Færslur undir „Siðblinda“

27. desember 2011

Vefur um siðblindu

Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Ummæli (5) | Óflokkað, Siðblinda

26. mars 2011

Lokafærsla um siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VII hluti
 
 

Það væri endalaust hægt að halda áfram að skrifa um þetta áhugaverða efni en hér verður látið staðar numið og ég sný mér að öðru. Ég hef orðið margs vísari í þessum skrifum og einhvern tíma verður efnið bútað niður á vefsíður, tekið tillit til athugasemda og fyrstu greinarnar endurskrifaðar enda var ég að afla mér þekkingar jafnóðum og skrifum vatt fram.
 

Eins og margoft hefur komið fram í fyrri skrifum beinist áhugi manna einna mest að siðblindum í viðskiptalífinu og áhrifum þeirra þar. Að mínu mati er það frekar léttvæg hlið siðblindu (en auðvitað markast mikilvægið af því hvaða sýn menn hafa á fé og hversu miklu máli menn telja að auður, eignir og fé skipti  í lífinu). Það hefði svo sem mátt skrifa meira um þetta, gera t.d. grein fyrir hinni dökku þríund (The Dark Triad) sem er notað um það þegar machiavellianismi, sjálfsdýrkun (narcissism) og siðblinda (psychopathy) koma saman í  persónuleika einhvers. Sjálfsdýrkun einkennist af sjálfumgleði, hroka og athyglisýki, machiavellíönsk viðhorf gera það að verkum að menn vilja öðlast vald yfir öðrum og setja eiginhagsmuni í forgang. Versti þátturinn í þessari blöndu er siðblinda eins og ætti að vera ljóst hafi menn lesið fyrri færslur um hana.(Lesa má stuttan texta um hina dökku þríund á ensku Wikipediu og þar er krækt í greinar um efnið.)
 

Annað sem sumir virðast hafa áhuga á er siðblinda í stjórnmálum. Um það hef ég ekkert skrifað enda fremur áhugalítil um efnið. Ég reikna með að um margt gildi hið sama um siðblinda í pólitík og siðblinda í viðskiptum. Illskufræði (Ponerology) fjalla um það ástand sem verður þegar siðblindir ná völdum yfir samfélagseiningu, ríki eða þjóð og gegnsýra þetta með skoðunum sínum. (Ég bendi enn og aftur á knappa og skýra umfjöllun á Wikipediu, um illskufræði, þar sem vísað er í frekara efni.)
 

MinkurMér finnst miklu mikilvægara að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Það er ekki tilviljun að tekið er svo til orða um siðblinda: „Á meðal okkar eru þeir sem hafa enga samvisku. Þeir orða tilfinningar en hrærast ei tilfinningalega. Þeir bindast engri lifandi veru. … Eina markmið þeirra í samskiptum er að drottna yfir undirsátum. Þeir eru hin fullkomnu rándýr mannkynsins.“1

Þótt vinsælt sé að tákna siðblinda með úlfsmyndum er þar illa farið með „góð“ rándýr því úlfar eru félagslyndir og veiða í hópum. Fyrir Íslending er kannski heppilegast að sjá fyrir sér mink þegar rándýrið siðblindingi berst í tal.
 

Það hefði verið gaman að fjalla um mannfræðirannsóknir sem sýna að siðblinda þekkist í ýmsum samfélögum öðrum en vestrænum. Hér verður látið duga að minnast á niðurstöður Jane M. Murphy sem komst að því að meðal Yoruba ættbálkins í Nígeríu er til hugtakið arankan yfir mann sem ávallt fer sínar eigin leiðir án tillits til annarra, sem er ósamvinnuþýður, fullur illsku og þrjósku og meðal inúita í norð-vestur Alaska var svo til hugtakið kunlangeta sem bókstaflega þýðir „hugur hans veit hvað á að gera en hann gerir það ekki“ og er notað um mann sem brýtur reglur og norm, t.d. stelur, lýgur og fer ekki á veiðar en notar tækifærið þegar hinir karlarnir eru á veiðum til að misnota konur þeirra kynferðislega. Í inúítasamfélaginu sem Murphy rannsakaði var einn kunlangeta í 499 manna samfélagi. Hún spurði hvað hefði tíðkast að gera við svona menn og var sagt að sennilega „hefði einhver hrint honum af ísjaka þegar enginn sæi til“.2
 

Justitia, gyðja réttlætisinsÞað hefði líka verið spennandi að skoða hvaða máli siðblindugreining skiptir í lagalegu tilliti, í Evrópu og Bandaríkjunum. Af því siðblinda (psychopathy) er ekki viðurkennd sem sjálfstæð persónuleikaröskun þar sem DSM-IV og ICD-10 staðlarnir eru notaðir, heldur er einhvers konar undirþáttur í andfélagslegri persónuleikaröskun, vandast nokkuð málið. Sömuleiðis eru víða, t.d. í Bandaríkjunum, ekki notaðir sömu skilgreiningar í lagalegri umfjöllun og læknisfræðilegri umfjöllun þegar verið er að meta sakhæfi. Yfirleitt virðast siðblindir glæpamenn vera úrskurðaðir sakhæfir.3 Á Íslandi var það gert í Geirfinns- og Guðmundarmálinu fræga 1980 en þá átti  ICD-9 staðallinn að gilda á Íslandi og líklega hefur geðvilla verið innifalin í andfélagslegri persónuleikaröskun (því miður finn ég ekki upplýsingar um hvernig þessu var nákvæmlega varið í handbókinni sem fylgdi með gamla ICD-9 staðlinum). Það væri áhugavert að vita hvort geðvillugreining sé til marks um sakhæfi miðað við þau mál sem dómstólar hafa skorið úr um á undanförnum áratug eða svo, hér á landi. Mig grunar að núorðið sé reynt að fara kringum siðblindugreiningu skv. ICD-10 því eflaust eru siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Bretar hafa reynt að fara kringum þetta vandamál með því að búa til sérstaka flokkun, DSPD (glæpamenn með „dangerous and severe personality disorder“) sem dekkar flesta þá siðblindu og hafa vistað slíka glæpamenn í stranga öryggisvörslu. Í meðferð og endurhæfingu DSPD-glæpamanna hefur síðan verið eytt ómældu fé en árangurinn er lítill sem enginn.4
 

Jeffrey Archer

Á tímabili var ég að hugsa um að skrifa eina færslu um fræga siðblindingja, t.d. morðingja á borð við Ted Bundy og Peter Lundin, fjárglæframenn, t.d. Bernie Madoff og Andrew Fastow og fleiri. Því miður uppgötvaði ég í þeim pælingum að minn uppáhalds reyfarahöfundur, Jeffrey Archer, hefur verið greindur siðblindur af geðlækni og reyndar bendir æviferill Archer sterklega til þess að greiningin sé alveg rétt. (Myndin er af Archer.)
 

Margt skondið hef ég rekist á í skoðun heimilda um siðblindu. Má nefna grein sem ég týndi því miður aftur þar sem borin voru saman markmið ýmissa sjálfshjálparbóka (þ.e. bóka sem eiga að kenna manni að verða hamingjusamari, öðlast aukið sjálfstraust, takast betur á við lífið o.þ.h.) og kjarnaeiginleikar siðblindu skv. gátlista Hare. Niðurstaðan úr þeirri umfjöllun var að nútíma sjálfshjálparfræði reyndu að kenna fólki að verða siðblindara. T.d. væri lögð þung áhersla á að velta sér ekki upp úr fortíðinni heldur horfa einungis fram á veginn, þ.e. æfa sig í skorti á eftirsjá; að setja sig sem mest í fyrsta sæti, þ.e. æfa sig í sjálfselsku og eiginhagsmunasemi; að hrósa sér stöðugt, þ.e. ýta undir bólgið sjálfsálit o.s.fr. Þetta þótti mér athyglisverður vinkill á sjálfshjálparfræði.
 

Einnig var gaman að lesa um hvernig forkólfar höfuðlagsfræða  (phrenology, sem er „sú kenning, að tilteknir sálrænir hæfileikar eigi sér aðsetur á sérstökum svæðum heilans og snið hauskúpunnar á hverjum stað gefi vísbendingu um styrk þeirra hæfileika, sem undir búi“) og svipbrigðafræða (physiognomy) urðu óvart til að ýta undir þekkingu manna á geðröskunum, þ.á.m. siðblindum glæpamönnum.
 
 

Without Conscience / Án samviskuEn þótt öðru hvoru rækist ég á eitthvað skondið, jafnvel skemmtilegt, var heimildalestur um siðblindu yfirleitt ekki skemmtiefni, eðli málsins samkvæmt. Ég get ekki sagt að ég vorkenni siðblindum nema að því leyti að mér finnast það ömurleg örlög að fæðast án samvisku. Sá samviskulausi finnur samt væntanlega minnst fyrir því. Þótt hann geri sér grein fyrir að hann er öðruvísi en annað fólk og geti ekki myndað mannleg tengsl er honum alveg sama einmitt af því hann skortir samvisku og tilfinningar. Ég vorkenni aftur á móti öllum þeim sem verða á vegi slíks manns. Og tek heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!
 
 
 
 



 1 Meloy, J.Reid og Meloy M.J. 2002. „Autonomic arousal in the presence of psychopathy: A survey of mental health and criminal justice professionals“. Journal of  Threat Assessment 2.árg. 2.tbl. 2002, s. 21-33.
 2 Murphy, Jane M. 1976. „Psychiatric Labeling in Cross-Cultural Perspective. Similar kinds of disturbed behaviour appear to be labeled abnormal in diverse cultures“. Science 191.árg. 4231.tbl. mars 1976, s.1026
 

3 Sjá t.d. Pirelli, Gianni, William H. Gottdiener og Patricia A. Zapf. 2011. „A Meta-Analytic Review of Competency to Stand Trial Research“. Psychology, Public Policy, and Law  17.árg. 1.tbl. 2011, s. 1–53; Larsson, Johan. 2006. Psykopaten och rättvisan. Psykiskt störda lagöverträdare – med fokus på personlighetsstörningar (námsritgerð við lagadeildina í Háskólanum í Lundi, Svíþjóð); Christie, Nils. 2001. „Et humanistisk perspektiv på straffegjennomføringsloven“. Á síðu IKRS (Institutt for kriminologi og rettssosiologi). Textinn birtist á vefsíðunni 26. jan. 2009;
 
 

4 Sjá Warren, Fiona o.fl. 2001. Review of treatments for severe personality disorder (skýrsla unnin fyrir Home Office Department of Health and Prison Service. Dangerous and Severe Personality Disorder Programme); Kendell, R.E. 2002. „The distinction between personality disorder and mental illnessThe British Journal of Psychiatry 180. árg. 2002, s. 110-115 og Tyrer, Peter o.fl. 2010 „The successes and failures of the DSPD experiment: the assessment and management of severe personality disorder“. Medicine, Science and the Law 50.árg. 2.tbl. 2010, s. 95-99.

Af íslensku efni þar sem svolítið er fjallað um sakhæfi siðblindra hef ég einungis rekist á eina grein (en hef svo sem ekki leitað sérstaklega að þessu). Það er: Jónatan Þórmundsson. 1982.  „Úrdráttur úr „Mat á geðrænu sakhæfi“ í Sjúkdómshugtakið : merking þess, notkun og takmarkanir í geðlæknis- og sálarfræði / [ritnefnd Haukur Hjaltason, Klaus Dieter Wiedmann, Kristján Sturluson]. Rit þetta er að stærstum hluta byggt á málþingi sem Félag sálfræðinema við Háskóla Íslands stóð fyrir í apríl 1981.
 
 

Ummæli (6) | Óflokkað, Siðblinda

25. mars 2011

Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti


Í þessari færslu verður stiklað á stóru og athygli vakin á nokkrum dæmum um siðblindu í fræðum og bókmenntum frá ýmsum tíma. Engan veginn er um tæmandi umfjöllun að ræða heldur einungis stiklur svo umfjöllunin er nokkuð brotakennd. Einnig verður aðeins minnst á íslenskar bókmenntir en þar er einungis um vangaveltur færsluhöfundar að ræða því nánast ekkert hefur verið skrifað um siðblindu í tengslum við þær.
 

Siðblindir einstaklingar hafa væntanlega verið til frá því einhvern tíma í þróunarsögu mannsins (sbr. kaflann „Þróunarfræðilegar skýringar“ í færslunni Orsakir siðblindu.) Menn hafa þóst sjá þess merki að verið sé að lýsa siðblindum í mjög gömlum textum svo snemma hefur samferðamönnum siðblindra orðið ljóst hvern mann þeir höfðu að geyma.

Oftast er vitnað til Manngerða Þeófrasosar sem elsta fræðitexta þar sem siðblindum er lýst.  Þeófrastos var frá Eresos á Lesbos, nemandi Platons og  persónulegur vinur Aristótelesar. Hann var raunvísindamaður sem reyndi að rannsaka náttúruleg fyrirbæri á hlutlægan hátt, þ.m.t. manngerðir. Ritið Manngerðir var skrifað í Aþenuborg árið 319 fyrir Krist. Ein manngerðin er sú sem sýnir blygðunarleysi og eru einkennin óneitanleg lík hugmyndum nútímamanna um siðblindu:

Sá blygðunarlausi„Blygðunarleysi - svo það sé skilgreint - er að traðka á mannorðinu fyrir skammarlegan ávinning. Sá blygðunarlausi er þannig:
   Hann fer fyrst til einhvers sem hann hefur svindlað á og biður um lán … Ef hann hefur einhvern tíma gert kjötkaupmanninum greiða, þá minnir hann á það, þegar hann kaupir í matinn, og stendur við vogina og lætur helst aukakjötbita með, en ef það tekst ekki, þá súpubein. Heppnist það, lætur hann sér vel líka, ef ekki, þá seilist hann í vömb af búðarborðinu um leið og hann hypjar sig hlæjandi á brott. … Í baðhúsinu er hann vís til að ganga að vatnskatlinum og dýfa skjólunni ofan í undir öskrum baðvarðarins og skvetta sjálfur yfir sig og segja svo að hann sé búinn að skola sig. Á leiðinni út segir hann við baðvörðinn: Ertu ennþá í fýlu? Þú færð sko enga þóknun frá mér.“

Sá blygðunarlausi er, sem sjá má af þessum dæmum, sjálfselskur, kaldlyndur, samviskulaus, ruddalegur og svífst einskis í eigin þágu. Manngerðir Þeófrastosar voru frægt rit sem barst víða. Í eftirmála að íslensku þýðingunni er rökstutt að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi átt eintak af þeim í sínu bókasafni í Skálholti.1
 

Enn frægari en Manngerðir er vitaskuld sjálf Biblían. Þar hafa sumir þóst greina ennþá eldri lýsingar á siðblindueinkennum.
 

Fyrst er að telja lög Móse. Mósebækur (Fimmbókaritið, Torah) eru taldar samansettar frá svona 950-450 f. Kr. og sú fimmta líklega frá því um 621 f. Kr. þótt hún kunni að byggja á eldri heimildum.

Þrjóski sonurinnÍ 5. Mósebók er fjallað um þrjóskan son og segir: „Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana. Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni. Allur Ísrael skal frétta þetta svo að þeir óttist.“ (5. Mósebók, 21, 18-21Biblían á síðu Hins íslenzka biblíufélags.). Í Guðbrandsbiblíu, útg. 1584, er þýðingin aðeins öðru vísi og segja foreldrarnir öldungunum að hann sé „einn ölsvelgur og drykkjudári“. „Og þú skalt so í burt skilja hið vonda frá þér.“ (Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 194 [190], á Bækur.is.) Það væri einkar áhugavert að vita hvað hebresku orðin í frumtextanum þýðir nákvæmlega.

Þetta telur ísraelski geðlæknirinn Bernard Mordechai Rotenberg að sé lýsing á siðblindum. Hann rökstyður mál sitt með því að benda á að ekki sé einungis talað um óhlýðinn og uppreisnargjarnan son heldur sé hegðun hans tengd drykkjuskap, ónytjungshætti og þrjósku sem tengist einmitt nútímalýsingu (þ.e. 1971) á siðblindu. Rotenberg vitnar í ýmsa skýrendur og útleggendur þessara lögmála, s.s. Philo Judaeus (20 f.Kr. - 40 e.Kr.) sem var heimpekingur og lögfræðingur í Alexandríu og taldi þrjóska soninn „leiðtoga í guðleysi“ og túlkaði sögu hans ítarlega. Sama töldu Josefus Flavius (38-100 e. Kr.) og Talmud skýrendur á 1.-6. öld. [Talmud eru skýringar rabbína á lögmálinu, Torah/ Fimmbókaritinu]. En Maimonides (1135-1204), einn þekktasti útleggjandi og túlkandi Talmud og gyðinglegra laga taldi þjófnað tengdan græðgi eða að láta stjórnast af löngun. Hugsanlega hafi hinir fyrrnefndu álitið „þrjóska soninn“ einungis sýna persónuleikavandamál en Maimonides og fylgimenn hans séð hann sem samfélagslegt vandamál að auki. Í þessum skýringum öllum sé augljóst að biblíuhugtakið „þrjóski sonurinn“ eigi við alvarlegustu hegðunareinkenni hugsanlegs glæpamanns. Á tímum Gamla testamentisins skýrði „fláttskapur“ eða „illska“ glæpsamlega hegðun. Þá var aftaka eina áhrifaríka fyrirbyggjandi meðferðin gegn illsku: „Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni.“ Rotenberg telur eftirtektarvert að bæði Talmud og nútíma geðlækningar leggi áherslu á óumbreytanlega, óleiðréttanlega náttúru þessa ástands.2
 

Annar fræðimaður, George Stein, telur sig hafa fundið lýsingu á siðblindum í Orðskviðunum, 6. kafla:
 
 

Varmennið, illmennið, talar tveimur tungum,
deplar augunum, gefur merki með fótunum
bendir fingrunum,
bruggar vélráð í hjarta sínu,
áformar ódæði, kveikir illdeilur.
Því mun ógæfan steypast yfir hann,
á augabragði kemur hrun hans
og ekkert er til bjargar.
Sex hluti hatar Drottinn
og sjö eru sálu hans andstyggð:
hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka,
ljúgvottur sem sver meinsæri
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.

Orðskviðirnir í Biblíunni á síðu Hins íslenzka biblíufélags.

Eirn Skaalkur er skadsamligur/ hann geingur med a rangsnunum Munne/
bender með Augunum/  teiknar með Footunum /
vijsar með Fingrunum/ 
Stundar auallt nockuð illt og fraleitt í sijnu Hiarta / 
og kiemur upp með þrætur. 
Þar fyrer mun hans Ohamingia að honum ouørum koma/
hann mun hastarliga sundurmarenn verða/ 
suo þar verður eingen Hialp.
Þessa Sex Hlute hatar DROTTIN/ 
og hinn siøunde er fyrer honum andstyggeligur/
Drambsöm Augu/ Falska Tungu/ 
Hendur þær eð uthella saklausu Blode/
Hiarta það sem omgeingur með vondum Hreckium/ 
Fætur þa sem flioter eru til skaðræðes/ 
Fals Vott þann sem diarfliga framber Lyge. 
Og hann sem er Brædra a medal Reiser sundurþycke.Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 573 [569], á Bækur.is.

Stein vitnar í guðfræðiprófessorinn McKane sem skrifaði að „eesh belial“ (varmennið/skálkurinn) væri sá sem eyðir fremur en sá sem er einskis nýtur (ein orðsifjaskýring á „belial“ er „sá sem er einskis nýtur/ einskis virði“). Í honum býr djúpstæð illska. Hann er haldinn þráhyggju um að skaða meðbræður sína. Hann kveikir illdeilur og orð hans hafa eyðandi reiði logandi elds. (Proverbs: A New Approach; 1970, SCM Press) Þessi lýsing Biblíunnar á „belial“ fellur fellur vel að árásárgjörnum siðblindum manni.Flest af einkennum DSM-IV staðalsins yfir andfélaglega persónuleikaröskun má finna í þessari lýsingu. Rabbínarnir túlkuðu orðið belial þannig að beli þýddi „án“ og Ya-al þýddi „ok“, sem þýðir að belial er sá sem lifir án helsis Torah (hinna heilögu gyðinglegu laga). Í DSM-IV er einmitt talað um síendurtekið tillitsleysi og brot á rétti annarra. Annað sem greiningarlykilinn nefnir er að geta ekki hagað sér í samræmi við norm samfélagsins, sviksemi, hvatvísi, pirring  og árásargirni, skort á eftirsjá o.s.fr.  Líklega eru fimm af sjö megineinkennum andfélagslegrar persónuleikaröskunar skv. skilgreiningu DSM-IV  nefnd eða gefin í skyn í þessum biblíutexta. Textinn er reyndar styttri (93 orð) en samtantekt DSM-IV á ASPD (127 orð). Siðblind persónuleikaröskun hlýtur að hafa verið alvarlegt vandamál í Ísrael til forna úr henni eru gerð svo góð skil í Biblíunni, segir Georg Stein.3
 
 

Í skáldskap hafa menn talið ýmislegt til lýsingu siðblindra í gegnum tíðina, t.d. Þúsund og eina nótt, þar sem Shahryar sá sem lét lífláta eiginkonur sínar eftir brúðkaupsnóttina, er talinn siðblindur. Í Kantaraborgarsögum Chaucers (1340?-1400) þykjast menn sjá lýsingar á siðblindum, einkum í :
 
 

What, trowe ye, that whiles I may preche,
And wynne gold and silver for I teche,
That I wol lyve in poverte wilfully?
Nay, nay, I thoghte it nevere, trewwly!
For I wol preche and begge in sondry landes;
I wol nat do no labour with myne handes,
Ne make baskettes, and lyve therby,
By cause I wol nat beggen ydelly.
I wol noon of the apostles countrefete;
I wol have moneie, wolle, chese, and whete,
Al were it yeven of the povereste page,
Or of the povereste wydwe in a village,
Al sholde hir children sterve for famyne.
Nay, I wol drynke licour of the vyne,
And have a joly wenche in every toun.
But herkneth, lordynges, in conclusioun –
Youre likyng is that I shal telle a tale.
Now have I dronke a draughte of corny ale,
By god, I hope I shal yow telle a thyng
That shal be reson been at youre likyng.
For though myself be a ful vicious man,
A moral tale yet I yow telle kan,
Which I am wont to preche for to wynne.
 Geoffrey Chaucer. „The Pardoner’s Prologue“, línur 439-460.  The Canterbury talesAflátssalinn
„Hvað! haldið þið virkilega að meðan ég predika 
og ávinn mér gull og silfur með ræðum mínum, 
þá vilji ég endilega búa við fátækt? 
Nei, nei! Það hefur mér aldrei dottið í hug! 
Ég vil predika og betla hvar sem ég kem. 
Ég vil ekki vinna með höndunum, 
eða riða körfur eins og heilagur Páll, 
þegar betlið gefur svona mikið af sér! 
Ég fylgi ekki dæmi postulanna; 
ég vil peninga, ull, og ost, og hveiti, 
jafnvel þótt fátækasti vikastrákurinn láti það af hendi 
eða örsnauðasta ekkjan í þorpinu - 
rétt sama þó börnin hennar séu að farast úr hungri! 
Nei, ég vil drekka vínberjasafa*   
og í hverju plássi er snotur hnáta! 
En heyrið mig, lagsmenn góðir, nú í lokin: 
þið óskið eftir ég segi ykkur sögu, og í Himnaföðurs [svo!] nafni, 
fyrst ég hef nú fengið dreitil af maltöli, 
þá vona ég að geta sagt ykkur sögu 
sem hugnast! 
Má vera ég sé syndumspilltur maður,
en ég get þó sagt ykkur uppbyggilega sögu - 
eina af þeim sem ég predika í hagnaðarvon.“* [„licour of the vyne“ í frumtexta, virðist afar ónákvæmt þýtt]

„Inngangur að sögu aflátssala“. Kantaraborgarsögur, s. 243. Erlingur E. Halldórsson þýddi. Mál og menning 2003. Þýðing Erlings er sett upp í prósa en ég raðaði textanum upp til samræmis við frumtexta.

 Á síðunni „Fictional portrayals of psychopaths in literature“ á  Transwiki, Wikipedia,  er talinn upp fjöldi fleiri dæma úr evrópskum en einkum engilsaxneskum bókmenntum.
 
 
 
Siðblinda í íslenskum bókmenntum


 

Egill Skallagr�mssonÍ íslenskum bókmenntum hefur siðblindu enginn gaumur verið gefinn. Næsta augljóst er þó að Egill Skallagrímsson uppfyllir bæði greiningarlykil Hare og DSM-IV, líklega einnig ICD-10, til að teljast verulega siðblindur. Þetta er að því leyti eftirtektarvert að Egill er eina aðalpersóna Íslendingasagna sem ekki er einhliða (týpa) heldur margbrotin persóna. Það er vitaskuld erfitt að sjúkdómsgreina einstaklinga eftir sögulegum heimildum, hvað þá skáldskap, en Egill er það skýrt dæmi að ég nefni hann sérstaklega.Hann sýnir feikileg hegðunarvandræði sem barn og unglingur og kemur þá strax fram að hann er algerlega samviskulaus. Í grimmdarverkum blöskrar mönnum hans, t.d. í ferðinni á Kúrlandi, og kölluðu víkingar þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Kaldlyndi og ágirnd eru ríkjandi þættir í fari Egils. Í þau fáu skipti í Egils sögu sem hann virðist sorgmæddur má allt eins túlka þau dæmi sem gremju yfir því að hann fær ekki það sem hann telur að sér beri, hvort sem um er að ræða Ásgerði, bætur eftir bróður sinn eða fé Ljóts hins bleika. Þegar Egill missir son sinn og kemst í mikla geðshræringu er allt eins líklegt að hann sé fjúkandi reiður yfir að hafa misst erfingja enda þoldi hann ekki hinn son sinn, friðsaman og sáttfúsan Þorstein. Sonatorrek, hið fræga kvæði sem raunar er óvíst hvort hafi fylgt Egils sögu frá upphafi, er aðallega ásakanir á hendur Óðni fyrir að hafa svipt Egil erfingja. Undir lok sögunnar, þegar Egill er örvasa gamalmenni, er hann jafngrimmur og fyrr, drepur tvo þræla og felur silfur sitt til að enginn fái notið þess, sem er náttúrlega ágætt dæmi um þá sjálfselsku og eiginhagsmunasemi sem einkennir siðblinda.4
 

Það er auðvitað spurning hvaða ályktanir um þekkingu íslenskra miðaldamanna á siðblindum má af lýsingu Egils draga. En mér finnst líklegt að höfundur Egils sögu hafi haft náin kynni af siðblindum einstaklingi og stuðst við þau í samningu Eglu. Siðblinda er meðfædd persónuleikaröskun og því líklegt að hún lýsi sér svipað á mismunandi skeiðum sögunnar og við mismunandi aðstæður. Það væri einkar spennandi að skoða dæmi um lýsingar persóna og hegðun þeirra í veraldlegum samtíðarsögum með tilliti til siðblindu, t.d. Sturlungu (einkum Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar) því mörgum þykja þær raunsæjar og þær eru skrifaðar á svipuðum tíma og atburðir henda.

Norski geðlæknirinn Jon Geir Høyersten hefur skrifað um persónuleikaraskanir í Íslendingasögunum og þá sérstaklega Brennu-Njáls sögu. Hann segir, í viðtali, um Hallgerði langbrók: „Hallgerður var einstaklega afbrýðisöm kona og lét stjórnast af þeim kenndum. Hún var einnig gráðug og bæði vildi og reyndi að komast yfir það sem aðrir áttu og mátu … Hún var mjög sjálfhverf og hugsaði fyrst og fremst um eigin hagsmuni en það eru lýsandi einkenni siðblindu (e. sociopathy) eða Narkissisma.“5 Ég hef ekki aðgang að grein sem Høyersten hefur skrifað um efnið en mér þykir þessi siðblindugreining hans á Hallgerði dálítið vafasöm þegar haft er í huga hjónaband hennar og Glúms. Á hinn bóginn kemur langrækni, sem margir telja að einkenni siðblinda, prýðilega fram í síðustu samskiptum þeirra Gunnars á Hlíðarenda og ekki þarf að leita lengi að dæmum um ruddalega og sjálfselska hegðun Hallgerðar.
 

Af því nú nálgast páskar má rifja upp Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar. Þar er ekki minnst á siðblindu. En skv. lúterskri guðfræði verða menn að viðurkenna og játa syndir sínar og veikleika. Með iðrun verður mannssálin móttækileg fyrir náð og huggun. Hallgrímur var vel að sér í sinnar tíðar guðfræði og í Passíusálmunum kemur fram að iðrun, þ.e. hæfileikinn til eftirsjár, sé guðs gjöf og ekki öllum gefin, þ.e. ekki á valdi einstaklingins. Kannski hefur sr. Hallgrímur kynnst mönnum sem ekki gátu fundið til eftirsjár? Mér finnst áhugavert að skoða þessi tvö erindi úr 12 Passíusálmi með siðblindu í huga:
 
 

20.
Ekki er í sjálfs vald sett,
sem nokkrir meina,
yfirbót, iðrun rétt
og trúin hreina.

21.
Hendi þig hrösun bráð,
sem helgan Pétur,
undir Guðs áttu náð
hvort iðrast getur.

Af seinni tíma íslenskum bókmenntum er freistandi að benda á Bjart í Sumarhúsum sem, eins og Egill Skallagrímsson, er algerlega siðblind persóna, skoðað út frá helstu greiningarlyklum siðblindu. Bjartur er samviskulaus og hugsar einungis um eigin hag, sem kristallast í ósk hans um kindur á fæti. Hann er til í að fórna fjölskyldu sinni fyrir eign. Sú eina persóna sem Bjartur virðist bera einhverjar taugar til er Ásta Sóllilja. En það kemur ekki í veg fyrir að hann áreiti hana kynferðislega á barnsaldri og reki hana barnunga að heiman. Eiginlega er Ásta Sóllilja eign/hlutur í augum Bjarts, hið eina sem hann hefur getað náð frá Rauðsmýrarfólkinu. Tilfinningar hans, annað en ósk um eignarhald, virðast rista grunnt. Til að lokka Ástu Sóllilju aftur til sín er Bjartur til í að leggja ýmislegt á sig svo sem að „yrkja nútímaljóð“.  Í lok þessarar miklu sögu hefur Bjartur ekkert breyst og lemur enn hausnum við steininn í sinni meintu sjálfstæðisbaráttu. Bjartur er í rauninni skólabókardæmi um uppreisnarmann án málstaðar.6

Ég hef ekki hugmynd um hvort Halldór Laxness vissi mikið um psykopati þegar hann skrifaði Sjálfstætt fólk, sem kom út 1934-1935. Það væri auðvitað gaman að kanna hvað leynist í bóksafninu á Gljúfrasteini. En Halldór var afar góður mannþekkjari og eiginlega er ómögulegt annað en ímynda sér að hann hafi haft lifandi fyrirmynd að Bjarti, siðblindan mann sem hann hafi kynnst nokkuð vel eða fylgst vel með. Það er því í sjálfu sér hlálegt hvernig sumir hafa gert andhetjuna hinn siðblinda  Bjart að sínu átrúnaðargoði og fyrirmynd allar götur síðan Sjálfstætt fólk kom út. Sjálfur á Halldór Laxness að hafa kallað Bjart þurs og afglapa.7
 

Með aukinni reyfarmenningu hér á landi hafa birst fleiri siðblindingjar. Af  glænýjum bókum má nefna Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, þar sem ein aðalpersónan hefur siðblindugreiningu og hagar sér í samræmi við það, og Snjóblindu Ragnars Jónassonar, þar sem ein aðalpersónan er greinilega sköpuð með hliðsjón af nýjustu siðblinduumfjöllun. Báðar þessar bækur komu út fyrir síðustu jól (2010).

Andrés ÖndAð lokum skal minnst á áhugaverða (en e.t.v. umdeilda) greiningu á frægri teiknimyndapersónu, Andrési Önd: „Við persónuleikagreiningu á Andrési komu eftirfarandi þættir í ljós: Hann er skapbráður, latur, svikull, frekur, þjófóttur og afskaplega mikill heigull. Hann er vondur við börn og á stundum einnig grimmur við dýr. Andrés er samkvæmt þessum einkennum haldinn siðblindu eða sociopathy.“8


 


1 Þeófrastos. Manngerðir. Íslensk þýðing eftir Gottskálk Þór Jensson sem einnig ritar inngang. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 2007. Kaflinn um blygðunarleysi er nr. IX,  á s. 92-93.Í eftirmála segir Gottskálk: „Önnur vísbendingin er frá ofanverðri sautjándu öld: Í bókasafni Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti var samkvæmt bókaskrá frá árinu 1674 (AM 281 fol) eitt stórt bindi (fólíó) með verkum Þeófrastosar, Theophrasti opera, græce. Útgáfan, sem helst virðist geta fallið lýsingunni á bók Brynjólfs, er Theophastri Opera frá árinu 1541 (Basel), eitt bindi í fólíó með gríska textanum án latneskrar þýðingar. Þar í hafa og verið fimmtán fyrstu manngerðirnar, en ekki er þar með sagt hvort nokkur Íslendingur hafi lesið þær.“ (s. 178).

Teikningin er eftir Francis Howell. Þessar teikningar birtust upphaflega í enskri útgáfu, The Characters of Theophrastos, London 1824. Í undirtitli þeirrar útgáfu segir að bókin sé „skreytt lyndislestrarmyndum“ (illustrated by phsysiognomical sketches) og kveðst Howell teikna þær í ljósi áralangrar athuganir á andlitsfalli og skapgerð manna. (s.189)
 
 

2 Rotenberg, Bernard Mordechai. 1971. „The Biblical Conception of Psychopathy: The Law of the Stubborn and Rebellious Son“. Journal of the History of Behavioral Sciences. 7.árg. 1. tbl. 1971, s. 29-38.
 
 

3 Stein, George. 2009. „Was the scoundrel (belial) of the Book of Proverbs a psychopath? - psychiatry in the Old Testament“. The British Journal of Psychiatry 194. árg. 1.tbl. 2009, s. 33.
 
 

4 Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur greint Egil Skallagrímsson með „geðhvarfasýki með alvarlegum þunglyndistímabilum og tímabundnu oflæti.“ Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JPV útgáfa 2007, s. 10. Ég er ekki geðlæknir en hef kennt Egils sögu á að giska 40 sinnum og finnst þessi greining afar hæpin. Torfi H. Tulinius hefur skrifað talsvert um Egils sögu, þ.á.m. bókina Skáldið í skriftinni - Snorri Sturluson og Egils saga.  Hið íslenska bókmenntafélag 2004. Torfi kemst að þeirri meginniðurstöðu að Egils saga sé skáldsaga sem Snorri hafi skrifað sem nokkurs konar yfirbót og byggt á ævi sinni; „Snorri hafi með sögunni viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við Sighvat bróður sinn og Sturlu son hans. Hann hafi séð hlutskipti sitt og Egils í ljósi sögu Gamla testamentisins af Davíð konungi. Allir þrír hafi misst frumburð sinni og túlkað það sem refsingu fyrir að hafa lagt á ráð um dauða sinna nánustu keppinauta.“ (Kynning á bókinni á síðu Hins íslenska bókmenntafélags.) Ég hef sömu skoðun á niðurstöðum Torfa og geðgreiningu Óttars. Sjálf óf ég fyrir margt löngu vef um Egils sögu þar sem m.a. má finna síðu þar sem einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar eru mátaðar við Egil, sjá „Var Egill andfélagslegur persónuleiki?“, samin 2000. Þessi síða er barn síns tíma og eftir siðblindupælingar undanfarið myndi ég auðvitað greina Egil eftir gátlista Hare og kenningum annarra fræðimanna um siðblindu.
 

5 „Persónuleikaraskanir í Njálu“. Fréttablaðið 13. ágúst 2005, s. 20
 

6 „… hinn siðblindi er uppreisnarmaður án málstaðar, pólitískur æsingamaður án slagorðs, byltingarmaður án áætlunar; með öðrum orðum, uppreisn hans er í því augnamiði að ná takmarki sem einungis þjónar honum einum; hann er ófær um að leggja sig fram í annarra þágu. Öll fyrirhöfn hans, skiptir ekki máli hvaða gervi hún klæðist, er til þess gerð að uppfylla stundarþarfir hans og óskir.“ 

Lindner, Robert M. 1944. Rebel Without a Cause: The Hypnoanalysis of a Criminal Psychopath. Útgáfa Other Press, LLC, 2003 er aðgengileg á Bækur Google. Ath. að kvikmyndin Rebel Without a Cause á ekkert sameiginlegt með þessari bók nema titilinn.
 
 

7 Illugi Jökulsson. 2009. „Grein: Skrímslið í Sumarhúsum.“ Færsla 21. ágúst 2009 á Trésmiðju, bloggi Illuga.
 
 

8. Matthías Matthíasson, nemi í sálfræði. Úr Samfélagstíðindum, blaði þjóðfélagsfræðinema í Háskóla Íslands, 12, 1992. Birtist í „Hver ertu, Andrés?“  Morgunblaðið 11. júní 2004, s. 6.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda

17. mars 2011

Íslenskun psykopatiu og umræða um siðblindu á Íslandi

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti 
 

Orðin, merking þeirra og notkun

Max ZorinEins og kom fram í síðustu færslu, „Hugtakið siðblinda og þróun þess“, má líklega rekja orðið psykopati til austurríska læknisins Ernst von Feuchtersleben, sem talaði um Psychopathieen sem sjúkdóma persónuleikans í bók sinni um geðlækningar, útgefinni 1845. En þótt hann hafi fundið upp orðið var skilningur hans á því talsvert annar en nú tíðkast. Psychopathy er samsett úr grísku orðunum psyche [ψυχή] sem þýðir sál eða líf og pathos [πάθος] sem getur þýtt ástríða, þjáning, tilfinning eða eitthvað í þá áttina.

Ég veit ekki hver elstu dæmi eru um notkun psykopati í íslenskum textum eru, reikna með að það þurfi að leita í gömlum heilbrigðisskýrslum til að finna slíkt út. Í grein Alfreðs Gíslasonar o.fl. „Lobotomia“ í Læknablaðinu 1952 er psykopati einn þeirra sjúkdóma sem þessir læknar beittu geiraskurði við. Það er elsta dæmið um psykopati sem ég fann í Læknablaðinu.

Eldra dæmi um sjúkdómshugtakið psykopati finnst þó og er það íslenskað sem sálrænt misræmi. Í grein Matthíasar Jónassonar, „Nokkur orð um Barnaverndarfélag Reykjavíkur“ í Menntamálum 1949 (22. árg. 3. tbl. 1.12. 1949), segir á s. 151: „Þá eru börn, sem þjást af sálrænu misræmi (psykopati), sem dregur úr námsgetu, þó að margir þættir greindarinnar séu góðir og traustir.“

Í Íðorðasöfnum læknisfræði og uppeldisfræði er siðblinda talin sjúkdómsheiti, samheiti er geðvilla og hvort tveggja er þýðing á psychopathy. (Sjá Orðabanka Íslenskrar málstöðvar.) Í Íslenskri orðabók, þriðju útgáfu, Edda 2002, er siðblinda kvótuð undir líffræði / læknisfræði og skýrð geðvilla, síðan er siðblindur skýrt sem er haldinn geðvillu. Í sömu orðabók er geðvilla kvótuð undir líf./lækn. og skýrð þannig: „geðræn truflun sem einkennist af ábyrgðarleysi, óeðlilegum tilfinningatengslum og hömluleysi, siðblinda.“

Elstu dæmi um geðvillu eru skv. Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, úr Furður sálarlífsins. Sálarrannsóknir og sálvísindi nútímans eftir Harald Schjelderup, sem Gylfi Ásmundsson og Þór E. Jakobsson þýddu úr dönsku og kom út 1963. Í þeirri bók er einnig elsta dæmi um orðið geðvillusjúklingur. Næstelsta dæmi telur Ritmálssafn OH úr bók Símons Jóh. Ágústssonar, Um ættleiðingu, útg. 1964, þar sem stendur á s. 94: „ … helzt eru líkindi til, að geðvilla sé að nokkru ættgeng“ og „Geðvilltir (psychopathiskir) menn og menn með áberandi andfélagslegar hneigðir.“ (s. 66).  Svo vísar Ritmálssafn OH í 4. bindi Alfræðisafns AB (Almenna bókafélagsins), sem er Mannshugurinn eftir John Rowan Wilson, Jóhann S. Hannesson íslenskaði, kom út 1966. Ritmálssafnið tiltekur dæmið þannig: „…hinir svonefndu skapgerðarkvillar, en algengust af þeim er geðvilla.“; „Geðvilltir menn sýnast greindir og eins og annað fólk, en þá virðist skorta djúpar og heitar tilfinningar …“ (bæði dæmin eru af s. 61).
 

Elstu dæmi um orðið siðblinda og lýsingarorð því tengdu, í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, vísa í klausurnar:

McKenna kardináli„Kenníngu einsog örlagatrúnni, þar sem einu helsta undirstöðuatriði kristins dóms, kennisetníngunni um frívilja mannsins, er hafnað með öllu, fylgir sérstök siðblinda, sem er mjög sterk í Brennunjálssögu, og lýsir sér meðal annars í því að bestu mennirnir vinna ævinlega verstu verkin.“ „Eftirmáli við Brennunjálssögu“ ársett 1945. (Halldór Kiljan Laxness sá um útgáfu Helgafells á Brennunjálssögu 1945.) Ritmálssafn OH tilgreinir dæmið úr bók Halldórs, Sjálfsagðir hlutir. Ritgerðir, sem kom út 1946, s. 362. Næstelsta dæmið um siðblindu er líka úr smiðju Halldórs:  „Vér höfum lifað að sjá sterk öfl, risin úr geðbilun stjórnmálamanna, og fullkomlega siðblind, heya örvæntíngarþrúngna baráttu fyrir útrýmíngu mannkynsins.“ („Vandamál skáldskapar á vorum dögum. Fyrirlestur í Norsk Studentersamfund í Osló 8. maí 1954.“ í Dagur í senn. Ræða og rit., útg. 1955, s. 194.)

Halldór hélt svo áfram að nota þessi orð. Í „Ræðu um Snorra“ sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 1. júlí 1979, s. 33, sagði hann: „Sérstök einkenni spekínga, sem mist hafa rétttrúnað sinn, þó þeir reyni að framfylgja honum í orði, og móralistar mundu nefna siðblinda menn, eru rík í þessum bókum [Ólafs sögu helga eftir Snorra Sturluson og Njálssögu]; en hætt við að flokkun í þá veru skýri ekki málin núna.“

Næsta ljóst er að Halldór Laxness notar orðin siðblinda/siðblind í merkingunni siðleysi/siðlaus. Hugsanlega er hann höfundur orðsins siðblinda og afleiddra orða en það er ekki fyrr en nýverið, líklega innan við áratugur síðan, að farið var að nota það í merkingunni psykopati. Í leit á Tímarit.is koma t.d. aðallega upp blammeringar á stjórnmálamenn sem sagðir eru siðblindir, stjórnmálastefnur, einstaklinga og yfirleitt flest það sem ritendum er í nöp við í það og það skiptið (meira að segja var í ritdómi hnýtt í óþarflega margar prentvillur í barnabók og spurt hvort það væri vegna lesblindu eða siðblindu). Þessi merking orðsins hefur haldist; Það þarf ekki annað en fylgjast með bloggskrifum nútímans til að sjá að einna vinsælast einmitt núna er að brigsla pólitískum andstæðingum eða þeim sem ekki eru sömu skoðunar um að siðblindu. Orðið siðblinda og siðblindur virðast í augnablikinu hafa leyst af brigsl um geðveiki (sem annars nýtur nokkuð stöðugra vinsælda sem lítillækkandi og niðurlægjandi orð um andstæðinga).

Sama máli gegnir reyndar um orðið geðvillu. Það er líka oft notað til að brennimerkja andstæðinga, í merkingunni siðleysi eða spilling. Loks hafa menn spyrt þessi tvö orð, siðblindu og geðvillu, saman í eitt, siðvilla. Það virðist þýða eitthvað svipað og siðleysi og er líklega notað sem samheiti siðblindu og geðvillu í merkingunni siðleysi. (Ég finn siðvillu hvergi í orðabók en ef ég man rétt var þetta orð brúkað um kaþólsku eftir að lútersk trú komst á hér á landi, líklega hugsað sem andheiti við siðbót.) Elsta dæmið er frá 1967 þar sem Sigurður Magnússon fjallar um lóðaúthlutanir við Þingvallavatn og segir: „… þar sem segja má, að hér hafi upphaflega miklu fremur verið um að ræða slysni en afbrot, siðvillu en siðblindu.“ („Þingvallahneykslið“. Samvinnan 61. árg. 8. tbl. 1967, s. 18.) Þessi samsetning, siðvilla, virðist hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið.

Nútímadæmi um hvernig siðblindu, geðvillu og samslættinum siðvillu er slengt saman á ýmsan hátt eru:

„Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta sagði til að mynda: „Íslenskt fjármálakerfi var fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu.“ Vilhjálmur átti þó hlutafé í bönkunum og er það nokkuð sérstakt að maður festi fé í siðvillu og geðvillu.“ Vefþjóðviljinn, laugardaginn 29. nóvember 2008, (höfundarlaus og titilslaus pistill).

„Athyglisvert hvað siðvillingarnir eru snöggir að skjótast út úr fylksnum sínum þegar bent er á FLokkinn. Siðblinda og siðvilla eru alvarlegt mál sem vert er að hafa áhyggjur af.“ (Athugasemd við færsluna  „Nafnlausi flokkurinn læðist með veggjum“ á Davíð Stefánsson. Svolítið frá vinstrinu, 3. 5. 2010
 

Einnig má sjá dæmi um að siðvilla sé líklega notuð í læknisfræðilegu merkingunni siðblinda eða geðvilla: “Græðgi, hroki, siðvilla og spilling. Saga Enrons fjármálahneykslisins var rakin í ágætri heimildarmynd sem sýnd var sjónvarpinu í gærkvöld. Þetta er hin klassíska dæmisaga um græðgina, hvernig hún heltekur manninn og leiðir að lokum til hruns. En hvað er líkt með íslenska bankahruninu og sögu Enron?“ „Enron=Ísland?Síðdegisútvarpið rás 2 (kynning) mánudaginn 1. mars 2009.
 

Samslátturinn siðvilla, fyrir siðblindu og geðvillu, vísar a.m.k. í síðasta dæminu til umræðu sem varð eftir að bók Babiak og Hare, Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, kom út 2006.
 
 
 

Umræða um geðvillu eða siðblindu á Íslandi

Eins og nefnt hefur verið áður er umræða um siðblindu á Íslandi afskaplega af skornum skammti. Hér á eftir verður reynt að rekja helstu dæmi um slíka umfjöllun en líklega vantar eitthvað hér inn í af því ég hef takmarkaðan aðgang að prentuðum gögnum.

Jim StarkHér að ofan var vitnað í orð dr. Matthíasar Jónassonar, í tilefni af stofnun Barnaverndarfélags Reykjavíkur 1949, þar sem hann nefnir að til séu siðblind börn og kallar röskunina sálrænt misræmi (Menntamál 1949, 22. árg. 3. tbl. s. 151). Tíu árum síðar kom út bókin Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi sem Matthías ritstýrði og Barnaverndarfélag Reykjavíkur gaf út (Hlaðbúð, Reykjavík 1959). Þetta er ákaflega merkileg bók að mínu mati og satt best að segja finnst mér hún bera af nútíma umfjöllun um sama efni. Í bókinni er kafli eftir Benedikt Tómasson, geðlækni og skólastjóra Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Þetta er V. kafli sem heitir „Geðvilluskapgerð“ (s. 87-105) og er með bestu umfjöllun um siðblindu sem ég hef séð á íslensku, þótt hún sé meir en hálfrar aldar gömul. Vel að merkja fjallar stór hluti kaflans um geðvillu fullorðinna. Það verður ekki hjá því komist að vitna nokkuð ítarlega í orð Benedikts Tómassonar því umfjöllun hans er það rækileg, langt á undan sinni samtíð miðað við ríkjandi umræðu næstu áratugina og sett fram af skynsamlegu viti. Auk þess liggur þessi gamla bók ekki mjög á lausu.

Benedikt segir í upphafi kaflans: „Hér verður greint lítils háttar frá fyrirbæri, sem nefnist psychopathia á erlendu máli, en ég kalla geðvillu á íslenzku. Samkvæmt hefðbundinni skýrgreiningu er geðvilla eins konar bæklun eða afbrigði á skapgerð, sem einkennir einstaklinginn alla ævi eða a.m.k. frá kynþroskaskeiði og er raunverulega óháð greind. Hugtakið er þó mjög illa afmarkað og því á mörkum þess að vera nothæft, enda nota margir nútíma-geðfræðingar það ekki, en flokka fyrirbærin frá öðru sjónarmiði. … Það sem máli skiptir er, að til er hópur manna, sem eru ekki geðveikir, en eru alla ævi afbrigðilegir að skapgerð og lunderni, þjást ýmist sjálfir vegna afbrigða sinna eða baka öðrum þjáningar, nema hvorttveggja sé. Líklegast þykir, að ekki sé neinn eðlismunur á geðvilltum mönnum og mönnum, sem teljast hafa heilbrigða skapgerð, heldur mismikill stigmunur, en að vísu getur hann stundum verið ærinn. … Tekið skal skýrt fram til þess að girða fyrir misskilning, að afbrot eða ósæmilegt athæfi að almannadómi - og hvað þá aðlögunarvandkvæði barna- á ekki nærri alltaf og ef til vill sjaldnast rætur að rekja til geðvillu. Þar kemur margt til, svo sem félagslegar aðstæður og siðferðilegt andrúmsloft í uppvexti, stundaraðstæður og atvik, greindarskortur, taugaveiklun og geðveiki. Hins vegar eru geðvilltir afbrotamenn allra afbrotamanna erfiðastir viðureignar, af því að afbrotin eru sprottin af andlegri gerð þeirra, en henni er ekki auðið að breyta með neinum kunnum ráðum.“ (s. 87-88)

Síðar lýsir Benedikt persónueinkennum geðvilltra: „Höfuðeinkenni slíkra manna [geðvilltra sem eru í opinskárri andstöðu við þjóðfélagið] eru takamarkalaus eigingirni, hömluleysi og tilfinningasljóleiki eða tilfinningakuldi. Eigingjarnir og tilfinningasljóir eru þeir allir, en að öðru leyti má í aðalatriðum greina þá í tvær manngerðir, hömlulausa menn annars vegar og tilfinningakalda hins vegar. … Yfirleitt skortir tilfinningar geðvilltra manna í garð annarra alla dýpt og staðfestu. Samúð þeirra ristir grunnt, og raunverulega ást eða vináttu geta þeir ekki látið í té, enda eru þeir ótryggir félagar og fljótir að skipta um félagsskap. Þeir setja sig ekki í spor manna, sem þeir hafa gert til miska, eru blindir á tilfinningar þeirra, rétturinn er einhliða þeirra megin, og þeir hafa á reiðum höndum afsakanir fyrir breytni sinni. Ekki ætlast þeir heldur til raunverulegrar ástar eða vináttu, þó að þeim finnist öðrum mönnum skylt að láta að óskum sínum og hafi ósjaldan nærri barnalega trú á, að þeim hljóti að vera það ljúft. Þeir eru engum háðir í tilfinningum.“(s. 90)

„Hömlulausir menn eru reköld, sem festa sig aldrei við nýtilegt verk til lengdar, verður ekkert úr hæfileikum sínum, en eru byrði á vandamönnum og samfélagi, auk þess sem þeir vinna meira eða minna beint tjón. Þeir spana alla upp á móti sér, oft og einatt fremur vegna óhemjuskapar og barnalegra tiltekta en vegna afbrota, sem ekki eru alltaf stórvægileg.

Sú manngerð, sem tilfinningakuldi einkennir aðallega, getur verið miklu flóknari, torráðnari og hættulegri en hinir hömlulausu. … Langhættulegastir samfélaginu eru gáfaðir, kaldrifjaðir mannhatarar, sem hafa gott vald á sér og geta dulið það, sem þeim býr í skapi, unz þeir hremma bráð sína. Þeir geta framið þaulhugsaða glæpi, sölsað undir sig auðæfi og völd eða aflað sér frægðar á vísindalegum falskenningum. Oft tekst þeim ótrúlega vel að smjúga net réttvísinnar, og sumir sjá sér raunar hag í að fara ekki öllu lengra en lög leyfa framast. … Á hinn bóginn eru allir sammála um, að þeir séu ekki geðveikir. (Þeir geta orðið geðveikir rétt eins og aðrir menn). Þeir eru því taldir ábyrgir gerða sinna og dæmdir samkvæmt því …“ (s. 91-93)

Benedikt rekur vitaskuld einkenni geðvillu í börnum og leggur ríka áherslu á að til þess að greina hana þurfi að líta á heildarmynd og styðjast við mörg dæmi og atvik því einstök uppátæki og slæm hegðun barna séu sjaldnast geðvillu um að kenna. Hann bendir einnig á ýmsar brotalamir í uppvexti og umönnun sem geti ýtt undir andfélagslega hegðun barna en endar á taka þetta fram: „Því fer fjarri að enn hafi tekizt að rekja sundur þætti þeirrar flóknu orsakakeðju, sem veldur geðvillu, meta til dæmis gagnkvæm áhrif erfða og umhverfis.“ (s. 101) Að mati Benedikts er eina mögulega lækningin að hefja meðferð geðvilltra barna sem fyrst, að hún sé undir stjórn fagmanna og að „sjaldnast er um annað að ræða en taka þau af heimilum, sem fremi að meðferð eigi að vera meira en kák.“(s. 103)

Mér finnst umfjöllun Benediks Tómassonar vera sérstaklega skýr og skilmerkileg og að mörgu leyti í takt við nútímakenningar, t.d. kenningar Roberts D. Hare. (Mig grunar að Benedikt hafi lesið Mask of Sanity eftir Cleckley, auk þess að fylgjast vel með í evrópskri umfjöllun um geðvillu.) Textinn er líka á óvenju góðri íslensku.

Bera má umfjöllun hans saman við viðtal við Karl Strand árið 1964. Karl var þá starfandi geðlæknir í nágrenni Lundúna. Hann skilgreinir hvaða orð hann vill nota yfir mismunandi geðraskanir, t.d.  „… sturlanir - þetta er gamalt íslenzkt orð, notað yfir geðveiki … Hugsýki nota ég um taugaveiklun; það er dregið af gamla orðinu hugsjúkur … Sefasýki er hysteria, sem er ein tegund hugsýki.“  Síðan spyr blaðamaður um geðvillu: „En hvað segið þér um geðvillu (psychopathic state) - er hún geðsjúkdómur eða hugsýki?“ „Geðvilla telst hvorki sturlun eða hugsýki, heldur er hún sálrænt fyrirbæri, sem er eins konar huglæg bæklun, þar sem ábyrgðarleysi, takmörkuð skapstjórn og vanhæfni til að læra af reynslu eru megineinkenni. Af þessum geðrænu sökum skapast víðtæk félagsleg vandamál.“ (Sturlanir ættu ekki að vera feimnismál. Spjall við Karl Strand geðlækni.“ Vísir 3. júlí 1964, s. 7)

Ári síðar segir Tómas Helgason prófessor í viðtali: „- Það sem geðlæknir á fyrst og fremst við með geðveilu - sem á síðari árum hefur verið kölluð geðvilla- eru meiri háttar og varandi skapgerðargallar, sem eru svo miklir, að einstaklingurinn eða þjóðfélagið þjáist vegna þeirra, segir próf. Tómas. - En þegar tala á um geðsjúkdóma í heild, getum við sagt að þeir skiptist í meiri háttar sjúkdóma, þ.e. geðveiki eða psykosis og hins vegar minni háttar, þ.e. nevrosis, það sama og fólk kallar taugaveiglun [svo], en hefur verið íslenzkað betur með orðinu hugsýki.“ („Viðhorf til geðsjúklinga hefur breytzt mjög til batnaðar“.
Tíminn 5. maí 1965 s. 13 í II.)

Eitthvað er hugtakanotkun þessara tveggja geðlækna á reiki, annar telur geðvillu „eins konar huglæga bæklun“, hinn setur samasem-merki milli geðveilu og geðvillu, sem verður að teljast undarlegt því geðveila er tiltölulega saklaust orð, jafnvel notað um minni háttar skapgerðarbresti.

Sami ónákvæmni skilningur á geðvillu eða siðblindu er áfram á ferðinni hjá þeim sem ættu að þekkja eitthvað til: „Við viljum minna á að í langfæstum tilfellum eru geðsjúkdómar undirrót einhvers voðaverks. Það hefur líka sýnt sig að í flestum tilfellum eru aðrir þættir sem liggja að baki slíkum verkum, t.d. siðblinda eða eitthvað allt annað sem hefur ekkert með geðveiki að gera.“ („Stjórn Geðhjálpar biður fólk um að nota ekki hugtakið geðveikur án þess að sjúkdómsgreining liggi fyrir: Fæstir glæpamenn eru geðveikir“. Tíminn 22. mars 1966, s. 8.) Hið rétta er auðvitað að fæstir glæpamenn eru siðblindir og siðblinda liggur ekki í flestum tilvikum að baki voðaverkum. Aftur á móti er rétt hjá Geðhjálp að skilja milli geðveiki og siðblindu.

Alex DeLargeJakob Jónasson geðlæknir reynir einnig að skilja milli þessara hugtaka í viðtali 1981, þegar hann er spurður um muninn á „hreinni geðveiki og psykopatiskum persónueinkennum“: „Það má segja, að meirihluti geðsjúklinga fái lækningu, en meðan sjúkdómurinn varir er hann hættulegur sjúklingnum. Þá sem haldnir eru varanlegum skapgerðargalla, psykopatiskum einkennum, er hinsvegar ekki hægt að lækna. Slíkt ástand varir alla ævi, þótt slíkir menn spekist að vísu með aldrinum. Þeir eru hinsvegar hættulegri þjóðfélaginu en geðveikir …“ Jakob telur að geðveikir hættulegir glæpamenn séu fáir á Íslandi (hugsanlega er hann einungis með siðblinda glæpamenn í huga) og segir: „Á það hefur hinsvegar verið bent, að geðdeild við fangelsi þurfi ekki að vera stærri en að þar komist fyrir sex rúm. Það mundi fullnægja þörfinni hér á landi, og mikið mundi sparast við að hafa rekstur slikrar deildar og fangelsis að nokkru leyti sameiginlegan.“ („Hættulegir geðsjúklingar heyra til undantekninga“. Helgarpósturinn 18. desember 1981, s. 3.)

Áfram er þó viss ruglingur í umfjöllun geðlækna um siðblindu/geðvillu, sem t.d. sést í orðum Magnúsar Skúlasonar geðlæknis: „Þótt allir hugsandi menn, og undirritaður telur sig auðvitað í þeirra hópi (!), hafi iðulega hinar þyngstu áhyggjur af veikindum hinna sjúku og aðstæðum þeirra, þá verð ég samt að gera þá játningu, að enn meiri kvíðboga veldur mér stundum brenglun og siðblinda hinna „heilbrigðu“, sem er í raun hinn mesti þjáningavaldur sjúkra og margfalt háskalegri lífinu öllu (kannski að lyfjaframleiðendur eigi eftir að finna meðal við þessu?).“ („Geðheilsa og menning“. Morgunblaðið 21. október 1995, s. 25.) Hér virðist Magnús nota orðið siðblinda í merkingunni siðleysi og e.t.v. hefur siðblinda ekki hlotið sess sem læknisfræðilegt hugtak árið 1995 sem gæti skýrt orðalagið.

Hugmyndir Esra Péturssonar um siðblindu eru nokkuð fyndnar, að mínu mati. Hann telur geðvillu sárasjaldgæfa á Íslandi vegna þess að hún, eins og glæpahneigð almennt, hafi ræktast úr þjóðinni í mannvígum Sturlungaaldar! Þar af leiðandi séu Íslendingar einkar löghlýðnir. Sjá: „Geðveiklun og geðveiki eru sízt algengari en annars staðar og geðvilla mun minni. Geðvilla hlýtur að vera vægari hér en annars staðar. Sést það bezt á því, að alvarleg afbrot eru langtum færri, áfengisdrykkja og önnur ávanaefnanotkun er miklu minni en í flestum öðrum vestrænum löndum. Ísraelsbúar standa næstir Íslendingum í þessum menningarefnum. Geðvilla er að vísu ekki miklu fátíðari hér en annars staðar samkvæmt rannsóknum prófessors Tómasar Helgasonar [Esra vísar hér í Tómas Helgason: Epidemiology of Mental Disorders in Iceland. 1964. Munksgaard. København, bls. 151.] Hún hlýtur því að vera til stórra muna vægari. Nýverið hafa birzt greinar og verið fluttar fréttir í útvarpi vestra þar sem sýnt er svart á hvítu að Íslendingar fremja fæst alvarleg afbrot allra þjóða. Má að þessu leyti segja, að Íslendingar séu löghlýðnastir allra. … Vafalaust má rekja uppsprettu löghlýðninnar til trúar á hið fornkveðna, úr nítugasta kafla Njálu: „Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.“ Ekki er ósennilegt að löghlýðnin nærist af ágæti löggjafarinnar og standi líka í sambandi við góða meðferð löggjafarvaldsins og löggæzlunnar. Fólksfæðin mun einhverju valda og má vera að íslenzki stofninn eigi smávegis þátt í þessu. Talið er meira um vert að Sturlungaöldin hafi hreinsað hann af mönnum með verstu glæpahneigðina. Hafi þeir þá gengið rösklega að því að útrýma hver öðrum. Loks mun lítil mengun, jafnt innri sem ytri, stuðla að betra jafnvægi í þessum efnum.“

Hugtakanotkun Esra er þessi: „Taka vil ég það fram hér, sem smá útúrdúr, að taugaveiklun virðist mér vera lélegt og villandi rangnefni. Geðveiklun er yfirgripsmeira og raunhæfara orð, sem skýrir fyrirbrigðið mun betur. Vitanlega er geðveiklun ekki sama og geðveiki, heldur miklu vægara ástand, vægara einnig en geðvilla.“ Og einkenni nokkurra geðrænna kvilla eru: „Samfara geðveiklun í mönnum er einnig aukin vöðva- og taugaspenna [hér vísar Esra í eigin grein frá 1962] og höfum við ýmsir sýnt fram á það með vöðvamælingum [electromyography). Hjá geðvilltum og hjá ungum börnum lýsir vöðvaspenna sér í óróa og eirðarleysi. Geðveikir og þunglyndir eru hins vegar stífari og stirðari og er vöðvaspenna þeirra oft samfara þrjózku. Jafnframt aukinni starfsemi og álags tauga og heila kemur í ljós allmikil aukning á vökum og hvötum í blóðrás geðveiklaðra, geðvilltra og geðveikra. Mætti ef til vill líkja því við innri mengun af þessum efnum eða sora í mannlífinu.“ Hvað varðar áhrif geðvillu í neyslu vímuefna segir hann: „Séu foreldrarnir háðir pillum, tóbaki og áfengi, er börnum þeirra meiri hætta búin af öðrum ávanaefnum til viðbótar. Séu foreldrarnir líka geðvilltir hefur það oft áhrif á börnin. Snögg umskipti, órói og eirðarleysi grípa um sig á þeim heimilum. Þar er einnig meiri glundroði og fleiri hjónaskilnaðir. … Sérgreinar hegðunarvandræða eru nokkuð fjölbreyttar, þótt geðvillustofninn sé hinn sami eða svipaður.“ („Fíkniefni. Fjögur erindi um þetta geigvænlega vandamál, haldin á fræðslufundi Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, 4. marz s.l. Esra Pétursson, læknir. Þjóðfélagsvandamál sem skapast við neyzlu ávana- og fíkniefna“. Lesbók Morgunblaðsins 26. marz 1972, s. 1-2.)

Esra var að fjalla um samspil geðrænna kvilla, glæpahneigðar og notkun áfengis og fíkniefna. Átta árum fyrr nefnir læknirinn Ásbjörn Stefánsson svipað samspil í áfengisumræðu en er á öndverðum meiði við Esra því Ásbjörn nefnir að geðvilla fari e.t.v. vaxandi: „Þá telja ýmsir sálfræðingar og aðrir vísindamenn að geðvilla (psychopathia) hafi farið mjög vaxandi hjá almenningi, ekki sízt ungu kynslóðinni, undan farin ár. Er hér um stórhættu að ræða í sambandi við áfengisnautn sé þetta tilfellið.“ („Umferð og áfengi“. Morgunblaðið 18. október 1964, s. 8.)

Greining geðlækna á geðvillu vakti kannski mesta athygli í Geirfinns-og Guðmundarmálinu enda sagði ríkissaksóknari: „Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða til þess en í þessu máli að afla álits geðlækna um heilsufar ákærðu …“ Í stuttu máli sagt greindu nokkrir geðlæknar alla sakborninga með geðvillu og þ.a.l. sakhæfa, í árslok 1979. (Í einni skýrslunni ber geðvillu ekki á góma en viðkomandi er greindur með „sterka andfélagslega hegðun (personality disorders, antisocial personality)“ sem jafngildir nánast geðvillugreiningu). Yfir þetta lagði læknaráð blessun sína. Skýrslur læknanna eru ákaflega athyglisverðar í ljósi þess sem síðar hefur verið upplýst um meðferð sakborninga. Ótrúlegasti sparðatíningur um aðstandendur sakborninga fylgir í flestum skýrslunum og þess vegna vitna ég ekki í þær heldur vísa í frétt af málarekstrinum þar sem helstu atriði varðandi mat læknanna á sakborningum kemur fram, sjá „Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða til að afla álits geðlækna en í þessu máli“- segir ríkissaksóknari“. Dagblaðið föstudaginn 18. janúar 1980, s. 9.

Sálfræðingar vildu frá því a.m.k. laust fyrir aldamótin síðustu ekki tala um siðblindu eða geðvillu heldur um andfélagslega persónuleikaröskun og virðast gera því skóna að umhverfisþættir vægju töluvert í slíkri röskun. Áhrifamestur þeirra var Gylfi Ásmundsson og gætir áhrifa hans enn, t.d. í svörum á Vísindavef, á doktor.is og á persona.is, þegar siðblindu ber á góma. Hér er látið duga að vitna í svar Gylfa við spurningunni Af hverju stafar siðblinda?“: „Stundum nær þá [þegar foreldrar veita ekki leiðsögn] barnið ekki að þroska tilfinningar sínar eða temja hvatir sínar og lætur stjórnast af þeim. Síðar meir kann þessi einstaklingur að verða sjálfmiðaður, tillitslaus við aðra og hegðun hans stjórnast af því að skara eld að eigin köku. Þegar slík persónueinkenni verða mjög áberandi og afbirgðileg geta þau flokkast undir persónuleikaröskun, þar sem siðblinda er eitt megineinkennið.“ Morgunblaðið 13. júní 1998, s. 30;  Einnig útlistun Gylfa sem kemur fram í svari við spurningunni Hvað er borderline persónuleikaröskun?“: „Alþjóðleg flokkun geðsjúkdóma hefur breyst talsvert á undanförnum áratugum. Ekki á þetta síst við um persónuleikaraskanir. Fyrir fáum áratugum var þeim skipt annars vegar í psykopati, sem á íslensku var nefnd geðvilla, og hins vegar í skapgerðartruflanir af ýmsu tagi, svo voru vægari gerð og skyldari hugsýkinni. Geðvilla var gjarnan talin meðfædd, en skapgerðartruflanir orðnar til fyrir áhrif umhverfis og uppeldis. Í geðvillu fólst oftast andfélagsleg hegðun, siðblinda og samviskuleysi. Orðið psykopat var iðulega notað sem skammaryrði. Nú er það ekki notað lengur en andfélagslegur persónuleiki er sérstakur arftaki þess.“ Morgunblaðið 2. október 1999, s. 42. Þeim sem hafa áhuga á þessari orðræðu um siðblindu er bent á að fletta upp Gylfa Ásmundssyni eða andfélagslegri persónuleikaröskun í Gegni.is eða á fyrrnefndum vefjum.
 

Í „Helgispjalli“ í Morgunblaðinu sunnudaginn 5. maí 1996 reynir M [Matthías Johannessen] að skýra margt í samtíðinni með tilvísun til siðblindu. Hann rekur skilgreiningu og einkenni siðblindu úr riti norska geðlæknisins Einars Kringlen, Psykiatri og vitnar jafnframt til Oxford Textbook of Psychiatry. Matthías hefur því kynnt sér efnið vel og margt af því sem hann segir á kannski allt eins við nú á dögum, a.m.k. sé miðað við fréttaflutning og umræðu á ýmsum vefmiðlum:

„Nú kvarta margir sáran. Og ótrúlega margir virðast haldnir miklu ofnæmi fyrir samfélaginu. Ég hef spurt sjálfan mig hver ástæðan sé. Þetta er yfirleitt dómgreindargott fólk með sterka ábyrgðartilfinningu og aðhaldssamt sjálfsálit. Já, hvers vegna, hef ég spurt sjálfan mig, þolir þessi íslenzki kjarni umhverfi sitt jafn illa og raun ber vitni? Það skyldi þó ekki vera að ástæðuna sé að finna í geðlæknisfræðinni, þeim þáttum hennar sem fjalla um siðblindu eða geðvillu, eða það sem við getum kallað persónuleikabrest framtóninga sem eru hér allsráðandi orðið og hafa ekki sízt komið ár sinni vel fyrir borð í fjölmiðlum og opinberu lífi. Ég er að tala um fólk sem útlendir fræðimenn kalla sýkópata en við gætum nefnt siðblindingja. Margir þeirra sækjast eftir háum embættum og ná oft takmarki sínu í óþökk hæverskra áhorfenda sem hafa aðhald af dómgreind sinni og sjálfsvirðingu. … Samfélag sem ber slík fyrirbrigði á gullstól hlýtur sjálft að þjást af einhvers konar veruleikafirringu; blekkingu. Það virðist ekki hafa neinn áhuga á þeim fjölda fólks sem sinnir störfum sínum af dómgreindarfullri alúð og reynir að þola sitt ofnæmi möglunarlaust. Það undrast, það hneykslast en það skortir það sjálfstraust, það samvizkuleysi, sem gæti stöðvað sigurgöngu sýkópatanna. Það hefur sterkt aðhald af sjálfu sér, dómgreind sinni og sjálfsgagnrýni, eigin ótta og öryggisleysi. En það er geðugur ótti og manneskjulegt öryggisleysi. „Venjulegt“ fólk stendur svo á milli þessara hópa og heldur að það ráði ferðinni; myndi svonefnt almenningsálit. En það er rangt. Framtóningarnir ráða ferðinni í þessu oddaflugi. En spyrja má að lokum hvort ofnæmi þessa ágæta íslenzka samfélagskjarna megi ekki rekja til fyrrnefnds áreitis sem er auðvitað magnaðra í fámennu þjóðfélagi en fjölmennu, þótt sömu persónugerðir séu þar á ferð ekki síður en í okkar litla samfélagi. Sívaxandi óþol þessa fólks er að minnsta kosti eitt helzta einkenni þess skrípaleiks sem alltaf er verið að setja upp öðru hverju á íslenzka litlasviðinu(!)“.
 

Patrick BatemanFrá því bók Pauls Babiak og Roberts D. Hare, Snakes In Suit. When Psychopaths Go To Work, kom út árið 2006, hefur áhugi manna á siðblindu hér á landi vaxið mjög en nánast eingöngu áhugi á siðblindu í viðskiptalífinu. Má í því sambandi benda á ágæta grein Kristjáns G. Arngrímssonar um bók Babiak og Hare, „Snákar í jakkafötum“, í Morgunblaðinu 7. júní 2006, s. 28.

Reyndar hafði áratug fyrr verið vakin athygli á því að siðblinda skipti máli í efnahagsafbrotum en það virðist ekki hafa náð eyrum mann sérstaklega hér uppi á Íslandi. Sálfræðingarnir Ásta Bjarnadóttir og Sigurður J. Grétarsson skrifuðu greinina „Hvers vegna brjóta menn af sér í starfi?“ í Vísbendingu. Vikurit um viðskipti og efnahagsmál. 19. 4. 1996, s. 2, sem lauk á: „Og loks þarf að minnast á þá sem á íslensku eru kallaðir geðvilltir eða siðblindir. Þá skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra og finnst sem þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hjá þeim sé starfsemi óvenjudauf á heilasvæðum sem móta tilfinningaleg viðbrögð, eins og kvíða, iðrun og réttlætiskennd. Sjaldgæft er að þetta ástand sér [svo] greint hjá manni fyrr en eftir að hann hefur brotið ítrekað af sér. Reyndar er hugtakið siðblinda iðulega notað sem merkimiði á síbrotamenn, fremur en til forvarna. En næsta víst er að blygðunar- og óttaleysi er ekki alltaf til trafala í viðskiptum og sumir álíta - án þess að það sé fræðilega staðfest- að siðblindir menn njóti oft velgengni. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að vara sig á slíkum mönnum, tunguliprum, óttalausum og blygðunarlausum, og því er sem stendur erfitt að veita önnur ráð en almenna varkárni til að verjast slíkum sendingum. Þó gæti verið til leiðsagnar að það er ekki rétt sem oft er haldið fram að flestir efnahagsbrotamenn brjóti aðeins einu sinni af sér (Weisburd, Chayet og Waring, 1990) og því óvarlegt að treysta mjög á bót þeirra og betrun.“

Jónína Benediktsdóttir vakti athygli á kenningum Hare áður en sú fræga bók sem hann skrifaði í félagi við Babiak kom út. Jónína fjallaði um grein Robert D. Hare, „Is your Boss a Psychopath“ í greininni  „Guð gaf mér peningana mína“, undirtitill „Jónína Benediktsdóttir fjallar um nýja tegund viðskiptamanna“, í Morgunblaðinu 22. ágúst 2005, s. 19. Ekki virðist sú grein hafa verið rædd neitt sérstaklega.

En eftir efnahagshrunið tóku menn smám saman við sér og áhugi á kenningum Babiak og Hare jókst hröðum skrefum. Má benda á bloggfærslu Láru Hönnu Einarsdóttur, „Snákarnir og siðblindan“ frá 14. janúar 2010 sem dæmi um slíkt. Lára Hanna vísar í þessari færslu í ýmist annað efni.  Kristján G. Arngrímsson skrifaði aðra grein, „Snákarnir okkar“, sem birtist í Fréttablaðinu 22. janúar 2010, þar sem hann lítur um öxl og metur ástand síðustu fjögurra ára í ljósi kenninga Babiak og Hare. (Grein Kristjáns er aðgengileg á samnefndri færslu Láru Hönnu Einarsdóttur þann 23. janúar 2010.)

Hannibal LecterNanna Briem geðlæknir skrifaði greinina „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009 (s. 25 - 29). Grein Nönnu er besta umfjöllun um þessa alvarlegu geðröskun á íslensku frá því Benedikt Tómasson skrifaði kaflann „Geðvilluskapgerð“ í Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi árið 1959, að mínu mati. Nanna Briem fjallar í greininni einkum um kenningar Robert D. Hare og gátlista hans fyrir siðblindu en minnist líka á siðblindu í viðskiptalífinu. Hún vakti síðan athygli svo um munaði þegar hún flutti fyrirlesturinn Siðblinda og birtingarmyndir hennar í  Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010, sem fjallaði að miklu leyti um siðblindu í viðskiptum. Eftir þann fyrirlestur spunnust miklar umræður í fjölmiðlum og Nanna Briem sat fyrir svörum víða. Síðan þá kannast flestir við siðblindu í viðskiptalífinu. Ég er samt ekki viss um að fólk viti mikið um siðblindu í víðara samhengi.

Enn skirrast menn ekki við að bera siðblindu eða siðvillu upp á mann og annan, þeim til hnjóðs, án þess að gera sér grein fyrir merkingu orðanna siðblinda og geðvilla. Einnig má nefna nýlegt heldur skondið dæmi í umræðu á Alþingi, þar sem verið var að ræða hvort heimspeki ætti að verða skyldufag í grunn- og framhaldsskóla og fer vel á að ljúka þessari færslu með tilvitnun í hana, til marks um að aukin umræða um siðblindu á undanförnum árum hér á landi skilar sér ekki endilega í auknum skilningi á siðblindu:

„Frú forseti. Enn og aftur get ég verið sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði en margt af því fólki sem ég þekki og hefur hvað mesta rökhugsun og getur sett mál sitt skýrt fram og þekkir öll þessi tæki, þarf ekki að vera siðvandaðasta fólkið sem ég þekki. Aftur á móti get ég sagt að mér finnst það fólk sem ekki hefur verið mikið í borgarsamfélagi, er ekki mikið menntað og hefur stritað í sveita síns andlits, oft vera það fólk sem hefur hæstu siðferðisstaðla sem ég hef séð.

Við erum kannski farin að velta fyrir okkur spurningum sem Rousseau velti fyrir sér. Erum við óskrifað blað siðferðilega þegar við fæðumst og er einfaldlega hægt að fylla blaðið út með því að kenna fólki þessi gildi eða fæðumst við með þau? Auðvitað getum við lært þau. Það er alþekkt að þeir sem eru — afsakið frú forseti, að ég skuli sletta — síkópatar og komast hvað best upp með það eru þeir sem geta falið siðferðisbresti sína hvað best á bak við þekkinguna sem þeir hafa. Þeir þekkja hvernig á að hegða sér, hvað þeir eiga að segja. Síðan haga þeir sér á þann hátt sem brýtur öll siðferðislögmál sem við mennirnir viljum setja okkur. Spurningin er: Með því að gefa fólki þessi verkfæri, með því að kenna þeim þetta, gætum við þá verið að stuðla að siðspillingu?“ (Tryggvi Þór Herbertsson á 139. löggjafarþingi, 35. fundi 25. nóvember 2010.)
 


   Færslan er skreytt leikaramyndum sem ekkert koma textanum við. Þetta eru allt myndir af frægum siðblindum persónum kvikmyndanna, talið að ofan: Max Zorin í A View To A Kill, Patrick McKenna kardínáli í Englum og djöflum, Jim Stark í Rebel Without a Cause (raunar er á mörkunum að hann sé siðblindur en má nokkuð örugglega telja hann með andfélagslega persónuleikaröskun), Alex DeLarge í A Clockwork Orange, Patrick Bateman í American Psycho og loks sá frægasti: Hannibal Lecter í Lömbin þagna.
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda

10. mars 2011

Hugtakið siðblinda og þróun þess

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti
 

Skilgreiningar á siðblindu hafa farið út um víðan völl í tímans rás. Tvennt hefur þó haldist nokkuð stöðugt: Annars vegar að sterk tengsl siðblindra við raunveruleikann og skortur á geðrofi/sturlun er mikilvægur þáttur í greiningu siðblindu. Hins vegar að siðblindir einstaklingar eru oftast taldir ólæknandi. Í meginatriðum má segja að menn hafi sveiflast milli þess að leggja áherslu á persónuleikaeinkenni siðblindra til þess að einblína á hegðun þeirra. Þetta helst í hendur við hvort menn hafa talið siðblindu arfgenga að mestu eða aðallega mótaða af félagslegum aðstæðum. Núna virðist sveiflan vera aftur til upphafsins, þ.e.a.s. áhersla á félagsmótun sem orsök minnkar og áhersla á meðfædda persónuleikaröskun eykst.

 

Philippe PinelOft er talið að franski læknirinn og frumkvöðull í geðlækningum, Philippe Pinel (1745 - 1826), hafi fyrstur lýst einhverju sem líkist siðblindu á læknisfræðilegan hátt. Hann notaði hugtakið la folie raisonnante/manie sans délire, þ.e.a.s. „geðveikir án vitfirringar“ m.a. um þá sjúklinga sem sýndu hvatvísa og sjálfseyðileggjandi hegðun, gerðu sér grein fyrir eigin taumleysi en héldu þó uppteknum hætti. (Myndin er af Pinel.)
 

Benjamin Rush, stundum sagður faðir bandarískrar geðlæknisfræði, skrifaði snemma á 19. öld um svipuð tilfelli og Pinel lýsti og gekk enn lengra en  Pinel í að reyna líta á geðsjúka á siðferðilega hlutlausan hátt, þ.e. að þeir hefðu einfaldlega gallað tilfinningalíf og geðsmuni. Rush hélt því fram að til væri fólk sem sýndi óábyrga hegðun allt sitt líf án þess að örlaði á tilfinningum á borð við skömm eða hiki vegna afleiðinga gerða þess. Rush lýsti þessu svona árið 1812: „Viljinn kann jafnvel að vera skekktur í mörgum sem virðast vera vitandi vits … tilfinningarnar gera viljann að ósjálfráðu verkfæri illra verka. Fólki sem haldið er þessum sjúkdómi er um megn að segja satt um nokkurn skapaðan hlut … Falsi þeirra er sjaldan beint meðvitað til skaða neins nema því sjálfu.“ (Medical Inquiries and Observations upon the Diseases of the Mind, 1812, s. 124) Rush kallaði þetta „skrumskælingu hinna siðlegu þátta“ (perversion of the moral faculties) og „siðferðilega firringu hugans“ (moral alienation of the mind).
 

J. C. Prichard  var breskur læknir, sem gaf út ritgerðina Treatise on Stupidity and Other Disorders of the Care árið 1835. Þar notaði hann fyrstur hugtakið „siðferðileg brjálsemi“ (moral insanity) sem hann skilgreindi sem „ónáttúrlega skrumskældar eðlilegar tilfinningar, geðsmunir, langanir, skap, siðir, siðferðiskennd og náttúrlegar hvatir, án nokkurrar áberandi röskunar eða galla í skilningi eða vitsmunalegum og rökrænum þáttum og sérstaklega án nokkurra brjálsemisblekkinga eða ofskynjana.“ Prichard var að mörgu leyti sammála Pinel en algerlega ósammála því að líta slíkan einstakling á siðferðilega hlutlausan hátt. Prichard hélt því fram að siðferðilega brjálaðir sýndu sorglegan persónuleikagalla sem kallaði á félagslega refsingu Hann sló föstu að slíkir þekktu alveg muninn á réttu og röngu en væru þvingaðir til að haga sér á forkastanlegan hátt. Prichard lýsti þessu þannig: „Til er tegund/form geðrænnar truflunar þar sem vitsmunaleg hæfni virðist hafa hlotið lítinn eða engan skaða, þar sem röskunin hefur aðallega eða eingöngu tekið sér bólfestu í tilfinningasviði, skapi eða háttum. Í tilvikum þessa eðlis eru siðferðileg og virk lögmál hugans undarlega afskræmd eða skrumskæld; Sjálfstjórn er horfin eða mjög sködduð og einstaklingurinn er ófær um að bera sig með reisn og gæta velsæmis í lífinu, þótt hann geti rætt af skynsemi um hvaðeina.“
 

Baron Ernst von FeuchterslebenFyrstur til að nota orðið Psychopathie var Baron Ernst von Feuchtersleben, læknir, skáld og heimspekingur í Vín (1806-1849). Hann skrifaði Lehrbuch der ärztlichen Seelenkunde árið 1845 og hún var þýdd á ensku 1847 undir titlinum The Principles of Medical Psychology. Feuchtersleben leit á Psychopathieen sem sjúkdóma persónuleikans. Siðlegur persónuleiki kann að haldast ótruflaður en er yfirgnæfður af röskuninni. Hann fjallaði um Psychopathieen í fjórum köflum, undir yfirskriftunum: Heimska; Föst hugvilla; Æði og Fábjánaháttur. Að hans mati enduðu allir geðsjúkdómar í fábjánahætti væri ekkert gert til lækninga. Það er nokkuð ljóst að Feuhtersleben hafði talsvert annað í huga en nútíma skilning á orðinu psychopatie en hann var líklega höfundur orðsins. (Myndin er af von Feuchtersleben.)
 

Þýski læknirinn Julius L. Koch notaði árið 1891 hugtakið „siðblind lágkúra“ (Die Psychopathischen Minderwertigkeiten - á ensku psychopathic inferiority) í samnefndu riti og átti við einstaklinga sem sýndu óeðlilega hegðun vegna erfða en voru ekki brjálaðir. Hugtakið lýsti tilfinningalegum og siðferðilegum frávikum í þáttum sem tengdust samvisku og fékk góðar viðtökur í Evrópu og Ameríku. Þótt þetta væri merkileg tilraun í lýsandi gerðaflokkun náði hugtakið raunar yfir nánast allt það sem flokkast til persónuleikaraskana í dag. Í endurútgáfum á bók Koch skipti hann út Minderwertigkeit í Persönlichkeit.
 
 

Emil KraepelinEmil Kraepelin (1856-1926), mjög frægur þýskur geðlæknir, stundum kallaður faðir nútíma geðlæknisfræði, betrumbætti og jók við hugmynd  Koch um „siðblinda lágkúru“ (psychopathischen Mindwertigkeiten) því hann vildi þrengja skilgreininguna að þeim sem sýndu mest eyðileggjandi persónueinkenni og geðlæknar á stofnunum tækju oftast eftir. Tuttugu árum eftir að Koch setti fram sínar kenningar um siðblinda rötuðu þær í 8. útgáfu Kraepelin af Lehrbuch der Psychiatrie undir nýrra heiti Koch, psychopatische Persönlichkeiten. Persónuleiki siðblindra kemur að mati Kraepelin fram í sjö tegundum: Æsingagjörnum, framtakslausum, hvatvísum, lygnum, fölskum, andfélagslegum og þrasgjörnum. Kraepelin lýsti undirflokknum siðblindum lygurum sem stjórnsömum, yfirborðskenndum, heillandi og skeytingarlausum um aðra. Í öðrum undirflokki taldi hann glæpamenn af hvöt, sem fylltust óviðráðanlegri þörf til að fremja glæpi án efnahagslegs gróða, eins og íkveikju eða nauðgun. Þriðji flokkurinn átti við  atvinnuglæpamenn sem frömdu glæpi í kaldlyndu hagsmunaskyni fremur en af óviðráðanlegum hvötum. Í fjórða flokknum voru sjúklegir flækingar sem reikuðu gegnum lífið án sjálfstrausts eða ábyrgðar. Áhersla Kraepelin var þó mest á andfélagslega hegðun. Hann kallaði hinn andfélagslega siðblinda der Gesellscahftsfeind og lýsti slíkum einstaklingum þannig: „Óvinir samfélagsins … einkennast af slævingu siðferðiskenndar. Oft eyðileggja þeir og hóta … þeir geta ekki brugðist við af tilfinningadýpt og þá skortir samúð og nærgætni. Þeir hneigjast til vandræða í skóla, skrópa og strjúka. Þjófnaður frá unga aldri er algengur meðal þeirra og þeir fremja glæpi af ýmsum toga.“ (Myndin er af Kraepelin.)
 
 

Karl Birnbaum (1878-1950) var upphaflega þýskur geðlæknir (fæddur í Slésíu og af gyðingaættum) en flutti til Bandaríkjanna 1939 og starfaði þar sem eftir var ævinnar. Hann skrifaði greinina „Über psychopathische Persönlichkeiten“ árið 1909, þar sem hann kynnti hugtakið „félagsblindingi“ (Sociopath) til að leggja áherslu á félagslegar orsakir andfélagslegrar hegðunar.  Bókin Die psychopatischen Verbrecher kom út 1914 og fjallar um siðblinda afbrotamenn eins og titillinn gefur til kynna. Bandaríski geðlæknirinn Partridge tók svo upp orðið „félagsblindingi“ (sociopath) árið 1930 því hann beindi sjónum einkum að andfélagslegri hegðun siðblindra, hvernig þeir brjóta lög, reglur og siðferðileg viðmið.

 

Í klínískri réttarlæknisfræði sem þróaðist á millistríðsárunum hafði Kurt Schneider (1887-1967) nokkur áhrif með bók sinni Die psychopatischen Persönlichkeiten, sem kom út árið 1921. Hefur hefðbundið þýskt viðhorf til siðblindu talsvert byggt á kenningum hans, allt til vorra tíma. Hann greindi í aðalatriðum milli tveggja gerða siðblindra, þ.e. þeirra sem þjást vegna sálarlegs óeðlis og þeirra sem láta samfélagið þjást. Schneider lagði sig fram um að skilgreina siðblindu á ógildishlaðinn/hlutlausan hátt en tókst það ekki alveg. Hann leit ekki á siðblindu sem geðrænan sjúkdóm heldur frávik frá því sem kalla mætti meðallag. Schneider taldi sig hafa fundið tíu ólíkar gerðir siðblindra: Þá kraftmiklu (sem eru ofvirkir, einfaldir og óáreiðanlegir); þá þunglyndu (sem hafa neikvæða lífssýn), þá óöruggu (sem eru viðkvæmir eða sýna skort á sjálfstrausti), þá ofstækisfullu (haldnir þráhyggju og sýna skert veruleikatengsl), þá hverflyndu (sem stjórnast af tilfinningum sínum), þá sem stjórnast af stórmennskuhugmyndum, þá kaldlyndu, þá viljalausu (sem láta aðra stjórna sér), þá táplausu (sem skortir allt frumkvæði) og þá trylltu (sem sýna stjórnlausa árásarhvöt).
 

Enski geðlæknirinn Henry Maudsley reyndi, í bók sinni Responsibility in mental disease, 1897, að greina milli illsku sem birtist í geðrænni truflun, þ.e. siðferðilegri brjálsemi, og þeirrar sem stafaði af upprunalegum stjórnlausum persónuleika. Maudsley taldi að tilfinningar og hvatir einar, án þess að rökvísi væri skert, gætu fengið menn til að fremja afbrot. Hann sló því föstu að ekki væri hægt að endurhæfa fól sem tilbúin væru til „siðferðilegs fábjánaháttar“ (moral imbecility) með fangelsisvist. Ákveðinn hluti afbrotamanna sýndi gallaða líkamlega og sálræna starfsemi sem hefði í för með sér öfgakenndan skort eða jafnvel algeran skort á siðferðiskennd. „Siðferðilegur fábjánaháttur“ væri meðfæddur og ekki þýddi að refsa þeim sem ekki gætu stjórnað gerðum sínum.
 

George Everett Partridge, bandarísku geðlæknir, birti greinina „A Study of 50 Cases of Psychopathic Personality“ árið 1928. Þar stakk hann upp á að nálgast siðblindu á tvenns konar orsakafræðilegan hátt. Hann hafði tekið eftir að í fjölskyldum siðblindra glæpamanna mátti finna óvenju hátt hlutfall siðblindra sem benti til að siðblinda væri af líffræðilegum rótum runnin. Hins vegar voru þeir siðblindir til sem ekki áttu ættingja með siðblindu. Þá síðarnefndu taldi Partridge haldna áunninni siðblindu sem væri einhvers konar aðlögun að rótlausu uppeldi og umhverfi í æsku. Þess vegna stakk Partridge upp á að nota orðið „félagsblindingi“ (sociopath) í greininni „Current Conceptions of Psychopathic Personality“ (1930) til að leggja áherslu á að siðblinda geti allt eins stafað af félagslegum þáttum og líffræðilegum. „Félagsblinda“ var sögð stöðug vanhæfni til að aðlagast venjum og siðum samfélagsins, sem ekki mátti ráða á bót með venjulegum aðferðum menntunar eða með refsingum.
 

David Henderson (1884-1965), virtur skoskur geðlæknir, hafði mjög mikil áhrif á breska hugtakið psychopathy. Henderson leit á „siðblint ástand“ (psychopatic states, hann gaf út samnefnda bók árið 1939) sem grundvallar óeðli. Öndvert við marga aðra, sérstaklega þýska geðlækna, taldi hann grunninn lagðan bæði af arfgengi og umhverfi. Hann taldi að siðblinda kæmi fram á þrjá vegu: Þeir sem væru fyrst og fremst árásargjarnir, fyrst og fremst óábyrgir og fyrst og fremst skapandi. Þeir árásargjörnu væru ofbeldisfullir, hætti til sjálfsvígs og að misnota vímuefni. Þeir óábyrgu héldu sig til hlés, væru ofurtilfinninganæmir, óstöðuglyndir og heilsukvíðnir. Þeir væru einnig innhverfir og sjúklegir lygarar. Skapandi siðblindir voru óeðlilegt fólk sem tókst að verða frægt eða frægt að endemum. Þriðja skilgreiningin var lítið notuð en hinar tvær rötuðu inn í engilsaxnesk hugtök um persónuleikaraskanir sem einkenndust fyrst og fremst af andfélagslegum þáttum. Í bresku geðheilbrigðislögunum (Mental Health Act) er hugtakið „siðblinduröskun“ (psychopathic disorder) nær eingöngu notað í merkingunni afbrigðileg og óábyrg hegðun.
 
 

Henry CleckleyBók bandaríska geðlæknisins Henrys Cleckley, Mask of Sanity, markaði upphafið að klínískum skilningi nútímans á siðblindum. Bókin kom fyrst út árið 1941 og hefur verið endurútgefin fimm sinnum, síðast 1976. Cleckley byggði lýsingu sína á kynnum af hvítum siðblindum millistéttarkörlum, sem voru sjúklingar á geðsjúkrahúsi. Niðurstöður hans byggðust á andfélagslegri hegðun siðblindra sem ekki mátti rekja til hvata, geðrofs, hugsýki eða andlegrar fötlunar. Megineinkenni í lýsingu Cleckley á siðblindum eru þessi: Þeir eru haldnir stórmennskuhugmyndum, hrokafullir, kaldlyndir, yfirborðskenndir og stjórnsamir; Hvað tilfinningar varðar eru þeir skapbráðir, geta ekki bundist öðrum sterkum tilfinningalegum böndum og skortir samlíðan, sekt eða eftirsjá; Í hegðun eru þeir óáreiðanlegir, hvatvísir og víla ekki fyrir sér að brjóta félagsleg norm eða lög. Veigamikið atriði í greiningu Cleckley var „merkingarleg veiklun“ (semantic dementia) en með því átti hann við að siðblindum væri um megn að upplifa hvers kyns mannlega reynslu af tilfinningadýpt þótt vitsmunum þeirra væri ekki áfátt. Hugtakið er ekki lengur notað yfir þetta en skýrði á sínum tíma margt í fari siðblindra. Cleckley áttaði sig á því að margir siðblindir lentu aldrei í fangelsi og taldi það skýrast af því þeir lausbeisluðu væru miklu flinkari í að koma eðlilega fyrir.

Robert D. Hare byggir á hugmyndum Cleckley og hefur ítarlega skilgreint siðblindu, ásamt því að hanna greiningarlykla fyrir hana. Um kenningar Cleckley og kenningar Hare má lesa á Þófamjúk rándýr sem læðast; Siðblinda I. hluti.
 
 

Opinberir staðlar
 

Sögulegt yfirlit yfir hugtakið siðblindaSé smellt á myndina af töflunni hér til vinstri birtist stór útgáfa á sérstakri síðu. Taflan er yfirlit yfir helstu hugtök sem læknar hafa notað yfir siðblindu frá upphafi og hugtök sem notuð hafa verið í stöðlum, einkum DSM; lýsingu á siðblindu og horfur á bata.

DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) er Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma sem Bandarísku geðlæknasamtökin (APA) gefa út.

Í fyrstu útgáfu handbókarinnar (1952) var notað hugtakið „félagsblind persónuleikatruflun“ (Sociopathic Personality Disturbance) til þess að lýsa siðblindum einstaklingum. Þetta sýnir hvernig Bandarísku geðlæknasamtökin reyndu að viðurkenna félagslega áhrifavalda á persónuleika og geðræna röskun. En lýsing DSM innihélt mörg einkenni sem Cleckley hafði talið til persónuleikaþátta siðblindra: Skort á kvíða; vöntun sektarkenndar; hvatvísi; kaldlyndi og skort á að vera ábyrgur gerða sinna. Hegðunareinkennin sem lýst var gátu hins vegar átt almennt við glæpsamlega hegðun.

Í  næstu greiningar-og tölfræðihandbók, DSM-II (APA, 1968) var siðblinda innifalin í „andfélagslegri persónuleikaröskun“ (Antisocial Personality Disorder). Andfélagslega skilgreiningin beindist samt fremur að persónuleikaeinkennum hins siðblinda en síður að hegðun félagsblindingja. T.d. lýsti DSM-II þessum einstaklingum sem kaldlyndum, hvatvísum, sjálfselskum og ófærum um að læra af reynslunni. En heildarlista yfir persónuleikaeinkenni vantaði og engar leiðbeiningar um sjúkdómsgreiningu var að finna.

Í DSM-III (APA 1980) og DSM-III-R (APA 1987) var siðblinda áfram innifalin í andfélagslegri persónuleikaröskun (ASPD). En nú var sjónum ekki lengur beint að persónuleikaeinkennunum heldur að hegðun siðblindra. Forsendur þess voru að greining hegðunar væri miklu áreiðanlegri aðferð en að reyna að meta þá persónuleikaþætti sem lægju að baki hegðuninni. Hið nýja flokkunarkerfi var svo almennt að innan þess rúmuðust nánast öll þekkt lögbrot. Í þessari nýju útgáfu af DSM var minnst á hegðunarröskun (Conduct Disorder), þ.e. afbrigðilega hegðun fyrir 15 aldur, sem nauðsynlegan þátt til í greiningunni. Í greiningarlyklinum fyrir hegðunarröskun þurftu 3 einkenni af 12 einkennum afbrigðilegrar hegðunar að vera til staðar, einkenni á borð við lygar, skróp, að níðast á dýrum eða fólki, íkveikju og áflog. Til að greinast með andfélaglega persónuleikaröskun þurfti og þarf enn að uppfylla a.m.k. 4 af 10 einkennum hennar (auk þess að greinast með hegðunarröskun í æsku). Þau eru m.a.: Getur ekki hegðað sér á viðurkenndan hátt í vinnu um langt skeið; getur ekki lagað sig að félaglegum normum eða lögum; er pirraður og árásargjarn sem birtist í áflogum eða árásum o.s.fr.

DSM-IV (1994)

Lítil breyting varð á milli DSM-III-R og DSM-IV. Siðblinda og félagsblinda er áfram undir andfélagslegri persónuleikaröskun. Segir m.a.: „skortur á samlíðan, óhóflegt sjálfshól og yfirborðskenndur þokki eru þættir sem algengt er að falli undir hefðbundnar hugmyndir um siðblinda og kunna að vera sérstaklega áberandi í andfélagslegri persónuleikaröskun fanga eða vistmanna á réttargeðlækingarstofnunum þar sem glæpsamleg, afbrotakennd eða árásargjörn hegðun er líkleg til að vera ekki einsleit.“ Tengsl DSM-IV við greiningarlykil Roberts D. Hare eru ekki sérlega mikil. Einungis hluti af þætti 2, Afbrigðilegum félagslegum lífstíl, í greiningarlykli Hare er innifalinn í skilgreiningunni á andfélagslegri persónuleikaröskun.

Aftur á móti er Greiningar-og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma í endurskoðun og er stefnt að útgáfu DSM-5 í maí 2013. Skilgreiningu á andfélagslegri persónuleikaröskun hefur verið breytt töluvert í drögum að DSM-5 og segja þeir sem vinna að endurskoðuninni: „Vinnuhópurinn mælir með því að þessi röskun verði endurorðuð í andfélagslega/ siðblinda gerð (Antisocial/Psychopathic Type)“ og telur svo upp höfuðeinkenni í greiningarlykli Hare. (Sjá „301.7 Antisocial Personality Disorder“ í American Psychiatric Association DSM-5 Development, skoðað 6. jan. 2011.)
 

ICD-10 (International Statistical Classification of Diseases and Health Related Problems) er staðall Heilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (WHO). Nú er notuð tíunda útgáfa staðalsins í fjölda landa, þ.á.m. á Íslandi. Að mörgu leyti ber ICD-10 saman við DSM-IV en þó má finna mun í greiningu ýmissa sjúkdóma.

Af  persónuleikaröskunum sem taldar eru í ICD-10 kemst „félagsleg persónuleikaröskun“ (Dyssocial Personality Disorder) næst því að dekka siðblindu. Hún er undirflokkur Sértækra persónuleikaraskana. Innan félagslegrar persónuröskunar eru: Siðleysispersónuröskun (amoral), andfélagsleg persónuröskun (antisocial), ófélagsleg persónuröskun (asocial), geðvillupersónuröskun (psychopathic) og félagsblindupersónuröskun (sociopathic). Siðblinda hefur einnig verið nefnd „geðvilla“ á íslensku.  Skilgreining á félagslegri persónuleikaröskun er: „Persónuleikaröskun sem einkennist af hunsun félagslegra skyldna og kaldlyndu skeytingarleysi hvað varðar tilfinningar annarra. Hegðun er í hróplegu ósamræmi við ríkjandi norm í samfélaginu. Henni verður trauðlega breytt þótt afleiðingarnar séu slæmar, þ.m.t. refsingar. Lítið þarf til gremju og skapofsa, þ.á.m. beitingu ofbeldis; sjúklingurinn hneigist til að varpa sök á aðra eða reynir að réttlæta þá hegðun sína sem kom honum í klandur í samfélaginu með rökum sem hann telur trúverðug.“
 

Helsti munurinn á andfélagslegri persónuleikaröskun  DSM-IV og félagslegri persónuleikaröskun ICD-10 felst kannski í því að í fyrrnefnda greiningarkerfinu verður að hafa mælst hegðunarröskun (CD) fyrir 15 ára aldur en í hinu síðarnefnda er slík röskun útilokuð í greiningunni.
 

Það væri áhugavert að vita hvort eða hve margir hafa verið greindir á Íslandi með geðvillupersónuröskun eða félagsblindupersónuröskun en líklega liggja slíkar upplýsingar hvergi frammi.
 


Heimildir voru skoðaðar í febrúar og mars 2011 og þær eru:

Andrade, Joel T. 2008. „The inclusion of antisocial behavior in the construct of psychopathy: A review of the research“. Aggression and Violent Behavior 13.árg. 4.tbl. 2008, s. 328-335.

Arrigo, Bruce A. og  Stacey Shipley. 2001. „The Confusion Over Psychopathy (I): Historical Considerations“. International Journal of Offender Therapy and Comparative Criminology 45 2001, s. 325-344.

Burns, Charles L.C. 1953. „A Forgotten Psychiatrist- Baron Ernst von Feuchtersleben, M.D., 1833“. Proceedings of the Royal Society of Medicine. 18.árg. 2. desember 1953, s. 190-194.

Hervé, Hugues. 2004. „Psychopathy Across the Ages. A History of the Hare Psychopath“. The Psychopath: Theory, Research, and Practice. Ritstjórar Hugues Hervé og John C. Yuille. Routledge, 2004, s. 31-55. Aðgengileg til skoðunar á Bækur Google.

„ICD-10 Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamál [svo]“ á Stöðluð kóðun í alþjóðlegum flokkunarkerfum Landlæknisembættisins (SKAFL).
 

Millon, Theodore, Erik Simonsen og Morten Birket-Smith. 2002. „Historical Conceptions of Psychopathy in the United States and Europe“. Psychopathy: antisocial, criminal and violent behavior. Guilford Press 2002, s. 3-31. Aðgengileg til skoðunar á Bækur Google.
 

Saß, Henning  og Alan R. Felthous. 2008. „History and Conceptual Development of Psychopathic Disorders“. International Handbook on Psychopathic Disorders and the Law. Ritstjórar Alan Felthous og Henning Saß. Wiley-Interscience 2008, s. 9-30. Aðgengileg til skoðunar á Bækur Google.
 

„The Retelling of Personality Disorders“. Höfundar og birtingartíma er ekki getið. Article Directories Korea
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Siðblinda

5. mars 2011

Lækning siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, V hluti
(finna má fyrri færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, hér til hægri)

 

 

Fangaklefar

Ýmislegt hefur verið reynt til að ráða bót á siðblindu en árangurinn hefur verið afar lítill og sá litli árangur sem mælst hefur í sumum rannsóknum er talinn óáreiðanlegur enda snérust rannsóknirnar yfirleitt um miklu stærri og fjölbreyttari hóp en siðblinda eingöngu. Niðurstaða fræðimanna á borð við Robert D. Hare og J. Reid Meloy er að meðferð við siðblindu skili svo til engum árangri og geti verið til hins verra, þ.e. gert siðblinda glæpamenn enn hættulegri með því að kenna þeim að dylja eðli sitt betur. Þessu hefur verið andmælt, annars vegar með því að benda á annmarka í rannsóknum1 og hins vegar með því að stinga upp á ýmsum óprófuðum eða líttprófuðum aðferðum sem gætu komið að gagni. Mönnum er mjög í mun að finna einhverja lækningu á siðblindu vegna þess hve hættulegir siðblindir glæpamenn eru og vegna þess að siðblindir fangar eru í óþolandi stöðu. Þeim er annars vegar sagt að skilorð komi ekki til greina nema þeir taki þátt í meðferð og á hinn bóginn er þeim neitað um skilorð vegna þess að þeir eru siðblindir (skora hátt á PCL-R listanum). Í sama streng og gagnrýnendur rannsókna tekur Robert D. Hare: „Eins og er biðjum við siðblinda [fanga] að taka þátt í meðferðarprógrömmum sem eru ólíkleg til að skila árangri og blekkja þá og okkur til að halda að þátttakan sé einhvers virði og hafi hagnýtt gildi fyrir þá.“2

Flestir eru þó sammála um tvennt; að það borgi sig að lækna hliðarkvilla sem siðblindir eru oft haldnir, t.d. geðræna sjúkdóma á borð við þunglyndi, kvíða eða geðklofa og reyna að draga úr misnotkun vímuefna.3 Hitt er að það sé hugsanlega hægt að vinna einhvern bug á siðblindu sé gripið nógu snemma í taumana, þ.e. að röskunin sé greind strax á barnaldri eða unglingsaldri. Rannsóknir og greining á siðblindu í börnum og unglingum fela þó í sér mörg siðferðileg álitamál og eru vandmeðfarnar.4

Hér á eftir verður reynt að rekja helstu aðferðir sem reyndar hafa verið í meðferð fullorðinna siðblindra og hugmyndir um að siðblinda verði minna áberandi eftir því sem siðblindir eldast.

Aðgerðir á heila, meðferð á heila og notkun tölvutækni til breytinga á heila
Lóbótóm�a, hv�tuskurðurÁ fimmta áratug síðustu aldar naut svonefnd lóbótómía (reyndar var um að ræða nokkrar mismunandi útgáfur af þessari skurðaðgerð) geysilegrar hylli til lækninga geðrænna kvilla af ótrúlega fjölbreyttu tagi. Þetta gat verið lífshættuleg aðgerð og árangurinn vafasamur, þ.e. sjúklingar urðu oft skárri af sínum geðræna sjúkdómi en urðu í staðinn óvirkir, jafnvel hálfgert grænmeti eins og sést í þeirri frægu mynd Gaukshreiðrinu. Einhvern veginn hljómar það öfugsnúið, miðað við hvað nú er vitað, að skera sundur hvelatengsl í siðblindum eða hræra í þeim því vanstarfsemi í hvelatengslum er talin skýra siðblindu að einhverju leyti. Í lóbóbómtíu-tilraunum í Svíþjóð kom líka í ljós að siðblindir fangar urðu enn siðblindari eftir aðgerðina. Á danskri lokaðri réttargeðdeild voru gerðar sams konar tilraunir á sex föngum sem taldir voru siðblindir. Menn töldu að tveir hefðu hlotið bata af og getað tekið þátt í samfélaginu á eftir, þrír þjáðust af erfiðum geðrænum kvillum eftir aðgerðina og ekki fer sögum af hinum sjötta. Svoleiðis að árangurinn af lóbótómíu í meðhöndlun siðblindra var lítill eða enginn. (Reyndar hafa menn á síðari tímum efast um jákvæðan árangur lóbótómíu yfirleitt, hver sem sjúkdómsgreiningin var.)5

Einhverjir velta því fyrir sér hvort nútíma taugaskurðlækningar á heila eða notkun ígræddra rafskauta (Deep Brain Stimulation) geti hugsanlega gagnast við siðblindu í framtíðinni. En vegna hinnar skelfilegu reynslu af lóbótómíu-aðgerðunum sem eitt sinn voru svo vinsælar er farið mjög varlega í að orða þessar hugmyndir.6

Reynt hefur verið að beita raflækningum (electroconvulsive therapy) á siðblinda sjúklinga en fáar slíka tilraunir þykja hafa sýnt fram á neinar breytingar á kjarnaeinkennum siðblindu. Hugsanlega gæti slík meðferð þó komið að gagni ef siðblindir eru einnig haldnir alvarlegu þunglyndi, þ.e. læknað hliðarkvillann.7

Stungið hefur verið upp á að tilfinningastjórnun (emotion regulation) gæti verið til bóta siðblindu, sem einhvers konar heilaleikfimi sem virki boðefnaframleiðslu og geti jafnvel breytt starfsemi möndlungs. Megi fylgjast með slíku með notkun sérstaks rauntíma-starfræns-heilaskanna (real time fMRI) og veita sjúklingnum endurgjöf jafnóðum á tölvuskjá.8 Þessi hugmynd byggir á þeirri skoðun að hægt sé að þjálfa upp samhygð/samlíðan. Fátt í árangri sálfræðimeðferðar siðblindra til þessa styður þá skoðun.
Lyf

Gerðar hafa verið tilraunir til að draga úr einkennum ýmiss konar persónuleikaraskana með sefandi lyfjum/ geðrofslyjum, þunglyndislyfjum, liþíum, bensódíazapem-lyfjum, örvandi lyfjum og krampastillandi lyfjum en fáar lyfjatilraunir hafa verið gerðar til að draga úr siðblindu eins og hún er skilgreind í greiningarlykli Hare. Á síðari tímum hefur lyfjagjöf þótt óákjósanlegur kostur í meðferð siðblindu enda er núorðið litið svo á að þetta sé meðfædd persónuleikaröskun sem lyf séu ólíkleg til að vinna bug á. Þær tilraunir sem hafa verið gerðar sérstaklega á siðblindum eru flestar gamlar og fólust einkum í notkun örvandi lyfja eða liþíums.

  • Talið er að liþíum geti dregið úr hvatvísi og óútreiknanlegum skapsveiflum en lyfið getur valdið leiðinlegum aukaverkunum og þarf að stilla skammt fyrir hvern og einn. Í nokkrum tilraunum til að gefa liþíum var hluti sjúklinganna (geðsjúkra afbrotamanna) með sterk kjarneinkenni siðblindu en ekki greindur siðblindur. Liþíum virtist draga marktækt úr andfélagslegri hegðun. (Sheard 1971; Sheard, Marini og  Bridges 1976; Rifkin, Quilkin og Carrillo 1972.)
  • Þótt ekki hafi greinst bein tengsl milli athyglisbrests með ofvirkni (ADHD) og siðblindu telja margir að þessar raskanir kunni að vera af sömu erfðafræðilegu rótum runnar og því hafa verið gerðar tilraunir með að gefa siðblindum amfetamín. Ein langtíma-rannsókn á lyfjagjöf margra siðblindra einstaklinga, frá fimmta áratug síðustu aldar, gaf  til kynna að amfetamín drægi úr andfélagslegri hegðun þeirra. (Hill, 1944).
  • Önnur rannsókn, sem einungis var athugun á þremur siðblindum, benti til að bensódíazapem-lyf hefði jákvæð áhrifi á skapsveiflur, reiðiköst og pirring. (Shorvon, 1947).
  • Tvær rannsóknir hafa leitt í ljós að siðblindir eru oft haldnir öðrum kvillum líka (Coid 1992; Walker og McCabe 1973). Hugsanlega má draga má úr hliðarkvillunum með lyfjagjöf. bensódíazapem-lyf hafa öflug áhrif á kvíða og svefnleysi. Þeim hefur aðeins verið beitt í meðferð siðblindra, einkum díazepam, til að draga úr hegðunarvandamálum. En bensódíazapem-lyf hafa stundum sýnt öfuga verkan eða haft slæmar aukaverkanir í skorti á sjálfstjórn, t.d. ofskömmtun og alvarlega sjálfsköðun.
  • Áhrif þríhringlaga þunglyndislyfja á þunglynda einstaklinga með persónuleikaraskanir (oftast hafa menn skoðað jaðarpersónuleikaröskun í þessu sambandi) eru miklu minni en á þá sem einungis eru þunglyndir. Í sumum tilvikum virtist sjúklingum versna að mun, þeir urðu óvinveittari og hvatvísari.
  • MAO-blokkar hafa þótt sýna jákvæð áhrif á þunglyndi jaðarpersónuleikaraskaðra og kæmu e.t.v. til greina sem lyf við hliðarkvillanum þunglyndi í siðblindum.
  • Í greinargerð rannsóknar á hvernig SSRI-lyf (Citalopram) gæti haft áhrif til bóta á siðferðilegri dómgreind og hegðun, með aukningu serótónins, segir að þótt niðurstöður séu almennt jákvæðar þá gildi það ekki um siðblindu. Í ljós kom nefnilega að virknin var háð hæfileikanum til samlíðunar. Því nýtist lyfið líklega ekki þeim sem skortir samlíðan, s.s. siðblindum.9
  • Hollenski geðlæknirinn Willem H. J. Martens, sem er á öndverðum meiði við flesta aðra í skilningi og skilgreiningu á siðblindu, heldur því fram að Lfenfluramine (Pondimin, Ponderax eða Adifax) virki á siðblindu en það lyf var tekið af markaði í Bandaríkjunum árið 1997 vegna hættu á að það ylli hjartaskemmdum. Lyfið var einkum notað við offitu því í lyfjablöndu framkallaði það saðningartilfinningu.10

Almennt og yfirleitt má segja að ekki hafi verið sýnt fram á að siðblindu megi bæta með lyfjagjöf. Hins vegar geta lyf slegið á hliðarkvilla sem siðblindir eru oft haldnir.

Sálfræðimeðferð ýmiss konar
Margs konar sálfræðileg meðferð hefur verið reynd í því skyni að ráða bót á siðblindu. Flestir eru sammála um að hefðbundnar aðferðir skili ekki neinum árangri. Bent hefur verið á að hvöt þeirra sem eru til meðferðar er venjulega lítil, bæði vegna þess að þeir eru oftast skikkaðir í meðferð af dómstólum og að þeir sjá enga ástæðu sjálfir til að breyta persónuleikaeinkennum sínum. Vegna þessa hefur æ meir verið litið framhjá þörfum meðferðarþegans (hins siðblinda) og meiri áhersla verið lögð á að samfélagið sjálft sé þiggjandi meðferðarinnar; Meðferðin snúist ekki um að sinna röskun sjúklingsins heldur að draga úr þeim truflunum og skaða sem þeir valda öðrum.11

Nokkrar ástæður þess að siðblindum nýtist illa hefðbundin meðferð eru taldar þessar:

  • Siðblindur getur ekki gert nákvæma grein fyrir því sem snertir persónu hans og gerðir sem gefur meðferðaraðila brotakenndar og upplognar sögur til að vinna með
  • Siðblindur hefur óheiðarlegar ætlanir sem miða að því að ráðskast með meðferðaraðilann; sjúklingurinn vill í rauninni ekki breyta hegðun sinni heldur lítur á meðferðina sem enn eitt tækifærið til að blekkja eða drottna
  • Siðblindir trufla hópmeðferð; markmiðið er að drottna yfir bæði meðferðaraðilanum og hópnum
  • Siðblindir sjá enga ástæðu fyrir breytingu persónuleikaþátta, sem rekja má til stórmennskuhugmynda um eigið ágæti
  • Siðblinda skortir skynbragð á tilfinningar annarra og eiga erfitt með að leggja sig fram af tilfinningu. Allar tilraunir til að fá sjúklinginn til að beina sjónum sínum að afleiðingum hegðunar hans á annað fólk, fórnarlömbin, er sóun á orku. Sama gildir um reiðistjórnun.
  • Siðblindir eiga erfitt með að lúta reglum og siðvenjum sem nauðsynlegar eru til að meðferðin beri raunverulegan árangur.12

Afar erfitt er að fást við siðblinda og ættu einungis mjög hæfir meðferðaraðilar, sem eru mjög vel að sér um siðblindu, að sinna slíku verkefni. Siðblindur mun reyna að blekkja meðferðaraðilann og ná stjórn á honum með ýmsum lymskubrögðum. Athygli vekur að þeir sem fást við siðblinda hafa fundið fyrir ýmsum ósjálfráðum líkamlegum varúðarmerkjum í samskiptum við alvarlega siðblinda. Þeir lýsa þessu þannig: „Hárin risu á höfði mér“; „Hann lét mig fá gæsahúð“ eða „Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds við augnaráð hans.“ Talið er að stór meirihluti meðferðaraðila finni fyrir einhvers konar ósjálfráðum líkamlegum viðbrögðum af þessu tagi í návist mikið siðblinds sjúklings, jafnvel þótt hann sýni enga ógnandi hegðun. Sá sem einkum hefur lýst þessu telur að þetta séu ósjálfráð frumstæð óttaviðbrögð bráðar andspænis rándýri af sömu tegund. Hvatt er til þess að vera vakandi fyrir eigin viðbrögðum og nota þau sem vegvísi í frekari athugun sjúklinga með andfélagslegar persónuleikaraskanir.13
Hvers konar meðferð hefur verið reynd?

Í stuttu máli sagt má segja að næstum allar samtalsmeðferðir, einstaklingsviðtalsmeðferðir og hópmeðferðir hafi verið prófaðar til lækningar siðblindu.14 Sumir telja nauðsynlegt að greina milli mismunandi siðblindra og velja meðferðarform eftir undirtegundum. Hópi siðblindra með sterk kjarnaeinkenni siðblindu er um megn að finna samlíðan, finnur lítið fyrir kvíða og þunglyndi, skorar hátt í kaldlyndi og sjálfsdýrkun og hneigist til ofbeldis. Aðrir sem greinast mjög siðblindir upplifa mikinn kvíða og þunglyndi og eru oft haldnir hliðarröskunum á borð við jaðarpersónuleikaröskun. Síðari hópnum má hugsanlega hjálpa og þeir einstaklingar hafa getu til að tengjast meðferðaraðila eða ráðgjafa í einhvers konar bandalagi. Þetta þýðir ekki að gefast eigi upp á fyrrnefnda hópnum heldur er stungið upp á að fyrst sé best að vinna með þá sem eru heldur auðveldari viðfangs áður en menn snúa sér að erfiðari tilfellum.15

J. Reid Meloy heldur því fram að ekki skuli bjóða meðferð siðblindum sem sýna eftirtalin einkenni (enda muni meðferð ekki gagnast þeim):

Árásarargjarna hegðun og kvalalosta sem leiðir til limlestinga á öðrum; algeran skort á eftirsjá eða réttlætingu fyrrnefndrar hegðunar; mjög mikla greind eða lítilsháttar greindarskerðingu; sögu um að geta ekki tengst tilfinningaböndum og vekja skyndilegan frumstæður ótta sem reyndur læknir finnur fyrir í nálægð slíks sjúklings. Hann hefur gert grein fyrir ýmsum sálfræðilegum meðferðum sem prófaðar hafa verið á siðblindum og hættunum sem í hverju meðferðarformi felast. Hann varar sérstaklega við einstaklingsmeðferð og fjölskyldumeðferð en telur að hópmeðferð komi stundum til greina enda veiti hópurinn, t.d. aðrir siðblindir sem kunna öll trixin og svindlið, þeim siðblinda aðhald. Á hinn bóginn geti siðblindur einstaklingur auðveldlega rústað hópmeðferð sem kemur þá öðrum illa.16

Andleg vakning?Hollenski geðlæknirinn Willem H. J. Martens er á öndverðum meiði við flesta aðra hvað orsakir siðblindu varðar og svo er einnig í uppástungu á læknismeðferð. Hann mælir með andlegri vakningu (Spiritual Psychotherapy) sem gagnlegri meðferð fyrir siðblinda. Í slíkri andlegri vakningarmeðferð felst t.d. að ræða visku og sjálfsþekkingu, stunda sjálfsrannsókn, læra hvernig skuli takast á við einsemd, sorg eða mistök, hvernig megi tengjast öðru fólki, vera í sambandi við aðra og þróa eigin siðareglur. Í slíkri meðferð megi taka dæmi úr bókmenntum, heimspeki, málverkum, leikritum, tónlist, kvikmyndum o.s.fr. en það er mjög mikilvægt að þessi dæmi tengist aðalvanda sjúklingsins og spurningum hans. Einnig má beita hugleiðslu, öndunaræfingum, kyrja, gera sér í hugarlund, hverfa til fyrra lífs o.fl. Markmið sálfræðimeðferðar sem byggist á andlegri vakningu er að hjálpa sjúklingnum að finna lausn á andlegum, siðferðilegum, tilfinningalegum eða sálfélagslegum vandamálum; að öðlast nægjusama og heilbrigða lífssýn og sýn á sjálfan sig og að auka ýmiskonar félagslega og siðferðilega hæfni.

Martens bendir á að hugsanlega muni siðblindir nota þá tækni sem þeir læra í slíkri meðferð til að drottna yfir öðrum eða til að sýna falska bót og betrun, jafnvel iðrun, til að sleppa fyrr út af lokaðri gæsludeild. Meðferðaraðilinn verður því að vera á varðbergi. En góður meðferðaraðili mun sjá að þessir sjúklingar hafa raunverulegan áhuga á andlegum málefnu og oft birtist hann í djúpstæðri sjálfsrannsókn, nýrri áttun og merkilegri aukningu í siðferðilegri, félagslegri og tilfinningalegri getu sjúklinganna (s.s. samlíðan, ábyrgð, sekt, hollustu og samúð).  Þeir siðblindu sem ekki eru móttækilegir fyrir meðferð af þessu tagi geta ekki dulið óbeit sína nema um stund og verður þá sennilega að vísa þeim frá.17

Robert D. Hare telur að meðferðarprógramm fyrir siðblinda afbrotamenn ætti ekki að beinast að því að þróa samlíðan og samvisku eða reyna hafa áhrif á persónuleika, því það sé vita tilgangslaust,  heldur sannfæra þáttakendur um að þeir einir beri ábyrgð á hegðun sinni og kenna þeim að nota eigin styrk og hæfileika til að uppfylla þarfir sínar og óskir um leið og þeir taka tillit til annarra. Árangurinn þyrfti að meta vandlega og empírískt jafnóðum og aðlaga meðferðina að einstaklingum. Það þýðir að sumt í slíkri meðferð myndi nýtast siðblindum en ekki öðrum afbrotamönnum og öfugt.

Menn ættu ekki að vera of bjartsýnir í meðferð siðblindra, segja Hare og Stephen C. P. Wong, því Sál breytist ekki í Pál, svo notað sé biblíulíking. Það skásta sem má vonast eftir er að siðblindir sem ljúka meðferð vilji marktækt síður beita ofbeldi en áður. Jafnvel þótt tiltölulega lítið dragi úr árásarhneigð og ofbeldi siðblindra er slíkt risastór plús fyrir samfélagið.18

Siðblindueinkenni dvína með aldrinum

Skv. Robert D. Hare o.fl. dvína einkenni þáttar 2 í siðblindu, afbrigðilegs félagslegs lífstíls, með aldrinum en þáttur 1, ógnandi sjálfsdýrkun, helst óbreyttur. Þetta bendir til að siðblindum takist að einhverju leyti að laga sig að samfélaginu þótt persónuleikaeinkenni þeirra séu óbreytt, þ.á.m. megindrættirnir sjálfselska, drottnunargirni og kaldlyndi. Hare segir eftirfarandi sögu til að útskýra hvað hann á við:
Fangelsissálfræðingur sem var viðstaddur einn af fyrirlestrum mínum sagði frá siðblindum afbrotamanni með sögu um ofbeldi sem hafði „endurfæðst og náð félagslegri endurhæfingu í fangelsinu“ og var sleppt á skilorði. Í mörg ár virtist hann vera fyrirmyndar skilorðsfangi en nýlega hafði skilorðsfulltrúinn hans frétt að þessi fyrrum fangi bjó með ruglaðri konu, sem einungis gegndi því hlutverki að vera ævinlega tilbúin sem kynlífstól og boxpúði. Af því hún trúði því að hún ætti þessa misnotkun skilda kærði hún ekki til lögreglunnar. Þessi maður var vissulega ekkert minna siðblindur en þegar hann var í fangelsinu, hann hafði einfaldlega komið sér upp öðru kerfi í andfélagslegri og kaldlyndri hegðun.19
Siðblindir brenna út eftir róstursamt líf og langvarandi dulda þjáningu

Á öndverðum meiði við Hare er hollenski geðlæknirinn Willem H. J. Martens, eins og áður sagði. Hann hefur gagnrýnt gátlista og greiningarkerfi Hare mjög harkalega og hefur allt aðra sýn á siðblindu. Í greiningu Cleckley og seinna Hare er litið framhjá, segir Martens, hinni tilfinningalegu þjáningu og einsemd þess siðblinda. Þegar horft er á þessa þætti mun skilningur okkar á þeim siðblinda verða mannúðlegri.

Martens segir að margir siðblindir geti ekki haldið uppi sama orkufreka lífsstílnum þegar aldurinn færist yfir þá. Þeir brenni út sem gæti tengst taugalíffræðilegum breytingum og/eða félagslegum og tilfinningalegum þroska. Óbærileg og langvarandi einsemd gæti líka valdið því að tilfinninganæmi þeirra yrði óeðlilegt. Slíkt gæti brotist út í reiði vegna þess að allir gefast upp á þeim; miklum ótta við að í félagslegum samskiptum verði þeir skildir útundan; tilfinningalegri kvöl vegna félaglegra og tilfinningalegra takmarkana; ákafri þörf fyrir ást og aðdáun og jafnvel viðkvæmni og hluttekningu með fórnarlömbum. Martens nefnir dæmi af morðingjanum Dennis Nilsen sem var svo einmana að hann drap fólk, stillti því upp og horfði með líkunum á sjónvarpið eða talaði við þau klukkustundum saman. Hin dulda þjáning gerir félagslegan og tilfinningalegan þroska mögulegan því sársaukinn gæti krafist rótttækra lausna á félagslegum og tilfinningalegum vandamálum og ýtt undir að andfélagslegir þættir breytist í takt við þá félagslegu hæfni sem tíðkast.20
S�ðasta málverk van GoghMartens hefur skrifað grein um dulda þjáningu hins siðblinda. Þar segir hann að eins og allir aðrir þrái siðblindir að vera elskaðir og sýnd umhyggja. En þessi ósk sé oft óuppfyllt því augljóslega er erfitt fyrir aðra persónu að tengjast einhverjum með svo fráhrindandi persónuleikadrætti nánum böndum. Öðru hvoru gera siðblindir sér grein fyrir áhrifum hegðunar sinnar á aðra og geta orðið raunverulega hryggir yfir vanmætti sínum í að stjórna henni. Í líf flestra siðblindra vantar stöðugt félagslegt net og náin hlýleg tengsl við aðra.

Oft finnst siðblindum að þeir hafi fengið færri tækifæri en aðrir í lífinu og saga þeirra einkennist oft af óreiðukenndu fjölskyldulífi í æsku, skorti á athygli og leiðsögn foreldra, vímuefnamisnotkun og andfélagslegri hegðun foreldra. Síðar eigi þeir oft sjálfir í slæmum samböndum og skilnaði. Þrátt fyrir að siðblindir séu roggnir og góðir með sig líður þeim innst inni eins og þeir séu óæðri öðrum og þeir vita að eigin hegðun brennimerkir þá. Þótt sumum siðblindum takist á yfirborðinu að aðlagast umhverfinu og verði jafnvel vinsælir þá finnst þeim stöðugt að þeir verði að dylja hið sanna eðli sitt vandlega því öðrum muni ekki hugnast það. Þetta setur siðblindum tvo kosti og báða illa; að aðlagast og taka þátt í tómlegu þykjustulífi eða aðlagast ekki og lifa einmanalegu lífi, einangraðir úr samfélaginu. Þeir verða vitni að þeirri ást og vináttu sem aðrir deila og finna fyrir höfnun vitandi að þeir munu aldrei eiga hlutdeild í slíku.

Eftirsókn siðblindra í spennu er gífurleg en fífldjörf ævintýrin enda ævinlega í vonbrigðum því væntingar voru óraunhæfar og þeir eru alltaf að lenda upp á kant við aðra. Það dregur smám saman kjarkinn úr siðblindum að þeim er um megn að stjórna spennuþörfinni og þurfa hvað eftir annað að horfast í augu við veikleika sína. Jafnvel þótt þeir reyni að breytast mun lágt óttaviðbragð og vanmáttur því tengdur til að læra af reynslunni leiða til endurtekinna neikvæðra og niðurdrepandi árekstra við aðra, jafnvel svo alvarlegra að þeir eru dæmdir í fangelsi.

Eftir því sem aldurinn færist yfir siðblinda geta þeir ekki viðhaldið orkufrekum lífsstíl sínum. Þeir brenna út og fyllast depurð þegar þeir líta um öxl á hvíldarlaust líf sitt þar sem fátt er um ánægjuleg samskipti við annað fólk.

Það er því mjög mikilvægt að þekkja hina huldu þjáningu, einmanaleika og skort á sjálfstrausti siðblindra. Og nauðsynlegt er að halda áfram lyfjafræðilegum, taugasálfræðilegum og sálfræðilegum tilraunum til að koma í veg fyrir og laga siðblinduhegðun, segir Martens.21
Niðurstöður

Enn hefur ekki fundist nein aðferð til að lækna siðblindu eða draga marktækt úr henni. Allt mögulegt hefur verið reynt og í nýrri umfjöllun er áberandi að sumir fræðimenn fálma eftir stráum, trúa því ekki síðasta hálmstráið hafi brugðist enn og stinga upp á ýmsum óprófuðum leiðum í blindni. Bent er á að þeir siðblindu séu í rauninni ekki taldir viðfang meðferðar heldur leiti menn meðferðar með logandi ljósi til hagsbóta fyrir samfélagið, þ.e. hina, sem er auðvitað siðferðilegt álitamál í læknisfræði. En siðblindir skilja eftir sig slóð fórnarlamba hvort sem þeim tekst að halda sig utan múra eða lenda í fangelsi og því er afar mikilvægt að takist að finna einhverja leið til að draga úr skaðsemi þeirra.

Robert D. Hare, sem hefur helgað starfsævi sína rannsóknum á siðblindum, virðist raunsær og telur enga lækningu á siðblindu í sjónmáli. Það skásta sem hægt sé að gera er að sníða einhvers konar meðferð eftir eðlisþáttum siðblindra og höfða til þess að þeir græði á að haga sér skikkanlegar. Hann býst samt ekki við neinum stórkostlegum árangri af slíkri meðferð.

Hugmyndir Martens finnast mér mjög vafasamar, eftir að hafa kynnt mér siðblindu um hríð, enda er andleg vakning stór þáttur í tólf spora kerfum ýmiss konar og grundvallaratriðið þar er að viðurkenna vanmátt sinn, vera tilbúin(n) að hlíta leiðsögn annarra og horfast í augu við fyrri mistök og misgerðir. (Í máli Martens kemur fram að þetta er innifalið í hans andlegu vakningarmeðferð en hann orðar það ekki eins einfalt.) Grundvallaratriðin í andlegri vakningu stangast algerlega á við einkenni siðblindu og hlýtur að reynast þeim um megn að uppfylla þau skilyrði.

Hins vegar er ekki ólíklegt að Martens hafi rétt fyrir sér um einsemd og dulda þjáningu hins siðblinda þegar aldurinn færist yfir hann. Maður er manns gaman og það hlýtur að gilda hið sama um siðblinda. Þegar siðblindur hefur hrakið alla frá sér og getur ekki lengur fengið útrás fyrir spennuþörf sína vegna þess að aldurinn færist yfir hann hlýtur honum að líða illa. En því miður er hann haldinn (enn) ólæknandi persónuleikaröskun og því lítið hægt að liðsinna honum nema lækna þá hliðarkvilla sem hann kann að vera haldinn.


Allar heimildir voru skoðaðar í febrúar 2011.

 
1 D’Silva, Karen, Conor Duggan og Lucy McCarthy. 2004. „Does Treatment Really Make Psychopaths Worse? A Review of the Evidence“. Journal of Personality Disorders 18.árg. 2.tbl. 2004, s. 163-177.  Í þessari yfirlitsgrein yfir rannsóknir á meðferðarárangri við siðblindu er bent á alvarlega aðferðafræðilega galla á þeim langflestum og að þær hafi frá upphafi ekki miðað að því að rannsaka siðblindu heldur hafi upplýsingarnar sem fengust verið nokkurs konar aukaafurð. Flestar rannsóknirnar voru gerðar á siðblindum glæpamönnum í fangelsum. Auk aðferðafræðilegra galla hafi ýmist skort á langtímaeftirfylgni og/eða vantað samanburðarhóp siðblindra utan múranna. Höfundar taka ekkert tillit til þess að svoleiðis samanburðarhópur er varla tiltækur og hæpin finnst mér niðurstaða þeirra að rannsóknirnar 24 sem skoðaðar voru séu engan veginn marktækar því ströng aðferðafræðileg skilyrði voru ekki uppfyllt.
2 Robert D. Hare. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“ í Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press 1998, s. 203.
3 Lee, Jessica H. 1999. The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
4 Glenn, Andrea L. og Adrian Raine. 2008. „The Neurobiology of Psychopathy“. Psychiatric Clinics of North America 31, 2008, s. 463–475. Í þessari grein kemur fram að hægt sé að greina siðblindu í börnum allt frá þriggja ára aldri. Er vitnað í fjölda rannsókna því til stuðnings að siðblindu sé hægt að greina mjög snemma og að snemmtæk íhlutun geri líklega eitthvert gagn. Einnig má benda á rannsókn sem bar saman siðblindueinkenni í 4- 12 ára hollenskum og grískum börnum. Niðurstöður bentu til þess að einkennin væru eins og algengi/sjaldgæfi hið sama. Sjá Manti, Eirini, Evert M. Scholte, Ina A. Van Berckelaer-Onnes og Jan D. Van Der Ploeg. 2009. „Social and emotional detachment: A cross-cultural comparison of the non-disruptive behavioural psychopathic traits in children“. Criminal behaviour and Mental Health 19. árg. 3. tbl. júlí 2009, s. 178-192.
5 Um lóbótómíu (sem á íslensku hefur verið kölluð hvítuskurður/geiraskurður, hið fyrrnefnda væntanlega þýðing á danska orðalaginu „det hvide snit“) má t.d. lesa í:

Orri Páll Ormarsson. 2007. „Kleppur er víða“.  Morgunblaðið, sunnudaginn 27. maí 2007.

Heiða María Sigurðardóttir. 2006.  „Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?“.  Vísindavefurinn 23. 3. 2006.

Lidberg Lars og Magnus Broberg. 1996. „Psykokirurgins historia. Från lobotomi till kapsulotomi“. Läkartidningen 93.árg 38.tbl 1996, s. 3245-50. Í greininni kemur fram að aðgerðin, eins og hún var iðkuð í Svíþjóð, tók um tíu mínútur og einungis húðin var saumuð saman á eftir. Yfirleitt var einungis staðdeyft nema sjúklingurinn væri sérlega órólegur, þá var hann svæfður.

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. 1952. LOBOTOMIA. Læknablaðið 36.árg. 7.tbl. 1952, s. 97-112. Í þessari grein segir frá tilraunum íslenskra lækna í lóbótómíu. Þar kemur fram að við „psykopati og geðsjúkdóma í sambandi við flogaveiki og fávitahátt hefur lobotomia verið beitt. … þá er lobotomi réttmæt aðgerð og gefur enda oft góða raun.“ (s. 101.) „ég [Alfreð Gíslason?] hef gert 28 frontal lobotomíur á St. Jósefs spítalanum í Reykjavík., af þeim hefir einn dáið.“ (s. 104.) Síðan er sagt frá tilraunum dr. Bjarna Oddssonar í lóbótómíu, af 20 sjúklingum sem athugaðir voru talsvert eftir aðgerðina var 1 dáinn. Bjarni skar í heila tveggja með psykopati og af nákvæmum sjúkraskýrslum, þar sem nöfn sjúklinga eru einungis skammstöfuð, sést að annars vegar var um að ræða 19 ára konu sem „hefir frá 10 ára aldri verið þjófgefin og ósannsögul. Eftir 13 ára aldur mjög vergjörn (erotoman) og lauslát.“ Hálfu ári eftir aðgerðina er hún „róleg og ekki sljó. Hefir unnið við eldhússtörf í héraðsskóla í sveit, komið sér vel. … Árangur: Betri.“ (s. 110-11.) Hinn psykopati-sjúklingurinn var 24 ára verkamaður, frá barnsaldri „órólegur, veiklaður og æstur á geðsmunum, gekk í svefni sem barn. Þegar í bernsku bar á óknyttum og hnupli og slæpingshætti … drakk og svallaði … Amfetamin-neyzla undanfarið.“ Níu mánuðum eftir aðgerð er „Áfengisneyzla minni en áður, rólegur og góður í umgengni, bæði á heimili og utan. Ekki amfetaminneyzla svo vitað sé, engin lögbrot. Svefn eðlilegur. Útlit hraustlegt, en æstur og illur við vín, eins og áður. Árangur: Miklu betri.“ (s. 108) Af þessum dæmum sést að sjúkdómsgreiningin psykopati er nokkuð ólík þeirri greiningu sem tíðkast nú á tímum.
6 Glannon, Walter. 2008. „Altering the Brain and Mind“. Ritdómur um Intervening in the Brain: Changing Psyche and Society. (Ritstjórar Merkel, Reinhard o.fl..Ethics of Science and Technology Assessment, 29 bindi. 2007.) í Hastings Center Report 38.árg. 4.tbl., júlí/ágúst 2008, s. 46-47. Glannon segir: „Höfundarnir slá því föstu að ef bjóðist einhvers konar heila-aðgerð eða meðferð við alvarlegri siðblindu þá er ekki bara svo að okkur leyfist að nota hana heldur værum við skyldug til að bjóða slíka aðgerð/meðferð sem valkost við lífstíðar innilokun á stofnun.“
7 Lee, Jessica H. 1999. „Physical treatments“ í The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
8 Sitaram, Ranganatha, Andrea Caria, Ralf Veit, Tilman Gaber, Giuseppina Rota, Andrea Kuebler og Niels Birbaumer. 2007. „fMRI Brain-Computer Interface: A Tool for Neuroscientific Research and Treatment“. Computational Intelligence and Neuroscience 2007. Svipað er gefið í skyn í blálokin á þessari grein: Eippert, Falk, Ralf Veit, Nikolaus Weiskopf og Michael Erb. 2007. „Regulation of Emotional Responses Elicited by Threat-Related Stimuli“. Human Brain Mapping 28 2007, s. 409–423 og í undir lok greinar Katarina Wahlund o.fl. 2009. „Psykopati och hjärnavbildning – en litteraturgenomgång. Med fokus särskilt på funktionell magnetisk resonanstomografi“. Läkartidningen 106.árg 6.tbl. 2009, s. 361-365.
9 Crocketta, Molly J., Luke Clarka, Marc D. Hauserb og  Trevor W. Robbins. 2010. „Serotonin selectively influences moral judgment and behavior through effects on harm aversion“. Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS). Aðalheimildin fyrir því sem segir í klausunnu um lyfjatilraunir við siðblindu er  Lee, Jessica H. 1999. The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
10 Martens, Willem H. J. 2008. Undirkaflinn „Psychopaths are Treatable“ í greininni „Forensic Psychiatry.The Problem with Robert Hare’s Psychopathy Checklist: Incorrect Conclusions, High Risk of Misuse, and Lack of Reliability“. Medicine and Law 27 2008, s. 449-462.
11 Van den Berg, Anne og Karel T.I. Oei. 2009.  „Attachement and psychopathy in forensic patients. The (in)ability of serverly psychopathic patients to commit to therapeutic relations, considered from the perspectives of Attachment Theory and Mentalization-Based Treatment.Mental Health Review Journal, 14.árg. 3.tbl. 2009, s. 40-51. Sjá einnig Meloy, J. Reid og James A Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007
12 Van den Berg, Anne og Karel T.I. Oei. 2009.  „Attachement and psychopathy in forensic patients. The (in)ability of serverly psychopathic patients to commit to therapeutic relations, considered from the perspectives of Attachment Theory and Mentalization-Based Treatment.“  Mental Health Review Journal, 14.árg. 3.tbl 2009,  s. 40-51
13 Meloy, J. Reid og James A Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007 og Meloy, J. Reid og Jessica Yakeley. 2010. „Psychodynamic Treatment of Antisocial Personality Disorder“ í Psychodynamic Psychotherapy for Personal Disorders: A Clinical Handbook. Ritstjórar: John F. Clarkin, Peter Fonagy og Glen O. Gabbard. American Psychiatric Pub. 2010, s. 311-336. Aðgengileg til skoðunar á Bækur Google.
14 Sjá t.d. upptalingu í D’Silva, Karen, Conor Duggan og Lucy McCarthy. 2004. „Does Treatment Really Make Psychopaths Worse? A Review of the Evidence“. Journal of Personality Disorders 18.árg. 2.tbl. 2004, s. 163-177.
15 Hesse, Morten. 2010. „What should be done with antisocial personality disorder in the new edition of the diagnostic and statistical manual of mental disorders (DSM-V)?BMC Medicine 27. október 2010.
16  Meloy, J. Reid og James A. Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007 og  Meloy, J. Reid og Jessica Yakeley. 2010. „Psychodynamic Treatment of Antisocial Personality Disorder“ í Psychodynamic Psychotherapy for Personal Disorders: A Clinical Handbook. Ritstjórar: John F. Clarkin, Peter Fonagy og Glen O. Gabbard. American Psychiatric Pub 2010, s. 311-336. Aðgengileg til skoðunar á Bækur Google.
17  Martens, Willem H. J. 2003.  „Spiritual Psychotherapy for Antisocial and Psychopathic Personalities: Some Theoretical Building Blocks“. Journal of Contemporary Psychotherapy 33.árg. 3.tbl. haust 2003.
18 Hare, Robert D. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“. Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press, 1998, s. 203. Sjá einnig tilvitnun í Wong, S. C. P. & Hare, R. D. 2005 Guidelines for a Psychopathy Treatment Program. Multi-Health Systems, s. 9, í lok greinar Wong, Stephen C. P., Audrey Gordon og  Deqiang Gu. 2007. „Assessment and treatment of violence–prone forensic clients: an integrated approach“. The British Journal of Psychiatry 190,  2007, s.66-74.
19 Harpur, Timothy J. og  Hare, Robert D. 1994. „Assessment of Psychopathy as a Function of Age“. Journal of Abnormal Psychology, 103.árg. 4.tbl. nóv. 1993, s. 604-609. Einungis útdrátturinn var skoðaður. Sjá einnig Hare, Robert D. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“. Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press, 1998, s. 197-198.
20 Sjá  Martens, Willem H. J. 2008. „Forensic Psychiatry. The Problem with Robert Hare’s Psychopathy Checklist: Incorrect Conclusions, High Risk of Misuse, and Lack of Reliability“. Medicine and Law 27 2008, s. 449-462;  Martens, Willem H. J. 2003. „Emotional Capacities and Sensitivity in Psychopaths“. Dynamical Psychology. An International, Interdisciplinary Journal of Complex Mental Processes maí 2003, s. 1-20 og Martens, Willem H. J. 2002. „The Hidden Suffering of the Psychopath“. Psychiatric Times 19.árg. 1.tbl. 2002.
21 Martens, Willem H. J. 2002. „The Hidden Suffering of the Psychopath“. Psychiatric Times 19.árg. 1.tbl. 2002.

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda

21. febrúar 2011

Orsakir siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V hluti
(finna má fyrri færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, hér til hægri)

Ég trúi því ekki að augljós misbeiting eða einhver hversdagsleg stórfelld afglöp foreldra geti sannanlega verið meginorsök þess að barn þrói þessa flóknu röskun.1

Menn hafa lengi velt því fyrir hvers vegna til séu siðblindir í mannlegu samfélagi. Einkum hefur umræðan snúist um að hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir skipti máli. Robert D. Hare hefur reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina þarna á milli enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin. Þeir sem telja að einhvers konar  meðferð gæti dregið úr siðblindu hafa hins vegar áhuga á hvaða meginþættir liggi að baki þessari persónuleikaröskun og í eldri heimildum slíkra áhugamanna er oft gert mikið úr félagslegum þáttum. Rannsóknir á siðblindum gáfu fyrir löngu vísbendingar um að heilastarfsemi þeirra væri öðru vísi en annars fólks en það er ekki fyrr en nýverið sem tæknin fór að leyfa sæmilega áreiðanlegar raunvísindalegar  rannsóknir á slíku, einkum með starfrænni segulómstækni (fMRI) en einnig hefur sneiðmyndataka (PET) o.fl. verið notuð í þessu skyni. Rannsóknir á tvíburum hafa miðað að því að finna út að hve miklu leyti siðblinda er arfgeng. Loks má nefna að aukinn áhugi virðist á að máta siðblindu við þróunarfræðilegar kenningar til að skýra hvers vegna siðblindir einstaklingar urðu til.

Hér á eftir verður stiklað á stóru yfir helstu kenningar og niðurstöður.
 

*Líffræðilegar orsakir
 

Heili siðblindra

Viss óreiða háir nokkuð rannsóknum á heilastarfsemi siðblindra. Til er fjöldi ólíkra rannsókna, þar sem úrtak og samanburðarhópur var valinn á mismunandi máta og fengust í sumum tilvikum frábrugðnar niðurstöður. Þótt mig skorti auðvitað grunnþekkingu í þessum fræðum ætla ég að reyna að gera grein fyrir því helsta sem virðist sæmilega ábyggilegt. Fyrst er þó líklega rétt að útskýra þá heilastarfsemi sem ber á góma, í einfaldaðri mynd:

Randkerfið - limbic systemRandkerfi: Hluti randkerfisins (limbic system) er mjög gamall, t.a.m. möndlungur. Þessi hluti randkerfisins er einn af þeim hlutum heilans sem við höfum „fengið í arf frá skriðdýrunum“, þ.e. tilheyrir þeim hluta heilans sem er gamall í þróunarsögunni og er því svipaður í fjölmörgum dýrum. Mætti segja að tilfinningar séu milljónum ára eldri en hugsanir, miðað við þróun mannsheilans. En til randkerfis teljast einnig svæði í heilaberki, nýjasta hluta spendýraheilans. Randkerfið sér um ýmsa þætti tengda tilfinningum og minni.

Möndlungur: Lykillíffæri randkerfisins er möndlungur (amygdala). Möndlungurinn er sérhæfður í tilfinningamálum, geymir tilfinningalegar minningar og ástríður. Hann gerir kleift að greina persónulega merkingu daglegra atburða sem ýmist vekja ánægju, umhyggju, spennu eða reiði. Möndlungur er uppspretta ótta og árásargirni.

Heilabörkur: Í heilaberkinum er talin vera sjálfsvitund, hömlur á tilfinningar og hvatvísi. Heilabörkurinn er mun þróaðri í mönnum en öðrum spendýrum og hann vantar alveg í margar minna þróaðar dýrategundir.  Heilabörkur er gerður ytra úr gráfyllu, sem eru gráir frumbolir taugafruma og þar fer öll skynúrvinnsla fram. Innra byrði heilabarkar er hvítfylla, mergslíðruð taugasímu sem virka líkt og ljósleiðarar til að senda og taka á móti upplýsingum. Hvítfyllan tengir heilabörk og önnur svæði heilans saman.

Talið er að taugabrautir milli ennisblaða (frontal lobes) og neðanbarkarkjarna (subcortical nuclei) stjórni og miðli mörgum hliðum mannlegs atferlis. Börkur augntóttarhluta ennisblaða (orbitofrontal cortex) heilans samhæfir starfsemi stúkunnar (thalamus), möndlungsins og heilabarkarins.2
 

Að sögn Roberts D. Hare var fyrst gerð tilraun til að mynda heilastarfsemi siðblindra árið 1997.3  Síðan hefur verið gerður mýgrútur rannsókna af því taginu. Í nýjum úttektum (jafnvel úttektum á úttektum) á öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið með starfrænni segulómun eða annarri nýrri tækni í heilamyndatöku telja menn sig hafa sýnt fram á mun í heilum og heilastarfsemi siðblindra og venjulegs fólks. Þennan mun er fyrst og fremst að finna í hluta randkerfis heilans. Svo virðist sem óeðlileg starfsemi og gerð hluta framheilablaða, þ.e. bakhliðlægs hluta framheilabarkar (dorsolateral prefrontal cortex) og augntóttarhluta ennisblaða (orbitofrontal cortex), sem og í möndlungi, tengist siðblindu og jafnframt ofbeldisfullri og andfélagslegri hegðun.4

Það helsta sem fundist hefur athugavert og hægt hefur verið að sýna fram á mörgum rannsóknum: 

  • Vanskapaður möndlungur og afbrigðileg starfsemi hans. Talið er að möndlungur skipti máli í tilfinningaviðbrögðum og tilfinninganámi, t.d. að bera kennsl á tilfinningar í svipbrigðum annarra, og bregðast við hættu.5  Skv. rannsókn Yang o.fl. voru marktæk tengsl milli stærðar möndlungs og hversu mikil siðblinda mældist, þ.e. því minni sem möndlungur var því fleiri einkenni siðblindu/sterkari siðblindu mátti greina.
  • Truflun í starfsemi ennisblaða og gagnaugablaða, t.d. minna gegnflæði blóðs og lægri efnaskipti.

Í sumum rannsóknum hefur greinst:

  • Minni gráfylla í aftari hluta ennisblaðs, sem tengist hvatastjórn, ákvarðanatöku, tilfinninganámi og hæfni til að laga hegðun sína að aðstæðum. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að það sé minni gráfylla/taugagrámi á þessum svæðum í siðblindum en þeim sem ekki eru siðblindir. Ein rannsókn sýndi að frumsiðblindir (unsuccessful psychopaths, þ.e. þeir sem sátu í fangelsi) hefðu að meðaltali 22% minni gráfyllu en annars stigs siðblindir (successful psychopaths, þ.e. þeir sem dvöldu utan rimlanna) og venjulegt fólk.6
  • Aukin hvítfylla/taugahvíta í hvelatengslum (corpus callosum, sem tengir heilahvelin tvö saman). Hvífylla eru taugasímu innan á heilberki og tengja heilabörk við önnur svæði heilans. Grunur hefur leikið á að eitthvað sé bogið við hvelatengsl í siðblindum og að magn hvítfyllu skipti máli í því sambandi. Skv. úttektum á rannsóknum hefur ekki verið fyllilega sýnt fram á þetta.

Allir virðast sammála um að eitthvað sé bogið við hluta randkerfis, s.s. möndlung, ennisblöð og hvelatengsl, en nákvæmlega hvað er ekki ljóst, nema kannski helst í nýjustu rannsókn Yang á möndlungi. Menn virðast líka nýlega sammála um að það borgi sig ekki að skoða siðblinda sem einsleitan hóp heldur verði að greina milli frumsiðblindra (primary psychopaths) og annars stigs siðblindra (secondary psychopaths) í rannsóknum. Hinir fyrrnefndu fremja ofbeldissglæpi og eru oft geymdir bak við lás og slá, hinir síðarnefndu leika lausum hala í samfélaginu. Ekki er hægt að skýra muninn nema að hluta með skori á Hare-gátlistanum. Spurningin er því hvort hægt sé að skýra þennan mun með raunvísindalegum aðferðum?
 

*Boðefnaskipti í heila

Siðblindur Hannibal LechterÍ randkerfinu hefur dópamín áhrif á tilfinningar en randkerfið ræður miklu um atferli manna með áhrifum á hvatir og geðhrif. Dópamín á m.a. þátt í efnafræði ánægjunnar en losun efnisins í þann hluta randkerfisins sem hefur verið kallaður ánægjustöð (svæði rétt neðan við stúku heilans) framkallar ánægju. Ánægjustöðin verðlaunar lífsnauðsynlega starfsemi (þ.e. dópamínframleiðsla eykst) svo sem át og kynlíf en hún kemur einnig við sögu í fíkninni sem tengist alkóhóli, tóbaki og ýmsum lyfjum.7 Skortur á dópamíni í ánægjustöðinni veldur vanlíðan, kvíða, pirringi og lélegri tilfinningastjórnun.8

Skv. nýlegri rannsókn þar sem sjálfboðaliðum var gefið amfetamín og síðan teknar sneiðmyndir af heila og einnig notuð starfræn segulómun kom í ljós að ánægjustöðvar í siðblindum losuðu ferfalt meira dópamín en í þeim sem ekki voru siðblindir. Af þessu drógu rannsakendur þá ályktun að eftirsókn siðblindra eftir verðlaunum og hunsun á mögulegri hættu eða siðalögmálum, sem valdi m.a. andfélagslegri hegðun þeirra, skýrist af rugli í dópamínbúskap heilans. Sömleiðis megi skýra ásókn siðblindra í vímuefni (áfengi og fleira) með þessari ofvirkni í dópamínframleiðslu. Sé tilgátan rétt veldur sífelldur skortur á dópamíni því að siðblindir geti ekki breytt hegðun sinni eða hugsunarhætti.9 Þetta gæti líka skýrt hve auðveldlega þeim leiðist og hve mjög þeir sækjast eftir spennu í lífinu.

Menn hafa einnig velt fyrir sér hvort serótónín-búskapur sé eitthvað öðruvísi í siðblindum en öðrum. Serótónín, einnig nefnt 5-HT, er eitt af mörgum taugaboðefnum sem heilinn notar til boðskipta. Seyti (magn sem er losað) serótóníns hefur áhrif á skapferli og almenna virkni (arousal). Það stýrir einnig áti og svefni og gegnir hlutverki í skynjun sársauka. Of lítið magn serótóníns tengist hvatvísi og árásargirni, bæði hjá fólki og ýmsum öðrum dýrategundum.10 Larry Siever hefur rannsakað serótónín-framleiðslu þeirra sem haldnir eru andfélagslegri persónuleikaröskun (en siðblinda telst til hennar) og telur að eitthvað sé bogið við serótónín-upptöku þeirra sem gæti skýrt árásargirni. Hins vegar sé ekki ljóst nákvæmlega hvað sé að og þurfi að rannsaka þetta miklu betur.11
 

*Arfgengi siðblindu og áhrif félagslegra þátta
 

Í því því efni af nýrra taginu sem fjallar um siðblindu og ég hef kynnt mér eru allir á því að hún sé arfgeng. Menn eru hins vegar ekki sammála um í hve miklum mæli siðblinda ráðist af erfðum og hve stór umhverfisþátturinn er. Í bandarískri/kanadískri grein frá 2010 er sagt frá fimm rannsóknum sem allar sýna fram á að siðblinduþættir erfist. Þar voru notaðar mismunandi aðferðir til að meta siðblindu en engin þeirra nýtti þó PCL-R gátlista og mælikvarða Roberts D. Hare.12

Rannsóknum ber ekki alveg saman enda eru menn ekki alltaf að rannsaka hið sama, þ.e.a.s. sumir einbeita sér að siðblindu en aðrir skoða andfélagslega persónuleikaröskun eða jafnvel ofbeldishneigð og grófa glæpamennsku almennt.

Í nýlegri rannsókn var skoðað arfgengi og umhverfisþættir í ákveðnum sviðum siðblindu og byggt á sjálfslýsingu bandarískra miðaldra tvíbura. (Þessi sjálfsmatskvarði heitir Psychopathic Personality Inventory, skammstaða PPI og skiptist öðru vísu en gátlisti Hare.) Sviðin sem voru skoðuð voru annars vegar persónuleikaeinkennin óttalaus-drottunargjarn og hins vegar hvatvís-andfélagslegur. Niðurstöður voru að óttalaus-drottnunargjarn var hægt að skýra tiltölulega jafnt með arfgengi og umhverfisáhrifum en hvatvís-andfélagslegur virtist meir ráðast af umhverfisþáttum.13

SæðisfrumurÁ öndverðum meiði er Richard Baschetti, sem kemst að þeirri niðurstöðu að glæpahneigð og ofbeldi ráðist einkum af genum. Hann var reyndar að skoða andfélagslega persónuleikaröskun en ekki bara siðblindu. Baschetti telur sig sýna fram á að félagslegar skýringar á ofbeldi, s.s. að fátækt og atvinnuleysi auk ofbeldis annarra, séu ekkert annað en pólitísk kennisetning sem ekki standist.14 Í sama streng taka höfundar yfirlitsrannsóknar yfir rannsóknir á andfélagslegri persónuleikaröskun og telja að 56% af breytileika í andfélagslegri persónuleikaröskun og andfélagslegri hegðun sé vegna erfða, 11% megi skýra með svipuðum félagslegum aðstæðum, einkum uppeldi og fjölskyldugerð, og 31% ráðist af sérstökum ástæðum sem ekki tengist erfðum. (Sem dæmi um slikar sérstakar ástæður eru nefndar höfuðáverkar, sýkingar, félagslegir þættir utan fjölskyldu o.fl.).15

Svíar hafa staðið framarlega í rannsóknum á arfengi siðblindu eða ýmsum þáttum hennar. Þeir hafa, stundum í félagi við aðra, byggt niðurstöður sínar á langtímarannsókn á 1480 sænskum tvíburum, fæddum í Svíþjóð á árunum 1985-86. Niðurstöður Henriks Larsson o.fl. eru að sameiginlegur erfðaþáttur liggi að baki bæði siðblindum persónuleika og andfélagslegri hegðun en sú síðarnefnda stjórnist þó að einhverju leyti af umhverfisþáttum.16

Í sænskri doktorsritgerð frá 2009 gerir Mats Forsman grein fyrir rannsóknum sínum á arfgengi siðblindu. Hann byggði á sömu langtímatímarannsókn á 1480 tvíburunum. Í upphafi ritgerðarinnar segir hann: „Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að u.þ.b. 40-70% af persónuleikaeinkennum siðblindu sé vegna erfða. Tvíburarannsóknir hafa þess vegna verið sérstaklega mikilvægar.“ (s. 3) Henrik Larsson hafði birt þær niðurstöður 2006 að erfðir réðu 63% af sumum kjarnaeinkennum siðblindu (kaldlyndi og yfirborðskenndu tilfinningalífi) og þáttum í andfélagslegri hegðun (óábyrgri hegðun og hvatvísi) en ekki yfirborðsmennsku og drottnunargirni. Mismunandi umhverfisþættir réðu hinum 37% (sjá s. 4-7 í ritgerð Forsman). Forsman útlistar svo fjórar rannsóknir sem hann gerði sjálfur og kemst að svipaðri niðurstöðu og Larsson (sjá s. 17) þótt með öðrum aðferðum sé.17

Niðurstaðan af þessum mismunandi rannsóknum virðist vera að megnið af kjarnaeinkennum siðblindu (persónuleikaeinkennum) stjórnist af erfðum. Jafnframt virðist mega rekja hluta af andfélagslegum þáttum siðblindu svo til eingöngu til arfgengis. Tilviljanakenndir umhverfisþættir hafa töluvert vægi en sams konar félagslegar aðstæður skýra fátt í fari siðblindra og uppruna siðblindu.
 

*Þróunarfræðilegar skýringar

Homo sapiensVaxandi áhugi virðist á vangaveltum um hvernig standi eiginlega á því að siðblindir séu til í samfélagi manna. Þessar vangaveltur byggja annars vegar á kenningu Darwins um náttúrlegt val og hins vegar á afleiddum kenningum og viðbótum við hana, sem byggjast að nokkru leyti á leikjafræði.

Í stuttu máli sagt hélt Darwin því fram að tegundir þróuðust fyrir tilstilli náttúrlegs vals, sem væri vélrænt ferli en hvorki forsjált né framsýnt. Náttúrulegt val byggir á nokkrum meginstaðreyndum, þ.e. lögmáli breytileikans (einstaklingar eru frábrugnir hver öðrum); lögmáli erfða og lögmálinu um mishraða æxlun eða mismunandi lífslíkur. Þessi lögmál stjórna því að sumir einstaklingar veljast náttúrulega fram yfir aðra, þ.e. þeir hæfustu lifa af (sem eru reyndar ekki orð Darwins heldur Herberts Spencer). Við þetta hefur seinna verið bætt baráttu fyrir lífinu, sem er starfræn ástæða fyrir þriðja lögmálinu. Sjálfur gerði Darwin greinarmun á náttúrlegu vali og kynjuðu vali, sem er barátta milli karldýra um yfirráð yfir kvendýrum, en á síðari tímum hefur þetta verið fellt saman.

Þeir sem halda fram þróunarfræðilegum kenningum um siðblindu styðja mál sitt yfirleitt á þessa leið:18

- Siðblinda sem auknar lífslíkur

Líklega þróaðist samfélag manna í sæmilega stöðugum hópum þar sem ríktu reglur, traust og gagnkvæmni (reciprocal altruism). Í svona hópi gafst færi á breytilegri aðferðarfræði (alternative strategy) sem fólst í að svindla og notfæra sér aðra út í ystu æsar.

Skv. þessum þróunarfræðilegu pælingum er ekki hægt að líta á siðblindu sem fötlun eða galla heldur skipulegan, starfrænan og  sérhæfðan hluta svipgerðar (phenotype) sem jók líkurnar á að komast af í samfélögum sem einkenndust af samvinnu.  Sumir halda því fram að þróast hafi sérstök arfgerð (genotype) siðblindra. Áhrifaríkur svindlari varð að vera sjálfselskur, kaldlyndur, heillandi og árásargjarn. Kenningin segir að þessar tvær lífsögustrategíur, þ.e. samvinna og svindl, séu tíðniháðar þar sem siðblinda er stöðug með lága tíðni. Ef margir hefðu tekið upp þessa breytni hefði samvinnumönnum fækkað að sama skapi og þeir verið meir á verði.

Úlfur � sauðagæruTil þess að það hefði borgað sig að rjúfa samstöðu eða svindla þurftu eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi í mannlegu samfélagshópunum: Flestir meðlimir hópsins væru mjög hlynntir samvinnu; Það væri mögulegt að færa sig milli hópa og það reyndist mönnum dýrkeypt að fletta ofan af þeim sem ryfu samstöðuna. Má ímynda sér að ef þessi skilyrði væru ekki fyrir hendi og hópurinn kannski nokkuð jafnt samsettur af þeim sem vinna saman og þeim sem rjúfa samstöðu/svindla þá hefði slíkt valdið árangurslausum skærum milli hópanna og samvinnumennirnir hefðu þurft að vera á tánum til að sjá við svindlurunum. Ef ekki væri unnt að flytjast úr einum hóp í annan hefði það valdið bannfæringu og jafnvel dauða svindlaranna. Sama máli gilti ef enginn kostnaður hlytist af því að afhjúpa svindlarana því þá væri auðvelt að útskúfa þeim sem gæti einnig orðið þeim að bana.

Þessi þróunarfræðilega kenning um siðblindu fær stuðning af leikjafræði. Sígilt dæmi úr leikjafræði er Ógöngur fanganna eða Valþröng fanganna. Þegar þessar aðstæður koma upp í fyrsta sinn (eða fyrstu fáu skiptin) græðir sá sem svíkur félaga sinn. En þegar þetta gerist aftur og aftur borgar sig að vera samvinnufús og einnig má ætla að félaginn hafi lært á sviksemi hins.19 Skv. leikjafræðinni munu lítil, samheldin samfélög halda niðri (en ekki útrýma) sviksamri hegðun. Það sem skiptir máli í þessu er stærð samfélagsins; Það er ekki hægt að nota svindl-strategíu endurtekið gegn þeim sömu og halda áfram að ná árangri. Þess vegna er líklegt að í litlum samfélögum hafi siðblindir fyrr eða síðar fengið á sig illt orð, yfirgefið samfélagið til að forðast refsingu og haldið á nýjar veiðilendur. Færsla milli samfélaga hefði aukið líkur siðblindra á að dreifa sæði sínu sem víðast.
 

- Siðblinda sem aðlögunarhæfni

Tilfinningalegir, vitsmunalegir og atferlis-þættir siðblindra eru sérhæft og skiplagt gangverk (mechaniscm) sem ýtir undir lífvænlegra æxlunarferli og auknar lífslíkur í þróunarsögu mannsins. Hegðun eins og þjófnaðir, nauðganir og morð eru t.d. verkfæri sem siðblindir nota til að svindla; notfæra sér aðra til að hækka sig í sessi, ná auknum efnislegum gæðum og koma genum sínum áfram með sem minnstum tilkostnaði.

Í þróunarfræðilegum skilningi er það að ná ekki að makast það sama og deyja ungur. Sá sem ekki makast leggur engin gen til næstu kynslóðar. Sumt bendir til þess að siðblindir geti hámarkað æxlunarhæfni sína með því að að reyna sitt ítrasta til pörunar frá unga aldri. Þetta öfluga átak felur í sér mörg stutt og óábyrg sambönd við fjölda kvenna. Mikil áhersla á mökun (high mating effort) tengist svindl-hæfninni því siðblindir hefðu verið tilbúnir að beita prettum, ásamt kúgun, til að komast yfir maka. Lauslæti siðblindra og mörg stutt sambönd við hitt kynið eru e.t.v. merki fornar aðlögunarhæfni sem hefur viðhaldist í samfélaginu vegna þess sú aðferð stuðlar að meiri æxlun.

Siðblindir eru slæmir foreldrar. Arfgengt ástand sem léti foreldra vanrækja eða misnota afkvæmi sín myndi ekki teljast aðlögun. Þá staðreynd að siðblinda er enn að finna og þeir dóu ekki út má útskýra þannig að karlkyns siðblindir hafi frá ævafornu fari treyst á að mæðurnar önnuðust afkvæmin og hafi jafnvel í mökun veðjað á magn umfram gæði (quantity-over-quality trade off) til að tryggja sem mesta viðkomu.

Til að útskýra kynjamun í siðblindu og róf siðblindueinkenna hefur verið sett fram tveggja þrepa kenning eitthvað á þessa leið:

Siðblindir eru á ysta væng eðlilegrar dreifingar og erfðafræðilegur þáttur þeirra er annars vegar fjölgena (polygenic) og takmarkast hins vegar við kyn (sex-limited). (Kyntakmörkuð gen eru til staðar í báðum kynjum en koma fram í mismunandi svipgerð, t.d. skeggvexti karla eða brjóstum kvenna.) Ef stór hluti þeirra gena sem valda siðblindu virkjast af testósteróni eða öðru karlhormóni munu miklu fleiri karlar en konur sýna siðblindu þótt genafjöldinn sé sá sami í báðum kynjunum. Þetta felur þá einnig í sér að erfðabyrði siðblindrar konu þarf að vera meiri en karla til að röskunin (siðblindan) komi fram.
 
 
 
 
 



 

1 Cleckley, Hervey M. 1988, 5. útg. The Mask of Sanity, s. 24 í pdf-útgáfu af bókinni á http://www.cassiopaea.org/cass/sanity_1.PdF. (Bókin kom fyrst út 1941.) Vistað í janúar 2011.
 

2 Vilji menn lesa nánar um gerð heilans og tilfinningar bendi ég á HVELAHEILI: UPPBYGGING, sem virðast vera einhvers konar glósur og fylgja skýrar myndir með. Einnig er fínt að glugga í fjölgreindarkenningu Gardners, sjá t.d. Erla Kristjánsdóttir. 2002. „Hugtakið tilfinningagreind“ á  Doktor.is og Erla Kristjánsdóttir, óársett. 3. kennslubréf / viðbótarefni: Fjölgreindarkenningin: Yfirlitstafla, á vef Ísmenntar. Sjá einnig lokin á svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni „Hvernig þróaðist heilinn í hryggdýrum?“ á Vísindavef  21. 2. 2003. Skoðað 9. febrúar.2011.
 

3 Hare, Robert D. „Forty years aren’t enough: Recollections, prognostications, and random musings“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, 2007, s. 15. Skoðað á Bækur Google 9. febrúar 2011.
 

4 Í umfjöllun um heilamyndatöku er einkum stuðst við eftirtaldar heimildir:

Koenigs, M., A. Baskin-Sommers, J. Zeier og J. P. Newman. 2010. „Investigating the neural correlates of psychopathy: a critical review“ í Molecular Psychiatry 7. desember 2010. Einungis var skoðaður útdráttur og yfirlitstafla yfir fyrri rannsóknir og niðustöður, þann 13. febrúar 2011.

Pridmore, Saxby, Amber Chambers og  Milford McArthur. 2005. „Neuroimaging in psychopathy“ í  Australian and New Zealand Journal of Psychiatry 39.árg 10.tbl. október 2005, s. 856–865. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011. (Tafla yfir fyrri rannnsóknir og niðurstöður er á s. 858-861.)

Wahlund, Katarina, Håkan Fischer, Thomas Dierks, Lars-Olof Wahlund, Maria Kristoffersen Wiberg, Tomas Jonsson og Marianne Kristiansson. 2009. „Psykopati och hjärnavbildning – en litteraturgenomgång. Med fokus särskilt på funktionell magnetisk resonanstomografi“ í  Läkartidningen 106. árg. 6.tbl., s. 361-365. Läkartidningen Förlag AB og Sveriges läkarförbund. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.

Wahlund, Katarina og Marianne Kristiansson. 2009.  „Aggression, psychopathy and brain imaging — Review and future recommendations“  í International Journal of Law and Psychiatry 32.árg. 4.tbl. júlí-ágúst 2009, s. 266-271. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.

Yang Y., A. Raine, K.L. Narr, P. Colletti og A.W. Toga. 2009. „Localization of deformations within the amygdala in individuals with psychopathy“ í Archive of  General  Psychiatry 66.árg. 9.tbl. september 2009, s. 986-94. Í pdf-skjalinu sem hér er krækt í eru litmyndir af heila sem sýna niðurstöðurnar. Þetta er eina greinin sem ég fann sem vitnar til rannsókna á heilastarfsemi dýra en þær rannsóknir virðast hafa leitt hið sama í ljós og heilaskönnun siðblindra.  Einnig vitna Yang og félagar í rannsóknir á heilasköðuðu fólki og sjúklingum með ákveðna gerð af flogaveiki. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

5 Margar atferlisrannsóknir hafa sýnt fram á að ótti kviknar ekki nærri eins glatt í siðblindum og öðrum (stundum er þetta orðað sem „óeðlileg seinkun viðbragða við óttakveikju“)  Sumir atferlissinnar, einkum David Lykken, hafa talið þennan skort á óttaviðbragði vera megineinkenni og meginorsök siðblindu. Í mjög einfölduðu máli felst röksemdafærslan í því að félagsmótun sé að mörgu leyti byggð á ótta (eða  „brennt barn forðast eldinn“) og skorti þennan ótta valdi það miklum truflunum á þroska einstaklings. Það skýri m.a. andfélagslega hegðun og jafnvel einhverja fleiri þætti siðblindu. Af því ég hef aðallega byggt á kenningum Roberts D. Hare og fylgismanna hans hef ég ekkert fjallað um kenningar Lykken og hans sporgöngumanna í þessum færslum um siðblindu en hvet áhugasama til að fletta upp greinum hans á Fræðasetri Google.
 

6 Yang, Y., A. Raine, T. Lencz, S. Bihrle, L. LaCasse og P. Colletti. 2005. „Volume reduction in prefrontal gray matter in unsuccessful criminal psychopaths“ í  Biological Psychiatry, 57.árg. 10.tbl. 2005. s. 1103-1108. Í annarri rannsókn var sýnt fram á að drekinn (hippocampus) væri öðru vísi í frumsiðblindum en annars stigs siðblindum en jafnframt sleginn sá varnagli að úrtakið hefði verið ansi lítið. Sjá Raine, A., S.S. Ishikawa, E. Arce, T. Lencz, K.H. Knuth, S. Bihrle o.fl.. 2004. „Hippocampal structural asymmetry in unsuccessful psychopaths“ í  Biological Psychiatry, 55. árg. 2.tbl. 2004, s.185-191. Skoðað á vefnum þann 10. febrúar 2011.
 

7 Þuríður Þorbjarnardóttir. 2003. „Hvað gerir dópamín?“ Svar á Vísindavef 30. 9. 2003. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

8 Gísli Ragnarsson. 2004. „Vímuefnafíkn er heilasjúkdómur“ á vef Lýðheilsustöðvar. Dagsett 16. 11. 2004. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

9Psychopaths’ Brains Wired to Seek Rewards, No Matter the Consequences“ á ScienceDaily 15. mars 1010. Í greininni er sagt frá rannsókn Joshua W. Buckholtz o.fl. sem lesa má um í Buckholtz, Joshua W.,  Michael T. Treadway, Ronald L. Cowan, Neil D. Woodward, Stephen D. Benning,  Rui Li,  M. Sib Ansari, Ronald M. Baldwin, Ashley N. Schwartzman, Evan S. Shelby, Clarence E. Smith, David Cole, Robert M. Kessler og David H. Zald. 2010. „Mesolimbic dopamine reward system hypersensitivity in individuals with psychopathic traits“ í Nature Neuroscience, 13. ágr. 2010, s. 419-421. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum og myndir sem sýna niðurstöður rannsóknarinnar. Þessar vefsíður voru skoðaðar 15. febrúar 2011.
 

10 Heiða María Sigurðardóttir. Svar við spurningunni „Hvaða tilgangi þjónar serótónín í heilanum? Hverjar eru afleiðingarnar ef starfsemi þess er raskað?“ á Vísindavef  21. 2. 2007. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

11 Siever, Larry J. 2002. „Neurobiology of Impulsive-Aggressive Personality-Disordered Patients“ í Psychiatric Times, 19.árg. 81.tbl., ágúst 2002. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

12 Sjá má yfirlit yfir 13 tvíburarannsóknir á arfgengi siðblindu í Viding, Essi og Henrik Larsson. 2010. „Genetics of Child and Adolescence Psychopathy“, í  Handbook of Child and Adolescent Psychopathy, s. 117- 119 (ritstjórar Randall T. Salekin, Donald R. Lynam). Guilford Press. Aðgengilegt á Bækur Google og skoðað 20.1. 2011.
 

13 Brook, Michael, Matthew S. Panizzon, David S. Kosson,  Elizabeth A. Sullivan,  Michael J. Lyons, Carol E. Franz, Seth A. Eisen, William S. Kremen. 2010. „Psychopathic Personality Traits in Middle-Aged Male Twins: A Behavior Genetic Investigation“ í Journal of Personality Disorders, 24.árg. 4.tbl. ágúst 2010. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum þann 15. febrúar 2011.
 

14 Baschetti, Riccardo. 2008. “Genetic evidence that Darwin was right about criminality: Nature, not nurture“ í Medical Hypotheses, 70.árg. 6.tbl. 2008, s. 1092-1102. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum þann 15. febrúar 2011.
 

15 Ferguson, Christopher J. 2010. „Genetic Contributions to Antisocial Personality and Behavior: A Meta-Analytic Review From an Evolutionary Perspective“ í The Journal of Social Psychology, 150.árg. 2.tbl. 2010, s. 160–180. Skoðað á vefnum þann 10. febrúar 2011. Mér er ekki ljóst hvers vegna 2% vantar upp á heildarsummuna 100% en reikna með að það skýrist af því tölurnar séu allar rúnnaðar af.
 

16 Larsson,  Henrik, Catherine Tuvblad, Fruhling V. Rijsdijk, Henrik Andershed, Martin Grann, Paul Lichtenstein. 2007. „A common genetic factor explains the association between psychopathic personality and antisocial behavior“  í Psychological Medicine, 37.árg. 1.tbl., jan. 2007, s. 15-26. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

17 Forsman, Mats. 2009. Psychopatich Personality in Adolescence - Genetic and Environmental Influences (doktorsritgerð). The Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Svíþjóð. Ritgerðina má nálgast á vefnum og hún var skoðuð 20.1. 2011. Sjá nánar um rannsókn og niðurstöður Forsman í neðanmálsgrein nr. 16 í færslunni Börn siðblindra.
 

18 Í samantekt á þróunarfræðilegum tilgátum um siðblindu var stuðst við :

Glenn, Andrea L. og Adrian Raine. 2009. „Psychopathy and instrumental aggression: Evolutionary, neurobiological and legal perspectives“ í  International Journal of Law and Psychiatry 32. árg. 4.tbl. júlí-ágúst 2009, s. 253–258. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Harris, Grant T., Marnie E. Rice; N. Zoe Hilton; Martin L. Lalumière og Vernon L. Quinse. 2007. „Coercive and Precocious Sexuality as a Fundamental Aspect of Psychopathy“ í Journal of Personality Disorders 21.árg. 1.tbl. febrúar 2007, s. 1-27. Sótt af vefnum 15. febrúar 2011.

Kopenhaver, Brent. 2010. „The Psychopath: A New Subspecies of Homo Sapiens“ á Disclose tv. Truth revealed, 9. maí 2010. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Lalumiére, Martin L., Grant T. Harris og Marnie E. Rice. 2001. „Psychopathy and Developmental Instability“ í Evolution and Human Behaviour 22. árg. 2001, s. 75-92. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Lalumiére, Martin L., Sandeep Mishra og Grant Harris. 2008. „In Cold Blood. The Evolution of Psychopathy“ í Evolutionary Forensic Psychology. s. 176-197. Ritstjórar Duntley, J. og  T.K. Shackelford. 2008.  Oxford University Press. Sótt af vefnum af síðu Sandeep Mishra þann 12. febrúar 2011.

McKibbin, William F., Todd K. Shackelford, Aaron T. Goetz og Valerie G. Stratt. „Why Do Men Rape? An Evolutionary Psychological Perspective“ í Review of General Psychology, 12. árg., 1. tbl. 2008, s. 86-97. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Mealey, Linda. 1995. „The Sociobiology of Sociopathy: An Integrated Evolutionary Model“ sem birtist í Behavioral and Brain Sciences 18.árg. 3.tbl. 1995, s. 523-599. Einnig má finna greinina í Evolution and the Human Mind: Modularity, Language and Meta-Cognition. 2000, s. 62-92. Ritstjórar: Carruthers, Peter og Andrew Chamberlain. Cambridge University Press. Lokauppkast að greininni var skoðað á vefnum þann 18. febrúar 2011.

Murphy, Dominic og Stephen Stich. 2000. „Darwin in the Madhouse: Evolutionary Psychology and the Classification of Mental Disorders“ í  Evolution and the Human Mind: Modularity, Language and Meta-Cognition. 2000, s. 62-92. Ritstjórar Carruthers, Peter og Andrew Chamberlain. Cambridge University Press.
 

Pitchford, Ian. 2001. „The Origins of Violence: Is Psychopathy an Adaptation?“ í The Human Nature Review 1.árg. 5. nóvember 2001, s. 28-36.
Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

19 Um Ógöngur/Valþröng fanganna má lesa í greininni „Keisari Antarktíku“ eftir gmagnus@mbl.is í Mbl. 10. mars, 2002 og víða á erlendum vefsíðum, t.d. Prisoner’s dilemma á Wikipediu. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

  
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Siðblinda

16. febrúar 2011

Skólastjórar sem leggja kennara í einelti

Hlaða niður færslunni sem Word-skjali

* Möguleg siðblinda með í spilinu?

Ég ætlaði mér alltaf að skrifa um siðblindu í skólum í siðblindupistlaröðinni en fann svo ekki nægilega góðar heimildir fyrir slíku. Þó má telja afar líklegt að siðblindir sæki í störf innan skólakerfisins (reyndar staðfestir ástralski sálfræðingurinn John Clarke það í viðtali, sjá færslu um siðblinda á vinnustöðum). Þrá þeirra eftir völdum og að geta ráðskast með fólk, niðurlægt það og upphafið sjálfa sig í samræmi við stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti ætti einmitt að gera kennarastarf þokkalega eftirsóknarvert fyrir siðblinda. Nemendur eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér og skólaumhverfið að öðru leyti (kennarastofa og annar starfsvettvangur) eru ágætis veiðilendur fyrir hin siðblindu rándýr (tel ég, eftir að hafa sett mig dálítið inn í siðblindu og af langri reynslu af skólaumhverfi).1

Þótt ekki hafi ég fundið heimildir um að skimað hafi verið fyrir siðblindu í starfsmannahópum skóla fann ég nokkrar rannsóknir á starfsmannaeinelti í skólum. Má nefna frægar rannsóknir Blase & Blase sem einkum skoðuðu einelti skólastjórnenda í garð kennara, suðurafríska rannsókn á því sama, og nýja ástralska rannsókn á starfsmannaeinelti í skólum.2 Heldur fátt er um fína drætti í íslenskum rannsóknum á starfsmannaeinelti og stjórnendaeinelti í skólum.3

Athyglisverðasta rannsóknin á skólastjóraeinelti fannst mér vera eigindleg rannsókn sem var gerð í Suður-Afríku og lýst er í greininni „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ (Wet, Corine de. 2010) og ég ætla einkum  að fjalla um niðurstöður hennar í þessari færslu. En jafnframt styðst ég við rannsókn Blase & Blase (2002), „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“, og annað eftir því sem þurfa þykir.

Ég vek sérstaka athygli á að í rannsókn Blase & Blase og Fengning (2008), „The mistreated teacher: a national study“, er því haldið fram að vinnustaðaeinelti sé ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda.

Skólastjóri leggur kennara � eineltiSkólastjóraeinelti er skilgreint sem stöðug valdníðsla skólastjóra sem hefur neikvæð áhrif á kennara. Bent er á almennt gildir um vinnustaðaeinelti að einelti stjórnanda hafi sitt að segja í að eitra vinnuumhverfið. Slíkt vinnuumhverfi er kallað „toxic workplace“ á ensku. Í rannsóknum á siðblindum á vinnustað kemur fram að örfáir slíkir, kannski bara einn siðblindur, fari létt með að eitra sinn vinnustað4 svo ekki þarf alltaf lélegan stjórnanda, þ.e. annað hvort óhóflega ráðríkan eða þann sem lætur allt danka, til að skapa eitrað vinnuumhverfi.

Mætti líka huga að kenningum Babiak og Hare5 um höggorma  í jakkafötum, þ.e. siðblinda í viðskiptalífinu, og yfirfæra á aðra vinnustaði. Má þá ætla að siðblindur starfsmaður komi sér upp öflugum verndara (patron), í skólum væri sá einna helst stjórnandinn. Af kenningum um framgöngu siðblindra á vinnustöðum má því gera því skóna að í einhverjum tilvikum standi annað hvort siðblindur starfsmaður bak við einelti stjórnanda eða að stjórnandinn sé siðblindur. Á þessa möguleika er ekki minnst í suðurafrísku rannsókninni en aftur á móti er bent á að einhverjir skólastjórnendur sem beittu einelti virtust hafa sterka sjálfsdýrkunardrætti (narcissism). Sjálfsdýrkun er talin skyld andfélagslegri persónuleikaröskun, sem siðblinda fellur undir. Auðvitað (og því miður) beita margir aðrir en siðblindir einelti á sínum vinnustað.

Í rannsókn Blase & Blase (2002) kemur fram að í öllum tilvikum þar sem skólastjórar beita einstaka kennara einelti eiga skólastjórarnir sér jafnframt eitt eða fleiri uppáhöld, sem þeir hygla með ýmsu móti. Slíkt uppáhald eða uppáhöld styðja skólastjórann í eineltinu, ýmist beint eða bak við tjöldin, og hvetja aðra kennara til að taka þátt í því.6 Þetta styður, að mínu mati, við kenningar og rannsóknir um áhrif siðblindra á vinnustað og mætti jafnvel í ljósi þeirra ætla að uppáhald skólastjórnenda hefði talsverð siðblindueinkenni.
 
 

* Skólastjóri sem leggur kennara í einelti 
 

Rétt er að geta þess að skv. fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti beita kvenkyns og karlkyns stjórnendur einelti í sama mæli en eru líklegri til að velja sér kvenkyns fórnarlömb fremur en karla.7

Einelti skólastjóra lýsti sér einkum í svona hegðun og aðferðum:

  • Skólastjórar hunsa hugsanir, þarfir, tilfinningar og afrek kennara
  • Skólastjórar styðja ekki við bakið á kennurum
  • Skólastjórar beita tíkarlegu orðbragði og gera opinberlega gys að kennurum (Þetta hefur verið kallað „emotional abuse“ og felst í niðrandi framkomu, sögðum og ósögðum skilaboðum, og miðar að því að fá aðra til þegjandi samþykkis eða hlýðni.8
  • Skólastjórar gagnrýna kennara að ósekju
  • Skólastjórar reyna að koma því svo fyrir að kennarar geri mistök
  • Skólastjórar reyna að einangra kennara, félagslega og faglega
  • Skólastjórar sýna skort á samlíðan
  • Skólastjórar áminna kennara skriflega að ósekju. Slík skrifleg áminning er jafnvel veitt fyrir tittlingaskít og án þess að kennara gefist kostur á andmælum eða bara að útskýra sína hlið í málinu.
  • Skólastjórar halda upp á og hygla sumum kennurum á kostnað annarra
  • Skólastjórar reyna að flæma kennara út starfi, t.d. með því að breyta starfsskilyrðum þeirra eða hóta þeim uppsögn9

Sumir kennaranna í suðurafrísku rannsókninni bentu á að þeir ættu erfitt með að sækja rétt sinn til stéttarfélags. Fulltrúar stéttarfélagsins væru nefnilega oft persónulegir vinir skólastjórnandans sem beitti eineltinu. Mér finnst ólíklegt að þessi staða stéttarfélags eigi við um Ísland. Aftur á móti kann að vera að klíkuskapur og neópótismi í þeim stofnunum eða ráðum sem eiga að sinna eftirlitsskyldu og aðhaldi með skólum skipti máli í dæmigerðu íslensku kunningjasamfélagi, t.d. skólanefndum, skólaskrifstofum, menntamálaráðuneyti eða sambærilegum eftirlitsaðilum. Slíkt gæti gert kennurum sem lagðir eru í einelti af skólastjórnendum mjög erfitt fyrir. Skv. rannsókn Fjármálaráðuneytisins á einelti í ríkisstofnunum var 76% formlegra kvartana um einelti sinnt illa eða ekki og ástæðulaust að halda að ástandið sé skárra þegar kemur að kennurum, síst af öllu ef þeir kvarta yfir einelti skólastjóra.10
 

Þættir í fari skólastjóra sem leggur kennara í einelti

Skólastjóri leggur kennara � eineltiÞessir þættir voru greindir í persónuleika skólastjórnenda sem lögðu kennara í einelti: Öfund, eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskun, illska, hræsni og seigla (í að halda eineltinu áfram). Þó kom í ljós að sumir skólastjórnendur höfðu sitthvað til brunns að bera svo ekki var alltaf augljóst af hverju þeir snéru þessari hliðinni að fórnarlambinu. Sumir kennarar lýstu sínum ofsóknarskólastjórum svo að þeir vildu vera einvaldar, einblíndu á stök verkefni í stað þess að hafa yfirsýn og væru veikir/lélegir stjórnendur.  En svo voru aðrir sem héldu því fram að þeirra ofsækjendur væru sérlega tunguliprir og gerðu sér fulla grein fyrir gjörðum sínum.

Einn viðmælanda lýsti því hvernig skólastjórnandi reyndi kerfisbundið að flæma hana úr starfi í sextán ár, m.a. með því að leyfa henni ekki að kenna sitt sérsvið, áminna hana formlega fyrir lítilvægar yfirsjónir og gera lítið úr henni fyrir framan aðra.

Blase & Blase nefna líka dæmi um hvernig skólastjórar leggja kennara í einelti að ósekju: „Í öðrum tilvikum sögðu kennarar frá því að gagnrýni skólastjórnenda væri viljandi óljóst orðuð og byggð á óstaðfestri gagnrýni sem þeir héldu fram að þriðji aðili, „snuðrari“ (t.d. kennari eða nemandi), hefði komið á framfæri. Sem dæmi um falskar áskanir skólastjórnenda eru ásakanir um að hafa skrópað á einhverja samkomu, að sýna neikvætt viðmót og að öskra á nemendur sína. Oft birtist óbein gagnrýni skólastjórnenda í slúðri við aðra kennara og stundum foreldra.“11
 

Af hverju leggja skólastjórar kennara í einelti?
 

Öfugt við það sem einkennir einelti meðal barna, þ.e. að helst er lagst á þá sem skera sig úr hópnum eða eru minnimáttar, þá sýnir þessi rannsókn, ásamt fleiri rannsóknum á vinnustaðaeinelti,  að einelti fullorðinna kviknar oft af öfund vegna afreka fórnarlambanna.

Fleiri rannsóknir á einelti á vinnustöðum, sem Corine de Wit vitnar til, hafa sýnt fram á sterka drætti eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskunar (destructive narcissism) í skapgerð/persónuleika þess sem leggur aðra í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni kom þetta skýrt fram í óhóflegu sjálfsáliti skólastjórnendanna, hroka, hversu uppteknir þeir voru af valdi og meintum rétti sínum, sem og að þeir voru ófærir um að taka gagnrýni, sýndu öðrum ekki tillitsemi og reyndu að gera lítið úr þeim.

Nefnt var dæmi um skólastjóra sem öskraði á undirmann að hún yrði rekin af því hún gagnrýndi hann. Annað dæmi er af kennara sem á kennarafundi gagnrýndi agaleysi í skólanum en skólastjórinn skildi þetta sem gagnrýni á sig og lét hana gjalda þess. Mjög svipað dæmi er að finna í rannsókn Blase & Blase (2002): „Sem trúnaðarmaður skrifaði ég skólastjóranum bréf til að benda á að engin fagleg rök væri hægt að finna fyrir ákvörðun hans og að nemendur mínir lærðu nú ekkert. Hann skrifaði til baka: „Þú ert bara neikvæð og vilt ekki neinar breytingar. Framkoma þín er vandmálið og þú hefur skaðleg áhrif á starfsólkið og vinnuandann.“ Síðan dreifði hann bréfi sínu til allra starfsmannanna. Ég lagði inn formlega kvörtun sem fékk hann til að stoppa. Eftir það hefur ríkt kalt stríð.“12

Í suðurafrísku rannsókninni lýstu kennarar því hvernig skólastjórar hótuðu þeim uppsögn: „Komdu með uppsagnarbréfið … ég skal skrifa undir“ eða hunsuðu þá: „Hann hélt bara áfram að skrifa … hann leit ekki upp … ekki í eitt einasta skipti.“
 

* Persónueinkenni fórnarlamba eineltis skólastjórnanda

Það sem stakk í augu í niðurstöðum Corine de Wet voru óvenju miklir hæfileikar og mikill áhugi kennaranna (fórnarlambanna) á sínu starfi. Þeir höfðu allir skarað fram úr í starfi, á einn eða annan máta. Þessi rannsókn staðfestir aðrar rannsóknir á einelti fullorðinna, þ.e. að gerendur leggjast fyrst og fremst á þá sem hafa mest sjálfstraust, eru samviskusamastir og hæfastir í sínu starfi. En jafnframt eru fórnarlömbin ólíkleg til að sækja rétt sinn og vilja sýna tillitsemi. Bent hefur verið á í fyrri rannsóknum að þetta lífsviðhorf fórnarlambanna valdi því að það sé jafnvel talið mátulegt á þau að leggja þau í einelti og að hætta sé á að þau séu álitin „skipta ekki máli“ á vinnustaðnum. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á tvö dæmi þessu til stuðnings, þar sem hæfileikaríkum kennurum voru settar skorður með því að minnka smám saman við þá kennslu í sínu eigin fagi [og láta þá kenna önnur fög].

Í öðrum rannsóknum á fórnarlömbum vinnustaðaeineltis almennt hefur komið fram að um þriðjungur þeirra er taugaveiklaðri, síður þægilegir í umgengni, samviskusamari og úthverfari persónuleikar  en þeir sem ekki eru lagðir í einelti. Kvíði eða stífni í samskiptum reyndust hins vegar vera afleiðing þess að vera lögð/lagður í einelti en ekki orsök. Það er því ekki hægt að varpa þeirri sök á fórnarlambið að það sé ekki samvinnufúst til að afsaka einelti á vinnustað.
 
 

* Afleiðingar eineltis fyrir kennarana sem skólastjórnandi leggur í einelti

Einelti skólastjóraÞví hefur verið haldið fram að einelti lami og eyðileggi starfsmenn meir en allir aðrir streituvaldar starfsins samanlagðir. Afleiðingar eineltis fyrir fórnarlömbin í rannsókn Corine de Wit reyndust vera víðtækar, bæði hvað snerti andlega og líkamlega heilsu sem og faglegt starf. Einelti hafði slæm áhrif á þátttöku fórnarlambanna í félagslífi kennara. Þau fundu til depurðar og tveir kennarar sögðust þjást af þunglyndi þótt þeir tengdu það ekki við ástandið á vinnustaðnum. En margir rannsakendur hafa einmitt komist að þeirri niðurstöðu að þunglyndi sé áberandi fylgifiskur vinnustaðaeineltis. Fórnarlömb skólastjóraeineltis fundu líka fyrir skömm, vanmætti og faglegur áhugi minnkaði.

Þótt í almennum rannsóknum á vinnustaðaeinelti hafi komið fram auknar fjarvistir fórnarlamba var sú ekki raunin í rannsókninni á kennurunum. Í  rannsókn Blase & Blase (2002) komu eftirfarandi einkenni fram hjá fórnarlömbum eineltis skólastjóra: Í fyrstu fengu fórnarlömbin áfall, áttuðu sig illa á þessu, fannst þau vera auðmýkt, fundu fyrir einsemd, traust og sjálfsmat beið hnekki, þeim fannst þau flekkuð og fundu fyrir sektarkennd. Stæði eineltið lengi komu fram ýmsir andlegir kvillar hjá fórnarlömbunum, s.s. ótti, kvíði, reiði og þunglyndi, og sállíkamlegir/líkamlegir kvillar, s.s. svefnleysi, martraðir, þráhyggjuhugsanir, krónísk þreyta, magaverkir, ógleði, líkamsþyngd óx eða minnkaði, verkir í herðum og baki, höfuðverkur eða mígreni.13
 
 

* Viðbrögð við eineltinu

Blase & Blase (2002) taka saman niðurstöður sínar um hvað eineltisfórnarlamb geti gert og eru þær í samræmi við niðurstöður fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti, sem þau vísa í. Í stuttu máli sagt virðast kennurum fáir vegir færir. Þau segja: „Að auki uppgötvuðum við að kennarar sem eru lagðir í einelti af skólastjórum eiga sjaldan nýtilega möguleika á leiðréttingu sinna mála. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að dæmigert viðbrögð við kvörtunum fórnarlambs yfir einelti stjórnanda eru að (a) engin svör berast frá yfirstjórn, (b) reynt er að verja stjórnendur sem sýna ruddamennsku og (c) hefnd er beint að fórnarlambinu sem kvartar. Í rauninni var okkar niðurstaða sú að kennarar reyndu sjaldan að kvarta til fræðslustjóra því þeir væntu „engrar aðstoðar“ og vegna þess að þeir „óttuðust“ hefndaraðgerðir.“14

Í yfirlitsgrein yfir aðgerðir stéttarfélaga í ýmsum löndum Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt yfirliti yfir þau lög sem taka á eineltismálum í þessum löndum kemur fram að stéttarfélög hafa í rauninni afar lítil áhrif og „þarf kannski að endurskoða þá hugmynd að stéttarfélög séu í fararbroddi“. Í sambandi við kennarafélög er bent á lofsvert framtak  Kennarasamtaka Bandaríkjanna (American Federation of Teachers, skammstafað AFT) í að viðurkenna að  vinnustaðaeinelti skiptir máli í öryggi og heilbrigði starfsfólks og kennara. Þetta kom ekki á óvart því víðtæk könnun AFT leiddi í ljós að 34-60% kennara innan vébanda samtakanna hefðu orðið yfir einhverju einelti af hálfu samstarfsfélaga (ekki kemur fram hve stór hluti þeirra voru yfirmenn) á sínum vinnustað á síðasta hálfa árinu. Helst birtist þetta einelti í: Að vera niðurlægður eða hafður að háði og spotti (20-33%); Að verða fyrir móðgandi ummælum (15-38%); Að gerandi eineltis sýndi kúgandi eða ógnandi framkomu (10-23%); Að vera hunsaður/hunsuð eða virtur/virt að vettugi (23-40%); Að verða fyrir stríðni og kaldhæðni sem keyrir um þverbak (10-21%); Að öskrað var á fórnarlambið (15-27%).15
 
 

* Afleiðingar fyrir vinnustaðinn

Vinnustaðaeinelti í skólum hefur ekki bara áhrif á fórnarlömbin heldur allt andrúmsloft í skólanum því eineltið ýtir undir minni hollustu, sinnuleysi og meðalmennsku. Í rannsókn Corine de Wit er nefnt dæmi af kennara, konu sem hafði verið hugmyndarík og skarað fram úr en var álasað fyrir að viðra hugmyndir um hvernig mætti gera skólastarfið betra með endurskipulagningu. Hún sagði: „Ég kæfi allar nýjar hugmyndir núna. Ég get ekki lengur verið hreinskilin í að miðla hugmyndum mínum.“ Aðrir kennarar sögðu að eineltið hefði haft þau áhrif að þeir sinntu bara starfi sínu en forðuðust að taka þátt í skólastarfinu umfram það. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á vinnustaðaeinelti, þ.e. að það leiðir til lélegri vinnubragða, minni eldmóðs, minni skilvirkni og skertrar starfsánægju.

Þrátt fyrir eineltið hafði enginn kennaranna í rannsókn Corine de Wit ákveðið að yfirgefa starfsgreinina. Mörg eldri fórnarlömbin hfðu á orði að þau ætluðu að bíða þetta af sér því stutt væri í eftirlaunaaldur. Aðeins einn þátttakandi, sem hafði kennt í sama skólanum í 30 ár, sagði að hún hefði sótt um starf í öðrum skóla. Þetta er í andstöðu við niðurstöður kannana á vinnustaðaeinelti almennt, t.d. sögðust 50% tyrkneskra starfsmanna, sem lagðir voru í einelti á vinnustað, að þeir væru alvarlega að hugsa um að skipta um vinnu og 30% breskra eineltisfórnarlamba sögðu upp starfi sínu.

Kennararnir sem lagðir voru í einelti höfðu yfirleitt ekki reynt að standa upp í hárinu á skólastjórunum sem beittu einelti. Þeir óttuðust að eineltið myndi aukast við slíka árekstra. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem bent hefur verið á „spíral þagnarinnar“, þ.e.a.s. að í stofnunum þar sem menn óttast að segja hlutina beint út er þagað yfir áreitni og einelti.

Þeir fáu sem höfðu reynt að ræða málin við skólastjóra voru kallaðir lygarar. Fórnarlömbin tóku réttilega eftir því að gerendur gerðu lítið úr andlegu ofbeldi eða afneituðu því hreint og beint. Viðbrögð gerenda við ásökunum voru að gera fórnarlömbin sjálf ábyrg, með hreytingum á borð við „Vertu ekki svona viðkvæm”“eða „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um“. Þannig er vandinn gerður fórnarlambsins og gerandinn þykist stikk-frí.
 

* Hvað er til ráða?

Kennarar standa hjá � einelti skólastjóraVald geranda eineltis felst oft í því að hræða fólk til þagnar. Fórnarlömbin bentu líka á að kvartanir þeirra virtust hversdagslegar þegar þær voru slitnar úr samhengi. Aðrar rannsóknir benda á að vinnufélagar sem standa hjá og aðhafast ekkert reyna að auki að forðast fórnarlambið eins og sektin hafi að einhverju leyti flekkað þau, jafnvel þótt áður hafi þessir vinnufélagar átt vinsamleg samskipti við fórnarlambið. Ein niðurstaða rannsóknar Corine de Wit er að þátt aðgerðarlausra vinnufélaga í skólastjóraeinelti þurfi að athuga miklu betur.

Að lokum bendir Corine de Wit á að niðurstöður rannsóknar hennar á skólastjóraeinelti í Suður-Afríku, séu í fullu samræmi við fjölda alþjóðlegra rannsókna á vinnustaðaeinelti, þótt fáar þeirra hafi skoðað sérstaklega vinnustaðinn skóla. Hún  bendir einnig á að skv. nokkrum rannsóknum séu hefðbundin vinnusálfræðilegt inngrip engan veginn fullnægjandi /skili ekki árangri. Það sem þarf til að uppræta einelti í stofnun á borð við skóla eru róttækar breytingar á innviðum stofnunarinnar sjálfrar.

Corine de Wit klikkir út með þessari ályktun: Það er nauðsynlegt að efla stjórnunarmenntun fyrir skólastjórnenda, þ.m.t. menntun í að fást við ágreiningsefni. Ekki hvað síst þegar í ljós kom í rannsókninni að lélegir stjórnunarhæfileikar, skortur á reiðistjórn, öfund, eyðileggjandi sjálfdýrkun og misnotkun valds voru oft helsta orsök þess að skólastjórnendur lögðu kennara í einelti. 
  
  
  
  



 

1 Sjá nánar: Siðblindir á vinnustað og Siðblindir í viðskiptum. Í þeirri suðurafrísku rannsókn sem í færslunni er mjög  til umræðu (Wet, Corine de. 2010) er staðhæft að illska sé einn þeirra þátta sem greina megi í skapgerð eineltandi skólastjóra. Vitnað er í aðra rannsakendur vinnustaðaeineltis sem hafa haldið því fram að oft sýni gerendur eineltis óeðlilega hegðun og enga eftirsjá. Þeir fái jafnvel ánægju út úr því að sjá aðra þjást. Aðrir gerendur eineltis fara betur með þennan þátt í sínu skapferli og reyna að koma vel fyrir en munu eigi að síður ekki skirrast við að meiða og auðmýkja fórnarlömb sín opinberlega. (Wet, Corine de. 2010, s. 1455.) Þetta eru allt einkenni siðblindu.Þegar hrein opinber illska eða tvöfeldni í framkomu er höfð í huga auk stórmennskuhugmynda, valdaástríðu o.fl. atriða sem talin eru aðalsmerki eineltandi skólastjóra læðist auðvitað að manni sú hugmynd að verið sé að lýsa „huggulegum siðblindum“ (subclinical psychopaths, white-collar psychopaths, corporate psychopaths, secondary psychopaths, pæn psykopat eru þau orð sem oftast eru höfð um þessa tegund siðblindra). Í ljósi kenninga Babiak og Hare um siðblindu í viðskiptum og kenningar Boddy um gífurleg áhrif siðblindra starfsmanna á starfsumhverfi (sjá færslurnar sem vitnað var í hér að ofan) er freistandi að íhuga hvort skólastjóri sem beitir einelti sé í rauninni verndari (patron) siðblinds kennara eða undir sterkum áhrifum frá slíkum.

Þannig að út frá kenningum um siðblindu gæti skólastjóri sem leggur kennara í einelti verið siðblindur en allt eins kæmi til grein að svoleiðis skólastjóri væri verndari siðblinds kennara, eða einfaldlega eitt af peðunum hans.
 

2 Blase, Joseph og Blase, Jo. 2002. „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“ í  Educational Administration Quarterly, 38 árg. 5.tbl. s. 671-727. Desember 2002.

Blase, Joseph, Blase, Jo og Fengning Du. 2008. „The mistreated teacher: a national study“ í Journal of Educational Administration, 46.árg. 3.tbl. s. 263-30. Í þessari rannsókn kemur fram að vinnustaðaeinelti er ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda. Sjá s. 264 og 266. En nákvæmar kannanir á því hversu algengt er að skólastjórnendur beiti kennara einelti hafa ekki verið gerðar.

Wet, de Corine. 2010. „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ í Teaching and Teacher Education. An International Journal of Research and Studies, 26.árg. 7.tbl. s. 1347-1492. Október 2010.

Riley, Dan, Deirdre J. Duncan, John Edwards. 2011. „Staff bullying in Australian schools“ í Journal of Educational Administration, 49.árg. 1.tbl. s. 7-30. Einungis útdrátturinn var skoðaður en leigja má greinina eða kaupa ef áhugi er á. (Það vekur reyndar strax áhuga hvað niðurstöður rannsóknar Riley o.fl. eru uggvænlegar.)

Í þessari færslu er einkum stuðst við rannsókn Corine de Wet (2010) og fyrri rannsókn Blase & Blase (2002).

Greinarnar voru skoðaðar á vefnum þann 11. febrúar.
 
 

3 Til eru tvær íslenskar rannsóknir sem nálgast þetta efni ofurlítið:

Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins 24. janúar 2011. Rannsókn Dagrúnar var á tveimur ótilgreindum ráðuneytum og einni ótilgreindri ríkisstofnun. Niðurstöður voru afar misjafnar því einn vinnustaðurinn skar sig ákaflega úr vegna mikils stjórnandaeineltis og skekkti allar tölur. Meginniðurstaðan var sú að í flestum tilvikum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi.

Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vef Fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2011. Þetta var mjög viðamikil rannsókn og var meginniðurstaðan sú að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna taldi sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum. Hins vegar er rannsóknin gölluð að því leyti að ekki var greint milli stjórnenda og almennra starfsmanna í svörum; að ekki er hægt að skoða einstakar starfsstéttir heldur einungis flokkun eftir ráðuneytum, sem mismunandi margir og mismunandi fjölbreyttir vinnustaðir falla undir, og að áhersla er mjög á reynslu þolenda en fátæklegar niðurstöður um gerendur, t.d. er ekki greint frá kyni gerenda. Þótt í niðurstöðum segi að í 44% tilvika sé gerandi eineltis samstarfsmaður en næsti yfirmaður í 31% tilvika segja þessar tölur næsta lítið því, eins og áður var getið, eru þeir sem svara bæði venjulegir starfsmenn og yfirmenn. Í niðurstöðunum kemur fram sú sláandi staðreynd að í 76% tilvika var formlegum kvörtunum vegna eineltis ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti.

Könnun fjármálaráðuneytisins náði að sjálfsögðu bara til framhaldsskólakennara og stjórnenda framhaldsskóla. Í könnun Dagnýjar er ekki hægt að sjá hvort þriðja stofnunin var skóli og mér þykir  fremur ólíklegt að svo hafi verið. Mér vitanlega hefur Kennarasamband Íslands ekki staðið fyrir neinni könnun á vinnustaðareinelti í skólum landsins og hvergi hafa birst upplýsingar um slíkt. Það væri samt full þörf á að rannsaka vinnustaðaeinelti í grunnskólum og framhaldsskólum miðað við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem ég vísa í (og sem vísa áfram í fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti um allan heim).
 

4 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics 25. nóvember 2010, s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út 2006.)
 

6  Blase & Blase (2002) s. 689-690.
 

7 Sjá yfirlit yfir þessar rannsóknir í Blase & Blase (2002), s. 678.
 

8 Sjá skilgreiningu Keashly (1998) í Blase & Blase (2002), s. 675.
 

9 Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við margar alþjóðlegar rannsóknir og sýna að stjórnandi sem ekki er starfi sínu vaxinn reynir oft að leggja undirmenn sína í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á það sem skýringu að öfund sé mjög oft hvati að einelti. Persónulegur styrkur kennara og það sem hann/hún hefur afrekað í starfi gæti egnt lélegan yfirmann til að leggja þann kennara í einelti. Í sumum vinnustaðarannsóknum (sem vísað er í úr suðurafrísku rannsókninni)  hefur komið fram að gerandi eineltis reyni að gera opinberlega lítið úr því sem hann öfundar fórnarlambið af. Sjá Wet, Corine de. (2010) s. 1454 - 55. Sjá má ítarlegt yfirlit yfir eineltishegðun skólastjóra í Blase & Blase (2002) s. 686.  Á eftir yfirlitstöflunni þar fylgir texti á næstu síðum sem útskýrir einstaka þætti.
 

10 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008.
 

11 Blase & Blase (2002) s. 694
 

12 Blase & Blase (2002) s. 693-694
 

13 Blase & Blase (2002) s. 711 o.áfr.
 

14 Blase & Blase (2002) s. 715
 

15 Harthill, Susan. 2010. „Workplace Bullying as an Occupational Safety and Health Matter: A Comparative Analysis“ í  SelectedWorks (safni fræðigreina á vefnum). Skoðað 13. febrúar 2011.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Skólamál, Siðblinda

5. febrúar 2011

Siðblindir í viðskiptum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda,  sjá efnisflokka hér til hægri.) 
 

Þar sem siðblindir einstaklingar hafa fengið að leika lausum hala er mikilvægt að hreinsa til með því að afhjúpa þá og lögsækja þar sem það á við. Siðblinda er áhugavert, en um leið mjög alvarlegt, óhugnalegt og hættulegt fyrirbæri, og það þarf ekki sérfræðing í geðlækningum til að segja manni að siðblinda sé ekki eftirsóknarverð í fyrirtækjum, hvað þá í samfélagi manna.1
 
 

Snakes in Suit eftir Babiak og HareSiðblinda í viðskiptum er eiginlega sú eina birtingarmynd siðblindu sem vakið hefur einhverja athygli hér á landi, ekki hvað síst í kjölfar efnahagshrunsins. Má nefna að Nanna Briem geðlæknir, sem vitnað er til í upphafsorðum, og fleiri hafa gert siðblindu í viðskiptalífinu góð skil og ættu áhugasamir endilega að kynna sér það efni.2

[Viðbót 7. febrúar: Þeim sem vilja hlusta /horfa á íslenskt ljósvakamiðlaefni um siðblindu í viðskiptum og hugsanleg tengsl hennar við efnahagshrunið er bent á þetta: Fréttaaukinn 10. janúar 2010; Fréttir Stöðvar 2 - 3. febrúar 2010Mbl-Sjónvarp - 3. febrúar 2010;  Víðsjá 3. febrúar 2010;  Spegillinn 3. febrúar 2010.  Þetta efni fjallar einkum um Nönnu Briem og þá athygli sem hún vakti á siðblindu í viðskiptalífinu snemma árs 2010. Ég þakka Láru Hönnu Einarsdóttur kærlega fyrir að benda mér á efnið og fyrir að hafa gert það aðgengilegt.] 

Siðblinda í fyrirtækjum hefur talsvert verið rannsökuð og er víða fjallað um hana, gott ef hún hefur ekki verið í tísku undanfarinn áratug. Frægasta bókin um þetta er bók þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare, Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. (Upphaflega átti bókin reyndar að heita When Psychopaths Go to Work: Cons, Bullies and the Puppetmaster, þar sem þrjár helstu gerðir siðblindra í fyrirtækjum eru taldar upp í titlinum.3) Robert D. Hare er helsti sérfræðingur heims í siðblindu, s.s. ætti að vera ljóst hafi menn lesið fyrri bloggfærslur mínar um efnið, og Paul Babiak er iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðingur.

Babiak hafði rekist á 8 siðblinda einstaklinga í vinnu sinni sem ráðgjafi ýmissa fyrirtækja. Þessir einstaklingar áttu farsælan starfsferil að baki þrátt fyrir að mælast með umtalsverða siðblindu á kvarða Hare (PCL-R), sjö þeirra mældust með um eða yfir 29 stig, sá áttundi náði því ekki alveg. (Skorin náðu frá 24,3 stigum til 32,9.).4 Hann hafði samband við Robert D. Hare og þeir slógu sér saman.  Þeir Babiak og Hare rannsökuðu síðan 203 stjórnendur í ýmsum fyrirtækjum vestanhafs og prófuðu mælitækið B-360° sem þeir voru að þróa. Í ljós kom að algengi siðblindu var talsvert meira en almennt mælist í samfélaginu eða 3,5% meðal stjórnendanna en er venjulega talað um 1% siðblinda, jafnvel tæplega það, meðal þorra almennings.5  Siðblinda í viðskiptalífinu reyndist hafa jákvæð tengsl við álit manna innan fyrirtækjanna á persónutöfrum eða hvernig stjórnendurnir komu fyrir en neikvæð tengsl við mat annarra á ábyrgð og hegðun, t.d. samstarfshæfni og færni í stjórnun.6
 

Höggormar í jakkafötum

Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra Babiak og Hare í bókinni Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, ásamt því að tæpa á kenningum annarra þar sem þar á við.

Í formála nefna þeir að frá síðasta áratug liðinnar aldar hafa fyrirtæki lagt æ meiri áherslu á samkeppni, skilvirkni, hraða og gróða og í því augnamiði varpað skrifræðisveldinu gamla fyrir róða. Fyrirtækin reiða sig á bráðabirgðaráðstafanir, hafa færri lögfræðinga, einfaldara kerfi, meira frjálsræði starfsmanna til ákvarðana og minni skriffinnsku. Vald sumra fyrirtækja er orðið nær takmarkalaust, auðæfin ævintýraleg og siðfræðilegir staðlar og gildi eru fyrir borð borin. Þetta er hluti skýringarinnar á því af hverju siðblindir sækjast eftir störfum, helst stjórnunarstöðum, í fyrirtækjum og af hverju þeir geta auðveldlega hreiðrað þar um sig.

*Menn glepjast á að ráða siðblinda til starfa í fyrirtækjum af því að:

  • Sumir kjarnaþættir siðblindu kunna að virðast töfrandi í starfsumsókn og auka möguleika á ráðningu, t.d. hve siðblindir eru heillandi og duglegir að kjafta sig gegnum starfsviðtöl. Auk þess falsa þeir oft meðmælin sem þeir framvísa.
  • Sumir starfsmannastjórar halda að siðblindueinkennin séu merki um „forustuhæfileika“ (hæfileika til að fá aðra á sitt band og láta þá hlíta fyrirmælum) en í rauninni eru þetta hneigðin til þvingunar, drottnunar og ómældrar stjórnsemi.
  • Í síbreytilegu viðskiptaumhverfi vantar leiðtoga til að hrista upp í fólki og drífa verkin af. Sjálfselska, kaldlyndi og tilfinningaleysi urðu allt í einu eftirsóknarverðir eiginleikar.
  • Siðblindir hrífast  af þessu nýja viðskiptaumhverfi og laðast að viðskiptum þar sem hraði, mikil áhætta og mikill gróði er í boði.7

   

*Sömu aðferðir henta siðblindum innan fyrirtækis og í samskiptum við fólk almennt. Greina má háttalag þeirra í þrenns konar ferli:

  • Þeir meta aðstæður: Þetta gera þeir fyrstu mánuðina í starfi. Þeir greina umhverfi sitt, hasla sér völl og  tengjast áhrifamönnum innan fyrirtækisins (verndurum og peðum). 
  • Þeir taka yfir og byrja að ráðskast: Þetta gera þeir t.d. með því að fegra mannorð sitt, gera lítið úr öðrum, dreifa röngum upplýsingum, ýta undir deilur, afbrýðisemi og samkeppni milli hinna svo allir verði of uppteknir til að geta haft auga með þeim siðblinda. Á þessu stigi gera þeir oft einhverja að sérstökum trúnaðarmönnum sínum til að treysta vináttuböndin (en segja þeim náttúrlega ekki satt).
  • Þeir yfirgefa svæðið eða  þeir færast upp metorðastigann og hrifsa völdin af verndara sínum.8


 

*Siðblindir byrja á að sannfæra aðra um heiðarleika, heilindi og einlægni sína. Síðan snúa þeir sér að því að sjá út fólkið í fyrirtækinu:

Peðin eru þeir sem hafa eitthvað sem svikahrappurinn ágirnist. Það geta verið mörg peð í fyrirtækinu sem þjóna mismunandi tilgangi; ráða yfir upplýsingum, peningum, sérfræðiþekkingu, hafa áhrif, sambönd o.s.fr. Siðblindur einbeitir sér að því að finna peð sem allra fyrst. Mörg peð eru svo blinduð af svikahrappnum að þau láta honum í té hvað sem er, sama hversu óviðeigandi eða hneykslanleg bónin er. Eitt helsta bragð hins siðblinda er að biðja um vinargreiða sem er aldrei endurgoldinn.

Verndararnir eru háttsettir einstaklingar sem bera blak af siðblindum, oft áhrifamiklir forstjórar sem taka hæfileikaríka starfsmenn undir verndarvæng sinn og hjálpa þeim að komast til metorða í fyrirtækinu. Reynsla Babiak og Hare er að gervi hins fullkomna starfsmanns og framtíðarleiðtoga hafi verið svo sannfærandi að margir í stjórnendateyminu létu heillast þótt þeir hefðu ekki haft náin kynni af þeim siðblindu. Þessi háttsettu stjórnendur gerðust verndarar þeirra. Þegar samband verndara og skjólstæðings er einu sinni komið á er erfitt að brjóta það á bak aftur. Valdamiklir verndarar verja siðblinda fyrir gagnrýni annarra.

Óvirkir áhorfendur eru fjöldi samstarfsmanna og millistjórnenda sem hinn siðblindi hefur engan áhuga á af því hann telur ekki að þeir gagnist sér. Þeir í góðri aðstöðu til að sjá hvað er í gangi því sá siðblindi skiptir sér ekkert af þeim. En flest fólk hugsar einungis um sitt. Óvirku áhorfendurnir segja eftir á: „Ég skipti mér bara af mínu“, „enginn vildi hlusta á mig“ og „það er ekki mitt að skerast í leikinn“.

Flónin: Þegar hið sanna eðli hins siðblinda verður ljóst, sem m.a. kemur fram í því að hinn fyrrum heillandi vinnufélagi hunsar fólk og verður kuldalegur, rennur upp fyrir peðunum að þau voru aldrei annað en flón. Þeim finnst þau hafa verið svikin og flekkuð. Það er erfitt að horfast í augu við að sú persóna sem þau treystu hvað best skuli bregðast þeim svo purkunarlaust. Skömmin og sneypan  koma í veg fyrir að þau segi frá.

Verndaranum, sem hélt  hlífiskildi yfir hinum siðblinda fyrir efasemdum og ásökunum annarra starfsmanna og hækkaði hann í tign, fól honum flóknari verkefni og leyfði honum að leika lausum hala innan fyrirtækisins, finnst líka að hann hafi verið ginntur. Því miður verður verndarinn að flóni, glatar áliti sínu í fyrirtækinu og tapar oft starfi sínu því sá siðblindi hefur allan tímann búið í haginn fyrir sjálfan sig og hreppir stöðuna.9


 

*Siðblindum yfirmönnum má aðallega skipta í tvo flokka: Þá sem beita stjórnsemi og þá sem beita fantabrögðum. Ekki er ljóst hvort líffræðilegur munur í heila eða mismunandi aðstæður í uppvexti veldur þessum mismun.

  • Siðblindur stjórnandiStjórnsamir blekkingameistarar notfæra sé aðra í eftirsókn eftir frægð, auðæfum, valdi og stjórn. Þeir eru svikulir, sjálfselskir, yfirborðskenndir, drottnunargjarnir og mjög oft lygarar. Þeim er alveg sama um afleiðingar eigin hegðunar og leiða hugann sjaldan að því hvað framtíðin ber í skauti sér. Þeir axla aldrei ábyrgð, þrátt fyrir ýmis loforð um að skila af sér, ná markmiðum eða standa við persónulega greiða. Þegar þeir eru ásakaðir kenna þeir öðrum um vandamálin. Þeir eru ruddalegir og harðbrjósta við þá einstaklinga sem hafa ekkert að bjóða þeim því þeim finnst þeir sjálfir vera æðri og í fullum rétti. Þeir hugsa aldrei um skaðann sem þeir valda fólki eða stofnunum. Í samskiptum virðast þeir oft gersneyddir mannlegum tilfinningum, sérstaklega samlíðan. Afsökunarbeiðni er þeim framandi því þeir upplifa ekki eftirsjá eða sektarkennd. Þrátt yfir þetta ganga samskipti við aðra ótrúlega vel, aðallega vegna einstakrar færni þeirra til að heilla fólk og semja sannfærandi sögur til að hafa áhrif á aðra. Þeir eru mjög leiknir í að lesa í fólk og aðstæður og haga framkomu sinni eftir því. Þeir geta skrúfað sjarmann á og af eftir því hvað hentar hverju sinni. Af því þeim tekst svo vel að dylja sína dökku drætti ná þeir auðveldlega trausti fólks og síðan hafa þeir gagn af fólki eða svíkja það. Það er eins og þeim finnist gaman að blekkja fólk, ná tangarhaldi á öðrum og fá þá til að gera ýmislegt fyrir sig.
  • Fantar eru siðblindir sem reiða sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur. Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann reiðir sig á fautaskap eða einelti í staðinn. Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta við aðra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann fær ekki sitt fram verður hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils ráðandi. Óljóst er hvort föntunum er eðlislæg nautn af því að traðka á öðrum eða hvort þeir hafi lært að þetta sé árangursríkasta leiðin til að ná sínu fram. Því er eins farið með þá og hina stjórnsömu yfirmenn, að þeir finna ekki fyrir eftirsjá, sektarkennd eða samlíðan með öðrum. Af því þeir gera sér enga grein fyrir því hvernig þeir skaða aðra og jafnvel sjálfa sig eru siðblindir fantar sérstaklega hættulegir á vinnustað.
  • Leikbrúðustjórnendur eru sjaldgæfastir og hættulegastir:  Þeir sýna bæði stjórnsama drætti og fantabrögð en fara fínt í hvort tveggja. Þeir eru leiknir í að stjórna fólki og  kippa í spotta bak við tjöldin. Þannig ná þeir valdi á  þeim sem standa neðar í virðingarstiga fyrirtækisins. Aðferðir þeirra minna á Stalín og Hitler sem umkringdu sig hlýðnum fylgismönnum og stjórnuðu heilu þjóðunum gegnum þá. Siðblindir leikbrúðustjórnendur bæla harkalega niður fyrstu merki uppreisnar og víla ekki fyrir sér að ráðast á stuðningsmenn sína líka. Í augum þeirra mega bæði leikbrúður og fórnarlömb missa sín enda skynja þeir þau ekki sem manneskjur af holdi og blóði heldur verkfæri. Babiak og Hare telja að siðblindir leikbrúðustjórnendur í fyrirtækjum sýni öll merki um sígilda hættulega siðblinda.10

*Afleiðingar þess að hafa siðblinda yfirmenn í fyrirtækjum:

Áströlsk rannsókn, sem gerð var árið 2008 til að skoða hvaða áhrif siðblindir stjórnendur hefðu á starfsanda innan fyrirtækja og hollustu starfsmanna við fyrirtækið, sýndi sláandi niðurstöður. Siðblindir millistjórnendur höfðu afar neikvæð áhrif á alla þætti sem snerta viðhorf starfsmanna til félagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins, s.s. hvort þar tíðkaðist sanngjörn og umhverfisvæn starfsemi sem kæmi samfélaginu til góða, og hvort verk starfsmanna væru metin að verðleikum. Sem dæmi um hið síðasttalda má nefna að rúm 80% töldu að verk þeirra væru metin að verðleikum þar sem millistjórnandi var „eðlilegur“ en einungis tæp 25% töldu svo vera ef millistjórnandinn var siðblindur.11

Clive Buddy, sem einnig stóð að fyrrnefndri rannsókn, komst að því að áhrif siðblindra í einelti eru margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% almennra starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, stendur fyrir 26% af einelti á vinnustað.“12

Andrew Fastow fjármálastjóri EnronHvað varðar fjárhag og rekstur fyrirtækja sem siðblindum hugnast (hratt, áhættusamt en gróðavænlegt umhverfi þar sem gjarna ríkir óreiða) má sem dæmi „nefna Enron, sem varð gjaldþrota 2001 og um 20.000 manns misstu vinnuna. Við gjaldþrotið kom í ljós gríðarlegt fjármálamisferli, sem hafði lengi falið hvernig var ástatt fyrir fyrirtækinu og kom því loks í þrot. Fyrirtækin líta í hina áttina ef harðsvíruð og siðlaus aðgerð er arðbær, verðlauna hana jafnvel. Þeir sem auka gróða fyrirtækisins eru gerðir að stjörnum, þó að aðferðirnar hafi verið mjög áhættusamar og jafnvel siðlausar. Við slíkar aðstæður standa allar dyr opnar hinum siðblindu. … Sá siðblindi hefur enga tryggð við fyrirtækið, bara við sjálfan sig. Þessu síðastnefnda lýsir Andrew Fastow hjá einum stjórnanda í Enron, en hann hafði sem markmið að græða sjálfur sem mest án þess að hafa minnstu áhyggjur af fyrirtækjunum eða fólkinu.“13


[Myndin er af Andrew Fastow, aðalfjármálastjóra Enron-samsteypunnar. Árið 2004 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir fjársvik, þrátt fyrir að hafa tekist að heilla saksóknara upp úr skónum.]
 

Robert D. Hare telur að það séu til margs konar fjárglæframenn og ástæður fyrir fjársvikum geti tengst bágum efnahag, þrýstingi frá samfélaginu eða félögunum, sérstökum ástæðum, tækifærum sem bjóðast o.s.fr. En hvítflibba-siðblindir eru oft mjög flæktir í alls kyns óvenju gróft og gróðavænlegt brask. Þeir berast ómælt á meðan fórnarlömb þeirra glata sparifé sínu, virðingu og heilsu; hljóta „efnahagslega dauðarefsingu“ eins og einn fulltrúi laganna orðaði það. Vegna þess að glæpir þeirra felast ekki í líkamlegu ofbeldi fá þeir tiltölulega væga dóma og lágar sektir og eru snemma látnir lausir úr fangelsi. Féð sem þeir sölsuðu undir sig fæst sjaldan endurheimt svo fórnarlömbin og almenningur stendur sem þrumulostinn og sannfærður um að glæpir borgi sig svo sannarlega þegar þeir eru framdir af mönnum sem breiða yfir kléna samvisku með persónutöfrum, sjálfselsku og blekkingu.14


 

*Hvað verður um siðblinda stjórnendur?

Afdrif þeirra átta stjórnenda sem Paul Babiak greindi siðblinda voru þessi: Aðeins einn þeirra missti starfið en yfirgaf fyrirtækið með veglegan starfslokasamning og réði sig í hærri stöðu hjá keppinautnum; Tveir hlutu framgang í hærri stöður í samruna fyrirtækisins við annað; Einn slapp óhultur gegnum samruna fyrirtækja af því hann var valinn í hóp þeirra sem færðust yfir og fékk að velja hverjir fylgdu með (stuðningsmenn sína) í nýja fyrirtækið og hverjum var sagt upp (þeim sem höfðu séð í gegnum hann); Tveir hafa hlotið stöðuhækkun og eru enn í sínum gömlu fyrirtækjum; Einn „hvarf“ þegar fyrirtækinu var lokað; Einn átti farsælan starfsferil, endaði sem aðstoðarforstjóri og fór svo á eftirlaun.15

Stein Bagger segist vera siðblindurSé horft á alla þá siðblindu stjórnendur sem Robert D. Hare og Paul Babiak höfðu rannsakað árið 2008 þá héldu allir nema nema þessi eini (sem Babiak talar um) völdum sínum innan fyritækjanna. Sumir stigu til hærri metorða, aðrir sátu sem fastast enda höfðu þeir góða aðstöðu til að notfæra sér fyrirtækin í eigin þágu. Því miður virðast fyrirtæki reyna að hylma yfir vesenið eða losna bara við það úr eigin ranni, ganga jafnvel svo langt að skrifa meðmælabréf handa hinum siðblinda, sem auðveldar honum að svíkja út hærri stöðu. Þrátt fyrir efnahagskreppuna er enn þörf á reyndum stjórnendum sem hafa bolmagn til að taka að sér endurreisn fyrirtækja og snúa ástandinu til betri vegar. Svoleiðis menn eru vandfundnir. En þetta er upplagt tækifæri fyrir siðblinda; Þeir geta smogið inn í fyrirtækin á fölskum forsendum og gefið sig út fyrir að vera „lausnin“ á vanda þeirra. Aðgangur að menntun verður æ greiðari og því fylgja vafasamar gráður sem siðblindir kaupa á netinu og punta með starfsferilsskrárnar. Nú er engin skömm af því að hafa misst vinnuna, eins og áður þótti, enda hafa jafnvel frábærir stjórnendur þurft að ganga atvinnulausir um hríð. Því er auðvelt fyrir siðblinda að kenna samdrætti um til að útskýra hve stutt þeir hafa tollað í mörgu starfinu.16

[Myndin er af Stein Bagger, forstjóra danska fyrirtækisins IT Factory. Hann er reyndar ekki gott dæmi um niðurstöður Babiak og Hare því árið 2009 var hann dæmdur í sjö ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir ævintýraleg fjársvik og skjalafals. Stein Bagger hefur sjálfur haldið því fram að hann sé siðblindur.]

*Atriði sem gætu bent til að stjórnandi eða starfsmaður fyrirtækis sé siðblindur:

  • Viðkomandi getur ekki stjórnað teymi - hópvinna með siðblindum er fyrirfram vonlaus;
  • Viðkomandi getur ekki deilt með sér - t.d. upplýsingum og hrósi;
  • Viðkomandi kemur misjafnlega fram við  fólk - af því siðblindir skipta fólki í verndara, peð, flón og lögreglu;
  • Viðkomandi getur ekki sagt satt - sjúkleg lygaárátta er aðalsmerki siðblindra;
  • Viðkomandi getur ekki sýnt hógværð;
  • Viðkomandi getur ekki tekið skömmum - hann  tekur ekki ábyrgð á eigin mistökum (heldur kennir öðrum um);
  • Viðkomandi sýnir ófyrirséða hegðun - maður veit aldrei hvar maður hefur siðblindan;
  • Viðkomandi getur ekki brugðist rólega við - siðblindir stökkva upp á nef sér;
  • Viðkomandi getur aldrei brugðist öðruvísi við en reiður/árásargjarn.1

*Hvernig lágmarka má hættu á að ráða siðblindan stjórnanda eða starfsmann í fyrirtækið:

  • Taka ítarleg viðtöl við umsækjendur;
  • Biðja um sýnishorn af fyrri verkum;
  • Einblína á hegðun og framkomu;
  • Biðja um útskýringar á smáatriðum /gaumgæfa smáatriði;
  • Vera vakandi fyrir eðlilegum tilfinningaviðbrögðum;
  • Ákveða ekki ráðninguna einsamall/einsömul;
  • Sannreyna meðmæli;
  • Spyrjast fyrir hjá fyrri vinnuveitanda;
  • Nota B-Scan.18

    


1 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 28 
 2 Sjá Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“, Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 25 - 29; Nanna Briem. 2010. „Siðblinda“, ritstjórnagrein í Læknablaðinu 96.árg. 6.tbl. 2010; Nanna Briem. 2010. Siðblinda og birtingarmyndir hennar, myndband af fyrirlestri sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010; Nanna Briem. Maí 2010. Um siðblindu (glærusýning). Sjá einnig Kristján G. Arngrímssonar. 2006.„Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006 og Jón Sigurður Karlsson. 2011. „Siðræn sjónskerðing og siðblinda“ í Vefriti Sálfræðingafélags Íslands. Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar 3. 1. 2011. Vefsíður skoðaðar í janúar 2011.
 3 Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine 8. september 2001.
 

4 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 415.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.)

Aðra kannanir hafa leitt svipað í ljós eða jafnvel uggvænlegri niðurstöðu, t.d. bresk könnun þar sem bornir voru saman þrír hópar: Geðsjúkir ofbeldismenn í Broadmoor gæslufangelsinu í Englandi (karlmenn), hópur sjúklinga af geðsjúkrahúsum (rúmlega helmingurinn karlmenn) og hópur háttsettra stjórnenda (karlmanna) í fyrirtækjum. Ekki var notaður PCL-R kvarði Hare’s heldur annars konar mælitæki. Niðurstaðan var sú að stjórnendahópurinn sýndi mestu kjarnaeinkenni siðblindu en aftur á móti lítil merki um andfélagslega hegðun. Af því mælt var öðruvísi en Hare gerir er ekki hægt að gefa upp neina tölu um siðblindu í þessum þremur hópum en sjá má töflu yfir einstaka persónuleikaþætti, þ.m.t. þá sem heyra til kjarnaeinkenna siðblindu, í rannsókninni. Sjá  Board, B J, and Fritzon, K. 2005. „Disordered personalities at work“ í Psychology, Crime and Law, 11.árg., 1.tbl., s. 17- 32. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

6 Babiak, Paul. 2010. „Corporate psychopathy: Talking the walk“ í Behavioral Sciences & the Law, 28.árg. 2.tbl., s. 174– 193, mars/apríl 2010. Einungis útdrátturinn var skoðaður, þann 3. febrúar 2011.
 

7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. xi-xiii.
 

8 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 88-148.
 

9 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 111-141.
 

10 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 185-193
 

11 Boddy, Clive R., Richard K. Ladyshewsky og Peter Galvin: 2010. „The Influence of Corporate Psychopaths on Corporate Social Responisbility and Organizational Commitment to Employees“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl. 2010, s. 1-19. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

12 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl, s. 1-13. Skoðað 25. jan. 2011.
 

13 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 27-28. Tilvitnun í Fastow er tekin úr Deutschman, Alan. „Is Your Boss a Psychopath?í Fast Company 96.tbl. júlí 2005, s. 44-51. Skoðað 3. febrúar 2011.

Það er áhugavert í þessu sambandi að lesa hugleiðingar Guðjóns Viðars Valdimarssonar um hvort og þá hvernig skuli í endurskoðun taka á þáttum sem varða siðferði og fyrirtækjamenningu. Hann nefnir ekki siðblindu en minnist á Enron og segir: „Þegar menning viðkomandi fyrirtækis gengur út á árangur og árangursmat og árangursmatið hefur afgerandi áhrif á framtíð og starfsferi [svo!] starfsmanna. Þessi þáttur samtvinnaður við vísvitandi tregðu yfirstjórnar til að vilja vita nákvæmlega hvernig viðkomandi náði markmiðum sínum væru viss einkenni þessara [svo!] fyrirtækjamenningar. Hjá Enron fyrirtækinu hafði sú menning skapast að allir starfmenn yrðu að ná árlegum markmiðum sínum. Það í sjálfu sér er nú ekki óhófleg krafa en það sem var sérstakt var að það var nánast hægt að ábyrgast [svo!] að náði starfsmaður ekki markmiðum sínum þá var hann annað hvort rekinn strax eða settur til hliðar. Þegar starfsmenn standa frammi fyrir slíku þá munu þeir leita allra leiða til að búa svo hlutina að þessi markmið náist því þeirra starfsframi og öryggi fjölskyldu þeirra er í húfi. Stjórnendur Enron vildu helst ekki vita annað en hvort viðkomandi hafði náð markmiðum sínum eða ekki.

Það var óskrifuð regla að meðölin helguðu tilganginn en einnig að stjórnendur vildu hafa það sem á ensku heitir “Plausible deniability” þ.e.a.s. að getað [svo!] vísað ábyrgð frá sér með þeim rökum að þeir hafi ekkert vitað og treyst undirmönnum sínum.

Við lestur rannsóknarskýrslurnar [svo!] [átt er við rannsóknarskýrslur Alþingis eftir bankahrunið] kemur það ítrekað fram hjá stjórnmálamönnum að þeir telja að forsvarsmenn bankanna hafi logið að sér og þess vegna hafi þeir ekki viljað grípa til þeirra aðgerða sem eftir á að hyggja, hefðu talist eðlilegar. Spurningin er sú hvort það sé viðunandi skýring að maður hafi ekki vitað betur. Getur þá skipstjóri strandaðs skips vísað frá sér ábyrgð vegna þess að undirmenn viðkomandi hafi logið eins og þeir voru langir til?“

Sjá  Guðjón Viðar Valdimarsson. „Menning og siðferði fyrirtækja sem liður í innri endurskoðun“ í Fréttabréfi Félags um innri endurskoðun, 1.tbl. september 2010, s. 2. Guðjón er faggiltur innri endurskoðandi (CIA) og tölvuendurskoðandi (CISA) og starfar hjá Seðlabanka Íslands. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

14 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.

Sjá einnig: Robert Hare í viðtali við Robert Hercz 2001: „Fjölmargir hvítflibba-glæpamenn eru siðblindir“, segir Bob Hare. „En þeir dafna vel því persónueinkennin sem skilgreina siðblindu eru í rauninni mikils metin. Og hvað gerist þegar þeir nást? Það er slegið á puttana á þeim, þeim er bannað að stunda viðskipti í hálft ár og þeir endurgreiða okkur ekki þessar 100 milljónir dollara. Mér hefur alltaf fundist hvítflibbaglæpir jafnslæmir eða verri en sumir ofbeldisglæpir.“ Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine, 8. september 2001.
 

15 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 426.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

16 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.
 

17 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 248-258
 

18 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 209-238.

B-Scan er stytting á Business Integrity Scan. Þetta er verkfæri sem þeir Babiak og Hare eru enn að þróa en nokkrar tilraunaútgáfur hafa þegar verið prófaðar. Þótt ekki sé um að ræða klíníska greiningu á siðblindu þá mælir B-Scan hegðun, viðhorf og dómgreind sem tengjast siðferði fyrirtækja. Um B-Scan má t.d. lesa í kafla Paul Babiak, „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 423-426. Aðgengilegt á Google bækur.

B-Scan er ekki enn komið á markað en mönnum býðst að prófa verkfærið ókeypis. Sjá „Business-Scan (B-SCAN) by P. Babiak, Ph.D. & R. D. Hare, Ph.D.“ á B-SCAN. MHS.  Vefsíður skoðaðar 4. febrúar 2011.
 
 
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Siðblinda

30. janúar 2011

Siðblindir í kirkjunni

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Að hafa siðblindan prest eða leiðtoga í kirkjunni er eins og að afhenda siðblindum óútfyllta ávísun1
 
 
Umfjöllun á Norðurlöndunum

Á Norðurlöndunum hafa komið út a.m.k. þrjár bækur sem fjalla um siðblindu innan kirkjunnar. Allar hafa þær vakið mikla athygli en eru þó ófinnanlegar í íslenskum bókasöfnum, hvað þá að þær hafi verið þýddar. Ég hef þessar bækur ekki undir höndum og verð því að styðjast við tilvitnanir á vefsíðum og greinar um þær. Mér finnst mjög einkennilegt hve hljótt hefur verið um bækurnar hér á landi.
 

*Árið 1989 kom út norska bókin Maktmennesket i menigheten eftir Edin Løvås. Höfundurinn er velþekktur prédikari í Noregi og starfandi prestur í Norska heimatrúboðinu (Misjonsforbundet) í Edin Løvåsáratugi. Þetta eru nokkurs konar reikningsskil á ágætum möguleikum dæmigerðra siðblindra  til „tortímandi tjáningar“ í venjulegum kristnum söfnuðum. Kristnir söfnuðir eru „vettvangur þar sem svona fólk á auðveldast með að beita valdi sínu“, segir hann. „Eftir 40 ár sem sálusorgari er ég skelfingu lostinn  yfir þeirri miklu þjáningu sem siðblindir valda kristnum einstaklingum, hópum og söfnuðum. Ég er líka skelkaður yfir hve lítið bæði kristnir og fagfólk á þessu sviði talar hreint og vafningalaust um þetta. … Ég tel að þetta sé risastórt vandamál sem sópað er undir teppið. Það er eins og dreginn sé allur máttur úr forystumönnum [kirkjunnar]. Stundum velti ég fyrir mér hvort hirðarnir séu ekki jafn hræddir og hjörðin og sé sú raunin ásaka ég engan. Því ekkert (fyrir utan sjálfan djöfulinn) er eins ógnvekjandi og þegar þessir „skæðu vargar“ þröngva sér inn á ykkur (sbr. Postulasöguna 20:29).“2

„Siðblindir eru menn sem hafa lífsskoðun, mannskilning og viðhorf sem leiðir til þess að þeir eru sífellt á höttunum eftir valdi. Þeir hafa óendanlega þörf til að stýra hjörtum og hugsunum annarra. Kristnir söfnuður er vettvangur þar sem þeim veitist létt að hrinda þessu valdi í framkvæmd. Siðblindir eru venjulega klárir og heillandi og þeir beita öllum sínum áhrifum og orku í valdabaráttuna.“3

Ástæðurnar fyrir því hve sá siðblindi nær sterkum tökum innan kirkjunnar eru einkum þrjár, skv. Løvås. Í fyrsta lagi geti sá siðblindi sett fram kröfur um kærleika, auðmýkt, þolinmæði og umburðarlyndi. Kristið fólk er alið upp í því að fyrirgefa og þola þjáningu. Prédikarar og prestar hafa hamrað á því að kærleikurinn, þolinmæðin og umburðarlyndið sé takmarkalaust, án þess að bæta við að hægt er að misnota fólk í nafni kærleika og þolinmæði; Önnur skýring er sú að fólk hefur tamið sér í of miklum mæli að vera óvirkir áheyrendur í kirkjum. Tjáningin kemur svo til eingöngu úr kórdyrum, frá altarinu og úr prédikunarstólnum. Flestir samþykkja athugasemdalaust það sem prédikarinn boðar. Þeir setja sig í spor „sauðanna sem fylgja hirðinum“ og í þessu tilviki á það ekki við Jesús, heldur prestinn eða skilning þeirra. Skv. Løvås eru flestir þannig uppaldir að það er ofar þeirra skilningi að einhver skuli „prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug“ (Filippíbréfið 1:17).  Enn ein skýringin á því hve auðvelt er fyrir siðblinda að ná völdum í kristnum samfélögum er kannski að þeir leita oft í Biblíuna í röksemdafærslu sinni. Þeir geta vísað í ritningarstaði á borð við  „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát.“ (Hebreabréfið 13:17).4

Løvås telur að sá siðblindi búi sér oft til einfalt guðfræðikerfi með aragrúa af ósveigjanlegum reglum. „Því neyðir hann svo upp á fólk og krefst óskoraðrar hlýðni undir því yfirskini að hann haldi trúna við bókstafinn, rétta guðfræði og rétt lögmál. Af því að valdinu stafar af honum veldur hann ótta og hann brýtur andstöðu á bak aftur. Þeim sem hann nær á vald sitt finnst að mótmæli jafngildi því að þeir séu á móti sjálfum Guði almáttugum.“5

Kaflafyrirsagnir í bókinni lýsa valdsmönnum innan kirkjunnar (maktmennesket i menigheten): Þeir verða að vera miðpunktur athyglinnar;  Þeir eru stöðugt til í slaginn;  Sektarkenndin er helsta vopn þeirra (þeir láta aðra fá samviskubit); Þeir brjóta niður sjálfsálit (annarra); Þeir skilja ekki þarfir annarra; Þeir hafa mikla þörf fyrir örvun. (Innst inni leiðist þeim. Þeir elska dramatík og að vera í miðju hringiðunnar.); Þeir hafa óraunhæfar væntingar; Þeir blekkja flesta;  Þeim hugnast vel stigskipt valdakerfi; Þeir ráðast á minni máttar.6

Siðblindir munu ekki breytast. „Lausnin er sem sagt ekki sú að bíða eftir neins konar breytingu eða þess að valdsmennirnir skáni. Hinn þekkti norski sálfræðingur Tollak B Sirnes segir: „Flestar rannsóknir á árangri meðferða siðblindra sýna að líkur á bata eru litlar.“7

Løvås telur að það sé engin önnur leið fær en að rjúfa samskipti við slíkan valdsmann. Hinn kosturinn er að leggjast í mikil bréfaskipti, rökræður eða samningagerð við þá og virðist Løvås ekki telja að það skili árangri.  Ef á að reka þá, segir hann,  verður það að gerast á óvéfengjanlegan löglegan hátt - allt annað er gagnslaust.

Hlutverk okkar hinna ætti fyrst og fremst að vera að vernda minni máttar og ekki að gefa þeim sterka nein tækifæri. Því meir sem við hræðumst að stöðva valdsmann, því minna tillit sýnum við þeim sem valdmaðurinn tætir í sig. Og þeim líður illa. Þeirra hlutskipti er að þjást í hljóði því ef þeir vekja máls á því sem er erfitt mun þeim líða enn verr. Þeir geta auðvitað gert kollega sína að trúnaðarmönnum og fengið stuðning og skilning en fáir kollegar þora að halda opinskátt með þeim þegar nauðsyn ber til. Fórnarlömbin stríða oft við mikla tilfinningaörðugleika, svefnleysi og líkamlega kvilla. Enn verra er að þau byrja oft að skilgreina sig eins og valdsmaðurinn lítur á þau, nefnilega veikgeðja, móðursjúk, óguðleg, sjálfselsk o.þ.h.8
 

*Presturinn Raimo Mäkelä, framkvæmdarstjóri Finnsku biblíustofnunarinnar (Finska Bibelinstitutet / Sumoen Raamattuopisto), gaf 1997 út örstutta bók (einungis 78 síður), Naamiona terve miele, Raimo Mäkeläsem á dönsku heitir Magtmisbrug i menigheden, á norsku Psykopatenes makt: hvordan du kan bli fri en hefur hvorki verið þýdd á sænsku né íslensku. Bókin hefur verið endurprentuð átta sinnum og selst í yfir 16.000 eintökum. Hún hefur komið út í Þýskalandi, Noregi og Danmörku og árið 2005 var verið að þýða hana á rússnesku, ensku og kínversku.

 Raimo Mäkelä reynir ekki að draga fjöður yfir það að vandamál sem tengjast sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (Narcissistic Personality Disorder) sé einnig að finna innan kirkjunnar - og bætir við að hugtakanotkun sé dálítið ruglingsleg enda talar hann alltaf um siðblindu (psykopati) síðar í viðtalinu, sem ég vitna í. Grunnþátturinn í siðblindu er valdafíkn. Siðblindir geta verið kappsamir og metnaðargjarnir en þegar allt kemur til alls er sjálf valdabaráttan þeim mikilvægust; að ráða yfir hverri manneskjunni af annarri eða hreppa hverja stöðuna eftir aðra. Bæði lútherska þjóðkirkjan og fríkirkjur höfða til svona fólks og oft kemst það í stjórnunarstöður.

Mörg ár, jafnvel fast að áratug, tekur að átta sig á svona manni. Gróft meðaltal er kannski tvo ár, þá ættu viss merki að vera farin að sjást. Oft er viðkomandi þá á miðjum aldri.

Raimo MäkeläÞað að maður með siðblindueinkenni geti starfað óáreittur í kristnu samfélagi um langt skeið á sér sínar skýringar. Kirkjustarfi fylgir myndugleiki sem er frjór jarðvegur fyrir þann sem þyrstir í völd. Hann getur lært rétta tungutakið, kennt um trú og guðspjöllin af sannri trúfestu og verið strangur. Það tekur tíma að síast inn að hann telur sig alls ekki sjálfan bundinn af þeim reglum sem hann prédikar. Hann er er ósvífinn en ekki svo ósvífinn að manni blöskri eða trúi varla sínum eigin eyrum og augum. Kristnar hugsjónir fela í sér að vera góður, að halda friðinn og hlýða. Enginn býst við því að kristinn leiðtogi komi illa fram við aðra.

Hinn siðblindi deilir fólki í þrjá hópa. Eðlisávísunin segir honum hverjir standa með honum eða hverja hann getur munstrað í sitt lið. Allt snýst um hann sjálfan. Fyrsti hópurinn er fólk sem hann getur ráðskast með og heillað, fólk sem dáist endalaust að honum og verður hirð í kringum hann. Hann fer um þetta fólk silkihönskum og þetta er liðið sem segir: „Hann gæti aldrei gert neitt af sér!“„Við trúum aldrei neinu illu upp á hann!“ Næsti hópur er fólk sem sér í gegnum þann siðblinda. Hann getur ekki ráðskast með það og hann þolir ekki þetta fólk. Þriðji hópurinn eru fórnarlömbin, þau sem hann mun traðka á. Þetta eru oftast góðar manneskjur sem vilja halda friðinn. Hann er stundum almennilegur við þetta fólk en getur augnabliki síðar umhverfst í djöful í mannsmynd.

Reynsla fólks í söfnuðinum og álit manna verður því mjög mótsagnakennt. Þess vegna er lítið gagn af því að fá utanaðkomandi ráðgjafa því það eina sem hann festir hönd á er að þarna séu skiptar skoðanir.

Vegna sterkrar ráðningarfestu er erfitt að losa sig einfaldlega við hinn siðblinda, sama hversu langt hann gengur. Þar er sjaldan beinlínis um lögbrot að ræða, það er hægt að beita valdníðslu á svo ótal aðra vegu. En óheiðarleikinn og ofbeldisfull hegðun eru auðsjáanleg.

Að sumu leyti er siðblindum vissulega vorkunn. Hann er aumkunarverður. Hann sér aldrei sök hjá sjálfum sér heldur telur alla aðra breyta rangt. Hann skortir samhygð og samvisku. Hann iðrast einskis. Samt finnst Mäkelä óþarft að vorkenna siðblindum heldur eigi að hugsa um fórnarlömb þeirra. Ástandið mun aldrei skána. Maður á að berjast á móti og ekki láta traðka á sér en gangi það ekki er um að gera að segja upp starfi og fara, það er ekki vesalmennska heldur nauðsyn til að lifa af. Hann segir:„… sem sálusorgari get ég aldrei hvatt neinn til að vera um kyrrt í slíkri þjáningu og helvíti [sem samvistir við siðblindan geta verið]…. Flýðu!“9
 

*Árið 2007 kom út í Danmörku bókin Forklædt.  Pæne psykopater og deres ofre eftir Irene Rønn Lind. Hún er menntaður kennari, fjölskylduráðgjafi og hefur lokið cand.pæd.psyk.aut. gráðu. Irene Rønn LindLokaritgerð hennar, 2001, fjallaði einmitt um „pæne psykopater“. Irene er starfandi sálfræðingur og hefur setið í sóknarnefnd á Sjálandi. Bók hennar virðist hafa vakið mikla athygli. Hugtakið „pæne psykopater“ hef ég áður þýtt sem „snotrir siðblindir“ en mætti líka notast við „huggulegir siðblindir“ (á ensku eru notuð „successful psychopath“, „subclinical psychopath“ o.fl. orð yfir þetta sama, þ.e.a.s. siðblindan sem tekst að taka þátt í samfélaginu og halda sig utan fangelsismúranna).

Irene Rønn Lind heldur því fram að fyrirgefning og opnar dyr kirkjunnar geri hana að hreinasta gósenlandi fyrir siðblinda. Hún segir: „Hin jákvæðu gildi sem ríkja í kirkjunni, s.s. fyrirgefning og náungakærleikur, gera siðblindum auðvelt fyrir í innan kirkjunnar. Hin jákvæðu gildi virka nánast eins og óútfyllt ávísun fyrir hinn siðblinda og aðferðir hans. Þetta þýðir að hann fær oft að valsa óáreittur í mörg ár uns fólk fær endanlega nóg.

Hagur siðblindra er góður í kirkjusamfélaginu og það skapar vandamál því aðfarir hins siðblinda fá aukið vægi í hinu trúræna. Þetta gerir aðstæður í kirkjunni ólíkar aðstæðum á venjulegum vinnustað. Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.

Sá siðblindi mun hafa áhrif á söfnuðinn. Nærvera hans mun skaða trúnaðinn, umhyggjuna og tiltrúna. Fólki reynist erfitt að sýna trúnaðartraust því það hræðist að það sem það upplýsir verði notað gegn því. Hinn siðblindi mun alltaf sitja um að snúa vandamálum safnaðarins gegn safnaðarfólkinu sjálfu.“10

Hún vitnar í skoðun danskra vinnustaðasálfræðinga sem hafa getið sér til að u.þ.b. 10% stjórnenda í atvinnulífinu séu umtalsvert siðblindir. Irene Rønn Lind telur að hlutfallið sé svipað innan dönsku kirkjunnar en tekur fram að auðvitað sé um ágiskun að ræða. 11

Á sóknarnefndarfundum sýnir hinn siðblindi ógnandi framkomu og heitir fólki glötun. Hann þolir ekki gagnrýni, finnur ekki til samviskubits og allt sem hann gerir er einungis í eigin þágu.12

Irene Rønn Lind hefur sýnt tengsl hins siðblinda við söfnuðinn í svona töflu:

siðblindur prestur og söfnuðurinn

 Og hún lýsir því svona hvernig hegðun hins siðblinda gæti skarast við verkefni prests:

Siðblindur prestur13

  

Dæmi um bágt ástand í kirkjunni

Í inngangi bókar sinnar rekur Irene Rønn Lind nokkur dæmi úr dönskum fjölmiðlum sem sýna eyðileggjandi atferli einstaklinga. Hún tekur fram að ekki sé hægt að fullyrða að einstaklingarnir sem við sögu koma séu siðblindir en segir að þessi dæmi sýni hvernig siðblindur gæti hagað sér.

Dæmi VII er um frétt sem birtist á forsíðu Kristilegs dagblaðs í 4. apríl 2001. Fyrirsögnin var „Kirkjur Kaupmannahafnar kærðar fyrir einelti“. Í tveimur greinum og í leiðara blaðsins var lýst einelti og áreitni í 8 kirkjum þar í borg sem tilkynnnt hafði verið til Vinnuverndar (Arbejdstilsynet). Í leiðaranum var vísað til kirkjuráðstefnu og staðhæft að í fjórðu hverju sóknarkirkju í Danmörku ríkti ófriður. Irene hringdi samdægurs í blaðamanninn sem skrifaði greinarnar og komst að því að í þeim 8 tilvikum þar sem hafði verið tilkynnt um einelti og áreiti mátti rekja helminginn til sömu manneskjunnar.14

Af flokkadráttum og eineltismálum í kirkjum Kaupmannahafnar voru þau alvarlegustu í Stefánskirkjunni. Þar logaði allt í illdeilum: Tveimur prestum (Anne Braad og Ivar Larsen) líkaði engan veginn við þriðja prestinn (Lull Ross); kórinn hafði verið rekinn munnlega en starfaði samt áfram; sóknarnefndin var klofin í afstöðu sinni og organistinn var kominn í langt veikindaleyfi vegna áfallastreitu sem stafaði einkum af einelti fyrstnefndu prestanna tveggja. Organistinn, Ole Olesen, hafði þá starfað í Stefánskirkjunni í tæp 30 ár. Það var hann sem kærði til Vinnuverndar.

Presturinn sem átti undir högg að sækja hafði skrifað Kirkjumálaráðuneytinu bréf og beðið um úttekt á vinnuumhverfinu í kirkjunni. Hún hafði líkað skrifað sóknarnefndinni og tilkynnt að hún yrði fyrir einelti. Presturinn Ivar Larsen, sem virðist aðallega hafa verið stuðningsmaður sr. Anne Braad, hafði á hinn bóginn mætt á fund sóknarnefndar til að upplýsa hana um hver væru fyrstu skrefin til að reka prest vegna samstarfsörðugleika. Kórinn beið eftir formlegum uppsagnarbréfum. Um stöðu kórsins sagði Anne Braad: „Ég veit ekkert um lagagreinar og lagalega framkvæmd. En við höfum verið að vinna í því að reka kórinn í heilt ár og enn hefur ekki orðið af því. … Sennilega er það ekki hægt.“ Aðspurð hvort ekki væri stuðlað að lélegu vinnuumhverfi með að reka fólk og láta það svo halda áfram að vinna, svaraði hún: „Maður verður að reyna. Svo getur maður vonað að þau hætti sjálf.“ Fyrrum kórmeðlimur sagði í uppsagnarbréfi sínu, sem sent var til allrar sóknarnefndarinnar, prófasts og biskups: „Mér varð fljótlega ljóst að kirkjan og starfsmönnum hennar er stýrt af klíku, hópi manna sem hafa þvingað sitt í gegn með því að þegja yfir eða gefa rangar upplýsingar, beita ásökunum og ógnandi framkomu. Þær ákvarðanirnar sem þrýst var í gegn hafa á ýmsan máta ekki verið til að bæta daglegt starf í kirkjunni.“15

Siðblindur presturFimm árum síðar voru deilumálin í Stefánskirkjunni enn óleyst. Lull Ross var hætt og einungis tveir prestar starfandi við kirkjuna, þau Anne Braad og Ivar Larsen. Vinnueftirlitið taldi sig ekkert geta gert því einelti og áreiti félli utan verksvið þess. Svona mál yrðu málsaðilar að leysa sjálfir. Biskup Kaupmannahafnar vildi ekki tjá sig um málið, sagði einungis: „Þetta eru nýjar fréttir fyrir mig. Ég hef hvorki heyrt um kærurnar frá kirkjunum né frá Vinnueftirlitinu. En ég mun auðvitað skoða  málið með opnum huga.“ Organistinn hafði býsna lítið getað unnið og aðallega verið í veikindaleyfi. Það sem gerst hafði í málum hans til þessa: Hann reyndi ná sáttafundi með prestum kirkjunnar en sóknarnefndin svaraði ekki erindi hans (2001); Sóknarnefndin reyndi að reka organistann því hann gæti ekki sinnt starfinu vegna veikinda en organistinn leitaði þá til umboðsmanns („sætteombudsmand“ sem samsvarar umboðsmanni Alþingis hér á landi) (2002); Haldinn var fundur með þáverandi kirkjumálaráðherra sem krafðist þess að deiluaðilar fyndu lausn á málinu (2005); Formlegar sáttaumleitanir, að kröfu umboðsmanns,  milli presta og organista fóru út um þúfur (2005); Organistinn kom til starfa í 6 vikur en gafst upp (sumarið 2005); Sóknarnefndin vinnur í að losna við organistann með því að endurskipuleggja stöðu organista (sumarið 2006).

Sérfræðingur í stjórnun sagði um þessi mál: Sáttaumleitanir geta oft leyst deilur en einungis ef báðir aðilar vilja leysa þær, annars gerist ekkert. Í venjulegu vinnuumhverfi hefði ósættið aldrei náð svona langt, það væri örugglega búið að reka annan aðilann.16

Sennilega er það tilviljun að dæmið um siðblindan í kirkjunni í norsku bókinni Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden er líka um samskipti prests og organista. Þetta er sönn saga og segir frá konu, organistanum Ragnhildi, sem prestur kominn á efri ár kúgaði til að hætta störfum. Presturinn kom fyrir sem blíður og indæll maður, sagði brandara og virtist frjálslyndur af presti að vera. Hann hafði líka einlægan áhuga á söng og mátti heyra sterka raust hans yfirgnæfa aðra í kirkjusöng. Dag nokkurn fékk Ragnhildur bréf frá sóknarnefndinni þar sem kvartað var yfir tónlistarvali hennar. Ragnhildur hafði nokkru fyrr álpast til að segja prestinum að sálmur sem fluttur var við barnaskírn væri tæpast viðeigandi. Hún hringdi í vinkonu sína í sóknarnefndinni og vinkonan kom þá af fjöllum, sóknarnefndin hafði alls ekkert fjallað um tónlistarval í kirkjunni á sínum fundum. Þegar hún ræddi svo málin við prestinn kom fram að hann hafði haft samband við formann sóknarnefndar og að hann liti á það sem ögrun við sig þegar hún léki  eitthvað í kirkjunni sem hún hefði ekki áður borið undir hann. Ragnhildur fór að átta sig á prestinum, að hann léki tveimur skjöldum; héldi t.d. við konu sem var starfsmaður safnaðarins. En sjálf varð hún taugaóstyrk og lá andvaka á næturnar af því henni fannst hún órétti beitt.

Næst kom skrifleg kvörtun yfir að Ragnhildur hefði fært til hluti í kirkjunni, farið þannig út fyrir valdsvið sitt og brotið af sér í starfi. Á skipulagsfundum kirkjunnar leit presturinn ekki við henni og lét allar hennar tillögur sem vind um eyru þjóta. Hann var líka vanur að gera grín að tillögum annarra og tilkynna að hann myndi leysa málin sjálfur svo enginn þorði að mótmæla honum á þessum fundum.

Ragnhildur þurfti svo að taka sér frí vegna veikinda í fjölskyldunni. Presturinn tilkynnti strax að þetta yrði launalaust frí því það þyrfti að borga afleysingarmanni og hún samþykkti það. Fríið varð nokkrum dögum lengra en til stóð í upphafi en Ragnhildur lét vita á skrifstofu prestsins. Þegar hún kom aftur heim lá bréf í póstkassanum þar sem henni var tilkynnt að stöðuhlutfall hennar hefði verið lækkað niður í nokkrar klukkustundir á viku. Þegar hún spurði prestinn út í þetta svaraði hann pirraður að þetta væri ákvörðun sóknarnefndar.  Hins vegar kom í ljós að sóknarnefnd hafði aldrei fjallað um þetta mál heldur hafði presturinn fengið formann sóknarnefndar til að skrifa bréfið.

Ragnhildur hafði ekki krafta til að standa í þessu lengur og taldi að ef hún fylgdi málum eftir yrði hún stimpluð sem upphafsmaður illinda sem myndi eyðileggja starfsferil hennar innan kirkjunnar. Hún sagði upp og réði sig í aðra sókn.17
    

Hvernig er staðan á Íslandi?

Ég get ekki fundið nein dæmi þess að hættuna á að siðblindir sæki í störf innan Þjóðkirkjunnar hafi einu sinni borið á góma. Eina dæmið þar sem siðblinda í kirkjunni er beinlínis nefnd á nafn er að prestur segist hafa sagt fyrrum biskupi árið 1996 að hann væri psykopat. Í bæklingnum Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna er minnst á andfélagslega ofbeldismenn: „Þeir skiptast almennt í tvo flokka: - Hinir andfélagslegu sem hafa litla sjálfstjórn, eru uppstökkir og ofbeldishneigðir við flestar aðstæður. - Hinir dæmigerðu sem beita einungis maka sinn og börn ofbeldi.“18  Önnur dæmi um að kirkjunnar menn eða Þjóðkirkjan sem stofnun hafi brúkað orðið siðblindur (eða andfélagslegur persónuleiki, víðara hugtak sem nær m.a. yfir siðblindan) hefur mér ekki tekist að finna. E.t.v. eru Þjóðkirkjunni þessi hugtök og þessar manngerðir enn ókunnar.

[Viðbót 1. febrúar 2011. Ég hef rekist á örfá dæmi í viðbót þar sem siðblindu ber á góma í máli kirkjunnar þjóna. Þau eru:

  • Karl Sigurbjörnsson: „Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni.“ í pistlinum „Krossinn — páskarnir“ sem fluttur var í Dómkirkjunni þann 23. mars 2008. Heimild: Wikitilvitnun;
  • Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson: „Kæra Siðmenntarfólk, þetta er ekki siðmennt, heldur einhvers konar siðblinda. Af henni höfum við nóg. Þjóðin þarf í sameiningu að finna veginn út úr ógöngunum, þrönga veginn, veginn til lífsins, veg Jesú Krists, sem sjálfur er »vegurinn, sannleikurinn og lífið«. (Jóh. 14).“ Sr. Ólafur vísar til þess að Siðmennt sé andsnúin kristinfræðikennslu í skólum. Heimild: Pistill Ólafs birtur á síðu Vantrúar;
  • Sr. Birgir Ásgeirsson í „Blindu“, prédikun flutt 14. október 2007: „Einhver versta blinda sem til er, er siðblinda. Það er sú blinda, sem leiðir maninn frá því, sem er honum helgast af hjarta og hann getur tileinkað sér að grundvallaratriði, þ.e. það sem varðar tilvist hans, sannfæringu, heill og hamingju hvað mest.“ Heimild: Prédikun Birgis birtist á Trúin og lífið
  • Sr. Gunnþór Þ. Ingason í „Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi“, prédikun flutt 15. ágúst 2010: „Hroki, sjálfumgleði og siðblinda í fjármálaumsýslu leiddu til efnahagshruns í íslensku samfélagi. Auðmýkt, sem sýnir sig í gagnrýnu og heiðarlegu endurmati og iðrun, er leið til endurreisnar og nýrra hátta svo framarlega sem hún gerist farvegur Guðs anda, líknar hans og lausnar fyrir einlæga bæn og lifandi trú í Jesú nafni.“ Heimild: Prédikun Gunnþórs birtist á Trúin og lífið.

Af þessum tilvitnunum má ráða að hr. Karl er hinn eini sem hugsanlega skilur hugtakið siðblinda. Hann er þó ansi svartsýnn þegar hann heldur því fram að allt mannlegt eðli hneigist til sterkustu kjarnaeinkenna siðblindu. Sr. Ólafur fer greinilega mjög villur vega í skilningi sínum á þessari geðröskun og efast má um að sr. Birgir og sr. Gunnþór skilji um hvað þeir eru að tala, Gunnþór slær að vísu fram klisjunni „siðblinda í fjármálaumsýslu“ en lækninginn sem hann boðar bendir til að hann skilji hana ekki. Reyndar virðast allir þrír prestarnir halda að lækning við siðblindu sé fólgin í betri og meiri kristnun þjóðarinnar. Ég held að engir geðlæknar og sálfræðingar séu sammála þessu einfeldningslega viðhorfi til lækningar siðblindu.]

Siðblindur presturÁ hinn bóginn hefur ekki skort á deilur og úlfúð innan Þjóðkirkjunnar undanfarinn einn og hálfan áratug miðað við fregnir í fjölmiðlum, ekkert síður en í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum. Ég nefni nokkur dæmi - og tek það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að neinir sem málin varða séu siðblindir, þetta eru einungis dæmi um deilur, uppsagnir og ásakanir um einelti. Þau eru öll studd fréttum í fjölmiðlum en ég kýs að tengja ekki í heimildir að sinni enda kannast flestir lesendur sjálfsagt við mörg þessara mála. 

Í a.m.k. þremur tilvikum hefur organista verið sagt upp störfum, ýmist vegna óánægju prests/ presta eða sóknarnefnda. Stundum hafa sóknarnefndir fylkt sér bak við organistann og gegn prestinum, stundum hefur sóknarnefnd stutt prestinn. Prestur og djákni hafa lent í útistöðum og sóknarnefnd klofnað. Prestar hafa oft lent í útistöðum við söfnuði. Prestar hafa deilt um hver ráði einstökum kirkjum. Prestur ásakaði sóknarbörn sín um að kenna börnum sínum að leggja sig í einelti. Tiltölulega nýlega ásakaði prestur fjölmiðla landsins um að leggja alla Þjóðkirkjuna í einelti … o.s.fr. Og nú er loksins verið að rannsaka ásakanir og kærur um kynferðislegt ofeldi og kynferðislega misbeitingu fyrrverandi biskups, mál sem ráðamenn í Þjóðkirkjunni hafa gert sitt besta til að stinga undir stól allt þar til í fyrra.

Þjóðkirkjan er auðvitað í vissri klemmu þegar svona mál koma upp. Það er ekki hlaupið að því að segja upp ríkisstarfsmönnum.19  Aftur á móti virðist hún hafa verið treg til að grípa til þeirra ráða sem hún þó hafði / hefur, s.s. formlegra áminninga, sem eru undanfari uppsagnar. Helsta ráð Þjóðkirkjunnar virðist hafa verið að taka einstaka presta úr umferð með því t.d. að fá þeim annað embætti eða bara annað brauð.

Þjóðkirkjan hefur þó nýverið reynt að stemma stigu við því að hver sem er geti ráðið sig sem prestur í sókn. Að loknu Kirkjuþingi síðasta var starfsreglum sóknarnefnda og presta breytt og gert óheimilt að ráða einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hafi menn hlotið refsidóm vegna brota á barnaverndarlögum, kynferðisbrot eða önnur ofbeldisverk. Augljóst er að prestar komast ekki hjá því að sinna aldurshópnum undir 18 ára aldri, t.d. í fermingarfræðslu, svo í raun takmarkar þessi breyting ráðningu hvers sem er í prestsstarf. Aftur á móti undanskilur kirkjan dóm skv. 217. gr. almennra hegningarlaga; þar er fjallað um „minni háttar“ ofbeldi þar sem dæma má í sekt eða 6 mánaða til eins árs fangelsi. Þetta er afar einkennilegt, finnst mér, því ef kenningar þeirra norrænu rithöfunda sem ég hef rakið hér að ofan standast þá hefur Þjóðkirkjan skilið eftir víðan möskva fyrir þá hugsanlegu siðblindu sem sækjast eftir störfum innan hennar, t.d. preststarfi.20
 
 

Niðurstaða mín er að það sé  undarlegt hve íslenska Þjóðkirkjan hefur látið umræðu um siðblindu meðal kirkjunnar þjóna og hrikalegar afleiðingar hennar algerlega fram hjá sér fara;  Ekki hvað síst í ljósi þess hve mikil umræða hefur verið á Norðurlöndunum og að þar hafi verið gefnar út 3 bækur um efnið, s.s. rakið hefur verið, þar sem höfundar eru allir sammála um að kirkjan höfði sérstaklega til siðblindra. Það er ósennilegt að eitthvað annað eigi við Ísland.
 
 


1 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Friborg, Kira: „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ í Kritisk.dk Evangelist set med kritiske øje. Útg. ár vantar en skv. textanum er hann skrifaður 2007. Skoðað 27. janúar 2011.         2 Løvås, Edin. 1999.  Formáli að Den farliga maktmänniskan (sænskri þýðingu á bókinni hans) á Sola Scriptura. Fyrstu 19 kaflana (af 23) má lesa á þessum vef; kaflar 1-10 og 11-19. Stytt endursögn af sænsku þýðingunni er á blogginu Tankar kring Livet. Funderingar kring livet i stort…, færslan er frá 11. nóv. 2007.  Góð endursögn (á norsku) á helstu kenningum Løvås, settum í samhengi við fleiri kenningar um óhæfa valdsmenn innan kirkjunnar, er í pistli Gunnars Elstad, óársettum, Vanskelige medarbeidere.  Skoðað 27. janúar 2011.  

3 Løvås, Edin. 1999. 1.kafli.

4 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 202-203. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

5 Løvås, Edin. 1999. 15. kafli.

6 Tilvitnanir í Edin Løvås og endursögn á texta hans í Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

7 Løvås, Edin. 1999. 7. kafli

8 Tilvitnanir í Eden Løvås og endursögn á texta hans í  Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

9  Fernström, Kristina. 2005. Viðtal við Raimo Mäkelä. „Psykopaterna finns mitt i bland oss. Fly för livet“ í  Kyrkpressen, fimmtudaginn 10. 2. 2005, nr. 6, s. 16-17. Fontana Media, Församlingsförbundet, Finnlandi. Sjá má ritdóm um dönsku þýðinguna: Dalsgaard, Lone. 2004.  „Magtmisbrug i menigheden“ á Udfordringen.dk, 25. 3. 2004. Skoðað 27. janúar 2011.

10 Thuesen, Janni. 2007. Viðtal við Irene Rønn Lind. „Kirkens pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

11 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Larsen, Ole. „Psykolog: Pæne psykopater stortrives i kristne miljøer“ á Domino Kristent livsstils magazine, 5. febrúar 2010 (sænsk þýðing á sömu grein er hér). Skoðað 27. janúar 2011. Ath. að Hare, Robert og Paul Babiak greindu 3,5% af yfirmönnum stórfyrirtækja siðblinda [talið er að 1% manna séu siðblind] og nota niðurstöðurnar sem rök fyrir því að siðblindir sækist mjög eftir stjórnunarstöðum í viðskiptafyrirtækjum og víðar. Sjá Hare og Babiak. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.) Svo virðist sem Danir noti annað viðmið og greini miklu stærra hlutfall fólks siðblint. Það gæti stafað af því að á Norðurlöndunum þarf lægra skor á siðblindugátlista Hare (PCL-R) til að uppfylla siðblindu en líklegri skýring er að Danir telji ýmis önnur einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar til siðblindu.   

12 Thuesen, Janni. 2007.  „Kirken tiltrækker pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

13 Friborg, Kira. 2007.  „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ á Kritisk.dk. Evangelist set med kritiske øjne. Skoðað 27. janúar 2011.

Ef menn vilja lesa meira um kenningar Irene Rønn Lind má benda á grein Dorte Toudal Viftrup, sálfræðings sem situr í sóknarnefnd í Hvítasunnusöfnuðinum danska, „Psykopater på kirkens talerstol…“ á Baptistkirken.dk, 4. maí 2008. Skoðað 27. janúar 2011.

14 Lind, Irene Rønn. 2007. Inngangur að Forklædt. Pæne psykopater og deres ofre, s. 13-14. Credo Forlag, Kaupmannahöfn. Skoðað 29. janúar 2011.

15 Leiðarinn og greinarnar í Kristeligt dagblad  4. apríl 2001 eru: „Krig i kirken“, „Københavnske kirker meldt for mobning“ eftir Bente Clausen og „Stefanskirken - intrigernes holdeplads“ eftir sama höfund. Skoðað 29. janúar 2011.

16 Clausen, Bente. „Organist betales for at holde sig væk“  í Kristeligt dagblad 23. júní 2006. Skoðað 29. janúar 2011.

17 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 200-202. Þessi frásögn í  Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden byggir á raunverulegu máli innan norsku kirkjunnar. Sjá má dómsorð í málinu, AD 1995 nr 40, á Lagen.nu. Í raunveruleikanum var organistanum sagt upp en hún vann málið og henni voru dæmdar skaðabætur. Skoðað 29. janúar 2011.

18 Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna. 2003, s. 41. Þjóðkirkjan/Skálholtsútgáfan og Lútherska heimssambandið. Um skýrsluna segir hr. Karl Sigurbjörnsson í formála, s. 5,  að hún sé „staðfærð og gefin út sem verkfæri fyrir presta og djákna og söfnuði íslensku kirkjunnar til að auka skilning á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er og til að styrkja kirkjuna í því  að mótmæla því og vinna að upprætingu þess.“ Tilvitnunin í færslunni er tekin úr Viðauka: „II. Aðstoð við fólk sem liðsinnir þolendum ofbeldis. B. Að bera kennsl á menn sem berja.“ Lýsingin sem fylgir er einungis á karlmönnum í seinni flokknum. Aftur á móti eru talin þar upp hegðunareinkenni sem eiga vel við siðblinda en þau eru skýrð með lélegri sjálfsmynd.

Í þessu sambandi má nefna að sárasjaldgæft er að konur sem eru beittar ofbeldi leiti til kirkjunnar. Í niðurstöðum könnunar sem kynntar voru  í síðustu viku og var gerð árið 2008 kom í ljós að einungis 8 af 638 aðstoðarbeiðnum kvenna sem voru beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka  (eða 2,1% svara) var til prests eða starfsmanns trúfélags. Ef konur höfðu verið beittar ofbeldi af öðrum og beðið um hjálp reyndust 3 af 965 hjálparbeiðnum (0,5%) vera til prests eða starfsmanns trúfélags.  (Sjá Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds. Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Desember 2010, s. 69. Rannsóknastofnun í barna-og fjölskylduvernd og Félags- og tryggingamálaráðuneytið.) 12 árum áður var algengara að konur sem voru beittar heimilisofbeldi leituðu til prests, skv. Skýrslu dómsmálaráðherra um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. (Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Dóms-og kirkjumálaráðuneytið, febrúar 1997, s. 34. Í símakönnun vorið 1996, sem skýrslan segir frá, sögðust 20,5% kvenna sem höfðu verið beittar heimilisofbeldi hafa leitað til prests. Einungis rúmur helmingur þeirra var ánægður með þá aðstoð sem þær fengu (56,5%). Það er eflaust umhugsunarefni fyrir Þjóðkirkjuna af hverju traust kvenna, sem búa við ofbeldi, til presta hafi minnkað svo mjög á þessum 12 árum sem liðu milli kannananna.

Skýrslurnar voru skoðaðar á vefnum 29. janúar 2011.
 

19 Sjá t.d. „Prestar nær ósnertanlegir vegna æviráðningar. Ónothæfir prestar fylla fjölbýlishús - ef svo heldur fram sem horfir“ á  DV 23. mars 2000, s. 4  og „Telur of erfitt að segja upp ríkisstarfsmönnum“ í Fréttablaðinu 20. jan. 2011, visir.is. Skoðað 29. janúar 2011.

20 Starfsreglur um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir nr. 732/1998 og starfsreglum um presta nr. 735/1998. Kirkjuþing, kirkjan.is. Guðmundur Þór Guðmundsson setti inn 19.11. 2010 og Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 í  Lagasafn. Íslensk lög, 1. október 2010. Hvort tveggja skoðað 29. janúar 2011.
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda