Færslur undir „Skólamál“
Áunninn athyglisbrestur
Þegar yngri sonurinn hóf háskólanám lýsti hann því blákalt yfir hann væri haldinn áunnum athyglisbresti. Ég efast um að til sé kóðanúmer fyrir þessa röskun í ICD-10 eða DSM 5 en drengurinn útskýrði röskunina á þá leið að hann væri orðinn svo háður því að brúka snjallsíma og fartölvur að hann gæti ekki lesið langa texta. Sem þarf þá maður stundar háskólanám. (Raunar kom mér á óvart að hann skyldi hafa sloppið gegnum framhaldsskóla án þess að lesa bók en það er annar handleggur - ég kenndi honum ekki sjálf.)
Mér hefur oft orðið hugsað til þessa krankleika síðan og verð æ vissari um að mjög margt ungt fólk sé haldið áunnum athyglisbresti, er raunar ekki frá því að sjálf hafi ég snert af kvillanum öðru hvoru og er þó öfugu megin við miðaldra.
Þegar fólk venur sig á að vera sífellt að tékka á Facebook, fylgjast með sleitulausu tísti á Twitter, hlusta á meðan á tónlist í sínum eyrnafíkjum, senda eina og eina mynd á Instagram, kíkja á fyndin myndbönd á YouTube, skanna fyrirsagnir með tröllaletri á helstu slúður-vefmiðlum til að missa nú ekki af neinu og vera í leiðinni að læra með hjálp Google og skima vefsíður í stað þess að lesa þær … tja slíkt ýtir ekki beinlínis undir hæfileikann til að sökkva sér ofan í eitthvert sæmilega bitastætt efni, jafnvel torskilinn texta eða torskilda stærðfræði.
Allir kennarar kannast við hve erfitt er að fá nemendur til að leggja frá sér ástkæru snjallsímana sína í kennslustundum: Það er eins og verið sé að slíta úr þeim hjartað að heimta að síminn sé settur ofan í tösku! Og þetta er svo sem skiljanlegt: Í heilli kennslustund gæti nemandinn misst af alls konar SMS-um, spennandi Fb. skilaboðum, ógeðslega fyndnum Snapchat myndum o.s.fr. Á meðan er kannski kennarinn með hundleiðinlega glærusýningu, kannski fimmta PowerPoint sjóið sem nemandi sér þann daginn, og glærusýningin verður hvort sem er sett inn á innrakerfið og kennarinn mun hvort sem leggja glósur úr öllu námsefninu inn á sama kerfi og þetta mun hvort sem duga til að hraðlæra nógu vel nóttina fyrir prófið til að ná því: Svo til hvers að lesa bókina? Og af hverju má maður ekki hafa símann sinn við höndina?
Lausn frelsaðra frumkvöðla í skólakerfinu nú til dags er að „koma til móts við nemendur nútímans‟, þ.e.a.s. útbúa kennsluefnið á YouTube, niðursjóða námsefnið í æ styttri glósur á tölvutæku formi eða hraðendursagnir á einhverju menningarlegu, s.s. leikritum Shakespeare eða Njálu, afhenda grunnskólakrökkum I-pad og hvetja til að leikskólabörn brúki þess háttar græju líka, þykir gott ef þau byrja tveggja ára eða yngri.
Flottar skýrslur um að þetta auki sjálfstæði í námi birtast; þegar frændur vorir Danir eru uggandi yfir hve I-pad tilraunakrakkarnir þeirra mælast með allt niðrum sig í Pisa benda Íslendingar kokhraustir á að Pisa-prófin mæli einfaldlega ekki réttu hlutina og halda ótrauðir áfram á sinni snjallbraut, með snjallsíma og snjalltölvur. Og því er flaggað að kennarar sem ætlast til að nemendur lesi eða reikni eða læri í kennslustundum séu gamaldags einstefnumiðlarar sem séu löngu dottnir úr móð án þess að fatta það sjálfir. Þeir kennarar sem ætlast til heimanáms eru nátttröll.
Árangurinn af öllu þessu snjalla og netvædda er að krakkar læra snifsi hér og snifsi þar en hafa engan grunn til að standa á, ekkert bitastætt til að tengja við, þekkingarmolarnir svífa í lausu lofti.
Og þegar þeir loksins komast ekki hjá því að lesa heila bók uppgötva þeir sér til skelfingar að þeir eru komnir með áunninn athyglisbrest: Texti sem er lengri en ein skjáfylli verður þeim ofviða.
Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu þann 31. maí 2014.
Reiði og alhæfingar
Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.
Hún segir:
Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a. Brennu Njáls saga, Salka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?
Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Mér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)
Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):
Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.
Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.
Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.
Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.
Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir ;)
Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.
Er nýjasta trendið alltaf best?
Ég er nógu gömul til að muna eftir bæði sveitasíma og steinolíulömpum í mínum uppvexti. En í þessari færslu ætla ég að rifja upp aðeins nýrri tíma en bernskuna.
Veturinn 1985-86 stundaði ég kennsluréttindanám. (Verður að segjast eins og er að nánast ekkert úr því námi hefur nýst í starfi mínu sem framhaldsskólakennari en það er annar handleggur.) Eitt af því sem kennt var var svokölluð nýsitækni svo við gætum notað nýjustu tæki og tól til að lífga upp á kennsluna. Við lærðum að búa til flettilglærur, þ.e.a.s. föndra saman plastglærur í mismunandi litum og lögum. Mig minnir að ég hafi búið til glæru af óléttri konu (enda ólétt sjálf á þeim tíma), þar sem fletta mátti upp á henni kviðnum og sjá fóstrið undir: Gasalega sætt í myndvarpanum, fannst mér. Svo lærðum við að taka slæds-myndir af litmyndum í bókum.
Ég hef aldrei búið til flettiglæru síðan. Og aldrei tekið slæds-myndir af litmyndum í bókum, til að setja í framköllun og halda skuggamyndasýningu fyrir nemendur.
1986 kom fyrsta tölvan inn á heimili mitt. Mér þótti þetta mikil búbót enda hafði ég lært vélritun árið áður, ég fór nefnilega í landspróf og landsprófsnemendur lærðu ekki vélritun enda var búist við að við yrðum öll háskólaborgarar með ritara á okkar snærum þegar við yrðum fullorðin. Svo ég lærði að vélrita eftir að hafa lokið BA-prófi. Sambýlismaður minn (seinna eiginmaður) bjó sjálfur til ritvinnsluforrit í tölvuna, ágætis verkfæri nema það mátti alls ekki snerta einn ákveðinn takka á lyklaborðinu því þá þurrkaðist allt út. Í fyrstu tilraun minni til að nota þessa flottu nýju græju rak ég mig auðvitað í þann takkann og glataði merkri ritsmíð um uppeldis-og kennslufræði … en lét það ekki stöðva mig í að nota þessi nýju tæki áfram, tölvurnar altso.
Haustið 1986 byrjaði ég að kenna við Fjölbrautaskóla Akraness (sem nú heitir Fjölbrautaskóli Vesturlands). Í skólanum voru tölvur og mig minnir að Windows hafi ekki verið til þá. Einhvern tíma skömmu síðar stóð ég fyrir tilraunaverkefni í tölvustofunni sem hét Ritsmiðja. Það fólst í því að hjálpa nemendum að semja texta og ganga frá honum, eftir skólatíma. Obbinn af vinnunni var samt að hjálpa nemendum að brúka WordPerfect og Works ritvinnsluforritin.
Svo hef ég fylgst með þróun í tölvutækni allar götur síðar, byrjaði að nota internetið í janúar 1991, gegnum Imbu sálugu á Kópaskeri, Vefinn þegar hann kom til sögunnar o.s.fr. Ég hef unnið mýgrút af þróunarverkefnum tengdum þessari tækni, sem öll snérust um hvernig væri hægt að nota tæknina í kennslu og nám, í mínu tilviki íslenskukennslu.
Undanfarið hefur, í umræðu um skólamál, verið haldið mjög á lofti að í skólum sé ekki fylgst nógu vel með og þar sé ekki notuð ný tækni. Skólabækur séu óþarfar og allir eigi að nota Ipad eða önnur spjöld. Óþarft sé að kenna þekkingaratriði því nemendur geta alltaf og ævinlega flett upp á Vefnum. Nýafstaðið samræmt próf í íslensku þykir hallærislegt, jafnvel vont, af því á því birtust gamlir textar, spurt var út í óinteressant þekkingaratriði í stafsetningu o.fl. og prófið vakti alls ekki áhuga nútíma nemenda á móðurmáli sínu eða gekk út frá veruleik nútíma nemenda. Og þannig mætti lengi áfram halda.
Akkúrat núna erum við stödd í Ipad- og Iphone- og allrahandaspjaldvæðingunni miklu. En hver er þess umkominn að spá hvað verður eftir áratug, svo ég tali nú ekki um eftir nokkra áratugi? Ættu skólar að stökkva á þessar nýju græjur til að vera móðins og fylgjast með og vekja nægan áhuga? Ættu kennarar að hætta að kenna “steingeldar staðreyndaþulur” af því Gúgull frændi á svör við öllum spurningum? Eiga próf að hætta að mæla þekkingu og mæla eitthvað allt annað í staðinn eða yfirhöfuð alls ekki að mæla neitt heldur virka sem einhvers konar spennandi áhugahvöt?
Ég held að borgi sig að fara sér hægt. Hver veit nema spjöldin þyki jafn hallærisleg og slædsmyndir þykja nú, eftir áratug. Hver veit nema Vefurinn fyllist svo af óábyggilegu rusli að ekki einu sinni Gúgull frændi finni réttu svörin eftir nokkur ár. Hver veit nema Gúgull sjálfur deyi drottni sínum, eins og Altavista sáluga eða IRC-ið o.s.fr.
Ég sé sem sagt ekki ástæðu til að umbylta skólastarfi bara af því menn hafa eignast nýjar græjur. Á hinn bóginn finnst mér lofsvert hve menn eru duglegir að prófa þessar nýju græjur í kennslu og fara nýjar leiðir að markinu. Öll tilraunaverkefni kennara eru af hinu góða því hafi kennarinn áhuga á því sem hann er að gera (t.d. prófa eitthvað nýtt) þá skilar það sér í betri kennslu. Tilraunir í kennslu hafa nefnilega sams konar lyfleysuáhrif og þau frægu þunglyndislyf. Og um þetta gildir hið sama: Þegar verið er að meta árangurinn verður að hafa lyfleysuáhrifin í huga.
Vísindasjóður FF og FS
Í þessari færslu er reynt að gera grein fyrir illvígum deilum stjórnar Vísindasjóðs FF og FS við KÍ, dómsmáli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði á dögunum, kostnaði af þessum deilum og spurt hvers vegna þriðjung af stjórn Vísindasjóðs skipar kona sem er í hvorugu stéttarfélaginu sem sjóðurinn tilheyrir. Eins og kemur fram í niðurstöðum í lok færslunnar tel ég að stjórn Vísindasjóðs FF og FS sé komin langt frá því hlutverki sem hún var kjörin til að gegna, með sama áframhaldi valdi hún eigendum sjóðsins, t.d. okkur framhaldsskólakennurum, æ meira fjárhagstjóni og að það leiki vafi á að þessi stjórn sé löglega skipuð. Þetta er flókið mál en ég geri mitt besta til að rekja málavexti í færslunni.
Hvað er Vísindasjóður FF og FS?
Vísindasjóður Félags framhaldsskólakennara, FF, og Félags stjórnenda í framhaldsskólum, FS, (sem eru aðstoðarskólameistarar, áfangastjórar og aðrir aðstoðarstjórnendur), á að standa einhvern straum af endurmenntun og framhaldsmenntun félagsmanna í þessum félögum. Fé til sjóðsins kemur frá launagreiðanda, aðallega frá ríkinu, og nemur upphæðin 1,5% af föstum dagvinnulaunum félagsmanna. Félagsmenn í FF og FS geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar vegna endurmenntunar sinnar úr þessum sjóði og er endurgreitt eftir ákveðnum reglum. FF og FS eru aðilar að regnhlífarsamtökunum Kennarasambandi Íslands, KÍ, eins og mörg önnur stéttarfélög kennara, hafa aðstöðu í Kennarahúsinu og nýta sameiginlega skrifstofuþjónustu o.fl. sem þar er rekin.
Stjórn sjóðsins er kosin á aðalfundum FF og FS og þiggur því umboð sitt frá aðalfundi en ekki stjórnum félaganna. Núverandi stjórn var kosin á aðalfundum árið 2011. Í henni sitja Þórey Hilmarsdóttir, formaður, og Linda Rós Michaelsdóttir sem eru fulltrúar FF og Elísabet Siemsen sem er fulltrúi FS.
Það sem stingur sérstaklega í augu við þessa stjórn er að Linda Rós Michaelsdóttir hefur starfað sem skólameistari MR frá því 1. ágúst 2012 og er þ.a.l. ekki í stéttarfélögunum sem eiga þennan sjóð. Henni er óheimilt sem skólameistara að vera í stéttarfélagi og hún er því núna í Skólameistarafélagi Íslands, SMÍ. Það er afar undarlegt að kjörinn varamaður hafi ekki verið kallaður til þegar Linda Rós varð skólameistari.
Deila Vísindasjóðs við KÍ
Það er ákaflega erfitt að komast til botns í þessari deilu þó á yfirborðinu sé ljóst um hvað hún snýst. Hún hlýtur að eiga sér duldar skýringar því annars væri hún ekki svo hatrömm. Þær opinberu upplýsingar sem hafa birst segja að deilan snúist einkum um hvernig bókhald KÍ er fært og telur stjórn Vísindasjóðs að sjóðurinn hafi orðið af nokkru fé vegna þessa. Í bréfi sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS þann 20. október 2011 og sjá má í fréttinni sem krækt er í segir:
Af þeim gögnum sem hafa verið skoðuð er m.a. ljóst að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmlega 8 milljónir í hverjum mánuði, eru færðar út af bankareikningi sjóðsins og inn á bankareikning KÍ. Þar liggja peningar sjóðsins í nokkrar vikur þar til þeim er skilað aftur til rétts eiganda. Vextir af þessum peningum skila sér ekki til sjóðsins né hefur sjóðurinn þessar fjárhæðir til ráðstöfunar meðan þær liggja annars staðar. Í febrúar 2011 voru febrúartekjur sjóðsins, rúmlega 8 milljónir, teknar út af reikningi sjóðsins viku áður en janúartekjum var skilað til baka. Í heila viku lágu að minnsta kosti 16 milljónir af peningum sjóðsins á reikningi KÍ. Til að koma í veg fyrir að tekjur sjóðsins væru millifærðar reglulega inn á reikning KÍ gaf sjóðstjórn formleg fyrirmæli um að engar greiðslur ættu sér stað af bankareikningi sjóðsins nema með samþykki sjóðstjórnar. Undanskildar voru styrkgreiðslur skv. listum frá ritara sjóðsins. Þessum fyrirmælum var í engu svarað né orðið við þeim.
Fjársýsla ríkisins greiddi (og greiðir) umsamda upphæð vegna endurmenntunar félaga í FF og FS beint inn á reikning KÍ og neitaði að breyta því fyrirkomulagi á þeim forsendum að kennitala Vísindasjóðs væri ekki á svokölluðum BIK reikningi sem greitt var inn á. BIK stendur fyrir Bókunar- og innheimtumiðstöð KÍ og er skráð á kennitölu KÍ. Fjársýsla ríksins greiddi ýmis gjöld ósundurliðuð inn á þennan reikning mánaðarlega og starfsmenn KÍ færðu svo upphæðina sem Vísindasjóði bar inn á sérstakan reikning Vísindasjóðs. Vissulega varð Vísindasjóður af vaxtatekjum af sínu fé vegna þessa fyrirkomulags. Óvíst er hversu háa upphæð var um að ræða en sé miðað við dæmin sem tekin eru í bréfi Vísindasjóðs hér að ofan má áætla að um einhver hundruð þúsund króna á ári væri að tefla. Ætla má að lítið mál væri að semja um að áætlaðar bætur upp á ekki hærri upphæð yrðu endurgreiddar Vísindasjóði eða dregnar frá þjónustugjaldi því sem KÍ krefur endurmenntunarsjóði kennarafélaganna um.
Stjórn KÍ sendi frá sér yfirlýsingu 21. október þar sem ásökunum um bókhaldssvik í bréfi Vísindasjóðs var hafnað og áréttaði með annarri yfirlýsingu þann 22. nóvember 2011.
Stjórn Vísindasjóðs kvartaði einnig yfir að KÍ rukkaði sjóðinn um þjónustugjald sem ekki hafði verið samið um. Það er alveg rétt að KÍ rukkaði endurmenntunarsjóði o.fl. aðila um talsverða upphæð árlega skv. hefð en ekki samningi. Fyrir þetta þjónustugjald fékk sjóðurinn skrifstofuþjónustu, þjónustu endurskoðenda o.fl. Í kjölfarið á óánægju með þetta fyrirkomulag voru gerðir þjónustusamningar við þá aðila sem KÍ veitir aðstöðu og þénustar. Ég finn hvergi sundurliðun á þessum þjónustusamningum KÍ við endurmenntunarsjóði innan samtakanna (ósundurliðuð upphæð í fjárhagsáætlun KÍ var samþykkt á þingi samtakanna í apríl 2011). Í Ársskýrslu Vísindasjóðs til Fulltrúafundar FF 29. mars 2012 segir að þjónustugjald KÍ sé 5% af tekjum sjóðsins:
KÍ hefur gert kröfu á sjóðinn í nokkrum liðum. Meðal annars gerir KÍ tilkall til 5% tekna sjóðsins fyrir árið 2011 í þjónustugjöld. Sú krafa nemur tæpum 6 milljónum króna og til vara 3,7 milljónir í launfyrir árið 2011. Því má draga þá ályktun að aðstöðugjald sjóðsins hjá KÍ (fyrir utan laun) sé um 2,3 milljónir fyrir 9 mánuði árið 2011. Ennfremur gerir KÍ kröfu á sjóðinn vegna útlagðs kostnaðar semnemur 4,3 milljónum. Unnið er að því að meta réttmæti krafna KÍ.Gerður hefur verið skammtímasamningur um aðstöðuleigu og greiðir sjóðurinn nú kr. 63.750 á mánuði eða rúmlega kr. 750.000 á ári fyrir aðstöðu. Gera má ráð fyrir að sjóðurinn þurfi starfskraft í
20 – 30% starfshlutfall (áður var greitt fyrir 50% stöðugildi).
Deilur stjórnar Vísindasjóðs við einstaka starfsmenn KÍ virðast hafa magnast úr öllu valdi. Til þess bendir m.a. bókun fundi KÍ þann 25. mars 2011, samþykkt samhljóða:
Bókun um Vísindasjóð FF/FS
„Vegna athugasemda sem fram hafa komið frá hendi stjórnar VÍS FF/FS við störf starfsmanna KÍ við bókhald og fjármálaumsýslu sjóðsins vill stjórn KÍ færa eftirfarandi til bókar.
Þessar athugasemdir eiga ekki við rök að styðjast og lýsir stjórn KÍ yfir fullu trausti á störf þeirra starfsmanna sem hér um ræðir, þ.e. skrifstofustjóra og gjaldkera sjóða. Störf þeirra við bókhald og fjármál sjóðsins hafa verið í fullu samræmi við lög og reglur.
Vegna vinnu löggiltra endurskoðenda sambandsins vill stjórn KÍ einnig taka fram að hún telur vinnu þeirra vera í fullu samræmi við lög og reglur. Stjórnin harmar vinnubrögð sjóðsstjórnarinnar og furðar sig á því að hún hafi ekki reynt til þrautar að afla upplýsinga hjá KÍ í stað þess að bera athugasemdir við störf umræddra starfsmanna undir álit þriðja aðila“.
Þessi bókun var seinna dregin til baka og sér hennar nú ekki stað í fundargerð á síðu KÍ.
Harðvítugar deilur má einnig lesa úr bréfi því sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS og e.t.v. fjölmiðlum einnig, þann 20. október 2011 en þar segir:
Þegar sjóðstjórn varð ljóst að óeðlileg tregða var hjá starfsmönnum KÍ að afhenda bókhaldsgögn leitaði hún til löggilts endurskoðanda KÍ um að hann hlutaðist til um að bókhald sjóðsins yrði afhent. En allt kom fyrir ekki.
[- - -]
Fyrir utan ofangreint hefur starfsfólk KÍ sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir Vísindasjóð FF og FS neitað að hafa bein samskipti við sjóðstjórn. Starfsmaður KÍ hefur hótað sjóðstjórn meiðyrðamáli.
Stjórn Vísindasjóðs segir skilið við KÍ og formann FF
Þann 3. október 2011 afturkallaði stjórn Vísindasjóðs prókúru gjaldkera KÍ á bankareikning sjóðsins. Inn á þann bankareikning höfðu aðrir en Fjársýsla ríkisins greitt, þ.e. einkaskólar. Einhverra hluta vegna hafði fé þaðan verið fært inn á almennan reikning KÍ og síðan fært til baka ásamt hluta af þeim hluta af stóru summunni sem Fjársýsla ríkisins greiddi mánaðarlega ósundurliðað til KÍ sem Vísindasjóði bar. Þetta taldi stjórn Vísindasjóðs vera brot á bókhaldslögum.
Stjórn Vísindasjóðs heldur því fram, skv. reifun dómsmáls, að sjóðnum hafi verið vísað úr húsi [Kennarahúsinu] í nóvember 2011. Síðan þá hefur Vísindasjóður haft aðsetur að Bitruhálsi 2. Á almennum félagsfundi í FF þann 17. janúar 2013 sagði formaður stjórnar Vísindasjóðs að stjórninni hefði verið varpað á dyr úr Kennarahúsinu en litlu síðar á sama fundi túlkar hún höfnun KÍ á að afhenda stjórnarmönnum bókhaldsgögn sem þeim hafi verið „bolað úr húsinu“. Til að flækja málin segir stjórn Vísindasjóðs í ársskýrslu sem stjórnin sendi fulltrúarfundi FF 29. mars 2012 að það að KÍ hafi ekki viljað taka áfram við umsóknum um styrki úr Vísindasjóði eftir að stjórn Vísindasjóðs bar KÍ þungum sökum í bréfi til félagsmanna FF og FS og hafði tekið prókúru af KÍ jafngildi að sjóðnum væri úthýst úr KÍ húsinu. Þannig að hin dramatíska lýsing, varpað á dyr, virðist eitthvað málum blandin.
Í fundargerð stjórnar FF frá 7. nóvember 2011 segir í samþykktri bókun:
Í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa sem fela meðal annars í sér að færa eigi starfsemi Vísindasjóðs FF/FS úr Kennarahúsinu harmar stjórn FF hvernig málum er komið.
Ljóst er að stjórn Vísindasjóðs var, þegar hér var komið sögu, ekki einungis uppsigað við einstaka starfsmenn í Kennarahúsi heldur einnig formann stjórnar FF og virðist sem stjórn Vísindasjóðs hafi neitað að taka þátt í fundum væri formaðurinn viðstaddur. Um þetta er skráð í fundargerð stjórnar FF þann 14. nóvember 2011:
Vegna þeirrar afstöðu stjórnar Vísindasjóðs FF/FS að formaður FF taki ekki þátt í þessum fundi vill stjórn FF taka fram að formaður ákvað í samráði við stjórnina að víkja sæti í þetta sinn. Stjórn FF leggur áherslu á að formaður FF er oddviti stjórnar og hlýtur í framhaldinu að sinna störfum sínum í þessu máli sem öðrum með eðlilegum hætti.
og í fundargerð stjórnar FF þann 5. desember 2011 er skráð:
Orðið er gefið laust um fundinn 28. nóvember sl. og um framtíðina í samskiptum stjórnar FF og sjóðsstjórnar. Eftirfarandi samþykkt:
1. Tölvupóstur verði nýttur til að vinna með formleg, „konkret“ mál, önnur mál verði rædd augliti til auglitis óformlega og verði varaformaður FF tengiliður við sjóðsstjórn.
2. Óformlegir fundir sem tengiliður stjórnar FF á með FS og sjóðsstjórn verði fyrir opnum tjöldum, fyrirhugaðir fundir verði „tilkynntir“ áður en þeir eru haldnir, efni þeirra, fundargerðir og þess háttar komi inn á borð stjórnar FF.
3. Ekki kemur til álita að stjórnir FF, FS og Vísindasjóðs FF/FS hittist án formanns FF.
Vísindasjóður ræður sér lögfræðing og höfðar mál
Í janúar 2011 réði stjórn Vísindasjóðs sér lögfræðing vegna óánægju með hvernig bókhald KÍ var fært og komst stjórnin fljótlega á þá skoðun að KÍ bryti með þessu bókhaldslög. Í fundargerð stjórnar KÍ 9. júní 2011 sést að Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður er farin að ganga erinda stjórnar Vísindasjóðs og krefst þess að bókhald Vísindasjóðs verði aðskilið frá öðru bókhaldi KÍ og þau frumgögn KÍ sem snerta Vísindasjóð verði afhent stjórn Vísindasjóðs.
Skömmu síðar höfðaði stjórn Vísindasjóðs mál gegn KÍ, þ.e. sendi inn svokallaða innsetningarbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Innsetning felst í því að einhver er knúinn til þess að veita öðrum umráð yfir lausafé eða munum, með atbeina dómsyfirvalda. Í þessu tilviki krafðist stjórn Vísindasjóðs að KÍ afhenti sér aðgang að innheimtumiðstöð sinni, BIK-kerfinu, að því er varðaði allar færslur sem snertu fjárhag Vísindasjóðs frá árinu 2008. Í reifun málsins kemur fram að þessi gögn sem Vísindasjóður krefst umráða yfir eru t.d. gögn um fyrir hvaða tímabil hafi verið greitt fyrir hvern sjóðsfélaga og sundurliðun á greiðslum KÍ til Vísindasjóðs, væntanlega framlagi Fjársýslu ríkisins sem KÍ tekur við og færir inn á reikning Vísindasjóðs.
Vörn KÍ byggist á því að þessi innsetningarbeiðni sé krafa um gögn sem Vísindasjóður haldi ekki fram að sé sín eign heldur telji að gögnin kunni að innihalda upplýsingar sem stjórn sjóðsins eigi rétt á að fá aðgang að. KÍ hafi nú þegar afhent Vísindasjóði allt sem sjóðurinn átti rétt á að fá eftir að stjórn hans ákvað að taka yfir þann hluta af starfsemi sjóðsins sem KÍ sinnti áður, þar á meðal bókhaldsgögn og gagnagrunn sjóðsins. KÍ sé ekki skylt að halda nákvæmt sundurgreint bókhald yfir inngreiðslur Fjársýslu ríkisins til Vísindasjóðs þar sem Vísindasjóður hafi ákveðið að taka bókhald sjóðsins í eigin hendur.
Dómur féll í málinu þann 18. febrúar sl. Kröfu Vísindasjóðs var hafnað og dæmt að sjóðurinn skyldi greiða málskostnað KÍ, 300.000 krónur.
Vangaveltur um rétt stjórnar Vísindasjóðs og umsýslu Vísindasjóðs í höndum þessarar stjórnar
Þær Þórey Hilmarsdóttir og Linda Rós Michaelsdóttir voru fyrst kjörnar í stjórn Vísindasjóðs á aðalfundi FF í mars árið 2008 og endurkjörnar á aðalfundi FF í mars 2011. Elísabet Siemsen var endurkjörin fulltrúi FS í júní 2011 en ég veit ekki hve lengi hún hafði setið í stjórn Vísindasjóðs þá. Í stjórnina voru jafnframt kjörnir varamenn, einn frá hvoru félagi. Hér má sjá mynd af núverandi stjórnarmönnum Vísindasjóðs og varamönnum.
Af því stjórn Vísindasjóðs er kjörin beint á aðalfundi FF heyrir hún líklega ekki undir stjórn FF. Á hinn bóginn ber henni að starfa eftir reglum um sjóðinn og lögum FF. Síðan 1. ágúst sl. hefur Linda Rós Michaelsdóttir ekki verið félagsmaður í FF og ekki heldur í KÍ. Hún er félagi í Skólameistarafélagi Íslands, sem á enga aðild að Kennarasambandi Íslands. Af hverju varamaður FF var ekki kallaður til þegar Linda Rós missti aðild sína að stéttarfélagi framhaldsskólakennara er með öllu óskiljanlegt en vekur auðvitað þá spurningu hvort málum stjórnar Vísindasjóðs sé nú þannig komið að þau þoli ekki skoðun annarra en þeirra þriggja kvenna sem stjórnina hafa skipað um árabil. Þráseta Lindu Rósar í stjórn Vísindasjóðs FF virðist hafa verið rædd á fundi KÍ í ágúst 2012 án þess að nafn hennar sé nefnt (sjá lið 4.b).
Sömuleiðis er óskiljanlegt að stjórn Vísindasjóðs FF neiti að hitta formann FF og ræða málavafstur sitt að henni viðstaddri. Stjórn Vísindasjóðs er ekki samheldinn saumaklúbbur úti í bæ sem velur sér viðmælendur (og viðhlæjendur). Ef konurnar í stjórn Vísindasjóðs geta ekki umgengist formann FF ættu þær að segja af sér enda liklega óhæfar til að gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið FF.
Þótt stjórn Vísindasjóðs sé heitt í hamsi yfir meintum bókahaldssvikum KÍ hefur stjórninni ekki tekist að uppfylla lágmarkskröfur um bókhald Vísindasjóðs svo opinbert sé og upplýsingar um þennan sjóð liggja hreint ekki á lausu. Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara í mars 2010 átti Vísindasjóður að leggja fram ársskýrslu en hennar sér engan stað í fundargögnum, Í ársskýrslu stað er birt upplýsingabréf til félagsmanna um upphæð sem hægt var að sækja um í A-deild og B-deild sjóðsins í mars 2010.
Engin úr stjórn Vísindasjóðs sá sér fært að mæta á fulltrúafund Félags framhaldsskólakennara í mars 2012. Fulltrúafundir eru haldnir þau ár sem ekki er aðalfundur og fara með málefni stéttarfélagsins, gera þar á meðal grein fyrir fjárhagsstöðu þess, milli aðalfunda sem eru á þriggja ára fresti. Á þennan fulltrúafund sendi stjórn Vísindasjóðs einn af lögmönnum sínum, sem lagði fram drög að ársreikningi 2011 og sagði að hann yrði sendur félagsmönnum þegar búið væri að ganga frá honum. Nokkrar umræður spunnust um þennan lið og af því sem bókað er sést að þær Þórey og Linda Rós eiga stuðningsmenn úr sínum eigin skólum (FSu og MR) en aðrir sem taka til máls eru lítt hrifnir af háttalagi þeirra eða vafstri með Vísindasjóð FF. Sem dæmi um málflutning má nefna að kennari úr MR kallar stjórnina „þessar góðu konur“ en kennari úr MH er ósáttur við að „stjórnarmenn sjóðsins séu orðnir starfsmenn hans og að sjóðurinn sé kominn á skrifstofu úti í bæ“ og telur „engar heimildir vera í lögum og reglum FF sem heimili stjórn sjóðsins að segja sig úr félagi við félagið sjálft.“ Mögulega hefur stjórn Vísindasjóðs gengið frá ársreikningi ársins 2011 og sent félagsmönnum síðar, ég var ekki í FF árið 2011 og þætti sem nú starfandi framhaldsskólakennara mun skynsamlegra að hann lægi frammi á vef.
Það er erfitt að meta hvort kostnaður við rekstur og umsjá Vísindasjóðs hafi lækkað við að stjórn sjóðsins færði hann úr Kennarahúsinu í leiguhúsnæði því ársreikningar liggja ekki frammi og einungis eru orð stjórnarinnar fyrir þessu. Í fundargerð almenns félagsfundar í FF í janúar sl. er haft eftir Þóreyju Hilmarsdóttir formanni stjórnar sjóðsins: „[…] kostnaður og útgjöld er kr. 7,1 milljón. Kostnaður í KÍ húsi hefði verið 7,5 milljónir.“ Líklega er hún að tiltaka kostnað ársins 2012 en það kemur ekki fram í fundargerð. Þótt kostnaðurinn virðist hafa lækkað um 400.000 kr. við flutning sjóðsins er spurning hvort stjórn sjóðsins vinni við hann sem starfsmenn í sjálfboðavinnu (sem ekki er í samræmi við lög og reglur um þennan sjóð) og einnig vaknar sú spurning hvort löggiltum endurskoðendum hafi verið greitt fyrir að yfirfara ársreikninga Vísindasjóðs fyrir árið 2012, svo ekki sé talað um spurninguna um hvort samþykktir ársreikningar fyrir árin 2011 og 2012 séu til. Önnur gögn um kostnað af málavafstri stjórnar Vísindasjóðs er að finna í ársskýrslu sjóðsins sendri fulltrúafundi FF í mars 2012:
Vinna sjóðstjórnar við að fá aðgang að gögnum sjóðsins og yfirtaka rekstur hans hefur kostað töluverð fjárútlát meðal annars vegna mótþróa KÍ. Kostnaður við stjórnarfundi hefur rúmlega fjórfaldast milli áranna 2010 og 2011. Rúmlega helming þess kostnaðar má rekja til fundahalda sem tengjast beint gagnaöflun og fundum með lögmönnum og öðrum sérfræðingum. Tæpur helmingur kostnaðar er vegna reglulegra stjórnarfunda og úthlutunarfunda, sem voru margir í október og nóvember. Útlagður kostnaður við aðstoð lögmanns hefur verið all nokkur.
Á fyrrnefndum almenna félagsfundi FF í janúar sl. var Þórey Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs, spurð um lögfræðikostnað Vísindasjóðs. Hún svaraði því til að á árinu 2012 hefði verið eytt 1,5 milljón í lögfræðikostnað. Þetta er ekki bókað í fundargerð og ég finn hvergi upptöku af þessum fundi, byggi því á eigin minni en ég fylgdist með beinni útsendingu frá fundinum.
Í ársskýrslu Vísindasjóðs til fulltrúafundar FF í mars 2012 segir að Vísindasjóður muni endurkrefja KÍ um allan kostnað sem til hefur fallið við öflun upplýsinga og gagna og má því ætla að stefni í langvinnar lagaþrætur af hálfu stjórnar Vísindasjóðs. Í því máli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði í síðustu viku var sjóðurinn dæmdur til að greiða málskostnað KÍ.
Niðurstaðan
Þegar allt er saman dregið má ætla að umsýslu KÍ hafi verið að því leytinu ábótavant að Vísindasjóður varð af nokkrum hundruðum þúsunda króna vaxtatekjum á ári hverju. Líklega hefði með lagni verið hægt að ganga frá því máli þannig að KÍ bætti Vísindasjóði þann skaða. En þetta mál og möguleg stirfni bæði starfsmanna KÍ og stjórnar Vísindasjóðs varð til þess að stjórn Vísindasjóðs réð sér lögfræðing, deilurnar mögnuðust, stjórnin flutti sjóðinn úr húsakynnum KÍ, höfðaði mál gegn KÍ og tapaði því máli á dögunum.
Þótt ekki hafi verið upplýst til hve hárrar upphæðar stjórn Vísindasjóðar hefur stofnað í lögfræðikostnað og greiðslu málskostnaðar er sú upphæð veruleg, a.m.k. samanborið við meintan hýrudrátt KÍ af þessum sjóði. Miðað við framgang kvennanna sem stýra sjóðnum er óvíst að bitið sé úr nálinni með þetta, þær gætu allt eins áfrýjað málinu til Hæstaréttar sem þýðir meiri lögfræðikostnað, sem við, framhaldsskólakennarar, greiðum. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessum fjáraustri enda get ég ekki séð að hann komi okkur sem eigum að njóta góðs af þessum sjóði á nokkurn hátt til góða.
Upplýsingagjöf frá stjórn Vísindasjóðs til þeirra sem eiga sjóðinn, þ.e.a.s. félagsmanna í FF og FS, er mjög skorin við nögl enda virðist stjórnin ekki geta mætt á formlega fundi FF sem eru bókaðir og fundargerðir þeirra birtar, hvorki notað vef KÍ né haldið úti eigin heimasíðu. Fram kemur að stjórn Vísindasjóðs getur ekki átt samskipti við formann FF. Sem félagsmaður í FF lýsi ég því yfir að svo viðkvæmir stjórnarmenn í Vísindasjóði FF og FS eru óhæfir og ættu að segja af sér. Ég veit ekki hvort þetta á við allar konurnar í stjórn sjóðsins.
Annar fulltrúi okkar framhaldsskólakennara í stjórn Vísindasjóðs er alls ekki í stéttarfélaginu okkar heldur gegnir nú starfi skólameistara. Stjórn Vísindasjóðs virðist ekki hafa til hugar komið að kalla inn kjörinn varamann þetta ár sem hún leysir skólameistara MR af. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessari háttalagi, mér finnst það í meira lagi vafasamt þótt ég geti ekki fullyrt um að það sé ólöglegt.
Svo virðist sem eina leiðin til að losna við stjórn Vísindasjóðs sé að kjósa nýja fulltrúa á aðalfundum FF og FS. Eins og ég hef rakið lýtur núverandi stjórn einungis eigin vilja og virðist ekki starfa í þágu okkar félagsmanna. Ég legg því til að félagsmenn í FF ræði þessi mál í sínum hópi og krefjist auka-aðalfundar svo kjósa megi ábyrga og minna-móðgunargjarna fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs FF og FS.
Eru nýir kennsluhættir afturhvarf til miðalda?
Ég er byrjuð að kenna aftur eftir þriggja ára hlé. Þess vegna les ég af áhuga ýmislegt um kennslu, þ.á m. ýmislegt um hvernig upplýsingatækni (netið og tölvudót hvers konar) er talin kalla á einhvers konar gjörbyltingu í kennsluháttum, svo og um nýja menntastefnu sem Menntamálaráðuneytið samþykkti 2011, á að taka gildi að fullu árið 2015 en miðað við að vinnuveitandi framhaldsskólakennara, ríkið, er ekki tilbúið að greiða kennurum fyrir vinnuna við að koma þessari stefnu á koppinn er fjarskalega ólíkt að svo verði.
Hugmyndir um að upplýsingatækni valdi eða eigi að valda gjörbyltingu í kennsluháttum eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Í hvert sinn sem ný tækni hefur orðið almenn hafa menn ýmist jesúsað sig eða dásamað tæknina og séð fyrir sér að hér með verði hefðbundið skólastarf (í skólastofu, með kennara sem kennir og bekk/námshópi sem lærir, í kennslustund) úr sögunni. Þetta gerðist t.d. þegar sjónvarp var fundið upp. Og þegar internetið varð til. Og þegar Vefurinn varð til. Og núna er dýrðin fólgin í spjaldtölvubrúki.
Upplýsingatækni nútímans felst fyrst og fremst í greiðum aðgangi að óhóflegu magni upplýsinga af hvers kyns toga, þar er drasl og gagnlegt efni í ósorteruðum haug. Þeir sem hafa séð upplýsingatækniljósið halda því fram að alltof mikil áhersla sé lögð á þekkingu, hún sé mikið til óþörf því nú geti nemendur fundið þekkingaratriði á Vefnum ef á þarf að halda. Í stað kennara sem beitir þeirri illu aðferð „ítroðslu“ kemur Google. Kennslan felst þá væntanlega í einhvers konar tæknikennslu, þ.e.a.s. að kenna nemendum að leita að þekkingunni og hvetja þá til að brúka þekkingarmolana sem þeir hirða upp til einhverra skynsamlegra verka. (Ágætt dæmi um þennan málflutning má sjá í bloggfærslu Ragnars Þórs Péturssonar, Tækni og tilgangur, frá 5. jan. sl. Ragnar hefur verið duglegur að blogga um dásemdir spjaldtölva og æskileg áhrif þeirra á skólastarf, sjá efnisflokkinn Maurildi um menntamál á blogginu hans. Hann er velskrifandi og skemmtilegur bloggari svo ég hvet kennara sem hafa áhuga á þessari hugmyndafræði til að lesa pistlana hans.)
Nú er ég byrjuð að kenna Snorra-Eddu, miðaldakennslubók sem skrifuð var á 13. öld til að kenna skáldum þann grunn sem þau þurftu til að geta hnýtt sæmilegar kenningar eða brúkað annað myndmál í sínum kvæðum. Sá hluti Snorra-Eddu sem kenndur er í framhaldsskólum er settur upp eins og tíðkaðist í kennslubókum miðalda, nefnilega þannig að „nemandinn“ spyr og „kennarinn“ svarar. Kennslufræði kennarans (Óðins í líki kennarateymis) samrýmist ekki alveg nútíma pólitískt réttri kennslufræði því hann gerir oft lítið úr nemandanum, hnýtir „eigi er fróðlega spurt“ eða öðrum þessháttar meldingum við svörin við þeim spurningum sem birta algera vanþekkingu eða heimsku, að mati kennarans.
Í nútímanum hefur Google tekið við af Óðni. Nú geta nemendur spurt Google að hverju því sem þá lystir að vita hvenær sem er því nú eru allir sítengdir gegnum snjallsíma eða spjaldtölvu eða fartölvu eða jafnvel borðtölvu (ef þeir eru mjög gamaldags, eins og sú sem þetta ritar). Nú er alger óþarfi að festa sér neitt í minni því öllu má fletta upp á Vefnum. Eða þannig hljómar hið heilaga orð upplýsingatæknisinna …
En Gúgull er ekki síðra ólíkindatól en Óðinn! Hvernig í ósköpunum eiga nemendur að meta hvort upplýsingarnar sem þeir afla með hjálp Gúguls séu traustar eða ótraustar, bull eða rétt þekking?
Ég prófaði að setja mig í stellingar nemanda í ÍSL 212 sem hefur nútímalegan kennara (sem ekki vill verða mannlegur steingervingur og allt það …). Nemandinn hefur ekki þurft að tileinka sér agnar ögn af þekkingu á efni Snorra-Eddu en er þess upplýstari um hvernig fólk hefur um aldir leitast við að búa til skipulag í heimsmynd sinni og gott ef kennarinn hefur ekki tínt til sambærilegar goðsagnir úr helstu trúarbrögðum heims í sinni kennslu, kennt í forbífarten smávegis í mannfræði, sálfræði og kynjafræði og sýnt skemmtileg vídeóbrot, frá Monty Python og uppúr. Nemandinn á í þykjustunni að skrifa stutta ritgerð um æsi en hann kann ekki að beygja orðið ás enda er það óþarfi því hann getur bara flett upp beygingunni. Nemandinn gúgglar „æðsti guðinn“. Gúgull skaffar honum fullt af upplýsingum, þær fyrstu eru:
Eftir að hafa eytt tíma í að skoða fyrstu skjáfylli af krækjum … gefum okkur til hægðarauka að fyrsta krækja í efni á forræði kennarans birtist ekki … rifjast upp fyrir nemanda að líklega heiti æðsti guðinn í námsefninu í þessum áfanga Óðinn. Svo hann gúgglar „Óðinn“.
Sjálfsagt finnur nemandinn á endanum þær upplýsingar sem hann er að leita að. Og raunverulegur nemandi mundi auðvitað gúggla allrafyrst „ritgerð um Snorra-Eddu“ En tíminn sem það tekur að finna upplýsingarnar á Vefnum er óhóflegur miðað við þann tíma sem það tæki að fletta upp sömu upplýsingum í Snorra-Eddu ef nemandinn hefði þá lágmarksþekkingu á efninu að vita svona nokkurn veginn hvar væri hægt að finna þær eða skrifa frá eigin brjósti byggt á þekkingu sem nemandinn hefði öðlast á efninu.
Í litlu verkefni sem ég lagði fyrir nemendur fyrir mörgum árum síðar kristallaðist takmörkun Vefjarins í þekkingaröflun og ofurtrú nemenda á sama miðli. Þetta var spurningalisti og fyrirmælin voru að leita á Vefnum og í kennslubókinni. Ein spurningin var: „Hvaða handrit Egils sögu liggur til grundvallar kennsluútgáfunni sem þið lesið?“ Enginn nemendanna gat svarað þessari spurningu en þeir fullvissuðu mig um að þeir hefðu reynt að gefa upp alls konar leitarorð og lagt mikla vinnu í leitina að svarinu, án árangurs. Engum nemendanna datt í hug að fletta formálanum að Egils sögu sem þeir þó lögðu við hliðina á tölvunum (þetta var í gamla daga svo nemendur unnu á borðtölvur, í sérstakri tölvustofu). Svarið er ekki mikilvægt í þekkingu á námsefninu en leitin að því slær eilítið á blinda trúna á að Google sé alvitur og almáttugur og að þeim verði ljóst að stundum er miklu fljótlegra að leita í kennslubók/bók.
Ég er ekki viss um að þessi miðaldaðferð, discipulus spyr magister, hafi nokkru sinni virkað sérlega vel í námi. Ég held það breyti litlu þótt Google sé núorðið í hlutverki magisters. Áðan hraðskrunaði ég yfir nýútkominn bækling Menntamálaráðuneytisins Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum, á tölvutæku formi auðvitað og því fór lesturinn fram á hundavaði. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að enginn sem kom að ritun þessa bæklings hefur þá menntun til að kenna íslensku á framhaldsskólastigi sem krafist er nútildags eða reynslu af því starfi blasir við það vafamál að höfundur og ritnefnd hafi sérstakt vit á lestri, a.m.k. lestri fólks sem er eldra en fimmtán-sextán ára. Annar kafli bæklingins, Litbrigðin og læsið, hefst svona:
Kvöld nokkurt, þegar höfundur þessarar samantektar hafði lesið of stóran skammt af blaðaviðtölum og greinum um læsi, sá hann fyrir sér konu sem honum fannst vera persónugervingur læsisfræðanna, konu sem hægt væri að rekja úr garnirnar varðandi lestur og ritun. Um hvað spyrðu blaðamenn slíka konu, spurði höfundurinn sjálfan sig, ef þeir ættu viðtal við hana á alþjóðlegri læsisráðstefnu sem haldin væri í stóru húsi við Reykjavíkurhöfn, og hvernig myndi hún hugsanlega svara? Það er ekki gott að segja en það má hugsa um það fram og til baka.
Svo hefur upp ímyndað samtal þar sem höfundur bæklingsins, fjölmiðlafræðingurinn Stefán Jökulsson, ímyndar sér að hann sé blaðamaður og spyr kvenkyns persónugerving læsisfræðanna, kallaða Fræðikonu, … í anda miðaldarita!
Er þetta afturhvarf til miðalda, að þekking sé óþarfi því það megi spyrja Google að öllu, almennt samþykkt meðal framhaldsskólakennara?
Vandinn að kenna rétt
Á vorönn komandi kenni ég einn áfanga, ÍSL 212. Ég hef verið með öllu óvinnufær síðastliðin þrjú ár og raunar er meir en áratugur síðan ég kenndi þennan áfanga síðast. Svo ég er aðeins byrjuð að glöggva mig á námsefni og kennsluháttum þessa áfanga undanfarnar annir, einnegin námskrá.
Undanfarið hefur mér orðið æ ljósara hve pólitísk rétthugsun er nú mikilvæg og hvernig röngtensjónum hinna rétthugsandi er beint að einstökum skólum, frá leikskólanum Hagaborg upp í einstaka framhaldsskóla. Rétthugsunarstígurinn er vandrataður, hættulegir fordómapyttir við hvert fótmál og vei þeim kennara sem verður uppvís að ranghugsun! Sama gildir um nemendur.
Til öryggis hef ég skoðað Aðalnámskrá framhaldsskóla enn einn ganginn og ígrundað sex grunnþætti menntunar á þessu skólastigi í allan dag. Suma er auðvelt að flétta í kennslu ÍSL 212 en málin þykja mér vandast talsvert þegar ég fer að velta fyrir mér sjálfbærni, jafnrétti og mannréttindum í tengslum við námsefni og algenga kennsluhætti. Ég reikna með að halda fyrri venjum í þessu starfi þ.e. að líta á nemendur sem fólk og umgangast þá eins og fólk en ekki staðalmyndir síns kyns. En dugir svoleiðis afdalamennska til að afgreiða grunnþættina jafnrétti og mannréttindi? Þarf ekki að passa annars vegar að kennslan og námsefnið endurspegli jafnrétti og taki á mögulegu kynjamisrétti og hins vegar að gæta afar vel að mannréttindum (þ.e. helgu trúleysi) minnihlutahópa? Eftir dyggan lestur netmiðla þetta haustmisseri virðist mér að akkúrat þetta séu mál málanna.
Í ÍSL 212 eru aðalviðfangsefnin málsaga og Snorra-Edda Snúum okkur fyrst að málsögunni:
Í fljótu bragði sýnist mér auðsýnt að ég verð að hætta að nota Faðirvorið í samanburðardæmum á gotnesku, fornensku, Norn, latínu og íslensku. Hef umhugsunarlaust flaggað þessum útlendu textum og treyst á að nemendur kynnu íslensku útgáfuna en sé auðvitað núna að þarna gæti ég talist vera með hroðalegt og ísmeygilegt trúboð. Svo það verður að skipta um texta … verstur fjandinn að það er ekkert bitastætt til á gotnesku nema Nýjatestamentsþýðing Úlfs litla! Ég sé ekki alveg hvernig ég get kennt málsögu án þess að minnast á gotnesku en ég hlýt að finna út úr því, ekki vill kennari láta hanka sig á kristniboði.
Það er óskaplega erfitt að draga taum kvenna í málsögu, meira að segja nógu erfitt að passa að fjalla jafnt um bæði kyn (má samt auðvitað telja orð eftir málfræðilegu kyni - en hvað gerir maður þá við hvorugkyns orð?). Flest klassísk gömul dæmi um málfar eru annað hvort höfundarlaus eða eignuð nafngreindum körlum. Því miður. Mér dettur helst í hug að styðjast við táknfræðilegan kynjafræðilegan fróðleik og kappkosta að gera hlut u-hljóðvarps sem mestan, um leið og ég geri lítið úr i-hljóðvarpi. O er kvenlægt tákn, I karllægt. Því miður er o verulega ómerkilegt hljóð í sögu málbreytinga frá frumnorrænum tíma til okkar daga. U hefur þann kost að með góðum vilja má sjá líkindi með U og æxlunarfærum kvenna (eggjastokkum, eggjaleiðurum og …). V væri auðvitað heppilegra en þótt menn hafi stafsett V fyrir U í nokkrar aldir myndi svoleiðis fróðleikur líklega rugla nemendur. Svo ég mun kappkosta að gæta algers jafnréttis í umfjöllun um u- og i-hljóðvarp, helst draga taum usins. Og líklega er best að sleppa klofningu út af því hve orðið líkist mikið dónalegu orði, ekki vill maður styðja klámvæðinguna sem alls staðar blasir við unglingum á framhaldsskólaaldri.
Það er spurning hvort megi yfirleitt kenna óhörðnuðum unglingum bók á borð við Snorra-Eddu því þetta er hræðileg bók, séð undir (þröngu) jafnréttis- og mannréttindasjónarhorni! Í formálanum heldur höfundur, Snorri Sturluson, því blákalt fram að almáttugur guð hafi skapað himin og jörð og gerir síðan lítið úr raunvísindamönnum: Segir hæðnislega að þeim sem beita vísindalegum aðferðum sé „ekki gefin andleg spektin“ og að alla hluti skilji þeir „jarðlegri skilningu“ (af samhenginu er auðséð að Snorra finnst það ansi takmörkuð skilning). Líklega er best að halda Prologus frá krakkaskinnunum.
Ekki tekur betra við þegar megintextinn er lesinn: Þar er goðum hossað ótæpilega en rétt svo minnst á örfáar gyðjur; Þar er haldið fram tómum hindurvitnum og firru, t.d. um sköpun heims og endalok heims (og raunar er hið síðarnefnda óþægilega líkt lýsingu Opinberunarbókar Jóhannesar og mætti líta á sem viðurstyggilega lúmska leið til að smygla kristnum hugmyndum inn í barnssálir); Kennt er að jörðin sé flöt, að teymi þriggja guða hafi skapað mannkynið úr sjóreknum trjádrumbum (sem gengur augljóslega þvert á þá góðu þróunarkenningu) og annað er í sama dúr. Sumar sögurnar eru í meira lagi vafasamar, t.d. sagan af skáldamiðinum sem mætti segja að fjallaði um vændi og til að taka steininn úr er það karlmaður sem selur blíðu sína fyrir bjórsopa! Hvaða skilaboð sendir svoleiðis saga? Er verið að hampa aldagamalli klámvæðingu karla? Svo ekki sé minnst á hve bjórdrykkja er sýnd í jákvæðu ljósi í þessari sögu sem samrýmist alls ekki forvarnarstefnu skólans. Ekki er sagan af Gefjuni og Gylfa skárri (vændi enn og aftur) … eða sagan af Grótta sem fjallar athugasemdalaust um mansal … eða sagan sem segir frá athæfi Gjálpar …
Ég sé fram á að þurfa að ritskoða Snorra-Eddupartinn ofan í svona tuttugu blaðsíður eða svo. Verð þó ekki óhult því áfram má rökstyðja að ég stundi (heiðið) trúboð sem er eitt það versta sem nemendur upplifa, frá leikskóla og uppúr.
Úr mínu menntaskólanámi veit ég vel hvernig gera má kennslu/nám í þessum áfanga sjálfbæra. Í menntaskólanum sem ég var í, í eldgamla daga, var haldin hátíðleg málsögubrenna samdægurs að loknu stúdentsprófi í málsögu. En á þeirri fornöld var kennt ómerkilegt fjölrit - er forsvaranlegt að hvetja nemendur til að brenna útgefnar bækur sem þeir geta selt notaðar?
Það er greinlega mun vandasamara að skipuleggja kennslu nú en fyrir þremur árum og góð ráð eru vel þegin.
Efri myndin er af Úlfi litla biskup og hin neðri af Gunnlöðu Suttungsdóttur að sörvera Óðin.
Um femíníska kennslu
Ég var búin að velta fyrir mér nokkrum öðrum titlum á þessa færslu, t.d. „Helgar tilgangurinn alltaf meðalið?“ eða „Ábyrgð kennara á birtu efni nemenda“ eða „Eru engin takmörk fyrir því hvernig kennarar beita nemendum sínum fyrir málstaðinn?“ o.s.fr. Hér verður fjallað um efni nemenda í KYN 103 í Borgarholtsskóla og fjölmiðlaáföngum í MA og spurt hver sé ábyrgð kennara þegar efni nemenda birt í fjölmiðlum er hluti af námsmati í áfanga/fagi. Dæmin eiga það sameiginlegt að kennararnir eru femínistar sem telja „vitundarvakningu“ (orð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, kennara í KYN 103, í símtali í dag) eða að vekja athygli á kynjamisrétti (óbein tilvitnun í Geir Hólmarsson, kennara í fjölmiðlun í MA) réttlæti opinbera birtingu á óvönduðu efni eftir nemendur í fjölmiðlum/netmiðlum. Ég tek skýrt fram að ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla að báðir þessir kennarar séu mjög góðir kennarar, heitir hugsjónamenn og frumkvöðlar á sínu sviði.
Sem dyggur lesandi Knúzsins rak ég augun í grein eftir nemanda í KYN 103 sem birtist í dag. Greinin heitir Þetta sjúka samfélag og fjallar um klámvæðinguna miklu sem ku dafna vel akkúrat núna. Í greininni eru margar sláandi staðhæfingar en þær eru hins vegar ýmist rangar eða máli verulega hallað. Engin krafa virðist hafa verið gerð um vandaða heimildavinnu eða gagnrýna hugsun og ég hlýt því, sem framhaldsskólakennari með aldafjórðungs reynslu, m.a. reynslu í því að reyna að kenna nemendum að nota heimildir skynsamlega og hugsa eilítið út fyrir gúgulrammann, að furða mig á opinberri birtingu svo illa unnins texta. Má nefna að í greininni er því slegið fram að „4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum“. Ég spurðist fyrir um þetta í Hagkaup og afgreiðslufólk kannast ekki við að selja þessar vörur. Í greininni er vitnað í niðurstöður kannana án þess að merkt verði að ritandi textans hafi skoðað þessar kannanir.
Í norrænu netkönnuninni á klámsskoðun unglinga, Unge, køn og pornografi i Norden. Kvantitative studier, útg. Norræna ráðherranefndin 2007, var í rauninni mest sláandi hve lítill hluti íslenska úrtaksins svaraði könnuninni en svarhlutfall var einungis 23% (323 af 1428), „which under most circumstances would be unacceptable“ segir í skýrslunni um þessa könnun. Það er því spurning hversu mikið mark eigi að taka á þessari könnun. Ein niðurstaða könnunarinnar var að 71% svarenda vildu að klám yrði gert löglegt hér á landi og raunar eru bæði stelpurnar og strákarnir almennt jákvæð í garð kláms í svörum sínum. Ýmsar staðhæfingar um þessa könnun í grein nemandans eru rangar eða villandi, t.d.
- „Það sem þykir hinsvegar mjög athyglisvert er að ungmennin töldu sig líka hafa séð klám í allskonar dagblöðum og öðrum óaldurstakmörkuðum tímaritum“ en í skýrslunni kemur fram að um 50 svarendur höfðu rekist á klám í farsíma, í dagblöðum og í venjulegum tímaritum, síðan er þess getið til skýringar að DV prenti auglýsingar um símasex en að öðru leyti vekja svör þessara fáu þátttakenda ekki eftirtekt.
- „Flestum stelpum fannst klám ógeðfellt og leiða til nauðgana á meðan strákum fannst ekkert athugavert við það og sögðu að það gæfi þeim góðar upplýsingar um kynlíf.“ 17 strákar (5,3%) og 59 stelpur (18,3%) hökuðu við möguleikann á að klám leiddi til nauðgana, 17 strákar (5,3%) og 73 stelpur (22,6%) hökuðu við að klám væri ógeðslegt.
- „Í könnuninni kom í ljós að 1 af hverjum 5 strákum sér klám daglega en aðeins 2% af stelpum sögðust sjá klám það oft.“ Í könnuninni merktu 26 strákar (8%) og 4 stelpur (1,2%) við að sjá klám „nánast daglega“.
- „Strákar þóttu líka líklegri til þess að hafa prófað eitthvað sem þeir höfðu séð í klámmyndum.“ Þetta kemur ekki fram í niðurstöðuskýrslunni um könnunina.
- „Stelpurnar sögðu að klámið fyllti þær ótta við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þeirra í rúminu.“ 47 stelpur (14,6%) og 22 strákar (6,8%) merktu við þennan möguleika.
Tilvitnun í tólf ára gamla rannsókn sem sýndi að 20% fimm ára amrískra stúlkubarna væru hrædd um að vera of feit er ónákvæm, því það sem rannsóknin sýndi aðallega voru tengsl milli megrunarorðræðu mæðra og fimm ára dætra þeirra. (Sjálfri finnst mér mun merkilegra að 20% þessara fimm ára stúlkubarna voru of þung eða akfeit og að 70% mæðranna voru of þungar eða akfeitar.)
Staðhæfing nemandans í KYN 103 í þessu nemendaverkefni, mögulega niðurstaða hans: „Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna“ er að mínu mati heilaspuni.
Ég hef gert heldur smásmugulega grein fyrir rangfærslum í þessari grein sem birtist á Knúzinu í dag en álíka greinar hafa birst af og til í fjölmiðlum í heilt ár enda er ritun blaðagreinar þáttur í námsmati í KYN 103 í Borgarholtsskóla, vegur 10% af einkunn að sögn kennarans, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur. (Sjá t.d. Kynjafræði í framhaldsskólum í Fréttablaðinu 6. desember 2011 eða Kynferðisleg áreitni- hvað er það? á Knúz.is 2. nóv. 2012.)
Allir kennarar þekkja að nemendur skila misvel unnum verkefnum og baráttan við að efla gagnrýna hugsun þeirra og kunnáttu í að greina milli gúgul-slúðurs (eða bara slúðurs, eins og í greininni sem ég var að fjalla um) og tækra heimilda er oft á tíðum erfið. En ef það er gert að hluta námsmats að birta efni í fjölmiðli (netmiðlar eru þar meðtaldir) hlýtur að verða að gera þá kröfu til kennarans að hann sjái til þess að að efnið sé tækt til birtingar. Um þetta erum við Hanna Björg Vilhjálmsdóttir ósammála því í símtali við hana í dag kom fram að vitundarvakning væri aðalatriði, þetta sem ég hef fundið að væru smáatriði. Þegar ég spurði hana hvort gæti ekki verið að verslunin Hagkaup tæki það óstinnt upp að í birtri grein í fjölmiðli væri staðhæft að verslunin seldi g-strengi fyrir fjögurra ára gamlar stelpur sagði Hanna Björg að það gæti svo sem verið að það væri ekki sannleikanum samkvæmt en Hagkaup hefði á sínum tíma selt boli fyrir litlar stelpur með áletruninni „I’m a Porn Star“, það hefðu foreldrar sagt henni. Því miður finnur Gúgull frændi ekki barnaboli með þessari áletrun og ég þekki ekki þessa foreldra sem eru heimild Hönnu Bjargar, fyrir svo utan það að þetta eru ekki tæk rök fyrir að ósönn fullyrðing um sölu g-strengja fyrir smástelpur sé í lagi.
Hitt dæmið sem ég nefni í þessari færslu eru nethamfarir sem urðu eftir að nemendahópur í fjölmiðlun í Menntaskólanum á Akureyri birti frásögn af dónalegu orðfæri 18 ára samnemanda, orðum sem hann lét falla á einhvers konar íþróttauppistandsdegi í MA. Gargendur á netinu ætluðu af göflunum að ganga og 18 ára dónalegi pilturinn sá sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar. (Ég tengi ekki í fréttir og netumræðu og nethamfarir sem af þessu spunnust því mér finnst óþarft að halda nafni delikventsins dónalega á lofti.) Allir sem hafa starfað við framhaldsskóla vita að nemendur haga sér ekki alltaf eins og gestir í ensku teboði og á stundum er menntaskólahúmor sérdeilis grófur. Það er ekki ætlun mín að bera í bætiflákann fyrir þennan pilt en ég set stórt spurningarmerki við útreiðina sem hann hlaut á netinu og það sem hratt henni á stað.
Í einhverjum af fjölmiðlaáföngunum í MA reka nokkrir hópar nemenda fréttavefi, þ.á m. emmafrettir.com. Þar birtist frétt um dónaskap piltsins en þeirri frétt hefur nú verið eytt og jafnframt er búið að bæta við titil vefjarins að hann sé „Fréttasíða óháð Menntaskólanum á Akureyri”. Upplýsingar um hverjir standa að síðunni eru ekki aðgengilegar. Í fréttinni var pilturinn nafngreindur og birt mynd af honum en fréttin var ekki skrifuð undir nöfnum heldur upphafsstöfum fjölmiðlunarnemanna. Í viðtali við DV þann 9. nóvember sl. er haft eftir kennaranum:
„Hér er því um að ræða samfélagslega ábyrga nemendur sem stendur ekki á sama um menningu og brag skóla síns. Þeir ætla ekki að þola kynjamisrétti eða að einhver niðurlægi eða hefji sig upp á kostnað annarra,“ segir Geir Hólmarsson, kennari félagsgreina við Menntaskólann á Akureyri. Hann segir skólafréttasíðuna, sem afhjúpaði pilt við skólann í dag fyrir niðrandi ummæli hans í garð stúlkna á Íþróttadegi skólans, vera hluta af áfanga í fjölmiðlafræði.
Umrædd síða er að sögn Geirs ein af þremur sem reknar eru í tengslum við áfanga í skólanum á þessari önn. Nemendurnir, sem allir séu í fjórða bekk MA, hafi ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur, draga piltinn til ábyrgðar á gjörðum sínum og axla svo sjálf ábyrgð á afhjúpuninni.
„Þeim fannst það standa þeim nær að taka á málinu heldur en að vísa því alltaf til skólameistara eða kennara,“ segir Geir.„Þau vissu að ef þau myndu birta þessa frétt þá væri líkur á að henni yrði slegið upp.“
Þar sem þessi vefur, emmafrettir.com, er hluti af vinnuframlagi nemenda til einkunnar í fjölmiðlaáfanga hlýtur maður að gera þá kröfu að kennari áfangans axli ábyrgð á því sem þar birtist og afleiðingum birtingarinnar. Það gerir Geir Hólmarsson þó ekki heldur ásakar aðra fjölmiðla um að hafa tekið upp fréttina með nafngreiningu piltsins og mynd:
Það að fréttin rataði í aðra miðla setti þetta í annað samhengi og það sem keyrði málið út var umræðan á netsíðum í kjölfarið þar sem fólk afgreiddi hlutaðeigandi og ályktaði án þess að hafa nokkrar forsendur til þess. Það er eins og ekki sé tekið tillit til að drengurinn er ungur og hann er í framhaldsskóla. Því fylgir að maður gerir mistök og lærir af þeim. Hann baðst afsökunar og er orðin fyrirmynd en samt skapaðist mjög ósanngjörn [svo] refsiauki.
[- - -]
Jú, málið varð allt miklu sterkara af því að hann var nafngreindur. En var í lagi að fórna honum til að fá fram umræðu? Ég hef verið spurður að því.
(Það er herjað á ungmenni. Akureyri 17. nóvember 2012.)
Ég hef einmitt mikinn áhuga á að vita hvernig Geir Hólmarsson myndi svara spurningunni: Er í lagi að fórna mannorði nemanda til að fá fram umræðu? En það gerir hann ekki í þessu viðtali heldur fer undan á flæmingi. Í máli Geirs, í viðtalinu við Akureyri, kemur fram að það sé „búið að skjóta sendiboðana líka, þá sem greindu frá málinu. Það er líka athyglisvert að stelpurnar sem voru á þessu íþróttamóti og upplifðu heilmikil sárindi vegna brandaranna þorðu ekki að koma fram undir nafni.“ Hafi einhverjir sendiboðar sem greindu frá málinu verið skotnir hefur það verið utan sviðsljóss netmiðla því nöfn þeirra hafa hvergi birst og erfitt er að hæfa ósýnilegt fólk. Hins vegar get ég ekki betur séð en að kennarinn Geir Hólmarsson hafi sjálfur gefið veiðileyfi á þennan 18 ára dónalega strák. Ég á erfitt að sjá fyrir mér að slíkt yrði liðið í þeim skóla sem ég starfa í en kannski eru samkennarar sáttfúsari í Menntaskólanum á Akureyri.
Af þessum tveimur dæmum sem ég hef rakið hér að ofan má ætla að sé vitundarvakning í þágu góðs málstaðar æskileg skipti ekki máli hversu vönduð eða siðleg vinnubrögð sjáist í opinberlega birtum nemendaverkefnum. Hlutverk kennarans er ekki lengur að leiðbeina um góð vinnubrögð og axla ábyrgð á sinni kennslu (námsmat og verkefnavinna er hluti kennslu) heldur að ota þeirri vinnu nemenda sem samrýmist hugsjón kennarans í fjölmiðla, burtséð frá gæðum og burtséð frá afleiðingunum: Aðalatriðið er að láta nemendur vitna (í anda Hjálpræðishersins)!
Skóli og geðveiki
Kannski hefði fyrirsögnin frekar átt að vera “námskrárfræði og geðraskanastaðlar” … Ég hef sumsé brugðið mér í gamalt hlutverk, “hinnar greindu alþýðukonu”, og lesið yfir ritgerð mannsins um stefnur og strauma í námskrárfræðum: Sé ekki betur en margt sé líkt með skyldum, þ.e. poppfræðum sem varða skóla og geðveiki.
Nú eru nokkur ár síðan ég var eitthvað í alvörunni að pæla í námskrá framhaldsskóla og hvernig maður matsaði kennsluáætlun þokkalega við svoleiðis. Og ég er búin að gleyma miklu og hef alveg misst af umræðu síðustu ára um nýju námskrána með skemmtilega geggjuðu yfirmarkmiðunum. En eftir að hafa gegnt hlutverkinu “greind alþýðukona sem les námskrárfræði” síðasta árið (maðurinn hefur nefnilega alltaf prófað sínar greinar og texta á mér: Skilji ég ekki textann þarf að laga hann) hef ég einhverja hugmynd um út á hvað þessi nýja námskrá gengur, út á hvað síðasta námskrá gekk og að framhaldsskólakennarar eru almennt ekki svo vitlausir að halda að þetta skipti einhverju máli í kennslu.
Skömmu eftir stríð (seinni heimstyrjöldina) hófust vinsældir “ferskrar skynsamlegrar markmiðssetningar” í námskrá. Ég man eftir helstu uppskriftarfræðingunum úr ukkinu; Bobbit og Tyler og Bloom og kannski Taba. Í einfölduðu máli má segja að uppskriftarpoppfræðingarnir sem eru sívinsælir á Menntavísindasviði og líklega í félagsfræðigreinum almennt telji að í námskrárgerð sé best að byrja með hreint borð (sumsé kasta öllum hefðum fyrir róða), setja yfirmarkmið og greina svo æ smærri undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum beint, án tillits til faga og fræðigreina. Þessi undirskipun eða beina þjónkun er hins vegar ómöguleg í flestum fögum.
Ég skrunaði yfir almennan kafla nýju námskrárinnar og þrátt fyrir aldarfjórðungsreynslu af kennslu í framhaldsskóla fannst mér að textinn hlyti að fjalla um eitthvað annað en skóla - er hann kannski saminn af fólki sem hefur lítið komið inn í svoleiðis stofnanir? Hvað í ósköpunum er “menntun til sjálfbærni”, hugtak sem er margtuggið í þessum texta? Ég sé helst fyrir mér áfanga í tóvinnu … Taldir eru upp sex grunnþættir alls náms, síðan níu svið lykilhæfni o.s.fr.; Námskráin er sumsé draumur hvers sortéringarsinna!
Svo tékkaði ég á markmiðum í mínu fagi, íslensku (s. 93), sem eiga á mjög dularfullan og illskiljanlegan hátt að þjóna hinum sex grunnþáttum og hinum níu lykilhæfnisviðum og sé ekki betur en námskröfur slagi hátt í mastersnám á háskólastigi, t.d.:
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.
eða
Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.
Ég er ansi hrædd um að helstu ráðamenn þjóðarinnar, t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi hafi nú ekki náð þessum tveimur markmiðum, a.m.k. ekki því síðarnefnda. Er raunhæft að krefast þessarar getu af nýstúdentum? Hver ætli séu þessi lykilhugtök og mismunandi sjónarmið sem talin eru í fyrra dæminu? Og heldur einhver í alvöru að nemendur leggist almennt í Grágás, Íslensku hómilíubókina, dróttkvæði, annála, stærðfræðitexta, rannsóknarskýrslur, manntöl, áttvísi, læknisfræði o.m.fl. sér til gagns og gamans, skilji þar í einhver dularfull lykilhugtök og greini mismunandi sjónarmið í hvers lags texta sem er eins og að drekka vatn, eftir að hafa klárað stúdentspróf?
Blessunarlega hugsa ég að fólkið á gólfinu, þ.e. nemendur og kennarar, láti þá hátimbruðu smíð sem nýja námskráin er bara eiga sig og haldi áfram að kenna og (vonandi) læra eins og tíðkast hefur til þessa.
En mér datt í hug, lesandi um þessa tæknihyggju í námskrárgerð, þ.e. að halda að hægt sé að setja einhver absólút yfirmarkmið ótengd fögum (sem má þess vegna kalla grunnþætti og svið lykilhæfni) og fella síðan allt nám og öll fög í undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum … að sams konar tæknihyggja speglist ákaflega vel í sjúkdómastöðlum og þeirra sortéringum. Má nefna DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) Bandarísku geðlæknasamtakanna sem fyrst kom út 1952 eða náfrænda hans, ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út og er einmitt brúkaður hér á landi.
DSM á rætur sínar að rekja til flokkunarkerfis Bandaríska hersins, sem spratt m.a. af þörf á að greina alls kyns krankleik á geði þeirra hermanna sem snéru heim úr seinna stríði. Í hverri nýrri útgáfu DSM hefur skilgreindum geðröskunum fjölgað og skilgreiningar orðið nákvæmari. Fyrstu þunglyndislyfin, þríhringlaga geðlyfin, voru upp fundin (óvart) laust eftir 1950. Svo merkilegt sem það nú er hefur þróun þunglyndislyfja og aukið framboð haldist nokkuð í hendur við aukna smásmygli í og aukið framboð á skilgreiningum þunglyndis í DSM.
Alveg eins og tæknihyggja í námskrárgerð hefur ekki sýnt sig í betra námi eða betri skólum hefur tæknihyggja í þunglyndisgreiningu og fleiri gerðir þunglyndislyfja sem passa við sífellt nákvæmari skilgreiningar og undirgreiningar ekki sýnt sig í fækkun þunglyndissjúklinga. Kannski mætti líta á lyfin eins og undirmarkmiðin í tæknihyggjunámskrárgerð: Lýsingarnar hljóma sosum ljómandi vel en praktísk not eru heldur léleg.
Kann að vera að nákvæmlega sama aðalatriðið gleymist: Við erum nefnilega að tala um eitthvað sem snertir fólk, þátttakendur í margbreytilegu mannlífi. Kann að vera að hátimbruð markmið og smættun ofaní mælanleg undirmarkmið líti vel út á pappír en gagnist minna þegar fólk á að nota þau á annað fólk, hvort sem er til að koma því til nokkurs þroska og til að mennta það eða til að lækna það.
Sem betur fer held ég að bæði góðir kennarar og góðir geðlæknar geri sér þessar takmarkanir vel ljósar. Alveg eins og kennari þarf að geta tekið því að nemendur kjósi að baka Borg á Mýrum og bjóða öllum upp á að éta hana, í stað þess að flytja fyrirlestur um Borg eða skrifa ritgerð um Borg, tekur góður geðlæknir tillit til umhverfis og væntinga síns sjúklings og styður hann í því sem hann vill gera til síns bata. Eftir margra daga bakstur, mælingar og útreikninga og kökumódelsmíð með glassúr má ætla að nemendur gjörþekki umhverfið á Borg á Mýrum, líklega betur en hefðu þeir búið til Power Point glærusýningu og flutt fyrirlestur um efnið. Eftir vandlegar og ítarlegar pillutilraunir árum saman og raflostmeðferðir má ætla að þunglyndissjúklingur þekki orðið nokkuð vel hvað virkar, öllu heldur hvað virkar ekki, við sínum sjúkdómi.
Í praxís taka góðir geðlæknar væntanlega jafnlítið mark á DSM/ICD og þunglyndislyfjaáróðri og góðir íslenskukennarar taka lítið mark á vaðli um grunnþætti, lykilhæfnisvið og innantómu markmiðskjaftæði í námskrá.
—
Svona aukalega sting ég því inní þessa færslu að lokum að sem ég var að lesa eigið blogg árið 2006 komst ég að því að síðsumars það ár hef ég hnakkrifist við Helga nokkurn Ingólfsson og ekki vandað honum kveðjurnar (sem var að vísu gagnkvæmt). Ásteitingarsteinninn var fyrirhuguð stytting náms til stúdentsprófs … Það er svo sem ekkert allt jafn sorglegt í lestrinum um lífið mitt sem hvarf í blakkátið/tómið mikla
Leikfimi
Leikfimikennari barst aðeins í tal á fésinu í gær … og svo horfði ég á hinar flinku fimleikastúlkur Skagans hoppa og skoppa á æfingu áðan, meðan ég beið eftir manninum sem stakk í mig nálum. Svoleiðis að ég fór að hugsa um leikfimi - eins og hún var.
Svo háttaði til á Laugarvatni á mínum uppvaxtarárum þar (og gerir kannski enn) að nemendur í öllum hinum skólunum voru æfingafóður fyrir íþróttakennaranema. Í þá tíð var Íþróttakennaraskólinn eins árs nám og þurfti ekki stúdentspróf til að komast inn í hann. (Sem leiddi auðvitað til botnlausrar fyrirlitningar menntskælinga á Þrótturum, nema þeirra menntskælinga sem höfðu hugsað sér að fara í Þróttó eftir stúdentspróf. Enda praktískt að þurfa bara eitt ár til að fá full kennararéttindi á báðum skólastigum, sérstaklega fyrir þá sem hefðu kannski átt erfitt uppdráttar í háskólanámi.). En svo ég spæli ekki elskulega bekkjarbræður mína frá því í denn held ég mig að mestu við árin í Héró, þ.e. í 2. bekk (samsvarar 8./9. bekk grunnskóla) og landsprófi (samsvarar 9./10. bekk), í lýsingunni. Ég stundaði nám í Héraðsskólanum 1972-74 og svo tók Menntó við. Leikfimikennslan breyttist ekkert.
Það þótti ekki við hæfi á áttunda áratugnum að karlmenn kenndu stelpum íþróttir. Þess vegna sáum við einungis karl-þróttara í árlegum gömludansa-námskeiðum, sem hugsanlega voru bara tíðkuð á menntaskólaaldri. Þess meir sást af Þróttóstelpum. Þær sprönguðu um í einhvers konar tvískiptum fimleikagöllum,rauðum og svörtum, í sérhönnuðum leikfimitátiljum. Líklega var þetta að rússneskri fyrirmynd. Í hverjum tíma kenndu svona 3-4 af tegundinni. Við nemendurnar áttum að vera í “leikfimibol”, teygjuflík sem líktist helst viktoríönskum sundbol með stuttum ermum og skálmarlausum. Svo voru allar berfættar (ekki búið að finna upp fótsveppi á þessum árum).
Í upphafi tíma sátum við upp við rimlana meðan Þróttóstelpur lásu kladda. Það var bannað að kíkja í kladdann. Það var bannað að segjast vera með hausverk af því Þróttó hafði ákveðið að þetta héti “höfuðverkur”. Eina leyfilega orðalagið yfir að vera á túr var “ég er forfölluð”. Ég átti afar bágt með að fara ekki að hlæja á fullorðinsárum þegar karlmenn tilkynntu forföll á fund eða álíka … Hefði stelpa höfuðverk eða var forfölluð sat hún alklædd og horfði á. (Það var ekki búið að finna upp þá skoðun að konur / unglingsstúlkur gætu hreyft sig verandi á blæðingum.) Hinar forfölluðu pössuðu úr og hringi hinna og var sérstök kúnst að halda úrunum aðskildum svo þau “segulmögnuðust” ekki.
Leikfimitímar hófust á að mynda beina röð eftir hæð. Ég var venjulega næstminnst og því næstfremst í röðinni. Svo kallaði ein Þróttóstelpan skipandi: “Standið rétt, fætur saman, áfram gakk, einn-tveir, einn-tveir” o.s.fr. Sem sagt hergöngulag. Og ekki gleyma að horfa í hnakkann á þeirri sem var fyrir framan. (Svo við hljótum að hafa verið aðeins niðurlútar, svona eftir á séð). Ýmis varíantar voru á hringöngum um salinn, eins og að ganga á tánum, ganga á jörkunum (þarna lærði ég orðið “jarki”, sem ég hef aldrei heyrt notað utan íþróttasalarins á Laugarvatni). Svo voru hlaupnir nokkrir hringir. Og Þróttóstelpurnar höfðu dómaraflautur sem þær brúkuðu óspart.
Að því búnu demonstreruðu Þróttstelpurnar í fimleikagöllunum sínum nokkrar gólfæfingar og við áttum svo að gera eins. Þetta voru þessar dæmigerðu æfingar, gerðar til að fá harðan maga, grennra mitti, styrkari læri og fleira kvenlegt. Bannað að segja voff í hundastellingunni - þá var rekið út. Svo voru dregin fram áhöld og byrjað að hoppa yfir hest og yfir kistu (bannað að segja “ég þori því ekki” - í Þróttó höfðu menn ekki heyrt af staðbundinni norðlenskri málvenju og ég mátti þakka fyrir að vera ekki rekin út, það átti nefnilega að segja “ég þori það ekki”.) Yfirleitt var algerlega bannað að segja nokkurn skapaðan hlut við þessar Þróttóstelpur. Og uppi á svölum sat sjálf Mínerva og beindi hvössum sjónum að þeim og okkur undirsátunum. Mátti ekki á milli sjá hvorar voru hræddari við hana. … Kollhnísar á dýnu voru fastur liður, líka að standa á höfði (af því “haus” fannst ekki í orðaforða leikfiminnar) eða á höndum. Ég var vonlaus í þessu öllu, með grindhoraða handleggi og alger veimiltíta. Var líka of horuð til að uppfylla “standið rétt, fætur saman” herskylduna.
Einstaka sinnum var boltaleikur. Það var alltaf blak. Mikið ofboðslega hata ég blak! Fyrrnefndir handleggir og píanófingur og gleraugu fyrir mínus 7 eru ekki gott veganesti í blaki. Í menntó söfnuðum við undirskriftum og heimtuðum að fá körfubolta eins og strákarnir. Körfubolti var mun skárri. Já, og það var kosið í lið og það er ekkert gaman að vera alltaf kosin síðust. Reyndar grunaði mig þó alltaf innst inni að blakhæfileikar væru heldur lítils virði, í námi og í lífinu, en þetta var samt leiðinlegt.
Sumar Þróttóstelpurnar reyndu að vera almennilegar svo lítið bæri á en þær þurftu að fara sérlega vel með það til að lækka ekki í einkunn fyrir æfingakennsluna hjá Mínervu. Aðrar Þróttóstelpur beinlínis nutu þess að leika herforingja; mér er sérstaklega ein minnisstæð enda var hún, í nemendastelpnahópnum, aldrei kölluð annað en Gribban. Hún fékk svo síðar enn meir krassandi viðurnefni í öðru starfi.
Að koma inn í þennan herskóla, úr litlum sveitaskóla þar sem allir voru saman í leikfimi og yfirleitt farið í einhverja skemmtilega leiki, eins og skota (afbrigði af brennó) eða slagbolta eða Tarzan-leik eða bara farið út og búið til snjóhús eða risasnjókerling … og ég spilaði fótbolta með hinum krökkunum … var auðvitað horror.
Árangurinn af kennslunni var að ég lét mig hafa það að taka stúdentspróf í leikfimi (man að eitt prófatriðið var að hoppa jafnfætis yfir körfubolta, sem var pís of keik en eitt helvítis atriðið var að standa á höndum sem ég gat náttúrlega ekki - en hvenær í ósköpunum nýtist það manni að standa á höndum?). Svoleiðis að ég er sem sagt stúdent í leikfimi. Aftur á móti varð ég mér út um vottorði í sundi, sem var enn verra upplifelsi en leikfimikennslanþví þar var ég nánast blind og sá hvorki leikin sundtök fimleikaklæddu Þróttóstelpnanna á bakkanum, né sundlaugarbakkann, með ofnæmi fyrir klórpollinum sem aktaði sem sundlaug og sá fram á að meðaleinkunn á stúdentsprófi myndi hrapa gífurlega ef ég tæki stúdentspróf í sundi. Þannig að ég er illa menntað kvikindi án stúdentsprófs í sundi.
Aðalárangurinn af þessari kennslu var þó að ég fékk æfilangt ógeð á lyktinni í íþróttasölum, læt mig ekki dreyma um að stíga tá oní sundlaug og hef mikla fordóma í garð íþróttakennara, sérstaklega hvað varðar vitsmuni þeirra. Samt hef ég kynnst íþróttakennurum síðar meir sem voru alls ekki algerlega dúmm.
Sem betur fer hefur íþróttakennsla skánað heilmikið frá gullaldarárum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni En ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið af öllum þessum Þróttóstelpum. Lifðu þær af venjulegt skólaumhverfi og íþróttaumhverfi utan Laugarvatns?
Starfsmannaeinelti í Akranesbæ
Í sambandi við umfjöllun um siðblindu hef ég fjallað dálítið um vinnustaðaeinelti. Má nefna færslurnar Skólastjórar sem leggja kennara í einelti og Siðblindir á vinnustað en þar er nokkuð ítarleg umfjöllun um vinnustaðaeinelti almennt, sem þarf ekkert endilega að vera tengt siðblindu. Einnig ber vinnustaðaeinelti á góma í færslunum Siðblindir í kirkjunni (þar er m.a. nefnt dæmi af presti sem beitir formanni sóknarnefndar fyrir sig til að leggja organistann í einelti) og Siðblindir í viðskiptum (þar eru áhrif og tækni siðblindra í viðskiptafyrirtækjum útskýrð, t.d. hvernig þeir ná sér í verndara og hvernig þeir reyna að losa sig við þá sem sjá í gegnum þá, m.a. með beinu einelti eða að kynda undir einelti. Ætla má að siðblindir beiti þessari tækni almennt á vinnustöðum af ýmsu tagi.).
Staðan á Akranesi
Eftir að hafa uppgötvað að skv. breskum, bandarískum og áströlskum upplýsingum eru kennarar taldir í einna mestri áhættu á að verða fyrir vinnustaðaeinelti og eftir að hafa séð umfjöllun um rannsóknir á vinnustaðaeinelti af nýlegra taginu sem leiða í ljós að hlutur stjórnenda í gerendahópi er mjög stór fór ég að velta fyrir mér hvernig ástandið væri hér í mínum góða bæ, Akranesi. Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu, var svo vinsamleg að veita mér ýmsar upplýsingar og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Hún útskýrði líka fyrir mér hvernig stjórnsýslu bæjarins væri háttað og benti mér á dæmi um æskilega framtíðarskipan vinnustaðaeineltismála, sem sjá má í Mosfellsbæ. Ég er sammála henni um að það skipulag virkar mjög skynsamlegt en ekki jafn sannfærð um að það þurfi að ráða einhvern mannauðsstjóra í miklu minni bæ (Akranes) svo hrinda megi álíka skipulagi í framkvæmd.1 Helga sagði mér líka að í „stærri sveitarfélögum“ væri sami háttur á stjórnsýslu varðandi skóla og er hér í Akranesbæ eftir stjórnsýslubreytingar 1. jan. 2009. Lausleg úttekt mín leiðir í ljós að þessu er öfugt farið en hugsanlega hefur Helga átt við að Akranesi hentaði að máta stjórnsýslu sína við Reykjavík eða álíka „stærri sveitarfélög“ og það sé minn misskilningur að hún hafi átt við álíka stór sveitarfélög og Akranes.2
Rétt til að rifja upp hvað felst í vinnustaðaeinelti, skv. skilgreiningu í Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, 1000/2004, 3.gr.: „Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“
Og hvað er ekki einelti: „Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.“
Grunnskólakennari sem lagður er í einelti af skólastjóra
Setjum svo að ég væri grunnskólakennari hér í bæ og samstarfsmaður minn legði mig í einelti. Þá gæti ég kvartað við skólastjóra. En ef skólastjórinn stendur fyrir eineltinu? Þá gæti ég, væri ég kennari í Grundaskóla, kvartað við aðstoðarskólastjóra. Málið vandast ef ég er kennari í Brekkubæjarskóla því þar er enginn aðstoðarskólastjóri. Starfið var lagt niður vorið 2007 og þess í stað skipaðir tveir deildarstjórar, sem á heimasíðu skólans eru yfirleitt kallaðir „deildarstjórar á stigi“ til skólaársins 2010-2011 en þá ber annar starfsheitið „deildarstjóri“ og hinn er nú „deildarstjóri verkefna“. Skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu mun hinn fyrrnefndi vera staðgengill skólastjóra og blessunarlega fær hann greitt eins og aðstoðarskólastjóri. Ég gæti því leitað til hans legði skólastjórinn mig í einelti, reikna ég með, þótt hann hafi ekki fínni titil en deildarstjóri.
Dugi þetta ekki, hvað ætti ég þá að gera? Einu sinni var starfandi skólanefnd hér í bæ sem fjallaði um málefni grunnskólanna og hugsanlega hefði ég, ímyndaður grunnskólakennari sem skólastjórinn legði í einelti, getað leitað til hennar, a.m.k. formanns skólanefndar, þó ekki væri nema um ráðleggingar. En 1. janúar 2009 varð róttæk breyting á stjórnsýslu Akraneskaupstaðar, ýmsar nefndir voru lagðar af (ekki þó Ritnefnd um sögu Akraness – guði sé lof!) og í staðinn komu svokölluð ráð og stofur.
Hverjir sinna málefnum sem snerta grunnskólann í stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar?
Undir Fjölskylduráð heyra nú öll fagleg mál sem tilheyra málaflokknum fræðslu-og uppeldismál og félagsþjónusta. Meðal verkefna ráðsins eru öll mál sem heyra undir lög nr. 66/1995 um grunnskóla. Fjölskylduráð heyrir undir „pólitíska kerfið með lýðræðislega kjörnum bæjarfulltrúum .. .Hins vegar er embættismannakerfið með bæjarstjóra í fararbroddi. Stofnaðar hafa verið svokallaðar stofur yfir málaflokka sveitarfélagsins þ.e. Fjölskyldustofa með Helgu Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra…“ 3 Nýju pólitísku ráðin voru víst hugsuð til að auka valddreifingu í stjórnsýslu bæjarins. Ætli stofunum hafi ekki verið ætlað að spara útgjöld?
Sem þykjustu grunnskólakennari sem skólastjórinn leggur í einelti get e.t.v. ég leitað til Fjölskyldustofu um úrlausn minna mála. En ég get ekki leitað til Fjölskylduráðs, skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu, af því „svona mál heyra ekki undir pólitíska nefnd“. Í samtali okkar kom fram að engin fordæmi eru til fyrir formlegri afgreiðslu á úrlausn vinnustaðaeineltismála sem heyra undir Fjölskyldustofu og því ekkert vinnuferli ljóst. Að sögn Helgu hafa komið upp vinnustaðaeineltismál í einhverjum stofnunum sem heyra undir Fjölskyldustofu en þau hafa öll verið leyst í samræðum og samráði við hlutaðeigandi á óformlegan hátt og ekki borist á borð Fjölskyldustofu. Hugsanlega hefur þar orðið breyting á nýverið.
Hjá Fjölskyldustofu starfa margir en allir nema framkvæmdastjóri og verkefnastjóri tengjast þeir félagslega kerfinu og enginn þeirra er menntaður kennari eða skólastjóri. Í erindisbréfi framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu er ekkert sem bendir til þess að sá aðili hafi með eineltismál að gera. Það mætti skýra með því að Akraneskaupstaður hefur enga stefnu um meðferð eineltismála, hvorki vinnustaðatengd né annars eðlis.4 Að vísu hefur bærinn starfsmannastefnu, þar sem segir m.a.: “Siðareglur starfsfólks Bæjarstjórn setur fram eftirtaldar siðareglur til leiðbeiningar fyrir starfsfólk um hvað sé við hæfi í starfi … 8.1. Að starfsfólk Akraneskaupstaðar starfar fyrst og fremst í þágu bæjarbúa, sem leggur því þá skyldu á herðar að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er í sínum eigin eða einstakra hópa; …“5
Í þykjustunni er ég frábær kennari (og einmitt þess vegna sem skólastjórinn vill flæma mig brott með einelti því algengasta ástæðan fyrir skólastjóraeinelti er öfund). Það eru því hagsmunir nemenda og skólans að ég haldi starfi mínu. Svo ég gæti hugsanlega leitað til framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu og treyst því að hún setti almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og muni skoða mín mál með hlutlausum hætti. En ég get ekki leitað til fjölskylduráðs af því það er pólitískt kjörið og framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu ber ekki að greina fjölskylduráði frá þessu ímynduðu erindi mínu, skv. upplýsingum Helgu Gunnarsdóttur í símtali okkar. Málaleitan mín yrði því tveggja manna tal.
Hugsanlega gæti framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu leitað vil Vinnueftirlitsins eftir ráðgjöf. Líklega mundi það borga sig í skipulagi eins og Akraneskaupstaðar þar sem völd eru á ótrúlega fárra hendi þegar kemur að skólamálum og ljóst að enginn á Fjölskyldustofu hefur kennaramenntun. Fimm þjónustuaðilar með áherslu á andlega og félagslega áhættuþætti á vinnustöðum eru viðurkenndir af Vinnueftirlitinu. Flestir þeirra rétt tæpa á einelti, sálfræðistofan Líf og sál býður námskeið og þrenns konar aðkomu að eineltismálum á vinnustað en Úttekt úrlausn er eini aðilinn sem virðist sérhæfður í að fást við starfsmannaeinelti enda er hún rekin af menntuðum vinnustaðasálfræðingi (sem jafnframt er klínískur sálfræðingur). Þetta er líka eini þjónustuaðilinn af þessum fimm sem hefur sérstaka vefsíðu um vinnustaðaeinelti. Það er því nokkuð augljóst að kysi framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu utanaðkomandi ráðgjöf, til að þurfa ekki að axla ímyndaða eineltismálið ein og sjálf, myndi hún kalla eftir aðstoð Úttektar og úrlausnar.
Ef framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu bregst mér þá er eini ópólitískt ráðni yfirmaðurinn þar fyrir ofan bæjarstjórinn sjálfur. Ég get að sjálfsögðu treyst því að hann fylgi 8. grein siðareglna starfsfólks svo það ætti að vera í lagi. Á hinn bóginn reikna ég með að bæjarstjórinn hafi öðrum hnöppum að hneppa en skipta sér af eineltismálum á vinnustað svo ég væri dálítið feimin við að bera mig upp við hann.
Skert lýðræðislegt samráð á Akranesi og ótrúlegt áhugaleysi á málefnum grunnskóla
Hin svokallaða valddreifing stjórnsýslunnar hefur stórlega skert lýðræðislegt samráð hér á Akranesi og dregið mjög úr möguleikum grunnskólakennara sem skólastjóri leggur í einelti. (Sama máli gegnir auðvitað um mögulegt dæmi af skólastjóra sem kennari legði í einelti en af því slíkt er svo sárasjaldgæft, skv. rannsóknum á vinnustaðaeinelti almennt og rannsóknum á vinnustaðaeinelti í skólum, lít ég á það dæmi sem heldur fjarstæðukenndan möguleika.)
Meðan gamla skólanefndin var og hét fundaði hún þetta 6 til 10 sinnum á ári, um skólamál og starfsmannamál grunnskólanna. Fjölskylduráð er einungis þriggja manna nefnd auk eins áheyrnarfulltrúa. Það hefur haldið 60 fundi frá skipulagsbreytingunum á stjórnsýslu bæjarins 1. jan. 2009. Fundargerðir allra funda liggja á vefnum akranes.is fyrir utan þann síðasta sem var haldinn í gær.
Skv. erindisbréfi á að boða áheyrnarfulltrúa grunnskóla (skólastjóra, kennara, foreldra eða starfsfólks) á fundi sem fjalla um málefni grunnskólans og höfða til einhverra þessara aðila. Af 59 fundum hafa áheyrnarfulltrúar skólastjóra mætt á 2 (þ.e. 3,39% af fundunum) áheyrnarfulltrúi kennara á 1 fund og áheyrnarfulltrúi starfsmanna grunnskóla (mögulega kennari) á 1 fund. Að auki hafa fulltrúar Foreldrafélags Brekkubæjarskóla mætt á 2 fundi enda óskuðu þeir sjálfir eftir því að fá að ganga á fund fjölskylduráðs, og nemendaráð Grundaskóla mætti einu sinni til að ræða um skort á kastala og fleiri leiktækjum á lóð skólans. (Því erindi var reyndar ljómandi vel tekið og afgreiðslan bókuð í smáatriðum.) Það er því ekki skrítið að skólastjórar grunnskólans hafi óskað formlega eftir því að „áheyrnarfulltrúar foreldra frá báðum grunnskólunum verði boðaðir þegar málefni grunnskólanna eru til umfjöllunar hjá Fjölskylduráði. Einnig að boðaðir verði bæði aðal og varamenn áheyrnarfulltrúa starfsmanna af sama tilefni.“ Þetta erindi var samþykkt þann 21.9. 2010.6 Samt hefur nú enginn þessara verið boðaður á fund Fjölskylduráðs enn.
Fundargerðir Fjölskylduráðs eru óvenju stuttar og snubbóttar og geyma fátæklegar upplýsingar um málefni grunnskólanna hér á Skaganum. En þær hljóta að endurspegla raunveruleikann því í erindisbréfi Fjölskylduráðs segir að „Í tölvuskráða fundargerð skal færa … greinargóða lýsingu á hverju fundarefni“.7
Af lestri fundargerða Fjölskylduráðs er því nokkuð augljóst að áhugi ráðsins á málefnum grunnskólanna er sorglega lítill. Má ætla að svo sé einnig í bæjarstjórn því ráðið starfar á vegum hennar. Þann 16. 12. 2009 er t.d. bókuð ósk Mennta-og menningarmálaráðuneytis eftir upplýsingum um hvenær sveitarfélagið hyggist hefja vinnu við mótun almennrar stefnu um leik-og grunnskólahald. Því svaraði Fjölskylduráð að sú vinna hafi ekki verið tímasett. Málið hefur ekki aftur borið á góma í Fjölskylduráði (a.m.k. ekki svo bókað sé) sem bendir til þess að ráðið hafi engan sérstakan áhuga á að láta vinna þessa vinnu, sem svo verður vart öðru vísi túlkað en að ráðinu þyki ekki mikið til skólamála koma. Engin ástæða er til að ætla að viðhorfið sé eitthvað annað á Fjölskyldustofu miðað við menntun og sérhæfingu mannafla þar og líka sé litið til þess að framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu situr alla fundi Fjölskylduráðs (og er reyndar næstum ævinlega fundarritari).
Ég, sem er í þykjustunni kennari sem er lagður í einelti af skólastjóra, býst af framansögðum ástæðum ekki við sérlega miklum áhuga á mínum málum af hálfu framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu. Og ég get ekki leitað til neins annars, nema kannski bæjarstjórans, því búið er að fella niður það apparat sem ég hefði kannski getað brúkað, nefnilega skólanefnd. Enn vonlausari verða mín mál þegar ég hugsa til þess að bærinn hefur enga stefnu hvað varðar vinnustaðaeinelti og Fjölskyldustofa enga reynslu af formlegri afgreiðslu slíkra mála. Og svo er alltaf spurning hvort ég geti treyst því, í svona litlu bæjarfélagi, að þeir sem ég leita til haldi siðareglur.
Ég hugsa að ég taki einfaldlega þann kostinn að flytja í Mosfellsbæ!
1 Símtal við Helgu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu kl. 15.30-15.40 25. febrúar 2011.
2 Á Akranesi búa rúmlega 6.500 manns. Í færslunni er gerð grein fyrir skipan skólamála í stjórnsýslunni þar. Ég skoðaði hvernig þessum málum er háttað í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ, þar sem búa tæplega 4000 manns, í Fjarðabyggð, þar sem búa rúmlega 4.500 manns og Mosfellsbæ, þar sem búa rúmlega 8.500 manns.
Í Ísafjarðarbæ er skóla-og fjölskylduskrifstofa en starfsfólk er ekki eins einslitt og á Fjölskyldustofu Akraness, t.a.m. starfa bæði grunnskólafulltrúi og leikskólafulltrúi á þessari skrifstofu Ísafjarðarbæjar. Ég hygg að yfirmaður og sviðsstjóri skóla-og fjölskylduskrifstofu sé lærður tónmenntakennari. Þessi skrifstofa vinnur síðan í samráði við nokkra aðila, þ.á.m. fræðslunefnd. Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar virðist ófeimin við að funda með fulltrúum kennara, skólastjóra og foreldra, skv. fundargerðum. Ísafjarðarbær hefur samið leiðbeiningar fyrir yfirmenn og þolendur sem ná til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni og einelti á vinnustöðum Ísafjarðarbæjar en því miður virkar krækjan í leiðbeiningarnar ekki svo ég gat ekki skoðað þær.
Í Fjarðabyggð starfar Félags-fræðslu-og frístundateymi, sem hluti af embættismannaverki bæjarins. Í teyminu er annars vegar Félagsmálastjóri og hins vegar Fræðslustjóri. Sá síðarnefndi hefur meistarapróf í skólastjórnun. Hann hefur samband við pólitískt kjörna Fræðslu- og frístundanefnd, sem er 5 manna. Loks er Fjarðabyggð aðili að Skólaskrifstofu Austurlands, sem er byggðasamlag 8 sveitarfélaga. Sú skrifstofa veitir m.a. ráðgjöf í deilumálum sem snerta skólastarf. Fjarðabyggð hefur samið ítarlega Fræðslu- og frístundastefnu. Að þeirri vinnu komu fjölmargir, m.a. fulltrúar nemenda, skólastjóra, foreldra og starfsfólks grunnskóla.
Í Mosfellsbæ kallast embættisaðili skólamála Fræðslusvið. Framkvæmdastjóri þess er lærður kennari. Hann er jafnframt starfsmaður Fræðslunefndar, sem er pólitískt skipuð 5 manna nefnd, með 5 varafulltrúum og skal fara með verkefni skólanefndar. Framkvæmdastjóri Fræðslusviðs er jafnframt forstöðumaður Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar. Því miður eru fundargerðir Mosfellsbæjar ekki aðgengilegar á vefnum í augnablikinu svo ég get ekki áttað mig á því hversu mikið vægi fulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra fá í starfi þessara nefnda og stofnana.
Kerfi þeirra þriggja bæjarfélaga sem ég skoðaði eru mjög ólík stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar að því leyti að þar eru margir aðilar sem koma að skólastarfi (en slík mál eru á ótrúlega fárra hendi á Akranesi, ekki hvað síst stjórnun og eftirlit með starfsemi grunnskólanna); að greint er milli fræðslu- og frístundastarfs annars vegar og hins vegar félagslegrar þjónustu (á Akranesi er þetta á sömu hendi) og að kennaramenntaður einstaklingur heldur utan um starfið (á Akranesi er enginn kennaramenntaður á Fjölskyldustofu).
3 Breyting á stjórnskipulagi Akraneskaupstaðar með gildistöku 1. janúar 2009.
4 Stefnur og markmið Akraneskaupstaðar.
5 Starfsmannastefna Akraneskaupstaðar 13. nóvember 2001.
6 Sjá fundargerð 48. Fundar fjölskylduráðs þriðjudaginn 21. september 2010.