Færslur undir „Skólamál“

16. febrúar 2011

Skólastjórar sem leggja kennara í einelti

Hlaða niður færslunni sem Word-skjali

* Möguleg siðblinda með í spilinu?

Ég ætlaði mér alltaf að skrifa um siðblindu í skólum í siðblindupistlaröðinni en fann svo ekki nægilega góðar heimildir fyrir slíku. Þó má telja afar líklegt að siðblindir sæki í störf innan skólakerfisins (reyndar staðfestir ástralski sálfræðingurinn John Clarke það í viðtali, sjá færslu um siðblinda á vinnustöðum). Þrá þeirra eftir völdum og að geta ráðskast með fólk, niðurlægt það og upphafið sjálfa sig í samræmi við stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti ætti einmitt að gera kennarastarf þokkalega eftirsóknarvert fyrir siðblinda. Nemendur eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér og skólaumhverfið að öðru leyti (kennarastofa og annar starfsvettvangur) eru ágætis veiðilendur fyrir hin siðblindu rándýr (tel ég, eftir að hafa sett mig dálítið inn í siðblindu og af langri reynslu af skólaumhverfi).1

Þótt ekki hafi ég fundið heimildir um að skimað hafi verið fyrir siðblindu í starfsmannahópum skóla fann ég nokkrar rannsóknir á starfsmannaeinelti í skólum. Má nefna frægar rannsóknir Blase & Blase sem einkum skoðuðu einelti skólastjórnenda í garð kennara, suðurafríska rannsókn á því sama, og nýja ástralska rannsókn á starfsmannaeinelti í skólum.2 Heldur fátt er um fína drætti í íslenskum rannsóknum á starfsmannaeinelti og stjórnendaeinelti í skólum.3

Athyglisverðasta rannsóknin á skólastjóraeinelti fannst mér vera eigindleg rannsókn sem var gerð í Suður-Afríku og lýst er í greininni „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ (Wet, Corine de. 2010) og ég ætla einkum  að fjalla um niðurstöður hennar í þessari færslu. En jafnframt styðst ég við rannsókn Blase & Blase (2002), „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“, og annað eftir því sem þurfa þykir.

Ég vek sérstaka athygli á að í rannsókn Blase & Blase og Fengning (2008), „The mistreated teacher: a national study“, er því haldið fram að vinnustaðaeinelti sé ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda.

Skólastjóri leggur kennara � eineltiSkólastjóraeinelti er skilgreint sem stöðug valdníðsla skólastjóra sem hefur neikvæð áhrif á kennara. Bent er á almennt gildir um vinnustaðaeinelti að einelti stjórnanda hafi sitt að segja í að eitra vinnuumhverfið. Slíkt vinnuumhverfi er kallað „toxic workplace“ á ensku. Í rannsóknum á siðblindum á vinnustað kemur fram að örfáir slíkir, kannski bara einn siðblindur, fari létt með að eitra sinn vinnustað4 svo ekki þarf alltaf lélegan stjórnanda, þ.e. annað hvort óhóflega ráðríkan eða þann sem lætur allt danka, til að skapa eitrað vinnuumhverfi.

Mætti líka huga að kenningum Babiak og Hare5 um höggorma  í jakkafötum, þ.e. siðblinda í viðskiptalífinu, og yfirfæra á aðra vinnustaði. Má þá ætla að siðblindur starfsmaður komi sér upp öflugum verndara (patron), í skólum væri sá einna helst stjórnandinn. Af kenningum um framgöngu siðblindra á vinnustöðum má því gera því skóna að í einhverjum tilvikum standi annað hvort siðblindur starfsmaður bak við einelti stjórnanda eða að stjórnandinn sé siðblindur. Á þessa möguleika er ekki minnst í suðurafrísku rannsókninni en aftur á móti er bent á að einhverjir skólastjórnendur sem beittu einelti virtust hafa sterka sjálfsdýrkunardrætti (narcissism). Sjálfsdýrkun er talin skyld andfélagslegri persónuleikaröskun, sem siðblinda fellur undir. Auðvitað (og því miður) beita margir aðrir en siðblindir einelti á sínum vinnustað.

Í rannsókn Blase & Blase (2002) kemur fram að í öllum tilvikum þar sem skólastjórar beita einstaka kennara einelti eiga skólastjórarnir sér jafnframt eitt eða fleiri uppáhöld, sem þeir hygla með ýmsu móti. Slíkt uppáhald eða uppáhöld styðja skólastjórann í eineltinu, ýmist beint eða bak við tjöldin, og hvetja aðra kennara til að taka þátt í því.6 Þetta styður, að mínu mati, við kenningar og rannsóknir um áhrif siðblindra á vinnustað og mætti jafnvel í ljósi þeirra ætla að uppáhald skólastjórnenda hefði talsverð siðblindueinkenni.
 
 

* Skólastjóri sem leggur kennara í einelti 
 

Rétt er að geta þess að skv. fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti beita kvenkyns og karlkyns stjórnendur einelti í sama mæli en eru líklegri til að velja sér kvenkyns fórnarlömb fremur en karla.7

Einelti skólastjóra lýsti sér einkum í svona hegðun og aðferðum:

  • Skólastjórar hunsa hugsanir, þarfir, tilfinningar og afrek kennara
  • Skólastjórar styðja ekki við bakið á kennurum
  • Skólastjórar beita tíkarlegu orðbragði og gera opinberlega gys að kennurum (Þetta hefur verið kallað „emotional abuse“ og felst í niðrandi framkomu, sögðum og ósögðum skilaboðum, og miðar að því að fá aðra til þegjandi samþykkis eða hlýðni.8
  • Skólastjórar gagnrýna kennara að ósekju
  • Skólastjórar reyna að koma því svo fyrir að kennarar geri mistök
  • Skólastjórar reyna að einangra kennara, félagslega og faglega
  • Skólastjórar sýna skort á samlíðan
  • Skólastjórar áminna kennara skriflega að ósekju. Slík skrifleg áminning er jafnvel veitt fyrir tittlingaskít og án þess að kennara gefist kostur á andmælum eða bara að útskýra sína hlið í málinu.
  • Skólastjórar halda upp á og hygla sumum kennurum á kostnað annarra
  • Skólastjórar reyna að flæma kennara út starfi, t.d. með því að breyta starfsskilyrðum þeirra eða hóta þeim uppsögn9

Sumir kennaranna í suðurafrísku rannsókninni bentu á að þeir ættu erfitt með að sækja rétt sinn til stéttarfélags. Fulltrúar stéttarfélagsins væru nefnilega oft persónulegir vinir skólastjórnandans sem beitti eineltinu. Mér finnst ólíklegt að þessi staða stéttarfélags eigi við um Ísland. Aftur á móti kann að vera að klíkuskapur og neópótismi í þeim stofnunum eða ráðum sem eiga að sinna eftirlitsskyldu og aðhaldi með skólum skipti máli í dæmigerðu íslensku kunningjasamfélagi, t.d. skólanefndum, skólaskrifstofum, menntamálaráðuneyti eða sambærilegum eftirlitsaðilum. Slíkt gæti gert kennurum sem lagðir eru í einelti af skólastjórnendum mjög erfitt fyrir. Skv. rannsókn Fjármálaráðuneytisins á einelti í ríkisstofnunum var 76% formlegra kvartana um einelti sinnt illa eða ekki og ástæðulaust að halda að ástandið sé skárra þegar kemur að kennurum, síst af öllu ef þeir kvarta yfir einelti skólastjóra.10
 

Þættir í fari skólastjóra sem leggur kennara í einelti

Skólastjóri leggur kennara � eineltiÞessir þættir voru greindir í persónuleika skólastjórnenda sem lögðu kennara í einelti: Öfund, eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskun, illska, hræsni og seigla (í að halda eineltinu áfram). Þó kom í ljós að sumir skólastjórnendur höfðu sitthvað til brunns að bera svo ekki var alltaf augljóst af hverju þeir snéru þessari hliðinni að fórnarlambinu. Sumir kennarar lýstu sínum ofsóknarskólastjórum svo að þeir vildu vera einvaldar, einblíndu á stök verkefni í stað þess að hafa yfirsýn og væru veikir/lélegir stjórnendur.  En svo voru aðrir sem héldu því fram að þeirra ofsækjendur væru sérlega tunguliprir og gerðu sér fulla grein fyrir gjörðum sínum.

Einn viðmælanda lýsti því hvernig skólastjórnandi reyndi kerfisbundið að flæma hana úr starfi í sextán ár, m.a. með því að leyfa henni ekki að kenna sitt sérsvið, áminna hana formlega fyrir lítilvægar yfirsjónir og gera lítið úr henni fyrir framan aðra.

Blase & Blase nefna líka dæmi um hvernig skólastjórar leggja kennara í einelti að ósekju: „Í öðrum tilvikum sögðu kennarar frá því að gagnrýni skólastjórnenda væri viljandi óljóst orðuð og byggð á óstaðfestri gagnrýni sem þeir héldu fram að þriðji aðili, „snuðrari“ (t.d. kennari eða nemandi), hefði komið á framfæri. Sem dæmi um falskar áskanir skólastjórnenda eru ásakanir um að hafa skrópað á einhverja samkomu, að sýna neikvætt viðmót og að öskra á nemendur sína. Oft birtist óbein gagnrýni skólastjórnenda í slúðri við aðra kennara og stundum foreldra.“11
 

Af hverju leggja skólastjórar kennara í einelti?
 

Öfugt við það sem einkennir einelti meðal barna, þ.e. að helst er lagst á þá sem skera sig úr hópnum eða eru minnimáttar, þá sýnir þessi rannsókn, ásamt fleiri rannsóknum á vinnustaðaeinelti,  að einelti fullorðinna kviknar oft af öfund vegna afreka fórnarlambanna.

Fleiri rannsóknir á einelti á vinnustöðum, sem Corine de Wit vitnar til, hafa sýnt fram á sterka drætti eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskunar (destructive narcissism) í skapgerð/persónuleika þess sem leggur aðra í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni kom þetta skýrt fram í óhóflegu sjálfsáliti skólastjórnendanna, hroka, hversu uppteknir þeir voru af valdi og meintum rétti sínum, sem og að þeir voru ófærir um að taka gagnrýni, sýndu öðrum ekki tillitsemi og reyndu að gera lítið úr þeim.

Nefnt var dæmi um skólastjóra sem öskraði á undirmann að hún yrði rekin af því hún gagnrýndi hann. Annað dæmi er af kennara sem á kennarafundi gagnrýndi agaleysi í skólanum en skólastjórinn skildi þetta sem gagnrýni á sig og lét hana gjalda þess. Mjög svipað dæmi er að finna í rannsókn Blase & Blase (2002): „Sem trúnaðarmaður skrifaði ég skólastjóranum bréf til að benda á að engin fagleg rök væri hægt að finna fyrir ákvörðun hans og að nemendur mínir lærðu nú ekkert. Hann skrifaði til baka: „Þú ert bara neikvæð og vilt ekki neinar breytingar. Framkoma þín er vandmálið og þú hefur skaðleg áhrif á starfsólkið og vinnuandann.“ Síðan dreifði hann bréfi sínu til allra starfsmannanna. Ég lagði inn formlega kvörtun sem fékk hann til að stoppa. Eftir það hefur ríkt kalt stríð.“12

Í suðurafrísku rannsókninni lýstu kennarar því hvernig skólastjórar hótuðu þeim uppsögn: „Komdu með uppsagnarbréfið … ég skal skrifa undir“ eða hunsuðu þá: „Hann hélt bara áfram að skrifa … hann leit ekki upp … ekki í eitt einasta skipti.“
 

* Persónueinkenni fórnarlamba eineltis skólastjórnanda

Það sem stakk í augu í niðurstöðum Corine de Wet voru óvenju miklir hæfileikar og mikill áhugi kennaranna (fórnarlambanna) á sínu starfi. Þeir höfðu allir skarað fram úr í starfi, á einn eða annan máta. Þessi rannsókn staðfestir aðrar rannsóknir á einelti fullorðinna, þ.e. að gerendur leggjast fyrst og fremst á þá sem hafa mest sjálfstraust, eru samviskusamastir og hæfastir í sínu starfi. En jafnframt eru fórnarlömbin ólíkleg til að sækja rétt sinn og vilja sýna tillitsemi. Bent hefur verið á í fyrri rannsóknum að þetta lífsviðhorf fórnarlambanna valdi því að það sé jafnvel talið mátulegt á þau að leggja þau í einelti og að hætta sé á að þau séu álitin „skipta ekki máli“ á vinnustaðnum. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á tvö dæmi þessu til stuðnings, þar sem hæfileikaríkum kennurum voru settar skorður með því að minnka smám saman við þá kennslu í sínu eigin fagi [og láta þá kenna önnur fög].

Í öðrum rannsóknum á fórnarlömbum vinnustaðaeineltis almennt hefur komið fram að um þriðjungur þeirra er taugaveiklaðri, síður þægilegir í umgengni, samviskusamari og úthverfari persónuleikar  en þeir sem ekki eru lagðir í einelti. Kvíði eða stífni í samskiptum reyndust hins vegar vera afleiðing þess að vera lögð/lagður í einelti en ekki orsök. Það er því ekki hægt að varpa þeirri sök á fórnarlambið að það sé ekki samvinnufúst til að afsaka einelti á vinnustað.
 
 

* Afleiðingar eineltis fyrir kennarana sem skólastjórnandi leggur í einelti

Einelti skólastjóraÞví hefur verið haldið fram að einelti lami og eyðileggi starfsmenn meir en allir aðrir streituvaldar starfsins samanlagðir. Afleiðingar eineltis fyrir fórnarlömbin í rannsókn Corine de Wit reyndust vera víðtækar, bæði hvað snerti andlega og líkamlega heilsu sem og faglegt starf. Einelti hafði slæm áhrif á þátttöku fórnarlambanna í félagslífi kennara. Þau fundu til depurðar og tveir kennarar sögðust þjást af þunglyndi þótt þeir tengdu það ekki við ástandið á vinnustaðnum. En margir rannsakendur hafa einmitt komist að þeirri niðurstöðu að þunglyndi sé áberandi fylgifiskur vinnustaðaeineltis. Fórnarlömb skólastjóraeineltis fundu líka fyrir skömm, vanmætti og faglegur áhugi minnkaði.

Þótt í almennum rannsóknum á vinnustaðaeinelti hafi komið fram auknar fjarvistir fórnarlamba var sú ekki raunin í rannsókninni á kennurunum. Í  rannsókn Blase & Blase (2002) komu eftirfarandi einkenni fram hjá fórnarlömbum eineltis skólastjóra: Í fyrstu fengu fórnarlömbin áfall, áttuðu sig illa á þessu, fannst þau vera auðmýkt, fundu fyrir einsemd, traust og sjálfsmat beið hnekki, þeim fannst þau flekkuð og fundu fyrir sektarkennd. Stæði eineltið lengi komu fram ýmsir andlegir kvillar hjá fórnarlömbunum, s.s. ótti, kvíði, reiði og þunglyndi, og sállíkamlegir/líkamlegir kvillar, s.s. svefnleysi, martraðir, þráhyggjuhugsanir, krónísk þreyta, magaverkir, ógleði, líkamsþyngd óx eða minnkaði, verkir í herðum og baki, höfuðverkur eða mígreni.13
 
 

* Viðbrögð við eineltinu

Blase & Blase (2002) taka saman niðurstöður sínar um hvað eineltisfórnarlamb geti gert og eru þær í samræmi við niðurstöður fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti, sem þau vísa í. Í stuttu máli sagt virðast kennurum fáir vegir færir. Þau segja: „Að auki uppgötvuðum við að kennarar sem eru lagðir í einelti af skólastjórum eiga sjaldan nýtilega möguleika á leiðréttingu sinna mála. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að dæmigert viðbrögð við kvörtunum fórnarlambs yfir einelti stjórnanda eru að (a) engin svör berast frá yfirstjórn, (b) reynt er að verja stjórnendur sem sýna ruddamennsku og (c) hefnd er beint að fórnarlambinu sem kvartar. Í rauninni var okkar niðurstaða sú að kennarar reyndu sjaldan að kvarta til fræðslustjóra því þeir væntu „engrar aðstoðar“ og vegna þess að þeir „óttuðust“ hefndaraðgerðir.“14

Í yfirlitsgrein yfir aðgerðir stéttarfélaga í ýmsum löndum Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt yfirliti yfir þau lög sem taka á eineltismálum í þessum löndum kemur fram að stéttarfélög hafa í rauninni afar lítil áhrif og „þarf kannski að endurskoða þá hugmynd að stéttarfélög séu í fararbroddi“. Í sambandi við kennarafélög er bent á lofsvert framtak  Kennarasamtaka Bandaríkjanna (American Federation of Teachers, skammstafað AFT) í að viðurkenna að  vinnustaðaeinelti skiptir máli í öryggi og heilbrigði starfsfólks og kennara. Þetta kom ekki á óvart því víðtæk könnun AFT leiddi í ljós að 34-60% kennara innan vébanda samtakanna hefðu orðið yfir einhverju einelti af hálfu samstarfsfélaga (ekki kemur fram hve stór hluti þeirra voru yfirmenn) á sínum vinnustað á síðasta hálfa árinu. Helst birtist þetta einelti í: Að vera niðurlægður eða hafður að háði og spotti (20-33%); Að verða fyrir móðgandi ummælum (15-38%); Að gerandi eineltis sýndi kúgandi eða ógnandi framkomu (10-23%); Að vera hunsaður/hunsuð eða virtur/virt að vettugi (23-40%); Að verða fyrir stríðni og kaldhæðni sem keyrir um þverbak (10-21%); Að öskrað var á fórnarlambið (15-27%).15
 
 

* Afleiðingar fyrir vinnustaðinn

Vinnustaðaeinelti í skólum hefur ekki bara áhrif á fórnarlömbin heldur allt andrúmsloft í skólanum því eineltið ýtir undir minni hollustu, sinnuleysi og meðalmennsku. Í rannsókn Corine de Wit er nefnt dæmi af kennara, konu sem hafði verið hugmyndarík og skarað fram úr en var álasað fyrir að viðra hugmyndir um hvernig mætti gera skólastarfið betra með endurskipulagningu. Hún sagði: „Ég kæfi allar nýjar hugmyndir núna. Ég get ekki lengur verið hreinskilin í að miðla hugmyndum mínum.“ Aðrir kennarar sögðu að eineltið hefði haft þau áhrif að þeir sinntu bara starfi sínu en forðuðust að taka þátt í skólastarfinu umfram það. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á vinnustaðaeinelti, þ.e. að það leiðir til lélegri vinnubragða, minni eldmóðs, minni skilvirkni og skertrar starfsánægju.

Þrátt fyrir eineltið hafði enginn kennaranna í rannsókn Corine de Wit ákveðið að yfirgefa starfsgreinina. Mörg eldri fórnarlömbin hfðu á orði að þau ætluðu að bíða þetta af sér því stutt væri í eftirlaunaaldur. Aðeins einn þátttakandi, sem hafði kennt í sama skólanum í 30 ár, sagði að hún hefði sótt um starf í öðrum skóla. Þetta er í andstöðu við niðurstöður kannana á vinnustaðaeinelti almennt, t.d. sögðust 50% tyrkneskra starfsmanna, sem lagðir voru í einelti á vinnustað, að þeir væru alvarlega að hugsa um að skipta um vinnu og 30% breskra eineltisfórnarlamba sögðu upp starfi sínu.

Kennararnir sem lagðir voru í einelti höfðu yfirleitt ekki reynt að standa upp í hárinu á skólastjórunum sem beittu einelti. Þeir óttuðust að eineltið myndi aukast við slíka árekstra. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem bent hefur verið á „spíral þagnarinnar“, þ.e.a.s. að í stofnunum þar sem menn óttast að segja hlutina beint út er þagað yfir áreitni og einelti.

Þeir fáu sem höfðu reynt að ræða málin við skólastjóra voru kallaðir lygarar. Fórnarlömbin tóku réttilega eftir því að gerendur gerðu lítið úr andlegu ofbeldi eða afneituðu því hreint og beint. Viðbrögð gerenda við ásökunum voru að gera fórnarlömbin sjálf ábyrg, með hreytingum á borð við „Vertu ekki svona viðkvæm”“eða „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um“. Þannig er vandinn gerður fórnarlambsins og gerandinn þykist stikk-frí.
 

* Hvað er til ráða?

Kennarar standa hjá � einelti skólastjóraVald geranda eineltis felst oft í því að hræða fólk til þagnar. Fórnarlömbin bentu líka á að kvartanir þeirra virtust hversdagslegar þegar þær voru slitnar úr samhengi. Aðrar rannsóknir benda á að vinnufélagar sem standa hjá og aðhafast ekkert reyna að auki að forðast fórnarlambið eins og sektin hafi að einhverju leyti flekkað þau, jafnvel þótt áður hafi þessir vinnufélagar átt vinsamleg samskipti við fórnarlambið. Ein niðurstaða rannsóknar Corine de Wit er að þátt aðgerðarlausra vinnufélaga í skólastjóraeinelti þurfi að athuga miklu betur.

Að lokum bendir Corine de Wit á að niðurstöður rannsóknar hennar á skólastjóraeinelti í Suður-Afríku, séu í fullu samræmi við fjölda alþjóðlegra rannsókna á vinnustaðaeinelti, þótt fáar þeirra hafi skoðað sérstaklega vinnustaðinn skóla. Hún  bendir einnig á að skv. nokkrum rannsóknum séu hefðbundin vinnusálfræðilegt inngrip engan veginn fullnægjandi /skili ekki árangri. Það sem þarf til að uppræta einelti í stofnun á borð við skóla eru róttækar breytingar á innviðum stofnunarinnar sjálfrar.

Corine de Wit klikkir út með þessari ályktun: Það er nauðsynlegt að efla stjórnunarmenntun fyrir skólastjórnenda, þ.m.t. menntun í að fást við ágreiningsefni. Ekki hvað síst þegar í ljós kom í rannsókninni að lélegir stjórnunarhæfileikar, skortur á reiðistjórn, öfund, eyðileggjandi sjálfdýrkun og misnotkun valds voru oft helsta orsök þess að skólastjórnendur lögðu kennara í einelti. 
  
  
  
   

1 Sjá nánar: Siðblindir á vinnustað og Siðblindir í viðskiptum. Í þeirri suðurafrísku rannsókn sem í færslunni er mjög  til umræðu (Wet, Corine de. 2010) er staðhæft að illska sé einn þeirra þátta sem greina megi í skapgerð eineltandi skólastjóra. Vitnað er í aðra rannsakendur vinnustaðaeineltis sem hafa haldið því fram að oft sýni gerendur eineltis óeðlilega hegðun og enga eftirsjá. Þeir fái jafnvel ánægju út úr því að sjá aðra þjást. Aðrir gerendur eineltis fara betur með þennan þátt í sínu skapferli og reyna að koma vel fyrir en munu eigi að síður ekki skirrast við að meiða og auðmýkja fórnarlömb sín opinberlega. (Wet, Corine de. 2010, s. 1455.) Þetta eru allt einkenni siðblindu.Þegar hrein opinber illska eða tvöfeldni í framkomu er höfð í huga auk stórmennskuhugmynda, valdaástríðu o.fl. atriða sem talin eru aðalsmerki eineltandi skólastjóra læðist auðvitað að manni sú hugmynd að verið sé að lýsa „huggulegum siðblindum“ (subclinical psychopaths, white-collar psychopaths, corporate psychopaths, secondary psychopaths, pæn psykopat eru þau orð sem oftast eru höfð um þessa tegund siðblindra). Í ljósi kenninga Babiak og Hare um siðblindu í viðskiptum og kenningar Boddy um gífurleg áhrif siðblindra starfsmanna á starfsumhverfi (sjá færslurnar sem vitnað var í hér að ofan) er freistandi að íhuga hvort skólastjóri sem beitir einelti sé í rauninni verndari (patron) siðblinds kennara eða undir sterkum áhrifum frá slíkum.

Þannig að út frá kenningum um siðblindu gæti skólastjóri sem leggur kennara í einelti verið siðblindur en allt eins kæmi til grein að svoleiðis skólastjóri væri verndari siðblinds kennara, eða einfaldlega eitt af peðunum hans.
 

2 Blase, Joseph og Blase, Jo. 2002. „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“ í  Educational Administration Quarterly, 38 árg. 5.tbl. s. 671-727. Desember 2002.

Blase, Joseph, Blase, Jo og Fengning Du. 2008. „The mistreated teacher: a national study“ í Journal of Educational Administration, 46.árg. 3.tbl. s. 263-30. Í þessari rannsókn kemur fram að vinnustaðaeinelti er ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda. Sjá s. 264 og 266. En nákvæmar kannanir á því hversu algengt er að skólastjórnendur beiti kennara einelti hafa ekki verið gerðar.

Wet, de Corine. 2010. „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ í Teaching and Teacher Education. An International Journal of Research and Studies, 26.árg. 7.tbl. s. 1347-1492. Október 2010.

Riley, Dan, Deirdre J. Duncan, John Edwards. 2011. „Staff bullying in Australian schools“ í Journal of Educational Administration, 49.árg. 1.tbl. s. 7-30. Einungis útdrátturinn var skoðaður en leigja má greinina eða kaupa ef áhugi er á. (Það vekur reyndar strax áhuga hvað niðurstöður rannsóknar Riley o.fl. eru uggvænlegar.)

Í þessari færslu er einkum stuðst við rannsókn Corine de Wet (2010) og fyrri rannsókn Blase & Blase (2002).

Greinarnar voru skoðaðar á vefnum þann 11. febrúar.
 
 

3 Til eru tvær íslenskar rannsóknir sem nálgast þetta efni ofurlítið:

Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins 24. janúar 2011. Rannsókn Dagrúnar var á tveimur ótilgreindum ráðuneytum og einni ótilgreindri ríkisstofnun. Niðurstöður voru afar misjafnar því einn vinnustaðurinn skar sig ákaflega úr vegna mikils stjórnandaeineltis og skekkti allar tölur. Meginniðurstaðan var sú að í flestum tilvikum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi.

Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vef Fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2011. Þetta var mjög viðamikil rannsókn og var meginniðurstaðan sú að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna taldi sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum. Hins vegar er rannsóknin gölluð að því leyti að ekki var greint milli stjórnenda og almennra starfsmanna í svörum; að ekki er hægt að skoða einstakar starfsstéttir heldur einungis flokkun eftir ráðuneytum, sem mismunandi margir og mismunandi fjölbreyttir vinnustaðir falla undir, og að áhersla er mjög á reynslu þolenda en fátæklegar niðurstöður um gerendur, t.d. er ekki greint frá kyni gerenda. Þótt í niðurstöðum segi að í 44% tilvika sé gerandi eineltis samstarfsmaður en næsti yfirmaður í 31% tilvika segja þessar tölur næsta lítið því, eins og áður var getið, eru þeir sem svara bæði venjulegir starfsmenn og yfirmenn. Í niðurstöðunum kemur fram sú sláandi staðreynd að í 76% tilvika var formlegum kvörtunum vegna eineltis ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti.

Könnun fjármálaráðuneytisins náði að sjálfsögðu bara til framhaldsskólakennara og stjórnenda framhaldsskóla. Í könnun Dagnýjar er ekki hægt að sjá hvort þriðja stofnunin var skóli og mér þykir  fremur ólíklegt að svo hafi verið. Mér vitanlega hefur Kennarasamband Íslands ekki staðið fyrir neinni könnun á vinnustaðareinelti í skólum landsins og hvergi hafa birst upplýsingar um slíkt. Það væri samt full þörf á að rannsaka vinnustaðaeinelti í grunnskólum og framhaldsskólum miðað við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem ég vísa í (og sem vísa áfram í fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti um allan heim).
 

4 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics 25. nóvember 2010, s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út 2006.)
 

6  Blase & Blase (2002) s. 689-690.
 

7 Sjá yfirlit yfir þessar rannsóknir í Blase & Blase (2002), s. 678.
 

8 Sjá skilgreiningu Keashly (1998) í Blase & Blase (2002), s. 675.
 

9 Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við margar alþjóðlegar rannsóknir og sýna að stjórnandi sem ekki er starfi sínu vaxinn reynir oft að leggja undirmenn sína í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á það sem skýringu að öfund sé mjög oft hvati að einelti. Persónulegur styrkur kennara og það sem hann/hún hefur afrekað í starfi gæti egnt lélegan yfirmann til að leggja þann kennara í einelti. Í sumum vinnustaðarannsóknum (sem vísað er í úr suðurafrísku rannsókninni)  hefur komið fram að gerandi eineltis reyni að gera opinberlega lítið úr því sem hann öfundar fórnarlambið af. Sjá Wet, Corine de. (2010) s. 1454 - 55. Sjá má ítarlegt yfirlit yfir eineltishegðun skólastjóra í Blase & Blase (2002) s. 686.  Á eftir yfirlitstöflunni þar fylgir texti á næstu síðum sem útskýrir einstaka þætti.
 

10 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008.
 

11 Blase & Blase (2002) s. 694
 

12 Blase & Blase (2002) s. 693-694
 

13 Blase & Blase (2002) s. 711 o.áfr.
 

14 Blase & Blase (2002) s. 715
 

15 Harthill, Susan. 2010. „Workplace Bullying as an Occupational Safety and Health Matter: A Comparative Analysis“ í  SelectedWorks (safni fræðigreina á vefnum). Skoðað 13. febrúar 2011.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Skólamál, Siðblinda

30. september 2010

Kynungabók

Ég renndi yfir Kynungabók í gær. Þetta er bæklingur, gefinn út af Mennta- og menningarmálaráðuneytingu í ágúst 2010. Bæklingurinn virðist eiga að vera kennsluefni því í formála segir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir: “Það er von mín að rit sem þetta eigi eftir að nýtast í skóla- og uppeldisstofnunum þannig að allir nemendur fái lögbundna fræðslu í þessum efnum [þ.e. jafnréttisfræðslu]”.

Það sem stingur fyrst í augu, varðandi þennan bækling, er nafnið. Hvað er kynungur? Ráðherra segir í Ávarpi í tilefni útgáfu Kynungabókar 25. ágúst 2010:

langullarkynungur“Kynungur felur bæði í sér tilvísun í kyn og ungt fólk en er jafnframt gamalt og gilt orð samkvæmt Orðabók menningarsjóðs. Skilgreining orðabókar á orðinu er „að vera af ákveðnu kyni eða sauðahúsi“.”

Í Íslenskri orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði og Edda gaf út, 2002, segir einmitt (s. 846): “kynungur … sá sem er af tilteknu kyni > langullarkynungur (um sauðfé).”

Leit í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans skilar engu og heldur ekki leit í aðskiljanlegum orðabókum á snara.is, hvað þá Íslenskri orðsifjabók. Aftur á móti nefnir Íslenskur Orðasjóður, við Háskólann í Leipzig,  dæmið: “Þannig hefur myndast nýr, grólaus kynungur”.

Svoleiðis að fyrrum móðurmálari, verðandi öryrki, hlýtur að bendla Kynungabók ósjálfrátt við sauði eða burkna. Það er nú ekki gott veganesti fyrir svo háleitan bækling. Og óskemmtilegt fyrir vesalings nemendurna sem eiga víst að fræðast af þessum ritlingi, svk. fyrrnefndu ávarpi ráðherra. Verður ekki betur séð en bæði höfundar ritlingsins og ráðherra misskilji orðið því svo virðist sem kynungur þýði einfaldlega ættkvísl. Við sitjum því uppi með “Ættkvíslabók” til jafnréttisfræðslu.

Annað sem vekur athygli við fyrstu sýn er hvað gripurinn er afspyrnu ljótur. (Nema menn séu almennt hallir undir auglýsingar Iceland Express en hönnun bæklingsins virðist byggð á þeirra litum og framsetningu.) Hönnuðurinn, Kári Emil Helgason, hrífst af appelsínugulu og gráu, sjá hans eigin heimasíðu.

Apples�na hugsarÞað er þreytandi að horfa á sömu appelsínugulu, gráu og hvítu litatónana á hverri síðu (nema auðvitað í þeim svarta kafla “Kynbundið ofbeldi”). Og það er ekki verið að spara IcelandExpress-appelsínugula litinn, meira að segja undirkaflafyrirsagnir eru yfirlitaðar appelsínugular (og því illlæsilegar). Satt best að segja bjóst ég alveg eins við að sjá “Þar bíður hún mín, ‘ún Lóa”, einhvers staðar í miðri bók.

Textinn er brotinn upp af fjölda línu-og súlurita, sem öll eru appelsínugul og grá, og snyddum sem heita “Til umhugsunar”, með á að giska 20 - 24 punkta letri.
Í megintexta eru svo skærappelsínugular “historier fra hverdagen” (eins og þær heita í Norsk Ukeblad, eitthvað svipað heita þær í Vikunni en í Kynungabók heita þær Örsögur.) Ég reikna með að þær séu  uppdiktaðar af höfundum enda hvergi vísað til heimilda um hvar þessar sögur gætu hafa birst.
Efri spássía er engin en sú neðri þess myndarlegri. Og það er voðalega skæs og módern að snúa blaðsíðutali hverrar síðu 90°.

Hugleikur Dagsson er sagður myndskreyta bæklinginn. Hann hefur vakið athygli fyrir fyndnar, einfaldar myndir og er í tísku, myndskreytti m.a. síðustu símaskrá. En í bæklingnum eru nákvæmlega 4 myndir eftir Hugleik, auk einnar á forsíðu. Engin þeirra er hið minnsta fyndin eða dregur fram eitthvað úr textanum; Appelsínugular stelpur að sippa; Appelsínugulir strákar í fótbolta; Er einhver dulinn boðskapur í þessum myndum? Nei, Hugleikur er þarna notaður sem hvert annað auglýsingatrix, alveg eins og Hemmi Gunn í fyrirmynd hönnunar bæklingsins. Á forsíðumyndinni er karl með appelsínugult bindi og kona með appelsínugula nunnuslæðu (a.m.k. sé ég ekki betur).
 

Höfundarnir eru 5 konur, þar af vinna fjórar í MRN og ein er framkvæmdarstýra Jafnréttisstofu. Miðað við að þetta á að vera jafnréttisbæklingur hefði nú kannski verið við hæfi að leyfa sosum eins og einni karlskepnu að fljóta með sem höfundi.

  
Strax í innganginum er tónninn sleginn (”aumingja-við-stelpurnar-vælið”) og hin venjubundna femínstistatilhneiging til að hanna íslenska tungu upp á nýtt blómstrar: “Þau [leturbreyting mín] sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista.” (s.7). Í ljósi þess að í 5 höfunda hópi eru a.m.k. tveir fyrrum íslenskukennarar fer um mann hrollur. Ráðlegg þeim að hlusta á Málstofuna; Mál og kyn, á Rás 1 á þriðjudaginn var.

Annars skoðaði ég einkum þá kafla sem ég tel mig hafa eitthvert vit á. Þar má nefna “Skólagöngu”.

Þar er skólasaga rakin í míkrómynd og sagt: “Þrátt fyrir það voru framhaldsskólar mjög kynskiptir í marga áratugi þar á eftir sem endurspeglast [leturbreyting mín] í kynskiptu námsvali.” (s. 14)  Tilvísun er í Sigríði Matthíasdóttur (2004) og eðlilega hélt ég að hún hefði skrifað um hvernig þetta gamla skipulag endurspeglast í námsvali nútímans. En nei, heimildin er bók Sigríðar: Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900- 1930. Hver fattaði upp á að stinga orðinu nú inn í málsgreinina? Svo tekur við létt hjal um aðskiljanlega hluti en neðst á síðu 15 er farið að fjalla um námsval.

Síður 16 og 17 loga af appelsínugulum og gráum súlum og appelsínuguli “Vissir þú að …” kaflinn er á sínum stað. (Þessir “Vissir þú” kaflar eru margir uppfærðir molar af síðunni Ábyrgir foreldrar Akureyri. Þar eru þeir höfundalausir. Sjá má ótvíræð tengslin t.d. í stafsetningarvillu í tilvísun í grein Tirril Harris en einnig dugir að lesa molana og bera saman við Kynungabók.)

Skv. súluriti yfir nemendaskráningu á einstökum brautum framhaldsskóla eru stelpur alls staðar í meirihluta, nema í raungreinum, þar sem þær eru 45% nema og í iðn- og tæknibrautum, þar sem strákar eru 67% (hlutfallið 2002 var 90% svo breytingar hafa faktískt orðið, án Kynungabókar eða annars purkunarlauss femínistaáróðurs.) Þetta er túlkað þannig:

Appels�nugaur � svuntu“Þetta kynbundna námsval tengist hugmyndum um karlmennsku og kvenleika. Karlar eru í “karllægum greinum”". Ansi hæpin einföldun, finnst mér. Þetta tengist auðvitað fyrst og fremst því að enn velja karlmenn að ljúka starfsnámi í framhaldsskóla og þar er aðallega um iðngreinar að ræða, meðan starfsnám kvenna hefur færst á háskólastig. Þetta gæti líka tengst því að fleiri strákum vegnar verr í skóla en stelpum og því gæti verið eftirsóknarvert að fyrir þá að stunda nám sem felur í sér minna bóknám og gefur starfsréttindi.

Vilja höfundar Kynungabókar bregðast við þessu með því að færa allt iðnnám á háskólastig og auka þannig einn meir brottfall stráka úr framhaldsskóla? Eða fækka stelpum sem sækja í háskóla með því að reyna að fá fleiri þeirra til að gerast smiði, múrara, kjötiðnaðarmenn eða rafvirkja - svo dæmi séu tekin af handahófi? Til hvers?

Á síðunni á móti er annað súlurit, í þetta sinn er sýnt kynjahlutfall í goggunarröð háskólakennara. Augljós skýring á þessum mun, þ.e. að miklu fleiri karlar en konur eru prófessorar en sæmilegt jafnrétti ríkir í lektorastétt, er kynslóðarbil. Hefði meðalaldur prófessora og lektora verið sýndur í leiðinni blasti skýringin við. Ásókn kvenna í háskólanám er nefnilega ekki það gömul. Þessari skýringu er að sjálfsögðu sleppt.

Á miðri þessari opnu er “Til umhugsunar”-snydda (með ca 24 punkta letri) þar sem sagt er frá því reginhneyksli að “Vorið 2010 birtist frétt um valnámskeið í grunnskóla á Vesturlandi þar sem stelpum í unglingadeild var boðið að sækja snyrtinámskeið og fyrirlestur um ótímabæra þungun en strákar fengu námskeið um vinsælan tölvuleik.” Rakið er að ein stelpan vildi komast á fyrirlesturinn um Eve Online en fékk ekki, var í staðinn boðið á kynningu hjá tölvufyrirtækinu.

Ég er ekki að mæla því bót að stelpuskottið skuli ekki hafa mátt kynna sér Eve Online en það eru ansi miklar ýkjur að kalla þetta “valnámskeið í grunnskóla” því, eins og segir  segir í fréttinni sem vísað er til : “Nemendur í unglingadeild Auðarskóla í Búðardal gerðu sér glaðan dag í vikunni, þegar skólinn stóð fyrir námskeiðum fyrir krakkana í lok skólaárs.” Þetta var sumsé stutt húllumhæ í skólalok; Tveir fyrirlestrar á sama tíma. Skyldu höfundar Kynungabókar hafa kannað þetta mál eitthvað, t.d. með símtali vestur? Eða dugir að trúa frétt DV sem nýju neti?

Aftur á móti var boðið upp á “strákaval” og “stelpuval” fyrir hálft skólaárið 2010, í Álftanesskóla. Mig minnir að femínistar hafi fengið hland fyrir hjartað yfir heitum valsins og nöfnunum hafi verið breytt. Þó kemur fram að ekkert foreldri gerði athugasemd við nafngiftina. Skiptir máli, í uppsláttarvali í Kynungabók, að sá skólastjóri var formaður Alþýðubandalags Borgarness og nærsveita í 2 ár, meðan sá flokkur var við lýði? Sem sagt vinstri maður? Og þess vegna fremur valið miklu ómerkilegra og saklausara dæmi úr Búðardal (án þess ég viti í hvaða pólitískan dilk skólastjórinn þar raðast).

Raunar finnst mér, almennt og yfirleitt, heldur hæpið að nota DV sem heimild í tilvonandi kennsluefni Mennta-og menningarmálaráðuneytis. Allt annað er að brúka slíkt í bloggi.

Það er í stíl við nýmóðins  heimildanotkun í því góða ráðuneyti að vitna í Blogg Gáttina (s. 27), í umfjöllun um hlut kvenna í fjölmiðlum. Kannski hefðu höfundar átt að kynna sér hvernig sú  talning virkar en til upplýsingar er bent á færslu Gísla Ásgeirssonar, Um Blogggáttina,   Og hefði ekki verið rétt, í þessu sambandi, að reikna út hlutfall íslenskra notenda Facebook eftir kynjum? Eða skanna minningargreinar moggans svona 2 ár aftur í tímann og gá hvernig prósentuhlutfall kynja birtist það, þ.e. í ritendum minningargreinanna? Þetta er nú einu sinni afar vellesið efni, allt að því fjölmiðlar.

Að lokum vil ég minnast á enn einn “Vissir þú að …” kaflann, enn og aftur byggðan á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri (sem hvergi er getið í heimildaskrá þrátt fyrir öflugt framlag til Kynungabókar):
“Vissir þú að …
… þunglyndi er algengara hjá konum körlum og er munurinn meiri hjá yngra fólki en því eldra? Ekki er þó fullvíst að um líffræðilegar orsakir sé að ræða fyrir þeim mun og jafnvel talið að félagslegir þættir og mismunandi aðstæður kvenna og karla í samfélaginu hafi þar áhrif.”
Sem heimild fyrir þessu er vísað er í grein Harris, T (2003) Depression in women and its sequela [svo! rétt: sequelae] Journal of Psychotomatic Research, 54, 103-112. Kenningar Tirril Harris eru  umdeildar og hafa verið frá því hún var meðhöfundur í frægri rannsókn, Brown, G.W. and Harris, T.O. (eds) 1978: Social origins of depression: a study of psychiatric disorder in women. London; Tavistock. Besta yfirlitsgreinin um þætti sem kunna að hafa áhrif til þess að algengi þunglyndis meðal kvenna mælist meira en karla er, að mínu mati, grein Dr. Elizabeth Young, Sex, trauma, stress hormones and depression, í Molecular Psychiatry (2010) 15, 23–28. En hún fellur líklega ekki að smekk fyrrum rauðsokka.

NornÞótt augljósasta skýringin á algengi þunglyndis meðal kvenna sé vitaskuld sú að konur eru miklu duglegri að leita sér hjálpar, þ.m.t. læknishjálpar, en karlar, eins og kemur reyndar fram í Kynungabók, er óþarfi að slengja fram vafasamri fullyrðingu byggðri á vafasamri heimild sem einhver höfundurinn hefur rekist á á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri um svo alvarlegan sjúkdóm sem þunglyndi er. En sé maður femínisti hefur maður greinilega vit á öllum sköpuðum hlutum undir sólinni … eða má a.m.k. tína upp sína heimildarmola úti á túni, óáreitt(ur?). Bloggynja þakkar fyrir að hafa ekki séð Jónínu Ben. í heimildaskrá.

Almennt má um Kynungabók segja að þarna fer hópur kvenna á besta aldri fram með fyrirfram gefnar einstrengingslegar skoðanir á skólakerfi, hagkerfi, heilbrigðismálum o.fl. og telur hvaða heimildir sem styrkja sína þröngu heimsmynd tækar. Vitnað er jöfnum höndum í opinberar skýrslur stofnana, virtar rannsóknir, greinar í ritrýndum tímaritum, óbirtar BA-ritgerðir, DV, Blogggáttina, Megrunarlausa daginn  og efni sem ekki er getið í heimildaskrá (vefsíðu Ábyrgra foreldra á Akureyri og lífsreynslusögur) o.s.fr. Ekki virðist gerð sérstök tilraun til að meta heimildirnar, líkt og dæmið um grein T. Harris sýnir hér að ofan, það dugir að þær falli að fyrirframgefnum skoðunum höfunda. Það er auðvitað hneisa að Mennta-og menningarmálaráðuneytið skuli leggja nafn sitt við þennan bækling.   

Hefði fénu, sem fór í að útbúa þennan bækling, ekki verið betur varið í annað? Á tímum niðurskurðar í skólakerfinu, eins og það leggur sig.
 

  

Kostir við Kynungabók? Ja, hún virðist vel prófarkalesin, nema kannski heimildaskrá.

  

  

Ummæli (4) | Óflokkað, Bækur, Skólamál

19. september 2010

Málfarsstígurinn vandrataði

Málvillupúkinner hér til umræðu og hinn breiði vegur málvillna sem leiðir beint til helvítis, sbr. “Glatist tungan glatast þjóðin”! Getur einhver upplýst hvaðan þessi frasi er kominn? Mig grunar að þetta sé fengið úr einhverri ræðu frú Vigdísar en væri gaman að vita hvort klisjan er eldri. [Myndin á að sýna málvillupúkann, sem mun líklega steypa þjóðinni í glötun en tengist ekki neinum af þeim sem eru nafngreindir í færslunni.]

Hér á heimilinu er stundum fjörug fræðileg umræða um málnotkun og málvöndun. Tveir heimilismanna eru aðdáendur Eiðs Svanbergs Guðnasonar og hans molaskrifa. Einn heimilismaður vill horfa á málin undir afskaplega víðu sjónarhorni og vitnar til skiptis í BBC-framburð og samræmda forngrísku sem kennd var í grískum skólum til skamms tíma, grískum börnum og unglingum til mikils ama, bókmenntum og listum til einskis framdráttar. Svo er það ég sem hef áratuga reynslu af því að kenna íslensku, þ.m.t. reynslu af ítroðslu helstu “villu-leiðréttinga” í beygingu sagna og nafnorða. Svoleiðis að við kvöldmatarborðið þykist hver hafa til síns ágætis nokkuð. David Attenbourough

Rök víðsýna heimilismannsins felast einkum í því að í hinum siðmenntaða heimi hafi ávallt þótt ástæða til að brúka tungumálið til að skilja milli pöpuls og menntamanna. Þetta sé gert á ýmsa vegu. Á Bretlandi er mikilvægt að tileinka sér réttan framburð, RP (received pronounciation) sem kannski er þekktastur í máli þula hjá BBC. Ég minnist ársins í enskudeild HÍ þegar þessi posh framburður var æfður í hljóðveri og lagt kapp á að ná breskum staccato talanda, nánast með handaklappi.  Í Amríku, heldur sami heimilismaður fram, er mikilvægt að sletta latneskum orðum og passa vel upp á að hafa latneska fleirtölumynd rétta, segja t.d. hippopotami, berist talið að mörgum flóðhestum. (Reyndar ku menntaðir kanar segja hippopótamæ en enginn Latverji hefði svo framborið orðið, a.m.k. ekki á gullöldinni.)

Það sjá allir að gjörbylting á framburði eða æxlun latínusletta er meiriháttar lærdómur. Nútildags hafa flestir fallið frá viðurkenndum snobbframburði íslensku, enda úrval framburðarafbrigða heldur fátæklegt. Svo var þó ekki; er skemmst að minnast baráttunnar gegn því skemmtilega afbrigði flámæli, gott ef ekki var lagt til að útskrifa ei flámælta presta eða kennara (man ekki hvort þetta náði fram að ganga). Svo hart var gengið fram í flámælisbardaganum að maður telst heppinn að ná að heyra þennan framburð, yfirleitt þá í tali háaldraðs fólks.  Einn íslenskukennara minna í menntaskóla útlistaði fyrir okkur nemendunum hvernig hann æfði upp hv-framburð, eftir segulbandsspólum. Slíkt held ég að enginn leggi á sig núna. Enda var árangurinn ekki sá að við nemarnir fylltumst aðdáun á tiltækinu heldur var þetta efni í endalaus skemmtiatriði og eftihermur á skólaskemmtunum.

Þannig séð er gott  og þægilegt að á Íslandi þykir það mikilvægast af öllu að kunna að beygja “rétt” innan við tíu orð til að sýna að maður sé menntaður eða a.m.k. á einhvern hátt betri en ótíndur almúginn. Þetta er auðveldlega yfirstíganlegur andskoti en spurningin er hins vegar til hvers leikurinn er gerður. Beyging

Vinsælast er að hamra á “réttu” þolfalli eða þágufalli með ópersónulegum sögnum, aðallega þolfalli þar sem í málvitund meirihlutans væri þágufall réttara. Dæmi um þetta eru “mig langar” eða “mig dreymir”. Flestar sagnir sem tákna líðan og löngun eru ópersónulegar og frumlagið í þf. eða þgf. En viti menn: Til eru tvær svoleiðismerkjandi sagnir sem beygjast eftir persónum og frumlagið er því í nefnifalli. Þetta eru þær frægu “hlakka” og “kvíða”. Ég leyfi mér að fullyrða (af löngu kennslureynslunni) að “ég hlakka” og “ég kvíði” brýtur í bága við máltilfinningu flestra. Þess vegna hef ég yfirleitt gripið til þess ráðs að kenna sagnbeyginguna sem svo að þetta væru rímsagnir, ráðlagt nemendum að setja “smakka” í stað “hlakka” og “ríða” (sem beygist reyndar ekki alveg eins) í stað “kvíða” til að geta puntað sínar ritsmíðar með hinni einu kórréttu beygingu. Það er hægt að gera þetta að skemmtilegum samkvæmisleik, sé maður þannig innstilltur. Tilgangurinn er sá einn að ekki sé hægt að hanka nemandann á rangri beygingu, honum til hnjóðs. Nemendur mínir hafa yfirleitt fyrir löngu áttað sig á því að “mig hlakkar” er upplagt eineltistilefni og vilja því gjarna læra trix til að hafa þetta í samræmi við það sem málfarslöggan býður. (Þetta er sosum ekkert ný beyging, sjá neðanmálssöguna s. 55 í Þjóðólfi frá 1892.) Á hinn bóginn mætti spyrja sig af hverju það er ekki gúterað að þessar tvær sagnir hafi einfaldlega skipt um beygingarflokk og beygist nú ópersónulega, eins og hinar líðunar-sagnirnar? (Vissulega eru líka til persónulegar líðunar-sagnir, t.d. “ég óttast” en þær eru fáar.) Má ekki alveg eins samþykkja þetta eins og að samþykkja að sögnin “þvo” beygist nú veikt, er “þvoði” í þátíð, en beygðist sterkt, var “þó” í þátíð.

Árangurinn af þessari stífu málvöndunarstefnu mátti t.d. sjá í mogga mannsins í gær, hvar stóð með a.m.k. 24 punkta letri í íþróttakálfinum: “Ég hef lengi dreymt um atvinnumennsku (mogginn gleymdi að loka gæsalöppunum). Ég hef reyndar margoft séð þessa villu hjá nemendum sem eiga að tjá sig um drauma Guðrúnar í Laxdælu. Þetta er villa að því leyti að engum málnotanda finnst eðlilegt að segja “ég dreymi”. En það er búið að berja inn í svo marga að mörg séu vítin að varast í sögnum á borð við “dreyma” og “langa” og “hlakka” og “kvíða” að til öryggis þverbrjóta menn gegn eigin málvitund og útkoman er þessi.  

Næstvinsælast, í skólakerfinu, er að hamra á beygingu hins einstæða orðs “fé”. Fé hefur verið aleitt í sínum beygingarflokki frá dögum gotnesku. Hingað til hefur reynst tiltölulega auðvelt að skaffa tengingu með því að benda á að enginn segi “fésmálaráðherra” og með því að muna “fjármálaráðherra” sé auðvelt að finna rétt eignarfall. Þetta kann að breytast og verða erfiðara nú, þegar nýyrðið “fésbók” ryður sé æ meir til rúms.

Mér þætti gaman að vita hve löngum tíma er eytt í beygingaræfingar ofantalinna sagna og nafnorðsins fjár, í skólakerfinu. Satt best að segja held ég að þetta séu rándýr orð, miðað við kaup og kjör kennara, sem þó eru ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Eiður Svanberg, átrúnaðargoð sumra heimilismanna, hefur nýlega gert að umtalsefni svokallaða “reiðareksstefnu” málfræðinga, sem hann telur kristallast í grein Gísla Sigurðssonar í síðasta helgarmogga (altso helgarinnar fyrir þessa). Reiðareksstefnan virðist m.a. felast í því að samþykkja beygingu sumra orða sem þau hafi stofnlægt -r, þar sem hin eina rétta málstefna sé að útrýma errinu úr aukaföllum. Þetta eru orðin “læknir” og “vísir”. Eins og flámælinu forðum hefur þessu aumingja erri verið nánast útrýmt, var það þó orðin viðtekin málvenja á sinni tíð og í rauninni óskiljanlegt af hverju það mátti ekki vera.

Greinin sem Eiður reynir að kasta rýrð á fjallaði reyndar ekki aðallega um læknira eða vísira heldur var megininntak hennar að fyrst yrði til tungumál og svo málfræði, þ.e. að málfræði væri nokkurs konar greining á tungumálinu. Fyrsti málfræðingurinn svokallaði, sem skrifaði Fyrstu málfræðiritgerðina (sem er reyndar um hljóðfræði og stafsetningu) reyndi akkúrat þetta: Hann lýsti framburði eins og hann var einhvern tíma kringum 1150 og greinir hvert hljóð. Síðan lagði hann til hvernig væri skynsamlegt að tákna hljóðið í ritmáli. Vissulega fóru handritaskrifarar lítið eftir þessum fyrstu stafsetningarreglum en af því ekkert var bloggið gat höfundur þeirra ekki orðið Fyrsti kverúlantinn. Öllum sem hafa lesið þessa fínu greiningu Fyrsta málfræðingsins er náttúrlega ljóst að íslenska hefur gjörbreyst, að við myndum tæplega skilja Snorra karlinn, hvað þá Egil forföður okkar allra … en samt er hefur þjóðin ekki glatast. Glötunin er því ekki fólgin í framburðarbreytingum og líklega ekki heldur í stafsetningu.

Yfirvofandi glötun er heldur ekki bundin orðaforða því hann hefur a.m.k. aukist að mun frá léttlestrarbókum þeim sem tamt er að kalla bókmenntaarf þjóðarinnar. (Og enn bætast við spennandi og innihaldsrík orð, eins og “reiðareksstefna” svo íslenskan ríður feitum hesti frá málfarsmolum … geti tunga þá yfirleitt riðið hesti … frá molum.) 

Nei, glötunin er örugglega fólgin í beygingarkeldum sem mönnum láist að krækja fyrir. Af því þær eru svo fáar ætti ekki að vera neitt mál að stuðla að því að þessi vesalings þjóð lifi af, sérstaklega ef við tökum upp spanskreyr í skólakerfinu en að sjálfsögðu var bent á það í athugasemdum við blogg Eiðs að það auma kerfi væri sökudólgurinn. Enda er það svo að frá því skólar voru stofnaðir á Íslandi hefur skólakerfið verið að bregðast. Þetta vita allir. 

Hér á heimilinu hefur náðst vopnaður friður með því að deiluaðilar eru sammála um að það að geta tjáð sig á lipran og ljósan hátt sé eftirsóknarverðast trítls um málfarsstigu heimsins :)

Ummæli (12) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

21. ágúst 2010

Strákar og stelpur í skólanum

Nú hefur “Menntaráð Reykjavíkur hefur skipað starfshóp sem á að leita leiða til að efla námsáhuga drengja í grunnskólum borgarinnar” (úr frétt á RÚV 21. ágúst 2010) enda hefur komið í ljós að einungis 2/3 af strákum finnst skemmtilegt í skólanum, strax í fyrsta bekk! Miklu fleiri stelpum í sex ára bekk finnst gaman í skólanum.  

Langt er síðan öllum var ljóst að námsárangur stelpna í bóklegu námi er miklu betri. Í þessari frétt er vísað í PISA-kannanir og niðurstöður samræmdra prófa. En líklega hefur þessi mismunur verið til staðar alla tíð, sérstaklega í efri bekkjum grunnskóla því stelpur þroskast fyrr en strákar. Í rauninni væri sniðugt að leyfa fljótandi skil milli grunn- og framhaldsskóla, þannig að nemendur lykju ýmist grunnskólaprófi úr 9. eða 10. bekk. Ég hugsa að meirihluti þeirra sem lyki námi eftir 9 ár yrðu stelpur og meirihluti eftir 10 ár strákar. Í framhaldsskóla lentu svo strákarnir með árs yngri stelpum, sem væri ágætt fyrir bæði kyn, að mínu viti. Svona tillaga fellur ekki í kramið hjá grunnskólaforkólfum, ég veit það.

Fyrir nokkrum árum fór ég á ráðstefnu um drengjamenningu í grunnskólum. Líklega hefur það verið ráðstefnan sem hér er sagt frá, haldin 2005. Það sló mig mest að þar var einungis einn grunnskólakennari af Akranesi, a.m.k. sem ég þekkti. Áhugi hér í bæ á svona málum virtist ákaflega lítill. Þetta var alls ekki fyrsta ráðstefnan sem haldin var um málefni stráka í grunnskóla, t.d. fann ég fyrirlestra af Málþingi Karlanefndar Jafnréttisráðs og Menntamálaráðuneytisins sem haldið var 1997, á rápinu um Vefinn núna. En þótt ráðstefnur séu haldnar og kannanir gerðar virðist fjarska fátt þokast áfram, nú er stofnaður starfshópur sem á að leggja eitthvað til … og væntanlega gerist fátt.

Það virðist vera tabú að benda á að strákum líður kannski ekkert alltof vel í eilífum kvennafansi: Langstærstur hluti grunnskólakennara eru konur. Þessar konur hafa svo lært í Kennó sem er aðallega skipaður konum. Þær koma úr afskaplega fábreyttu kvenvinsamlegu umhverfi og hafa náttúrlega litast af því.

Strákarnir mínir stunduðu nám hvor í sínum grunnskólanum hér á Skaganum. Reyndar var sá eldri svo heppinn að komast í samkennslu á Laugarvatni í tvö ár, sjálfsagt hefur það bjargað miklu því þar var ekki þessi eilífa krafa um að halda öllum á sama stað í námi … stað sem miðaðist við meðalstelpu. Þessum strák gekk vel í skóla en frá sex ára bekk var allt kapp lagt á að halda honum niðri í námi. Hann var líka svo heppinn að fá góða karlkyns kennara í efstu bekkjum grunnskólans hér á Skaganum. Mér sýnist að karlkennarar kenni einkum á unglingastiginu. Yngri sonurinn fór í gegnum nánast allan sinn grunnskóla hér. Vandamálin hrönnuðust upp með árunum, aðallega vegna þess að honum var um megn að tileinka sér ýmis meðvirknieinkenni sem kennarinn hans gerði kröfu um og að “halda kjafti og vera sæt”, eins og stelpurnar. T.a.m. lenti hann upp á kant við sína kennslukonu af því hann svaraði ekki í “réttum tóni”.  Þeir sem björguðu því sem bjargað varð voru karlarnir sem kenndu honum í efstu bekkjunum.

Á hverju hausti þangað til núna hef ég kennt nýnemahópum, allt frá því ég hóf kennslu fyrir tæpum aldarfjórðungi síðan. Mér hefur fundist æ meira áberandi hvað margar nýnemastelpur eru ísmeygilega frekar undir sléttu og últra-kvenlegu yfirborðinu. Þær halda sumar að ég sé “vinkona” sín en ekki kennari. Þetta kemur m.a. fram í því að reglur, t.d. um ritgerðaskrif eða hegðun í kennslustundum, telja þær að eigi ekki um sig. Það tekur venjulega u.þ.b. mánuð að kenna svoleiðis stelpum að kennsla og námsmat sé óháð kyni, hársídd, fegurð og fatahönnun. Ég verð æ hlynntari því að skipta í hópa eftir kyni en það er náttúrlega borin von að sú framkvæmd komist á. Reyndar skiptist þetta svolítið sjálfkrafa því í fjölbrautaskóla er sorterað eftir námsárangri, í venjulegan áfanga, hægferðaráfanga og svo fornám. Í fornámsáfanga í íslensku eru yfirleitt sárafáar stelpur.

Nú er rétt að taka fram að nánast allar hinar sextán ára fögru, kvenlegu “meintu vinkonur kennarans” átta sig fljótt og semja sig að nýjum siðum í framhaldsskóla. Svo þetta er ekki vandamál fyrir okkur þar. En ég spyr mig stundum hvernig standi á því að þær komi með þetta viðhorf upp úr grunnskólanum, þ.e. að þær séu svo miklu fremri öðrum og um þær gildi því ekki sömu reglur og aðra. Er hugsanlegt að einhver öfugsnúinn gamaldags rauðsokkufemínismi með ívafi af fræðum Britney Spears sé ríkjandi meðal grunnskólakennslukvenna? Er hugsanlegt að of mikið sé lagt upp úr að hampa stelpum á kostnað stráka? Nei, ég hlýt að hafa rangt fyrir mér í þessu hugsanlega.

Sjálf hef ég mestalla tíð verið í minnihluta; Í Menntó voru miklu fleiri strákar, í HÍ voru miklu fleiri karlar (en það hefur aldeilis snúist við sá ég í vetur sem leið!) og á mínum vinnustað voru karlar í meirihluta til skamms tíma, af því skólinn er að hluta iðnskóli. Núna er hlutfall kynja í kennarahópi FVA nokkuð jafnt. En öll önnur vinna sem ég hef unnið um ævina hefur verið kvennastörf. Sömuleiðis hef ég stundum flækst inn í kvennahópa ýmiss konar en ævinlega gefist upp á þeim af því mér finnst mórallinn verða frekar leiðinlegur. Mér finnst oft mun þægilegra að hafa samskipti við karla.

Fyrir óralöngu síðan, 1942, lagði rektor Hins almenna Menntaskóla í Reykjavík (sem skömmu síðar varð að MR) fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að skólanum yrði breytt í heimavistarskóla eingöngu fyrir stráka: “Hafinn verði skipulegur undirbúningur að endurreisn Skálholtsskóla, þar sem piltar stundi menntaskólanám, og athugaðir möguleikar á því, að gera Kvennaskólann í Reykjavík svo úr garði, að hann geti orðið menntaskóli og vönduð uppeldisstofnun fyrir stúlkur.” Þessu mótmæltu auðvitað Kvenréttindafélag Íslands og Kvenstúdentafélag Íslands og sjálfsagt fleiri. Í umræðunni var bent á að ein skýringin á þessum vilja væri að eftir að inntökupróf með numeris clausus voru tekin upp í Hinn almenna Menntaskóla í Reykjavík skoruðu stelpur hærra.  Mig minnir að einungis 24 hafi verið teknir inn í 1. bekk ár hvert. “Nú eru telpur á fermingaraldri venjulega meira báðþroska heldur en drengir á sama aldri. Þess vegna hafa hlutfallslega fleiri stúlkur úr hópi umsækjenda náð inntöku í skólann, og það er það sem svo mjög er litið hornauga til.” segir í frétt Nýs kvennablaðs af málinu, í maí 1942.

Vissulega var rétt að mótmæla þessum hugmyndum á sínum tíma. Annars hefði kannski orðið til tvenns konar stúdentspróf þar sem annað væri óæðra hinu. Á hinn bóginn hafa tímarnir breyst verulega frá 1942 og alger óþarfi að halda uppi kvennabaráttu í stíl þeirra lönguliðinna tíma. Samt er stundum eins og kvenfólk telji sig vera uppi á einhverjum svoleiðis tímum þegar bryddað er upp á tiltölulega sjálfsögðum hlutum. Mér finnst t.a.m. fáránlegt að andæfa þeirri hugmynd að reyna með ráðum og dáð að fá fleiri karlkyns kennara inn í grunnskólana. Eitthvað verður að gera til að strákum gangi betur í skóla. Kannski myndu allir græða á því að skipta nemendum eftir kyni í bekki og námshópa.

Ummæli (5) | Óflokkað, Skólamál

8. maí 2010

Kaupþing líka næst og menningarlegt

Á þessum síðustu og verstu tímum er huggulegt að lesa hrós um Kaupþing, sjá upplýsingasíðu Heimis Pálssonar, lektors í norrænum málum í Uppsölum:

“Som lektor i nordiska språk, särskilt isländska, här i Uppsala betraktar jag mig som ettslags kulturambassadör. Därför tar jag gärna del i evenement där det är fråga om isländsk kultur. Det har gjort mitt jobb här mycket lättare (och roligare) att Kaupthing Bank donerade ungf. 100.000 SEK till lärosätet, och därför har jag kunnat aktivt bidra till isländska kulturprogram i Uppsala (och Stockholm).”

Þessi klausa er ekki yngri en frá 2008 (skv. uppfærsludags. á síðunni)  og minnir óneitanlega doldið á klappstýrutakta sem þá tíðkuðust. Spurning hins vegar hversu smekklegt það var að þiggja svona styrk?

En eitthvað þurfti jú að spreða fénu sem hrúgaðist upp með mismunandi ólöglegum hætti … og kannski ágætt að nota smáaurana  gera starf háskólakennara léttara og skemmtilegra.  

Tek skýrt fram í þessu sambandi að ég kann ágætlega við Heimi Pálsson og tel hann fullfæran um að halda á lofti íslenskri menningu, styrkjalausan. 

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

4. maí 2010

Vinnan (verkefnið styrkta)

Ég var að klára að endurvefa Njálu-síðu úr “bits & pieces”, sjá http://www.fva.is/harpa/njala/njalmenu.htm.  Hefur tekið viku! Sama má segja um uppfærslu á Agli í Sýberíu en Laxdæla var minna mál.

Svo er Laxness-stöffið meira og minna endurskipulagt og jafnvel endursamið … Þeir sem ætla að sjá Íslandsklukkuna ættu að renna yfir þann vef, sér til upprifjunar. Má meira að segja taka próf ;)

 Annað er sosum ekki títt - lífið lufsast áfram í hægagangi og svona frekar kalt og dimmt umhverfis mig. Rakst þó á þann óvænta plús við tóbaksneyslu að Stanley karlinn (sjá upptalningu á ferðasögum í síðustu færslu) telur að holdsveiki í Færeyjum hafi stórminnkað með aukinni tóbaksnotkun! Er hugsanlegt að yfirfæra þetta á “ástandið í þjóðfélaginu í dag”, þ.e.a.s. að brúkun tóbaks og sjaldgæfi holdsveiki hangi enn saman?

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

25. apríl 2010

Hannyrðir, garður, íslenskukennsla o.s.fr.

Fyrst: Dagurinn í gær var verulega ömurlegur!

En í dag ákvað ég að láta umhverfið ekki trufla mig og halda mínu striki sem best ég gæti og sófar hefur það tekist prýðilega. Náði að vinna þónokkuð í vefnum um Egil Skallagrímsson í allsherjar friði og ró í morgun og hef að mestu lokið við að hreinsa garðinn. (Karlfólk sýndi loksins af sér smá dug og fjarlægði ruslið sem ég var búin að safna saman núna áðan.) Ég tíndi meira að segja upp hundaskítshrúgurnar í kringum snúrurnar mínar! Sjái ég hund gera þarfir sínar í garðinum mínum er ég ákveðin í að hella óblönduðu Þrifi yfir eigandann, jafnvel þótt hann kunni að vera ellilífeyrisþegi.

Jósefína snöflaði um garðinn meðan á lokaræstingum stóð - mér sýndist hún nú aðallega einbeita sér að því að stara Míu greyið (nágrannakisu) niður. Mía hefur brugðið á það ráð að leita skjóls undir pallinum en Fr. Dietrich er of dönnuð til að skríða undir palla. Sama Fr. Dietrich hefur ort talsvert upp á síðkastið, þ.á.m. ansi fína vísu um klappstýruna á Bessastöðum, sem sjá má á fésbókarsíðu dýrsins.

Varðandi vefnaðinn þá er ég að vinna upp allar mínar vefsíður; mun skipta Vefnum í tvo parta, annars vegar kennsluefni og hins vegar persónulega síðu, sem verður hýst annars staðar o.s.fr. Kennsluefnið þarf að setja miklu skipulegar upp og hanna auðratanlega skel yfir, með leitarmöguleika. Sömuleiðis þarf loksins skel / heimasíðu á this.is svæðið mitt, sem hingað til hefur einungis aktað sem geymsla. Þetta er ofboðsleg vinna en ég hef hálft ár til að ljúka henni. Það borgar sig ekki að una við þessa stafrænu handavinnu lengi í einu, þá fer maður að gera mistök. Sumar síðurnar eru tíu ára gamlar eða eldri og verður að beita smekkvísi til að ákveða hversu mikið skuli uppfæra. Svo eru það nemendavefirnir sem ég á ekki höfundarétt að nema í félagi við aðra … helstu breytingar þar eru að taka út persónulegar upplýsingar um krakkana sem nú eru löngu orðnir fullorðið fólk og kæra sig sennilega lítið um að unglingahúmor í eigin lýsingum standi á Vefnum.

Óstafrænu hannyrðirnar ganga líka vel, sérstaklega eftir að ég henti peysunni sem ég var næstum búin með. Ég sá fyrir mér að ég mundi aldrei ganga í þessari peysu og hönnunin hefði verið mistök. Svo hún fór í ruslið. Aftur á móti gengur prýðilega að sauma Kúna Meskalínu og í baghóveðet mallar góð hugmynd að stólsessum, sem krefst reyndar talsverðs stafræns undirbúnings. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að sauma út með gamla krosssauminum heldur gera tilraunir með varplegg, blómstursaum og jafnvel refilsaum. Sennilega hefst þessi vinna ekki fyrr en í sumar því kýrin Meskalína er ákaflega digur og seinsaumuð.

Eins og komið hefur fram held ég friðinn á heimilinu með því að lesa moggann mannsins (við Jósefína látum þetta pappírsdrasl ganga yfir okkur ganga). Í dag var annars vegar skemmtilegt viðtal við Sölva Sveinsson, einstaklega jákvæðan og hugmyndaríkan. Hins vegar var málfarshorn (sem ég man ekki hvað heitir) hvar Baldur Hafstað lýsti því í upphafi yfir að hann ætlaði ekki að nöldra yfir einstöku orðalagi en notaði svo allan pistilinn til að nöldra akkúrat yfir einstöku orðalagi. T.d. notkun þolfalls (”að vinna með heilsuna”, “að vinna með börn” o.þ.h.) - hann virtist alls ekki gera sér grein fyrir mismunandi merkingu þolfalls og þágufalls eftir “með”; “að vera ekki að sjá Snæfellsjökul”, sem er tímabundið orðalag eins og svo margt slangur og auk þess aðalbrandarinn í sjónvarpsauglýsingu o.fl. umkvörtunarefni. Í þessum lélega snepli mannsins mátti sumsé sjá báðar hliðar íslenskukennslu; (e.t.v. bláeyga) bjartsýni og síðan kverúlantaútgáfuna. Sem óvirkur íslenskukennari hafði ég gaman af hvoru tveggja. Finnst bláeyga bjartsýnin þó skemmtilegri og sennilega árangursríkari. [Myndin er hvorki af Sölva né Baldri.]

Í kvöld taka við dýrðir sjónvarpsins: Lokaþáttur Forbrydelsen og danska eftirlíkingin af “De fortvivlede husmødre”, nefnilega Livet på Lærkevej, sem er sýnt í sænska sjónvarpinu. Mér finnst einmitt mjög þægilegt að horfa á danska þætti í sænska sjónvarpinu og sænska (t.d. Wallander) í danska sjónvarpinu. Textinn dugir akkúrat til að ég skilji talið.

Sumsé: Þetta verður góður dagur en það er líka ferlega mikið mér sjálfri að þakka!

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf

20. apríl 2010

Vefnaður og tónlist ok

Ég er loksins að hjarna við - þökk sé hinum dásamlega óhollu bensó-lyfjum sem talibanar allra landa telja afurð djöfulsins! Auðvitað gerði sérrí-glas tvisvar á dag sennilega sama gagn en ég er því miður ein af þessu fólki sem þykir svoleiðis glas of mikið og flaskan of lítið … þannig að það er ekki boðleg lækning. Held mig því við óholla læknadópið sem ég virðist ekki verða sérlega fíkin í (þrátt fyrir illspár talibana). Meðan lækningin er skárri en sjúkdómurinn hallast ég að lyfjunum.

Nema mér hefur þess vegna tekist að fara á eina tónleika án þess að fá þessi lífshættulegu blöff-einkenni (þrefaldan hjartslátt, andnauð, dofa og botnlausa skelfingu). Requiem Mozarts var æði!  (Ég er samt soldið sár yfir stafsetningarvillunni í Lacrimosa … er sama um hinar stafsetningarvillurnar og jafnvel ranga beygingu á orðstír … en Lacrimosa dies illa er uppáhaldið mitt!) Hljómlistin var samt frábær svo skítt með prógrammið ;)   Hefði náttúrlega verið meira gaman að sitja nær miðju, altént nær bössunum en ég gerði varúðarráðstafanir til að geta skotist út án þess að allir horfðu á mig. (Var Hildigunnur með tagl? Alltaf gaman að sjá bloggkunningja.)

Einnegin hefur mér tekist að sansa slatta í garðinum, sauma út helling og taka á móti gestum um helgina.

Í gærmorgun kviknaði allt í einu löngun til að vefa; hef verið að sinna slíku verkefni með hangandi hendi, ekki munað eina einustu HTML-skipun og frestað vinnu í það óendanlega, af því ég hef verið svo djöfull veik. En nú lauk ég loks kennsluefnishluta í Sjálfstæðu fólki (nema ég á eftir að gá hvort það geti virkilega verið rétt að kollegi minn í öðrum skóla hafi afritað allar glærurnar mínar og eignað sér sisona! Það getur nú eiginlega ekki verið en ég ætla samt að tékka á málsgreinum sem mér fannst ég kannast rosalega mikið við …). Sömuleiðis sansaði ég efni um Íslandsklukkuna og kræki í það hér með … ef einhver vill rifja upp söguna í snarhasti og prófa kunnáttuna, fyrir leiksýningu ;)

Áðan prófaði ég að spila á mitt pjanóforte. Það hef ég ekki reynt síðan löngu fyrir páska. Auðvitað er ég eins og belja á svelli eftir hið langa hlé. Mér þótti þó óþarfi af kettinum að byrja að veina eftir tvo takta af fyrsta laginu og þagnaði dýrið ekki fyrr en því var hleypt út í kuldann! Hinn meðvirki húsfaðir reyndi svo að spila Kattadúettinn (af diski) fyrir Jósefínu en hún vældi líka yfir honum og reyndi að sleppa. Mér létti þó töluvert við að uppgötva að kötturinn hefur bara hreint ekki tóneyra og það er ekki bara og ég + píanóið sem veldur þessu tráma dýrsins! Jósefína hefði gott af því að kynna sér önnur dýr, t.d. hundinn sem hlustar á rödd húsbónda síns, hissa og glaður!

P.S. Við unglingurinn höfum uppgötvað að OK (lesist ókey) er í rauninni íslenskusletta sem hefur ratað inn í flest tungumál heimsins og hefur hingað til verið talin órekjanleg og meira að segja útskúfað úr íslensku. Í samræmdri stafsetningu fornri er þetta skýrt og greinilegt; lesist í þreytulegum eða töffarlegum tóni. Fyrri útgefendur hafa ekki haft fyrir að afmarka ókeyin með kommu eða semíkommu en úr því má bæta. Það er að vísu ruglandi að sum ok-in merkja “og” (gæti verið óvönduð samræming á ferðinni) en dæmi hér á eftir sýnir glöggt hvað við er að etja. (Hvar útgáfa Guðna Jónssonar á 75. kafla Njálu er umrituð.)

“Honum varð litið upp til hlíðarinnar, ókey [ok] bæjarins að Hlíðarenda, og [ok] mælti: “Fögur er hlíðin, svo að mér hefir hún aldrei jafnfögr sýnst, bleikir akrar, en slegin tún; Ókey [ok] mun ég ríða heim aftur, Ókey [ok] fara hvergi.” (Hér ætti að ljúka með upphrópunarmerki til að sýna karlmennskuna.) 

Auðvitað er textinn saminn fyrir gos og auðvitað gerir þessi áhersla á ókey málsgreinarnar enn snubbóttari og sem er jú aðall hins eina sanna íslenska stíls.

Annað dæmi, úr 77.kafla: “Gunnar mælti: “Ör liggur þar úti á vegginum; Ókey, er sú ein af þeirra örum; Ókey, skal ég þeirri skjóta til þeirra; Ókey, er þeim það skömm, ef þeir fá geig af vopnum sínum.” Gunnar verður miklu meiri töffari við þessa umritun!

Dæmin eru valin af algeru handahófi …

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf

2. mars 2010

Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

Ég hvet þá sem skiluðu MA ritgerð til HÍ vorið 2007 að athuga hvort ritgerðin þeirra hefur skilað sér upp á Lbs. Háskólabókasafn og / eða hvort hún er skráð í Gegni! 

Vorönn 2007 notaði ég allar starfandi heilafrumur til að skrifa 15 eininga (30 ECTS) MA ritgerð. Ritgerðin var um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar og var skilað í apríl 2007, í tveimur bindum auk geisladisks með mynd af handritinu sem ég skrifaði upp úr. Sjá má bindi I og bindi II hér.Fyrir þessa ritgerð fékk ég 8,5 sem ég veit ekki hvort þykir hátt eða lágt gefið … gæti jafnvel verið algengasta einkunn fyrir MA ritgerð. Að eigin áliti er þetta kannski fullhá einkunn því grunnvinnan er mjög góð en skortir nokkuð á úrvinnslu enda var ég ekki í neinu standi til slíks og var í rauninni sama hvernig veröldin veltist eða fórst, á ritunartíma. Á dögunum uppgötvaði ég fyrir tilviljun að ritgerðin mín var ekki skráð í Gegni. (Ég var að fletta upp námsritgerðum og datt í hug að gá hvort eitthvert stafrænt efni væri tengt minni eigin ritgerð – en komst sem sagt að því að hún var ekki til! Ég kalla eintök sem læst eru inni á skrifstofu kennara eða eintak geymt í kassa á læstri Bókmenntafræðistofnun Hugvísindadeildar ekki vera sérlega mikið til í þeim heimi sem venjulegt fólk þekkir.)

Þann 22. febrúar sendi ég bréf um þetta til skrifstofu Hugvísindasviðs, deildarforseta Íslensku-og menningardeildar (sem var, að mig minnir, skorarformaður íslenskuskorar þegar ég skilaði ritgerðinni) og sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þótt í svarbréfum vísi hver á annan og enginn axli ábyrgð (álíka og í sögunni, þið munið; Kötturinn sagði: Ekki ég. Hundurinn sagði: Ekki ég …o.s.fr.) mega menn eiga að þeir brugðust skjótt við. Annar leiðbeinandinn minn dreif í að grafa upp eintakið í kassanum á Bókmenntafræðistofnun – hans vegna vona ég að það hafi ekki verið margir kassar sem í þurfti að leita – og afhenti á skrifstofu Hugvísindadeildar með hraði. Hugvísindadeild sendi eintakið upp á Þjóðarbókhlöðu, einnig með hraði, og þar er verið að vinna í að skrá hana inn, eins og skjámyndin úr Gegni, sem ég tók núna áðan, ber með sér. Af því ég reikna ekki með brjálæðislegri eftirspurn eftir þessari ritgerð, sem auk þess hefur ekki exísterað í 3 ár nema í lokuðum fámennum kreðs, get ég svo sem við vel viðbrögðin unað og tel reyndar að tveggja daga afgreiðsla málsins, innan íslensku- og menningardeildar og skrifstofu Hugvísindasviðs, hljóti að vera hraðamet.

Aftur á móti veit ég ekki um hina, hversu happí þeir eru! Skv. upplýsingum í tölvupósti frá sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns virðast, að athuguðu máli, MA ritgerðir þeirra sem útskrifuðust vorið 2007 almennt ekki hafa skilað sér til safnsins. ??? Var þetta að fattast núna? Hvar týndust þessar ritgerðir? Og hvað ætli þær séu margar?

Nú gæti ég auðvitað snúið upp á mig og sagt að mér sé sosum slétt sama hvort þessi ritgerð er skráð eða ekki skráð, aðgengileg sem námsritgerð eða ekki o.s.fr. En mér er reyndar alls ekki sama. Mér finnst það helv. hart að hafa eytt eins misseris fullri vinnu í pródúkt sem er svo bara glutrað niður, einhvers staðar á stuttri gönguleið úr 101 í 107. Mér líður eins og lýst er í þessu ljóði!

Ég veit að ýmis vandkvæði voru á að brúka póst úr HÍ vorið 2007 því þegar ég var orðin mjög langeyg eftir útskriftarskírteini hringdi ég á skrifstofu Nemendaskrár? Heimspekideildar? Og var tjáð að ekki væri hægt að senda slíkt í pósti heldur yrði ég að sækja það sjálf eða fá einhvern í Reykjavík til að sækja fyrir mig skírteinið (guði sé lof að ég bý ekki á Raufarhöfn!). Skýringin var að það væri svo dýrt fyrir HÍ að senda ábyrgðarpóst. Ég reikna því fastlega með að MA ritgerðir hafi verið sendar (eða ekki sendar?) upp á Þjóðarbókhlöðu með öðrum hætti en Íslandspósti. Sem móðir pizzasendils til nokkurra ára hef ég svo sem ekkert á móti því. En öfugt við oss pizzapantendur höfum við MA-ritgerðarhöfundar 2007 ekkert fylgst með pródúktinu enda gert ráð fyrir að slíkt væri í öruggum höndum annarra.

Sem betur fer tók ég aukaeintak til að senda þeirri manneskju sem mér þótti líklegast að myndi lesa þessa ritgerð, hefði a.m.k. mikinn áhuga á honum Bjarna blessuðum. Sú manneskja hefur ekki verið innan vébanda HÍ. Svoleiðis að skrifin í kapp við myrkrið, vorið 2007, voru ekki algerlega út í bláinn og marklaus. Ég gleðst núna yfir þessu. Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma. Þótt hver og ein sé a.m.k. eins misseris vinna.

Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar. Það hlýtur að stafa af því að hver og einn álítur sig einmitt ekki bera sök á þessari handvömm heldur einhvern annan. Væri áhugavert að sjá úttekt á sjálfsmatsskýrslum þessara þeirra aðila sem heyra undir HÍ … það hlýtur að vera gott að hafa svona yfirdrifið sjálfsöryggi, hvort sem um ræðir deild eða svið eða skrifstofu.

Ég ráðlegg eindregið þeim nemendum sem eru að skrifa MA ritgerðir við Hugvísindasvið að fylgjast með því hvort þær rata rétta leið og séu skráðar eða hvort þær lokist eingöngu inni á skrifstofum, jafnvel ofaní kassa!

Ummæli (13) | Óflokkað, Skólamál

26. febrúar 2010

Bless og takk fyrir fiskinn!

Fyrirsögnin er stolin frá (eða tilvísun til?) Douglas Adams, eins og einhverjir dyggu lesendanna átta sig eflaust á. Mér fannst hún við hæfi í ljósi þess að ég hætti að borða fisk á þrítugsafmæli mínu fyrir óralöngu og hef einungis étið svoleiðis fæðu í neyð (svo sem eins og í huggulegri 7 rétta fiskmáltíð einhvers staðar á Amalfi ströndinni fyrir mörgum árum, að viðstöddum mörgum vitnum sem tjáðu aðdáun sína á athæfinu  - hvað gerir maður ekki fyrir evrópskt samstarf?). Ég fullvissa lesendur um að ég hef löngu gleymt bókunum hans Douglasar nema broti hér og broti þar … og ég tel mig hvorki skáldsagnapersónu né höfrung.

En pirringurinn útí hin “akademísku” fræði, sem iðkuð eru á Melunum óx og óx. Mér varð ljóst að það væri ekki hollt fyrir mig að vera svona pirruð og tímdi ekki að splæsa takmarkaðri orku í að ná mér niður af þessu, henni er betur varið í annað. Sem ég var að íhuga þetta í gær birtist hönd guðs, í líki tölvupósts, og skaffaði mér miklu áhugaverðara verkefni sem ég mun hafa miklu meir gaman af. Svo ég sagði mig umsvifalaust úr kúrsinum sem ég var í og leið um leið miklu miklu betur. Seinna blogga ég sennilega nánar um reynsluna af hinu fræðilega, þegar ég verð komin með jafnt skap og mér verður orðið algerlega nett sama um þetta allt saman. 

Ég þakka Erlu, sem gerði athugasemdir við færsluna á undan, kærlega fyrir þær og ekki hvað síst fyrir að benda mér á Íslenskan Orðasjóð. Ég mun örugglega nýta mér hann í verkefninu sem ég fer næst í og lofa að hampa sem víðast enda bendir lausleg prufa til þess að verulegur fengur sé í þessu efni.  Það gefur þessu verkefni einnig huggulegan langsóttan fræðilegan Melastimpil að Árnastofnun linkar í stofnunina sjálfa (en ekki Íslenskan Orðasjóð) af vefsíðunni http://www.arnastofnun.is, undir Tenglar, undir Orðabækur og íðorð, undir Aðrir tenglar.

Sumsé er kominn tími til að snúa sér að öðru. Ég hef t.d. vanrækt óstafrænar hannyrðir alveg óskaplega upp á síðkastið; valið frekar að lesa grein hér og grein þar. En í fyrrakvöld fékk ég kostaboð, tengt hannyrðum og listum, í símtali og hlakka mjög til að taka því boði! Það mun örugglega kveikja undir hannyrðaáhuganum aftur. Ef færð gefur þegar fer að vora eða litlibróðir sækir mig á skektunni yfir Flóann …

Sem minnir mig á hversu arfavitlaust mér finnst að leggja af stað í gær með hátt í hundrað skólakrakka í skíðaferð norður! Að vísu gleðst ég yfir því að Gylfi frændi fær nógan bissniss í Borgarnesi núna … en fyrr má nú fyrrvera af þessum hafnfirsku grunnskóla-”ofurhugum”!  Færðin er þannig á því veðursæla Akranesi að sjálfstæður heimspekingur tók strætó í skólann sinn í morgun (ég kenndi honum á strætó í gærkvöld, lét hann fá útprentaðar áætlanir og strætómiða og hann horfinn núna svo þetta hlýtur að hafa gengið allt saman).  Meira að segja Fr. Dietrich hefur orðið að nota sitt inniklósett, hafandi þó lesið í týndum heimspekiritum að köttur pissar ekki tvisvar í sama sandinn … 

Nú er ég farin í hlutverk hinnar góðu húsmóður og hyggst ræsta þetta hús! Það verður í þriðja sinn (fjórða?) sem ég fæst við þessa iðju frá því í október á síðasta ári og augljóst að mér fer fram.

  

Ummæli (2) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf