Færslur undir „Skólamál“

15. febrúar 2010

Aumingja Bjarni G.! Og hið gamla ljúfa anarkí …

Sem ég snuddaði á Vefnum í gærkvöldi (nennandi ekki að kveikja á sjónvarpinu) komst ég að því að MA ritgerðin mín um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar er nánast hvergi skráð, a.m.k. ekki í Gegni og Skemmunni. Þetta kom mér nokkuð á óvart því mig minnir að ég hafi skilað einhverri fælu af eintökum og hef þá óljósu hugmynd (í baghovedet) að “deildin” hafi átt að skokka með eitt svoleiðis upp á Þjóðarbókhlöðu. En kannski hugnast fólki betur að geyma eintökin á öruggum stað, t.d. í hillum á skrifstofum kennara eða annars staðar þar sem almenningur færi líklegast ekki að snudda.

Sjálfsagt er þetta ekki slæm ritgerð, a.m.k. fékk ég ekki slæma einkunn fyrir hana. Því miður man ég lítið eftir henni en á hana, með meðfylgjandi útlestri úr eiginhandriti Bjarna karlsins og sennilega ritgerðinni að auki á meðfylgjandi geisladiski. Mér er líka ljóst að ég útskrifaðist út á þessa ritgerð, vorið 2007 - fann það í einhverri skrá á gamla vef HÍ. Svo á ég einhvers staðar skírteinið.

Það hryggilega við þetta allt saman er þó að ég skrifaði ritgerðina í brjálæðislegu kappi við sálarmyrkvunina og var mjög í mun að komast í raflostmeðferð II; sú raflækning eyddi auðvitað allri ritgerðinni úr mínum heila og mörgu öðru, eins og áður hafði gerst. Sem betur fer hafði ég vit á að prenta út bloggið mitt fyrir eitt og hálft ár, las það þegar ég náði aftur áttum og hef því nokkra hugmynd um hvað gerðist í lífi mínu á þessu eina og hálfa ári. (Blogg er verulega vanmetið hjálpartæki til sjálfsþekkingar!)

Svo allar vinnustundirnar fóru fyrir bí og afraksturinn er týndur. Þannig séð get ég talið mig vísindakonu, þótt ég kunni ekki Varðlokur.

Það sem situr eftir eru skemmtilegar minningar (eða lærðar minningar) um spjall við Jón Samsonarson, sem ég féll umsvifalaust fyrir. Og sú hugmynd að Bjarni prestur hafi verið einstaklega jákvæður maður þrátt fyrir magnað kreppuástand á hans tíma og persónuleg áföll. Hvort tveggja gleður auðvitað manneskju sem sá engan sérstakan tilgang með lífinu annan en að hanga í því, meðan ritgerðin fæddist, í (lærðri) von um að ástandið batnaði.

Mig minnir (hef e.t.v. lesið það á blogginu mínu) að það hafi verið mjög gaman að stunda nám veturinn 2006-2007. Af þeim þrem kúrsum sem ég tók á haustönninni fundust mér tveir ákaflega skemmtilegir og þeir kveiktu mikinn áhuga. Samt var hvorugur neitt tengdur málum sem ég hafði haft áhuga á fyrir. (Sá þriðji leið fyrir það að ég hafði nú heyrt megnið af þessu áður. Auk þess var hann settur upp sem fjarkennslukúrs, að hluta, og því óþarft að mæta alltof mikið í hann. Um þetta voru reyndar nemendur og kennarar ekki allskostar sammála.) Mig minnir ennfremur að tiltölulega skýrt skipulag hafi legið fyrir í upphafi í báðum þessum skemmtilegu kúrsum og að mikil áhersla hafi verið lögð á vinnu nemenda, t.d. í smáverkefnum eða undirbúnum umræðum í kennslustund. Samt voru báðir kúrsarnir sannanlega á meistarastigi.  Þessu gæti ég náttúrlega flett upp því ég á allar glósur og pappíra ennþá.

Í gamla daga, á níunda áratug síðustu aldar, tók ég kúrsa á gamla cand.mag. stiginu en lauk aldrei ritgerð (m.a. vegna annars sjúkdóms sem ég hirði ekki um að fjalla hér um). Þá tíðkaðist að sækja tíma á skrifstofu kennarans, sem bauð upp á bleksterkt kaffi, og þótti afskaplega fínt. Ég held ég hafi sjaldan þorað að leggja orð í belg, minnir reyndar að kennarinn hafi aðallega talað sjálfur, með virki fræðirita umhverfis sig og því doldið ósnertanlegur. Þetta þótti, að mig minnir, gefa nett fræðilegt andrúmsloft og peppa nemendur upp af hinu leim BA-stigi. Nemendur á cand. mag. stigi fengu líka sérstaka lesstofu í Árnagarði og lykil að henni, til að BA-liðið færi nú ekki að flykkjast þar inn ;(  Skikkið átti að vera að mæta þangað með sinn kaffibrúsa og mal og híma allan daginn með hinum 5 nemendunum og lesa (bækurnar sem höfðu verið fjarlægðar af Háskólasafninu og fundust einungis þarna) og iðka fræðin. Því miður var ég alltaf að vinna fulla alþýðlega vinnu með og bilið milli fólksins fyrir utan og þessa litla samfélags á Melunum breikkaði alltaf meir og meir svo á endanum sá ég fram á að verða tvíklofinn persónuleiki eða eitthvað álíka … [Myndin sýnir Hippokrates kennandi sínum læknanemum á afar hefðbundinn akademískan hátt, sem hæfir loftslaginu.]

Svo ég reki mig enn aftar, á BA stig, þá er það í minni þegar Sveinn Skorri hafði raðað borðum í hring í stofunni, í einhverjum byrjendakúrsi, gerði af þessu mikið úr því hve nútímalegur hann væri og lét nemendur kynna sig en féll út úr ímyndinni þegar hann lenti á henni Auði, sem var stúdent úr F.S., og byrjaði með einhvern skæting um þá nýju fjölbrautaskóla.  (Ég reikna hér með að Auði sé slétt sama þótt ég nafngreini hana hér.) Augnabliks fát kom á Skorra þegar Auður horfði stíft á hann á móti, í stað þess að líta bljúg ofan í borðið sitt, og spurði hvort hann teldi að kennsla Jóns Böðvarssonar veitti ekki nægan undirbúning undir nám í íslenskudeild. Ógleymanlegt atriði!

Haldandi áfram með ævisögu mína og HÍ: Árið 1998-99 tók ég 15 eininga diplómu í Kennó; þetta var fyrsta keyrsla náms um notkun upplýsingatækni í skólastarfi og flestir frumkvöðlar á þessu sviði voru nemendur. Kennararnir voru vægast samt misjafnir og sumir kunnu miklu minna en nemendurnir í því sem átti að kenna. Það fór ósegjanlega í taugarnar á mér - og fleirum - þegar kennsluáætlun var bara eitthvert leiðbeinandi plagg og mátti skipta út eins og nærbuxum. Viðbrögðin við þekkingarskorti kennara, lélegri kennslu og skort á skipulagi voru þau að við nemendurnir kenndum hver öðrum og hjálpuðumst að á netinu - þannig lærði ég í rauninni miklu meira en gegnum glærusýnandi kennara og fansí útlend kennsluumhverfiskerfi, sem áttu að gefa upplýsingatækniblæinn.

Á sama tíma tók ég einn málfræðikúrs (sem mig vantaði upp á til að geta klárað M.Paed) uppi í HÍ. Þetta var “norræn samanburðarmálfræði” ef ég man rétt, sem tveir hálærðir málfræðingar kenndu. Mér er minnisstætt að krítartafla var í stofunni - hafði ekki séð slíkt fyrirbæri í mörg ár - og að mér fannst þetta erfitt nám því ég hef ekki mikinn grunn í málfræði. Auk þess hafði málfræði / setningarfræði breyst mjög í framsetningu og minnti mig helst á evklíðska rúmfræði. Þrátt fyrir þessi handíköpp var kúrsinn mjög áhugaverður, kennslan frábær og ekki hvað síst var alger draumur að hafa fyrirliggjandi skipulag í upphafi sem stóðst síðan mætavel (hafandi mótvægið í Kennó). Ég man ekki annað en kennararnir hafi líkst Kjartani Ólafssyni, í lítillæti, og alls ekki lagt það eldri nemanda til lasts að vera lítið innviklaður í formsatriði málfræðiframsetninga eða haft lélega kunnáttu í hvurnig klofningu var háttað í austur- og vestur norrænum málum etc.

— 

Kannski hefur orðið róttæk breyting á síðustu þremur árum, einhvers konar “back to the basics” hreyfing, svipað og hent hefur AA-deildir víða um land og oft er kennd við talibana? Í AA hefur markmið slíkrar breytingar oft verið sagt vera að breyta fundum og haga edrúmennsku í anda 50 fyrstu AA mannanna. (Eða eru það 100 fyrstu sem liggja til grundvallar?) Ég hef það á tilfinningunni af þeirri litlu reynslu sem ég nú fæ í HÍ að markmiðið sé m.a. að hverfa aftur til fyrstu 50 - 100  kandmaganna og reyna að sveigja til náms- og kennsluhátta sem tíðkuðust á síðustu öld. Kann að vera að þetta sé hið besta mál, ætti a.m.k. að fækka nemendum dálítið og koma í veg fyrir að alls konar lýður skrái sig í doktorsnám. Það nám hefur til þessa oft tekið talsverðan skerf af ævi doktorants og ég fullvissa alla sem komast í gegnum svo langa færslu að ég mun aldrei nokkurn tíma leggja slíkt fyrir mig á hugvísindasviði! No worry! Auk þess er ég búin að skipta svo oft um tengslanet um ævina að það vekur mér lítinn harm að þurfa að droppa einu og einu slíku, ef það á ekki við mig. [Myndin til vinstri sýnir félagana Bill og Bob. Til hægri sést háskólanemi sem brýtur norm.]

Aftur að framhaldsnámi á háskólastigi: Nýmóðins samræmdar reglur hafa á hinn bóginn skilgreint doktorsnám sem 4 ára nám. Af þeim reglum er ekki hægt að sjá að sú krafa sé gerð að doktorant hafi lifað og hrærst í þröngum hópi lærðra áratugina á undan. Andstyggilegar fjárhagslegar reglur, sem byggja á nemendaígildum og eru mjög óvinveittar hollu brottfalli, gætu líka breytt akademískum anda í nokkrum deildum HÍ fljótlega. Svo ekki sé talað um hvaða áhrif kreppan gæti haft á fræðileg slagsmál um síþverrandi styrkjapotta.

Ég hef, af samúð, nokkrar áhyggjur af því hvernig enn meiri samræming á háskólastigi muni svo skerða hið fræðilega andrúmsloft sem nú leikur um hugvísindadeild. Mig grunar að í Mrn. sitji einhverjir fáir karlar, við að fokka upp hinum gömlu grónu óskráðu reglum og stjórna einhverjum nefndum sem eiga að færa HÍ, hugvísindasvið meðtalið, í átt að evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum. Það má guð vita hvort í slíkum stöðlum felist einhverjar reglur um verklag.

Í lok færslunnar vil ég minna á tvennt:

1. Mér er ljóst að hroki er dauðasynd. En ég er utan trúfélaga og slæst auk þess við þessa dauðasynd á öðrum vettvangi, hef reyndar gert svo í meir en tvo áratugi en gráður eru ekki veittar í vettvangnum.

2. Blogg er í eðli sínu kæruleysislegt fyrirbæri, sem lýsir hugarástandi bloggara og bloggynja á hverjum tíma. Það er auðvitað algerlega óvísindalegt að vitna í blogg, hvort sem er  í ræðu eða riti. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir tilvitnunum í færsluna en bent á að kommentamöguleiki er öllum opinn.

P.s. Lesendum til huggunar skal bent á að þá bloggynja bloggar svo kæruleysislegar færslur sem þessa situr alla jafna fræðimaður í eins metra fjarlægð, í hinni stofutölvunni, og svigar undir drep!

Ummæli (5) | Óflokkað, Skólamál

11. febrúar 2010

Karlinn í sviganum

Hér kemur löng færsla og ég óska þeim sem komast í gegnum hana fyrirfram til hamingju! 

 

Ég var að skrifa ritgerð / verkefni um fræðilegar kenningar. Verkefnið átti að vera fræðileg úttekt. En hvað felst í því að eitthvað sé fræðilegt?

Ef ég skoða mitt eigið fag, íslensku, þá felast fræðin einkum í því að skrifa langt mál um smáræði – vegna þess að í rauninni má ekki segja nokkurn skapaðan hlut nema fræðimaður hafi sagt hann áður eða maður ætli að andmæla einhverju sem fræðimaður hefur sagt áður. Þ.a.l. er meirihluti textans ýmist fótnótur, t.d. hálf síða texti + hálf síða fótnótur - eða endalaust smellt sviga aftan við hverja málsgrein; í sviganum er nafn karlsins eða karlanna sem sögðu þetta síðast. Í þeirra karla greinum eru svigar og nöfn karlanna sem sögðu þetta næstsíðast. Og svo koll af kolli. Í rauninni gengur ekki að skrifa „Sólin er gul“ nema nefna a.m.k. tvo FRÆÐIMENN sem hafa haldið þessu fram áður. Og ræða jafnvel hugtakið “gulur” í þaula. Það dugir ekki að benda upp í himininn. Aðalpersóna í fræðilegum skrifum er nefnilega karlinn í sviganum! [Ég tek skýrt fram að myndskreyting þessarar efnisgreinar er úr lausu lofti gripin og á alls ekki að vísa til neins ákveðins fræðimanns heldur kannski frekar að sýna lífsskoðun ímyndaðra sólar-fræðimanna.]

Ef maður reynir að rekja sig aftur á bak í gegnum karlana í sviganum þá endar maður nánast alltaf á Aristótelesi. Það er meira hvað sá maður er ívitnaður, ekki hvað síst þegar það er haft í huga að frumtextarnir hans eru nánast allir glataðir en kennsluglósur bárust inn í vestræna menningu úr arabískum þýðingum. Þannig að Aristóteles skrifaði eða las fyrir eitthvað sem Arabar þýddu út frá sinni menningu og túlkuðu (glósur eru auðvitað túlkanlegri en fyrirlestar), sem var svo þýtt á latínu (e.t.v. aftur á grísku), sem miðaldafræðingar þýddu eða fjölluðu um út frá sínum skilningi og á endanum taka núlifandi fræðingar þetta upp, með dash af Freud, ef vel á að vera. Ekki skrítið að brandari heimilisins þá ég var í kennsluréttindanámi fyrir aldarfjórðungi hafi verið: „Som den store pædagog Aristoteles engang udtrykte …“ (Með dashi af Asterix-mælskufræði-töktum!) Auk Aristótelesar eru Freud og Jung svakalega svigaðir, í húmanískum fræðum vel að merkja því þeim hefur verið varpað fyrir borð í raunvísindalegum geðlækningafræðum.

Einstaka sinnum er karlinn í sviganum kona. En af lærdómi mínum undanfarið tek ég ekki mark á því: Sú kona er í karl-kyngervi og veldur hugsanlega kynusla verandi í þessum sviga. (Já, kona lærir skemmtileg orð þessar vikurnar.)

Hvað gerir það til þótt einhver lítill hópur búi sér til tómstundagaman sem felst í því að sviga hverja málsgrein? Það er ekki eins og þetta sé lesið í massavís: Meðallesendafjöldi fræðilegra greina er 6 lesendur. (Karlinn í sviganum hér á að vera bókavörður í Kennó sem sagði þetta í fyrirlestri en þar sem ég var fjarstödd er þetta byggt á ómerkilegri second hand nákvæmri munnlegri heimild.) Reyndar hef ég líka heyrt að lesendafjöldi útlenskra fræðigreina sé oft 2, þ.e. höfundurinn og prófarkalesarinn. Nú hlakkar í bloggynju sem hefur auðvitað margfalt fleiri lesendur að sínu alþýðubloggi. Svo væri ekki ef hún ungaði út einni bloggfærslu, með svigum, á nokkurra ára fresti.

Umfjöllun um íslenskar miðaldabókmenntir fyllti marga bókasafnsrekka, ef allt væri talið. Þess vegna eru margir að reyna að finna sitt oggulitla prívathorn sem enn er á lausu og blása það svo út (t.d. með körlum í svigum) sem unnt er. Einnig má fara í “upprakningu”, þ.e. rekja upp einhverja gamla umfjöllun, dæma hana ófræðilega og byrja að prjóna við upphafshugmyndina upp á nýtt. Fyrir mér er þetta eins og að eyða lífinu í að prjóna aftur og aftur sömu ermina! Í stað þess að finna upp þá aðferð að byrja peysuprjón á hálsmálinu (hér vantar mig nafnið á konunni sem á að vera í sviganum); hljómar mjög spennandi og vel þess virði að prófa þegar fólk hefur fengið sig fullsatt á Möbíusar-tilraunum.

Það sem mér finnst einkum að fræði-hannyrðum er að þegar menn hafa lokað sig inni  í fílabeinsturni fræðanna hættir þeim til að passa vel upp á pródúktin – enda er unnið hægt, m.a. af því það verður alltaf að vera að fletta upp karlinum í sviganum – og fáir fá að njóta. Kona gæti jafnvel sætt sig við þetta ef ekki vildi svo til að í svona dútl árum saman er ausið fé sem mætti kannski fara í eitthvað sem nýttist almenningi eða skólafólki betur. Til þess að glöggva sig á þessu er nóg að fletta upp illratanlegri síðu Stofnunar Árna Magnússonar og spyrja sig til hvers fólkið þarna er að dúlla þetta eða, kannski frekar, hvað er allt þetta fólk að gera? Sjá http://www.arnastofnun.is/  Er það að vinna að útbreiðslu eða viðhaldi menningararfsins? Nei, til þess er það of hægfara. Og týnt. Svo fylgjast menn ekki ýkja vel með nútímanum; Ég er nýbúin að skoða BRAGA-verkefni Árnastofnunar, sem finnst undir undirkrækjunni “Fleiri gagnasöfn”, á valblaði hægra megin. Þetta er “óðfræðivefur” sem hefur verið í smíðum í tæpan áratug, veit ekki hve langt er síðan vefnaðurinn sjálfur hófst. Umsjónarmenn virðast ekki hafa áttað sig á að talsvert lengur (miðað við tímaskynjun Vef-notenda) hefur verið til vefur sem heitir BRAGI. Íslenska sem erlent mál, staðsettur í Þýskalandi og kennir útlendingum íslensku. Sjá http://www2.hu-berlin.de/bragi/  Er ekki hætta á ruglingi? Það gerir annars ekkert til því síðarnefndi vefurinn er talsvert notaður en fáir nota sennilega hinn fyrrnefnda, þótt ekki sé nema af því hann er nánast ófinnanlegur.

(Í sviga set ég lífsreynslusögu: Fyrir um fimmtán árum síðan grenjuðu samstjórnarmenn mínir í The Viking Network úr hlátri þegar þeir heyrðu verðlagið á geisladisknum Íslenskum orðstöðulykli – var hann ekki verðlagður á 80.000 kall til að byrja með? Hann er náttúrlega ónýtanlegur núna, passar ekki við stýrikerfi, en sennilega hefði verið hægt að brúka gripinn lengur hefði hann verið ofinn í HTML. Vel styrkt verkefni af skattfé almennings ættu náttúrlega að liggja frítt frammi fyrir sama almenning, skynsamlegast á Vefnum. Á sama tíma pössuðu fræðimenn að setja fótinn fyrir Netútgáfuna og passa að hún fengi ekki krónu í styrki. Það er heldur írónískt að nú notar fjöldi fólks Netútgáfuna en Íslenskur orðstöðulykill ryðgar í geymslum bókasafna.)

Mitt starf hefur til þessa verið akkúrat öfugt við starfsreglur sem fræðimenn setja sér, sumsé að reyna að fá sem flesta til að fíla menningararfinn og halda honum lifandi með kjafti og klóm, þess vegna nýjum aðferðum sem leiða til nýrra sjónarhorna eða jafnvel einskærs áhuga og sköpunarkrafts nemenda. Ég kenndi um 100 nemendum á önn meðan ég hafði fulla starfsorku og maður þurfti að vera talsvert lunkinn og fylgjast vel með til að fá hluta hópsins til að falla fyrir íslenskum miðaldatextum! Í þeim kúrsum sem ég hef sótt uppi í HÍ af og til frá 2006 hafa setið þetta 5 – 10 stúdentar, þótt oft séu skráðir fleiri. Af hverju ætli áhuginn á íslenskum menningararfi og bókmenntum sé ekki meiri? Og af hverju ætli 30 manns séu skráðir í kúrsinn Glæpasögur sem nú er kenndur, á BA og MA stigi í íslensku? Og af hverju ætli fræðimaður hafi neyðst til að setja upp pópúler kúrs í stað þess að halda sig við fræðin?

Bloggynju sem hefur þetta alþýðlega slömm viðhorf til “FRÆÐANNA” þykir auðvitað skemmtilegt að lesa um fræðilegan bókardóm í ritrýndu tímariti um fræðibók um Kant, þegar kemur svo í ljós að allt í bókinni, nema kannski Kant, er uppspuni og hrekkur. (Hér ætti karlinn í sviganum að vera t.d. sá sem skrifaði fréttina um þetta í moggann í vikunni - en ég nenni ekki að fletta gegnum moggana.) Sömuleiðis er skemmtileg tilhugsun að á síðasta ári var gefin var út listaverkabók hjá virtu forlagi í New York, með útgáfuteiti og alles, en í ljós kom eftir á að listamaðurinn var ekki til.

Á tímabili nú undanfarið hef ég velt fyrir mér hvort fræðileg nálgun eigi ekki jafnilla við mína lífsskoðun og þjóðbúningasaumanámskeið í anda Þjóðbúningaráðs? Eftir “om” og “men” ákvað ég að klára samt kúrsinn sem ég er í, þó ekki sé nema mér finnst illt að ganga frá ókláruðu verki. Hugsanlega heillar seinni hluti hans mig upp úr skónum, maður veit sosum aldrei …

Ég hef líka velt fyrir mér hvers vegna einungis einn af fjórum í doktorasafni fjölskyldunnar vinnur beinlínis við það sem viðkomandi menntaði sig í … en svo má náttúrlega spurja hvenær maður vinnur beinlínis og hvenær óbeinlínis ;)

P.s. Á bóksafni míns litla bæjar æxlaði ég mér í gær nokkurn trívíal-litteratúr, til mótvægis. Í forbífarten sá ég í safni útstilltra nýrra bóka eina eftir Juliu Kristevu. Ég tók mér hana í hönd (já, mér er ekki alls varnað þrátt fyrir geðvonskuna) og sá að undirtitillinn var Þunglyndi og geðlægð. Sem geðsjúkur bókmenntafræðingur var ég skynsöm og skellti bókinni aftur í hilluna, man ekki hvað hún hét en er þess fyrirfram handviss að í henni felst hvorki lækningamáttur né skynsamleg umfjöllun um þunglyndi og geðlægð! Ætli sé hægt að plata fólk sem vinnur á geðheilbrigðissviðinu til að lesa þessa bók í gegn? Efast um það … En í íslensku- og menningardeild HÍ á hún eflaust eftir að njóta nokkurra vinsælda.

 

Ummæli (15) | Óflokkað, Skólamál

28. janúar 2010

Um bókvit og annað vit í mínum Kardimommubæ

Ég fór áðan og hvessti mig við bókasafnsverði bæjarbókasafnsins. Hefði hvesst mig við yfirmann safnsins hefði hún verið við. Ástæðan er annars vegar geðvonska sem fylgir niðurtröppun þunglyndislyfja, hins vegar “algert rip-off” í verðlagningu ljósritunar á þessu safni.

Upphaf þessa máls er að mér datt í hug að ljósrita pínulítið af fræðum Prebens Meulengracht- Sørensen, sem ég hafði í láni en var ljóst að ég yrði persona non grata meðal samnemenda minna ef ég lúrði á fræðunum vikum saman. Oft er ég líka það  tímabundin á Þjóðarbókhlöðu á föstudögum að mér þótti einmitt gráupplagt að ljósrita bara í heimabæ.

(Þótt það komi málinu ekkert við þykir mínum manni eftirnafn þessa fræðimanns svo flott að hann vill heita kisu litlu eftir honum: Jósefína Dietrich Meulengracht! Með sérstakri áherslu á gracht … hef manninn grunaðan um að honum þætti flott að kalla kattarkvikindið inn háum rómi með fullu nafni …  En þetta er útúrdúr og eins og allir vita er þriðja nafn kattar leyndó sem einungis kötturinn sjálfur veit!)

Sumsé tölti ég yfir á nýja bókasafnið, sem er æðislega tómlegt og einkennist af hroðalega ljótu gólfefni (svörtu steinateppi) og hurð sem auðveldlega gæti hitt mann beint í andlitið ef maður er óvanur. Spurði þar hvort ekki væri hægt að kaupa ljósritunarkort og ljósrita. Nei, ekki er hægt að kaupa kort og blaðið í ljósritun kostar 35 krónur! Ég varð náttúrlega paff, hafandi keypt kort á því stóra almenningssafni Þjóðarbókhlöðu: 100 blaða kort fyrir 1200 kr. Bókavörður sem var þarna upplýsti mig um að pappír væri svo dýr. Ég hætti við að ljósrita en gat ekki stillt mig um að kíkja í Eymundsson við hlið bókasafnsins og sá að þar kostar venjulegur ljósritunarpappír í smásölu rétt tæpan þúsundkall, 500 blöðin.

Venti ég svo mínu kvæði í kross og fór á Bókasafn FVA, keypti 100 blaða kort fyrir þúsundkall og fyllti svo á það aftur fyrir 800 kr. (því kortið sjálft er 200 króna virði, enda miklu flottara en Þjóðarbókhlöðukortið). Ef maður kaupir ekki kort kostar ljósritun á blað 25 kr. á Bókasafni FVA (en augljóslega margborgar sig að kaupa kort þótt ég kunni ekki gjaldskrá færri blaða en 100). Ég get skipt við bókasafn FVA því ég er kennari við skólann (í veikindaleyfi). Almenningur getur náttúrlega ekki notfært sér þessi kostakjör.

Svoleiðis að blaðið á Bókasafni Akraness kostar ljósritað (við erum að tala um A-4 snepil, öðrum megin) 35 kr., sem er þrisvar sinnum hærra en á almenningsbókasafninu Þjóðarbókhlöðu og um fjórum sinnum hærra en á pínulitla Bókasafni FVA (lagt huggulegum linoelumdúki).

Mér væri sosum slétt sama þótt Bæjarbókasafnið okri í ljósritun ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þar á einmitt að ýta undir námsaðstöðu bæjarbúa. Kannski telja vísir menn að námsmenn ljósriti almennt ekki. Kannski heldur einhver að þeir skrifi niður textana … með fjaðurpenna?

Inn af bóksafninu er svonefndur Svövusalur en um hann segir á síðu safnsins:

” Svövusalur

Í námsverinu Svöfusalur er aðstaða til náms og lesturs, þegar salurinn er ekki í notkun vegna fjarkennslu eða funda.

Nemendur í háskólanámi geta fengið aðgangskort að salnum, til að nýta sér aðstöðuna, fyrir utan hefðbundinn afgreiðslutíma.

Yfir vetrartímann, frá 1. september til 31. maí. er vinnuaðstaðan opin frá kl. 8:00  til  17:45 alla virka daga.
Í júní, júlí og ágúst er aðstaðan opin á afgreiðslutíma safnsins.” (Sjá http://bokasafn.akranes.is, undir liðnum Þjónusta.)

Ég nenni ekki einu sinni að finna að því að umsjónarmenn vefjar bókasafnsins kunni ekki að fallbeygja Svövusal en bendi á að námsverið er einmitt opið á nokkurn veginn sama tíma og bókasafnið og má því ætla að bókasafnið eigi að nýtast námsmönnum. Þeir geta svo bara andskotast til að borga 35 kall fyrir ljósritað blað ef þeir þurfa ljósritun. (Í dag sagði annar bókavörður mér þau tíðindi að lítið væri beðið um ljósritun. Ég er ekki hissa á því.)

Í mínum góða Kardimommubæ er hugsað vel um fólk og þess þarfir … svo lengi sem við erum að tala um sprikl af ýmsu tagi. Nú nenni ég ekki að nefna einu sinni enn hve duglega er mulið undir léleg fótboltalið bæjarins en vísa í gott framtak míns rúmlega 6000 manna bæjarfélags sem er að leyfa fólki að djöflast í tækjasal og láta líða úr sér í sundlauginni fyrir tiltölulega hóflegt gjald.  Ekki hvað síst er gjaldið hóflegt ef viðkomandi bæjarbúi er atvinnulaus, öryrki eða aldraður. Sjá http://akranes.is/Files/Skra_0039165.pdf

Sennilega hefur bæjarstjórninni, íþrótta og tómstundastjórnendum og formanni skólaskrifstofu ekki dottið í hug að sumir öryrkjar, atvinnulausir og aldraðir vilja heldur læra en synda 200 m á dag. (Svo ekki sé nú minnst á útlendinga, hvað þá “flóttakonurnar okkar”!) Og ef maður ætlar að læra þarf maður oft að ljósrita. Þetta veit ég af því ég hef verið ýmist kennari eða nemandi, jafnvel hvort tveggja í senn, mestalla ævina.

Það er auðvelt að segja sem svo að eftirspurnin eftir ljósritun á bæjarsafninu sé lítil og þess vegna sé í lagi að hafa ljósritun svona dýra. Ef miðinn í sund kostaði 1000 kall, kannski 750 fyrir öryrkja, atvinnulausa og aldraða, myndi aðsókn að lauginni líklega minnka mjög. Þá væri hægt að segja að allt í lagi væri að hafa sundmiða svo dýran því það færu hvort sem er svo fáir í sund. (Ég treysti mér þó ekki að fullyrða þessar staðhæfingar um sundið, hafandi haft andúð á sundi frá því ég var send 8 ára gömul á sundnámskeið að Laugum, S-Þing. Svo ekki sé minnst á kennsluæfingar stelpnanna í ÍKÍ síðar meir, hvar ég var æfinganemi, m.ö.o. fórnarlamb!)

Mér þætti ógurlega gaman ef einhver forsvarsmanna þessara menntunar- eða tómstundanefnda bæjarins myndi kommentera á þessa færslu, eða skýra málin. Svo ekki sé minnst á forstöðumann bókasafnsins.  Annars er öllum sem hafa komist í gegnum svo langa færslu boðið að segja sitt álit ;)

Af því ég var einu sinni, fyrir langalöngu, formaður bókasafnsstjórnar þessa bóksafns og af því ég veit að pappír í ljósritunarvél er skítódýr (tónerinn aftur á móti dýr) og af því mér blöskraði verðlagningin og léleg þjónustan (maður má ekki ljósrita sjálfur heldur þarf að biðja bókavörð um að ljósrita fyrir sig - er ég sex ára?) þá skrifa ég þessa færslu. Enda er ég harðákveðin í að skrifa hvorki um handbolta né æsseif!

 

 

 

Ummæli (3) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

26. janúar 2010

Búin með Auði!

Ég tók mér tak og kláraði bókina Auði enda má ég ekki hafa hana mikið lengur í láni. Við Jósefína hringuðum okkur á stofusófann nú í eftirmiddag og reyndar sýndi kötturinn bókinni mikla blíðu, neri sér utan í öll bókarhorn. Við skulum vona að næsti lánþegi eigi ekki kött!

Bókin er auðvitað frábær - en ekki hvað?! Ég var samt ótrúlega lengi að lesa hana af því það eru svo margir fróðleiksmolar í henni, sem fengu mig til að staldra við, kannski af því ég hef alltaf haft áhuga á þessu efni og meira að segja vappað um skóga Írlands og skoðað frægar rústir, með mínum manni. (Hluta af the Wicklow Way, kannski misminnir mig nafnið, í BB gistingu góðra kvenna milli göngudaga, þær þurrkuðu meira að segja skóna fyrir mann!  Í ógislega frægum klausturrústum skammt frá Dublin var einmitt turn, eins og minnst er á í Auði, þar sem inngöngudyrnar virtust á ca 7. hæð og maður sá fyrir sér krúnurakaða munkana draga upp kaðalstigann og ulla svo á víkingana fyrir neðan ;)

Pælingar um stöðu kvenna komu skýrt fram (t.d. sú hugsun sem hvarflar að Auði þegar hún skoðar innilokaða fluguna í gylltu rafinu). Mér fannst Auður vera feikilega mikill karakter en það er reyndar sú mynd sem ég hef alltaf gert mér af henni, hafandi kennt Laxdælu oftar en elstu menn muna!

Svo eyddi ég dágóðum tíma í að fletta upp lýsingum í bókinni til að finna út mikilvægi fæðingarblettsins á Þorsteini rauð en fann ekki … eins gott að ég er ekki að kenna þessa bók …

Ég held reyndar að bókin henti ekki sem kennslubók nema þá fyrir elstu nemendur. Þetta er fullorðinsbók, miklu þyngri en t.d. Laxdæla, og ég held að fullorðnir njóti hennar best. Enda löngu kominn tími á að færa Vilborgu Davíðsdóttur úr barnabókahillum bókasafna! Allar hennar bækur henta fullorðnum mjög vel og það er rétt svo að fyrstu bækurnar, saman í Korku sögu, séu nógu auðveldar til að unglingar njóti þeirra. (Vel á minnst er Við Urðarbrunn mjög vinsæl bók í byrjunaráföngum íslensku í framhaldsskólum. Virkar vonandi hvetjandi á einhverja til að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.)

Nú er ég ekki í standi til að skrifa neinn alvöru ritdóm (þótt ég hafi gráðuna ;) ) en bendi á styrka persónusköpun og góðar umhverfislýsingar sem gera bókina bíó fyrir heilann: Á stundum jafnspennandi og Hringadróttinssögu-kvikmyndir! (Mætti nefna sem dæmi för Auðar til klaustursins til að skila The Book of Kells eða álíka dýrgrip.) Á hinn bóginn þvælast sagnfræði / þjóðfræðimolar óþarflega fyrir bókmenntafræðingi með athyglisbrest, auk allra írsku tilvitnananna. Þær virkuðu alltaf sem stoppmerki fyrir mig. (Aftur á móti gleðja þær eflaust Gísla Sigurðsson ;)

Sem sagt: Flott saga en ég held samt ennþá meira upp á Hrafninn …  Eiginlega ætti ég að lesa Hrafninn á hverju ári en ekki bara eftir raflostmeðferð. Í mínum athyglisbrostna heila er Hrafninn merkilega ósnertur núna, gott ef ég man ekki bara alla bókina! Og það er ekki hægt að segja um margar bækur núna. Só sorrí Vilborg … þú samdir bara því miður bók sem fáar toppa (þ.e. Hrafninn).

Ég hef bara alltaf verið svo heit fyrir Norðurslóðum … hvað kallaði Vilhjálmur Stefánsson nú aftur hinar hvítu auðnir?  Man það ekki … sem er í lagi því eftir að hafa lesið ævisögu Vilhjálms og tvær bækur um Karluk hef ég ekkert álit á þessum manni - hann var ekkert annað en aumur útrásarvíkingur síns tíma!

Mæli með Auði!

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

23. janúar 2010

Á röngunni?

Í gær kynntist ég kenningum manns sem heldur því fram að einungis sé til eitt kyn, sem ýmist sé á réttunni eða röngunni. Konur eru á röngunni (inside out!). Gæti þetta verið orsök þunglyndis og kvíða (með stuðnings-tilvitnunum í Freud)?

Seinna í dag ætla ég að blogga um skólann og námið. Ef mér tekst að hanga í heimi lifenda. Þetta niðurtrapp lyfja er farið að hafa veruleg áhrif! Það hlýjaði að hitta vaktmann af 32 A uppi á Þjóðabókhlöðu í gær :) Kannski maður ætti að flytja suður um stund?

Er farin í bælið.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál

21. janúar 2010

Sloppadagur III, með varíasjón

Tilbrigðið var að fara yfir götuna, segja hæ við mann og annan og síðan allt slæmt … leyfa m.a. örfáum að kyssa sig á kinn. Erindið var að ljósrita.

Fyrir tilbrigðið svaf ég vitandi vits í svona 2 tíma, um morguninn. Eftir tilbrigðið hrundi ég ofan í rúm og svaf ógurlega fast í svona 3 tíma.

Hef ekki meikað það í bað en meikaði að setja Joe Boxer í óhreintatautið og finna grískar léreftsbrækur í staðinn.

Statusinn er settur á strætóferð snemma fyrramáls, setur á Þjóðarbókhlöðu og sjálfsagt meiri ljósritun. Verður hart undir tönn að ná ekki í neinar sængur og tilbehör fyrr en um kl. 15. En þetta skal hafast! Ég tuða samviskulega að mér að þetta sé, þegar allt er skoðað, bæði miklu skemmtilegra en líkamsrækt og miklu meiri líkur á að ég tolli (í HÍ altso) en í eróbikk, spinning eða reiparjóga! Manneskja sem treystir sér varla út að næsta staur?  Koma so!

Auður litla var að gifta sig og þau eru ekki búin að gera’ðað ennþá … svo ritdómur bíður enn um sinn …

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál

17. janúar 2010

Námsþerapían og ástand bloggynju

Undanfarið hafa færslur gegnumgangandi fjallað um köttinn Jósefínu. Það er í rauninni óþarfi því hún rekur sína eigin fésbókarsíðu, undir nafninu Jósefína Dietrich og er talsvert flinkari í stílbrögðum en þessi bloggynja. Í rauninni má afgreiða umfjöllun um köttinn með þeim upplýsingum að nú hefur eigandinn / bloggynjan öðlast samskonar rödd og kennir það bið við ómerkilegan strætóstaur utan við Háskólafjölritun. Þar þyrfti að setja skýli því helv. útsynningurinn er óvenju kaldur í þurrabúðinni!

Bloggynjan byrjaði sumsé í skólanum á föstudaginn. Til að einfalda pappírsvinnu og regluverk er ég skráð sem nýnemi á BA-stigi!  Eins gott að ég keypti mér fullt af notuðum pínupilsum og leggings við, í Gyllta kettinum á miðvikudaginn. Sé þó ekki fram á að geta mætt í svoleiðis átfitti í þurrabúðina köldu og klakafullu … nema taka sénsinn á blöðrubólgu.  Nei, ætli ég dekki mig ekki í lopa næsta föstudagsmorgun. En mér fannst ég yngjast töluvert við að verða nýnemi á BA-stigi og er glöð yfir þessum öðrum séns því líf mitt var ekki það þægilegt síðast þegar ég var nýnemi á BA stigi.

Að koma inn í Árnagarð er eins og að koma heim - þarna þekkir maður fjölda manns, jafnvel á svipuðum aldri og bloggynjan en ekki endilega aftubatapíkunámsmenn eins og hún er. Að koma upp á Þjóðarbókhlöðu er enn meir eins og að koma heim því þar er annar hver maður fyrrverandi nemandi bloggynju! Þetta er óvenju gleðilegt því miðað við sörvisinn og dekrið við mann / konu, á masterstigi í íslensku var ég farin að óttast um að fjöldi manns lyki BA gráðu í kjaftagreinum án þess að hafa nokkru sinni komið inn á bókasafn! Það er ekki góðs viti, þrátt fyrir óra um að rafbókin drepi pappírsbækur innan fárra ára. Svona framtíðarspár blossa alltaf öðru hvoru upp; fartölvurnar og rafrænu töflurnar áttu að leysa skólabókina af hólmi - jafnvel kennarann líka, að sumra mati - en nú er reyndin sú að sumir kennarar banna fartölvur í tímum því auðvitað eru blessuð börnin ekki að sækja sér þekkingu heldur skrópa andlega úr tíma, á spjallrásum ýmiss konar, eða í tölvuleikjum.

Ég gat ekki hugsað mér að lesa greinarnar kúrssins míns í tölvu heldur prentaði samviskusamlega út hverja tutlu! Svo hef ég verið að dúlla við að lesa þetta milli 5 og 7 á morgnana þegar ég er með fúlle femm og hef félagsskap af grútsyfjuðum ketti. Ég glósa meira að segja til að sjá við eigin minnistruflunum og athyglisbresti. Ein grein að morgni er fínt fyrir mig og ég er að verða búin með lesefnið fyrir næsta tíma. Rennsla yfir eigin glósur á fimmtudag ætti að tryggja að ég hafi á takteinum eitthvað af því sem lesefnið fjallaði um.

Ég hafði sosum áður heyrt að rétti staðurinn fyrir þá sem erfiði og þunga eru hlaðnir væri HÍ eða Kennó (sem hafa nú sameinast). Þar væri tekið rosalega mikið tillit til manns og mönnum jafnvel veitt langþráð hvíld. En ég reiknaði ekki með þessum Uglu-sörvis, ekki misskilja mig - það kemur sér afskaplega vel fyrir manneskju á Stór-Akranessvæðinu að geta sótt útlenskar greinar af neti. Ég hef bara svolitlar áhyggjur af verðandi íslenskukennurum, jafnvel verðandi fræðimönnum, sem hafa vanist á að vera mulið undir endalaust. Svo koma þeir út í hinn harða kennsluheim og hvað? Fá taugaáfall?

Talandi um taugaáfall þá vík ég blogginu að skýrslu um eigið heilsufar. Mér gengur vel með fyrstu tröppu geðlyfsins. Vonandi gengur jafn vel með þá næstu. Svo er ég aðeins í tröppun kvíðastillandi lyfs og só far só gúdd! Nýja kvíðastillandi lyfið þolist nokkuð vel; ölvunarfílingurinn að ganga til baka en aftur á móti líður mér eins og ég hafi legið á ströndinni allan daginn í sólbaði þegar ég skríð undir sæng að kveldi. Þetta er sennilega aukaverkunin “truflun á húðskyni”. Hún minnir mig notalega á fyrirhugað langt sumarleyfi á einhverri grískri eyju næsta sumar og gerir svo sem ekkert til.

Ég sef ennþá a.m.k. einu sinni á dag. Batinn er hægur en bítandi; familían sér mikil batamerki! Í gær lá ég næstum bara í rúminu en það skrifast sennilega á tvær þurrabúðarferðir sömu vikuna sem eru lítilli geðsjúkri bloggynju um megn. Styrkurinn mun koma með tímanum.

Rugl á svefntíma verður til þess að það er ákaflega margt sem ég geri EKKi af því sem hollt og gott fyrir eina kvenpísl. Má nefna að AA-fundur í minni deild lendir inn í miðjum svefntíma II, á morgnana; Enn hef ég megna andúð á hreyfingu úti í því kalda lofti; Almennt er framtaksleysið óhugnalegt, t.d. tók mig meir en viku að komast af stað í augabrúnalitun, unglingurinn étur upp ljósamiðana mína meðan ég kem mér alls ekki í ljós og er föl eins og hundaskítur, í framan. (Þetta skilja væntanlega einungis þeir sem hafa séð gamlan hundaskít, í sveit eða í ystu byggðum landsins …) 

Af því bloggið helgast af “málæðisstíl” en ekki skipulegri ritun sting ég hér inn að ég er orðin hundleið á því fólki sem leyfir hundinum sínum að skíta í bakgarðinn minn og bakgarða tveggja húsa hvorum megin við mitt. Ég get reyndar ekki ímyndað mér hvers lags fólk beitir sínum skepnum markvisst á garða nágrannanna eða lætur hundkvikindi ganga laus. Tek fram að við konan í næsta húsi höfum rætt þetta; Hennar hundar eru aldrei lausir úti og hún hreinsar upp eftir þá eins og ábyrgur hundseigandi gerir. Ég held ég hafi séð stóran svartan hund snöfla lausan við bílskúrinn í Hjarðarholtsgarðinum fyrir aftan mitt hús og er hann hugsanlega valdur að risastórum hundaskítsdrellum bakvið hús … þetta er eins og kúamykja, svei mér þá! Kannski er sá stóri svarti lausi saklaus af skitunni. Kannski við ættum að stofna nágrannavakt til að komast að þessu?

Altént líður mér bærilega í augnablikinu og hefur létt mjög því ég óttaðist að niðurtröppun þunglyndislyfsins myndi færa mér aftur allan pakkann; grát og gnístran tanna og sjálfsvígshugmyndir í tugatali eða að ég breyttist í uppvakning sem ráfaði stefnulaust um húsið og kynni best við sig undir tveimur sængum og allt það …  Kannski verður þessi niðurtröppun ekkert mál. Kannski …

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf

14. janúar 2010

Kattarþvottur og Spor

Kötturinn ólmast úti oft á dag. Hér eru kattarspor um allt því litla stýrið byrjar á að taka stöðuna; kannar fyrst hvort herbergi hússins séu olræt (hún hlýtur að horfa á FBI-þætti þegar ég er farin að sofa) og fer svo að huga að því að strjúka yfir moldugar loppurnar. Ég hef tvisvar tekið dýrið og þurrkað af því með bekkjartusku; Jósefína hefur alls ekki skilið hvers vegna eða hvaða pyndingar þetta eru, á einum litlum ketti!

Hún er á hlutbundnu aðgerðarstigi (er það ekki stigið þar sem börn / kettir telja að mamma sé dáin ef mamma hverfur úr augsýn?).  Ég áleit að hægt væri að kenna kettinum einhverja mannasiði með hugrænni atferlismeðferð, eða bara hugsunarlausri atferlismeðferð. (Það hefur reyndar tekist að kenna henni að hoppa ekki upp á matarborðið - tók viku og ég er viss um að hún spígsporar á matarborðinu þegar ég sé ekki til …). Svo ég reyndi að kenna kettinum að þvo sér um loppur strax og inn er komið. Hún skildi loksins orðið “loppur” og hefur skilið “þvo” lengi, enda eyðir hún stórum hluta innanhúss-vökutíma í akkúrat það. En eitthvað klikkaði hjá mér í atferlismótuninni:  Loks var eins og blessuð skepnan skildi … og dreif í að þvo sokkana mína!

Svo enn er allt í kattarsporum …

Ég las bókina Spor eftir Lilju Sigurðardóttur, í gær. Hún er ansi góð! Ég hef lesið litteratúr þar sem raðmorðingi tekur sér dauðasyndirnar sjö (eða átta) til fyrirmyndar, í sínum morðum. Mig minnir að Roald Dahl hafi skrifað smásögur um þetta efni (án morða) eða Ray Bradbury?  Svo minnir mig líka að Messiah eftir Boris Starling hafi fjallað um svona dauðasynda-lík-uppstillingu á mjög ógislegan hátt! (Var ekki verið að sýna þetta í sjónvarpinu? En það var kannski einhver önnur Messiah-sería?)

Lilja tekur hins vegar spor AA samtakanna til meðferðar og fer vel á því. Sögumaður er alki, nýkominn úr meðferð segir í bókinni en miðað við að hann er bara að koma út af Vogi mætti segja að hann væri nýkominn úr afeitrun eða uppþurrkun. Enda fellur ræfillinn.

Inn á milli eru óborganlegar lýsingar á mismunandi fundum, bæði talibana og kristilega forminu eru gerð skil og þeim sem vilja endilega sponsa sem flesta … en ég geri ráð fyrir að hinn almenni lesandi skilji lítið í þeim fræðum þótt okkur fólkinu á snúrunni finnist þau skondin. Mæli með þessari bók; hún er snörp og ekki verið að eyða tímanum í útúrdúra - þ.a.l. góður krimmi!

Nú er ég búin að eyða heilu prenthylki í útprentun gagna í mínum góða kúrsi.  Skráði mig í háskólann í gær, ég er víst nýnemi á BA-stigi (spurning um að snúa á regluverkið / skráningartæknina) og hitti meira að segja einn kúrsfélaga í mat! Sá er fyrrum nemandi minn … en ekki hvað!

Nú mun ég raða þessum gögnum í rétta blaðsíðuröð og inn í kórmöppu (langbestu möppurnar fyrir ljósritun, sem og vörukynningarmöppur) og telst þá undirbúin fyrir skólann á morgun.

Mér finnst ótrúlegt dekur að láta skanna greinar inn og leggja fram í Uglu, stúdentum til yndis og tímasparnaðar. Síðast útskrifaðist ég 2007 og þá var nú bara ætlast til að við rötuðum upp í Þjóðarbókhlöðu og keyptum okkar eigið ljósritunarkort. HÍ er greinilega rétti staðurinn fyrir öryrkja / sjúkling eins og mig!

Sem minnir mig á að unglingurinn vitnaði í nemanda, á áramótaballinum, en sá sagði: ”Mamma þín er geðveikur kennari!”  Ég er tiltölulega himinlifandi með lýsinguna þótt hún sé algerlega sönn eftir orðanna hljóðan.

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

18. október 2009

Allt í fokki! Og tillögur um Skólavörðuna.

1. Mér er hugsanlega eitthvað að batna en sá bati er lúshægur og nánast ósýnilegur. Í þessu svokallaða annarfríi tókst mér að fara í bíó til borgar óttans, tókst í þriðju atrennu, en komin aftur heim rúmlega sex um eftirmiddaginn var ég örmagna og hékk meir af vilja en mætti uppi til 8.30 og fór þá að sofa. Vildi gjarna liggja áfram í rúminu. Vildi helst alltaf liggja í rúminu um ókomna tíð!

2. Vefurinn minn er að fokkast algerlega upp útaf einhverjum vírus. Ég horfi á tæplega 15 ára vinnu étast í sundur fyrir augunum á mér. (Minnir mig á flugvélabókina Stefáns Kings þar sem litlir vondir hnoðrar átu heiminn og umhverfið og skildu eftir ekkertið.) Sé ekki betur en það verði mega-mál að kúpla þessu í lag, ef það er þá hægt … Blessunarlega er ég svo stónd (koldofin) af þunglyndinu að ég syndi í gegnum vandamálið eins og gullfiskur.

3. Ritgerðir nemenda eru svo lélegar að mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds!  Til hvers í andskotanum var ég að eyða þessum tíma í að kenna þeim að skrifa ritgerð þegar þau fara flest ekkert eftir því heldur eru föst í sissý endursögn grunnskólans eða jafnvel sínum gömlu grunnskólaverkefnum! Það verður ýl og víl í lok vikunnar ef mér tekst að komast í gegnum bunkann fyrir þann tíma. (Ég er með athyglisbrest andskotans, sem fylgir venjulega slæmu þunglyndiskasti!  Þess vegna vinnast öll verk hægt. En kosturinn er sá að ritgerðirnar fara ekki eins mikið í taugarnar á mér og frískri.)

4. Ætlaði að blogga um Skólavörðuna en er of veik til þess. Legg þó til að í næsta tölublaði verði skrefið stigið til fulls og efnisflokkar verði:

  • Hvernig á að sauma margnota bleiju?;
  • Hvaða snuð eru hættuleg og hver eru í lagi? - Viðtal við Herdísi Storgaard;
  • Kenningar atferlissinna um hvernig best verði vanið af koppi versus póstmódernískar kenningar um sama efni;
  • Ævi og ástir ritstjórans með sérstakri áherslu á barneignir;
  • Hvernig ætti að undirbúa sig sem best fyrir fæðingu með markmiðssetningu í anda Bruners?;
  • Hvort er dýrara, í ársreikningi KÍ, fúavörn eða útgáfa Skólavörðunnar?

Ég gæti meira að segja tekið að mér að skrifa sumar þessara greina sjálf! En auðvitað er kennaraskólamenntað fólk hæfara, um það skal ég ekki deila.

Muna svo að leggja til fljótlega að við kennararnir höldum Skólavörðubrennu á lóðinni og bjóðum kollegum okkar úr framhaldsskólum í nágrenninu (Borgarnesi og Mosó) að vera með! Mætti bjóða Aðalheiði FF-stýru í léttar veitingar og huggulega brennu (vonandi mengar rándýr glanspappír ekki mikið meðan hann brennur …). Kannski færi betur á að hafa brennuna utan við einhvern af vel fúavörðum bústöðum stéttarfélagsins? Ude på landet?

Muna að leggja til að fulltrúar okkar á næsta stéttarfélagsfundi beri upp þá tillögu að útgáfu Skólavörðunnar verði hætt, nema sem leikskólablaðs, og félagsgjöldin okkar verði bara brennd beint í seðlum strax í stað þess að fara fyrst í gegnum prentsmiðju og ruslafötur víða um land.

5. Til að nefna eitt jákvætt: Helv. ritgerðirnar eru þó skárri lesning en helv. Skólavarðan!  Þannig séð er ég heppin …

Guð gefi að ég komist í vinnuna á morgun …

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál

7. október 2009

Svona líður mér

Frumburðurinn sendi þessa mynd í pósti og á hún að sýna hvurnig ESB mun staðla brosin í framtíðinni. (Ég hef ekki grænan grun um hver á höfundarétt á myndinni og vona að ég sé ekki mjög að ritstela með að birta hana á blogginu mínu.)

Þessi mynd hitti í mark að því leytinu að ég geng með svona ímynduð broshengi þessa dagana til að dylja hversu hryllilega pirruð og geðvond ég er! Það eina sem mér finnst sæmilega skemmtilegt er að kenna, þ.e. njóta samvista við mína góðu nemendur og reyna að troða einhverju gáfulegu inn í þá. Mér finnast frímínúturnar líka svo sem í lagi en ég sakna Ludmilu óendanlega mikið; hún hafði alltaf svo hressandi sjónarhorn á skólastarf, námsmat og annað sem tilheyrir okkar djobbi svo maður sá spaugilegu hliðarnar svo framarlega sem þær fundust. Fyrir svo utan það er hún með skemmtilegra fólki og sorglega tómur vinnubásinn við hliðina á mér af því Ludmila er í leyfi þessa önnina og eflaust komin hálfa leið til Síberíu …

Allt annað sem “viðkemur skólastarfi” á mínum vinnustað fer óendanlega mikið í taugarnar á mér og þótt ég reyni eins og ég get að leiða það hjá mér þá er ég því miður ekki heyrnarlaus múmía, eins og æskilegt væri stundum.

Öll umræða sem “viðkemur skólastarfi” á mínu heimili pirrar mig upp úr skónum og er af sem áður var þegar sumt fólk talaði af léttúð um kennslu-og uppeldisfræði og leyfði sér jafnvel að netta kaldhæðni í umfjöllun um slík “fræði”. Svona er allt fallvalt í þessum heimi! Hér heima kæmi sér einnig vel að vera heyrnarlaus múmía.

Ég sé ekki að ég geti annað gert en að föndra svona græju til að ná upp evrópsku grunnskólabrosi dag hvurn, auk þess sem ég er að spá í að láta skoða oggolítið í mér blóðið (sem átti nú víst að gerast í ágúst en ég hef verið að fresta … mér leiðast læknisheimsóknir einnig!) Kannski má kenna skjaldkirtilskvikindinu um geðillskuna? 

Fyrsta skref í að nálgast brosið var að láta klippa mig eins og Audrey Hepurn, sleppa litun og taka statusinn á hversu gráhærð ég er sennilega orðin (um það hef ég ekki hugmynd því ég læt alltaf lita hárið um leið og það er klippt). Svo ætla ég að hugsa um nýjan lit, hvað með fjólublátt?

Líklega mun ég taka kennarafund á morgun sem gullvæga æfingu í æðruleysi eða sem refsingu Guðs fyrir að hafa skrópað í Æðruleysismessuna á sunnudagskvöldið …

Bíó með manninum? Það verður náttúrlega að bíða því allt annað raðast framar í forgangi …

Ein geðvond!

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf