinn gerir ráð fyrir verktíma árin 2012 - 2014.
 Afgreiðslu frestað.

Ég reikna með að afgreiðslu bæjarráðs í dag hafi verið frestað af því þeir Árni Múli og Gunnlaugur skrifa ekki undir samninginn fyrr en á morgun …

Ummæli (4) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

6. mars 2012

Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

Nokkuð kyrrt hefur verið um Sögu Akraness undanfarið, a.m.k. opinberlega. En því fer fjarri að ævintýrinu sé lokið. Og áfram borgum við Skagamenn brúsann, bæði af einkaútspili móðgaðs bæjarstjóra og væntanlega af huggulegum fundarhöldum hinnar eilífu fimm manna ritnefndar - í bæ þar sem allt er skorið við nögl, allar gjaldskrár hækkaðar í botn núna um áramótin, öllum stofnunum gert að spara sem mest …  og heyra má þær raddir að endar nái samt ekki saman.
 

Örlítil upprifjun

ReiðurSvo sem unnendur Sögu Sögu Akraness kannast við hótaði okkar góði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, ritdómararnum Páli Baldvini Baldvinssyni lögsókn vegna ritdóms sem hinn síðarnefndi skrifaði um Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson. Árni Múli sagði að sér fyndist þessi bók „bullandi fín“ og „þrælgóð“ og í kompaníi við Kristján Kristjánsson, útgefanda bókarinnar, og Gunnlaug sagnaritara lét Árni Múli einn lögfræðing Akraneskaupstaðar skrifa Páli Baldvini bréf þar sem þess var krafist að hann leiðrétti og bæðist afsökunar á fimmtán ummælum í ritdómnum.(Sjá Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni í Fréttatímanum 19. ágúst 2011. Neðst í þessari frétt er krækt í ritdóminn sem fór svo fyrir brjóstið á mínum góða bæjarstóra. Bæjarstjórinn hafði svo sem ekki sparað stóru orðin frá því ritdómurinn hans Páls Baldvins birtist, sjá t.d. Segir ritdóm bera með sér einkenni fúllyndis og lítilmennsku í Skessuhorni 14. júlí 2011. Á  því skemmtilega Islandsbloggen. Nyheter og nedslag från ett afläggset grannland er sagan endalausa í hópi endalausra frétta, sjá Praktverk om Akranes sågas - kommun hotar stämma, 30. júlí 2011, þaðan er linkað í fyrri fréttir af stórmerkilegri sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar.)

Páll Baldvin Baldvinsson svaraði í sömu mynt og hótaði Árna Múla Jónassyni lögsókn því hann hefði vegið að æru sinni og starfsheiðri. (Sjá Páll Baldvin í hart vegna Sögu Akraness. Stendur við hvert orð í bókardómi sínum á Eyjunni 23. september 2011.)

Páll Baldvin tók síðan saman langt varnarskjal, öllu heldur upptalningu á staðreyndum sem rökstuddu hverja einustu staðhæfingu sem hann hafði haldið fram í ritdómnum. Þetta er ekki fögur lesning, öllu heldur mjög ófagur vitnisburður um óhóflegan myndastuld og subbuleg vinnubrögð sagnaritara Akraneskaupstaðar. (Sjá Skýtur fyrst og spyr svo, Fréttatímanum 30. september 2011, sem hefst raunar með nokkrum (venjubundnum) mergjuðum upphrópunum bæjarstjórans okkar og ljómandi fallegri mynd af sama bæjarstjóra, en greinargerð Páls Baldvins fylgir í kjölfarið.  Þeir sem eiga bágt með að lesa langa texta ættu kannski að láta greinargerðina eiga sig).

Þann 4. janúar 2012 sendi Árni Múli Jónasson frá sér yfirlýsingu í nafni Akraneskaupstaðar um að fallið væri frá málsókn á hendur Páli Baldvini Baldvinssyni vegna ritdómsins: 

Að vandlega íhuguðu máli er það því þeirra ákvörðun að eyða ekki frekari tíma, orku eða fé til að elta ólar um þessi mál við Pál Baldvin. Sú ákvörðun byggist meðal annars á því að frá því að Páll Baldvin birti umræddan ritdóm sinn í Fréttatímanum hafa virtir menn á þessu sviði, Guðmundur Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Jón Torfason, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og Jón Þ. Þór, sagnfræðingur og sagnaritari birt ritdóma sína um Sögu Akraness og farið mjög lofsamlegum orðum um hana,“ segir í yfirlýsingu Árna Múla. (Sjá Elta ekki ólar við Pál Baldvin, Fréttatímanum 5. janúar 2012.)

Það má náttúrlega spyrja sig hvað hefði gerst ef þessir „virtu menn á þessu sviði“ hefðu ekki farið lofsamlegum orðum um bókina? Hefði Árni Múli þá kært? Jóns Torfasonar er reyndar sérstaklega getið í fámennum kreditlista Gunnlaugs Haraldssonar í formála að Sögu Akraness I og þökkuð aðstoðin við efnisöflun svo hann er nú kannski ekki alveg hlutlaus aðili. (Hér er krækt er í þennan lofsamlega dóm Jóns Torfasonar, sem birtist í Skessuhorni 10. ágúst 2011.) Dómur Jóns Þ. Þór var afar stuttur, megnið af honum greinargerð fyrir efnisyfirliti bókarinnar og ég held að hann hafi aldrei ratað á vef DV þótt aðrir bókardómar fyrir jólin birtust þar einnig. Þær örfáu málsgreinar sem ekki voru um efnisskiptingu voru lofsamlegar. Ritdómur Guðmundar Magnússonar, fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhúss, birtist í Þjóðmálum, sömuleiðis stuttur og talsverðum hluta eytt í að rekja efnisþætti en vissulega var hann lofsamlegur.

 

 
Við borgum móðgelsi bæjastjórans

 

Bæjarbúar borga lögfræðikostnað Árna MúlaÞegar Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, leitaði til lögfræðings til að kanna grundvöll fyrir meiðyrðamáli og fékk aðstoð hans við að semja hótanirnar gegn Páli Baldvini gerði hann það að eigin frumkvæði og án þess að fá leyfi bæjaryfirvalda. Þessi „tími, orka og fé“  sem fór í að reyna að hanka ritdómararann er hins vegar ekki tekinn af vinnustundum, brennslu eða úr vasa bæjarstjórans heldur erum við íbúar Akraness látnir borga þetta uppistand. Og það var ekki eins og Árni Múli (sem er vel að merkja sjálfur lögfræðingur að mennt) hefði svona rétt látið skanna þennan 550 orða ritdóm Páls Baldvins til að meta mögulegar forsendur fyrir meiðyrðamáli. Nei, keypt var 28,25 klst. vinna lögmanns til verksins. Hún kostaði 484.487 kr. með virðisaukaskatti en við íbúarnir, sem borgum, getum glaðst yfir að Akraneskaupstaður fær endurgreiddan virðisaukaskattinn svo heildarkostnaðurinn er 385.452 kr. Kannski ekki svo há tala í bæjarhítinni en mér finnst nokkuð mikið að punga út slíkri upphæð bara út af móðgelsi bæjarstjórans enda finnst mér, af fréttum og hljóðritunum af bæjarstjórnarfundum, að hann sé svona heldur móðgunargjarn. Vonandi fer hann ekki að stunda það að rjúka í lögfræðing í hvert sinn sem honum rennur í skap, það gæti orðið ansi dýrt fyrir þá sem borga. Og það er ekki hann.

Varla þarf að taka fram að þetta framtak okkar ágæta bæjarstjóra hefur hvergi verið rætt á opinberum fundum í stjórnsýslu bæjarins, ef marka má fundargerðir.

  

 
Karlarnir í ritnefndinni þurfa náttúrlega áfram að geta hist og spjallað um stórvirkið sem þeir sjá í ævarandi í hillingum

 

Það hefur heldur ekki verið bókað neins staðar sérstaklega að bæjarstjórn hefur samþykkt að gera ráð fyrir „kaupum á sérfræðiþjónustu“ vegna vinnu við Sögu Akraness á árinu 2012 fyrir rúmlega 4 milljónir króna. „Þeirri fjárhæð hefur ekki verið ráðstafað að neinu leyti ennþá, en gert er ráð fyrir að ritnefnd um Sögu Akraness fjalli um áframhald og geri tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun þess fjár í samráði við bæjarstjóra“ segir í svari Akraneskaupstaðar við fyrirspurn minni nú seint í febrúar. Líklega er þessi upphæð falin einhvers staðar í fjárhagsáætlun bæjarins en ef einhver veit hvar sjá má hana opinberlega og sundurliðaða á vef bæjarins fagna ég ábendingu þar um.
  
 

Leikskólabörn geta snapað gams en Saga Akraness blívur

 

Svoleiðis að í bæjarfélagi sem er á kúpunni (núna í kvöld voru foreldrar einmitt að funda um fjórar niðurskurðartillögur og gjaldskrárhækkanir á leikskólum bæjarins, en hver þeirra er talin spara um 3-4 milljónir) eru samt til fjórar milljónir handa ritnefnd um sögu Akraness til að leika sér með ásamt bæjarstjóranum. Sú ritnefnd er fimm manna þannig að fundirnir eru dýrir.

Í samanburði má nefna að þetta vesalings bæjarfélag, Akraneskaupstaður, hefur ekki efni á nema þriggja manna fjölskylduráði, sem fer með alla málaflokka sem snerta leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagsmál, félagslega aðstoð og íþróttamál.

 

Móðguð ritnefnd um sögu AkranessRitnefndin margmenna hefur ekki fundað síðan í júníbyrjun en þá hittust karlarnir fimm og sömdu yfirlýsingu þar þeir hörmuðu hvað ég hefði skrifað illa um tæpan fjórðung þeirrar góðu bókar, Sögu Akraness I, í Skessuhorni (tæpa eina A-4 síðu langa aðsenda grein), lýstu því yfir að þetta væri „stórt og glæsilegt verk“ og luku sinni ritsmíð þannig: „Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.“  Þessi fundur karlanna kostaði bæinn, þ.e.a.s. okkur útsvarsgreiðendur, 64.000 krónur. Líklega hafa nefndarlaunin hækkað eitthvað síðan.

 

Ég er sammála ritnefndinni um að þetta eru stór verk og þung eru þau. En Saga Akraness I og II fékkst á tæpar 16.000 krónur (bæði bindin saman) í okkar góðu bókabúð, Pennanum, fyrir jólin, sem verður að teljast ódýrt per kíló (sambanborið við t.d. sæmilegt kjöt).

 

 
  
  
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

23. september 2011

Saga Akraness og Saga Sögu Akraness

Það liggur nokkur straumur af Eyjunni inn á bloggið mitt núna, í tilefni fréttar af viðbrögðum Páls Baldvins Baldvinssonar við hótunum og ummælum míns góða bæjarstjóra o.fl. sem tengjast Sögu Akraness.

Ég bloggaði á sínum tíma færsluröð um Sögu Sögu Akraness, sem sést í færsluflokkun til hægri á þessu bloggi. En lesendum sem hingað rata af Eyjunni akkúrat núna til hægðarauka bendi ég á:

Hér má hlaða niður flestöllum færslum um Sögu Sögu Akraness í einu pdf-skjali (sem er mun þægilegra að lesa en færslurnar í bloggumhverfinu).

Hér er Fjórðungsdómur um 18 marka bók (hann er að sjálfsögðu einnig að finna í pdf-skjalinu). Ég vek athygli á því að Páll Baldvin skrifaði sinn ritdóm óháðan þessari færslu (þótt mínum ágæta bæjarstjóra hafi dottið annað í hug) og að þessi fjórðungsdómur er ekki alvöru ritdómur því ég komst aldrei yfir nema hluta Sögu Akraness I, þá gafst ég hreinlega upp á að lesa textann og horfa á stolnu myndirnar. Fjórðungsdómnum var líka aldrei annað ætlað en vera smá innskot í sögu sagnaritunarinnar og ótrúlegan peningaaustur í sagnaritara sem aldrei stóð skil skv. samningum, vangaveltur um hverjir í bæjarapparatinu bæru mesta ábyrgð á sukkinu og hvers vegna o.s.fr.

Hér er Körlunum svarað, þ.e.a.s. færsla þar sem ég svara harmatölum Ritnefndar um sögu Akraness, bæjarstjórans Árna Múla og langloku Gunnlaugs Haraldssonar, sem tóku drjúgan skerf af Skessuhorni vikuna eftir að Fjórðungsdómurinn birtist. Ég kræki í það af þeirra efni sem er aðgengilegt á vef.

Efst í færsluflokknum Saga Sögu Akraness eru svo örfáar færslur sem skrifaðar voru eftir að ég tók saman færslurnar í pdf-skjalið, þ.á.m. svar við aðsendri grein Jóns Torfasonar í Skessuhorn, þar sem hann ber blak af sagnaritara. Í þeirri færslu, Sögunni umfjölluðu, kræki ég í grein Jóns Torfasonar.

Þeir sem ekki hafa fengið sig fullsadda fyrir löngu af sápuóperunni um sögu Sögu Akraness hafa kannski einhver tímasparandi not af þessum tenglum. 

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Saga Sögu Akraness

19. ágúst 2011

Bókmenntablogg fyrir bæjarstjórann

Enn eitt innleggið í Sögu Sögu Akraness

Þá ber svo til að sveinn kemur að Reini velríðandi með töluverðu fasi, og flytur Jóni Hreggviðssyni þau boð að mæta fyrir rétti útá Skaga hjá sýslumanni að viku liðinni. […] Réttur var settur í stofu sýslumanns og Jón Hreggviðsson ákærður um að hafa á Þíngvöllum við Öxará móðgað vora allrahæstu tign og majestet og greifa útí Holstinn, vorn allranáðugasta arfakóng og herra, með ósæmilegu orðaspjátri í þá veru að þessi vor herra hafi nú tekið sér þrjár frillur fyrir utan hans ektaskap. […] Síðan var réttinum slitið og uppkveðinn dómur í málinu á þá leið að Jón Hreggviðsson skyldi greiða konúnginum þrjá ríxdali innan mánaðar, en koma húð fyrir þar gjald þryti.
(Halldór Laxness. Íslandsklukkan, þriðja útg. Helgafell 1969, s. 13-14.)

Hér á Skaganum er Jóni Hreggviðssyni, „afrekum“ hans og lífssögu gjarna hampað, sbr. þennan fróðleiksmola á síðu Akraneskaupstaðar, þar sem Jón Hreggviðsson er kallaður „einn frægasti sonur Akraness“ (orðalag sem raunar minnir óþægilega á Öldurdals frægasti sonur en sjálfsagt er ekki hægt að gera þá kröfu til þeirra sem skrifa á vef bæjarins að þeir hafi lesið Bör Börsson).

Nú höfum við Skagamenn eignast annan okkar frægastan son, að vísu tvímælalaust ættleiddan, af hvurjum? Líklega af bæjarstjórnarmönnum, ekki hvað síst okkar ágæta bæjarstjóra, Árna Múla Jónassyni. Nútímaútgáfan af Íslandsklukkunni er skrifuð svona:

Það er vegið þannig að æru fólks að okkur fannst fullt erindi til að skoða þetta. Einstaklingar eru þjófkenndir og sakaðir um sögufals og við vonum að Páll Baldvin sé maður að meiri, viðurkenni mistök sín og biðjist afsökunar,“ segir Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, um bréf sem lögmaður bæjarins og tveggja einstaklinga, þeirra Gunnlaugs Haraldssonar, höfundar Sögu Akraness, og Kristjáns Kristjánssonar, útgefanda bókarinnar, sendi Páli Baldvini Baldvinssyni, bókagagnrýnanda Fréttatímans, þar sem krafist er leiðréttingar og afsökunarbeiðni á fimmtán ummælum Páls í bókadómi hans um fyrsta bindi Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn. […]  Í bréfinu fær Páll Baldvin tvær vikur til að verða við beiðni lögmannsins um leiðréttingu og afsökunarbeiðni, ellegar verði leitað annarra leiða til að rétta hlut þremenninganna, til að mynda fyrir dómstólum.
(„Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni“. Fréttatíminn 19.08 2011.)

Blessunarlega fara Árni Múli og félagar ekki fram á að komi húð fyrir þar afsökunarbeiðni þryti svo að því leytinu er hinn yfirlýsingaglaði og ofursómakæri bæjarstjóri okkar aðeins í takt við nútímann.

Eins og aðrir áhugamenn um Sögu Sögu Akraness fylgist ég spennt með framhaldinu og hef raunar þegar óskað upplýsinga frá Akraneskaupstað um hvur hafi og muni borga þjónustu lögmannsins, sem og í hvers umboði okkar ágæti bæjarstjóri akti því bæjarstjórn er í fríi og ekki þykir mér líklegt að þorri Skagamanna styðji yfirlýsingar og hótanir bæjarstjórans um lögsókn. (Þó gætu einhverjir eflaust sætt sig við einhvern hluta nýjustu yfirlýsingar Árna Múla um ágæti Sögu Akraness, þ.e. að hún sé „bullandi fín“.)

Af því þetta er bókmenntafærsla er við hæfi að ljúka henni á kvæðisbroti eftir föður bæjarstjórans okkar, með vinsamlegri ábendingu um að í vísunni er rætt um sýslumenn en ekki gagnrýnendur:

Og sýslumenn tók hann ef gleiðir þeir gerðust
og gaf þeim að líta pístólur
og skjálfandi lét þá að fótum sér falla
en fátækum gaf hann rúsínur.

(Úr „Landsreisu Jörundar“ eftir Jónas Árnason.)
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

17. ágúst 2011

Fleiri kenningar um orð og annað

„Þorvaldur Friðriksson ber saman íslensku og gelísku: Mörg orð og nöfn í íslensku eiga sér enga hliðstæðu í norrænum málun [svo] en finnast í gelísku“ heitir viðtal í Skessuhorni 10. ágúst 2011, s. 22. Þorvaldur þessi er fjölhæfur maður en líklega þekktastur fyrir að vera aðalskrímslafræðingur Íslands, að Þórbergi Þórðarsyni gengnum.

Kenningar Þorvalds eru, eins og kenningar Þórbergs sem lýst var í síðustu færslu, ákaflega skemmtilegar og sniðugar. Má sem dæmi nefna „orð eins og hrútur, sem ekki er til í hinum norrænu málunum, en hrútur þýðir hrútur á gelísku. Svo má nefna gemling, sem er óútskýranlegt orð út frá norrænum málum en auðskýrt með gelísku því gem þýðir vetur og þess vegna kemur þetta orð yfir vetrung á íslensku.“ Gemlufallsheiði heitir og svo af því gem þýðir vetur á gelísku. Sem dæmi um örnefnaskýringar aðrar má taka:

Súðavík er enn eitt dæmið en fjallið þar ofan við heitir kofri [svo]. Megineinkenni þess fjalls er eins konar kassi uppi á fjallinu. Kofer þýðir koffort og súð þýður örlátur eða gjafmildur maður og þaðan kemur Súðavíkurnafnið.

Írskur dans(Raunar næ ég ekki alveg hvort kofer sé gelískt orð en reikna með því, miðað við samhengið í viðtalinu.) Þorvaldur telur þvílíkan fjölda gelískra orða í íslensku, ekki hvað síst í örnefnum, að ég verð bara að benda fólki á að reyna að nálgast Skessuhorn til að lesa allt viðtalið. Hann vitnar til skýringar á gelískumekkinum í niðurstöður dr. Agnars Helgasonar um hátt hlutfall kvenna frá Bretlandseyjum í hópi landsnámsmanna en þær rannsóknarniðurstöður vöktu mikla athygli fyrir nokkrum árum. (Að vísu er keltneska hvatbera-erfðaefnið farið veg allrar veraldar vegna genaflökts og nútíma Íslendingar því ekki skyldari gelískumælandi fólki en hvaða Norður-Evrópubúum sem er … og að vísu voru tennurnar sem dr. Agnar skoðaði nánast allar af miðju Norðurlandi og miðju Suðurlandi … en hengjum okkur ekki í smáatriði hér.) Og ég hefði virkilega notið þessara skemmtilegu kenninga um óhóflegar gelískuslettur í íslensku ef viðtalið endaði ekki svona:

Akraneskaupstaður íhugar nú að koma upp setri í keltneskum fræðum og Þorvaldur fagnar því. Hann segir að ekkert þurfi að deila um þessi mál, aðeins að velta þeim fyrir sér og velta upp hlutum. „Í nýútkominni  Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson er góð undirstaða fyrir örnefnarannsóknir því þar er mjög ítarlega farið í örnefni á þessu svæði. Þetta er mjög þakkarvert og öflugt framtak að semja það rit og gefa út. Á þessu er hægt að byggja áframhaldandi rannsóknir. Í örnefnunum er gríðarlega mikil saga og meiri en við höfum notfært okkur hingað til ef við notum gelískuna til að þýða þau.“

Það er alveg rétt hjá Þorvaldi að Akraneskaupstaður ætlar sér greinilega að koma upp „setri í keltneskum fræðum“ því í fundargerð bæjarráðs frá 7. júlí 2011 segir:

14.  1106156 - Keltneskt fræðasetur á Akranesi
 Tillaga stjórnar Akranesstofu frá 27. júní 2011 þar sem lagt er til við bæjarráð að stofnað verði keltneskt fræðasetur á Akranesi, sem byggir m.a. á þeim hugmyndum sem Þorvaldur Friðriksson, fornleifafræðingur hefur lagt fram um starfsemi, markmið og áherslur slíks fræðaseturs. Horft verði til gömlu húsanna á Safnasvæðinu sem ákjósanlega staðsetningu.
 Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur stjórn og verkefnastjóra Akranesstofu að vinna áfram að málinu.

Í sömu fundargerð kemur og fram að nýr formaður stjórnar Akranesstofu er Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar, sá hinn sami og jafnaði ritun Sögu Akraness við Versali og Kölnardómkirkju sem frægt er orðið.

Þorvaldur segir í viðtalinu að hann sé „kominn með mikla bók um þetta“ (væntanlega kenningar sínar um gelísk örnefni). Verður spennandi að sjá hver gefur út svoleiðis bók.  

Egifskur faraóSvoleiðis að þegar saman blandast fræði Gunnlaugs Haraldssonar og áhrif Sveins Kristinssonar við hugmyndir Þorvalds Friðrikssonar er ekki von á góðu því þetta ævintýri verður náttúrlega að stórum hluta fjármagnað af útsvari okkar bæjarbúa eins og hið fyrra ævintýri. Þannig að sniðugheitin og skemmtunin verða dálítið galli blandin í mínum huga. Svo hugsa ég til þess með hryllingi að einhverjir alvöru gelískufræðingar gætu glapst til að dúkka upp á Hinu keltneska fræðasetri á Akranesi, út á nafnið. Eiginlega liggur við að ég hugsi: Fari það í hurðarlaust helvíti! En það er væntanlega af því að í viðtalinu við Þorvald heldur hann því fram að þetta sé gelískuskotið orðtak; „hurð“ er nefnilega gelískt orð ;)

Í rauninni er miklu meiri ástæða til að koma á fót Egifsku fræðasetri eða Koptísku fræðasetri hér á Skaganum, í samræmi við kenningar mannfræðingsins Fräulein Jósefínu Dietrich. Hún hefur í mannfræðirannsóknum sínum fundið merkilegar heimildir á Netinu um að Íslendingar séu að hálfu leyti komnir af Egiftum! Að vísu eru heimildir þær kannski ekki alveg jafn óumdeildar og fræðilegar og sjálf Wikipedia en slaga þó hátt upp það fræðasetur. Og ekki er hægt að saka Fr. Dietrich um að velta ekki fyrir sér, velta við og velta upp hlutum … stundum kútveltist þessi ágæti mannfræðingur sjálfur, af ánægju yfir fræðistörfum. Heimildir hennar eru einkum  Selshamurinn í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (hér krækt í Netútgáfuna) og Símon Jón Jóhannsson. „Hvað má segja um seli sem eru menn í álögum?“. Vísindavefurinn 14.11.2006. (Skoðað 17.8.2011).

 Er ekki kominn tími til að rannsaka koptískuslettur í íslensku?
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Daglegt líf, Saga Sögu Akraness

10. ágúst 2011

Sagan umfjallaða?

Enn heldur umfjöllun um Sögu Akraness áfram í Skessuhorni í dag (s. 19)!  Þar birtist aðsend grein Jóns Torfasonar, skjalavarðar á Þjóðskjalsasafni Íslands, þar sem hann tekur upp hanskann fyrir Gunnlaug Haraldsson. Greinin heitir „Saga Akraness“, ég kræki í hana á vef Skessuhorns og hvet lesendur míns bloggs til að renna yfir hana. Í grein sinni er Jón Torfason einungis að svara mér því: „Ekki er þörf á að taka tillit til geðvonskulegs nöldurs Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn.“

Ég  skil ekki alveg af hverju Jón Torfason vill vera í kompaníi þeirra sem róma Gunnlaug Haraldsson en e.t.v. hefur honum runnið blóðið til skyldunnar því hans er sérstaklega getið í þakkarorðum í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I, e.t.v. einnig í II. bindinu en ég hef ekki opnað það.

Nú hefur Jón Torfason flett upp í ritum sem Gunnlaugur vísar til og finnur ekki annars staðar farið rangt með en þá villu sem ég benti á (um Kjarrá, í Landnámu). Sjálf fletti ég bara upp þremur tilvitnunum og því fer fjarri að ég rengi Jón Torfason í að mjög víða (þ.e. í því efni sem Jón bar saman) fari Gunnlaugur rétt með.

Jón Torfason segir: „Þá er að nefna þá skoðun að jafnan skuli nota samræmda stafsetningu forna, þegar vísað er í fornritin. Það er heldur einstrengislegt viðhorf enda sú stafsetning að mestu leyti nítjándu aldar manna verk.“ Ég er alveg sammála Jóni um þetta og mér er auðvitað kunnugt um hvernig samræmd stafsetning forn kom til skjalanna. Ég er hins vegar dálítið hissa á af hverju hann dregur þetta fram í sinni grein því sé hann að svara mér hef ég hvergi nokkurs staðar haldið því fram að nota eigi þessa stafsetningu öðrum fremur, er raunar fremur í nöp við hana.

Vitarnir á BreiðinniAftur á móti var síðast þegar ég vissi enn gerð sú krafa í framhaldsskólaritgerðum að nemendur vitnuðu stafrétt í heimildir. Hefur það breyst á háskólastigi eða í akademískum skrifum / meintum akademískum skrifum? Ef Gunnlaugur Haraldsson kýs að vitna í Íslenzk fornrit á hann að hafa beinar tilvitnanir stafrétt eftir. (Eða er Gunnlaugur á sérstakri undanþágu hvað þetta og ótal margt annað sem snertir höfundarétt varðar?) Ef Gunnlaug Haraldsson hefði langað til að hafa beinu tilvitnanirnar með nútímastafsetningu hefði honum einnegin verið í lófa lagið að brúka slíkar heimildir, t.d. útgáfu MM (fyrrum Svarts á hvítu, sem Jón Torfason átti einmitt aðild að) eða bara Netútgáfuna, sem er byggð á útgáfu Guðna Jónssonar. En það gerði hann sem sagt ekki, skv. tilvísunum í heimildir.

„Þá hefur verið bent á ónákvæma tilvísun í netmiðla.“ Þetta er stórkostlegur úrdráttur og ég vísa í dæmin sem ég tel upp í Fjórðungsdómnum. Tilvísanir í netmiðla eru hörmung, ekki hvað síst í myndaskrá. Og Jón Torfason hlýtur að vera að grínast þegar hann segir: „Um staðarnafnið Aiginis nálægt Ljóðhúsum í Skotlandi er t.d. tvisvar vitnað í wikipedia.org og þótt viðkomandi slóð vanti þá kemur öll færslan upp þegar örnefnið er slegið inn. Sama á við um tilvísanir í geograph.org.“ Ég reikna með að þessar síður komi líka upp ef maður slær örnefnið inn í Google svo google.com / google.is er þá væntanlega einnig tæk heimildaskráning skv. fræðum Jóns Torfasonar eða hvað? Og gerir Jón Torfason sér enga grein fyrir hve hvikular vefsíður eru og hvers vegna menn vitna í rétta slóð með dagsetningunni þegar síðan var skoðuð? Nú get ég ekki annað en vísað Jóni á einhverja framhaldsskólakennslubók í ritun til að kynna sér hvernig vitna skal í efni á netinu og það hið fyrsta.

„Prentvillu fann ég enga í bókinni …“ Ekki ég heldur enda tók ég það sérstaklega fram. Ég er sammála Jóni Torfasyni að það er gleðilegt en raunar skoðaði ég miklu minni hluta bókarinnar en hann, var heldur ekki Gunnlaugi Haraldssyni innan handar þau 14 ár sem það tók hann að klambra saman þessum bindum (frá snemma árs 1997 til snemma árs 2011) eins og Jón Torfason, sem er hlýlega þakkað fyrir það í formála Gunnlaugs. Af þakkarlistanum í formála er ég þess fullviss að prófarkalesarar eiga hrósið fullkomlega skilið.

Það getur vel verið að Gunnlaugur „hafi dregið fram marga fróðlega hluti“ með elju sinni í að kanna óprentaðar heimildir um 17. og 18. öld eins og Jón staðhæfir. Við skulum vona það. Og við skulum vona að þessir „fróðlegu hlutir“ drukkni ekki í mælginni en vaðall og vanmáttur í að greina milli aðal- og aukaatriða einkennir mjög örnefnahluta I. bindis og hlutann um landnám, sem ég skoðaði. En ég skoðaði ekki meir en það, gafst hreinlega upp á lestrinum og blöskraði meðferð á myndum, heimildum o.fl. Ég hef ekki séð öndvegisritin um byggðasögu Skagafjarðar sem Jón tekur til samanburðar en þætti gaman að vita hvort hafi kostað 110 milljónir að láta rita hálfa sögu Skagafjarðar og gefa hana út. Kannski Jón Torfason geti svarað því næst þegar hann gengur fram fyrir skjöldu Gunnlaugi.

Ég er algerlega ósammála niðurstöðu Jóns Torfasonar: „Það er óhætt að skipa Sögu Akraness í flokk með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu.“ En fúslega má skipa Jóni Torfasyni í flokk karlanna sem rómað hafa verkið allra hæst (yfirleitt án þess að hafa lesið það), það er ekki spurning. Sagnaritaranum veitir ekki af skjaldsveinum og Jón Torfason hefur þó lesið talsvert af því sem hann hefur skrifað.

Satt best að segja hélt ég að Sögu Sögu Akraness væri lokið. (Titillinn vísar í pdf-skjal með samanlímdum bloggfærslum til þessa, heldur handhægara til lestrar en einstakar færslur í þessu bloggumhverfi.) En ef fleiri karlar ætla að leggja undir sig misstóra hluta af Skessuhorni hvað eftir annað til að „verja sinn mann“ þá stefnir í II bindi af Sögu Sögu Akraness.
 

VerksmiðjaLoks má nefna að nú er að verða til nýtt skemmtiefni í bænum okkar sem þarf helst að byggja á kenningum Gunnlaugs Haraldssonar um hið mikla gelíska (nánar tiltekið suðureyska, nánar tiltekið upprunnið úr Ljóðhúsum) landnám hér á Skaga og þess vegna þarf Saga Akraness að vera „með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu“. Þetta sé ég á annarri grein í Skessuhorni. Stjórnandi þess skemmtiverkefnis verður væntanlega Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og nýorðinn formaður stjórnar Akranesstofu. Verður spennandi að fylgjast með hve háar upphæðir rata úr sjóðum bæjarins í það nýja gæluverkefni og hvort Gunnlaugur Haraldsson verði kannski ráðinn til að stjórna því. Ég kynni þessar spennandi hugmyndir í næstu færslu og felli hana væntanlega undir Sögu Sögu Akraness.

Sagnfræðingar og áhugamenn um byggðasögu ættu endilega að gerast áskrifendur að Skessuhorni til að fylgjast með nýjungum í mati á byggðasögu! Og það er varla tilviljun að stjórnsýsluvefur Akraneskaupstaðar, akranes.is, er í 17. sæti á topp-25 lista Blogggáttarinnar yfir vinsælustu vefritin. Enda eru hér í bæ ritaðar ákaflega merkilegar fundargerðir.
 
 

P.s. Titillinn á þessari færslu er kannski ekki heppilegur því raunverulegir ritdómar eða umfjöllun um Sögu Akraness I og II sem sagnfræðiverks eru mjög af skornum skammti. Þetta geta menn t.d. séð með því að slá inn „Saga Akraness“ í Google. Páll Baldvin skrifaði ritdóm um verkið þar sem hann gaf því eina stjörnu, s.s. Jón Torfason nefnir en kýs að afgreiða sem „geðvonskulegt nöldur“, örstuttur ritdómur birtist í Morgunblaðinu (þar fékk verkið tvær og hálfa stjörnu) en annað er það nú ekki. Fjórðungsdómurinn minn fjallaði einungis um einn fjórða af fyrra bindinu. Grein Jóns Torfasonar er fremur varnarræða fyrir höfundinn en ritdómur. Þannig að þegar allt kemur til alls hafa afar fáir séð ástæðu til að fjalla um þetta meinta stórvirki, þ.e. bindin tvö í Sögu Akraness. Af hverju ætli það sé?
 
 
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

6. ágúst 2011

Saga Sögu Akraness

Ég er að ganga frá ýmsu efni þessa dagana, frá útsaumsstykkjum til stafrænna hannyrða. Þar á meðal hef ég raðað saman bloggfærslum í færsluflokknum Saga Sögu Akraness og sett upp í pdf-skjal, sem vitaskuld er mun læsilegra en í þessu bloggumhverfi. Augljósar villur voru leiðréttar og fyrstu tvær færslurnar felldar betur saman en að öðru leyti var færslunum ekki breytt. Þeim fylgja svo langar og leiðinlegar töflur unnar upp úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness. Pdf-skjalið er því ekki ritgerð um efnið heldur sést greinilega að ég var að kynna mér það jafnóðum og ég samdi bloggfærslurnar … aftur á móti gæti þessi texti orðið góður grunnur að grein, ritgerð eða fréttaskýringu, tel ég. Og væri þetta ekki upplögð jólagjöf, útprentuð og bundin saman með rauðum slaufum?

Plaggið má nálgast á http://harpahreins.com/Saga_Sogu_Akraness.pdf

Fréttir af Sögu Akraness eru engar ennþá en ekki er óhugsandi að gefist tækifæri til að skrifa 2. bindi Sögu Sögu Akraness einhvern tíma ;)   Bæjarstjórinn þagði þunnu hljóði í því Skessuhorni sem ég bjóst við að hann notaði til að biðja mig afsökunar, sérstaklega af því hann hélt því fram í útvarpsþætti að hann hefði alls ekki lesið bloggfærslurnar mínar sem hann þó lýsti yfir að væru þrugl, hefði einungis lesið Fjórðungsdóminn, en í honum hefur hann ekki hrakið eitt einasta atriði. Það er merkilegt hve framámenn í bæjarpólitíkinni eru duglegir að ýmist róma eða tæta niður texta sem þeir hafa alls ekki lesið … er þetta eitthvert nýtt trend? 

Það verður gaman að taka upp léttara og ábyrgðarlausara hjal á þessu bloggi nú síðsumars og ég stefni á að hvíla heimildablogg um sinn.

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

20. júlí 2011

Nú skaltu rökstyðja eða biðjast afsökunar!

Ég er orðin þreytt á að sitja undir órökstuddum blammeringum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og finnst engan veginn við hæfi hvað hann segir í nafni síns embættis!  Þessi grein mín birtist í Skessuhorni í dag:

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri:  Bentu á þruglið eða biðstu afsökunar!

Í Skessuhorni 13. júlí sl. fjallar Árni Múli Jónasson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar um ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar um Sögu Akraness. Orðrétt er þar haft eftir bæjarstjóranum: „Mér sýnist Páll af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur.“

Ég geri ráð fyrir að umræddur bloggari sé ég sjálf því ég hef rakið sögu sagnaritunar um Akranes, aðallega frá 1956 til dagsins í dag, í 15 tölusettum bloggfærslum og byggt á rituðum heimildum sem flestar eru opinber gögn Akraneskaupstaðar. Einnig hef ég skrifað yfirlitsfærslu yfir sagnaritunina 1987-2011, skrifað eina færslu um hluta Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson og eina færslu til að svara hörðum viðbrögðum við þeirri færslu, þ.á.m. orðum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem voru algerlega órökstudd. Þessar 18 færslur í færsluflokknum Saga Sögu Akraness birtust frá apríllokum til júníloka nú í ár.

Fundargerðir ritnefndar, bæjarstjórnar og bæjarráðs eru vissulega oft illa orðaðar og má stundum finna í þeim mál- og stafsetningarvillur en mér finnst nokkuð langt gengið að kalla þær þrugl. Sama gildir um aðrar beinar tilvitnanir í færsluflokknum Saga Sögu Akraness á harpa.blogg.is, t.d. í bæjarstjórnarmenn og Árna Múla sjálfan. Ég reikna með að Árni Múli bæjarstjóri eigi við færsluflokkinn í heild úr því hann talar um „þruglið … linnulítið undanfarnar vikur.“

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar getur ekki verið þekktur fyrir að fara með fleipur og vega að mannorði mínu.

Þess vegna á Árni Múli Jónasson bæjarstjóri að rökstyðja með dæmum að bloggfærslur mínar séu þrugl.  Geti hann ekki gert það ætti hann að biðja mig afsökunar á orðum sínum á síðum Skessuhorns, sem er miðillinn sem hann hefur sjálfur kosið að tjá sig í. 

Ummæli (7) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

29. júní 2011

Sagan öll?

Hér eru dregnar saman helstu niðurstöður um sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar frá 1987. Kaupstaðurinn hefur á tæpum 24 árum greitt sem svarar 125 milljónum á núvirði fyrir að láta tvísemja þann hluta sögunnar sem gerist einkum í Hvalfjarðarsveit, þ.e. um tímabilið frá landnámi til 1800.1

Af AkrafjalliLengst af voru hér á Akranesi nokkur tómthús og verbúðir og heldur fámennt, t.d. bjuggu samtals 67 manns á Skaganum seint á 18. öld og voru allir búendur leiguliðar Ólafs Stephensen á Innra-Hólmi.Það segir sig náttúrlega sjálft að ekki er hægt að ætlast til að miklum sögum fari af slíkum stað. Enda hafa sagnaritarar bæjarins gripið til þess að skrifa um „Akranes hið forna“, þ.e. meint landnám Ketils og Þormóðs Bresasona, ásamt Skilmannahreppi Bekans. Þá má leita í fornbókmenntir, sögu Skálholtsstóls og biskupa þar og fjalla um mikilmenni í Innri-Akraneshreppi, sem og frægan smáglæpamann úr Ytri-Akraneshreppi til að ná upp einhverjum sögudampi. Eitthvað fleira úr nágrenninu má tína til, s.s. þjóðsögur. Aftur á móti er spurning hvort þetta sé það merkilegt fyrir okkur Skagamenn, sem borgum brúsann, að þurfi að tvísegja, jafnvel þrísegja ef talinn er með sá fróðleikur sem birtist í Sögu Akraness I og II eftir Ólaf B. Björnsson, útg. 1956 og 1959 á kostnað höfundar.

Eftir þessi 23 ár og 125 milljónir hafa íbúar í Hvalfjarðarsveit sem sagt eignast viðamikla úttekt á sinni sögu. Við greiðendurnir eigum nokkra smábúta innan um, um fólk sem tengdist Görðum (raunar aðallega afkomendur þess fólks utan Akraness, jafnvel í öðrum landsfjórðungum) og eitthvað svolítið um kotin sem á Skipaskaga var að finna (aðallega samt um eigendur þeirra utan Skagans, jafnvel í öðrum landsfjórðungum), stutta jarðsögu svæðisins sem finna má víða annars staðar (jarðsagan kringum Akrafjall hefur ekki breyst nýlega) og fróðleik um nokkur örnefni í kaupstaðnum (sem raunar má einnig finna annars staðar).

Titill færslunnar vísar til þess að þetta er lokafærsla í Sögu Sögu Akraness - í bili.
 

Af hverju ætli Akraneskaupstaður hafi í tæp 24 ár verið svona rausnarlegur í söguritun nágrannasveitarfélaganna? Því verður reynt að svara í þessari færslu og draga fram aðalatriðin í þeirri rándýru sorgarsögu. Vísað er í ítarlegri færslu um einstök atriði í Sögu Sögu Akraness með skammstöfuninni SSA og tölusetningu. Jafnframt vek ég athygli á því að færsluflokkurinn Sagu Sögu Akraness er einungis saminn af áhuga á þeirri sögu; Ég tengist einstaklingum sem um hefur verið rætt ekki nokkurn skapaðan hlut.3
 
 

Árið 1987 bjuggu rúmlega 5.400 manns á Akranesi og hafði bærinn vaxið mjög hratt á nokkrum áratugum. Í apríl það ár samþykkti bæjarstjórn að fela þáverandi bæjarstjóra að semja við einhvern um að skrifa sögu Akraness. Miða átti við þrjú bindi, hvert um 300 síður og skyldi gefa þau út á 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar, 1. janúar 1992. Bæjarstjórinn réð Jón Böðvarsson cand. mag til verksins síðsumars 1987 og ritnefnd var skipuð. Jón Böðvarsson var þekktur fræðimaður, jafnt á sviði íslensku sem sagnfræði, ættaður úr Innri-Akraneshreppi og hafði dvalist þar hvert sumar sem barn og unglingur. Auk þess var hann reyndur leiðsögumaður og má ætla að hann hafi þekkt þetta svæði, „Akranes hið forna“, eins og lófann á sér. Launagreiðslur sem samið var um við Jón benda til að sagnaritunin hafi verið hugsuð sem hlutastarf og greiðslur áttu á vera árangurstengdar (SSA II).

Ritnefnd virtist í allra fyrstu þokkalega jákvæð í garð Jóns en snemma varð ljóst að það var lítið lið í ritnefndarmönnum, t.d. var Gunnlaugi Haraldssyni um megn að taka saman skrá um heimildir um sögu Akraness sem til voru á Byggðasafninu en var þó forstöðumaður Byggðasafnsins. Ritnefndin fór fljótlega að ráðskast með Jón og komst snemma á þá skoðun að verkið, ritun sögu Akraness væri sitt verk en ekki hans án þess að hafa hugsað sér að lyfta litlaputta í efnisöflun. Þetta gerðist frekar hratt og við lestur fundargerða veltir maður því fyrir sér hver hefði loft allt lævi blandið. Af fundargerðunum að dæma skín talsverð vanþekking ritnefndarmanna á efninu í gegnum ráðsmennsku þeirra. Ótrúlega náin tengsl voru milli yngra fólksins í ritnefndinni sem myndaði meirihluta frá miðju sumri 1990 án þess að bænum, hvað þá bæjarstjóranum sem var jafnframt formaður Ritnefndarinnar fyrstu átta árin, fyndist neitt athugavert við það (SSA III og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness frá upphafi til starfsloka Jóns Böðvarssonar sagnaritara, þ.e. 1987-1997. Sjá einnig um hugmyndafræði lítils hóps Íslendinga sem lærði í háskólanum í Lundi í Svíþjóð, seint í SSA I).

Trönur á BreiðinniTil að byrja með vann Jón Böðvarsson af kappi en þegar kom að skilum efnis varð dráttur á verkinu og drógust skilin æ meir sem tímar liðu. Raunar þurfti hann að margskrifa efnið sem hann þó skilaði því ritnefndin var ævinlega óánægð með það og kann það að hafa valdið einhverju um dráttinn. Einungis tókst að koma út einu bindi af sögunni 1992 og það náði frá landnámi til 1885. Jón skilaði handriti að öðru bindinu þegar gerður var við hann starfslokasamningur snemma árs 1997. Það bindi nær frá 1885-1942 og hefur verið í vörslu Gunnlaugs Haraldssonar frá því Gísli Gíslason afhenti honum það í febrúar 1997. Jón virðist ekkert hafa fengið greitt eftir árið 1991 og hefur að líkindum fengið greidda 2/3 af þeirri upphæð sem samið var um í upphafi (og mér sýnist að hann hafi einmitt unnið 2/3 af verkinu). Kostnaður Akraneskaupstaður af þessari sagnaritun, að meðtöldum útgáfukostnaði bókarinnar sem kom út, er rúmlega 15 milljónir, uppreiknað á núvirði. Textinn í bók Jóns er lipurlega skrifaður en umbúnaður útgáfunnar afar fátæklegur. (SSA III).
 

Svo virðist sem Gísli Gíslason bæjarstjóri hafi ráðið Gunnlaug Haraldsson, sem þá var atvinnulaus (SSA IV og nmgr. 8 við SSA XV ), sem sagnaritara áður en starfslokasamningur við Jón Böðvarsson var gerður. Gunnlaugur átti að skrifa þrjú bindi sem næðu yfir 1700-2000. Starfið var ekki auglýst og engin augsjáanleg skýring er á því að Gunnlaug Haraldsson var ráðinn, hafandi hvorki menntun í sagnfræði né reynslu af fræðilegum skrifum (SSA XV). Möguleg skýring er að með ráðningunni hafi Alþýðubandalagsmenn í bæjarstjórn og víðar gert sínum manni greiða (SSA V). Önnur möguleg skýring er að á meðan Gunnlaugur sat sjálfur í Ritnefndinni (1987-1990) hafi honum tekist að sannfæra nefndarmenn um að hann væri snillingur.

Í upphafi virtist Gunnlaugur vinna af kappi. Hann gaf fögur fyrirheit, þ.e. lagði fram lista, minnisatriði, verkáætlanir og eigin „hugleiðingar“ um vinnu sína (Sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011). Hann skilaði meira að segja þó nokkru af texta í upphafi, að vísu löngu á eftir áætlun. Þegar samningstíma lauk taldi Ritnefndin að fyrsta bindi af þeim þremur sem hann átti að skila væri fullunnið en hafði reyndar rangt fyrir sér í því (SSA V).  Þá var gerður viðbótarsamningur við Gunnlaug um nýja skiladaga og átti verkinu að ljúka 2004. Hann skilaði heldur ekki af sér í lok þess samningstíma (SSA VI). Næst tókst honum að fá Akraneskaupstað til að semja um að greiða út árangurstengdu/afraksturstengdu greiðslurnar sem samið var um í upphafi, jafnað niður á rúmt ár, þótt árangurinn/afraksturinn væri enn enginn (SSA VII). Í rauninni er þarflaust að rekja þessi viðskipti nánar enda eru þau rakin í einstökum færslum í Sögu Sögu Akraness. Alls gerðu Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson með sér tvo grunnsamninga og fjóra viðbótarsamninga. Gunnlaugur stóð aldrei í skilum þótt ævinlega hafi verið kveðið á um ákveðna skilafresti. Árin 2008 og 2009 var hann svo farinn að fá veglegar greiðslur gegn framvísun reikninga (sjá nmgr. 6 við SSA XV). Mér er ókunnugt um fyrir hvað þeir reikningar voru.
 

Frá upphafi var Gunnlaugur á ágætum launum við sagnaritunina enda skyldi hann hafa hana að aðalstarfi, skv. fyrri grunnsamningi (fyrsta samningnum) sem væntanlega gilti allt til 2006. Því fór fjarri að hann stæði við að hafa ritun sögu Akraness að aðalstarfi en e.t.v. hefur Ritnefndin aldrei tekið eftir því (SSA XII). Í báðum grunnsamningum við Gunnlaug Haraldsson voru riftunarákvæði og ákvæði um endurgreiðslukröfu Akraneskaupstaðar stæði sagnaritari ekki skil á verkum skv. tímasetningum í samningunum (SSA V og SSA IX). Þessum ákvæðum var aldrei beitt.
 

Þegar viðskipti Gunnlaugs við Akraneskaupstað og vinnulag hans er skoðað (sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011) vekur það auðvitað furðu að maðurinn skuli ekki fyrir löngu hafa verið leystur frá störfum, krafinn um endurgreiðslu þess fjár sem ekki hafði verið unnið fyrir, starfið auglýst og reynt að ráða hæfan mann í verkið. Og af hverju sögðu bæjarbúar ekki neitt?
 
 

Ég held að skýringarnar séu eitthvað á þessa leið:

Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa talsvert háar hugmyndir um eigið ágæti.4 Hann hefur ekki hið minnsta samviskubit yfir að hafa þegið ágætis laun og greiðslur frá Akraneskaupstað í 14 ár án þess að skila neinu sem tækt var í prentsmiðju fyrr en í janúar 2011. Sjálfur segir hann að þetta sé vegna þess hversu vel hann vandi sín verk.Þetta finnst mér sýna meira kaldlyndi en venjulegu fólki er tamt; flestir myndu nú skammast sín að þiggja slíkar fjárhæðir án þess að skila afrakstri. Sömuleiðis hikar hann ekki við að kenna öðrum um drátt á skilum, þ.e. firrir sjálfan sig allri ábyrgð á „hinu langa hlé 2005-2006“.6

Höfrungur gamliÞessi tröllatrú Gunnlaugs á eigin verðleika og fagurgali um framtíðaráform sem ekki stóðust7 virðist hafa villt Ritnefndinni sýn frá upphafi. Af aðdáunarverðri tungulipurð tókst Gunnlaugi hvað eftir annað að afsaka eða skýra hvers vegna hann skilaði ekki á tilsettum tíma. (Oftast er afsökunin tímafrek leit í frumheimildum, sjá t.d. yfirlit í SSA XIV.) Ritnefndin varð sem peð í höndum sagnaritara, a.m.k. spurðu nefndarmenn engra óþægilegra spurninga og voru ekki með neitt vesen þótt verk drægist úr hömlu heldur beitti nefndin sér þæg og góð hvað eftir annað fyrir að frekari samningar væru gerðir þegar greiðslur til sagnaritara stöðvuðust og gerir raunar enn. Ritnefndin var það blinduð af töfrum sagnaritarans að hún virtist ekki einu sinni taka eftir því að það vantaði kafla inn í eina „fullgerða“ handritið sem hún hefur staðfest skil á skv. fundargerðum.8

Gunnlaugur kom sér ekki bara upp peðum sem voru dugleg að gera það sem fyrir þau var lagt, s.s. styðja að viðbótarsamningar væru gerðir um meira fé og leggja eftirlitshlutverk sitt svo til alveg á hilluna, heldur einnig voldugum verndara frá upphafi, bæjarstjóranum sjálfum, sem vildi svo heppilega til að var einmitt formaður Ritnefndarinnar. Bæjarstjórinn mælti með því að gerðir væru samningar við Gunnlaug og skrifaði svo sjálfur undir þá. (Gísli Gíslason skrifaði undir fyrsta grunnsamninginn og tvo viðbótarsamninga.)

Verkið var aldrei unnið fyrir opnum tjöldum: Fundargerðir Ritnefndarinnar bárust seint og illa, ýmist til bæjarráðs eða bæjarstjórnar; fjárveitingar og nýir samningar voru samþykkt svo lítið bar á. Væntanlega hafa einhverjir vitað hvernig í málum lá en þeir voru óvirkir áhorfendur, stóðu hjá og töldu hugsanlega ekki í sínum verkahring að skerast í leikinn. Þegar almenningur gerðist svo djarfur að fara að spyrja út í alla þessa peninga og hvað liði ritun sögu Akraness gekk verndarinn, Gísli Gíslason, fram fyrir skjöldu og varði sinn umbjóðanda, Gunnlaug Haraldsson.9

Þannig gekk þetta til síðla árs 2005. Þá varð sá uggvænlegi atburður að Gunnlaugur sagnaritari sá á bak sínum verndara til annarra starfa. Jafnframt varð töluverð nýliðun í stjórn bæjarins (SSA VIII). En Gunnlaugur náði aftur fótfestu og nýr grunnsamningur var gerður, í þetta sinn útbúinn og útskýrður af lögmanni Akraneskaupstaðar (SSA IX). Það kom þó fyrir lítið, áfram skilaði sagnaritarinn engu sem tækt væri til útgáfu og komst upp með það.
 

Í rauninni dugir um framhaldið að vísa í einstakar færslur um gang sögu Sögu Akraness eða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011 til að sjá að áfram var ekki staðið við samning og viðbótarsamninga. Gunnlaugur virðist stjórnsamur maður, svo mjög að Ritnefndin kom ekki með neinar yfirlýsingar í dúr við þær sem hún sendi frá sér þegar Jón Böðvarsson reyndi að starfa með henni, né bókaði neitt í líkingu við það sem þá var bókað um drátt á skilum. Eftir því sem sagnaritun Gunnlaugs spannaði fleiri ár varð æ erfiðara að hafa yfirsýn yfir verkið. Að auki breytti Gunnlaugur áætlunum og ruglaði kannski Ritnefndina þannig í ríminu. Eftir að hann náði aftur góðu tangarhaldi á Ritnefndinni og bæjarstjórnarmönnum 2006 var t.d. samið við hann um aukið vinnuframlag þótt hann hefði alls ekki skilað því sem hann var frá upphafi ráðinn til að vinna.10
 

Þegar rennur loks upp fyrir þeim bæjarstjórnarmönnum sem bera hvað mesta ábyrgð á fjáraustri í sagnaritarann allan tímann frá 1997 að þeir hafa verið gabbaðir grípa þeir til þess fyrirséða ráðs að mæra sagnaritarann. Þá blómstra nýjar goðsagnir, sem bætast við þá að Gunnlaugur sé fræðimaður, nefnilega að verkið sé svo ofurvandlega unnið að ekki sé skrítið að vinnslutíminn hafi verið svona ógnarlangur. Yfirlýsingar helstu bæjarstjórnarmanna virðast gefnar að handritunum ólesnum. Sjálfur hafði sagnaritarinn gripið til þess ráðs að klæða verk sitt í óskaplega íburðarmikinn búning; hann breytti sinni hernaðarlist og hóf að sýna einstakar síður í tilvonandi verki, t.d. á glærum, glæsilegar og litskrúðugar. Bæjarstjórnarmenn eygðu von til að afsaka fjárausturinn úr sjóðum bæjarins í verk þar sem afraksturinn var sorglega lítill (SSA XI og SSA XIII) með því að útmála glæsileika verksins. Haldið var áfram að greiða Gunnlaugi myndarlega, gegn framvísun reikninga þegar allir viðbótarsamningar voru útrunnir (SSA XV, nmgr. 6).
 

Þegar handritum fyrri tveggja bindanna var loks skilað eftir 14 ára starf sagnaritarans voru gerðar kröfur um prentgæði sem alla jafna hafa einungis tíðkast í prentun listaverkabóka (SSA XV og Fjórðungsdómur um 18 marka bók).  Enn á eftir að meta hvort stóryrtar yfirlýsingar í auglýsingum standist, t.d. að í þessum bókum sé að finna nýjar hugmyndir sem varði Íslandssöguna alla. Lausleg athugun mín á hluta fyrra bindisins bendir til þess að heldur hafi verið kastað höndum til verksins þótt prentunin sé dýr (Fjórðungsdómur um 18 marka bók og  Körlunum svarað).

Gamli HöfrungurÞótt þeir bæjarstjórnarmenn sem setið höfðu alla sagnaritunartíð Gunnlaugs (SSA IX) hafi vitað hvernig nýir og nýir samningar voru undirritaðir og greiðslur ekki skornar við nögl í meir en áratug en litlu sem engu skilað gilti það ekki um bæjarbúa. Eins og kemur fram í mörgum færslum í Sögu Sögu Akraness fór þetta að mestu fram bak við tjöldin og fundargerðir ritnefndar um sögu Akraness rötuðu seint og illa á vef Akraneskaupstaðar. Svo er enn. Þessum fundargerðum var gjarna safnað saman og þær lagðar fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn nokkrar saman í kippu. Nýir bæjarstjórnarmenn áttu þess vegna kannski líka erfitt með að átta sig á hvernig verkið hefði gengið fyrir sig. Til að flækja málin var og er staða ritnefndar um sögu Akraness afskaplega óljós í stjórnsýslu bæjarins.

Þeir einu úr hópi bæjarstjórnarmanna sem hafa andæft samningagerð við Gunnlaug Haraldsson opinberlega eru: Sigríður Guðmundsdóttir, sem greiddi atkvæði gegn fyrsta samningum (SSA IV, nmgr. 9) og Karen Jónsdóttir, sem neitaði að semja meir við manninn eftir að hafa áttað sig á vinnubrögðum hans og hversu mikið fé bærinn hafði greitt honum, árið 2009 (SSA XI). Af orðum og gerðum Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra má ráða að hann hafi séð í gegnum Gunnlaug en ekki verið í aðstöðu til að neita að gera frekari samninga við hann (SSA XI). Mögulegir persónutöfrar og tungulipurð Gunnlaugs Haraldssonar hafa sem sagt ekki hrifið alla.
 
 

Á hvað minnir Saga Sögu Akraness?

Fyrsti hlutinn er sorgleg meðferð nokkurra oflátunga í ritnefnd á fræðimanni. Síðari og lengri hlutinn er dæmi um hvernig einum manni tekst að gera bæjarstjórnendur að sínum strengjabrúðum. Sú saga minnir óneitanlega á meintar stórstjörnur útrásarinnar sem skutust eins og súpernóvur upp á fjármálahimininn fyrir hrunið. Menn kepptust við að mæra þá sem mestu fjármálasnillinga heimsins en svo kom í ljós að aldrei var nein innistæða fyrir því lofi þótt umgjörðin væri vissulega stórkostleg þegar best lét. Saga Sögu Akraness minnir líka á „Nýju fötin keisarans“, sem er ágæt dæmisaga um meðvirkni. Og ákveðnar kenningar, oft tengdar viðskiptum og hruni stórfyrirtækja, falla eins og flís við rass að þessari sögu sagnaritunar Akraneskaupstaðar.

Og hvað gerist svo? Ég spái því að ráðamenn Akraneskaupstaðar haldi að sér höndum um sinn og skrifi svo undir nýjan samning við Gunnlaug Haraldsson með haustinu. Ef þeir þurfa að velja milli þess að játa stórfelld mistök, þ.e. að hafa látið blekkjast árum saman, annars vegar, og hins vegar að reyna að halda haus og lofa verk sagnaritarans enn meir og enn hærri raustu hygg ég að þeir velji seinni kostinn. Því hver vill standa uppi sem flón? Og ég spái því að okkar tiltölulega nýráðni bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, gerist hinn nýi verndari Gunnlaugs Haraldssonar enda hefur hann þegar sýnt tilburði til þess. Gangi kenningar fullkomlega upp fær Gunnlaugur Haraldsson líklega duglega launahækkun í næsta samningi við Akraneskaupstað og verður falin enn meiri ábyrgð á ritun Sögu Akraness.



 

1. Byggt á „Saga Akraness, samantekt 1987-2011“, plaggi fengnu frá Akraneskaupstað 4. maí 2011, að viðbættum þeim tæpum fimm milljónum sem Akraneskaupstaður greiddi væntanlega Uppheimum ehf. við fyrir 236 eintök af hvoru bindi af Sögu Akraness um það leyti sem bækurnar komu út, 19. maí 2011, skv. samningi Akraneskaupstaðar við Uppheima efh. Sjá SSA XV.
 
 

2 Sjá tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar í „Frá Akranesi“. Ísafold 27. mars 1889 og SSA I. Væri óskandi að Hallgrímur hefði aldrei flutt fyrirlesturinn „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár“ (þótt hann næði að safna með honum 30 kr. í byggingu barnaskólahúss sem bráðvantaði) því síðan virðist sagnariturum mjög í mun að reka slyðruorðið af Skaganum; koma Akranesi á Íslandssögukortið, ef svo má segja, og þarf að seilast ansi langt til þess.
 
 

3 Má segja að ég þekki svolítið einn úr ritnefndinni og þann eiganda Uppheima sem býr á Akranesi því ég var um skeið samkennari þeirra. Sagnaritarana Jón Böðvarsson og Gunnlaug Haraldsson þekki ég ekki, ekki heldur formann Ritnefndarinnar frá 2006, Jón Gunnlaugsson. Sumum öðrum persónum, t.d. þeim sem setið hafa í einn og hálfan áratug í bæjarstjórn, er ég nægilega málkunnug til að heilsa á götu. Tveir sem við sögu koma voru nemendur mínir fyrir langa löngu. Ég hef einu sinni tekið í höndina á Árna Múla Jónassyni, nýja bæjarstjóranum, þegar ég var kynnt fyrir honum fyrir tilviljun en man ekkert eftir honum úr íslenskudeild HÍ þótt við höfum væntanlega verið samtíða þar fyrir óralöngu. Sem sagt: Ég stend alveg utan við sagnaritunarævintýri bæjarins og er því mjög fegin. Nema að því leytinu að ásamt öðrum Skagamönnum borga ég af því brúsann. Mér hefur þótt saga Sögu Akraness einkar áhugaverð þær vikur sem ég hef eytt í að setja mig inn í hana, ekki hvað síst seinni og stærsti hluti hennar. Nú er kominn tími á bloggsumarleyfi en eftir það hyggst ég koma þessum færslum fyrir í einu pdf-skjali sem hlaða má niður. Væri því ágætt að fá ábendingar og leiðréttingar fyrir haustið.
 
 

4 Sjá t.d. margítvitnað bréf Gunnlaugs Haraldssonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar, 23. febrúar 2005, „Meint ritstífla brestur“, viðtalið „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar“ í Skessuhorni 13. apríl 2011, s. 14-15 og grein Gunnlaugs „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, dags. 5. júní 2011, birtist í Skessuhorni 8. júní 2011 s. 34-35.

Einnig má af formála Sögu Akraness I ráða að Gunnlaugur telur sig hafa unnið merka heimildarannsókn og komist að niðurstöðum sem enginn annar hafði uppgötvað áður:
„Af heimilda- og tilvísanaskrám má ráða, að víða hefur verið leitað fanga, enda byggir ritið að verulegu leyti á minni eigin rannsókn og túlkun frumheimilda. Mín sýn á heimildasnauð tímabil í sögu byggðarinnar og tilgátur þar að lútandi t.d. um landnámið, þróun elstu byggðar og mikilvægi sjósóknar í því samhengi, hafa sömuleiðis kallað á víðtæka efnisleit til stuðnings þeim hugmyndum. Þá hef ég markvisst reynt að kemba öll helstu skjalasögn, þ.á.m. stjórnsýsluembætta landsins á fyrri öldum, og afritað hvaðeina, sem komið hefur í hendur varðandi sögu Akraness.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 10.
 
 

5 Sjá t.d. „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ í DV 22. desember 2009 og fyrrnefnt viðtal í Skessuhorni. Einnig bergmála þessar staðhæfingar í orðum bæjarstjórnarmanna, sjá síðari hluta SSA XIII.
 
 

6 „Vegna þessa verklags [að gefa verkið út sem eina heild við verklok en það hefur sem kunnugt er ekki tekist] hlutu óhjákvæmilega ýmsir þeir sem álengdar stóðu að fyllast óþolinmæði og jafnvel efasemdum um að ég lyki verkinu nokkru sinni. Ekki bætti úr skák það langa verkhlé sem varð 2005-2006.“ „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14.

Sama kemur fram í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I (enda er þetta svokallaða viðtal í Skessuhorni að talsvert stórum hluta formálinn að fyrsta bindinu): „Ekki bætti úr skák það langa verkhlé, sem varð 2005 til 2006, þar sem hverfa þurfti frá hálfköruðu lokabindi verksins.“ Saga Akraness I, s. 9.

Gunnlaugi láist að geta þess að verkhléð var einmitt vegna þess að hann hafði ekki staðið skil á verkum skv. þeim þremur samningum sem Akraneskaupstaður hafði gert við hann.
 
 
 

7 Sjá má glöggt muninn á því sem Gunnlaugur segist vera að vinna og því sem hann skilar með því að skoða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

8 Sjá t.d. SSA XIV þar sem sorgarsaga núverandi óútgefins III. bindis er rakin og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

9 Sjá SSA VII og bréf Gísla Gíslasonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
 
 
 

10  Sjá SSA IX og „Að því búnu og lokinni nauðsynlegri umritun og uppfærslu á ýmsum þáttum ritsins var mér falin umsjón með prentvinnslu þess, þ.e. hönnun, umbroti, kortagerð, ljósmyndun, vinnslu myndrita, myndaritstjórn, prófarkalestri og öðrum verkþáttum, svo að afhenda mætti ritið  fullfrágengið í hendur útgefanda.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 9.
 

Ummæli (8) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

24. júní 2011

Körlunum svarað

Í þessari færslu verður brugðist við ásökunum og harmi nokkurra karla vegna Fjórðungsdóms um 18 marka bók (hér eftir kallaður Fjórðungsdómur); Útdráttur úr honum birtist í Skessuhorni 1. júní sl. en lengri útgáfan á þessu bloggi.1 Ég reikna með að allir séu karlarnir nettengdir og því óþarft að leggja Skessuhorn undir svör mín. Myndin hér að neðan er teiknuð af Bjarna Þór Bjarnasyni og birtist í sama Skessuhorni, s. 6. Hún er birt með leyfi Bjarna Þórs og ritstjóra Skessuhorns. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
 

Að sjálfsögðu byrja ég á að svara bæjarstjóranum sjálfum, sem tjáir sig undir fyrirsögninni „Stórfurðuleg atlaga að fræðimannsheiðri. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri um framkomna gagnrýni á sögu Akraness“. (s.2) Greinin byrjar svona:

„Mér finnst þetta vera furðulegur sparðatíningur og algerlega tilefnislaus atlaga að fræðimannsheiðri höfundar Sögu Akraness. Með þessari ómaklegu gagnrýni eru í raun einnig settir undir sama hatt þeir sem höfðu það hlutverk að fylgjast með ritun sögunnar, þ.e. þeir sem setið hafa í ritnefnd um söguna og fleiri sem unnið hafa með höfundinum,“ segir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri …

Saga Akraness og VersalirÞað er misskilningur Árna Múla að Fjórðungsdómurinn sé sparðatíningur. Þvert á móti er í honum að finna mjög alvarlegar ásakanir um grundvallarmistök í heimildanotkun. Þau eru t.d. að vitna rangt í heimildir (þ.e. ekki stafrétt og jafnvel ekki orðrétt), að misskilja og mistúlka heimildir, að stela myndum og öðrum fróðleik, að vísa rangt til heimilda (einkum mynda) og að enginn greinarmunur er gerður á hvað séu tækar heimildir í sagnfræðirit og hvað ekki (sem sést t.d. í notkun „http://www.wikipedia.org“ og Íslensks söguatlass sem fullgildra heimilda).

Það er líka misskilningur hjá Árna Múla að um fræðimannsheiður sé að tefla. (Sjá síðari hluta færslu XV í Sögu Sögu Akraness. Hér eftir verður vísað til einstakra færsla með skammstöfuninni SSA og tölusetningu.) Sá fræðimannsheiður hlotnast Gunnlaugi Haraldssyni ekki fyrr en þessi bindi verða metin ásættanlegur sagnfræðitexti af fræðimönnum í sagnfræði.

Ég er alveg sammála Árna Múla um ábyrgð Ritnefndarinnar. En mér finnst ekki að draga eigi prófarkalesara, kortagerðarmann, ljósmyndara, umbrotsmann eða umsjónarmann myndvinnslu til ábyrgðar fyrir fúskinu sem ég benti á, nema þá kannski helst að sá síðasttaldi hafi ekki unnið almennilega upp gamlar myndir af Skaganum og umbrotsmaður hafi ekki góðan smekk. Það eru smáatriði. Í Fjórðungsdóminum mínum kemur einmitt fram hrós fyrir glæsileg kort Hans H. Hansen, fallegar ljósmyndir teknar af Friðþjófi Helgasyni og ágætan prófarkalestur. Svoleiðis að ég held að þarna hafi bæjarstjórinn kannski eitthvað misskilið eða mislesið.

Fjórðungsdómurinn var náttúrlega alls ekki tilefnislaus færsla eins og Árni Múli lætur liggja að. Ég var þegar talsvert komin á veg með að skrifa færsluflokkinn Sögu Sögu Akraness þegar ég kíkti í bækurnar hans Gunnlaugs. Og ég kíkti ekki á þessar bækur fyrr en ég áttaði mig á því með lestri fundargerða að Árni Múli, formaður Ritnefndarinnar, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs ætluðu að hunsa algerlega bréf sem ég sendi þeim viku áður.2 Ferill sagnaritara og sagnaritunar, ótrúlegt lof um þetta „stórvirki“, þar sem Árni Múli Jónasson bæjarstjóri nefndi Njálu og Eglu til hliðsjónar handritunum að verkum Gunnlaugs og Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar nefndi Versali og Kölnardómkirkju þegar þessi verk voru útgefin (sjá SSA XIII), og alger hunsun á þeirri ósk að bíða dóms sagnfræðinga var tilefni þess að ég fékk Sögu Akraness I og Sögu Akraness II lánaðar til að líta á gripina. Ég opnaði þær ekki með jákvæðum hug en mig grunaði samt aldrei að það sem ég sæi væri jafnhörmulegt og raun bar vitni.

Við SlippinnEnn einn misskilningur Árna Múla er að ég hafi leitað með logandi ljósi að villum. Þess gerðist engin þörf því þær eru svo margar og augljósar. Auk þess þótti mér bindi I svo leiðinlegt að ég gafst fljótlega upp á að reyna að lesa það, eins og ég nefndi einmitt í Fjórðungsdómnum og datt ekki í hug að eyða tíma mínum að óþörfu. Ég geri nefnilega þá kröfu til texta að hann sé sæmilega stílaður en ekki samhengislaus rökleysa og hef lítinn áhuga á litskrúðugum glanspappír einum saman. (Hefði ég aðallega áhuga á því síðarnefnda læsi ég auðvitað frekar Söguna alla, Skakka turninn, og Hús og híbýli og væri ekkert að sökkva mér ofan í bækur til að lesa góðan texta.)

Árni Múli er menntaður lögfræðingur. Honum ætti því að vera kunnugt um höfundalög og stafrænan höfundarétt. Það vekur furðu mína að hann kalli það sparðatíning að finna að því að efni sé stolið og gefið út undir merkjum Akraneskaupstaðar. Árni Múli er líka með BA próf í íslensku. Þess vegna er ég einnig mjög hissa á að honum finnist allt í lagi að vitna ekki stafrétt í heimildir og taka „http://www.wikipedia.org“ gilda sem heimild. Sömuleiðis reikna ég með að hann hafi næga undirstöðu til að meta hvernig er farið með heimildir varðandi Bresasyni og kenningar þeirra Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar. Er maður með BA próf í íslensku virkilega að halda því fram að efnistök Gunnlaugs hvað þetta varðar séu góð og gild? Í grein Skessuhorns kemur fram að Árni Múli hafi menntun í sögu og ég giska því á að sagnfræði sé aukagrein hans til BA prófs. Finnst honum, í ljósi þeirrar menntunar, allt í lagi að nota Íslenskan Söguatlas sem heimild hvað eftir annað? Og að rangfeðra myndir? Og taka upplýsingar frá öðrum (sjá svar mitt við langloku Gunnlaugs Haraldssonar hér að neðan) um áteiknuð hús á kort frá 1901 án þess að geta þess sérstaklega?

Ég er í rauninni ennþá meira hissa en Árni Múli Jónasson bæjarstjóri sjálfur: Hvernig getur menntaður maður haldið því fram að þessi vinnubrögð séu bara allt í lagi? Er kannski allt í lagi að stela svo lengi sem enginn kærir? Sú meðferð heimilda sem ég lýsti í Fjórðungsdómnum væri ekki tekin gild í heimildaritgerð á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Í rauninni er ekki hægt að svara Árna Múla meir en þetta því hann hefur svo upp svipaða lofrollu og lýst var í SSA XIII. Honum finnst ég líklega heldur vond kona að skrifa svona „niðurrifskennda og tilefnislausa gagnrýni“, eins og hann kallar Fjórðungsdóminn, um bækurnar Gunnlaugs og bæjarsins, í stað þess að taka þátt í halelújakórnum. Á eftir lofrollunni birtist ævintýraleg draumsýn bæjarstjórans um hlutverk þessa framúrskarandi góða, fræðilega og skemmtilega rits, að hans mati. Af því ekki eru allir lesendur bloggsins míns áskrifendur Skessuhorns læt ég draumsýnina um mátt og megin Sögu Akraness I og II fylgja:

Þetta flotta og skemmtilega verk gefur okkur Skagamönnum og þeim sem búa hér í nágrenni við okkur fullt af tækifærum til að styrkja menninguna, söguþekkinguna, ræturnar og sjálfsmyndina hjá okkur öllum, ekki síst hjá unga fólkinu, og verða okkur til ánægju og skemmtunar með ýmsum hætti. Í þessu felast líka margvíslegir möguleikar til að gera bæinn okkar áhugaverðari og eftirsóknarverðari sem búsetukost og til að draga til okkar innlenda og erlenda ferðamenn. Það er undir okkur sjálfum komið að nýta þessi tækifæri og ef okkur tekst það vel mun ekki verða deilt um þann kostnað sem sögurituninni fylgdi.
 
 

Yfirlýsingu frá Ritnefnd um Sögu Akraness“ (s. 2 í fyrrnefndu Skessuhorni) er að finna á Vefnum. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að nefndin fagni öllum vinsamlegum ábendingum og uppbyggilegri gagnrýni en að nefndin „harmar hins vegar þau stóryrði sem viðhöfð voru um höfundinn og verk hans í blaðagrein í Skessuhorni þann 1. júní 2011 og vísar til föðurhúsa“. Inn á milli er skotið: „Hafa skal það sem sannara reynist.“

Garðar og kirkjugarðurinn á AkranesiÉg tek undir orð sr. Ara, alveg eins og Ritnefndin, en bendi á að öll er málgreinin svona: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynist.“3 Ættu þessi orð að vera Ritnefndinni hvatning til að fá óháðan velmenntan sagnfræðing til að taka út bindi I og II af Sögu Akraness áður en gengið verður til frekara samninga við Gunnlaug Haraldson því sjálf hefur nefndin alls ekki axlað eftirlitshlutverk sitt og eru nefndarmenn illa í stakk búnir til að meta hvað missagt kann að vera í Sögu Akraness.4 Ég ráðlegg Ritnefndinni vinsamlega og í uppbyggilegum blíðlegum tóni að fara yfir yfirlitstöflur unnar úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á árunum 1997-2011, skoða hverju sagnaritari hefur skilað, bera saman við það sem sagnaritari hefur sagst vera búinn að vinna og skoða sína eigin vinnu: Ritnefndin ætti sem sagt að líta í eigin barm og hætta að haga sér eins og meðvirkur aðstandandi. Hennar hlutverk er eftirlit með verkinu en ekki að beita sér aðallega fyrir að auknu fé úr sjóðum bæjarins sé veitt til uppihalds Gunnlaugi Haraldssyni.5

Einnig er ritnefndinni góðfúslega bent á að fá að skoða handritið að þriðja bindinu vel og þiggja ráðgjöf sérfróðra í mati á því áður en hún lætur hvarfla að sér að ganga til frekari samninga við Gunnlaug. Loks bendi ég á að þessi yfirlýsing Ritnefndarinnar kostaði rúmar 64.000 krónur, sem fólk eins og ég borgar með útsvarinu sínu. Mér finnst því fé illa varið.6
 
 

Gunnlaugur Haraldsson, höfundur þeirrar Sögu Akraness I og II sem Fjórðungsdómurinn fjallar um skrifar ægilega langa grein (eina og hálfa opnu) sem heitir „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, s. 34-35 í Skessuhorni. [Viðbót 27. júní: Ég tók eftir því núna áðan að langhundur Gunnlaugs er kominn á vef Skessuhorns, dagsettur 20. júní, og kræki hér með í hann, svo menn geti lesið um „rætni og meinbægni“ bloggynju í þessum „fáu línum“ sem hann kveðst hafa hripað. Venjulega gerir Skessuhorn þá kröfu að menn skrifi í hæsta lagi eina og hálfa síðu, með 12 p. letri á A-4 síðu, í aðsenda grein en sagnaritarinn hefur fengið undanþágu.] Mun ég reyna að tína út aðalatriðin í máli Gunnlaugs og svara þeim.

Það er ljóst að Gunnlaugur kann engin skil á höfundarétti mynda á Vefnum. Sömuleiðis virðist hann ekki gera sér neina grein fyrir reglum um tilvísanir í efni á Vefnum né vera fær um að meta heimildagildi slíks efnis. Hann skrifar:

Taldi ég fullnægjandi að greina tryggilega frá uppruna þeirra [mynda af Vefnum] með vísan til vefsíðna, t.d. með http://www.valhs.org í Mynda og myndritaskrá (sjá s. 567-568), á sama hátt og ég vísaði í veftexta í fáein skipti. (s. 34.)

Í Fjórðungsdómnum eru nefnd nægilega mörg dæmi sem sýna að Gunnlaugur vísar alls ekki á fullnægjandi hátt til mynda og jafnframt gerð nokkur grein fyrir höfundarétti stafræns efnis á Vefnum. Ég reikna með að „veftextinn“ sem Gunnlaugur nefnir sé heimildin „http://www.wikipedia.org“ því aðrar vefheimildir sá ég ekki vísað í úr texta, í þeim hluta I. bindisins sem ég skoðaði.

Um ófeðraðar og rangfeðraðar myndir segir Gunnlaugur: „Myndirnar tala sínu máli, svo að mér þótti óþarfi að rekja myndefnið eitthvað frekar en gert er í myndatexta.“ Síðan talar hann um óvissu í höfundum gamalla mynda og telur rök fyrir því að ljósmynd sem hann eignaði Auði Sæmundsdóttur en er tekin af Þorsteini Jósepssyni vera að myndin sé eignuð Árna Böðvarssyni í grein um Auði Sæmundsdóttur í Árbók Akurnesinga 2006, s. 122.7 Jafnframt nefnir Gunnlaugur sína sígildu afsökun, tímaskort.8

Til að spara Gunnlaugi dýrmætar mínútur bendi ég vingjarnlega á það er allt rangt sem hann rekur um mynd 133, sem hann segist hafa fengið af Ljósmyndasafni Akraness en er þar ekki; Hún er ekki tekin af Árna Böðvarssyni eins og Gunnlaugur segir í myndaskrá heldur Hansínu Guðmundsdóttur; Myndatexti við þá mynd er heldur ekki réttur því húsið sem sést á myndinni er Skagabraut 40 en ekki Suðurgata 40 eins og segir í bók Gunnlaugs.9

Um kort sem ég minnist á í Fjórðungsdómnum hefur Gunnlaugur langt mál en aðalatriðin eru væntanlega:

Við þá kortagerð [vinnukort ýmis sem Gunnlaugur segist hafa unnið á árunum 1999-2004] lagði ég m.a. til grundvallar áðurnefndan uppdrátt Ólafs og Knuds og endurgerð hans sem ég vann á fyrsta starfsári mínu við Byggðasafnið í Görðum (1979-1980) með því að nafngreina og merkja inn öll íbúðarhús, sem voru í byggð 1901. Þessi endurgerði uppdráttur hefur síðan hangið uppi í sýningarsal safnsins, en ekki uppdráttur Þorsteins Jónssonar, eins og Harpa staðhæfir. Við vinnslu þessa uppdráttar leitaði ég fyrir mér í ýmsum heimildum. Þar trónaði efst hliðstæð endurgerð, sem Ólafur B. Björnsson vann 1958 og birti í tímariti sínu Akranesi, XVII. árg., 2. hefti, apríl-júní 1958 (s. 102-103). Af öðrum heimildum get ég nefnt vélritað og óársett handrit Þorsteins Jónssonar, Hús og býli á Akranesi, sem hann tók trúlega saman 1978 […] Til glöggvunar jók ég einnig við nokkrum eldri bæja- og verbúðaheitum, t.d. Vestra- og Syðra-Sandgerðis (sem lögðust af vegna landbrots á 18. öld), Hestbúð og Leirárbúð. (s. 34)

Gunnlaugur hefur eitthvað mislesið Fjórðungsdóminn því ég staðhæfði ekki að uppdráttur Þorsteins Jónssonar héngi uppi á Byggðasafninu, einungis að uppdrátturinn væri á Byggðasafninu og hafði fyrir því orð Jóns Allanssonar, forstöðumanns Byggðasafnsins og arftaka Gunnlaugs í því starfi.

Ég skoðaði trélitaða kortið hans Gunnlaugs uppi á Byggðasafni þann 17. júní (af því ég var stödd þar hvort sem var af öðru tilefni), skrapp svo á bókasafnið og bar saman kortið í Sögu Akraness I við kortið í Hús og býli á Akranesi og kortið hans Ólafs B. Björnssonar. Niðurstaðan er sú að trélitaða kortið á Byggðasafninu sem sýna á byggðina árið 1901 virðist byggt á uppdrætti Þorsteins Jónssonar af Akranesi 1898 en kortið í Sögu Akraness I er byggt á korti Ólafs B. Björnssonar af Akranesi 1901.10 

Ég bið því Gunnlaug Haraldsson afsökunar á því að hafa haldið því fram að hann hefði stolið upplýsingum frá Þorsteini Jónssyni. Hið rétta er að hann stal þessum upplýsingum frá Ólafi B. Björnssyni því Ólafs er að engu getið í myndaskrá og þetta hefti Akraness með korti Ólafs B. Björnssonar er ekki einu sinni að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. Svo bendi ég á að inn á kortið í bókinni hefur Gunnlaugur einnig bætt húsinu Bræðratungu, sem var ekki byggt fyrr en 1905.11
 

Svoleiðis að þegar allt kemur til alls er myndkort Gunnlaugs Haraldssonar nr. 6 sem á að sýna Skipaskaga og hluta Garðalands árið 1901 byggt á korti Ólafs B. Björnssonar án þess að geta hans að neinu og splæst þar í nokkrum húsum frá 18. öld án þess þau séu sérstaklega auðkennd frá öðrum húsum á kortinu og a.m.k. einu húsi sem var ekki byggt fyrr en 1905. Hversu marktækt er svona kort fyrir þá sem vilja leita sér upplýsinga síðarmeir? Á hinn bóginn lítur kortið sjálft gullfallega út sem er Hans H. Hansen að þakka.
 

Gunnlaugi Haraldssyni finnst leitt að ég skuli „ekki hafa húmor“ fyrir efnistökum hans, t.d. rökum sóttum í Fornaldarsögur Norðurlanda og Guðbrand Vigfússon:

Því kryddi fannst mér ómögulegt að að sneiða hjá, enda þarf vart „sæmilega fróðan mann“ til að sjá hversu vonlítið það er í byrjun 21. aldar að fá vissu fyrir fæðingarstað og uppruna Bresasona. (s. 35)

Það er alveg rétt hjá Gunnlaugi að ég kom ekki auga á húmorinn í þessu enda brúkar hann einmitt þessi rök til að kasta rýrð á fræðimanninn Jón Böðvarsson (sjá Fjórðungsdóminn) sem mér fannst einstaklega ófyndið. Af því önnur meginuppgötvun sú sem Gunnlaugur Haraldsson þykist hafa gert er einmitt uppruni Bresasona hvarflaði ekki að mér að líta bæri á þá uppgötvun sem brandara. (Sjá t.d. orð Guðmundar Páls Jónssonar í SSA XI og auglýsingar Uppheima um I. bindi Sögu Akraness.) Er þá hin meginuppgötvunin, þessi um miklu meiri fiskneyslu Íslendinga á landnámsöld til þrettándu aldar en fræðimenn hafa almennt talið sem varpa ku nýju ljósi á sögu allrar þjóðarinnar (sjá SSA XV), líka brandari? Er Saga Akraness I þá fyrst og fremst duglega myndskreytt brandarabók á glanspappír?
 

Gunnlaugur segir ásakanir mínar um hugmyndastuld og vera léttvægar (að vísu skautar hann snyrtilega fram hjá líklegum svoleiðis stuldi frá sjálfri mér). Í rökum hans má lesa að Gunnlaugur er afar einangraður maður, eiginlega svo vorkunn er að:

Vafalaust hefði mátt bæta fleirum í þann hóp fræðimanna, sem fjallað hafa um þetta efni [samsvörun örnefnaraðar á Lewis og Kjalarnesi og Kjós], þótt ég þekki ekki til þeirra rannsókna. Er þá meðtalin sú Landafundasýning sem Harpa nefnir. Um hana hafði ég hvorki vitneskju né sá á sínum tíma. Mér er því óskiljanlegt hvernig ég átti að vitna til þess korts Gísla Sigurðssonar prófessors, sem prýddi sýninguna. Yfir slikri skyggnigáfu bý ég hreint ekki. Hins vegar dreg ég ekki í efa, að það kort var vel unnið og áreiðanlega að einhverju marki byggt á rannsóknum Magne Oftedal. (s. 35) 

Ég hélt satt að segja að þúsund ára afmæli Vínlandslandsfundar hefði ekki farið fram hjá nokkrum manni, slík var umræðan árið 2000. Stór þáttur í hátíðahöldum vegna þessa afmælis var Landafundasýningin í Þjóðminjahúsinu. Hún fékk svo að standa næstu tvö árin.12
 

Gamli vitinn á SkagatáHörmuleg meðferð heimilda, sem getið er í Fjórðungsdómnum, telur Gunnlaugur að eigi við að hann hafi „bersýnilega, fyrir misgáning“ bætt inn orði í beina tilvitnun í Íslensk fornrit. Ég tek undir með honum að vonandi sé svoleiðis ónákvæmni ekki „beinlínis dæmigerð fyrir heimildameðferð“ hans en um það veit ég ekki því ég fletti einungis upp þremur tilvitnunum í Íslenskum fornritum. Það er hörmulegra finnst mér að geta haft eina einustu beina tilvitnun í Íslensk fornrit stafrétt eftir en það er mýgrútur af slíkum dæmum. Það er algerlega óafsakanlegt enda kýs Gunnlaugur að nefna þetta ekki í sínum langhundi. Sömuleiðis svarar hann því ekki hvers vegna hann vitnar ekki í frumheimild fyrir tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar heldur í Borgfirska blöndu.

Í lok hinnar löngu greinar Gunnlaugs kemur svo á daginn að við erum hjartanlega sammála um eitt atriði. Gunnlaugur skrifar:

 Ég tek heilshugar undir þessa ráðleggingu Hörpu [um að Akraneskaupstaður fá sæmilega fróðan mann til að taka út þessi tvö bindi Gunnlaugs og meta vinnubrögð hans áður en frekari samningar verði gerðir við hann], því eigi dómar hennar við rök að styðjast má það sannarlega vera áhyggjuefni og hættuspil fyrir ritnefnd og bæjarstjórn að fela mér að búa meira af samsetningi mínum til prentunar. […] Því sýnist mér hyggilegt, að áður en í það verk verður ráðist [að semja um þriðja bindið] leggi „sæmilega fróður maður“ mat á það, sem út er gefið og ekki verður afturkallað. (s. 35)

Ég fagna þessari niðurstöðu Gunnlaugs enda er um langþráð tækifæri hans til að geta kallað sig fræðimann að tefla. Nú treysti ég því að Gunnlaugur sannfæri Ritnefndina og bæjarráð, sem hvor tveggju hafa ævinlega reynst honum til þjónustu reiðubúin, um að fá óháðan fræðimann í þetta mat, þ.e.a.s. sagnfræðing sem er hvorki tengdur þeim flokksforkólfum, ættum né nefndum sem hingað til hafa skipað hirð sagnaritans, ausið í hann fé og mært hann meir en mestu smjaðrarar í hópi hirðskálda kunnu við í sínu konungalofi forðum tíð.

Jafnframt skora ég á Gunnlaug Haraldsson að afhenda slíkum óháðum fræðimanni handritið að þriðja bindinu (sem hann segir tilbúið) til yfirlestrar, mats og ráðgjafar áður áður en hann svo mikið sem ljáir máls á því að skrifa undir samning um útgáfu þess bindis við Akraneskaupstað.
 
 



 1 Greinar karlanna er allar að finna í Skessuhorni 8. júní 2011 og er einungis vísað til blaðsíðutala í þessari færslu.
 
 

2 Mánudaginn 23. maí 2011 sendi ég bréf í tölvupósti til allra helstu karlanna í bæjarapparatinu sem höndlað hafa samningagerð við Gunnlaug og samþykkt fé honum til handa einhvern tímann síðustu fjórtán árin, þ.e. Árna Múla Jónassonar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, Jóns Gunnlaugssonar, formanns ritnefndar um sögu Akraness, Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar, Guðmundar Páls Jónsonar, formanns bæjarráðs og Jóns Pálma Pálssonar, bæjarritara. Í bréfinu fór ég fram á að frekari samningsgerð við Gunnlaug Haraldsson yrði frestað uns Saga Akraness I og II hefði verið ritdæmd í fræðilegu tímariti. Ég benti á að í ljósi hins langa tíma sagnaritunar til þessa lægi tæplega mikið á að gera nýjan samning. Einnig benti ég á að flestir íbúar Akraness væru líklega búnir að fá sig fullsadda af kostnaði við vinnuna til þessa.

Þessu bréfi svaraði bæjarstjórinn Árni Múli Jónasson undir eins og sagði að erindi mitt yrði „að sjálfsögðu tekið til umfjöllunar með viðeigandi hætti hjá Akraneskaupstað.“ Þá ég hváði útskýrði hann í öðru bréfi: „Með viðeigandi hætti þýðir hér að erindið fari til kynningar og umfjöllunar hjá viðeigandi nefndum og ráðum, þ.e. miðað við efni þess og verkaskiptingu nefnda og ráða hjá kaupstaðnum. Í þessu tilviki reikna ég helst með að erindið fari til bæjarráðs og/eða Akranesstofu til umfjöllunar.“ Svör Árna Múla eru frá 23. maí 2011.

Lesendum til upplýsingar þá fer Akranesstofa með stjórn menningar- og safnamála, markaðs- og kynningarmála og verkefna á sviði ferðaþjónustu. Ritnefndin heyrir ekki undir hana því skv. skipuriti Akraneskaupstaðar heyrir Ritnefndin ekki undir neinn sérstakan aðila og hefur aldrei fengið erindisbréf. Í áranna rás hefur hún stundum verið sérstakt verkefni bæjarstjórans sjálfs, oftast heyrt að einhverju leyti undir bæjarráð og einstaka sinnum þurft að lúta vilja bæjarstjórnar. Ég veit ekki hvaðan bæjarstjórinn fékk þá flugu í höfuðið að bréf um ritun sögu Akraness hefði eitthvað með Akranesstofu að gera en honum er að því leytinu vorkunn að þessi Ritnefnd er nátttröll frá síðustu öld og varð útundan þegar stjórnssýsla bæjarins var einfölduð 2009. Þess vegna er Ritnefndin meira eða minna sjálfráð, eftirlitslaus og lítið tengd stjórnsýslu bæjarins nema þegar hún þarf að fara fram á aukið fé handa sagnaritaranum.

Af fundargerð bæjarráðs varð svo strax ljóst að ekki yrði minnsta mark tekið á bréfi mínu. Sama sást í fundargerð ritnefndar um sögu Akraness þegar sú fundargerð rataði loks á vefinn, raunar óvenju snemma (en það hefur verið talsvert algengt að fundargerðir Ritnefndar rati ekki á Vefinn fyrr en nokkrum vikum, jafnvel mánuðum, eftir að fundir eru haldnir í þeirri nefnd).
 
 
 

3 Ari fróði Þorgilsson. Formáli að Íslendingasögu. Tekið úr útgáfu Guðna Jónssonar, Íslendingasögur I, Íslendingasagnaútgáfan 1978, s. 1.
 
 
 

4 Í ritnefnd um sögu Akraness sitja þrír Sjálfstæðismenn: Jón Gunnlaugsson, formaður nefndarinnar og umdæmisstjóri VÍS á Akranesi, Guðjón Guðmundsson framkvæmdarstjóri Dvalarheimilisins Höfða og Bergþór Ólason fjármálastjóri Loftorku í Borgarnesi; fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs er Björn Gunnarsson, svæfingalæknir á HVE og loks situr Leó Jóhannesson framhaldsskólakennari fyrir Samfylkinguna. Flestir þeirra hafa setið mörg ár í Ritnefndinni, Leó á metið en hann hefur setið í ritnefnd um sögu Akraness síðan 1990. Hann er jafnframt sá eini nefndarmanna sem hefur einhverja menntun í sögu, samsvarandi íslenskri BA gráðu í faginu. Í fundargerðum ritnefndar kemur hvergi fram að nefndin hafi kallað sagnfræðing til ráðuneytis. (Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa fengið sagnfræðing til að lesa yfir hluta handrits af I. bindinu (í október 2007). Óljóst er á hvaða stigi það handrit var. Einnig þakkar Gunnlaugur tveimur sagnfræðingum veitta aðstoð í formála að fyrsta bindinu. Annar þeirra var jafnframt prófarkalesari verksins.)
 
 
 

5 Sé verið að hugsa um framfærslu eingöngu er það væntanlega Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á framfærslu Gunnlaugs Haraldssonar því þar hefur hann verið búsettur frá 2003.
 
 

6 Hver óbreyttur nefndarmaður fær greiddar 9.269 kr. fyrir fundarsetu og formaður nefndarinnar fær 17.509 kr. fyrir fundarsetuna. Ofan á þessar greiðslur bætast við 17,35% launatengd gjöld sem Akraneskaupstaður greiðir. Mér finnst að fé Akraneskaupstaðar hefði mátt verja betur en í að semja þessa yfirlýsingu. Þetta var 81. fundur ritnefndar um sögu Akraness. Mér finnst einnig að verja mætti fé okkar útsvarsgreiðenda betur en að reka þessa fimm manna nefnd, sem ekki sinnir neinu eftirlitshlutverki heldur minnir meir á klappstýrur, í meir en áratug (raunar allt frá árinu 1997 þegar Gunnlaugur Haraldsson tók við sem sagnaritari; áratuginn á undan var ritnefndin meir í hlutverki nöldurskjóða).
 

7 Vissulega er skemmtileg grein eftir Auði Sæmundsdóttur í þessari Árbók Akurnesinga, „Dagur í lífi sveitakonu“. Og undir ljósmyndinni af kúnum á Jaðarsbakka stendur Á.B. Hins vegar gæti sú merking allt eins verið ritstjórans, Kristjáns Kristjánssonar, sem hefur kannski fundist þessi mynd eiga vel við efni greinarinnar. Hvað sem því líður tel ég nú öllu traustara að byggja á upplýsingum Ljósmyndasafns Akraness og afsökun / skýring Gunnlaugs er afar langsótt, svo ekki sé meira sagt.
 
 
 

8 Gunnlaugur skrifar: „Hugsanlega hefðu mér nægt 20 mínútur til viðbótar við að sannreyna uppruna þeirra fjögurra mynda sem Harpa tiltekur í grein sinni. Á það reyndi hins vegar aldrei. Og víst er um það, að mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum, sem mér hefðu gefist til viðbótar til að þrautkanna sérhvert þeirra fjölmörgu atriða, sem ég var í vafa um við samningu þessa rits.“ (s. 34). Í ljósi þess að það tók Gunnlaug Haraldsson 14 ár að koma saman handritum að fyrri tveimur bindunum um sögu Akraness er þessi yfirlýsing auðvitað sprenghlægileg.
 
 
 

9 Sjá „Úr myndasafni Helga Dan“. Árbók Akurnesinga 1. árg. 2001, s. 160. Ritstjóri Kristján Kristjánsson. Þessar upplýsingar koma líka fram í Ásmundur Ólafsson. 2006. „‚Nú er bjart um Skipaskaga - skín á nes og vör‘ Örnefni við Akranes - Gönguferð með sjónum“. Lionsklúbbur Akraness 40 ára, s. 12. Síðarnefndu heimildina er að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. bindi en þá fyrrnefndu ekki.

Lesendur sem ekki hafa skoðað Sögu Akraness I hefðu kannski gaman af að kíkja á ljósmynd Hansínu Guðmundsdóttur í Ljósmyndasafni Akraness, sem tekin er nokkrum mínútum síðar en myndin sem birtist í bók Gunnlaugs (en á myndinni í Ljósmyndasafninu eru konurnar tvær fremst á myndinni í bókinni komnar niður á Langasand). Ég ráðlegg Gunnlaugi (vingjarnlega) að fara nú rækilega yfir skráningu gamalla mynda af Akranesi, í þessu bindi og þeim sem hann hyggst skrifa einhvern tíma í framtíðinni, sem og annað efni. Eiginlega er það svo að um leið og maður fer að skoða efnið eitthvað nánar (í þessu tilviki hluta I. bindis) kemur í ljós urmull af villum til viðbótar þeim sem sjást glöggt við fyrstu sýn.
 
 
 

10 Þetta sést greinilega séu borin saman bæjarheitin Brekkukot og Brekkubær; Þorsteinn hefur Brekkukot norðar en Brekkubæ, sama sést á korti því sem Gunnlaugur segist hafa gert og hangir uppi á Byggðasafninu, en Ólafur B. Björnsson snýr þessu öfugt, þ.e. Brekkubær er nyrðra húsið og sama sést á korti Gunnlaugs í Sögu Akraness I.
 
 
 

11 Á yfirliti sem skýrir tölusetningar á  trélitaða kortinu á Byggðasafninu er svo merkt „89 Hábær I“ og „90 Hábær II (Bræðratunga)“. Þorsteinn Jónsson segir í fjölritinu Hús og býli á Akranesi: „1905 byggir Eyjólfur timburhús á gamla Hábæjarstæðinu og nefnir hann Bræðratungu.“ Ártal og blaðsíðutal vantar. Ólafur B. Björnsson merkir þetta hús (væntanlega torfbæ) sem Hábæ II á sitt kort en Gunnlaugur hefur auðkennt Hábæ II sem íbúðarhús en ekki „torfhús“ (hann kallar torfbæi „torfhús“ í skýringum við litatákn) á trélitaða kortið sitt á Byggðasafninu og er ómögulegt að vita hvort eða hvað hann hefur fyrir sér í því. Í þessu sambandi mætti einnig ræða aldur íbúðar á Hóli II, öðru nafni Hjarðarhóli, miðað við upplýsingar Ólafs B. Björnssonar í „Hversu Akranes byggðist. 5. kafli. Vorhugur og vélaöld gengur í garð“. Akranes 1959 1. hefti (jan.-mars), s. 50 en ég læt hér staðar numið í ókeypis yfirferð yfir kort Gunnlaugs Haraldssonar.
 
 
 

12 Eiginlega minnir þessi einangrun Gunnlaugs mig mest á Múmínpabba í vitanum! Gunnlaugur hefur sjálfur lýst hversu einmanalegt og einangrað starf hins mikla sagnaritara er og það að hafa ekki orðið var við Landafundasýninguna er bara angi af þeirri mýtu: „mega þeir [sagnaritarar] sæta því hlutskipti að sitja einmana og aflokaðir við iðju sína og eru oftast nær einir til frásagnar um það tímafreka puð sem liggur að baki þeim texta sem um síðir mætir lesendanum.“ Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.
 

Til að spara Gunnlaugi örlítinn tíma í að setja sig inn í kenningar fleiri fræðimanna bendi ég honum góðfúslega á ritið From Starafjall to Starling Hill. An investigation of the formation and development of Old Norse place-names in Orkney sem unnið er upp úr doktorsritgerð Berit Sandnes frá 2003 og gefið út af  Scottish Place-Name Society 2010. Þar kemur fram að örnefnin Akranes (Aikerness) Garð og Garða (Garth, Garith o.fl.), Kvíar (Quoys, Curqoy, Fealquoy o.fl.) Mela (The Mello), Bakka (Croo Back) og mörg fleiri, meira að segja tvo hólma (Aikerness Holmies) má einnig finna á litlu svæði á Vesturey í Orkneyjum (Evie héraðinu á Westray). Væri kannski hægt að teikna kort af þeim líka, þó ekki væri nema til að undirstrika brandarann um uppruna Bresasona. Myndir af svæðinu má sjá hér. Sömu örnefni finnast víðar á Bretlandseyjum og náttúrlega í Noregi, Færeyjum og víðar um Norðurlönd.
 
 
 
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness